Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74, 75 og 78/2017 Hafnarstræti

Með

Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2017, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 um að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri í gistiskála.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra Frikkabílar sf., Grensásvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. og 12. júlí 2017, sem bárust úrskurðarnefndinni 7. og 13. s.m., kæra félögin ORF ehf., Dalvegi 16d, Kópavogi, og GM Investment ehf., Álfkonuhvarfi 33, Kópavogi, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða greind kærumál, sem eru nr. 75/2017 og 78/2017, sameinuð máli þessu. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 16. ágúst 2017.

Málavextir:
Hinn 24. mars 2017 samþykkti staðgengill byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á eignarhlutum 223-3630 og 223-3629 á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101. Fól umsóknin í sér að nefndir eignarhlutar, sem áður hýstu sjónvarpsstöð og tónlistarskóla, yrði breytt í morgunverðarsal og gistiskála. Var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að þinglýst yrði kvöð á eignarhlutana vegna flóttaleiða og var yfirlýsing þess efnis þinglýst 6. júní 2017 hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Hinn 12. júní 2017 var byggingarleyfi fyrir breytingunum gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eru eigendur séreignarhluta á 1. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101, benda á að í hinu kærða byggingarleyfi sé gert ráð fyrir að öll umferð 2. hæðar hússins fari um inngang verslana hússins en ekki stigagang sem gerður hafi verið fyrir hæðina. Þessi breyting hafi ekki verið rædd við eigendur á 1. hæð en samkvæmt lögum þurfi að liggja fyrir samþykki allra eigenda sameignar þegar um stórvægilega breytingu á sameign sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur til 19. og 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins þar sem kröfur kærenda byggjast eingöngu á ágreiningi um innanhússmál sameignar en ekki sé gerð krafa um ógildingu byggingarleyfis. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og undirrituð. Þar skuli koma fram hver sé kærandi, hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærum komi hvorki fram réttir handhafar byggingarleyfis né þær kröfur sem kærendur geri. Ekki liggi ljóst fyrir hvort allir kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þá leiki vafi á því hvort GM Investment ehf. hafi kært innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verði ekki fallist á frávísun sé farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Fasteignin Hafnarstræti 99-101 sé með tvö inngönguport. Nyrðra inngönguportið sé í sameign allra en syðra inngönguportið, sem deilt sé um aðgang að í máli þessu, leiði inn á verslunargang á 1. hæð sem sé í sameign sumra, þar á meðal séreignar 223-3630 á 2. hæð. Eignin á 2. hæð sé með beinan og óhindraðan aðgang um stiga niður í sameign sumra á 1. hæð. Syðri útgangurinn sé neyðarútgangur fyrir eignina. Hann megi því ekki vera læstur innan frá. Útganga frá 2. hæð niður í sameign sumra á 1. hæð verði því ætíð að vera möguleg. Þeir sem nýti sér þjónustu gistiskála, sem byggingarleyfið varði, geti því valið um að fara um inngang í syðri eða nyrðri portunum. Bent sé á að ekki komi fram í byggingarleyfinu hvaða inngang gestir gistiaðstöðunnar skuli nota innan fasteignar, enda sé það hinu kærða byggingarleyfi óviðkomandi.

Umrædd fasteign sé í miðbæ Akureyrar og er þar gert ráð fyrir fjölbreytileg atvinnustarfsemi, þ.m.t. umfangsmikilli verslunar-, viðskipta- og þjónustustarfsemi samkvæmt deiliskipulagi miðbæjar sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Akureyrar 6. maí 2014 og tekið hafi gildi 22. júlí s.á. Við Hafnarstræti séu verslanir, veitinga- og gistihús ásamt opinberri þjónustu og í húsinu að Hafnarstræti 99-101 séu verslanir, gistiaðstaða og opinber þjónusta. Með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið breytt hagnýtingu viðkomandi séreignarhluta frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi og því ekki þörf á samþykki sameigenda vegna breytinganna skv. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ágreiningur máls þessa snúist ekki um afnot sameignar heldur um það hvenær og hvort inngangur í sameign sumra á 1. hæð, í syðra porti, eigi að vera opinn eða lokaður að utanverðu á þeim tíma sem verslanir við sameignarganginn séu lokaðar. Þar sem sá inngangur sé neyðarinngangur fyrir 2. hæð, verði hann alltaf að vera opnanlegur að innan. Aðgangsstýringar að utan séu innanhúsmál sem eigendur verði að ráða með sér á húsfundi. Um það geti sveitarfélagið ekki sett skilyrði í byggingarleyfi.

Athugasemdir leyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er bent á að sem eigandi tveggja eignarhluta í fasteigninni Hafnarstræti 99-101 hafi hann fengið leyfi til að opna á milli eignarhlutanna og nota sem gistiheimili. Inngangur í annan eignarhlutann verði nýttur sem flóttaleið og inngangur fyrir þá sem nota lyftu og hinn innganginn sem aðalinngangur. Húsnæði leyfishafa sem nota eigi sem gistiheimili séu tveir eignarhlutar. Annar þeirra hafi hýst starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar N4 en í hinum hafi verið rekinn 100 nemenda tónlistarskóli. Aðkoma að tónlistarskólanum hafi verið um inngang verslana, líkt og kærendur kalli hann. Gistiheimilið sé með leyfi fyrir 84 gesti á meðan 100 nemendur hafi verið í tónlistarskólanum og því sé ekki um aukinn umgang í sameign að ræða.

Ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kveði á um að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda. Haldinn hafi verið húsfundur 28. nóvember 2016 þar sem teikningar leyfishafa hafi verið lagðar fram til kynningar og umræðu. Ákveðið hafi verið að halda annan fund tíu dögum síðar, þar sem meðeigendur leyfishafa myndu gefa upp afstöðu sína til tillögu um gistiheimili á annarri hæð eignarinnar. Formanni húsfélagsins hafi verið falið að koma teikningum til kærenda og boða til fundar 8. desember 2016, sem hann og hafi gert með ábyrgðarpósti á lögheimili og tölvupósti. Ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umdeildum breytingum á séreign leyfishafa en samráð hafi engu að síður verið haft af tillitssemi við þá

Á húsfundi 8. desember 2016 hafi allir viðstaddir veitt samþykki sitt fyrir því að í eignarhlutum leyfishafa yrði rekið gistiheimili, þó sumir með athugasemd, t.d. um skiptingu sameignarkostnaðar og að notaður yrði inngangur sem kærendur kalla inngang verslana, sem leyfishafa hafi talið sjálfsagt að verða við. Kærendur hafi ekki mætt á fundinn þrátt fyrir boðun og séu þeir bundnir af ákvörðunum sem þar hafi verið teknar þar sem boðað hafi verið til fundarins með lögmætum hætti auk þess sem aðrir meðeigendur myndi svo stóran meirihluta að atkvæði kærenda hefði engu breytt um niðurstöðu tillögu fundarins. Ljóst megi vera að ekki sé um verulega breytingu á sameign að ræða. Tveir inngangar séu í gistiheimili leyfishafa, flótta- og lyftuleið og aðalinngangur sem sé um sameign kærenda, leyfishafa og sportvöruverslunar.

Ákvæði 27. gr. laga um fjöleignarhús um breytta hagnýtingu á séreign eigi ekki við í máli þessu enda meginreglan skv. 26. gr. laganna sú að eigandi hafi einn rétt til umráða og ráðstöfunar yfir séreign sinni. Hin breytta atvinnustarfsemi hafi ekki í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur hafi ekki fært nein rök fyrir því að breytingin feli í sér röskun á hagsmunum þeirra. Megi í því sambandi einnig vísa til álits kærunefndar húsamála í máli nr. 34/2014 þar sem talið hafi verið að eigandi þyrfti ekki samþykki annarra eigenda fyrir að breyta atvinnuhúsnæði sínu í íbúðarhúsnæði. Verði talið að ákvæði 27. gr. eigi yfir höfuð við ætti 3. mgr. ákvæðisins við um breytinguna, en þar segi að sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að fá samþykki einfalds meirihluta. Slíkt samþykki liggi fyrir í máli þessu þar sem stærstur hluti eigenda hafi samþykkt breytinguna á húsfundi.

Niðurstaða: Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfisins ein og sér felur ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur þá þegar verið fallist á efnisinnihald leyfisins með samþykki umsóknar um byggingarleyfi skv. 9. gr. mannvirkjalaga sem felur í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Verður því svo litið á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja hina kærðu breytingu á notkun séreignarhluta leyfishafa að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri.

Kærendur eru eigendur að sameign með leyfishafa á 1. hæð að Hafnarstræti 99-101. Hið umdeilda byggingarleyfi varðar breytingu á séreign leyfishafa á 2. hæð fasteignarinnar sem getur m.a. haft áhrif á umferð í gegnum sameign á 1. hæð. Getur hin kærða ákvörðun snert hagsmuni kærenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Teljast þeir því eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggur að ágreiningur máls þessa snýst um lögmæti umdeilds byggingarleyfis. Með hliðsjón af þeirri leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum vanreifunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráforma eða útgáfu byggingarleyfisins 12. júní 2017, en fyrr var ekki heimilt að ráðast í hinar umdeildu breytingar, sbr. 5. tl. 3. gr. mannvirkjalaga. Kæra GM Investment ehf., barst úrskurðarnefndinni 13. júlí s.á. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi á sama degi og það var gefið út og barst kæran því innan kærufrests. Verður mál þetta tekið til efnismeðferðar af framangreindum ástæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga kemur fram að einungis eigandi hafi rétt til umráða og hagnýtingar á séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem í lögunum greinir, öðrum lögum eða leiði af óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða byggi á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélags. Í 27. gr. laganna er kveðið á um takmörkun á rétti eiganda til breytingar á hagnýtingu séreignar. Fram kemur í 1. mgr. ákvæðisins að breyting á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ef breytt hagnýting sé ekki veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 heyrir umrætt svæði undir miðbæ Akureyrar. Í kafla skipulagsins er nefnist „Miðbærinn“ segir svo um stefnu um landnotkun að styrkja skuli stöðu miðbæjar Akureyrar sem hjarta bæjarlífsins og þungamiðju verslunar og þjónustu á Norðurlandi. Í miðbænum verði blönduð byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Þá kemur fram að húsnæði á efri hæðum í miðbænum, eftir því sem við getur átt, verði nýtt fyrir íbúðir eða skrifstofur og þjónustustarfsemi.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðbæ Akureyrar þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri miðbæjarstarfsemi. Rúmast heimiluð notkun séreignarhluta leyfishafa innan landnotkunar aðalskipulags fyrir umrætt svæði.

