Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2017 Traðarland

Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Traðarlandi 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum og stækkun íbúðarhússins að Traðarlandi 12. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. mars 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 10. maí 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10-16 við Traðarland. Sótt var um breytingu á samþykktum byggingaráformum sem fólust í að notaðar yrðu forsteyptar einingar í stað staðsteypu, komið yrði fyrir innsteyptum styrktarbita í þaki viðbyggingar og útliti suðurhliðar hússins yrði breytt. Var breytingin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. október 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að honum hafi fyrst orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis 27. febrúar 2017 þegar svar byggingarfulltrúa hafi borist við erindi hans, dags. 21. s.m. Hafi kæra í máli þessu því borist innan kærufrests. Grenndarkynna hefði átt umdeilda breytingu og afla samþykkis sameigenda umræddrar lóðar. Heimiluð breyting fari í bága við gildandi deiliskipulag og í raun sé um að ræða tvö hús með takmarkaðri tengingu og líti út fyrir að aðkoma að þeim verði aðallega frá Sævarlandi. Vesturhlið hússins að Traðarlandi 12, sem snúi að húsi kæranda, hafi verið gluggalaus en nú séu þar nokkrir gluggar og sú hlið hússins sé mun nær fasteign kæranda með tilheyrandi grenndaráhrifum.

Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun kærumálsins. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Hin kærða ákvörðun sé að stofni til frá 10. maí 2016 og byggingarleyfi gefið út 21. október s.á. Framkvæmdir hafi byrjað í kjölfarið og búið hafi verið að gera sex áfangaúttektir á byggingarframkvæmdum á tímabilinu 3. nóvember til 1. desember 2016. Kærandi hafi því haft vitneskju um framkvæmdina frá þeim tíma enda búi hann í næsta húsi við fasteign leyfishafa. Hann hafi hins vegar látið hjá líða að nýta sér kærurétt sinn til 22. mars 2017 þegar tæpir fimm mánuðir hafi verið liðnir frá útgáfu leyfis og byrjun framkvæmda.

Leyfishafi telur að málsástæður kæranda eigi ekki við rök að styðjast. Heimilað sé að byggja við einbýlishús á lóðinni, en ekki sé um annað hús að ræða. Viðbyggingin samræmist skilmálum gildandi deiliskipulags, svo sem um nýtingarhlutfall. Hún sé innan byggingarreits og fordæmi séu fyrir sambærilegum viðbyggingum í hverfinu. Veggur sá sem kærandi vitni til sé inni á lóð kæranda, nokkuð frá lóðarmörkum og sé til þess að takmarka sýn milli fasteigna leyfishafa og kæranda. Aðkoma að húsinu verði eftir sem áður frá Traðarlandi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Gögn málsins bera með sér að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hófust í kjölfar útgáfu þess hinn 21. október 2016. Úttektir vegna botnplötu viðbyggingarinnar fóru fram 7. og 10 nóvember s.á., úttekt á tengingu við skolpveitu 17. s.m., úttekt á veggjum 1. hæðar 29. s.m. og á gólfhita 1. hæðar og bílskúrs 1. desember s.á. Kærandi, sem býr á næstu lóð við hliðina á lóð leyfishafa, mátti ætla með hliðsjón af greindum framkvæmdum að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þeim og gat hann þá þegar aflað sér upplýsinga hjá byggingaryfirvöldum um framkvæmdir þær sem hafnar voru. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi byrjað að líða í síðasta lagi um mánaðarmótin nóvember-desember 2016 þegar veggir viðbyggingarinnar voru þegar reistir. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 22. mars 2017.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Það var fyrst hinn 23. febrúar 2017 sem kærandi sendi byggingaryfirvöldum erindi í tilefni af umdeildum framkvæmdum sem þá voru vel á veg komnar og barst úrskurðarnefndinni kæra hans tæpum mánuði eftir að greindu erindi hans var svarað af hálfu byggingaryfirvalda. Eins og málsatvikum er háttað verður ekki talið afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun ber vitni. Af þeim sökum og með tilliti til hagsmuna leyfishafa, sem hafði þá að mestu lokið byggingarframkvæmdum í skjóli opinbers leyfis og í góðri trú, eru ekki skilyrði til þess að taka mál þetta til meðferðar á grundvelli áðurgreindra undanþáguákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson