Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2022 Upplýsingaskilti Landspítalans

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 18. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 6/2022, kæra á synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni húsfélagsins Sléttuvegi 19, 21 og 23, um að fjarlægja upplýsingaskilti á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23, synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni um að taka niður upplýsingaskilti Landspítalans í Fossvogi á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Með afnotasamningi við Reykjavíkurborg, dags. 15. september 2011, tók húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23 að sér alla umhirðu og rekstur á flága sem liggur frá gangstétt að lóðarmörkum Sléttuvegar 19-23. Var samningurinn gerður til 70 ára og þinglýst sem kvöð á lóðinni Sléttuvegur 19-23. Um mánaðarmótin nóvember/desember 2021 var upplýsingaskilti fyrir Landspítalann í Fossvogi sett upp á umræddum flága. Kærandi mótmælti framkvæmdinni og í tölvupósti, dags. 8. desember s.á, var þess krafist að skiltið yrði fjarlægt. Verkefnastjóri framkvæmda- og viðhalds hjá Reykjavíkurborg hafnaði beiðni kæranda með tölvupósti 13. s.m.

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að taka einhliða ákvörðun um að setja umdeilt upplýsingaskilti á lóðarflágann við lóð kæranda. Afnota­samningur feli í sér að hann hafi afnot flágans og því hafi borgaryfirvöldum borið að bera ákvörðun um uppsetningu skiltisins á lóðinni undir kæranda og taka tillit til afstöðu hans þegar tekin hafi verið ákvörðun um notkun flágans. Borgaryfirvöldum hafi borið að óska eftir breytingum á deiliskipulagi og hefði kærandi þá átt kost á að koma að athugasemdum við hefðbundna meðferð málsins samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé það óeðlilegt að upplýsingaskilti fyrir Landspítalann sé á lóð nágranna. Skiltið feli í sér verulega sjónmengun vegna stærðar sinnar og lýsingar sem sé á skiltinu auk þess sem það gæti blindað útsýni þeirra sem aki Sléttuveginn í austur og taki vinstri beygju upp Háaleitisbraut.

 Borgaryfirvöld benda á að afnotasamningur vegna flágans snúi einungis að rekstri og umhirðu. Ekkert í samningnum komi í veg fyrir að borgin, sem sé eigandi flágans, geti nýtt hann með þessum hætti enda verði ekki séð að skiltið raski neinum hagsmunum kæranda. Hann hafi engar heimildir til nýtingar flágans og ekki verði séð að skiltið hafi áhrif á möguleika kæranda til reksturs og umhirðu hans. Staðsetning skiltisins sé ekki deiliskipulagsskyld þar sem ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Stærð og umfang skiltisins sé aðeins 2,32 m á breidd og 1,35 m á hæð og af því sé engin sjónmengun. Verkfræðistofa hafi verið fengin til að kanna aðstæður m.t.t. umferðaröryggis og niðurstaða athugunarinnar hafi verið sú að útsýni skerðist óverulega frá gatnamótum. Skiltið sé nauðsynlegt til að leiðbeina þeim sem eigi erindi á Landspítalann og því málefnaleg rök fyrir tilvist þess.

 Kærandi tekur fram í athugasemdum sínum við rök borgaryfirvalda að orðalag afnotasamningsins um rekstur flágans taki til ákvarðana um framkvæmdir á fláganum, s.s. að reisa upplýsingaskipti. Um sé að ræða framkvæmd sem feli í sér að steypa undirstöður, leggja rafmagn að skiltinu fyrir lýsingu o.fl. Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sem þarfnist kynningar eða a.m.k. grenndarkynningar með vísan til 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kafla 2.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum, en svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Því sé ekki mótmælt að skiltið sé nauðsynlegt en ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að það standi á umræddri lóð í stað þess að standa á lóð Landspítalans.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um að fjarlægja upplýsingaskilti á landflága er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki annast byggingarfulltrúi eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og eftir atvikum útgefnu leyfi. Kveðið er á um í 55. og 56. gr. laganna heimildir byggingarfulltrúa til að beita þar greindum þvingunarúrræðum, svo sem í því skyni að fjarlægja ólögmæt mannvirki. Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var í tölvupósti kæranda, dags. 8. desember 2021 farið fram á beitingu slíkra úrræða. Barst kæranda tölvupóstur 13. s.m. frá starfsmanni skrifstofu framkvæmda- og viðhalds á vegum borgarinnar þar sem fram kom að beiðni hans væri hafnað. Þrátt fyrir að þar komi fram ákveðin afstaða til erindis kæranda verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ekki um að ræða afgreiðslu byggingarfulltrúa sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort umdeilt skilti skyldi fjarlægt eður ei. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Liggur samkvæmt framangreindu ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðanefndina, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

178/2021 Frjóakur

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 178/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. október 2021 um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands Akra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Byggakri 22, og eigandi, Byggakri 20, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. október 2021 að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands – Akra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 31. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Frjóakur 9 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Arnarneslands – Akra frá 2003. Hinn 16. júní 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsið að Frjóakri 9 og á fundi bæjarráðs 21. s.m. var sú afgreiðsla samþykkt. Á fundi skipulagsnefndar 30. s.m. var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir umrædda fasteign vegna óverulegs fráviks frá deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sótt um heimild til að víkja frá skipulagsskilmála í gr. 1.1.8 í deiliskipulagi svæðisins sem kveður á um að stærð neðri hæðar skuli ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Í fundargerð skipulagsnefndar kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að vikið væri frá ákvæðum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga við veitingu byggingarleyfisins þar sem um óverulegt frávik væri að ræða og hagsmunir nágranna skertust í engu, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Hinn 8. september samþykkti byggingarfulltrúi leyfisumsóknina og gaf út byggingarleyfið.

Í janúar 2020 urðu eigendaskipti að einbýlishúsinu að Frjóakri 9 og í framhaldi af þeim hófu nýir eigendur framkvæmdir. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. júlí s.á., var eigendum gert að stöðva framkvæmdir þar sem sækja þyrfti um byggingarleyfi vegna þeirra. Hinn 26. s.m. var sótt um byggingarleyfi vegna breytinga á ásýnd hússins þar sem fyrirhugað væri m.a. að koma fyrir glugga/dyrum á útvegg í kjallara á norðausturhlið. Á fundi skipulagsnefndar 10. september s.á. var lögð fram tillaga að breytingu deiliskipulagi svæðisins sem gerði ráð fyrir því að flatarmál neðri hæðar húss, þ.e. kjallara, væri meira en 70% af flatarmáli aðalhæðar. Var bókað um að innréttað hefði verið herbergi í djúpum kjallara með gólfsíðum gluggum og „svæði á lóð í sömu hæð.“ Áður hefði verið veitt leyfi fyrir kjallararýminu sem tæknirými án glugga. Sú tillaga hefði verið samþykkt sem frávik frá deiliskipulagi en að gluggar á hinu umrædda rými breyttu þeim forsendum. Var tillagan metin sem óveruleg breyting deiliskipulags í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ákveðið að grenndar­kynna hana fyrir eigendum Frjóakurs 7 og 10 og Byggakurs 18, 20, 22 og 24, en sú afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 17. september s.á. Í bréfi um grenndarkynningu, dags. 1. október 2020, kom fram að í breytingunni fælist að stærð neðri hæðar Frjóakurs 9 gæti verið allt að 100% af flatarmáli aðalhæðar. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna sem vísað var til úrvinnslu tækni- og umhverfissviðs. Á fundi skipulagsnefndar 14. október 2021 samþykkti nefndin hina grenndarkynntu tillögu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Afgreiðsla skipulags­nefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 21. október s.á. og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að grenndarkynning hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar komi fram að með bréfi um grenndarkynningu skuli fylgja tillaga að breytingu á deiliskipulagi eða hönnunargögn. Engin slík gögn hefðu fylgt bréfi um grenndarkynningu og því hefðu aðilar ekki getað kynnt sér tillöguna með fullnægjandi hætti. Byggakur 12, 14, 16, 18 og 20 standi á óskiptri lóð en einungis hafi verið grenndarkynnt fyrir Byggakri 18 og 20 og því hafi eigendum annarra lóða ekki gefist kostur á að kynna sér málið.

Ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og því hafi ekki verið heimilt að fara eftir undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um stefnumarkandi ákvörðun varðandi Akrahverfi væri að ræða og því hefði borið að fara með tillöguna samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Frjóakur 9 sé einbýlishúsalóð og samkvæmt deiliskipulags­skilmálum Akrahverfis séu einbýlishús einnar hæðar. Kjallarar séu leyfðir þar sem landhalli og lega lagna gefi eðlilegt tilefni til og heimilt sé að veita leyfi fyrir byggingu eins og hálfrar hæðar einbýlishúsum þar sem land falli meira en 2,0 m innan lóðarmarka. Stærð neðri hæðar megi þó ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Landhalli innan lóðarmarka Frjóakurs 9 sé hins vegar einungis um 0,4 m. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að leita samþykkis til að grafa frá áður samþykktu gluggalausu rými og opna út. Þannig verði stærð íverurýmis á neðri hæð langt umfram 70% af stærð efri hæðar og nýtingarhlutfall Frjóakurs 9 langt umfram það sem heimilað sé í skipulagi hverfisins. Slík breyting geti ekki talist óveruleg. Í skipulagsreglugerð komi fram í gr. 5.8.2. að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Einnig skuli metið hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu sem varði almannahagsmuni. Líta verði til fyrri breytinga á skipulagsskilmálum Frjóakurs 9 frá árinu 2016 og miða við upprunalegt skipulag og ákvæði skipulagsskilmála hverfisins þegar metið sé hvort um sé að ræða óverulega breytingu. Um sé að ræða verulega breytingu á bæði útliti, nýtingarhlutfalli og formi hússins. Það að byggja tveggja hæða einbýlis­hús þvert á skipulagsskilmála geti ekki talist óveruleg breyting.

