Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2024 Hólmbergsbraut

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 um að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Hólmbergsbraut 17, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili útgáfu byggingarleyfis, dags. 19. janúar 2024, fyrir atvinnuhúsnæði á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut, sbr. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. s.m. að samþykkja byggingaráform hússins. Verður kærumál það, sem er nr. 6/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða sem sami aðili stendur að, enda þykja hagsmunir hans ekki standa því í vegi.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 6. október 2023 var tekin fyrir beiðni lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um frávik á deiliskipulagi Helguvíkar, iðnaðar- og hafnarsvæði, er fólst m.a. í því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m. Var erindinu frestað til aukafundar ráðsins 13. október s.m. Á þeim fundi var beiðnin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var frávikið grenndarkynnt með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. s.m., með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinn 27. nóvember 2023 kom kærandi á framfæri andmælum vegna „[fyrirhugaðra breytinga] á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13“ og staðhæfði m.a. að byggingarfulltrúi hefði brotið lögbundnar skyldur sínar við úttekt mannvirkisins á Hólmbergsbraut 17. Óskaði kærandi eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. desember 2023 var fyrrgreind beiðni um frávik á skipulagi tekin fyrir að nýju. Bókaði ráðið að lóðarhafi Hólmbergsbrautar 13 væri ekki aðili máls varðandi Hólmbergsbraut 17 og samþykkti að vikið yrði frá deiliskipulagi svæðisins þannig að „byggingarreitur stækkar til austurs og að mörk byggingar til suðurs og norðurs verði þau sömu og eldri byggingar á sama reit.“ Bæjarstjórn samþykkti afgreiðsluna á fundi 9. janúar 2024. Á grundvelli þess samþykkti byggingarfulltrúi 11. s.m. umsókn lóðarhafa Hólmbergsbrautar 13 um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi á lóðinni. Leyfið var gefið út 16. s.m.

Kærandi álítur að mannvirkið að Hólmbergsbraut 17 hafi ekki verið byggt í samræmi við byggingarleyfi, lög og reglugerðir. Mannvirkið sé rangt staðsett eða 2,67 m út fyrir byggingarreit samkvæmt útgefnu lóðarblaði. Það rýri notagildi þeirrar lóðar verulega. Við fyrirhugaða breytingu á samþykktu deiliskipulagi fyrir Hólmbergsbraut 13 hafi kærandi komið á framfæri andmælum, en engin efnisleg svör hafi borist þrátt fyrir lögbundna skyldu þar um skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Hinar kærðu ákvarðanir brjóti á skýran hátt gegn réttindum kæranda. Ekki hefði verið tilefni til að taka umrædda ákvörðun áður en skorið hefði verið úr um skaðabótaskyldu sveitarfélagsins og byggingarstjóra mannvirkisins á lóð Hólmbergsbrautar 17. Í því sambandi sé bent á að byggingarfulltrúi hafi brotið gegn lögbundnum skyldum sínum samkvæmt þágildandi lögum skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, svo og byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda hefði við lögbundnar úttektir átt að koma í ljós að mannvirkið væri ekki staðsett rétt í samræmi við útgefið lóðarblað. Kærandi hafi verið í góðri trú um að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Reykjanesbær hafnar kröfum kæranda.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 11. s.m. um að samþykkja byggingaráform hússins.

Í skipulagsrétti gildir sú meginregla að framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulag, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skal gera deiliskipulag á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í þeim tilvikum þar sem fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins ber að gera breytingu á deiliskipulagi áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdinni. Fer um þá breyting eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, nema breytingin sé óveruleg og skal þá fara fram grenndarkynning, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. er svo kveðið á um að sveitarstjórn geti heimilað að vikið sé frá kröfu 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Óskylt er samkvæmt orðalagi greinarinnar að grenndarkynna slík frávik.

Fyrir liggur í máli þessu ódagsett bréf leyfishafa þar sem óskað er eftir „fráviki frá skipulagi/lóðarblaði“ fyrir lóðina Hólmbergsbraut 13. Var m.a. óskað eftir því að byggingarreitur yrði staðsettur í 6,0 m fjarlægð frá austanverðum lóðamörkum í stað 10 m.  Með því leitaði leyfishafi eftir heimild bæjarstjórnar til að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir það var erindið tekið fyrir sem „breyting á deiliskipulagi“ og samþykkt að grenndarkynna það skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að endingu fór þó svo að bæjarstjórn samþykkti frávik á skipulagi og liggur beinast við að álykta að það hafi verið gert á grundvelli 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga felur í sér undanþágu frá áðurnefndri meginreglu um að framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulag og ber því að túlka ákvæðið þröngt. Er skýrt af orðalagi þess að hagsmunir nágranna mega í engu skerðast hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Líta verður svo á að tilfærsla byggingarreits Hólmbergsbrautar 13 um 4 m í átt að lóð kæranda hafi grenndaráhrif gagnvart honum umfram það sem hefði verið að óbreyttu skipulagi. Með því voru ströng skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar var tekin og verður því að fella hana úr gildi af þeim sökum. Þar sem ekki liggur fyrir samkvæmt þessu gild heimild til að víkja frá skipulagi svæðisins verður hið kærða byggingarleyfi einnig fellt úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 9. janúar 2024 að heimila frávik á deiliskipulagi Helguvíkur, iðnaðar- og hafnarsvæði, vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 11. janúar 2024 um að samþykkja byggingaráform atvinnuhúsnæðis á lóð nr. 13 við Hólmbergsbraut.

134/2023 Gauksstaðir

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 134/2023, kæra á ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar frá 25. október 2023 um að samþykkja fyrirspurn vegna endurbyggingu matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2023, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur, Gauksstaðavegi 6, þá ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabær frá 25. október 2023 að samþykkja fyrirspurn um endurbyggingu á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 22. desember 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fólu fyrirhugaðar framkvæmdir í sér að fjarlægja geymslu og byggja íbúðarhúsnæði á nýjum stað innan lóðar. Var erindinu synjað þar sem ráðið taldi breytinguna ekki vera lítilsháttar eins og fram kæmi í byggingarlýsingu. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 20. september s.á. en þá höfðu verið gerðar breytingar á byggingaráformunum. Samþykkti ráðið byggingaráformin með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi verkefnastjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2023, voru áformin grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni tók framkvæmda- og skipulagsráð erindið fyrir að nýju á fundi 25. október s.á. og bókaði að athugasemdir hefðu borist þar sem fjölgun íbúða og aukinni umferð væri mótmælt. Taldi ráðið að byggingaráformin væru í samræmi við aðalskipulag og að framkomnar athugasemdir gæfu ekki tilefni til synjunar. Væri erindið því samþykkt. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 1. nóvember s.á.

Kærendur telja að Gauksstaðavegur beri ekki þá aukna umferð sem muni fylgja fyrirhugaðri  byggingu, en um sé að ræða einbreiðan veg án gangstétta. Miðað við staðsetningu muni umferð til og frá Gauksstöðum fara í gegnum innkeyrslu kærenda að Gauksstaðavegi 6. Það sé augljóst að á Gauksstöðum muni verða rekið íbúðarhótel en hvergi hafi verið gert ráð fyrir slíkri starfsemi á svæðinu.

Af hálfu Suðurnesjabæjar er bent á að um sé að ræða metnaðarfulla uppbyggingu á eldra húsnæði á stórri lóð. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag og sé því stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé lóðin Gauksstaðir á skilgreindu svæði fyrir íbúðarbyggð (ÍB-16). Í Aðalskipulagi Suðunesjabæjar 2022–2034 segi að á íbúðarsvæðum sé svigrúm fyrir heimagistingu og íbúðir til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukning og það ónæði sem hljótist af fyrirhugaðri byggingu verði ekki meiri en eðlilegt geti talist í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Gauksstaða til bæjaryfirvalda Suðurnesjabæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa byggingaráformin ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs um að samþykkja fyrirspurn vegna umræddra byggingaráforma að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð framangreinds erindis sem eftir atvikum lýkur með samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi samþykki umdeild byggingaráform byggingaráform er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

84/2023 Lækjarmelur

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 16. júní 2023 um að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2023, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur Lækjarmels 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðar­sveitar frá 16. júní 2023 að fella niður byggingarleyfi kærenda fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 25. september 2023.

Málavextir: Árið 2005 samþykkti byggingarnefnd Skilmannahrepps umsókn kærenda um leyfi til að reisa einbýlishús með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi. Ári síðar sameinaðist hreppurinn þremur öðrum sveitarfélögum í sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit. Hinn 16. janúar 2014 sendi byggingarfulltrúi sveitarfélagsins kærendum bréf þar sem m.a. kom fram að tæpum níu árum eftir samþykki byggingarleyfisins væri húsið enn á byggingarstigi 2, sem væri ekki viðunandi, auk þess sem hann teldi að lóðin og byggingin væru hættuleg. Fór byggingarfulltrúi fram á að brugðist yrði við bréfi hans svo ekki þyrfti að beita dagsektum eða heimildum í þágildandi gr. 2.4.7. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjallaði m.a. um niðurfellingu byggingarleyfis. Kærendur og byggingarfulltrúi funduðu saman 17. febrúar 2014 þar sem byggingarfulltrúi upplýsti kærendur um að þau hefðu fjögurra vikna frest til að ráðast í tilteknar úrbætur. Í kjölfar þess munu framkvæmdir hafa haldið áfram en samkvæmt fast­eignaskrá Þjóðskrár var húsið að Lækjarmel 5 skráð á byggingarstig 3 árið 2015.

Byggingarfulltrúi sendi kærendum tölvupóst 8. október 2021 þar sem hann tiltók sjö atriði sem lagfæra þyrfti til að „komast hjá óþarfa aðgerðum“, en meðal þess var úttekt á ástandi þak­eininga. Kærendur öfluðu matsgerðar frá húsasmíðameistara vegna hússins að Lækjarmel 5 og lá hún fyrir 27. júní 2022. Var það niðurstaða matsmanns að límtré hússins stæðist allar burðarþolskröfur. Lagði hann til að unnið yrði við þekju yfir bílgeymslu vegna umtalsverðra rakaskemmda og myglu.

Með bréfi, dags. 14. apríl 2023, sendi byggingarfulltrúi kærendum aðvörun vegna fyrir­hugaðrar niðurfellingar byggingarleyfis. Í bréfinu kom fram að framkvæmdir hefðu tekið óhóflega langan tíma en síðasta áfangaúttekt hefði farið fram 12. nóvember 2015. Fyrir lægi mats­gerð um umtalsverðar rakaskemmdir og myglu en ekki væri séð að mygla hefði verið fjarlægð með fullnægjandi hætti. Þá hefði byggingarfulltrúi orðið þess áskynja að mannvirkið hefði verið tekið í notkun sem iðnaðarhúsnæði, en innandyra væri mikið magn verkfæra, tóla og tækja sem væru byggingarframkvæmdunum óviðkomandi auk þess sem þar væri unnið að við­gerð á bifreið. Þar sem byggingarframkvæmdir hefðu stöðvast lengur en eitt ár veitti byggingar­fulltrúi kærendum aðvörun á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem til stæði að fella byggingarleyfið úr gildi. Í bréfinu kom jafnframt fram að til stæði að fella leyfið úr gildi á grundvelli 4. mgr. sömu lagagreinar þar sem það teldist alvarlegt brot gegn 9. gr. laganna að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa og gegn 35. gr. laganna að taka mannvirki í notkun áður en vottorð um öryggisúttekt hefði verið gefið út. Þá tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum að framkvæmdir og notkun skyldi stöðva tafarlaust. Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kærendum veittur frestur til að koma að and­mælum eða athugasemdum til 4. maí 2023. Byggingarfulltrúi sendi svo byggingarstjóra hússins tölvupóst hinn 18. apríl s.á. þar sem fram kom að í kjölfar stöðuskoðunar byggingarfulltrúa á verkstað 15. mars s.á. væri það mat hans að enn væru sýnilegar rakaskemmdir víðsvegar í þekju og því væri „ekki óhætt“ að hylja eða loka af þekju á nokkurn hátt. Einnig krafðist hann þess að óháður fagaðili yrði fenginn til að gera ítarlega ástandsskoðun á þakinu.

Með bréfi kærenda, ranglega dagsett 27. nóvember 2022, var fyrirhugaðri afturköllun greinds byggingarleyfis mótmælt. Framkvæmdir hefðu ekki legið niðri frá árinu 2015 heldur væri búið að vinna við húsið, m.a. við að uppræta myglu í þaki bílgeymslu, glerja húsið og smíða lista. Engin atvinnustarfsemi væri í húsinu þó stöku sinnum hefði verið unnið þar að viðgerð á gömlum bíl. Ekki hefði verið gætt að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem sannarlega hefðu verið til vægari leiðir en afturköllun byggingarleyfisins. Í svarbréfi, dags. 25. apríl 2023, benti byggingarfulltrúi á að hann hefði tekið myndir reglulega frá árinu 2021 og af þeim væri ekki séð að nokkrar framkvæmdir hefðu átt sér þar stað. Ítrekuð voru sjónarmið um að húsið hefði verið tekið í notkun vegna viðgerðar á bíl og auk þess bent á að í húsinu væri að finna þvottavél sem hefði verið tengd. Fundur var haldinn vegna málsins 31. maí 2023 þar sem mættu byggingarfulltrúi, lögmaður sveitarfélagsins, kærendur og lögfræðingur þeirra. Af hálfu kærenda kom fram varðandi framkvæmdir að þótt lítið hefði verið gert undanfarin tvö ár hefði eitthvað verið gert varðandi myglu og hreinsun á lóðinni. Töldu þeir eðlilegt að geyma þar ökutæki og vinna að lagfæringu þess, tengja þvottavél og geyma þar verkfæri. Þó svo að rúm væri geymt í einu herbergja hússins þýddi það ekki að flutt væri í húsnæðið, heldur væri það notað í neyð, ef t.d. væri ófært. Fóru kærendur fram á að byggingarleyfið yrði ekki afturkallað en í stað þess myndu kærendur fá að skila inn framkvæmdaáætlun.

