Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2019 Heiðargerði

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 við Heiðar­gerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Heiðargerðis 27 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 að Heiðargerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 17. apríl 2018 sóttu eigendur Heiðargerðis 29, Reykjavík, um byggingarleyfi til að stækka efri hæð hússins með því að byggja fyrir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Á teikningum sem fylgdu umsókninni koma fram þær breytingar sem snúa að yfirbyggingu svalanna og breyting á glugga á suðurhlið hússins. Í umsögn skipulagsfulltrúa var óskað eftir því að gögn yrðu endurbætt og að sýnt yrði fram á að framkvæmdir samræmdust deiliskipulagsskilmálum svæðisins. Ný gögn bárust skipulags­fulltrúa 29. maí 2018 og gerði hann ekki skipulagslega athugasemd við áformin í umsögn sinni frá 1. júní s.á. og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. s.m. Í júní 2019 barst byggingarfulltrúa ábending frá kæranda þess efnis að framkvæmdir væru hafnar án þess að byggingarleyfi væri fyrir hendi. Var kæranda tjáð að byggingarleyfi væri til staðar en haft var samband við eigendur Heiðargerðis 29 og þeim bent á að leyfið gerði ráð fyrir yfir­byggingu úr timbri en ekki steypu. Var af því tilefni sótt um leyfi til að breyta byggingarleyfinu þannig að útveggir byggingarinnar yrðu steinsteyptir og einangraðir að innan auk þess sem plastklæðning yrði fjarlægð og í staðinn sett múrkerfi á allt húsið. Breyting þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tveir nýir gluggar muni verða á suðurhlið Heiðargerðis 29, sem valdi miklu ónæði þar sem útsýni frá gluggunum í garð og stofu kæranda verði algert. Eðli máls samkvæmt hafi gluggar á efri hæðum húsa meiri nábýlisáhrif en gluggar á neðri hæðum. Þá kröfu verði að gera að leitað sé samþykkis nágranna fyrir breytingum sem þessum. Kærandi hafi hins vegar ekki verið látinn vita af breytingunum, hvorki með grenndar­kynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi fyrst orðið var við framkvæmdirnar 10. júní 2019, þegar búið hafi verið að slá upp Dokaplötum og steypuvinna hafi hafist, en hafði fyrir það ekki vitneskju um að til stæði að ráðast í breytingar á húsinu. Engin umræða virðist hafa farið fram á fundum byggingarfulltrúa eða umhverfis- og skipulagsráðs um áhrif breytinganna gagnvart nær­liggjandi húsum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júní 2018. Rúmt ár sé liðið síðan ákvörðunin hafi verið tekin og því ljóst að kærufrestur sé liðinn, en kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 5. júlí 2019. Verði að skýra þetta ákvæði í samræmi við ákvæði stjórnsýslu­réttarins um kærufresti, en þar komi fram að kæru skuli ekki sinnt sé ár síðan hún hafi verið tilkynnt aðila.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi hafi verið upplýstur um tilvonandi framkvæmdir í júní 2018 og ekki hafi komið fram neinar athugasemdir við framkvæmdirnar. Ekkert óhagræði fyrir kæranda felist í framkvæmdunum og þær séu í samræmi við deiliskipulag fyrir Heiðargerði, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2003.

Við flest öll hús í götunni, þar sem stofa hafi verið stækkuð, hafi þurft að byggja yfir svalir vegna leka og mörg fordæmi séu fyrir slíkri framkvæmd. Þá séu fordæmi fyrir því að fleiri en einn gluggi séu á suðurhlið húsa. Byggt hafi verið yfir svalir húsa bæði við sömu botngötu og Heiðar­gerði 27 standi við og víðar í Heiðargerði. Útsýni úr þeim glugga sem hafi verið lokað fyrir hafi verið mun meira í garð kæranda en úr nýjum glugga á suðurhlið hússins. Þá hafi leyfishafi aldrei séð og muni ekki sjá inn í stofu kæranda þar sem húsin standi nánast hlið við hlið. Nýr gluggi gegni m.a. hlutverki neyðarútgangs úr rýminu.

Veitt hafi verið leyfi til að byggja yfir svalir Heiðargerðis 31 hinn 6. ágúst 2008 og hafi sú framkvæmd hvorki verið grenndarkynnt né leitað eftir samþykki eigenda Heiðargerðis 29. Sú framkvæmd hafi þó verið enn umfangsmeiri en sú framkvæmd sem kærð sé. Ekki hafi verið þörf á grenndarkynningu þar sem hin umdeilda framkvæmd sé í samræmi við deiliskipulag og kærandi hafi verið upplýstur um framkvæmdina í júní 2018. Þá hafi kærandi aldrei notið þess einkasvæðis sem vitnað sé til í kæru þar sem eigendur fasteignarinnar beint á móti hafi fulla sýn yfir allan garð kæranda, sem og inn í stofu og svefnherbergi, frá svölum og herbergis­glugga á annarri hæð.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Á það er bent að tveir nýir gluggar verði vestarlega á suðurhlið viðbyggingarinnar. Umræddir gluggar snúi í suður og í átt að garði kæranda. Úr gluggunum sé fullkomin yfirsýn yfir allan garð hans sem áður hafi ekki verið til staðar. Fyrir breytingu hafi verið lítill gluggi á svalahurð, en sá gluggi hafi verið lengra frá húsi kæranda, eða um fjórum metrum norðar. Sjónlína í garðinn hafi þar verið allt önnur og yfirsýn minni. Áréttað sé að útsýni frá efri hæðum húsa sé meiri en frá neðri hæðum og hægt sé að setja upp grindverk allt að 180 cm á hæð sem geti hamlað útsýni frá neðri hæðum. Þrátt fyrir að bílskúr sé á milli húsanna þá skýli hann á engan hátt yfirsýn af efri hæð. Staðhæfingar um annað sýni að Reykjavíkurborg hafi takmarkaða innsýn á málið.

Ákvörðun hafi ekki verið tilkynnt kæranda, hvorki með grenndarkynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um fyrirhugaða stækkun fyrr en 10. júní 2019 þegar fram­kvæmdir hafi hafist. Þá skuli á það bent að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdunum í endanlegri mynd fyrr en 26. júní 2019 og að sú breyting hafi verið samþykkt af byggingar­fulltrúa 2. júlí s.á.

Breytingin gangi gegn skilmálum gildandi deiliskipulags og meginreglum nábýlisréttar. Í deiliskipulagi komi fram að byggingarskilmálar taki mið af þeirri húsakönnun sem gerð hafi verið fyrir hverfið í kjölfar deiliskipulagsvinnunnar. Sé þar mælst til þess að við frekari endurbætur verði hús færð nær uppruna sínum. Um sé að ræða 32 hús sem öll séu eins byggð við Heiðargerði og upprunalegir gluggar séu austarlega á suðurgafli húsanna. Sú breyting að setja tvo glugga á umrætt hús samræmist því ekki því markmiði deiliskipulagsins að varðveita upprunaleg útlits­einkenni og samræmi milli húsanna.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út 26. júní 2018. Engin gögn benda til þess að kærandi hafi vitað eða mátt vita um tilvist þess fyrr en framkvæmdir hófust. Fyrstu skráðu samskipti kæranda og Reykjavíkurborgar eru með tölvupóstum frá 21. júní 2019, en í þeim vísar kærandi til símtals þann sama dag og segist munu senda byggingarfulltrúa mótmæli. Kærandi var upplýstur um kæruheimild til „úrskurðarnefndar“ 27. s.m. Kærandi kveður framkvæmdir hafa hafist 10. júní 2019, en kæra í máli þessu barst nefndinni 5. júlí s.á. Verður því við það að miða að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni innan mánaðar frá því að kærandi varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hið kærða byggingarleyfi í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá var endanlegt byggingarleyfi samþykkt af byggingarfulltrúa 2. júlí 2019. Kæra þessi er því fram komin innan kærufrests og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndar­kynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag ef deiliskipulag liggi ekki fyrir. Í gildi er deiliskipulag Heiðargerðisreits sem samþykkt var í borgarráði 19. júní 2003 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí s.á. Var því ekki þörf á að grenndarkynna hið umdeilda byggingarleyfi.

Í deiliskipulagi Heiðargerðisreits eru svokallaðir viðbyggingarreitir hverrar lóðar skil­greindir. Þannig kemur fram að á lóðinni Heiðargerði 29 er m.a. heimilt að reisa tveggja hæða viðbyggingu, merkt C, við suðvesturhorn hússins. Verður því ekki fallist á með kæranda að viðbyggingin sem slík sé í andstöðu við deiliskipulag svæðisins. Þrátt fyrir að mælt sé fyrir um að taka skuli mið af húsakönnun í skilmálum deiliskipulags getur almennt orðalag þess efnis að hús skuli færð nær upprunalegri gerð ekki gengið framar skýrri heimild til að byggja viðbyggingu við Heiðargerði 29. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif umræddra framkvæmda verði önnur og meiri en búast hafi mátt við samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags. Að þessu virtu verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinu kærða byggingarleyfi sem leitt geti til ógildingar þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 vegna hússins nr. 29 við Heiðargerði.

109/2019 Garðavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 12. nóvember 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 4. nóvember 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 31. nóvember 2017, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að á eftirlitsferð um bæinn hefði byggingarfulltrúi tekið eftir að búið væri að gera stiga utanhúss á fasteign kæranda, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingarfulltrúa, en slík breyting væri háð byggingarleyfi.

Kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn, dags. 8. febrúar 2019, fyrir „úthlaup fyrir ris“ við nefnda fasteign. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var kæranda tilkynnt niðurstaða afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 13. s.m. um synjun á umsókn hans. Þar var  vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að umsókninni hefði fylgt teikning, sem sýndi neyðarstiga frá risi niður á fyrstu hæð umrædds húss, auk samþykkis eiganda Garðavegar 16. Samkvæmt teikningunni væri gert ráð fyrir tröppu frá svölum niður á „einhvers konar pall“ sem girtur væri af með skjólvegg. Hvorki kæmi fram í umsókninni að sótt væri um gerð pallsins né um breytingar á tröppum og stoðveggjum á lóðinni. Tekið var fram í umsögninni að byggingarreitur lóðar væri 9,0×10,0 m samkvæmt mæliblaði frá 1982 og færi því umrædd trappa út fyrir byggingarreit. Þá væri vísað til gr. 6.4.10. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, þar sem tekið væri fram að framstig útitrappa skuli eigi vera minna en 280 mm og uppstig skuli vera á bilinu 120 – 160 mm. Halli á tröppum fyrir almenna umferð utanhúss skuli almennt vera á bilinu 17° til 30°. Með hliðsjón af framangreindu komst byggingarfulltrúinn að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn kæranda.

Í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 15. febrúar 2019 var vísað til þess að heimilt væri að kæra ákvörðun hans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Liggur fyrir að kærandi kærði ekki ákvörðunina.

Umsókn kæranda var fylgt eftir með bréfum, dags. 12. og 22. mars 2018, og með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá bæjaryfirvöldum þar sem farið var fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 20. október s.á. Kom þar fram að enginn stigi væri við húsið en hann kannaðist við að áltröppur lægju á veröndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann sé sakaður um að vera með ósamþykktan stiga utan á vesturhlið hússins. Þar sé þó enginn stigi og hafi aldrei verið en litlar áltröppur liggi þó á verönd kæranda. Jafnframt gagnrýnir kærandi að gerðar séu kröfur um hvíldarplan, uppstig og fram­stig á neyðarstigum. Að sjálfsögðu séu tveir útgangar úr tveimur aðskildum rýmum í risi.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær vísar til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir eðli málsins. Af gögnum málsins, bréfum og umsögn skipulagsfulltrúa megi vera ljóst að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Sveitarfélaginu hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingar­fulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi verði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að hönnun, smíði og notkun mannvirkja uppfylli kröfur laga og reglugerða og að tilskilin leyfi hafi verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda fyrir þeim. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lög­bundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Við vettvangsskoðun kom í ljós að stigi hafði verið reistur að útgöngudyrum rishæðar húss kæranda að Garðavegi 18. Er sú framkvæmd byggingar­leyfisskyld skv. 9. gr. mannvirkjalaga og eru í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði sem tryggja eiga öryggi slíks mannvirkis, sbr. m.a. gr. 6.4.6. í reglugerðinni. Ekki hefur verið veitt byggingar­leyfi fyrir umræddum stiga og var byggingarfulltrúa því heimilt að gera kröfu um að hann yrði fjarlægður, eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeildur stigi yrði fjarlægður yrði kærandi beittur dagsektum frá og með 12. nóvember 2019. Þeirri ákvörðun var ekki fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2019 Langeyrarvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrar­vegar 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 að leggja 20.000 króna dagsektir á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fallist var á kröfu kæranda um frestun réttar­áhrifa með úrskurði nefndar­innar, uppkveðnum 11. október 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. janúar 2019, upplýsti byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar kæranda um að hann hefði til skoðunar meinta óleyfisframkvæmd sem meðal annars fælist í breytingum á útliti bílskúrs að Langeyrarvegi 4 án þess að leyfis meðeiganda hefði verið aflað. Þá væri ekki heimilt að vera með tvær íbúðir í rýminu eins og grunur léki á að búið væri að gera. Óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá kæranda og leiðbeindi honum um að sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum en ella að breyta útliti hússins í fyrra horf. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. janúar 2019, þar sem m.a. var vísað til þess að fyrirhugað væri að halda húsfund um málið og að kærandi hefði haft samband við arkitekt vegna breytinga á útliti hússins.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum ættu að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi væri rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Erindi byggingar­fulltrúa var svarað með bréfi kæranda, dags. 17. s.m., þar sem kom fram að kærandi hefði farið yfir málið með arkitekt og að tryggt yrði að bílskúrsdyr yrðu áfram á húsinu. Ekki væri ljóst hvernig klæðning byggingarinnar færi í bága við mannvirkjalög og þá félli umræddur eignarhluti kæranda undir notkunarflokk 3 samkvæmt gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beitt yrðu 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýslu­réttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði slík ákvörðun að vera skýr, framkvæmanleg og studd málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Framkvæmdir þær sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt. Athugasemdir byggingarfulltrúa um notkun á rýminu til búsetu eigi sér ekki lagastoð enda rúmist það innan stjórnarskrárvarins eignarréttar hvers íbúðareigenda hvernig og með hvaða hætti hagnýtingu séreignar sé háttað. Kærandi hagnýti rýmið með þeim hætti að það sé leigt út til leigjanda, sem nýti það, eftir því sem kærandi best viti, ekki til annars en heimilt sé.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að byggingar­fulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé meðal annars óheimilt að breyta húsnæði, burðakerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Sömu reglur komi fram í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva fram­kvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. í byggingar­reglugerðinni. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. mannvirkjalaga og í gr. 2.9.2. í reglugerðinni ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingar­fulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýslu­réttarins við meðferð málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi enn engin rök fært fyrir því að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi ekki við. Kærandi leggi áherslu á að frá byggingu hússins hafi hans eignarhluti alltaf verið klæddur án nokkurra athugasemda af hálfu sveitarfélags eða meðeiganda, þar til meðeigandi hafi óskað eftir því við kæranda að hann skipti um klæðningu á eignarhlutanum því honum þætti hún ljót. Kærandi hafi ekki talið það forgangsverkefni en hann gæti hugsað sér að klæða húsið með klæðningu eins og þeirri sem hann hafi nú verið sektaður fyrir að nota. Klæðningin sé í sama litatón og fyrri klæðning og telji kærandi hana falla innan marka c-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem endurnýjun vegg­klæðningar þegar notað sé sambærilegt efni og frágangur þannig að útlit byggingar breytist óverulega. Framkvæmdin sé því undanþegin byggingarleyfi og beri kærandi samkvæmt gr. 2.3.7. í reglugerðinni ábyrgð á því að ekki sé gengið á rétt nágranna og að virt séu ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Kærandi upplýsi að vegna breyttra aðstæðna hafi komist á samkomulag milli kæranda og leigjanda um að leigusamningur um bílskúr verði felldur úr gildi og verði samningnum aflýst af eigninni. Samt sem áður mótmæli kærandi því sem fram komi í bráðabirgðaúrskurði að ágreiningur snúist um það hvort afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun. Ekki sé um breytta notkun að ræða heldur sé notkun í samræmi við skráningu, hvort sem rýmið sé nýtt fyrir geymslu bifreiðar, húsgagna, verkfæra eða fyrir búsetu. Kærandi geri ekki kröfu um að skráningu rýmisins verði breytt vegna notkunar. Það sé afstaða kæranda að byggingarfulltrúa skorti valdheimildir til þess að þvinga fram breytta notkun á rými sem kærandi eigi í séreign. Rýmið sé stök bílgeymsla fyrir einn notanda og samkvæmt töflu 9.01 í byggingarreglugerð, skipting mannvirkja í notkunarflokka, teljist slík bílgeymsla hluti einbýlis- og fjölbýlis­­húsa samkvæmt þriðja notkunarflokki. Sá flokkur gildi samkvæmt gr. 9.1.3. um rými þar sem gert sé ráð fyrir að fólk gisti. Telji byggingarfulltrúi að fólk gisti í rýminu þá skorti hann valdheimildir til þess að fá því breytt, hvort sem það mat byggingarfulltrúa á hagnýtingu leigjenda sé rétt eður ei.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum kæranda og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um það hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 fyrir klæðningu á bílskúr hans og ætlaðri breytingu á notkun bílskúrsins.

