Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2017 Reykjanesvitabraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvitaíbúðarhúss, Reykjanesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 12. október 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 25. október s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Kærandi byggir kröfu sýna um ógildingu byggingarleyfisins á því að deiliskipulagið, sem leyfið sæki stoð sína til, sé haldið ógildingarannmörkum. Það sé skilyrði að byggingarleyfi styðjist við gilt skipulag, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma hafi legið fyrir að lögmæti umrædds deiliskipulags væri vefengt.
 
Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að byggingaráform hafi verið samþykkt 25. október 2016. Sú samþykkt veiti ekki heimild til framkvæmda og hafi engar framkvæmdir farið fram, enda hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Á fundi með bæjarstjóra og fulltrúum leyfishafa 9. október 2017 hafi komið fram að leyfishafi sé hættur við hin kærðu byggingaráform og séu þau því felld úr gildi.

Leyfishafi tekur undir sjónarmið bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

73/2017 Efri Vík – Skaftárhreppur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2017, kæra á afgreiðslu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2017, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 5. apríl 2017 að staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar frá 4. s.m. um að gera ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar verði stöðvaðar á meðan málin eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 11. júlí 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur, sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð samkvæmt deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að endurskoðun þess deiliskipulags og að samhliða breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Nýtt deiliskipulag tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017. Hafa kærendur kært þá deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er það kærumál nr. 86/2017. Á meðan á greindum skipulagsbreytingum stóð var sótt um byggingarleyfi vegna byggingaráforma á skipulagssvæðinu.

Byggingarleyfisumsóknir voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017. Þar var annars vegar afgreidd umsókn um byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða. Sú afgreiðsla var kærð af öðrum kæranda þess máls sem hér er til úrlausnar og hlaut það kærumál númerið 57/2017. Í kjölfar afturköllunar á þeirri afgreiðslu var sú kæra dregin til baka. Hins vegar var afgreidd umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð að Selhólavegi 2, landnúmer 224927, sem stofnuð hafði verið úr landi Efri-Víkur. Tekið var fram að um væri að ræða 148 m² einbýlishús, fjögurra herbergja með einhalla þaki. Var bókað að deiliskipulag hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, en að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis á grundvelli deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 5. apríl 2017 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var umsækjanda sent bréf verkefnastjóra skipulags- og byggingarmála þar um, dags. 18. s.m. Í bréfinu var tekið fram að byggingaráform teldust samþykkt, að tiltekin gögn þyrfti að afhenda byggingarfulltrúa fyrir útgáfu byggingarleyfis og að það teldist veitt þegar þau hefðu borist og tilgreind gjöld verið greidd. Hefur framangreind afgreiðsla verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að jörð þeirra Syðri-Vík sé aðliggjandi jörð Efri-Víkur þar sem í mörg ár hafi verið rekin ferðaþjónusta. Byggi þeir kröfu sína fyrst og fremst á því að hið kærða byggingarleyfi eigi sér ekki stoð í gildandi skipulagsáætlunum. Nýtt deiliskipulag íbúða- og frístundabyggðar í Efri-Vík hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. áskilnað þar um í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið samræmist ekki gildandi deiliskipulagi en það sé skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis, sbr. fyrirmæli 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að byggingarleyfið sé í samræmi við breytt aðalskipulag svæðisins þar sem gert sé ráð fyrir íbúðasvæði á viðkomandi lóð. Lóðin standi utan gildandi deiliskipulags svæðisins er taki til frístundabyggðar. Sé vísað til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki talin ástæða til að fella úr gildi samþykkt byggingarleyfis sem sé í samræmi við aðalskipulag.

Kærendur hafi lítilla eða engra hagsmuna að gæta þegar komi að viðkomandi lóð. Hún liggi ekki að landamerkjum Syðri-Víkur og húsbygging þar geti hvorki haft áhrif á útsýni né skuggavarp, enda sé lóðin í tæplega kílómeters fjarlægð frá bæjarstæði Syðri-Víkur.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við nýlega samþykkt aðal- og deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir sjónarmiðum kærenda hvað varðaði lögvarða hagsmuni þeirra og barst bréf þeirra nefndinni 24. ágúst 2017. Taka kærendur þar fram að ekki hafi verið rétt staðið að deiliskipulagsgerð þeirri sem hið kærða byggingarleyfi grundvallist á. Ekki sé eðlilegt að hægt sé að byggja hús án þess að þau séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Kærendur séu mótfallnir þéttbýliskjarna sem gert sé ráð fyrir samkvæmt nýju deiliskipulagi. Ómetanleg sveitafriðsældin muni hverfa og þar með ánægja kærenda af því að vera í sveitinni. Íbúðarbyggðinni muni fylgja hljóðmengun og sjónmengun auk þess sem útsýni til fjalla muni hverfa. Hafi kærendur verulegra hagsmuni að gæta af því að ekki verið byggt áður en niðurstaða fáist í öðrum kærumálum er þeir reki fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur byggja þannig fyrst og fremst á því að rangt hafi verið staðið að gerð deiliskipulags, sem heimili uppbyggingu sem þeim hugnist ekki. Hafa kærendur lagt fram kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna þessa og koma nefnd atriði eftir atvikum til skoðunar í því kærumáli, sem er nr. 86/2017. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki til þess að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli því sem hér er til umfjöllunar, eða um öll þau leyfi sem kunna að vera gefin út á grundvelli nefnds deiliskipulags.

Lóðin Selhólavegur 2 liggur ekki að landi kærenda, auk þess sem þjóðvegur liggur á milli hennar og bæjarstæðis þeirra, sem er í um 700 m fjarlægð frá lóðarmörkunum. Eiga kærendur því ekki verulegra grenndarhagsmuna að gæta, s.s. vegna skuggavarps eða útsýnisskerðingar. Fyrirhugað er að reisa á nefndri lóð eitt íbúðarhús en á svæðinu er fyrir skipulögð frístundabyggð og aðstaða hestamanna. Að teknu tilliti til greindra atvika og staðhátta verður ekki séð að um nein þau áhrif verði að ræða á umhverfi kærenda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar, að það skapi þeim einstaklega, lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kæru þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

99/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, þriðjudaginn 31. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli við Vegamótastíg 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugaverk ehf., eigandi Laugavegs 18b, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðinni Vegamótastíg 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn vegna málsins lágu fyrir í kærumáli nr. 70/2017 er varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun.

Málsatvik og rök: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 6. september 2017 í kærumáli nr. 70/2017, var framangreint byggingarleyfi fellt úr gildi.

Kærandi bendir á að á lóðinni Vegamótastíg 7 hvíli þinglýst kvöð þar sem gert sé ráð fyrir að byggingarreitur lóðarinnar sé takmarkaður um reit að stærð 3 m x 6,41 m frá 1. hæð upp að 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b í norðaustur horni lóðarinnar. Kvöðin hafi átt að tryggja að hægt væri að koma fyrir brunastiga upp á 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b með óhefta flóttaleið út á Vegamótastíg. Samkvæmt samþykktum teikningum hafi kvöðin verið virt að vettugi.

Í ljósi afdrifa kærumáls nr. 70/2017, sem varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun, var Reykjavíkurborg ekki gefinn kostur á að tjá sig um kæruna.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi með úrskurði í kærumáli nr. 70/2017 og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

34/2017 Traðarland

Með

Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Traðarlandi 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. mars 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 10. maí 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10-16 við Traðarland. Sótt var um breytingu á samþykktum byggingaráformum sem fólust í að notaðar yrðu forsteyptar einingar í stað staðsteypu, komið yrði fyrir innsteyptum styrktarbita í þaki viðbyggingar og útliti suðurhliðar hússins yrði breytt. Var breytingin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. október 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að honum hafi fyrst orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis 27. febrúar 2017 þegar svar byggingarfulltrúa hafi borist við erindi hans, dags. 21. s.m. Hafi kæra í máli þessu því borist innan kærufrests. Grenndarkynna hefði átt umdeilda breytingu og afla samþykkis sameigenda umræddrar lóðar. Heimiluð breyting fari í bága við gildandi deiliskipulag og í raun sé um að ræða tvö hús með takmarkaðri tengingu og líti út fyrir að aðkoma að þeim verði aðallega frá Sævarlandi. Vesturhlið hússins að Traðarlandi 12, sem snúi að húsi kæranda, hafi verið gluggalaus en nú séu þar nokkrir gluggar og sú hlið hússins sé mun nær fasteign kæranda með tilheyrandi grenndaráhrifum.

Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun kærumálsins. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Hin kærða ákvörðun sé að stofni til frá 10. maí 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. október s.á. Framkvæmdir hafi byrjað í kjölfarið og búið hafi verið að gera sex áfangaúttektir á byggingarframkvæmdum á tímabilinu 3. nóvember til 1. desember 2016. Kærandi hafi því haft vitneskju um framkvæmdina frá þeim tíma enda búi hann í næsta húsi við fasteign leyfishafa. Hann hafi hins vegar látið hjá líða að nýta sér kærurétt sinn til 22. mars 2017 þegar tæpir fimm mánuðir hafi verið liðnir frá útgáfu leyfis og byrjun framkvæmda.