Þá séu verulegir annmarkar á fasteigninni að Frjóakri 9 sem séu í andstöðu við gildandi skipulag. Gólfkóti aðalhæðar sé 11,9 en samkvæmt hæðarblaði skuli hann vera 11,1. Hæð lóðar við lóðarmörk sé 11,4 en samkvæmt gildandi skipulagi eigi hún að vera 10,8-10,9. Á lóðar­mörkum við Byggakur sé steinsteyptur veggur sem sé a.m.k. 1,7 m hár miðað við lóðarmörk, en það sé umfram heimildir. Hæð veggjarins sé sérlega íþyngjandi fyrir eigendur og íbúa við Bygga­kur þar sem hæð lóðar Frjóakurs 9 sé langt umfram heimildir skipulags. Þá sé hæð hússins 16,15 m en samkvæmt skipulagi sé heimiluð hæð 16,1. Húsið sé því bæði hærra en heimilt sé samkvæmt skipulagi auk þess að vera eina einbýlishúsið á tveimur hæðum í hverfinu. Einnig hafi smáhýsi, þ.e. gufubað, verið reist á lóðinni við lóðarmörk Byggakurs 20 og 22. Litið sé fram hjá þessum ágöllum við samþykkt umræddrar tillögu að deiliskipulagi. Skipulagslög geri ráð fyrir að fjallað sé heildstætt um skipulag en ekki í „einhvers konar bútasaumi.“ Garðabær hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum vegna þessara ágalla á fasteigninni.

Grenndaráhrif þeirra breytinga sem um ræði séu veruleg. Rýmið sem grafið hafi verið frá sé nýtt sem líkamsræktaraðstaða sem nágrannar hafi ónæði af. Bæði sé um að ræða opnanlegt rými þannig að hljóð berist greiðlega frá rýminu og aðgengi frá líkamsræktaraðstöðunni að gufubaði og heitum og köldum pottum utandyra sem staðsettir séu syðst á lóðinni. Þetta skapi umgang meðfram lóðarmörkum og valdi ónæði.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er byggt á því að umdeild breyting á deili­skipulagi Arnarneslands – Akra hafi hlotið þá lögformlegu afgreiðslu sem skipulagslög mæli fyrir um. Breytingin hafi verið metin óveruleg þar sem einungis hafi verið um að ræða breytingu á skilmálum deiliskipulagsins fyrir eina staka lóð án þess að umfang mannvirkis á lóðinni aukist. Um hafi verið að ræða breytingu á innra skipulagi hússins án breytingar á nýtingarhlutfalli eða hefðbundinni notkun þess sem einbýlishúss. Skilmálabreytingin feli einungis í sér að samþykkja að flatarmál neðri hæðar, þ.e. kjallara, sé meira en 70% af flatarmáli aðalhæðar. Ekki hafi verið um að ræða breytingar á byggðarmynstri eða þéttleika byggðar og hagsmunir nágranna hafi í engu verið skertir umfram það sem almennt sé gert ráð fyrir í íbúðarhverfi. Athugasemdir frá kærendum við grenndarkynningu hafi varðað atriði sem tengdust ekki breytingatillögunni, en efni hennar hafi verið lýst skýrlega í bréfi sem kærendum hafi verið sent. Mótmæli nágranna þurfi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og rökstuðningi um hvernig tillagan skerði hagsmuni þeirra. Tveir af sex nágrönnum sem hefðu fengið bréf um grenndarkynningu hefðu gert athugasemdir við hana, en þær athugasemdir hefðu fyrst og fremst snúist um atriði sem ekki hefðu varðað tillöguna og í engu sýnt fram á skerðingu hagsmuna þeirra. Þá eigi þeir kærendur sem skrái sig með lögheimili að Byggakri 22 ekki lengur heima þar og hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Nýir eigendur raðhússins að Byggakri 22 hafi lýst því yfir að þeir geri engar athugasemdir við þær breytingar eða áform sem leiða af hinni kærðu ákvörðun. Hvað varði kæranda að Byggakri 20 þá sé ljóst að breytingar á innra skipulagi hússins að Frjóakri 9 og útlitsbreytingar sem ekki séu sjáanlegar frá lóð hans geti ekki varðað hagsmuni hans eða haft þau grenndaráhrif að leiða eigi til ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar.

Athugasemdir eigenda Frjóakurs 9: Af hálfu eigenda Frjóakurs 9 er þess krafist að kærunni sé vísað frá en til vara að hafnað sé athugasemdum kærenda vegna breytinga á deiliskipulagi Arnarneslands – Akra vegna Frjóakurs 9. Þær athugasemdir kærenda sem snúi að öðrum atriðum en deiliskipulags­breytingunni verði að vísa frá þar sem kærufrestur sé liðinn. Kærendur sem hafi átt Byggakur 22 séu búnir að selja eignina og flutt til Noregs. Afsal til nýrra eigenda hafi verið gefið út 6. ágúst 2021 og hinir nýju eigendur hafi gefið yfirlýsingu um að þau hafi engar athugasemdir við þær framkvæmdir og áform sem tengist Frjóakri 9. Fyrrum eigendur Byggakurs 22 geti því ekki talist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Þrátt fyrir að lóð Byggakurs 20 liggi að hluta að lóð Frjóakurs 9 sé með öllu óljóst hvernig hin kærða deiliskipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda. Þau grenndaráhrif sem kærendur fullyrða um, þ.e. að hljóð muni berast út um glugga og að umgangur meðfram lóðarmörkum þar sem farið sé frá glugganum að gufubaði og pottum á lóðinni, geti ekki talist til lögvarinna hagsmuna kærenda. Nú þegar sé stór útgangur úr aðalstofu Frjóakurs 9 út á pall sem liggi beint að lóðarmörkum Byggakurs 20. Þannig geti hljóð og tónlist borist óhindrað þaðan yfir á lóð Byggakurs 20. Þá sé umgangur í potta og gufubað út um þann útgang jafn nálægt lóð Byggakurs 20 eins og hægt sé. Útgangur um umræddan glugga sé fyrir framan lóð Byggakurs 24, langt frá Byggakri 20. Þvera þurfi lóð Byggakurs 22 og 24 til að sjá gluggann.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Málatilbúnaður tveggja af kærendum í kærumáli þessu byggir á réttarstöðu þeirra sem eiganda fasteignar í nágrenni við Frjóakur 9. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hafa þeir kærendur selt Byggakur 22, en kaupsamningur var gerður 16. júní 2021 og afsali var þinglýst 13. ágúst s.á. Eiga þeir því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa. Þá hafa nýir eigendur Byggakurs 22 lýst því yfir að þeir geri ekki athugasemdir við umrædda skipulagsbreytingu.

Í máli þessu er kærð breyting á deili­skipulagi Arnarneslands – Akra, sem fól í sér breytingu á skipulagsskilmálum vegna lóðarinnar Frjóakur 9. Málsrök í kæru lúta jafnframt að samþykki byggingarfulltrúa frá 8. september 2016 á umsókn um byggingarleyfi vegna heimildar til að víkja frá deiliskipulag á grundvelli 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem kærufrestur er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kemur sú ákvörðun ekki til endurskoðunar.

Í gr. 1.1.8. í skipulagsskilmálum deiliskipulags Arnarneslands – Akra segir að stærð neðri hæðar megi ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreyting var gerð breyting á greindum skilmála vegna lóðarinnar Frjóakurs 9, en í breytingunni fólst að stærð neðri hæðar geti að flatarmáli verið jöfn og efri hæðar. Er ljóst að hin kærða ákvörðun hvorki breytir byggingarreit lóðarinnar né hróflar hún við leyfðri notkun, fjölda íbúða eða ytra byrði húss þess er stendur á lóðinni enda hefur umræddur kjallari verið til staðar frá byggingu hússins. Verður því ekki séð að breytingin geti haft í för með sér aukin grenndaráhrif á fasteign kæranda að Byggakri 20, s.s. vegna skuggavarps eða skerðingar á útsýni, og telst hann því ekki hafa þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar vegna umræddrar deiliskipulagsbreytingar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skortir á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

119/2021 Grænuborgir

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 11. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 28. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Grænuborgarhverfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra þrír eigendur lands við Grænuborgarhverfi í Vogum þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 28. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Grænuborgarhverfi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 8. september 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga 20. desember 2017 var lagt fram samþykkt kauptilboð Grænubyggðar ehf. í svonefnt Grænuborgarsvæði, en frá árinu 2008 hefur þar verið skipulögð íbúðarbyggð. Bókað var að kaupendur hefðu lagt fram drög að samkomulagi varðandi uppbyggingu og deiliskipulag svæðisins. Bæjarráð tók jákvætt í þær hugmyndir og fól bæjarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins að vinna áfram að málinu. Á fundi ráðsins 21. febrúar 2018 var samþykkt að heimila bæjarstjóra að undirrita samningsdrögin og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 28. s.m.

Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á fundi sínum 15. maí 2018. Í breytingartillögunni fólst m.a. að lóðum yrði fjölgað auk þess sem hámarksstærð og hámarkshæð húsa yrði aukin. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar á fundi sínum 16. s.m. Á kynningartíma tillögunnar bárust fjölmargar athugasemdir, m.a. frá kærendum. Að gerðum frekari breytingum á deiliskipulagstillögunni lagði umhverfis- og skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að breytt tillaga og umsögn um athugasemdir yrðu samþykkt og að málsmeðferð yrði skv. 42. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 11. desember 2018 og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. febrúar 2019.

Kærendur kærðu framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fóru fram á að hún yrði felld úr gildi. Með úrskurði uppkveðnum 20. mars 2020, í máli nr. 19/2019, var kröfum kærenda hafnað þar sem ekki væru til staðar þeir form- eða efnisgallar á hinni kærðu ákvörðun sem valdið gætu ógildingu hennar.

