Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2021 Brú

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 5. febrúar 2021 um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. júlí 2021, er barst úrskurðarnefndinni 6. ágúst s.á., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru þinglýsts eiganda lóðar í landi Brúar í Bláskógabyggð, dags. 20. maí 2021, vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðuninni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 8. september 2021.

Málavextir: Í landi Brúar í Bláskógabyggð er í gildi deiliskipulag sem auglýst var í Stjórnar­tíðindum 25. október 2006. Með bréfi til skipulagsfulltrúa Uppsveita, dags. 12. september 2015, óskaði kærandi eftir að deiliskipulagið yrði tekið til endurskoðunar þar sem hann teldi að lóðir samkvæmt deiliskipulaginu tilheyrðu hans eignarlandi en eigandi jarðarinnar hefði í hyggju að setja lóðirnar á sölu. Eigandi jarðarinnar sendi skipulagsfulltrúa bréf, dags. 1. nóvember 2015, þar sem fram kom að um ágreining á eignarhaldi lands væri að ræða. Kærandi ítrekaði þá í bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2015, að lóðir nr. 24, 26, 30 og 32 í umræddu deiliskipulagi væru á landspildu kæranda. Bréfið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 7. janúar 2016. Í bókun nefndarinnar í fundargerð segir að ágreiningur væri á milli lóðarhafa og eiganda jarðarinnar Brúar um staðsetningu lóðar kæranda og gæti nefndin ekki úrskurðað um nákvæma staðsetningu hennar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði á grundvelli deiliskipulagsins fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sama dag.

 

Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2017 var erindi eiganda jarðarinnar Brúar lagt fram vegna framangreindrar bókunar. Taldi nefndin sig ekki geta staðsett lóðina með nákvæmum hætti en fól skipulagsfulltrúa að hafa samráð við Þjóðskrá Íslands og embætti sýslumanns um hvort óhætt væri að stofna lóðir í samræmi við gildandi deiliskipulag og falla þar með frá fyrri bókuninni. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af sveitarstjórn á fundi 2. febrúar 2017.

 

Sveitarstjórn fjallaði um erindi eiganda jarðarinnar Brúar, dags. 28. janúar 2021, á fundi sínum 5. febrúar s.á. Óskaði hann eftir endurupptöku málsins. Sveitarstjórn taldi fyrri ákvörðun um að ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á grundvelli gildandi deiliskipulags vera ógildanlega og afturkallaði hana. Vísað var til þess að þegar afsal það sem kærandi leiddi rétt sinn af var gefið út fyrir lóðina hafi afsalsgjafi ekki verið eigandi lóðarinnar sem kærandi teldi sig eiga tilkall til. Einnig var vísað til þess að þegar tillaga að deiliskipulagi svæðisins var auglýst í september 2006 hafi engin athuga­semd borist um afmörkun deiliskipulagssvæðisins.

 

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að lóðarafsal hans hafi staðið óátalið hjá sýslumanni frá árinu 1993. Eigandi jarðarinnar, sem telji sig eiganda umræddrar landspildu, hafi sýnt tómlæti með því að hafa ekki farið í formlegt ferli til að fá eignarhaldinu aflétt. Hann hafi með aðgerðarleysi sínu látið hjá líða að halda töldum rétti sínum til haga í 30 ár. Kærandi hafi óátalda þinglýsta eignar­heimild á tveggja hektara spildu úr landi Brúar og hafi hann eignast landið fyrir hefð en samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geti maður eignast fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi. Eigandi Brúar hafi alla tíð haft vitneskju um skráningu á landinu en látið ógert að fá eignarheimildinni aflétt.

 

Fasteignagjöld af tveggja hektara sumarbústaðalóð nr. 167223 hafi verið greidd í 30 ár til sveitar­félagsins án athugasemda þess. Afstaða sveitarfélagsins til þess hvort leyfa ætti deiliskipulagningu á svæðinu orki tvímælis. Kærandi sé þinglýstur eigandi að landi sem hægt sé að afmarka gróflega. Eina heimildin um staðsetningu lóðarinnar sé í þinglýstu afsali af lóðinni. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að taka afstöðu til þess að þinglýsing á eignarheimild standi eða ekki. Sveitar­félagið ætti ekki að heimila skipulag á landi sem sé þinglýst eign annars aðila og ætti að halda sig við að leyfa ekki deiliskipulagningu á landi kæranda. Á meðan þinglýsing sé í gildi og hægt sé að benda á að deiliskipulagið fari yfir land sem kærandi eigi þá sé það þess sem standi fyrir deiliskipu­lagningu að skýra eignarhaldið. Ekki sé hægt að leyfa deiliskipulag á þeim hluta sem kærandi eigi þegar athugasemd um það hafi verið komið fram.

 Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að kæran eigi ekki undir valdsvið úrskurðar­nefndarinnar og vísa eigi málinu frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Umrædd ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki skipulagslaga nr. 123/2010 og verði kæruheimild ekki byggð á þeim lögum. Þá sé ekki að finna kæruheimild vegna málsins í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd eða lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Af því leiði að ekki sé til staðar ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sæti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og beri nefndinni að vísa kröfum kæranda frá.

Telji úrskurðarnefndin að ákvörðun sveitarfélagsins eigi undir valdsvið nefndarinnar sé kæru­frestur til úrskurðarnefndarinnar liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sveitarfélagið hafi tilkynnt umboðsmanni kæranda um hina kærðu ákvörðun 10. febrúar 2021. Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og um þriggja mánaða kæru­frest, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Kæra hafi borist ráðuneytinu 20. maí 2021 og lögbundinn kærufrestur því liðinn, bæði eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar og þriggja mánaða kærufrestur til ráðuneytisins.

Verði ekki fallist á frávísun málsins geri sveitarfélagið þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðuninni hnekkt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að ágreiningur sé á milli kæranda og eigenda Brúar um eignarhald á umræddu svæði og deiliskipulag tekur til að hluta. Kærandi hafi ekki sýnt fram á eignarhald sitt og því eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr ágreiningi skorið fyrir nefndinni. Vísað sé til þess að þegar afsal það sem kærandi leiði rétt sinn af var gefið út fyrir Brú lóð, L. 167223, hafi afsalsgjafi ekki verið þinglýstur eigandi þess lands sem kærandi telji sig eiga tilkall til. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 verði hinn síðari rétthafi að öðlast réttindin með samningi við þinglýstan eiganda en af þinglýstum eignarheimildum virðist ekki vera hægt að rekja eignarhald fyrir lóðinni til annars lands en þess sem fyrri eigandi jarðarinnar Brúar hafi átt á þeim tíma sem hann afsalaði landinu. Af þinglýstum eignarheimildum eiganda jarðarinnar Brúar sé ljóst að hann sé afsalshafi af því landi sem umrætt deiliskipulag nái til.

Með hinni kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið afturkallað þá íþyngjandi ákvörðun að ekki sé hægt að stofna nýjar lóðir byggðar á gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eina skriflega og skýra heimildin um staðsetningu lóðarinnar L. 167223 sé í þinglýstu afsali fyrir lóðinni en þar segi: „Land þetta liggur næst landi Haraldar Sigurjónssonar sem er eigandi að landspildu í landi bæjarins Brúar í Biskups­tungum.“ Að teknu tilliti til annarra sumarbústaðalóða og ræktartúns þá sé staðsetningin augljós. Aðeins sé óvissa um lögun lóðarinnar. Athuga beri að sveitarfélagið hafi innheimt fasteignagjöld af sumarbústaðarlandinu í um 30 ár. Kærandi lesi ekki Stjórnartíðindi að staðaldri og því hafi auglýsing um deiliskipulag farið fram hjá honum árið 2006. Aftur á móti hafi eigandi jarðarinnar verið oddviti sveitarstjórnar og setið í skipulagsnefnd á árinu 2006. Hann hafi alla tíð vitað af ágreiningnum og hefði því átt að láta skipulagsnefnd vita af honum í upphafi.

Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til ráðuneytisins og um þriggja mánaða kærufrest. Óskað hafi verið eftir fresti til að skila inn kæru 5. maí 2021 og hann hafi verið veittur til 21. maí 2021. Ráðuneytinu hafi borist kæra 20. maí 2021.

Niðurstaða: Um kæruheimild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt það að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Líkt og greinir í málavöxtum má rekja upphaf máls þessa til erindis kæranda til skipulagsfulltrúa, dags. 12. september 2015, um að deiliskipulag yrði tekið til endurskoðunar þar sem landspilda kæranda lægi á lóðum í umræddu skipulagi. Sveitarstjórn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að úrskurða um nákvæma staðsetningu spildunnar og því væri ekki hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn afturkallaði þessa afgreiðslu á fundi sínum 5. febrúar 2021 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Skipulag eða breyting á skipulagi getur ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda. Þá er það ekki á valdi sveitarstjórna að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi um landa- eða lóðamörk og geta ákvarðanir þeirra ekki hróflað við eignarréttindum. Ef fyrir hendi er ágreiningur um eignarréttindi að landi verður sá ágreiningur eftir atvikum til lykta leiddur fyrir dómstólum. Verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun geti raskað lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.