Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

33/2022 Ölver

Árið 2022, fimmtudaginn 20. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor­.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2022, kæra á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022, á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað kæranda á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 20. apríl 2022, kærir A, afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022 á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað hennar á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit. Er þess krafist að sveitarfélagið tryggi að kærandi geti notað veg sem liggur um land Narfastaða og að vegurinn verði settur í deiliskipulag.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 20. maí 2022.

Málavextir: Árið 2021 auglýsti kærandi sumarbústað sinn á lóðinni Ölveri 12, til sölu. Í kjölfarið hafði eigandi lóðarinnar Háholts 22 samband við kæranda og benti á að vegurinn að Ölveri 12 lægi í gegnum land hans sem hann hefði ákvörðunarvald um hver æki um.

Kærandi hafði samband við sveitarfélagið og benti á að aðkoma að Ölveri 12 hefði frá árinu 1976, þegar bústaðurinn var byggður, legið í gegnum land Narfastaða. Árið 1997 hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Ölvers þar sem gert væri ráð fyrir að­komunni. Tíu árum síðar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir aðliggjandi land Narfastaða og þar væri nú gert ráð fyrir sumarhúsi á lóðinni Háholti 22, á þeim stað sem vegurinn að lóðinni Ölveri 12 liggi. Kærandi óskaði eftir að sveitarfélagið skoðaði málið og beitti sér fyrir ásættanlegri lausn.

Sveitarfélagið svaraði kæranda með bréfi, dags. 18. mars 2022, þar sem upplýst var að sveitarfélagið teldi sér ekki bera skyldu til að aðhafast í málinu á grundvelli gildandi skipulagsáætlana. Sá hluti deiliskipulagsuppdráttar frá 1997 sem gerður hafi verið fyrir Ölver og Móhól og sýni aðkomu að Ölveri 12 um veg í landi Narfastaða væri ekki skuldbindandi fyrir landeigendur Narfastaða, enda sé vegurinn utan skipulagssvæðis umrædds deiliskipulags. Sá hluti landsins sem vegurinn lægi um væri innan deiliskipulags frístundabyggðar að Narfastöðum. Hvorki eigandi jarðarinnar Ölvers né sá sem reisti sumar­bústaðinn Ölver 12 hafi mátt ganga út frá því að aðkoma að húsinu gæti um ókomna tíð verið um umræddan veg án þess að landeigandi Narfastaða, eða nú eigandi lóðarinnar Háholts 22, veitti því sérstakt samþykki eða með sérstökum samningi þar um. Þannig ætti sveitarfélagið ekki aðkomu að úrlausn málsins og yrðu lóðarhafar og eftir atvikum fyrri eigendur lóðanna að leysa úr málinu sín á milli.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að vegur að sumarbústaðinn Ölver 12 hafi verið á deiliskipulagi allt til ársins 2007, en að þá hafi hann verið tekinn út af skipulaginu. Vegurinn hafi verið í notkun frá árinu 1976 og sé eina mögulega aðkoman að bústaðnum. Fer kærandi fram á að mega nota veginn að Ölveri 12 óhindrað af landeiganda og að umræddur vegur komi aftur inn í deiliskipulag Hvalfjarðarsveitar.

 Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kröfu kæranda um óhindraða notkun vegarins að Ölveri 12 sé ekki beint að réttum aðila þar sem krafan varði afnot af landi sem sé í eigu einkaaðila. Þá sé vegurinn á öðru skipulagssvæði en þess sem lóðin Ölver 12 sé á. Frístundabyggðin Ölver sé staðsett innan marka deiliskipulags frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls. Deiliskipulagið hafi öðlast gildi árið 1997 en það hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt skipulaginu sé gert ráð fyrir því að aðkoma að lóð kæranda liggi um land jarðarinnar Narfastaða en ekki liggi fyrir samþykki landeigenda Narfastaða um þessa aðkomu.

Árið 2007 hafi deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Narfastaða verið staðfest, en skipulagið hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt deiliskipulaginu sé lóðin Háholt 22 staðsett þar sem heimreið að lóðinni Ölveri 12 liggi og umræddur vegur þveri byggingarreit Háholts 22. Vegspottinn hafi verið í landi Narfastaða frá árinu 1976 og því eðlilegt að gera grein fyrir honum þegar deiliskipulag frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls var útbúið. Deiliskipulag fyrir svæðið sem vegurinn liggi um hafi hins vegar ekki öðlast gildi fyrr en árið 2007 með deiliskipulagi fyrir frístundabyggð að Narfastöðum. Ekki væri rétt að vegurinn hafi verið á deiliskipulagi Hvalfjarðarsveitar fram til ársins 2007 þar sem engin deiliskipulagsáætlun sem nái til þess landssvæðis sem vegurinn sé á hafi nokkurn tímann gert ráð fyrir umræddum vegi.

Umræddur vegur sé ekki sveitarfélagsvegur heldur sé um einkaveg að ræða sem sveitarfélagið hafi engin yfirráð yfir, sbr. vegalög nr. 80/2007. Málið verði einungis leyst með einka­réttarlegum hætti en ekki á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 eða skipulagsákvarðana sveitarfélagsins. Þá eigi málið ekki undir úrskurðarnefndina þar sem um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða. Ekki hafi verið sett fram krafa til sveitarfélagsins um að umræddur vegur yrði settur inn á deiliskipulag og því hafi slíkt erindi ekki verið tekin til umfjöllunar. Því lægi ekki endanleg ákvörðun fyrir hjá sveitarfélaginu sem væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að eigendur Ölvers 12 hafi notað veginn sem liggi um jörðina Narfastaði í um 46 ár og hann sé eina aðkoman að sumarhúsinu og hafi verið notaður sem slíkur án athugasemda svo áratugum skipti. Deiliskipulag svæðisins hafi ekki verið kynnt fyrir eigendum Ölvers 12 jafnvel þótt það gæti haft fyrirsjáanleg áhrif á aðkomu að sumarhúsinu og réttindi eigenda. Það hafi ekki verið fyrr en sumarhúsið hafi verið sett á sölu sem eigendum Ölvers 12 hafi orðið kunnugt um deiliskipulag frístundabyggðar að Narfa­stöðum frá árinu 2007. Sveitarfélaginu beri að gæta þess að deiliskipulagsgerð samræmist lögum, reglum og fyrirliggjandi skipulagsáætlunum og geti það ekki fríað sig ábyrgð. Ekki hafi verið gætt að lögum og reglum þegar deiliskipulag í landi Narfastaða var samþykkt og því sé það ógildanlegt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulags­lögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um kröfu kæranda um að honum verði tryggð aðkoma að sumarbústað sínum eftir vegi sem liggur um land Narfastaða, nánar tiltekið yfir lóðina Háholt 22. Erindi kæranda til sveitarfélagsins sem og málsmeðferð og afgreiðsla þess ber ekki með sér að um sé að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli skipulagslaga af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem varðandi skipulagsbreytingu. Liggur því ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Hvað varðar kröfu kæranda um að honum verði tryggður réttur til umferðar um um nefndan veg í landi Narfastaða skal bent á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grundvelli hefðarréttar heyrir ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar heldur eftir atvikum dómstóla. Rétt þykir jafnframt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna.

Bent er á að kærandi getur óskað eftir því við Hvalfjarðarsveit að gerð verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi til að tryggja aðkomu að lóðinni Ölveri 12. Afgreiðsla slíks erindis væri eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.