Leyfishafi telur að málsástæður kæranda eigi ekki við rök að styðjast. Heimilað sé að byggja við einbýlishús á lóðinni, en ekki sé um annað hús að ræða. Viðbyggingin samræmist skilmálum gildandi deiliskipulags, svo sem um nýtingarhlutfall. Hún sé innan byggingarreits og fordæmi séu fyrir sambærilegum viðbyggingum í hverfinu. Veggur sá sem kærandi vitni til sé inni á lóð kæranda, nokkuð frá lóðarmörkum og sé til þess að takmarka sýn milli fasteigna leyfishafa og kæranda. Aðkoma að húsinu verði eftir sem áður frá Traðarlandi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Gögn málsins bera með sér að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hófust í kjölfar útgáfu þess hinn 21. október 2016. Úttektir vegna botnplötu viðbyggingarinnar fóru fram 7. og 10 nóvember s.á., úttekt á tengingu við skolpveitu 17. s.m., úttekt á veggjum 1. hæðar 29. s.m. og á gólfhita 1. hæðar og bílskúrs 1. desember s.á. Kærandi, sem býr á næstu lóð við hliðina á lóð leyfishafa, mátti ætla með hliðsjón af greindum framkvæmdum að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þeim og gat hann þá þegar aflað sér upplýsinga hjá byggingaryfirvöldum um framkvæmdir þær sem hafnar voru. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi byrjað að líða í síðasta lagi um mánaðarmótin nóvember-desember 2016 þegar veggir viðbyggingarinnar voru þegar reistir. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 22. mars 2017.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Það var fyrst hinn 23. febrúar 2017 sem kærandi sendi byggingaryfirvöldum erindi í tilefni af umdeildum framkvæmdum sem þá voru vel á veg komnar og barst úrskurðarnefndinni kæra hans tæpum mánuði eftir að greindu erindi hans var svarað af hálfu byggingaryfirvalda. Eins og málsatvikum er háttað verður ekki talið afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun ber vitni. Af þeim sökum og með tilliti til hagsmuna leyfishafa, sem hafði þá að mestu lokið byggingarframkvæmdum í skjóli opinbers leyfis og í góðri trú, eru ekki skilyrði til þess að taka mál þetta til meðferðar á grundvelli áðurgreindra undanþáguákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

55/2017 Brekkuhvarf

Með
Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2017, er barst 26. s.m., kæra M og Þ, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi sem fól í sér að lóðinni Brekkuhvarfi 20 var skipt upp í tvær lóðir.

Með bréfi, dags. 11. júní 2017, kæra fyrrgreindir aðilar þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 62/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og kærendur þeir sömu í báðum málunum.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. júní 2017.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2016 samþykki bæjarstjórn Kópavogsbæjar breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og hinn 26. júlí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Með úrskurði, uppkveðnum 24. nóvember 2016 í máli nr. 34/2016 felldi úrskurðarnefndin úr gildi framangreindar ákvarðanir.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. desember 2016 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20, en gildandi deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni hæð. Hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3 og heildarbyggingarmagn 220 m2. Samþykkti nefndin að kynna tillöguna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 13. desember 2016 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 20. mars 2017. Athugasemdir höfðu borist m.a. frá kærendum og var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir, dags. 17. mars 2017. Tillagan var samþykkt með vísan til umsagnar skipulags- og byggingardeildar og henni vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 28. mars s.á. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2017.

Hinn 1. júní 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi kosið að hafa að engu niðurstöður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. nóvember 2016. Enn á ný sé samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi er fól í sér lóðarskiptingu og heimild til að reisa allt að tveggja hæða íbúðarhús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli frá íbúum aðliggjandi lóða. Því hljóti að vera takmörk sett hvað hægt sé að kalla deiliskipulag. Hér sé greinilega búið að teikna hús á nýrri lóð, Brekkuhvarfi 20a. Verið sé að þrengja húsinu inn á lóðina og teikningin af húsinu kölluð deiliskipulag. Einnig sé látið óátalið að íbúum séu kynntir mismunandi skipulagsuppdrættir með mismunandi byggingarreitum við grenndarkynningu, en með sömu dagsetningu, þ.e. 29. október 2015.

Sú faglega regla, að í öllu skipulagi skuli fyrst og fremst hugsað um almenna hagsmuni og að skipulagsvinna skuli ætíð aðskilin hönnunarvinnu á viðkomandi lóð, virðist hér þverbrotin á íbúum aðliggjandi lóða sem hafi harðlega mótmælt þessum gerningi. Þaðan af síður sé sýnt fram á hvaða almannahagsmunir kalli á þessa breytingu. Með tilvísun til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heldur ekki hægt að fallast á að hér sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða þar sem margir aðilar eigi hér hlut að máli.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé lóð nr. 20 við Brekkuhvarf skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a, og sé á hinni nýju lóð gert ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð. Heildarbyggingarmagn sé 220 m2 og hámarksvegghæð og þakhæð 5 m. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 24. nóvember 2016, hafi samhljóða skipulagsbreyting verið felld úr gildi þar sem talið var að breytingin gæti ekki talist óveruleg og því ekki heimilt að grenndarkynna tillöguna. Í niðurstöðu úrskurðarins hafi hins vegar verið tekið undir þau sjónarmið að hin ógilda deiliskipulagsbreyting hafi verið í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, nýtingarhlutfall lóðanna eftir breytingu sambærilegt við aðrar lóðar og að fordæmi hafi verið fyrir því að stærri lóðum hafi verið skipt upp í tvær eða fleiri á skipulagssvæðinu. Fyrri skipulagsbreyting hafi því fallið á ágalla við málsmeðferð en ekki vegna efnis hennar. Með þeirri skipulagsbreytingu sem nú sé kærð sé verið að bæta úr þeim ágalla sem hafi verið á fyrri málsmeðferð. Hafi því ekki verið farið með skipulagsbreytinguna sem óverulega, líkt og kærandi haldi fram, heldur hafi málsmeðferð verið í fullu samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bent sé á að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og hafi heimild til að gera breytingar á deiliskipulagi ef að hún telji þörf á, sbr. 43. gr. sömu laga. Taldi Kópavogsbær að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að kynna sama uppdrátt enda um samhljóða breytingu að ræða en málsmeðferð tillögunnar sé ekki sú sama. Þá sé skýrt tekið fram í skilmálum þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem nú sé kærð að gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð en ekki á tveimur eins og kærendur haldi fram. Þá sé því mótmælt að annar byggingarreitur hafi verið kynntur, byggður á sama uppdrætti. Sá byggingarreitur sem verið sé að bæta við í skipulag sé sá hinn sami og hafi verið grenndarkynntur í fyrri breytingartillögu.

Fyrirhugað einbýlishús verði með öllu innan hins nýja byggingarreits og verði ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum. Líkt og að framan greini, sé fyrirhuguð bygging í fullu samræmi við gildandi skipulagsskilmála, t.a.m. hvað varði lágmarksfjarlægðir og nýtingarhlutfall, og þá sé að finna fordæmi fyrir álíka skipulagsbreytingum á svæðinu. Jafnframt sé bent á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir hærra húsi og meira byggingarmagni á umræddri lóð. Hins vegar hafi verið gerðar breytingar á upphaflegri tillögu til að koma til móts við athugasemdir kærenda, þ.á m hafi verið dregið úr byggingarmagni, húsið lækkað og jafnframt hafi verið gert ráð fyrir breytingum á innra skipulagi.

Hin kærðu byggingaráform hafi verið samþykkt með stoð í umræddri deiliskipulagsbreytingu. Séu þau því í fullu samræmi við gildandi skipulag og áskilnaður um innbyrðis samræmi uppfyllt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að lóðin Brekkuhvarf 20 hafi verið 2.344 m2 og hafi verið skipt í tvær lóðir. Ný lóð að Brekkuhvarfi 20a sé 937,7 m2 og rúmi hún vel fallegt u.þ.b. 180 m2 einbýlishús á einni hæð. Sé það í samræmi við heildaryfirbragð hverfisins sem hafi tekið breytingum frá því að það hafi verið deiliskipulagt árið 1992 í þá veru að stórum lóðum hafi verið skipt upp, ný hús risið og íbúum fjölgað á svæðinu. Þá muni nýbyggingin rúmast að öllu leyti innan upphaflegs byggingarreits Brekkuhvarfs 20. Verulega hafi verið komið til móts við athugasemdir frá lóðarhöfum Brekkuhvarfs 22 með því að breyta og draga verulega úr stærð byggingarreits og hæð húss.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í henni felst að lóð Brekkuhvarfs 20 er skipt í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og á lóð 20a má reisa allt að 220 m2 einbýlishús á einni hæð ásamt bílskúr. Þó svo að í fundargerðum sveitarfélagsins komi fram að um sé að ræða einbýlishús á einni til tveimur hæðum, kemur skýrt fram í hinum breyttu skilmálum skipulagsins á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti að húsið verði á einni hæð.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir hina kærðu breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins sem samþykktir voru árið 1992. Heimilað hús á lóðinni er jafnframt staðsett innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting, að því er varðar umfang byggingar, ekki í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi svæðisins.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og að ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar sem raskað geta gildi hennar, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvörðun, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Brekkuhvarf 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

76/2017 Unnarbraut

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 31. ágúst 2018, sjá hér.

