Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2022 Svínabú á Kjalarnesi

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 123/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 um að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 29. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Stjörnugrís hf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrirtækisins fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 30. október 2022.

Málsatvik og rök: Kærandi fékk útgefið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 8. október 2013 fyrir svínabúi að Brautarholti á Kjalarnesi með gildistíma til 8. október 2025. Fer Umhverfisstofnun nú með eftirlit með starfseminni samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. september 2022, var kæranda tilkynnt um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Var í bréfinu vísað til þess að endurskoðunin færi fram á grundvelli ákvæða í starfsleyfinu og skv. 2. mgr. 5. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Var gerð athugasemd varðandi losun blauthluta svínamykju í sjó og að ekki fengist séð að starfsemin samræmist skipulagi. Kom þar einnig fram að ekki væri krafist þess að send yrði inn formleg umsókn en bent á að rekstraraðila væri skylt að leggja fram upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að endurskoða starfsleyfisskilyrði að beiðni starfsleyfisútgefanda, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998.

Með bréfi, dags. 21. október 2022, andmælti kærandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Í bréfinu er þess krafist að stofnunin felli úr gildi eða afturkalli ákvörðunina með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem kærandi vekur athygli á að skilyrði fyrir endurupptöku ákvörðunarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kunni að vera fyrir hendi.

Í kæru sinni bendir kærandi á að Umhverfisstofnun hafi haldið því fram að hin kærða ákvörðun teldist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga heldur væri hún „liður í málsmeðferð.“ Sé þeirri staðhæfingu mótmælt enda verði vart annað séð en að ákvörðunin sé bindandi fyrir stofnunina. Jafnframt leiði af efni ákvörðunarinnar og rökstuðningi að hún teljist vera íþyngjandi. Umhverfisstofnun hafi ekki aflað nægjanlegra upplýsinga vegna málsins og því fari hin kærða ákvörðun í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þeir annmarkar leiði einir og sér til þess að falla beri á ógildingarkröfu kæranda. Þá sé ákvörðunin einnig haldin efnisannmarka, svo sem rakið er nánar í kæruni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um erindi Umhverfisstofnunar til kæranda frá 30. september 2022 þar sem bent er á að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis kæranda fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Svo sem rakið er í málavöxtum sendi kærandi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 21. október s.á., þar sem farið var fram á að stofnunin afturkallaði hina kærðu ákvörðun á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem bent er á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. sömu laga kunni að vera fyrir hendi. Þrátt fyrir að í þessu erindi hafi einungis verið vakin athygli á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kynnu að vera fyrir hendi verður að líta svo á að erindið hafi í raun falið í sér beiðni um endurupptöku málsins, enda eru færð rök fyrir því að ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í athugasemdum við 24. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 segir að ef óskað er eftir endurupptöku áður en mál er kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá af þeim sökum. Þá segir einnig að eftir að „ný ákvörðun hefði svo verið tekin í málinu af hinu lægra stjórnvaldi væri aðila heimilt að kæra málið á ný.“ Fyrir liggur að Umhverfistofnun hyggst afgreiða erindi kæranda frá 21. október sem beiðni um endurupptöku. Þá liggur einnig fyrir að umrætt erindi er að nærri öllu leyti samhljóða þeirri kæru sem lögð var fram til úrskurðarnefndarinnar 29. s.m. Þar sem ekki þykir æskilegt að fjallað sé efnislega um sama mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma verður kærumáli þessu því frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests. Þá segir í 2. málslið að hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Hins vegar er ljóst að ef fallist er á endurupptökubeiðni kæranda hefst nýr kærufrestur þegar ákvörðunin hefur verið tekin að nýju.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.