Í húsinu að Hafnarstræti 99-101 er rekin fjölþætt starfsemi eins og áður greinir og eru tveir inngangar í húsið, annar í sameign allra og hinn í sameign sumra, þ. á m. leyfishafa og kærenda. Hið kærða byggingarleyfi felur ekki í sér ákvörðun um hvernig aðgangi að séreignarhlutum leyfishafa skuli háttað. Um nýtingu sameignar er fjallað í 1. mgr. 34. gr. fjöleignahúsalaga og kemur þar fram sú meginregla að sameigendur eigi jafnan rétt til nýtingar hennar. Ekki verður séð að breytt hagnýting umræddra séreignarhluta hafi í för með breytingu á notkun sameignar leyfishafa í vil á kostnað annarra sameigenda eða af hljótist aukið ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur hússins.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærendur eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign hans skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og var honum því heimilt að breyta hagnýtingu umræddrar séreignar án samþykkis sameigenda, sbr. 2. mgr. nefndrar lagagreinar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið annmörkum sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja byggingarleyfi til þess að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

93/2017 Egilsgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 21. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 2. október 2017.

Málsatvik og rök: Með úrskurði í máli nr. 57/2013, uppkveðnum 24. september 2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6. Fól byggingarleyfið í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með bréfi, dags. 28. september 2015, sótti leyfishafi að nýju um framangreindar breytingar. Á fundi sveitarstjórnar 8. október s.á. var samþykkt að fram færi grenndarkynning vegna umsóknarinnar. Fór hún fram og á fundi sveitarstjórnar 9. júní 2016 voru lögð fram og samþykkt drög að svörum við athugasemdum sem bárust. Var skipulags- og byggingarfulltrúa jafnframt falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og var byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að bókanir nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar séu ekki í samræmi við kröfur 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eða leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarfélaga, sem settar séu með stoð í nefndu ákvæði. Í fundargerð umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 6. júní 2016 sé ekki skráð dagsetning máls eða gagna sem til umfjöllunar hafi verið. Þá vanti einnig upplýsingar um aðila máls og meginefni máls og hvaða atriði máls séu til umfjöllunar. Einnig séu gerðar aðrar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð sveitarfélagsins við samþykkt á umsókn um hið kærða byggingarleyfi.

Af hálfu Borgarbyggðar er tekið fram að sveitarfélagið mótmæli öllu því sem fram komi í kæru hvað varði það að málsmeðferð skipulags- og byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar eða sveitarstjórnar hafi verið ábótavant við meðferð umsóknar um og afgreiðslu á hinu kærða byggingarleyfi. Umsókn leyfishafa hafi fengið þá afgreiðslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem áskilin sé í skipulagslögum, mannvirkjalögum og skipulags- og byggingarreglugerðum. Þannig hafi umsókn verið grenndarkynnt, sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til þeirra atriða sem fram hafi komið í athugasemdum hagsmunaaðila og kæranda verið greint skriflega frá. Umsóknin hafi svo verið samþykkt af byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og sveitarstjórn.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt, hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. Eins og rakið var í málavöxtum þá voru á sveitarstjórnarfundi 9. júní 2016 samþykkt svör við þeim athugasemdum er bárust við grenndarkynningu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var umsóknin tekin fyrir og samþykkt. Var þá liðið rúmt ár frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Hefði því þurft að láta fara fram grenndarkynningu að nýju áður en byggingarleyfi var samþykkt og gefið út.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

110/2017 Hverfisgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á hagnýtingu sameignar fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hverfisgötu 98 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á sameign fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. október 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 29. ágúst 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir innréttingu kaffihúss í flokki I á jarðhæð fjöleignarhússins Hverfisgötu 98. Í verklýsingu á samþykktum teikningum kom m.a. fram að „Loftræsting frá matseld er leyst í gegnum aðliggjandi skorstein, lögn frá rými tengd við skorstein, í lögn verður komið fyrir brunaloku þar sem lögn tengist skorstein til að viðhalda brunaskilum. Komið verður fyrir útsogsblásara ofan á skorstein sem dregur loft frá rými“.

Kærandi bendir á að í verklýsingu samþykktri af byggingarfulltrúa komi fram að framkvæmdaraðili hafi í hyggju að sölsa undir sig skorstein hússins til lagningar loftræsistokks og að staðsetja eigi útsogsblásara ofan á skorsteininum. Með þessum framkvæmdum sé gengið freklega á hagsmuni annarra eigenda hússins auk þess sem óvíst sé með hljóðvist og lyktarmengun sem kunni að stafa frá blásara í þaki. Ekki hafi verið leitað samþykkis sameigenda fyrir þessum framkvæmdum líkt og gerð sé krafa um í 35. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús auk c- og d-liðar gr. 2.4.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá skorið úr kærumálinu. Breyting hafi verið gerð á áður samþykktu byggingarleyfi á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Með þeirri breytingu hafi loftræsing fyrir kaffihúsið verið tekin úr sameign og engar framkvæmdir því fyrirhugaðar lengur á sameign fjöleignarhússins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð breyting á nýtingu skorsteins fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98 sem er í sameign eigenda hússins. Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var umsókn um breytingu á byggingarleyfinu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Fólst breytingin í því að fallið var frá loftræsingu um skorstein hússins og hvorki yrðu gerðar breytingar á ytra útliti hússins né sameign.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Með samþykkt hins nýja byggingarleyfis hinn 10. október 2017 féll hin kærða ákvörðun úr gildi og hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur því enga þýðingu að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kæranda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2018 Drápuhlíð

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 13. febrúar 2020, sjá hér.

Árið 2018, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Drápuhlíð 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2018, er barst nefndinni s.d., kærir eigandi, Drápuhlíð 36, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 að veita leyfi fyrir byggingu bílskúrs á nefndri lóð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. og 28. ágúst 2018.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 23. maí 2017 var tekin fyrir umsókn eiganda íbúðar að Drápuhlíð 36, dags. 9. s.m., um leyfi fyrir byggingu bílskúrs á þeirri lóð. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 26. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda. Skipulags- og umhverfisráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 6. september 2017 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 1. s.m., þar sem lagt var til að lengd fyrirhugaðs bílskúrs yrði færð niður í 7,5 m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. júlí 2018 var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 23. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að fyrirliggjandi eignaskiptasamningur um fjöleignarhúsið að Drápuhlíð 36 sé ekki nægjanlegur grundvöllur samþykkis fyrir byggingu bílskúrs. Þar sé einungis mælt fyrir um hvaða íbúð fylgi réttur til að sækja um byggingarleyfi. Reykjavíkurborg hafi ekki skoðað málið nægjanlega vel. Bygging bílskúrsins muni leiða til þess að verðgildi íbúðar kæranda á jarðhæð nefndrar fasteignar rýrni verulega. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn rísi við hlið glugga á austurhlið íbúðar kæranda, er muni leiða til þess að ekkert sólarljós komist inn um gluggann. Þá brjóti bygging bílskúrsins gegn ákvæðum e-liðar 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, 2. tl. 2. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og h-liðar 1. mgr. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi aðgengi fyrir alla. Breidd gönguleiðar milli bílskúrs og hússins út í garð uppfylli ekki lágmarkskröfur, en breiddin sé aðeins 85-100 cm. Auk þess komi þessi litla breidd hvergi fram í gögnum málsins. Jafnframt muni umgangur til og frá garði meðfram glugganum á íbúð kæranda valda íbúum þar gríðarlegu ónæði. Hafa verði í huga að fasteignin að Drápuhlíð 36 sé um margt frábrugðin almennri húsagerð á svæðinu. Almennt séu ekki stórir og mikilvægir gluggar á veggjum er snúi að innkeyrslum eða bílskúrum og í þeim tilvikum sem gluggar snúi að bílskúr sé bílskúrinn staðsettur fyrir aftan glugganna. Þá hafi sá bílskúr sem til standi að byggja verið hækkaður og lengdur frá upprunalegum teikningum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram varðandi fjarlægð bílskúrs frá húsi að 1,0 m sé á milli útveggjar íbúðarhússins og veggjar bílskúrsins. Reglur um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla, gildi ekki um húsnæðið, sbr. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um valkvætt ákvæði sé að ræða sem ekki hafi verið gerð krafa um að farið væri að við afgreiðslu erindisins.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi vísar til þess að málsmeðferð umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr hafi verið lögum samkvæmt. Gert hafi verið ráð fyrir bílskúr við austurhlið hússins að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess árið 1946 og í aðalskipulagi. Ekki hafi þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir byggingu skúrsins þar sem gert sé ráð fyrir honum á samþykktum teikningum, sbr. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Auk þess sé byggingarréttur eiganda 1. hæðar tryggður með þinglýstum eignaskiptasamningi. Almennt séu bílskúrar í Hlíðunum 8,0 m á lengd eða lengri, en heimiluð lengd umrædds bílskúrs hafi verið minnkuð eftir athugasemdir frá kæranda. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði í 1,0 m fjarlægð frá húsi en helmingur hans sé þó lengra frá, þ.e. í 1,25 m fjarlægð, vegna innskots þar sem gluggi í kjallaraíbúð sé staðsettur. Fjarlægðin á milli fari þó niður í 90 cm meðfram skorsteininum, sem sé nægjanlegt fyrir hvers konar aðgengi. Aðalinngangar allra íbúða hússins séu að framanverðu og gengt sé út í garðinn frá bæði kjallara og íbúð á 1. hæð. Þá hafi íbúð kæranda í kjallara tekið miklum breytingum frá upprunalegu skipulagi, er hafi áhrif á birtu í íbúðinni. Allir eigendur íbúða í Drápuhlíð 36 hafi vitað frá upphafi að bílskúrsréttur væri til staðar og að hann fylgdi íbúð á 1. hæð. Kærandi hafi samþykkt þinglýstan eignaskiptasamning frá 2001, þar sem skýrt komi fram á teikningu og í texta að bílskúrsréttur sé á austurhlið og fylgi 1. hæð. Það hefði því ekki átt að koma kæranda á óvart að 17 árum síðar rísi bílskúr á lóðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Drápuhlíð 36, að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Vegna framkominna athugasemda var sú breyting gerð á hinni grenndarkynntu umsókn að langhlið bílskúrsins var stytt úr 8 m í 7,5 m. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dagsettu 16. júlí 2018.

Á samþykktum teikningum að húsinu að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess á árinu 1946 er gert ráð fyrir bílskúr við austurmörk lóðarinnar. Jafnframt er kveðið á um það í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignarinnar að bílskúrsrétturinn tilheyri íbúð 1. hæðar. Af þeim sökum mátti kærandi eiga von á því að bílskúr yrði byggður á umræddum stað á lóðinni. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þurfti því ekki samþykki sameigenda til að byggja bílskúrinn. Fjarlægð milli bílskúrs og húshliðar kemur fram á teikningunum frá 1946 og á teikningunum í eignaskiptayfirlýsingunni, sem kærandi undirritaði og er bundinn af. Þrátt fyrir að fyrirhugaður bílskúr sé 2,95 m á hæð, þ.e. 45 cm hærri en sá bílskúr sem upphaflega var gert ráð fyrir á teikningum, verður ekki talið að sú breyting hafi teljandi áhrif á hagsmuni kæranda. Þá ber að hafa í huga að gerð hefur verið breyting á skipulagi íbúðar í kjallara frá síðustu samþykktum teikningum frá árinu 1989, en þar er gert ráð fyrir að um sé að ræða herbergisglugga en ekki stofuglugga á austurhlið íbúðarinnar.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram í 4. mgr. gr. 6.1.1. að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar. Þá er í gr. 6.1.3. tiltekið hvaða byggingar skuli hanna og byggðar á grundvelli algildrar hönnunar og fellur íbúðarhús eins og hér um ræðir ekki þar undir. Verður því að fallast á það með Reykjavíkurborg að henni hafi ekki verið skylt að krefjast þess við veitingu byggingarleyfisins að farið yrði að ákvæðum reglugerðarinnar um algilda hönnun við staðsetningu umrædds bílskúrs. Verður í því sambandi og að líta til þess að um er að ræða hús sem byggt var á fimmta áratug síðustu aldar og þá þegar var gert ráð fyrir bílskúrnum á lóðinni, auk þess sem ákvæði h-liðar gr. 6.2.3. á einungis við um gönguleið að byggingu en ekki að garði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu bílskúrs á lóð nr. 36 við Drápuhlíð.