Á fundi skipulagsnefndar 23. febrúar 2021 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagsbreytingu Grænuborgarsvæðis yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í tillögunni fólst m.a. uppskipting á byggingarreitum, lækkun á hámarkshæð fjölbýlishúsa, breyting á skilmálum tiltekinna húsgerða og fjölgun íbúða innan svæðisins. Var sú afgreiðsla samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 24. s.m. og var tillagan auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 4. mars. s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Að beiðni sveitarfélagsins skilaði lögmannsstofa umsögn um þær athugasemdir með bréfi, dags. 19. apríl s.á., en skipulagsnefnd samþykkti þá umsögn á fundi sínum 20. s.m. Á sama fundi samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að auglýst tillaga yrði samþykkt og að málsmeðferð yrði í samræmi við 42. gr. skipulagslaga. Sú tillaga var samþykkt í bæjarstjórn 28. apríl s.á. og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu deiliskipulagsbreytingu ekki rúmast innan Aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 þar sem hún sé liður í grundvallarbreytingu á stefnu og forsendum varðandi byggðarþróun, byggðarmynstur og áætlaða íbúaþróun og íbúðaþörf. Samkvæmt aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir að íbúar verði á bilinu 2.200-3.800 við lok skipulagstímabilsins. Gert sé ráð fyrir samtals 900-1.000 nýjum íbúðum á því tímabili á samtals sex svæðum sem auðkennd séu ÍB-3 til ÍB-8. Samkvæmt húsnæðisáætlun Sveitarfélagsins Voga 2017-2025 sé gert ráð fyrir að heildaríbúafjöldi sveitarfélagsins árið 2025, miðað við hraðvaxtarspá, geti orðið um 1.420 og þörf verði á 80 nýjum íbúðum til að mæta áætlaðri fjölgun íbúa á tímabilinu.

Áform sveitarfélagsins og Grænubyggðar ehf., sem skjalfest séu í samkomulagi aðila og feli í sér hina kærðu ákvörðun sveitastjórnar, séu langt umfram stefnu aðalskipulags á hlutaðeigandi svæði og húsnæðisáætlun hvað varði þörf fyrir nýjar íbúðir miðað við áætlaða íbúafjölgun, en í því samhengi þurfi að líta til heildarmyndar á svæðinu öllu. Í heildaráformum sveitarfélagsins felist bygging 779 íbúðareininga á þeim reit sem áðurnefnt samkomulag taki til, eða sem nemi íbúðarhúsnæði fyrir um 2.000 manns. Það sé nærri tvöfaldur núverandi íbúafjöldi sveitarfélagsins sem í dag telji um 1.300 manns. Sú fjölgun sé verulega umfram spár sem geri ráð fyrir að íbúafjöldinn verði 1.420 árið 2025, miðað við hraðvaxtarspá, eins og bent sé á í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 9. september 2020, í tilefni af boðuðum breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins til samræmis við samkomulagið, með fjölgun íbúða á hlutaðeigandi svæði í 900.

Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun liður í því að hrinda í framkvæmd áformum um stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem hvorki sé í samræmi við aðalskipulag né byggð á raunhæfum forsendum um þróun íbúafjölda sveitarfélagsins á komandi árum. Enn síður séu þessi áform reist á málefnalegu og hlutlægu mati á því hvernig best verði brugðist við slíkri gríðarlegri fjölgun íbúa. Ljóst sé að áform sveitarfélagsins og Grænubyggðar geri ráð fyrir að þessari margföldun á íbúafjölda verði alfarið mætt með gríðarlegri samþjöppun byggðar á því afmarkaða svæði sem fyrirliggjandi deiliskipulagsbreyting lúti að, í stað þess að dreifa byggðinni í samræmi við gildandi aðalskipulag. Þessi áform skorti stoð í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og styðjist ekki við hlutlægar og málefnalegar skipulagsforsendur sem séu í samræmi við markmið skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu Sveitarfélagsins Voga er bent á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé meginreglan sú að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta njóti kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni. Krafa kærenda lúti að því að ógilda beri ákvörðun sveitarfélagsins um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grænuborgarsvæðis. Hin umþrætta breyting lúti aðallega að heildarfjölda íbúða á svæðinu, hámarkshæð tiltekinna bygginga, breyttri aðkomu að tilteknum lóðum og breytingum á skilmálum fyrir tiltekna gerð fjölbýlishúsa.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að samþykkt breytingarinnar hafi nein áhrif á möguleika þeirra sjálfra til að skipuleggja svæði í þeirra eigu og/eða eftir atvikum að selja þar lóðir. Þá hafi kærendur heldur ekki vísað til neinna grenndaráhrifa af breytingunni sem hafi áhrif á hagsmuni þeirra og enn síður að hvaða leyti slík sjónarmið geti leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sveitarfélagið byggi á því að kærendur skorti með öllu lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Af þeim sökum verði að vísa málinu frá nefndinni. Um mat á lögvörðum hagsmunum kærenda af breytingum á deiliskipulagi Grænuborgarhverfis frá 11. desember 2018 vísist til úrskurðar Landsréttar í máli nr. 215/2021 frá 26. apríl 2021. Í úrskurðinum hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðilar, þ.e. kærendur í máli þessu, hafi ekki sýnt fram á að úrlausn dómsmálsins, sem snúist hafi um kröfu um ógildingu á fyrri breytingu deiliskipulags sama svæðis, hafi á neinn hátt haft raunhæft gildi fyrir réttarstöðu þeirra. Að mati sveitarfélagsins hafi ekkert komið fram sem leiða ætti til annarrar niðurstöðu vegna þeirrar breytingar sem hér sé til umfjöllunar.

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 28. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Grænuborgarhverfi. Í breytingunni fólst m.a. uppskipting á byggingarreitum, lækkun á hámarkshæð fjölbýlishúsa, breyting á skilmálum tiltekinna húsgerða og fjölgun íbúða innan svæðisins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur nánar tiltekið í sér að lóðarmörkum, byggingarreitum og aðkomu að lóðum við Grænuborg 2-16 er breytt. Þá er skipulagsskilmálum um hæð húsa breytt á þann veg að þrjú fjölbýlishús verða á tveimur til fjórum hæðum og fimm þeirra á tveimur hæðum, en fyrir breytingu áttu þau öll að vera á fjórum hæðum. Loks er þakgerðum nokkurra húsa breytt auk þess sem fjölgun verður á heildarfjölda íbúða. Sá hluti lands kærenda sem liggur næst hinu deiliskipulagða svæði er óbyggt og verður því með hliðsjón af staðháttum að telja að grenndaráhrif umdeildra skipulags­breytinga, s.s. vegna aukinnar umferðar og ónæðis, muni ekki hafa teljandi áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem vænta mátti af því skipulagi sem gilti fyrir hina kærðu skipulagsbreytingu. Geta þau grenndaráhrif því ekki skapað kærendum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök kærenda byggja aðallega á því að hin kærða ákvörðun sé liður í því að hrinda í framkvæmd áformum samkvæmt samkomulagi milli Sveitarfélagsins Voga og Grænubyggðar ehf., en kærendur telja þau áform hvorki vera í samræmi við Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 né markmið skipulagslaga nr. 123/2010. Svo sem rakið er í málavöxtum kærðu kærendur til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins frá 11. desember 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grænuborgarsvæðis, en sú breyting sneri að uppskiptingu byggingarreita, hámarkshæð bygginga og fjölgun íbúða á svæðinu úr 160 í 183. Var krafa kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar studd sambærilegum röksemdum og í máli þessu varðandi áðurnefnt samkomulag. Með úrskurði nefndarinnar 20. mars 2020, í máli nr. 19/2019, var kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar hafnað. Í kjölfarið stefndu kærendur sveitarfélaginu fyrir Héraðsdóm Reykjaness og kröfðust þess að ákvörðun sveitarfélagsins yrði felld úr gildi, en með úrskurði uppkveðnum 18. mars 2021, í máli nr. E-3328/2020, var málinu vísað frá dómi þar sem dómstóllinn taldi að kærendur hefðu ekki sýnt fram á að niðurstaða málsins myndi hafa raunhæft gildi til að leysa úr ágreiningi aðila dómsmálsins. Þeim úrskurði héraðsdóms var síðan skotið til Landsréttar, sem vísaði málinu einnig frá dómi með úrskurði í málinu nr. 215/2021, uppkveðnum 26. apríl 2021. Féllst dómstóllinn á þá niðurstöðu héraðsdóms að kærendur hefðu ekki sýnt fram á að úrlausn málsins myndi á neinn hátt hafa raunhæft gildi fyrir réttarstöðu þeirra. Vísaði rétturinn til þess að grundvöllur málssóknarinnar hefði ekki varðað lögmæti breytingar á deiliskipulagi, sem fæli aðeins í sér breytingu á eldra skipulagi, heldur hefði hann miðað að því að koma í veg fyrir framkvæmd framangreinds samkomulags. Stæðu af þeim sökum ekki lögvarðir hagsmunir þeirra til þess að fá efnisdóm í málinu þrátt fyrir að gæta bæri varfærni við slíkt mat. Með hliðsjón af framangreindu verða kærendur ekki taldir hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa á umræddum grundvelli.

Að framangreindu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

15/2022 Völuskarð

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 31. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2022, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2022 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. janúar 2022, kærir eigandi fasteignarinnar að Völuskarði 32, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2022 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfirði 17. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 19. október 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina Völuskarð 32, en hún fól í sér að fyrirhugað einbýlishús á lóðinni yrði tvíbýlishús, bílastæðum yrði fjölgað um tvö og að gert yrði ráð fyrir opnu bílskýli. Með bréfum, dags. 7. desember s.á., var umsóknin grenndar­kynnt, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með athugasemdafresti til 7. janúar 2022. Á kynningartímanum bárust tvær athugasemdir. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 18. janúar 2022 var tekið undir framkomnar athugasemdir og umsókn um breytingu á deiliskipulagi Völuskarðs 32 hafnað.

