Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2019 Legsteinaskáli

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 28. s.m. um að veita slíkt byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitar­stjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Með bréfi til úrskurðar­nefndarinnar, dags. 5. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Er þess krafist að báðar ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Þá fer kærandi fer fram á að aðrir nefndarmenn fjalli um málið en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 16. júlí 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deili­skipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells og á grundvelli þeirrar vinnu var tillaga að deiliskipulagi samþykkt á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 12. febrúar 2015. Auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. með yfirskriftinni „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Í greinargerð deiliskipulagsins kom fram að skipulagssvæðið væri á bæjarhlaði Húsafells 1. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst s.á. var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells og hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn að Bæjargili. Skaut kærandi síðargreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði, hvað það varðaði, borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að nefndinni hefði borið að taka rök­studda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafni hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álitsins. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endur­upptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Í kjölfar frekari málsmeðferðar var það og gert og með úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells þar sem krafan var of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einnig var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, þar sem skipulagið hefði ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Að lokum var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn að Bæjargili í landi Húsafells þar sem hið kærða byggingar­leyfi ætti sér hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né hefði málsmeðferð þess farið að undantekningar­ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu.

Hinn 22. janúar 2019 sótti leyfishafi um byggingarleyfi til að reisa skála að Bæjargili í landi Húsafells. Í umsókninni kom fram að skálinn yrði reistur til að varðveita legsteina og minnis­merki sem höggvin hefðu verið úr steinum. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðar­nefndar 1. febrúar 2019 samþykkti nefndin að grenndarkynning færi fram. Fól hún umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum sem hagsmuna hefðu að gæta fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 44. gr. skipulagslaga, og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 14. s.m. Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. s.m., var fyrirhuguð framkvæmd kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 1. apríl 2019, sem hann og gerði með bréfi, dags. 29. mars s.á. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 5. apríl s.á. voru athugasemdir kæranda og svör við þeim lögð fram og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja erindið. Staðfesti sveitarstjórn bókun nefndarinnar á fundi sínum 9. maí s.á. og samþykkti að fela byggingarfulltrúa að afgreiða umsóknina í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Hinn 28. s.m. áritaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisuppdrætti til samþykktar og gaf leyfið út sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að þrátt fyrir að ekki sé til neitt gilt deiliskipulag fyrir svæðið Bæjargil sé þegar búið að reisa skemmu á svæðinu. Byggingarleyfi vegna skemmunnar sé frá hausti 2015 og byggi á deiliskipulagi sem hafi aldrei tekið gildi samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Bygging legsteinaskála sé langt á veg komin án byggingarleyfis og sé því verið að bæta við öðru húsi á lóðina án deiliskipulags. Ekki hafi verið leyfilegt að grenndarkynna framkvæmdina vegna umfangs hennar. Sér í lagi vegna þess að þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóðinni án deiliskipulags, en einnig vegna þess að fyrirhuguð notkun nýbyggingarinnar sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Enn fremur hafi ranglega verið staðið að framkvæmd grenndarkynningarinnar. Fordæmi séu fyrir því að umsókn um byggingarleyfi án skipulags hafi verið hafnað þar sem þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóð, t.d. hafi því verið hafnað þegar beðið hafi verið um byggingarleyfi fyrir sumarhús í landi Húsafells 1.

Sveitarstjóri Borgarbyggðar og sviðsstjóri skipulagssviðs sveitarfélagsins hafi verið vanhæfir til að koma að grenndarkynningu. Sveitarstjóri hafi lýst því yfir í blaðaviðtali áður en grenndar­kynning hafi farið fram hver niðurstaða hennar yrði. Hann hafi setið fundi þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að láta gefa út byggingarleyfi. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgarbyggðar hafi haft yfirumsjón með grenndarkynningunni. Hann sé eiginmaður hönnuðar sem hafi gert deiliskipulagið fyrir leyfishafa sem hafi verið talið ógilt í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Líkur séu á að hönnuðurinn sé bótaskyldur gagnvart leyfishafa fáist ekki byggingarleyfi fyrir leg­steinahúsinu, en sviðsstjóri hafi ekki vikið af fundi við afgreiðslu skipulagsnefndar í máli þessu.

Framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið með þeim hætti að gera sem minnst úr mótmælum eina aðilans sem hagsmuna hafi að gæta. Skipulagsnefnd hafi ákveðið að grenndar­kynna fyrirhugaðar framkvæmdir til 15 aðila en aðeins þrjár lóðir liggi að umræddu svæði, þar af ein í eigu leyfishafa. Aðrir sem hafi fengið grenndarkynningu séu nánir ættingjar leyfishafa. Sömu aðilar hafi vegna umsóknar um byggingarleyfi í landi Húsafells 1 lagt ríka áherslu á að ekki yrði byggt á svæðinu án skipulags, en núna bregði svo við að engar athugasemdir komi frá þeim vegna byggingar án skipulags Bæjargils. Fram komi í svari skipulagssviðs við athuga­semdum um grenndarkynningu að skálinn sé í 10 m fjarlægð frá lóðamörkum en hið rétta sé að samkvæmt teikningum sé fjarlægðin undir 10 m.

Leyfishafi hafi breytt nafni hússins úr legsteinasafni í legsteinaskála og fullyrði að aðeins standi til að geyma þar steina. Hann hafi reyndar fjarlægt steina í leyfisleysi úr kirkjunni þar sem þeir hafi verið geymdir og ekki fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til flutninganna. Vísað sé til yfirlýsingar starfsmanns stofnunarinnar um að ekki hafi verið veitt leyfi til að fjarlægja steinana af sínum stað, sbr. 3. og 21. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Einnig sé vísað til 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ítrekað hafi komið fram hjá leyfishafa að til standi að setja upp safn á svæðinu. Hann hafi fengið styrki hjá opinberum aðilum og einkaaðilum vegna uppsetningar á legsteinasafni. Til dæmis hafi framkvæmdin fengið styrk fimm ár í röð frá Kirkjugarðasjóði til undirbúnings á uppsetningu legsteinasafns.

Yfirlitsmynd af svæðinu sýni hversu mikið sé búið að þrengja að Gamla bæ. Bílastæðum hafi verið fækkað í fimm og aðkoma að þeim bílastæðum sem nú séu til staðar verði ekki lengur fyrir hendi. Erfitt muni verða að reka gistiheimilið í nálægð við mikinn átroðning gesta og því verði kærandi fyrir tjóni vegna verri reksturs og lægra verðgildis eignarinnar og rekstursins. Auk þess séu möguleikar á stækkun úr sögunni vegna skertrar aðkomu.

Úrskurðarnefndin hafi margsýnt að hún dragi taum leyfishafa með því að komast ítrekað að augljóslega rangri lagalegri niðurstöðu. Þegar nefndarmenn hafi neyðst til að leiðrétta fyrri úrskurð hafi það verið gert með hangandi hendi og leyfishafa verið bent á vægast sagt vafasama útgönguleið. Krefjast verði þess að aðrir nefndarmenn verði fengnir til að fjalla um málið.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun kæru vegna samþykktar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið upp úr með það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Verði ekki fallist á frávísun þessa hluta málsins gerir sveitarfélagið þá kröfu að sjónarmiðum kæranda verði hafnað. Líta verði fram hjá allri umfjöllun hans um pakkhúsið þar sem byggingarleyfi þess sé enn í gildi, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði hennar frá 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016, þar sem kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins var vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur hefði verið liðinn. Bent sé á að upphaflegt byggingarleyfi vegna legsteinaskálans hafi verið afgreitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2016. Á grundvelli þess leyfis hafi leyfishafi hafið framkvæmdir en það hafi ekki verið fellt úr gildi af úrskurðarnefndinni fyrr en 6. desember 2018, en eins og komi fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fresti kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Um leið og leyfið hafi verið fellt úr gildi hafi leyfishafi hætt öllum framkvæmdum og ekki hafið þær á nýjan leik fyrr en byggingarleyfi það sem nú sé kært hafi verið gefið út 28. maí 2019. Því sé bygging legsteinaskálans langt á veg komin.

Sveitarfélagið fái ekki séð af hverju óheimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi á grundvelli málsmeðferðar 44. gr. skipulagslaga, en engar skýringar um þessa málsástæðu koma fram í kæru, t.a.m. hvað sé nákvæmlega við framkvæmdina sem geri hana svo umfangsmikla að óheimilt hafi verið að grenndarkynna hana. Sótt hafi verið um leyfi til að reisa skála yfir legsteina. Slík bygging samræmist gildandi aðalskipulagi á svæðinu þar sem lóðin Bæjargil sé á skil­greindu landbúnaðarsvæði. Að mati sveitarfélagsins þýði það að bygging skálans sé í samræmi við gildandi aðalskipulag en skálinn sé byggður sem geymsluhúsnæði. Á bls. 27 í greinargerð með aðalskipulagi Borgarbyggðar sé einungis kveðið á um skyldu til að deiliskipuleggja lóðir á skilgreindum landbúnaðarsvæðum ef til standi að byggja tvö íbúðarhús eða fleiri á sömu jörð. Þar sem ekkert íbúðarhús sé á lóðinni Bæjargili, og þar sem skálinn teljist heldur ekki sem slíkt hús, telji sveitarfélagið að útgáfa byggingarleyfisins á grundvelli grenndarkynningar hafi ekki brotið gegn gildandi aðalskipulagi. Í athugasemdum með lagafrumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 komi fram að nauðsynlegt hafi verið að gera breytingu á 44. gr. laganna, um grenndarkynningu, til að ljóst væri að heimila mætti útgáfu byggingarleyfis á grundvelli grenndarkynningar ef fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við aðalskipulag hvað varðaði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Sveitarfélagið telji að öll þessi atriði séu til staðar. Þá hafi breytingarlögin fellt úr gildi það ákvæði laganna sem hafi kveðið á um að þessi aðferð væri einungis fær í þegar byggðum hverfum.

Sveitarstjóra sé skylt að sitja fundi sveitarstjórnar sem starfsmaður sveitarfélagsins. Þar hafi hann tillögurétt en engan atkvæðisrétt þar sem hann sé ekki kjörinn fulltrúi, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 884/2013 um stjórn Borgarbyggðar. Sveitarstjóri hafi því ekki komið með óeðlilegum eða ólögmætum hætti að þeirri ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. febrúar 2019 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 1. febrúar þess efnis að grenndarkynna hið umsótta byggingarleyfi. Þá hafi sviðsstjóri umhverfissviðs setið fundinn, eins og hann geri jafnan, en hvergi sé bókað um sérstaka aðkomu hvors aðila fyrir sig að þeirri tillögu sem kjörnir fulltrúar hafi greitt atkvæði um á umræddum fundum. Þá leiði kærandi engar líkur að því að sú staðreynd að rangt nafn hafi verið notað fyrir deiliskipulag svæðisins hafi nokkur áhrif á það hvort sviðsstjórinn uppfylli hæfisreglur í því máli sem nú sé kært. Ákaflega langsótt tengsl sviðsstjórans við gerð deiliskipulagsins, sem hafi verið afgreitt áður en hann hafi tekið til starfa hjá sveitarfélaginu, hafi ekki nokkur einustu áhrif á hæfi hans til að annast störf fyrir sveitarfélagið.

Sveitarfélagið hafi grenndarkynnt umsókn um leyfið fyrir þeim í næsta nágrenni við lóðina Bæjargil sem hún hafi talið eiga hagsmuna að gæta. Leyfishafi sé fæddur og uppalinn á Húsafelli og séu skyldmenni hans mörg á svæðinu og því eigendur margra þeirra lóða og jarða sem næst Bæjargili standi. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að grenndarkynnt hafi verið fyrir viðkomandi aðilum. Þá hafi bréf umræddra aðila til skipulagsyfirvalda vegna eldri umsóknar kæranda um byggingarleyfi á lóðinni Húsafelli 1 ekkert gildi í þessu máli. Viðkomandi aðilum sé fullkomlega heimilt að hafa aðrar skoðanir á því máli en því sem nú sé til meðferðar hjá nefndinni.

Umsókn hafi borist frá leyfishafa um legsteinaskála. Í þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir sveitarfélagið liggi ekkert fyrir um áætlanir leyfishafa um síðari notkun hússins. Sveitarfélaginu sé skylt að afgreiða umsóknir í samræmi við efni þeirra, en ekki það sem kunni mögulega að eiga sér stað síðar. Þá sé bent á að mögulegur flutningur legsteina úr kirkjunni án leyfis sé ekki málefni sem falli undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar.

Yfirlitsmynd sem kærandi vísi til sé aðeins afstöðumynd sem lögð hafi verið fram með hönnunargögnum í upplýsingaskyni. Sem slík sé hún ekki bindandi í málinu, hvorki fyrir eigendur Gamla bæjar né leyfishafa, enda nái hið kærða byggingarleyfi og grenndarkynning vegna þess aðeins til þess að reisa skála yfir legsteina. Leyfið nái ekki til framkvæmda á lóð við húsið. Umrædd yfirlitsmynd nái aðeins til lóðarinnar að Bæjargili og kærandi sé ekki með nokkru móti skuldbundinn til að haga bílastæðum á sinni lóð í samræmi við uppdráttinn. Jafnframt bendi sveitarfélagið á að aðkoma að stæðum á lóð Gamla bæjar sé ekki frá sameiginlegu svæði, eins og kærandi haldi fram. Sjá megi af umræddri yfirlitsmynd og lóðarblaði Bæjargils frá 4. febrúar 2013 að aðkoma að bílastæðum við Gamla bæ sé yfir lóðina Bæjargil. Það sé því rangt að um sameiginlegt svæði sé að ræða. Leyfishafa sé því heimilt að ráðstafa lóðinni eins og hann kýs, innan þeirra marka sem talist geti eðlilegt, án þess að kærandi hafi neitt um það að segja. Engar kvaðir hvíli á leyfishafa sem skikki hann til að taka sérstakt tillit til bílastæðamála við Gamla bæ við ráðstöfun eignar sinnar. Einnig sé bent á að hin framlagða yfirlitsmynd sýni glögglega að fyrirhugað sé að setja upp nýtt stæði fyrir bíla og rútur austan megin að Bæjargili. Því sé ljóst að umferð ökutækja og ferðamanna fyrir framan Gamla bæ verði ekki með þeim hætti sem lýst sé í kæru og að möguleg áhrif þeirrar umferðar fyrir rekstur í Gamla bæ séu stórkostlega ofmetin hjá kæranda. Ekkert liggi fyrir í málinu sem sýni fram á það að rekstur gistiheimilis muni líða fyrir það að reistur verði legsteinaskáli á lóð leyfishafa.

Vegna kæru á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 28. maí 2019 um að veita hið umrædda byggingarleyfi vísi sveitarfélagið til fyrri umfjöllunar. Einnig sé bent á að hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né lögum nr. 80/2012 um menningarminjar sé kveðið á um að Minjastofnun Íslands þurfi að veita samþykki sitt fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir nýju húsi á svæði sem ekki falli undir lög nr. 80/2012. Ítrekað sé að hafi legsteinar verið fluttir án samþykkis Minjastofnunar falli það atriði ekki undir valdsvið nefndarinnar.

Ekkert komi fram í kærunni hvaða máli það eigi að skipta að umræddur legsteinaskáli sé nær lóðamörkum en 10 m. Engin ákvæði skipulagslaga, skipulagsreglugerðar, mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar mæli fyrir um að óheimilt sé að byggja skálann nær lóðamörkum en 10 m. Eina ákvæði framangreindra laga- og reglugerðabálka sem kveði á um lágmarksfjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum sé gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem segi að í frístundabyggðum skuli ekki byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Þar sem hið kærða byggingarleyfi sé ekki veitt fyrir byggingu innan frístundabyggðar telji sveitarfélagið þetta atriði ekki skipta máli.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að stjórnsýslumeðferð byggingarleyfis­umsóknar hans hafi ekki verið háð neinum annmörkum sem valdið geti ógildingu leyfisins. Byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Einungis hafi borist ein athugasemd á kynningartíma og hafi hún verið frá kæranda. Aðrar athugasemdir hafi ekki borist þrátt fyrir að byggingarleyfisumsóknin hafi sannanlega verið grenndarkynnt fyrir öðrum aðilum. Engu breyti hvort tengsl kunni að vera á milli byggingarleyfishafa og annarra fasteignaeigenda á áhrifasvæði grenndar­kynningar. Framkvæmdir hafi legið alfarið niðri frá úrskurðardegi 6. desember 2018 fram til þess að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út. Fullyrðingum kæranda um annað sé mótmælt sem röngum. Fyrir liggi að fallið hafi verið frá áformum um að byggja safn og sé einungis verið að byggja skála, enda samræmist bygging safns vart gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að pakkhúsið sé hluti af þeim byggingum sem séu á lóðinni og verði að skoðast með öðrum byggingum sem séu til staðar. Varðandi umræddan kærufrest vegna byggingarleyfis hússins þá sé bent á þá niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulagið hafi aldrei tekið gildi. Að sögn starfsmanns Borgarbyggðar hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Fundargerð afgreiðslufundar þar sem byggingarleyfið hafi verið samþykkt finnist ekki á vef sveitarfélagsins og því hafi það aldrei öðlast gildi. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi komið fram að kæranda hafi ekki mátt vera ljóst að framkvæmdir hafi átt sér stað fyrr en 26. júlí 2016. Það sé því ekki hægt að halda því fram að kærufrestur hafi ekki átt að hefjast fyrr en í júlí 2016, en þá hafi framkvæmdir verið kærðar og þess krafist að vinnu við pakkhús yrði hætt tafarlaust. Tekið sé fram að þegar talað sé um legsteina­safn í upphaflegri kæru hafi að sjálfsögðu verið átt við alla framkvæmdina í heild, ekki bara eitt hús.

Í athugasemdum kæranda sem bárust vegna grenndarkynningarinnar hafi Borgarbyggð verið bent á hvers vegna ekki mætti grenndarkynna tillöguna, en m.a. hafi verið vísað til leiðbeiningarblaða og fjölda og stærð bygginga á lóðinni. Því sé mótmælt að nýtt samþykkt byggingarmynstur á lóð Bæjargils sé í samræmi við byggðamynstur á svæðinu. Með nýjustu byggingunni séu komin sex á hús á lóðina, alls um 455 m2 að flatarmáli. Spurt sé hvort leyfilegt sé að byggja ótakmarkaðan fjölda húsa af ýmsum gerðum á lóð ef þau séu ekki skráð sem íbúðarhús. Sex hús á 9.104 m2 svæði með nýtingar­hlutfall 0,05 sé talsvert annar þéttleiki en á öðrum lóðum í nágrenni Bæjargils. Mun færri hús og lægra nýtingarhlutfall sé á aðliggjandi lóðum Húsafells 1, 2 og 3.

Sveitarfélagið hafi ekki skýrt val sitt á þeim sem hafi fengið grenndarkynninguna. Flestir þeirra eigi ekki land sem liggi að Bæjargili. Sveitarfélagið verði að skoða málið með tilliti til jafnræðisreglu og meðalhófs. Sömu aðilar sem hafi fengið grenndarkynningu í tveimur málum varðandi tvær aðliggjandi lóðir séu ýmist sammála því að byggt sé án skipulags á Húsafells­torfunni eða eindregið á móti því.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kærandi máls þessa fer m.a. fram á að aðrir nefndarmenn en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verði fengnir til að fjalla um málið með þeim rökum sem áður greinir. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um þær ástæður sem leiða til þess að starfsmaður eða nefndarmaður sé talinn vanhæfur til meðferðar máls. Þær vanhæfisástæður sem tíundaður eru í 1.-5. tl. 1. mgr. ákvæðisins eiga ekki við um nefndarmenn úrskurðarnefndar­innar. Þá eiga þeir ekki hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og engar aðrar þær aðstæður eru til staðar sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu í skilningi 6. tl. nefnds lagaákvæðis, enda verður nefndarmaður ekki talinn vanhæfur við það eitt að hafa fjallað um sömu deilumál aðila í fyrri úrskurði nefndarinnar. Breytir þar engu þótt málið hafi verið endurupptekið á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis. Þar sem ekki eru lagaskilyrði til þess að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar víki sæti í máli þessu ákveður formaður, líkt og endranær, hvernig nefndin er skipuð í málinu, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um að veita greint byggingarleyfi. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í samræmi við framangreind lagaákvæði var það ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvörðun sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í því máli sem hófst með umsókn leyfis­hafa, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þeim hluta kærunnar verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Umsókn um hið kærða byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn og svör við athuga­semdum kæranda voru send honum með bréfi, dags. 17. maí 2019. Umsókn um hið umrædda byggingarleyfi var síðan samþykkt af byggingarfulltrúa 28. s.m.

Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 felst grenndarkynning í því að skipulags­nefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta, leyfisumsókn. Skal skipulags­nefnd leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar, sbr. gr. 5.9.3. reglugerðarinnar. Verður það ekki talinn annmarki á grenndarkynningu umsóknar leyfishafa að grenndarkynnt hafi verið fyrir fleiri en lóðarhöfum aðliggjandi lóða, enda verður hugtakið nágranni ekki skilgreint svo þröngt. Eftir sem áður er það hlutverk þeirra sem að leyfisveitingu koma að gæta samræmis við skipulag og jafnræðis milli aðila í sambærilegum tilvikum, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað séð en að svo hafi verið gert í þessu máli.

Í 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga til þátttöku í meðferð eða afgreiðslu mála þar sem á, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, gildi ákvæði stjórnsýslulaga sé ekki öðruvísi ákveðið í sveitarstjórnarlögunum. Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga er starfsmaður talinn vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Samkvæmt 54. gr. sveitarstjórnarlaga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans skv. 1. mgr. 55. gr. laganna að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins sam­ræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi. Hann skal sjá um að fundir sveitarstjórnar, byggðaráðs og annarra nefnda sveitarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna. Verður að líta svo á að þáverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, sem var ekki kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, hafi komið að undirbúningi málsins með setu á fundum sveitarstjórnar Borgarbyggðar í málinu með hliðsjón af lögmæltu hlutverki hans samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar 6. desember 2019 um ógildingu byggingarleyfis legsteinasafns lýsti sveitarstjóri því yfir í blaðaviðtali að vinna yrði nýtt byggingarleyfi sem standast myndi kröfur, fara í grenndarkynningu og gefa leyfið út aftur. Þau ummæli gátu verið til þess fallin að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum sveitarstjórnar og gat því ekki með beinum hætti komið að þeim ákvörðunum hennar að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina annars vegar og hins vegar staðfesta bókun sömu nefndar um fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umþrætta byggingarleyfi. Þá má sjá af afritum ræða af fundi sveitarstjórnar 9. maí 2019, þar sem samþykkt var að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi legsteinaskálans, að sveitarstjórinn tók ekki til máls. Að því virtu verður að telja þátt hans í meðferð málsins það lítilfjörlegan að ekki hafi verið hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á á ákvarðanir sveitarstjórnarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna, og því ekki um vanhæfi hans að ræða. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgar­byggðar mun vera kvæntur hönnuði deiliskipulags þess sem úrskurðarnefndin taldi ógilt í úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016. Sá hönnuður telst ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og er því ekki um vanhæfi sviðsstjórans að ræða á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Þá verður heldur ekki séð að þau fjölskyldutengsl leiði til vanhæfis sviðsstjórans á grundvelli annarra vanhæfisreglna stjórnsýslulaga eða sveitarstjórnarlaga.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að þeir formannmarkar hafi verið á meðferð málsins að varði ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Svo sem frá er greint í málavöxtum er forsaga máls þessa nokkur og hafa bæði deiliskipulag og byggingarleyfi vegna umdeildra framkvæmda að Bæjargili verið til umfjöllunar hjá úrskurðar­nefndinni. Deiliskipulag það sem í tvígang hefur ratað til nefndarinnar hefur ekki fengið efnislega skoðun af hálfu hennar, enda var því vísað frá í bæði skiptin. Í fyrra skiptið þar sem kærufrestur var útrunninn og í það seinna þar sem skipulagið hafði ekki tekið gildi. Í nefndu deiliskipulagi var veitt heimild fyrir byggingu sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem meðal annars gæti hýst steinhörpur og önnur listaverk. Fram kom í greinargerð skipulagsins að það samræmdist ekki þeirri stefnu sem fram kæmi í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 en það væri hins vegar í samræmi við þá starfsemi sem þar hefði verið stunduð um árabil. Þar sem deiliskipulagið öðlaðist ekki gildi átti byggingarleyfi það sem til umfjöllunar var í kærumáli nr. 105/2016 ekki stoð í því. Var jafnframt rakið í seinni úrskurði vegna þess máls að hvort sem byggingarleyfið ætti sér stoð í aðalskipulagi eða ekki lægi fyrir að málsmeðferð skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði ekki farið fram. Var byggingarleyfið því ógilt vegna formannmarka og hlaut ekki efnislega athugun af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfi, þó ekki samhljóða, hefur nú verið gefið út að nýju á grundvelli áðurnefndrar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem heimilar að veitt sé byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að á hinu kærða byggingarleyfi séu ekki þeir formannmarkar að ógildingu varði kemur næst til skoðunar hvort skilyrði samkvæmt nefndu ákvæði hafi verið uppfyllt svo veita mætti leyfi að afstaðinni grenndarkynningu.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og samkvæmt því er Bæjargil á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar m.a. átt við þróun landbúnaðar og megináhrifaþætti, helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum, og helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Fjallað er um stakar framkvæmdir í k-lið sömu greinar, þ.e. að eftir því sem við eigi skuli gera grein fyrir og marka stefnu um hvernig farið skuli með stakar skipulags­skyldar framkvæmdir, sem ekki sé talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir, enda sé um að ræða framkvæmdir sem ekki séu taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Gefin eru dæmi og tekið fram að þetta geti einnig átt við um stök frístundahús, stök íbúðarhús og aðra mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur. Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og er landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Af framangreindum ákvæðum verður ráðið að á skilgreindum landbúnaðarsvæðum skuli mannvirki fyrst og fremst tengjast búrekstri en í aðalskipulagi sé heimilt að mæla fyrir um byggingu mannvirkja án tengsla við búrekstur. Í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er í kafla 4.6 að finna stefnumörkun varðandi landbúnaðarsvæði, m.a. heildarfjölda leyfilegra íbúða- og frístundahúsa á lögbýlum. Þá er í kaflanum mælt fyrir um að byggingar sem tengist annarri atvinnustarfsemi séu ekki heimilaðar á landbúnaðarsvæðum ef undanskildar séu byggingar vegna minniháttar verktakastarfsemi út frá bújörðum, vindmylla með hámarks rafafli 25 kW og vatnsaflsvirkjana með rafafli allt að 200 kW, enda sé svæðið ekki á náttúruminjaskrá eða skilgreint sem hverfisverndarsvæði. Hið kærða byggingarleyfi heimilar ekkert þeirra mann­virkja sem í aðalskipulagi eru tilgreind heldur byggingu skála til að varðveita legsteina. Slíkur skáli tengist hvorki búrekstri né fellur undir fyrrgreindar undanþáguheimildir aðalskipulagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðal­skipulags Borgarbyggðar 2010-2022. Verður byggingarleyfið því fellt úr gildi með hliðsjón af kröfu 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um samræmi byggingarleyfis við aðalskipulag, sbr. og ákvæði 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga sem jafnframt áskilja samræmi mannvirkja og notkun þeirra við skipulagsáætlanir svo slíkt leyfi verði veitt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells.

35/2019 Bæjarhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra Fjóluvellir ehf., Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun „sem felur í sér stórbreytta notkun“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. júní 2019.

Málavextir: Kærandi er eigandi blómaverslunar að Bæjarhrauni 26, matshluta 0101. Með umsókn, dags. 11. mars 2019, sótti eigandi matshluta 102 í umræddri fasteign um að breyta innra fyrir­komulagi Bæjarhrauns 26 samkvæmt teikningum, dags. 5. mars s.á. Nánar tiltekið var sótt um að breyta innra fyrirkomulagi þannig að húsnæðið hentaði sem veitingastaður í flokki III. Teikningarnar voru áritaðar og með stimpli Slökkviliðs höfuðborgar­­­svæðisins og Heilbrigðis­eftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingar­fulltrúi samþykkti erindið á afgreiðslu­fundi 3. apríl 2019 í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Sótt var um starfsleyfi fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi, dags. 23. apríl 2019, óskaði Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort umræddur rekstur væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 3. maí s.á. þar sem fram kom að reksturinn væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar.

Í málinu liggur fyrir minnisblað skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. maí 2019. Er þar tekið fram að lóðin  Bæjarhraun 26 sé á landnotkunarsvæði, sem skilgreint sé sem athafnasvæði, merkt AT1, í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Er og m.a. vísað til þess að skipulagslega séu engar forsendur sem mæli gegn því að heimila rekstur veitingahúss að Bæjar­hrauni 26. Byggingarleyfisumsókn um breytingar á innra fyrirkomulagi í eign 0102 hafi verið samþykkt þar sem hún samræmdist viðkomandi skipulagsuppdráttum og uppfyllti skilyrði byggingar­reglugerðar er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rekstur blómaverslunar hafi verið í tæp 40 ár að Bæjarhrauni 26. Í upphafi hafi húsnæði það sem nú sé verið að breyta í vínveitinga-, skemmti- og hljómleikastað fyrir þungarokk verið hannað með rekstur verslunar í sér­hönnuðu blómahúsi í huga. Því hafi kærandi í raun alltaf mátt búast við að fyrirhugaður rekstur yrði aldrei leyfður án samþykkis kæranda. Vísist til 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þar sem fram komi í 4. mgr. ákvæðisins að ef breytt nýting valdi sumum eigendum, einum eða fleiri, sérstökum óþægindum þá geti einn krafist þess að ekki verði af breytingunum. Kærandi hafi bent skipulags­­yfirvöldum á að vilji þau tryggja Íslenska Rokkbarnum framtíðarhúsnæði sé þeim í lófa lagið að kaupa eignarhluta kæranda ásamt byggingarrétti, sem og að greiða blóma­versluninni skaðabætur í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sterk neikvæð afstaða kæranda vegna beiðni um samþykki um rekstrar­leyfi til handa Íslenska Rokkbarnum hafi strax komið fram. Samkvæmt lögum og leiðbeiningum frá byggingar­­­fulltrúa hefði samþykki kæranda þurft að liggja fyrir til að leyfa eða samþykkja rekstur vínveitinga- og hljómleikastaðar. Lífsviðurværi kæranda og grunnur að fjárhagslegri afkomu hans byggist á að viðkvæmur rekstur blómaverslunarinnar verði ekki fyrir tekjumissi, truflunum og öðrum þeim ótal vandamálum og óþægindum sem muni fylgja eða geti fylgt ákvörðun byggingarfulltrúa og bæjarráðs. Hver viti borinn maður geti ekki reiknað með eða fullyrt að þessi rekstur sé það aðlaðandi hann dragi aukin viðskipti til blómaverslunarinnar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um sé að ræða umsókn um breytingu á innréttingu verslunar- og þjónusturýmis á fyrstu hæð. Við töku ákvörðunarinnar hafi legið fyrir þær forsendur að umrætt húsnæði væri staðsett á landnotkunar­svæði sem skilgreint væri sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi Hafnar­fjarðar. Í skilmálum aðalskipulags segi einnig að „í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar er svæðið milli Reykjavíkurvegar, Flatahrauns og Fjarðarhrauns skilgreint sem athafnasvæði, annars vegar fyrir iðnað og hins vegar verslun og þjónustu.“ Sé umrædd stefna um landnotkun í gildandi aðalskipulagi í fullu samræmi við gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sé þar gert ráð fyrir að sá flokkur skuli tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skuli nánar tilgreint í skilmálum. Undir verslun og þjónustu falli skv. c-lið gr. 6.2. meðal annars hótel, gistiheimili, veitingahús og skemmtistaðir. Því sé ljóst að á lóðinni Bæjarhrauni 26 sé meðal annars gert ráð fyrir að þar sé rekin veitinga- og/eða skemmtistaður. Að því virtu hafi byggingarfulltrúi samþykkt umrædda umsókn um breytingu á innra fyrirkomulagi húsnæðisins, enda hafi umsóknin verið í samræmi við gildandi skipulag og hafi uppfyllt skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Hvað varði tilvísun kæranda í væntanlega ákvörðun bæjarráðs þá skuli upplýst að bæjarráð hafi enga ákvörðun tekið í tengslum við breytingar á innra rými eða rekstri að Bæjarhrauni 26. Slík erindi heyri ekki undir bæjarráð. Vegna fullyrðingar kæranda um að „leyfi til rekstrar skemmtistaðarins liggi fyrir“ skuli upplýst að hvorki byggingarfulltrúi né bæjarráð hafi veitt umsögn vegna umsóknar rekstraraðila um nýtt rekstrar­leyfi fyrir veitingastað í flokki III.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar sem hann nýtti sér ekki.

Niðurstaða: Lóðin Bæjarhraun 26 er á ódeiliskipulögðu svæði og er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að innra skipulagi húss á lóðinni verði breytt að hluta á þann veg að húsnæðið henti sem veitingastaður í flokki III.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag hvað landnotkun varðar. Sú undantekning er þó gerð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga að skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndar­kynning ekki farið fram. Þá hefur málið ekki komið til kasta skipulagsnefndar og hún því ekki nýtt sér greinda heimild 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að falla frá grenndarkynningu.

Þar sem hvorki hefur farið fram grenndarkynning né verið fallið frá henni í samræmi við 44. gr. skipulagslaga verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að heimila breytt innra fyrirkomulag hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

125/2018 Lækjargata Suðurgata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Lækjargötu 4, 6 og 8, Hafnarfirði, og eigendur Brekkugötu 5, 7, 8 og 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 28. nóvember 2018.

