Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2020 Langholtsvegur

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðarmörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Kærendur benda á að bygging svala að Langholtsvegi 136 hafi nú þegar farið fram. Þá sé gert ráð fyrir í deiliskipulagi svæðisins að framkvæmdir nái ekki út fyrir byggingarreit. Varðandi stöðvunarkröfuna sé þó alvarlegra að leyfishafi hafi kynnt kærendum að hann hyggist láta verktaka mæta á svæðið til þess að hefja skurðgröft fyrir grunni bílskúrsins. Í því felist meðal annars að grafinn verði fleygskurður inn á lóð kærenda þar sem m.a. standi 72 ára gömul tré. Engin heimild sé til slíkra framkvæmda.

Borgaryfirvöld telja að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Farið sé fram á að kveðinn verði upp fullnaðarúrskurður í málinu. Kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu. Útgáfa byggingarleyfis fyrir Langholtsveg 136 sé í fullu samræmi við málsmeðferðarreglur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Af hálfu leyfishafa er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Því sé mótmælt að framkvæmdir verði stöðvaðar enda séu forsendur kærunnar alrangar og byggðar á röngum eða engum gögnum um að byggingarleyfið uppfylli ekki löggild skilyrði 55. gr. laga um mannvirki.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis sem heimilar byggingu bílskúrs og svala á húsi á lóðinni nr. 136 við Langholtsveg. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að leyfishafi hefur þegar reist umþrættar svalir. Gert er ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr á nefndri lóð en málsrök kærenda um stöðvun framkvæmda við bílskúrsbygginguna lúta aðallega að jarðraski á lóð þeirra sem muni fylgja þeim framkvæmdum. Í því sambandi er til þess að líta að hið kærða byggingarleyfi heimilar ekki framkvæmdir á lóð kærenda heldur einskorðast heimildir þess við lóð leyfishafa. Verður leyfishafi því að byggja á öðrum heimildum hyggist hann hagnýta sér lóð kærenda til framkvæmda og kærendur verða sömuleiðis að byggja á réttarreglum, s.s. um lögbann, vilji þeir ekki þola það. Sá ágreiningur er af einkaréttarlegum toga og á ekki undir úrskurðarnefndina sem einskorðar lögmætisathugun sína við lögmæti hins kærða byggingarleyfis, en eins og áður segir heimilar það ekki framkvæmdir á lóð kærenda. Þá skal á það bent að á leyfishafa hvílir sú skylda samkvæmt útgefnu byggingarleyfi að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða við frágang á lóðarmörkum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en frekari fram­kvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.