Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

125/2022 Hólmasel

Árið 2022, 14. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 125/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 0104 að Hólmaseli 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma. Er þess krafist að byggingarfulltrúi veiti nákvæmar upplýsingar um hvaða uppdrætti hann þurfti til að geta lokið erindi kæranda. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að byggingarfulltrúi veiti upplýsingar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. desember 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 12. maí 1998 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn þáverandi eiganda fyrrgreinds eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli 2 um byggingarleyfi til að breyta atvinnuhúsnæði í rýmum 01-0103 og 01-0104 í íbúðir og breyta innbyrðis stærðarhlutföllum eignarhlutanna. Í rými 01-0103 hafði verið 37,7 m2 verslunarhúsnæði og í rými 01-0104 hafði verið 107 m2 sérhæfð eign. Í samþykkt byggingarfulltrúa var tekið fram að lokaúttekt byggingarfulltrúa væri áskilin og að leyfið félli úr gildi hæfust framkvæmdir ekki innan árs frá samþykki þess. Lokaúttekt þessi virðist aldrei hafa farið fram.

Reykjavíkurborg sendi engu að síður tilkynningu, dags. 5. desember 2000, til Fasteignamats ríkisins, nú Þjóðskrár, um að notkun rýmis 01-0104 skyldi breytt úr sérhæfðri eign í íbúð og var sú breyting skráð í fasteignaskrá 14. s.m. Skráningin byggðist á teikningu samþykktri 12. maí 1998 og meðfylgjandi skráningartöflu. Samkvæmt teikningunni er rými 01-0103 íbúð að stærð 91 m2 og rými 01-0104 íbúð að stærð 53,9 m2. Breytingar á innbyrðis stærðum eignarhlutanna, sem fram komu á teikningunni voru þó aldrei gerðar.

Hinn 26. október 2015 sendi Reykjavíkurborg aðra tilkynningu til Þjóðskrár þess efnis að samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu skyldi rými 01-0104 skráð sem þjónustuhúsnæði og sett í skattflokk með atvinnuhúsnæði og skráningu eignarhlutans breytt í samræmi við það sama dag. Kærandi fékk tilkynningu frá Reykjavíkurborg, dags. 28. nóvember 2015, um að álagning fasteignagjalda hefði verið endurskoðuð. Var tekið fram að breytingin tæki til þess að 107 m2 íbúðarhúsnæði yrði skattlagt sem atvinnuhúsnæði. Átti kærandi í nokkrum samskiptum við Reykjavíkurborg í kjölfar þessa og sótti hann um byggingarleyfi vegna umrædds húsnæðis 18. desember 2017. Í umsókninni var sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar“. Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 15. desember 2017, kemur jafnframt fram að sótt sé um byggingarleyfi til að endurskrá rými 01-0104 sem íbúð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2018 var erindi kæranda tekið fyrir. Samkvæmt tilkynningu um afgreiðslu máls, dags. 21. s.m., kemur fram að „[s]ótt [sé] um leyfi til að breyta áður samþykktu erindi BN016633 sem ekki tók gildi en nú er búið að framkvæma og hefur að auki breyst þannig að íbúð 0103 minnkar og 0104 er að hluta til orðið bílskúr með hurð inn í hann á norðurhlið húss á lóð nr. 2 við Hólmasel.“ Erindi kæranda var hafnað þar sem samþykki meðeigenda skorti.

Niðurstaða byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kvað upp úrskurð 11. júní 2019, í máli nr. 47/2018. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að notkunarbreyting rýmisins frá árinu 1998 héldi gildi sínu. Þeir þættir byggingarleyfisins sem sneru að veggjum, mörkum og stærð eignarhlutanna hefðu aldrei verið framkvæmdir og ekki hefði farið fram lokaúttekt vegna þeirra. Hefðu þeir þættir því fallið úr gildi 12 mánuðum eftir útgáfu leyfisins skv. gr. 13.1 þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá hafi umsókn kæranda einungis varðað rými 01-0104, en ekki einnig rými 01-0103, líkt og byggingarfulltrúi hafi talið. Var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi þar sem hin kærða ákvörðun hefði ekki byggst á viðhlítandi forsendum og  rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hefði verið verulega áfátt.

Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi nokkur bréf til Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að með úrskurði í máli nr. 47/2018 hafi verið staðfest að byggingarleyfi hans væri í gildi og spyr af hvaða sökum málið hafi ekki verið afgreitt endanlega af borgarinnar hálfu. Kærandi sendi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og 20. desember 2019 barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 27. febrúar 2020, í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m. og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Úrskurðarnefndinni barst að nýju kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins 3. desember 2020. Var kærunni vísað frá með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 8. febrúar 2021, í máli nr. 129/2020, þar sem umsóknin hafði þegar verið samþykkt. Kærandi sendi að nýju kæru vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. október 2022. Er það sú kæra sem er til afgreiðslu í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi engin svör fengið við fyrirspurnum sínum um hvaða uppdrætti hann þurfi að leggja fram til að fá byggingaráform sín samþykkt. Kærandi krefst þess að fá skýr svör um hvað þurfi að gera til að fá byggingarleyfi. Hvað snerti eignaskiptayfirlýsingu vegna Hólmasels 2, þá sé hún tilbúin en fáist ekki afgreidd hjá Reykjavíkurborg vegna skorts á samþykki annarra eigenda í húsinu. Þar sem eignarhlutar séu færri en sex þurfi samþykki einfalds meirihluta, en fengist hafi samþykki frá eigendum eignarhluta 01-0101, sem eigi 26% í húsinu. Kærandi og eiginkona hans eigi eignarhluta 01-0103 og 01-0104, sem séu 32% af húsinu. Eigandi eignarhluta 01-0102 eigi einn eignarhlut og 42% í húsinu. Sé því um brot á 33. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er með umsögn dags 8. desember 2022 bent á að með umsókn um byggingarleyfi, dags. 21. nóvember 2019, hafi verið sótt um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á fjölbýlishúsi á lóð nr. 2 við Hólmasel. Umsókn um byggingarleyfi hafi borist í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 47/2018. Erindið hafi verið tekið fyrir á embættis­afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember 2019, þar sem því hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra. Málið hafi þar verið tekið fyrir 21. janúar 2020 þar sem afgreiðslu hafi verið frestað með vísan til athugasemda. Málinu hafi verið frestað á embættisafgreiðslufundum 21. apríl, 28. apríl og 12. maí 2020 með sambærilegri afgreiðslu. Erindið hafi að endingu verið samþykkt 10. nóvember 2020.

Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Í gátlista með umsókninni sé ítrekað að skila þurfi inn nýrri skráningartöflu. Jafnframt komi fram í gátlista að sækja hafi þurft um „hurð“ á norðausturhlið hússins með því að senda inn nýjar útlitsteikningar, sem og samþykki meðeigenda. Kærandi hafi brugðist við athugasemdunum með bréfi, dags. 30 október 2020, með nýrri skráningartöflu og yfirlýsingu um að steypt yrði upp í „hurðargat“ á norðausturhlið hússins. Nú liggi fyrir uppfærð eignaskipta­yfirlýsing sem sé í undirritun hjá meðeigendum að Hólmaseli 2 en um leið og undirskriftir muni berast þá muni  byggingarfulltrúi samþykkja yfirlýsinguna, sem síðan verði send til þinglýsingar. Með vísan til þessa sé því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti þannig að embætti byggingarfulltrúa verði um kennt. Hið rétta sé að kærandi hafi brugðist seint við athugasemdum sem gerðar hafi verið og enn sé beðið samþykkis meðeigenda í húsinu.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvörðun sem hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns, enda hafi byggingarleyfi verið samþykkt. Með vísan til þess, sem og almennra meginreglna stjórnsýsluréttar, verði ekki séð að kærandi hafi lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefni hafi nú þegar verið afgreitt. Hefði kæra um drátt á málsmeðferð þurft að berast áður en ákvörðun hafi verið tekin, þ.e. undir meðferð málsins. Með vísan til þess sé gerð krafa um að þessum kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að gefa „allar nauðsynlegar upplýsingar“ til að hægt sé að „afgreiða málið með fullsamþykktu byggingarleyfi“. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra telst samþykki byggingaráforma.

Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að það tafðist að samþykkja byggingarleyfi til kæranda má rekja til atriða sem voru á hendi kæranda sjálfs, sem eiganda eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli. Til nánari leiðbeiningar um gerð eignarskiptayfirlýsingar vísast til ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sem og reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar. Ákvarðanir samkvæmt þeim lögum verða ekki bornar undir nefndina til úrskurðar.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsókn kæranda um byggingarleyfi 10. nóvember 2020, en skráningartafla sú sem kærandi víkur að í kæru hefur verið samþykkt. Það hefur ekki þýðingu að lögum, við þessar aðstæður, að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi. Verður kröfu kæranda því vísað frá með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.