Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2016 Kólumbusarbryggja

Með

Árið 2022, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Tekin er fyrir endurupptaka máls nr. 59/2016, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusar­bryggju 1, Snæfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 4. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála óskaði þáverandi lögmaður Móabyggðar ehf. eftir endurupptöku á máli nr. 59/2016. Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 19. ágúst 2016 var hafnað kröfu kæranda um ógildingu  ákvörðunar Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. október 2021, var fallist á beiðni kæranda um endur­upptöku málsins á þeim grundvelli að skilyrði endurupptöku skv. 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru uppfyllt. Byggði ákvörðunin á niðurstöðu úrskurðar yfir­fasteigna­matsnefndar þess efnis að hin umrædda fasteign skyldi aðeins bera lóðarmat frá árinu 2015 til 5. desember 2016 og að fráveitugjöld fyrir árin 2015 og 2016 hefðu í kjölfarið verið endurútreiknuð. Jafnframt var vísað til dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-63/2019 frá 14. apríl 2021 sem fjallaði meðal annars um fasteignagjöld vegna Kólumbusarbryggju 1, en þau samanstanda m.a. af fráveitugjöldum þeim sem til umfjöllunar eru í kærumáli nr. 59/2016.

Þegar niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um endurupptöku málsins lá fyrir hafði fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 14. apríl 2021 verið áfrýjað til Landsréttar og var frekari meðferð málsins því frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í dómsmálinu. Með dómi Landsréttar í máli nr. 301/2021 frá 14. október 2022 var Snæfellsbær sýknaður af kröfum kæranda. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.: „Í fjórða lagi krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi endurgreiði sér fasteignagjöld vegna tímabilsins 1. júlí 2015 til 15. maí 2018, samtals að fjárhæð 14.041.684 krónur auk dráttarvaxta. Líkt og áður greinir bar gagnáfrýjanda engin skylda til að samþykkja niðurrif húsnæðis aðaláfrýjanda og bar honum lögum samkvæmt að greiða fasteignagjöld þar til það samkomulag sem náðist milli aðila kom til framkvæmda. Standa því engin rök til endurgreiðslukröfunnar.“

Kærendur óskuðu eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar og var beiðni þeirra hafnað með bréfi, dags. 21. desember 2022. Er dómur Landsréttar frá 14. október s.á. því endanlegur dómur í málinu.

 Niðurstaða: Með vísan til þess sem að framan er rakið þá liggur fyrir dómur Landsréttar í máli nr. 301/2021 frá 14. október 2022 þar sem sveitarfélagið var sýknað af kröfum kæranda um endurgreiðslu fasteignagjalda vegna tímabilsins 1. júlí 2015 til 15. maí 2018. Fasteignagjöld samanstanda meðal annars af fráveitugjöldum og varða því þann ágreining sem kærumál þetta snýst um. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættis­mörk yfirvalda og hafa þeir því lokaorð um þann ágreining sem undir þá er borinn.

Með greindum dómi verður ekki annað ráðið en að ágreiningsefni er varðar greiðslu fráveitu­gjalda hafi endanlega verið leidd til lykta. Þar með verður ekki talið að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu fráveitugjalda og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

141/2022 Völvufell

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 28. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 141/2022, kæra á byggingarframkvæmdir á Völvufellsreit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 13. desember 2022, kæra íbúar Yrsufells 42, Reykjavík, byggingarframkvæmdir á Völvufellsreit. Verður að skilja kæru sem svo að þess sé krafist að heimild til framkvæmda verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. desember 2022.

Málavextir: Á fundi borgarráðs 2. desember 2021 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Breiðholts III, Fell vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells. Breytingin fólst í heimild til niðurrifs á leikskólunum Litla Holti og Stóra Holti, uppbyggingar nýs leikskóla með aðkomu frá göngugötu við Drafnarfell og Völvufell, auk uppbyggingar fyrir námsmannaíbúðir og sérbýli á grænum þróunarlóðum. Einnig voru þegar fengnar byggingarheimildir á lóð Drafnarfells 2-18 ofan verslana og uppbyggingarheimildir á lóð Eddufells 2-4 endurskoðaðar. Auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. febrúar 2022.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að Reykjavíkurborg fari offorsi í þéttingu byggðar og ekki sé hugað að lýðheilsu íbúa í nálægð við þéttingarreiti. Því sé sérstaklega mótmælt að byggja eigi leikskóla nánast upp við húsgafl Yrsufells 42, þétt við göngustíg á lóðarmörkum. Efast megi um að heimilt sé að byggja svo nálægt íbúðarhúsnæði þar sem ekki hafi fengist leyfi fyrir færanlegri kennslustofu í um 20 m fjarlægð frá húsinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að engar byggingarframkvæmdir hafi verið samþykktar hvað varði leikskóla á Völvufellsreit og að engin umsókn þess efnis hafi borist embætti byggingarfulltrúa. Verði því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá borgaryfirvöldum hafa hinar umdeildu byggingarframkvæmdir ekki vera samþykktar af byggingarfulltrúa. Er því ekki fyrir hendi stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

