Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2022 Upplýsingaskilti Landspítalans

Árið 2022, miðvikudaginn 18. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 6/2022, kæra á synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni húsfélagsins Sléttuvegi 19, 21 og 23, um að fjarlægja upplýsingaskilti á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23, synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni um að taka niður upplýsingaskilti Landspítalans í Fossvogi á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Með afnotasamningi við Reykjavíkurborg, dags. 15. september 2011, tók húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23 að sér alla umhirðu og rekstur á flága sem liggur frá gangstétt að lóðarmörkum Sléttuvegar 19-23. Var samningurinn gerður til 70 ára og þinglýst sem kvöð á lóðinni Sléttuvegur 19-23. Um mánaðarmótin nóvember/desember 2021 var upplýsingaskilti fyrir Landspítalann í Fossvogi sett upp á umræddum flága. Kærandi mótmælti framkvæmdinni og í tölvupósti, dags. 8. desember s.á, var þess krafist að skiltið yrði fjarlægt. Verkefnastjóri framkvæmda- og viðhalds hjá Reykjavíkurborg hafnaði beiðni kæranda með tölvupósti 13. s.m.

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að taka einhliða ákvörðun um að setja umdeilt upplýsingaskilti á lóðarflágann við lóð kæranda. Afnota­samningur feli í sér að hann hafi afnot flágans og því hafi borgaryfirvöldum borið að bera ákvörðun um uppsetningu skiltisins á lóðinni undir kæranda og taka tillit til afstöðu hans þegar tekin hafi verið ákvörðun um notkun flágans. Borgaryfirvöldum hafi borið að óska eftir breytingum á deiliskipulagi og hefði kærandi þá átt kost á að koma að athugasemdum við hefðbundna meðferð málsins samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé það óeðlilegt að upplýsingaskilti fyrir Landspítalann sé á lóð nágranna. Skiltið feli í sér verulega sjónmengun vegna stærðar sinnar og lýsingar sem sé á skiltinu auk þess sem það gæti blindað útsýni þeirra sem aki Sléttuveginn í austur og taki vinstri beygju upp Háaleitisbraut.

 Borgaryfirvöld benda á að afnotasamningur vegna flágans snúi einungis að rekstri og umhirðu. Ekkert í samningnum komi í veg fyrir að borgin, sem sé eigandi flágans, geti nýtt hann með þessum hætti enda verði ekki séð að skiltið raski neinum hagsmunum kæranda. Hann hafi engar heimildir til nýtingar flágans og ekki verði séð að skiltið hafi áhrif á möguleika kæranda til reksturs og umhirðu hans. Staðsetning skiltisins sé ekki deiliskipulagsskyld þar sem ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Stærð og umfang skiltisins sé aðeins 2,32 m á breidd og 1,35 m á hæð og af því sé engin sjónmengun. Verkfræðistofa hafi verið fengin til að kanna aðstæður m.t.t. umferðaröryggis og niðurstaða athugunarinnar hafi verið sú að útsýni skerðist óverulega frá gatnamótum. Skiltið sé nauðsynlegt til að leiðbeina þeim sem eigi erindi á Landspítalann og því málefnaleg rök fyrir tilvist þess.

 Kærandi tekur fram í athugasemdum sínum við rök borgaryfirvalda að orðalag afnotasamningsins um rekstur flágans taki til ákvarðana um framkvæmdir á fláganum, s.s. að reisa upplýsingaskipti. Um sé að ræða framkvæmd sem feli í sér að steypa undirstöður, leggja rafmagn að skiltinu fyrir lýsingu o.fl. Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sem þarfnist kynningar eða a.m.k. grenndarkynningar með vísan til 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kafla 2.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum, en svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Því sé ekki mótmælt að skiltið sé nauðsynlegt en ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að það standi á umræddri lóð í stað þess að standa á lóð Landspítalans.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um að fjarlægja upplýsingaskilti á landflága er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki annast byggingarfulltrúi eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og eftir atvikum útgefnu leyfi. Kveðið er á um í 55. og 56. gr. laganna heimildir byggingarfulltrúa til að beita þar greindum þvingunarúrræðum, svo sem í því skyni að fjarlægja ólögmæt mannvirki. Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var í tölvupósti kæranda, dags. 8. desember 2021 farið fram á beitingu slíkra úrræða. Barst kæranda tölvupóstur 13. s.m. frá starfsmanni skrifstofu framkvæmda- og viðhalds á vegum borgarinnar þar sem fram kom að beiðni hans væri hafnað. Þrátt fyrir að þar komi fram ákveðin afstaða til erindis kæranda verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ekki um að ræða afgreiðslu byggingarfulltrúa sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort umdeilt skilti skyldi fjarlægt eður ei. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Liggur samkvæmt framangreindu ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðanefndina, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.