Málavextir: Í desember árið 2013 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar skipulagsforsögn fyrir lóðina Lækjargötu 2 og var sú forsögn samþykkt í bæjarstjórn Hafnar­fjarðar 17. febrúar 2016. Á grundvelli hennar samþykkti skipulags- og byggingarráð 9. febrúar 2018 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi. Var hún auglýst til kynningar frá 9. maí til 20. júní s.á. og bárust athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum. Skipulags- og byggingarráð fól skipulagsfulltrúa að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir og var hún samþykkt ásamt deiliskipulagstillögunni á fundi ráðsins 10. júlí 2018. Bæjarráð samþykkti tillöguna 12. s.m. Hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun til lögmæltrar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 10. ágúst s.á., að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagstillögunnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þó var farið fram á að nokkur atriði yrðu leiðrétt áður en til birtingar kæmi og sendu bæjaryfirvöld leiðrétt gögn til Skipulagsstofnunar 28. ágúst 2018. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærendur benda á að auglýsing hins umdeilda deiliskipulags hafi ekki verið samþykkt í bæjarstjórn. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. febrúar 2018 hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið samþykkt í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin bókun sé sjáanleg í fundargerðum bæjarins eftir þetta fyrr en í skipulags- og byggingarráði 26. júní s.á. þegar auglýsingarferli hafi verið lokið og byrjað hafi verið að fjalla um athugasemdir. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga skuli deiliskipulags­tillaga lögð fyrir sveitarstjórn að lokinni undirbúningsvinnu og skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga skuli sveitarstjórn samþykkja deiliskipulagstillögu áður en hún sé auglýst. Skipulags- og byggingarráði hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um að auglýsa hina kærðu deiliskipulags­tillögu skv. samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016 og erindisbréfi skipulags- og byggingarráðs, dags. 7. desember 2011. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar sé skipulags- og byggingarráði einungis heimilt að afgreiða mál án staðfestingar bæjarstjórnar á grundvelli erindisbréfs. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins komi fram að afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Lögbundinn grundvöllur málsmeðferðarinnar sé því ekki til staðar í máli þessu og hið kærða deiliskipulag því ógilt.

Skipulagsuppdráttur með greinargerð, sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018, sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Þá liggi ekki fyrir hvernig skipulagsuppdráttur sá sem auglýstur hafi verið líti út en hann sé ekki aðgengilegur á vefsíðu bæjarins og hafi ekki verið í þeim gagnapakka sem kærendur hafi fengið frá bænum þegar óskað hafi verið eftir öllum gögnum málsins. Ósamræmi sem þetta geri samþykkt deiliskipulagsins marklausa.

Mikill flýtir hafi einkennt afgreiðslu deiliskipulagsins í nefndum bæjarins. Athugasemdir hafi verið teknar fyrir í skipulagsráði á nokkrum mínútum án þess að nokkuð tillit væri til þeirra tekið og málið keyrt í gegn í bæjarráði tveimur dögum síðar. Telja verði að svo mikilvægt mál, sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni bæjarins ásamt því að hafa varanleg áhrif til hins verra á ásýnd bæjarins, hefði átt að vera tekið fyrir í bæjarstjórn í stað bæjarráðs. Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé bæjarráði ekki heimilt að fullnaðarafgreiða mál sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélags. Í þessu máli sé vissulega um það að ræða enda sé verðmæti byggingarréttar á þessum stað umtalsvert í ljósi stöðu bæjarsjóðs.

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka deiliskipulagstillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Umfjöllun skipulagsnefndar og bæjarráðs um framkomnar athugasemdir hafi verið nær engin að undanskilinni bókun bæjarfulltrúa í minnihluta í bæjarráði. Umsögn skipulags­fulltrúa hafi verið samþykkt án nokkurrar umræðu. Umsögnin sjálf hafi ekki að geyma viðhlítandi greiningu á athugasemdum. Þeim sé öllum svarað í örfáum línum án nokkurrar tilvísunar til þess að málið hafi verið rannsakað sérstaklega. Ekki verði talið að skipulagsnefnd og bæjarráð hafi fjallað með viðhlítandi hætti um athugasemdir heldur hafi meirihluti í þessum nefndum hunsað þær og samþykkt deiliskipulagstillöguna án þess að vera sérstaklega meðvitaður um efni athugasemda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Stjórnsýslulög gildi um skipulagsákvarðanir enda séu skipulagsmál ekki sérstaklega undanskilin í 1. mgr. 2. gr. laganna. Við vinnslu deiliskipulags fyrir Lækjargötu 2 hafi komið upp fjölmörg álitaefni sem þörf hafi verið að rannsaka áður en ákvörðun yrði tekin. Rannsókn á þessum atriðum hafi aldrei farið fram. Þar beri fyrst að nefna að engin raunveruleg rannsókn hafi farið fram á bílastæðamálum á deiliskipulagssvæðinu og nágrenni þess. Engin rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi þrátt fyrir að alvarlegar athugasemdir þar að lútandi hafi komið fram. Þá hafi engin rannsókn verið framkvæmd á áhrifum deiliskipulagsins á umferðarmagn og umferðaröryggi á svæðinu. Loks hafi húsakönnun ekki verið framkvæmd eins og áskilið sé í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Alvarlegur ágalli sé á málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við athugasemdir Skipulags­stofnunar frá 10. ágúst 2018. Stofnunin hafi ekki bannað auglýsingu skipulagsins heldur krafist úrbóta á því. Gallarnir séu hins vegar svo alvarlegir að stofnunin hefði átt að stöðva gildistöku deiliskipulagsins og leggja fyrir bæinn að vinna það og auglýsa upp á nýtt. Athugasemdir stofnunarinnar hafi verið þær að nýtingarhlutfall lóðar hafi verið rangt svo um munaði, að skilmála um að fella hús að aðliggjandi byggð hafi vantað, að leyfilegur fjöldi íbúða hafi ekki verið tilgreindur, að byggingarreitur og aðkoma að bílakjallara væri óskýr, að kvöð um aðgengi til viðhalds o.fl. hafi vantað og að merkingar bygginga sem ættu að víkja hafi vantað. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu. Þetta sé ófrávíkjanleg regla. Samt sem áður sé ekki hægt að sjá að bréf Skipulagsstofnunar hafi komið til umræðu í nefndum bæjarins. Bærinn hafi farið þá leið að breyta deiliskipulagsuppdrættinum í kyrrþey án aðkomu þar til bærra nefnda. Breyttur uppdráttur hafi síðan verið sendur Skipulagsstofnun og deiliskipulagið að því búnu verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Þetta sé augljóst og alvarlegt brot á ófrávíkjanlegri reglu skipulagslaga. Það miklir gallar hafi verið á deiliskipulaginu að vinna hefði átt það upp á nýtt og auglýsa að nýju eftir að búið væri að gera breytingar á því í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða og þar með talið sé að auglýsa það að nýju. Í deiliskipulagið, sem upphaflega hafi verið auglýst, hafi vantað grundvallarupplýsingar. Þetta kippi grundvellinum undan kynningarferli skipulagsins. Óskýrleiki þess hafi verið slíkur að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta upplýsta afstöðu til allra þátta skipulagsins. Þar sé íbúðafjöldi t.d. mjög mikilvægur með tilliti til umferðarmagns og bílastæðamála. Það blasi því við að auglýsingarferli skipulagsins hafi verið svo meingallað að það hefði þurft að endurtaka málsmeðferðina þegar endurgerð skipulagsgögn hafi legið fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn að taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur,  fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Í aðdraganda hins kærða deiliskipulags hafi verið gerðar nokkrar skipulagsforsagnir þar sem markmiðum og tilhögun verkefnisins hafi verið lýst. Í öllum þessum forsögnum hafi verið atriði sem hafi verið algjörlega sniðgengin í deiliskipulaginu sem samþykkt hafi verið. Í skipulagsforsögn 26. maí 2008 komi m.a. fram að markmið sé að endurskapa það yfirbragð byggðar sem verið hafði á reitnum áður en Dvergshúsið hafi verið byggt. Enn fremur að reynt skuli af fremsta megni að endurskapa byggingarstíl fyrri tíma með hliðsjón af nærliggjandi byggð. Leggja skuli áherslu á að opna sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Í skipulagsforsögn 10. desember 2013 komi fram svipuð sjónarmið. Í skipulagsforsögn sem fylgdi útboðsgögnum í apríl 2017 komi fram að við mótun húsa skuli tekið mið af því að lóðin sé á viðkvæmu svæði í nágrenni við fastmótaða miðbæjarbyggð. Leitast skuli við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu, hvað varði form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð. Almennt skuli ekki byggja hærra en tvær hæðir og lágt ris ofan á þak jarðhæðarinnar. Mikilvægt sé að opna innsýn/útsýn milli húsanna. Í forsögninni sé gert ráð fyrir nýtingarhlutfalli allt að 1,3 skv. lið 5.2 í forsögninni. Ekkert að þessum markmiðum skipulagsforsagnarinnar hafi verið virt þegar gengið hafi verið frá deiliskipulaginu. Stærð og form húsa sé í hróplegu ósamræmi við aðliggjandi byggð, útsýnislínur milli miðbæjar og Hamars séu ekki lengur til staðar og nýtingarhlutfall sé mun hærra en það hafi átt að vera samkvæmt forsögninni eða 1,89. Það sé ljóst að þar sem skipulagsforsagnir eða lýsingar séu lögbundnar skv. 40. gr. skipulagslaga þá eigi að fara eftir þeim við gerð skipulags. Skipulagsforsagnir séu gerðar marklausar ef þær séu sniðgengnar í skipulagsvinnunni og þar með sé brotið gegn 40. gr. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar um lýsingar. Engin merki sjáist um að Hafnarfjarðarbær hafi sinnt þeirri skyldu.

Deiliskipulag skuli byggt á stefnu aðalskipulags skv. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. sömu laga skuli gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Samkvæmt þessum ófrávíkjanlegu lagaákvæðum verði að vera algert samræmi milli aðalskipulags og deiliskipulags. Í tilfelli hins kærða deiliskipulags skorti verulega á þetta lögboðna samræmi. Slíkt ósamræmi eigi að leiða til ógildingar deiliskipulagsins.

Ljóst sé að landnotkun samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi fyrir Lækjargötu 2 sé ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Deiliskipulagið geri ráð fyrir íbúðarhúsnæði að meginstefnu til. Aðeins á jarðhæð meðfram Lækjargötu sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu. Að öðru leyti sé um hreina íbúðarbyggð að ræða. Þannig séu húsin nr. 2a og 2e án nokkurs verslunar- og þjónusturýmis og sama eigi við suðurhluta húsanna nr. 2c og 2d. Meirihluti húsa og byggingarmagns á reitnum sé því í beinni andstöðu við aðalskipulag, sem kveði á um að fyrst og fremst skuli gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu og að allt rými á jarðhæð skuli nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu.

Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar komi fram að gæta skuli að samræmi við eldri byggð í bænum, sérstaklega með hliðsjón af því að mikil menningarleg verðmæti liggi í gömlum húsum í eldri hverfum bæjarins. Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 tryggi ekki nægilega að útlit húsa verði í samræmi við útlit aðliggjandi byggðar, t.d. séu engin ákvæði um ytra byrði húsa, s.s. klæðningar. Þá séu hæstu húsin sem heimiluð séu á reitnum umtalsvert hærri en aðliggjandi byggð, eða allt að 14,8 m há. Aðliggjandi deiliskipulagssvæðinu að Lækjargötu 2 séu tvö svæði þar sem hverfisvernd gildi samkvæmt aðalskipulagi.

Í greinargerð með aðalskipulaginu segi um almenn ákvæði hverfisverndar: Þrátt fyrir að hverfisverndarsvæðin nái ekki inn á lóðina Lækjargötu 2 sé nálægð þeirra við lóðina svo mikil að byggingar á lóðinni geti haft afgerandi áhrif á það yfirbragð sem vernda eigi samkvæmt ákvæðum um hverfisvernd. Því sé nauðsynlegt að byggingar á lóðinni taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Hæð húsa samkvæmt hinu kærða skipulagi sé meiri en hæð nærliggjandi húsa og ekki sé tryggt að ytra byrði sé í samræmi við það sem einkenni aðliggjandi byggð, þ.e. bárujárns- eða panelklæðningar. Þar að auki sé stærð byggingarreita og staðsetning innan lóðar í ósamræmi við umhverfið. Telja verði skylt að taka tillit til hverfisverndar þegar deiliskipulag sé gert fyrir svæði sem liggi á milli tveggja hverfisverndaðra reita. Að öðrum kosti sé verið að sniðganga markmið hverfisverndarákvæða og draga úr gildi verndarinnar.

Samkvæmt aðalskipulaginu skal viðhalda tengslum við sögu og menningararf með verndaráætlunum fyrir mannvirki og fornminjar. Í þessu sambandi veki sérstaka athygli að í stað þess að laga hina nýju byggð að menningarsögulegum verðmætum í nágrenninu sé í hinu kærða deiliskipulagi kveðið á um að breyta skuli friðuðu húsi til þess að samræmast nýju húsunum. Þarna sé um að ræða Góðtemplarahúsið eða Gúttó, sem byggt hafi verið árið 1886 og sé þar að leiðandi friðað skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Deiliskipulagið geri ráð fyrir að gerður verði nýr inngangur í húsið til aðlögunar að nýja skipulaginu. Þetta virðist hafa verið samþykkt án þess að álits Minjastofnunar hafi verið aflað og án tilkynningar til Minjastofnunar skv. 3. mgr. 16. gr. menningarminjalaga. Í stað þess að gæta að lögum og skilmálum aðalskipulags og vernda ásýnd gömlu húsanna í nágrenninu sé friðuðu húsi breytt til að þóknast hugmyndum verktaka sem standi að baki skipulaginu.

Eitt af helstu kennileitum Hafnarfjarðar, Hamarinn, sé beint fyrir ofan deiliskipulagssvæðið, en hann sé friðlýstur. Þess verði að gæta í tengslum við verndun náttúruminja að þær séu sjáanlegar og ekki kaffærðar af nærliggjandi mannvirkjum. Þetta sjónarmið komi fram í gögnum á fyrri stigum undirbúnings, s.s. í greinargerð sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar 1. júní 2008, en þar komi fram að leggja skuli sérstaka áherslu á að skapa opnari sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Sama komi fram í skipulagsforsögn, dags. 26. maí 2008. Með hinu nýja deiliskipulagi sé algjörlega horfið frá þessum markmiðum aðalskipulags og fyrri skipulagsforsagna. Mikið byggingarmagn á lóðinni og háar byggingar meðfram Brekkugötu byrgi sýn að Hamrinum enn meira en gamla Dvergshúsið gerði. Með þessu sé verið að ganga gegn markmiðum aðalskipulagsins.

Við gerð deiliskipulags á svæðum sem umkringd séu eldri byggð verði að gæta að því að spilla ekki heildaryfirbragði byggðar. Þetta sé almenn grundvallarregla í skipulagsmálum og sé sérstaklega tekið fram í aðalskipulagi Hafnarfjarðar hvað varði ásýnd gamalla bæjarhluta. Í hinu kærða deiliskipulagi sé verulega vikið frá því yfirbragði sem almennt sé til staðar í nágrenninu. Í fyrsta lagi sé húsagerð meðfram Brekkugötu ekki í neinu samræmi við þau hús sem fyrir séu. Nýju húsin eigi að vera allt að fjórar hæðir að meðtöldum kjallara og risi. Ekkert nærliggjandi hús sé af þeirri stærð. Í stað þess að hafa samsvarandi hæð á nýju húsunum og öðrum húsum þeim megin við Brekkugötu sé nýja húsalengjan mun hærri. Hæð byggðarinnar sé ekki látin fylgja landslaginu, sem felist í nokkuð brattri brekku í norðurenda Brekkugötu, heldur séu húsin teygð upp í sama hæðarkóta og húsin sem standi á brekkubrúninni, nokkru innar í götunni. Þetta eyðileggi ásýnd og samræmi í götunni algjörlega. Þá verði nýtingarhlutfall lóðarinnar Lækjargötu 2 mun hærra en á lóðunum í kring. Samkvæmt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti, sem gerður hafi verið eftir samþykkt bæjarráðs vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, komi fram að nýtingarhlutfall á lóðinni sé 1,89. Nýtingarhlutfall í nágrenninu sé hins vegar á bilinu 0,18 til 0,89.

Þarna sé augljóslega ekki verið að taka mið af skilyrðum aðalskipulags við samræmi eldri og yngri byggðar og verið sé að raska byggðamynstri, ásýnd hverfisins og götumyndum Brekkugötu, Lækjargötu og Suðurgötu. Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé skylt að leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Ekki verði séð af gögnum málsins að sérstök húsakönnun hafi farið fram í tilefni af deiliskipulagsvinnunni. Meta hefði þurft sérstaklega hús í næsta nágrenni við skipulagsreitinn með það fyrir augum að tryggja samræmt svipmót hverfisins.

Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 sé stórgallað að því leyti að augljóslega skorti á að fjöldi bílastæða dugi fyrir þá íbúðarbyggð og þjónustu sem verði á skipulagssvæðinu og næsta nágrenni. Ekki hafi verið nægilega rannsakað hvort bílastæði á svæðinu dugi og ef það hafi verið metið á einhvern hátt þá sé það mat rangt. Íbúar á svæðinu hafi notað almenningsbílastæði á baklóð Lækjargötu 2 um áratugaskeið og megi því segja að venjubundinn réttur eða hefð hafi skapað íbúum rétt til bílastæða á lóðinni. Þessi réttur sé nú hrifsaður á brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Gífurleg þörf sé fyrir almenningsbílastæði á svæðinu og fyrir því séu nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi séu húsagöturnar báðum megin við lóðina mjög þröngar og takmarkað hversu mörgum bílum sé hægt að leggja þar. Til dæmis sé ekki hægt að leggja bílum í neðri hluta Brekkugötu vegna þrengsla. Í öðru lagi sé stórt samkomuhús á næstu lóð, þ.e. Suðurgötu 7. Þar séu haldnar allt að þrjár samkomur á dag þar sem saman komi tugir meðlima í AA-samtökunum. Oft sé mjög þröngt á þingi fyrir utan húsið og það geti verið erfitt að aka Suðurgötuna vegna fjölda bifreiða sem lagt sé við húsið. Hluti fundargesta hafi notað stæðið á lóðinni Lækjargötu 2, en þegar það hverfi verði bílastæðavandræði og umferðarteppur óumflýjanlegar. Í þriðja lagi hagi svo til í stórum hluta lóða við Suðurgötu og Brekkugötu að ekki séu bílastæði innan lóðar. Í mörgum tilfellum sé ómögulegt að koma þar fyrir stæðum vegna þrengsla og landhalla og þar að auki hafi skipulagsyfirvöld bannað eigendum að útbúa stæði innan lóða þar sem það sé þó hægt. Í því sambandi megi nefna nýlegt erindi eiganda Brekkugötu 5 um gerð bílastæðis sem tafarlaust hafi verið hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.

Ljóst sé að fyrirkomulag bílastæða samkvæmt  hinu nýja deiliskipulagi brjóti gegn ákvæðum aðalskipulags. Í deiliskipulaginu sé aðeins gert ráð fyrir einu stæði á íbúð. Þó sé ljóst að margar íbúðanna verði yfir 100 m2 og ættu því að fá tvö stæði samkvæmt ákvæðum aðalskipulagsins, en meðalstærð íbúðanna sé a.m.k. 108 m2. Í þessu tilviki sé alls ekki sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni en gangi og gerist heldur þvert á móti og ekki sé hægt að leysa þörfina með öðrum hætti en að bæta við stæðum á deiliskipulagssvæðinu og við útmörk þess. Af þeim sökum sé óheimilt að víkja frá viðmiðum aðalskipulags um fjölda bílastæða. Að auki sé ekki gert ráð fyrir neinum bílastæðum fyrir gesti við húsin eða í húsagötunum, eins og áskilið sé í aðalskipulagi. Það beri einnig að hafa í huga að skv. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. breytingarreglugerð nr. 360/2016, ættu að vera a.m.k. þrjú stæði fyrir hreyfihamlaða miðað við leyfðan íbúðafjölda samkvæmt deiliskipulaginu og skuli slík stæði vera verulega stærri en venjuleg bílastæði. Auk þess verði að gera ráð fyrir 1-2 stæðum fyrir hreyfihamlaða vegna þess verslunarhúsnæðis sem áformað sé. Þegar þessi stæði séu dregin frá því rými sem muni verða í bílageymslunni sé alveg ljóst að það pláss sem afgangs sé dugi ekki til að fullnægja þörfum íbúa Lækjargötu 2. Stæðafjöldi dugi ekki fyrir íbúa húsa á skipulags–reitnum og tekin séu stæði af nágrönnum og gestum þeirra. Nágrannar geti ekki nýtt bílageymsluna á Lækjargötu enda sé hún of lítil til að anna allri eftirspurn á svæðinu og verði þar að auki í einkaeigu og ósennilegt að nágrannar hafi nokkra möguleika á að nýta hana.

Með því að þrengja að innkomu í Brekkugötu, þar sem byggingarreitur sé færður alveg upp að gangstétt og heimiluð sé há bygging á horni Lækjargötu og Brekkugötu, sé Brekkugötu breytt í þröngt skuggasund. Mikill umferðarhraði sé í Lækjargötu og megi gera ráð fyrir að hætta skapist á horninu við Brekkugötu þegar ökumenn beygi af Lækjargötu upp Brekkugötu án þess að hafa útsýni yfir það sem sé handan hornsins. Einnig sé viðbúið að innkeyrsla í bílageymslu við Suðurgötu geti skapað hættu þar sem hún sé mjög nálægt gatnamótum á umferðarþungu svæði. Ekki verði séð að nokkuð mat hafi verið lagt á þessar aðstæður sem verið sé að skapa eða annað sem snúi að umferðaröryggi. Þetta sé í andstöðu við markmið skipulagslaga í a-lið 1. gr., þar sem segi að öryggi skuli hafa að leiðarljósi.

