Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2020 Laugavegur

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigendur Laugavegar 132, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er farið fram á að úrskurðarnefndin heimili byggingu kvista á nefnt hús.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2020.

Málsatvik: Laugavegur 132 er innan deiliskipulags Hampiðjureits, nánar tiltekið staðgreini­reita 1.241.0 og 1.241.1., sem samþykkt var í borgarráði 20. júlí 2006 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst s.á. Í greinagerð deiliskipulagsins kom eftirfarandi m.a. fram: „Heimilt er að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi.“

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. nóvember 2017 var tekin fyrir fyrirspurn kæranda um byggingu kvista á húsið að Laugavegi 132. Var hún afgreidd með vísan til umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem fram kom að stærð kvistanna teldist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags á svæðinu. Samkvæmt skipulaginu væri heimilt að setja litla kvisti á þök húsa á reitnum. Þá þyrftu svalir að vera innan þakflatar og meðfylgjandi skýringarmynd að sýna mögulega útfærslu m.v. skilmála deiliskipulagsins og ábendingar varðandi útfærsluatriði. Í framhaldi af þessu voru haldnir fundnir með kærendum vegna málsins.

Hinn 21. mars 2019 var sótt um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Laugavegi 132, sem voru í meginatriðum í samræmi við fyrirspurnina sem send hafði verið inn 2017. Var sótt um leyfi til að byggja kvisti á báðum þekjum hússins og leyfi fyrir nýjum gluggum og svölum á suðurhlið þess. Var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 2. apríl 2019 og erindinu vísað til skipulags­fulltrúa til umsagnar, sem vísaði því á fundi sínum 5. s.m. til umsagnar verkefnisstjóra. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí 2017, var vísað í leiðbeiningar og skilyrði eldri umsagnar frá árinu 2017. Þá kom eftirfarandi fram: „Þar sem ágreiningur hefur verið milli aðila um hvað séu „litlir kvistir“ hefur skipulagsfulltrúi ákveðið að skerpa á skilmálum með texta­breytingu þar sem skilmálar um kvisti og svalir verða endurskoðaðir. Skilgreind verður hámarksstærð þeirra og staðsetning í þaki. Einnig verða heimildir um svalir skilgreindar nánar, bæði hvað varðar stærð og staðsetningu.“ Erindið var lagt fram að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. maí 2019 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa sem var samþykkt.

Kærendur sendu byggingarfulltrúa bréf, dags. 15. ágúst og 18. september 2019, þar sem þeir mótmæltu því að byggingarleyfisumsókn þeirra væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag og óskuðu eftir því að fá aðra umsögn frá skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. september 2019 var lögð fram og samþykkt umsögn, dags. 3. s.m., þar sem ekki var fallist á þá túlkun kærenda að umsóknin væri innan heimilda deiliskipulagsins. Þá var tekið fram að drög að textabreytingu gildandi deiliskipulags fyrir svæðið lægu fyrir og yrðu lögð fyrir skipulags- og samgönguráð innan skamms. Þegar tillagan hefði verið samþykkt yrði hún auglýst og samhliða send bréf í þau hús innan reitsins sem breytingin kynni að varða. Lögð var fram þriðja umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. september 2019, á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. s.m. Þar kom m.a. fram í niðurstöðu umsagnarinnar að breyting á deiliskipulagi Hampiðju­reits, staðgreinireits 1.241.0 og 1.231.1 væri að fara í auglýsingu innan fárra daga og bréf yrði sent til þeirra sem málið varðaði til að koma að athugasemdum við tillöguna. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 11. september 2019 var samþykkt að auglýsa breytingartillögu skilmála deiliskipulagsins sem fól í sér að heimild í deiliskipulagi var skilgreind nánar vegna minniháttar breytinga varðandi kvisti og svalir.

Með bréfi, dags. 7. október 2019, óskuðu kærendur eftir svörum frá skipulagsfulltrúa við því hvaða faglegu forsendur kæmu í veg fyrir það að tillögur að breytingum að Laugavegi 132 yrðu samþykktar til samræmis við samþykktar breytingar sem heimilaðar hefðu verið að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130 árin 2007 og 2018. Sömu skilmálar deiliskipulags gildi fyrir allar þessar fasteignir. Svör borgaryfirvalda voru á þá leið að deiliskipulag reitsins sem samþykkt hefði verið 20. júlí 2006 heimilaði „litla kvisti“. Hefði samþykkt þessi verið gerð í því skyni að ná utan um breytingar á húsum og gæta þess að fagurfræðilegar áherslur væru hafðar að leiðarljósi við mat á t.d. stærðum kvista, sem væri sérstaklega mikilvægt á götuhlið húsa. Kvistir hafi mikil áhrif á útlit húsa og því mikilvægt að horft sé til þess að bæði stærð, lögun og hlutföll séu í samræmi við byggingarstíl húss. Afgreiðsla erindis vegna Laugavegar 132 hafi byggst á gildandi skipulagsskilmálum. Augljóst hafi þótt að um mjög stóra kvisti væri að ræða og því væri ekki hægt að samþykkja þá sem litla kvisti og einnig hafi verið litið til fagurfræðilegra atriða með tilliti til byggingarstíls hússins. Byggingarleyfi fyrir húsi að Mjölnisholti 8 hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa 21. febrúar 2017, þar sem m.a. hefði verið gert ráð fyrir stórum kvistum sem samþykktir hefðu verið af byggingarfulltrúa án þess að umsagnar skipulagsfulltrúa væri leitað. Enn fremur hafi þar verið byggðir enn stærri kvistir en útgefið byggingarleyfi heimilaði og hafi þeir náð yfir tvö hús samfellt. Varðandi Laugaveg 130 þá hefði verið samþykktur kvistur á bakhlið sem næði yfir u.þ.b. 2/3 af breidd húss og gæti því talist með stærri kvistum. Byggingarleyfi fyrir þeirri stækkun hefði verið samþykkt árið 2007 og það leyfi verið endurnýjað árið 2018. Nú væri búið að auglýsa breytingu á umræddu deiliskipulagi sem skilgreindi nánar „litla kvisti“ og heimilaði að hægt væri að byggja stærri kvisti á bakhliðum húsa með breidd allt að 2/3 af húshlið, eða eins og t.d. sá sem hefði verið samþykktur við Laugaveg 130. Því væri vísað á bug að eigendur Laugavegar 132 hefðu ekki fengið rökstuðning fyrir afgreiðslu erindis þeirra hjá umhverfis- og skipulagssviði heldur hefði sviðið margítrekað reynt að koma áleiðis ábendingum og leiðbeiningum um hvernig best væri að standa að málinu til að hægt væri að afgreiða það í samræmi við þær heimildir sem til staðar væru. Nýlega auglýst breyting á deiliskipulaginu gæfi rýmri heimildir til stærðar á kvistum bakhliða, m.a. til að koma til móts við óskir kærenda, og heimilaði svipaðar breytingar og gerðar hefðu verið á Laugavegi 130. Við meðferð málsins hafi rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins verið virt og rökstuðningur ávallt legið fyrir í þeim um­sögnum skipulagsfulltrúa er varðað hefðu afgreiðslu málsins. Fyrrnefnd deiliskipulags­breyting var síðan samþykkt í skipulags- og samgönguráði 15. janúar 2020, í borgarráði 23. s.m. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2020.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2020 var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju og hún send til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem tók málið fyrir á fundi 3. apríl s.á. Þar lágu fyrir umsagnir skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí, 3. og 26. september 2019. Var tekið neikvætt í erindið með vísan til fyrri umsagna skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 var erindinu synjað með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa, dags. 6. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi margoft samþykkt breytingar á fasteignum á umræddum deiliskipulagsreit þar sem kvistir séu stórir og/eða nái samfellt yfir þak beggja vegna fasteignar. Mistök séu ekki röksemdir sem hægt sé að bera fyrir sig. Samþykkt hafi verið breyting á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem stærð kvista hafi ekki verið skilgreind sérstaklega. Löglega samþykktar breytingar að Mjölnisholti 6 og 8 feli í sér samfellda kvisti yfir þak beggja vegna fasteignanna. Með fyrirliggjandi samþykktum breytingum undir gildandi deiliskipulagi hafi skapast fordæmi sem skipulagsyfirvöld geti ekki hafnað. Með synjun sé farið á svig við ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræði. Óskir eigenda að Laugavegi 132 séu í engu frábrugðnar þeim breytingum sem samþykktar hafi verið að Mjölnisholti 6 og 8, sem samfelldir kvistir yfir meginhluta þaks, beggja vegna fasteignar. Þá hafi skipulagsyfirvöld heimilað byggingu á stórum kvist á húsinu að Laugavegi 130 og þannig sett viðmið um heimild til byggingar á stórum kvistum. Þá hafi skipulagsfulltrúinn í Reykjavík staðfest 9. nóvember 2016 breytingu á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem fallið hafi verið frá kröfunni um að kvistir væru litlir. Með þessari breytingu hafi skipulagsyfirvöld í Reykjavík verið að gefa fordæmi fyrir aðra eigendur fasteigna um mögulegar breytingar á fasteignum á deiliskipulagsreitnum. Lög um opinbera stjórnsýslu kveði skýrt á um að gæta eigi jafnræðis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að umsótt byggingarleyfi sé í ósamræmi við þær heimildir sem koma fram í deiliskipulagi sem gildi fyrir Laugaveg 132. Því sé vísað á bug að rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við vinnslu málsins. Rökstuðningur hafi ávallt legið fyrir í þeim umsögnum skipulagsfulltrúa er varði afgreiðslu í þessu máli og langt frá því að skipulagsyfirvöld hafi þagað þunnu hljóði í þessu máli eða komið sér hjá því að afgreiðsla málið.

Viðbótaathugasemdir kærenda: Í svari Reykjavíkurborgar sé mikið lagt upp úr frásögn í samskiptum en minna fjallað um hin eiginlegu ágreiningsefni. Engin tilraun sé gerð til að rök­styðja ákvarðanir skipulagsyfirvalda vegna Mjölnisholts 6, 8 og Laugavegs 130. Mótsagna­kenndar útskýringar um að byggingarfulltrúi hafi ekki borið málið undir skipulagsfulltrúa og breytingar á deiliskipulagi löngu eftir samþykkt breytinga sé helsti rökstuðningur Reykjavíkur­borgar. Vegna umræðu um stærð kvista sé að lokum komið á framfæri afriti af ljósmynd sem tekin hafi verið af fasteignum Laugavegi 130 og 132 29. júní. Ekki þurfi að hafa mörg orð um þann órétt sem kærendur séu beittir vegna óska sinna um breytingar. Á meðan skipulags­yfirvöld neiti breytingum að Laugavegi 132 standi breyting yfir að Laugavegi 130 sem samþykkt hafi verið í tvígang af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík undir ákvæðum deili­skipulags frá 20. júlí 2006.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Húsið að Laugarvegi 132 er á svæði þar sem er í gildi deiliskipulag Hampiðjureits, samþykkt 20. júlí 2006. Í því deiliskipulagi var heimild til að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, „s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi“. Kærendur og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna umsóknar kærenda og fyrirspurna um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. nóvember 2017, vegna fyrirspurnar annars kærenda um hvort setja mætti svalir á húsið að Laugavegi 132 til suðurs og litla kvisti á þak þess var m.a. vísað til þess að tillagan sem fylgdi fyrirspurninni teldist ekki samræmast deiliskipulagi og „myndu þeir kvistir teljast mjög stórir sem ná yfir allan þakflötinn“.

Hinn 11. september 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi. Tillagan var samþykkt í borgarráði 23. janúar 2020 og tók gildi 2. mars s.á. Í skipulagsbreytingunni kemur fram að ástæða hennar hafi verið sú að ágreiningur hafi verið um hvað teljist „litlir kvistir“ og þ.a.l. ákveðið að skilgreina nánar hámarksstærðir kvista og skerpa ákvæði varðandi svalir. Samkvæmt breyttu deiliskipulagi eru m.a. settar þær takmarkanir að almennt skuli kvistir ekki fara nær aðliggjandi húsum en 1 m. Þá skuli þeir dregnir inn frá útvegg um 50 cm og frá mæni um 50 cm. Við götuhliðar húsa megi kvistir ná yfir allt að 1/3 af þakbreidd en við bakhliðar húsa megi kvistir ná yfir 2/3 af þakbreidd. Þá er tekið fram um svalir að þær skuli hafa samræmt létt yfirbragð og útfærsla vera með gegnsæju handriði. Við bakhliðar húsa sé heimilt að gera svalir á útvegg, hámarksdýpt sé 1,3 m og hámarkslengd 1/3 af breidd útveggjar. Við götuhliðar megi svalir ekki fara út fyrir lóðarmörk. Ekki sé heimilt að vera með svalir í risi að götu. Kvistir þeir sem sótt var um að mætti reisa á þaki Laugavegar 132 eru umfangsmeiri en heimilað er í deiliskipulagi svæðisins en gengið yrði út á fyrirhugaðar svalir úr íbúðarrými áformaðs kvists á suðurhlið hússins.

Umsókn kærenda um byggingarleyfi, sem dagsettt er 21. mars 2019, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 og var afgreidd með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa dags. 6. apríl 2020.“ Í tilgreindu bréfi skipulagsfulltrúa er byggingar­fulltrúi upplýstur um niðurstöðu afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. apríl s.á. þar sem eftirfarandi var bókað um umsókn kærenda: „Neikvætt, með vísan til umsagna skipulags­fulltrúa, dags. 23. maí 2019, 3. september 2019 og 26. september 2019.“ Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í téðum umsögnum vísað til ágreinings um hvernig aðilar máls hafa túlkað „litla kvisti“ samkvæmt eldra deiliskipulagi. Þá er m.a. vísað til þess í umsögn skipulagsfulltrúa frá 26. september 2019 að „í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16.11.2017, kemur skýrt fram hvað skipulagsfulltrúi telur ásættanlegt varðandi stærðir kvista. Umsækjandi hefur ekki viljað una þeirri niðurstöðu […]“. Hvað sem öðru líður var byggingarleyfisumsókn kærenda ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem því hafði verið breytt fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Var því óheimilt að samþykkja umsóknina, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Kærendur hafa vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu borgaryfirvalda á byggingarleyfi vegna fasteignanna að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130. Hafa borgaryfirvöld gefið þær skýringar að afgreiðsla vegna fasteignarinnar að Mjölnisholti 8 hafi ekki komið til kasta skipulagsfulltrúa svo sem rétt hefði verið og bent á að samkvæmt gildandi skipulagi væri unnt að byggja sambærilega kvisti að Laugavegi 132 og heimilaðir hefðu verið að Laugavegi 130. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð eldra deiliskipulags og geta ekki verið fordæmis­gefandi gagnvart afgreiðslu umsóknar kærenda eftir áðurgreinda breytingu á skilmálum skipulagsins um kvisti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.