Árið 2017, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 2. ágúst s.á., er barst nefndinni 3. s.m. sendu Anton Holt og Gillian Holt, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, erindi til úrskurðarnefndarinnar sem líta verður á sem staðfestingu þeirra á að þau standi einnig að kærunni.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. júlí og 1. september 2017.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eiganda neðri hæðar hússins sem beindi fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingarnar væru fólgnar, en samþykki meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými hússins. Var ástæðan sögð sú að fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera þyrfti og bæta  áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda, en án árangurs.

Fóru aðrir sameigendur í húsinu þá fram á við byggingarfulltrúa að hlutast yrði til um það að kjallaranum yrði komið í upprunalegt horf. Með bréfi, dags. 1. júlí 2016, kærðu sameigendurnir drátt á afgreiðslu þess erindis til úrskurðarnefndarinnar. Var kveðinn upp úrskurður 2. september s.á. í kærumáli nr. 76/2016 þar sem lagt var fyrir byggingarfulltrúa að taka það erindi til efnislegrar afgreiðslu.

Hinn 4. maí 2017 sótti eigandi neðri hæðar og kjallara Unnarbrautar 32 um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum, þ.e. hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara, og að óráðstafað rými í kjallara yrði samþykkt sem geymsla. Einnig var sótt um leyfi til að leggja drenlagnir undir kjallaragólf með sjálfrennsli út í götulögn. Leyfi var gefið út 3. júlí s.á. og hefur það verið kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að yfirvofandi framkvæmdir muni leiða til verulegs ónæðis og rasks á lóðinni. Ljóst sé að lóðin verði ekki söm í mörg ár, verði af framkvæmdunum. Lóðin sé í sameign og önnur jafn góð lausn sé til staðar, þ.e. að útbúa dælubrunn innan umrædds rýmis. Augljóst sé að ekki megi gefa út byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóð í sameign sé önnur lausn tæk. Byggingarleyfið sé ógilt þar sem það sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, en ekki sé gert ráð fyrir kjallaranum í skipulaginu.

Byggingarleyfið geri ráð fyrir aukinni salarhæð frá því sem verið hafi fyrir óleyfisframkvæmdirnar. Standist byggingarleyfið sé ljóst að leyfishafi hagnist á kostnað kærenda en fyrir liggi að byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt framkvæmdirnar án samþykkis þeirra. Byggingarleyfið verði að mæla fyrir um sömu salarhæð og fyrir hafi verið áður en óleyfisframkvæmdir hafi hafist. Þá mæli teikningar hússins frá 1979 ekki fyrir um salarhæð umrædds rýmis. Salarhæðin 2,4 m, sem sé reyndar hvergi í kjallaranum, eigi einungis við um samþykkt rými í sameign og geymslur. Umrætt rými hafi aldrei verið ætlað til notkunar og því hafi engin salarhæð verið teiknuð fyrir þann hluta. Upphaflega hafi teikningin gert ráð fyrir því að rýmið yrði fyllt með möl en engu að síður sé salarhæðin 2,4 m. Þannig sé ljóst að sú hæð eigi ekki við um umrætt rými. Við byggingu hússins hafi verið ákveðið að spara möl og setja frekar súlur í rýmið, en aldrei hafi staðið til að það yrði tekið í notkun. Jafnvel þótt upphafleg teikning hafi gert ráð fyrir salarhæðinni 2,4 m sé ljóst að það náðist aldrei. Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga hafi því borið að skila inn reyndarteikningum og hefði byggingarfulltrúi átt að kalla eftir þeim við lokaúttekt hússins. Þar hefði komið fram salarhæð í samræmi við það sem áður hafi verið fyrir óleyfisframkvæmdir.

Þá bendi kærendur á að svo virðist sem leyfilegt byggingarmagn fyrir Unnarbraut 32 árið 1979 hafi ekki gert ráð fyrir kjallara í rýminu. Þá sé nýtingarréttur lóðarinnar í sameign allra og því ekki rétt að eigandi fyrstu hæðar nýti þann rétt umfram aðra sameigendur.

Loks sé vakin athygli á því að súlur í kjallararýminu hafi verið mjókkaðar og átt við burðarvirki í kjallara. Engir útreikningar á burðarþoli liggi fyrir þótt byggingarfulltrúi hafi réttilega gert það að skilyrði í tillögu sinni að verkáætlun.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að á grundvelli þeirra samskipta sem hafi átt sér stað og teikninga á vegum eiganda neðri hæðar hafi byggingarfulltrúi ákveðið að veita byggingarleyfi, enda hafi þær teikningar sýnt lausnir á öllum þeim skemmdum sem byggingin hafi orðið fyrir. Varðandi plötuhæð kjallaragólfs, þá beri leyfishafa að halda sig við samþykktar teikningar frá byggingu hússins árið 1979. Á þeim teikningum sé hæð gólfplötu í kjallara 2,4 m frá brún efri plötu í húsinu.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 3. júlí 2017 í samræmi við framlögð hönnunargögn og erindi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Meðal annars hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þegar gerðum framkvæmdum, hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara og að óútgrafið rými í kjallara yrði samþykkt. Eins og í leyfinu komi fram, sé gert ráð fyrir að rýmið verði nýtt sem geymsla og verði engar aðrar breytingar gerðar á núverandi útliti hússins eða innra skipulagi. Til að fyrirbyggja raka við gólf í kjallara hafi verið gert ráð fyrir að undir gólfplötu yrði þjöppuð möl og rakavarnarlag og þétt við útveggi. Drenlögn með drenmöl yrði lögð undir endanlegt gólf með sjálfrennsli út í götulögn. Framangreindar framkvæmdir hafi ekki í för með sér breytingar á fyrirkomulagi séreignar annarra eigenda sameignar eða breytingar á hlutfallstölum og því sé ekki þörf á breytingu á eignaskiptayfirlýsingu í kjölfarið. Um nauðsynlegar framkvæmdir sé að ræða í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og muni þær í engu raska hagsmunum annarra eigenda, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 27. gr. laganna, en fasteignin hafi undanfarið legið undir skemmdum.

Það sé áréttað að í upphafi hafi verið ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við fasteignina vegna rakaskemmda. Hugleiðingum kærenda um að rakaskemmdirnar séu afleiðing af framkvæmdunum sé með öllu hafnað. Á þeim tíma er framkvæmdir hafi byrjað hafi leyfishafi talið að um þær ríkti góð sátt við aðra eigendur fasteignarinnar. Það sé samdóma álit sérfræðinga og byggingarfulltrúa að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir dælubrunni fyrir utan húsið sem tengist inn á lögn í götunni, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um fjöleignarhús. Það sé einnig samdóma álit þeirra sem komið hafi að máli þessu að þær framkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með byggingarleyfi, dags. 3. júlí 2017, séu til hagsbóta fyrir alla aðila og farsæl lausn á ágreiningi þeirra.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32, ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými, en hann var áður skráður sem óráðstafað rými.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu umsókn um byggingarleyfi fylgja nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga. Í máli þessu, sem á sér nokkurra ára forsögu, liggur fyrir að sameigendur í húsinu hafa ekki getað komið sér saman um umræddar framkvæmdir og lá slíkt samþykki því ekki fyrir. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kemur fram að eiganda sé rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að áður en að framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana.

Í greinargerð skoðunarmanns sem unnin var vegna Unnarbraut 32, dags. 20. mars 2016, kemur fram að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé ekki að finna teikningar sem sýni jarðvegslagnir í eða við húsið. Þá liggi fyrir að bleyta safnist fyrir á jarðvegsbotninum í kjallararýminu, enda ekkert frárennsliskerfi til staðar. Sé það álit skoðunarmannsins að nauðsynlegt sé að koma fyrir jarðvatnslögnum í eða við húsið. Lagðar eru til tvær leiðir í greinargerðinni, annars vegar að leggja grunnlagnir meðfram húsinu að utanverðu eða hins vegar að leggja jarðvatnslagnir undir væntanlega botnplötu. Telji skoðunarmaðurinn augljóst að velja seinni kostinn. Með þeirri aðgerð ætti að vera hægt að tryggja að ekki fari vatn inn í kjallarann, en hin leiðin væri mun dýrari, því ef hún ætti að vera fær þyrfti að fara í umtalsverða jarðvinnu meðfram húsinu með tilheyrandi kostnaði. Með vísan til framangreinds verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að heimila hinar umdeildu drenlagnaframkvæmdir.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Bakkahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarneskaupstaðar 10. nóvember 2010 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember s.á. Samkvæmt skipulagsuppdrætti og skilmálum deiliskipulagsins er umrætt hús að Unnarbraut 32 einnar hæðar með risi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er því ekki gert ráð fyrir því að í húsinu sé kjallari þótt fyrir liggi að þar sé óuppfyllt rými ásamt geymslum sem á sínum tíma voru heimilaðar með veitingu byggingarleyfis 9. maí 1979. Í deiliskipulaginu er tekið fram að með því sé staðfest á formlegan hátt byggðamynstur hverfisins, þ.e. stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða. Einnig verði lóðarhöfum gefinn möguleiki á eðlilegri endurnýjun og endurbótum á byggingum í samræmi við heilsteypt yfirbragð hverfisins. Sérskilmálar eru tilgreindir um einstakar lóðir í þessum tilgangi, en Unnarbraut 32 er ekki þar á meðal. Sá hluti hins samþykkta byggingarleyfis er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga er því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Að fenginni þeirri niðurstöðu fullnægir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnaði 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga þar um. Varðar það ógildingu, en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að þeim hluta er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.