Með hinu nýja deiliskipulagi sé freklega gengið á rétt kærenda hvað varði skuggavarp og útsýni í átt að miðbæ og sjó. Einnig sé gengið á rétt bæjarbúa allra hvað varði útsýni í hina áttina, þ.e.a.s. að Hamrinum og gömlu húsunum í Brekkugötu. Kærendur hafi notið útsýnis að miðbæ og sjó bæði um sjónlínu sem verið hafi yfir baklóð Lækjargötu 2 og að einhverju leyti einnig yfir bygginguna sem áður hafi verið á lóðinni. Sumir kærenda hafi haft stórkostlegt útsýni yfir sjóinn sem sé sérstaklega tilkomumikið við sólsetur. Með því að hækka byggingar á Lækjargötu 2, færa þær nær Brekkugötu og byggja stórt hús þar sem áður hafi verið bílastæði á baklóð sé þetta útsýni tekið frá þeim. Hinar nýju, háu byggingar muni einnig varpa miklum skugga á Brekkugötuna og á eignir kærenda. Með þessu sé verið að rýra verðgildi eigna kærenda og ganga þannig á stjórnarskrárbundinn eignarrétt þeirra. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Í þessu tilviki sé augljóslega engin almenningsþörf sem réttlæti að brotið sé á sjálfsögðum mannréttindum kærenda. Þessi eignaskerðing þjóni aðeins hagsmunum verktaka sem vilji hámarka gróða sinn af verkefninu. Ekki verði séð að rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi eða mat á hagsmunum húseigenda í nágrenninu. Af þeim sökum sé ekkert meðalhóf í þeim tillögum sem samþykktar hafi verið. Framganga sem þessi fari gegn markmiðum skipulagslaga, sem fram komi í 1. gr. laganna, og skortur á rannsókn brjóti gegn 10. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að skipulags- og byggingarráð hafi talið sig hafa umboð til endanlegrar afgreiðslu auglýsingu umræddrar skipulagstillögu, sbr. ákv. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sem útfært sé í 2. mgr. 71. gr. samþykkta sveitarfélagsins og 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins, þar sem fram komi að önnur mál en þau sem sérstaklega séu talin upp í greininni „hljóta að jafnaði fullnaðarafgreiðslu á vettvangi ráðsins nema bæjarstjórn ákveði annað eða lög mæla á annan veg“. Undir „önnur mál“ samkvæmt greininni falli til að mynda ákvörðun um að auglýsa deiliskipulag. Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að slík heimild hafi ekki verið til staðar sé fjarri lagi að umrætt deiliskipulag skuli ógilt af þeirri ástæðu. Fyrir liggi að tillagan hafi verið auglýst og fjölmargar athugasemdir borist sem teknar hafi verið til skoðunar og svarað. Nýtt deiliskipulag hafi að lokum verið samþykkt í skipulags- og byggingarráði sem og í bæjarstjórn. Málsmeðferðin hafi því að öllu leyti verið í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags. Sé ljóst að sú staðreynd að tillagan hafi ekki farið fyrir bæjarstjórn áður en hún hafi verið auglýst til kynningar hafi ekki haft áhrif á síðari meðferð málsins.

Á bæjarstjórnarfundi 20. júní 2018 hafi verið samþykkt tillaga um að bæjarráð annist fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar 2018 standi, frá og með 20. júní til og með 11. ágúst. Í 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga sé fjallað um heimildir bæjarráðs til fullnaðarákvarðana í sumarleyfi bæjarstjórnar. Samkvæmt 8. mgr. 50. gr. samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar segi að á meðan bæjarstjórn sé í sumarleyfi fari bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Á fundi bæjarráðs 12. júlí 2018 hafi bæjarráð því farið með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Það liggi fyrir að ákvörðun um framangreint rammasamkomulag hafi verið afgreidd úr bæjarráði án mótatkvæða. Í framangreindu felist að bæjarráð geti í sumarleyfi sveitarstjórnar tekið ákvarðanir sem varði verulega fjárhag sveitarfélags. Engu að síður sé ljóst að umrædd ákvörðun hafi ekki varðað verulega fjárhag sveitarfélagsins enda hafi verið um að ræða ákvörðun um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar í Hafnarfirði og hafði hún engin áhrif á gildandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Í málinu liggi fyrir að við meðferð þess hafi sveitarfélaginu borist athugasemdir frá aðilum sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta vegna umræddrar breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar. Athugasemdirnar hafi verið teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 26. júní 2018 og hafi skipulagsfulltrúa þá verið falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Umsögnin hafi verið lögð fyrir á fundi ráðsins 9. júlí s.á. þar sem tekið hafi verið undir hana og deiliskipulagið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs. Formleg málsmeðferð hafi því verið lögum samkvæmt í máli þessu.

Í athugasemdum kærenda við umrædda tillögu hafi verið vísað sé til þess að rannsókn hafi ekki farið fram á bílastæðamálum, útsýnisskerðingu, skuggavarpi, umferðarmagni. Öllum þessum atriðum hafi verið svarað í umsögn skipulagsfulltrúa. Af umsögninni megi ráða að farið hafi verið vel yfir framkomnar athugasemdir og þeim svarað á málefnalegan hátt. Einnig verði að geta þess að erindi íbúa vegna bílastæðamála, sem tekið hafi verið fyrir 24. ágúst 2017 í skipulags- og byggingarráði, hafi sérstaklega verið tekið til umfjöllunar í ráðinu og haft til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar. Varðandi fullyrðingar kærenda um að gera hefði átt húsakönnun við meðferð tillögunnar sé áréttað að bæði skipulagslög og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 geri ráð fyrir að ekki sé skylt að framkvæma hana vegna breytinga á deiliskipulagi. Einnig þurfi að huga að því að umrædd deiliskipulagsbreyting varði eina lóð en ekki tiltekið svæði eða hverfi. Á lóðinni hafi að auki verið búið að rífa eina húsið sem þar hafi staðið og því engin byggð á þeirri lóð sem deiliskipulagstillagan hafi tekið til. Hafi því engar forsendur verið til að framkvæma húsakönnun á umræddri lóð.

Fyrir liggi að deiliskipulagið hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 10. ágúst 2018, komi fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Stofnunin hafi hins vegar óskað eftir því að áður en til þess kæmi yrði henni send lagfærð gögn í samræmi við nánari ábendingar sem fram hafi komið í bréfinu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi því ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir lagfæringu tiltekinna gagna. Sveitarfélaginu hafi því ekki borið skylda til að fara með þegar samþykkt deiliskipulag aftur fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Sé því mótmælt sem haldið sé fram í kæru að kynningarferli skipulagsins hafi verið það óskýrt að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta sér upplýsta afstöðu til málsins. Augljóst sé að ábendingar Skipulagsstofnunar séu þess eðlis að þær hafi engin áhrif haft á kynningarferli deiliskipulagstillögunnar enda hafði það verið niðurstaða stofnunarinnar að hún gerði engar athugasemdir við að tillagan yrði auglýst.

Lækjargata 2 hafi verið byggð 1965. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 22. mars 2017 hafi erindi Hafnarfjarðarkaupstaðar um að rífa húsið verið samþykkt í samræmi við samþykkt bæjarráðs. Í gildandi skilmálum deiliskipulags svæðisins frá árinu 2001 segi að heildarbyggingarmagn megi vera allt að 2.505 m2 og að nýtingarhlutfall geti orðið allt að 1,44. Sú leið hafi verið farin að rífa núverandi mannvirki og vinna nýtt deiliskipulag. Nýtingarhlutfall í hinu kærða deiliskipulagi sé sambærilegt við heimildir eldra deiliskipulags, eða 1,43 án bílakjallara. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 sé síðan lagt til að bílageymslur verði byggðar neðanjarðar.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir  allt að 2.500 m2 byggingarmagni sem eigi að hýsa íbúðir eða verslunarrými. Byggja megi bílakjallara sem geti orðið allt að 800 m2. Ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóð. Gera skuli ráð fyrir að eitt bílastæði hið minnsta fylgi hverri íbúð og að gert sé ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- eða þjónusturýmis. Þetta séu þær forsendur sem skilmálar deiliskipulagsins setji og hönnuðir hafi sem grunn til lausnar á fyrirkomulagi bílastæða við endanlega hönnun mannvirkja á lóðinni. Í tilvísun kærenda til kafla aðalskipulags sé litið fram hjá eftirfarandi setningu: „Sérstakar reglur gildi fyrir miðbæjarsvæði. Þar sem sýnt er að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, er heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Aðrar lausnir séu því heimilar en stæði á lóð og sé slíku fyrir að fara í þessu deiliskipulagi. Í byggingarreglugerð segi m.a. í gr. 4.3.1 að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirki. Sérstaklega skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra, þegar við eigi. Deiliskipulagið nái til Lækjargötu 2, Suðurgötu 7 og opins svæðis sem liggi austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2001 sé gert ráð fyrir 11 bílastæðum á lóð Lækjargötu 2 og 21 bílastæði á baklóð Suðurgötu 7. Í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum á baklóð Suðurgötu 7, heldur muni sú lóð nýtt sem opinn garður fyrir almenning eða torg. Horfið hafi verið frá byggingaráformum og stækkun bílakjallara á þeirri lóð, m.a. að teknu tilliti til skriflegra athugasemda frá íbúum í næsta nágrenni og sterkra sjónarmiða um þörf á grænum svæðum til útivistar, sem m.a. hafi komið fram á kynningarfundum þar sem deiliskipulagið hafi verið til umfjöllunar. Almennt skuli bílastæðaþörf viðkomandi mannvirkja leyst innan lóðarmarka. Fjöldi fari eftir skilmálum. Í deiliskipulagi Lækjargötu 2 sé gert ráð fyrir bílakjallara allt að 800 m2. Almennt megi reikna með að rýmisþörf hvers bílastæðis í kjallara sé um 25 m2. Heildarfjöldi stæða á lóð sé því um 32 bílastæði. Skipting þeirra á milli annars vegar verslunar- og þjónusturýmis og hins vegar íbúða verði því að rúmast innan þeirrar heimildar sem felist í 2.500 m2 heildarbyggingarmagni umfram bílastæðakjallara. Deiliskipulagið nái til ákveðins reits og séu mörk deiliskipulagsins skilgreind. Bílastæðaþörf og skilyrði viðkomandi mannvirkja séu leyst innan lóðar. Ekki sé gert ráð fyrir neinni heimild til stækkunar að Suðurgötu 7. Húsið sé samþykkt á sínum tíma án bílastæða. Bílastæði til almennra nota sé að finna í næsta nágrenni og rétt sé að vekja athygli á því að rúmlega 250 bílastæði séu opin almenningi án greiðslu í minna en 400 m fjarlægð frá aðliggjandi íbúabyggð við Suðurgötu og Brekkugötu. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 segi: „Á verslunar- og þjónustusvæði miðbæjarins, reitum 1, 2, 3 og 4 og á reit 5 þar sem hús hafa aðkomu frá Strandgötu eru öll opinber bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild. Það þýðir að einstakt hús eða húsasamstæða getur ekki gert tilkall til sérstakra bílastæða við húshlið, en hefur hins vegar rétt til að nota hvaða stæði sem er á svæðinu.“ Af þessu megi vera ljóst að tilkall íbúa í næsta nágrenni til bílastæða á lóð Lækjargötu 2 eða baklóð Suðurgötu 7 eigi sér hvorki stoð í deiliskipulagi frá 2001 né því sem nú sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Samanburður á útlínum nýrra húsa á lóðinni Lækjargötu 2 leiði í ljós að nýbyggingar séu almennt færðar fjær gatnamótum. Hús við gatnamót Brekkugötu og Lækjargötu sé með svo kölluðum hornskurði, sem sé til þess gerður að auka sjónarhorn við gatnamót og eigi sér jafnframt sögulega skírskotun til upphafs þéttbýlismyndunar á Íslandi. Þessu til viðbótar hafi verið unnið minnisblað fyrir Hafnarfjarðarbæ er varði umferð vegna breytinga á skipulagi við Suðurgötu. Ein af forsendum þessa minnisblaðs hafi verið fyrirhuguð uppbygging lóðarinnar við Lækjargötu 2. Niðurstaða umferðarskoðunar hafi verið að þjónustugráða gatnamóta verði í A-flokki. Því megi segja að markmið a-liðar 1. gr. skipulagslaga um öryggi sé haft að leiðarljósi.