Samkvæmt samþykktum teikningum að umræddri fasteign eiga að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en framhlið bílskúrsins er með viðarklæðningu. Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist fasteign kæranda annars vegar í eignarhluta 101, sem er skráður sem bílskúr, og hins vegar eignarhluta 103, sem er skráður sem íbúð. Ekki verður ráðið með óyggjandi hætti af því sem fyrir liggur í málinu að bílskúrinn sé nú notaður sem íbúð og liggja ekki fyrir fullnægjandi ástæður til að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki að því er notkun rýmisins varðar. Hins vegar verður ekki fallist á með kæranda að breyting á útliti bílskúrsins falli undir undantekningarákvæði c-liðar gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð, enda getur umdeild breyting ekki talist óveruleg breyting á útliti hans þegar litið er til samþykktra aðaluppdrátta hússins og útlits sambyggðs bílskúrs. Með vísan til framangreinds var byggingar­fulltrúa rétt að krefjast þess að kærandi aflaði sér byggingarleyfis fyrir nýrri/breyttri klæðningu eða eftir atvikum að útliti skúrsins yrði komið í fyrra horf.

Samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunar­úrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, m.a. dagsektum, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Vísaði byggingarfulltrúi til þeirrar lagaheimildar í ákvörðun sinni um að leggja á dagsektir vegna breytinga á útliti fasteignar kæranda. Svo sem rakið hefur verið hér að framan hefur byggingarfulltrúi ítrekað veitt kæranda færi á að veita skýringar og koma á framfæri athugasemdum í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar og var kæranda bent á að yrði tilmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt gæti komið til beitingar dagsekta samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga. Með vísan til þess liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á nefndri hinni ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegar 4 frá og með 9. september 2019 að því er varðar nýja/breytta klæðningu á bílskúr á lóðinni.

78/2019 Dalbraut, Eskifirði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2019, kæra á ákvörðunum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langadal 4, Eskifirði, þá ákvarðanir eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að málið verði tekið til efnismeðferðar að nýju hjá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 2. september 2019.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn Rarik ohf., dags. 31. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja 116 m² viðbyggingu við tengivirkishús fyrirtækisins að Dalbraut 4, Eskifirði. Jafnframt sótti Landsnet hf. 28. júní s.á. um byggingarleyfi fyrir 266 m² og 132 kílóvatta tengivirki á sömu lóð. Báðar umsóknirnar voru teknar fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 8. júlí 2019. Á fundinum var m.a. bókað að lögð hefði verið fram yfirlýsing Rarik um að ákveðið hefði verið í samráði við Landsnet að framkvæmd yrði hljóðmæling umhverfis mannvirkin og að ráðgjafi legði fram tillögur að úrbótum sem myndu stuðla að bættri hljóðvist umhverfis þau. Í ljósi yfirlýsingar Rarik samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi þar sem á deiliskipulagsuppdrætti komi einungis fram að um 33 kv/11 kv og 66 kv aðveitustöðvar sé að ræða, en ekki sé þar gert ráð fyrir 132 kv tengivirki. Lóðin að Dalbraut 4 sé skilgreind í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 sem þjónustulóð en hún liggi ein og sér að íbúðarhverfi og sé deiliskipulögð með því. Ekki verði annað séð en að þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar séu það umfangsmiklar og geti valdið það miklum óþægindum fyrir íbúa húsa á aðliggjandi lóðum að þær brjóti í bága við stefnu Fjarðabyggðar á íbúðarsvæðum. Fyrirhuguð framkvæmd fari langt út fyrir stefnu aðalskipulags og sé í ósamræmi við deiliskipulagsuppdrátt. Áhrif stækkunar á umhverfi og samfélag hafi ekki verið nægilega könnuð, en vakin sé athygli á nauðsyn umfjöllunar um rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar. Jafnframt muni þetta koma til með að hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna á svæðinu.

Málsrök Fjarðabyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að Dalbraut 4 sé á svæði fyrir þjónustu­stofnanir og sé innan reits S1 samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Næst reitnum S1 sé íbúðarbyggð. Lýsing reitsins sé eftirfarandi í aðalskipulagi: „Aðveitustöð og spennistöð við Dalbraut.“ Þá séu skipulagsákvæði reitsins eftirfarandi: „Svigrúm fyrir breytingar á núverandi mannvirkjum og framkvæmdir sem falla að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki.“ Deiliskipulag Barðs 1 geri ráð fyrir aðveitustöð og þeim byggingum sem henni séu tengdar innan lóðar Dalbrautar 4. Á deiliskipulagsuppdrætti sé byggingarreitur staðsettur innan lóðar með almennum hætti. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði greinargerðar deiliskipulags og ákvæði aðalskipulags. Í aðalskipulagi sé beinlínis vísað til þess að til staðar séu heimildir til breytinga á núverandi mannvirkjum og framkvæmdum sem falli að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki. Spennubreyting og uppbygging mannvirkja vegna þess feli ekki í sér breytingu á landnotkun sem verið hafi til staðar á lóðinni og gert sé ráð fyrir.

Eðli máls samkvæmt þurfi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt að sæta því að verða fyrir einhverjum áhrifum af starfsemi sem heimiluð sé á nálægum lóðum. Niðurstöður mælinga á hljóði og rafsegulsviði gefi til kynna að áhrif af starfsemi í heimiluðum byggingum verði fyrst og fremst innan lóðarinnar Dalbrautar 4. Í öllu falli sé ljóst að einungis geti verið um að ræða óveruleg áhrif á lóð kæranda og þau áhrif yrðu langt innan þeirra marka sem íbúar í þéttbýli þurfi að sæta vegna starfsemi á nálægum lóðum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að umræddar framkvæmdir séu nauðsynlegar fyrir aðgengi að raforku á Austfjörðum, íbúum og öðrum á svæðinu til hagsbóta. Annars vegar sé um að ræða viðbyggingu við tengivirkishús, sem feli í sér nauðsynlega uppbyggingu innviða á svæðinu, og hins vegar byggingu nýs tengivirkis. Að því er varði tilvísun kæranda til nauðsynjar á umfjöllun um „rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar“ sé bent á niðurstöðu mælinga Geislavarna ríkisins á segulsviði í og við sambærilegt tengivirki að Hnoðraholti í Kópavogi. Niðurstöður mælinga hafi verið vel innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar. Þá sé bent á skýrslu Verkís hvað varði hávaða en samkvæmt henni fari hávaði frá tengivirkinu aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhuguð byggingaráform taka til og stendur hús á lóð sem er á milli fasteignar kæranda og umræddrar lóðar. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kæranda muni skerðast, svo sem vegna skuggavarps eða innsýnar, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Þegar litið er til staðhátta verður ekki séð að útsýni kæranda muni skerðast að neinu marki. Þá liggja fyrir upplýsingar í málinu sem gefa til kynna að áhrif rafsegulsviðs og hávaði frá umdeildum byggingum verði vel innan lögákveðinna viðmiðunarmarka.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

36/2019 Legsteinaskáli

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 28. s.m. um að veita slíkt byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitar­stjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Með bréfi til úrskurðar­nefndarinnar, dags. 5. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Er þess krafist að báðar ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Þá fer kærandi fer fram á að aðrir nefndarmenn fjalli um málið en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 16. júlí 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deili­skipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells og á grundvelli þeirrar vinnu var tillaga að deiliskipulagi samþykkt á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 12. febrúar 2015. Auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. með yfirskriftinni „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Í greinargerð deiliskipulagsins kom fram að skipulagssvæðið væri á bæjarhlaði Húsafells 1. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst s.á. var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells og hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn að Bæjargili. Skaut kærandi síðargreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði, hvað það varðaði, borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að nefndinni hefði borið að taka rök­studda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafni hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álitsins. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endur­upptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Í kjölfar frekari málsmeðferðar var það og gert og með úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells þar sem krafan var of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einnig var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, þar sem skipulagið hefði ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Að lokum var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn að Bæjargili í landi Húsafells þar sem hið kærða byggingar­leyfi ætti sér hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né hefði málsmeðferð þess farið að undantekningar­ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu.

Hinn 22. janúar 2019 sótti leyfishafi um byggingarleyfi til að reisa skála að Bæjargili í landi Húsafells. Í umsókninni kom fram að skálinn yrði reistur til að varðveita legsteina og minnis­merki sem höggvin hefðu verið úr steinum. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðar­nefndar 1. febrúar 2019 samþykkti nefndin að grenndarkynning færi fram. Fól hún umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum sem hagsmuna hefðu að gæta fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 44. gr. skipulagslaga, og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 14. s.m. Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. s.m., var fyrirhuguð framkvæmd kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 1. apríl 2019, sem hann og gerði með bréfi, dags. 29. mars s.á. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 5. apríl s.á. voru athugasemdir kæranda og svör við þeim lögð fram og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja erindið. Staðfesti sveitarstjórn bókun nefndarinnar á fundi sínum 9. maí s.á. og samþykkti að fela byggingarfulltrúa að afgreiða umsóknina í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Hinn 28. s.m. áritaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisuppdrætti til samþykktar og gaf leyfið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að þrátt fyrir að ekki sé til neitt gilt deiliskipulag fyrir svæðið Bæjargil sé þegar búið að reisa skemmu á svæðinu. Byggingarleyfi vegna skemmunnar sé frá hausti 2015 og byggi á deiliskipulagi sem hafi aldrei tekið gildi samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Bygging legsteinaskála sé langt á veg komin án byggingarleyfis og sé því verið að bæta við öðru húsi á lóðina án deiliskipulags. Ekki hafi verið leyfilegt að grenndarkynna framkvæmdina vegna umfangs hennar. Sér í lagi vegna þess að þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóðinni án deiliskipulags, en einnig vegna þess að fyrirhuguð notkun nýbyggingarinnar sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Enn fremur hafi ranglega verið staðið að framkvæmd grenndarkynningarinnar. Fordæmi séu fyrir því að umsókn um byggingarleyfi án skipulags hafi verið hafnað þar sem þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóð, t.d. hafi því verið hafnað þegar beðið hafi verið um byggingarleyfi fyrir sumarhús í landi Húsafells 1.

Sveitarstjóri Borgarbyggðar og sviðsstjóri skipulagssviðs sveitarfélagsins hafi verið vanhæfir til að koma að grenndarkynningu. Sveitarstjóri hafi lýst því yfir í blaðaviðtali áður en grenndar­kynning hafi farið fram hver niðurstaða hennar yrði. Hann hafi setið fundi þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að láta gefa út byggingarleyfi. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgarbyggðar hafi haft yfirumsjón með grenndarkynningunni. Hann sé eiginmaður hönnuðar sem hafi gert deiliskipulagið fyrir leyfishafa sem hafi verið talið ógilt í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Líkur séu á að hönnuðurinn sé bótaskyldur gagnvart leyfishafa fáist ekki byggingarleyfi fyrir leg­steinahúsinu, en sviðsstjóri hafi ekki vikið af fundi við afgreiðslu skipulagsnefndar í máli þessu.

Framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið með þeim hætti að gera sem minnst úr mótmælum eina aðilans sem hagsmuna hafi að gæta. Skipulagsnefnd hafi ákveðið að grenndar­kynna fyrirhugaðar framkvæmdir til 15 aðila en aðeins þrjár lóðir liggi að umræddu svæði, þar af ein í eigu leyfishafa. Aðrir sem hafi fengið grenndarkynningu séu nánir ættingjar leyfishafa. Sömu aðilar hafi vegna umsóknar um byggingarleyfi í landi Húsafells 1 lagt ríka áherslu á að ekki yrði byggt á svæðinu án skipulags, en núna bregði svo við að engar athugasemdir komi frá þeim vegna byggingar án skipulags Bæjargils. Fram komi í svari skipulagssviðs við athuga­semdum um grenndarkynningu að skálinn sé í 10 m fjarlægð frá lóðamörkum en hið rétta sé að samkvæmt teikningum sé fjarlægðin undir 10 m.

Leyfishafi hafi breytt nafni hússins úr legsteinasafni í legsteinaskála og fullyrði að aðeins standi til að geyma þar steina. Hann hafi reyndar fjarlægt steina í leyfisleysi úr kirkjunni þar sem þeir hafi verið geymdir og ekki fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til flutninganna. Vísað sé til yfirlýsingar starfsmanns stofnunarinnar um að ekki hafi verið veitt leyfi til að fjarlægja steinana af sínum stað, sbr. 3. og 21. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Einnig sé vísað til 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ítrekað hafi komið fram hjá leyfishafa að til standi að setja upp safn á svæðinu. Hann hafi fengið styrki hjá opinberum aðilum og einkaaðilum vegna uppsetningar á legsteinasafni. Til dæmis hafi framkvæmdin fengið styrk fimm ár í röð frá Kirkjugarðasjóði til undirbúnings á uppsetningu legsteinasafns.

Yfirlitsmynd af svæðinu sýni hversu mikið sé búið að þrengja að Gamla bæ. Bílastæðum hafi verið fækkað í fimm og aðkoma að þeim bílastæðum sem nú séu til staðar verði ekki lengur fyrir hendi. Erfitt muni verða að reka gistiheimilið í nálægð við mikinn átroðning gesta og því verði kærandi fyrir tjóni vegna verri reksturs og lægra verðgildis eignarinnar og rekstursins. Auk þess séu möguleikar á stækkun úr sögunni vegna skertrar aðkomu.

Úrskurðarnefndin hafi margsýnt að hún dragi taum leyfishafa með því að komast ítrekað að augljóslega rangri lagalegri niðurstöðu. Þegar nefndarmenn hafi neyðst til að leiðrétta fyrri úrskurð hafi það verið gert með hangandi hendi og leyfishafa verið bent á vægast sagt vafasama útgönguleið. Krefjast verði þess að aðrir nefndarmenn verði fengnir til að fjalla um málið.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun kæru vegna samþykktar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið upp úr með það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Verði ekki fallist á frávísun þessa hluta málsins gerir sveitarfélagið þá kröfu að sjónarmiðum kæranda verði hafnað. Líta verði fram hjá allri umfjöllun hans um pakkhúsið þar sem byggingarleyfi þess sé enn í gildi, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði hennar frá 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016, þar sem kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins var vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur hefði verið liðinn. Bent sé á að upphaflegt byggingarleyfi vegna legsteinaskálans hafi verið afgreitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2016. Á grundvelli þess leyfis hafi leyfishafi hafið framkvæmdir en það hafi ekki verið fellt úr gildi af úrskurðarnefndinni fyrr en 6. desember 2018, en eins og komi fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fresti kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Um leið og leyfið hafi verið fellt úr gildi hafi leyfishafi hætt öllum framkvæmdum og ekki hafið þær á nýjan leik fyrr en byggingarleyfi það sem nú sé kært hafi verið gefið út 28. maí 2019. Því sé bygging legsteinaskálans langt á veg komin.

Sveitarfélagið fái ekki séð af hverju óheimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi á grundvelli málsmeðferðar 44. gr. skipulagslaga, en engar skýringar um þessa málsástæðu koma fram í kæru, t.a.m. hvað sé nákvæmlega við framkvæmdina sem geri hana svo umfangsmikla að óheimilt hafi verið að grenndarkynna hana. Sótt hafi verið um leyfi til að reisa skála yfir legsteina. Slík bygging samræmist gildandi aðalskipulagi á svæðinu þar sem lóðin Bæjargil sé á skil­greindu landbúnaðarsvæði. Að mati sveitarfélagsins þýði það að bygging skálans sé í samræmi við gildandi aðalskipulag en skálinn sé byggður sem geymsluhúsnæði. Á bls. 27 í greinargerð með aðalskipulagi Borgarbyggðar sé einungis kveðið á um skyldu til að deiliskipuleggja lóðir á skilgreindum landbúnaðarsvæðum ef til standi að byggja tvö íbúðarhús eða fleiri á sömu jörð. Þar sem ekkert íbúðarhús sé á lóðinni Bæjargili, og þar sem skálinn teljist heldur ekki sem slíkt hús, telji sveitarfélagið að útgáfa byggingarleyfisins á grundvelli grenndarkynningar hafi ekki brotið gegn gildandi aðalskipulagi. Í athugasemdum með lagafrumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 komi fram að nauðsynlegt hafi verið að gera breytingu á 44. gr. laganna, um grenndarkynningu, til að ljóst væri að heimila mætti útgáfu byggingarleyfis á grundvelli grenndarkynningar ef fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við aðalskipulag hvað varðaði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Sveitarfélagið telji að öll þessi atriði séu til staðar. Þá hafi breytingarlögin fellt úr gildi það ákvæði laganna sem hafi kveðið á um að þessi aðferð væri einungis fær í þegar byggðum hverfum.

Sveitarstjóra sé skylt að sitja fundi sveitarstjórnar sem starfsmaður sveitarfélagsins. Þar hafi hann tillögurétt en engan atkvæðisrétt þar sem hann sé ekki kjörinn fulltrúi, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 884/2013 um stjórn Borgarbyggðar. Sveitarstjóri hafi því ekki komið með óeðlilegum eða ólögmætum hætti að þeirri ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. febrúar 2019 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 1. febrúar þess efnis að grenndarkynna hið umsótta byggingarleyfi. Þá hafi sviðsstjóri umhverfissviðs setið fundinn, eins og hann geri jafnan, en hvergi sé bókað um sérstaka aðkomu hvors aðila fyrir sig að þeirri tillögu sem kjörnir fulltrúar hafi greitt atkvæði um á umræddum fundum. Þá leiði kærandi engar líkur að því að sú staðreynd að rangt nafn hafi verið notað fyrir deiliskipulag svæðisins hafi nokkur áhrif á það hvort sviðsstjórinn uppfylli hæfisreglur í því máli sem nú sé kært. Ákaflega langsótt tengsl sviðsstjórans við gerð deiliskipulagsins, sem hafi verið afgreitt áður en hann hafi tekið til starfa hjá sveitarfélaginu, hafi ekki nokkur einustu áhrif á hæfi hans til að annast störf fyrir sveitarfélagið.

Sveitarfélagið hafi grenndarkynnt umsókn um leyfið fyrir þeim í næsta nágrenni við lóðina Bæjargil sem hún hafi talið eiga hagsmuna að gæta. Leyfishafi sé fæddur og uppalinn á Húsafelli og séu skyldmenni hans mörg á svæðinu og því eigendur margra þeirra lóða og jarða sem næst Bæjargili standi. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að grenndarkynnt hafi verið fyrir viðkomandi aðilum. Þá hafi bréf umræddra aðila til skipulagsyfirvalda vegna eldri umsóknar kæranda um byggingarleyfi á lóðinni Húsafelli 1 ekkert gildi í þessu máli. Viðkomandi aðilum sé fullkomlega heimilt að hafa aðrar skoðanir á því máli en því sem nú sé til meðferðar hjá nefndinni.

Umsókn hafi borist frá leyfishafa um legsteinaskála. Í þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir sveitarfélagið liggi ekkert fyrir um áætlanir leyfishafa um síðari notkun hússins. Sveitarfélaginu sé skylt að afgreiða umsóknir í samræmi við efni þeirra, en ekki það sem kunni mögulega að eiga sér stað síðar. Þá sé bent á að mögulegur flutningur legsteina úr kirkjunni án leyfis sé ekki málefni sem falli undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar.

Yfirlitsmynd sem kærandi vísi til sé aðeins afstöðumynd sem lögð hafi verið fram með hönnunargögnum í upplýsingaskyni. Sem slík sé hún ekki bindandi í málinu, hvorki fyrir eigendur Gamla bæjar né leyfishafa, enda nái hið kærða byggingarleyfi og grenndarkynning vegna þess aðeins til þess að reisa skála yfir legsteina. Leyfið nái ekki til framkvæmda á lóð við húsið. Umrædd yfirlitsmynd nái aðeins til lóðarinnar að Bæjargili og kærandi sé ekki með nokkru móti skuldbundinn til að haga bílastæðum á sinni lóð í samræmi við uppdráttinn. Jafnframt bendi sveitarfélagið á að aðkoma að stæðum á lóð Gamla bæjar sé ekki frá sameiginlegu svæði, eins og kærandi haldi fram. Sjá megi af umræddri yfirlitsmynd og lóðarblaði Bæjargils frá 4. febrúar 2013 að aðkoma að bílastæðum við Gamla bæ sé yfir lóðina Bæjargil. Það sé því rangt að um sameiginlegt svæði sé að ræða. Leyfishafa sé því heimilt að ráðstafa lóðinni eins og hann kýs, innan þeirra marka sem talist geti eðlilegt, án þess að kærandi hafi neitt um það að segja. Engar kvaðir hvíli á leyfishafa sem skikki hann til að taka sérstakt tillit til bílastæðamála við Gamla bæ við ráðstöfun eignar sinnar. Einnig sé bent á að hin framlagða yfirlitsmynd sýni glögglega að fyrirhugað sé að setja upp nýtt stæði fyrir bíla og rútur austan megin að Bæjargili. Því sé ljóst að umferð ökutækja og ferðamanna fyrir framan Gamla bæ verði ekki með þeim hætti sem lýst sé í kæru og að möguleg áhrif þeirrar umferðar fyrir rekstur í Gamla bæ séu stórkostlega ofmetin hjá kæranda. Ekkert liggi fyrir í málinu sem sýni fram á það að rekstur gistiheimilis muni líða fyrir það að reistur verði legsteinaskáli á lóð leyfishafa.

Vegna kæru á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 28. maí 2019 um að veita hið umrædda byggingarleyfi vísi sveitarfélagið til fyrri umfjöllunar. Einnig sé bent á að hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né lögum nr. 80/2012 um menningarminjar sé kveðið á um að Minjastofnun Íslands þurfi að veita samþykki sitt fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir nýju húsi á svæði sem ekki falli undir lög nr. 80/2012. Ítrekað sé að hafi legsteinar verið fluttir án samþykkis Minjastofnunar falli það atriði ekki undir valdsvið nefndarinnar.

Ekkert komi fram í kærunni hvaða máli það eigi að skipta að umræddur legsteinaskáli sé nær lóðamörkum en 10 m. Engin ákvæði skipulagslaga, skipulagsreglugerðar, mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar mæli fyrir um að óheimilt sé að byggja skálann nær lóðamörkum en 10 m. Eina ákvæði framangreindra laga- og reglugerðabálka sem kveði á um lágmarksfjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum sé gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem segi að í frístundabyggðum skuli ekki byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Þar sem hið kærða byggingarleyfi sé ekki veitt fyrir byggingu innan frístundabyggðar telji sveitarfélagið þetta atriði ekki skipta máli.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að stjórnsýslumeðferð byggingarleyfis­umsóknar hans hafi ekki verið háð neinum annmörkum sem valdið geti ógildingu leyfisins. Byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Einungis hafi borist ein athugasemd á kynningartíma og hafi hún verið frá kæranda. Aðrar athugasemdir hafi ekki borist þrátt fyrir að byggingarleyfisumsóknin hafi sannanlega verið grenndarkynnt fyrir öðrum aðilum. Engu breyti hvort tengsl kunni að vera á milli byggingarleyfishafa og annarra fasteignaeigenda á áhrifasvæði grenndar­kynningar. Framkvæmdir hafi legið alfarið niðri frá úrskurðardegi 6. desember 2018 fram til þess að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út. Fullyrðingum kæranda um annað sé mótmælt sem röngum. Fyrir liggi að fallið hafi verið frá áformum um að byggja safn og sé einungis verið að byggja skála, enda samræmist bygging safns vart gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að pakkhúsið sé hluti af þeim byggingum sem séu á lóðinni og verði að skoðast með öðrum byggingum sem séu til staðar. Varðandi umræddan kærufrest vegna byggingarleyfis hússins þá sé bent á þá niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulagið hafi aldrei tekið gildi. Að sögn starfsmanns Borgarbyggðar hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Fundargerð afgreiðslufundar þar sem byggingarleyfið hafi verið samþykkt finnist ekki á vef sveitarfélagsins og því hafi það aldrei öðlast gildi. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi komið fram að kæranda hafi ekki mátt vera ljóst að framkvæmdir hafi átt sér stað fyrr en 26. júlí 2016. Það sé því ekki hægt að halda því fram að kærufrestur hafi ekki átt að hefjast fyrr en í júlí 2016, en þá hafi framkvæmdir verið kærðar og þess krafist að vinnu við pakkhús yrði hætt tafarlaust. Tekið sé fram að þegar talað sé um legsteina­safn í upphaflegri kæru hafi að sjálfsögðu verið átt við alla framkvæmdina í heild, ekki bara eitt hús.

Í athugasemdum kæranda sem bárust vegna grenndarkynningarinnar hafi Borgarbyggð verið bent á hvers vegna ekki mætti grenndarkynna tillöguna, en m.a. hafi verið vísað til leiðbeiningarblaða og fjölda og stærð bygginga á lóðinni. Því sé mótmælt að nýtt samþykkt byggingarmynstur á lóð Bæjargils sé í samræmi við byggðamynstur á svæðinu. Með nýjustu byggingunni séu komin sex á hús á lóðina, alls um 455 m2 að flatarmáli. Spurt sé hvort leyfilegt sé að byggja ótakmarkaðan fjölda húsa af ýmsum gerðum á lóð ef þau séu ekki skráð sem íbúðarhús. Sex hús á 9.104 m2 svæði með nýtingar­hlutfall 0,05 sé talsvert annar þéttleiki en á öðrum lóðum í nágrenni Bæjargils. Mun færri hús og lægra nýtingarhlutfall sé á aðliggjandi lóðum Húsafells 1, 2 og 3.

Sveitarfélagið hafi ekki skýrt val sitt á þeim sem hafi fengið grenndarkynninguna. Flestir þeirra eigi ekki land sem liggi að Bæjargili. Sveitarfélagið verði að skoða málið með tilliti til jafnræðisreglu og meðalhófs. Sömu aðilar sem hafi fengið grenndarkynningu í tveimur málum varðandi tvær aðliggjandi lóðir séu ýmist sammála því að byggt sé án skipulags á Húsafells­torfunni eða eindregið á móti því.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kærandi máls þessa fer m.a. fram á að aðrir nefndarmenn en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verði fengnir til að fjalla um málið með þeim rökum sem áður greinir. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um þær ástæður sem leiða til þess að starfsmaður eða nefndarmaður sé talinn vanhæfur til meðferðar máls. Þær vanhæfisástæður sem tíundaður eru í 1.-5. tl. 1. mgr. ákvæðisins eiga ekki við um nefndarmenn úrskurðarnefndar­innar. Þá eiga þeir ekki hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og engar aðrar þær aðstæður eru til staðar sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu í skilningi 6. tl. nefnds lagaákvæðis, enda verður nefndarmaður ekki talinn vanhæfur við það eitt að hafa fjallað um sömu deilumál aðila í fyrri úrskurði nefndarinnar. Breytir þar engu þótt málið hafi verið endurupptekið á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis. Þar sem ekki eru lagaskilyrði til þess að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar víki sæti í máli þessu ákveður formaður, líkt og endranær, hvernig nefndin er skipuð í málinu, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um að veita greint byggingarleyfi. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í samræmi við framangreind lagaákvæði var það ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvörðun sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í því máli sem hófst með umsókn leyfis­hafa, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þeim hluta kærunnar verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Umsókn um hið kærða byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn og svör við athuga­semdum kæranda voru send honum með bréfi, dags. 17. maí 2019. Umsókn um hið umrædda byggingarleyfi var síðan samþykkt af byggingarfulltrúa 28. s.m.

Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 felst grenndarkynning í því að skipulags­nefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta, leyfisumsókn. Skal skipulags­nefnd leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar, sbr. gr. 5.9.3. reglugerðarinnar. Verður það ekki talinn annmarki á grenndarkynningu umsóknar leyfishafa að grenndarkynnt hafi verið fyrir fleiri en lóðarhöfum aðliggjandi lóða, enda verður hugtakið nágranni ekki skilgreint svo þröngt. Eftir sem áður er það hlutverk þeirra sem að leyfisveitingu koma að gæta samræmis við skipulag og jafnræðis milli aðila í sambærilegum tilvikum, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað séð en að svo hafi verið gert í þessu máli.

Í 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga til þátttöku í meðferð eða afgreiðslu mála þar sem á, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, gildi ákvæði stjórnsýslulaga sé ekki öðruvísi ákveðið í sveitarstjórnarlögunum. Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga er starfsmaður talinn vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Samkvæmt 54. gr. sveitarstjórnarlaga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans skv. 1. mgr. 55. gr. laganna að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins sam­ræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi. Hann skal sjá um að fundir sveitarstjórnar, byggðaráðs og annarra nefnda sveitarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna. Verður að líta svo á að þáverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, sem var ekki kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, hafi komið að undirbúningi málsins með setu á fundum sveitarstjórnar Borgarbyggðar í málinu með hliðsjón af lögmæltu hlutverki hans samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar 6. desember 2019 um ógildingu byggingarleyfis legsteinasafns lýsti sveitarstjóri því yfir í blaðaviðtali að vinna yrði nýtt byggingarleyfi sem standast myndi kröfur, fara í grenndarkynningu og gefa leyfið út aftur. Þau ummæli gátu verið til þess fallin að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum sveitarstjórnar og gat því ekki með beinum hætti komið að þeim ákvörðunum hennar að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina annars vegar og hins vegar staðfesta bókun sömu nefndar um fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umþrætta byggingarleyfi. Þá má sjá af afritum ræða af fundi sveitarstjórnar 9. maí 2019, þar sem samþykkt var að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi legsteinaskálans, að sveitarstjórinn tók ekki til máls. Að því virtu verður að telja þátt hans í meðferð málsins það lítilfjörlegan að ekki hafi verið hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á á ákvarðanir sveitarstjórnarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna, og því ekki um vanhæfi hans að ræða. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgar­byggðar mun vera kvæntur hönnuði deiliskipulags þess sem úrskurðarnefndin taldi ógilt í úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016. Sá hönnuður telst ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og er því ekki um vanhæfi sviðsstjórans að ræða á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Þá verður heldur ekki séð að þau fjölskyldutengsl leiði til vanhæfis sviðsstjórans á grundvelli annarra vanhæfisreglna stjórnsýslulaga eða sveitarstjórnarlaga.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að þeir formannmarkar hafi verið á meðferð málsins að varði ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Svo sem frá er greint í málavöxtum er forsaga máls þessa nokkur og hafa bæði deiliskipulag og byggingarleyfi vegna umdeildra framkvæmda að Bæjargili verið til umfjöllunar hjá úrskurðar­nefndinni. Deiliskipulag það sem í tvígang hefur ratað til nefndarinnar hefur ekki fengið efnislega skoðun af hálfu hennar, enda var því vísað frá í bæði skiptin. Í fyrra skiptið þar sem kærufrestur var útrunninn og í það seinna þar sem skipulagið hafði ekki tekið gildi. Í nefndu deiliskipulagi var veitt heimild fyrir byggingu sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem meðal annars gæti hýst steinhörpur og önnur listaverk. Fram kom í greinargerð skipulagsins að það samræmdist ekki þeirri stefnu sem fram kæmi í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 en það væri hins vegar í samræmi við þá starfsemi sem þar hefði verið stunduð um árabil. Þar sem deiliskipulagið öðlaðist ekki gildi átti byggingarleyfi það sem til umfjöllunar var í kærumáli nr. 105/2016 ekki stoð í því. Var jafnframt rakið í seinni úrskurði vegna þess máls að hvort sem byggingarleyfið ætti sér stoð í aðalskipulagi eða ekki lægi fyrir að málsmeðferð skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði ekki farið fram. Var byggingarleyfið því ógilt vegna formannmarka og hlaut ekki efnislega athugun af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfi, þó ekki samhljóða, hefur nú verið gefið út að nýju á grundvelli áðurnefndrar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem heimilar að veitt sé byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að á hinu kærða byggingarleyfi séu ekki þeir formannmarkar að ógildingu varði kemur næst til skoðunar hvort skilyrði samkvæmt nefndu ákvæði hafi verið uppfyllt svo veita mætti leyfi að afstaðinni grenndarkynningu.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og samkvæmt því er Bæjargil á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar m.a. átt við þróun landbúnaðar og megináhrifaþætti, helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum, og helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Fjallað er um stakar framkvæmdir í k-lið sömu greinar, þ.e. að eftir því sem við eigi skuli gera grein fyrir og marka stefnu um hvernig farið skuli með stakar skipulags­skyldar framkvæmdir, sem ekki sé talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir, enda sé um að ræða framkvæmdir sem ekki séu taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Gefin eru dæmi og tekið fram að þetta geti einnig átt við um stök frístundahús, stök íbúðarhús og aðra mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur. Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og er landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Af framangreindum ákvæðum verður ráðið að á skilgreindum landbúnaðarsvæðum skuli mannvirki fyrst og fremst tengjast búrekstri en í aðalskipulagi sé heimilt að mæla fyrir um byggingu mannvirkja án tengsla við búrekstur. Í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er í kafla 4.6 að finna stefnumörkun varðandi landbúnaðarsvæði, m.a. heildarfjölda leyfilegra íbúða- og frístundahúsa á lögbýlum. Þá er í kaflanum mælt fyrir um að byggingar sem tengist annarri atvinnustarfsemi séu ekki heimilaðar á landbúnaðarsvæðum ef undanskildar séu byggingar vegna minniháttar verktakastarfsemi út frá bújörðum, vindmylla með hámarks rafafli 25 kW og vatnsaflsvirkjana með rafafli allt að 200 kW, enda sé svæðið ekki á náttúruminjaskrá eða skilgreint sem hverfisverndarsvæði. Hið kærða byggingarleyfi heimilar ekkert þeirra mann­virkja sem í aðalskipulagi eru tilgreind heldur byggingu skála til að varðveita legsteina. Slíkur skáli tengist hvorki búrekstri né fellur undir fyrrgreindar undanþáguheimildir aðalskipulagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðal­skipulags Borgarbyggðar 2010-2022. Verður byggingarleyfið því fellt úr gildi með hliðsjón af kröfu 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um samræmi byggingarleyfis við aðalskipulag, sbr. og ákvæði 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga sem jafnframt áskilja samræmi mannvirkja og notkun þeirra við skipulagsáætlanir svo slíkt leyfi verði veitt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells.

126/2019 Brúnás

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 4. nóvember 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 12 við Brúnás í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Brúnási 14, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Garðabæ frá 4. nóvember 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 12 við Brúnás. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að heimilaðar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Engar framkvæmdir hafa átt sér stað samkvæmt hinu kærða leyfi og þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 23. desember 2019 og í janúar 2020.

Málavextir: Hinn 9. janúar 2018 samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúa bæjarins um samþykkt byggingaráforma til byggingar einbýlishúss á lóðinni Brúnási 12 í Garðabæ. Í bókun bæjarráðs var tekið fram að útgáfa byggingarleyfisins væri háð því að samhliða yrðu gefin út byggingarleyfi fyrir lóðirnar Brúnás 10 og Brekkuás 7 samkvæmt ákvæði í úthlutunarsamningi lóðarinnar. Hinn 19. febrúar s.á. bárust bæjaryfirvöldum breyttir aðaluppdrættir fyrir Brúnás 12. Byggingarfulltrúi samþykkti breytta uppdrætti 6. júlí 2018 og gaf út byggingarleyfi 13. s.m. Kærandi kærði þá ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísaði málinu frá með úrskurði 12. apríl 2019 af þeirri ástæðu að samþykkt breyttra aðaluppdrátta hafði ekki verið borin undir bæjarráð, líkt og kveðið væri á um í 2. gr. samþykktar nr. 863/2011 um afgreiðslu byggingarnefndar Garðabæjar.

Í kjölfar greinds úrskurðar vísaði bæjarráð málinu til nýrrar meðferðar byggingarfulltrúa sem samþykkti hinn 4. nóvember 2019 breytt byggingarleyfi vegna Brúnáss 12 samkvæmt teikningum, dags. 19. október s.á. Bæjarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa frá 4. nóvember á fundi sínum 5. nóvember s.á. og var byggingarleyfi gefið út 12. nóvember 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekki verði séð að byggingarfulltrúi hafi haft samráð við skipulagsnefnd bæjarins við útgáfu umdeilds byggingarleyfis líkt og honum hafi borið að gera skv. 3. gr. samþykktar um afgreiðslu byggingarnefndar Garðabæjar nr. 863/2011.

Áætlað sé að fyrirhuguð nýbygging á lóðinni Brúnási 12 verði reist framan við suðurhlið lóðar kæranda þar sem sé að finna sólaraðstöðu og verönd. Grenndaráhrif fyrirhugaðs húss muni því verða mikil fyrir íbúa að Brúnási 14, einkum vegna innsýnar, skuggavarps og takmarkaðs útsýnis til suðurs ásamt því að það muni skapa ójafnvægi í götumynd og samræmi húsanna. Það séu einkum tvö atriði sem geri grenndaráhrifin sérstaklega íþyngjandi, annars vegar gólfhæð og hins vegar vegghæð.

Samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum sé á lóðinni Brúnási 12 heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss, E-1, og á skýringarmyndum í sérskilmálum séu sýnd dæmi um útfærslur slíkra húsa. Í gr. 1.1.9. í skipulaginu komi skýrt fram að fyrir hús af þeirri gerð sé hæðartala fyrir gólfhæð þess hluta húss sem snúi að götu tilgreind á hæðarblöðum. Að mati kæranda eru hæðartölur samkvæmt hæðarblaði bindandi, sbr. gr. 1.1.8. í skilmálum deiliskipulagsins. Hæðartala gólfhæðar hefði samkvæmt því átt að vera 34,30 m.y.s. en samkvæmt samþykktum teikningum sé hún 34,81 (34,806) m.y.s. sem sé rúmum metra yfir götuhæð á lóðarmörkum miðað við útgefnar hæðartölur. Feli slíkt í sér að sú vernd sem nærliggjandi lóðarhöfum væri ætluð færi forgörðum. Gólfhæð í húsi kæranda sé annars vegar 34,26 og hins vegar 34,70 og hæð á verönd 34,20. Af þessu leiði að það muni um 55 cm á gólfhæð í húsi kæranda og hins fyrirhugaða húss.

Gólfkóti hússins að Brúnási 16, sem sé við hliðin á húsi kæranda, sé 22 cm lægri en gólfkóti í húsi kæranda sem hafi átt að vera 34,10 en orðið hærri fyrir mistök. Íbúar að Brúnási 16 hafi vegna þessa upplifað óþægileg grenndaráhrif. Kærandi hafi reist sitt hús í samræmi við uppgefna skilmála í trausti þess að sömu reglur myndu gilda um væntanlega nýbyggingu á lóðinni nr. 12. Afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi því brotið gegn skilmálum deiliskipulags fyrir Hraunsholt, 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, jafnræðisreglunni og réttmætum væntingum kæranda. Í gr. 2.1.1. í skipulagsskilmálum fyrir hverfið sé tekið fram að öll mannvirki á svæðinu skuli hönnuð þannig að þau falli sem best að landi. Það að lyfta húsi einn metra yfir götuhæð falli ekki að því markmiði. Úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu að þessi fyrirvari sé bindandi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 20/2004 frá 25. júní 2004. Þá beri að nefna að samkvæmt upplýsingum frá Garðabæ hefur sú regla almennt gilt í nýjum hverfum að plötuhæð sé um 30 cm hærri en götuhæð.

Áætlað sé að hið fyrirhugaða hús verði í svonefndum fúnkisstíl, með flötu þaki og alla veggi jafnháa. Af því leiði að salarhæð og vegghæð muni verða mun meiri en verið hefði ef húsið hefði verið hannað með annarri þakgerð og auki þetta byggingarlag grenndaráhrif hússins. Áætlað sé að þakvirkið (þakveggir) verði 1,30 m á hæð og miðað við að hið fyrirhugaða hús muni fylla nánast alveg út í byggingarreit á allar hliðar. Hús kæranda sé einnig fúnkishús á einni hæð með sléttri þakplötu sem sé öll í sömu hæð. Vegghæðin sé 3,75 m eða hálfum metra lægri en fyrirhuguð vegghæð á fyrirhuguðu húsi. Salarhæðin í húsunum sé samt sem áður nánast sú sama, þ.e. 3,05 m. Samanlagt, með aukinni gólfhæð, muni húsið að Brúnási 12 gnæfa 1,05 m yfir suðurhlið húss kæranda að Brúnási 14.

Gildandi deiliskipulag sé ófullkomið og afar fátæklegt þegar komi að lýsingu húsagerða og tilgreiningar á vegghæð. Engin textaumfjöllun víki að vegghæðinni og hafi bæjaryfirvöld því helst rýnt í skýringarmyndir í sérákvæði nr. 2.1.1. í skilmálunum, en á þeim sé efsti hluti húsa sýndur með brotnum línum og hjálparlínum sem sýni svigrúm til mismunandi þakgerða. Á fundi með bæjarverkfræðingi hafi komið fram að skilja mætti skýringarmyndirnar ýmist með þeim hætti að þær sýndu svigrúm til mismunandi þakgerða og tilgreindu þá hámarks mænishæð (þakhæð) eða að myndirnar settu engin sérstök mörk varðandi vegghæð, sem gæti þá verið sú sama og þakhæð í tilviki húsa með sléttu þaki. Hinn síðarnefndi skilningur fæli þá í sér að skálínur á myndunum sem sýndu hallandi þak væru í raun tilgangslausar. Sá skilningur að vegghæðin takmarkist aðeins af ítrustu útlínum skýringarmyndar í gr. 2.1.1. í skilmálum, myndi hafa í för með sér að vegghæð húss af gerðinni E-1 með sléttu þaki gæti verið 5,4 m, sem sé nánast vegghæð tveggja hæða húss. Í ljósi áðurnefnds úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála leiki ekki vafi á því hvernig beri að túlka skilmálana hvað vegghæðina varði. Niðurstaðan hljóti að vera fordæmisgefandi í því máli sem hér sé til umfjöllunar enda sé um að ræða sömu skipulagsskilmála og engar breytingar hafi verið gerðar frá þessum tíma á deili­skipulaginu hvað varði vegghæð. Brottfall byggingarreglugerðar nr. 441/1998 geti heldur ekki leitt til þess að takmörkun á vegghæð samkvæmt skilmálum verði önnur og rýmri en gildi um öll önnur hús í hverfinu sem þegar hafi verið byggð. Skilmálana verði að skýra út frá þeim reglum sem voru í gildi þegar hverfið var byggt og önnur lögmál geti ekki gilt um þrjár eftir­legulóðir sem ekki hafi verið unnt að úthluta samtímis öðrum lóðum í hverfinu. Slíkur skilningur fari í bága við jafnræði lóðarhafa, markmið skipulagslaga um réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, réttmætar væntingar þeirra sem þegar hafi reist hús sín auk þess að fara gegn grenndarhagsmunum eigenda aðliggjandi lóða.

Að mati kæranda hafi hann mun ríkari hagsmuni af því að hin kærða ákvörðun verði ógilt en leyfishafi að fá að reisa hið fyrirhugaða hús óbreytt. Hægur vandi sé fyrir leyfishafa að lækka gólfhæð hússins í samræmi við uppgefnar hæðartölu og það sem almennt hafi tíðkast í Garðabæ, auk þess að lækka hina umfangsmiklu þakveggi og ganga frá húsinu eins og almennt tíðkist með hús með flötu þaki, t.d. hús kæranda. Innra skipulag hússins, þ.m.t. lofthæð, myndi ekkert breytast og útlit hússins myndi einungis taka þeim breytingum að vegghæð yrði lægri og myndi samræmast betur einnar hæðar húsum til norðurs við fyrirhugað hús.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi ekki borist innan eins mánaðar kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Fundargerð bæjarráðs frá 5. nóvember 2019, sem hafði að geyma hina kærðu ákvörðun, hafi verið birt á vef bæjarins samdægurs en kæra í máli þessu sé dagsett 16. desember s.á. Í kæru hafi komið fram að kærandi hafi uppgötvað hina kærðu ákvörðun með skoðun fundargerða bæjarráðs á vef Garðabæjar. Kæranda hafi því verið fullkunnugt um með hvaða hætti hin kærða ákvörðun hefði verið birt og mátti því vera kunnugt um hana innan kærufrests. Hvorki Garðabæ né leyfishafa hafi borið skylda til að upplýsa kæranda um birtingu ákvörðunarinnar.

Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum hafi verið heimilt að byggja á lóðinni að Brúnási 12 hús af gerðinni E-1 eða E-2. E-1 hafi verið skilgreint sem einbýlishús á einni hæð en hús að gerðinni E-2 sem einbýlishús á einni og hálfri hæð. Við afgreiðslu byggingarfulltrúa á uppdráttum fyrir húsið hafi verið litið til þess að samkvæmt skipulagsskilmálum mætti heildarhæð einnar hæðar húss af gerðinni E-1 vera allt að 5,40 m. Samkvæmt uppdráttum hússins að Brúnási 12 sé fyrir­huguð heildarhæð hússins á þeirri hlið sem snúi að húsi kæranda 4,25 m sem sé 1,15 m lægra en leyfileg hámarkshæð samkvæmt skilmálum. Því sé ljóst að gólfhæð hússins hafi engin áhrif á þá heildarhæð sem kærandi mátti alltaf búast við en samkvæmt skipulagsskilmálum hefði mátt reisa hús á lóðinni með heildarhæð 7,4 m. Í skipulagsskilmálum komi fram að vísað sé til hæðarblaða hvað varði hæðartölur fyrir gólfhæð þess hluta hússins sem snúi að götu en að öðru leyti séu ekki frekari fyrirmæli um gólfhæð. Þannig sé ekkert því til fyrirstöðu að hús sé stallað frá götu með enn hærri gólfhæð sem geti haft áhrif á heildarhæð hússins. Hið kærða hús, sem sé einnar hæðar einbýlishús, raski á engan hátt götumyndinni en hús við götuna séu ýmist tveggja eða einnar hæðar eins og heimilt hafi verið samkvæmt skilmálum.

