Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2017 Refasteinsstaðir ll

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Mói ehf., eigandi jarðanna Refsteinsstaða I og Laufáss, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnaþingi vestra 28. júlí 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Húnaþings vestra 4. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um stofnun 0,5 ha lóðar úr landi Refsteinsstaða II sem nefnd var Þúfa og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggðaráðs 8. s.m. Hinn 3. október 2016 var sótt um byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina 31. s.m. Takmarkað byggingarleyfi fyrir grunni og gólfplötu var gefið út hinn 24. nóvember 2016.

Eftir ítrekaðar athugasemdir kæranda við áform um byggingu veiðihúss á lóðinni Þúfu samþykkti skipulags- og umhverfisráð á fundi sínum 6. apríl 2017 að umsókn um byggingarleyfi fyrir veiðihúsinu yrði grenndarkynnt fyrir eigendum jarðanna Refsteinsstaða I, Laufáss og Enniskots og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 11. apríl 2017. Umsóknin var kynnt með ódagsettu bréfi þar sem fram kom að kynning stæði frá 11. apríl 2017 með fresti til athugasemda til 11. maí s.á. Athugasemdir bárust frá kæranda á kynningartíma umsóknarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 22. maí 2017. Féllst ráðið ekki á fram komin sjónarmið í athugasemdum kæranda og lagði til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslur um útskiptingu lands og stofnun byggingarreits ásamt útgáfu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á byggingarreitnum. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. maí 2017 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. s.m. Lagfærðar aðalteikningar að veiðihúsinu voru síðan samþykktar 30. maí 2017 og byggingarleyfi gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að grenndarkynning sé ekki tæk og að staðsetning veiðihússins fari gegn hagsmunum hans.

Veiðihúsið sé staðsett á víðavangi um 2 km frá silungasvæði Víðidalsár. Sú staðsetning fari gegn ákvæði 3.2.1 greinargerðar aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem segi að forðast skuli stök hús á víðavangi. Veiðihúsið sé aðeins nokkra tugi metra frá landamerkjum Refsteinsstaða I og því sé staðsetningin andstæð grenndarhagsmunum kæranda sem eiganda þeirrar jarðar. Veiðihúsinu muni fylgja truflandi og dagleg umferð í 4-5 mánuði ársins. Grenndarkynning sú sem farið hafi verið í hafi ekki verið tæk, þar sem staðsetning veiðihússins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Í því tilviki verði að gera deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísar kærandi til umfjöllunar í bókinni „Inngangur að skipulagsrétti“ um framkvæmda- og byggingarleyfi þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir. Þar segi að ef greind skilyrði í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga séu ekki uppfyllt, þ.e. ef framkvæmd er ekki í samræmi við aðalskipulag, sé ekki mögulegt að beita ákvæðum um grenndarkynningu framangreindra leyfa og beri þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga og fylgja viðkomandi málsmeðferðarreglum áður en leyfi séu gefin út.

Í greinargerð aðalskipulags Húnaþings vestra, þar sem fjallað sé um byggingar á landbúnaðarsvæðum, segi meðal annars svo: „Heimilt er að afmarka lóðir og reisa allt að þrjú íbúðarhús þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum stærri en 70 ha auk þeirra húsa sem tilheyra búrekstrinum. Ný íbúðarhús skulu nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnu samhengi við aðra byggð. Markmiðið er að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg, að þjónusta við ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar er veitt og að nýjum húsum verði komið fyrir í samræmi við byggingarhefðir og yfirbragð sveitarinnar. Forðast skal stök hús á víðavangi. Heimilt er að byggja allt að 3 stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.“ Samkvæmt framangreindu sé bygging veiðihússins á lóðinni Þúfu óheimil nema að undangengnu að minnsta kosti deiliskipulagi, enda samrýmist veiðihústillagan illa ákvæðum aðalskipulagsins um byggingu frístundahúsa.

Óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar, þ.e. til að gera grunn, sökkul og gólfplötu, áður en deiliskipulag yrði gert og áður en framkvæmd hafi verið ótæk grenndarkynning. Það sé meginregla að byggingarleyfi fyrir framkvæmd beri að gefa út í heild þegar öll skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu uppfyllt. Frá þessari meginreglu sé takmörkuð undantekningarregla í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar sé kveðið á um að leyfisveitandi geti, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda. Í athugasemdum við tilvitnað ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum um mannvirki sé þetta útskýrt svo: „Standi sérstaklega á, t.d. þegar hönnun mannvirkis er sérstaklega umfangsmikil og séruppdrættir margir, er unnt að nýta heimild 2. mgr. og veita skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.“ Um sé að ræða undantekningarákvæði sem ekki verði beitt frjálslega og gera verði þá kröfu að beiting þess sé rökstudd hverju sinni. Enn fremur sé kveðið á um í 2.4.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að leyfisveitanda sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra þátta framkvæmdar „þegar um er að ræða mjög stóra, mjög sérhæfða eða flókna byggingarframkvæmd þar sem með rökum má sýna fram á að þróunarvinna þurfi að fara fram samhliða hönnun og byggingu mannvirkis […].“ Sérstaklega sé áréttað í 2. mgr. 2.4.6. gr. að einungis „í undantekningartilvikum og þegar sérstaklega stendur á“ sé heimilt að veita skriflegt leyfi til einstakra verkþátta byggingarframkvæmda sem ekki falli undir 2.4.5. gr.

Ekki verði séð að nein rök hafi verið færð fyrir því að greind undantekningarákvæði eigi við í máli þessu. Líta verði til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi tekið til framkvæmdarinnar í heild og ekki hafi verið farið fram á að veitt yrði takmarkað byggingarleyfi til að gera grunn, sökkul og gólfplötu eða neinn rökstuðningur færður fyrir beiðni í þá átt. Hafi því engar forsendur verið til að veita byggingarleyfi til einstakra þátta framkvæmdarinnar. Sé útgáfa byggingarleyfisins því þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Málsrök Húnaþings vestra: Sveitarfélagið telur að grenndaráhrif lóðarinnar og veiðihússins, þ.m.t. umferð vegna þess, sé ekki meiri en íbúar og eigendur jarða og fasteigna í nágrenninu verði að þola vegna starfsemi á jörðunum og búrekstrar. Húsið standi alveg við núverandi veg og skapi ekki neikvæð áhrif umfram sambærilega starfsemi sem gera megi ráð fyrir á svæðinu samkvæmt ákvæðum aðalskipulags. Sérstakt ónæði sé ekki af starfsemi í húsinu eða vegna umferðar er henni tengist. Húsið og lóðin sé ekki í námunda við hús eða mannvirki á jörðum kæranda og valdi því ekki neikvæðum grenndaráhrifum. Sveitarfélagið bendi jafnframt á að umrædd lóð og hús og jarðir kæranda séu skammt frá þjóðvegi nr. 1. Umferð vegna veiðihússins og mögulegt ónæði sé því óverulegt með tilliti til umferðar um þjóðveginn.

Því sé mótmælt að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umrædda umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem umsóknin sé í andstöðu við aðalskipulag. Vísað sé í því sambandi til umfjöllunar um byggingar á landbúnaðarsvæðum í kafla 3.2.1 í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins og um ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum í sama kafla. Þar segi að heimilt verði, þar sem aðstæður leyfi á hverju lögbýli, að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Leyfið sé því ekki í andstöðu við ákvæði aðalskipulagsins. Húsið nýti sömu heimreið og fyrir sé og virðist a.m.k. hvað það varði í tengslum og samhengi við aðra byggð. Staðsetning þess samræmist þeim markmiðum sem búi að baki þessum ákvæðum, þ.e. að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg og að ný hús tengist þeirri þjónustu sem þegar sé veitt.

