Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2019 Dalbraut, Eskifirði

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2019, kæra á ákvörðunum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langadal 4, Eskifirði, þá ákvarðanir eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að málið verði tekið til efnismeðferðar að nýju hjá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 2. september 2019.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn Rarik ohf., dags. 31. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja 116 m² viðbyggingu við tengivirkishús fyrirtækisins að Dalbraut 4, Eskifirði. Jafnframt sótti Landsnet hf. 28. júní s.á. um byggingarleyfi fyrir 266 m² og 132 kílóvatta tengivirki á sömu lóð. Báðar umsóknirnar voru teknar fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 8. júlí 2019. Á fundinum var m.a. bókað að lögð hefði verið fram yfirlýsing Rarik um að ákveðið hefði verið í samráði við Landsnet að framkvæmd yrði hljóðmæling umhverfis mannvirkin og að ráðgjafi legði fram tillögur að úrbótum sem myndu stuðla að bættri hljóðvist umhverfis þau. Í ljósi yfirlýsingar Rarik samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi þar sem á deiliskipulagsuppdrætti komi einungis fram að um 33 kv/11 kv og 66 kv aðveitustöðvar sé að ræða, en ekki sé þar gert ráð fyrir 132 kv tengivirki. Lóðin að Dalbraut 4 sé skilgreind í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 sem þjónustulóð en hún liggi ein og sér að íbúðarhverfi og sé deiliskipulögð með því. Ekki verði annað séð en að þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar séu það umfangsmiklar og geti valdið það miklum óþægindum fyrir íbúa húsa á aðliggjandi lóðum að þær brjóti í bága við stefnu Fjarðabyggðar á íbúðarsvæðum. Fyrirhuguð framkvæmd fari langt út fyrir stefnu aðalskipulags og sé í ósamræmi við deiliskipulagsuppdrátt. Áhrif stækkunar á umhverfi og samfélag hafi ekki verið nægilega könnuð, en vakin sé athygli á nauðsyn umfjöllunar um rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar. Jafnframt muni þetta koma til með að hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna á svæðinu.

Málsrök Fjarðabyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að Dalbraut 4 sé á svæði fyrir þjónustu­stofnanir og sé innan reits S1 samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Næst reitnum S1 sé íbúðarbyggð. Lýsing reitsins sé eftirfarandi í aðalskipulagi: „Aðveitustöð og spennistöð við Dalbraut.“ Þá séu skipulagsákvæði reitsins eftirfarandi: „Svigrúm fyrir breytingar á núverandi mannvirkjum og framkvæmdir sem falla að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki.“ Deiliskipulag Barðs 1 geri ráð fyrir aðveitustöð og þeim byggingum sem henni séu tengdar innan lóðar Dalbrautar 4. Á deiliskipulagsuppdrætti sé byggingarreitur staðsettur innan lóðar með almennum hætti. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði greinargerðar deiliskipulags og ákvæði aðalskipulags. Í aðalskipulagi sé beinlínis vísað til þess að til staðar séu heimildir til breytinga á núverandi mannvirkjum og framkvæmdum sem falli að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki. Spennubreyting og uppbygging mannvirkja vegna þess feli ekki í sér breytingu á landnotkun sem verið hafi til staðar á lóðinni og gert sé ráð fyrir.

Eðli máls samkvæmt þurfi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt að sæta því að verða fyrir einhverjum áhrifum af starfsemi sem heimiluð sé á nálægum lóðum. Niðurstöður mælinga á hljóði og rafsegulsviði gefi til kynna að áhrif af starfsemi í heimiluðum byggingum verði fyrst og fremst innan lóðarinnar Dalbrautar 4. Í öllu falli sé ljóst að einungis geti verið um að ræða óveruleg áhrif á lóð kæranda og þau áhrif yrðu langt innan þeirra marka sem íbúar í þéttbýli þurfi að sæta vegna starfsemi á nálægum lóðum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að umræddar framkvæmdir séu nauðsynlegar fyrir aðgengi að raforku á Austfjörðum, íbúum og öðrum á svæðinu til hagsbóta. Annars vegar sé um að ræða viðbyggingu við tengivirkishús, sem feli í sér nauðsynlega uppbyggingu innviða á svæðinu, og hins vegar byggingu nýs tengivirkis. Að því er varði tilvísun kæranda til nauðsynjar á umfjöllun um „rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar“ sé bent á niðurstöðu mælinga Geislavarna ríkisins á segulsviði í og við sambærilegt tengivirki að Hnoðraholti í Kópavogi. Niðurstöður mælinga hafi verið vel innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar. Þá sé bent á skýrslu Verkís hvað varði hávaða en samkvæmt henni fari hávaði frá tengivirkinu aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhuguð byggingaráform taka til og stendur hús á lóð sem er á milli fasteignar kæranda og umræddrar lóðar. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kæranda muni skerðast, svo sem vegna skuggavarps eða innsýnar, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Þegar litið er til staðhátta verður ekki séð að útsýni kæranda muni skerðast að neinu marki. Þá liggja fyrir upplýsingar í málinu sem gefa til kynna að áhrif rafsegulsviðs og hávaði frá umdeildum byggingum verði vel innan lögákveðinna viðmiðunarmarka.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.