Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110 og 125/2020 Gufunesviti

Með

Árið 2020, föstudaginn 11. desember fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2020, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 56, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða. Gerð er krafa um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Í tölvupósti 17. nóvember s.á. gerir hann jafnframt þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2020, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Leiðhömrum 54, sömu ákvarðanir. Þar sem kæran varðar sömu ákvarðanir, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 125/2020, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis sem tók gildi 1985. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjavíkur 2. október 2019 var samþykkt deili­skipulagsbreyting fyrir svæðið án grenndarkynningar eða auglýsingar, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019 var skipulagssvæðið stækkað og mörk þess færð til norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Kveðið var á um að tvö möstur með innsiglingarmerkjum yrðu fjarlægð og í stað þeirra sett nýtt innsiglingarmastur með innsiglingarmerki fyrir nýja innsiglingalínu sem hliðrað væri til um 105 m til norðausturs frá þeirri sem fyrir var. Með deiliskipulagsbreytingu sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2020 var gert ráð fyrir að mastrið með siglingamerkinu yrði um 15 m hátt í stað 10 m og akslóði að því gerður varanlegur en ekki tímabundinn eins og gert var ráð fyrir í fyrri deiliskipulagsbreytingu. Hefur þeirri skipulagsbreytingu ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. ágúst 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Faxaflóahafna um leyfi til að koma fyrir mastri með innsiglingamerki á Gufuneshöfða. Byggingarleyfi var gefið út 2. október s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að ríkar takmarkanir gildi um hvað og hvernig megi byggja á Gufuneshöfða. Nauðsynlegt sé að stíga varlega til jarðar og að væntan­legar breytingar á deiliskipulagi séu kynntar vel og vandlega fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum, bæði stofn­unum sem og nágrönnum. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­­mála beri að túlka ákvæði skipulagslaga svo að skyldan til grenndarkynningar sé mjög rík.

Gerðar hafi verið tvær breytingar á deiliskipulagi Gufuneshöfða. Fyrri breytingin hafi falið í sér að fjarlægja skyldi innsiglingamerki við Gufuneshöfða og koma fyrir nýju innsiglingamerki um 105 m til norðausturs, vestan Leiðhamra/Krosshamra. Við þessa breytingu hafi deili­skipulagssvæðið verið stækkað og mörk þess færð norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Þar hafi komið fram að uppdrættir hafi hlotið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þessi breyting hafi ekki verið grenndarkynnt. Seinni breytingin hafi falið í sér að leyfileg hæð masturs yrði 15 m í stað 10 m ásamt því að akfær slóði yrði varanlegur en ekki tímabundinn. Þessi breyting hafi verið grenndarkynnt frá 27. apríl til 25. maí 2020.

Hafi hækkun á mastrinu og breyting á slóða verið grenndarkynnt en ekki ný staðsetning, sem hafi jafn mikil ef ekki meiri áhrif á útsýni og notkun svæðisins fyrir íbúa hverfisins. Það sé því skýrt brot á 43. og 44. gr. skipulagslaga. Fari kærendur því fram á að byggingarleyfi fyrir mastrið sem gefið hafi verið út á grundvelli deiliskipulags sem hafi ekki fengið rétta efnislega meðferð verði fellt úr gildi, og sömuleiðis deiliskipulagsbreytingin frá 2019.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða þar sem heimild liggi fyrir að reisa mastur á svæðinu fyrir innsiglingamerki. Sérstaklega skuli á það bent að kærendur geri ekki neinar efnislegar athuga­semdir við byggingarleyfið sjálft, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess.

Kærufrestur sé liðinn vegna gildistöku tveggja breytinga á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða og beri því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir annars kærenda: Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 7/2019 um að undanþágur frá reglum um deiliskipulagsbreytingar beri að túlka þröngt, þar með taldar undanþágur frá grenndarkynningu. Deiliskipulagsbreyting sem tók gildi með auglýsingu nr. 1002/2019 í B-deild Stjórnartíðinda hafi ekki verið grenndarkynnt. Þar af leiðandi hafi hagsmunaaðilum ekki verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir við nýja staðsetningu á innsiglingarmastrinu, aðkomu að því og hæð. Hinn 24. september 2019 hafi Umhverfisstofnun skilað skýrslu til Faxaflóahafna þar sem meðal annars hafi komið fram: „að mati Umhverfisstofnunar mun innsiglingamerkið hafa áhrif á ásýnd svæðisins og geti haft neikvæð áhrif á verndargildi hverfisverndarsvæðisins og náttúruminjar.“ Enn fremur hafi staðið í skýrslunni: „Þar sem framkvæmdarsvæðið er tiltölulega óraskað leggur Umhverfisstofnun til að raski verði haldið í lágmarki og við framkvæmdir svo sem vegaframkvæmdir verði gróður­torfur lagðar til hliðar þegar það á við og þeim komið fyrir á yfirborði í lok frágangs til að draga úr neikvæðum áhrifum á gróður. Í greinargerð kemur fram að gengið verður frá þeim svæðum þar sem mastur eru fjarlægð á þann veg að ummerki hverfi með uppgræðslu og skal notast við staðargróður í þeim tilgangi. Umhverfisstofnun telur heppilegast að notast sé við lyngmóavist og grasengjavist og forðast sé að nota lúpínu við uppgræðslu.“

Nokkuð ljóst þyki að nægur tími hafi verið til að kynna væntanlegar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu sem og notendum svæðisins og óska eftir athugasemdum og að samkvæmt ofan-töldum athugasemdum beri að túlka áhrif breytinganna á umhverfið sem allverulegar og þar af leiðandi sé enn ríkari ástæða til að kynna þær fyrir nágrönnum og eðli málsins samkvæmt hafi málsmeðferðin jafnframt áhrif á kærufrestinn og undanþágur vegna hans.

Heimilt sé að víkja frá tímamörkum um kærufrest í ákveðnum tilfellum og það beri að túlka kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt eða hann upplýstur um málið, sbr. úrskurð í máli nr. 36/2020. Kærandi hafi fengið staðfestingu á deiliskipulagsbreytingunni þegar svar hafi borist frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar við athugasemdum við seinni deiliskipulagsbreytinguna 8. júlí 2020. Þessi kæra sé vel innan tímamarka miðað við þá dagsetningu og því sé gerð sú krafa að úrskurðarnefnd taki málið til efnislegrar meðferðar.

Af meðfylgjandi myndum megi sjá að heilmikill munur sé á aðkomu að núverandi innsiglingar­merki og að byggingarsvæði nýja innsiglingarmerkisins. Slóðinn að byggingarsvæðinu sé uppbyggður vegur, ekki jöfnuð jörð til að auðvelda aðkomu ökutækja að svæðinu. Það virðist því vera að byggingaraðilar hafi farið fram úr sér hvað gerð og staðsetningu slóðans varði, það megi meðal annars sjá þegar bornar séu saman myndir af vettvangi og lýsing í skýrslu Umhverfisstofnunar sem og byggingarleyfið sjálft.

Varðandi byggingarleyfið þá sé það byggt á deiliskipulagi sem hafi ekki farið rétta leið í kerfinu, þar af leiðandi beri að fella það úr gildi. Að auki hafi ekki verið rökstutt nægjanlega af hverju það þurfi varanlegan slóða að innsiglingarmerkinu, af hverju það þurfi að vera 15 m á hæð, samtals 51 m yfir sjávarmáli, hvað ljósmerkið þurfi að ná langt út á sjó og nauðsynlega hæð yfir sjávarmáli til að ná þeirri drægni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Auglýsing um gildistöku eldri deiliskipulagsbreytingarinnar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 21. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 6. og 20. nóvember 2020 eða tæpum 11 mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kæru­fresti. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. Sú ákvörðun sem deilt var um í máli nr. 36/2020 sem kærandi vísar til sætti ekki opinberri birtingu. Eiga því ekki sömu sjónarmið við og í þessu kærumáli.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir að reist verði 15 m hátt mastur með búnaði efst með stefnuvirkandi ljósi. Þá er heimiluð lagning akfærs aðkomuslóða að mastrinu frá útivistarstíg sem liggur vestan íbúðarbyggðar. Ekki verður annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og málsmeðferð þess hafi verið í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki. Verður kröfu um ógildingu þess af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis er vísað frá úrskurðar­nefndinni.

108/2020 Hverfisgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 4. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hverfisgötu 73, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73. Var byggingarleyfi gefið út 12. október 2020. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Hverfisgata 73 tilheyrir er í gildi deiliskipulag Skúlagötu­svæðis sem samþykkt var 13. maí 1986. Með umsókn, dags. 28. maí 2018, var sótt um breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í henni fólst að heimilt yrði að hækka hús á lóðinni og stækka til norðurs, setja kvisti á norður- og suðurhlið þess og svalir á fyrstu hæð og rishæð samkvæmt uppdráttum. Einnig lá fyrir samþykki með­lóðarhafa, dags. 29. júní 2018. Var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og samgöngu­ráðs sem samþykkti að auglýsa framlagða skipulagstillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst frá 27. júlí 2018 með athugasemdarfresti til 13. september s.á., en engar athugasemdir bárust. Tillagan var samþykkt á embættis­afgreiðslu­­fundi skipulags­fulltrúa 21. september 2018 með vísan til heimilda skv. viðauka 2.4. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Auglýsing um samþykkt deiliskipulags­breytingar­innar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2018.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 var samþykkt byggingar­leyfisumsókn um að byggja viðbyggingu og endurnýja matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 með vísan til fyrrgreindrar breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Umsókninni fylgdi umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 2. janúar 2019. Byggingarleyfi var síðan gefið út 12. október 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hann eigi í óskiptri sameign með byggingar­leyfishafa baklóð þá við Hverfisgötu sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi nú heimilað framkvæmdir á, auk þess sem hann eigi hlut í húsi því sem standi við Hverfisgötu 73. Hann hafi samþykkt byggingaráform byggingarleyfishafa fyrir sitt leyti á fyrri stigum málsins. Samþykkið hafi hann þó dregið afdráttarlaust til baka 25. ágúst 2020 þegar hann hafi gert sér grein fyrir því að áætlanir leyfishafa hafi verið langt umfram það sem hann hafi gert sér grein fyrir. Haft hafi verið samband við embætti byggingarfulltrúa og póstur sendur 25. ágúst s.á. þar sem gerð hafi verið skýr grein fyrir málsástæðum og afturköllun samþykkisins. Af einhverjum ástæðum hafi þó starfsmenn byggingarfulltrúa ekki komið mótmælum og afturkölluninni í málið. Eins og lesa megi af tölvupóstinum sé sérstaklega farið fram á að embætti byggingar­fulltrúa upplýsi um framgang málsins en það hafi hann ekki gert. Þvert á móti hafi hann beinlínis lagt sig fram um að veita ekki upplýsingar og svara ekki erindum kæranda.

Með því að heimila leyfishafa að byggja á lóð kæranda gegn vilja hans sé verið að brjóta gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti sem verði ekki gert bótalaust. Þá komi fram í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 meginreglur um samskipti stjórnvalda við borgarana, t.a.m. að stjórnvald eigi að svara erindum. Í 24. gr. laganna segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í máli því sem hér sé kært hagi einmitt svo til að ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á röngum upplýsingum, þ.e.a.s. að fyrir liggi í málinu samþykki lóðareiganda. Það sé hins vegar rangt og hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Ein af meginreglum íslensks skaðabótaréttar hafi lengi verið að takmarka skuli tjón eins og frekast sé unnt. Í málinu sé ljóst að byggingarfulltrúi hafi ekkert gert eða aðhafst til þess að takmarka tjón. Ljóst sé að eftir því sem tíminn líði og byggingarframkvæmdir haldi áfram því meira verði tjónið. Kjarni málsins sé því sá að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að veita byggingarleyfi á lóð í eigu kæranda gegn vilja hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að kært byggingarleyfi sé samþykkt og gefið út í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br. Áður en til útgáfu byggingarleyfis hafi komið hafi byggingarfulltrúa borist undirritað samþykki meðeiganda, dags. 29. júní 2018. Bent sé á að byggingaráform hafi verið samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 en byggingarleyfi gefið út 12. október 2020.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að þau hafi frá upphafi haft samráð við kæranda. Hafi hann ekki sett sig upp á móti framkvæmdunum til þessa. Þvert á móti hafi hann stutt byggingaráformin enda séu þau honum til hagsbóta þar sem hann muni eignast sér inngang inn í fasteign sína og þurfi ekki lengur að búa við það að leyfishafar nýti sér kvöð um inngang í gegnum fasteign hans. Þá séu breytingarnar til þess fallnar að viðhalda og fegra friðaðan timburhúsareit í borginni og hafi þær allar verið unnar í nánu samstarfi við Minjastofnun.

