Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2022 Heiðarbrún

Árið 2022, mánudaginn 31. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6, Stokkseyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 13. ágúst 2022, kærir eigandi, Heiðarbrún 8, Stokkseyri, þá ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 28. september 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 23. mars 2022 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6 á Stokkseyri. Gerði tillagan ráð fyrir að lóðin fengi númerið 6–6a og að heimilt yrði að byggja á henni parhús með stakstæðum eða sambyggðum bílskúr. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagsaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. apríl 2022. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og héraðsblaðinu Dagskráin 13. s.m. með fresti til athugasemda til 25. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma sem lutu að skerðingu á útsýni og skuggavarpi. Skipulags- og byggingarnefnd tók tillöguna fyrir á fundi 27. júlí s.á. og bókaði að fyrirhuguð bygging parhús gengi ekki á rétt nágranna vegna skerðingar á útsýni. Einnig var bókað að lagður hefði verið fram uppdráttur og af honum væri ekki að sjá að skuggavarp myndi verða á húsið að Heiðarbrún 8. Samþykkti nefndin tillöguna og fól skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðuna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Á fundi bæjarráðs 28. júlí 2022 var tillagan samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefndinni 13. ágúst 2022 en þar bendir kærandi á að ekki hafi verið stuðst við réttar teikningar hússins á lóð Heiðarbrún 8 við mælingu á skuggavarpi. Því séu forsendur hinnar kærðu ákvörðunar brostnar. Á fundi skipulag- og byggingarnefndar 27. september 2022 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að gögn sem send hefðu verið nágrönnum hefðu verið röng. Var lagt til að málið yrði endurupptekið með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hennar 5. október 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.