Hæðarblöð lóðarinnar teljist ekki vera hluti af deiliskipulagi sem gildi fyrir lóðina og séu ekki bindandi með sama hætti og skipulagsskilmálar. Í grein 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 séu hæðar- og mæliblöð skilgreind sem hönnunargögn sem unnin hafi verið í kjölfar deili­skipulags og lýsi með nánum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru sem þurfa þyki. Telja verði að byggingarfulltrúi geti heimilað frávik frá hæðarkóta gólfhæðar enda sé þess gætt við hönnun hússins að heildarhæð þess sé innan tilskilinna skilmála. Heildarhæð þess sé vel innan skilmála og frávik um 50 cm frá uppgefinni gólfhæð geti engan vegin talist verulegt. Grenndaráhrif vegna innsýnar geti ekki talist vera fyrir hendi þegar litið sé til þess að norðurhlið húss kæranda snúi að Brúnási 12 þar sem séu þvotta­herbergi, baðherbergi og hjónaherbergi.

Vegghæðarreglur sem fram hafi komið í 74. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 gildi ekki lengur. Húsið hafi verið byggt eftir byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það sé án efa fjöldi dæma um hús í hverfinu þar sem vegghæð sé meiri en tilvitnað ákvæði áskilji, m.a. eigi það við um hús kæranda. Hæðarsetning og hæð fyrirhugaðs húss að Brúnási 12 falli vel að götumynd og að landi og hafi ekki meiri grenndaráhrif en skilmálar gefi til kynna og búast megi við.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi fer fram á að máli þessu verði vísað frá en að öðrum kosti að kröfum kæranda verði hafnað. Því sé mótmælt að grenndaráhrif fyrirhugaðrar nýbyggingar verði mikil fyrir kæranda vegna innsýnar, skuggavarps og takmarkaðs útsýnis til suðurs. Gildandi deiliskipulag innihaldi ekki hæðarkóta húsa heldur komi þeir fram á hæðarblöðum (mæliblöðum) sem unnin hafi verið og gefin út í kjölfar deiliskipulagsins. Mæliblöð séu hvorki staðfest af sveitarstjórn né birt í B-deild Stjórnartíðinda og geti því ekki talist vera hluti af skipulaginu og lúti breytingar á þeim því ekki þeim reglum sem gildi um breytingar á deiliskipulagi. Byggingaryfirvöldum hafi því ekki verið skylt að kynna þá breytingu eins og um deiliskipulag væri að ræða. Þessu til stuðnings sé vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 9/2008 frá 23. október 2008. Hin meinta skerðing kæranda snúist eðli málsins samkvæmt ekki um gólfkóta heldur fyrst og fremst þær forsendur sem fyrir hendi séu um hámarkshæð hússins. Í deiliskipulaginu komi fram að leyfileg hámarkshæð frá gólfkóta aðalhæðar sé 5,4 m og að húsagerðir séu frjálsar. Skilgreind hámarkshæð gólfplötu innkomuhæðar sé 1,0 m frá götukóta. Það sé því ljóst að samkvæmt deiliskipulaginu sé heimilt að byggja veggi upp í 5,4 m hæð frá gólfkóta, sem leyfilegt sé að hafa 1 m fyrir ofan götukóta, aðkomuhæðar að því tilskildu að þak sé flatt, en í hinu kærða byggingarleyfi er einungis gert ráð fyrir því að hámarkshæð útveggja verði 4,25 m og gólfkóti aðkomuhæðar sé 0,95 fyrir ofan götukóta. Samanlögð hæð útveggja og fyrrgreindum 1,0 m sé því 5,20 sem sé 20 cm undir hámarkshæð útveggja samkvæmt deiliskipulagi. Við lauslega skoðun megi sjá að hæðartölur nærliggjandi húsa séu ekki allar í samræmi við fyrirliggjandi mæliblað. Sú framkvæmd að víkja frá hæðarkóta á hæðarblaði til hækkunar eigi stoð í skipu­laginu sjálfu þar sem skýringarmyndir fyrir hús af gerðinni E-1 ofan götu sýni aðalgólfplötu allt að 1 m yfir götuhæð og megi líta svo á að það sé hámarksheimild skipulagsins varðandi hæð aðalgólfs að götu. Hafa verði í huga að hæðarblöð eru hönnunargögn sem gerð séu á grundvelli skipulags og verði að vera í samræmi við það og innan heimilda þess. Það séu hins vegar öfug­mæli að halda því fram að skipulagið eigi að vera í samræmi við hæðarblöðin sem gerð séu eftir á. Hér megi nefna að vegna húss kæranda var lögð inn reyndarteikning árið 2012 með þeirri skýringu að húsið hefði í byggingu verið sett 26 cm hærra í landi en áætlað hafi verið á teikningu. Í skýringum með teikningunni hafi síðan verið tekið fram að mænishæð væri þó langt innan leyfilegrar hámarkshæðar, og að upprunalega hefði verið gert ráð fyrri tveggja hæða húsi á lóðinni. Ásamt því að hliðra þurfti húsi kæranda til suðurs þar sem það hafi að hluta til verið staðsett utan byggingarreits.

Vegghæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag sem sé frjáls innan ramma skipulagsins. Ekki verði séð að túlka skuli skilmála sem varði vegghæð í samræmi við úrskurð nr. 20/2004 frá 25. júní 2004. Í því máli hafi verið byggt á ákvæðum eldri reglugerðar sem nú er fallin úr gildi. Í gildandi reglugerð séu engar takmarkanir á vegghæð heldur takmarkist hún einungis af gildandi skipulagi sem setji ekki slíkar hömlur á vegghæð húsa. Breyti hér engu hvort um „eftirlegulóð“ sé að ræða og geti það því á engan hátt farið í bága við jafnræði aðila og réttmætar væntingar að framkvæmdum sé hagað í samræmi við gildandi lög og reglur. Það að kærandi hafi haft hús sitt í þeirri hæð sem raun sé geti vart haft áhrif í þessu sambandi en hönnun fyrirhugaðs húss komi jafnvægi á götumyndina.

Mat á hagsmunum kæranda og leyfishafa í kæru sé mótmælt. Leyfishafar hafi lagt mikla vinnu og tilkostnað til þess að reisa fjölskyldu sinni draumaheimilið, verið í góðri trú og átt góð samskipti við byggingaryfirvöld. Allar breytingar á fyrirliggjandi teikningum myndu kosta leyfishafa töluverða fjármuni sem af augljósum ástæðum sé ósanngjarnt. Reynt hafi verið að leita lausna á málinu, m.a. með því að leggja fram tillögur að breytingum, en án árangurs. Ein lausnin hafi verið að hafa botnplötuna í tveimur kótum, annars vegar bílskúr, anddyri, eldhús og stofu í kóta 34,27 og hins vegar sjónvarpshol og svefnherbergi í kóta 34,81. Leyfishafar hafi talið þetta vera farsæla lausn þar sem hús kæranda sé útfært á sambærilegan hátt. Kærandi hafi hafnað þessari lausn og bent á að ekki væri verið að fjalla um sitt hús en hafi ekki komið með neinar hugmyndir að lausnum þvert á það sem haldið sé fram í kæru. Til að koma til móts við athugasemdir kæranda hafi vegghæð hússins verið lækkuð um 0,5 m áður en teikningar hafi verið samþykktar að nýju, eða úr 4,75 í 4,25.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar því að ákvörðunin hafi verið kærð að liðnum kærufresti. Kærandi hafi sent inn kæru án tafar þegar honum hafi verið ljóst að hið kærða byggingarleyfi hafði verið gefið út en honum hafi ekki verið kynnt það með nokkrum hætti af hálfu bæjaryfirvalda þrátt fyrir umtalsverð samskipti í tengslum við málið. Kæru­fresturinn hafi því ekki getað byrjað að líða fyrr en kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um útgáfu leyfisins.

Röksemdir í kæru séu áréttaðar en rétt sé þó að víkja stuttlega að meginþáttum í sjónarmiðum leyfishafa. Afdráttarlaust sé að hæðarblað innihaldi bindandi hæðarkóta fyrir öll húsin í götunni. Hæðarblað taki mið af legu landsins og götukóta og samræmi gólfhæð allra húsanna við götuna og tryggi þannig að jafnvægi og samræmi myndist og að innbyrðis hagsmunum lóðarhafa sé gætt. Úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 8/2008 sé hér ekki fordæmisgefandi. Í þessu samhengi sé á það bent að bæjarverkfræðingur og bæjarritari hafi staðfest á fundi með kæranda að hæðarkótinn væri algjörlega bindandi. Til merkis um það hafi skipulagsnefnd Garðabæjar óskað sérstaklega eftir samþykki allra nágranna nýbyggingarinnar að Brekkuási 7, Garðabæ, sem sé ein hinna þriggja samliggjandi lóða sem komið hafi til úthlutunar 2018, fyrir því að gólfplata hússins fengi að hækka um 10 cm upp fyrir hæðarkóta hússins sem komin hafi verið til vegna mistaka við smíði forsteyptra eininga fyrir húsið. Hæðarkótinn hefði lítið gildi ef víkja mætti frá honum eftir á með einhliða ákvörðun. Hús kæranda hafi verið hliðrað fjær lóð leyfishafa að undangenginni grenndarkynningu en ekki nær henni líkt og leyfishafi haldi fram. Hið rétta sé að hús kæranda hafi verið sett 26 cm hærra í landinu en áætlað hafi verið, þ.e. 16 cm yfir uppgefnum gólfkóta, fyrir mistök. Það réttlæti hins vegar ekki að bundinn hæðarkóti fyrirhugaðrar nýbyggingar verði virtur að vettugi. Hvað varði tilvísun til gólfhæðar annarra húsa í götunni þá sjái kærandi ekki að það hafi þýðingu að mistök hafi verið gerð við byggingu annarra húsa í götunni eða breyttur kóti samþykktur að undan­genginni kynningu fyrir nágrönnum. Varðandi hina fyrirhuguðu vegghæð árétti kærandi það sem fram hafi komið í kæru og vísi aftur til úrskurðar skipulags- og byggingarmála nr. 20/2004.

Kærandi hafi sýnt leyfishöfum þá tillitssemi að hafa samband þegar í stað símleiðis og upplýsa um að hann teldi teikningar sem fylgdu hinu fyrra leyfi vera í andstöðu við skipulagsskilmála fyrir hverfið. Því hafi verið unnt að grípa til ráðstafana til að takmarka tjón og bregðast við með þeim hætti að koma teikningum í löglegt horf. Kærandi mótmæli þeim rangfærslum að hann hafi ekki viljað leita sátta og koma til móts við leyfishafa. Ýmsum tillögum hafi verið hreyft en leyfis­hafar hafi reynst ófáanlegir til að láta af áformum sínum um að byggja í andstöðu við skilmála.

Viðbótarathugasemdir Garðabæjar: Bæjaryfirvöld árétta að sú framkvæmd að víkja frá hæðarkóta á hæðarblaði til hækkunar eigi stoð í skipulaginu sjálfu þar sem skýringarmynd fyrir hús af gerðinni E-1 ofan götu sýni aðalgólfplötu allt að 1 m yfir götuhæð. Því megi líta svo á að það sé hámarksheimild skipulagsins varðandi hæð aðalgólfs að götu. Hæðarblöð séu hönnunargögn sem gerð séu á grundvelli skipulags og verði að vera í samræmi við það og innan heimilda þess.

Vegghæðarreglur sem fram hafi komið í 74. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 gildi ekki lengur. Húsið hafi verið byggt eftir byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það sé án efa fjöldi dæma um hús í hverfinu þar sem vegghæð sé meiri en tilvitnað ákvæði áskilji, m.a. eigi það við um hús kæranda. Hæðarsetning og hæð fyrirhugaðs húss að Brúnási 12 falli vel að götumynd og að landi og hafi ekki meiri grenndaráhrif en skilmálar gefi til kynna og búast megi við.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Kæranda var ekki tilkynnt um hina kærðu ákvörðun en fundargerð bæjarráðs Garðabæjar, sem m.a. innihélt hina kærðu ákvörðun mun hafa verið birt á heimasíðu bæjarins 5. nóvember 2019. Telst sá birtingarmáti ekki til opin­berrar birtingar í skilningi 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur birting fundargerðar bæjarráðs því ekki markað upphaf kærufrests í máli þessu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni 16. desember 2019. Verður því við það að miða að kæran hafi borist innan lögmælts kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 12 við Brúnás í Garðabæ. Annars vegar er deilt um hvort kóti gólfhæðar hússins og vegghæð þess samræmist skipulagi og hins vegar áhrif byggingarinnar á grenndarhagsmuni kæranda.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Hraunsholts frá árinu 1997. Um markmið skipulagsins segir í kafla 1.1.2 í skipulagsskilmálum að áhersla sé lögð á að hönnuðir nýti sér möguleika á að móta fjölbreytta byggð, t.d. með hliðrunum í grunnfleti og stöllun í lóðréttum flötum húsa. Þá er tekið fram að gæta skuli ákveðins samræmis, t.d. í þakformi bygginga og leggja áherslu á að öll mannvirki á svæðinu séu hönnuð þannig að þau falli sem best að landi. Í kafla 1.1.8. segir að húsagerðir séu frjálsar að öðru leyti en því sem mæliblöð, hæðarblöð, skilmálar þessir og byggingarreglugerð segi til um.

Í sérákvæðum kafla 2.0 í skipulagsskilmálum fyrir Hraunsholt er m.a. fjallað um húsagerð E-1 sem einbýlishús á einni hæð. Hin umdeilda nýbygging er húsagerð E-1. Húsið er hannað með flötu þaki og er samanlögð hæð þess 4,25 m. Í texta skilmála skipulagsins er ekki kveðið á um hámarksvegghæð en á skýringarmyndum er efsti hluti húsa sýndur með brotnum línum og hjálparlínum. Í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 kom fram í gr. 73.1 að hæðir húsa og afstaða þeirra á lóð væri ákveðin í deiliskipulagi. Þá var tiltekið í gr. 74.1 að ef vegghæð húss væri ekki ákveðin í metrum heldur tiltekið hve margar hæðir mætti byggja, skyldi miðað við að í íbúðarhúsnæði væri hver hæð 2,70 – 2,80 m mælt frá gólfi yfir á næsta gólf þó þannig að lofthæð yrði aldrei minni en 2,50 m. Engin afstaða er tekin til þess í umræddu deiliskipulagi hvernig heildarhæð húss skiptist milli veggja og þaks eða einstakra hæða og giltu því fyrr­greindar reglur í eldri byggingarreglugerð um vegghæð eftir gildistöku hennar.

Í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hæð bygginga í b-lið gr. 5.3.2.1. sem er í kaflanum um viðfangsefni og efnistök deiliskipulags. Samkvæmt ákvæðinu á hæð bygginga að vera gefin upp í metrum frá yfirborði botnplötu 1. hæðar og er gerð krafa um að tilgreind sé hámarksvegghæð, eða meðal vegghæð og hvað sé hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem ná upp fyrir vegg. Samkvæmt því er í núgildandi reglugerð gerð krafa um að í deiliskipulagi sé tilgreind hámarksvegghæð eða meðal vegghæð og hvað sé hámarkshæð á þaki. Vegghæð hússins að Brúnási 12 samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er 4,25 m og því hærri en gert var ráð fyrir í gr. 74.1 eldri byggingarreglugerðar fyrir hús á einni hæð. Í ljósi greinds ákvæðis núgildandi skipulagsreglugerðar og gildandi reglna um vegghæð húsa fram að gildistöku hennar, var þörf á því að gera breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis til að hafa vegghæðina umfram þá hæð í samræmi við b-lið gr. 5.3.2.1.

Á hæðarblaði sem gert var samhliða deiliskipulagi Hraunsholts kemur fram að götuhæð við lóðarmörk Brúnáss 12 og 14 sé 33,74 m.y.s. og gólfhæð fyrir þann hluta Brúnáss 12 sem snúi að götu 34,3 m.y.s. Gólfkóti samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrirhugaðrar nýbyggingar að Brúnási 12 er 34,81 m.y.s. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði b-liðar gr. 5.3.2.1. í gildandi skipulagsreglugerð þarf í deiliskipulagi að gefa upp hver hæð botnplötu 1. hæðar megi vera frá yfirborði og er að auki tekið fram að þegar byggt sé í landhalla skuli jafnframt gera grein fyrir afstöðu 1. hæðar til yfirborðs landsins með sniðmynd eða í texta. Hækkun á vegg- og gólfhæð húss er til þess fallin að auka við grenndaráhrif. Af þessu verður að telja ljóst að samkvæmt núgildandi reglum þurfi hæðarkóti 1. hæðar húsa að koma fram í deiliskipulagi. Ef breyta á hæð gólfkóta frá því sem áður hefur verið ákveðið í hæðarblöðum sem gerð hafa verið í tengslum við deiliskipulagsgerð þurfa breytingar að sæta málsmeðferðarreglum deili­skipulagsbreytingar, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru slíkir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella ber hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 4. nóvember 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 12 við Brúnás er felld úr gildi.

99/2018 Drápuhlíð

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekin endurupptaka máls nr. 99/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Drápuhlíð 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2019, er barst nefndinni 14. ágúst s.á., fór kærandi í máli nr. 99/2018 fram á endurupptöku málsins en úrskurður í því var áður kveðinn upp 13. september 2018. Athugasemdir Reykjavíkurborgar vegna framkominnar endurupptökubeiðni bárust úrskurðarnefndinni 7. október 2019 og athugasemdir leyfishafa bárust 10. september s.á.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 23. maí 2017 var tekin fyrir umsókn eiganda íbúðar að Drápuhlíð 36, dags. 9. s.m., um leyfi fyrir byggingu bílskúrs á þeirri lóð. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 26. s.m. að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknar­innar, m.a. frá kæranda. Skipulags- og umhverfisráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 6. september 2017 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 1. s.m., þar sem lagt var til að lengd fyrirhugaðs bílskúrs yrði færð niður í 7,5 m. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 10. júlí 2018 var umsóknin samþykkt og staðfesti borgar­ráð þá afgreiðslu 23. ágúst s.á. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar þar sem kærandi gerði kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í málinu hinn 13. september 2018 þar sem ógildingarkröfu kæranda var hafnað.

Hinn 17. september 2018 leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 13. sama mánaðar. Í áliti sínu, dags. 20. júní 2019, komst umboðs­maður Alþingis að þeirri niðurstöðu að umþrættur úrskurður væri ekki í samræmi við lög. Var það álit umboðsmanns að lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús veittu ekki svigrúm til að meta hvort afla þyrfti samþykkis meðeigenda umsækjanda um byggingarleyfi ef sótt væri um leyfi fyrir byggingu sem rúmaðist ekki innan samþykktra teikninga heldur þyrfti til þess skýra lagaheimild ef víkja ætti frá kröfum um slíkt samþykki samkvæmt 2. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 29. gr. laganna. Beindi umboðsmaður Alþingis því til úrskurðarnefndarinnar að málið yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá kæranda. Barst slík beiðni nefndinni 14. ágúst 2019, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur sem áður að fyrirliggjandi eignaskiptasamningur um fjöleignarhúsið að Drápuhlíð 36 sé ekki nægjanlegur grundvöllur samþykkis fyrir byggingu bílskúrs. Þar sé einungis mælt fyrir um hvaða íbúð fylgi réttur til að sækja um byggingarleyfi. Reykjavíkur­borg hafi ekki skoðað málið nægjanlega vel. Bygging bílskúrsins muni leiða til þess að verðgildi íbúðar kæranda á jarðhæð nefndrar fasteignar rýrni verulega. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn rísi við hlið glugga á austurhlið íbúðar kæranda, er muni leiða til þess að ekkert sólarljós komist inn um gluggann. Þá brjóti bygging bílskúrsins gegn ákvæðum e-liðar 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, 2. tl. 2. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og h-liðar 1. mgr. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi aðgengi fyrir alla. Breidd gönguleiðar milli bílskúrs og hússins út í garð uppfylli ekki lágmarkskröfur, en breiddin sé aðeins 85-100 cm. Auk þess komi þessi litla breidd hvergi fram í gögnum málsins. Jafnframt muni umgangur til og frá garði meðfram glugganum á íbúð kæranda valda íbúum þar gríðarlegu ónæði. Hafa verði í huga að fasteignin að Drápuhlíð 36 sé um margt frábrugðin almennri húsagerð á svæðinu. Almennt séu ekki stórir og mikilvægir gluggar á veggjum er snúi að innkeyrslum eða bílskúrum og í þeim tilvikum sem gluggar snúi að bílskúr sé bílskúrinn staðsettur fyrir aftan glugganna. Þá hafi sá bílskúr sem til standi að byggja verið hækkaður og lengdur frá uppruna­legum teikningum.

Um beiðni sína um endurupptöku vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis, dags. 20. júní 2019 í máli nr. 9835/2018.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram varðandi fjarlægð bílskúrs frá húsi að 1,0 m sé á milli útveggjar íbúðarhússins og veggjar bílskúrsins. Reglur um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla, gildi ekki um húsnæðið, sbr. gr. 6.1.3. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Um valkvætt ákvæði sé að ræða sem ekki hafi verið gerð krafa um að farið væri eftir við afgreiðslu erindisins.

Hvað varði beiðni kæranda um endurupptöku sé tekið fram af hálfu borgaryfirvalda að forsendur hins kærða byggingarleyfis hafi verið grenndarkynning, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og eignaskiptayfirlýsing, dags. 21. nóvember 2001, þar sem fram komi heimild til byggingar bílskúrs á lóðinni. Umboðsmaður virðist einungis hafa litið til eignaskipta­samningsins við ákvörðun um stærð á bílskúrnum en ekki til þeirra ákvæða í skipulagslögum sem heimili minniháttar frávik frá skipulagi þegar um sé að ræða byggingarframkvæmdir. Megi nefna að ef heimild væri í deili- eða hverfisskipulagi fyrir bílskúr af sömu stærð og segi í eignaskiptayfirlýsingunni væri hægt að meta byggingarleyfisumsóknina um hærri bílskúr út frá 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í greininni segi að við útgáfu byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. 43. gr. laganna um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Hefði því jafnvel verið hægt að samþykkja byggingarleyfið án breytinga á deiliskipulagi eða grenndarkynningar út frá þeim forsendum að hækkunin hefði ekki áhrif á hagsmuni kæranda. Þegar um ólíka lagabálka sé að ræða, sem séu jafnvel ósamræmanlegir í einhverjum tilvikum, þurfi að skoða málið heildrænt og meta hvað gæti haft minnst áhrif í hverju máli fyrir sig.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi áréttar það sem fram kom við fyrri málsmeðferð og vísar til þess að málsmeðferð umsóknar um byggingar­leyfi fyrir umræddum bílskúr hafi verið lögum samkvæmt. Gert hafi verið ráð fyrir bílskúr við austurhlið hússins að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess árið 1946 og í aðalskipulagi. Ekki hafi þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir byggingu skúrsins þar sem gert sé ráð fyrir honum á samþykktum teikningum, sbr. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Auk þess sé byggingar­réttur eiganda 1. hæðar tryggður með þinglýstum eignaskiptasamningi. Almennt séu bílskúrar í Hlíðunum 8,0 m á lengd eða lengri, en heimiluð lengd umrædds bílskúrs hafi verið minnkuð eftir athugasemdir frá kæranda. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði í 1,0 m fjarlægð frá húsi en helmingur hans sé þó lengra frá, þ.e. í 1,25 m fjarlægð, vegna innskots þar sem gluggi í kjallara­íbúð sé staðsettur. Fjarlægðin á milli fari þó niður í 90 cm meðfram skorsteininum, sem sé nægjanlegt fyrir hvers konar aðgengi. Aðalinngangar allra íbúða hússins séu að framanverðu og gengt sé út í garðinn frá bæði kjallara og íbúð á 1. hæð. Þá hafi íbúð kæranda í kjallara tekið miklum breytingum frá upprunalegu skipulagi, er hafi áhrif á birtu í íbúðinni. Allir eigendur íbúða í Drápuhlíð 36 hafi vitað frá upphafi að bílskúrsréttur væri til staðar og að hann fylgdi íbúð á 1. hæð. Kærandi hafi samþykkt þinglýstan eignaskiptasamning frá 2001, þar sem skýrt komi fram á teikningu og í texta að bílskúrsréttur sé á austurhlið og fylgi 1. hæð. Það hefði því ekki átt að koma kæranda á óvart að 17 árum síðar rísi bílskúr á lóðinni.

Um endurupptökubeiðni kæranda tekur leyfishafi fram að hann voni að úrskurðarnefndin standi við fyrri niðurstöðu sína.

Niðurstaða: Kærandi hefur farið fram á endurupptöku máls þessa, en af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að ágreiningur málsins snúist um svo óverulega breytingu frá samþykktum teikningum að heimilt hefði verið að víkja frá skipulagi án grenndarkynningar ef um deiliskipulag hefði verið að ræða, sbr. ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu er hins vegar deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Drápuhlíð 36 sem er á ódeiliskipulögðu svæði og var leyfisumsóknin grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. nefndra laga. Atvik eru því ekki sambærileg. Með vísan til þessa og með hliðsjón af niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í áliti hans, dags. 20. júní 2019, er fallist á beiðni um endurupptöku og málið tekið til úrskurðar að nýju.

Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er fjallað um rétt eiganda til byggingar ofan á eða við hús eða á lóð þess og er tekið fram í 2. mgr. að ef ekki leiði annað af þinglýstum heimildum sé slík bygging háð samþykki allra eigenda nema gert hafi verið ráð fyrir henni í upphafi á samþykktri teikningu. Er kveðið á um í 1. mgr. 29. gr. laganna að eigandi byggingar­réttar geti ráðist í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum að því gefnu að bygging rúmist innan samþykktrar teikningar.

Á samþykktum teikningum að húsinu að Drápuhlíð 36 frá byggingu þess á árinu 1946 er gert ráð fyrir bílskúr við austurmörk lóðarinnar. Jafnframt er kveðið á um það í þinglýstri eignaskipta­yfirlýsingu fasteignarinnar að bílskúrsrétturinn tilheyri íbúð 1. hæðar. Á nefndum teikningum kemur fram að hæð bílskúrsins skuli vera 2,50 m frá yfirborði lóðar, en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir 2,95 m háum bílskúr. Samkvæmt þeim lagaákvæðum sem að framan eru rakin liggur fyrir að svo há bygging rúmast ekki innan samþykktra teikninga og er hún þar með háð samþykki allra eigenda, sbr. 2. mgr. 28. gr. fjöleignarhúsalaga. Er enga stoð fyrir undantekningum frá þeirri kröfu að finna í 2. og 3. mgr. 30. gr. laganna, enda takmarkast efni þeirrar greinar samkvæmt yfirskrift sinni og efni, svo sem það er skýrt í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að fjöleignarhúsalögum, við aðrar byggingar og breytingar en gert hefur verið ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið veita fjöleignarhúsalög ekki svigrúm til víkja frá því að afla samþykkis meðeigenda umsækjanda um byggingarleyfi þegar sótt er um leyfi til að byggja mannvirki sem ekki rúmast innan samþykktra teikninga. Þar sem samþykki kæranda lá ekki fyrir vegna umsóknar um leyfi fyrir bílskúr sem yrði 45 cm hærri en upprunaleg teikning sýnir verður ekki hjá því komist að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 36 við Drápuhlíð.

42/2019 Strandavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2019, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðar­kaupstaðar frá 13. maí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Hánefsstöðum, Seyðisfirði, þá ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 13. maí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði. Er gerð krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seyðisfjarðarkaupstað 11. september 2019.

Málsatvik og rök: Sjálfseignarstofnunin LungaA-skólinn er eigandi hússins að Strandarvegi 13. Samkvæmt gögnum málsins var húsnæðið áður í eigu Síldarvinnslunnar hf., en félagið færði skólanum það að gjöf árið 2018. Árið 2019 sótti skólinn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæðinu innanhúss ásamt breytingu á notkun þess í geymslur og vinnustofur fyrir skólann. Með umsókninni fylgdu reyndarteikningar, dags. 30. apríl 2019, ásamt öðrum gögnum. Byggingarleyfis­umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 13. maí 2019 og var hún samþykkt með þeim rökum að notkunin kallaði ekki á aukna viðveru fólks miðað við fyrri notkun hússins. Var byggingarfulltrúa falið að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn lægju fyrir.

Kærandi telur verulegan vafa leika á lögmæti samþykktar umhverfisnefndar bæjarins. Breytingar á notkun hússins sem skólahúsnæðis í stað geymsluhúsnæðis samræmist ekki landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi en þar sé hafnarsvæði. Breytingin sé auk þess hvorki í samræmi við lög né reglugerð um varnir gegn ofanflóðum og teikningar að breytingum á húsinu í skólahúsnæði uppfylli ekki kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Kærandi telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu en hann sé kjörinn bæjarfulltrúi sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem fjalli um almennar skyldur sveitarstjórnarmanna og sjálfstæði þeirra í starfi. Óhjákvæmilegt sé að fá úr málinu skorið með hliðsjón af þeim stórfelldu almanna- og öryggishagsmunum sem séu undir í málinu, sbr. hættumat vegna ofanflóða fyrir Seyðisfjarðar­kaupstað.

Bæjaryfirvöld benda á að umrætt húsnæði sé skilgreint sem vinnustofur og geymslur en ekki sem skólahúsnæði og að viðvera í húsinu yrði ekki meiri en áður hafi verið. Fjöldi fólks starfi á svæðinu í kring, sem einnig sé skilgreint sem C-svæði hættumats snjóflóða og aurskriða. Mikilvægara sé að efla viðbragðsáætlanir frekar en að hefta nýtingu á húsnæðinu sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, umfram aðra, og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Málsrök kæranda lúta fyrst og fremst að almannahagsmunum en ekki liggur fyrir með hvaða hætti umdeild ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar snertir persónulega lögvarða hagsmuni hans. Kærandi á ekki heimili í nágrenni við þá fasteign sem hin breytta notkun tekur til og getur því ekki átt kæruaðild á grundvelli grenndarhagsmuna. Sú staðreynd að kærandi er starfandi sveitarstjórnarmaður veitir honum ekki að lögum aðild að kærumáli þessu án þess að hann uppfylli áðurnefnt skilyrði um lögvarða hagsmuni.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 26. maí 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með úrskurði 9. nóvember 2016 í kærumáli nr. 89/2016 var kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, vísað frá en þær beindust að breyttri notkun á íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Loks var með úrskurði 21. september 2018 í kærumáli nr. 93/2017 felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6. Þá hefur kærandi jafnframt kært afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni hans um afhendingu gagna. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 158/2017, uppkveðnum 20. desember 2018, var lagt fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar tiltekinn hluta erindis kæranda um aðgang að gögnum, en að öðru leyti var kærunni vísað frá.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar 28. september 2018 var tekin fyrir endurnýjuð umsókn leyfishafa. Samþykkti nefndin að grenndarkynna umsóknina og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum, sem hagsmuna hefðu að gæta, fyrirhugaða framkvæmd. Með bréfi, dags. 23. október s.á., var umsókn leyfishafa kynnt fyrir kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og var athugasemdafresturinn til 23. nóvember s.á. Kærandi óskaði eftir frekari gögnum, upplýsingum og svörum við tilteknum spurningum í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. október s.á., en því bréfi var ekki svarað af byggingarfulltrúa. Hinn 20. nóvember s.á. kom kærandi að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar til sveitarstjórnar. Á fundi byggðaráðs 3. janúar 2019 voru lögð fram drög að bréfi vegna framkominna athugasemda kæranda og samþykkti ráðið að fela sveitarstjóra að senda bréfið með áorðnum breytingum. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu byggðaráðs á fundi sínum 10. s.m. Með bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 7. s.m., var athugasemdum kæranda við grenndar­kynninguna svarað. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. mars 2019 voru lagðar fram athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og svör byggingarfulltrúa við þeim. Taldi nefndin svörin fullnægjandi og lagði til við sveitarstjórn að byggingarleyfi yrði gefið út fyrir Egilsgötu 6. Samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 14. s.m. að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna fram­kvæmda við Egilsgötu 6. Byggingarfulltrúi gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé það m.a. verkefni skipulagsnefnda að annast grenndarkynningar vegna umsókna um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggi fyrir deili­skipulag. Í gr. 5.9.3. um hagsmunaaðila segi að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi ekki lagt neitt mat á það hverja hún hafi talið til hagsmunaaðila málsins. Í gögnum málsins komi hvergi fram hverjir hafi verið taldir aðilar máls eða hverjir hafi gert athugasemdir við umsóttar breytingar. Þá liggi fyrir að eigandi fjölbýlishússins að Egilsgötu 11, sem eigi bílastæðin sem sveitarstjóri hafi talið vera í eigu sveitarfélagsins í bréfi sínu til kæranda 7. janúar 2019 og sem notendur eigna Egilsgötu 6 hafi hagnýtt sér leyfislaust, hafi ekki verið á meðal þeirra sem fengið hefðu að taka þátt í grenndarkynningunni.

