Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22 og 85/2018 Kvosin – Landsímareitur

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2018, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 13. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin, Kirkjusandi 5, 105 Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017, sem borgarstjórn samþykkti 5. desember s.á., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili „ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur 22. maí 2018 um byggingarleyfi […] til að byggja í Víkurkirkjugarði nýbyggingu með kjallara við Kirkjustræti“, sbr. umsókn nr. 53964. Verður kæran skilin á þann hátt að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2018 að samþykkja byggingarleyfi vegna endurbyggingar og nýbyggingar að Thorvaldsensstræti 2 og 4 og Aðalstræti 11. Er jafnframt krafist stöðvunar framkvæmda. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. apríl og 28. júní 2018.

Málavextir: Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 verði skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verði að fjarlægja viðbyggingu frá árinu 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana aftur í sömu mynd.“

Byggingarleyfi til niðurrifs friðlýsts samkomusalar á baklóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti og niðurrifs viðbyggingar við Landsímahúsið frá 1967 var gefið út 23. febrúar 2018. Hinn 15. maí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn nr. BN053964 um leyfi til að dýpka kjallara og endurbyggja Thorvaldsensstræti 2, lyfta þaki Thorvaldsensstrætis 4 og byggja á það Mansardþak með kvistum, byggja fjögurra hæða nýbyggingu, til að endurbyggja Aðalstræti 11 með breyttu þaki og til að innrétta í öllum húsunum 145 herbergja hótel í flokki IV með veitingahúsi, kaffihúsi, verslunum og samkomusal á lóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg. Hafi borgaryfirvöld m.a. ekki fylgt lögum. Sú stækkun og gerð kjallara undir nýbyggingu sem fyrirhuguð sé verði að verulegu leyti í austurhluta hins forna Víkurgarðs, en með framkvæmdinni verði gröfum og líkamsleifum raskað á óheimilan hátt. Trúarleg og söguleg þýðing garðsins sé mikil en hann teljist til fornminja og sé friðaður, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Skýra þurfi ákvæðið í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið sé að kærandi eigi beina og einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem um ræði. Tilgangur félagsins sé „að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna“. Félagið Kvosin hafi því hvorki beinna né einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í tengslum við þær ákvarðanir sem deilt sé um. Takmarkist kæruheimild félagsins því við undantekningarákvæði a-c liða 3. mgr. 4. gr. nefndra laga, en þau eigi ekki við um kæranda. Að auki hafi kærufrestur verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 13. febrúar 2018, en auglýsing um breytinguna hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Því hafi kæran borist degi of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um það að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni bæði hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi. Kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning ákvæðisins um aðild geti ekki átt við þar sem ákvarðanir þær sem hér um ræði varði ekki matsskylda framkvæmd eða framkvæmdir sem kynnu að vera matsskyldar og afstaða Skipulagsstofnunar liggi ekki fyrir, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 96/2006 og 20/2007 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 10/2017. Þá hafi kærandi ekki forræði á málefnum Víkurgarðs og geti því ekki reist aðild sína að kærumálinu á því að hann hafi opinbera eða einstaklega lögvarða hagsmuni að einkarétti.

Verði málinu ekki vísað frá krefst leyfishafi þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Varðandi kröfu Reykjavíkurborgar og leyfishafa um frávísun málsins vegna aðildarskorts bendir kærandi á að óumdeilt sé að það samræmist tilgangi félagsins Kvosarinnar að gæta þeirra hagsmuna sem kæra lúti að. Það sé grundvallarregla umhverfisréttar að veita umhverfissamtökum aðild að ágreiningsmálum um umhverfismál á stjórnsýslustigi.

Hugtakið lögvarðir hagsmunir í stjórnsýslurétti sé óljóst og vandmeðfarið. Verði að gæta þess sérstaklega að reglunni sé ekki beitt með þeim hætti að það auðveldi stjórnvöldum að fara sínu fram að geðþótta án þess að fara að lögum heldur láta annarlega hagsmuni ráða för. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virðist beinlínis gera ráð fyrir að umhverfissamtök hafi lögvarða hagsmuni falli mál að tilgangi samtakanna án þess að meira þurfi að koma til, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Augljóst sé að ekki sé átt við samskonar skilyrði og talin séu gilda í einkamálaréttarfari þar sem krafa sé gerð um einstaklingsbundna hagsmuni, enda eigi umhverfissamtök að jafnaði ekki slíka hagsmuni.

Með aðild umhverfissamtaka að skipulags- og byggingarmálum hafi löggjafinn viljað auka líkur á því að rétt ákvörðun sé tekin með því að stuðla að því að öll eða flest sjónarmið um efnisleg og lagaleg atriði séu komin fram við endanlega töku ákvörðunar í máli. Iðulega sé ekki um aðra aðila að ræða sem geti veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald til að koma í veg fyrir að þau fari með vald sitt að geðþótta.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þá afstöðu að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af efnisákvörðun í málinu þegar hún hafi tekið efnisafstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda í úrskurðum nefndarinnar í kærumálum nr. 21 og 22/2018. Með því hafi úrskurðarnefndin fallist á aðild hagsmunasamtakanna vegna breytinga á deiliskipulaginu.

Þá hafi Reykjavíkurborg viðurkennt aðild félagsins með því að afhenda því öll gögn varðandi afgreiðslu umsóknar leyfishafa vegna byggingarleyfis.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga beinna og einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra til nefndarinnar nánar tilgreindar ákvarðanir sem taldar eru upp í stafliðum a-c fyrrnefnds ákvæðis. Er þar um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda, leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita tilgreind leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur. Í máli þessu eru kærðar ákvarðanir um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis, en þær ákvarðanir falla ekki undir nefnd undantekningarákvæði og verður aðild kæranda ekki á því reist, enda hefur mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram.

Kærandi skilgreinir sig sem hagsmunasamtök sem hafi þann tilgang skv. 2. gr. samþykktar samtakanna að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna. Tilgangur samtakanna lýtur þannig að gæslu almannahagsmuna og byggja kærur þeirra fyrst og fremst á slíkum hagsmunum, en ekki verður séð að þau eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra, líkt og krafa er gerð um í 3. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga og áður hefur verið rakið. Sú krafa er óháð þátttöku kæranda á lægra stjórnsýslustigi, hverju sem hún hefur falist í, t.a.m. með að fá afhend gögn og koma að athugasemdum við meðferð máls. Verður aðild kæranda ekki á því einu reist. Þá hefur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndarinnar ekki þýðingu um aðild kæranda, enda fólst í honum eingöngu sú afstaða að ekki væri tilefni til að fallast á þá kröfu kæranda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telst kærandi ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar eða vegna samþykktar byggingarleyfisins. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon