Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2022 Völvufell

Árið 2022, miðvikudaginn 28. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 141/2022, kæra á byggingarframkvæmdir á Völvufellsreit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 13. desember 2022, kæra íbúar Yrsufells 42, Reykjavík, byggingarframkvæmdir á Völvufellsreit. Verður að skilja kæru sem svo að þess sé krafist að heimild til framkvæmda verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. desember 2022.

Málavextir: Á fundi borgarráðs 2. desember 2021 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Breiðholts III, Fell vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells. Breytingin fólst í heimild til niðurrifs á leikskólunum Litla Holti og Stóra Holti, uppbyggingar nýs leikskóla með aðkomu frá göngugötu við Drafnarfell og Völvufell, auk uppbyggingar fyrir námsmannaíbúðir og sérbýli á grænum þróunarlóðum. Einnig voru þegar fengnar byggingarheimildir á lóð Drafnarfells 2-18 ofan verslana og uppbyggingarheimildir á lóð Eddufells 2-4 endurskoðaðar. Auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. febrúar 2022.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að Reykjavíkurborg fari offorsi í þéttingu byggðar og ekki sé hugað að lýðheilsu íbúa í nálægð við þéttingarreiti. Því sé sérstaklega mótmælt að byggja eigi leikskóla nánast upp við húsgafl Yrsufells 42, þétt við göngustíg á lóðarmörkum. Efast megi um að heimilt sé að byggja svo nálægt íbúðarhúsnæði þar sem ekki hafi fengist leyfi fyrir færanlegri kennslustofu í um 20 m fjarlægð frá húsinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að engar byggingarframkvæmdir hafi verið samþykktar hvað varði leikskóla á Völvufellsreit og að engin umsókn þess efnis hafi borist embætti byggingarfulltrúa. Verði því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá borgaryfirvöldum hafa hinar umdeildu byggingarframkvæmdir ekki vera samþykktar af byggingarfulltrúa. Er því ekki fyrir hendi stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.