70/2017 Vegamótastígur

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli, Vegamótastíg 7 og 9.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2017, er barst nefndinni 3. júlí s.á., kæra A, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. júlí 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum. Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert er ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að ástæður kæru þessar séu þær sömu og hafi verið í kæru vegna fyrra byggingarleyfis, dags. 31. janúar 2017. Við bætist þó að borað hafi verið í útvegg eignar kærenda og að stór göt hafi myndast í klöpp undir húsinu. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið ábótavant þar sem ekki hafi verið rætt við kærendur um nauðsyn þess að bora í húsvegg fasteignar þeirra. Hæð bygginga verði sem nemur tveimur til þremur hæðum fleiri en hús að Grettisgötu 3 og hver hæð virðist vera mun hærri en í húsi kærenda. Af þessum hæðarmun muni myndast mikið skuggavarp og útsýni skerðast.

Byggingarmagn sé hámarkað með nýtingarhlutfalli upp á 4,9. Til samanburðar megi nefna að nýtingarhlutfallið sé víða í Skuggahverfinu um 2,0 og fari upp í rúma 4,5 þar sem það sé hæst, en þar standi 17-19 hæða hús. Þá muni ónæði skapast vegna endalauss umgangs ferðamanna. Skortur verði á bifreiðastæðum þar sem ferðamenn séu oftast á bílaleigubílum. Ónæði verði vegna veitingastaðar með næturopnun sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í deiliskipulagi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða samþykkt byggingarfulltrúa verði staðfest. Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Nýbygging á lóð nr. 7 við Vegamótastíg muni standa upp við gafl húss kærenda að Grettisgötu 3 en samkvæmt teikningum muni verða sett einangrun upp að gafli hússins en gafl nýbyggingarinnar muni ekki verða festur beint við gafl á húsi kærenda. Líklegast þurfi að setja festingar á gaflinn fyrir einangrun en sér brunagafl verði settur á Vegamótastíg nr. 7. Verktaki beri ábyrgð á framkvæmdum og gildi þar almennar reglur um skaðabótarrétt.

Áhyggjur vegna hugsanlegra tímafrekra framkvæmda séu skiljanlegar, en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998, sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin hvorki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í gildi sé reglugerð um hávaða nr. 724/2008 sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin gildi fullum fetum um verklegar framkvæmdir, en í viðauka með henni séu sett fram sérstök takmörk fyrir hávaða vegna framkvæmda á íbúðarsvæðum og í nágrenni þeirra.

Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við það deiliskipulag sem það byggi á varðandi hæð húss. Algeng salarhæð atvinnuhúsnæðis sé 3,2-3,5 m en íbúða 2,7-2,9 m og felst hæðarmunur nýbyggingarinnar og húss kærenda þá helst í þessum hæðarmun.

Í skipulagi svæðisins sé gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum sé stefnt og hvernig þær falli að landnotkun á tilteknu svæði. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé reiturinn á Miðborgarkjarna M1a. Á svæðinu gildi almennar miðborgarheimildir. Lengsti opnunartími veitingastaða sé til kl. 03:00 um helgar og á almennum frídögum og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III að skemmtistöðum undanskyldum. Engin sérstök notkun sé bundin við húsið í deiliskipulagi. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við bæði aðal- og deiliskipulagið. Samkvæmt framansögðu sé fyrirhugað hús að Vegamótastíg 7-9 á því skipulagssvæði Reykjavíkurborgar þar sem gert sé ráð fyrir margvíslegri og fjölnota nýtingu húsnæðis.

Skilgreining skipulagshönnuða á fjölda hæða í fyrirliggjandi byggingarleyfi sé eins og kveðið sé á um í deiliskipulaginu, þ.e. kjallari og fimm hæðir. Þar sem þarna sé mikill landhalli á vesturlóðamörkunum, við Vegamótastíg, hafi hann verið tekinn út með því að skilgreina jarðhæð með mikilli lofthæð, 2×2,8 m, sem að hluta til hafi verið gert ráð fyrir að væri með milligólfi sem yrði jarðhæð við Grettisgötu. Þessi jarðhæð, þrátt fyrir að vera að hluta til á tveimur hæðum, sé í deiliskipulaginu skilgreind sem ein jarðhæð, sbr. skilmálateikningar á gildandi deiliskipulagi, Grettisgata að norðan og Vegamótastígur að austan. Halda megi því fram að þessi skilgreining á jarðhæð sé óhefðbundin, en sé engu að síður sannanlega notuð í þessu tilfelli og sé húsið, samkvæmt byggingarleyfisumsókn, því ótvírætt í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðanna.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hinn 16. maí sl. hafi byggingarfulltrúi samþykkt takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum og hafi framkvæmdir alfarið tekið mið af því og að unnt verði að uppfylla þá skilmála sem deiliskipulagið kveði á um. Þau atriði sem kærendur nefni séu hæð hússins, skuggavarp og nýtingarhlutfall. Öll þessi atriði varði ákvæði deiliskipulags en kærufrestur vegna þess sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála lóðarinnar. Engin áform hafi verið tekin um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Þá fullyrði kærendur að húseignin Grettisgata 5 hafi þegar orðið fyrir tjóni án þess að það sé tilgreint sérstaklega. Valdi framkvæmdaraðili nágrönnum tjóni geti þeir sem fyrir því verði sótt bætur eftir almennum reglum en eigi ekki rétt á ógildingu framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli með kjallara á tveimur hæðum að Vegamótastíg 7 og 9.

Í bílakjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Er það í samræmi við kröfur töflu 6.03 í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð, en þar kemur fram að ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falli undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða vera skv. töflu 6.03, þ.e. tvö bílastæði fyrir umræddar byggingar. Hins vegar kemur fram í töflu 6.02 í sömu grein að við veitingastaði með 101-200 sæti skuli vera tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal á tveimur hæðum með samtals 130 sætum. Ekki verður séð að gert sé ráð fyrir þeim bílastæðum á eða við umræddar lóðir. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð og gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á lóð nr. 7 við Vegamótastíg var yfirlýsingu þinglýst í október 2007. Með henni var sett kvöð á nýtingu lóðar nr. 7 þess efnis að húsið á aðliggjandi lóð, Laugavegi 18b, fái rými fyrir allt að 8 sorptunnur á lóðinni að Vegamótastíg 7 og umgengnisrétt þar að lútandi. Nýbygging á lóð nr. 7 skuli jafnframt háð kvöð um að nægt rými verði fyrir brunastiga og flóttaleið frá 1.-5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b. Brunastiginn mun nánar tiltekið standa í norðaustur horni lóðarinnar að Vegamótastíg 7. Meðfylgjandi þessari yfirlýsingu var uppdráttur sem sýndi útlínur byggingarreits Vegamótastígs 7. Nýbyggingin má þannig ekki liggja upp að bakhlið Laugavegs 18b á þeim kafla sem fyrirhugaður brunastigi á að vera. Samkvæmt hinu samþykkta byggingarleyfi mun byggingin á Vegamótastíg 7 liggja þétt að byggingum nr. 18a og 18b að Laugavegi.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum.“ Þar er og tekið fram að „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 9. maí 2017 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir bílastæðum o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal fyrir allt að 80 gesti. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Samkvæmt gr. 9.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru millipallar sem eru án brunahólfandi veggja að undirliggjandi hæð alltaf sjálfstæð hæð þegar stærð þeirra er yfir 50% af flatarmáli undirliggjandi hæðar, meiri en 200 m2 í notkunarflokki 1 eða meiri en 100 m2 í öðrum notkunarflokkum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli með kjallara á tveimur hæðum að Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

107/2015 Þorrasalir

Með
Árið 2017, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2015, kæra á synjun um að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu Þorrasala 13-15 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að veita byggingarleyfi fyrir sama fjöleignarhúsi 13. nóvember 2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2015, er barst nefndinni 25. s.m., kærir húsfélag Þorrasala 9-11 þá ákvörðun „byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að neita að beita heimild 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til þess að láta fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15, sem ekki samrýmist deiliskipulagi“ og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 13. nóvember 2013 að samþykkja lóðarteikningu fyrir sama fjöleignarhús. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. febrúar 2016 og í ágúst 2017.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag Hnoðraholts og Smalaholts frá árinu 2006. Því hefur í tvígang verið breytt vegna þeirra húsa sem deilt er um í þessu máli. Árið 2008 var gert ráð fyrir fjölgun íbúða við Þorrasali 1-15 og að bílastæðum yrði komið fyrir í niðurgröfnum bílageymslum og á þaki þeirra, en að öðru leyti var vísað til gildandi skipulagsskilmála. Í almennum skipulagsskilmálum frá árinu 2006 var m.a. tekið fram hver aðkoma yrði að Hnoðraholti og í skilmálum fyrir svæði 15, Þorrasali 13-15, sem og fyrir svæði 16, Þorrasali 9-11, kom fram að á skilmálateikningu og mæliblöðum væru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum væri heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu. Þá kom fram á skýringarmyndum fyrir nefnd svæði tillaga að staðsetningu niðurgrafinna bílageymslna. Með deiliskipulagsbreytingu árið 2009 var leyfilegt byggingarmagn sömu lóða aukið, byggingarreitir færðir til suðurs og austurs og byggingarreitir niðurgrafinna bílageymslna stækkaðir til norðurs. Var á skipulagsuppdrætti sýnt samþykkt deiliskipulag, tillaga að deiliskipulagi sem auglýst hafði verið, sem og tillaga að deiliskipulagi með breytingu eftir auglýsingu, og var aðkoma Þorrasala 13-15 þar sýnd með öðrum hætti en í áður samþykktu deiliskipulagi.

