Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2017 Bárugata

Árið 2018, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 1. febrúar 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Bárugötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins að Bárugötu 23 Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. janúar 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á suðausturhlið einbýlishúss á lóð nr. 23 við Bárugötu, sem er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem samþykkti á embættisafgreiðslufundi 1. febrúar 2013 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í nágrenninu. Tillagan var kynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Tveir kærenda fengu slíka kynningu en þriðji kærandinn var ekki fluttur í húsið á þeim tíma.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á að ekki væri ljóst hver fjarlægð milli húsanna nr. 21 og 23 við Bárugötu yrði eftir breytinguna og tekið fram að gæta þyrfti þess að viðbyggingin myndi ekki varpa skugga á glugga á suðvesturhlið og inngang íbúðar að Bárugötu 21. Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdina kom fram að fjarlægðin frá ystu brún viðbyggingar hússins nr. 23 að Bárugötu að stigahúsi hússins nr. 21 yrðu 3 m. Skuggavarp myndi aukast lítilsháttar á ákveðnum tímum, en fljótlega myndi skuggi núverandi húss hafa áhrif á skuggamyndunina og því hefði viðbyggingin óveruleg áhrif á hús nr. 21. Lagði skipulagsfulltrúi því til að erindið yrði samþykkt óbreytt og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs sem gerði ekki athugasemdir við þá afgreiðslu með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 7. maí 2013. Var málinu vísað til byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingarleyfisumsóknina á afgreiðslufundi sínum 16. júlí 2013.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. júlí 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun umrædds byggingarleyfis. Hún var samþykkt og tekið fram að erindið hefði verið grenndarkynnt frá 8. febrúar 2013 til og með 20. mars s.á. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 13. ágúst 2015. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 12. maí 2017.

Málsrök kærenda:
Kærendur vísa til þess að hús þeirra, sem sé nr. 21 við Bárugötu, liggi nærri mörkun lóðarinnar við lóð nr. 23. Bæði breidd og hæð viðbyggingarinnar sé úr hófi og ekki í samræmi við götumynd svæðisins. Áætluð hæð viðbyggingarinnar sé 5 m og bil milli hennar og húss kærenda muni ekki ná 3 m. Viðbyggingin hafi veruleg áhrif á ásýnd húss þeirra og aðgengi að garði, ruslatunnum og íbúð í kjallara ásamt því að skuggavarp muni aukast.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þegar kæran barst nefndinni 2. febrúar 2017. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 14. júlí 2015, en í kæru séu ekki færð rök fyrir því hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé bent á að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera stjórnsýslukæru fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun og ákvæði 28. gr. laganna taki af allan vafa um að vísa beri kærunni frá en þar komi fram að óheimilt sé að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tekin.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi tekur undir kröfur Reykjavíkurborgar um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem allir lögboðnir og mögulegir kærufrestir hafi verið löngu liðnir þegar kæra barst.

Framkvæmdum sé löngu lokið og grenndarkynning hafi farið fram þar sem nágrönnum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og komu athugasemdir þeirra til skoðunar. Tveir kærenda hafi samþykkt byggingaráformin og því samrýmist kæran ekki fyrri afstöðu þeirra, en engin ný gögn eða sjónarmið varðandi framkvæmdina hafi komið fram.

Niðurstaða: Í málinu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um að samþykkja viðbyggingu á suðausturhlið húss nr. 23 við Bárugötu.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um tilvist byggingarleyfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis ef fyrirhuguð framkvæmd samræmist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Tekið er fram í 4. mgr. fyrrgreinds ákvæðis að hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. skuli grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi sé gefið út.

Byggingarfulltrúi samþykkti hin kærðu byggingaráform 16. júlí 2013 að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsráðs og samþykkti byggingaráformin að nýju 14. júlí 2015. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 13. ágúst s.á. en byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni var ekki gefið út af byggingarfulltrúa fyrr en 12. maí 2017, eða eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Ljóst er að meira en ár leið frá því að borgarráð samþykki leyfið þar til það var gefið út. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var gefið út en það var ekki gert. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um endurnýjun samþykkis byggingaráformanna, sem átti sér stað tveimur dögum áður en fyrri ákvörðun hefði fallið niður skv. 4. mgr. 2.4.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eða að þeim hafi verið leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna hennar í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Máttu kærendur því vænta þess að samþykki byggingaráformanna væru brott fallin eða að grenndarkynning vegna umræddrar viðbyggingar yrði endurtekin áður en byggingarleyfi yrði gefið út. Verður samkvæmt framansögðu ekki fullyrt að kærendur hefðu mátt vita af hinni kærðu ákvörðun fyrr en í aðdraganda þess að málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Verður við það að miða að kæran hafi í öllu falli borist innan 12 mánaða frá vitneskju kærenda um hina kærðu ákvörðun og verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi mögulega borist eftir lok kærufrests.

Skráð byggingarár hússins samkvæmt Þjóðskrá Íslands er 1922. Fram kemur í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að eigendum húsa sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr sé skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að byggingarfulltrúum beri að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja leiti eftir áliti Minjastofnunar áður en leyfi sé veitt til framkvæmda. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að álit Minjastofnunar Íslands skuli liggja fyrir áður en leyfi sé veitt til þeirra framkvæmda sem fjallað sé um í greininni og ber í byggingarleyfinu að taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Af framangreindu er ljóst að leyfishafa bar að leita álits Minjastofnunar Íslands áður en hann sótti um leyfi hjá byggingaryfirvöldum. Ekki verður séð að það hafi verið gert og var því byggingarfulltrúa óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi án þess að álit stofnunarinnar lægi fyrir.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður hin kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á suðausturhlið hússins Bárugötu 23 er felld úr gildi.