Umfjöllun í greinargerð aðalskipulagsins um að forðast skuli stök hús á víðvangi eigi eingöngu við um íbúðarhús en ekki önnur hús, enda sé umfjöllunin í beinu framhaldi af umfjöllun um íbúðarhús á bújörðum. Takmörkun aðalskipulagsins gildi eingöngu um íbúðarhús en ekki sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu. Ástæða þess sé sú að ekki standi sömu rök eða forsendur til þess að slík hús standi nálægt íbúðarhúsnæði á jörðum. Heppilegra sé að þau geri það ekki, enda hagsmunir og eðli slíkrar landnotkunar annað en íbúðarhúsa. Eðlilegra sé að staðsetja slík hús, þ.e. sumarhús og veiðihús, sem séu í raun ferðaþjónustu- og samkomuhús, fjarri íbúðar- og bæjarhúsum. Sé það í samræmi við hefð í sveitarfélaginu og raunar á landinu öllu. Veiðihús séu því almennt ekki staðsett nálægt bæjarhúsum.

Kærufrestur vegna hins takmarkaða byggingarleyfis, sem gefið hafi verið út 24. nóvember 2016, sé löngu liðinn. Það leyfi hafi ekki verið kært og geti því ekki verið til umfjöllunar í máli þessu. Auk þess lúti takmörkun á heimild til útgáfu leyfis til hluta framkvæmda að því að tryggja að hönnunargögn liggi almennt fyrir og að lokið hafi verið við hönnun í meginatriðum áður en leyfi hafi verið veitt til framkvæmda. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi hönnunargögn legið í meginatriðum fyrir þegar leyfið hafi verið gefið út. Leyfinu hafi því ekki verið skipt upp af þeirri ástæðu að hönnunargögn hafi vantað heldur hafi því verið skipt upp þar sem framkvæmdinni var skipt í tvennt. Nýta hafi átt hagstæð veðurskilyrði haustið og veturinn 2016 til að ljúka framkvæmdum við gerð sökkuls og plötu. Húsið, sem að öðru leyti sé byggt úr timbureiningum, hafi svo átt að rísa síðar, þ.e. í lok vetrar, enda hafi smíði við einingarnar ekki verið lokið á þeim tíma. Hafi því efnisrök búið að baki útgáfu leyfisins. Þá verði ekki séð hvaða áhrif uppskipting leyfisins geti haft á lögmæta hagsmuni kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II. Sú lóð er á ódeiliskipulögðu svæði. Um það er deilt hvort heimiluð framkvæmd sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hvort heimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Fyrirhuguð bygging var ekki grenndarkynnt fyrir upphaflega samþykkt byggingaráform en málið var endurupptekið og úr því var bætt. Tók grenndarkynningin m.a. til kæranda sem kom á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. maí 2017. Umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddu veiðihúsi var síðan samþykkt 30. maí 2017.

Í kafla 3.2.1 í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 er fjallað um stefnumörkun á landbúnaðarsvæðum. Þar kemur m.a. fram að á landbúnaðarsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri. Ný íbúðarhús skuli nýta sömu heimreið og lögbýlið og vera í ákveðnum tengslum og samhengi við aðra byggð. Forðast skuli stök hús á víðavangi. Heimilt sé að byggja allt að þrjú stök frístundahús á lögbýlum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Þá sé heimilt að veita almenna ferðaþjónustu á landbúnaðarsvæðum og þar sem aðstæður leyfi að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu á lögbýlum, þ.e. gistiaðstöðu og byggingar fyrir veitingarekstur, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500 m2. Veiðiréttindi fylgja bújörðum sem eiga land að veiðivötnum og ám og hefur nýting slíkra hlunninda verið talin starfsemi sem tengist búrekstri þeirra jarða. Bygging og rekstur veiðihúss er því í samræmi við fyrrgreindra stefnumörkun í Aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 og skilgreiningu landbúnaðarsvæða í q. lið 6.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Umdeilt veiðihús er einnar hæðar og tæpir 106 m2 að stærð og mun einungis vera í notkun hluta úr ári og er samkvæmt framansögðu í samræmi við heimildir aðalskipulags varðandi landnotkun. Um er að ræða staka framkvæmd innan lögbýlis sem ekki hefur í för með sér breyttar vegtengingar. Eins og atvikum er háttað var heimilt að samþykkja hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þótt veiðihúsið hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem vegna umferðar, verða þau áhrif talin óveruleg og geta ekki haft áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Húnaþings vestra frá 30. maí 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á lóðinni Þúfu í landi Refsteinsstaða II.