Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2019 Heiðargerði

Árið 2020, mánudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 við Heiðar­gerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Heiðargerðis 27 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 að Heiðargerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 17. apríl 2018 sóttu eigendur Heiðargerðis 29, Reykjavík, um byggingarleyfi til að stækka efri hæð hússins með því að byggja fyrir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Á teikningum sem fylgdu umsókninni koma fram þær breytingar sem snúa að yfirbyggingu svalanna og breyting á glugga á suðurhlið hússins. Í umsögn skipulagsfulltrúa var óskað eftir því að gögn yrðu endurbætt og að sýnt yrði fram á að framkvæmdir samræmdust deiliskipulagsskilmálum svæðisins. Ný gögn bárust skipulags­fulltrúa 29. maí 2018 og gerði hann ekki skipulagslega athugasemd við áformin í umsögn sinni frá 1. júní s.á. og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. s.m. Í júní 2019 barst byggingarfulltrúa ábending frá kæranda þess efnis að framkvæmdir væru hafnar án þess að byggingarleyfi væri fyrir hendi. Var kæranda tjáð að byggingarleyfi væri til staðar en haft var samband við eigendur Heiðargerðis 29 og þeim bent á að leyfið gerði ráð fyrir yfir­byggingu úr timbri en ekki steypu. Var af því tilefni sótt um leyfi til að breyta byggingarleyfinu þannig að útveggir byggingarinnar yrðu steinsteyptir og einangraðir að innan auk þess sem plastklæðning yrði fjarlægð og í staðinn sett múrkerfi á allt húsið. Breyting þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tveir nýir gluggar muni verða á suðurhlið Heiðargerðis 29, sem valdi miklu ónæði þar sem útsýni frá gluggunum í garð og stofu kæranda verði algert. Eðli máls samkvæmt hafi gluggar á efri hæðum húsa meiri nábýlisáhrif en gluggar á neðri hæðum. Þá kröfu verði að gera að leitað sé samþykkis nágranna fyrir breytingum sem þessum. Kærandi hafi hins vegar ekki verið látinn vita af breytingunum, hvorki með grenndar­kynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi fyrst orðið var við framkvæmdirnar 10. júní 2019, þegar búið hafi verið að slá upp Dokaplötum og steypuvinna hafi hafist, en hafði fyrir það ekki vitneskju um að til stæði að ráðast í breytingar á húsinu. Engin umræða virðist hafa farið fram á fundum byggingarfulltrúa eða umhverfis- og skipulagsráðs um áhrif breytinganna gagnvart nær­liggjandi húsum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júní 2018. Rúmt ár sé liðið síðan ákvörðunin hafi verið tekin og því ljóst að kærufrestur sé liðinn, en kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 5. júlí 2019. Verði að skýra þetta ákvæði í samræmi við ákvæði stjórnsýslu­réttarins um kærufresti, en þar komi fram að kæru skuli ekki sinnt sé ár síðan hún hafi verið tilkynnt aðila.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi hafi verið upplýstur um tilvonandi framkvæmdir í júní 2018 og ekki hafi komið fram neinar athugasemdir við framkvæmdirnar. Ekkert óhagræði fyrir kæranda felist í framkvæmdunum og þær séu í samræmi við deiliskipulag fyrir Heiðargerði, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2003.

Við flest öll hús í götunni, þar sem stofa hafi verið stækkuð, hafi þurft að byggja yfir svalir vegna leka og mörg fordæmi séu fyrir slíkri framkvæmd. Þá séu fordæmi fyrir því að fleiri en einn gluggi séu á suðurhlið húsa. Byggt hafi verið yfir svalir húsa bæði við sömu botngötu og Heiðar­gerði 27 standi við og víðar í Heiðargerði. Útsýni úr þeim glugga sem hafi verið lokað fyrir hafi verið mun meira í garð kæranda en úr nýjum glugga á suðurhlið hússins. Þá hafi leyfishafi aldrei séð og muni ekki sjá inn í stofu kæranda þar sem húsin standi nánast hlið við hlið. Nýr gluggi gegni m.a. hlutverki neyðarútgangs úr rýminu.

