Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2022 Völuskarð

Árið 2022, fimmtudaginn 31. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2022, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2022 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. janúar 2022, kærir eigandi fasteignarinnar að Völuskarði 32, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2022 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfirði 17. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 19. október 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina Völuskarð 32, en hún fól í sér að fyrirhugað einbýlishús á lóðinni yrði tvíbýlishús, bílastæðum yrði fjölgað um tvö og að gert yrði ráð fyrir opnu bílskýli. Með bréfum, dags. 7. desember s.á., var umsóknin grenndar­kynnt, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með athugasemdafresti til 7. janúar 2022. Á kynningartímanum bárust tvær athugasemdir. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 18. janúar 2022 var tekið undir framkomnar athugasemdir og umsókn um breytingu á deiliskipulagi Völuskarðs 32 hafnað.

Kærandi vísar til þess að í því skyni að auðvelda fjármögnun eignarinnar hafi verið ætlunin að skipta henni upp í tvo hluta og að foreldrar hans yrðu eigendur íbúðar á jarðhæð. Lóðin sé tiltölulega nálægt gatnamótum og því muni akstur inn botngötu, sem fasteignin standi við, ekki aukast mikið við fjölgun íbúða. Ef litið sé til Völuskarðs 28 megi álykta að sú fasteign hefði fordæmisgildi fyrir umsókn kæranda en þar sé einbýli með þremur íbúðareiningum.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er m.a. vísað til þess að meðferð sveitarfélagsins hafi verið samkvæmt lögum og reglum og erindi kæranda hafi verið grenndarkynnt áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Deiliskipulagið geri ráð fyrir einbýlishúsalóð og aðrir íbúar í götunni hafi keypt lóðir sínar í góðri trú um að það haldi. Með því að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús fjölgi íbúum og bílum sem þeim fylgi. Umferð um götuna muni óhjákvæmilega aukast með slíkri breytingu.

Niðurstaða: ­­­­Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og fara skipulags­nefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Sveitarstjórn er heimilt í sam­þykkt sveitar­félagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu þess heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deili­skipulags­­áætlana. Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitar­stjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitar­félagið annist. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðar­afgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

 Samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar var birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 3. mars 2021. Í 71. gr. samþykktarinnar kemur m.a. fram að skipulags- og byggingarráð fari með mál sem heyra undir skipulagslög og geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Þá geti bæjarstjórn falið skipulags- og byggingar­ráði og einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. samþykktarinnar. Samþykktinni fylgja fimm viðaukar um fullnaðar­afgreiðslur ráða, nefnda og starfsmanna í stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar án staðfestingar bæjar­stjórnar eða bæjarráðs. Í viðauka 1.1 er nánar mælt fyrir um skipulags- og byggingarráð. Í 1. mgr. 2. gr. viðaukans er að finna upptalningu í liðum a-d á þeim verkefnum sem ráðið afgreiðir án staðfestingar bæjarstjórnar og er þar vísað til þess að um sé að ræða verkefni skipulagslaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga. Í a-lið kemur fram að ráðið afgreiði án stað­festingar bæjarstjórnar öll mál sem skuli hljóta afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt skipulags­lögum, sbr. 6. gr. laganna, samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. sveitar­stjórnarlaga, svo sem afgreiðslu skipulagslýsinga og deiliskipulagsáætlana samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Undanskildar séu ákvarðanir um auglýsingu og afgreiðslu á svæðis-, aðal-, deili- og hverfis­skipulagi en þær ákvarðanir séu ávallt háðar samþykki bæjarstjórnar. Hið sama gildi um auglýsingu og afgreiðslu á tillögum að breytingum á slíkum áætlunum. Í c-lið sama ákvæðis kemur fram að ráðið afgreiði án staðfestingar bæjarstjórnar ákvörðun um afgreiðslu deili­skipulags samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga ef engar athugasemdir berist á auglýsinga­tíma. Samkvæmt framansögðu hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar falið skipulags- og byggingarráði að fara með verkefni skipulagsnefndar samkvæmt 6. gr. skipulagslaga og jafn­framt framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu ákveðinna skipulagsmála til ráðsins, þ. á m. varðandi ákvörðun um afgreiðslu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga ef engar athugasemdir berast.

Tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar. Brast skipulags- og byggingarráði samkvæmt framansögðu því vald til að afgreiða með endanlegum hætti hina umþrættu deiliskipulagsbreytingu. Verður að líta svo á að í synjun ráðsins á umsókn kæranda um deiliskipulagsbreytinguna hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitar­stjórnar­laga. Ekki liggur fyrir að bæjarstjórn hafi með lögformlegum hætti tekið umsóknir vegna umræddrar lóðar til umfjöllunar í kjölfar hinnar kærðu afgreiðslu nefndarinnar.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.