Á þeim tveimur fundum sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi haldið eftir að frestur til þess að gera athugasemdir við grenndarkynninguna hafi runnið út 23. nóvember 2018, og þar til byggðaráð Borgarbyggðar hafi tekið svör sveitarstjóra við athugasemdir kæranda til um­fjöllunar á fundi sínum 3. janúar 2019, hafi nefndin ekki fjallað um eða afgreitt athugasemdir kæranda við grenndarkynninguna. Í bókun nefndarinnar á fundi hennar 6. mars s.á. komi ekkert fram um hvaða athugasemdum hafi verið svarað af byggingarfulltrúa. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Í bréfi lögfræðings sveitarfélagsins til Sýslumannsins á Vesturlandi sé staðfest að þrjár athugasemdir hafi borist byggingar­fulltrúanum vegna grenndarkynningarinnar og að hann hafi svarað þeim, en athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið svarað af sveitarstjóra þar sem kærandi hafi stílað athugasemdir sínar á sveitarstjórn Borgarbyggðar. Því hafi málsmeðferð athugasemda kæranda verið önnur en hinna athugasemdanna. Slíkt staðfesti að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi hvorki tekið afstöðu til athugasemda kæranda né svara sveitarstjórans til hans. Einstakir þættir málsins hafi því aldrei verið teknir fyrir á fundum nefndarinnar líkt og henni hafi borið að gera skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segi að berist athugasemd á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Á fundi sveitarstjórnar 10. janúar 2019 hafi ákvörðun byggðaráðs frá 3. s.m., um að fela sveitarstjóra að senda svarbréf vegna athugasemda kæranda með áorðnum breytingum, verið staðfest, en sveitarstjóri hafi hins vegar sent nefnt svarbréf þremur dögum fyrr eða 7. s.m. Hvergi komi fram að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi fengið svarbréfið til umfjöllunar eða samþykktar. Með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð sé niðurstaða bréfsins því marklaus og ólögleg þar sem samþykki sveitarstjórnar fyrir því hafi ekki legið fyrir þegar það hafi verið sent.

Bréf skipulagsfulltrúa frá 23. október 2018 þar sem fyrirhuguð framkvæmd hafi verið grenndarkynnt uppfylli ekki skilyrði laga enda sé ekki getið um til hverra nota íbúðirnar eigi að vera. Í gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð segi að í bréfi til hagsmunaaðila skuli m.a. koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningar og eigi hönnunargögn, sbr. gr. 5.9.7., að fylgja þegar um leyfisumsókn sé að ræða. Verulega vanti upp á í þeim efnum. Í gr. 5.9.7. sé m.a. kveðið á um að upplýsingar um bílastæði og aðrar kröfur sem gerðar séu til framkvæmdarinnar þurfi að fylgja gögnum eftir því sem við eigi, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá komi fram í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar að í grenndarkynningu leyfisumsóknar skuli liggja fyrir rökstuðningur fyrir fjölda bílastæða og fyrirkomulag þeirra. Gögn meðfylgjandi grenndarkynningu uppfylli ekki framangreindar lagaskyldur. Í bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 sé vísað til bílastæða í eigu sveitarfélagsins sem standi gegnt Egilsgötu 6, en samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi Egilsgötu 11 séu umrædd bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi ákveðið að fjölga íbúðum um þrjár í húsinu og samhliða því ákveðið breytingar á bílastæðum inni á einkalóð annars án leyfis eiganda og án þess að gefa viðkomandi kost á að koma sjónarmiðum sínum að í grenndarkynningu vegna breytinganna.

Samkvæmt byggingarreglugerð verði lögmætt byggingarleyfi ekki gefið út á grundvelli umsóknar þar um nema að uppfylltum skilyrðum þeim sem ákveðin séu í reglu­gerðinni. Í athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið bent á fjölmörg atriði sem sýni að hönnunargögn, hönnun og skipulag íbúðanna fullnægi ekki skilyrðum nefndrar reglugerðar. Samkvæmt gr. 4.2.1. í reglugerðinni skuli mannvirki hönnuð á faglega full­nægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð. Í hönnunargögnum sé ekki gerð grein fyrir atriðum sem talin séu upp í gr. 4.3.1. og 4.3.2. og flestum þáttum sem krafa sé gerð um í gr. 4.3.3., 4.3.6., 4.3.9., 6.1.5. og 6.7.1. sömu reglugerðar. Umsókn um byggingarleyfi, og þar með grenndar­kynningargögnum, skuli meðal annarra gagna fylgja skráningartafla fyrir mannvirki og málsett teikning af þversniði húss. Hvort tveggja hafi vantað og hafi byggingarfulltrúi ekki svarað beiðni um þau gögn á kynningartíma, auk þess sem sveitarstjóri taki ekki á því efni í bréfi sínu 7. janúar 2019. Þá sé bent á að þinglýst hafi verið eignaskiptayfirlýsingu á lóðina að Egilsgötu 6 og sé hún því orðin að fjöleignarhúsi. Ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í grenndarkynningu. Hvergi sé í gögnunum fjallað um aðgengi að sorpílátum, staðsetningu eða um aðgengi að íbúð á annarri hæð, en íbúar hennar hafi tímabundið leyfi til að fara yfir lóð Egilsgötu 8. Grenndarkynning geti ekki farið fram með fullnægjandi hætti nema hönnunargögn séu full­nægjandi og í samræmi við lög.

Byggingarfulltrúi hafi aldrei svarað fyrirspurnum kæranda um til hverra nota íbúðirnar fjórar ættu að vera og það hafi sveitarstjóri ekki heldur gert í bréfi sínu til hans. Bent sé á að hinn 29. september 2018 hafi byggingarfulltrúi gefið Sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur til ótilgreinds tíma fyrir gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð að Egilsgötu 6. Þá hafi sveitarstjóri hinn 30. s.m. gefið sama aðila jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í sömu íbúðum. Hafi það verið gert þrátt fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fjögurra íbúða að Egilsgötu 6 hinn 21. s.m. Í ljósi þess að sveitarfélagið hafi frá sumri 2013 veitt heimild til rekstrar gistiþjónustu í umræddum íbúðum sé bent á að skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé íbúðargisting leiga á stakri íbúð til ferðamanna. Falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnuhúsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum samkvæmt reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun.

Samkvæmt gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra og samkvæmt gr. 6.2.4. skuli lágmarksfjöldi bílastæða fyrir fatlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera eitt stæði þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 1-10. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun. Þá skuli skv. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð hanna gististaði á grundvelli algildrar hönnunar. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skuli ítarlega rökstutt í hönnunargögnum á hvaða grundvelli það sé gert. Hönnun íbúða að Egilsgötu 6 sé ekki unnin á grundvelli algildri hönnun og ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í greinargerð. Þá sé bent á að samkvæmt reglugerðinni skuli samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Samkvæmt mælingu af teikningu vanti verulega upp á að ljósop glugga þriggja íbúða á fyrstu hæð sé nægjanlegt. Hurðarop uppfylli heldur ekki kröfur um stærð samkvæmt reglugerð. Lofthæð rýma skuli vera að lágmarki 2,5 m samkvæmt reglugerðinni. Ekki sé hægt að sannreyna nákvæmlega af teikningu hvort lofthæð á fyrstu hæð sé fullnægjandi, því málsett þversnið mannvirkis hafi ekki fylgt gögnum málsins og ekki fengist þrátt fyrir beiðni þar um. Aftur á móti hafi mæling á staðnum leitt í ljós að lofthæð í íbúð 0103 uppfylli ekki kröfu reglugerðar um lofthæð og sé mun lægri að hluta samkvæmt því er fram komi í fasteignaauglýsingu fyrir íbúðirnar. Sá þáttur málsins þarfnist frekari rannsóknar, en til þess hafi ekki fengist gögn. Framangreindir ágallar hafi ekki gefið forsendur til loka­úttektar 26. mars 2018, jákvæðra umsagna byggingarfulltrúa og sveitarstjóra um rekstur gistiþjónustu eða útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Slíkt leyfi eigi ekki að gefa út fyrr en hönnun standist kröfur byggingarreglugerðar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekkert þeirra atriða sem hafi komið fram í bréfi kæranda 29. október 2018 til byggingarfulltrúa hafi varðað hina umræddu grenndarkynningu. Kærandi hafi spurt byggingarfulltrúa hver skilgreining hans væri á orðinu stúdíóíbúð. Orðið sé að finna í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar og sé vel þekkt orð með vel þekkta merkingu. Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið skylt að útskýra það skriflega fyrir kæranda. Hvað varði athugasemdir kæranda þess efnis að umræddar stúdíóíbúðir uppfylli ekki margar ótilgreindar greinar byggingar­reglugerðar þá telji sveitarfélagið ljóst að svo óljósum málatilbúnaði sé ekki hægt að svara. Kærandi hafi sent sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf, dags. 20. nóvember 2018, þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Kærandi hafi fengið svarbréf frá sveitarstjóra, dags. 7. janúar 2019, þar sem farið hafi verið í gegnum athugasemdir kæranda lið fyrir lið. Bent sé á að í svarbréfi Skipulagsstofnunar til kæranda, dags. 19. mars s.á., komi fram að það sé álit stofnunarinnar að svör sveitarstjóra vegna athugasemda kæranda við bílastæðamál séu fullnægjandi, að sveitarfélagið hafi fært málefna­leg rök fyrir þeirri afstöðu sinni að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið brotin við meðferð málsins og að öllum atriðum í bréfi kæranda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti. Sveitarfélagið telji því ljóst að ekki aðeins hafi kærandi fengið tilskilin svör við athugasemdum hans við grenndarkynninguna heldur hafi hann jafnframt fengið staðfestingu á því frá Skipulagsstofnun að svörin hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins sem skipulagsyfirvalds og sem stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Því sé mótmælt að athugasemdabréf kæranda verði lagt til grundvallar sem gagn í þessu máli.

Kærandi geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni um hvort lóðarhafi Egilsgötu 11 hafi fengið senda grenndarkynningu. Óumdeilt sé að grenndarkynnt hafi verið fyrir kæranda og hafi hann því fengið fullt tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Kæranda varði ekkert um það hvort lóðarhafa Egilsgötu 11 hafi verið grenndarkynnt umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6.

Þrátt fyrir að bæði gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, geri ráð fyrir því að skipulagsnefnd sveitarfélagsins kynni nágrönnum leyfisumsókn þá sé það sveitarstjórn sem eigi síðasta orðið, þ.e. sveitarstjórn sé sá hluti stjórnsýslunnar sem taki málið til endanlegrar afgreiðslu. Þegar afgreiðsla sveitarstjórnar liggi fyrir skuli tilkynna þeim sem gert hafi athugasemdir niðurstöðu hennar. Svarbréf sveitarstjóra hafi verið unnið í samvinnu við starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs auk þess sem byggðaráð hafi samþykkt á fundi 3. janúar 2019 að sveitarstjóri sendi umrætt bréf. Sveitarstjórn hafi síðan tekið endanlega afstöðu í málinu á fundi sínum 14. mars s.á. með því að staðfesta þá afgreiðslu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið kærða byggingarleyfi. Það liggi því fyrir að við endanlega afgreiðslu málsins hafi sveitar­stjórn bæði fengið umsagnir umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um athugasemdir annarra hagsmunaaðila en kæranda, sem og svör sveitarstjóra við athugasemdum hans, þegar ákveðið hafi verið að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfið. Þrátt fyrir að meðferð málsins hafi verið hagað með þessum hætti hafi hún ekki komið niður á möguleika kæranda til að verja hagsmuna sína og koma að sjónarmiðum í málinu. Markmið málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar sé að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við stjórnvöld, en ekki sé nokkur leið að sjá að málsmeðferð sveitarfélagsins í þessu máli hafi haft neikvæða áhrif á réttaröryggi kæranda.

Sveitarfélagið fallist á að það hafi verið annmarki á afgreiðslu málsins að svarbréf sveitarstjórans frá 7. janúar 2019 skyldi sent kæranda áður en sveitarstjórn hafi samþykkt afgreiðslu byggðaráðs um að senda kæranda umrætt bréf. Annmarkinn sé þó ekki þess eðlis að hann eigi að varða ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Vegna þessa atriðis sé á það bent að í byggðaráði sitji þrír fulltrúar og einn áheyrnarfulltrúi, allt sveitarstjórnarmenn. Þegar afgreiðsla byggða­ráðs hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til staðfestingar hafi kjörnir fulltrúar engar athugasemdir gert við hana. Því hefði það ekki haft áhrif á efnislega afstöðu sveitarfélagsins til athugasemda kæranda hefði verið beðið með að senda bréfið fram yfir fund sveitarstjórnar.

Kærandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd grenndarkynningarinnar. Við yfirferð þeirra hafi sveitarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra stæðist skoðun, m.a. að grenndarkynning hafi verið efnislega fullnægjandi, að afstöðumynd hafi ekki þurft að fylgja með þar sem um ræddi breytingu á innra skipulagi húss, að ekki hafi þurft að gera grein fyrir bílastæðamálum þar sem ákvæði núgildandi skipulagsreglugerðar geri ekki sömu kröfur og eldri skipulags­reglugerð, að sveitarfélaginu væri ekki skylt að útbúa kort yfir bílastæði og að þar sem ekki væri verið að sækja um breytta notkun væri sveitarfélaginu hvorki skylt né heimilt að senda út grenndarkynningu vegna slíks.

Einnig hafi kærandi gert athugasemd við að hönnunargögn stæðust ekki skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, en kærandi geti ekki með nokkru móti talist hafa lögvarða hagsmuni af því að grenndarkynnt hönnunargögn vegna innanhússbreytinga sýni að húsið sé hannað á grundvelli algildrar hönnunar, sýni fyrirhugað fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma, sýni hæðarkóta á lóðamörkum, sýni hvort baðaðstaða sé þrepa- og þröskuldalaus og sýni skráningu rýmisnúmera á uppdrætti, svo dæmi séu tekin. Tilgangur þeirra ákvæða reglugerðarinnar sem kærandi vísi til sé að veita byggingarfulltrúum tiltekin lágmarksviðmið við þá matskenndu ákvörðun að veita byggingarleyfi. Uppfylli gögn ekki umræddar kröfur geti byggingar­fulltrúi vísað til þeirra við ákvörðun um að neita að gefa út byggingarleyfi. Tilgangur þeirra geti hins vegar ekki verið sá að gera öðrum aðilum, sem eigi enga hagsmuna tengda því að hönnunargögn séu fullnægjandi, kleift að vísa til þeirra við kæru til æðra stjórnvalds til rökstuðnings kæruatriðum sem virðist aðallega varða nábýlisrétt.

