Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40 og 60/2020 Skeifan Fenin

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur, en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna Grensásvegar 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 að breyta deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. ágúst 2020. Verður það kærumál, sem er nr. 60/2020, sameinað fyrrgreindu kærumáli þar sem málin eru samofin og kærandi sá sami í báðum málum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. júlí 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Grensásvegur 1 tilheyrir er í gildi deiliskipulag „Skeifan -Fenin“ sem samþykkt var 6. nóvember 2001. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur­borgar 4. janúar 2019 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort heimilað yrði að byggja íbúðir í bland við þjónustu á jarðhæð og auka byggingarmagn með því að byggja nýja byggingu meðfram Skeifunni í stað tveggja á lóðinni Grensásvegi 1. Við breytinguna færi nýtingarhlutfall hennar ofanjarðar úr 1,64 í 1,94. Var fyrirspurninni vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók jákvætt í fyrirspurnina á fundi 11. s.m. með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. Í niðurstöðu umsagnarinnar er tekið fram að mælt sé með að lóðarhafa verði heimilað að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina í samráði við verkefna­stjóra hjá skipulagsfulltrúa og Veitur. Umsókn um deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar Grensásvegar 1 í samræmi við áðurgreinda fyrirspurn var tekin fyrir á afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 5. apríl og 28. júní 2019 og var málinu síðan vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 25. september s.á. að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. október 2019.

Að lokinni kynningu á umræddri skipulagstillögu var málið á dagskrá afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa 29. nóvember 2019 og 7. febrúar 2020 og á fundum umhverfis- og skipulagsráðs 12. og 26. s.m. Hinn 12. mars 2020 samþykkti borgarráð breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Grensásvegar 1. Í breytingunni fólst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Með erindi, dags. 19. mars 2020, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar umfjöllunar, sem tilkynnti með bréfi, dags. 8. apríl s.á., að stofnunin gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og fór birting slíkrar auglýsingar fram 24. s.m.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 16. júní 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bíla­kjallara á lóðinni Grensásvegi 1. Var um að ræða fyrstu af fyrirhuguðum fjórum nýbyggingum á lóðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðdragandi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi ekki verið í samræmi við grundvallarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 um samráð og kynningu við gerð deiliskipulags. Þegar tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi sé auglýst til kynningar eigi sveitarfélagið sem fari með skipulagsvaldið að ganga til þess verks með óbundnar hendur. Í máli þessu hátti hins vegar svo til að þegar borgarráð hafi samþykkt að auglýsa hina kærðu deiliskipulagstillögu til kynningar þá hafi ráðið skömmu áður verið búið að samþykkja samkomulag við lóðarhafa Grensásvegar 1 um uppbyggingu á lóðinni í samræmi við hina umdeildu skipulagstillögu sem þá hafi legið fyrir. Með gerð þessa samkomulags hafi borgaryfirvöld bundið hendur sínar og í raun skuldbundið sig til þess að samþykkja hina umdeildu skipulagstillögu. Hafi auglýsing tillögunnar því í raun aðeins verið til málamynda.

Kærandi hafi gert athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. þess efnis að í greinargerð með henni væri tekið fram að við gerð rammaskipulags Skeifunnar hefði verið nýafstaðin skipulags­breyting á Grensásvegi 1 og hefði því ekki verið gert ráð fyrir breytingum á skipulagi þeirrar lóðar í rammaskipulaginu, en nýjar forsendur rammaskipulagsins og ytri aðstæður hefðu kallað á að farið yrði í þessa endurskoðun deiliskipulagsins með hliðsjón af stefnu og forsendum rammaskipulagsins. Benti kærandi á að þessi rök fái ekki staðist, enda hafi tilgangur tillögu að rammaskipulagi m.a. verið sá að kalla fram afstöðu og óskir einstakra lóðarhafa og að miklu máli hafi skipt fyrir heildina að allir lóðarhafar á svæðinu kæmu að rammaskipulaginu og sett fram sjónarmið sín.

Fyrir utan þá ágalla á rökstuðningi, undirbúningi og meðferð tillögunnar sem að framan sé lýst verði ekki annað séð en að alfarið hafi skort það samráð sem áskilið sé við íbúa og hagsmuna­aðila almennt við gerð deiliskipulagstillögu, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, svo og hið sérstaka samráð sem áskilið sé við lóðarhafa aðliggjandi lóða sem fram komi í 3. mgr. gr. 5.2.1., en það ákvæði sé fortakslaust og ófrávíkjanlegt. Sjáist þess þó hvergi stað að þessara skyldu hafi verið gætt.