Umsókn um byggingarleyfi fyrir Þorrasali 9-11 var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 10. júlí 2012 og var húsið byggt á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 13. nóvember 2012 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir Þorrasali 13-15. Ári síðar, eða 13. nóvember 2013, samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi lóðarteikningu með byggingarnefndarteikningum fyrir Þorrasali 13-15.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2015, fór stjórn húsfélags Þorrasala 9-11 fram á að bæjarstjórn Kópavogsbæjar myndi endurskoða samþykktar teikningar og að innkeyrsla að bílakjallara Þorrasala 13-15 yrði færð ofar samkvæmt teikningu. Því var hafnað af Kópavogsbæ með bréfi, dags. 29. s.m. Áttu sér stað um sumarið viðræður milli aðila um útfærslu á lausn málsins, en ekki náðist sátt með þeim. Með bréfi, dags 28. september s.á., fór lögmaður f.h. húsfélags Þorrasala 9-11 fram á það við skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar að lagt yrði fyrir byggingarleyfishafa eða eigendur að fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15. Var erindið lagt fram á fundi skipulagsnefndar 5. október 2015 og vísað til bæjarlögmanns. Erindinu var synjað með bréfi starfsmanns Kópavogsbæjar, dags. 17. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að gildandi deiliskipulag fyrir Þorrasali 5-15 frá desember 2009 sýni innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15 á allt öðrum stað en lóðarteikning sem samþykkt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Kópavogi 13. nóvember 2013. Sumarið 2015 hafi verið framkvæmt í samræmi við þá lóðarteikningu. Breytt staðsetning innkeyrslu hafi leitt af sér verulegt tjón fyrir kæranda. Þar sem áður hafi verið göngustígur milli húsanna sé nú bílvegur sem nái langt inn á lóðamörk kæranda, en gagnist aðeins íbúum Þorrasala 13-15. Veruleg hljóð- og ljósmengun sé af bifreiðunum sem þar sé ekið um. Verst séu áhrifin fyrir þær íbúðir Þorrasala 9-11 sem snúi að innkeyrslunni, þar megi fólk búast við ljóskasti frá bílljósum inn í stofu til sín reglulega allan sólarhringinn.

Kópavogsbær hafi í bréfum sínum til húsfélagsins vísað til skipulagsskilmála í upphaflegu deiliskipulagi frá árinu 2006, en þar komi fram eftirfarandi: „Á skilmálateikningu og mæliblöðum eru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum er heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.“ Sé fullyrt í bréfi, dags. 17. nóvember 2015, að af framangreindu verði „ekki annað ráðið en að staðsetning innkeyrslunnar á deiliskipulagsuppdrættinum sé til leiðbeiningar. Hafi því ekki verið óheimilt að breyta staðsetningu á innkeyrslunni“. Um þetta skuli sagt að í fyrsta lagi verði ekki séð að nein lagaheimild standi til þess að deiliskipulag geti veitt slíkt svigrúm til breytinga, sem ummæli þessi í skipulagsskilmálum gefi til kynna. Í öðru lagi, þótt í deiliskipulagi hafi verið heimilað að gera tillögu að annarri staðsetningu innkeyrslu sé ekki þar með sagt að hana hafi mátt staðsetja hvar sem væri. Í þriðja lagi hafi byggingarfulltrúinn í Kópavogi þegar samþykkt lóðarteikningu fyrir Þorrasali 9-11 hinn 1. júlí 2012. Þar sé teiknaður upp malbikaður stígur milli húsanna, en ekki gert ráð fyrir akvegi. Í fjórða lagi hafi breytingin, sem gerð hafi verið þegar teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa 13. nóvember 2013, aldrei verið kynnt kæranda.

Kærandi hafi fyrst orðið var við framkvæmdir vegna innkeyrslunnar sumarið 2015. Hafi hann þá haft samband við Kópavogsbæ sem eftir viðræður við verktaka hafi boðið að reisa vegg milli húsanna. Sú lausn hafi ekki hugnast kæranda þar sem veggurinn yrði innan lóðamarka hans og þar sem áður hafi verið göngustígur með fallegum gróðri, yrði nú bílvegur sem aðeins gagnaðist íbúum Þorrasala 13-15. Í samskiptum sínum við Kópavogsbæ hafi kæranda aldrei verið veittar leiðbeiningar um að unnt væri að kæra ákvarðanir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þegar lögmaður kæranda hafi fengið málið í hendurnar hafi hann ritað bréf til byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar, dags. 28. september 2015, þar sem þess hafi verið krafist að beitt yrði heimild 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til þess að láta fjarlægja innkeyrsluna. Því bréfi hafi ekki verið svarað fyrr en 17. nóvember s.á. af bæjarlögmanni. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki orðið var við framkvæmdir fyrr en sumarið 2015 og aldrei fengið kæruleiðbeiningar frá Kópavogsbæ í samræmi við stjórnsýslulög, byggi kærandi á því að kærufrestir séu ekki liðnir.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að í gildi sé deiliskipulagið Hnoðraholt – Smalaholt, sem tekið hafi gildi 9. október 2006. Tvær breytingar hafi verið gerðar á umræddu deiliskipulagi og hafi þær tekið gildi 18. mars 2008 og 25. janúar 2010. Báðar breytingar hafi tekið til lóða nr. 1-15 við Þorrasali og hafi falist í þeim tilfærsla á byggingarreitum, hækkun húsa, fjölgun íbúða og stækkun á bílageymslu. Greindar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki falið í sér breytingar á öðrum skilmálum, t.d. þeim er varði bílastæði, innkeyrslur eða aðkomu. Gildi því skilmálar upphaflega deiliskipulagsins um önnur atriði en þau sem deiliskipulagsbreytingarnar taki til. Í skipulagsskilmálum deiliskipulagsins frá 2006 sé lóðin nr. 13-15 skilgreind sem svæði 15. Um það svæði gildi sérákvæði og segi í 7. kafla þeirra „Á skilmálateikningu og mæliblöðum eru sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum, en hönnuðum er heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.“ Umræddar teikningar fyrir fjöleignarhús á lóðinni nr. 13-15 séu í samræmi við framangreinda skilmála.

Deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hér sé því um að ræða áætlun en ekki bindandi stefnu. Verði ekki séð að ákvæði skipulagslaga taki fyrir að settir séu leiðbeinandi skilmálar. Engin þörf hafi verið á að gera breytingu á gildandi deiliskipulagi til að heimila breytta aðkomu, enda sé heimild fyrir því í skilmálum gildandi skipulags.

Ekki sé hægt að fallast á þá staðhæfingu kæranda að það bindi hendur byggingarfulltrúa að samþykkja teikningar fyrir lóð nr. 9-11 við Þorrasali þar sem teiknaður sé malbikaður stígur milli húsanna en ekki gert ráð fyrir akvegi. Umrædd kvöð um gegnumakstur hafi verið í gildi allt frá árinu 2006. Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki þurfi byggingaráform og þar af leiðandi teikningar að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Deiliskipulagsuppdrættir séu því rétthærri lóðarteikningum. Að auki sé sú teikning sem kærandi vísi til lóðaruppdráttur sem sé séruppdráttur. Ef mismunur myndast á milli séruppdrátta og aðaluppdrátta gildi aðaluppdráttur. Á aðaluppdrætti fyrir lóð nr. 9-11 sé umrædd kvöð tekin fram. Kvöðin sé án takmarkana. Rétt sé að á byggingarnefndarteikningum sé innkeyrslan sunnar en gert sé ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti. Hafi verið um nauðsynlega breytingu að ræða sökum hæðarmunar á bílageymslum.

Hvað varði þá ábendingu að samþykktar teikningar fyrir lóð nr. 13-15 hafi ekki verið kynntar fyrir íbúum Þorrasala 9-11 þá hafi það ekki verið nauðsynlegt. Teikningarnar hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi því ekki hvílt nein lögbundin skylda á byggingarfulltrúa að kynna umræddar breytingar fyrir íbúum fjöleignarhúss aðliggjandi lóðar.

——-

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hafði byggingarleyfishafi selt velflestar eignir í húsi því sem um ræðir. Með hliðsjón af því, sem og 13. gr. i.f. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þótti ekki ástæða til að leita eftir athugasemdum leyfishafa eða þeirra sem leiddu rétt sinn frá honum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 13. nóvember 2013 að samþykkja lóðarteikningu fyrir Þorrasali 13-15. Einnig er deilt um þá ákvörðun að neita að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu fjöleignarhússins.