Veitt hafi verið leyfi til að byggja yfir svalir Heiðargerðis 31 hinn 6. ágúst 2008 og hafi sú framkvæmd hvorki verið grenndarkynnt né leitað eftir samþykki eigenda Heiðargerðis 29. Sú framkvæmd hafi þó verið enn umfangsmeiri en sú framkvæmd sem kærð sé. Ekki hafi verið þörf á grenndarkynningu þar sem hin umdeilda framkvæmd sé í samræmi við deiliskipulag og kærandi hafi verið upplýstur um framkvæmdina í júní 2018. Þá hafi kærandi aldrei notið þess einkasvæðis sem vitnað sé til í kæru þar sem eigendur fasteignarinnar beint á móti hafi fulla sýn yfir allan garð kæranda, sem og inn í stofu og svefnherbergi, frá svölum og herbergis­glugga á annarri hæð.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Á það er bent að tveir nýir gluggar verði vestarlega á suðurhlið viðbyggingarinnar. Umræddir gluggar snúi í suður og í átt að garði kæranda. Úr gluggunum sé fullkomin yfirsýn yfir allan garð hans sem áður hafi ekki verið til staðar. Fyrir breytingu hafi verið lítill gluggi á svalahurð, en sá gluggi hafi verið lengra frá húsi kæranda, eða um fjórum metrum norðar. Sjónlína í garðinn hafi þar verið allt önnur og yfirsýn minni. Áréttað sé að útsýni frá efri hæðum húsa sé meiri en frá neðri hæðum og hægt sé að setja upp grindverk allt að 180 cm á hæð sem geti hamlað útsýni frá neðri hæðum. Þrátt fyrir að bílskúr sé á milli húsanna þá skýli hann á engan hátt yfirsýn af efri hæð. Staðhæfingar um annað sýni að Reykjavíkurborg hafi takmarkaða innsýn á málið.

Ákvörðun hafi ekki verið tilkynnt kæranda, hvorki með grenndarkynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um fyrirhugaða stækkun fyrr en 10. júní 2019 þegar fram­kvæmdir hafi hafist. Þá skuli á það bent að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdunum í endanlegri mynd fyrr en 26. júní 2019 og að sú breyting hafi verið samþykkt af byggingar­fulltrúa 2. júlí s.á.

Breytingin gangi gegn skilmálum gildandi deiliskipulags og meginreglum nábýlisréttar. Í deiliskipulagi komi fram að byggingarskilmálar taki mið af þeirri húsakönnun sem gerð hafi verið fyrir hverfið í kjölfar deiliskipulagsvinnunnar. Sé þar mælst til þess að við frekari endurbætur verði hús færð nær uppruna sínum. Um sé að ræða 32 hús sem öll séu eins byggð við Heiðargerði og upprunalegir gluggar séu austarlega á suðurgafli húsanna. Sú breyting að setja tvo glugga á umrætt hús samræmist því ekki því markmiði deiliskipulagsins að varðveita upprunaleg útlits­einkenni og samræmi milli húsanna.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út 26. júní 2018. Engin gögn benda til þess að kærandi hafi vitað eða mátt vita um tilvist þess fyrr en framkvæmdir hófust. Fyrstu skráðu samskipti kæranda og Reykjavíkurborgar eru með tölvupóstum frá 21. júní 2019, en í þeim vísar kærandi til símtals þann sama dag og segist munu senda byggingarfulltrúa mótmæli. Kærandi var upplýstur um kæruheimild til „úrskurðarnefndar“ 27. s.m. Kærandi kveður framkvæmdir hafa hafist 10. júní 2019, en kæra í máli þessu barst nefndinni 5. júlí s.á. Verður því við það að miða að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni innan mánaðar frá því að kærandi varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hið kærða byggingarleyfi í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá var endanlegt byggingarleyfi samþykkt af byggingarfulltrúa 2. júlí 2019. Kæra þessi er því fram komin innan kærufrests og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndar­kynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag ef deiliskipulag liggi ekki fyrir. Í gildi er deiliskipulag Heiðargerðisreits sem samþykkt var í borgarráði 19. júní 2003 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí s.á. Var því ekki þörf á að grenndarkynna hið umdeilda byggingarleyfi.

Í deiliskipulagi Heiðargerðisreits eru svokallaðir viðbyggingarreitir hverrar lóðar skil­greindir. Þannig kemur fram að á lóðinni Heiðargerði 29 er m.a. heimilt að reisa tveggja hæða viðbyggingu, merkt C, við suðvesturhorn hússins. Verður því ekki fallist á með kæranda að viðbyggingin sem slík sé í andstöðu við deiliskipulag svæðisins. Þrátt fyrir að mælt sé fyrir um að taka skuli mið af húsakönnun í skilmálum deiliskipulags getur almennt orðalag þess efnis að hús skuli færð nær upprunalegri gerð ekki gengið framar skýrri heimild til að byggja viðbyggingu við Heiðargerði 29. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif umræddra framkvæmda verði önnur og meiri en búast hafi mátt við samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags. Að þessu virtu verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinu kærða byggingarleyfi sem leitt geti til ógildingar þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 vegna hússins nr. 29 við Heiðargerði.