Með bréfi, dags. 16. júní 2023, vísaði byggingarfulltrúi til þess að farið hefði verið yfir sjónarmið kærenda og málið í heild sinni og væri niðurstaðan sú að ekki yrði hjá því komist að fella byggingarleyfið úr gildi. Með hliðsjón af því sem fram hefði komið á fundi 31. maí s.á. taldi byggingarfulltrúi að ekki væri hægt að líta á stöðuna með öðrum hætti en að byggingar­framkvæmdir hefðu legið niðri undanfarin tvö ár, þó svo að eitthvað hefði verið gert varðandi hreinsun á lóð og myglu. Þá hefði eignin verið tekin í notkun. Tilkynnti byggingar­fulltrúi því að byggingarleyfið væri fellt úr gildi þar sem framkvæmdir hefðu stöðvast í lengur en eitt ár, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010, og þar sem notkun mannvirkisins hefði verið breytt án samþykkis byggingarfulltrúa og það tekið í notkun áður en vottorð um öryggisúttekt hefði verið gefið út, sbr. 4. mgr. sama ákvæðis.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þó byggingartími hússins að Lækjamel 5 sé orðinn langur þá eigi það sér skýringar, en fjármálahrunið hafi stöðvað framkvæmdir um nokkur ár auk þess sem heimsfaraldur Covid-19 hafi stöðvað framkvæmdir aftur. Einnig hafi annar kærenda orðið óvinnufær um langan tíma eftir alvarlegt slys. Þá hafi að sögn byggingarstjóra hússins gengið erfiðlega að fá svör frá byggingarfulltrúa hvort byggingarleyfi væri enn í gildi. Í nóvember 2022 hafi verið sendur tölvupóstur á byggingarfulltrúa hvort svo væri en engin svör hafi borist.

Byggingarfulltrúi hafi um nokkuð langt skeið gert ýmsar athugasemdir vegna framkvæmdanna og farið offari í þeim efnum. Gerðar hafi verið athugasemdir við að byggingarefni hafi fokið í óveðri en aðallega hafi verið um að ræða steinull sem hafi átt að fara á þak hússins. Kærendum hafi verið gert að fjarlægja byggingarkrana, en hann hafi verið felldur á bakvið húss og einungis verið óskoðaður þar sem framkvæmdir hafi legið niðri utandyra. Þá hafi verið gerðar athuga­semdir við skæralyftu sem hafi heldur ekki verið skoðuð, en samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins hafi þeim verið heimilt að nota hana í eigin þágu en ekki lána hana eða leigja. Annað sem byggingarfulltrúi hafi gert athugasemdir við hafi kærendur gengist við og lagfært eins og mögulegt hafi verið.

Byggingarfulltrúi hafi farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hann hafi krafist þess við byggingarstjóra hússins að ekki mætti loka þekju hússins þar sem enn mætti sjá myglu. Ekki hafi verið tekið neitt próf til að sannreyna mygluna heldur hafi matið einvörðungu byggst á sjónskoðun byggingarfulltrúa, en ekki einu sinni færustu sérfræðingar séu færir um að gera það. Sjá hafi mátt grágeit í borðum sem sé sveppur sem sé skaðlaus. Þá sé það ávísun á áframhaldandi myglu að leyfa ekki lokun þekjunnar. Að lokum sé bent á að sú krafa að fenginn verði fagaðili til að taka út þekjuna þrátt fyrir að það hafi þegar verið gert sé mjög íþyngjandi og ekki í samræmi við meðalhófsregluna.

Í kjölfar matsgerðar á myglu í júní 2022 hafi kærendur farið að vinna við hreinsun á myglu í samræmi við fyrirmæli skýrslunnar. Þá hafi verið unnið við smíði innandyra, s.s. listasmíði í þaki hússins, auk þess sem einangrun hafi verið sett í lofti bílgeymslu og gengið hafi verið frá rakavörn. Því sé það rangt hjá byggingarfulltrúa að ekkert hafi verið unnið við húsið í tvö ár. Bent sé á að ekkert í lögum eða byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi til um hversu mikið þurfi að vinna við bygginguna til að „ákvæði um afturköllun leyfis sé réttlætanleg eða heimil.“ Á fundi 31. maí 2023 hafi kærendur upplýst byggingarfulltrúa um að byggingarstjóri hússins væri í startholunum við að halda áfram vinnu við húsið og því hafi þeir óskað eftir að leyfið yrði ekki afturkallað en í stað þess yrði skilað inn áætlun um framhald framkvæmda. Sú leið hafi verið vægari en afturköllun byggingarleyfis en meðalhófsregla stjórnsýslulaga kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefji til að ná lögmætu markmiði. Afturköllun sé mjög íþyngjandi og hafi í för með sér kostnað og vinnu við að safna öllum undirskriftum allra meistara og byggingarstjóra á ný. Kærendur séu komin á eftirlaun og hafi því ekki mikið laust fé, en þau hafi byggt húsið fyrir eigið fé allan tímann.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er því haldið fram að hin kærða ákvörðun hafi bæði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þau rúmlega 18 ár sem liðið hafi frá því byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi kærendum verið sýndur mikill skilningur og þeim veitt mikið svigrúm vegna framkvæmdarinnar. Áður en ákvörðun um afturköllun leyfisins hafi verið tekin hafi kærendum ítrekað verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Af þeim myndum sem byggingarfulltrúi hafi tekið 6. apríl 2021, 6. júlí s.á., 10. ágúst s.á, 7. október 2022, 1. nóvember s.á. og 15. mars 2023 verði ekki séð að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað. Því liggi fyrir að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að fella byggingarleyfið niður á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga um mannvirki. Bent sé á að í samræmi við ákvæðið hafi aðvörun fyrst verið gefin auk þess sem kærendur hafi í tvígang verið veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á fram­færi. Hafi því ákvörðunin ekki brotið gegn meðalhófs- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Því til viðbótar liggi fyrir að mannvirkið hafi verið tekið í notkun og notað sem iðnaðarhúsnæði, m.a. til viðgerðar á bifreið. Feli þetta í sér brot gegn 9. gr. og 35. gr. laga um mannvirki, en viðbrögð kærenda við þeim sjónarmiðum séu ekki önnur en að halda því fram að þeim sé greind notkun heimil. Áréttað sé að hús kærenda standi í grónu íbúðarhverfi en myndir byggingar­fulltrúa sýni glöggt ástand hússins og eldhættu. Þessi alvarlegu brot gegn fyrrgreindum ákvæðum laga um mannvirki geri það að verkum að niðurfelling leyfisins styðjist einnig við 4. mgr. 14. sömu laga.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda eru fyrri sjónarmið ítrekuð. Þá er vísað til yfirlýsingar byggingarstjóra hússins þess efnis að byggingarfulltrúi hafi stöðvað fram­kvæmdir í nóvember 2021 þar til ástandsskýrsla lægi fyrir. Byggingarstjóri hafi strax farið í framkvæmdir eftir að matsgerðin hafi legið fyrir í júní 2022. Því sé það ekki rétt að ekki hafi verið unnið við húsið í tvö ár.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hval­fjarðarsveitar frá 16. júní 2023 að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki getur leyfisveitandi að undan­genginni aðvörun fellt byggingarleyfi úr gildi ef byggingarframkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur. Þá segir í 4. mgr. sömu lagagreinar að leyfisveitandi geti að undangenginni aðvörun fellt byggingarleyfi úr gildi ef eigandi mannvirkisins eða aðrir þeir sem bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum samkvæmt lögum þessum sinna ekki fyrirmælum eftirlitsaðila við byggingareftirlit eða gerast sekir um alvarleg eða ítrekuð brot gegn lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um að fella niður byggingar­leyfi kærenda byggði í senn á 2. og 4. mgr. 14. gr. laganna.

Hvorki í lögum nr. 160/2010 né lögskýringargögnum er að finna viðmið um það hvenær fram­kvæmdir teljast hafa stöðvast í skilningi 2. mgr. 14. gr. laganna. Þó segir í 2. málsl. 2. mgr. gr. 2.4.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að það teljist ekki nægjanleg framvinda verks að byggingarefni sé flutt á byggingarstað án þess að unnið sé frekar úr því, en 1. málsl. sömu málsgreinar er samhljóða 2. mgr. 14. gr. laganna. Með hliðsjón af því, orðalagi ákvæðisins og þar sem um verulega íþyngjandi úrræði er að ræða verða ekki gerðar ríkar kröfur til framvindu verks við mat á því hvort framkvæmdir hafi stöðvast eða ekki.

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur yfirlýsing byggingarstjóra Lækjarmels 5 þess efnis að í kjölfar matsgerðar í júní 2022 hafi vinna hafist við að hreinsa myglu úr þakvirki. Þá hafa kærendur haldið því fram að unnið hafi verið við ýmis verk innandyra. Hefur sveitarfélagið ekki mótmælt því sérstaklega að þau verk hafi verið innt af hendi en í stað þess bent á að vart verði séð af framlögðum myndum að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað frá því í apríl 2021. Þó svo að fallast megi á að lítil framvinda hafi verið á framkvæmdum verður að virtum framangreindum sjónarmiðum ekki talið að framkvæmdir hafi stöðvast í skilningi 14. gr. laga nr. 160/2010. Var byggingarfulltrúa því ekki heimilt að fella niður byggingarleyfið á þeim grundvelli að fram­kvæmdir hefðu stöðvast í eitt ár eða lengur.

Kemur þá næst til álita hvort byggingarfulltrúa hafi verið rétt að fella niður byggingarleyfið á grundvelli þess að kærendur hafi gerst sekir um alvarleg brot gegn lögum nr. 160/2010, sbr. 4. mgr. 14. gr. laganna. Taldi byggingarfulltrúi að kærendur hefðu brotið 9. gr. laganna með því að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa og 35. gr. með því að taka mann­virkið í notkun áður en byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð um öryggisúttekt. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að unnið hafi verið að viðgerð bifreiðar í fasteigninni, þvottavél hafi verið tengd og að ýmis tól og tæki ótengd byggingarframkvæmdunum væru þar geymd. Virðist sem byggingarfulltrúi hafi þar með litið svo á að kærendur hafi breytt notkun hússins úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði án samþykkis leyfisveitanda og byrjað að nota húsnæðið í þeim tilgangi.

Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/2010 segir hvað varðar ákvæði 4. mgr. að í henni felist nauðsynlegt úrræði til að tryggja að lögunum sé fylgt. Við ákvarðanir byggingaryfirvalda vegna slíkra brota gildi að sjálfsögðu stjórnsýslulög sem tryggi að gætt sé meðalhófs og annarra reglna laganna við beitingu slíkra úrræða. Þá segir að leyfis­veitandi geti þannig valið að beita fyrst dagsektarákvæðum 56. gr. áður en hann fellir leyfi úr gildi.

Við mat á því hvort kærendur hafi án leyfis breytt notkun Lækjarmels 5 úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði verður að líta til þess að ekki er óalgengt að eigendur bílgeymsla noti þær til ýmissa annars en að geyma þar bíl, þ. á m. að geyma þar verkfæri eða gera við bíl. Verður að telja að annað og meira þurfi að koma til en viðgerð á bíl og geymsla verkfæra svo hægt sé að líta svo á að notkun hússins hafi verið breytt úr íbúðarhúsnæði í iðnaðarhúsnæði. Verður því ekki talið að kærendur hafi gerst brotlegir við 9. gr. laga nr. 160/2010 með því að breyta notkun hússins án tilskilins leyfis. Á hinn bóginn verður fallist á með byggingarfulltrúa að kærendur hafi tekið húsnæðið í notkun áður en öryggisúttekt fór fram, en það brýtur í bága við 35. gr. laganna. Þrátt fyrir það verður að telja, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og fyrrgreindum lögskýringarsjónarmiðum að baki 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010, að byggingarfulltrúa hefði verið rétt að beita öðrum og vægari úr­ræðum til að fá kærendur til að láta af hinni ólögmætu notkun áður en til greina kæmi að fella niður byggingarleyfið, t.d. þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. mannvirkjalaga. Hefur sveitarfélagið ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að ekki hafi verið raunhæft eða mögulegt að beita þeim úrræðum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að fella hina kærðu ákvörðun byggingar­fulltrúa úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 16. júní 2023 um að fella niður byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Lækjarmel í Mela­hverfi í Hvalfjarðarsveit.

102/2023 Drápuhlíð

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. ágúst 2023, er barst nefndinni 28. s.m., kæra eigendur íbúða að Drápuhlíð 2, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð. Er þess krafist að fallist verði á gerð rafhleðslubílastæða á lóðinni til samræmis við jákvæða umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022. Til vara er þess krafist að neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. ágúst 2023 verði endurskoðuð „með heimild fyrir rafhleðslustæði innan lóðar við hlið bílastæða við aðliggjandi lóð að Blönduhlíð 1“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. september 2023.

Málavextir: Hinn 21. mars 2022 lagði einn kærenda þessa máls fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa um möguleika á að koma fyrir rafhleðslustöð á lóðinni nr. 2 við Drápuhlíð. Í umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurninni, dags. 30. júní s.á., var tekið jákvætt í erindið, en bent á að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Þá var tekið fram að í vinnslu væri hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi, Háteigshverfi og Öskjuhlíðarhverfi, sem væri ætlað að ná utan um breytingaþætti á borð við bílastæða- og innkeyrslumál, og ráðlagði skipulagsfulltrúi að beðið yrði með byggingarleyfisumsókn þar til skipulagið lægi fyrir.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júlí 2023 var lögð fram umsókn um leyfi til þess að gera tvö bílastæði og tvöfalda rafhleðslustöð við norðurhlið íbúðarhússins að Drápuhlíð 2.  Var málinu vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar skipulagsfulltrúa. Hinn 3. ágúst s.á. skilaði skipulagsfulltrúi nýrri umsögn um áform kærenda þar sem fyrri umsögn var dregin til baka og neikvætt var tekið í erindið. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að ekkert deili-skipulag væri í gildi sem heimili bílastæði á lóðinni og þau væru ekki sýnd á mæliblaði eða samþykktum aðaluppdráttum. Bílastæði á þessum stað myndi skapa talsverða slysahættu, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda hinn 15. ágúst 2023.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í kjölfar jákvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa 30. júní 2022 hafi vinna við hönnun stæðanna farið af stað og samþykkt hafi verið tilboð frá verktaka í verkið samhliða framkvæmdum við drenlögn. Óvæntur viðsnúningur skipulags­fulltrúa setji allt í uppnám og útlagður kostnaður sé verulegur. Gerðar séu athugasemdir við þá afstöðu skipulagsfulltrúa að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér aukna slysahættu fyrir gangandi vegfarenda. Rafhleðslustæðin verði vel sýnileg, hvort sem horft sé til þeirra sem leggi leið sína að horninu frá Reykjahlíð eða Drápuhlíð. Ekkert grindverk sé í garði Drápuhlíðar 2 sem birgi sýn. Þvert á móti muni öryggi aukast þar sem tré verði fjarlægð við ljósastaur, en þau takmarki lýsingu í dag. Víðast hvar í hverfinu séu útkeyrslur beint út á gangstétt en kærendur kannist ekki við slys af þeirra völdum í þau 36 ár sem þau hafi búið í Hlíðunum. Þá sé það ekki rétt að bakka þurfi út af bílastæðunum og út á hraðahindrun þar sem hleðsla rafbíla sé að aftanverðu og því sé bakkað inn í rafhleðslustæðin. Drápuhlíð sé einstefnugata, en hafi upphaflega verið hönnuð sem tvístefnugata og það skýri hversu breið hún sé. Beygjuradíus sé því alveg nægjanlegur þó að bílum sé lagt í stæði handan götunnar.

Fyrir tveimur árum hafi rúmlega 8 m breitt bílastæði verið gert á lóð Blönduhlíðar 1 með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú lóð liggi að lóðamörkum Drápuhlíðar 2. Engin grenndarkynning hafi farið fram þrátt fyrir að ekkert deiliskipulag sé í gildi. Því ættu kærendur væntanlega að geta fært bílastæði þeirra að lóðamörkum og haft aðkomu frá Eskihlíð. Það sé þó verri kostur en núverandi áform út frá öryggissjónarmiðum. Kærendur telji sig þó eiga að njóta sömu réttinda og nágrannar þeirra að Blönduhlíð 1.

Það sé væntanlega stefna borgarinnar að stuðla að rafbílavæðingu og því spyrja kærendur hvers vegna sé verið að leggja stein í götu þeirra sem vilji taka þátt í þeirri vegferð. Eldri hverfi eins og Hlíðarnar hafi þriggja fasa rafmagn með 230 V kerfi en ekki 400 V eins og sé í nýrri hverfum. Í eldri hverfum þurfi því að stilla hleðslutíma rafbíla yfir minnsta álagstíma með rafhleðslustöðvum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að eldri umsögn skipulagsfulltrúa frá 30. júní 2022, þar sem tekið hafi verið jákvætt í fyrirspurn eins kærenda, hafi verið dregin til baka með nýrri umsögn 3. ágúst 2023. Þegar hafi verið beðist velvirðingar á því, en við gerð eldri umsagnar hafi ekki verið horft nægjanlega vel til aðstæðna m.t.t. aðkomu að fyrirhuguðu bílastæði. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa sé staðsetning bílastæðanna þannig að bakka þurfi yfir gangstétt og út á hraðahindrun sem jafnframt sé gönguþverun yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá sé í umsögninni bent á að ljósastaur og umferðarskilti þrengi beygjuradíus aðkomunnar að bílastæðum sem auki enn fremur á slysahættuna. Bent sé á að í gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennu göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Hafi því málefnaleg sjónar­mið legið að baki umsögn skipulagsfulltrúa og kærðri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur bendi á að í næstu götum megi sjá bílastæði inn á lóðum þar sem aðstæður séu áþekkar þeim sem hér um ræði. Hins vegar verði ekki séð að þar sé um að ræða stæði sem hafi verið samþykkt af borgaryfirvöldum á þessari öld. Á síðustu áratugum hafi viðhorf til umferðaröryggis tekið stakkaskiptum enda fólksfjölgun orðið til þess að öll umferð hafi stóraukist. Ekki séu því uppi sambærilegar aðstæður nú eins og þegar önnur áþekk stæði hafi verið tekin í notkun. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð Blönduhlíðar 1 þá virðist vera um ósamþykkt stæði að ræða. Ólíklegt sé að skipulagsyfirvöld myndu samþykkja nýtt stæði með útkeyrslu á þessum stað m.t.t. umferðaröryggissjónarmiða.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að hraðahindruninni hafi verið komið fyrir árið 2010 fyrir framan fyrirhugaða innkeyrslu, en samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi frá 10. maí 1962 hafi verið gert ráð fyrir bílskúr á lóð Drápuhlíðar 2. Hraðahindrunin sé töluvert innar í götu en sambærilegar hraðahindranir við gatnamót í Hlíðunum. Margoft hafi verið óskað eftir því að hún verði færð nær gatnamótunum vegna mikillar vatnssöfnunar og hálkumyndunar sem skapi slysahættu. Ávallt hafi þau svör borist frá byggingarfulltrúa að málið sé afgreitt.

Kærendur hafi komist að því að ástæða þess að umsögn skipulagsfulltrúa hafi upphaflega verið jákvæð hafi verið sú að þá hafi verið litið svo á að til stæði að gera eitt bílastæði en ekki tvö. Við málsmeðferð byggingarleyfisumsóknarinnar hafi þó aldrei komið athugasemd frá byggingarfulltrúa um að teiknuð væru tvö stæði en ekki eitt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur almennt ekki nýja ákvörðun í máli. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja byggingarleyfisumsókn kæranda. Verður því einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 3. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að lóð Drápuhlíðar 2 væri í skilgreindri íbúðarbyggð samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu en unnið væri að hverfisskipulagi. Til væri uppdráttur af svæðinu frá 1945 þar sem sýnd væri einföld innkeyrsla og bílskúr á lóðinni en uppdrátturinn hefði ekkert skipulagslegt gildi. Á gildandi mæliblaði og samþykktum aðal-uppdráttum væri á hinn bóginn ekki gert ráð fyrir bílastæðum, innkeyrslu eða bílskúr á lóðinni. Þá kom og fram í umsögninni að almennt væri ekki tekið jákvætt í ný bílastæði á lóð í gróinni byggð þar sem reynt væri eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að ekið væri yfir gangstétt að óþörfu. Í gildandi aðalskipulagi væri sömuleiðis almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Líta þyrfti til þess að fyrirhuguð staðsetning bílastæða væri þannig að ekki einungis þyrfti að bakka yfir gangstétt heldur einnig út á hraðahindrun sem fæli í sér augljósa slysahættu fyrir gangandi vegfarendur, sérstaklega börn. Hraðahindrunin væri jafnframt gönguleið yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá myndi ljósastaur og umferðarskilti „þrengja sömuleiðis mjög aðkomuna að þeim og takmarka beygjuradíusinn þegar bakka þarf úr stæðunum“ sem auki á slysahættuna. Væri því tekið neikvætt í erindið.

Hin neikvæða afstaða skipulagsfulltrúa byggðist fyrst og fremst á sjónarmiðum um umferðaröryggi. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert þau sjónarmið að sínum þegar hann synjaði leyfisumsókn kærenda með vísan til umsagnarinnar. Verður að telja þau sjónarmið málefnaleg og að virtum staðháttum svæðisins, þ.e. að bílastæðin eru við gönguþverun Drápuhlíðar og þar sem ljósastaur og umferðarskilti þrengja að beygjunni, þykja ekki efni til að hnekkja því mati byggingarfulltrúa. Hefur Reykjavíkurborg við meðferð þessa kærumáls enn fremur vísað til gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveður m.a. á um að aðkoma að bílastæðum skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Þrátt fyrir að betur hefði farið á því að vísa til reglugerðarákvæðisins við synjun umsóknarinnar verður að fallast á með borgaryfirvöldum að hin umsótta framkvæmd sé ekki í samræmi við ákvæðið. Liggja því bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur telja að byggingarfulltrúa hafi borið að afgreiða umsókn þeirra með hliðsjón af umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022, en í henni var tekið jákvætt í framkvæmdaáform kærenda og leiðbeint um að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Á grundvelli þeirrar umsagnar hófu kærendur vinnu við að útbúa byggingarleyfisumsókn og í kæru er bent á að sú vinna hafi kostað umtalsvert. Svo sem fram kemur í síðari umsögn skipulagsfulltrúa var fyrri umsögnin dregin til baka þar sem í henni hafi ekki verið horft nægilega vel til aðstæðna í nágrenninu. Verður að telja að skipulagsfulltrúa hafi verið heimilt að endurskoða umsögn sína enda byggði sú endurskoðun á málefnalegum sjónarmiðum eins og fram hefur komið. Hvað varðar hugsanlegt tjón kærenda vegna réttmætra væntinga þá fellur umfjöllun um slíkt álitaefni utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar, en gæti eftir atvikum átt undir lögsögu dómstóla.

Kærendur vísa til þess að á lóðinni Blönduhlíð 1 hafi verið gert 8 m breitt bílastæði með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú framkvæmd hafi ekki verið grenndarkynnt. Telja kærendur að þeir eigi að njóta sömu réttinda. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Ekki verður talið að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi falið í sér brot á jafnræðisreglunni þar sem aðstæður á lóðunum tveimur eru ekki sambærilegar. Þar að auki liggur ekki fyrir að leyfi hafi verið veitt fyrir stæði á lóð Blönduhlíðar 1.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

95/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

 

Fyrir var tekið mál nr. 95/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu á suðurgafli hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2023, er barst nefndinni 9. s.m., kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023 að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu á suðurgafli hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt er þess krafist að viðbyggingin verði fjarlægð eða að allir gluggar á suðurgafli hússins nr. 4 sem snúa að húsunum Urðarstíg 6 og 6a verði fjarlægðir, efri hæð viðbyggingar nái ekki lengra en 2 m frá suðurgafli í átt að Urðarstíg 6, steyptar svalir á vesturgafli hússins nr. 4 sem séu í um 2 m fjarlægð frá Urðarstíg 6a verði fjarlægðar, bil á milli Urðarstígs 6a í efri hæð Urðarstígs 4 verði minnst 6 m og að fyrirhugaðar svalir á viðbyggingu sem snúa að húsi nr. 6 verði ekki settar upp eða fjarlægðar. Þá var þess krafist að framkvæmdir á nefndri lóð yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. ágúst 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars 2023 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Húsið var reist árið 1922 og er timburbyggt á steyptum kjallara, klætt að utan með standandi timburklæðningu. Húsið að Urðarstíg 6 er einnig timburhús sem reist var árið 1921. Á sömu lóð norðvestan við hús nr. 6 var annað hús reist árið 1922 sem nú er Urðarstígur 6a. Húsið er einlyft, byggt úr holsteini og með járnklæddu skáþaki. Eigandi Urðarstígs 6 og 6a kærði framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar sem fékk málsnúmerið 78/2023. Eftir að kæran barst nefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna ónógra brunavarna. Nýtt byggingarleyfi var samþykkt 11. júlí 2023 og í kjölfar þess var kæru í fyrrnefndu máli vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafði ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Samþykkt hins nýja byggingarleyfis frá 11. júlí 2023 hefur nú verið kært til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

 Málsrök kæranda: Bent er á að samkvæmt töflu 9.09 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi að vera 10 m milli umræddra húsa miðað við aðstæður. Þá séu steyptar svalir á vesturgafli hússins að Urðarstíg 4 ekki sýndar á samþykktri teikningu frá 11. júlí 2023. Hinn 15. maí 2020 hafi fyrirspurn um viðbyggingu við húsið nr. 4 að Urðarstíg verið hafnað af skipulagsfulltrúa þar sem hún samræmdist ekki ákvæðum í gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 12. nóvember 2009. Þar segi að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar utan byggingarreita allt að 12 m2. Skilyrt sé að slíkar viðbyggingar verði í samræmi við byggingarstíl húsa þar sem aðstæður leyfi og bygging falli vel að byggðarmynstri, yfirbragði nágrannabyggðar og þrengi ekki að umhverfi. Í deiliskipulagi komi jafnframt fram að sé fjarlægð viðbyggingar og geymslna frá lóðarmörkum minni en 3 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þrátt fyrir skort á skriflegu samþykki kæranda hafi ný fyrirspurn verið lögð fram 11. október 2021. Hinn 15. nóvember s.á. hafi skipulagsfulltrúi tekið ákvörðun um að grenndarkynna breytingu á framangreindu deiliskipulagi og var breytingin samþykkt óbreytt 6. október 2022.

Líkt og fram komi í ákvörðun skipulagsfulltrúa hafi kærandi sent inn athugasemd um að farið yrði að lögum og reglum um brunavarnir hvað varði bil á milli tveggja timburhúsa. Tillit yrði tekið til þess í tillögu um skipulagsbreytingu að raunveruleg lóðamörk Urðarstígs 6a og 6 nái töluvert inn á lóð Urðarstígs 4 og miðist ekki við núverandi girðingu. Skipulagsfulltrúi hafi svarað á þann veg að ávallt þurfi að uppfylla lög og reglugerðir um brunavarnir og sýna fram á viðunandi lausnir á byggingarstigi. Núverandi samþykkt og gild lóðarmörk séu þau sem sýnd væru á uppdrætti og gildandi mæliblaði. Lóðarmörk og þar með lóðarstærð breyttist því ekki með deiliskipulagstillögunni. Þrátt fyrir athugasemdir kæranda hafi skipulagsfulltrúi samþykkt breytingu á deiliskipulagi sem geri ráð fyrir viðbyggingu sem brjóti gegn byggingareglugerð um bil á milli húsa. Húsið að Urðarstíg 4 sé timburhús með viðarklæðningu að innan, einangrað með sagi í veggjum og timburklæðningu að utan. Með umræddri viðbyggingu teljist húsið eitt brunahólf og sé langt frá því að uppfylla nútímakröfur um brunaþol. Hefði því verið eðlilegt að skipulagsfulltrúi, byggingafulltrúi og slökkviliðsstjóri tæki sérstakt tillit til þeirra þrengsla sem muni skapast vegna framkvæmdanna.

Í umsögn Reykjavíkurborgar vegna kæru í máli nefndarinnar nr. 78/2023 segi að samkvæmt samþykktu breytingaerindi frá 11. júlí s.á. vegna suðvesturhorns viðbyggingarinnar sem snúi að Urðarstíg 6a verði gluggar í viðbyggingu með brunakröfu E 30 og utanhússklæðning verði eldvarin timburklæðning í flokki 2. Séu þannig skilyrði gr. 9.6.26. í byggingarreglugerð uppfyllt varðandi glugga, gr. 9.7.3. varðandi timburklæðningu og gr. 9.7.5. varðandi lágmarksfjarlægðir á milli bygginga. Sé þessi túlkun byggingafulltrúa óskiljanleg hvað varði fjarlægðir á milli húsa.

Samkvæmt byggingarreglugerð eigi bil á milli húsa, sem bæði flokkist í EI 30, að vera minnst 8 m, séu húsin með klæðningu í flokki 2. Sé enginn eldvarnarveggur á milli bætist 1 m við fyrir hvora byggingu eða samtals 10 m. Það bil hafi verið á milli bygginganna fyrir umrædda viðbyggingu. Húsin að Urðarstíg nr. 4, nr. 6 og 6a séu ekki í flokki EI 60 og eigi því 6 m bil á milli bygginga ekki við. Jafnframt hafi byggingafulltrúi ekki tekið tillit til fjarlægða á milli húsa nr. 4 og nr. 6a sem sé undir 2 m í stað 10. Þrátt fyrir að fjarlægð frá lóðarmörkum sé bundin virðist í framangreindu deiliskipulagi sem engin slík mæling hafi verið gerð enda afstaða bygginga gagnvart lóðarmörkum röng á öllum teikningum leyfishafa án athugasemda frá byggingafulltrúa. Þar sem framangreind breyting á deiliskipulagi brjóti augljóslega gegn ákvæðum byggingareglugerðar hafi eina viðunandi lausnin við meðferð málsins verið sú að hafna þessum teikningum þrátt fyrir að breyting á deiliskipulagi hafi verið samþykkt, enda byggingareiturinn of stór til að uppfylla ákvæði um fjarlægðir milli húsa í byggingareglugerð. Jafnframt hafi eigendur aðliggjandi lóðar aldrei samþykkt viðbyggingu eða skúr á lóð nr. 4 sem séu nær lóðarmörkum en 3 m.

Í athugasemd leyfishafa vegna kæru í máli nefndarinnar nr. 78/2023 komi fram að sérfræðingur á hans vegum hafi verið fenginn til að kynna málið fyrir Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Telji kærandi þetta vera alvarlegt brot á 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að leyfishafi hafi með þessu reynt að hafa óeðlileg áhrif á slökkviliðið með því að ráða aðila til að kynna málið sér í hag. Sér hafi ekki verið kynnt hvað fór fram á þeim fundi, hvaða gögn hafi verið lögð fram eða hver niðurstaða slökkviliðsins hafi verið. Að auki hafi sér ekki verið gefinn kostur á að andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga eins og rétt hefði verið í ljósi athugasemda við breytingu á deiliskipulagi. Hafi kærandi óskað eftir því við byggingafulltrúa að fá afrit af umsögn slökkviliðsstjóra frá 28. júní 2023 en án árangurs. Í því samhengi sé vísað til leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga og rétt til upplýsinga samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012.

Með vísan til framangreinds sé brunaúttekt og málsmeðferð vegna beiðni um að farið sé eftir reglum og lögum um brunavarnir og bil á milli húsa vegna sambrunahættu ófullnægjandi.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er ekki fallist á málatilbúnað kæranda. Vísast til breytingar á deiliskipulagi Urðarstígsreits vegna lóðarinnar nr. 4 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. október 2022. Þar hafi verið samþykktur nýr byggingarreitur fyrir viðbyggingu sunnan hússins ásamt því að heimiluð hafi verið viðbygging sem sé nær lóðarmörkum Urðarstígs 6a en 3 m. Komi því ekki til þess að þurft hefði að afla samþykkis kæranda fyrir byggingunni. Farið hafi verið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar um bil á milli bygginga ásamt áliti sérfræðings í brunavörnum sem staðfest hafi að brunavörnum hafi verið fullnægt.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafi vísar til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, varðandi bil á milli bygginga. Komi þar skýrt fram að um viðmiðunarreglur sé að ræða sem séu frávíkjanlegar að uppfylltum skilyrðum sem komi fram í b- og c-lið gr. 9.2.2. í reglugerðinni. Til þess að uppfylla kröfur framangreindra ákvæða reglugerðarinnar og tryggja að byggingin og umhverfi hennar yrði sem öruggust, hafi hönnuður viðbyggingarinnar stuðst við álit brunasérfræðings.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að gefa byggingarfulltrúa fyrirmæli um að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaraðila. Verður því einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu á suðurgafli hússins að Urðarstíg 4, Reykjavík. Er einkum um það deilt hvort leyfið fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um brunavarnir og fjarlægðir milli húsa.

Í 9. hluta byggingarreglugerðar er að finna ákvæði um bil á milli bygginga og brunavarnir. Samkvæmt 9.2.1. gr. skiptast reglurnar í meginreglur sem eru ófrávíkjanlegar og viðmiðunarreglur sem eru frávíkjanlegar með tækniskiptum, sbr. b-lið 9.2.2. gr., eða brunahönnun, sbr. c-lið sömu greinar, sem sýni fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglna þeirra ákvæða sem vikið sé frá. Að lokum kemur fram að önnur ákvæði 9. hluta reglugerðarinnar séu ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Í kafla 9.7 í byggingarreglugerð er fjallað um varnir gegn útbreiðslu elds milli bygginga. Samkvæmt meginreglu 9.7.1. gr. skulu byggingar vera með nægjanlegum vörnum gegn útbreiðslu elds á milli þeirra, m.a. með tilliti til einangrunar. Þá skal geislun á milli bygginga vera undir 13 kW/m² nema sýnt sé fram á að meiri geislun sé ásættanleg með útreikningum í brunahönnun.

Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um framkvæmd 9.7.1. gr. er tekið fram að öll ofangreind atriði séu ófrávíkjanleg, sbr. ákvæði síðasta málsliðar í 9.2.1. gr. Þar er einnig tekið fram að hættan á útbreiðslu elds ráðist af mörgum þáttum bygginganna sjálfra en einnig af fjarlægð milli þeirra. Til þess að takmarka hættuna á útbreiðslu elds megi beita ýmsum aðgerðum. Algengast sé að hafa bil á milli bygginga það mikið að möguleg hitageislun, að teknu tilliti til viðkomandi þátta sem geta haft áhrif á útbreiðsluna, sé það lítil að hún nái ekki að kveikja í aðliggjandi eða nálægri byggingu.

Um bil á milli bygginga er fjallað í 9.7.5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. er það ófrávíkjanleg meginregla að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Sé ekki unnt að sýna fram á að annað sé hægt til þess að uppfylla 1. mgr. skuli miða við fjarlægðir í töflu 9.09. Fjarlægðir samkvæmt töflunni eiga einungis við um byggingar þar sem brunaálag er undir 780 MJ/m² gólfs og með utanhúss-klæðningu í flokki 1. Séu klæðningar í flokki 2 og enginn eldvarnarveggur á milli bygginga skulu fjarlægðir auknar um 1 m fyrir hvora byggingu. Sé flatarmál glugga í EI 30 og EI 60 veggjum yfir 25% af veggfleti skal lágmarksfjarlægð sýnd með útreikningum. Einnig er heimilt að minnka lágmarksfjarlægð milli bygginga vegna þakskeggs eða annarra útskagandi byggingarhluta, en aldrei meira en 0,5 m fyrir hvora byggingu, sbr. 2. mgr. 9.7.5. gr. byggingarreglugerðar.

Samkvæmt samþykktum teikningum hins kærða byggingarleyfis skal klæðning viðbyggingarinnar við Urðarstíg 4 vera eldvarin timburklæðning í flokki 2 og gluggar með brunakröfu EI 30. Sé miðað við töflu 9.09 í reglugerðinni er 8 m lágmarksbil á milli bygginga að Urðarstíg 4 og Urðarstíg 6 og 6a. Þar sem klæðning er í flokki 2 og enginn eldvarnarveggur á milli bygginganna aukast kröfur um 1 m fyrir hvora byggingu með klæðningu í flokki 2. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um framkvæmd 9.7.5. gr. eru sett fram almenn viðmið sem stofnunin telur að uppfylli ofangreindar meginreglur um bil á milli bygginga. Notkun þeirra í hverju tilfelli er á ábyrgð húseiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Þá kemur fram að leiðbeiningarnar komi ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti.

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá 18. ágúst 2023 þar sem brunaverkfræðingur staðfestir með útreikningum að ofangreindum meginreglum sé fullnægt. Reiknuð hafi verið út hitageislun við versta tilfelli sem er ef eldur stæði út um alla glugga hússins og ekki tekið tillit til að glerið sé E 30. Samkvæmt útreikningum væri hitageislun vel undir 13 kW/m² sem þurfi til að kveikja í brennanlegu yfirborði á vegg. Mesta hitageislun vegna bruna í húsinu Urðarstíg 4 á húsið að Urðarstíg 6a væri 9,77 kW/m² án E 30 glers í Urðarstíg 4 og 8,99 kW/m² á Urðarstíg 6. Hiti var reiknaður á horni hússins að Urðarstígs 6a og á miðjum vegg Urðarstígs 6. Þá staðfesti brunaverkfræðingurinn að forsendur þær sem byggt var á við útreikningana hafi verið ákvarðaðar með góðu öryggi. Þá liggur jafnframt fyrir að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi lokið athugun sinni án athugasemda 10. júlí 2023.

Samkvæmt framangreindu hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar eru í byggingarreglugerð um mat á brunavörnum milli bygginganna og staðfest með útreikningum að hitageislun frá Urðarstíg 4 gagnvart Urðarstíg 6 og 6a sé undir 13 kW/m². Í tilefni af athugasemdum kæranda skal áréttað að ábyrgð hvílir á húseiganda eða hönnuði viðbyggingarinnar á Urðarstíg 4 að færa sönnur fyrir því með fullnægjandi hætti að brunahönnun uppfylli þá meginreglu að bil á milli bygginganna sé nægilega mikið til þess að eldur nái ekki að breiðast út. Er því eðlilegt að húseigandi hafi leitað álits brunaverkfræðings til þess að færa fullnægjandi rök fyrir því að brunahönnun uppfylli framangreindar kröfur reglugerðarinnar.

——–

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna.

Deiliskipulag Urðarstígsreits tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. júní 2012. Í greinargerð þess kemur fram að svæðið falli undir skilgreiningu Reykjavíkurborgar um verndun byggðamynsturs (VB). Á svæðinu sé að mestu leyti byggð frá þriðja áratug 20. aldar með ýmsum húsagerðum í smágerðum mælikvarða. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2022 tók gildi breyting framangreinds deiliskipulags fyrir Urðarstíg 4. Með breytingunni var samþykkt að svalir á suðurhlið hússins yrðu fjarlægðar, heimilt yrði að byggja 12 m² stækkun á aðalhæð hússins ásamt 20 m² kjallara. Samhliða var byggingarreitur sunnan hússins stækkaður úr 12 m² í 20 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkað úr 0,50 í 0,61. Eftir breytinguna þurfti þar með ekki að afla samþykkis kæranda fyrir viðbyggingunni. Að öðru leyti gilda skilmálar gildandi skipulags fyrir lóðina.

Umdeild stækkun húss að Urðarstíg 4 sem samþykkt var 11. júlí 2023 er innan þess byggingar-reits sem stækkaður var með framangreindri deiliskipulagsbreytingu og er byggingarleyfið að öðru leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag sem sætir ekki lögmætisathugun í máli þessu enda kærufrestir vegna þess löngu liðnir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu á suðurgafli hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

73/2023 Álfhella

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimrás ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 að synja byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 30. júní 2023.

Málavextir: Á árinu 2019 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Í breytingartillögunni var greint frá því að byggingar­reitur færðist til á lóð og að bundin byggingarlína félli niður. Á skipulagsuppdrætti var gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins sem yrði fyrir utan byggingarreit.Að undangenginni málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 tók deiliskipulags­breytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2019.

Hinn 23. október 2020 sótti kærandi um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni Álfhellu 11. Í kjölfarið mun kærandi og byggingar­fulltrúi hafa átt í nokkrum samskiptum og í apríl 2022 mun kærandi hafa lagt fram uppfærðan aðaluppdrátt. Í tölvubréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. september 2022, kom fram sú afstaða embættisins að „ekki [væri] hægt að hafa lager með engri lyftu“ og að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða þar sem stigi og lyfta færu út fyrir byggingarreit. Hinn 13. febrúar 2023 lagði kærandi fram uppfærða upp­drætti til byggingarfulltrúa. Kæranda og byggingarfulltrúa munu hafa átt fund 18. s.m. og í kjölfar hans sendi kærandi byggingarfulltrúa bréf, dags. 3. maí s.á., þar sem færð voru rök fyrir því að ekki væri þörf á lyftu í húsnæðinu og þess óskað að byggingarleyfisumsóknin yrði tekin til afgreiðslu. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. s.m. var umsókn kæranda synjað þar sem hún væri hvorki í samræmi við byggingarreglugerð né deiliskipulag. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur 16. maí 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun byggja á ólögmætum sjónarmiðum og forsendum. Synjunin byggi annars vegar á því að fyrirhugað atvinnuhúsnæði á lóð Álfhellu 11 sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012, en hins vegar að það sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Fyrra álitaefnið varði það hvort skylt sé að hafa lyftu í húsnæðinu, sbr. 4. tölulið 1. mgr. gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð, en ákvæðið kveði á um að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu með tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnarhúsnæðis og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Orðalag ákvæðisins beri ekki með sér að skylt sé að hafa lyftur í öllu atvinnuhúsnæði, heldur eingöngu því sem falli undir skilgreininguna í ákvæðinu. Eins og fram komi á framlögðum uppdráttum geri kærandi ráð fyrir að á annarri hæð verði lagerhúsnæði, en þangað eigi aðrir en starfsmenn ekki erindi. Með öðrum orðum sé rýmið á annarri hæð ekki opið almenningi og teljist ekki þjónusturými iðnaðarhúsnæðis. Fái þessi sjónarmið stuðning í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 23. mars 2023, við fyrirspurn kæranda um túlkun á ákvæðinu.

Bent sé á að samkvæmt lögmætisreglu íslensk stjórnsýsluréttar verði íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og reglum. Kostnaður við kaup á lyftu og tengdum búnaði og vegna lögbundins eftirlits með slíkum búnaði geti verið mjög stór hluti af byggingar- og rekstrarkostnaði. Byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að fella á kæranda verulega íþyngjandi fjárhags­legar byrðar nema til staðar sé ótvíræð heimild í lögum og reglugerðarákvæðum, en sú heimild sé ekki til staðar.

Hvað síðarnefnda álitaefnið varði, þ.e. um ósamræmi við deiliskipulag, þá sé bent á að í sam­þykktu deiliskipulagi komi skýrt fram að stigi á vesturhlið hússins nái út fyrir byggingarreit. Í skilmálum fyrir deiliskipulag Hellnahrauns, 2. áfanga, nánar tiltekið grein 2.3., sé fjallað um byggingarreit og byggingalínur. Þar sé tilgreint að byggingar skuli vera innan byggingareita, einnig svalir, skyggni og léttbyggingar úr gleri. Samkvæmt því orðalagi falli stigar ekki þar undir. Sé stiginn því í samræmi við deiliskipulag lóðarinnar.

Þá sé bent á að byggingafulltrúi hafi gert þá athugasemd í tölvubréfi til kæranda, dags. 23. september 2022, að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða og að stigi og lyfta fari út fyrir byggingarreit. Verði ekki annað séð en að byggingar­fulltrúi hafi þá talið það vera í lagi þótt stigi færi út fyrir byggingarreit.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að á neðri hæð fyrirhugaðs atvinnuhúsnæðis að Álfhellu 11 eigi að vera eitt rými fyrir lager, en á efri hæð hússins eigi að vera sex rými sem einnig eigi að nota fyrir lager. Til að komast á efri hæð sé stigi utanhúss sem liggi vestanmegin við bygginguna, en í byggingarlýsingu komi fram að möguleiki sé á lyftu. Þetta séu allt rými sem hægt sé að selja sem sérstakan eignarhluta. Synjun byggingarfulltrúa hafi annars vegar byggst á því að hluti af byggingunni, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, nái út fyrir byggingarreit, en samkvæmt deiliskipulagi skuli byggingin vera innan byggingarreits. Hins vegar hafi synjunin byggst á því að lyfta þyrfti að vera til staðar í húsinu til að uppfylla skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu komi m.a. fram að minnst ein lyfta skuli vera í byggingum sem hýsi starfsemi sem almenningur hafi aðgang að, en byggingarfulltrúi líti svo á að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk, sbr. Íslensk orðabók frá 1963 sem skilgreini almenning sem „allur þorri manna, alþýða“.

Athugasemdir kæranda: Kærandi telji það engu máli skipta fyrir lögmæti ákvörðunar byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar hvort einhvern tíma í framtíðinni verði hugsanlega hægt að selja hluta húsnæðisins. Umsókn kæranda lúti að húsinu eins og það sé skilgreint á byggingar­nefndarteikningum og eins og hann og systurfyrirtæki hyggist nýta það í þeirri starfsemi sem þar eigi að fara fram.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymslu­húsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Var ákvörðunin tekin á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. maí 2023 með vísan til þess að fyrirhugað húsnæði samræmdist hvorki deiliskipulagi svæðisins né byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umbeðnum rökstuðningi sem byggingarfulltrúi veitti 16. maí 2023 var vísað til þess að hluti af fyrirhugaðri byggingu, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, myndi ná út fyrir byggingarreit og að það væri ekki í samræmi við það skilyrði deiliskipulags svæðisins að byggingar skyldu vera innan byggingar­reits. Þá vísaði byggingarfulltrúi einnig til þess að þörf væri á lyftu í húsinu til að skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð væru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð skal staðsetja byggingu innan byggingar­reits. Í sömu málsgrein er kveðið á um að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera má ráð fyrir akandi umferð, né valda hættu fyrir gangandi umferð með útitröppum, útskagandi byggingarhlutum, veggsvölum, opnanlegum gluggum eða hurðum. Er samkvæmt þessu gert ráð fyrir því að útitröppur megi ná út fyrir byggingarreit nema í þeim tilvikum sem reglugerðar­ákvæðið tilgreinir. Þá verður einnig að líta svo á að sveitarstjórn sé heimilt að setja skilyrði í skipulagsáætlun þess efnis að útitröppur skuli staðsetja innan byggingarreits.

Ekki verður séð að fyrirhugaðar útitröppur á vesturhlið Álfhellu 11 muni valda hættu fyrir gangandi umferð þótt þær standi utan byggingarreits, sbr. áðurnefnd gr. 6.2.1. í byggingar­reglugerð. Í gildandi deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, er í gr. 2.3 fjallað um skilmála fyrir byggingarreiti og byggingarlínur, en þar er ekki tilgreint að útitröppur skuli vera innan byggingar­reits. Þá er á skipulagsuppdrætti lóðarinnar Álfhellu 11 gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins. Með hliðsjón af því verður að telja að byggingarfulltrúa hafi ekki verið rétt að synja byggingarleyfisumsókn kæranda á þeim grundvelli að útitröppur standi utan byggingar­reits, enda stóðu hvorki ákvæði byggingarreglugerðar, skilmálar deiliskipulags né skipulagsuppdráttur því í vegi.

Í gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð er fjallað um lyftur og lyftupalla. Fjallar 1. mgr. um megin­reglur sem gilda, en þar segir í 4. tölulið að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnaðarhúsnæði og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir ákvörðun sinni er vísað til þess að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk og því þurfi að vera lyfta upp á aðra hæð hússins. Einnig er vísað til þess að á efri hæðinni séu sex rými sem hægt sé að selja sem sérstaka eignarhluta.

Kærandi ráðgerir með byggingaráformum sínum að reisa tveggja hæða atvinnuhúsnæði þar sem á annarri hæðinni verði lager. Ekki verður talið að sú fyrirhugaða starfsemi falli undir að vera þjónusturými iðnaðarhúsnæðis eða starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Var byggingar­fulltrúa því ekki stætt á að synja byggingarleyfisumsókn með vísan til þess að þörf væri á lyftu vegna ákvæðis gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð. Breytir engu í þeim efnum þótt sá mögu­leiki sé fyrir hendi að einhverjir eignarhlutar efri hæðarinnar verði seldir og að önnur starfsemi muni síðar eiga sér þar stað, enda er ljóst að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og mun byggingarfulltrúi við afgreiðslu slíkrar umsóknar þurfa að taka afstöðu til þess hvort skilyrði byggingarreglugerðar um algilda hönnun séu uppfyllt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar það áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingar­leyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

111/2023 Hafnargata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023 er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.m. að samþykkja byggingarleyfisumsókn Loðnuvinnslunnar hf. fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er rekin fiskvinnslustarfsemi í frystihúsi leyfishafa. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðarbyggðar 29. ágúst 2023 var samþykkt umsókn leyfishafa um leyfi til að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefur þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslunni. Hinn 5. september 2023 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Kærendur telja að gera hefði átt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar þar sem skilyrði grenndarkynningar um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar hafi ekki verið fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Hið kærða leyfi varði heimild til að reisa risastóran hljóðvegg, nokkrum metrum frá heimili þeirra. Um sé að ræða stórkostlega breytingu á byggðamynstri Fáskrúðsfjarðar sem sé fordæmisgefandi fyrir atvinnustarfsemi sem séu nálægt íbúðarhúsnæði. Framkvæmdir séu þegar hafnar og ljóst sé að ekki muni taka langan tíma að byggja hljóðmönina. Sé því óskað eftir því að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir strax þar sem að þeim verði nær örugglega lokið áður en úrskurðarnefndin getið tekið efnislega ákvörðun í málinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að skilyrði fyrir grenndarkynningu framkvæmdarinnar hafi verið uppfyllt. Það að framkvæmdin taki stuttan tíma geti ekki talist sérstök rök fyrir að stöðva framkvæmdina.

 Leyfishafi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Óljóst sé á hvaða grunni umrædd stöðvunarkrafa sé byggð að öðru leyti en að framkvæmdir yrðu að öllum líkindum yfirstaðnar þegar úrskurðarnefndin taki efnislega ákvörðun í málinu. Bent sé á að framkvæmdinni sé ætlað að draga úr hávaðamengun að beiðni kærenda, ljúka úrbótarætlun gagnvart heilbrigðiseftirliti og tryggja að fiskvinnslan uppfylli öll skilyrði hljóðvistar í komandi vertíðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

 Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

 Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu hljóðmanar á lóðarmörkum Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki sem og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

82/2023 Aratún

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Aratúni 34, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 21. júlí 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin Aratún 36 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Silfurtúns. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 42/2009 var byggingarleyfi fyrir bílskúr á umræddri lóð fellt úr gildi. Á árinu 2020 var samþykkt óveruleg breyting á deiliskipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar nr. 36 við Aratún. Breytingin var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði í máli nr. 114/2020. Mat nefndin það svo að með hliðsjón af stærð bílskúrsins sem gert væri ráð fyrir á lóðinni hafi ekki verið um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulaginu þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,30 í 0,46 og hækkaði því um 53%. Þar með hefði meðferð málsins átt að fara fram á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en ekki í samræmi við 2. mgr. 43. gr. laganna eins og verið hafði. Ný breyting á deiliskipulagi Silfurtúns var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 3. febrúar 2022 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. Með breytingunni var leyfilegt nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni hækkað úr 0,30 í 0,35 og þar sem hæðarmunur á lóð byði upp á útfærslu húss með kjallara mætti nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45.

Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra 7. júní 2022 var samþykkt, að lokinni grenndarkynningu, breikkun um 1,5 m á hluta byggingarreits Aratúns 36 fyrir bílskúr. Samþykkt skipulagsstjóra tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní s.á. Byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr var samþykkt 29. maí 2023.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að frá árinu 2008 hafi þau verið í samskiptum við þáverandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, og Garðabæ vegna umrædds bílskúrs. Síðast hafi þau átt samskipti við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, árið 2020 vegna málsins.

Hinn 26. júní sl. hafi íbúi Aratúns 36 bankað upp á hjá þeim og tilkynnt að nú færu að hefjast framkvæmdir við umrædda bílskúrsbyggingu þar sem samþykkt hafi verið byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Hafi hann tjáð kærendum að hann myndi byrja á að grafa upp plötu sem hafði verið steypt árið 2011 og óskað eftir því að fá að koma 1 til 2 m inn á lóð kærenda til þess að geta drenað umræddan bílskúr og unnið við uppsetningu steypumóta. Hafi því verið neitað enda ekkert sem rökstyðji það að bílskúrinn sé drenaður á lóð þeirra eða að vinna vegna framkvæmdanna fari fram á lóð þeirra.

Degi síðar hafi kærendur farið á bæjarskrifstofur Garðabæjar og óskað eftir afriti af teikningum umrædds bílskúrs. Komi þar fram eins og kærendur hafi óttast að athugasemdir þeirra hafi verið virtar af vettugi. Aðspurður hafi starfsmaður Garðabæjar tjáð þeim að byggingarleyfið hafi verið gefið út 29. maí 2023. Hafi þau því enga vitneskju haft um leyfið fyrr en bankað hafi verið upp á hjá þeim 26. júní sl., þrátt fyrir að vera búin að vera í samskiptum við starfsmann byggingarnefndar haustið 2022 og óskað eftir teikningum. Á þeim tíma hafi þeim verið tjáð að þar sem ekki væri búið að gefa út leyfið gætu þau ekki fengið teikningarnar. Hafi starfsmaðurinn sagt ætla að láta þau vita um leið og að byggingarleyfi yrði gefið út en ekki staðið við það. Hefðu kærendur haft vitneskju um útgáfu byggingarleyfisins hefðu þau kært leyfið strax í byrjun júní.

Samkvæmt teikningum eigi umræddur bílskúr að vera 3,2 m á hæð á lóðarmörkum kærenda. Hækki hann þar af leiðandi niður lóðina og verði um 80% bílskúrsins á bilinu 4,5 til 5 m hár á lóðamörkunum þar sem lóð kærenda standi lægra en lóð Aratúns 36. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði um 12 m að lengd. Telji kærendur enga ástæðu til staðar sem rökstutt geti þessa hæð á bílskúrnum enda sé innkeyrsla Aratúns 36 með möl sem hafi nú þegar verið hækkuð um 50 cm undanfarin ár. Séu því fullar forsendur fyrir því að eigendur Aratúns 36 lækki innkeyrsluna til þess að lækka bílskúrinn í stað þess að byggja eins hátt og leyfið hljóði upp á.

Flatarmál umrædds bílskúrs verði gróflega áætlað um 139,9 m2 að meðtöldum lagnakjallara með hita í gólfi. Í kjallara og á 1. hæð bílskúrsins sé gert ráð fyrir að gengið sé inn á hliðinni að vestan. Þá sé einnig gert ráð fyrir baðherbergi og einstaklingsíbúð með eldhúsi er virðist vera samkvæmt teikningum. Einnig séu gluggar bílskúrsins um 1,2 m á hæð og 1,8 m á breidd, báðir með 72,5 cm opnalegu fagi á báðum hæðum. Telji kærendur að umræddur lagnakjallari þarfnist ekki slíkrar lofthæðar og að bílskúr þurfi heldur ekki glugga og hurðir sem séu á stærð við það sem þekkist í íbúðarhúsnæði á tveimur hæðum. Virðist því sem að samþykkt hafi verið leyfi fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis en ekki bílskúrs á lóðamörkum Aratúns 34 og 36. Ljóst sé að bílskúr af framangreindri stærð komi til með að rýra verðgildi fasteignarinnar að Aratúni 34.

Ítrekað sé að ekki sé verið leggjast gegn því að byggður verði bílskúr að Aratúni 36. Heldur ættu allir að falla undir sama hatt. Hvergi sé gert ráð fyrir að bílskúrar séu með jafn háa veggi og bílskúrinn sem reisa eigi á lóð Aratúns 36. Ætti því umræddur bílskúr að vera í samræmi við hverfið og götuna. Einnig sé hvergi að sjá að gert hafi verið ráð fyrir að aukið byggingar-magn yrði lóðrétt á kostnað útsýnis og birtu húsa á nærliggjandi lóðum. Þá sé ekki heldur að sjá samkvæmt deiliskipulagi að gert hafi verið ráð fyrir að byggðar séu íbúðir í bílskúrum. Það hljóti að gefa auga leið að ef óskað sé eftir auknu byggingarmagni, verði það samþykkt sem viðbót við núverandi hús en ekki á kostnað annarra húsa í hverfinu. Frá árinu 2008 hafi það reynst erfitt fyrir kærendur að koma í orð lýsingu á raunverulegri stærð fyrirhugaðrar byggingar. Sé því sérstaklega óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari í vettvangsferð að Aratúni 34 og 36 til að tengja saman teikningar á umræddum bílskúr við umhverfi hans.

 Málsrök Garðabæjar: Gerð er krafa um að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað. Með breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 3. febrúar 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. hafi nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni verið hækkað. Hafi það farið úr 0,3 í 0,35 og þar sem kjallari/neðri hæðir séu mögulegar megi nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45. Með heimild í viðauka við samþykkt um stjórn Garðabæjar nr. 20/2017, hafi skipulagsstjóri, á afgreiðslufundi 7. júní 2022, samþykkt breikkun á byggingarreit fyrir hluta bílskúrs um 1,5 m að lokinni grenndarkynningu. Hafi samþykktin verið staðfest með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda degi síðar. Við útgáfu hins kærða byggingarleyfis hafi þess verið gætt að uppfylltir yrðu deiliskipulagsskilmálar hvað varði nýtingarhlutfall, hæð veggja við lóðarmörk og að byggingin falli innan byggingarreits.

Samkvæmt skráningu í fasteignaskrá sé húsið sagt vera 209 m2 en í úrskurði úrskurðarnefnd-arinnar nr. 114/2020 komi fram að rétt stærð hússins sé 233,7 m2 og þar af sé kjallari 97,2 m2. Nýr bílskúr sem umþrætt byggingarleyfi snúi að sé 63,6 m2 og lagnakjallari 76,3. Saman geri þetta 376,6 m2 og nýtingarhlutfallið 0,46 sem teljist innan skekkjumarka deiliskipulags-skilmála. Grunnflötur húsnæðis án kjallara sé 138,5 m2. Að viðbættum lagnakjallara sé stærðin 214,8 m2 og nýtingarhlutfallið þá 0,26 sem sé verulega undir heimild samkvæmt deiliskipulagsskilmálum. Hámarkshæð húsnæðis samkvæmt skilmálunum megi vera 3,2 m frá gólfkóta aðalhæðar sem sé 9,45. Því sé hámarkskóti samkvæmt deiliskipulagsskilmálunum 12,65. Á uppdráttum komi fram að hæð bílskúrs sé 12 og sé þar með undir framangreindri hámarkshæð.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að samkvæmt hæðarblaði dags. 1. september 2020 megi aðkomuhæð bílskúrs vera í hæðarkóta 8,95, sem sé 50 cm undir hæðarkóta íbúðar Aratúns 36. Sé þetta í samræmi við önnur hús í götunni að einu húsi undanskildu sem sé með hæðarkóta íbúðar og bílskúrs í sama kóta. Ákveðið hafi verið í samráði við byggingarfulltrúa að hafa bílskúrinn lægri en heimilt sé og verði hann í kóta 8,80. Fullyrðingu um að hæð á lóðamörkum verði 4,5 til 5,0 m sé vísað á bug. Hæð bílskúrsins sé 3,2 metrar eins og deiliskipulag kveði á um. Fullyrðingu um að búið sé að hækka innkeyrsluna um allt að 50 cm séu rangar. Því til stuðnings sé vísað til ljósmyndar sem sýni að heimkeyrsla sé langt undir botnplötu íbúðarhúss.

Samkvæmt samþykktri skráningartöflu fyrir Aratún 36, dags. 13. júní 2023, sé umræddur bílskúr 63,6 m2. Gert sé ráð fyrir salerni í bílskúr en engar teikningar sýni að gert sé ráð fyrir baðherbergi eða eldhúsi í kjallara. Lofthæð lagnakjallara sé 2,02 metrar sem ætti ekki að skipta máli í ljósi þess að bílskúrinn sé byggður út frá uppgefnum hæðarkóta, eða 15 cm undir í þessu tilfelli og upp á við sem nemi heimildum í deiliskipulagi. Dyr bílskúrs sé 0,98 metrar á breidd og hafi hún verið sett til þess að uppfylla lágmarksskilyrði gr. 6.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hvorki dyr né gluggar séu af óvenjulegri stærð og snúi gluggar og dyr inn í garð leyfishafa en ekki að lóð kærenda. Að lokum sé ítrekað að bílskúrinn sé innan heimilda deiliskipulags að öllu leyti, þar á meðal hvað varði byggingarreit og hámarkshæð. Aukið byggingarmagn rýri ekki útsýni þar sem byggingin sé öll innan hámarkshæðar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekað er að kærendur séu ekki ósátt við byggingu bílskúrs heldur setji þau sig upp á móti stærð og hæð bílskúrsins á lóðarmörkum. Baklóðir Aratúns 32, 34, 36 og 38 séu nánast allar jafn háar. Hins vegar sé hús kærenda á einni hæð, en Aratún 36 sé á tveimur hæðum. Með því að hafa bílskúrinn svo háan og í hlutföllum við Aratún 36, gefi það auga leið að hann muni skyggja verulega á húsið við Aratún 34 og baklóð þess.

Ítrekuð sé framangreind umfjöllun að um sé að ræða byggingu íbúðarhúsnæðis, eða stækkun þess, á lóðarmörkum. Einungis fjórir metrar skilji að umræddan bílskúr og hús kærenda. Væri því nærtækast að byggð yrði hefðbundinn bílskúr í samræmi við aðra slíka í götunni og að stækkað yrði íbúðarhúsið sjálft að Aratúni 36, enda standi húsið á miðri lóð en ekki á lóðarmörkum.

 —–

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 15. september 2023 að viðstöddum kæranda og leyfishafa ásamt fulltrúum Garðabæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ að samþykkja leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni Aratúni 36. Er fyrst og fremst deilt um hvort hæð og stærð byggingarinnar við mörk lóðar kærenda eigi sér stoð í gildandi skipulagi.

 Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er skipulagssvæðinu Silfurtúni lýst sem lágreistri, fullbyggðri sérbýlishúsabyggð sem jafnframt sé elsta íbúðarbyggð Garðabæjar. Að öðru leyti er vísað til gildandi deiliskipulags.

 Deiliskipulag Silfurtúns tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2012. Í kafla 4.2.3. í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að þar sem hverfið sé þegar fullbyggt gildi ný ákvæði um mæli- og hæðarblöð aðeins fyrir nýbyggingar, sé núverandi hús rifið eða vegna viðbygginga. Þá skuli nýbyggingar og viðbyggingar ávallt taka mið af kótum eldra húss og aðalhæð. Undantekningalaust skuli miða við aðalhæð húss þegar kótar húss og lands séu samstilltir. Samkvæmt kafla 4.3.1. er heimilt að hafa kjallara að hluta eða öllu leyti þar sem lega lands og frárennsli lagna leyfa og endurbyggja hluta núverandi húss, s.s. bílgeymslu á núverandi stað án þess að fylgja nýjum byggingarreit. Skal endurbygging fylgja nákvæmlega stærð fyrri húshluta í hvívetna, bæði að grunnfleti og í hæð. Í kafla 4.3.2 greinargerðarinnar er fjallað um bílastæði og bílgeymslur. Þar kemur fram að bílskúrar séu ýmist sambyggðir húsi eða stakir í framhaldi af bílastæðum. Oftast einfaldir og reistir tiltölulega innarlega á lóðum nokkuð langt frá götu. Þar sem bílgeymsla hafi ekki verið byggð við hús gildi nýr byggingar-reitur um staðsetningu hennar. Bílgeymsla skuli að öllu jöfnu vera lágreist með litlum þakhalla og að hámarkshæð 3,2 m.

Í 5. tl. gr. 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er talið upp hvað falli undir hugtakið bílgeymsla. Þar segir að um sé að ræða hús eða húshluta til geymslu á bílum, ýmist opið eða lokað. Leikur því ekki vafi á að í framangreindri umfjöllun um að nýbyggingar og viðbyggingar skuli ávallt taka mið af kótum eldra húss og aðalhæð eigi einnig við um bílgeymslur.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 114/2020 var deiliskipulagi Silfurtúns breytt og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2022. Með breytingunni var leyfilegt nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni hækkað úr 0,30 í 0,35. Þar sem hæðarmunur á lóð byði upp á útfærslu húss með kjallara mætti nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45. Þá var gerð breyting á deiliskipulaginu vegna lóðarinnar Aratúns 36 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní 2022 þar sem byggingarreitur fyrir bílskúr var stækkaður um 1,5 m til vesturs og heimild veitt fyrir lagnakjallara undir bílskúr. Þá var hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar jafnframt aukið úr 0,35 í 0,50.

Samkvæmt samþykktum teikningum er aðalhæð hússins að Aratúni 36 í gólfkótanum 9,45 og ætti gólfkóti bílskúrsins að taka mið af þeim kóta samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt teikningunum er gólfkóti bílskúrs 8,8 og vegghæð bílskúrsins 3,2 m þar fyrir ofan eða í kóta 12,0. Samkvæmt þessu er hæð bílskúrsins, miðað við gólfkóta aðalhæðar, innan heimilda deiliskipulagsins.

Vegna landhalla lóðarinnar er bílskúrsveggurinn í breytilegri hæð miðað við jarðvegsyfirborð séð frá lóð kærenda. Fyrir liggur að nýtingarhlutfall lóðarinnar verður eftir stækkunina 0,45, sem er innan heimilda gildandi deiliskipulags. Eðli máls samkvæmt munu umdeild byggingar-áform hafa allnokkur grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda í ljósi stærðar hinnar samþykktu viðbyggingar og legu hennar við mörk lóðar kærenda.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnis-annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Rétt þykir að vekja athygli á að geti fasteignareigandi sýnt fram á fjártjón vegna deiliskipulags getur það leitt til bótaréttar, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en slíkt álitaefni á ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36, Garðabæ.

69/2023 Bakkaflöt

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu íbúðarhúss að Bakkaflöt 5, Garðabæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Bakkaflöt 7, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu húss að Bakkaflöt 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á nefndri lóð yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 22. júní 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 6. júlí 2023.

Málavextir: Deiliskipulagið Flatir Garðabæ tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. mars 2014. Markmið skipulagsins var að gera húseigendum kleift að byggja við hús sín eða eftir atvikum rífa þau og byggja ný. Í deiliskipulaginu var gert ráð fyrir að hús ofan götu, þar sem landhalli er meiri, gætu verið 1,5 hæðir, þ.e. stallast um hálfa hæð upp og niður. Varð því heimilt, þar sem landhalli leyfir, að byggja allt að tvær hæðir á lægri hluta lóðar.

Hinn 21. september 2021, samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að rífa bílageymslu og byggja við einbýlishús sem stendur á lóðinni Bakkaflöt 5. Í framhaldi þess staðfesti bæjarráð hinn 10. janúar 2023 samþykki byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn fyrir Bakkaflöt 5. Byggingarleyfið var gefið út 3. maí s.á. og hefur það nú verið kært til úrskurðarnefndarinnar.

 Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hafa fyrst fengið upplýsingar um útgáfu byggingarleyfisins 4. maí sl. Á þeim tíma hefðu þó allir útveggir viðbyggingarinnar við Bakka-flöt 5 verið steyptir, að undanskilinni 2. hæð suðurhliðar viðbyggingarinnar og þakkants á norðurhluta. Hafi þetta allt verið framkvæmt áður en formlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út. Kærendur byggja á því að hafa verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Lóð þeirra liggi að Bakkaflöt 5 og valdi viðbyggingin verulegu skuggavarpi og útsýnis-skerðingu á lóð þeirra.

Hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum. Tveir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vanhæfir til að koma að afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkaflatar 5, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 1. mgr. 20. gr. sveitar-stjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. mgr. 25. gr. samþykkta um stjórn Garðabæjar nr. 1182/2022. Um sé að ræða stjórnarformann verktakafyrirtækisins sem sá um framkvæmdina sem byggingarleyfið laut að, ásamt arkitekt verksins. Hafi því báðir aðilar hagsmuna að gæta við úrlausn málsins, sbr. álit UA nr. 3521/2002. Samkvæmt fundargerðum skipulagsnefndar Garðabæjar frá 12. ágúst og 30. september 2021 hafi þeir báðir setið fundina og tekið þátt í meðferð og afgreiðslu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar. Á fyrri fundinum hafi verið lögð fram umsókn um byggingu bílageymslu, lækkun aðkomuplans í hæð við götu og gerð opins bílskýlis undir nýrri viðbyggingu. Þar hafi annar þessara aðila verið á fundinum en vikið af fundi undir þessum lið. Á seinni fundinum hafi umsóknin verið afgreidd þar sem báðir þessir aðilar hafi setið fundinn. Að framangreindu virtu hafi umræddir aðilar þó verið vanhæfir til að taka þótt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn málsins, sbr. 4. gr. stjórnsýslulaga og beri því að ógilda ákvörðunina þegar af þeirri ástæðu.

Einnig telji kærendur að útgáfa byggingarleyfisins sé í brýnni andstöðu við almenna skilmála gildandi deiliskipulags, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012. Í greinargerð með gildandi deiliskipulagi Flata Garðabæ, frá árinu 2014, komi fram að leitast sé við að viðhalda þeim þáttum í mynstri byggðarinnar sem hafi víðast verið til viðmiðunar, s.s. bindandi byggingarlínur við götu, hæðir, hússtærðir og þakform. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags svæðisins sé hámarkshæð fyrir 1,5 hæðar hús 4,2 m næst götu en 5,2 m aftar á lóð. Miðað við mynd 3-D á skipulagsuppdrætti skuli miða hámark þetta frá fyrstu hæð. Þess beri að geta að við Bakkaflöt 5 hafi áður staðið bílageymsla sem nú hafi verið rifin og ný bygging verið reist í staðinn. Við umrædda breytingu hafi eigendur byggt nýja byggingu á lægri fleti (botnplötu) en eldri bílageymslan hafi verið byggð á, sem nemi 90 cm.

Bent sé á að þrátt fyrir framangreinda breytingu á byggingunni, breytist ekki viðmið gólfkóta sem notaður sé til að reikna hámarks nýtingarhlutfall. Í deiliskipulaginu komi fram að þegar ný hús séu reist í stað eldri húsa gildi talan um hámarks nýtingarhlutfall sem komi fram í skilmálatöflu þó svo að núverandi hús sé stærra. Enn fremur komi þar fram að sé hús rifið og byggt nýtt gildi skilmálar um hámarks nýtingarhlutfall og hæðir án undantekninga. Kærendur hafi leitað álits Skipulagsstofnunar á inntaki deiliskipulagsins hvað þetta varðaði og hafi framangreindur skilningur þeirra á skilmálum deiliskipulagsins verið staðfestur. Hafi mat Skipulagsstofnunar verið að þar sem um væri að ræða framkvæmdir í þegar byggðu hverfi sé eðlilegt að miða við hámarkshæð þeirrar byggingar sem reist hafi verið upphaflega og allur frágangur á lóð og leyfileg hæð bygginga hafi tekið mið af. Af þessu leiði að Garðabæ hafi borið að miða hámarkshæð við gólfkóta þeirrar bílageymslu sem var upprunalega byggð með eigninni. Ekki sé útilokað að skilja megi deiliskipulagið þannig að miða eigi við götukóta. Það sé þó sama hvort viðmiðið yrði lagt til grundvallar, í báðum tilvikum sé ljóst að byggingin sé hærri en deiliskipulagið geri ráð fyrir. Miðað við fyrirliggjandi gögn sé nýbyggingin þannig öll of há.

Í tengslum við þær athugasemdir sem kærendur hafi borið upp við Garðabæ hafi sveitarfélagið óskað eftir leiðbeiningum um inntak gildandi deiliskipulags frá arkitekt sem unnið hafi deili-skipulagið fyrir bæinn. Samkvæmt bréfi arkitektsins frá 16. maí 2023 sé heimilt, þar sem landhalli leyfi, að byggja allt að tvær hæðir á hluta lóðar og þá á lægri hluta lóðar en ekki efri hluta. Taki hann sérstaklega fram í bréfi sínu ,,að miða skal við þá gólfkóta húsa sem byggðir voru upphaflega en í tilviki Bakkaflatar 5 var gólfkóti bílskúrs áður 32,7 en samþykkt teikning breytinga og viðbyggingar gerir ráð fyrir kóta 31,8 sem sé 90 cm lægri.“ Miðað við þetta sé ljóst að sé bílageymslan rifin og ný bygging reist þá beri að miða við upphaflegan gólfkóta bílageymslu. Verði því ekki annað séð en að byggingarleyfið sé í andstöðu við skilmála deili-skipulagsins. Hin samþykktu byggingaráform samræmist ekki framangreindu og sé við-byggingin því óvenjuleg og í ósamræmi við skilmála deiliskipulagsins, þar sem miða eigi við upphaflega gólfkóta þegar hámarkshæð sé ákvörðuð, þrátt fyrir breytingu og niðurrif bíla-geymslu Bakkaflatar 5. Að því sögðu sé viðbyggingin ekki innan hæðarmarka og því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Ef nágrönnum fasteignareigenda að Bakkaflöt 5 hefði verið kynnt áformin, sem bæjaryfir-völdum hafi verið skylt að gera í ljósi þeirra áhrifa sem breytingarnar hafi á hagsmuni eigenda Bakkaflatar 7, hefði þeim gefist færi á að tjá sig og koma að athugasemdum við framkvæmdina. Hafi kærendur verið ítrekað í samskiptum við bæjarfélagið en engar nákvæmar upplýsingar fengið um framkvæmdina.

 Málsrök Garðabæjar: Bent er á að skv. 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé það byggingarfulltrúi sem samþykki og gefi út byggingarleyfi nema til staðar sé samþykkt um sérstaka byggingarnefnd í sveitarfélagi skv. 7. gr. sömu laga. Engin slík samþykkt hafi verið sett í Garðabæ og það sé því byggingarfulltrúi sem afgreiðir slík mál hjá sveitarfélaginu án aðkomu skipulagsnefndar. Afgreiðsla á umræddu byggingarleyfi hafi verið staðfest á fundi bæjarráðs 10. janúar 2023. Tilgreindir nefndarmenn í skipulagsnefnd hafi því ekki komið að afgreiðslu byggingarleyfisins. Meint vanhæfi þeirra hafi því engin áhrif á hið kærða leyfi. Hvað varði umfjöllun skipulagsnefndar hinn 12. ágúst 2021, sem vísað sé til í kæru, þá hafi sú umfjöllun lotið að því að vísa málinu til skoðunar til tækni- og umhverfissviðs og skipulagsráðgjafa. Hafi því ekki verið um efnislega afgreiðslu að ræða. Annar nefndar-mannanna sem talinn sé vanhæfur samkvæmt kæru hafi að auki vikið af fundi við afgreiðslu málsins eins og fram komi í fundargerð. Hvað varði aðkomu hins nefndarmannsins sé vísað í framangreinda umfjöllun. Að auki liggi fyrir að þátttaka hans í þeim þætti málsins hafi engu breytt varðandi afgreiðslu málsins enda málið samþykkt samhljóða af öðrum nefndarmönnum. Sé því ljóst að þeir aðilar sem vísað sé til í kæru að hafi verið vanhæfir hafi ekki komið að afgreiðslu málsins. Byggingarleyfið verði ekki fellt úr gildi á þeim grunni.

Byggingarleyfið sé í samræmi við ákvæði skipulags og skipulagsreglugerðar um hámarkshæð hússins. Vísað sé til þess að hámarkshæð húss megi vera 4,2 m næst götu en 5,2 m aftar á lóðinni. Bent sé á að mynd 3-D á skipulagsuppdrætti sem kærendur vísi til hafi skipulagshöfundur tekið fram í minnisblaði sínu, dags. 16. maí 2023, að gerð hafi verið mistök við framsetningu myndarinnar sem felist í að orðunum „lóðamörk“ og „gata“ hafi verið víxlað á umræddri mynd. Hún sé því röng eins og fram komi í minnisblaðinu þar sem sýnd sé ný og rétt mynd. Um sé að ræða augljós mistök í framsetningu eins og ráða megi af myndinni sjálfri, eðli máls og skilmálum að öðru leyti. Eðlilegt sé að veitt sé leyfi til að byggja hús að hluta á tveimur hæðum til að taka upp landhalla í landinu, þ.e. á lægri hluta lóðar en ekki öfugt. Aðrir skilmálar skipulagsins styðji við þessa túlkun og sé þetta ekki í fyrsta skipti sem reyni á þetta ákvæði. Athugasemd hafi komið fram um þetta atriði þegar sótt hafi verið um leyfi til breytinga á húsi nr. 3 við Bakkaflöt árið 2015. Hönnuður þess húss hafi bent á þetta og óskað eftir skýringum á túlkun á ákvæðinu með fyrirspurn, dags. 8. júlí 2015. Þá hafi skipulagsnefnd Garðabæjar staðfest túlkunina á fundi sínum 14. ágúst 2015.

Til viðbótar framangreindu sé lögð áhersla á að skýrt komi fram í skilmálum skipulagsins að miða beri hámarkshæð við gólfkóta aðalhæðar, sbr. síðustu setninguna í skilmálum þar sem fjallað sé um hæðir húsa og þakgerðir. Þar segi: „Hámarkshæð húsa er reiknuð út frá uppgefnum gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum.“ Ekki liggi fyrir hæðarblað fyrir umrædda lóð enda hefði þegar verið byggt á henni hús eins og fram komi í gögnum málsins og engin ástæða til að gefa út hæðarblað. Hefði slíkt verið algjör rökleysa enda hefði í því verið miðað við hæðarkóta aðalhæðar. Ekki sé því hægt að miða við kóta skv. hæðarblaði. Eins og fram komi á aðaluppdráttum sé gólfkóti aðalhæðar hússins 34,0 eins og hann var fyrir breytingar og verði áfram, og hámarkskóti byggingarinnar 38,2. Hæð byggingarinnar sé því vel innan marka þess sem skipulag leyfi en samkvæmt því sé hámarkshæðin 39,2 (34,0 + 5,2).

Hvað varði umsögn Skipulagsstofnunar þá breyti hún engu um framangreint enda virðist stofnunin ekki gera sér grein fyrir villunni á mynd D-3. Tilvísun til skipulagsreglugerðar hafi heldur enga þýðingu enda sé skýrt kveðið á um hæðarkóta og við hvaða gólfkóta eigi að miða við í skipulaginu. Minnt sé á að um sé að ræða skipulag sem fjalli um svæði sem þegar sé byggt að mestu leyti og meðal annars löngu fyrir tíma núgildandi reglugerðar.

 Samkvæmt upplýsingum frá hönnuði hússins hafi verið gerðar nokkrar breytingar á fram-kvæmdunum eftir upphaflega hönnun til þess að leitast við að milda grenndaráhrif breyting-anna. Til að mynda hafi þakkantur viðbyggingar verið lækkaður um 10 cm, hluti þakkants viðbyggingar sem snúi að Bakkaflöt 7 hafi verið lækkaður um 100 cm, gryfja milli lóða við bílskýli felld burt og rimlaveggur felldur niður og renningur milli lóðanna nr. 5 og 7 jafnaður og aðlagaður að núverandi yfirborði lóðar Bakkaflatar 7 eins og kostur er. Þannig aukist rými á lóð nr. 7. Þá hafi verið gerður stoðveggur við innkeyrslu frá húsi nr. 5 að lóðamörkum vegna þessarar sömu lóðaraðlögunar og gert ráð fyrir gróðri milli húss og lóðar nr. 7. Með þessum aðgerðum telji hönnuður að ásýnd viðbyggingar (austurhliðar) séð frá Bakkaflöt 7 verði ígildi rétt ríflega einnar hæðar húss. Viðbyggingin verði eingöngu um 80 cm hærri en núverandi hús nr. 5, og um 33 cm hærri en mænishæð Bakkaflatar 7.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafar byggja á því að viðbyggingin sem umþrætt byggingarleyfi snúist um sé að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulags. Mál þetta snúist einfaldlega um hvert sé raunverulegt inntak deiliskipulagsins og hvort túlka beri greinargerð með skipulaginu eins og sveitarfélagið hafi gert eða hvort að fallast beri á málatilbúnað kærenda.

Leyfishafar telji túlkun sveitarfélagsins vera rétta. Það sem renni stoðum undir þau sjónarmið sé meðal annars sú staðreynd að eigendur fasteignarinnar að Bakkaflöt 3 hafi ætlað að reisa viðbyggingu við hús sitt á árinu 2015. Arkitektinn er sá um hönnun byggingarinnar hafi tekið eftir því að skýringarmynd 3 í greinargerð deiliskipulagsins hafi ekki farið saman við mynd D í skipulaginu, sem eigi við hús ofan götu við Bakkaflöt. Það sem ekki hafi farið saman á myndunum var hvernig land undir byggingunum var sýnt hallast og tilgreining á því hvar gata var merkt. Vegna þessa hafi arkitektinn sent fyrirspurn til skipulagsnefndar Garðabæjar um hvernig skilja bæri deiliskipulagsskilmálana að því er varðaði hæðarmörk. Á fundi nefndar-innar 13. ágúst 2015 hafi verið fallist á túlkun umrædds arkitekts. Í framhaldinu hafi eigendum hússins að Bakkaflöt 3 verið heimilað að byggja viðbyggingu með sama hætti og það byggingarleyfi sem nú sé þrætt um.

 Eftir að leyfishafar hófu að reisa viðbygginguna hafi starfsmenn Garðabæjar leitað til höfundar skipulagsins um skýringu hans á þessu misræmi. Hafi hann svarað fyrirspurninni 16. maí 2023 og staðfest að tilgreining götu og lóðarmarka hafi snúist við. Sé litið til skýringa hönnuðarins verði skilmálar deiliskipulagsins ekki túlkaðir á annan veg en að uppdráttur D á mynd 3 eigi í raun að sýna að land undir byggingu halli að götu en ekki öfugt. Um augljós minniháttar mistök í framsetningu sé að ræða sem beri að leiðrétta í samræmi við meginreglur laga, t.d. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hafi sveitarfélaginu Garðabæ því verið heimilt að skera úr um inntak greinargerðarinnar með deiliskipulaginu og skýra það vegna annmarka á skýrleika þess.

Þá beri að telja að skýringarmyndir í deiliskipulagi séu settar fram í dæmaskyni til leiðbeininga og teljist því ekki til bindandi hluta skipulagsins, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 122/2019. Leggja verði því texta greinargerðarinnar um svæði 3 Bakkaflöt til grundvallar en þar segi að landhalli sé nokkur og að hús skuli laga sig að landi. Miðað sé við að hús ofan götu, þar sem landhalli sé meiri, geti verið 1,5 hæðir. Því geti húsin stallast um hálfa hæð upp eða niður og verið tvær hæðir að hluta. Af texta þessum sé augljóst að orðin gata og lóðarmörk hafi víxlast á skýringarmyndinni. Það sé útilokað að höfundar deiliskipulagsins hafi verið að lýsa því í greinargerðinni að byggingar í landhalla ofan götu mættu stallast þannig að hæðir þeirra mættu vera hærri fjær götu en nær götu.

Sveitarstjórnir hafi mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 105/2022 og um heimildir sveitarstjórnar til túlkunar á deiliskipulagsákvæðum, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 118/2022. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði einnig til þess að heimilt sé að reisa viðbygginguna með þeim hætti sem byggingarleyfið heimili vegna þess að sveitarstjórn hafi áður heimilað samskonar framkvæmd við Bakkaflöt 3.

Umfjöllun um að miða beri gólfkóta viðbyggingar við gólfkóta bílskúrs þess sem rifin var geti ekki staðist. Miða eigi gólfkóta við aðalhúsið sjálft eins og lagt sé til grundvallar hjá sveitar-félaginu. Í greinargerð með deiliskipulaginu sé tilgreint að hámarkshæð húsa sé reiknuð út frá gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum. Þá sé skuggavarp á lóð kærenda eðlileg afleiðing af breytingu deiliskipulagsins sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðanda í mars 2014. Kærendur hafi ekki gert athugasemdir við það á sínum tíma.

Vísað sé á bug meintu vanhæfi nefndarmanna í skipulagsnefnd Garðabæjar og bent sé á að hvorugur þeirra hafi komið að efnislegri ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins. Að lokum sé því harðlega mótmælt að álit Skipulagsstofnunar hafi þýðingu um inntak skilmála deili-skipulagsins. Að auki hafi starfsmenn Skipulagsstofnunar ekki hæfi að lögum til að skera úr um ágreining sem upp kunni að koma um túlkun á einstökum skipulagsmálum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeim röksemdum sé mótmælt sem fram komi í greinargerð sveitarfélagsins og athugasemdum leyfishafa. Bent sé á að báðir þeir nefndarmenn sem kærendur vísi til séu aðalmenn í skipulagsnefnd Garðabæjar. Skipulagsnefndir hafi lögbundið hlutverk og fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010. Um slíkar nefndir og störf þeirra gildi ákvæði sveitarstjórnarlaga eftir því sem við eigi, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá sé nánar mælt fyrir um störf skipulagsnefnda í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 5. mgr. gr. 2.3. reglugerðarinnar sé eitt megin-verksvið slíkra nefnda að veita umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun. Við slíka meðferð og afgreiðslu taki nefndin því efnislega afstöðu til málsins. Áréttað sé að starfsmenn séu ekki eingöngu vanhæfir til meðferðar máls ef þeir afgreiða sjálfir málið endanlega, heldur sé þeim óheimilt að taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess, sbr. 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess sem nærvera vanhæfs nefndarmanns nægi ein og sér til þess að hafa áhrif á afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og athugasemdir við frumvarp sömu laga.

Vegna umsagnar um að mistök hafi verið gerð við framsetningu myndar á skipulagsuppdrætti sé rétt að minna á að skipulagsáætlanir eru bindandi bæði fyrir sveitarfélag og almenning eftir að þær eru samþykktar og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið hafi því réttaráhrif eins og það sé samþykkt og birt. Minnisblað skipulagshöfundar eða almenn umfjöllun skipulagsnefndar Garðabæjar við fyrirspurn til sveitarfélagsins eftir að slíkt skipulag sé birt breyti því ekki réttaráhrifum og gildi skipulagsins. Bent sé á að umsögn Skipulagsstofnunar sem kærendur vísi til sé byggð á gildandi deiliskipulagi og skipulagsgögnum.

Andmælt sé að engu skipti um leyfilega hæð byggingarinnar að bílageymsla hafi staðið þar áður, þrátt fyrir að í deiliskipulaginu komi fram að sé hús rifið og byggt nýtt gildi skilmálar um hámarksnýtingarhlutfall og hæðir án undantekninga. Ágreiningur máls þessa snúi að því hvort útgefið leyfi sé í samræmi við lög og gildandi skipulag eða ekki og sjónarmið varðandi jafnræðisreglu veiti ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum. Til hliðsjónar megi sjá álit Umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2025/1997 og 2147/1997.

Að lokum sé það áréttað að um óleyfisframkvæmdir hafi að miklu leyti verið að ræða sem hvorki Garðabær né leyfishafar hafi tekið afstöðu til. Byggingarleyfi byggingarfulltrúans í Garðabæ hafi verið gefið út 3. maí 2023, þegar stór hluti viðbyggingarinnar hafði þegar verið reistur í óleyfi. Hafi byggingaráform verið samþykkt fyrr þá felist ekki í því heimild til þess að hefja byggingaframkvæmdir, sbr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Til þess þurfi byggingarleyfi, sbr. 9. gr. laganna, sem hafi í þessu tilviki ekki verið fyrir hendi þegar framkvæmdir voru hafnar og því um óleyfisframkvæmdir að ræða, sbr. 9. gr. og 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 15. september 2023 að viðstöddum öðrum kærenda og leyfishafa ásamt fyrirsvarsmönnum þeirra auk fulltrúa Garðabæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu einbýlishúss á lóð nr. 5 við Bakkaflöt í Garðabæ. Annars vegar er deilt um hvaða gólfkóta miða skuli við samkvæmt deiliskipulagi og hins vegar um hæfi tveggja nefndarmanna í skipulagsnefnd Garða-bæjar.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga nema öðruvísi sé ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Í 3 .gr. stjórnsýslulaga eru tilgreindar mögulegar vanhæfisástæður og í 4. gr. laganna er fjallað um áhrif vanhæfis. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er það byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi sem veitir byggingarleyfi. Undantekningu á þessari reglu er að finna í 1. mgr. 7. gr. laganna sem veitir sveitarstjórn heimild með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Engin slík samþykkt liggur fyrir hjá Garðabæ.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu hins kærða byggingarleyfis og sat hvorugur þeirra nefndarmanna skipulagsnefndar sem kærendur hafa talið vanhæfa við meðferð málsins þann fund. Einnig ber að geta að nefndarmaður vék af fundi skipulagsnefndar í samræmi við 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga þegar tekin var ákvörðun um að vísa málinu til umhverfis- og tæknisviðs. Að því sögðu getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að framangreindir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi tekið þátt í meðferð málsins eða ákvarðanatöku með þeim hætti að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar.

 Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er skipulagssvæðinu Flötum lýst sem lágreistri, fullbyggðri sérbýlishúsabyggð. Að öðru leyti er vísað til gildandi deiliskipulags.

 Deiliskipulagið Flatir Garðabæ tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. mars 2014. Meginmarkmið þess var að gera húseigendum kleift að byggja við hús sín eða eftir aðstæðum rífa þau og byggja ný. Um bílageymslur segir eingöngu að þær skuli byggðar í framhaldi af bílastæðum á deiliskipulagsuppdrætti.

Gatan Bakkaflöt er skilgreind sem svæði 3 í framangreindu deiliskipulagi. Samkvæmt skil-málum í greinargerð skipulagsins er gert ráð fyrir að hús ofan götu á svæði 3, þar sem landhalli er meiri geti verið 1,5 hæðir. Er þar átt við að hús geti stallast um hálfa hæð og verið tvær hæðir að hluta. Til nánari skýringa eru hámarkshæðir sýndar á mynd 3-B og 3-D. Á mynd 3-B eru hæðarskilmálar fyrir einnar hæðar hús. Á mynd 3-D eru skilmálar fyrir einnar og hálfrar hæðar hús. Þar kemur fram að hámarkshæð húsa sé reiknuð út frá uppgefnum gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum. Samkvæmt myndunum má einnar hæðar hús vera allt að 4,2 m að hæð og einnar og hálfrar hæðar hús má vera 5,2 m þar sem það er hæst. Leyfileg heildarstærð húss má vera að hámarki í námunda við nýtingarhlutfallið 0,45. Grunnflötur húsa við Bakkaflöt má vera allt að 35% af lóðarstærð.

Samkvæmt gögnum málsins var einbýlishúsið að Bakkaflöt 5 áður 242,2 m2. Viðbyggingin sem samþykkt hefur verið við íbúðarhluta hússins er 75,5 m2 og er bílskýlið 40,2 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt þessu verður 0,31.

Samkvæmt teikningum er gólfkóti aðalhæðar hússins 34,0 og mesta hæð byggingarinnar í kóta 37,3. Samkvæmt deiliskipulaginu er hæsti kóti hússins 38,2 og er húsið því 90 cm undir leyfilegri hámarkshæð. Gólfkóti aðalhæðar viðbyggingarinnar er 34,7 og hæsti kóti 38,2. Eru kótar viðbyggingar þar með innan heimilda skipulagsins.

Fyrir liggur í málinu yfirlýsing arkitekts deiliskipulagsins frá 16. maí 2023 þar sem hann staðfestir að orð hafi víxlast við skýringateikningu 3-D á skipulagsuppdrætti. Þykir einnig tilefni til að benda á að mynd 3-D er eingöngu til frekari skýringa en er ekki bindandi hluti skipulagsins. Liggur því fyrir að umdeild byggingaráform fara ekki í bága við gildandi deiliskipulag.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki liggja, fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Bakkaflöt 5, Garðabæ.

105/2023 Auglýsingaskilti

Með

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2023, kæra á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um að staðsetja auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan lóðina Nesveg 113.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, framsendi innviðaráðuneytið þann hluta kærumála eigenda, Nesvegi 113, Seltjarnarnesi, er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan hús kærenda.

Málsatvik og rök: Með kærum, dags. 22. apríl og 11. maí 2022, kærðu íbúar að Nesvegi 113 ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um uppsetningu biðskýlis strætisvagna við nefnda lóð kærenda. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi úrskurðarnefndin kærumálin til innviðaráðuneytisins með bréfi, dags. 5. september 2022. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, framsendi ráðuneytið úrskurðarnefndinni þann hluta kærumálsins er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlisins þar sem sá hluti málsins félli undir valdsvið nefndarinnar, sbr. ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Kærendur benda á að um sé að ræða svonefnt LED ljósaskilti, sem muni blikka inn um svefnherbergisglugga þeirra. Sveitarfélagið vísaði til þess að ekki væri um auglýsingaskilti að ræða heldur nýtt strætóskýli í stað eldra skýlis sem staðið hafi skammt frá. Þá væri uppsetning skýlisins eða auglýsinga á því ekki í andstöðu við reglur sveitarfélagsins um auglýsingaskilti.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti undir gildissvið laganna. Þá kemur fram í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna að kveða skuli á um stað­setningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingar­leyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt framangreindu ákvæði eru skilti einungis byggingarleyfisskyld þegar þau eru annað hvort frístandandi eða á byggingum.

Í 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar er bygging skilgreind sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki. Biðskýli eru mannvirki sem þjóna almenningssamgöngum og falla sem slík undir skilgreiningu hugtaksins vegur í 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þar er hugtakið vegur skilgreint sem „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Verður biðskýli því ekki talið falla undir hugtakið byggingu í skilningi framangreinds ákvæðis byggingarreglugerðar. Þá verður skiltið ekki talið frístandandi enda er það ein hlið á hinu umdeilda biðskýli sem útbúin er með LED skjá.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að hið umdeilda auglýsingaskilti falli ekki undir ákvæði 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar um byggingarleyfisskyldu. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.