Kærandi hafi allt frá því deiliskipulagsbreytingar voru auglýstar í júlí 2018 haft tækifæri til að koma að athugasemdum vegna málsins. Það hafi hann ekki gert fyrr en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Þau rök að kæranda hafi ekki gert sér grein fyrir áætlunum byggingarleyfishafa dugi skammt enda hafi umfang framkvæmdanna komið fram í deiliskipulagi frá 21. september 2018 og kæranda því fullkunnugt um þær. Að lokum sé bent á að um sé að ræða eignarlóð sem sé að hluta til séreign og að hluta sameign, sbr. eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2003. Framkvæmdirnar séu innan þess hluta sem leyfishafar telji sína séreign. Ekki fáist séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal eftir atvikum fylgja umsókn um byggingarleyfi samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þá tilkynnir byggingarfulltrúi samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga um samþykkt byggingar­áforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Jafnframt er tekið fram í 13. gr. að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986. Samþykkt var breyting á nefndu skipulagi 21. september 2018 vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að auka þakhæð timburhúss á lóðinni og byggja kvisti í samræmi við aldur og byggingarstíl þess. Heimilt sé að hækka húsið með því að portbyggja rishæðina og einnig sé heimilt að byggja kvist á þak báðum megin. Gert sé ráð fyrir að byggja tvílyfta viðbyggingu til norðurs og færa inngang á suðurhlið hússins. Þar er nánar lýst skilmálum, s.s. að byggja megi allt að 25 m² viðbyggingu við húsið innan byggingarreits til norðurs og að leita þurfi umsagnar Minjastofnunar um breytingarnar. Hámarksbyggingarmagn lóðarinnar fari í 263,9 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 1,0. Í greinargerðinni eru einnig skýringarmyndir, s.s. götumyndir og lóðarmynd eftir heimilaðar breytingar.

Byggingaráform vegna hinna umdeildu framkvæmda voru samþykkt 16. apríl 2019 og byggingar­­leyfi gefið út 12. október 2020. Á árituðum aðaluppdráttum kemur m.a. fram að fyrirhuguð stærð eftir breytingar verði 242,8 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,94. Í byggingar­lýsingu er tiltekið að byggingin sé innan skilmála skipulagsyfirvalda um hámarkshæð og stærðir. Þak verði rifið og bætt við nýrri léttri portbyggðri rishæð. Viðbygging verði steyptur kjallari, einangraður að innan, sökkull og plata, en efri hæð verði létt timburbygging og timbur­svalir. Liggur ekki annað fyrir en að samþykkt byggingaráform og útgefið byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Kærandi samþykkti fyrrgreinda breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir sitt leyti með áritun sinni á deiliskipulagsuppdrátt, dags. 22. maí 2018. Svo sem að framan hefur verið rakið er að finna nákvæma lýsingu í greinargerð skipulagsbreytingarinnar á því hvað sé heimilað að byggja á lóðinni og hversu mikið. Þá er þar jafnframt að finna skýringarmyndir sem sýna á myndrænan hátt heimilaðar breytingar á lóðinni. Verður því ekki önnur ályktun dregin en að með umdeildu samþykki hafi kærandi fallist á fyrirhuguð byggingaráform leyfishafa í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, en það samþykki lá fyrir við samþykki umsóknar um hið kærða byggingarleyfi. Tekið skal fram að það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til gildis afturköllunar samþykkis kæranda. Það álitaefni ræðst af túlkun reglna samningaréttar og verður eftir atvikum til lykta leitt fyrir dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.

54/2020 Barmahlíð

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm-stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2020, kæra á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2020, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigandi, Barmahlíð 19, og eigandi, Barmahlíð 21, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir: Hinn 31. mars 2020 lögðu kærendur fram umsókn um leyfi til þess að stækka íbúðir á 2. hæð fjöleignarhússins nr. 19-21 við Barmahlíð með því að hækka þak og útbúa svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús, auk þess að bæta við svölum á rishæð. Fól umsóknin í sér að mænishæð hússins myndi hækka um 2,51 metra. Umsókn kærenda var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. apríl 2020 þar sem afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 24. s.m. tók skipulagsfulltrúi umsóknina fyrir og skilaði neikvæðri umsögn, dags. 15. maí 2020. Umsóknin var tekin að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19 s.m. ásamt framangreindri umsögn skipulagsfulltrúa. Var umsókninni synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.“

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umsókn þeirra um hækkun á þaki Barmahlíðar 19-21 hafi verið synjað með vísan til þess að lagt hefði verið til að húsaröðin Barmahlíð 10-24 nyti verndar í rauðum flokki, þrátt fyrir að breytingar hefðu verið gerðar á einhverjum þeirra með tilheyrandi röskun á heildarmynd. Ráðgjafar fyrir hverfisskipulag Hlíða hafi í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns lagt til að þessi hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Framangreind niðurstaða sé í mótsögn við þær afgreiðslur sem þegar hafi falið í sér leyfi fyrir hækkunum, líkt og hér sé sótt um. Með engu móti sé hægt að sjá að framangreind rök geti vegið þyngra en sú skylda stjórnvalds að meðhöndla sambærileg mál með sambærilegum hætti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Synjunin feli einnig í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. laganna.

Sá hluti Hlíðarhverfis sem afmarkast í norðri af Miklubraut, í austri af Stakkahlíð, í suðri af Hamrahlíð og í suðvestri af Eskihlíð, hafi verið byggður upp á árunum 1944 til 1955. Breytingar á húsum, t.d. þakbreytingar, hafi verið gerðar allt til dagsins í dag. Síðustu breytingar á þakrými og útliti í Barmahlíð hafi verið gerðar á síðustu tíu árum. Á svæðinu séu samtals 208 af 250 húsum með íbúðarrými í risi, eða 83%. Við íbúðakaup á efri hæðum í Barmahlíð sé fólk með það í huga að nýta rishæð vegna fordæma fyrir nýtingu rishæða í hverfinu. Í ljósi þess að næsta hús til vesturs við Barmahlíð 19-21, sem er nr. 15-17, hafi verið hækkað sé mjög eðlilegt að hægt verði að nýta risið á húsinu við Barmahlíð 19-21 á sambærilegan hátt. Húsið að Barmahlíð 15-17 sé í grunninn alveg eins auk þess sem það hafi verið teiknað af sömu arkitektum. Þakásýnd hússins að Barmahlíð 19-21 hafi mjög lítil áhrif á götumynd og upplifun á göturými.

Risið á húsinu að Barmahlíð 15-17 hafi verið hækkað samkvæmt teikningum frá 1958 og búið sé að leyfa breytingu á risinu í nafni upprunalegs arkitekts. Glerskálum hafi verið bætt við samkvæmt teikningum frá 1981. Af framangreindu megi gera ráð fyrir að mögulegar breytingar á húsum í nágrenninu, í samræmi við þarfir fólks, hafi verið afar skýr ætlun arkitektsins sjálfs, en ekki að húsin yrðu óbreytt um ókomna tíð. Húsið að Barmahlíð 9 sé í grunnin alveg eins og húsið að Barmahlíð 19-21 að öðru leyti en því að það sé ekki parhús heldur sé það með einni íbúð á hverri hæð. Það samsvari því helmingi hússins að Barmahlíð 19-21 og Barmahlíð 15-17. Húsið að Barmahlíð 9 sé teiknað árið 1946 af sömu arkitektum. Teikningum hafi verið breytt árið 2005 og 2007 og þaki lyft með breytingum í framhaldinu.

Þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þakefnis í Barmahlíð 19-21 og þörf sé fyrir meiri íbúðarrými hafi verið sótt um að hækka ris og að stækka efri íbúðir. Ekki hafi verið sótt um auka fastanúmer og íbúðafjöldi sé óbreyttur. Þakhalli á breyttu þaki sé 40° og mun minni en á næsta húsi að Barmahlíð 15-17 þar sem þakhallinn sé 75°. Flest hús í hverfinu séu með tvíhallandi þaki og kvistum þar sem meðalþakhalli sé 35-55°. Tillaga arkitekta að breytingu á rishæð sé í anda þeirra bygginga sem í hverfinu séu og beri virðingu fyrir upprunalegri hönnun. Kvistarnir kallist á við núverandi byggingar í kring.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé markmiðið að nýta land og lóðir betur og sé þétting byggðar eitt af leiðarljósum skipulagsins ásamt blandaðri byggð með góðu hlutfalli af litlum, meðalstórum og stórum íbúðum í sama hverfi. Stækkun íbúða á efri hæð við Barmahlíð 19-21 með þakstækkun sé í anda markmiða Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar og blöndun íbúðastærða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að umsókn kærenda hafi af byggingar­fulltrúa verið send til umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mann-virki nr. 160/2010, sbr. gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2010 m.s.br. Í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 15. maí 2020, komi fram að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem fasteignin tilheyri. Í gangi sé vinna við gerð hverfisskipulags þar sem settir séu fram skilmálar og leiðbeiningar varðandi breytingar á útliti, þaki og svölum húsa í Hlíðahverfi. Í byggða­könnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hafi verið unnin vegna vinnslu hverfis­skipulags Hlíða, komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk. Byggingar í rauðum flokki séu þær sem teljist hafa hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í breytingar á þeim. Skipulagsfulltrúi bendi á að húsaröðin Barmahlíð 10-24 hafi verið reist á árunum 1945-1947 og njóti verndar þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á sumum húsanna, sem raski heildarmynd götunnar. Sérfróðir ráðgjafar hafi lagt til við vinnslu hverfis-skipulags að húsaröðin njóti sérstakrar verndar og að þakhækkun verði ekki heimiluð.

Samþykkt á hækkun þaks fyrir fasteignina Barmahlíð 9 hafi verið samþykkt árið 2005 eða fyrir 15 árum. Þak Barmahlíðar 15-17 hafi verið hækkað árið 1958, eða fyrir 62 árum. Mikið hafi breyst í skipulagsmálum á síðustu 15 árum, hvað þá á sex áratugum. Sé verulega langt seilst að telja að nefndar breytingar séu þess eðlis að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða. Við Barmahlíð standi 56 númeruð hús en einungis tvö séu nefnd í kæru sem fordæmi.

Skipulagsyfirvöld hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni mat sérfróðs aðila um verndum gamalla bygginga í borginni. Lagt hafi verið til af hönnuðum við hverfiskipulag Hlíða að mat Borgarsögusafns verði tekið inn í skilmála hverfisskipulagsins og sé því eðlilegt að það sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknarinnar.

Hvað varði brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá sé það skilyrði slíks brots að fyrir liggi að fleiri valkostir hafi verið til staðar við töku ákvörðunar sem gengju skemur en kærð ákvörðun. Ekki sé að sjá að kærendur hafi lagt til aðra tillögu með umsókn sinni en þá sem synjað hafi verið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi bendir á að ný rök fyrir breyttri afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi komið í ljós sem krefjist breyttrar afgreiðslu hans á erindinu. Afar brýnt sé að breyta þaki hússins að Barmahlíð 19-21 af heilsufarsástæðum eins fljótt og hægt sé þar sem þakið sé með asbesti sem sé afar krabbameinsvaldandi efni. Þakið sé einnig farið að leka, sem gæti haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir íbúa.

