Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90 og 91/2020 Skólavörðustígur

Árið 2020, fimmtudaginn 5. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 29a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir eigandi Bjarnarstígs 10, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðar­nefndinni. Þar sem það kærumál, sem er nr. 91/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það sameinað máli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu annars kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. október 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 21. apríl 2020 var tekin fyrir umsókn, dags. 11. desember 2018, um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. maí 2018, umsögn Minjastofnunar, dags. 5. júní s.á., og afrit af tölvupósti vegna fellingar trjáa frá 14. júní s.á. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 8. maí 2020 að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Var svo og gert og bárust athugasemdir á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 2. september 2020 með vísan til fyrir­liggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á., þar sem athugasemdum var svarað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. september 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kærenda: Eigandi Skólavörðustígs 29a bendir á að af skuggavarpsmyndum sé ljóst að það sé einungis í júní þegar sól sé hæst á lofti sem áætluð bygging skyggi ekki á sólarljós inn í garð lóðar hans nr. 29a við Skólavörðustíg. Það megi því ætla að byggingin valdi skuggavarpi á lóðinni að vori og á haustmánuðum, sem skerði gæði útirýmis, hafi áhrif á notkunarmöguleika lóðarinnar og geti haft neikvæð áhrif á verðmæti fasteignarinnar.

Þá séu gerðar athugasemdir við stærð og hæð viðbyggingarinnar. Hún verði stór, óþarflega breið og byggingarmagn mikið, eða næstum því tvöföldun á núverandi húsi. Byggingin muni auk þess að varpa skugga á lóð kærandans, auka innsýn í garð hans, þannig að þrengt verði að honum og persónulegt rými hans skert. Þá sé bent á að vitað sé að stutt sé niður á klöpp á Skólavörðuholtinu og þurfi því líklega að brjóta hana með höggi. Við framkvæmdir af sama toga hafi komið fram að hús í nálægð við slíkar framkvæmdir hafi orðið fyrir tjóni vegna fleygunar og því geti komið til þess að hús kæranda verði fyrir skemmdum, sérstaklega þegar litið sé til aldurs fasteignarinnar.

Ekki hafi verið farið eftir markmiðum skipulagslaga nr.123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 við afgreiðslu málsins hvað varði athugasemdir hagsmunaaðila við grenndar­kynningu. Þeim hafi ekki verið svarað með fullnægjandi rökum er varði stærð og hæð hússins ásamt skuggavarpi. Einnig hafi ekki verið farið eftir þeim markmiðum sem sett séu fram í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð þar sem helstu hagsmunir nágranna séu upptaldir. Skipulagsfulltrúi haldi því fram að sambærilegan þéttleika byggðar megi finna víða á reitnum og í hverfinu. Því sé velt upp hvað átt sé við með reitnum, þar sem umræddur götukafli sé ekki deiliskipulagður, en það sé rétt að víða sé að finna sambærilegan þéttleika.

Rökstuðningur skipulagsfulltrúa, sem byggingarfulltrúi byggi sitt samþykki á, sé með öllu ófullnægjandi. Ekki sé vísað til þeirra réttarheimilda sem um málið gildi, nema hvað varði athugasemdir vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma, sem og tjón og skaðabætur. Þá séu engin rök færð fyrir því á grundvelli hvaða réttarheimilda samþykki umrædds byggingarleyfis sé veitt. Sjá megi það á athugasemdum skipulagsfulltrúa að veiting leyfisins hafi að nær öllu leyti verið byggð á mati, en þau rök sem tiltekin séu í þeim séu einnig ófullnægjandi, t.d. hvað varði tilvísun til álits Minjastofnunar Íslands eða þess að tré geti valdið skuggamyndum. Þá komi engar sjálfstæðar röksemdir fram í ákvörðun byggingarfulltrúa og verði ekki annað séð en að málið hafi verið afgreitt án allrar rannsóknar, eins og krafa sé gerð um í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eigandi Bjarnarstígs 10 vísar til þess að heilsa hans sé viðkvæm og efist hann um að hann þoli vélarskrölt, sprengingar og annan hávaða sem óhjákvæmilega fylgi framkvæmdinni. Þetta muni örugglega stórskaða heilsu hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í umsögn Minjastofnunar Íslands um byggingaráformin komi fram að viðbyggingin taki mið af mælikvarða og hlutföllum hins friðaða húss að Skólavörðustíg 31. Einnig komi þar fram að breytingin teljist hvorki spilla götumynd Bjarnarstígs né yfirbragði byggðar á reitnum. Stækkun núverandi húss sé vissulega hlutfallslega mikil, þar sem „fótspor“ þess svo gott sem tvöfaldist. Skipulagsfulltrúi hafi tekið undir afstöðu Minja­stofnunar og talið viðbygginguna samræmast því byggðamynstri sem fyrir væri á svæðinu en þar væru mörg timburhús sem teldust ein hæð, kjallari og ris. Viðbyggingin væri ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og hæð hennar ekki frábrugðin öðrum húsum sem standi meðfram Bjarnarstíg.