Kærandi vísar til þess að í því skyni að auðvelda fjármögnun eignarinnar hafi verið ætlunin að skipta henni upp í tvo hluta og að foreldrar hans yrðu eigendur íbúðar á jarðhæð. Lóðin sé tiltölulega nálægt gatnamótum og því muni akstur inn botngötu, sem fasteignin standi við, ekki aukast mikið við fjölgun íbúða. Ef litið sé til Völuskarðs 28 megi álykta að sú fasteign hefði fordæmisgildi fyrir umsókn kæranda en þar sé einbýli með þremur íbúðareiningum.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er m.a. vísað til þess að meðferð sveitarfélagsins hafi verið samkvæmt lögum og reglum og erindi kæranda hafi verið grenndarkynnt áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Deiliskipulagið geri ráð fyrir einbýlishúsalóð og aðrir íbúar í götunni hafi keypt lóðir sínar í góðri trú um að það haldi. Með því að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús fjölgi íbúum og bílum sem þeim fylgi. Umferð um götuna muni óhjákvæmilega aukast með slíkri breytingu.

Niðurstaða: ­­­­Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og fara skipulags­nefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Sveitarstjórn er heimilt í sam­þykkt sveitar­félagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu þess heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deili­skipulags­­áætlana. Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitar­stjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitar­félagið annist. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðar­afgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

 Samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar var birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 3. mars 2021. Í 71. gr. samþykktarinnar kemur m.a. fram að skipulags- og byggingarráð fari með mál sem heyra undir skipulagslög og geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Þá geti bæjarstjórn falið skipulags- og byggingar­ráði og einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. samþykktarinnar. Samþykktinni fylgja fimm viðaukar um fullnaðar­afgreiðslur ráða, nefnda og starfsmanna í stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar án staðfestingar bæjar­stjórnar eða bæjarráðs. Í viðauka 1.1 er nánar mælt fyrir um skipulags- og byggingarráð. Í 1. mgr. 2. gr. viðaukans er að finna upptalningu í liðum a-d á þeim verkefnum sem ráðið afgreiðir án staðfestingar bæjarstjórnar og er þar vísað til þess að um sé að ræða verkefni skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga. Í a-lið kemur fram að ráðið afgreiði án stað­festingar bæjarstjórnar öll mál sem skuli hljóta afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt skipulags­lögum, sbr. 6. gr. laganna, samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. sveitar­stjórnarlaga, svo sem afgreiðslu skipulagslýsinga og deiliskipulagsáætlana samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Undanskildar séu ákvarðanir um auglýsingu og afgreiðslu á svæðis-, aðal-, deili- og hverfis­skipulagi en þær ákvarðanir séu ávallt háðar samþykki bæjarstjórnar. Hið sama gildi um auglýsingu og afgreiðslu á tillögum að breytingum á slíkum áætlunum. Í c-lið sama ákvæðis kemur fram að ráðið afgreiði án staðfestingar bæjarstjórnar ákvörðun um afgreiðslu deili­skipulags samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga ef engar athugasemdir berist á auglýsinga­tíma. Samkvæmt framansögðu hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar falið skipulags- og byggingarráði að fara með verkefni skipulagsnefndar samkvæmt 6. gr. skipulagslaga og jafn­framt framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu ákveðinna skipulagsmála til ráðsins, þ. á m. varðandi ákvörðun um afgreiðslu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga ef engar athugasemdir berast.

Tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar. Brast skipulags- og byggingarráði samkvæmt framansögðu því vald til að afgreiða með endanlegum hætti hina umþrættu deiliskipulagsbreytingu. Verður að líta svo á að í synjun ráðsins á umsókn kæranda um deiliskipulagsbreytinguna hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitar­stjórnar­laga. Ekki liggur fyrir að bæjarstjórn hafi með lögformlegum hætti tekið umsóknir vegna umræddrar lóðar til umfjöllunar í kjölfar hinnar kærðu afgreiðslu nefndarinnar.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

150/2021 Hákot

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 31. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor ­­og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2021, kæra á ákvörðun skrifstofu reksturs og umhirðu borgar­­­­­landsins frá 20. ágúst 2021 um að samþykkja smáhýsi við mörk lóðarinnar Garða­strætis 11a og borg­ar­lands, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um leyfisveitingu vegna sama smáhýsis og ákvörðun hans frá 24. ágúst 2021 um að hafna beitingu þvingunar­úrræða vegna sama smáhýsis.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2021, kæra eigendur, Mjóstræti 2b; eigandi, Mjóstræti 6; eigendur, Mjóstræti 10; eigendur, Grjótagötu 5; eigendur, Grjótagötu 6; eigendur, Garðastræti 13 og eigandi, Garðastræti 25, samþykki skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins frá 20. ágúst 2021 vegna skúrs við mörk lóðarinnar Garðastrætis 11a og borg­ar­lands og leyfisveitingu bygg­ing­­ar­­­fulltrúans í Reykjavík vegna sama skúrs. Þá ber málskot kærenda með sér að einnig sé kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. ágúst 2021 að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna skúrsins. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og skúrinn verði fjar­lægður af lóð­inni og úr Grjótaþorpinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2021.

Málavextir: Á lóðinni Garðastræti 11a stendur húsið Hákot og nýtur það friðunar. Lóðin markast að mestu af borgarlandi, en hluti norðvestur­marka hennar liggur að annarri lóð. Á meðal kærenda eru eigendur Mjóstrætis 2b, en hús þeirra stendur á lóð sem er sam­eiginleg Mjóstræti 2b og Garðastræti 9. Sú lóð og lóð Garðastrætis 11a eiga ekki sameiginleg lóðamörk. Uppdrættir vegna húsa á lóð Mjóstrætis 2b og Garðastrætis 9 sem áritaðir voru af byggingar­fulltrúanum í Reykjavík árin 1987 og 2006 sýna þó heimreiðarrétt (erfða­festu­rétt) á landræmu eða sundi sem liggur á milli þeirrar lóðar og Garðastrætis 11a. Er þar innkeyrsla frá Mjóstræti á bíla­stæði lóðar Mjó­strætis 2b og Garðastrætis 9 og verður ekki annað ráðið en að landræman sé í eigu borgar­innar.

Eigendur Garðastrætis 11a leituðu hinn 5. maí 2021 til borgaryfirvalda og óskuðu eftir upp­lýsing­um um það hvort þau þyrftu leyfi frá borginni til þess að koma fyrir geymslu­skýli af ákveðinni stærð sem félli vel inn í umhverfi Grjótaþorpsins við jaðar lóðarinnar, í norðaustur­horni hennar. Í svörum borgar­yfir­­valda var bent á g-lið gr. 2.3.5. í bygg­ingar­­­­reglu­gerð nr. 112/2012 um minniháttar fram­kvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi, m.a. smá­hýsi á lóð. Þar er tekið fram að ef smáhýsi, að hámarki 15 m2 að flatar­máli, væri nær lóðar­mörkum en 3,0 m skyldi liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar ­grann­lóðar og skyldi það lagt fram hjá byggingarfulltrúa. Ákvæðinu hefur síðan verið breytt og er nú kveðið á um heimildir til að reisa smáhýsi án byggingarleyfis í f-lið sama ákvæðis.

 Í kjölfar þess að framangreindum skúr var komið fyrir á lóðinni í fyrri hluta júlímánaðar árið 2021 bárust borgar­yfir­­völdum athugasemdir við hann, en m.a. sendi einn kærenda, annar eigenda Mjó­­­strætis 2b, byggingar­full­trúa tölvu­póst 8. júlí 2021 þar sem hann fór fram á að em­bættið hlutaðist til um að skúr sem settur hefði verið inn á lóð Hákots, Garða­stræti 11a, yrði fluttur þaðan. Ekki hefði farið fram grennd­ar­kynning og lóðarhafar grann­lóðar hefðu ekki veitt skriflegt samþykki sitt. Hinn 4. ágúst 2021 upplýsti byggingarfulltrúi eigendur Garða­­­­strætis 11a um að ábending hefði borist vegna smáhýsis á lóð þeirra og að vett­vangs­­skoðun hefði leitt í ljós að það ­lægi að borgarlandi við austurenda lóðarinnar og því þyrfti, með vísan til gr. 3.3.5. í bygg­ingar­­reglugerð, að óska eftir samþykki fyrir smá­hýsinu hjá borgar­­­­yfir­völdum. Var þeim gert að óska eftir slíku samþykki innan 14 daga hjá skrif­stofu reksturs og umhirðu borg­ar­­lands. Í kjölfarið óskuðu eigendur Garðastrætis 11a ­­­­­­­eftir samþykkinu og fylgdi skissa sem sýndi legu smá­hýsisins á lóðinni. Í bréfi sem barst eigendum Garðastrætis 11a með tölvupósti 19. ágúst 2021 og bar yfir­skrift­­ina „Sam­­þykki SRU“ kom fram að skrifstofan gerði ekki athugasemdir við fram­kvæmd­ina. Sendu þeir bréfið þann sama dag til byggingarfulltrúa og óskuðu jafn­­framt eftir því að fá „formlegt samþykki fyrir smáhýsinu“. Degi síðar staðfesti starfs­­maður byggingar­­fulltrúa mót­­töku á skriflegu samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.­ ­­­­­­Hinn 24. ágúst s.á. var annar eigenda Mjóstrætis 2b upplýstur um að skrif­legt sam­þykki eiganda aðliggjandi lóðar, í þessu tilviki borgaryfirvalda, hefði borist byggingar­full­­trúa og að málinu teldist lokið. Var honum jafnframt leiðbeint um kæruheimild til úrskurðar­­nefndar umhverfis- og auðlinda­mála og kærufrest.