Í lögum nr. 104/2001 um húsafriðun komi skýrt fram að friða megi mannvirki, hús eða húshluta. Samkvæmt 5. gr. laganna ákveði ráðherra friðun eða brottfall friðunar að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar. Ekkert slíkt hafi átt sér stað og njóti því umrædd hús ekki verndar. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi því ekki lagastoð fyrir því að nota þetta sem rök til að hafna breytingum á þakrými hússins. Tillögur þeirra sem skipulagsfulltrúi hafi nefnt „sérfróðir ráðgjafar“, um að húsaröðin fái vernd, hafi ekkert lagalegt vægi. Þær breytingar í skipulagsmálum sem Reykjavíkurborg vísi til hafi ekki hindrað borgaryfirvöld í að heimila miklar breytingar á þaki Barmahlíðar 6 á síðustu tveimur árum. Að veita aðilum leyfi til að breyta þakrými sé því án efa fordæmisgefandi.

———-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 10. nóvember 2020.

Niðurstaða: Lóðin Barmahlíð 19-21 tilheyrir grónu hverfi, sem hefur mótast í tímans rás með veitingu einstakra byggingarleyfa, en hverfið hefur ekki verið deiliskipulagt. Þegar aðstæður eru eins og að framan greinir er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í sam­ræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Umsókn kærenda laut að heimild til að stækka íbúðir á 2. hæð í Barmahlíð 19-21 með því að hækka þak og útbúa rishæð með svefnrými, baðherbergi og þvottaherbergi, auk þess að svölum yrði bætt við á rishæð. Kærendur benda á að mænishæð á nýju þaki sé sambærileg því sem sé á mænisþökum í kring. Gert sé ráð fyrir kvistum og séu þeir með einhallandi þaki. Samanlögð heildarlengd kvista sé minni en 40% af samanlagðri heildarlengd þakkanta.

Fyrir liggur að á liðnum árum hafa verið veittar byggingarheimildir og breytingar verið gerðar á þakrými nærliggjandi húsa og víðar í umræddu hverfi, m.a. á húsinu Barmahlíð 15-17, sem stendur við hlið húss kærenda. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið en að umsókn kærenda um hækkun á þaki húss þeirra hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sem eru þeir þættir er líta ber til þegar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði er metin, sbr. orðalag 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. maí 2020, kemur m.a. fram að ráðgjafar fyrir hverfis-skipulag Hlíða hafi, í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns Reykjavíkur, lagt til að umrædd hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Jafnframt kemur fram í umsögninni að þrátt fyrir að skilmálar, leiðbeiningar og byggðakönnun fyrir Hlíðar liggi fyrir sé hverfisskipulag Hlíða enn ekki samþykkt þar sem verið sé að vinna úr gögnum og samræma. Í byggðakönnun Borgarsögusafns sem unnin hafi verið fyrir Hlíðar komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk, þ.e. þau hafi hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í allar breytingar.

Skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi leiddi í ljós að húsnúmer sunnan götu Barmahlíðar eru sléttar tölur en húsnúmer norðan götu oddatölu, en þar á meðal er hús kærenda. Húsin sunnan götu, sem bera númer á bilinu 10-24, hafa einsleitt yfirbragð og mynda heildstæða götumynd, en húsin norðan götunnar, sem bera oddatölunúmer og eru fjögur talsins við umræddan hluta hennar, eru hins vegar fjölbreyttari að formi og gerð. Hefur til að mynda þaki hússins að Barmahlíð 15-17 verið lyft með sama hætti og umsókn kærenda laut að svo sem áður greinir. Má ráða af orðalagi áðurnefnds álits Borgarsögusafns Reykjavíkur að verndun götumyndar Barmahlíðar 10-24 eigi einungis að ná til húsaraðarinnar sunnan götu enda myndi verndunin ella aðeins ná til hálfs hússins að Barmahlíð 23-25. Þá liggur ekki fyrir að þar til bær stjórnvöld hafi með lögformlegum hætti tekið ákvörðun um verndun húsaraða á nefndum stað og getur því fyrrgreind verndunartillaga ekki verið forsenda stjórnvaldsákvörðunar. Rétt þykir að benda á að í núgildandi skipulagslögum er ekki heimild til að fresta afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna yfirstandandi skipulagsvinnu svæðis, svo sem var í 6. mgr. 43. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum, m.a. hvað rökstuðning varðar, að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

90 og 91/2020 Skólavörðustígur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 5. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 29a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir eigandi Bjarnarstígs 10, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðar­nefndinni. Þar sem það kærumál, sem er nr. 91/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það sameinað máli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu annars kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. október 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 21. apríl 2020 var tekin fyrir umsókn, dags. 11. desember 2018, um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. maí 2018, umsögn Minjastofnunar, dags. 5. júní s.á., og afrit af tölvupósti vegna fellingar trjáa frá 14. júní s.á. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 8. maí 2020 að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Var svo og gert og bárust athugasemdir á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 2. september 2020 með vísan til fyrir­liggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á., þar sem athugasemdum var svarað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. september 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kærenda: Eigandi Skólavörðustígs 29a bendir á að af skuggavarpsmyndum sé ljóst að það sé einungis í júní þegar sól sé hæst á lofti sem áætluð bygging skyggi ekki á sólarljós inn í garð lóðar hans nr. 29a við Skólavörðustíg. Það megi því ætla að byggingin valdi skuggavarpi á lóðinni að vori og á haustmánuðum, sem skerði gæði útirýmis, hafi áhrif á notkunarmöguleika lóðarinnar og geti haft neikvæð áhrif á verðmæti fasteignarinnar.

Þá séu gerðar athugasemdir við stærð og hæð viðbyggingarinnar. Hún verði stór, óþarflega breið og byggingarmagn mikið, eða næstum því tvöföldun á núverandi húsi. Byggingin muni auk þess að varpa skugga á lóð kærandans, auka innsýn í garð hans, þannig að þrengt verði að honum og persónulegt rými hans skert. Þá sé bent á að vitað sé að stutt sé niður á klöpp á Skólavörðuholtinu og þurfi því líklega að brjóta hana með höggi. Við framkvæmdir af sama toga hafi komið fram að hús í nálægð við slíkar framkvæmdir hafi orðið fyrir tjóni vegna fleygunar og því geti komið til þess að hús kæranda verði fyrir skemmdum, sérstaklega þegar litið sé til aldurs fasteignarinnar.

Ekki hafi verið farið eftir markmiðum skipulagslaga nr.123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 við afgreiðslu málsins hvað varði athugasemdir hagsmunaaðila við grenndar­kynningu. Þeim hafi ekki verið svarað með fullnægjandi rökum er varði stærð og hæð hússins ásamt skuggavarpi. Einnig hafi ekki verið farið eftir þeim markmiðum sem sett séu fram í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð þar sem helstu hagsmunir nágranna séu upptaldir. Skipulagsfulltrúi haldi því fram að sambærilegan þéttleika byggðar megi finna víða á reitnum og í hverfinu. Því sé velt upp hvað átt sé við með reitnum, þar sem umræddur götukafli sé ekki deiliskipulagður, en það sé rétt að víða sé að finna sambærilegan þéttleika.

Rökstuðningur skipulagsfulltrúa, sem byggingarfulltrúi byggi sitt samþykki á, sé með öllu ófullnægjandi. Ekki sé vísað til þeirra réttarheimilda sem um málið gildi, nema hvað varði athugasemdir vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma, sem og tjón og skaðabætur. Þá séu engin rök færð fyrir því á grundvelli hvaða réttarheimilda samþykki umrædds byggingarleyfis sé veitt. Sjá megi það á athugasemdum skipulagsfulltrúa að veiting leyfisins hafi að nær öllu leyti verið byggð á mati, en þau rök sem tiltekin séu í þeim séu einnig ófullnægjandi, t.d. hvað varði tilvísun til álits Minjastofnunar Íslands eða þess að tré geti valdið skuggamyndum. Þá komi engar sjálfstæðar röksemdir fram í ákvörðun byggingarfulltrúa og verði ekki annað séð en að málið hafi verið afgreitt án allrar rannsóknar, eins og krafa sé gerð um í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eigandi Bjarnarstígs 10 vísar til þess að heilsa hans sé viðkvæm og efist hann um að hann þoli vélarskrölt, sprengingar og annan hávaða sem óhjákvæmilega fylgi framkvæmdinni. Þetta muni örugglega stórskaða heilsu hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í umsögn Minjastofnunar Íslands um byggingaráformin komi fram að viðbyggingin taki mið af mælikvarða og hlutföllum hins friðaða húss að Skólavörðustíg 31. Einnig komi þar fram að breytingin teljist hvorki spilla götumynd Bjarnarstígs né yfirbragði byggðar á reitnum. Stækkun núverandi húss sé vissulega hlutfallslega mikil, þar sem „fótspor“ þess svo gott sem tvöfaldist. Skipulagsfulltrúi hafi tekið undir afstöðu Minja­stofnunar og talið viðbygginguna samræmast því byggðamynstri sem fyrir væri á svæðinu en þar væru mörg timburhús sem teldust ein hæð, kjallari og ris. Viðbyggingin væri ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og hæð hennar ekki frábrugðin öðrum húsum sem standi meðfram Bjarnarstíg.

Á skuggavarpsmyndum megi sjá að núverandi hús á lóðinni nr. 31 skyggi á hluta lóðar nr. 29a á ákveðnum tíma árs. Myndirnar sýni að mesta breytingin sé yfir miðjan daginn að jafndægri. Yfir sumartímann, þegar sól standi sem hæst, hafi viðbyggingin lítil sem engin áhrif gagnvart lóð nr. 29a. Samkvæmt skuggavarpsmyndum aukist skuggavarp á lóðinni nr. 10 við Bjarnastíg að hluta seinni part dags, bæði við sumarsólstöður og að jafndægri. Allar þær lóðir sem um ræði séu talsvert grónar og séu þar nokkur tré sem hafi einnig áhrif á skuggamyndun. Ekki sé heldur fallist á að athugasemdum kæranda í grenndarkynningu hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafi svör skipulagsfulltrúa verið rækilega rökstudd og  málsmeðferð umsóknarinnar verið í samræmi við markmið skipulagslaga. Tilvitnun kæranda til gr. 5.8.4. eigi ekki við um umrædda byggingarleyfisumsókn, en ákvæðið heimili samþykkt framkvæmda án grenndarkynningar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeirri málsmeðferð hafi ekki verið fyrir að fara í þessu máli heldur hafi umsóknin verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Öllum framkvæmdum fylgi óhjákvæmilega eitthvert rask en framkvæmdaraðila sé skylt að halda því raski og ónæði sem hann kunni að valda í algjöru lágmarki. Hvað varði þá málsástæðu að fasteign kæranda muni lækka í verði þá hafi ekki verið sýnt fram á að svo fari, en í því sambandi gæti reynt á 51. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir meðal annars á að í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið farið yfir allar athugasemdir sem kærendur hefðu sett fram og þeim svarað efnislega. Málsmeðferðin beri með sér að hafa verið vönduð og ítarleg. Þótt ekki hafi verið fallist á sjónarmið kærenda jafngildi það ekki því að málsmeðferðin hafi verið ófullnægjandi.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2020 sem hafi verið kveðinn upp 29. október sl. Nefndin hafi talið að breyting sem hafi falið í sér fjölgun íbúða raskaði ekki hagsmunum að því marki að ógildingu varði. Þegar forsendur úrskurðarins séu heimfærðar á málsatvik í þessu máli megi sjá að breytingarnar í tilfelli Skólavörðustígs 31 séu miklu veigaminni og í raun þannig að þær hafi hverfandi lítil áhrif á sitt nærumhverfi. Þá sé vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 23/2018, sem kveðinn hafi verið upp 9. maí 2019, en þar hafi nefndin hafnað kröfu um að ógilda ákvörðun um breytingu skipulags þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir nýju húsi sem yrði byggt upp við Smiðjustíg 12 og auknu nýtingar­hlutfalli. Enn fremur sem sé vísað til úrskurðar nr. 87/2018, sem hafi verið kveðinn upp 9. maí 2019.

Að öðru leyti eru athugasemdir leyfishafa á sömu lund og athugasemdir Reykjavíkurborgar og verða því ekki raktar frekar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu ásamt inndregnum svölum á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til þeirrar lóðar.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 31 á svæði blandaðrar miðborgarbyggðar, íbúðarbyggðar merktri M1c. Á svæði M1c sé lögð áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en um leið að efla verslunar-, atvinnu og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Fer hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við framangreinda stefnu og markmið aðalskipulags.

