Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2019 Langeyrarvegur

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrar­vegar 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 að leggja 20.000 króna dagsektir á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fallist var á kröfu kæranda um frestun réttar­áhrifa með úrskurði nefndar­innar, uppkveðnum 11. október 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. janúar 2019, upplýsti byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar kæranda um að hann hefði til skoðunar meinta óleyfisframkvæmd sem meðal annars fælist í breytingum á útliti bílskúrs að Langeyrarvegi 4 án þess að leyfis meðeiganda hefði verið aflað. Þá væri ekki heimilt að vera með tvær íbúðir í rýminu eins og grunur léki á að búið væri að gera. Óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá kæranda og leiðbeindi honum um að sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum en ella að breyta útliti hússins í fyrra horf. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. janúar 2019, þar sem m.a. var vísað til þess að fyrirhugað væri að halda húsfund um málið og að kærandi hefði haft samband við arkitekt vegna breytinga á útliti hússins.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum ættu að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi væri rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Erindi byggingar­fulltrúa var svarað með bréfi kæranda, dags. 17. s.m., þar sem kom fram að kærandi hefði farið yfir málið með arkitekt og að tryggt yrði að bílskúrsdyr yrðu áfram á húsinu. Ekki væri ljóst hvernig klæðning byggingarinnar færi í bága við mannvirkjalög og þá félli umræddur eignarhluti kæranda undir notkunarflokk 3 samkvæmt gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beitt yrðu 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýslu­réttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði slík ákvörðun að vera skýr, framkvæmanleg og studd málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Framkvæmdir þær sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt. Athugasemdir byggingarfulltrúa um notkun á rýminu til búsetu eigi sér ekki lagastoð enda rúmist það innan stjórnarskrárvarins eignarréttar hvers íbúðareigenda hvernig og með hvaða hætti hagnýtingu séreignar sé háttað. Kærandi hagnýti rýmið með þeim hætti að það sé leigt út til leigjanda, sem nýti það, eftir því sem kærandi best viti, ekki til annars en heimilt sé.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að byggingar­fulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé meðal annars óheimilt að breyta húsnæði, burðakerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Sömu reglur komi fram í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva fram­kvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. í byggingar­reglugerðinni. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. mannvirkjalaga og í gr. 2.9.2. í reglugerðinni ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingar­fulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýslu­réttarins við meðferð málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi enn engin rök fært fyrir því að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi ekki við. Kærandi leggi áherslu á að frá byggingu hússins hafi hans eignarhluti alltaf verið klæddur án nokkurra athugasemda af hálfu sveitarfélags eða meðeiganda, þar til meðeigandi hafi óskað eftir því við kæranda að hann skipti um klæðningu á eignarhlutanum því honum þætti hún ljót. Kærandi hafi ekki talið það forgangsverkefni en hann gæti hugsað sér að klæða húsið með klæðningu eins og þeirri sem hann hafi nú verið sektaður fyrir að nota. Klæðningin sé í sama litatón og fyrri klæðning og telji kærandi hana falla innan marka c-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem endurnýjun vegg­klæðningar þegar notað sé sambærilegt efni og frágangur þannig að útlit byggingar breytist óverulega. Framkvæmdin sé því undanþegin byggingarleyfi og beri kærandi samkvæmt gr. 2.3.7. í reglugerðinni ábyrgð á því að ekki sé gengið á rétt nágranna og að virt séu ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Kærandi upplýsi að vegna breyttra aðstæðna hafi komist á samkomulag milli kæranda og leigjanda um að leigusamningur um bílskúr verði felldur úr gildi og verði samningnum aflýst af eigninni. Samt sem áður mótmæli kærandi því sem fram komi í bráðabirgðaúrskurði að ágreiningur snúist um það hvort afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun. Ekki sé um breytta notkun að ræða heldur sé notkun í samræmi við skráningu, hvort sem rýmið sé nýtt fyrir geymslu bifreiðar, húsgagna, verkfæra eða fyrir búsetu. Kærandi geri ekki kröfu um að skráningu rýmisins verði breytt vegna notkunar. Það sé afstaða kæranda að byggingarfulltrúa skorti valdheimildir til þess að þvinga fram breytta notkun á rými sem kærandi eigi í séreign. Rýmið sé stök bílgeymsla fyrir einn notanda og samkvæmt töflu 9.01 í byggingarreglugerð, skipting mannvirkja í notkunarflokka, teljist slík bílgeymsla hluti einbýlis- og fjölbýlis­­húsa samkvæmt þriðja notkunarflokki. Sá flokkur gildi samkvæmt gr. 9.1.3. um rými þar sem gert sé ráð fyrir að fólk gisti. Telji byggingarfulltrúi að fólk gisti í rýminu þá skorti hann valdheimildir til þess að fá því breytt, hvort sem það mat byggingarfulltrúa á hagnýtingu leigjenda sé rétt eður ei.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum kæranda og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um það hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 fyrir klæðningu á bílskúr hans og ætlaðri breytingu á notkun bílskúrsins.

Samkvæmt samþykktum teikningum að umræddri fasteign eiga að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en framhlið bílskúrsins er með viðarklæðningu. Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist fasteign kæranda annars vegar í eignarhluta 101, sem er skráður sem bílskúr, og hins vegar eignarhluta 103, sem er skráður sem íbúð. Ekki verður ráðið með óyggjandi hætti af því sem fyrir liggur í málinu að bílskúrinn sé nú notaður sem íbúð og liggja ekki fyrir fullnægjandi ástæður til að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki að því er notkun rýmisins varðar. Hins vegar verður ekki fallist á með kæranda að breyting á útliti bílskúrsins falli undir undantekningarákvæði c-liðar gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð, enda getur umdeild breyting ekki talist óveruleg breyting á útliti hans þegar litið er til samþykktra aðaluppdrátta hússins og útlits sambyggðs bílskúrs. Með vísan til framangreinds var byggingar­fulltrúa rétt að krefjast þess að kærandi aflaði sér byggingarleyfis fyrir nýrri/breyttri klæðningu eða eftir atvikum að útliti skúrsins yrði komið í fyrra horf.

Samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunar­úrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, m.a. dagsektum, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Vísaði byggingarfulltrúi til þeirrar lagaheimildar í ákvörðun sinni um að leggja á dagsektir vegna breytinga á útliti fasteignar kæranda. Svo sem rakið hefur verið hér að framan hefur byggingarfulltrúi ítrekað veitt kæranda færi á að veita skýringar og koma á framfæri athugasemdum í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar og var kæranda bent á að yrði tilmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt gæti komið til beitingar dagsekta samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga. Með vísan til þess liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á nefndri hinni ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegar 4 frá og með 9. september 2019 að því er varðar nýja/breytta klæðningu á bílskúr á lóðinni.