Málsrök kærenda: Kærendur telja staðsetningu umrædds skúrs stríða gegn hverfisvernd Grjót­a­­­­­þorps, stangast á við markmið hennar og ekki uppfylla áskilnað um samræmi við deili­skipu­­­­­lag heldur þvert á móti ganga gegn anda skipulagslaga. Þá hafi jarðrask átt sér stað undir skúrnum, þar sem hugsanlega séu fornminjar frá upphafi landnáms. Strangar kvaðir hvíli á eigendum friðaðra húsa og sé vísað til umsagnar Minjastofnunar frá 24. septem­ber 2021. Eigendur Garðastrætis 11a hafi ekki sótt um leyfi fyrir skúrnum fyrr en eftir á og fengið leyfið án viður­laga. Þá sé leyfið for­dæmis­­gefandi og kær­endum hrjósi hugur við skúra­væð­ingu framtíðarinnar standi það óhaggað. Skúrinn, sem einna helst minni á skipa­gám, beri næsta ná­grenni sitt ofurliði og hleypi heil­legri götu­­mynd Grjót­a­­þorps við Mjóstræti og Fischer­sund í upp­nám, en hann hafi verið viðbygging húss á Akureyri. Grjótaþorpið í Reykja­vík sé eitt fyrsta dæmi um svæði sem njóti hverfisverndar á Íslandi. Í tölvupósti lögfræðings Skipulags­­­stofnunar frá 14. september 2021 komi m.a. fram að mörkuð hafi verið stefna um hverfis­­­vernd í Grjótaþorpi, bæði í aðal- og deiliskipulagi og að byggingarframkvæmdir sem falli undir gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð jafnt og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir þurfi að samrýmast þeim ákvæðum. Þá hafi m.a. komið fram í ritinu Byggingarsögu Grjótaþorps, sem núverandi byggingar­­­fulltrúi Reykjavíkur­ hafi tekið saman árið 2000, að sýna beri „sérstaka að­­gát við allt inn­­grip inn í Grjóta­þorpið, svo sem með nýbyggingum, viðbyggingum og breytingum á húsum“. Ljóst sé að sýn og afstaða embættismanna Reykjavíkurborgar sé afar þröngur stakkur skor­inn. Litið sé fram ­hjá þeirri staðreynd að Grjótaþorpið njóti hverfisverndar í skipulagi, horft sé fram hjá hefðar­rétti næstu nágranna sem sumir hverjir hafi búið í þorpinu í bráðum fjóra ára­tugi. Velta megi því fyrir sér hvers vegna borgarland lúti öðrum lög­­málum en lóðir nágranna sem þurfi að lifa við skerta ímynd þorpsins til frambúðar án þess að fá rönd við reist og án grennd­ar­kynningar. Með því hafi jafnræðisregla verið brotin og réttur íbúanna fyrir borð borinn með því að hafa af þeim sjálfsagðan umsagnarrétt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kærunni verði vísað frá. Byggingarfulltrúi hafi ekki tekið ákvörðun um að veita leyfi fyrir staðsetningu smáhýsis á um­­­­­ræddri lóð, heldur eingöngu sinnt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá öndverðu hafi verið bent á að smáhýsið væri ekki byggingarleyfisskylt skv. undan­­­þáguákvæði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að samþykki lóðar­hafa aðliggjandi lóðar þyrfti að liggja fyrir. Þá er gerð krafa um að kæru á samþykki skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins verði vísað frá þar sem samþykkið varði einkaréttarlega hags­­muni, en þar sem lóðin liggi að borgarlandi sé Reykjavíkur­borg lóðarhafi aðliggjandi lóðar.

 Athugasemdir eigenda Garðastrætis 11a: Eigendur Garðastrætis 11a vísa til þess að þau hafi talið sig vera að fegra umhverfi Grjótaþorps með flutningi smáhýsisins Lágkots í þorpið. Húsið sé hugarsmíði og handverk akureyrsks listamanns og föður eins eigenda lóðarinnar. Garðhýsið hafi áður staðið á lóð á Akureyri en hafi ekki verið viðbygging. Þegar þeim hafi boðist garð­hýsið hafi þau sent fyrirspurn til borgaryfirvalda sem hafi bent þeim á ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingar­­reglugerð nr. 112/2012 um byggingarframkvæmdir undanþegnar byggingar­leyfi varð­­andi smáhýsi. Í samskiptum sínum við byggingarfulltrúa hafi þau verið beðin um að kanna hvort slíkt smáhýsi væri nokkuð bannað samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Grjótaþorpið eða háð öðrum annmörkum. Þau hafi ekkert slíkt séð annað en að sýna þyrfti aðgát við breytingar og við­­­­­byggingar. Það hafi ekki verið fyrr en 9. ágúst 2021 er þeim hafi borist bréf frá byggingar­full­trúa að þau hafi verið beðin um „að óska eftir samþykki borgarinnar fyrir smáhýsinu“ hjá skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins. Það hafi þau gert samdægurs og varhúsið skömmu síðar mælt upp af hálfu skrifstofunnar og það samþykkt 19. ágúst s.á.

Garðhýsið sé 10 m2 að flatarmála, 2,4 m að hæð og 6 m að lengd og sé innan leyfilegra marka fyrir smáhýsi á lóð. Þá eigi form, byggingarefni, handverk, áferð og litir garðhýsisins lítið sammerkt með skipagámum og smekksatriði sé hvort það beri næsta nágrenni sitt ofurliði. Íbúar Mjóstrætis 2b sjái ekki garðhýsið þegar þeir sitji á tröppupalli sínum á sumrin, en sérstakt tillit hafi verið tekið til þess við staðsetningu garðhýsisins sem snúi að borgarlandi og sé gluggalaust á þeirri hlið sem snúi að nágranna í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Sú hlið sé samhliða glugga­­­lausum vegg Mjóstrætis 2b og hafi fjölmargt ókunnugt fólk óskað eigendum til hamingju með garðhýsið og haft orð á því að það hafi bætt götumynd Mjóstrætis með því að draga úr vægi hvíts gluggalauss veggjar Mjóstrætis 2b.

Eigendur Garðastrætis 11a séu meðvitaðir um friðun Hákots, garðhýsið hvorki snerti Hákot á nokkurn hátt né skyggi á ímynd þess að ráði. Garðhýsið falli vel að umhverfinu og hafi þess verið gætt að nota hefðbundin efni í hellulagningu við inngang að því. Frágangi lóðar hafi verið hraðað, bæði vegna nágranna og allra þeirra ferðamanna sem heimsæki Grjótaþorpið og taki þar myndir. Óskað hafi verið eftir fundi með forstöðumanni Minjastofnunar þar sem eigendur Garðastrætis 11a hefðu átt erfitt með að skilja álitsgerð stofnun­ar­­innar, en þar hafi stofnunin ekki farið rétt frið með upplýsingar. Óskað hafi verið eftir að stofnunin myndi endurmeta álitsgerð sína. Áréttað sé að ekkert jarðrask hafi verið viðhaft við flutning og setningu garðhýsisins á lóðina og því eigi tilvísun í lög nr. 80/2012 um menningar­minjar ekki við. Þeim sé vel kunnugt um að ekki sé heimilt að breyta ytra byrði Hákots án leyfis Minjastofnunar, samanber leið­­beiningar á vef stofnunar­­innar, en þar sé í engu minnst á jarðrask á lóð friðslýsts húss. Notaðir hafi verið dvergar sem garðhýsið sitji á og engin vélknúin vinnutæki notuð á lóðinni utan kranabíls sem hafi sett hýsið beint á stöplana (dvergana). Eigendur hafi lagt sig fram um að ganga vel frá lóðinni frá öllum hliðum, þ.m.t. þeirri hlið sem snúi að nágranna í Mjóstræti 2b, en á þeirri hlið sé klifurjurt sem skríði meðfram veggnum.                  

——-

 Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun skrif­stofu reksturs og umhirðu borgarlandsins frá 20. ágúst 2021 um að samþykkja staðsetningu smá­­­­­hýsis á lóð Garðastrætis 11a við mörk hennar og borgarlands ásamt­­­ leyfisveitingu byggingarfulltrúans í Reykja­vík vegna sama smáhýsis. Þá verður ráðið af málatilbúnaði kærenda að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. ágúst 2021 að synja um­ ­­­beitingu þvingunarúrræða­ vegna smáhýsisins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.­

Undir kæru í máli þessu rita tólf aðilar. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður ráðið að þeir séu flestir annað hvort eigendur fasteigna eða eigi lögheimili í grennd við Garðastræti 11a þar sem hið umþrætta smá­­hýsi stendur. Fast­­eignir kærenda að Mjóstræti 6, Mjóstræti 10, Grjótagötu 5, Grjótagötu 6 og Garðastræti 25 eru allar í nokkurri fjarlægð frá Garðastræti 11a og hús og lóðir á milli. Ekki liggur fyrir að umrætt smáhýsi og staðsetning þess raski lögvörðum hagsmunum framangreindra kærenda, svo sem með skuggavarpi, útsýnisskerðingu eða öðrum grenndaráhrifum gagnvart fasteignum þeirra. Tilvísun kærenda til ásýndar og ímyndar Grjóta­þorpsins lúta að atriðum sem teljast til almannahagsmuna en þau teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Teljast framangreindir kærendur því ekki eiga kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni vegna hinna umdeildu ákvarðana.

­­­Fasteignir kærenda að Mjóstræti 2b og Garðastræti 13 standa nær Garða­stræti 11a heldur en fasteignir áðurgreindra kærenda, en eiga þó ekki sameiginleg lóðamörk.  Innkeyrsla liggur að bílastæði Mjó­strætis 2b meðfram lóðar­mörkum Garða­­­strætis 11a á land­ræmu í eigu borgarinnar. Húsið að Garðastræti 13 stendur suð­vestan við Garðastræti 11a og af stað­háttum má ráða að frá húsinu sjáist umrætt smáhýsi og ekki útilokað að það kunni að hafa grenndaráhrif gagnvart þeirri fasteign. Verður eigendum framangreindra tveggja fasteigna því játuð kæruaðild í máli þessu.

 Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úr­­lausn­ar­atriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim laga­grund­velli.