Byggingarleyfi er skilgreint svo í 5. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að það feli m.a. í sér samþykkt aðal- og séruppdrátta. Lóðarteikningar teljast til séruppdrátta og í máli því sem hér um ræðir var slík teikning samþykkt af byggingarfulltrúa réttu ári eftir samþykkt byggingaráforma ásamt aðaluppdráttum, og var aðkomu að húsinu í engu breytt með lóðarteikningunni. Með hliðsjón af greindri skilgreiningu og atvikum málsins verður að líta svo á að kærð sé veiting byggingarleyfis fyrir fjöleignarhúsinu Þorrasalir 13-15.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist byggingaleyfisins eða mátti af aðstæðum vera ljóst hvert efni þess væri hvað varðaði aðkomu að fjöleignarhúsinu, svo sem af framkvæmdum við bygginguna. Eins og fram kemur í málavöxtum var leyfið samþykkt 13. nóvember 2012, en í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er byggingarár hússins tilgreint 2015. Verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um hvernig aðkomu að bílageymslu lóðar Þorrasala 13-15 yrði háttað fyrr en á aðalfundi sínum 29. mars 2015, en þá fól fundur húsfélagsins stjórn sinni að gera athugasemdir við teikningar og samþykktir á aðkomunni. Tók lögmæltur kærufrestur að líða frá þeim degi. Kærandi leitaði þá þegar í stað til bæjaryfirvalda í Kópavogi með þá kröfu að samþykktar teikningar yrðu endurskoðaðar og að innkeyrsla yrði færð. Í kjölfarið fóru fram bréfaskipti milli bæjarins og kæranda auk þess sem haldnir voru fundir til að leita lausna. Fór kærandi m.a. fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar en hafnaði tillögum bæjarins um aðgerðir vegna aðkomu. En þær tillögur fólu þó ekki í sér að aðkoman yrði færð til samræmis við kröfur kæranda. Áttu þessi samskipti sér stað allt til loka júnímánaðar. Lögmaður kæranda beindi á ný kröfum fyrir hans hönd til bæjarins með bréfi, dags. 28. september 2015. Var þess krafist að 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga yrði beitt og innkeyrsla að bílageymslu Þorrasala 13-15 yrði fjarlægð þar sem framkvæmdin bryti í bága við skipulag. Í svarbréfi Kópavogsbæjar frá 17. nóvember s.á. er kröfum kæranda hafnað og barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu 25. s.m., eða tæpum sjö mánuðum frá lokum kærufrests.

Kemur þá til skoðunar hvort að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tl. sama lagaákvæðis. Um 1. tl. segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Um 1. mgr. segir að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kæranda heldur einnig byggingarleyfishafa Þorrasala 13-15 og eigendur þess húss. Það verður þó ekki framhjá því litið að kæranda var í engu leiðbeint um kæruleið eða kærufresti í samskiptum sínum við Kópavogsbæ. Báru öll samskipti þó þess merki að kærandi var síður en svo sáttur við svör bæjarins. Eins og hér stendur sérstaklega á verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal setja deiliskipulag fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð og skal fara um deiliskipulagsbreytingu eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Samkvæmt deiliskipulagi Hnoðraholts og Smalaholts frá árinu 2006 var á ákveðnum svæðum heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílageymslum en sýnd er á skilmálateikningu og mæliblöðum. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum var deiliskipulaginu breytt að því er varðaði Þorrasali 1-15 á árunum 2008-2009. Í deiliskipulagsbreytingu árið 2008 var að öðru leyti vísað til gildandi deiliskipulagsskilmála, en sams konar tilvísun var ekki að finna í deiliskipulagsbreytingu árið 2009. Í þeirri breytingu var á skipulagsuppdrætti sýnd breytt aðkoma frá því sem sýnt var á skipulagsuppdrætti árið 2006, en ekki var gerð grein fyrir breyttri aðkomu eða ástæðu hennar í greinargerð. Verður að telja að með þessu hafi bæjarstjórn Kópavogsbæjar í skjóli skipulagsvalds síns tekið ákvörðun um breytta aðkomu, eftir atvikum að tillögu skipulagshönnuðarins, eins og hún er sýnd á skipulagsuppdrætti samþykktum 30. desember 2009. Var enda deiliskipulagsbreytingin sett fram á uppdrætti og í greinargerð í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Mátti kærandi, sem og aðrir, því treysta því að afgreiðsla bæjarins á tillögu að breyttu deiliskipulagi svo sem það var samþykkt og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda væri endanleg að öllu óbreyttu, enda í engu getið um fyrri skilmála þess efnis að tillögu mætti gera að annarri staðsetningu. Gengur breytingin þannig framar eldri sérskilmálum þess efnis að hönnuðum væri heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu aðkomu að bílageymslu.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu fullnægir hið kærða byggingarleyfi, sem gerir ráð fyrir aðkomu sem ekki er í samræmi við samþykktan skipulagsuppdrátt frá 2009, ekki áskilnaði 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga um samræmi við skipulagsáætlanir. Varðar það ógildingu, en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður hið kærða byggingarleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að þeim hluta er varðar aðkomu bílageymslu.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga kemur fram að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti hún í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem leyfisveitanda eru veittar sömu heimildir. Í nefndri reglugerð er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, falið það vald að taka ákvörðun um hvort umræddum þvingunarúrræðum verði beitt í hverju tilviki. Kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða var beint til skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar, en vísað var til nefndrar 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga og „þess krafist að byggingarfulltrúi leggi fyrir byggingarleyfishafa eða eigendur að fjarlægja mannvirkið“. Hins vegar verður ekki séð að krafa kæranda hafi komið til kasta byggingarfulltrúa. Þess í stað var erindið lagt fram á fundi skipulagsnefndar 5. október 2015 sem vísaði málinu til bæjarlögmanns án þess að tilgreina hvort það væri til ráðgjafar eða afgreiðslu. Með bréfi bæjarins frá 17. nóvember s.á., sem undirritað var af starfsmanni hans, var tekið fram að ekki væri hægt að verða við kröfu kæranda um að láta fjarlægja innkeyrslu að bílageymslu Þorrasala 13-15 og var vísað til þess að hvorki væri um óleyfisframkvæmd að ræða né bryti hún í bága við skipulagsskilmála svæðisins. Væru skilyrði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga því ekki uppfyllt. Bar bréfið þannig með sér að ákvörðun bæjarins í málinu lægi fyrir, en að teknu tilliti til tilvitnaðs ákvæðis mannvirkjalaga er ljóst að starfsmaður bæjarins hafði hvorki almenna heimild né stöðuumboð til töku þeirrar ákvörðunar, enda ekki um að ræða ákvörðun sem varðaði daglegan rekstur eða þjónustu sveitarfélagsins, sbr. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Leiðir sú valdþurrð til ógildingar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 13. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir Þorrasali 13-15, að því er varðar aðkomu í bílageymslu.

Felld er úr gildi synjun Kópavogsbæjar frá 17. nóvember 2015 um að beita þvingunarúrræðum vegna innkeyrslu að bílgeymslu Þorrasala 13-15.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

109/2016 Rúv-reitur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. ágúst 2016, kæra A, Miðleiti 3, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí s.á. að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir svonefndan RÚV-reit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 17. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélög Efstaleitis 10-14 og Miðleitis 5-7, Reykjavík, jafnframt fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs. Með bréfi, dags. 27. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verða kærumál þessi, sem eru nr. 135/2016 og 40/2017, sameinuð máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kæru vegna fyrrgreinds byggingarleyfis er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. nóvember 2016 og 20. júní 2017.

Málavextir: Á fundi borgarráðs 14. apríl 2016 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi RÚV-reits, sem nær til reita 1.745.4, 1.745.0 og 1.745.1, sem afmarkast af Listabraut í norðri, Bústaðavegi í suðri, Efstaleiti í vestri og Háaleitisbraut í austri. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Hún var auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. júlí s.á. var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí s.á., með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum ásamt lagfærðum uppdrætti. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 21. júlí 2016. Tók hið breytta deiliskipulag gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 28. september s.á.

Þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun eru m.a. að skipulagssvæðið var stækkað frá eldra skipulagi Efstaleitis 3-9 til suðurs yfir lóð útvarpshússins að Bústaðavegi, sem áður hafði ekki verið deiliskipulögð. Við gildistöku breytts deiliskipulags féll eldra skipulag Efstaleitis 3-9 úr gildi, en ekki voru gerðar breytingar á skilmálum þeirra lóða. Einnig var lóð RÚV, Efstaleiti 1, skipt í minni lóðir og á þremur þeirra heimilað að reisa 361 íbúð.

Hinn 20. desember 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík svo byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags, sem fól í sér leyfi til að byggja 71 íbúð í fjórum fjöleignarhúsum, með sameiginlegum 44 stæða bílakjallara á lóð nr. 2-8 við Jaðarleiti.