132/2022 Suðurleið, Tjarnarbyggð

Með

Árið 2022, föstudaginn 23. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 132/2022, kæra vegna tilkynningar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 16. nóvember 2022, um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 22. nóvember 2022, kærir lóðarhafi Suðurleiðar 8, Sveitarfélaginu Árborg, tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., um fyrirhugaða beitingu þvingunar­úrræða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 23. nóvember 2022.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að við eftirlitsferð að lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbyggð á Selfossi hefði komið í ljós að tvö hús og einn gámur væru staðsett á lóðinni. Í gagnagrunni byggingarfulltrúa væri ekki að finna nein gögn sem gæfu til kynna að gefið hefði verið út leyfi fyrir húsunum eða stöðuleyfi fyrir umræddum gámi. Var gerð sú krafa að húsin og gámurinn yrðu fjarlægð af lóðinni hið fyrsta. Ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir til að fjarlægja húsin og gáminn fyrir 7. desember s.á. myndi byggingarfulltrúi láta fjarlægja þau á kostnað eiganda sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.6.2 byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Yrði lóðarhafi ekki við tilmælunum yrðu dagsektum beitt, allt að kr. 500.000, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2 í byggingarreglugerð. Var kæranda leiðbeint um andmælarétt skv. 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi bendir á að heimilt sé að reisa allt að þrjá kofa á hverri íbúðarhúsalóð án byggingarleyfis, séu þeir undir 15 m2, án vatns og raflagna. Þá megi samkvæmt nýorðnum breytingum á byggingarreglugerð nr. 112/2012 reisa frístundahús/aukahús, allt að 40 m2, með öllum lögnum, án byggingarleyfis og einungis beri að tilkynna slíka framkvæmd. Þau hús sem standi að Suðurleið 8 falli undir hvora regluna um sig. Húsin séu bæði án lagna og ekki jarðföst og teljist því ekki mannvirki. Hvað gáminn varði hafi farist fyrir að sækja um leyfi en verið sé að undirbúa lögsókn þess efnis að gámar sem standi á eignarlandi eigi ekki að falla undir sömu reglur og leyfisveitingar líkt og á leigulóðum eða innan bæjarmarka.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að við sendingu umrædds bréfs, dags. 16. nóvember 2022, hafi engin ákvörðun um þvingunarúrræði verið tekin en að ranglega hafi ratað inn í bréfið leiðbeiningar um kæruheimildir, þrátt fyrir að engin kæranleg ákvörðun lægi fyrir. Ljóst hafi orðið við nánari skoðun að bréf byggingarfulltrúa til kæranda hafi ekki verið eins skýrt og ákjósanlegt hefði verið og verði lóðarhöfum sent nýtt bréf þar sem skýrar verði kveðið á um feril máls af þessu tagi. Verði að lokum tekin ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum verði lóðarhafa tilkynnt um það og hann upplýstur um viðeigandi kæruheimildir í því sambandi. Vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem skilyrði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem leiði það til lykta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um bréf byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar þar sem kæranda er tilkynnt um fyrirhuguð þvingunarúrræði verði hann ekki við fyrirmælum um að fjarlægja tvö hús og gám af lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbygg. Tilkynning um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða er liður í málsmeðferð en ekki lokaákvörðun um beitingu þeirra enda var kæranda veittur frestur til andmæla samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilkynning stjórnvalds um fyrirhuguð þvingunarúrræði geta eðli málsins samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Fól bréf byggingarfulltrúa því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

125/2022 Hólmasel

Með

Árið 2022, 14. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 125/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 0104 að Hólmaseli 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma. Er þess krafist að byggingarfulltrúi veiti nákvæmar upplýsingar um hvaða uppdrætti hann þurfti til að geta lokið erindi kæranda. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að byggingarfulltrúi veiti upplýsingar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. desember 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 12. maí 1998 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn þáverandi eiganda fyrrgreinds eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli 2 um byggingarleyfi til að breyta atvinnuhúsnæði í rýmum 01-0103 og 01-0104 í íbúðir og breyta innbyrðis stærðarhlutföllum eignarhlutanna. Í rými 01-0103 hafði verið 37,7 m2 verslunarhúsnæði og í rými 01-0104 hafði verið 107 m2 sérhæfð eign. Í samþykkt byggingarfulltrúa var tekið fram að lokaúttekt byggingarfulltrúa væri áskilin og að leyfið félli úr gildi hæfust framkvæmdir ekki innan árs frá samþykki þess. Lokaúttekt þessi virðist aldrei hafa farið fram.

Reykjavíkurborg sendi engu að síður tilkynningu, dags. 5. desember 2000, til Fasteignamats ríkisins, nú Þjóðskrár, um að notkun rýmis 01-0104 skyldi breytt úr sérhæfðri eign í íbúð og var sú breyting skráð í fasteignaskrá 14. s.m. Skráningin byggðist á teikningu samþykktri 12. maí 1998 og meðfylgjandi skráningartöflu. Samkvæmt teikningunni er rými 01-0103 íbúð að stærð 91 m2 og rými 01-0104 íbúð að stærð 53,9 m2. Breytingar á innbyrðis stærðum eignarhlutanna, sem fram komu á teikningunni voru þó aldrei gerðar.

Hinn 26. október 2015 sendi Reykjavíkurborg aðra tilkynningu til Þjóðskrár þess efnis að samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu skyldi rými 01-0104 skráð sem þjónustuhúsnæði og sett í skattflokk með atvinnuhúsnæði og skráningu eignarhlutans breytt í samræmi við það sama dag. Kærandi fékk tilkynningu frá Reykjavíkurborg, dags. 28. nóvember 2015, um að álagning fasteignagjalda hefði verið endurskoðuð. Var tekið fram að breytingin tæki til þess að 107 m2 íbúðarhúsnæði yrði skattlagt sem atvinnuhúsnæði. Átti kærandi í nokkrum samskiptum við Reykjavíkurborg í kjölfar þessa og sótti hann um byggingarleyfi vegna umrædds húsnæðis 18. desember 2017. Í umsókninni var sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar“. Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 15. desember 2017, kemur jafnframt fram að sótt sé um byggingarleyfi til að endurskrá rými 01-0104 sem íbúð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2018 var erindi kæranda tekið fyrir. Samkvæmt tilkynningu um afgreiðslu máls, dags. 21. s.m., kemur fram að „[s]ótt [sé] um leyfi til að breyta áður samþykktu erindi BN016633 sem ekki tók gildi en nú er búið að framkvæma og hefur að auki breyst þannig að íbúð 0103 minnkar og 0104 er að hluta til orðið bílskúr með hurð inn í hann á norðurhlið húss á lóð nr. 2 við Hólmasel.“ Erindi kæranda var hafnað þar sem samþykki meðeigenda skorti.

Niðurstaða byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kvað upp úrskurð 11. júní 2019, í máli nr. 47/2018. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að notkunarbreyting rýmisins frá árinu 1998 héldi gildi sínu. Þeir þættir byggingarleyfisins sem sneru að veggjum, mörkum og stærð eignarhlutanna hefðu aldrei verið framkvæmdir og ekki hefði farið fram lokaúttekt vegna þeirra. Hefðu þeir þættir því fallið úr gildi 12 mánuðum eftir útgáfu leyfisins skv. gr. 13.1 þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá hafi umsókn kæranda einungis varðað rými 01-0104, en ekki einnig rými 01-0103, líkt og byggingarfulltrúi hafi talið. Var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi þar sem hin kærða ákvörðun hefði ekki byggst á viðhlítandi forsendum og  rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hefði verið verulega áfátt.

Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi nokkur bréf til Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að með úrskurði í máli nr. 47/2018 hafi verið staðfest að byggingarleyfi hans væri í gildi og spyr af hvaða sökum málið hafi ekki verið afgreitt endanlega af borgarinnar hálfu. Kærandi sendi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og 20. desember 2019 barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 27. febrúar 2020, í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m. og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Úrskurðarnefndinni barst að nýju kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins 3. desember 2020. Var kærunni vísað frá með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 8. febrúar 2021, í máli nr. 129/2020, þar sem umsóknin hafði þegar verið samþykkt. Kærandi sendi að nýju kæru vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. október 2022. Er það sú kæra sem er til afgreiðslu í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi engin svör fengið við fyrirspurnum sínum um hvaða uppdrætti hann þurfi að leggja fram til að fá byggingaráform sín samþykkt. Kærandi krefst þess að fá skýr svör um hvað þurfi að gera til að fá byggingarleyfi. Hvað snerti eignaskiptayfirlýsingu vegna Hólmasels 2, þá sé hún tilbúin en fáist ekki afgreidd hjá Reykjavíkurborg vegna skorts á samþykki annarra eigenda í húsinu. Þar sem eignarhlutar séu færri en sex þurfi samþykki einfalds meirihluta, en fengist hafi samþykki frá eigendum eignarhluta 01-0101, sem eigi 26% í húsinu. Kærandi og eiginkona hans eigi eignarhluta 01-0103 og 01-0104, sem séu 32% af húsinu. Eigandi eignarhluta 01-0102 eigi einn eignarhlut og 42% í húsinu. Sé því um brot á 33. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er með umsögn dags 8. desember 2022 bent á að með umsókn um byggingarleyfi, dags. 21. nóvember 2019, hafi verið sótt um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á fjölbýlishúsi á lóð nr. 2 við Hólmasel. Umsókn um byggingarleyfi hafi borist í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 47/2018. Erindið hafi verið tekið fyrir á embættis­afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember 2019, þar sem því hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra. Málið hafi þar verið tekið fyrir 21. janúar 2020 þar sem afgreiðslu hafi verið frestað með vísan til athugasemda. Málinu hafi verið frestað á embættisafgreiðslufundum 21. apríl, 28. apríl og 12. maí 2020 með sambærilegri afgreiðslu. Erindið hafi að endingu verið samþykkt 10. nóvember 2020.

Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Í gátlista með umsókninni sé ítrekað að skila þurfi inn nýrri skráningartöflu. Jafnframt komi fram í gátlista að sækja hafi þurft um „hurð“ á norðausturhlið hússins með því að senda inn nýjar útlitsteikningar, sem og samþykki meðeigenda. Kærandi hafi brugðist við athugasemdunum með bréfi, dags. 30 október 2020, með nýrri skráningartöflu og yfirlýsingu um að steypt yrði upp í „hurðargat“ á norðausturhlið hússins. Nú liggi fyrir uppfærð eignaskipta­yfirlýsing sem sé í undirritun hjá meðeigendum að Hólmaseli 2 en um leið og undirskriftir muni berast þá muni  byggingarfulltrúi samþykkja yfirlýsinguna, sem síðan verði send til þinglýsingar. Með vísan til þessa sé því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti þannig að embætti byggingarfulltrúa verði um kennt. Hið rétta sé að kærandi hafi brugðist seint við athugasemdum sem gerðar hafi verið og enn sé beðið samþykkis meðeigenda í húsinu.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvörðun sem hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns, enda hafi byggingarleyfi verið samþykkt. Með vísan til þess, sem og almennra meginreglna stjórnsýsluréttar, verði ekki séð að kærandi hafi lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefni hafi nú þegar verið afgreitt. Hefði kæra um drátt á málsmeðferð þurft að berast áður en ákvörðun hafi verið tekin, þ.e. undir meðferð málsins. Með vísan til þess sé gerð krafa um að þessum kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að gefa „allar nauðsynlegar upplýsingar“ til að hægt sé að „afgreiða málið með fullsamþykktu byggingarleyfi“. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra telst samþykki byggingaráforma.

Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að það tafðist að samþykkja byggingarleyfi til kæranda má rekja til atriða sem voru á hendi kæranda sjálfs, sem eiganda eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli. Til nánari leiðbeiningar um gerð eignarskiptayfirlýsingar vísast til ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sem og reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar. Ákvarðanir samkvæmt þeim lögum verða ekki bornar undir nefndina til úrskurðar.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsókn kæranda um byggingarleyfi 10. nóvember 2020, en skráningartafla sú sem kærandi víkur að í kæru hefur verið samþykkt. Það hefur ekki þýðingu að lögum, við þessar aðstæður, að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi. Verður kröfu kæranda því vísað frá með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

119/2022 Aðgangur að gögnum máls

Með

Árið 2022, 5. desember 2022, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 119/2022, kæra vegna dráttar á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2022, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, drátt á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hlutist til um að gögn málsins verði afhent kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. nóvember 2022.

Málavextir: Í september 2020 sendi kærandi máls þessa erindi til Reykjavíkurborgar og fór fram á að borgin nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði sem stækkað hefði verið við Furugerði 2, án tilskilinna leyfa, yrði fært í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 synjaði embætti byggingarfulltrúa að beita úrræðum þeim er farið væri fram á. Málið var þó áfram til meðferðar hjá Reykjavíkurborg og í maí 2022 kærði kærandi óhæfilegan drátt á afgreiðslu þess til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 27. júní s.á. barst kæranda svar eftirlitsdeildar Reykjavíkurborgar þar sem m.a. kom fram að niðurstaða hennar væri sú að umrætt bílastæði væri ekki í samræmi við samþykktar heimildir og að áfram yrði unnið að úrlausn málsins. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 27. september s.á., í máli nr. 45/2022, var lagt fyrir embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, í ljósi framvindu málsins, að taka erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg var kærandi upplýstur um að „samtal“ stæði yfir við eigendur Furugerðis 2 vegna bílastæða á lóðinni og að unnið væri að lausn málsins. Í framhaldi óskaði kærandi eftir því með tölvupósti til eftirlitsdeildarinnar 15. júlí 2022 að fá afrit af „öllum gögnum tengdum þessum samskiptum, þar á meðal fundargerðum, bréfum, tölvupóstum og eftir atvikum öðrum gögnum sem liggja fyrir.“ Frekari tölvupóstsamskipti urðu á milli kæranda og deildarinnar vegna málsins og 18. ágúst s.á. var kæranda svarað á þann veg að óskað yrði eftir því að gögn sem tilheyrðu málinu yrðu tekin saman eftir því sem þau væru til. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti 16. september 2022 og barst sama dag það svar að öll gögn sem til væru á sviðinu vegna málsins hefðu verið afhent kæranda. Jafnframt var bent á að unnt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að honum hafi engin gögn borist þrátt fyrir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að þeirra hafi verið óskað og því lofað að þau yrðu tekin saman. Dregið sé í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Fram hafi komið í svari eftirlitsdeildar til kæranda 27. júní 2022 að deildin hygðist „upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins“, en kærandi hafi ekki fengið aðgang að þeim samskiptum sem gera verði ráð fyrir að átt hafi sér stað í framhaldi. Jafnframt hafi kærandi óskað eftir öllum fundargerðum vegna málsins en engar fengið. Í ljósi þessa sé þess óskað að úrskurðarnefndin staðreyni hvaða gögn séu fyrirliggjandi í málinu með því að óska eftir upplýsingum úr málaskrárkerfi Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni. Kæra vegna dráttar á afhendingu gagna falli undir úrskurðarnefnd upplýsingamála en ekki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum fer samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Nær réttur almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum máls, þ.m.t. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og lista yfir málsgögn, sbr. 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls einnig rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varða og er sá réttur ríkari heldur en sá réttur sem almenningi er tryggður með lögum nr. 140/2012. Er réttur aðila máls til aðgangs að upplýsingum nátengdur andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að aðila getur borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að loknu stjórnsýslumáli, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína.

Þegar kærandi fór fyrst fram á að fá gögn málsins afhent hjá Reykjavíkurborg var hann aðili að kærumáli nr. 45/2022 fyrir úrskurðarnefndinni sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans. Lauk því kærumáli með úrskurði sem kveðinn var upp 27. september 2022. Fyrir liggur að kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi ekki afhent honum nánar tilgreind gögn er málið varðar, en því er andmælt af hálfu sveitarfélagsins. Hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar borgarinnar, en gerir þá bendingu að gagnabeiðni sem þessi getur m.a. náð til yfirlita úr málaskrárkerfi.

Ákvörðun sveitarfélags um beitingu þvingunarúrræða er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verður ágreiningur um synjun um aðgang að gögnum máls eða takmörkun á aðgangi gagna við málsmeðferðina því einnig borinn undir nefndina, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi, líkt og Reykjavíkurborg greinir frá, er ekki um að ræða synjun eða takmörkun á aðgangi á gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þessa er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

121/2022 Selvogsgata

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 121/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022, um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2022, er barst nefndinni 20 s.m., kærir eigandi, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars varðandi lóðina að Selvogsgötu 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðjarkaupstað 14. nóvember 2022.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 31. ágúst 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars þar sem hámarksbyggingarmagn á lóðinni að Selvogsgötu 3 var aukið í 225 m2, hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar var aukið og gerður nýr byggingarreitur fyrir geymslu í NV-horni lóðarinnar.

Kærandi telur að ekki séu skilyrði til samþykktar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Hafi stækkun lóðarinnar að Selvogsgötu 3 þar, sem nú eigi að heimila byggingu skúrs, ekki öðlast lögformlegt gildi og líta beri á deiliskipulagið fyrir svæðið eins og það hafi verið áður en stækkuninni hefði verið bætt við, en þá hefði lóðarparturinn ekki tilheyrt þeirri lóð.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhugaður skúr muni ekki hafa nein áhrif á lóð kæranda þar sem fyrir sé hár steyptur veggur og einnig sé þak á garðskúr kæranda sem nái meðfram veggnum. Ef einhver skuggamyndun verði af fyrirhuguðum skúr muni sá skuggi falla á þak geymsluskúrs kæranda.

 Niðurstaða: Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefur ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

 Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

93/2022 Ástu-Sólliljugata

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2022, kæra á „athafnaleysi og synjun bæjaryfirvalda“ Mosfellsbæjar á erindum kæranda frá 26. ágúst 2019, 23. mars 2020, 3. febrúar 2022 og 7. júlí 2022 varðandi vegstæði norðan lóðar hans.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Ástu-Sólliljugötu 19-21, Mosfellsbæ, „athafnaleysi og synjun bæjaryfirvalda“ á erindum hans. Er þess krafist að Mosfellsbær gangi frá svæðinu norðan við lóðina Ástu-Sólliljugötu 19-21 í samræmi við deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis frá 13. desember 2006. Skilja verður málsskot kæranda sem svo að kærðar séu synjanir bæjaryfirvalda á erindum hans og þess sé krafist að þær verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 21. september 2022.

Málavextir: Ástu-Sólliljugata í Mosfellsbæ er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis frá árinu 2006. Hinn 26. ágúst 2019 sendi kærandi erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar og óskaði hann þess að vegur norðan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 upp að Helgafellslandi 1 yrði aflagður og að aðfluttur jarðvegur vegna vegarins yrði fjarlægður af lóðinni. Þá var farið fram á að landið norðan við lóðina yrði mótað frá lóðarmörkum upp í hlíðina norðan við núverandi veg og hæð lóðarmarka yrði því sem næst 66,1 metrum yfir sjávarmáli og hallandi þaðan upp í um 70 metra yfir sjávarmáli. Að auki yrði gengið frá Bergrúnargötu upp að Helgafellslandi 1 svo hægt væri að ganga frá lóðarmörkum Bergrúnargötu 7-9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21. Í umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs, dags. 7. október 2019 sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum 10. s.m. kom m.a. fram að kvöð væri um aðkomu að Helgafellslandi 1 að vestanverðu í þinglýstum gögnum. Vegurinn væri á einkalandi og yrði því ekki aflagður að svo komnu. Gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir að aðkomuvegur að Helgafelli 1 yrði um Bergrúnargötu en ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir landið norðan þess. Þá væri ekki mögulegt að fara út fyrir lóðir með landmótun þar sem landið norðan við Ástu-Sólliljugötu væri í einkaeigu. Tryggja þyrfti að nýtt deiliskipulag Helgafellslands spili saman við gildandi deiliskipulag 2. áfanga áður en farið yrði í framkvæmdir við veg sem tengi saman tvo skipulagsáfanga. Því væri illmögulegt að fara í framkvæmdir við umrædda tengingu fyrr en það lægi fyrir.

Kærandi áréttaði óskir sínar í bréfi til bæjarráðs, dags. 23. mars 2020. Á fundi sínum 2. apríl s.á. vísaði bæjarráð erindinu til umsagnar og afgreiðslu umhverfissviðs. Kærandi ítrekaði erindi sitt 17. ágúst 2020. Framkvæmdastjóri umhverfissviðs svaraði sama dag með tölvubréfi og var umsögnin frá 7. október 2019 meðfylgjandi. Fram kom m.a. að svör vegna lokunar vegarins væru óbreytt. Á meðan ekki væri búið að ljúka við skipulagningu svæðisins ofan við Ástu-Sólliljugötu væri ómögulegt að afleggja aðkomuveg að Helgafellslandi 1 sem og móta land og lækka utan lóðar Ástu-Sólliljugötu 19-21. Hinn 25. ágúst 2020 var haldinn fundur þar sem kærandi og starfsmenn sveitarfélagsins hittust á Ástu-Sólliljugötu 19-21 og mun fundarefni hafa verið mögulegur frágangur við baklóð. Í minnispunktum starfsmanna sveitarfélagsins vegna fundarins kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að aðkomuvegur að Helgafellslandi 1 yrði færður, núverandi aðkomuvegur mokaður burt, land lækkað og göngustíg komið fyrir. Starfsmenn sveitarfélagsins hefðu þá bent á að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið fyrir ofan og því ekki heimilt að fara í þá framkvæmd að breyta aðkomuveginum. Ekki lægi fyrir hönnun að stíg eða fjárveiting nema í bráðabirgðafrágang á deiliskipulagsmörkum, eins og t.d. lagnaframkvæmdir og uppsetningu „vegagerðarsteina“. Aðkoma að Helgafellslandi 1 hefði verið á þessum stað frá árinu 1989 og yrði ekki færð nema eftir gildistöku deiliskipulags á svæðinu.