Í gr. 2.3.5. bygg­ingar­­­­reglu­gerðar nr. 112/2012 er að finna undanþáguákvæði sem mælir fyrir um tilteknar fram­kvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í g-lið ákvæðisins kom fram að smáhýsi á lóð, allt að 15 m2, með frekari skilyrðum, væru undanþegin byggingarleyfi. Væri smá­hýsi nær lóðarmörkum en 3,0 m skyldi liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar grann­­­lóðar og skyldi það lagt fram hjá byggingarfulltrúa. Nú er sambærilegt ákvæði í f-lið sama ákvæðis og hefur það verið einfaldað. Enn þarf samþykki eigenda aðliggjandi lóðar en ekki þarf lengur að leggja það fram hjá byggingarfulltrúa. Framangreint samþykki er einka­réttar­­legs eðlis og telst af þeim sökum ekki vera stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðar­­nefndar­innar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða 1. gr. laga um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður af þeim sökum ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skrifstofu rekstrar og umhirðu borgarlandsins sem fól í sér samþykki fyrir staðsetningu smáhýsisins við mörk umræddra lóðar og landsins. Að sama skapi felur svar starfsmanns byggingarfulltrúa um móttöku greinds samþykkis ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst eftir atvikum heimild til að beita þvingunarúrræðum þeim sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki sé fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingar­fram­kvæmd­ina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi þar að baki.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að samkvæmt beiðni byggingarfulltrúa hefði lóðarhafi óskað eftir skriflegu samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem í þessu tilviki væri Reykjavíkurborg. Sam­­­þykki skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins hafi verið sent til embættis byggingar­full­trúa og teldist málinu lokið. Þá var upplýst um kæruheimild og kærufrest til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggur að byggingarfulltrúi fór í vettvangsferð á staðinn og kynnti sér aðstæður. Í rökstuðningi borgaryfirvalda til nefndarinnar hefur komið fram að „öll skilyrði byggingarreglugerðar [hafi] verið uppfyllt. Því hafi ekki komið til beitingar þvingunarúrræða, enda framkvæmdin í samræmi við gerðar kröfur.“

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun byggingarfulltrúa að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða og verður því þeirri kröfu hafnað.­­­­

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda að Mjóstræti 2b og Garðastræti 13 um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. ágúst 2021 um að synja kröfu þeirra um beitingu þvingunarúrræða vegna smáhýsis á lóðinni Garðastræti 11a.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

184/2021 Vegur innan Laugarvatns

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 23. mars, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 184/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Ásvélar ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. nóvember s.á. að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir færslu Laugarvatnsvegar (Dalbrautar) á um 500 m kafla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 26. janúar 2022.

Málavextir og rök: Bláskógabyggð barst umsókn um framkvæmdaleyfi 30. september 2021 frá Vegagerðinni þar sem fyrirhugað var að færa Laugarvatnsveg (Dalbraut) á um 500 m kafla. Bláskógabyggð birti auglýsingu um hina fyrirhuguðu framkvæmd í Bláskógafréttum í október s.á. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita tók umsókn Vegagerðarinnar fyrir á fundi 27. október s.á. og lagði til við sveitarstjórn að útgáfa framkvæmdaleyfis yrði samþykkt á grundvelli deiliskipulags fyrir þéttbýlið á Laugarvatni. Sveitarstjórn Bláskóga­byggðar samþykkti útgáfu framkvæmdaleyfisins á fundi 4. nóvember s.á. og fól skipulagsfulltrúa útgáfu þess.

 Kærandi vísar til þess að sú hækkun á veginum sem framkvæmdaleyfið feli í sér muni hafa mikil áhrif á snjómokstur sem kærandi annist á svæðinu. Þau gögn sem lögð hafi verið fram með umsókninni um framkvæmdaleyfið hafi verið ófullnægjandi og hefði því átt að synja um útgáfu þess. Ef fullnægjandi gögn hefðu fylgt hefði kærandi séð að verið væri að óska eftir rúmlega meters hækkun á veginum og hefði þá getað skilað inn athugasemdum. Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi þar sem hækkun vegarins hafi mikil áhrif á störf hans.

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga, nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun um útgáfu­ framkvæmdaleyfis hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. nóvember 2021 og fundagerð birt opinberlega á vef sveitarfélagsins degi síðar. Kæran hafi borist úrskurðarnefndinni 27. desember s.á. að loknum kærufresti. Þá eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinu kærða framkvæmdaleyfi sem sé skilyrði fyrir kæruaðild skv. 3. mgr. 4. gr. laga um nr. 130/2011. Kærandi sjái ekki um snjómokstur á svæðinu heldur annist Vegagerðin þjónustu á umræddum vegi. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið tekin á grundvelli gildandi deiliskipulags lögum samkvæmt og fullyrðingar um ófullnægjandi gögn séu rangar.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundna hagsmuni umfram aðra tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Samkvæmt fyrirliggjandi staðfestingu frá Vegagerðinni annast hún snjómokstur á umræddum vegi sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til en ekki kærandi. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að hin kærða ákvörðun snerti að öðru leyti hagsmuni kæranda með þeim hætti að leitt geti til kæruaðilar hans í máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

160/2021 Tjarnarstígur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 23. mars, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála, fyrir mál nr. 160/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. október 2021, kærir þáverandi eigandi, Tjarnarstíg 4, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sel­tjarnarnes­bæjar frá 11. október 2021 að veita leyfi til að byggja bílskúr að Tjarnarstíg 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá má ráða af málatilbúnaði kæranda að einnig sé kærð breyting á deiliskipulagi Lambastaðahverfis varðandi Tjarnarstíg 10 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 17. nóvember 2021.

Málsatvik og rök: Ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar um breytingu á deiliskipulagi Lambastaðahverfis vegna Tjarnarstígs 10 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2021. Þar kom fram að breytingin fæli í sér heimild fyrir bílskúr á nýjum byggingarreit á lóð Tjarnarstígs 10 og að nýtingarhlutfall lóðar væri hækkað. Á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar 23. júní s.á. var umsókn um leyfi til að reisa bílskúr á  lóðinni samþykkt og gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum 11. október 2021.

Kærandi vísar til þess að umrædd breyting á deiliskipulagi hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir honum þrátt fyrir að augljóst væri að bílskúrinn myndi hafa áhrif á útsýni hans til sjávar, en lög séu skýr um að hagsmunaaðilar eigi að fá nýtt deiliskipulag kynnt. Kærandi hefði aldrei sam­þykkt breytingarnar en hefði getað veitt samþykki sitt væri skúrinn niður­grafinn að hluta.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er vísað til þess að ekki hafi verið talin þörf á að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi fyrir eiganda Tjarnarstígs 4 þar sem í eldra deiliskipulagi hafi verið heimildir til að skerða verulega útsýni frá umræddri fasteign til sjávar og breytingin falið í sér minni skerðingu á útsýni.

Af hálfu leyfishafa er m.a. bent á að fyrirhugaður bílskúr fari ekki í bága við skilmála gildandi deili­­skipulags.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Málatilbúnaður kæranda í kærumáli þessu byggir á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda Tjarnarstígs 4 á Seltjarnarnesi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteigna­skrá Þjóðskrár Íslands seldi kærandi umrædda fasteign með kaupsamningi, dags. 7. desember 2021, og var afsali fyrir fasteigninni þinglýst 21. mars 2022.  Á kærandi því ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildra ákvarðana sem tengjast nefndri fasteign. Nýir eigendur Tjarnarstígs 4 hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki taka við aðild í kærumálinu.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

140/2021 Urðarbrunnur

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Urðarbrunns 58 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Urðarbrunni 58, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna hússins að Urðarbrunni 58. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. september 2021.

Málavextir: Árið 2008 gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út leyfi fyrir byggingu einbýlishússins að Urðarbrunni 58. Með bréfi byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa, dags. 15. maí 2017, var m.a. vakin athygli á því að lokaúttekt hefði ekki farið fram á húsinu líkt og skylt væri að lögum og var veittur 14 daga frestur frá móttöku bréfsins til að óska eftir lokaúttekt eða koma að skriflegum skýringum og athugasemdum. Urðu lyktir málsins þær að leyfishafi lagði inn umsókn um leyfi fyrir gerðum breytingum á húsinu og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi 20. apríl 2021. Hinn 9. júní s.á. gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum en skoðun vegna lokaúttektar mun hafa farið fram 25. nóvember 2020. Í vottorðinu var jafnframt staðfest að lokið hefði verið við úrbætur vegna hluta athugasemda sem gerðar hefðu verið við skoðun mannvirkisins.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að þegar hann hafi samið um kaup á húsinu Urðarbrunni 58 hafi það verið í úttektarferli. Hann og seljandi hafi komist að samkomulagi um að seljandi skyldi klára lokaúttekt án athugasemda. Vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út með níu athugasemdum en nokkrar þeirra hafi varðað lagnakerfi hússins. Samið hafi verið um úrbætur vegna þess sem hægt hafi verið að lagfæra. Eftir afhendingu hússins 7. ágúst 2021 hafi komið í ljós að úttektaraðila hafi yfirsést veigamikil atriði er varði öryggi og hollustu húsnæðisins. Þrátt fyrir að vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út sé ljóst að húsnæðið uppfylli ekki kröfur um öryggi. Lagfæring sé kostnaðarsöm og því um fjárhagslegt tjón að ræða fyrir kæranda ef ákvörðun um útgáfu vottorðsins standi óhögguð.

Ekki hafi verið farið að reglum við framkvæmd úttektarinnar en hvorki byggingarstjóri né iðnmeistarar hafi verið upplýstir um úttektina. Virðist þeir í raun ekki hafa komið með beinum hætti að byggingu hússins. Brot á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi farið fram hjá byggingarfulltrúa. Kæranda hafi orðið kunnugt um úttektarvottorðið og vankanta eftir afhendingu eignarinnar og sé óskað eftir því að tekið verði tillit til þess varðandi kærufrest.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða, en til vara þar sem kæran sé of seint fram komin og kæranda skorti aðild að málinu.

