Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

184/2021 Vegur innan Laugarvatns

Árið 2022, miðvikudaginn 23. mars, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 184/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Ásvélar ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. nóvember s.á. að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir færslu Laugarvatnsvegar (Dalbrautar) á um 500 m kafla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 26. janúar 2022.

Málavextir og rök: Bláskógabyggð barst umsókn um framkvæmdaleyfi 30. september 2021 frá Vegagerðinni þar sem fyrirhugað var að færa Laugarvatnsveg (Dalbraut) á um 500 m kafla. Bláskógabyggð birti auglýsingu um hina fyrirhuguðu framkvæmd í Bláskógafréttum í október s.á. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita tók umsókn Vegagerðarinnar fyrir á fundi 27. október s.á. og lagði til við sveitarstjórn að útgáfa framkvæmdaleyfis yrði samþykkt á grundvelli deiliskipulags fyrir þéttbýlið á Laugarvatni. Sveitarstjórn Bláskóga­byggðar samþykkti útgáfu framkvæmdaleyfisins á fundi 4. nóvember s.á. og fól skipulagsfulltrúa útgáfu þess.

 Kærandi vísar til þess að sú hækkun á veginum sem framkvæmdaleyfið feli í sér muni hafa mikil áhrif á snjómokstur sem kærandi annist á svæðinu. Þau gögn sem lögð hafi verið fram með umsókninni um framkvæmdaleyfið hafi verið ófullnægjandi og hefði því átt að synja um útgáfu þess. Ef fullnægjandi gögn hefðu fylgt hefði kærandi séð að verið væri að óska eftir rúmlega meters hækkun á veginum og hefði þá getað skilað inn athugasemdum. Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi þar sem hækkun vegarins hafi mikil áhrif á störf hans.

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga, nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun um útgáfu­ framkvæmdaleyfis hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. nóvember 2021 og fundagerð birt opinberlega á vef sveitarfélagsins degi síðar. Kæran hafi borist úrskurðarnefndinni 27. desember s.á. að loknum kærufresti. Þá eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinu kærða framkvæmdaleyfi sem sé skilyrði fyrir kæruaðild skv. 3. mgr. 4. gr. laga um nr. 130/2011. Kærandi sjái ekki um snjómokstur á svæðinu heldur annist Vegagerðin þjónustu á umræddum vegi. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið tekin á grundvelli gildandi deiliskipulags lögum samkvæmt og fullyrðingar um ófullnægjandi gögn séu rangar.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundna hagsmuni umfram aðra tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Samkvæmt fyrirliggjandi staðfestingu frá Vegagerðinni annast hún snjómokstur á umræddum vegi sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til en ekki kærandi. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að hin kærða ákvörðun snerti að öðru leyti hagsmuni kæranda með þeim hætti að leitt geti til kæruaðilar hans í máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.