69/2017 Refasteinsstaðir ll

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Mói ehf., eigandi jarðanna Refsteinsstaða I og Laufáss, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnaþingi vestra 28. júlí 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Húnaþings vestra 4. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um stofnun 0,5 ha lóðar úr landi Refsteinsstaða II sem nefnd var Þúfa og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggðaráðs 8. s.m. Hinn 3. október 2016 var sótt um byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina 31. s.m. Takmarkað byggingarleyfi fyrir grunni og gólfplötu var gefið út hinn 24. nóvember 2016.

Eftir ítrekaðar athugasemdir kæranda við áform um byggingu veiðihúss á lóðinni Þúfu samþykkti skipulags- og umhverfisráð á fundi sínum 6. apríl 2017 að umsókn um byggingarleyfi fyrir veiðihúsinu yrði grenndarkynnt fyrir eigendum jarðanna Refsteinsstaða I, Laufáss og Enniskots og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 11. apríl 2017. Umsóknin var kynnt með ódagsettu bréfi þar sem fram kom að kynning stæði frá 11. apríl 2017 með fresti til athugasemda til 11. maí s.á. Athugasemdir bárust frá kæranda á kynningartíma umsóknarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 22. maí 2017. Féllst ráðið ekki á fram komin sjónarmið í athugasemdum kæranda og lagði til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslur um útskiptingu lands og stofnun byggingarreits ásamt útgáfu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á byggingarreitnum. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. maí 2017 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. s.m. Lagfærðar aðalteikningar að veiðihúsinu voru síðan samþykktar 30. maí 2017 og byggingarleyfi gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að grenndarkynning sé ekki tæk og að staðsetning veiðihússins fari gegn hagsmunum hans.

Veiðihúsið sé staðsett á víðavangi um 2 km frá silungasvæði Víðidalsár. Sú staðsetning fari gegn ákvæði 3.2.1 greinargerðar aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem segi að forðast skuli stök hús á víðavangi. Veiðihúsið sé aðeins nokkra tugi metra frá landamerkjum Refsteinsstaða I og því sé staðsetningin andstæð grenndarhagsmunum kæranda sem eiganda þeirrar jarðar. Veiðihúsinu muni fylgja truflandi og dagleg umferð í 4-5 mánuði ársins. Grenndarkynning sú sem farið hafi verið í hafi ekki verið tæk, þar sem staðsetning veiðihússins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Í því tilviki verði að gera deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísar kærandi til umfjöllunar í bókinni „Inngangur að skipulagsrétti“ um framkvæmda- og byggingarleyfi þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir. Þar segi að ef greind skilyrði í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga séu ekki uppfyllt, þ.e. ef framkvæmd er ekki í samræmi við aðalskipulag, sé ekki mögulegt að beita ákvæðum um grenndarkynningu framangreindra leyfa og beri þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga og fylgja viðkomandi málsmeðferðarreglum áður en leyfi séu gefin út.

Í greinargerð aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem fjallað sé um byggingar á landbúnaðarsvæðum, segi meðal annars svo: „Heimilt er að afmarka lóðir og reisa allt að þrjú íbúðarhús þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum stærri en 70 ha auk þeirra húsa sem tilheyra búrekstrinum. Ný íbúðarhús skulu nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnu samhengi við aðra byggð. Markmiðið er að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg, að þjónusta við ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar er veitt og að nýjum húsum verði komið fyrir í samræmi við byggingarhefðir og yfirbragð sveitarinnar. Forðast skal stök hús á víðavangi. Heimilt er að byggja allt að 3 stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.“ Samkvæmt framangreindu sé bygging veiðihússins á lóðinni Þúfu óheimil nema að undangengnu að minnsta kosti deiliskipulagi, enda samrýmist veiðihústillagan illa ákvæðum aðalskipulagsins um byggingu frístundahúsa.

Óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar, þ.e. til að gera grunn, sökkul og gólfplötu, áður en deiliskipulag yrði gert og áður en framkvæmd hafi verið ótæk grenndarkynning. Það sé meginregla að byggingarleyfi fyrir framkvæmd beri að gefa út í heild þegar öll skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu uppfyllt. Frá þessari meginreglu sé takmörkuð undantekningarregla í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar sé kveðið á um að leyfisveitandi geti, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda. Í athugasemdum við tilvitnað ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum um mannvirki sé þetta útskýrt svo: „Standi sérstaklega á, t.d. þegar hönnun mannvirkis er sérstaklega umfangsmikil og séruppdrættir margir, er unnt að nýta heimild 2. mgr. og veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.“ Um sé að ræða undantekningarákvæði sem ekki verði beitt frjálslega og gera verði þá kröfu að beiting þess sé rökstudd hverju sinni. Enn fremur sé kveðið á um í 2.4.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að leyfisveitanda sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta framkvæmdar „þegar um er að ræða mjög stóra, mjög sérhæfða eða flókna byggingarframkvæmd þar sem með rökum má sýna fram á að þróunarvinna þurfi að fara fram samhliða hönnun og byggingu mannvirkis […].“ Sérstaklega sé áréttað í 2. mgr. 2.4.6. gr. að einungis „í undantekningartilvikum og þegar sérstaklega stendur á“ sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra verkþátta byggingarframkvæmda sem ekki falli undir 2.4.5. gr.

Ekki verði séð að nein rök hafi verið færð fyrir því að greind undantekningarákvæði eigi við í máli þessu. Líta verði til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi tekið til framkvæmdarinnar í heild og ekki hafi verið farið fram á að veitt yrði takmarkað byggingarleyfi til að gera grunn, sökkul og gólfplötu eða neinn rökstuðningur færður fyrir beiðni í þá átt. Hafi því engar forsendur verið til að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar. Sé útgáfa byggingarleyfisins því þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Málsrök Húnaþings vestra: Sveitarfélagið telur að grenndaráhrif lóðarinnar og veiðihússins, þ.m.t. umferð vegna þess, sé ekki meiri en íbúar og eigendur jarða og fasteigna í nágrenninu verði að þola vegna starfsemi á jörðunum og búrekstrar. Húsið standi alveg við núverandi veg og skapi ekki neikvæð áhrif umfram sambærilega starfsemi sem gera megi ráð fyrir á svæðinu samkvæmt ákvæðum aðalskipulags. Sérstakt ónæði sé ekki af starfsemi í húsinu eða vegna umferðar er henni tengist. Húsið og lóðin sé ekki í námunda við hús eða mannvirki á jörðum kæranda og valdi því ekki neikvæðum grenndaráhrifum. Sveitarfélagið bendi jafnframt á að umrædd lóð og hús og jarðir kæranda séu skammt frá þjóðvegi nr. 1. Umferð vegna veiðihússins og mögulegt ónæði sé því óverulegt með tilliti til umferðar um þjóðveginn.

Því sé mótmælt að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umrædda umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem umsóknin sé í andstöðu við aðalskipulag. Vísað sé í því sambandi til umfjöllunar um byggingar á landbúnaðarsvæðum í kafla 3.2.1 í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins og um ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum í sama kafla. Þar segi að heimilt verði, þar sem aðstæður leyfi á hverju lögbýli, að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Leyfið sé því ekki í andstöðu við ákvæði aðalskipulagsins. Húsið nýti sömu heimreið og fyrir sé og virðist a.m.k. hvað það varði í tengslum og samhengi við aðra byggð. Staðsetning þess samræmist þeim markmiðum sem búi að baki þessum ákvæðum, þ.e. að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg og að ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar sé veitt.

Umfjöllun í greinargerð aðalskipulagsins um að forðast skuli stök hús á víðvangi eigi eingöngu við um íbúðarhús en ekki önnur hús, enda sé umfjöllunin í beinu framhaldi af umfjöllun um íbúðarhús á bújörðum. Takmörkun aðalskipulagsins gildi eingöngu um íbúðarhús en ekki sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu. Ástæða þess sé sú að ekki standi sömu rök eða forsendur til þess að slík hús standi nálægt íbúðarhúsnæði á jörðum. Heppilegra sé að þau geri það ekki, enda hagsmunir og eðli slíkrar landnotkunar annað en íbúðarhúsa. Eðlilegra sé að staðsetja slík hús, þ.e. sumarhús og veiðihús, sem séu í raun ferðaþjónustu- og samkomuhús, fjarri íbúðar- og bæjarhúsum. Sé það í samræmi við hefð í sveitarfélaginu og raunar á landinu öllu. Veiðihús séu því almennt ekki staðsett nálægt bæjarhúsum.

Kærufrestur vegna hins takmarkaða byggingarleyfis, sem gefið hafi verið út 24. nóvember 2016, sé löngu liðinn. Það leyfi hafi ekki verið kært og geti því ekki verið til umfjöllunar í máli þessu. Auk þess lúti takmörkun á heimild til útgáfu leyfis til hluta framkvæmda að því að tryggja að hönnunargögn liggi almennt fyrir og að lokið hafi verið við hönnun í meginatriðum áður en leyfi hafi verið veitt til framkvæmda. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi hönnunargögn legið í meginatriðum fyrir þegar leyfið hafi verið gefið út. Leyfinu hafi því ekki verið skipt upp af þeirri ástæðu að hönnunargögn hafi vantað heldur hafi því verið skipt upp þar sem framkvæmdinni var skipt í tvennt. Nýta hafi átt hagstæð veðurskilyrði haustið og veturinn 2016 til að ljúka framkvæmdum við gerð sökkuls og plötu. Húsið, sem að öðru leyti sé byggt úr timbureiningum, hafi svo átt að rísa síðar, þ.e. í lok vetrar, enda hafi smíði við einingarnar ekki verið lokið á þeim tíma. Hafi því efnisrök búið að baki útgáfu leyfisins. Þá verði ekki séð hvaða áhrif uppskipting leyfisins geti haft á lögmæta hagsmuni kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Sú lóð er á ódeiliskipulögðu svæði. Um það er deilt hvort heimiluð framkvæmd sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hvort heimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Fyrirhuguð bygging var ekki grenndarkynnt fyrir upphaflega samþykkt byggingaráform en málið var endurupptekið og úr því var bætt. Tók grenndarkynningin m.a. til kæranda sem kom á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. maí 2017. Umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddu veiðihúsi var síðan samþykkt 30. maí 2017.

Í kafla 3.2.1 í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 er fjallað um stefnumörkun á landbúnaðarsvæðum. Þar kemur m.a. fram að á landbúnaðarsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri. Ný íbúðarhús skuli nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnum tengslum og samhengi við aðra byggð. Forðast skuli stök hús á víðavangi. Heimilt sé að byggja allt að þrjú stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Þá sé heimilt að veita almenna ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum og þar sem aðstæður leyfi að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu á lögbýlum, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Veiðiréttindi fylgja bújörðum sem eiga land að veiðivötnum og ám og hefur nýting slíkra hlunninda verið talin starfsemi sem tengist búrekstri þeirra jarða. Bygging og rekstur veiðihúss er því í samræmi við fyrrgreindra stefnumörkun í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 og skilgreiningu landbúnaðarsvæða í q. lið 6.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Umdeilt veiðihús er einnar hæðar og tæpir 106 m2 að stærð og mun einungis vera í notkun hluta úr ári og er samkvæmt framansögðu í samræmi við heimildir aðalskipulags varðandi landnotkun. Um er að ræða staka framkvæmd innan lögbýlis sem ekki hefur í för með sér breyttar vegtengingar. Eins og atvikum er háttað var heimilt að samþykkja hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þótt veiðihúsið hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem vegna umferðar, verða þau áhrif talin óveruleg og geta ekki haft áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

16/2017 Bárugata

Með

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 1. febrúar 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Bárugötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. janúar 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á suðausturhlið einbýlishúss á lóð nr. 23 við Bárugötu, sem er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi 1. febrúar 2013 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í nágrenninu. Tillagan var kynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Tveir kærenda fengu slíka kynningu en þriðji kærandinn var ekki fluttur í húsið á þeim tíma.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á að ekki væri ljóst hver fjarlægð milli húsanna nr. 21 og 23 við Bárugötu yrði eftir breytinguna og tekið fram að gæta þyrfti þess að viðbyggingin myndi ekki varpa skugga á glugga á suðvesturhlið og inngang íbúðar að Bárugötu 21. Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdina kom fram að fjarlægðin frá ystu brún viðbyggingar hússins nr. 23 að Bárugötu að stigahúsi hússins nr. 21 yrðu 3 m. Skuggavarp myndi aukast lítilsháttar á ákveðnum tímum, en fljótlega myndi skuggi núverandi húss hafa áhrif á skuggamyndunina og því hefði viðbyggingin óveruleg áhrif á hús nr. 21. Lagði skipulagsfulltrúi því til að erindið yrði samþykkt óbreytt og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs sem gerði ekki athugasemdir við þá afgreiðslu með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 7. maí 2013. Var málinu vísað til byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingarleyfisumsóknina á afgreiðslufundi sínum 16. júlí 2013.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun umrædds byggingarleyfis. Hún var samþykkt og tekið fram að erindið hefði verið grenndarkynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 13. ágúst 2015. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 12. maí 2017.

Málsrök kærenda:
Kærendur vísa til þess að hús þeirra, sem sé nr. 21 við Bárugötu, liggi nærri mörkun lóðarinnar við lóð nr. 23. Bæði breidd og hæð viðbyggingarinnar sé úr hófi og ekki í samræmi við götumynd svæðisins. Áætluð hæð viðbyggingarinnar sé 5 m og bil milli hennar og húss kærenda muni ekki ná 3 m. Viðbyggingin hafi veruleg áhrif á ásýnd húss þeirra og aðgengi að garði, ruslatunnum og íbúð í kjallara ásamt því að skuggavarp muni aukast.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þegar kæran barst nefndinni 2. febrúar 2017. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 14. júlí 2015, en í kæru séu ekki færð rök fyrir því hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé bent á að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera stjórnsýslukæru fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun og ákvæði 28. gr. laganna taki af allan vafa um að vísa beri kærunni frá en þar komi fram að óheimilt sé að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tekin.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur undir kröfur Reykjavíkurborgar um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem allir lögboðnir og mögulegir kærufrestir hafi verið löngu liðnir þegar kæra barst.

Framkvæmdum sé löngu lokið og grenndarkynning hafi farið fram þar sem nágrönnum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og komu athugasemdir þeirra til skoðunar. Tveir kærenda hafi samþykkt byggingaráformin og því samrýmist kæran ekki fyrri afstöðu þeirra, en engin ný gögn eða sjónarmið varðandi framkvæmdina hafi komið fram.

Niðurstaða: Í málinu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um að samþykkja viðbyggingu á suðausturhlið húss nr. 23 við Bárugötu.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um tilvist byggingarleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis ef fyrirhuguð framkvæmd samræmist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Tekið er fram í 4. mgr. fyrrgreinds ákvæðis að hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. skuli grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi sé gefið út.

Byggingarfulltrúi samþykkti hin kærðu byggingaráform 16. júlí 2013 að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsráðs og samþykkti byggingaráformin að nýju 14. júlí 2015. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 13. ágúst s.á. en byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni var ekki gefið út af byggingarfulltrúa fyrr en 12. maí 2017, eða eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Ljóst er að meira en ár leið frá því að borgarráð samþykki leyfið þar til það var gefið út. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var gefið út en það var ekki gert. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um endurnýjun samþykkis byggingaráformanna, sem átti sér stað tveimur dögum áður en fyrri ákvörðun hefði fallið niður skv. 4. mgr. 2.4.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eða að þeim hafi verið leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna hennar í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Máttu kærendur því vænta þess að samþykki byggingaráformanna væru brott fallin eða að grenndarkynning vegna umræddrar viðbyggingar yrði endurtekin áður en byggingarleyfi yrði gefið út. Verður samkvæmt framansögðu ekki fullyrt að kærendur hefðu mátt vita af hinni kærðu ákvörðun fyrr en í aðdraganda þess að málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Verður við það að miða að kæran hafi í öllu falli borist innan 12 mánaða frá vitneskju kærenda um hina kærðu ákvörðun og verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi mögulega borist eftir lok kærufrests.

Skráð byggingarár hússins samkvæmt Þjóðskrá Íslands er 1922. Fram kemur í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að eigendum húsa sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr sé skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að byggingarfulltrúum beri að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja leiti eftir áliti Minjastofnunar áður en leyfi sé veitt til framkvæmda. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að álit Minjastofnunar Íslands skuli liggja fyrir áður en leyfi sé veitt til þeirra framkvæmda sem fjallað sé um í greininni og ber í byggingarleyfinu að taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Af framangreindu er ljóst að leyfishafa bar að leita álits Minjastofnunar Íslands áður en hann sótti um leyfi hjá byggingaryfirvöldum. Ekki verður séð að það hafi verið gert og var því byggingarfulltrúa óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi án þess að álit stofnunarinnar lægi fyrir.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður hin kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins Bárugötu 23 er felld úr gildi.

76/2017 Unnarbraut

Með

Árið 2018, föstudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekin endurupptaka máls nr. 76/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, fóru kærendur í máli 76/2017 fram á endurupptöku málsins, en úrskurður í því var kveðinn upp 28. september s.á.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32 ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi og breyttri notkun kjallarans í geymslurými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 2. ágúst s.á., er barst nefndinni 3. s.m. sendu Anton Holt og Gillian Holt, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, erindi til úrskurðarnefndarinnar sem líta verður á sem staðfestingu þeirra á að þau standi einnig að kærunni.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. júlí og 1. september 2017.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eiganda neðri hæðar hússins sem beindi fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingarnar væru fólgnar, en samþykki meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými hússins. Var ástæðan sögð sú að fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera þyrfti og bæta áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda, en án árangurs.

Fóru aðrir sameigendur í húsinu þá fram á það við byggingarfulltrúa að hlutast yrði til um að kjallaranum yrði komið í upprunalegt horf. Með bréfi, dags. 1. júlí 2016, kærðu sameigendurnir drátt á afgreiðslu þess erindis til úrskurðarnefndarinnar. Var kveðinn upp úrskurður 2. september s.á. í kærumáli nr. 76/2016 þar sem lagt var fyrir byggingarfulltrúa að taka það erindi til efnislegrar afgreiðslu.

Hinn 4. maí 2017 sótti eigandi neðri hæðar og kjallara Unnarbrautar 32 um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum, þ.e. hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara, og að óráðstafað rými í kjallara yrði samþykkt sem geymsla. Einnig var sótt um leyfi til að leggja drenlagnir undir kjallaragólf með sjálfrennsli út í götulögn. Leyfi var gefið út 3. júlí s.á. og var það kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir. Úrskurður var kveðinn upp 28. september 2017 og var byggingarleyfið fellt úr gildi að hluta með svohljóðandi úrskurðarorði: „Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga.“

Með bréfi, dags. 28. desember 2017, fóru kærendur fram á endurupptöku málsins, þar sem láðst hefði að láta fylgja með gögnum málsins minnisblað unnið af tæknifræðingi að beiðni kærenda sem varðaði framkvæmdir í kjallara hússins og regnvatnslagnir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að yfirvofandi framkvæmdir muni leiða til verulegs ónæðis og rasks á lóðinni. Ljóst sé að lóðin verði ekki söm í mörg ár, verði af framkvæmdunum. Lóðin sé í sameign og önnur jafn góð lausn sé til staðar, þ.e. að útbúa dælubrunn innan umrædds rýmis. Augljóst sé að ekki megi gefa út byggingarleyfi vegna framkvæmda á lóð í sameign sé önnur lausn tæk. Byggingarleyfið sé ógilt þar sem það sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, en ekki sé gert ráð fyrir kjallaranum í skipulaginu.

Byggingarleyfið geri ráð fyrir aukinni salarhæð frá því sem verið hafi fyrir óleyfisframkvæmdirnar. Standist byggingarleyfið sé ljóst að leyfishafi hagnist á kostnað kærenda en fyrir liggi að byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt framkvæmdirnar án samþykkis þeirra. Byggingarleyfið verði að mæla fyrir um sömu salarhæð og fyrir hafi verið áður en óleyfisframkvæmdir hafi hafist. Þá mæli teikningar hússins frá 1979 ekki fyrir um salarhæð umrædds rýmis. Salarhæðin 2,4 m, sem sé reyndar hvergi í kjallaranum, eigi einungis við um samþykkt rými í sameign og geymslur. Umrætt rými hafi aldrei verið ætlað til notkunar og því hafi engin salarhæð verið teiknuð fyrir þann hluta. Upphaflega hafi teikningin gert ráð fyrir því að rýmið yrði fyllt með möl en engu að síður sé salarhæðin 2,4 m. Þannig sé ljóst að sú hæð eigi ekki við um umrætt rými. Við byggingu hússins hafi verið ákveðið að spara möl og setja frekar súlur í rýmið, en aldrei hafi staðið til að það yrði tekið í notkun. Jafnvel þótt upphafleg teikning hafi gert ráð fyrir salarhæðinni 2,4 m sé ljóst að það náðist aldrei. Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga hafi því borið að skila inn reyndarteikningum og hefði byggingarfulltrúi átt að kalla eftir þeim við lokaúttekt hússins. Þar hefði komið fram salarhæð í samræmi við það sem áður hafi verið fyrir óleyfisframkvæmdir.