Hin kærða ákvörðun samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í rammaskipulagi svæðisins. Þótt rammaskipulag sé ekki lögformleg skipulagsákvörðun feli það í sér bindandi stefnumótun borgarinnar. Í töflu sem birtist á bls. 34 í greinargerð rammaskipulagsins komi fram að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum á lóð Grensásvegar, en á reit 1, sem Grensásvegur 1 virðist eiga að vera hluti af, sé gert ráð fyrir 152 íbúðum á þeim reitsins sem falli utan lóðar Grensásvegar 1. Í svörum borgaryfirvalda við athugasemdum sé því haldið fram að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur skv. rammaskipulaginu, sem bætist við reitina níu, og þá séu reitirnir tíu. Þessar staðhæfingar séu hins vegar í mótsögn við það sem segi á bls. 40 í greinargerð rammaskipulagsins þar sem fram komi að svæðinu sé skipt í níu skipulagsreiti, sbr. kafla með yfirskriftinni „uppbyggingarmöguleikar/skipulagsreitir“. Það sé því beinlínis rangt sem borgaryfirvöld haldi fram að lóðin Grensásvegur 1 sé sérstakur skipulagsreitur í rammaskipulaginu. Væri það svo þá fæli það í sér augljóst brot á jafnræðisreglu enda væri lóðarhafa Grensásvegar 1 með því einum veitt sú sérstaða að geta fengið deiliskipulagi vegna lóðarinnar breytt án aðkomu annarra lóðarhafa.

Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1 samkvæmt rammaskipulaginu. Það sé því í hróplegri andstöðu við það og þá stefnu sem þar sé mótuð að gera nú ráð fyrir allt að 204 íbúðum á lóðinni, eða sem nemi 40,8 % af heimiliðum fjölda íbúða í Skeifunni allri skv. aðalskipulagi, sem sé bindandi. Sé einnig ljóst að slík ráðstöfun gangi í berhögg við réttmætar væntingar annarra lóðarhafa í Skeifunni, sem reistar séu á stefnu borgaryfirvalda sem sett sé fram í rammaskipulaginu, og myndi þannig réttur þeirra til byggingar íbúða á lóðum sínum rýrna stórlega ef hin kærða ákvörðun fengi að standa óhögguð.

Deiliskipulag verði að vera í samræmi við aðalskipulag. Í auglýstri tillögu sé gert ráð fyrir sjö hæða byggingu á lóðinni sem ekki sé heimild fyrir í aðalskipulagi heldur sé þar gert ráð fyrir fjögurra til sex hæða byggingum á svæðinu. Í svörum við athugasemdum hafi borgaryfirvöld bent á að samkvæmt mynd 13, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2010-2030, í kaflanum „Borgin við sundin“, séu vikmörk, bæði varðandi fjölda íbúða og hæð húsa. Miðað við þessi vikmörk geti fjöldi íbúða í Skeifunni verið 450-600 og húshæðir þrjár til átta. Ekki hafi áður verið vísað til þessara fráviksheimilda við undirbúning skipulagstillögunnar og hafi því ekki verið gætt þeirra takmarka sem aðalskipulagið setji um beitingu þessara heimilda. Sé það skilyrði sett fyrir beitingu fráviksheimilda um hæð húsa að ákvörðun um hana verði rökstudd sérstaklega, en þess hafi ekki verið gætt í tilviki því sem hér sé til meðferðar. Leiði af því að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skilmála aðalskipulags, en auk þess sé rökstuðningi fyrir henni augljóslega áfátt þar sem skyldubundinn rökstuðning skorti.

Kærandi bendi á að krafa hans um ógildingu hins kærða byggingarleyfis sé á því byggð að verði fallist á kröfu hans um ógildingu kærðrar breytingar á deiliskipulagi Skeifunnar eigi hið kærða byggingarleyfi ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi og beri þegar af þeirri ástæðu að fella byggingarleyfið úr gildi. Sé byggingarleyfið í andstöðu við deiliskipulag Skeifunnar eins og það hafi verið fyrir hina kærðu  breytingu, m.a. vegna þess að ekki hafi verið þar gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1, en með hinu kærða leyfi sé heimiluð bygging 50 íbúða. Beri því að fella byggingarleyfið úr gildi verði fallist á kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld hafni því alfarið að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið til málamynda og að Reykjavíkurborg hafi verið með bundnar hendur um niðurstöðu málsins, en öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Vakin sé athygli á að skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga sé það í höndum sveitarstjórna að annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og sé þeim falið skipulags­vald innan sinna valdmarka.