Málsrök kærenda: Kærendur að Miðleiti 3 mótmæla aukningu byggingarmagns sem heimilað sé í hinu breytta deiliskipulagi. Aukningin sé allt of mikil með tilheyrandi aukinni umferð. Með samþykkt sinni hafi borgaryfirvöld svikið nánast öll loforð sín í samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar um aukið íbúalýðræði og aðkomu borgarbúa að mikilvægum ákvörðunum. Endanleg tillaga um RÚV-reitinn hafi verið auglýst frá 13. maí til og með 24. júní 2016 og þann tíma hafi teikningar verið til sýnis á jarðhæð í húsakynnum umhverfis- og skipulagssviðs við Borgartún. Starfslið þar hafi ekki getað veitt neinar útskýringar og kærendum hafi ekki verið leyft að fara á efri hæðir hússins til að fá skýringar. Vafi leiki á um það að efni og anda 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt við málsmeðferð umdeilds skipulags.

Kærendur að Efstaleiti 10-14 og Miðleiti 5-7 byggja kæru sína í fyrsta lagi á því að reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að hin umþrætta deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt. Réttarreglur þær, sem séu ólögfestar, kveði á um að nágranni verði að sætta sig við tiltekin óþægindi af nábýli við annan aðila, en um leið og óþægindin fari yfir ákveðin þolmörk séu þau orðin ólögmæt. Kærendur leggi jafnframt áherslu á að við skipulagsgerð sé skipulagsyfirvöldum skylt að tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga.

Gerðar séu athugasemdir við þann fjölda íbúða og þá miklu þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé í námunda við íbúðir kærenda. Ljóst sé að hin umþrætta skipulagsbreyting muni hafa afgerandi áhrif á íbúa svæðisins, langt umfram það sem þeir hafi mátt vænta samkvæmt áðurgildandi skipulagsáætlunum. Þá verði að telja varhugavert að ráðist sé í svo umfangsmiklar framkvæmdir í þegar grónu hverfi án þess að nauðsyn beri til. Bent sé á að það sé eitt af meginmarkmiðum skipulagslaga að tryggja fyrirsjáanleika og festu við skipulagsgerð.

Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé sérstaklega vikið að því að taka verði á umferðar- og samgöngumálum við gerð deiliskipulags. Í ákvæðinu segi að í deiliskipulagi svæða í þéttbýli skuli gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir sé og fyrirhugað sé samkvæmt aðalskipulagi. Fjallað sé um áhrif uppbyggingar á umferð, staðbundin áhrif og flæði á einstökum götum, hljóðvist og loftgæði í greinargerð með deiliskipulagstillögu fyrir Efstaleiti. Þar segi á bls. 22 að niðurstöður afkastareikninga „gefa til kynna að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn við Efstaleiti þoli vel þá aukningu á umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti“. Fram komi að við útreikninga hafi m.a. verið gert ráð fyrir breytingu á ferðavenjum frá því sem sé í dag og að miðað hafi verið við 20% fækkun bílferða í samræmi við markmið aðalskipulags. Kærendur geri alvarlegar athugasemdir við þessa umferðarútreikninga því þar hafi verið stuðst við markmið um breytingar á ferðavenjum þegar engin vissa sé fyrir því að slík markmið muni ná fram að ganga. Þvert á móti telji kærendur að af raungögnum frá Hagstofu Íslands, Reykjavíkurborg og Vegagerðinni megi fremur ráða að gera megi ráð fyrir auknum umferðarþunga til framtíðar litið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að aukið byggingarmagn sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Í staðfestu aðalskipulagi borgarinnar hafi RÚV-reitur ávallt verið skilgreindur sem byggingarsvæði. Í fyrsta aðalskipulagi borgarinnar frá 1966 hafi svæðið verið skilgreint sem miðbæjarsvæði, sem hluti hins nýja miðbæjar sem hafi þá verið áformaður í Kringlumýri. Eftir að tekin hafi verið ákvörðun um útvarpshús á svæðinu hafi svæðið milli Bústaðavegar og Listabrautar verið skilgreint í heild sem stofnanasvæði. Við gerð gildandi aðalskipulags hafi verið gerð sú breyting að sá hluti svæðisins sem sé næstur Listabraut hafi verið skilgreindur sem miðsvæði, þ.e. núverandi lóðir ásamt ræmu af lóð útvarpshússins. RÚV-lóðin í heild hafi hins vegar verið skilgreind sem þróunarsvæði, sem gefið hafi vísbendingu um að á svæðinu myndi eiga sér stað þétting byggðar með auknu byggingarmagni, í þá veru sem felist í deiliskipulagstillögunni.

Telji kærendur að deiliskipulagsbreytingin skerði eignarréttindi sín, þ.e. að verðmæti fasteigna þeirra skerðist verulega, umfram það sem eigi við um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá sem geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Reykjavíkurborg telji að ekki sé verið að skerða eignarréttindi kærenda og vísi þeim ásökunum á bug.

Við mat á umferð vegna nýrrar byggðar á reitnum hafi verið horft til markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um breyttar ferðavenjur, en einnig á takmarkaðan fjölda bílastæða og góða staðsetningu reitsins m.t.t. þjónustu og almenningssamgangna. Hafi því verið miðað við að ferðir vegna nýrrar byggðar yrðu 20% færri á hverja íbúð en sé í dag að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Í útreikningum sé gert ráð fyrir að umferð vegna núverandi byggðar verði óbreytt. Greiningin sé gerð á hefðbundinn og viðurkenndan hátt þar sem stuðst sé við reiknilíkan umferðar fyrir höfuðborgarsvæðið að teknu tilliti til markmiða aðalskipulags. Til að draga úr umferð einkabíla af völdum fyrirhugaðrar byggðar og auka líkur á notkun annars ferðamáta sé skynsamlegt og rétt að takmarka framboð á bílastæðum. Bústaðavegur sé sú gata sem næst sé deiliskipulagssvæðinu og hafi mesta umferð. Þróun umferðar á þeirri götu sé að langmestu leyti óháð uppbyggingu á deiliskipulagssvæðinu. Hún haldist meira í hendur við þróun umferðar almennt í borginni og uppbyggingu byggðar annarsstaðar. Háaleitisbraut og Listabraut séu safngötur, sem tengi hverfið við stofnbrautir, og sé þróun umferðar þar mest tengd uppbyggingu í hverfinu sjálfu. Umferð í Efstaleiti tengist nær eingöngu umferð innan hverfisins vegna þjónustu við Efstaleiti og íbúðir við Leiti.

Kærendur telji að hávaði og ónæði verði vegna nálægðar við lóðarmörk vegna byggingarframkvæmda. Áhyggjur vegna hugsanlega tímafrekra framkvæmda séu skiljanlegar, en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998, sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vakin sé athygli á því að í gildi sé reglugerð um hávaða nr. 724/2008, sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Reglugerðin gildi m.a. um verklegar framkvæmdir. Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við hið breytta deiliskipulag fyrir RÚV-reitinn.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að ekki verði betur séð en að farið hafi verið að öllum reglum og vandað til við breytingu á deili- og aðalskipulagi. Eins og fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar þá hafi reiturinn verið skilgreindur sem byggingarsvæði frá fyrsta aðalskipulagi árið 1966. Aukið byggingarmagn á reitnum sé í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem stefnt sé að þéttingu byggðar.

Nú sé svo komið að leyfishafi hafi fengið, hinn 3. apríl 2017, samþykkt byggingarleyfi til byggingar á 71 íbúð í fjórum fjölbýlishúsum við Jaðarleiti 2-8. Leyfið hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 160/2010, um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010. Við afgreiðslu málsins og útgáfu leyfisins hafi verið gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki verður rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var kynnt samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna sama svæðis í samræmi við 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með áðurnefndri aðalskipulagsbreytingu var landnotkun hluta umrædds svæðis breytt úr samfélagsþjónustu í miðsvæði ásamt því að heimilað byggingarmagn hækkaði og heimiluðum íbúðum var fjölgað í allt að 350 í þriggja til fimm hæða fjölbýlishúsum. Þó er í aðalskipulaginu veitt svigrúm til þess að fjölga íbúðum um 20% eða fækka um 10% og fækka hæðum húsa um eina eða fjölga um tvær í deiliskipulagi frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu en breyting á fjölda hæða skal þá rökstudd sérstaklega.

Deiliskipulagstillagan fékk málsmeðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Með henni er heimilað að reisa allt að 361 íbúð á skipulagssvæðinu í tveggja til sex hæða fjölbýlishúsum. Var því nýttur hluti þess svigrúms sem veitt er í aðalskipulagi. Breyttur fjöldi hæða frá því sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu var hins vegar ekki rökstuddur sérstaklega í hinu kærða deiliskipulagi, en sá ágalli þykir þó ekki þess eðlis að hann raski gildi skipulagsins.

Samkvæmt ákvæðum skipulagslaga hafa sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og er skipulagsgerð tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c- liðum 1. mgr. 1. gr. laganna, meðal annars að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, stuðlað sé að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Ljóst er að einhver grenndaráhrif fylgja heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu, svo sem aukin umferð. Í málinu liggur fyrir minnisblað frá verkfræðistofu um umferðarsköpun og dreifingu umferðar, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að núverandi gatnakerfi umhverfis reitinn þoli vel þá auknu umferð sem ætla megi að verði vegna uppbyggingar við Efstaleiti.