Þá bendi kærendur á að svo virðist sem leyfilegt byggingarmagn fyrir Unnarbraut 32 árið 1979 hafi ekki gert ráð fyrir kjallara í rýminu. Þá sé nýtingarréttur lóðarinnar í sameign allra og því ekki rétt að eigandi fyrstu hæðar nýti þann rétt umfram aðra sameigendur.

Loks sé vakin athygli á því að súlur í kjallararýminu hafi verið mjókkaðar og átt við burðarvirki í kjallara. Engir útreikningar á burðarþoli liggi fyrir þótt byggingarfulltrúi hafi réttilega gert það að skilyrði í tillögu sinni að verkáætlun. Þá sé gerð athugasemd við staðsetningu glugga í kjallararými á teikningu.

Í beiðni um endurupptöku er vísað til þess að kærendur hefðu gleymt því að senda mikilvæg gögn í málinu til úrskurðarnefndarinnar, m.a. skýrslu sem unnin hafi verið á vegum kærenda. Eigi sú skýrsla að sýna fram á að heimilaðar framkvæmdir vegna drenlagna séu óþarfar.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að á grundvelli þeirra samskipta sem hafi átt sér stað og teikninga á vegum eiganda neðri hæðar hafi byggingarfulltrúi ákveðið að veita byggingarleyfi, enda hafi þær teikningar sýnt lausnir á öllum þeim skemmdum sem byggingin hafi orðið fyrir. Hvað varði plötuhæð kjallaragólfs beri leyfishafa að halda sig við samþykktar teikningar frá byggingu hússins árið 1979. Á þeim teikningum sé hæð gólfplötu í kjallara 2,4 m frá brún efri plötu í húsinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gögn kærenda breyti engu í málinu og sjái það ekki ástæðu til að tjá sig frekar um endurupptökubeiðni þeirra.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur fram að hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 3. júlí 2017 í samræmi við framlögð hönnunargögn og erindi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Meðal annars hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þegar gerðum framkvæmdum, hringstiga milli fyrstu hæðar og kjallara og að óútgrafið rými í kjallara yrði samþykkt. Eins og í leyfinu komi fram, sé gert ráð fyrir að rýmið verði nýtt sem geymsla og verði engar aðrar breytingar gerðar á núverandi útliti hússins eða innra skipulagi. Til að fyrirbyggja raka við gólf í kjallara hafi verið gert ráð fyrir að undir gólfplötu yrði þjöppuð möl og rakavarnarlag og þétt við útveggi. Drenlögn með drenmöl yrði lögð undir endanlegt gólf með sjálfrennsli út í götulögn. Framangreindar framkvæmdir hafi ekki í för með sér breytingar á fyrirkomulagi séreignar annarra eigenda sameignar eða breytingar á hlutfallstölum og því sé ekki þörf á breytingu á eignaskiptayfirlýsingu í kjölfarið. Um nauðsynlegar framkvæmdir sé að ræða í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og muni þær í engu raska hagsmunum annarra eigenda, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 27. gr. laganna, en fasteignin hafi undanfarið legið undir skemmdum.

Það sé áréttað að í upphafi hafi verið ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við fasteignina vegna rakaskemmda. Hugleiðingum kærenda um að rakaskemmdirnar séu afleiðing af framkvæmdunum sé með öllu hafnað. Á þeim tíma er framkvæmdir hafi byrjað hafi leyfishafi talið að um þær ríkti góð sátt við aðra eigendur fasteignarinnar. Það sé samdóma álit sérfræðinga og byggingarfulltrúa að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir dælubrunni fyrir utan húsið sem tengist inn á lögn í götunni, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um fjöleignarhús. Það sé einnig samdóma álit þeirra sem komið hafi að máli þessu að þær framkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með byggingarleyfi, dags. 3. júlí 2017, séu til hagsbóta fyrir alla aðila og farsæl lausn á ágreiningi þeirra.

Endurupptökubeiðni kærenda sé vanreifuð og beri af þeim sökum að vísa henni frá á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í nefndu ákvæði sé mælt fyrir um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt aðilum eigi aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Til að stjórnvald geti tekið efnislega afstöðu til þess hvort að áskilnaði 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt þurfi að rökstyðja sérstaklega í endurupptökubeiðni hvaða upplýsingar um málsatvik hafi reynst ófullnægjandi, sbr. 1. tl. 24. gr. laganna, eða hvaða atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Enga umfjöllun sé að finna í endurupptökubeiðni um þessi atriði. Þar komi einungis fram til rökstuðnings því að fallast beri á endurupptökubeiðnina að kærendur hafi gleymt því að afhenda skýrslu sérfræðings á þeirra vegum. Samkvæmt framansögðu takmarkast endurupptökubeiðni sóknaraðila einungis við það að gleymst hafi að senda gögn til nefndarinnar á sínum tíma. Þannig sé ekki á því byggt að upplýsingar um málsatvik hafi reynst ófullnægjandi, sbr. 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga eða að málsatvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 2. tl. 24. gr. Þá byggi leyfishafi á því að mistök sóknaraðila leiði ekki ein og sér til þess að fallast beri á endurupptökubeiðni þeirra á grundvelli nefndrar lagagreinar.

Niðurstaða: Kærendur hafa farið fram á endurupptöku málsins og í ljósi rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu úrskurðarnefndarinnar verður þeirri beiðni ekki vísað frá sökum vanreifunar. Við nánari athugun úrskurðarnefndarinnar á gögnum málsins kom í ljós að niðurstaða nefndarinnar í úrskurði hennar var ekki í fullu samræmi við þau gögn hvað varðaði glugga á kjallara Unnarbrautar 32. Í ljósi þessa fellst úrskurðarnefndin á beiðni kærenda um endurupptöku.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 3. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum við Unnarbraut 32, ásamt drenlögnum undir kjallaragólfi með sjálfrennsli út í götulögn og breyttri notkun kjallarans í geymslurými, en hann var áður skráður sem óráðstafað rými.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu nauðsynleg gögn fylgja umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Í máli þessu, sem á sér nokkurra ára forsögu, liggur fyrir að sameigendur í húsinu hafa ekki getað komið sér saman um umræddar framkvæmdir og lá slíkt samþykki því ekki fyrir. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kemur fram að eiganda sé rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að áður en framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana.

Í greinargerð skoðunarmanns sem unnin var vegna Unnarbrautar 32, dags. 20. mars 2016, kemur fram að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé ekki að finna teikningar sem sýni jarðvegslagnir í eða við húsið. Þá liggi fyrir að bleyta safnist fyrir í jarðvegi undir kjallararýminu, enda engin jarðvatnslögn þar til staðar. Sé það álit skoðunarmannsins að nauðsynlegt sé að koma fyrir jarðvatnslögnum í eða við húsið. Lagðar eru til tvær leiðir í greinargerðinni, annars vegar að leggja grunnlagnir meðfram húsinu að utanverðu eða hins vegar að leggja jarðvatnslagnir undir væntanlega botnplötu. Telji skoðunarmaðurinn augljóst að velja seinni kostinn. Með þeirri aðgerð ætti að vera hægt að tryggja að ekki fari vatn inn í kjallarann, en hin leiðin væri mun dýrari. Ef sú leið ætti að vera fær þyrfti að fara í umtalsverða jarðvinnu meðfram húsinu með tilheyrandi kostnaði. Kom einnig fram að gera ætti ráð fyrir dælubrunni utan við húsið, þ.e. í bílastæði að suðvestanverðu. Brunnur sem staðsettur væri þar hefði engin truflandi áhrif á íbúa hússins. Þá ætti að láta kanna hvort hægt sé að komast hjá því að vera með dælubrunn og tengja frárennsli regnvatns beint inn á lögnina í götunni. Í málinu liggur nú fyrir annað minnisblað tæknifræðings, dags. 15. desember 2016. Kemur þar fram að mat þess skoðunarmanns sé að hægt væri að koma fyrir dælubrunni undir botnplötu og leiða þrýstileiðslu í frárennsliskerfi hússins sem sé til staðar í kjallaranum. Taldi hann óþarft að setja dælubrunn utanhúss, þar sem um væri að ræða kjallara sem notaður væri sem geymslurými. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir drenlögnum með sjálfrennsli í götulögn en ekki dælubrunni. Með vísan til framangreinds verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að heimila hinar umdeildu framkvæmdir við drenlögn svo sem hann gerði.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Bakkahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarneskaupstaðar 10. nóvember 2010 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember s.á. Samkvæmt skipulagsuppdrætti og skilmálum deiliskipulagsins er umrætt hús að Unnarbraut 32 einnar hæðar með risi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er því ekki gert ráð fyrir að í húsinu sé kjallari þótt fyrir liggi að þar sé óuppfyllt rými ásamt geymslum sem á sínum tíma voru heimilaðar með veitingu byggingarleyfis 9. maí 1979. Í deiliskipulaginu er tekið fram að með því sé staðfest á formlegan hátt byggðamynstur hverfisins, þ.e. stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða. Einnig verði lóðarhöfum gefinn möguleiki á eðlilegri endurnýjun og endurbótum á byggingum í samræmi við heilsteypt yfirbragð hverfisins. Sérskilmálar eru tilgreindir um einstakar lóðir í þessum tilgangi, en Unnarbraut 32 er ekki þar á meðal. Sá hluti hins samþykkta byggingarleyfis er varðar breytta notkun kjallararýmis og þegar gerðan hringstiga er því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sama á við þann hluta leyfisins sem varðar glugga í kjallara hússins. Á aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis eru gluggarnir sýndir bæði fleiri og stærri en gert var ráð fyrir í upprunalegum aðaluppdráttum. Þá liggur fyrir að samþykki kærenda lá ekki fyrir vegna þeirrar breytingar.

Að fenginni þeirri niðurstöðu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga um samræmi við deiliskipulag. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir sá annmarki á hinu kærða byggingarleyfi þó eingöngu til ógildingar leyfisins að þeim hluta er varðar breytta notkun kjallararýmis, þegar gerðan hringstiga frá fyrstu hæð niður í kjallara hússins og þeirra glugga kjallararýmisins sem samræmast ekki upphaflegum byggingarleyfisteikningum þess.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 3. júlí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir Unnarbraut 32 að því er varðar breytta notkun kjallararýmis, þegar gerðan hringstiga ásamt breytingum og fjölgun á gluggum kjallararýmis.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                     Þorsteinn Þorsteinsson

 

22 og 85/2018 Kvosin – Landsímareitur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2018, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 13. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin, Kirkjusandi 5, 105 Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017, sem borgarstjórn samþykkti 5. desember s.á., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili „ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur 22. maí 2018 um byggingarleyfi […] til að byggja í Víkurkirkjugarði nýbyggingu með kjallara við Kirkjustræti“, sbr. umsókn nr. 53964. Verður kæran skilin á þann hátt að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2018 að samþykkja byggingarleyfi vegna endurbyggingar og nýbyggingar að Thorvaldsensstræti 2 og 4 og Aðalstræti 11. Er jafnframt krafist stöðvunar framkvæmda. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. apríl og 28. júní 2018.

