Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

116/2019 Langabrekka

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2019, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. nóvember 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kærir eigandi, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. desember 2019.

Málavextir: Hinn 27. september 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir „byggingu bílskúrs sem yrði áföst Löngubrekku 5“ í Kópavogi. Á fundi skipulagsnefndar 17. október s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsráðs 20. febrúar 2017 ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd liggi að lóðarmörkum Löngubrekku 7 og raski þeirri lóð. Þar sem samþykki lóðarhafans lægi ekki fyrir væri lagt til að skipulagsráð hafnaði erindinu. Var niðurstaða skipulagsráðs að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 28. s.m.

Hinn 23. janúar 2019 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd. Í umsókninni kom fram að breytt eignarhald hefði orðið á fasteigninni Löngubrekku 7 og að fyrir lægi samþykki eigenda hennar fyrir framkvæmdinni. Á fundi skipulagsráðs 29. júlí s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 7. október s.á. ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Var niðurstaða skipulagsráðs sú að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 22. október 2019. Á fundi byggingarfulltrúa 25. s.m. var umsókninni hafnað með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn skipulags- og byggingardeildar séu alvarlegar rangfærslur og sé engu líkara en að deildin hafi ekkert kynnt sér staðreyndir málsins. Mjög langsótt sé að halda því fram að umræddur bílskúr sé ekki í samræmi við yfirbragð byggðarinnar. Allir bílskúrar við Löngubrekku séu á lóðarmörkum aðliggjandi lóðar og séu margir þeirra „sérstæðir aftarlega á lóð við lóðamörk bakliggjandi lóðar“. Einnig séu margir þeirra fastir við íbúðarhúsið og þá alltaf við lóðarmörk aðliggjandi lóðar til hliðar. Húsið að Löngubrekku 5 sé tvíbýli og sé því ekki um einbýlishúsalóð að ræða, líkt og komi fram í umsögninni. Langflest húsin við Löngubrekku séu tvíbýli með tvo bílskúra eða tvöfalda bílskúra. Minnihluti lóða séu einbýlishúsalóðir með einn bílskúr. Að því er varði þá röksemd í umsögninni, að með því að heimila viðbygginguna sé verið að takmarka nýtingarmöguleika lóðar Löngubrekku 7, sé bent á að fyrir liggi yfirlýsing allra eigenda þeirrar lóðar um að þeir samþykki bílageymsluna. Þar með séu þeir að samþykkja takmarkaða nýtingarmöguleika lóðarinnar. Kópavogsbær hafi beðið kæranda um yfirlýsingu varðandi færslu fráveitulagnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en til hvers væri sú yfirlýsing í ljósi þess að fráveitulögnin þjónusti eingöngu lóð Álfhólsvegar 61 og einu óþægindin yrðu við það þegar gamla lögnin yrði tengd við nýja lögn. Það feli hugsanlega í sér stöðvun á notkun lagnarinnar í einn klukkutíma eða svo.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú viðbygging sem kærandi hafi sótt um sé ekki í samræmi við götumynd og yfirbragð byggðarinnar. Um sé að ræða bifreiðageymslu á einbýlishúsalóð þar sem fyrir sé bifreiðageymsla. Væri það því einsdæmi í götunni ef heimiluð yrði önnur bifreiðageymsla á slíkri lóð. Þá muni viðbyggingin standa á lóðarmörkum Löngubrekku 7 og með því væri verið að takmarka möguleika til nýtingar þeirrar lóðar að einhverju leyti. Þar að auki yrði nauðsynlegt að færa fráveitulögn í eigu bæjarins sem þjónusti fleiri lóðir en lóð kæranda. Ekki séu fyrir hendi málefnaleg rök til að heimila framkvæmd sem valdi öðrum en lóðarhafa óþægindum meðan á framkvæmdum standi, sérstaklega vegna framkvæmdar sem sé ekki að frumkvæði Kópavogsbæjar og í óþökk lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá séu ítrekaðar breytingar á húsnæði, líkt og hafi verið til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum vegna lóðarinnar Löngubrekku 5, ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að greinargerð Kópavogsbæjar sé einungis endurrit af umsögn skipulags- og byggingardeildar um málið en þeirri umsögn hafi verið svarað í kærunni sjálfri. Eitt atriði hafi þó bæst við greinargerðina en það sé að viðbyggingin sé ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins. Kærandi hafi óskað eftir frekar útskýringu á þeirri röksemd en ekki fengið. Bent sé á að það sé yfirlýst stefna bæjarins samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 að þétta byggð og nýta lóðir betur.

Niðurstaða: Samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr., er endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfa þess í höndum byggingarfulltrúa. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð fyrirliggjandi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5, enda er hin kærða ákvörðun skipulagsráðs liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin Langabrekka 5 er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Á grundvelli ákvæðisins var umsókn kæranda grenndarkynnt.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga og er íbúum sveitarfélags ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu. Þrátt fyrir að ákvörðun um að samþykkja eða synja byggingarleyfisumsókn á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé háð mati skipulagsyfirvalda þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim skilyrðum ákvæðisins að framkvæmdin skuli vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt ber stjórnvaldi að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar, og sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 7. október 2019 og afgreidd með eftirfarandi bókun: „Skipulagsráð hafnar erindinu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. var niðurstaða skipulagsráðs staðfest með eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum og hafnar erindinu.“ Með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda á fundi sínum 25. s.m. Þrátt fyrir að umsögn skipulags- og byggingardeildar, þar sem mælt var með að umsókn kæranda yrði hafnað, hafi verið lögð fram á fundi skipulagsráðs liggur ekkert fyrir um afstöðu ráðsins til þeirra sjónarmiða er fram komu í umsögninni. Af greindum bókunum er því ekki ljóst hvaða rök lágu að baki þeirri ákvörðun að synja umræddri umsókn. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.