Í erindi kæranda, dags. 3. febrúar 2022, til bæjarráðs var vísað til fyrri erinda hans og þess að ekki hefðu borist efnisleg svör. Að auki fór hann fram á að sveitarfélagið félli frá því að leggja göngustíg norðan lóðarmarka hans. Á fundi bæjarráðs 3. mars s.á. var lögð fram umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs en í henni var m.a. vísað til þess að um væri að ræða „þriðja samstofna bréfið“ sem og að fyrri erindi hefðu verið lögð fyrir bæjarráð og formleg svarbréf send kæranda. Svör sveitarfélagsins væru enn á þá vegu að ekki væri heimilt að hefja framkvæmdir á ódeiliskipulögðu landi og ekki væri unnt að leggja af aðkomuveg sem væri í notkun. Þá væri gert ráð fyrir gönguleið ofan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 bæði í gildandi deiliskipulagi og vinnslutillögu fyrir Helgafellstorfu. Um væri að ræða mikilvægan tengistíg. Ekki væru rök fyrir því að fórna megingönguleiðum hverfisins samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar og gildandi deiliskipulagi 2. áfanga Helgafellshverfis. Bæjarráð synjaði erindi kæranda um að leggja af gönguleið ofan lóðamarka Ástu-Sólliljugötu með vísan til rökstuðnings í umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarráðs með bréfi, dags. 7. mars 2022.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 7. júlí 2022, en því fylgdu einnig fyrri erindi hans. Jafnframt vísaði hann til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og fór fram á að byggingarfulltrúi færi fram á „við Mosfellsbæ sem lóðarhafa að ganga frá lóðinni/svæðinu norðan lóðarmarka lóðarinnar Ástu-Sólliljugötu 19-21 til samræmis við gildandi deiliskipulag“. Framkvæmdastjóri umhverfissviðs svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2022. Þar kemur fram að eldri erindi liggi fyrir um málið og hefði þeim verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Ekki liggi fyrir tímasettar áætlanir um uppbyggingu á svæðinu en landið sé að mestu í einkaeigu og samkomulag við lóðarhafa m.a. grundvöllur uppbyggingar á svæðinu. Var vísað til fyrra bréfs sveitarfélagsins, dags. 7. október 2019, og fyrri sjónarmið sveitar-félagsins ítrekuð.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að núverandi vegur á svæðinu eigi ekki að vera þar. Svæðið sé ófrágengið og ekki í samræmi við deiliskipulag frá 13. desember 2006. Jarðvatn og yfirborðsvatn hafi ekki verið fangað og leki það óhindrað inn á lóð kæranda af þessu ófrágengna svæði. Mikil skuggamyndun sé á íbúðir og truflun af umferð. Þess sé krafist að sveitarfélagið klári og lagi svæðið. Svæðið sé að lágmarki tveimur metrum of hátt.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að nokkuð mikil samskipti hafi verið við kæranda vegna erinda hans. Helgafellshverfi í Mosfellsbæ sé stórt svæði en samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 sé gert ráð fyrir 816 nýjum íbúðum í Helgafellslandi og landnotkun fyrir nýja íbúðabyggð um 64 hektarar. Uppbygging á svo stóru svæði sé áfangaskipt en lóðin við Ástu-Sólliljugötu tilheyri 2. áfanga uppbyggingarinnar. Fyrstu fjórir áfangar uppbyggingarinnar séu ýmist enn í uppbyggingu eða henni lokið en 5. og 6. áfangi séu í skipulagsferli auk þess sem unnin hafi verið drög að deiliskipulagi Helgafellstorfu, þ.e. svæðinu fyrir ofan lóðina Ástu-Sólliljugötu 19-21. Ekki liggi fyrir tímasettar áætlanir um uppbyggingu á því svæði en landið sé að mestu í einkaeigu. Samkomulag við lóðarhafa sé m.a. grundvöllur uppbyggingar á svæðinu.

Kærandi hafi ekki sætt sig við svör sveitarfélagsins við upphaflegu erindi hans en óskir hans nú séu þær sömu og komi fram í því erindi. Málin hafi hlotið afgreiðslu í bæjarráði og hafi niðurstöðu þeirra verið komið á framfæri við kæranda. Þá hafi nokkuð mikil samskipti verið við kæranda í ágúst 2020 og jafnframt verið fundað með honum og veittar leiðbeiningar um mögulegar útfærslur á lóðarfrágangi. Svör sveitarfélagsins hafi verið og séu enn á þá vegu að hvorki sé heimilt að hefja framkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði né unnt að afleggja aðkomuveg sem sé í notkun. Þá sé gert ráð fyrir gönguleið ofan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 í gildandi deiliskipulagi sem og vinnslutillögu fyrir Helgafellstorfu. Mikilvægt sé að stígurinn verði þar áfram en um sé að ræða tengistíg milli hverfishluta í Helgafellshverfi. Hefði verið gengið frá lóð við Ástu-Sólliljugötu 19-21 eins og stimplaðar og samþykktar teikningar geri ráð fyrir væru þau vandamál sem lýst sé í erindum kæranda ekki til staðar. Athugasemd hefði verið gerð við frágang lóðamarka norðurhliðar við lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Aðkoma að íbúðarhúsi við Helgafellsland 1 hefði verið með umræddum hætti frá árinu 1989 en húsið sé á svæði sem enn hefði ekki verið deiliskipulagt. Nýr aðkomuvegur að Helgafelli 1 sé á vinnslustigi í nýrri deiliskipulagstillögu og því útilokað að færa veginn að svo komnu máli enda yrði þá aðkoma að áðurnefndu húsi tekin úr sambandi. Óskir kæranda séu ekki í samræmi við skipulag og varði ódeiliskipulagt svæði sem sé í einkaeigu. Auk þess hefði falist í erindum kæranda að sveitarfélagið myndi ráðast í breytingar á lóð sem ekki séu í samræmi við lóðarleigusamninga og skipulags- og byggingarskilmála sem gildi um lóðina. Kærandi hafi ekki lokið frágangi á lóð sinni í samræmi við innsend hönnunargögn en það sé forsenda þess að sveitarfélagið geti lokið frágangi utan lóðar.

Af orðalagi kærunnar megi ráða að kærðar séu afgreiðslur sveitarfélagsins á erindum kæranda. Bæjarráð hafi oftar en einu sinni fjallað um erindi hans og hafi síðasta afgreiðsla bæjarráðs verið gerð á fundi 3. mars 2022 og hafi hún verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2022. Það sé síðasta stjórnvaldsákvörðun sem tekin hefði verið í málinu af hálfu sveitarfélagsins og kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn. Í bréfi kæranda, dags. 7. júlí 2022, séu gerðar sömu kröfur og í fyrri erindum sem þegar hefðu fengið afgreiðslu. Það skjóti skökku við að annars vegar sé vísað til athafnaleysis og hins vegar höfnunar á erindum. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt af sé athafnaleysi í málinu, heldur þvert á móti tekið efnislegar stjórnvaldákvarðanir sem kynntar hafi verið kæranda. Í bréfi sveitarfélagsins, dags. 22. júlí 2022, felist ekki stjórnvaldsákvörðun heldur sé um að ræða samantekt á fyrri svörum til kæranda vegna sama máls þar sem erindum hans hafi verið hafnað. Með vísan til hinnar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttarins um að skriflegum erindum beri að jafnaði að svara skriflega hafi verið eðlilegt að svara erindinu. Það geti ekki talist eðlileg túlkun á kærurétti til úrskurðarnefndar að málsaðili geti endurvakið kærufrest með því að senda stjórnvöldum sama erindi og þegar hefði hlotið afgreiðslu til að endurvekja kærufrest í máli sem þegar hafi verið afgreitt.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að fyrsta erindi sitt hefði hann sent inn til að vekja máls á því sem sveitarfélagið ætti eftir að gera á svæðinu, annað erindið hefði hann skrifað eftir fund með bæjarstjóra sem lagði til við hann að skrifa annað erindi með von um að málið yrði leyst og þriðja erindið hefði hann sent inn eftir að fulltrúi umboðsmanns Alþingis hefði lagt það til. Kærandi væri aðeins að fara fram á að sveitarfélagið gengi frá svæðinu samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Ekki verði séð að hægt sé að tala um kærufrest í máli þessu. Sveitarfélagið teldi sig geta tekið ákvörðun sem einhverskonar stjórnvald og að það sem það ákveði skuli standa óhaggað og því sé ekki hægt að taka málið upp eftir að einhver tími sé liðinn.

 Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla Mosfellsbæjar á fjórum erindum kæranda, dags. 26. ágúst 2019, 23. mars 2020, 3. febrúar 2022 og 7. júlí s.á. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum lúta öll erindin að mestu að beiðni kæranda um að vegur norðan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 að Helgafellslandi 1 verði aflagður og gengið verði frá svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindmála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvald að taka ákvörðun um tiltekið efni.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda frá 26. ágúst 2019 var tekin fyrir og afgreidd í bæjarráði 10. október s.á. Þá var erindi kæranda frá 23. mars 2020 svarað með bréfi, dags. 17. ágúst s.á. Voru því annars vegar tæplega þrjú ár og hins vegar tvö ár liðin frá afgreiðslu greindra erinda þar til kæra barst og verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í erindi kæranda frá 3. febrúar 2022 eru fyrri erindi hans áréttuð og fylgdu jafnframt með fyrri bréf hans til bæjarráðs. Til viðbótar lagði kærandi einnig fram beiðni um að bæjarfélagið félli frá því að leggja göngustíg samkvæmt gildandi skipulagi og mótaði landið til samræmis við fyrri erindi kæranda. Bæjarráð synjaði erindinu á fundi sínum 3. mars 2022 og var kærufrestur því liðinn þegar kæra barst nefndinni hinn 22. ágúst 2022. Í bréfi, dags. 7. mars s.á., þar sem kæranda var tilkynnt um afgreiðslu málsins er hins vegar ekki að finna leiðbeiningar um málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest svo sem bar að gera skv. 2. tl 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Stjórnvöld skulu samkvæmt skipulagslögum þróa byggð og landnotkun með bindandi skipulagsáætlunum. Kemur nánar fram í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hvaða leyti fjallað skuli um samgöngur í aðalskipulagi og hvernig skuli háttað umfjöllun í deiliskipulagi um samgöngukerfi. Tiltekin útfærsla á aðkomu að Helgafellslandi 1 er í gildandi deiliskipulagi 2. áfanga Helgafellshverfis, en tilefni kærumáls þessa er að framkvæmdir hafi ekki hafist í samræmi við þá útfærslu. Hafa nokkur samskipti verið milli kæranda og sveitarfélagsins vegna þessa og verður af þeim ráðið að kærandi vilji knýja á um framkvæmdir í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun um að breyta þeim hluta deiliskipulagsins sem um ræðir eða að framkvæma á annan hátt en þar er mælt fyrir um. Í 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Það má þó ljóst vera að framkvæmdaraðili eða sveitarfélag verða ekki knúin til framkvæmda samkvæmt deiliskipulagi enda geta framkvæmdir eðli málsins samkvæmt verið háðar ýmsum ytri aðstæðum. Þar sem ekki verður séð að fyrir liggi ákvörðun samkvæmt skipulagslögum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga, verður þessum þætti málsins vísað frá nefndinni.

Með erindi kæranda frá 7. júlí 2022 fór hann fram á að byggingarfulltrúi beitti sveitarfélagið þeim þvingunarúrræðum sem honum eru falin í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og að gengið yrði frá „lóðinni/svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag“. Beiðni kæranda lýtur að því að umræddur vegur yrði lagður af þar sem hann sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og að sveitarfélagið ráðist í tilteknar framkvæmdir. Þar sem lög nr. 160/2010 um mannvirki gilda ekki um vegi eða önnur samgöngumannvirki, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, verður ekki talið að það sé á hendi byggingarfulltrúa að taka ákvörðun í máli kæranda. Í 1. mgr. 28. gr. vegalaga nr. 80/2007 kemur fram að vegir skuli lagðir í samræmi við gildandi skipulags-áætlun eins og nánar er kveðið á um í skipulagslögum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það skipulagsfulltrúi sem tekur ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda sem brjóta í bága við skipulag eða eru án framkvæmdaleyfis. Þrátt fyrir að fram komi ákveðin afstaða til erindis kæranda í svari framkvæmdastjóra umhverfissviðs verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga enda ekki um að ræða afgreiðslu skipulagsfulltrúa og/eða bæjarstjórnar sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort leggja skuli af umræddan veg eða ráðast í aðrar framkvæmdir sem eftir atvikum eru háðar framkvæmdaleyfi. Ekki liggur fyrir að framkvæmdastjóra umhverfissviðs hafi verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu slíkra mála í samþykkt sveitarfélagsins sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli verður kærumáli þessu vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

123/2022 Svínabú á Kjalarnesi

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 123/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 um að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 29. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Stjörnugrís hf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrirtækisins fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 30. október 2022.