Málavextir: Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 verði skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verði að fjarlægja viðbyggingu frá árinu 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana aftur í sömu mynd.“

Byggingarleyfi til niðurrifs friðlýsts samkomusalar á baklóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti og niðurrifs viðbyggingar við Landsímahúsið frá 1967 var gefið út 23. febrúar 2018. Hinn 15. maí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn nr. BN053964 um leyfi til að dýpka kjallara og endurbyggja Thorvaldsensstræti 2, lyfta þaki Thorvaldsensstrætis 4 og byggja á það Mansardþak með kvistum, byggja fjögurra hæða nýbyggingu, til að endurbyggja Aðalstræti 11 með breyttu þaki og til að innrétta í öllum húsunum 145 herbergja hótel í flokki IV með veitingahúsi, kaffihúsi, verslunum og samkomusal á lóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg. Hafi borgaryfirvöld m.a. ekki fylgt lögum. Sú stækkun og gerð kjallara undir nýbyggingu sem fyrirhuguð sé verði að verulegu leyti í austurhluta hins forna Víkurgarðs, en með framkvæmdinni verði gröfum og líkamsleifum raskað á óheimilan hátt. Trúarleg og söguleg þýðing garðsins sé mikil en hann teljist til fornminja og sé friðaður, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Skýra þurfi ákvæðið í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið sé að kærandi eigi beina og einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem um ræði. Tilgangur félagsins sé „að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna“. Félagið Kvosin hafi því hvorki beinna né einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í tengslum við þær ákvarðanir sem deilt sé um. Takmarkist kæruheimild félagsins því við undantekningarákvæði a-c liða 3. mgr. 4. gr. nefndra laga, en þau eigi ekki við um kæranda. Að auki hafi kærufrestur verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 13. febrúar 2018, en auglýsing um breytinguna hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Því hafi kæran borist degi of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um það að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni bæði hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi. Kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning ákvæðisins um aðild geti ekki átt við þar sem ákvarðanir þær sem hér um ræði varði ekki matsskylda framkvæmd eða framkvæmdir sem kynnu að vera matsskyldar og afstaða Skipulagsstofnunar liggi ekki fyrir, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 96/2006 og 20/2007 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 10/2017. Þá hafi kærandi ekki forræði á málefnum Víkurgarðs og geti því ekki reist aðild sína að kærumálinu á því að hann hafi opinbera eða einstaklega lögvarða hagsmuni að einkarétti.

Verði málinu ekki vísað frá krefst leyfishafi þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Varðandi kröfu Reykjavíkurborgar og leyfishafa um frávísun málsins vegna aðildarskorts bendir kærandi á að óumdeilt sé að það samræmist tilgangi félagsins Kvosarinnar að gæta þeirra hagsmuna sem kæra lúti að. Það sé grundvallarregla umhverfisréttar að veita umhverfissamtökum aðild að ágreiningsmálum um umhverfismál á stjórnsýslustigi.

Hugtakið lögvarðir hagsmunir í stjórnsýslurétti sé óljóst og vandmeðfarið. Verði að gæta þess sérstaklega að reglunni sé ekki beitt með þeim hætti að það auðveldi stjórnvöldum að fara sínu fram að geðþótta án þess að fara að lögum heldur láta annarlega hagsmuni ráða för. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virðist beinlínis gera ráð fyrir að umhverfissamtök hafi lögvarða hagsmuni falli mál að tilgangi samtakanna án þess að meira þurfi að koma til, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Augljóst sé að ekki sé átt við samskonar skilyrði og talin séu gilda í einkamálaréttarfari þar sem krafa sé gerð um einstaklingsbundna hagsmuni, enda eigi umhverfissamtök að jafnaði ekki slíka hagsmuni.

Með aðild umhverfissamtaka að skipulags- og byggingarmálum hafi löggjafinn viljað auka líkur á því að rétt ákvörðun sé tekin með því að stuðla að því að öll eða flest sjónarmið um efnisleg og lagaleg atriði séu komin fram við endanlega töku ákvörðunar í máli. Iðulega sé ekki um aðra aðila að ræða sem geti veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald til að koma í veg fyrir að þau fari með vald sitt að geðþótta.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þá afstöðu að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af efnisákvörðun í málinu þegar hún hafi tekið efnisafstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda í úrskurðum nefndarinnar í kærumálum nr. 21 og 22/2018. Með því hafi úrskurðarnefndin fallist á aðild hagsmunasamtakanna vegna breytinga á deiliskipulaginu.

Þá hafi Reykjavíkurborg viðurkennt aðild félagsins með því að afhenda því öll gögn varðandi afgreiðslu umsóknar leyfishafa vegna byggingarleyfis.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga beinna og einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra til nefndarinnar nánar tilgreindar ákvarðanir sem taldar eru upp í stafliðum a-c fyrrnefnds ákvæðis. Er þar um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda, leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita tilgreind leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur. Í máli þessu eru kærðar ákvarðanir um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis, en þær ákvarðanir falla ekki undir nefnd undantekningarákvæði og verður aðild kæranda ekki á því reist, enda hefur mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram.

Kærandi skilgreinir sig sem hagsmunasamtök sem hafi þann tilgang skv. 2. gr. samþykktar samtakanna að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna. Tilgangur samtakanna lýtur þannig að gæslu almannahagsmuna og byggja kærur þeirra fyrst og fremst á slíkum hagsmunum, en ekki verður séð að þau eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra, líkt og krafa er gerð um í 3. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga og áður hefur verið rakið. Sú krafa er óháð þátttöku kæranda á lægra stjórnsýslustigi, hverju sem hún hefur falist í, t.a.m. með að fá afhend gögn og koma að athugasemdum við meðferð máls. Verður aðild kæranda ekki á því einu reist. Þá hefur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndarinnar ekki þýðingu um aðild kæranda, enda fólst í honum eingöngu sú afstaða að ekki væri tilefni til að fallast á þá kröfu kæranda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telst kærandi ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar eða vegna samþykktar byggingarleyfisins. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

99/2016 Grettisgata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu í Reykjavík og á ákvörðun byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja, sem og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, kæra lóðarhafar lóðarinnar nr. 43a við Grettisgötu í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að líta svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2016, er móttekið var 26. s.m., mótmæla kærendur jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí s.á., um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Verður að skilja erindi kærenda svo að greind ákvörðun sé einnig kærð til nefndarinnar og að þess sé krafist að hún verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. janúar 2017 og 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 19. maí 2016 sendu kærendur erindi til skilmáladeildar byggingarfulltrúans í Reykjavík og vöktu athygli hans á því að hafin væri framkvæmd við byggingu geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu. Bentu þeir á að lóð hefði verið lækkuð um 60 cm við lóðamörk, grunnur steyptur og raflagnatengingu komið fyrir. Burðargrind úr timbri hefði verið reist og að geymsluskúrinn virtist eiga að verða um 3 m á hæð, auk þess sem timburgrindverk á lóðamörkunum hefði verið rifið af undirstöðum sínum vegna framkvæmdanna.

Byggingarfulltrúi brást við ábendingunni og kannaði aðstæður á vettvangi 20. maí 2016. Skrifaði hann í framhaldinu lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 bréf, dags. 24. maí 2016, þar sem hann var krafinn um skýringar á framkvæmdinni og honum gefinn 14 daga frestur til þess frá móttöku bréfsins að telja. Byggingarfulltrúi tilkynnti kærendum með tölvupósti 13. júní 2016 að hann hefði lokið afskiptum sínum af framkvæmdunum þar sem þær rúmuðust innan ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi, enda yrði lóðin hækkuð upp aftur, lóðarhafar aðliggjandi lóðar hefðu veitt samþykki sitt og raflagnir í smáhýsum væru ekki lengur byggingarleyfisskyldar, sbr. nýjustu uppfærslu byggingarreglugerðar.

Hinn 29. júní 2016 sendu kærendur bréf til skilmálafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna byggingarinnar þar sem vísað var til fyrri tölvupóstsamskipta og bent á að kærendur teldu byggingarfulltrúa hafa nægar forsendur til að stöðva framkvæmdir og gera lóðarhafa lóðar nr. 41 að lagfæra grindverkið. Þá var þess óskað að byggingarfulltrúi leiðbeindi um kæruleið, stæði hann við ákvörðun sína um að aðhafast ekkert í málinu. Barst kæra úrskurðarnefndinni 12. júlí 2016, svo sem áður segir.

Hafa kærendur einnig kært samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016 á hækkun og endurbyggingu á risi og byggingu staðsteyptrar viðbyggingar aftan við einbýlishúsið á lóð nr. 41 við Grettisgötu. Forsaga þess hluta málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, í kærumáli nr. 81/2015, sem kveðinn var upp 10. desember 2015, var felld úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúans um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun nefnds húss og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu þar sem leyfið var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Málsrök kærenda: Kærendur telja geymsluskúrinn ekki geta talist smáhýsi þar sem hann sé tæpir 3 m á hæð, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir honum í gildandi deiliskipulagi. Lóðarhafa lóðarinnar nr. 41 hafi borið að fá samþykki kærenda fyrir skúrbyggingunni áður en hann reif niður timburgrindverkið sem skildi lóðirnar nr. 41 og 43 að, en umrætt grindverk hafi verið reist fyrir þeirra fé. Aðkomukvöðin sem hvíli á lóðinni Grettisgötu nr. 43 sé jafngildi einhvers konar eignarréttar og hafi eigandi lóðar nr. 41 aldrei haft neinn rétt til að þvælast um í heimreið kærenda og eyðileggja grindverkið án þeirra samþykkis. Þá hafi ekki verið tekið tillit til eldvarna við byggingu skúrsins.

Jafnframt sé mótmælt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016. Honum hafi ekki verið stætt á að taka erindið fyrir þar sem samþykktur deiliskipulagsuppdráttur sem liggi ákvörðuninni til grundvallar sé rangur. Uppdrátturinn gefi til kynna að grunnflötur hússins sé helmingi stærri en raunin sé og að húsið sé tvær hæðir þegar það sé í raun kjallari, hæð og ómanngengt ris. Hvergi sé minnst á heimild til viðbyggingar í texta deiliskipulagsins heldur eingöngu til stækkunar og hækkunar á útvegg, portvegg, um allt að 1,5 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld krefjast þess að kæru vegna geymsluskúrsins verði vísað frá á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar verði aðili máls að hafa beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Við úrlausn á þessum matskenndu mælikvörðum þurfi að beita heildstæðu mati á hagsmunum og tengslum kærenda við umrætt stjórnsýslumál. Kærendur geti ekki talist hafa beinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins þar sem umræddar framkvæmdir séu allar innan lóðarinnar nr. 41 við Grettisgötu. Auk þess verði ekki séð að þeir hafi neinna tilfinnanlegra hagsmuna að gæta. Framkvæmdin sé upp að lóðarmörkum við lóð nr. 43, en ekki að lóð kærenda. Kærendur geti ekki talist eiga beinna hagsmuna að gæta þótt þeir eigi umferðarrétt um lóð nr. 43. Slíkir hagsmunir séu á milli kærenda og þess lóðarhafa, en veiti þeim ekki heimild til að gerast aðilar máls vegna framkvæmda upp að mörkum lóðar nr. 43 nema framkvæmd skerði nýtingu umferðarréttar hans. Ekki hafi verið færð fram rök fyrir að sá réttur sé með nokkru móti skertur.