Í vottorði um lokaúttekt felist yfirlýsing byggingaryfirvalda um að mannvirkjagerð sé lokið og að framkvæmt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Við úttektina sé gengið úr skugga um hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laga og reglugerða. Heimilt sé að gefa út vottorð um lokaúttekt þótt framkvæmdin sé ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn en þá skal gefa vottorðið út með athugasemdum, sbr. 5. mgr. gr. 3.9.1. í  byggingarreglugerð nr. 112/2012, nema um sé að ræða atriði sem varði öryggis- og hollustukröfur. Efnislega samhljóða ákvæði sé að finna í 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Útgáfa vottorðs feli ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun enda sé markmið með vottorðinu að staðfesta að byggingu mannvirkis hafi verið lokið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hin eiginlega stjórnvaldsákvörðun sé tekin við útgáfu byggingarleyfis. Það hafi verið gefið út 10. mars 2008 og sé kærufrestur liðinn.

Útgáfa lokaúttektarvottorðs hafi fyrst og fremst þýðingu þegar komi að réttindum og skyldum eiganda og byggingarstjóra, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála í máli nr. 129/2021. Þegar lokaúttekt hafi farið fram hafi kærandi ekki verið eigandi fasteignarinnar en samkvæmt þinglýstum gögnum hafi afhending hennar verið 1. september 2021. Beri að vísa kæru frá sökum aðildarskorts og skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist nefndinni. Í kæru komi fram að meðan á úttektarferlinu hafi staðið hafi kæranda verið kunnugt um að lokaúttekt hafi ekki farið fram og að það hafi verið eitt að skilyrðum viðskipta milli kæranda og seljanda að lokaúttekt yrði athugasemdalaus. Megi af því leiða að kæranda hafi þá þegar verið kunnugt um athugasemdirnar, eða þá mátt vera kunnugt um að lokaúttekt hafi ekki verið lokið athugasemdalaust, enda komi einnig fram í kæru að samið hafi verið um úrbætur á þeim atriðum sem gerðar hafi verið við úttektina.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að málið sé vanreifað af hálfu Reykjavíkurborgar þar sem umfjöllun um varakröfu og þrautavarakröfu sé víxlað frá kröfugerð. Áréttað sé að eftir að vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út hafi komið í ljós fleiri mikilvæg atriði sem byggingarfulltrúa hafi yfirsést. Öryggis- og hollustu­kröfur hafi ekki verið uppfylltar og um stórkostlega yfirsjón byggingaryfirvalda sé að ræða.

Byggingarstjóri hússins hafi hvorki verið tilkynnt um lokaúttekina né hafi hann verið viðstaddur hana, en það sé ekki í samræmi við gildandi reglur. Framkvæmd og útgáfa lokaúttektarvottorðs hafi sannarlega þýðingu fyrir kæranda. Samið hafi verið um kaup á fasteigninni áður en lokaúttekt hafi farið fram og hljóti kærandi því að njóta sömu réttinda og þáverandi eigendur. Í kaupsamningi sé tilgreint að seljandi skuli klára lokaúttekt fyrir afhendingu og fyrir liggi skrifleg staðfesting frá fasteignasala um að lokaúttekt eigi að vera án athugasemda við afhendingu. Um mjög mikið fjárhagslegt tjón sé að ræða fyrir kæranda og því vandséð að nokkur aðili hafi haft meiri hagsmuni en hann af því að lokaúttekt færi rétt fram. Það að byggingarfulltrúi hafi óumbeðinn sent kæranda úttektarvottorðið sama dag og það hafi verið gefið út sé staðfesting á því að byggingarfulltrúi hafi talið kæranda eiga ríka hagsmuni. Kæra þessi varði ekki þau atriði sem gerðar hafi verið athugasemdir við vegna lokaúttektar heldur þau atriði sem byggingarfulltrúa hafi yfirsést. Hafi kærandi ekki haft möguleika til að uppgötva þau fyrr en eftir afhendingu húsnæðisins og enga ástæðu haft til að ætla að stórkostleg yfirsjón hafi orðið við úttektina. Niðurstaða fyrirliggjandi matsskýrslu sé sú að fara þurfi í töluverðar framkvæmdir til að lagfæra ýmis atriði svo að húsið uppfylli ákvæði reglugerða.

 Niðurstaða: Í 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og segir þar í 1. mgr. að eigandi beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Samkvæmt 2. mgr. sama lagaákvæðis annast byggingarstjóri mannvirkis innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Ef í ljós kemur við lokaúttekt að mannvirki uppfyllir ekki öryggis- eða hollustukröfur getur eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert, sbr. 5. mgr. 36. gr. sömu laga. Hefur ákvörðun útgefanda byggingarleyfis um útgáfu lokaúttektarvottorðs því þýðingu fyrir rétt og skyldur byggingarstjóra og eiganda og verður því með vísan til þess, sem og álits umboðsmanns Alþingis, dags. 13. september 2011, í máli nr. 6242/2010 og úrskurðarframkvæmdar nefndarinnar frá þeim tíma, ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um að vísa beri kærumáli þessu frá á þeirri forsendu að útgáfa vottorðs um lokaúttekt feli ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Hinn 26. apríl 2021 mun fyrri eigandi Urðarbrunns 58 hafa samþykkt kauptilboð kæranda í eignina en vottorð um lokaúttekt var gefið út 9. júní s.á. Tæpum mánuði síðar, eða 7. júlí s.á., undirritaði kærandi kaupsamning um fasteignina og var þeim samningi þinglýst 15. s.m. Fram kemur í honum að afhending eignarinnar verði eigi síðar en 1. september s.á., en hún mun hafa verið afhent 7. ágúst 2021. Sem fyrr segir hefur útgáfa lokaúttektarvottorðs þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingarstjóra. Í áðurnefndri 15. gr. laga nr. 160/2010 er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og í e-lið 4. mgr. segir að eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hefur farið fram teljist eigandi í skilningi lagaákvæðisins. Ljóst er að þegar byggingarfulltrúi gaf út lokaúttektarvottorð vegna fasteignarinnar var kærandi ekki orðinn eigandi hennar í skilningi 15. gr. og bar því fyrri eigandi ábyrgð á að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis væri farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Voru hinir lögvörðu einstaklingsbundnu hagsmunir sem áskildir eru fyrir kæruaðild vegna útgáfu lokaúttektarvottorðsins að sama skapi bundnir við fyrri eiganda fasteignarinnar en ekki kæranda. Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2021 Brú

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 5. febrúar 2021 um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. júlí 2021, er barst úrskurðarnefndinni 6. ágúst s.á., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru þinglýsts eiganda lóðar í landi Brúar í Bláskógabyggð, dags. 20. maí 2021, vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðuninni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 8. september 2021.

Málavextir: Í landi Brúar í Bláskógabyggð er í gildi deiliskipulag sem auglýst var í Stjórnar­tíðindum 25. október 2006. Með bréfi til skipulagsfulltrúa Uppsveita, dags. 12. september 2015, óskaði kærandi eftir að deiliskipulagið yrði tekið til endurskoðunar þar sem hann teldi að lóðir samkvæmt deiliskipulaginu tilheyrðu hans eignarlandi en eigandi jarðarinnar hefði í hyggju að setja lóðirnar á sölu. Eigandi jarðarinnar sendi skipulagsfulltrúa bréf, dags. 1. nóvember 2015, þar sem fram kom að um ágreining á eignarhaldi lands væri að ræða. Kærandi ítrekaði þá í bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2015, að lóðir nr. 24, 26, 30 og 32 í umræddu deiliskipulagi væru á landspildu kæranda. Bréfið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 7. janúar 2016. Í bókun nefndarinnar í fundargerð segir að ágreiningur væri á milli lóðarhafa og eiganda jarðarinnar Brúar um staðsetningu lóðar kæranda og gæti nefndin ekki úrskurðað um nákvæma staðsetningu hennar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði á grundvelli deiliskipulagsins fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sama dag.

 

Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2017 var erindi eiganda jarðarinnar Brúar lagt fram vegna framangreindrar bókunar. Taldi nefndin sig ekki geta staðsett lóðina með nákvæmum hætti en fól skipulagsfulltrúa að hafa samráð við Þjóðskrá Íslands og embætti sýslumanns um hvort óhætt væri að stofna lóðir í samræmi við gildandi deiliskipulag og falla þar með frá fyrri bókuninni. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af sveitarstjórn á fundi 2. febrúar 2017.

 

Sveitarstjórn fjallaði um erindi eiganda jarðarinnar Brúar, dags. 28. janúar 2021, á fundi sínum 5. febrúar s.á. Óskaði hann eftir endurupptöku málsins. Sveitarstjórn taldi fyrri ákvörðun um að ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á grundvelli gildandi deiliskipulags vera ógildanlega og afturkallaði hana. Vísað var til þess að þegar afsal það sem kærandi leiddi rétt sinn af var gefið út fyrir lóðina hafi afsalsgjafi ekki verið eigandi lóðarinnar sem kærandi teldi sig eiga tilkall til. Einnig var vísað til þess að þegar tillaga að deiliskipulagi svæðisins var auglýst í september 2006 hafi engin athuga­semd borist um afmörkun deiliskipulagssvæðisins.

 

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að lóðarafsal hans hafi staðið óátalið hjá sýslumanni frá árinu 1993. Eigandi jarðarinnar, sem telji sig eiganda umræddrar landspildu, hafi sýnt tómlæti með því að hafa ekki farið í formlegt ferli til að fá eignarhaldinu aflétt. Hann hafi með aðgerðarleysi sínu látið hjá líða að halda töldum rétti sínum til haga í 30 ár. Kærandi hafi óátalda þinglýsta eignar­heimild á tveggja hektara spildu úr landi Brúar og hafi hann eignast landið fyrir hefð en samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geti maður eignast fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi. Eigandi Brúar hafi alla tíð haft vitneskju um skráningu á landinu en látið ógert að fá eignarheimildinni aflétt.