Á skuggavarpsmyndum megi sjá að núverandi hús á lóðinni nr. 31 skyggi á hluta lóðar nr. 29a á ákveðnum tíma árs. Myndirnar sýni að mesta breytingin sé yfir miðjan daginn að jafndægri. Yfir sumartímann, þegar sól standi sem hæst, hafi viðbyggingin lítil sem engin áhrif gagnvart lóð nr. 29a. Samkvæmt skuggavarpsmyndum aukist skuggavarp á lóðinni nr. 10 við Bjarnastíg að hluta seinni part dags, bæði við sumarsólstöður og að jafndægri. Allar þær lóðir sem um ræði séu talsvert grónar og séu þar nokkur tré sem hafi einnig áhrif á skuggamyndun. Ekki sé heldur fallist á að athugasemdum kæranda í grenndarkynningu hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafi svör skipulagsfulltrúa verið rækilega rökstudd og  málsmeðferð umsóknarinnar verið í samræmi við markmið skipulagslaga. Tilvitnun kæranda til gr. 5.8.4. eigi ekki við um umrædda byggingarleyfisumsókn, en ákvæðið heimili samþykkt framkvæmda án grenndarkynningar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeirri málsmeðferð hafi ekki verið fyrir að fara í þessu máli heldur hafi umsóknin verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Öllum framkvæmdum fylgi óhjákvæmilega eitthvert rask en framkvæmdaraðila sé skylt að halda því raski og ónæði sem hann kunni að valda í algjöru lágmarki. Hvað varði þá málsástæðu að fasteign kæranda muni lækka í verði þá hafi ekki verið sýnt fram á að svo fari, en í því sambandi gæti reynt á 51. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir meðal annars á að í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið farið yfir allar athugasemdir sem kærendur hefðu sett fram og þeim svarað efnislega. Málsmeðferðin beri með sér að hafa verið vönduð og ítarleg. Þótt ekki hafi verið fallist á sjónarmið kærenda jafngildi það ekki því að málsmeðferðin hafi verið ófullnægjandi.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2020 sem hafi verið kveðinn upp 29. október sl. Nefndin hafi talið að breyting sem hafi falið í sér fjölgun íbúða raskaði ekki hagsmunum að því marki að ógildingu varði. Þegar forsendur úrskurðarins séu heimfærðar á málsatvik í þessu máli megi sjá að breytingarnar í tilfelli Skólavörðustígs 31 séu miklu veigaminni og í raun þannig að þær hafi hverfandi lítil áhrif á sitt nærumhverfi. Þá sé vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 23/2018, sem kveðinn hafi verið upp 9. maí 2019, en þar hafi nefndin hafnað kröfu um að ógilda ákvörðun um breytingu skipulags þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir nýju húsi sem yrði byggt upp við Smiðjustíg 12 og auknu nýtingar­hlutfalli. Enn fremur sem sé vísað til úrskurðar nr. 87/2018, sem hafi verið kveðinn upp 9. maí 2019.

Að öðru leyti eru athugasemdir leyfishafa á sömu lund og athugasemdir Reykjavíkurborgar og verða því ekki raktar frekar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu ásamt inndregnum svölum á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til þeirrar lóðar.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 31 á svæði blandaðrar miðborgarbyggðar, íbúðarbyggðar merktri M1c. Á svæði M1c sé lögð áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en um leið að efla verslunar-, atvinnu og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Fer hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við framangreinda stefnu og markmið aðalskipulags.

Birt stærð hússins á lóðinni Skólavörðustíg 31 er nú 127,4 m² en flatarmál lóðarinnar er 203,9 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Á samþykktum aðaluppdráttum er hins vegar gert ráð fyrir að brúttóflatarmál byggingarinnar verði 227,8 m². Um töluverða stækkun er að ræða og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir fyrirhugaða breytingu 1,11. Á svæðinu gætir nokkurs misræmis hvað varðar nýtingarhlutfall einstakra lóða. Þannig má nefna til samanburðar að nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 29a er 0,88 og nýtingarhlutfall Skólavörðustígs 29 er 1,22. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 28 1,67. Samþykkt byggingaráform leiða því ekki til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar 31 muni skera sig úr hvað varðar nýtingarhlutfall lóða á svæðinu. Umdeild viðbygging verður ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og verður í um fjögurra metra fjarlægð frá lóðarmörkum Bjarnarstígs 10 og í um tólf metra fjarlægð frá húsinu á þeirri lóð. Byggt er við bakhlið hússins á norðurhluta lóðarinnar og hefur viðbyggingin því ekki áhrif á götumynd Skólavörðu­stígs. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum breytingum á húsinu að Skólavörðustíg 31.

Samkvæmt framangreindu voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu um­sókn. Þá var málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og viðauka 1.1. og 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdar­­fresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athuga­semda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 24. september 2020.

Fyrirliggjandi skuggavarpsmyndir bera með sér­ að mesta aukning á skuggavarpi gagnvart lóð kæranda að Skólavörðustíg 29a vegna tilkomu viðbyggingarinnar sé yfir miðjan daginn á jafndægri að vori og hausti. Yfir sumartíman er aukningin óveruleg. Verður ekki ráðið að framangreind aukning á skuggavarpi sé umfram það sem íbúar í þéttbýli mega almennt búast við en hafa verður í huga að um miðborgarsvæði er að ræða þar sem byggð er þétt fyrir.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.