Við þéttbýlismyndun á Íslandi hafi orðið til skipulagsleg viðmið sem oftar en ekki hafi verið af dönskum uppruna, sem í upphafi hafi stýrt byggðarþróun. Megi þar nefna þætti eins og efnisval, eldvarnir, hreinlætis- og heilbrigðismál, birtu o.fl. Útsýni sé kostur en ekki skilyrði í byggðaþróun. Þau sjónarmið og fullyrðingar sem fram komi í kæru um „stórkostlegt útsýni yfir sjóinn o.s.frv.“ verði að skoða í ljósi eftirfarandi staðreynda: Ný mannvirki séu lægri en það hús sem fyrir hafi verið. Bil séu á milli einstakra byggingarhluta sem opni sjónlínur í átt að miðbæ og hafi. Fyrir niðurrif hafi verið samfelldur, beinn veggur sem hafi teygt sig lóðrétt upp fyrir mænishæð á nýbyggingum. Nýbyggingar beri allar portbyggt söðulþak, sem þýði að hæð á lóðréttum veggjum þeirra í götulínu sé talsvert lægri en sá þverhnípti 2-3 hæða steypti veggur sem þar hafi verið og hafi mátt standa áfram samkvæmt deiliskipulaginu frá 2001. Í kynningargögnum með hinu auglýsta deiliskipulagi og gögnum, sem lögð hafi verið fram á tveimur kynningarfundum, hafi verið athuganir á skuggavarpi. Ljóst sé af þeim athugunum að skuggavarp af byggð samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé minna á svo til allt nánasta umhverfi en skuggavarp af Dvergnum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur andmæla fullyrðingu bæjarins um að skipulags- og byggingaráð hafi haft umboð til fullnaðarafgreiðslu deiliskipulagstillögunnar áður en hún fór í kynningu á grundvelli 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins. Það sé augljóst að þetta ákvæði gangi ekki framar skýru og afdráttarlausu ákvæði í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins, þar sem segi að afgreiðslum samkvæmt skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Það hljóti að leiða til ógildingar þegar brotið sé gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga án þess að til staðar sé nokkur heimild til afbrigða. Þá verði einnig að hafa í huga að lokaafgreiðsla máls hafi farið fram í flýti í bæjarráði og hafi deiliskipulagstillagan því aldrei fengið umfjöllun í bæjarstjórn.

Ekki sé eðlilegt að miða mat á byggðamynstri við þann óskapnað sem hafi verið á lóðinni áður, enda hafi það hús verið byggt löngu eftir að ríkjandi byggðamynstur myndaðist á svæðinu. Flest hús á svæðinu séu lágreist timburhús og mörg þeirra séu um og yfir 100 ára. Það byggðamynstur sem vernda beri samkvæmt almennum sjónarmiðum og aðalskipulagi Hafnarfjarðar sé þessi lágreista, gamla byggð og af þeim sökum þurfi að gæta samræmis við hana þegar Lækjargata 2 sé skipulögð að nýju.

Samkomuhúsið að Suðurgötu 7 hafi verið byggt árið 1886 en þá hafi menn komið á hestum á samkomur og eðli máls samkvæmt hafi þá ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum. Samkomuhúsið hafi hins vegar verið rekið alla tíð frá því að bíllinn kom til sögunnar með stóru aðliggjandi bílastæði á baklóð Lækjargötu 2. Þau stæði eigi nú að þurrka út án frekari umhugsunar og velta bílastæðavanda samkomuhússins yfir á almenn stæði í aðliggjandi húsagötum, sem séu nú þegar af mjög skornum skammti. Ef byggt verði á baklóðinni muni verða ómögulegt að fullnægja bílastæðaþörf samkomuhússins.

Óljóst sé að hvaða leyti minnisblað það sem bærinn vísi til um umferðarmál varði það deiliskipulag sem hér sé til umfjöllunar. Í öllu falli sé þetta minnisblað hvergi sjáanlegt í bókunum varðandi afgreiðslu skipulagsins og það hafi ekki verið í þeim gögnum sem bærinn sendi kærendum. Varðandi hugtakið „þjónustustig“ sem vísað sé til í umræddu minnisblaði þá varði það afkastagetu gatnamóta en ekki öryggi. Umrætt minnisblað segi því ekkert um umferðaröryggi.

Þá rangfærslu sé að finna í athugasemdum bæjarins að nýju byggingarnar séu lægri en sú sem fyrir var á lóðinni. Þó að einhverjir punktar séu e.t.v. lægri þá séu hæstu punktar upp við Brekkugötu töluvert hærri en húsið sem fyrir hafi verið og sé það auðséð á uppdrætti. Það séu þessir punktar sem mestu skipti, bæði hvað útsýnisskerðingu og götumynd varði.

Bærinn dragi nú fram mynd af skuggavarpi sem ekki hafi verið sjáanleg í gögnum málsins áður. Sé því þess vegna mótmælt að þetta skjal feli í sér rannsókn sem gerð hafi verið í tengslum við hið kærða skipulag. Ekki verði séð að sú fullyrðing bæjarins sé rétt að skuggavarp sé minna eftir skipulagsbreytinguna, enda sé t.d. augljóst að meira skuggavarp sé af nýju húsi við Brekkugötu heldur en hafi verið af auðri baklóð Lækjargötu 2.

Ekki hafi verið lagt neitt mat á útsýnisskerðingu, en það sé eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt hefði verið að kanna sérstaklega. Ljóst sé að útsýnisskerðing verði mjög veruleg. Þó að einhver bil séu á milli húsa við Lækjargötu sé lítið um opnar sjónlínur í gegnum deiliskipulagssvæðið. Þannig sé sjónlína frá Brekkugötu í átt til sjávar nær alveg blokkeruð af fyrirhuguðum byggingum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd, sem kjörin er af sveitarstjórn, starfa í hverju sveitarfélagi og eru störf skipulagsnefnda lögákveðin. Verður því að telja skipulags- og byggingarráð fastanefnd í skilningi 1. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins  fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt skipulagslögum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Í 40. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016  kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir ráð, nefndir og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem talin eru upp í 1.-5. tölul. A-liðar 39. gr. heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs skv. 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og þau varða ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun og þau víkja ekki frá stefnu bæjarstjórnar.

Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins send ráðuneytinu til staðfestingar. Þá skulu samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf, sem ekki hefur hlotið framangreinda málsmeðferð, getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs var undirritað af bæjarstjóra 7. desember 2011 en það hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fjallað er um verkefni skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar í 71. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ráðið fari með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki nr. 160/2010, lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og umferðarlög nr. 50/1987. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að ráðið geri tillögu til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, sbr. einnig 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, eru afgreiðslur skipulags- og byggingarráðs því tillögur til sveitarstjórnar, mæli lög ekki á annan veg.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skal hún auglýst á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags. Tillagan þarf þó ekki að liggja frammi hjá Skipulagsstofnun á auglýsingatíma hennar. Í 2. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að skipulagsnefnd annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Það er því skipulagsnefnd sem sér um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi en samkvæmt 1. mgr. 41. gr. verður sveitarstjórn þó að samþykkja að auglýsa tillöguna. Fyrir liggur að bæjarstjórn samþykkti ekki að auglýsa tillöguna til kynningar en samþykkti hins vegar deiliskipulagsbreytinguna að lokinni málsmeðferð hennar. Þá komu kærendur og aðrir athugasemdum að á auglýsingartíma tillögunnar. Þrátt fyrir að um annmarka á málsmeðferð hafi verið að ræða bendir ekkert til þess að sá annmarki hafi haft áhrif á andmælarétt eða endanlega afgreiðslu málsins. Annmarkinn þessi er því ekki þess eðlis að hann leiði til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.

Ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. vegna breytingar á deiliskipulagi og getur málsmeðferð bæjaryfirvalda við samantekt upplýsinga um umfang og stefnu skipulagsbreytingarinnar, sem svipar nokkuð til lýsingar skv. 1. mgr. 40. gr., ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga er bæjarráði heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, en á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer bæjarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella. Getur bæjarráð því á sumarleyfistíma bæjarstjórnar tekið ákvarðanir sem varða verulega fjárhag sveitarfélags. Var ákvörðun bæjarstjórnar á fundi 20. júní 2018, um að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stæði frá og með 20. júní til og með 11. ágúst 2018, lögum samkvæmt.

Sveitarstjórn skal taka skipulagstillögu til umræðu þegar frestur til athugasemda er liðinn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Skipulagsfulltrúa var falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni var athugasemdum svarað og ekki var talið tilefni til að endurskoða einstök atriði tillögunnar. Skipulags- og byggingarráð samþykkti umsögnina 9. júlí 2018 og bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti afgreiðslu ráðsins á fundi 12. s.m. Afgreiðsla bæjaryfirvalda var því í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun hinn 13. júlí 2018 til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Samkvæmt nefndri grein skal Skipulagsstofnun tilkynna sveitarstjórn innan þriggja vikna frá móttöku deiliskipulagsins telji hún að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi. Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form skipulagsins. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. ágúst s.á., var ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfinu var þó tekið fram að áður en til birtingar kæmi þyrfti að senda stofnuninni lagfærð gögn vegna sjö atriða sem lutu að formi skipulagsuppdráttar. Í athugasemdum við 42. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Skipulagsstofnun var svarað með bréfi, dags. 28. ágúst 2018, þar sem fram kom að deiliskipulagsuppdrátturinn hefði verið lagfærður í samræmi við ábendingar og athugasemdir stofnunarinnar. Ekki verður séð að athugasemdirnar hafi verið ræddar í bæjarstjórn, líkt og áskilið er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir þann annmarka og þá staðreynd að bréf Skipulagsstofnunar til bæjaryfirvalda barst fáeinum dögum að liðnum þeim þriggja vikna fresti sem tiltekinn er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þykir það ekki eiga að leiða til ógildingar umdeildrar ákvörðunar þar sem lagfæringar voru allt að einu gerðar á framsetningu skipulagsuppdráttar í samræmi við tilmæli stofnunarinnar.

Kærendur benda á að sá skipulagsuppdráttur sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018 sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Líkt og að framan greinir eru ályktanir skipulags- og byggingarráðs tillögur til sveitarstjórnar sem eðli máls samkvæmt er ekki bundin af afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs. Í fjölmörgum ákvæðum skipulagslaga er gert ráð fyrir að skipulagstillaga taki breytingum í skipulagsferlinu, en skv. 4. mgr. 41. gr. laganna segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. Þær breytingar sem hér um ræðir voru smávægilegar og því þurftu bæjaryfirvöld ekki að auglýsa tillöguna að nýju.