Þess sé jafnframt krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2016 verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Almennt sé miðað við að kærufrestur sé 30 dagar en kæran hafi borist 31 degi eftir að ákvörðunin var birt og hafi kærendum verið vel kunnugt um framkvæmdirnar áður en byggingaráformin hafi verið samþykkt.

——-

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur byggingarleyfishafi selt eignina að Grettisgötu 41.

——-

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 2. ágúst 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóð nr. 41 við Grettisgötu, sem og ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 26. júlí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka ris og endurbyggja og til að byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á sömu lóð.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi verulegra einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Samkvæmt 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 fellur samþykkt byggingaráforma úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra. Hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma var tekin 26. júlí 2016, en samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað, hefur byggingarleyfi ekki verið gefið út. Þar sem rúmlega tvö ár eru liðin frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út, er hún fallin úr gildi og hefur því ekki lengur réttarverkan samkvæmt lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður þeim hluta kærumáls þessa af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Lóð kærenda að Grettisgötu nr. 43a er baklóð sem liggur að litlum hluta að lóðinni nr. 41 við sömu götu. Kærendur eiga umferðarrétt á lóð nr. 43 meðfram mörkum lóðanna nr. 43 og 41. Við þau lóðamörk, en innan lóðarinnar nr. 41, stendur umræddur geymsluskúr fast upp að tengihúsi (spennistöð) sem einnig er á lóðamörkunum, en nær Grettisgötu. Ganga kærendur fram hjá skúrnum og tengihúsinu þegar þeir eiga leið til eða frá lóð sinni, en ekki verður séð að framkvæmdin hafi nokkur áhrif á umferðarrétt kærenda. Kærendur halda því einnig fram að fjarlægt hafi verið grindverk sem þeir hafi borið kostnað við að hluta. Slíkur eignarréttarlegur ágreiningur á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, heldur eftir atvikum dómstóla. Hins vegar er sökum þeirra grenndaráhrifa sem geymsluskúrinn mögulega veldur ekki hægt að útiloka að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess hluta kærumálsins sem lýtur að synjun byggingarfulltrúa á beitingu þvingunarúrræða vegna skúrsins. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar hvað það varðar.

Byggingarfulltrúi getur beitt þvingunarúrræðum m.a. í því skyni að stöðva framkvæmdir, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og til að knýja fram úrbætur, sbr. 56. gr. sömu laga. Í kjölfar vettvangsskoðunar var af hálfu byggingarfulltrúa í bréfi hans, dags. 24. maí 2016, vísað til nefndrar 55. gr., framkvæmdir stöðvaðar við hinn umdeilda geymsluskúr, og byggingaraðila veittur frestur til að koma að skýringum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti milli kærenda og embættis byggingarfulltrúa. Kemur fram í pósti þess síðarnefnda frá 30. s.m. að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi fyrir en skúrinn sé of hár og grunnur steyptur og sé skúrinn því ekki undanþeginn byggingarleyfi. Málinu var síðar lokið af hálfu byggingarfulltrúa að fengnum skýringum eiganda skúrsins og vísað til þess að ekki væri um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og í g-lið ákvæðisins er nánar fjallað um smáhýsi á lóð. Nefndum g-lið var breytt með reglugerð nr. 360/2016 sem tók gildi 2. maí 2016. Eftir þá breytingu falla undir undanþáguákvæðið smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar nánar tilgreindar kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi, og eru nánari kröfur gerðar um stærð, hæð og gerð smáhýsa auk samþykkis lóðarhafa nágrannalóða þegar það á við, sbr. 1.-5. lið.

Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er tekið fram að yfirbragð byggðarinnar einkennist af því að húsin séu byggð á mismunandi tímum auk þess að vera mismunandi að stærð og að reiturinn njóti verndar í ljósgulum flokki, verndunar byggðamynsturs, en við nokkur hús sé leyfð hækkun og stækkun. Á það m.a. við um Grettisgötu 41. Standa ákvæði deiliskipulagsins því ekki í vegi að smáhýsi verði reist, en það sem hér er um deilt er auk þess aftan við og fjær götu en áðurnefnt tengihús sem reist var á árinu 1935 og hefur smáhýsið því ekki áhrif á byggðamynstur.

Kærendur byggja enn fremur á því að skilyrði g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð séu ekki uppfyllt þar sem smáhýsið sé of hátt og á steyptum grunni, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til eldvarna, en hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var reist á því mati hans að skilyrðum nefnds reglugerðarákvæðis væri fullnægt. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefur það ekki úrslitaáhrif að geymsluskúr sá sem um ræðir sé reistur á steyptum grunni, enda eru t.a.m. pallar á lóð ekki byggingarleyfisskyldir skv. e-lið nefndrar gr. 2.3.5., og geta þeir eftir atvikum verið steyptir. Er þannig ekki eðlismunur á því að reisa smáhýsi úr léttum byggingarefnum, s.s. skúr þann sem hér er um deilt, á steyptum grunni eða á steyptum palli á lóð. Af aðstæðum og gögnum málsins er enn fremur ljóst að fullnægjandi fjarlægð er á milli geymsluskúrsins og húss kærenda í skilningi 2. tl. g-liðar reglugerðarákvæðisins, en sá töluliður lýtur að brunahólfun á milli húsa. Var og forsvaranlegt af byggingarfulltrúa að miða við að hæð skúrsins frá yfirborði lóðar yrði innan þeirra marka sem tilgreind eru í 4. tl. eftir að það hefði verið fært til fyrra horfs og er í því sambandi rétt að benda á að byggingarfulltrúi er sérfróður aðili skv. 8. gr., sbr. 25. gr., mannvirkjalaga og að af hans hálfu fór fram vettvangsskoðun. Hefur úrskurðarnefndin einnig kynnt sér aðstæður á vettvangi og liggur ekki annað fyrir en að skilyrðum g-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð hafi að öðru leyti verið fullnægt. Liggur t.a.m. fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, þ.e. Grettisgötu nr. 43, í samræmi við 5. tl. g-liðar.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ekkert sem bendir til annars en að mat byggingarfulltrúa um að hinn umdeildi geymsluskúr væri ekki byggingarleyfisskyldur hafi verið lögmætt og efnislega rétt og að þar með væri ekki tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Verður kröfu kærenda um ógildingu á hinni kærðu ákvörðun því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júní 2016 um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna byggingar geymsluskúrs á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júlí 2016, um að veita leyfi til að hækka og endurbyggja ris og byggja staðsteypta viðbyggingu aftan við einbýlishús á lóðinni nr. 41 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

93/2018 Áshamar

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 12. júlí 2018.

Málavextir:
Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningunni. Samþykkt byggingarleyfisins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi leyfisveitinguna úr gildi með úrskurði nr. 60/2018 þar sem grenndarkynningin náði ekki til kæranda.

Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt á ný með bréfi, dags. 9. maí 2018, og var gefinn var fjögurra vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, dags. 6. júní 2018.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018, var erindið tekið fyrir að nýju, það samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Var bókað í fundargerð að ráðið hafnaði athugasemdum lóðarhafa að Áshamri 48. Jafnframt var bókað að skráð nýtingarhlutfall fyrir íbúðarhúsabyggð ÍB-4 væri 0,15 en ekki fyrir einstaka byggingarlóðir líkt og fram kæmi í innsendu bréfi. Heimilt væri að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, viki fyrirhuguð framkvæmd ekki í verulegum atriðum frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins. Ekki væri hægt að fallast á rök er vörðuðu útsýnisskerðingu og væri bent á að engin leið væri til að tryggja öllum íbúum bæjarins útsýni sem ávallt væri huglægt hverjum og einum. Á lóðinni hefði áður staðið íbúðarhús sem hefði verið rifið eftir bruna og alltaf hafi verið fyrirhugað að nýta lóðina áfram fyrir íbúðarhúsnæði. Ráðið teldi fyrirhugaða nýbyggingu falla vel að yfirbragði hverfisins hvað varðaði nýtingu, útlit og form. Benti ráðið á að ekki hefðu komið fram nein rök sem styddu að verðgildi húsnæðis í nágrenninu myndi skerðast við uppbyggingu á lóð Áshamars 32. Uppbyggingu hverfisins yrði að meta heildstætt og mætti þá einnig draga fram að uppbygging gæti haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenninu.

Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 21. júní 2018. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina umdeildu framkvæmd ekki vera í samræmi við landnotkun, en ákvæði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé heildarnýtingarhlutfall lóða á umræddu svæði 0,15. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verði 0,20, en þar sé miðað við að stærð lóðar sé 923 m2. Stærð lóðarinnar í fasteignaskrá sé hins vegar 767 m2 og samkvæmt því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,24. Ekkert hafi verið bókað um þetta misræmi á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018. Þegar kærandi hafi innt eftir svörum hafi hann fengið þær upplýsingar að nýr lóðarleigusamningur hefði verið undirritaður milli aðila 29. maí 2018. Megi leiða líkum að því að hinn nýi lóðarleigusamningur hafi verið gerður í þeim tilgangi að lækka nýtingarhlutfall lóðarinnar svo það kæmist nær nýtingarhlutfalli nálægra lóða. Framangreind aukning á nýtingarhlutfalli lóðar sé svo veruleg breyting að grenndarkynning skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 dugi ekki til.

Framkvæmdin sé ekki heldur í samræmi við byggðamynstur. Fyrirhuguð hæð hússins samkvæmt teikningum sé 4,92 m, en hæsti punktur annarra húsa í götunni sé 4,35 m. Breidd hæstu þekju samkvæmt teikningum sé 10,1 m að viðbættum 12 m. Breidd samkvæmt hæstu þekju annarra húsa í götunni sé 6,80 m. Þá snúi þak á 12 m viðbótinni í norður-suður, en þak annarra húsa í götunni snúi í austur-vestur. Þetta leiði til verulegrar útsýnisskerðingar fyrir kæranda og sé breytingin í andstöðu við lögmætar væntingar kæranda um framtíðarskipulag þegar hann hafi fjárfest og flutt á svæðið.