 

Fasteignagjöld af tveggja hektara sumarbústaðalóð nr. 167223 hafi verið greidd í 30 ár til sveitar­félagsins án athugasemda þess. Afstaða sveitarfélagsins til þess hvort leyfa ætti deiliskipulagningu á svæðinu orki tvímælis. Kærandi sé þinglýstur eigandi að landi sem hægt sé að afmarka gróflega. Eina heimildin um staðsetningu lóðarinnar sé í þinglýstu afsali af lóðinni. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að taka afstöðu til þess að þinglýsing á eignarheimild standi eða ekki. Sveitar­félagið ætti ekki að heimila skipulag á landi sem sé þinglýst eign annars aðila og ætti að halda sig við að leyfa ekki deiliskipulagningu á landi kæranda. Á meðan þinglýsing sé í gildi og hægt sé að benda á að deiliskipulagið fari yfir land sem kærandi eigi þá sé það þess sem standi fyrir deiliskipu­lagningu að skýra eignarhaldið. Ekki sé hægt að leyfa deiliskipulag á þeim hluta sem kærandi eigi þegar athugasemd um það hafi verið komið fram.

 Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að kæran eigi ekki undir valdsvið úrskurðar­nefndarinnar og vísa eigi málinu frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Umrædd ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki skipulagslaga nr. 123/2010 og verði kæruheimild ekki byggð á þeim lögum. Þá sé ekki að finna kæruheimild vegna málsins í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd eða lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Af því leiði að ekki sé til staðar ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sæti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og beri nefndinni að vísa kröfum kæranda frá.

Telji úrskurðarnefndin að ákvörðun sveitarfélagsins eigi undir valdsvið nefndarinnar sé kæru­frestur til úrskurðarnefndarinnar liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sveitarfélagið hafi tilkynnt umboðsmanni kæranda um hina kærðu ákvörðun 10. febrúar 2021. Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og um þriggja mánaða kæru­frest, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Kæra hafi borist ráðuneytinu 20. maí 2021 og lögbundinn kærufrestur því liðinn, bæði eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar og þriggja mánaða kærufrestur til ráðuneytisins.

Verði ekki fallist á frávísun málsins geri sveitarfélagið þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðuninni hnekkt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að ágreiningur sé á milli kæranda og eigenda Brúar um eignarhald á umræddu svæði og deiliskipulag tekur til að hluta. Kærandi hafi ekki sýnt fram á eignarhald sitt og því eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr ágreiningi skorið fyrir nefndinni. Vísað sé til þess að þegar afsal það sem kærandi leiði rétt sinn af var gefið út fyrir Brú lóð, L. 167223, hafi afsalsgjafi ekki verið þinglýstur eigandi þess lands sem kærandi telji sig eiga tilkall til. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 verði hinn síðari rétthafi að öðlast réttindin með samningi við þinglýstan eiganda en af þinglýstum eignarheimildum virðist ekki vera hægt að rekja eignarhald fyrir lóðinni til annars lands en þess sem fyrri eigandi jarðarinnar Brúar hafi átt á þeim tíma sem hann afsalaði landinu. Af þinglýstum eignarheimildum eiganda jarðarinnar Brúar sé ljóst að hann sé afsalshafi af því landi sem umrætt deiliskipulag nái til.

Með hinni kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið afturkallað þá íþyngjandi ákvörðun að ekki sé hægt að stofna nýjar lóðir byggðar á gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eina skriflega og skýra heimildin um staðsetningu lóðarinnar L. 167223 sé í þinglýstu afsali fyrir lóðinni en þar segi: „Land þetta liggur næst landi Haraldar Sigurjónssonar sem er eigandi að landspildu í landi bæjarins Brúar í Biskups­tungum.“ Að teknu tilliti til annarra sumarbústaðalóða og ræktartúns þá sé staðsetningin augljós. Aðeins sé óvissa um lögun lóðarinnar. Athuga beri að sveitarfélagið hafi innheimt fasteignagjöld af sumarbústaðarlandinu í um 30 ár. Kærandi lesi ekki Stjórnartíðindi að staðaldri og því hafi auglýsing um deiliskipulag farið fram hjá honum árið 2006. Aftur á móti hafi eigandi jarðarinnar verið oddviti sveitarstjórnar og setið í skipulagsnefnd á árinu 2006. Hann hafi alla tíð vitað af ágreiningnum og hefði því átt að láta skipulagsnefnd vita af honum í upphafi.

Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til ráðuneytisins og um þriggja mánaða kærufrest. Óskað hafi verið eftir fresti til að skila inn kæru 5. maí 2021 og hann hafi verið veittur til 21. maí 2021. Ráðuneytinu hafi borist kæra 20. maí 2021.

Niðurstaða: Um kæruheimild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt það að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Líkt og greinir í málavöxtum má rekja upphaf máls þessa til erindis kæranda til skipulagsfulltrúa, dags. 12. september 2015, um að deiliskipulag yrði tekið til endurskoðunar þar sem landspilda kæranda lægi á lóðum í umræddu skipulagi. Sveitarstjórn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að úrskurða um nákvæma staðsetningu spildunnar og því væri ekki hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn afturkallaði þessa afgreiðslu á fundi sínum 5. febrúar 2021 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Skipulag eða breyting á skipulagi getur ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda. Þá er það ekki á valdi sveitarstjórna að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi um landa- eða lóðamörk og geta ákvarðanir þeirra ekki hróflað við eignarréttindum. Ef fyrir hendi er ágreiningur um eignarréttindi að landi verður sá ágreiningur eftir atvikum til lykta leiddur fyrir dómstólum. Verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun geti raskað lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2022 Holt

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 10. febrúar, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 16/2022, kæra á ákvörðun Sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 1. júlí 2021 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Holt, L192736.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2022, er barst nefndinni 25. s.m., kæra ábúendur Unnarholtskots 2, Unnarholtskots 3 og Krika þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 4. nóvember 2021 að samþykkja deiliskipulagið Holt, L192736. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er þess jafnframt krafist að lagt verði bann við mögulegum framkvæmdum á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 31. janúar 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 27. nóvember 2020 var lögð fram umsókn um deiliskipulag á landi Unnarsholts þar sem óskað var eftir skilgreiningu fjögurra byggingarreita, þriggja fyrir íbúðarhús og eins fyrir útihús. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 9. desember s.á. þar sem bókað var að nefndin mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var niðurstaða skipulagsnefndar staðfest af sveitarstjórn 10. s.m. og var tillagan í kjölfarið auglýst frá 16. desember 2020 til 8. janúar 2021. Á fundi skipulagsnefndar 27. s.m. var skipulagstillagan samþykkt til auglýsingar á grundvelli 41. gr. skipulagslaga og var sú ákvörðun samþykkt í sveitarstjórn 4. febrúar s.á. Athugasemdir bárust frá ábúendum Unnarsholtskots 1, 2 og 3, dags. 16. apríl s.á. Uppfærð deiliskipulagstillaga var lögð fram á fundi skipulagsnefndar 23. júní 2021 þar sem bókað var að skipulagsnefnd mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 1. júlí 2021 og var þeim sem gerðu athugasemdir við skipulagið kynnt niðurstaða sveitarstjórnar með bréfi dags. 18. ágúst 2021. Í kjölfar athugasemda var stærð og lögun byggingarreita breytt, skilmálum skipulagsins um hámarkshæð skemmu lækkuð og umfang hennar minnkað úr 400 í 250 m2. Taldi skipulagsnefnd að breytingarnar væru ekki með þeim hætti að auglýsa þyrfti skipulagið á nýjan leik eða óska eftir nýrri afgreiðslu skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 4. nóvember s.á. og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember s.á. Sendi sveitarfélagið tilkynningu um gildistöku hins kærða deiliskipulags til þeirra sem gert höfðu athugasemdir á fyrri stigum málsins hinn 30. desember s.á.

Kærendur benda á að svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum við deiliskipulagstillöguna hafi verið án rökstuðnings og dregnar hafi verið inn í málið eldri byggingar á svæðinu. Þá hafi deiliskipulaginu verið breytt eftir að umsagnartími hafi verið liðinn og engin grenndarkynning átt sér stað eftir breytingar. Búið væri að færa fyrirhugaðar lóðir inn á efstu hæðarlínu á teikningu, bæta við 60 m2 útihúsum fyrir hverja lóð og enginn hæðarkvóti hafi verið gefinn upp. Þessar breytingar hefðu verið þess eðlis að nauðsynlegt hefði verið að auglýsa tillöguna að nýju.

Af hálfu Hrunamannahrepps er tekið fram að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi í öllu verið í samræmi við ákvæði laga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lægi skipulagsvald í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og að játa yrði henni nokkuð svigrúm við þróun umhverfis og byggðar. Deiliskipulagið væri í samræmi við góða og eðlilega nýtingu lands og tekið hefði verið tillit til sjónarmiða allra hagsmunaaðila. Sveitarfélagið hefði tekið athugasemdir kærenda til ítarlegrar skoðunar, aflað umsagna og tilteknar breytingar verið gerðar á skipulaginu til að koma til móts við framkomnar athugasemdir. Einu breytingarnar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu hafi verið að hámarksmælishæð skemmu hefði verið lækkuð um 2 m og stærð hennar um 150 m2. Þær breytingar hafi verið til þess fallnar að minnka byggingarheimildir innan svæðisins. Þá tók sveitarfélagið fram að það gerði ekki athugasemdir við að kæran hefði borist eftir kærufrest enda hefði hún borist innan 30 daga eftir að sveitarfélagið tilkynnti þeim sem gert höfðu athugasemdir við skipulagið um gildistöku þess, 30. desember 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telsdt kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember 2021. Tók kærufrestur því að líða 11. desember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. janúar 2022 eða tveimur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga. Getur afstaða sveitarstjórnar til kærufrests eða tilkynning þess til kærenda um gildistöku deiliskipulagsins ekki haft áhrif á lögbundinn kærufrest enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.