Birt stærð hússins á lóðinni Skólavörðustíg 31 er nú 127,4 m² en flatarmál lóðarinnar er 203,9 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Á samþykktum aðaluppdráttum er hins vegar gert ráð fyrir að brúttóflatarmál byggingarinnar verði 227,8 m². Um töluverða stækkun er að ræða og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir fyrirhugaða breytingu 1,11. Á svæðinu gætir nokkurs misræmis hvað varðar nýtingarhlutfall einstakra lóða. Þannig má nefna til samanburðar að nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 29a er 0,88 og nýtingarhlutfall Skólavörðustígs 29 er 1,22. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 28 1,67. Samþykkt byggingaráform leiða því ekki til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar 31 muni skera sig úr hvað varðar nýtingarhlutfall lóða á svæðinu. Umdeild viðbygging verður ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og verður í um fjögurra metra fjarlægð frá lóðarmörkum Bjarnarstígs 10 og í um tólf metra fjarlægð frá húsinu á þeirri lóð. Byggt er við bakhlið hússins á norðurhluta lóðarinnar og hefur viðbyggingin því ekki áhrif á götumynd Skólavörðu­stígs. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum breytingum á húsinu að Skólavörðustíg 31.

Samkvæmt framangreindu voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu um­sókn. Þá var málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og viðauka 1.1. og 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdar­­fresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athuga­semda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 24. september 2020.

Fyrirliggjandi skuggavarpsmyndir bera með sér­ að mesta aukning á skuggavarpi gagnvart lóð kæranda að Skólavörðustíg 29a vegna tilkomu viðbyggingarinnar sé yfir miðjan daginn á jafndægri að vori og hausti. Yfir sumartíman er aukningin óveruleg. Verður ekki ráðið að framangreind aukning á skuggavarpi sé umfram það sem íbúar í þéttbýli mega almennt búast við en hafa verður í huga að um miðborgarsvæði er að ræða þar sem byggð er þétt fyrir.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

75/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2020, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 10. september 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur í fjórgang lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði í kærumáli nr. 24/2019, uppkveðnum 23. janúar 2020, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Taldi úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun uppfyllti ekki áskilnaði 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð. Hinn 27. febrúar 2020 sótti leyfishafi um endurnýjað byggingarleyfi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. apríl s.á. var samþykkt að grenndarkynna teikningar framkvæmdarinnar ásamt afstöðumynd á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda, og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júní s.á. Var framkomnum athugasemdum svarað með bréfi byggingarfulltrúa 15. s.m. Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 18. s.m. var byggingarfulltrúa falið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi sem hann og gerði 15. júlí 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með útgáfu hins kærða byggingarleyfis sé vegið verulega að réttindum hans og hagsmunum. Leyfið hafi hvorki fullnægjandi stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki eða skipulagslögum nr. 123/2010 né reglugerðum sem leiði af þeim lögum. Svör byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda standist ekki skoðun.

Í gögnum vegna grenndarkynningar byggingarleyfisins sé ekkert að finna um bílastæði og fyrirkomulag þeirra líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð skuli í bréfi til hagsmunaaðila koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningarinnar og rökstuðningur fyrir málsmeðferðina. Ekkert sé að finna um slíkt í gögnum sem fylgdu með grenndarkynningunni. Einnig vanti mörg þau gögn sem gr. 5.9.7. í reglugerðinni kveði á um að fylgja skuli við grenndarkynningu. Þá uppfylli hönnunargögn sem fylgt hafi grenndarkynningu ekki fjölmörg ákvæði byggingarreglugerðar, s.s. gr. 1.2.1., 2.4.1., 4.3.1., 4.3.3., 4.3.9., 4.4.4., 6.1.1., 6.1.3., 6.1.5., 6.7.1., 6.7.2., 6.7.4., 6.7.14. og 6.10.3.

Öllu máli skipti að með breytingunni fjölgi íbúðum Egilsgötu 6 úr einni í fjórar en það hafi veruleg áhrif á nágrennið. Það sé ekki einkamál sveitarfélagsins og leyfishafa hvar bílastæði íbúðanna eigi að vera því verulegur skortur sé á bílastæðum. Það sé hlutverk sveitarfélagsins að sjá til þess að umsækjandi um byggingarleyfi leggi fram gögn þar sem fram komi hvar bílastæði skuli vera, þ. á m. fyrir fatlaða, og hvað þau skuli vera mörg. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir Egilsgötu 11 séu bílastæði gegnt húsum nr. 8-10 við Egilsgötu innan marka lóðar Egilsgötu 11. Lóðarhafi þeirrar lóðar hafi ekki framselt bílastæðin til sveitarfélagsins eða nokkurs annars aðila. Í svari byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu komi fram að vegna skipulagsákvörðunar sveitarstjórnar frá árinu 2004 hafi umrædd stæði verið á svæði sem sveitarfélagið hafi óskoraðan rétt yfir. Það sé fráleitt að halda því fram að skipulagsákvörðun sveitarfélagsins felli úr gildi lóðarleigusamning eða þinglýsta eignarheimild.

Hafnað sé rökum um undanþágu frá algildri hönnun. Það sé í andstöðu við lög og reglugerðir að veita afslátt á aðgengi, m.a. varðandi bílastæði fyrir fatlaða. Óheimilt sé að ganga frá fyrirkomulagi bílastæði fyrir nýjar íbúðir líkt og undanþágubeiðnin geri ráð fyrir. Sveitarfélagið bendi á bílastæði í eigu þess en öll bílastæðin séu hins vegar í eigu einkaaðila. Engin boðleg aðkoma sé að íbúð á efri hæð og sveitarfélagið geti ekki gefið út hið kærða byggingarleyfi öðruvísi en að þinglýst sé kvöð um aðkomu að íbúðinni yfir lóð Egilsgötu 8. Það hafi ekki verið gert og sé fyrirkomulagið í óþökk þeirra sem eigi umrædda lóð.

Mælt sé fyrir um það í 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnu­húsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með „auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.“ Sveitarfélagið hafi ítrekað gefið sýslumanni jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Í því ljósi orki mjög tvímælis sú framsetning að aðeins sé verið að grenndarkynna fjölgun á íbúðum en ekki tekið fram að þær séu undir atvinnustarfsemi.

Kærandi hafi fundað með sérfræðingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Skipulags-stofnunar vegna málsins. Hafi niðurstaða þeirra funda verið samhljóða því sem að framan sé rakið, m.a. að um verulega mikla breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á stórt svæði, formgalli sé augljós þar sem ekki sé tilkynnt um rétta notkun, leyfi sýslumanns sé ekki í samræmi við notkun, rökstuðning vanti alfarið um hvernig leysa eigi bílastæðamál, aðkoma að íbúð á efri hæð sé ekki ígrunduð lagalega séð, það sé grófur yfirgangur að teikna tröppur inn á teikningu Egilsgötu 6, gögn þurfi að vera miklu ítarlegri og kynningin sé á röngum forsendum.

Skipulagsyfirvöld í sveitarfélaginu hafi ítrekað sett skilyrði um tiltekinn fjölda bílastæða vegna fjölgunar íbúða á svæðinu. Þau hafi heimild til að gera kröfur um bílastæði fyrir samþykki íbúða og þeirri heimild hafi byggingarfulltrúi beitt árið 2017 þegar hann setti það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að Brákarbraut 1 að upplýst yrði um stærð lóðar, lóðarmörk og staðsetningu bílastæða. Sú lóð sé á sama skipulagssvæði og Egilsgata 6. Það sýni hvernig sveitarfélagið mismuni aðilum í algjörlega sambærilegum málum. Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 12. gr. sömu laga um meðalhóf.

Í 10. gr. lögreglusamþykktar Borgarbyggðar nr. 390/2010 komi fram að atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum sé óheimil. Sveitarstjórn geti þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum og önnur opinber leyfi liggi fyrir. Einnig komi fram að atvinnurekstri í húsnæði, sem liggi að íbúðarbyggð, skuli haga þannig að ekki hljótist ónæði eða truflun fyrir þá sem næst búa. Gildi þetta jafnt um starfsemina sjálfa sem og umferð sem af henni hljótist. Kærandi hafi vægast sagt slæma reynslu af gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Hafi sveitarfélagið heimilað þann rekstur árið 2013 án þess að sú starfsemi hafi verið grenndarkynnt. Síðan hafi sveitarfélagið þrisvar sinnum gefið jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis til sýslumannsins á Vesturlandi. Gistiþjónusturekstrinum fylgi umferð allan sólarhringinn og hávaði kvölds og nætur.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi aðeins við þegar sótt sé um leyfi fyrir einstakri framkvæmd á svæði þar sem aðalskipulag sé ekki fyrir hendi, sbr. 1. tl. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem aðalskipulagsáætlun sé í gildi fyrir Borgarbyggð telji sveitarfélagið að umrædd grein eigi ekki við í málinu. Hvað varði gr. 5.9.2. í reglugerðinni sé bent á að í hinni umræddu grenndarkynningu komi fram að hún sé sett fram vegna breytinga innanhúss, auk þess sem teikningar vegna framkvæmdanna hafi fylgt með henni. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019 hafi komið fram að þegar grenndarkynningu sé þannig háttað sé talið að meginefni kynningarinnar komi fram með fullnægjandi hætti. Þá sé óþarfi að útbúa hnitsetta afstöðumynd eða gögn um landmótun og/eða götumynd, sbr. gr. 5.9.7. í reglugerðinni, þegar um breytingar á innbyrðis skipulagi mannvirkis sé að ræða. Öll gögn sem skipulagslög og skipulagsreglugerð geri ráð fyrir hafi þegar verið send kæranda við grenndarkynningu og því sé ekki skylt að leggja fram nein frekari gögn.

Í núgildandi skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um það að tilteknum fjölda íbúða skuli fylgja tiltekinn fjöldi bílastæða, en slíkt ákvæði hafi verið í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Samkvæmt núgildandi skipulagsreglugerð sé skipulagsyfirvöldum sett það í sjálfsvald með hvaða hætti þau vilja haga bílastæðamálum en eina krafan þar um sé sú að kveðið sé á um þau mál í deiliskipulagi. Í þessu máli sé ekki um gerð deiliskipulags að ræða og því hafi sveitarfélaginu ekki verið skylt að gera kröfu á hendur eigendum Egilsgötu 6 um tilteknar ráðstafanir vegna bílastæðamála við húsið þó sótt hafi verið um byggingarleyfi vegna fjölgunar íbúða í húsinu. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið litið til þess að beint á móti húsinu séu bílastæði í eigu sveitarfélagsins og sé fullkomlega eðlilegt að þau verði notuð af íbúum hússins. Í afgreiðslunni felist hvorki ákvörðun um að afsala umræddum stæðum til eigenda hússins né að þeir skuli njóta forgangs til stæðanna.

Því sé ekki mótmælt að samkvæmt uppdrætti lóðarleigusamnings Egilsgötu 11 séu hin um­deildu bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Hins vegar komi fram í lóðarleigusamningnum að hvenær sem bæjarstjórn telji þörf á að nýta lóðina undir opinber mannvirki, opin svæði og annað, sem skipulagsuppdráttur geri ráð fyrir, sé leigutaka skylt að láta leigurétt sinn og lóðina af hendi. Með gerð deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi árið 2004 hafi lóðin við Egilsgötu 11 verið minnkuð og kveðið á um að bílastæði fyrir húsið skyldu vera á sérstakri lóð sunnan við það. Hin umdeildu bílastæði hafi verið svokölluð almenningsrými frá þeim tíma og hafi lóðarhafi Egilsgötu 11 verið upplýstur um framangreinda afstöðu sveitarfélagsins.

Kærandi haldi því fram með óútskýrðum og órökstuddum hætti að hönnunargögn uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Um sé að ræða breytingar innanhúss í gömlu og grónu hverfi og því ekki þörf á lóðaruppdrætti. Sveitarfélagið hafi nýtt sér heimild til þess að ákveða að við meðferð málsins þyrftu byggingarleyfishafar ekki að leggja fram slíka uppdrætti, sbr. a-lið gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð, þar sem segi að leyfishafi ákveði hvort og að hvaða leyti þurfi að leggja fram aðaluppdrætti vegna umsóknar um breytingar á þegar byggðu mannvirki. Þetta ákvæði telur sveitarfélagið raunar að eigi við um allt það sem fram komi í kærunni varðandi þá aðaluppdrætti sem lagðir hafi verið fram með umsókninni. Þá vísi sveitarfélagið jafnframt til gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð þar sem komi fram að ekki sé algilt að byggja þurfi á sjónarmiðum algildrar hönnunar þegar eldra mannvirki, sem byggt hafi verið í tíð eldri byggingarreglugerðar, sé breytt heldur sé heimilt að víkja frá þeim sjónarmiðum ef sérstökum erfiðleikum sé háð að uppfylla ákvæði 6. kafla reglugerðarinnar. Þegar þannig hátti til skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða einstöku ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá og geti leyfishafi veitt slíkt leyfi. Í þessu máli hafi hönnuður skilað sérstakri greinargerð um ástæður þess að sótt væri um undanþágur frá algildri hönnun. Einnig sé bent á að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem kærandi vísi til, hafi verið fellt niður með reglugerð nr. 686/2018 og sé því ekki lengur í gildi.

Þær ákvarðanir sem kærandi vísi til vegna fasteigna við Egilsgötu hafi verið teknar í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í þeim hafi verið ákvæði um ákveðinn fjölda bílastæða vegna tiltekinna fermetra í byggðu húnæði. Slíkum ákvæðum sé ekki lengur fyrir að fara í núgildandi reglugerðum um sama efni. Því sé ekki verið að brjóta gegn lögum og sjónarmiðum um jafnræði með því að kveða ekki á um fyrirkomulag bílastæða í þessu máli. Þá sé ekki hægt að bera saman fyrirliggjandi mál við byggingarleyfisumsókn vegna Brákabrautar 1 frá árinu 2017, en fyrirkomulag þeirrar lóðar sé með allt öðrum hætti. Lóðin Brákarbraut 1 sé rúmum 220 m2 stærri en lóðin Egilsgata 6 auk þess sem lega hennar og staðsetning geri það kleift að leggja bílum innan lóðarmarka bæði norðan og austan megin, en þessu sé ekki þannig farið með lóðina Egilsgötu 6. Sá hluti þeirrar lóðar sem ekki sé undir húsinu sé í umtalsverðum halla en húsið standi svo á lóðarmörkum til suðurs, vestur og austurs. Þessar aðstæður geri það að verkum að sveitarfélagið hafi ekki talið sér skylt að krefjast þess að gerð yrði grein fyrir bílastæðum á hinum grenndarkynnta aðaluppdrætti. Jafnframt sé bent á að bílastæði í eigu lóðarinnar sunnan megin við húsið við Egilsgötu 2-10 hafi um langa hríð verið til ráðstöfunar fyrir umrædd hús, þ. á m. hús kæranda, þar sem að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóðum neins þeirra. Hafi sveitarfélagið talið að þau stæði uppfylltu bílastæðaþörf svæðisins þrátt fyrir breytingarnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og vegna aðildarskorts hans um önnur atriði. Kæran sé ruglingsleg og ýmis atriði dregin fram sem séu byggingarleyfinu óviðkomandi.

Bent sé á að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 falli Egilsgatan í heild undir hverfis­verndarsvæði og sé kveðið þar á um að mikilvægt sé að halda einkennum byggðar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Að setja skábraut við húsið yrði mikið rask fyrir götumyndina og myndi taka yfir gangstéttina utan við húsið að mestum hluta. Eigendur hafi kappkostað að halda útliti hússins að Egilsgötu 6 að mestu óbreyttu.

Bent sé á að kærandi hafi árið 2012 fengið samþykktar teikningar þar sem neðri hæð hússins að Egilsgötu 4 hafi verið breytt úr atvinnuhúsnæði í stúdíóíbúð. Því sé misræmi í málflutningi kæranda gagnvart nágrönnum og öðrum íbúum. Þá sé stigi að efri hæð íbúðar Egilsgötu 6 í óskiptri sameign lóða nr. 4 og 6 við Egilsgötu. Kærandi geti engan veginn haldið því fram að stiginn sé alfarið eign hússins að Egilsgötu 4.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni áður vegna sömu breytinga svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Hafa engin atvik breyst frá fyrra máli sem gefi tilefni til að breyta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um kæruaðild kæranda. Verður því ekki fallist á þá kröfu leyfishafa að vísa kærunni frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda í máli þessu.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn 11. júní 2020.

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022 er lóðin Egilsgata 6 á skilgreindu svæði fyrir blandaða notkun (BL2). Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að gamli miðbærinn (BL2) nái yfir íbúðasvæði, verslun og veitingarekstur og margvíslega opinbera þjónustu, sem og menningar- og safnastarfsemi. Hið kærða byggingarleyfi fól í sér heimild til breytinga innanhúss en ekki var sótt um breytingu á notkun eignarinnar sem er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem fjölbýlishús á neðri hæð en íbúðareign á efri hæð. Er framkvæmdin því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ekki verður fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna framkvæmdanna. Þá verður ekki talið að afstöðumynd eða gögn sem geri grein fyrir landmótun eða götumynd hafi átt að koma fram í grenndarkynningunni, sbr. gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð, vegna eðli þeirra breytinga sem um ræðir.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að við útgáfu byggingarleyfis skuli uppfylla skilyrði um fjölda bílastæða eða kveða á um fyrirkomulag bílastæða með öðrum hætti. Þó skal byggingarleyfi vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Ákveðin skilyrði gilda um bílastæði hreyfihamlaðra skv. gr. 6.2.4. í reglugerðinni en hins vegar segir í 3. mgr. gr. 6.1.5. að ef sérstökum erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert sé að varðveita, geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla þau og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þess hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Slík greinargerð var lögð fram með umsókn byggingarleyfisins og kom þar m.a. fram að um væri að ræða steinsteypt hús frá árinu 1936 og sé erfitt að uppfylla kafla reglugerðar um algilda hönnun sökum staðsetningar húss á lóð, eldri hönnunar og landslags. Með greinargerðinni fylgdi listi yfir þær greinar reglugerðarinnar sem óskað var undanþágu frá, þ. á m. gr. 6.2.4. um bílastæði hreyfihamlaðra. Þar segir jafnframt að vegna þeirra undanþága sem óskað sé eftir sé ljóst að umferð hreyfihamlaðra verði takmörkuð í húsinu. Með samþykki byggingarfulltrúa á hinni umþrættu umsókn heimilaði hann að vikið yrði frá skilyrðum byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra auk annarra ákvæða reglugerðarinnar. Að framangreindu virtu verður ekki talið að skortur á upplýsingum um fyrirkomulag bílastæða valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina. Þá verður ekki annað séð en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Kærandi telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin í málinu og í þeim efnum vísar hann til nokkurra afgreiðslna skipulagsyfirvalda þar sem íbúðum var fjölgað á lóð með kröfu um fjölda bílastæða. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett voru með stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en í þeirri reglugerð voru ákvæði um fjölda bílastæða fyrir lóðir á svæðum þar sem ekki var deiliskipulag í gildi. Þá verður heldur ekki talið að afgreiðsla byggingarfulltrúans á byggingarleyfisumsókn vegna Brákarbrautar 1, þar sem afgreiðslu málsins var frestað m.a. vegna þess að ekki lágu fyrir upplýsingar um bílastæði, verði talið sambærilegt tilvik enda ekki um sambærilegar lóðir að ræða.

Með hinu kærða byggingarleyfi fjölgar íbúðum á lóð Egilsgötu 6. Ljóst er að slíkt getur haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar og umgangs um sameiginlegar tröppur. Aftur á móti verður ekki talið að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að því marki að ógildingu varði. Telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að lögmætis­athugun nefndarinnar einskorðast við hið útgefna byggingarleyfi, sem felur í sér heimild til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6, en tekur ekki til skoðunar þann atvinnurekstur sem er eða kann að verða staðsettur í húsinu. Á það skal þó bent að telji kærandi málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða að það hafi ekki sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir, getur hann leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

121/2019 Reynilundur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Reynilundi 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Með umsókn, dags. 27. september 2017, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs þeirra að Reynilundi 11 um 1,5 m til suðurs auk þess sem settar yrðu dyr og gluggi á suðurhlið bílskúrsins. Með umsókn voru lögð fram samþykki íbúa Reynilundar 13 og 15, en ekki Reynilundar 17, en um er að ræða raðhúsalengjuna Reynilund 11-17. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir 26. apríl 2019 og ákvað að grenndarkynna hana þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu. Tillögurnar voru grenndarkynntar íbúum Reynilundar 9, 13, 15 og 17. Athugasemdir bárust frá íbúa Reynilundar 17 sem lagðist gegn hinum umsóttu breytingum, en íbúinn er jafnframt arkitekt raðhúsalengjunnar. Með erindi skipulagsstjóra Garðabæjar, dags. 2. september 2019, var kærendum tilkynnt að lögð hefði verið fram niðurstaða húsakönnunar varðandi raðhúsalengjuna Reynilund 11-17, í tengslum við nýtt deiliskipulag Lundahverfis, þar sem varðveislugildi hússins væri metið hátt. Á fundi skipulagsnefndar 4. október 2019 var umsóknin tekin fyrir og með vísan til niðurstöðu húsakönnunar var mælt gegn því að byggingarleyfi yrði veitt og afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. s.m. var málið tekið fyrir og umsókn kærenda hafnað. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, var sú ákvörðun kærð eins og að framan greinir.

Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2020, óskaði Garðabær eftir fresti til þess að skila greinargerð og gögnum í málinu þar sem tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefði verið tekin fyrir að lokinni auglýsingu á fundi skipulagsnefndar 16. janúar 2020. Samkvæmt upplýsingum skipulagsstjóra hafi verið gerð tillaga að breyttum uppdrætti er sýni stækkun byggingarreita raðhúsanna nr. 11-17 við Reynilund og yrðu þeir uppdrættir á dagskrá skipulagsnefndar 7. febrúar s.á. Kærendur voru upplýstir um beiðni Garðabæjar og gerðu ekki athugasemd við hana. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var nýtt deiliskipulag fyrir umrætt svæði, Lundahverfi, samþykkt og tók það gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 6. maí s.á. Sú ákvörðun bæjarstjórnar var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu þess með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020.

Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar, 22. september 2020, var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að tilkynnt framkvæmd vegna stækkunar bílskúrs að Reynilundi 11 væri undanþegin byggingarleyfi, sbr. h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Sú ákvörðun hefur verið kærð af eiganda Reynilundar 17 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að höfnun byggingarleyfisins sé ómálefnaleg og byggð á meðvirkni og hræðslu. Bæjaryfirvöld hafi í öllum samskiptum við kærendur gefið í skyn að þeim sé ekki stætt á að veita byggingarleyfið þar sem þeir óttist lögsókn eiganda Reynilundar 17 en ekki litið til mögulegrar málsóknar kærenda. Telji kærendur að með þessu sé jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 brotin, sbr. 11. gr. laganna, en þar segi að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá segi í 2. mgr. ákvæðisins að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á m.a. þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Hér sé niðurstaða málsins grundvölluð á því hver gagnaðilinn í málinu sé, þ.e. eigandi Reynilundar 17, en skoðunum hans sé gert hátt undir höfði hjá bæjaryfirvöldum. Með því séu kærendur álitnir réttlægri í þessu máli og halli verulega á þá. Þá hafi leiðbeiningar bæjaryfirvalda gagnvart kærendum verið af skornum skammti, en skv. 7. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Að lokum hafi meðferð málsins tekið óhóflega langan tíma, eða rúm tvö ár, og málshraðaregla stjórnsýslulaga því ekki virt, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

———-

Bæjaryfirvöldum Garðabæjar var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli þessu en þau hafa ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind.

Hinn 27. september 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breytingum á lóð sinni Reynilundi 11, Garðabæ. Þeirri umsókn var hafnað af bæjarstjórn Garðabæjar 17. október 2019. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem tekur til þessa svæðis og er byggingarreitur húss kærenda þar stækkaður um 10 m2 til suðurs. Sú deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020. Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 22. september 2020 var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að heimila áformaðar framkvæmdir og jafnframt að tilkynntar framkvæmdir væru undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með tölvupósti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, var kærendum gefinn kostur á að koma að skýringum um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins. Svar barst sama dag og kom fram að ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 22. september s.á. væri enn innan kærufrests og hefðu kærendur þar af leiðandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar, 16. október 2020, var kærendum tilkynnt um það að með úrskurði uppkveðnum sama dag hefði úrskurðarnefndin hafnað kröfu um ógildingu deiliskipulags svæðisins. Voru kærendur inntir eftir því hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins með tilliti til þess að sú ákvörðun sem kæra í máli þessu beinist að var tekin áður en deiliskipulag hafði tekið gildi. Þeim tölvupósti var ekki svarað.

Fyrir liggur að eftir hina kærðu synjun bæjaryfirvalda á umsókn kærenda um stækkun bílskúrs hafi verið sett deiliskipulag fyrir umrætt svæði þar sem byggingarreitur á lóð kærenda hefur verið stækkaður um 10 m2 en þar var stækkun bílskúrsins fyrirhuguð. Með fyrrgreindri afgreiðslu bæjarráðs 22. september 2020 hafa bæjaryfirvöld heimilað áformaðar framkvæmdir á lóðinni Reynilundi 11 og samkvæmt upplýsingum bæjarins er um að ræða sömu framkvæmdir og synjað var um með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu. Með samþykki byggingaráforma kærenda hefur hin kærða ákvörðun um synjun fyrri umsóknar sama efnis fallið brott og hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar ákvörðunar. Breytir þar engu um hver örlög kærumáls vegna hinnar nýju ákvörðunar um samþykki byggingaráforma þeirra verða eins og atvikum er háttað. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Afgreiðsla máls þessa hjá úrskurðarnefndinni hefur dregist vegna beiðni aðila sem freistuðu þess að leita lausnar í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

40 og 60/2020 Skeifan Fenin

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur, en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna Grensásvegar 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 að breyta deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. ágúst 2020. Verður það kærumál, sem er nr. 60/2020, sameinað fyrrgreindu kærumáli þar sem málin eru samofin og kærandi sá sami í báðum málum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. júlí 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Grensásvegur 1 tilheyrir er í gildi deiliskipulag „Skeifan -Fenin“ sem samþykkt var 6. nóvember 2001. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur­borgar 4. janúar 2019 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort heimilað yrði að byggja íbúðir í bland við þjónustu á jarðhæð og auka byggingarmagn með því að byggja nýja byggingu meðfram Skeifunni í stað tveggja á lóðinni Grensásvegi 1. Við breytinguna færi nýtingarhlutfall hennar ofanjarðar úr 1,64 í 1,94. Var fyrirspurninni vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók jákvætt í fyrirspurnina á fundi 11. s.m. með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. Í niðurstöðu umsagnarinnar er tekið fram að mælt sé með að lóðarhafa verði heimilað að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina í samráði við verkefna­stjóra hjá skipulagsfulltrúa og Veitur. Umsókn um deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar Grensásvegar 1 í samræmi við áðurgreinda fyrirspurn var tekin fyrir á afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 5. apríl og 28. júní 2019 og var málinu síðan vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 25. september s.á. að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. október 2019.

Að lokinni kynningu á umræddri skipulagstillögu var málið á dagskrá afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa 29. nóvember 2019 og 7. febrúar 2020 og á fundum umhverfis- og skipulagsráðs 12. og 26. s.m. Hinn 12. mars 2020 samþykkti borgarráð breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Grensásvegar 1. Í breytingunni fólst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Með erindi, dags. 19. mars 2020, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar umfjöllunar, sem tilkynnti með bréfi, dags. 8. apríl s.á., að stofnunin gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og fór birting slíkrar auglýsingar fram 24. s.m.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 16. júní 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bíla­kjallara á lóðinni Grensásvegi 1. Var um að ræða fyrstu af fyrirhuguðum fjórum nýbyggingum á lóðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðdragandi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi ekki verið í samræmi við grundvallarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 um samráð og kynningu við gerð deiliskipulags. Þegar tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi sé auglýst til kynningar eigi sveitarfélagið sem fari með skipulagsvaldið að ganga til þess verks með óbundnar hendur. Í máli þessu hátti hins vegar svo til að þegar borgarráð hafi samþykkt að auglýsa hina kærðu deiliskipulagstillögu til kynningar þá hafi ráðið skömmu áður verið búið að samþykkja samkomulag við lóðarhafa Grensásvegar 1 um uppbyggingu á lóðinni í samræmi við hina umdeildu skipulagstillögu sem þá hafi legið fyrir. Með gerð þessa samkomulags hafi borgaryfirvöld bundið hendur sínar og í raun skuldbundið sig til þess að samþykkja hina umdeildu skipulagstillögu. Hafi auglýsing tillögunnar því í raun aðeins verið til málamynda.

Kærandi hafi gert athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. þess efnis að í greinargerð með henni væri tekið fram að við gerð rammaskipulags Skeifunnar hefði verið nýafstaðin skipulags­breyting á Grensásvegi 1 og hefði því ekki verið gert ráð fyrir breytingum á skipulagi þeirrar lóðar í rammaskipulaginu, en nýjar forsendur rammaskipulagsins og ytri aðstæður hefðu kallað á að farið yrði í þessa endurskoðun deiliskipulagsins með hliðsjón af stefnu og forsendum rammaskipulagsins. Benti kærandi á að þessi rök fái ekki staðist, enda hafi tilgangur tillögu að rammaskipulagi m.a. verið sá að kalla fram afstöðu og óskir einstakra lóðarhafa og að miklu máli hafi skipt fyrir heildina að allir lóðarhafar á svæðinu kæmu að rammaskipulaginu og sett fram sjónarmið sín.

Fyrir utan þá ágalla á rökstuðningi, undirbúningi og meðferð tillögunnar sem að framan sé lýst verði ekki annað séð en að alfarið hafi skort það samráð sem áskilið sé við íbúa og hagsmuna­aðila almennt við gerð deiliskipulagstillögu, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, svo og hið sérstaka samráð sem áskilið sé við lóðarhafa aðliggjandi lóða sem fram komi í 3. mgr. gr. 5.2.1., en það ákvæði sé fortakslaust og ófrávíkjanlegt. Sjáist þess þó hvergi stað að þessara skyldu hafi verið gætt.

Hin kærða ákvörðun samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í rammaskipulagi svæðisins. Þótt rammaskipulag sé ekki lögformleg skipulagsákvörðun feli það í sér bindandi stefnumótun borgarinnar. Í töflu sem birtist á bls. 34 í greinargerð rammaskipulagsins komi fram að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum á lóð Grensásvegar, en á reit 1, sem Grensásvegur 1 virðist eiga að vera hluti af, sé gert ráð fyrir 152 íbúðum á þeim reitsins sem falli utan lóðar Grensásvegar 1. Í svörum borgaryfirvalda við athugasemdum sé því haldið fram að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur skv. rammaskipulaginu, sem bætist við reitina níu, og þá séu reitirnir tíu. Þessar staðhæfingar séu hins vegar í mótsögn við það sem segi á bls. 40 í greinargerð rammaskipulagsins þar sem fram komi að svæðinu sé skipt í níu skipulagsreiti, sbr. kafla með yfirskriftinni „uppbyggingarmöguleikar/skipulagsreitir“. Það sé því beinlínis rangt sem borgaryfirvöld haldi fram að lóðin Grensásvegur 1 sé sérstakur skipulagsreitur í rammaskipulaginu. Væri það svo þá fæli það í sér augljóst brot á jafnræðisreglu enda væri lóðarhafa Grensásvegar 1 með því einum veitt sú sérstaða að geta fengið deiliskipulagi vegna lóðarinnar breytt án aðkomu annarra lóðarhafa.

Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1 samkvæmt rammaskipulaginu. Það sé því í hróplegri andstöðu við það og þá stefnu sem þar sé mótuð að gera nú ráð fyrir allt að 204 íbúðum á lóðinni, eða sem nemi 40,8 % af heimiliðum fjölda íbúða í Skeifunni allri skv. aðalskipulagi, sem sé bindandi. Sé einnig ljóst að slík ráðstöfun gangi í berhögg við réttmætar væntingar annarra lóðarhafa í Skeifunni, sem reistar séu á stefnu borgaryfirvalda sem sett sé fram í rammaskipulaginu, og myndi þannig réttur þeirra til byggingar íbúða á lóðum sínum rýrna stórlega ef hin kærða ákvörðun fengi að standa óhögguð.

Deiliskipulag verði að vera í samræmi við aðalskipulag. Í auglýstri tillögu sé gert ráð fyrir sjö hæða byggingu á lóðinni sem ekki sé heimild fyrir í aðalskipulagi heldur sé þar gert ráð fyrir fjögurra til sex hæða byggingum á svæðinu. Í svörum við athugasemdum hafi borgaryfirvöld bent á að samkvæmt mynd 13, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2010-2030, í kaflanum „Borgin við sundin“, séu vikmörk, bæði varðandi fjölda íbúða og hæð húsa. Miðað við þessi vikmörk geti fjöldi íbúða í Skeifunni verið 450-600 og húshæðir þrjár til átta. Ekki hafi áður verið vísað til þessara fráviksheimilda við undirbúning skipulagstillögunnar og hafi því ekki verið gætt þeirra takmarka sem aðalskipulagið setji um beitingu þessara heimilda. Sé það skilyrði sett fyrir beitingu fráviksheimilda um hæð húsa að ákvörðun um hana verði rökstudd sérstaklega, en þess hafi ekki verið gætt í tilviki því sem hér sé til meðferðar. Leiði af því að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skilmála aðalskipulags, en auk þess sé rökstuðningi fyrir henni augljóslega áfátt þar sem skyldubundinn rökstuðning skorti.

Kærandi bendi á að krafa hans um ógildingu hins kærða byggingarleyfis sé á því byggð að verði fallist á kröfu hans um ógildingu kærðrar breytingar á deiliskipulagi Skeifunnar eigi hið kærða byggingarleyfi ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi og beri þegar af þeirri ástæðu að fella byggingarleyfið úr gildi. Sé byggingarleyfið í andstöðu við deiliskipulag Skeifunnar eins og það hafi verið fyrir hina kærðu  breytingu, m.a. vegna þess að ekki hafi verið þar gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1, en með hinu kærða leyfi sé heimiluð bygging 50 íbúða. Beri því að fella byggingarleyfið úr gildi verði fallist á kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld hafni því alfarið að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið til málamynda og að Reykjavíkurborg hafi verið með bundnar hendur um niðurstöðu málsins, en öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Vakin sé athygli á að skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga sé það í höndum sveitarstjórna að annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og sé þeim falið skipulags­vald innan sinna valdmarka.

Rammaskipulag sé ekki ein þeirra lögheimiluðu skipulagsáætlana sem nefndar séu í 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag sé óformlegt skipulag sem unnið sé af Reykjavíkurborg til þess að kalla eftir hugmyndum  í því skyni að skapa stefnu um heildarsýn fyrir svæði sem vinna eigi deiliskipulag fyrir eða vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi. Þar sem rammaskipulag sé ólögformleg skipulagsáætlun verði hún ekki túlkuð sem bindandi fyrir sveitarfélög þegar komi að vinnslu deiliskipulagsáætlunar. Sveitarfélag geti haft rammaskipulag til hliðsjónar, enda geti í því birst sýn sem telja megi heppilega fyrir viðkomandi svæði. Engar réttmætar væntingar geti byggst á rammaskipulagi vegna eðlis þess og stöðu gagnvart skipulagslögum. Í svörum við athugasemdum sem hafi borist á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar komi fram að gildandi deiliskipulag hafi verið tekið óbreytt inn í rammaskipulagið án þess að kanna sérstaklega hug lóðarhafa. Þá hafi komið fram í svörum skipulagsfulltrúa að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur samkvæmt rammaskipulaginu og bætist hann við hina níu reitina sem komi fram í því skipulagi og verði reitur nr. tíu. Í rammaskipulaginu sé Grensásvegur 1 ekki skilgreindur sem reitur þar sem að við vinnslu þess hafi verið uppi önnur áform um nýtingu reitsins. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið horfið frá fyrri áformum og sé nú gert ráð fyrir íbúðum á reitnum. Með því að fella Grensásveg 1 að rammaskipulaginu verði einföld hliðrun á reitnum og við bætist nýr reitur göturýma/almenningsrýma. Reykjavíkurborg sé að fullu heimilt að gera framangreinda breytingu á rammaskipulaginu enda um að ræða ólögformlegt skipulag sem ætlað sé að marka framtíðarsýn á reitnum.

Samkvæmt kaflanum „Borgin við Sundin“ í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að á reit 33, Skeifan, geti verið allt að 500 íbúðir. Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem borist hafi á auglýsingartíma hafi komið fram að „vikmörk eru heimil m.a. að íbúðarfjöldi geti verið −10%/+20%“ sem leiði til þess að á reitnum geti verið allt að 600 íbúðir, séu vikmörk til fjölgunar íbúða beitt. Þá sé rétt að benda á að í gr. 2.2. á deiliskipulagsuppdrætti komi fram að heimilt sé að byggja fjögurra til sex hæða nýbyggingu, með inndreginni sjöundu hæð. Þannig geri deiliskipulagið ekki ráð fyrir að full sjöunda hæð verði byggð. Ekki sé því rétt að tala um sjö hæða hús í því samhengi. Hvað varði sérstakan rökstuðning þá kveði aðalskipulag á um að „möguleg frávik frá viðmiðum í deiliskipulagi −1/+2 hæðir verði rökstudd sérstaklega“. Ef talið sé að ákvæðið eigi við miðað við umfang sjöundu hæðar þá hafi rökstuðningskrafa verið uppfyllt í svörum skipulagsfulltrúa, dags. 7. febrúar 2020.

Engin rök séu færð fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin annmörkum sem eigi að leiða til þess að ákvörðun hans frá 16. júní verði ógilt. Virðist því röksemdafærsla fyrir ógildingu byggingarleyfis­umsóknarinnar eingöngu vera byggð á afstöðu kæranda um að deiliskipulagsbreytingin sé haldin slíkum ágalla að varði ógildingu en borgaryfirvöld telji svo ekki vera.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að engar röksemdir séu færðar fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin einhverjum þeim annmörkum sem leiða eigi til ógildingar á ákvörðun hans. Á sama hátt sé vísað á bug málsástæðum kæranda þess efnis að hið kærða byggingarleyfi muni ekki lengur eiga stoð í gildu deiliskipulagi verði fallist  á kröfu hans og deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi kveðst vísa  til þess sem fram komi í greinargerð borgarinnar að rammaskipulag Skeifunnar sé ekki lögformlegt skipulag sem Reykjavíkurborg sé bundin af. Það breyti því þó ekki að í rammaskipulagi birtist stefna borgarinnar um uppbyggingu á svæðisins, sem unnin sé í samvinnu og samráði við lóðarhafa á svæðinu. Megi líta á rammaskipulagið sem ígildi samnings lóðarhafa og borgaryfirvalda.

Þótt fyrirhuguð sjöunda hæð sé inndregin teljist hún vera hæð í húsi í öllum skilningi. Tilvist hennar sé því í bága við aðalskipulag Reykjavíkur enda hafi ekki verið færð fram nein rök fyrir nauðsyn hæðarinnar í tillögunni, eins og áskilið sé í skilmálum aðalskipulagsins til að sú hæð gæti yfirleitt komið til álita. Kröfunni um þennan áskilnað verði ekki mætt eftir á, eins og reynt sé að halda fram í greinargerð borgarinnar að gert hafi verið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar, sem felur í sér heimild fyrir uppbyggingu og notkun húsnæðis á lóðinni nr. 1 við Grensásveg, og um lögmæti byggingarleyfis, sem heimilar byggingu fimm hæða fjölbýlishúss með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á sömu lóð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 1 við Grensásveg á miðsvæði M3a og þróunarsvæði Þ51. Um miðsvæði M3a segir m.a. að þar sé einkum gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Léttur iðnaður sé heimill en iðnaðarstarfsemi skuli almennt vera víkjandi. Um þróunarsvæði Þ51 er tekið fram að þar sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum og íbúðum. Áhersla skuli lögð á fjögurra til sex hæða samfellda byggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi. Áætluð aukning húsnæðis (nettóaukning) er um 85 þúsund m², þar af um 500 íbúðir. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að vikmörk á fjölda íbúða geti verið −10/+20% og þau háð samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á hverjum tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir mögulegu fráviki frá hæðum húsa í deiliskipulagi −1/+2 hæðir (einkum inndregnar), en rökstyðja skuli það sérstaklega. Unnið hefur verið rammaskipulag fyrir skipulagssvæðið og eru þar sett fram markmið og ráðandi sjónarmið varðandi megináherslur og framtíðaruppbyggingu svæðisins á grundvelli nýrra forsendna og markmiða í aðalskipulagi og lýsingu skipulagsfulltrúa.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem tekur til lóðarinnar Grensásvegar 1, er gert ráð fyrir aukningu á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyttri notkun efri hæða fyrir íbúðir. Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verða nýbyggingar fjórar talsins og hækkar heildarnýtingarhlutfall lóðarinnar úr 3,51 í 3,69 og heildarbyggingarmagn úr 16.284 í 21.240 m². Þar af er gert ráð fyrir 17.390 m² undir íbúðir. Eins og áður greinir eru í aðalskipulagi rúmar uppbyggingarheimildir á skipulagssvæðinu en þar er gert ráð fyrir allt að 600 íbúðum, séu vikmörk nýtt til hækkunar. Með vísan til þessa og með hliðsjón af því að sveitarstjórnum er í lögum falið víðtækt skipulags­vald, sbr. áðurgreint ákvæði 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, verður ekki talið að gengið hafi verið með óhæfilegum hætti á uppbyggingarheimildir annarra lóðarhafa á skipulagssvæðinu með hinni kærðu ákvörðun. Nýbyggingar verða fjórar til sex hæðir með inndreginni sjöundu hæð. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti verða þrjár af fjórum nýbyggingum fjögurra til fimm hæða en sú nyrsta verður sjö hæðir með efstu hæðina inndregna. Borgaryfirvöld hafa vísað til þess við vinnslu tillögunnar að sú bygging verði hækkuð að horni Grensásvegar og Suðurlands­brautar, þannig að hún myndi reisulega hornbyggingu, og að byggingar til suðurs að Skeifunni verði lækkaðar. Hafa því verið færð fram rök fyrir nýtingu vikmarka í aðalskipulagi til hækkunar. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting samkvæmt framangreindu ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Umrædd deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka, þ.e. svæðisskipulag, deiliskipulag og aðalskipulag, sbr. m.a. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag hefur ekki lögformlega stöðu en í skilmálum hins kærða deiliskipulags er m.a. mælt fyrir um að ramma­skipulag svæðisins hafi að geyma „stefnumarkandi heildarsýn fyrir uppbyggingu í Skeifunni og tengsl við nærliggjandi svæði“. Getur rammaskipulag að framangreindum ástæðum ekki bundið hendur sveitarfélaga við deiliskipulagsgerð eða skipað réttindum manna og skyldum með bindandi hætti, líkt og á við um aðal- og deiliskipulag.

Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, m.a. hvað landnotkun varðar, svo sem áskilið er í 11. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ekki liggur fyrir að ágallar hafi verið á málsmeðferð ákvörðunar­innar um veitingu byggingarleyfisins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða fjölbýlishúsi með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 1 við Grensásveg.

32/2020 Laugavegur

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigendur Laugavegar 132, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er farið fram á að úrskurðarnefndin heimili byggingu kvista á nefnt hús.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2020.

Málsatvik: Laugavegur 132 er innan deiliskipulags Hampiðjureits, nánar tiltekið staðgreini­reita 1.241.0 og 1.241.1., sem samþykkt var í borgarráði 20. júlí 2006 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst s.á. Í greinagerð deiliskipulagsins kom eftirfarandi m.a. fram: „Heimilt er að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi.“

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. nóvember 2017 var tekin fyrir fyrirspurn kæranda um byggingu kvista á húsið að Laugavegi 132. Var hún afgreidd með vísan til umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem fram kom að stærð kvistanna teldist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags á svæðinu. Samkvæmt skipulaginu væri heimilt að setja litla kvisti á þök húsa á reitnum. Þá þyrftu svalir að vera innan þakflatar og meðfylgjandi skýringarmynd að sýna mögulega útfærslu m.v. skilmála deiliskipulagsins og ábendingar varðandi útfærsluatriði. Í framhaldi af þessu voru haldnir fundnir með kærendum vegna málsins.

Hinn 21. mars 2019 var sótt um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Laugavegi 132, sem voru í meginatriðum í samræmi við fyrirspurnina sem send hafði verið inn 2017. Var sótt um leyfi til að byggja kvisti á báðum þekjum hússins og leyfi fyrir nýjum gluggum og svölum á suðurhlið þess. Var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 2. apríl 2019 og erindinu vísað til skipulags­fulltrúa til umsagnar, sem vísaði því á fundi sínum 5. s.m. til umsagnar verkefnisstjóra. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí 2017, var vísað í leiðbeiningar og skilyrði eldri umsagnar frá árinu 2017. Þá kom eftirfarandi fram: „Þar sem ágreiningur hefur verið milli aðila um hvað séu „litlir kvistir“ hefur skipulagsfulltrúi ákveðið að skerpa á skilmálum með texta­breytingu þar sem skilmálar um kvisti og svalir verða endurskoðaðir. Skilgreind verður hámarksstærð þeirra og staðsetning í þaki. Einnig verða heimildir um svalir skilgreindar nánar, bæði hvað varðar stærð og staðsetningu.“ Erindið var lagt fram að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. maí 2019 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa sem var samþykkt.

Kærendur sendu byggingarfulltrúa bréf, dags. 15. ágúst og 18. september 2019, þar sem þeir mótmæltu því að byggingarleyfisumsókn þeirra væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag og óskuðu eftir því að fá aðra umsögn frá skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. september 2019 var lögð fram og samþykkt umsögn, dags. 3. s.m., þar sem ekki var fallist á þá túlkun kærenda að umsóknin væri innan heimilda deiliskipulagsins. Þá var tekið fram að drög að textabreytingu gildandi deiliskipulags fyrir svæðið lægu fyrir og yrðu lögð fyrir skipulags- og samgönguráð innan skamms. Þegar tillagan hefði verið samþykkt yrði hún auglýst og samhliða send bréf í þau hús innan reitsins sem breytingin kynni að varða. Lögð var fram þriðja umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. september 2019, á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. s.m. Þar kom m.a. fram í niðurstöðu umsagnarinnar að breyting á deiliskipulagi Hampiðju­reits, staðgreinireits 1.241.0 og 1.231.1 væri að fara í auglýsingu innan fárra daga og bréf yrði sent til þeirra sem málið varðaði til að koma að athugasemdum við tillöguna. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 11. september 2019 var samþykkt að auglýsa breytingartillögu skilmála deiliskipulagsins sem fól í sér að heimild í deiliskipulagi var skilgreind nánar vegna minniháttar breytinga varðandi kvisti og svalir.

Með bréfi, dags. 7. október 2019, óskuðu kærendur eftir svörum frá skipulagsfulltrúa við því hvaða faglegu forsendur kæmu í veg fyrir það að tillögur að breytingum að Laugavegi 132 yrðu samþykktar til samræmis við samþykktar breytingar sem heimilaðar hefðu verið að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130 árin 2007 og 2018. Sömu skilmálar deiliskipulags gildi fyrir allar þessar fasteignir. Svör borgaryfirvalda voru á þá leið að deiliskipulag reitsins sem samþykkt hefði verið 20. júlí 2006 heimilaði „litla kvisti“. Hefði samþykkt þessi verið gerð í því skyni að ná utan um breytingar á húsum og gæta þess að fagurfræðilegar áherslur væru hafðar að leiðarljósi við mat á t.d. stærðum kvista, sem væri sérstaklega mikilvægt á götuhlið húsa. Kvistir hafi mikil áhrif á útlit húsa og því mikilvægt að horft sé til þess að bæði stærð, lögun og hlutföll séu í samræmi við byggingarstíl húss. Afgreiðsla erindis vegna Laugavegar 132 hafi byggst á gildandi skipulagsskilmálum. Augljóst hafi þótt að um mjög stóra kvisti væri að ræða og því væri ekki hægt að samþykkja þá sem litla kvisti og einnig hafi verið litið til fagurfræðilegra atriða með tilliti til byggingarstíls hússins. Byggingarleyfi fyrir húsi að Mjölnisholti 8 hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa 21. febrúar 2017, þar sem m.a. hefði verið gert ráð fyrir stórum kvistum sem samþykktir hefðu verið af byggingarfulltrúa án þess að umsagnar skipulagsfulltrúa væri leitað. Enn fremur hafi þar verið byggðir enn stærri kvistir en útgefið byggingarleyfi heimilaði og hafi þeir náð yfir tvö hús samfellt. Varðandi Laugaveg 130 þá hefði verið samþykktur kvistur á bakhlið sem næði yfir u.þ.b. 2/3 af breidd húss og gæti því talist með stærri kvistum. Byggingarleyfi fyrir þeirri stækkun hefði verið samþykkt árið 2007 og það leyfi verið endurnýjað árið 2018. Nú væri búið að auglýsa breytingu á umræddu deiliskipulagi sem skilgreindi nánar „litla kvisti“ og heimilaði að hægt væri að byggja stærri kvisti á bakhliðum húsa með breidd allt að 2/3 af húshlið, eða eins og t.d. sá sem hefði verið samþykktur við Laugaveg 130. Því væri vísað á bug að eigendur Laugavegar 132 hefðu ekki fengið rökstuðning fyrir afgreiðslu erindis þeirra hjá umhverfis- og skipulagssviði heldur hefði sviðið margítrekað reynt að koma áleiðis ábendingum og leiðbeiningum um hvernig best væri að standa að málinu til að hægt væri að afgreiða það í samræmi við þær heimildir sem til staðar væru. Nýlega auglýst breyting á deiliskipulaginu gæfi rýmri heimildir til stærðar á kvistum bakhliða, m.a. til að koma til móts við óskir kærenda, og heimilaði svipaðar breytingar og gerðar hefðu verið á Laugavegi 130. Við meðferð málsins hafi rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins verið virt og rökstuðningur ávallt legið fyrir í þeim um­sögnum skipulagsfulltrúa er varðað hefðu afgreiðslu málsins. Fyrrnefnd deiliskipulags­breyting var síðan samþykkt í skipulags- og samgönguráði 15. janúar 2020, í borgarráði 23. s.m. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2020.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2020 var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju og hún send til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem tók málið fyrir á fundi 3. apríl s.á. Þar lágu fyrir umsagnir skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí, 3. og 26. september 2019. Var tekið neikvætt í erindið með vísan til fyrri umsagna skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 var erindinu synjað með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa, dags. 6. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi margoft samþykkt breytingar á fasteignum á umræddum deiliskipulagsreit þar sem kvistir séu stórir og/eða nái samfellt yfir þak beggja vegna fasteignar. Mistök séu ekki röksemdir sem hægt sé að bera fyrir sig. Samþykkt hafi verið breyting á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem stærð kvista hafi ekki verið skilgreind sérstaklega. Löglega samþykktar breytingar að Mjölnisholti 6 og 8 feli í sér samfellda kvisti yfir þak beggja vegna fasteignanna. Með fyrirliggjandi samþykktum breytingum undir gildandi deiliskipulagi hafi skapast fordæmi sem skipulagsyfirvöld geti ekki hafnað. Með synjun sé farið á svig við ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræði. Óskir eigenda að Laugavegi 132 séu í engu frábrugðnar þeim breytingum sem samþykktar hafi verið að Mjölnisholti 6 og 8, sem samfelldir kvistir yfir meginhluta þaks, beggja vegna fasteignar. Þá hafi skipulagsyfirvöld heimilað byggingu á stórum kvist á húsinu að Laugavegi 130 og þannig sett viðmið um heimild til byggingar á stórum kvistum. Þá hafi skipulagsfulltrúinn í Reykjavík staðfest 9. nóvember 2016 breytingu á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem fallið hafi verið frá kröfunni um að kvistir væru litlir. Með þessari breytingu hafi skipulagsyfirvöld í Reykjavík verið að gefa fordæmi fyrir aðra eigendur fasteigna um mögulegar breytingar á fasteignum á deiliskipulagsreitnum. Lög um opinbera stjórnsýslu kveði skýrt á um að gæta eigi jafnræðis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að umsótt byggingarleyfi sé í ósamræmi við þær heimildir sem koma fram í deiliskipulagi sem gildi fyrir Laugaveg 132. Því sé vísað á bug að rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við vinnslu málsins. Rökstuðningur hafi ávallt legið fyrir í þeim umsögnum skipulagsfulltrúa er varði afgreiðslu í þessu máli og langt frá því að skipulagsyfirvöld hafi þagað þunnu hljóði í þessu máli eða komið sér hjá því að afgreiðsla málið.

Viðbótaathugasemdir kærenda: Í svari Reykjavíkurborgar sé mikið lagt upp úr frásögn í samskiptum en minna fjallað um hin eiginlegu ágreiningsefni. Engin tilraun sé gerð til að rök­styðja ákvarðanir skipulagsyfirvalda vegna Mjölnisholts 6, 8 og Laugavegs 130. Mótsagna­kenndar útskýringar um að byggingarfulltrúi hafi ekki borið málið undir skipulagsfulltrúa og breytingar á deiliskipulagi löngu eftir samþykkt breytinga sé helsti rökstuðningur Reykjavíkur­borgar. Vegna umræðu um stærð kvista sé að lokum komið á framfæri afriti af ljósmynd sem tekin hafi verið af fasteignum Laugavegi 130 og 132 29. júní. Ekki þurfi að hafa mörg orð um þann órétt sem kærendur séu beittir vegna óska sinna um breytingar. Á meðan skipulags­yfirvöld neiti breytingum að Laugavegi 132 standi breyting yfir að Laugavegi 130 sem samþykkt hafi verið í tvígang af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík undir ákvæðum deili­skipulags frá 20. júlí 2006.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Húsið að Laugarvegi 132 er á svæði þar sem er í gildi deiliskipulag Hampiðjureits, samþykkt 20. júlí 2006. Í því deiliskipulagi var heimild til að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, „s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi“. Kærendur og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna umsóknar kærenda og fyrirspurna um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. nóvember 2017, vegna fyrirspurnar annars kærenda um hvort setja mætti svalir á húsið að Laugavegi 132 til suðurs og litla kvisti á þak þess var m.a. vísað til þess að tillagan sem fylgdi fyrirspurninni teldist ekki samræmast deiliskipulagi og „myndu þeir kvistir teljast mjög stórir sem ná yfir allan þakflötinn“.

Hinn 11. september 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi. Tillagan var samþykkt í borgarráði 23. janúar 2020 og tók gildi 2. mars s.á. Í skipulagsbreytingunni kemur fram að ástæða hennar hafi verið sú að ágreiningur hafi verið um hvað teljist „litlir kvistir“ og þ.a.l. ákveðið að skilgreina nánar hámarksstærðir kvista og skerpa ákvæði varðandi svalir. Samkvæmt breyttu deiliskipulagi eru m.a. settar þær takmarkanir að almennt skuli kvistir ekki fara nær aðliggjandi húsum en 1 m. Þá skuli þeir dregnir inn frá útvegg um 50 cm og frá mæni um 50 cm. Við götuhliðar húsa megi kvistir ná yfir allt að 1/3 af þakbreidd en við bakhliðar húsa megi kvistir ná yfir 2/3 af þakbreidd. Þá er tekið fram um svalir að þær skuli hafa samræmt létt yfirbragð og útfærsla vera með gegnsæju handriði. Við bakhliðar húsa sé heimilt að gera svalir á útvegg, hámarksdýpt sé 1,3 m og hámarkslengd 1/3 af breidd útveggjar. Við götuhliðar megi svalir ekki fara út fyrir lóðarmörk. Ekki sé heimilt að vera með svalir í risi að götu. Kvistir þeir sem sótt var um að mætti reisa á þaki Laugavegar 132 eru umfangsmeiri en heimilað er í deiliskipulagi svæðisins en gengið yrði út á fyrirhugaðar svalir úr íbúðarrými áformaðs kvists á suðurhlið hússins.

Umsókn kærenda um byggingarleyfi, sem dagsettt er 21. mars 2019, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 og var afgreidd með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa dags. 6. apríl 2020.“ Í tilgreindu bréfi skipulagsfulltrúa er byggingar­fulltrúi upplýstur um niðurstöðu afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. apríl s.á. þar sem eftirfarandi var bókað um umsókn kærenda: „Neikvætt, með vísan til umsagna skipulags­fulltrúa, dags. 23. maí 2019, 3. september 2019 og 26. september 2019.“ Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í téðum umsögnum vísað til ágreinings um hvernig aðilar máls hafa túlkað „litla kvisti“ samkvæmt eldra deiliskipulagi. Þá er m.a. vísað til þess í umsögn skipulagsfulltrúa frá 26. september 2019 að „í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16.11.2017, kemur skýrt fram hvað skipulagsfulltrúi telur ásættanlegt varðandi stærðir kvista. Umsækjandi hefur ekki viljað una þeirri niðurstöðu […]“. Hvað sem öðru líður var byggingarleyfisumsókn kærenda ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem því hafði verið breytt fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Var því óheimilt að samþykkja umsóknina, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Kærendur hafa vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu borgaryfirvalda á byggingarleyfi vegna fasteignanna að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130. Hafa borgaryfirvöld gefið þær skýringar að afgreiðsla vegna fasteignarinnar að Mjölnisholti 8 hafi ekki komið til kasta skipulagsfulltrúa svo sem rétt hefði verið og bent á að samkvæmt gildandi skipulagi væri unnt að byggja sambærilega kvisti að Laugavegi 132 og heimilaðir hefðu verið að Laugavegi 130. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð eldra deiliskipulags og geta ekki verið fordæmis­gefandi gagnvart afgreiðslu umsóknar kærenda eftir áðurgreinda breytingu á skilmálum skipulagsins um kvisti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

37/2020 Leynisbrún

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 37/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar frá 23. mars 2020 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leynisbrúnar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2020, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar að Leynisbrún 6, Grindavík, „…ákvörðun skipulagsnefndar Grindavíkur frá 23. mars 2020 um að veita byggingarleyfi vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4…“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 4 við Leynisbrún um leyfi fyrir viðbyggingu við bílgeymslu fasteignarinnar var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar 3. febrúar 2020. Lagði skipulagsnefnd til að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 12. febrúar til 11. mars 2020. Bárust athugasemdir frá kæranda. Umsóknin var aftur tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. þar sem bókað var að grenndarkynning vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4 hefði farið fram. Ein athugasemd hefði borist sem hefði verið tekin fyrir en ekki tekin til greina. Þá var bókað að skipulagsnefnd samþykki byggingaráformin og byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi þegar tilskyldum gögnum hefði verið skilað inn.

Kærandi heldur því m.a. fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé ófullnægjandi, hlutdræg og andstæð skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. bent á að vísa eigi kærunni frá í heild sinni þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið á um það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Í því máli sem hér um ræðir lét skipulagsnefnd fara fram grenndarkynningu, en úrskurðarnefndin hefur fengið staðfest frá bæjaryfirvöldum að byggingarfulltrúi hafi ekki haft aðkomu að málinu. Jafnframt að í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar sendi umsækjandi teikningar og skráningu iðnmeistara til byggingarfulltrúa sem gefi út byggingarleyfi í kjölfarið, en þetta skref hafi þó ekki verið tekið í máli þessu vegna þess ágreinings sem væri uppi.

Hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 23. mars 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hefur hins vegar ekki veitt leyfi til hinna umdeildu framkvæmda eins og áskilið er í mannvirkjalögum. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2020 Kirkjubraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.