Þá séu athugasemdir varðandi bílastæðamál við Egilsgötu afar óraunhæfir hagsmunir fyrir kæranda í þessu máli með hliðsjón af því að efni grenndarkynningarinnar hafi varðað breytingu á innra skipulagi hússins að Egilsgötu 6. Í svarbréfi sveitarstjóra hafi með rökstuddum hætti verið vísað til þess að ákvæði eldri skipulagsreglugerðar eigi ekki við í málinu, að málsatvik vegna afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar Brákarbrautar 2 hafi ekki verið sambærileg og að umfjöllun á fundi byggðaráðs um drög að reglugerð  nr. 1277/2016  um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hafi ekki neitt gildi við grenndarkynningu þá sem athugasemdir kæranda hafi varðað.

Að lokum hafi athugasemdir kæranda varðað atvinnurekstur í íbúðahverfum og þess verið krafist að rekstur gistiheimilis í húsinu yrði stöðvaður. Sveitarstjóri hafi svarað með þeim hætti að hin umþrætta grenndarkynning hafi ekki varðað starfsemi í húsinu. Áréttað sé að Skipulagsstofnun hafi vottað að svör sveitarstjóra við tilgreindum atriðum hafi ýmist verið fullnægjandi, að stofnunin hafi ekki lagalegar forsendur til að gera athugasemdir við svörin og að svörin hafi verið fullnægjandi með tilliti til þess rökstuðnings sem þar komi fram. Jafnframt vísist til þess að allir meintu hagsmunir kæranda hafi verið ólögvarðir, óverulegir og þess eðlis að þeir geti ekki talist grundvöllur fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Í svarbréfi sveitarstjóra til kæranda hafi athugasemdum hans varðandi efni grenndar­kynningar verið svarað. Um leið sé minnt á afstöðu Skipulagsstofnunar til svara sveitarstjóra varðandi bílastæðamál. Sveitarfélagið gangist við því að hafa ekki áttað sig á því að umrædd stæði væru innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Mistökin helgist af því að sveitarfélagið hafi ávallt séð um umrædd stæði og borið af þeim kostnað. Þróun bílastæðamála við Egilsgötu hafi verið sú að stæðum við götuna hafi fjölgað umtalsvert frá gerð lóðarleigusamnings. Þá sé ítrekað að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni varðandi umrædd bílastæðamál.

Að því er varði þá málsástæðu kæranda að hönnunargögn séu ekki fullnægjandi vísist til fyrri umfjöllunar. Aukinheldur sé vísað til þess sem komi fram í bréfi sveitarstjóra að í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð segi að við breytingu á mannvirki sem byggt hafi verið í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum um algilda hönnun. Í ljósi þess að húsið við Egilsgötu 6 sé frá 1936 sé ekki hægt að gera kröfu um að það uppfylli allar kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um algilda hönnun. Þá sé vísað til bréfs Skipulagsstofnunar og þá helst þess sem fram komi í 4. tölul. bréfsins um að hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin fyrir grenndarkynningu, sbr. lokamálslið gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna til hvaða nota umræddar íbúðir í húsinu að Egilsgötu 6 ættu að vera. Í umsókn leyfishafa hafi verið sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss en ekki hafi komið fram að um breytta notkun væri að ræða. Þá vísi kærandi til umsagna sveitarfélagsins um umsóknir eigenda Egilsgötu 6 til Sýslu­mannsins á Vesturlandi um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sé því m.a. haldið fram að með því að kynna ekki breytta notkun hússins sé sveitarfélagið með einhverjum hætti að neita því að um sé að ræða íbúðir sem reknar séu fyrir gistiþjónustu. Bent sé á að þetta atriði sé ekki hluti málsins þar sem grenndarkynningin hafi varðað umsókn um leyfi fyrir innanhússbreytingar og ekkert annað. Jafnframt sé bent á að málefni tengd rekstrarleyfum séu ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. úrskurð nefndarinnar í kærumáli nr. 89/2016. Þá vísi kærandi til 12. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og haldi því fram að í ákvæðinu komi fram að íbúð sem ekki falli undir heimagistingu skuli vera atvinnuhúsnæði. Rétt sé að benda á að með breytingarreglugerð nr. 686/2018 hafi umrætt ákvæði verið fellt úr gildi frá og með 3. júlí 2018. Allar athugasemdir kæranda um að hönnunargögn hafi átt að meta með það í huga að um atvinnuhúsnæði væri að ræða falli þar með um sig sjálfar.

Hvað varði athugasemdir í kæru um að hönnun standist ekki kröfur um stærð ljósopa glugga, stærð hurðaopa og lofthæð rýma vísi sveitarfélagið til fyrrnefnds tilgangs viðmiða byggingarreglugerðar og skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda. Jafnframt sé bent á að hið umrædda hús hafi verið byggt árið 1936, eða fyrir setningu fyrstu byggingarreglugerðar á Íslandi, og því sé endurskipulagningu þess sniðinn þröngur stakkur hvað varði algilda hönnun.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um að kæru verði vísað frá þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna „að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og um aðildarskort kæranda að ræða varðandi önnur atriði.“ Tínd séu til ýmis atriði sem séu útgáfu byggingarleyfis óviðkomandi en geti snúið m.a. að rekstrarleyfi leyfishafa, en það sé ekki til meðferðar í máli þessu. Þau atriði málsins sæti frávísun. Málsástæður kæranda um stærð ljósop sem hlutfall af gólffleti og lofthæð íbúða geti vart snert hagsmuni kæranda. Krafa hans um hnitsetta afstöðu­mynd og hæðarlínur geti vart talist nauðsynlegar til að hann geti gætt grenndarhagsmuna sinna þar sem ekki sé um að ræða breytingar á ytra byrði hússins eða umhverfi. Vísað sé til þess að tilgreind bílastæði séu innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Ekki verði séð að kærandi hafi sérstaka lögvarða hagsmuni af þessari málsástæðu. Þá hafi hann ekki sýnt fram á að hann gæti hagsmuna eiganda Egilsgötu 11. Kærandi geti því ekki haldið fram kröfu sem sé einka­réttarlegs eðlis.

Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út í kjölfar grenndarkynningar. Kærandi hafi haft alla möguleika til að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann og gerði. Stjórnvaldið hafi svarað athugasemdum hans ítarlega með bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 og þar með uppfyllt skyldu sína í samskiptum við kæranda. Því sé ekki hægt að halda fram að réttur hafi verið á honum brotinn. Einnig vísist til þess að lokaúttekt hafi farið fram á fasteignum að Egilsgötu 6.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Er ekki útilokað að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hins kærða byggingarleyfis og hefur honum áður verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni vegna sömu breytinga, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Getur kærandi teflt fram hverjum þeim málsástæðum sem hann telur rétt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á. Jafnframt hvílir á nefndinni sjálfstæð rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vegna hverra þeirra atvika sem tengst geta lögmæti hinnar kærðu leyfisveitingar. Þótt lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í þessu máli einskorðist við byggingarleyfið sem er til umfjöllunar getur kærandi jafnframt leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess telji hann málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða það ekki hafa sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags­gerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Að loknum kynningarfresti og þegar sveitar­stjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um grenndarkynningu tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er mælt fyrir um frekari málsmeðferð grenndarkynningar og kemur þar m.a. fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Fyrir liggur að á kynningartíma hinnar umþrættu leyfisumsóknar óskaði kærandi eftir svörum frá byggingarfulltrúa um tiltekin atriði grenndarkynningarinnar en því bréfi var ekki svarað. Þá sendi kærandi inn athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar á og var þeim athugasemdum svarað með bréfi sveitarstjóra 7. janúar 2019. Gaf umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd því ekki umsögn um athugasemdir kæranda líkt og henni bar að gera á grundvelli gr. 5.9.4. í skipulags­reglugerð, en til þess er að líta að skipulagsnefndir búa að jafnaði yfir sérfræðiþekkingu á skipulagsmálum. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og undirbúningur ákvörðunar um hið kærða byggingarleyfis annmörkum háð. Við mat á því hvort það varði ógildingu ber m.a. að horfa til þess að það er sveitarstjórn sem hefur vald til fullnaðarafgreiðslu grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kærandi kom á framfæri athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og var þeim athugasemdum svarað með fyrr­nefndu bréfi sveitarstjóra, en það svarbréf var staðfest af bæði byggðaráði og sveitarstjórn. Í bréfi sveitarstjóra er athugasemdum kæranda svarað vandlega í ítarlegu máli með vísan til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða. Þá var í svari byggingarfulltrúa vegna athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar, sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd staðfesti á fundi sínum 6. mars 2019, fjallað um ýmis þau atriði sem kærandi vísaði til í athugasemdum sínum. Verður því ekki séð að skort hafi á aðkomu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar vegna athugasemda kæranda með þeim hætti að leitt hefði til annarrar niðurstöðu en raun bar vitni. Þá verður ekki fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningarinnar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna fram­kvæmdanna.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., og skal hann skv. 11. gr. sömu laga fara yfir byggingarleyfisumsókn og ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Í áðurgildandi byggingar­reglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, en sá hluti fjallar um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að breyta íbúðarhúsi, sem reist var árið 1936, í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð, en fasteignin verður við þá breytingu fjöleignarhús og er hún nú skráð sem slíkt hús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Við nefnda breytingu gilda ákvæði byggingarreglugerðar. Af samþykktum uppdráttum verður ráðið að þónokkur skilyrði 6. hluta byggingarreglugerðar eru ekki uppfyllt. Má þar t.a.m. nefna að í gr. 6.7.1. er kveðið á um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign og skv. gr. 6.2.4. skal vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar íbúðir í fjölbýlishúsi eru á bilinu 1-10. Hvorki liggur fyrir að greinargerð í samræmi við gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með form­legum hætti í samræmi við nefnt ákvæði. Þá voru samþykktir uppdrættir ekki málsettir og er því óvíst hvort önnur tiltekin ákvæði reglugerðarinnar hafi verið uppfyllt, t.d. gr. 6.7.2. um lofthæð og ljósop glugga. Verður það að teljast annmarki á hinu umdeilda byggingarleyfi. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

35/2019 Bæjarhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra Fjóluvellir ehf., Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun „sem felur í sér stórbreytta notkun“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. júní 2019.

Málavextir: Kærandi er eigandi blómaverslunar að Bæjarhrauni 26, matshluta 0101. Með umsókn, dags. 11. mars 2019, sótti eigandi matshluta 102 í umræddri fasteign um að breyta innra fyrir­komulagi Bæjarhrauns 26 samkvæmt teikningum, dags. 5. mars s.á. Nánar tiltekið var sótt um að breyta innra fyrirkomulagi þannig að húsnæðið hentaði sem veitingastaður í flokki III. Teikningarnar voru áritaðar og með stimpli Slökkviliðs höfuðborgar­­­svæðisins og Heilbrigðis­eftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingar­fulltrúi samþykkti erindið á afgreiðslu­fundi 3. apríl 2019 í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Sótt var um starfsleyfi fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi, dags. 23. apríl 2019, óskaði Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort umræddur rekstur væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 3. maí s.á. þar sem fram kom að reksturinn væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar.

Í málinu liggur fyrir minnisblað skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. maí 2019. Er þar tekið fram að lóðin  Bæjarhraun 26 sé á landnotkunarsvæði, sem skilgreint sé sem athafnasvæði, merkt AT1, í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Er og m.a. vísað til þess að skipulagslega séu engar forsendur sem mæli gegn því að heimila rekstur veitingahúss að Bæjar­hrauni 26. Byggingarleyfisumsókn um breytingar á innra fyrirkomulagi í eign 0102 hafi verið samþykkt þar sem hún samræmdist viðkomandi skipulagsuppdráttum og uppfyllti skilyrði byggingar­reglugerðar er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rekstur blómaverslunar hafi verið í tæp 40 ár að Bæjarhrauni 26. Í upphafi hafi húsnæði það sem nú sé verið að breyta í vínveitinga-, skemmti- og hljómleikastað fyrir þungarokk verið hannað með rekstur verslunar í sér­hönnuðu blómahúsi í huga. Því hafi kærandi í raun alltaf mátt búast við að fyrirhugaður rekstur yrði aldrei leyfður án samþykkis kæranda. Vísist til 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þar sem fram komi í 4. mgr. ákvæðisins að ef breytt nýting valdi sumum eigendum, einum eða fleiri, sérstökum óþægindum þá geti einn krafist þess að ekki verði af breytingunum. Kærandi hafi bent skipulags­­yfirvöldum á að vilji þau tryggja Íslenska Rokkbarnum framtíðarhúsnæði sé þeim í lófa lagið að kaupa eignarhluta kæranda ásamt byggingarrétti, sem og að greiða blóma­versluninni skaðabætur í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sterk neikvæð afstaða kæranda vegna beiðni um samþykki um rekstrar­leyfi til handa Íslenska Rokkbarnum hafi strax komið fram. Samkvæmt lögum og leiðbeiningum frá byggingar­­­fulltrúa hefði samþykki kæranda þurft að liggja fyrir til að leyfa eða samþykkja rekstur vínveitinga- og hljómleikastaðar. Lífsviðurværi kæranda og grunnur að fjárhagslegri afkomu hans byggist á að viðkvæmur rekstur blómaverslunarinnar verði ekki fyrir tekjumissi, truflunum og öðrum þeim ótal vandamálum og óþægindum sem muni fylgja eða geti fylgt ákvörðun byggingarfulltrúa og bæjarráðs. Hver viti borinn maður geti ekki reiknað með eða fullyrt að þessi rekstur sé það aðlaðandi hann dragi aukin viðskipti til blómaverslunarinnar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um sé að ræða umsókn um breytingu á innréttingu verslunar- og þjónusturýmis á fyrstu hæð. Við töku ákvörðunarinnar hafi legið fyrir þær forsendur að umrætt húsnæði væri staðsett á landnotkunar­svæði sem skilgreint væri sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi Hafnar­fjarðar. Í skilmálum aðalskipulags segi einnig að „í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar er svæðið milli Reykjavíkurvegar, Flatahrauns og Fjarðarhrauns skilgreint sem athafnasvæði, annars vegar fyrir iðnað og hins vegar verslun og þjónustu.“ Sé umrædd stefna um landnotkun í gildandi aðalskipulagi í fullu samræmi við gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sé þar gert ráð fyrir að sá flokkur skuli tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skuli nánar tilgreint í skilmálum. Undir verslun og þjónustu falli skv. c-lið gr. 6.2. meðal annars hótel, gistiheimili, veitingahús og skemmtistaðir. Því sé ljóst að á lóðinni Bæjarhrauni 26 sé meðal annars gert ráð fyrir að þar sé rekin veitinga- og/eða skemmtistaður. Að því virtu hafi byggingarfulltrúi samþykkt umrædda umsókn um breytingu á innra fyrirkomulagi húsnæðisins, enda hafi umsóknin verið í samræmi við gildandi skipulag og hafi uppfyllt skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Hvað varði tilvísun kæranda í væntanlega ákvörðun bæjarráðs þá skuli upplýst að bæjarráð hafi enga ákvörðun tekið í tengslum við breytingar á innra rými eða rekstri að Bæjarhrauni 26. Slík erindi heyri ekki undir bæjarráð. Vegna fullyrðingar kæranda um að „leyfi til rekstrar skemmtistaðarins liggi fyrir“ skuli upplýst að hvorki byggingarfulltrúi né bæjarráð hafi veitt umsögn vegna umsóknar rekstraraðila um nýtt rekstrar­leyfi fyrir veitingastað í flokki III.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar sem hann nýtti sér ekki.

Niðurstaða: Lóðin Bæjarhraun 26 er á ódeiliskipulögðu svæði og er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að innra skipulagi húss á lóðinni verði breytt að hluta á þann veg að húsnæðið henti sem veitingastaður í flokki III.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag hvað landnotkun varðar. Sú undantekning er þó gerð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga að skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndar­kynning ekki farið fram. Þá hefur málið ekki komið til kasta skipulagsnefndar og hún því ekki nýtt sér greinda heimild 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að falla frá grenndarkynningu.

Þar sem hvorki hefur farið fram grenndarkynning né verið fallið frá henni í samræmi við 44. gr. skipulagslaga verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að heimila breytt innra fyrirkomulag hússins nr. 26 við Bæjarhraun.