Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2022 Suðurleið, Tjarnarbyggð

Árið 2022, föstudaginn 23. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 132/2022, kæra vegna tilkynningar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 16. nóvember 2022, um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 22. nóvember 2022, kærir lóðarhafi Suðurleiðar 8, Sveitarfélaginu Árborg, tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., um fyrirhugaða beitingu þvingunar­úrræða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 23. nóvember 2022.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að við eftirlitsferð að lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbyggð á Selfossi hefði komið í ljós að tvö hús og einn gámur væru staðsett á lóðinni. Í gagnagrunni byggingarfulltrúa væri ekki að finna nein gögn sem gæfu til kynna að gefið hefði verið út leyfi fyrir húsunum eða stöðuleyfi fyrir umræddum gámi. Var gerð sú krafa að húsin og gámurinn yrðu fjarlægð af lóðinni hið fyrsta. Ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir til að fjarlægja húsin og gáminn fyrir 7. desember s.á. myndi byggingarfulltrúi láta fjarlægja þau á kostnað eiganda sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.6.2 byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Yrði lóðarhafi ekki við tilmælunum yrðu dagsektum beitt, allt að kr. 500.000, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2 í byggingarreglugerð. Var kæranda leiðbeint um andmælarétt skv. 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi bendir á að heimilt sé að reisa allt að þrjá kofa á hverri íbúðarhúsalóð án byggingarleyfis, séu þeir undir 15 m2, án vatns og raflagna. Þá megi samkvæmt nýorðnum breytingum á byggingarreglugerð nr. 112/2012 reisa frístundahús/aukahús, allt að 40 m2, með öllum lögnum, án byggingarleyfis og einungis beri að tilkynna slíka framkvæmd. Þau hús sem standi að Suðurleið 8 falli undir hvora regluna um sig. Húsin séu bæði án lagna og ekki jarðföst og teljist því ekki mannvirki. Hvað gáminn varði hafi farist fyrir að sækja um leyfi en verið sé að undirbúa lögsókn þess efnis að gámar sem standi á eignarlandi eigi ekki að falla undir sömu reglur og leyfisveitingar líkt og á leigulóðum eða innan bæjarmarka.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að við sendingu umrædds bréfs, dags. 16. nóvember 2022, hafi engin ákvörðun um þvingunarúrræði verið tekin en að ranglega hafi ratað inn í bréfið leiðbeiningar um kæruheimildir, þrátt fyrir að engin kæranleg ákvörðun lægi fyrir. Ljóst hafi orðið við nánari skoðun að bréf byggingarfulltrúa til kæranda hafi ekki verið eins skýrt og ákjósanlegt hefði verið og verði lóðarhöfum sent nýtt bréf þar sem skýrar verði kveðið á um feril máls af þessu tagi. Verði að lokum tekin ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum verði lóðarhafa tilkynnt um það og hann upplýstur um viðeigandi kæruheimildir í því sambandi. Vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem skilyrði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem leiði það til lykta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um bréf byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar þar sem kæranda er tilkynnt um fyrirhuguð þvingunarúrræði verði hann ekki við fyrirmælum um að fjarlægja tvö hús og gám af lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbygg. Tilkynning um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða er liður í málsmeðferð en ekki lokaákvörðun um beitingu þeirra enda var kæranda veittur frestur til andmæla samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilkynning stjórnvalds um fyrirhuguð þvingunarúrræði geta eðli málsins samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Fól bréf byggingarfulltrúa því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.