Rammaskipulag sé ekki ein þeirra lögheimiluðu skipulagsáætlana sem nefndar séu í 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag sé óformlegt skipulag sem unnið sé af Reykjavíkurborg til þess að kalla eftir hugmyndum  í því skyni að skapa stefnu um heildarsýn fyrir svæði sem vinna eigi deiliskipulag fyrir eða vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi. Þar sem rammaskipulag sé ólögformleg skipulagsáætlun verði hún ekki túlkuð sem bindandi fyrir sveitarfélög þegar komi að vinnslu deiliskipulagsáætlunar. Sveitarfélag geti haft rammaskipulag til hliðsjónar, enda geti í því birst sýn sem telja megi heppilega fyrir viðkomandi svæði. Engar réttmætar væntingar geti byggst á rammaskipulagi vegna eðlis þess og stöðu gagnvart skipulagslögum. Í svörum við athugasemdum sem hafi borist á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar komi fram að gildandi deiliskipulag hafi verið tekið óbreytt inn í rammaskipulagið án þess að kanna sérstaklega hug lóðarhafa. Þá hafi komið fram í svörum skipulagsfulltrúa að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur samkvæmt rammaskipulaginu og bætist hann við hina níu reitina sem komi fram í því skipulagi og verði reitur nr. tíu. Í rammaskipulaginu sé Grensásvegur 1 ekki skilgreindur sem reitur þar sem að við vinnslu þess hafi verið uppi önnur áform um nýtingu reitsins. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið horfið frá fyrri áformum og sé nú gert ráð fyrir íbúðum á reitnum. Með því að fella Grensásveg 1 að rammaskipulaginu verði einföld hliðrun á reitnum og við bætist nýr reitur göturýma/almenningsrýma. Reykjavíkurborg sé að fullu heimilt að gera framangreinda breytingu á rammaskipulaginu enda um að ræða ólögformlegt skipulag sem ætlað sé að marka framtíðarsýn á reitnum.

Samkvæmt kaflanum „Borgin við Sundin“ í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að á reit 33, Skeifan, geti verið allt að 500 íbúðir. Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem borist hafi á auglýsingartíma hafi komið fram að „vikmörk eru heimil m.a. að íbúðarfjöldi geti verið −10%/+20%“ sem leiði til þess að á reitnum geti verið allt að 600 íbúðir, séu vikmörk til fjölgunar íbúða beitt. Þá sé rétt að benda á að í gr. 2.2. á deiliskipulagsuppdrætti komi fram að heimilt sé að byggja fjögurra til sex hæða nýbyggingu, með inndreginni sjöundu hæð. Þannig geri deiliskipulagið ekki ráð fyrir að full sjöunda hæð verði byggð. Ekki sé því rétt að tala um sjö hæða hús í því samhengi. Hvað varði sérstakan rökstuðning þá kveði aðalskipulag á um að „möguleg frávik frá viðmiðum í deiliskipulagi −1/+2 hæðir verði rökstudd sérstaklega“. Ef talið sé að ákvæðið eigi við miðað við umfang sjöundu hæðar þá hafi rökstuðningskrafa verið uppfyllt í svörum skipulagsfulltrúa, dags. 7. febrúar 2020.

Engin rök séu færð fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin annmörkum sem eigi að leiða til þess að ákvörðun hans frá 16. júní verði ógilt. Virðist því röksemdafærsla fyrir ógildingu byggingarleyfis­umsóknarinnar eingöngu vera byggð á afstöðu kæranda um að deiliskipulagsbreytingin sé haldin slíkum ágalla að varði ógildingu en borgaryfirvöld telji svo ekki vera.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að engar röksemdir séu færðar fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin einhverjum þeim annmörkum sem leiða eigi til ógildingar á ákvörðun hans. Á sama hátt sé vísað á bug málsástæðum kæranda þess efnis að hið kærða byggingarleyfi muni ekki lengur eiga stoð í gildu deiliskipulagi verði fallist  á kröfu hans og deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi kveðst vísa  til þess sem fram komi í greinargerð borgarinnar að rammaskipulag Skeifunnar sé ekki lögformlegt skipulag sem Reykjavíkurborg sé bundin af. Það breyti því þó ekki að í rammaskipulagi birtist stefna borgarinnar um uppbyggingu á svæðisins, sem unnin sé í samvinnu og samráði við lóðarhafa á svæðinu. Megi líta á rammaskipulagið sem ígildi samnings lóðarhafa og borgaryfirvalda.

