Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2022 Holt

Árið 2021, fimmtudaginn 10. febrúar, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 16/2022, kæra á ákvörðun Sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 1. júlí 2021 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Holt, L192736.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2022, er barst nefndinni 25. s.m., kæra ábúendur Unnarholtskots 2, Unnarholtskots 3 og Krika þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 4. nóvember 2021 að samþykkja deiliskipulagið Holt, L192736. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er þess jafnframt krafist að lagt verði bann við mögulegum framkvæmdum á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 31. janúar 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 27. nóvember 2020 var lögð fram umsókn um deiliskipulag á landi Unnarsholts þar sem óskað var eftir skilgreiningu fjögurra byggingarreita, þriggja fyrir íbúðarhús og eins fyrir útihús. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 9. desember s.á. þar sem bókað var að nefndin mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var niðurstaða skipulagsnefndar staðfest af sveitarstjórn 10. s.m. og var tillagan í kjölfarið auglýst frá 16. desember 2020 til 8. janúar 2021. Á fundi skipulagsnefndar 27. s.m. var skipulagstillagan samþykkt til auglýsingar á grundvelli 41. gr. skipulagslaga og var sú ákvörðun samþykkt í sveitarstjórn 4. febrúar s.á. Athugasemdir bárust frá ábúendum Unnarsholtskots 1, 2 og 3, dags. 16. apríl s.á. Uppfærð deiliskipulagstillaga var lögð fram á fundi skipulagsnefndar 23. júní 2021 þar sem bókað var að skipulagsnefnd mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 1. júlí 2021 og var þeim sem gerðu athugasemdir við skipulagið kynnt niðurstaða sveitarstjórnar með bréfi dags. 18. ágúst 2021. Í kjölfar athugasemda var stærð og lögun byggingarreita breytt, skilmálum skipulagsins um hámarkshæð skemmu lækkuð og umfang hennar minnkað úr 400 í 250 m2. Taldi skipulagsnefnd að breytingarnar væru ekki með þeim hætti að auglýsa þyrfti skipulagið á nýjan leik eða óska eftir nýrri afgreiðslu skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 4. nóvember s.á. og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember s.á. Sendi sveitarfélagið tilkynningu um gildistöku hins kærða deiliskipulags til þeirra sem gert höfðu athugasemdir á fyrri stigum málsins hinn 30. desember s.á.

Kærendur benda á að svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum við deiliskipulagstillöguna hafi verið án rökstuðnings og dregnar hafi verið inn í málið eldri byggingar á svæðinu. Þá hafi deiliskipulaginu verið breytt eftir að umsagnartími hafi verið liðinn og engin grenndarkynning átt sér stað eftir breytingar. Búið væri að færa fyrirhugaðar lóðir inn á efstu hæðarlínu á teikningu, bæta við 60 m2 útihúsum fyrir hverja lóð og enginn hæðarkvóti hafi verið gefinn upp. Þessar breytingar hefðu verið þess eðlis að nauðsynlegt hefði verið að auglýsa tillöguna að nýju.

Af hálfu Hrunamannahrepps er tekið fram að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi í öllu verið í samræmi við ákvæði laga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lægi skipulagsvald í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og að játa yrði henni nokkuð svigrúm við þróun umhverfis og byggðar. Deiliskipulagið væri í samræmi við góða og eðlilega nýtingu lands og tekið hefði verið tillit til sjónarmiða allra hagsmunaaðila. Sveitarfélagið hefði tekið athugasemdir kærenda til ítarlegrar skoðunar, aflað umsagna og tilteknar breytingar verið gerðar á skipulaginu til að koma til móts við framkomnar athugasemdir. Einu breytingarnar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu hafi verið að hámarksmælishæð skemmu hefði verið lækkuð um 2 m og stærð hennar um 150 m2. Þær breytingar hafi verið til þess fallnar að minnka byggingarheimildir innan svæðisins. Þá tók sveitarfélagið fram að það gerði ekki athugasemdir við að kæran hefði borist eftir kærufrest enda hefði hún borist innan 30 daga eftir að sveitarfélagið tilkynnti þeim sem gert höfðu athugasemdir við skipulagið um gildistöku þess, 30. desember 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telsdt kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember 2021. Tók kærufrestur því að líða 11. desember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. janúar 2022 eða tveimur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga. Getur afstaða sveitarstjórnar til kærufrests eða tilkynning þess til kærenda um gildistöku deiliskipulagsins ekki haft áhrif á lögbundinn kærufrest enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.