Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

160/2021 Tjarnarstígur

Árið 2022, miðvikudaginn 23. mars, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála, fyrir mál nr. 160/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. október 2021, kærir þáverandi eigandi, Tjarnarstíg 4, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sel­tjarnarnes­bæjar frá 11. október 2021 að veita leyfi til að byggja bílskúr að Tjarnarstíg 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá má ráða af málatilbúnaði kæranda að einnig sé kærð breyting á deiliskipulagi Lambastaðahverfis varðandi Tjarnarstíg 10 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 17. nóvember 2021.

Málsatvik og rök: Ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar um breytingu á deiliskipulagi Lambastaðahverfis vegna Tjarnarstígs 10 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2021. Þar kom fram að breytingin fæli í sér heimild fyrir bílskúr á nýjum byggingarreit á lóð Tjarnarstígs 10 og að nýtingarhlutfall lóðar væri hækkað. Á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar 23. júní s.á. var umsókn um leyfi til að reisa bílskúr á  lóðinni samþykkt og gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum 11. október 2021.

Kærandi vísar til þess að umrædd breyting á deiliskipulagi hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir honum þrátt fyrir að augljóst væri að bílskúrinn myndi hafa áhrif á útsýni hans til sjávar, en lög séu skýr um að hagsmunaaðilar eigi að fá nýtt deiliskipulag kynnt. Kærandi hefði aldrei sam­þykkt breytingarnar en hefði getað veitt samþykki sitt væri skúrinn niður­grafinn að hluta.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er vísað til þess að ekki hafi verið talin þörf á að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi fyrir eiganda Tjarnarstígs 4 þar sem í eldra deiliskipulagi hafi verið heimildir til að skerða verulega útsýni frá umræddri fasteign til sjávar og breytingin falið í sér minni skerðingu á útsýni.

Af hálfu leyfishafa er m.a. bent á að fyrirhugaður bílskúr fari ekki í bága við skilmála gildandi deili­­skipulags.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Málatilbúnaður kæranda í kærumáli þessu byggir á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda Tjarnarstígs 4 á Seltjarnarnesi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteigna­skrá Þjóðskrár Íslands seldi kærandi umrædda fasteign með kaupsamningi, dags. 7. desember 2021, og var afsali fyrir fasteigninni þinglýst 21. mars 2022.  Á kærandi því ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildra ákvarðana sem tengjast nefndri fasteign. Nýir eigendur Tjarnarstígs 4 hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki taka við aðild í kærumálinu.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.