Hið umrædda skipulagssvæði er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 skilgreint sem miðsvæðið M21, en þar er einkum gert ráð fyrir íbúðum og samfélagsþjónustu, auk verslunar, þjónustu og skrifstofustarfsemi. Meðal markmiða aðalskipulagsins er að þétta byggð, auka fjölbreytni innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða eins og unnt er. Hin kærða skipulagsbreyting er því í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Þá er og fullnægt áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var að öðru leyti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, framkomnum athugasemdum svarað, brugðist var við athugasemdum, breytingin síðan samþykkt og gildistaka hennar auglýst lögum samkvæmt. Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júlí 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir RÚV-reit.

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. desember 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Jaðarleiti 2-8.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

11/2017 Sel-Hótel

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 um að samþykkja leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, Skútustaðahreppi.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 20. september 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Jafnframt er þess krafist að skolphreinsibúnaður, sem tengdur á að vera hóteli, sæti mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er gerð krafa um að framkvæmdaraðila verði gert að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákveðið verði að Umhverfisstofnun skuli fjalla um leyfi fyrir skolphreinsibúnaðinum í samræmi við ákvæði laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Enn fremur að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að skolp „muni undirgangast 100% hreinsun fosfórs og niturs“, eða þannig að sýnt sé fram á að engin næringarefni berist með tímanum í Mývatn.

Loks er þess krafist að réttaráhrifum verði frestað og að skolpi frá hótelinu verði ekið út af verndarsvæðinu á viðurkenndan urðunarstað meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar úrlausnar og verður ekki tekin sérstök afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 20. janúar og 28. apríl 2017. 

Málavextir: Deiliskipulag fyrir Sel-Hótel Mývatn í Skútustaðahreppi tók gildi á árinu 2014. Nær skipulagssvæðið yfir landsvæði í eigu Skútustaða 2 og gerir skipulagið m.a. ráð fyrir stækkun á byggingarreit núverandi hótels og verslunar. Hinn 20. september s.á. samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn, austan og sunnan við núverandi byggingu. Fyrir stækkun hótelsins var fjöldi herbergja 35 en varð 58 eftir stækkun þess. 

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að mál þetta fjalli um leyfi fyrir viðbyggingu eða endurbyggingu hótels nálægt vatnsbakka Mývatns, sem veitt hafi verið án þess að frárennslismál hótelsins væru í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Ákvarðanir um að heimila endurbyggingu hótelsins hafi ekki verið kynntar, birtar opinberlega eða gerðar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði. Innan við mánuður sé síðan kæranda hafi orðið kunnugt um að veitt hefði verið leyfi fyrir endurbyggingu hótelsins. Kæran sé því sett fram innan kærufrests.

Skilja verði umrætt byggingarleyfi svo að það hafi falið í sér heimild til að reisa skolphreinsun. Skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum hafi verið tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., sbr. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þrátt fyrir að hótel í dreifbýli hafi fyrst orðið tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, með breytingarlögum nr. 138/2014. Framkvæmdin hafi ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi nema álit stofnunarinnar á matsskýrslu eða ákvörðun hennar um matsskyldu skolphreinsibúnaðar lægi fyrir, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá hafi rekstraraðila hótelsins borið að leita sérfræðiálits skv. 5. mgr. 13. gr. sömu laga, en það hafi ekki verið gert.

Óheimilt sé að byggja á landsvæði er njóti verndar skv. lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nema í undantekningartilvikum, og þá með sérstakri undanþágu eða leyfi Umhverfisstofnunar. Engin slík undanþága eða leyfi liggi fyrir. Hótelbyggingin sjálf sé undirorpin byggingarbanni skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður- Þingeyjarsýslu, svo sem hún verði skýrð.

Ekki hafi verið sýnt fram á að skolphreinsibúnaður sé til staðar sem uppfylli skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. og verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011-2016. Verði að gera þær kröfur þegar um sé að ræða innlent og alþjóðlegt verndarsvæði, svo sem hér um ræði, að gerð sé grein fyrir þessu. Sé í þessu sambandi vísað til 2. og 3. gr. laga nr. 97/2004 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið krefst þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað. Byggist krafa um frávísun á því að kæra sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ósannað sé og óútskýrt að kærandi hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en í janúar 2017. Í Landvernd séu 4.900 félagar að sögn kæranda. Það sé því ótrúverðugt að samtökunum hafi ekki mátt vera kunnugt um byggingarframkvæmdir í tvö og hálft ár. Þá sé að öðru leyti vísað til eðlis rekstrarins, opinberrar umfjöllunar um hann og auglýsingar um starfsemina, sem og eðlis máls um að undanþága frá mánaðar kærufresti eigi ekki við.

Dregið sé í efa að skolphreinsivirki, með engan vélrænan búnað, sem þjónusti stakar byggingar, teljist skolphreinsistöð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Takmarkist kæruheimild hans við ákvarðanir sem falli undir þau lög í þeim skilningi að ákvörðun taki til matsskyldrar framkvæmdar. Þá varði umrætt byggingarleyfi hvorki framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin né byggingu á skolphreinsivirki. Kæruheimild kæranda geti því með engu móti verið til staðar. Beri að skýra þröngt kæruheimild aðila sem ekki eigi lögvarða hagsmuni. Geti hvorki a- né b-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 átt við í máli þessu. Þá falli undirkröfur kæranda ekki undir valdssvið úrskurðarnefndarinnar eða eftirlit með framkvæmd fráveitumála þegar byggingarleyfi sé kært. Ekki verði heldur úrskurðað um að umsækjanda hafi borið að sækja um aðra framkvæmd. Ákvörðun um samþykkt byggingarleyfisins byggi á lögum. Hafi það verið gefið út á grundvelli fullnægjandi gagna og samræmist deiliskipulagi. Skútustaðahreppi sé ekki ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd Umhverfisstofnunar á lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns- og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um frávísun málsins. Undirbúningur og framkvæmd byggingarinnar hafi að öllu leyti verið unnin í samstarfi við byggingarfulltrúa og sé í samræmi við lög, reglur og deiliskipulag fyrir svæðið. Ákveðið hafi verið að tengja frárennsli nýrra herbergja við kerfi sem þegar hafi verið til staðar við hliðina á hótelinu. Hafi kerfið þjónustað lítið kaffihús og getað tekið við aukaálagi án breytinga.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á greindu ákvæði. Er til þess skírskotað í kæru að þar sem borið hafi að tilkynna skolphreinsibúnað, er tengdur eigi að vera umræddu hóteli, til Skipulagsstofnunar skv. þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða alla framkvæmdina í ljósi kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Samkvæmt a-lið fyrrnefndrar 3. mgr. 4. gr. er unnt að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt b-lið heimilt að kæra ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir þau lög. Hefur a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 nú verið breytt með lögum nr. 138/2014, sem tóku gildi 30. desember 2014, og frá þeim tíma eru ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda jafnframt kæranlegar til nefndarinnar.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í 3. mgr. 4. gr. sé afmarkað hverjir eigi kæruaðild. Annars vegar sé um að ræða stjórnvaldsákvarðanir sem lúti almennum reglum stjórnsýsluréttarins og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir, þar sem kærendur þurfi ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni, t.d. umhverfisverndarsamtök. Er m.a. tekið fram að undir a-lið ákvæðisins falli ákvarðanir um matsskyldu sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, og að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda sbr. b-lið. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem matsskyldar séu skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Hér undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósarsamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Í máli þessu er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er m.a. tiltekið að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Nefnd 6. gr. tekur til framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og svo sem áður segir heldur kærandi því fram að tilkynna hafi þurft Skipulagsstofnun um skolphreinsivirki í samræmi við þágildandi 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar undir féllu m.a. skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum, sbr. c-lið 11. tölul. viðaukans, en framkvæmdirnar eru á verndarsvæði Mývatns og Laxár, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.  

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hefur sú framkvæmd sem leyfð var ekki komið til meðferðar Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Tekur stofnunin nánar fram í svarbréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. febrúar 2017, að stofnunin hafi ekki fengið til slíkrar meðferðar málefni umræddrar hótelbyggingar og tengd mannvirki. Vekur stofnunin athygli á því að töluliður 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 hafi komið inn með breytingarlögum nr. 138/2014, sem birt hafi verið 30. desember 2014. Leyfi fyrir viðbyggingu við Sel-Hótel Mývatn hafi hins vegar verið veitt árið 2014.

Upplýst er að Skipulagsstofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort að framkvæmd sú er veitt var leyfi fyrir með hinu kærða byggingarleyfi falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, enda hefur stofnunin ekki fengið málefni hennar til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og lögskýringargögnum er ljóst að það er forsenda kæruaðildar skv. b-lið ákvæðisins að slík niðurstaða liggi fyrir. Telst kærandi því ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir þó á að ekki verður séð að kærandi hafi neytt þeirrar heimildar, sem ráð er gert fyrir í lögum nr. 106/2000, að bera fram fyrirspurn um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, sem skal þá taka ákvörðun um hvort framkvæmdin eigi undir 6. gr. laganna og lúta þar með málsmeðferðarreglum þeirrar lagagreinar. Er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon