Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2020 Kirkjubraut

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.