Þótt fyrirhuguð sjöunda hæð sé inndregin teljist hún vera hæð í húsi í öllum skilningi. Tilvist hennar sé því í bága við aðalskipulag Reykjavíkur enda hafi ekki verið færð fram nein rök fyrir nauðsyn hæðarinnar í tillögunni, eins og áskilið sé í skilmálum aðalskipulagsins til að sú hæð gæti yfirleitt komið til álita. Kröfunni um þennan áskilnað verði ekki mætt eftir á, eins og reynt sé að halda fram í greinargerð borgarinnar að gert hafi verið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar, sem felur í sér heimild fyrir uppbyggingu og notkun húsnæðis á lóðinni nr. 1 við Grensásveg, og um lögmæti byggingarleyfis, sem heimilar byggingu fimm hæða fjölbýlishúss með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á sömu lóð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 1 við Grensásveg á miðsvæði M3a og þróunarsvæði Þ51. Um miðsvæði M3a segir m.a. að þar sé einkum gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Léttur iðnaður sé heimill en iðnaðarstarfsemi skuli almennt vera víkjandi. Um þróunarsvæði Þ51 er tekið fram að þar sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum og íbúðum. Áhersla skuli lögð á fjögurra til sex hæða samfellda byggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi. Áætluð aukning húsnæðis (nettóaukning) er um 85 þúsund m², þar af um 500 íbúðir. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að vikmörk á fjölda íbúða geti verið −10/+20% og þau háð samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á hverjum tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir mögulegu fráviki frá hæðum húsa í deiliskipulagi −1/+2 hæðir (einkum inndregnar), en rökstyðja skuli það sérstaklega. Unnið hefur verið rammaskipulag fyrir skipulagssvæðið og eru þar sett fram markmið og ráðandi sjónarmið varðandi megináherslur og framtíðaruppbyggingu svæðisins á grundvelli nýrra forsendna og markmiða í aðalskipulagi og lýsingu skipulagsfulltrúa.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem tekur til lóðarinnar Grensásvegar 1, er gert ráð fyrir aukningu á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyttri notkun efri hæða fyrir íbúðir. Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verða nýbyggingar fjórar talsins og hækkar heildarnýtingarhlutfall lóðarinnar úr 3,51 í 3,69 og heildarbyggingarmagn úr 16.284 í 21.240 m². Þar af er gert ráð fyrir 17.390 m² undir íbúðir. Eins og áður greinir eru í aðalskipulagi rúmar uppbyggingarheimildir á skipulagssvæðinu en þar er gert ráð fyrir allt að 600 íbúðum, séu vikmörk nýtt til hækkunar. Með vísan til þessa og með hliðsjón af því að sveitarstjórnum er í lögum falið víðtækt skipulags­vald, sbr. áðurgreint ákvæði 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, verður ekki talið að gengið hafi verið með óhæfilegum hætti á uppbyggingarheimildir annarra lóðarhafa á skipulagssvæðinu með hinni kærðu ákvörðun. Nýbyggingar verða fjórar til sex hæðir með inndreginni sjöundu hæð. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti verða þrjár af fjórum nýbyggingum fjögurra til fimm hæða en sú nyrsta verður sjö hæðir með efstu hæðina inndregna. Borgaryfirvöld hafa vísað til þess við vinnslu tillögunnar að sú bygging verði hækkuð að horni Grensásvegar og Suðurlands­brautar, þannig að hún myndi reisulega hornbyggingu, og að byggingar til suðurs að Skeifunni verði lækkaðar. Hafa því verið færð fram rök fyrir nýtingu vikmarka í aðalskipulagi til hækkunar. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting samkvæmt framangreindu ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Umrædd deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka, þ.e. svæðisskipulag, deiliskipulag og aðalskipulag, sbr. m.a. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag hefur ekki lögformlega stöðu en í skilmálum hins kærða deiliskipulags er m.a. mælt fyrir um að ramma­skipulag svæðisins hafi að geyma „stefnumarkandi heildarsýn fyrir uppbyggingu í Skeifunni og tengsl við nærliggjandi svæði“. Getur rammaskipulag að framangreindum ástæðum ekki bundið hendur sveitarfélaga við deiliskipulagsgerð eða skipað réttindum manna og skyldum með bindandi hætti, líkt og á við um aðal- og deiliskipulag.

Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, m.a. hvað landnotkun varðar, svo sem áskilið er í 11. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ekki liggur fyrir að ágallar hafi verið á málsmeðferð ákvörðunar­innar um veitingu byggingarleyfisins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða fjölbýlishúsi með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 1 við Grensásveg.