Málsmeðferð og afgreiðsla málsins beri með sér að hagsmunir kæranda hafi verið algerlega fyrir borð bornir. Framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að kærandi hafi fengið að koma að athugasemdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans við grenndarkynningu. Leiða megi líkum að því að síðari grenndarkynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla. Rökstuðningi og upplýsingum sem fylgt hafi niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið verulega ábótavant. Ekkert komi fram þar um nýjan lóðarleigusamning við leyfishafa, sem sé í samræmi við teikningar hans sem gerðar hafi verið í ársbyrjun 2017. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að húsið sem áður hafi staðið á lóðinni hafi verið í líkingu við önnur hús í botnlanganum.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld telja engin rök hníga að því að verða við kröfum kæranda. Framkvæmdin sé í fullu samræmi við eðlilega landnotkun og byggðamynstur. Rök kæranda um skerðingu á útsýni hafi ekki verið þess eðlis að byggingarleyfi yrði ekki gefið út og réttlæti alls ekki stöðvun framkvæmda. Útgáfa byggingarleyfis að undangenginni grenndarkynningu hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrirhugað hús falli vel að byggðamynstri og götumynd, enda hafi það verið ein forsendna fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Þekja íbúðarhluta hússins sé í austur-vestur, líkt og á öðrum húsum. Þekja bílskúrs muni snúa þvert á þak íbúðarhúss og það sé í fullu samræmi við þegar samþykktar framkvæmdir við götuna, þ.e. hús nr. 24 og 34 við Áshamar.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eðlilegt miðað við svæðið og nágrenni þess. Nýtingarhlutfallið 0,15, sem fram komi í aðalskipulagi, eigi við um svæði ÍB-4 í heild sinni, en ekki einstakar lóðir. Umhverfis- og skipulagsráð hafi bent á þetta í niðurstöðu sinni 12. júní 2018, sem kærandi hafi vísað til í kæru. Fullyrðing kæranda um að nýtingarhlutfallið 0,20 sé mun hærra en nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða standist ekki skoðun. Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 34 við Áshamar sé samtals 0,24 og nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 sé 0,21. Kæranda geti ekki dulist að nýtingarhlutfall lóðanna á svæðinu sé ekki 0,15 þar sem nýtingarhlutfall lóðar hans sé það hæsta á svæðinu, eða 0,29. Tekið sé undir að kærandi hafi átt að vera aðili að upphaflegri grenndarkynningu. Úr því hafi verið bætt og kæranda verið gefið færi á að koma með athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd. Hann hafi því getað gætt réttar síns lögum samkvæmt. Athugasemdir hans hafi ekki þótt gefa tilefni til þess að hafa áhrif á útgáfu byggingarleyfis. Nýtingarhlutfallið 0,20 sé mjög hóflegt og skeri sig að engu leyti frá nærliggjandi húsum. Án stækkunar lóðarinnar hefði nýtingarhlutfall verið 0,24 sem bæjaryfirvöld telji í góðu samræmi við þær samþykktir sem gerðar hafi verið fyrir svæðið.

Ekki sé gerð athugasemd við staðhæfingu kæranda um hæð fyrirhugaðs húss miðað við önnur hús í götunni, en bent sé á að átt sé við hæð frá botnplötu. Önnur hús við götuna hafi verið byggð í tíð eldri byggingarreglugerða og óheimilt væri að byggja þau samkvæmt núgildandi lögum og byggingarreglugerð, t.d. vegna breyttra krafna um lofthæð og einangrun í þaki. Gólfkóti fyrirhugaðs húss sé 26,20, sá sami og eldra hússins. Á lóðinni nr. 34 sé hann 27,30 og 29,00 á lóð kæranda. Hann sé því lægri en annarra húsa við götuna og mun lægri en fasteignar kæranda. Við framkvæmdina sé núgildandi lögum og reglum fylgt. Kærandi geti ekki ætlast til þess að fyrirhugað hús verði eins og fyrra hús að öllu leyti þegar slík bygging samræmist ekki núgildandi lögum og reglum.

Í þéttbýli sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að útsýni skerðist ekki vegna bygginga. Líta verði til þess hvaða væntingar fasteignaeigendur geti almennt haft á grundvelli málefna- og lagalegraforsendna. Kærandi hafi sjálfur fengið byggingarleyfi fyrir bílgeymslu þrátt fyrir athugasemdir um útsýnisskerðingu sem fram hafi komið við grenndarkynningu. Umsókn hans hafi fengið sömu meðferð og umsókn vegna hins kærða leyfis. Fullyrðing kæranda um verðrýrnun eignar vegna útsýnisskerðingar sé ekki studd neinum rökum og huglæg sjónarmið hans og væntingar geti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að vegna strangra krafna núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi ekki fengist leyfi til að nota þann grunn sem fyrir hafi verið á lóðinni. Þetta geri að verkum að húsið verði 20 cm hærra en það hús sem áður hafi staðið þar. Reglur um einangrun innanhúss hafi jafnframt áhrif á hæð hússins.

Lóðarstærð sem fram komi á fyrstu teikningum sem lagðar hafi verið inn 14. febrúar 2017 sé sú stærð sem gefin hafi verið í upphafi. Leyfishafi geti ekki útskýrt hvers vegna lóðin hafi verið skráð minni í fasteignaskrá.

Íbúðarhúsið sé af hóflegri stærð, 145 m2, auk 40 m2 bílskúrs. Fyrirhugað hús sé sláandi líkt öðrum húsum í götunni, eins og lagt hafi verið upp með. Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu villandi og beinlínis teknar með þeim hætti að villa um fyrir þeim sem um þetta mál muni fjalla. Eðlilegra hefði verið að taka myndir út um þann glugga sem kærandi telji útsýni sitt skerðast, ekki við lóðamörk eða af lóðum nágranna.

Þá hafi lóðarúthlutunin verið samþykkt af tveimur byggingarnefndum og tveimur bæjarstjórnum með öllum greiddum atkvæðum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að hið fyrirhugaða hús muni gjörbreyta götumynd og skerða útsýni kæranda verulega. Vísað sé til álits löggilds fasteignasala, sem m.a. segi að útsýni vegi þyngra í verðmæti fasteigna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu og að ekki leiki vafi á því að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir muni valda verulegri verðrýrnun á fasteign kæranda, auk þess að minnka sölumöguleika.

Stærð fyrirhugaðs húss m.t.t. annarra húsa í götunni byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Nýtingarhlutfallið rúmlega tvöfaldist. Það hafi mikil áhrif á skipulag lóðarinnar sem og næstu lóðir, auk þess að fela í sér inngrip í götumynd götunnar sem húsið standi við. Húsið verði mun hærra en önnur hús og breidd hæstu þekju mun meiri en annarra húsa í götunni. Þá sé hæð og hæsta þekja þeirra húsa sem byggt hafi verið við í götunni í samræmi við götumynd.

Skipulagsgögn þau sem umhverfis- og skipulagsráð byggi niðurstöðu sína á uppfylli ekki skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ekki liggi fyrir afstöðumynd eða þrívíddarmynd af byggingunni sem stjórnvaldið geti byggt ákvörðun sína á m.t.t. útlits, forms og áhrifa byggingarinnar á hagsmuni kæranda. Því hafi rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið fullnægt. Vísi kærandi einnig til gr. 2.4. í skipulagsreglugerð hvað varði hlutverk skipulagsfulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ, en slík samþykkt er skilyrði útgáfu byggingarleyfis, skv. 2. gr. samþykktar nr. 991/2012 um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar, sbr. og 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Upphaflega láðist að grenndarkynna fyrir kæranda en úr því var bætt og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem hann skilaði þann 6. júní 2018. Var hið kærða byggingarleyfi því veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt greindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2005, er lóðin nr. 32 við Áshamar á svæði merktu ÍB-4. Um svæðið segir m.a. að fullbyggt sé það 60.200 m2, að nýtingarhlutfall sé 0,15, að um blandaða byggð sé að ræða og að einbýlishús skuli vera á einni hæð. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér gögn varðandi svæðið, m.a. úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, og hefur staðreynt að það er langt frá því að vera fullbyggt miðað við aðalskipulag.

Húsin á lóðunum við Áshamar 2-60, slétt númer, eru við þrjár botngötur. Við Áshamar 22-40, sem er ein botngatnanna, standa hús sem öll voru byggð samkvæmt sömu grunnteikningum í kjölfar gosloka. Slíkt hús var einnig að Áshamri 32, en það mun hafa brunnið árið 1999. Byggt hefur verið við tvö hús í götunni, nr. 34 og 36. Lóðir við nefnda botngötu eru 750 m² að stærð, nema lóðirnar í botni götunnar, þ.e. nr. 30 og 32, sem voru 767 m². Lóðin Áshamar 32 hefur verið stækkuð úr 767 m2 í 923 m2, sbr. lóðarleigusamning, dags. 28. maí 2018, og meðfylgjandi samþykkt lóðarblað, dags. 5. október 2016. Skráning stærðar lóðarinnar er nú hin sama í fasteignaskrá. Húsið að Áshamri 32 mun verða einlyft einbýlishús, auk bílskúrs, og að lögum verður það svipað þeim húsum, breyttum sem óbreyttum, sem fyrir eru í botngötunni. Birt flatarmál hússins verður 185,5 m² og nýtingarhlutfall verður 0,20, en hefði að óbreyttri lóðarstærð verið 0,24. Nýtingarhlutfall lóða við nefnda botngötu er 0,13 nema á lóðunum nr. 34 og 36, þar sem byggt hefur verið við húsin. Er nýtingarhlutfall þar nú annars vegar 0,13 og hins vegar 0,21. Meðalnýtingarhlutfall í botngötu Áshamars nr. 2-20 er 0,23 og í botngötu kæranda, Áshamri nr. 42-60, er hlutfallið 0,26. Meðalstærð húsa í þeim botngötum er á bilinu 180 m2 til 190 m2. Götumynd í botngötu Áshamars nr. 22-40 er nokkuð heildstæð, þrátt fyrir að byggt hafi verið við tvö hús þar, en botngöturnar sín hvoru megin eru frábrugðnar hvað varðar stærð og lögun húsanna. Við mat á því hvort framkvæmd falli að byggðamynstri ber einkum að líta til hverfis í heild sinni, fremur en á einstakar götur innan þess, enda er m.a. tekið fram um 44. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynna skuli umsóknir um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir. Þykir hin leyfða byggingarframkvæmd hvorki víkja frá götumynd botngötunnar þar sem húsið mun standa né frá byggðamynstri hverfisins.

Verður samkvæmt framangreindu talið að hin leyfða byggingarframkvæmd hafi verið í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Hið umdeilda hús verður staðsett á sama stað á lóðinni og húsið sem þar áður stóð. Hæð þess verður 4,92 m, en hæð annarra húsa við Áshamar nr. 22-40 er 4,35 m. Mismunurinn nemur því 0,57 m. Af hálfu leyfishafa og Vestmannaeyjabæjar hefur verið bent á að þennan mismun megi m.a. rekja til þess að núgildandi lög og byggingarreglugerð geri ríkari kröfur sem lúta að lofthæð og einangrun þaks. Verður ekki talið að fyrirhuguð mænishæð teljist óhófleg samkvæmt framangreindu, þrátt fyrir grenndaráhrif gagnvart kæranda. Þá verður einnig að líta til þess að umrædd botngata liggur í nokkrum halla og er lóð leyfishafa neðst í götunni. Miðast hæð húsanna við gólfkóta, en líkt og áður greinir er kótinn 26,20 á lóð leyfishafa en 29,00 á lóð kæranda. Verða áhrif hæðarmismunarins því minni en ella. Þá voru á lóð nr. 32 skýr ummerki um hið fyrra hús þegar kærandi keypti eign sína árið 2006. Lóðin er á skilgreindu íbúðasvæði í gildandi aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi við kaup kæranda á sinni eign, og var lóðin enn fremur sýnd sem laus íbúðarhúsalóð í skipulaginu. Mátti kæranda því hafa verið ljóst að á lóðinni nr. 32 við Áshamar yrði eftir atvikum byggt aftur.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er hinni kærðu ákvörðun hvorki áfátt að formi né efni og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                  ________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Þorsteinn Þorsteinsson