Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2023 Auglýsingaskilti

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2023, kæra á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um að staðsetja auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan lóðina Nesveg 113.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, framsendi innviðaráðuneytið þann hluta kærumála eigenda, Nesvegi 113, Seltjarnarnesi, er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan hús kærenda.

Málsatvik og rök: Með kærum, dags. 22. apríl og 11. maí 2022, kærðu íbúar að Nesvegi 113 ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um uppsetningu biðskýlis strætisvagna við nefnda lóð kærenda. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi úrskurðarnefndin kærumálin til innviðaráðuneytisins með bréfi, dags. 5. september 2022. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, framsendi ráðuneytið úrskurðarnefndinni þann hluta kærumálsins er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlisins þar sem sá hluti málsins félli undir valdsvið nefndarinnar, sbr. ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Kærendur benda á að um sé að ræða svonefnt LED ljósaskilti, sem muni blikka inn um svefnherbergisglugga þeirra. Sveitarfélagið vísaði til þess að ekki væri um auglýsingaskilti að ræða heldur nýtt strætóskýli í stað eldra skýlis sem staðið hafi skammt frá. Þá væri uppsetning skýlisins eða auglýsinga á því ekki í andstöðu við reglur sveitarfélagsins um auglýsingaskilti.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti undir gildissvið laganna. Þá kemur fram í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna að kveða skuli á um stað­setningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingar­leyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt framangreindu ákvæði eru skilti einungis byggingarleyfisskyld þegar þau eru annað hvort frístandandi eða á byggingum.

Í 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar er bygging skilgreind sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki. Biðskýli eru mannvirki sem þjóna almenningssamgöngum og falla sem slík undir skilgreiningu hugtaksins vegur í 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þar er hugtakið vegur skilgreint sem „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Verður biðskýli því ekki talið falla undir hugtakið byggingu í skilningi framangreinds ákvæðis byggingarreglugerðar. Þá verður skiltið ekki talið frístandandi enda er það ein hlið á hinu umdeilda biðskýli sem útbúin er með LED skjá.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að hið umdeilda auglýsingaskilti falli ekki undir ákvæði 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar um byggingarleyfisskyldu. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.