Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2019 Garðavegur

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 12. nóvember 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 4. nóvember 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 31. nóvember 2017, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að á eftirlitsferð um bæinn hefði byggingarfulltrúi tekið eftir að búið væri að gera stiga utanhúss á fasteign kæranda, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingarfulltrúa, en slík breyting væri háð byggingarleyfi.

Kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn, dags. 8. febrúar 2019, fyrir „úthlaup fyrir ris“ við nefnda fasteign. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var kæranda tilkynnt niðurstaða afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 13. s.m. um synjun á umsókn hans. Þar var  vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að umsókninni hefði fylgt teikning, sem sýndi neyðarstiga frá risi niður á fyrstu hæð umrædds húss, auk samþykkis eiganda Garðavegar 16. Samkvæmt teikningunni væri gert ráð fyrir tröppu frá svölum niður á „einhvers konar pall“ sem girtur væri af með skjólvegg. Hvorki kæmi fram í umsókninni að sótt væri um gerð pallsins né um breytingar á tröppum og stoðveggjum á lóðinni. Tekið var fram í umsögninni að byggingarreitur lóðar væri 9,0×10,0 m samkvæmt mæliblaði frá 1982 og færi því umrædd trappa út fyrir byggingarreit. Þá væri vísað til gr. 6.4.10. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, þar sem tekið væri fram að framstig útitrappa skuli eigi vera minna en 280 mm og uppstig skuli vera á bilinu 120 – 160 mm. Halli á tröppum fyrir almenna umferð utanhúss skuli almennt vera á bilinu 17° til 30°. Með hliðsjón af framangreindu komst byggingarfulltrúinn að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn kæranda.

Í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 15. febrúar 2019 var vísað til þess að heimilt væri að kæra ákvörðun hans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Liggur fyrir að kærandi kærði ekki ákvörðunina.

Umsókn kæranda var fylgt eftir með bréfum, dags. 12. og 22. mars 2018, og með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá bæjaryfirvöldum þar sem farið var fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 20. október s.á. Kom þar fram að enginn stigi væri við húsið en hann kannaðist við að áltröppur lægju á veröndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann sé sakaður um að vera með ósamþykktan stiga utan á vesturhlið hússins. Þar sé þó enginn stigi og hafi aldrei verið en litlar áltröppur liggi þó á verönd kæranda. Jafnframt gagnrýnir kærandi að gerðar séu kröfur um hvíldarplan, uppstig og fram­stig á neyðarstigum. Að sjálfsögðu séu tveir útgangar úr tveimur aðskildum rýmum í risi.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær vísar til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir eðli málsins. Af gögnum málsins, bréfum og umsögn skipulagsfulltrúa megi vera ljóst að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Sveitarfélaginu hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingar­fulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi verði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að hönnun, smíði og notkun mannvirkja uppfylli kröfur laga og reglugerða og að tilskilin leyfi hafi verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda fyrir þeim. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lög­bundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Við vettvangsskoðun kom í ljós að stigi hafði verið reistur að útgöngudyrum rishæðar húss kæranda að Garðavegi 18. Er sú framkvæmd byggingar­leyfisskyld skv. 9. gr. mannvirkjalaga og eru í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði sem tryggja eiga öryggi slíks mannvirkis, sbr. m.a. gr. 6.4.6. í reglugerðinni. Ekki hefur verið veitt byggingar­leyfi fyrir umræddum stiga og var byggingarfulltrúa því heimilt að gera kröfu um að hann yrði fjarlægður, eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeildur stigi yrði fjarlægður yrði kærandi beittur dagsektum frá og með 12. nóvember 2019. Þeirri ákvörðun var ekki fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.