Málsatvik og rök: Kærandi fékk útgefið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 8. október 2013 fyrir svínabúi að Brautarholti á Kjalarnesi með gildistíma til 8. október 2025. Fer Umhverfisstofnun nú með eftirlit með starfseminni samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. september 2022, var kæranda tilkynnt um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Var í bréfinu vísað til þess að endurskoðunin færi fram á grundvelli ákvæða í starfsleyfinu og skv. 2. mgr. 5. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Var gerð athugasemd varðandi losun blauthluta svínamykju í sjó og að ekki fengist séð að starfsemin samræmist skipulagi. Kom þar einnig fram að ekki væri krafist þess að send yrði inn formleg umsókn en bent á að rekstraraðila væri skylt að leggja fram upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að endurskoða starfsleyfisskilyrði að beiðni starfsleyfisútgefanda, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998.

Með bréfi, dags. 21. október 2022, andmælti kærandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Í bréfinu er þess krafist að stofnunin felli úr gildi eða afturkalli ákvörðunina með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem kærandi vekur athygli á að skilyrði fyrir endurupptöku ákvörðunarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kunni að vera fyrir hendi.

Í kæru sinni bendir kærandi á að Umhverfisstofnun hafi haldið því fram að hin kærða ákvörðun teldist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga heldur væri hún „liður í málsmeðferð.“ Sé þeirri staðhæfingu mótmælt enda verði vart annað séð en að ákvörðunin sé bindandi fyrir stofnunina. Jafnframt leiði af efni ákvörðunarinnar og rökstuðningi að hún teljist vera íþyngjandi. Umhverfisstofnun hafi ekki aflað nægjanlegra upplýsinga vegna málsins og því fari hin kærða ákvörðun í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þeir annmarkar leiði einir og sér til þess að falla beri á ógildingarkröfu kæranda. Þá sé ákvörðunin einnig haldin efnisannmarka, svo sem rakið er nánar í kæruni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um erindi Umhverfisstofnunar til kæranda frá 30. september 2022 þar sem bent er á að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis kæranda fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Svo sem rakið er í málavöxtum sendi kærandi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 21. október s.á., þar sem farið var fram á að stofnunin afturkallaði hina kærðu ákvörðun á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem bent er á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. sömu laga kunni að vera fyrir hendi. Þrátt fyrir að í þessu erindi hafi einungis verið vakin athygli á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kynnu að vera fyrir hendi verður að líta svo á að erindið hafi í raun falið í sér beiðni um endurupptöku málsins, enda eru færð rök fyrir því að ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í athugasemdum við 24. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 segir að ef óskað er eftir endurupptöku áður en mál er kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá af þeim sökum. Þá segir einnig að eftir að „ný ákvörðun hefði svo verið tekin í málinu af hinu lægra stjórnvaldi væri aðila heimilt að kæra málið á ný.“ Fyrir liggur að Umhverfistofnun hyggst afgreiða erindi kæranda frá 21. október sem beiðni um endurupptöku. Þá liggur einnig fyrir að umrætt erindi er að nærri öllu leyti samhljóða þeirri kæru sem lögð var fram til úrskurðarnefndarinnar 29. s.m. Þar sem ekki þykir æskilegt að fjallað sé efnislega um sama mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma verður kærumáli þessu því frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests. Þá segir í 2. málslið að hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Hins vegar er ljóst að ef fallist er á endurupptökubeiðni kæranda hefst nýr kærufrestur þegar ákvörðunin hefur verið tekin að nýju.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2022 Heiðarbrún

Með

Árið 2022, mánudaginn 31. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6, Stokkseyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 13. ágúst 2022, kærir eigandi, Heiðarbrún 8, Stokkseyri, þá ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 28. september 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 23. mars 2022 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6 á Stokkseyri. Gerði tillagan ráð fyrir að lóðin fengi númerið 6–6a og að heimilt yrði að byggja á henni parhús með stakstæðum eða sambyggðum bílskúr. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagsaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. apríl 2022. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og héraðsblaðinu Dagskráin 13. s.m. með fresti til athugasemda til 25. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma sem lutu að skerðingu á útsýni og skuggavarpi. Skipulags- og byggingarnefnd tók tillöguna fyrir á fundi 27. júlí s.á. og bókaði að fyrirhuguð bygging parhús gengi ekki á rétt nágranna vegna skerðingar á útsýni. Einnig var bókað að lagður hefði verið fram uppdráttur og af honum væri ekki að sjá að skuggavarp myndi verða á húsið að Heiðarbrún 8. Samþykkti nefndin tillöguna og fól skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðuna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Á fundi bæjarráðs 28. júlí 2022 var tillagan samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefndinni 13. ágúst 2022 en þar bendir kærandi á að ekki hafi verið stuðst við réttar teikningar hússins á lóð Heiðarbrún 8 við mælingu á skuggavarpi. Því séu forsendur hinnar kærðu ákvörðunar brostnar. Á fundi skipulag- og byggingarnefndar 27. september 2022 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að gögn sem send hefðu verið nágrönnum hefðu verið röng. Var lagt til að málið yrði endurupptekið með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hennar 5. október 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

33/2022 Ölver

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 20. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor­.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2022, kæra á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022, á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað kæranda á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 20. apríl 2022, kærir A, afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022 á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað hennar á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit. Er þess krafist að sveitarfélagið tryggi að kærandi geti notað veg sem liggur um land Narfastaða og að vegurinn verði settur í deiliskipulag.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 20. maí 2022.

Málavextir: Árið 2021 auglýsti kærandi sumarbústað sinn á lóðinni Ölveri 12, til sölu. Í kjölfarið hafði eigandi lóðarinnar Háholts 22 samband við kæranda og benti á að vegurinn að Ölveri 12 lægi í gegnum land hans sem hann hefði ákvörðunarvald um hver æki um.

Kærandi hafði samband við sveitarfélagið og benti á að aðkoma að Ölveri 12 hefði frá árinu 1976, þegar bústaðurinn var byggður, legið í gegnum land Narfastaða. Árið 1997 hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Ölvers þar sem gert væri ráð fyrir að­komunni. Tíu árum síðar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir aðliggjandi land Narfastaða og þar væri nú gert ráð fyrir sumarhúsi á lóðinni Háholti 22, á þeim stað sem vegurinn að lóðinni Ölveri 12 liggi. Kærandi óskaði eftir að sveitarfélagið skoðaði málið og beitti sér fyrir ásættanlegri lausn.

Sveitarfélagið svaraði kæranda með bréfi, dags. 18. mars 2022, þar sem upplýst var að sveitarfélagið teldi sér ekki bera skyldu til að aðhafast í málinu á grundvelli gildandi skipulagsáætlana. Sá hluti deiliskipulagsuppdráttar frá 1997 sem gerður hafi verið fyrir Ölver og Móhól og sýni aðkomu að Ölveri 12 um veg í landi Narfastaða væri ekki skuldbindandi fyrir landeigendur Narfastaða, enda sé vegurinn utan skipulagssvæðis umrædds deiliskipulags. Sá hluti landsins sem vegurinn lægi um væri innan deiliskipulags frístundabyggðar að Narfastöðum. Hvorki eigandi jarðarinnar Ölvers né sá sem reisti sumar­bústaðinn Ölver 12 hafi mátt ganga út frá því að aðkoma að húsinu gæti um ókomna tíð verið um umræddan veg án þess að landeigandi Narfastaða, eða nú eigandi lóðarinnar Háholts 22, veitti því sérstakt samþykki eða með sérstökum samningi þar um. Þannig ætti sveitarfélagið ekki aðkomu að úrlausn málsins og yrðu lóðarhafar og eftir atvikum fyrri eigendur lóðanna að leysa úr málinu sín á milli.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að vegur að sumarbústaðinn Ölver 12 hafi verið á deiliskipulagi allt til ársins 2007, en að þá hafi hann verið tekinn út af skipulaginu. Vegurinn hafi verið í notkun frá árinu 1976 og sé eina mögulega aðkoman að bústaðnum. Fer kærandi fram á að mega nota veginn að Ölveri 12 óhindrað af landeiganda og að umræddur vegur komi aftur inn í deiliskipulag Hvalfjarðarsveitar.

 Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kröfu kæranda um óhindraða notkun vegarins að Ölveri 12 sé ekki beint að réttum aðila þar sem krafan varði afnot af landi sem sé í eigu einkaaðila. Þá sé vegurinn á öðru skipulagssvæði en þess sem lóðin Ölver 12 sé á. Frístundabyggðin Ölver sé staðsett innan marka deiliskipulags frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls. Deiliskipulagið hafi öðlast gildi árið 1997 en það hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt skipulaginu sé gert ráð fyrir því að aðkoma að lóð kæranda liggi um land jarðarinnar Narfastaða en ekki liggi fyrir samþykki landeigenda Narfastaða um þessa aðkomu.

Árið 2007 hafi deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Narfastaða verið staðfest, en skipulagið hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt deiliskipulaginu sé lóðin Háholt 22 staðsett þar sem heimreið að lóðinni Ölveri 12 liggi og umræddur vegur þveri byggingarreit Háholts 22. Vegspottinn hafi verið í landi Narfastaða frá árinu 1976 og því eðlilegt að gera grein fyrir honum þegar deiliskipulag frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls var útbúið. Deiliskipulag fyrir svæðið sem vegurinn liggi um hafi hins vegar ekki öðlast gildi fyrr en árið 2007 með deiliskipulagi fyrir frístundabyggð að Narfastöðum. Ekki væri rétt að vegurinn hafi verið á deiliskipulagi Hvalfjarðarsveitar fram til ársins 2007 þar sem engin deiliskipulagsáætlun sem nái til þess landssvæðis sem vegurinn sé á hafi nokkurn tímann gert ráð fyrir umræddum vegi.

Umræddur vegur sé ekki sveitarfélagsvegur heldur sé um einkaveg að ræða sem sveitarfélagið hafi engin yfirráð yfir, sbr. vegalög nr. 80/2007. Málið verði einungis leyst með einka­réttarlegum hætti en ekki á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 eða skipulagsákvarðana sveitarfélagsins. Þá eigi málið ekki undir úrskurðarnefndina þar sem um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða. Ekki hafi verið sett fram krafa til sveitarfélagsins um að umræddur vegur yrði settur inn á deiliskipulag og því hafi slíkt erindi ekki verið tekin til umfjöllunar. Því lægi ekki endanleg ákvörðun fyrir hjá sveitarfélaginu sem væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að eigendur Ölvers 12 hafi notað veginn sem liggi um jörðina Narfastaði í um 46 ár og hann sé eina aðkoman að sumarhúsinu og hafi verið notaður sem slíkur án athugasemda svo áratugum skipti. Deiliskipulag svæðisins hafi ekki verið kynnt fyrir eigendum Ölvers 12 jafnvel þótt það gæti haft fyrirsjáanleg áhrif á aðkomu að sumarhúsinu og réttindi eigenda. Það hafi ekki verið fyrr en sumarhúsið hafi verið sett á sölu sem eigendum Ölvers 12 hafi orðið kunnugt um deiliskipulag frístundabyggðar að Narfa­stöðum frá árinu 2007. Sveitarfélaginu beri að gæta þess að deiliskipulagsgerð samræmist lögum, reglum og fyrirliggjandi skipulagsáætlunum og geti það ekki fríað sig ábyrgð. Ekki hafi verið gætt að lögum og reglum þegar deiliskipulag í landi Narfastaða var samþykkt og því sé það ógildanlegt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulags­lögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um kröfu kæranda um að honum verði tryggð aðkoma að sumarbústað sínum eftir vegi sem liggur um land Narfastaða, nánar tiltekið yfir lóðina Háholt 22. Erindi kæranda til sveitarfélagsins sem og málsmeðferð og afgreiðsla þess ber ekki með sér að um sé að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli skipulagslaga af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem varðandi skipulagsbreytingu. Liggur því ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Hvað varðar kröfu kæranda um að honum verði tryggður réttur til umferðar um um nefndan veg í landi Narfastaða skal bent á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grundvelli hefðarréttar heyrir ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar heldur eftir atvikum dómstóla. Rétt þykir jafnframt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna.

Bent er á að kærandi getur óskað eftir því við Hvalfjarðarsveit að gerð verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi til að tryggja aðkomu að lóðinni Ölveri 12. Afgreiðsla slíks erindis væri eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.