Við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ekki þörf á að gera húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt ákvæðinu ber að gera húsakönnun þegar deiliskipulag er unnið í þegar byggðu hverfi. Ákvæði þetta á ekki við um breytingu á deiliskipulagi. Í gögnum málsins er að finna nokkuð ítarleg gögn um önnur atriði sem kærendur telja að hafi ekki verið rannsökuð, þ.e. bílastæðamál, skuggavarp, útsýnisskerðing og umferðarmál. Þessum athugasemdum var að auki svarað í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir. Liggur því ekki fyrir að rannsókn máls hafi verið ábótavant í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024 er hið umdeilda svæði á miðsvæði M1. Í almennum ákvæðum aðalskipulagsins um miðsvæði kemur fram að á „miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóna heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.“ Í kafla um miðbæ Hafnarfjarðar M1 kemur fram að „[a]llt rými á jarðhæð í miðbænum verði nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en stefnt skuli að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna.“ Lóðin nr. 2 við Lækjargötu var fyrir deiliskipulagsbreytinguna skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð en eftir breytingu sem íbúðar- og atvinnulóð með verslun/þjónustu á jarðhæðum sem snúa að Lækjargötu. Í deiliskipulagsbreytingunni er ekki fjallað um hvernig nýtingu jarðhæða sem snúa að Suðurgötu og Brekkugötu skuli háttað en tekið er fram að skilmálar deiliskipulagsins Hafnarfjörður miðbær, sem öðlaðist gildi 19. október 2001, gildi að öðru leyti. Í deiliskipulaginu er ekki minnst á hvaða starfsemi skuli vera á jarðhæð þeirra húsa sem snúa að Suðurgötu eða Brekkugötu. Þrátt fyrir að í deiliskipulagsbreytingunni sé ekki tekin afstaða til notkunar jarðhæða er ekki hægt að fallast á að slíkt fari í bága við aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, en ákvæði aðalskipulagsins eru bindandi við veitingu byggingarleyfis, ef til þess kemur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. skipulagslaga er hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. Nánar er fjallað um hverfisvernd í 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd. Húsaröðin Suðurgata 7-25, austan götunnar, nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar og er á hverfisverndarsvæði Hve7. Samkvæmt hverfisverndarákvæðum má ekki „breyta útliti eða formi húsa frá upprunalegu útliti og formi þeirra. Þar sem viðbyggingar eru leyfðar samkvæmt deiliskipulagi skulu þær vera í samræmi við húsið og götumyndina í heild sinni.“ Á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin tekur til eru þrjár lóðir. Tvær þeirra eru utan hverfisverndarsvæðisins, þ.e. Lækjargata 2 og bæjarlóð austan við Suðurgötu 7. Lóðin Suðurgata 7 er hins vegar innan hverfisverndarsvæðisins. Samkvæmt breyttum skilmálum sem í skipulagsbreytingunni fólst verður heimilt „að setja glugga og dyr á austurhlið hússins, að fengnu leyfi Minjastofnunar, til að auka möguleika á samnýtingu bæjarlóðar austan við húsið.“ Þrátt fyrir að einungis sé um heimild að ræða, að fengnu leyfi Minjastofnunar, verður ekki litið fram hjá því að hverfisverndarákvæði aðalskipulagsins er afdráttarlaust um að ekki megi breyta útliti húsa frá upprunalegu útliti þeirra. Í ljósi þess verður að telja að ofangreind heimild deiliskipulagsbreytingarinnar gangi gegn aðalskipulagi, sem er rétthærra deiliskipulagi skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því ekki hjá því komist að fella þann hluta deiliskipulagsbreytingarinnar úr gildi sem snýr að heimild til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins Suðurgötu 7.

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024segir að það sé stefna bæjarstjórnar að stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Vernda beri það sem sérstakt sé eða hafi sérstakt verndargildi í náttúru Hafnarfjarðar, svo sem sérstaka náttúru, landslagsheildir, víðerni, náttúrulegar fjörur í bæjarlandinu, og gera þau aðgengileg bæjarbúum. Hamarinn, sem er austan við Brekkugötu, var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Um hann segir í aðalskipulagi að Hamarinn setji mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og njóti vinsælda sem útivistarsvæði. Á honum séu jökulrispaðar klappir og honum tengist sögur um álfa og huldufólk. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hróflar ekki að neinu leyti við þeim atriðum sem njóta verndar og tengjast Hamrinum.

Með deiliskipulagsbreytingunni hækkar nýtingarhlutfall á lóðinni Lækjargötu 2 úr 1,44 í 1,89. Kærendur hafa bent á að nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða sé á bilinu 0,18 til 0,48. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fer sveitarstjórn með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti.  Engin ákvæði eru í gildandi aðalskipulagi sem takmarka nýtingarhlutfall á hinu umdeilda svæði. Þá kemur sérstaklega fram í deiliskipulagsbreytingunni að efnisval nýbygginga skuli falla sem best að aðliggjandi húsum. Ekki verður því fallist á að verulega sé vikið frá því yfirbragði byggðar sem fyrir var.

Um bifreiðastæði segir í aðalskipulaginu: „Bifreiðastæðaþörf bygginga skal almennt vera leyst innan lóða. Sett eru lágmarksákvæði varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Sérstakar reglur gilda fyrir miðbæjarsvæði og er þar gert ráð fyrir að ef sýnt sé að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, sé heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi hverfur 31 bílastæði af lóðum Lækjargötu 2 og bæjarlóðinni austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt nýjum skilmálum fyrir Lækjargötu 2 er heimilt byggingarmagn á lóðinni 3.300 m2 með bílageymslu, en 2.500 m2 án hennar. Einnig kemur fram að í bílageymslu skuli vera að lágmarki eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Í máli þessu er ekki um að ræða skipulag nýs hverfis heldur breytingu á deiliskipulagi í þegar grónu hverfi. Ákvæði aðalskipulagsins um að í skipulagi nýrra hverfa þurfi að vera eitt eða tvö stæði við hverja íbúð eiga því ekki við í máli þessu. Þær sérstöku reglur sem fram koma í aðalskipulaginu um bifreiðastæði fyrir miðbæjarsvæði eiga hins vegar við. Ljóst er að leitast er við að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar með bílakjallara á lóð Lækjargötu 2. Deiliskipulagsbreytingin er því ekki andstæð aðalskipulagi hvað þetta varðar og getur meintur afnotaréttur nágranna á bílastæðum sem þar voru samkvæmt eldra skipulagi engu um það breytt.

Með vísan til þess sem að framan greinir liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða  efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar aðrir en þeir sem áður hefur verið lýst vegna heimildar  til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felldir eru úr gildi breyttir skilmálar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7 um að heimilt sé að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7, að fengnu leyfi Minjastofnunar. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

104,105,106,108 og 110/2019 Skólavörðustígur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Skólavörðustíg 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með fjórum bréfum, dags. 9., 13. og 25. október 2019, er bárust nefndinni 10., 13., 23. og 25. s.m., kæra fimm aðrir eigendur fasteigna að Skólavörðustíg 8 og 10, Reykjavík, sömu ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 105, 106, 108 og 110/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með bréfi, dags. 31. október 2019, fór kærandi í kærumáli nr. 105/2019 fram á að fram­kvæmdir við fyrirhugaða biljarðstofu yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærandans.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 23. júlí 2019 var sótt um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi á annarri hæð hússins að Skólavörðustíg 8 í rými þar sem starfrækt hefði verið hárgreiðslustofa. Í umsókninni kom fram að gert væri þar ráð fyrir fjórum biljarðborðum og spilakössum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. ágúst s.á. var málinu vísað til umsagnar skipulags­fulltrúa og skilaði han umsögn 30. s.m. Í umsögninni kom fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við veitingastað í flokki II í fasteigninni þar sem það samræmdist landnotkun samkvæmt aðalskipulagi og að enginn götuhliðakvóti væri fyrir efri hæðir húsa við Skólavörðustíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. september s.á. var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt. Var veitt leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi fyrir 30 manns, veitingastað í flokki II, tegund F, í rými 03-0201 að Skólavörðustíg 8.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að hið kærða byggingarleyfi, sem feli í sér verulega breytingu á hagnýtingu umrædds húsrýmis, fari gegn gildandi skipulagi. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við eigi, og aðrar skipulags­forsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Áætluð starfsemi samkvæmt fundargerð skipulagsfulltrúa sé veitingastaður í flokki II, þ.e. umfangslítill áfengisveitingastaður þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og kalli ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu. Það liggi hins vegar í augum uppi að staður með vínveitingaleyfi, sem m.a. bjóði upp á aðgang að spilakössum, sé til þess fallinn að valda miklu ónæði í næsta nágrenni og kalli jafnframt á mikið eftirlit og löggæslu. Inngangur að biljarðstofunni sé baka til, þ.e. ekki frá Skólavörðustíg, og sé beint fyrir neðan svalir íbúða í húsinu. Ljóst sé að starfseminni muni fylgja mikið ónæði og óþrifnaður, þ. á m. vegna reykinga, og neyðarútgangur úr billjarðstofunni sé inn á stigagang þar sem hluti kærenda eigi fasteignir. Eigendur næstu fasteigna hafi ekki fengið kynningu á umsókninni, en hvorki hafi farið fram grenndarkynning né annað skipulagsferli. Þó sé það víðtekin venja að hagsmunaaðilum sé kynnt breytt notkun á húsnæði, ekki síst þegar um veitinga- og kaffihús sé að ræða. Auk þess komi fram í aðalskipulagi Reykjavíkur að ekki sé heimilt að reka spilasal og vínveitingastarfsemi í sama rými. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar sé Skólavörðustígur á svæði þar sem í gildi séu takmarkaðar vínveitingaheimildir. Þar megi almennt hafa opið til kl. 23:00 um helgar en lengst til kl. 01:00. Einnig megi heimila þar veitingstaði, kaffihús og krár í flokki I-II. Í gildi sé deiliskipulag fyrir reitinn, en þar sé landnotkun lóðarinnar ekki skilgreind sérstaklega og fari hún því eftir ákvæðum aðalskipulags.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé öll jarðhæðin að Skólavörðustíg 8 skráð sem verslunarhúsnæði en hárgreiðslustofa sé skráð á hluta 2. hæðar, í rými 03-0201. Aðkoma að rýminu sé á bakhlið hússins en gengið sé upp hálfa hæð innan rýmisins og snúi sá hluti á 2. hæð hússins að götu. Umsóknin feli því ekki í sér breytingu á landnotkun á jarðhæð hússins. Samþykkt byggingarfulltrúa feli heldur ekki í sér heimild til að vera með fleiri spilakassa en fjóra í rýminu, en samkvæmt aðalskipulagi sé spilasalur rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir raski eða óþægindum umfram það sem gangi og gerist í þéttri miðborgarbyggð, en það sé að öðru leyti í verkahring Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og eftir atvikum lögregluyfirvalda að sinna eftirliti með veitingastöðum, m.a. vegna hljóðvistar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að Skólavörðustígur 8 sé á svæði M1a í aðalskipulagi þar sem heimiluð sé veitingastarfsemi sem hið kærða leyfi feli í sér. Aðeins sé veitt heimild fyrir fjórum spilakössum og sé starfsemi spilakassa því ekki aðalstarfsemi í húsnæðinu. Gangi starfsemin því ekki gegn aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá sé bent á að í gildandi deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn sé starfsemi á lóðinni ekki skilgreind sérstaklega og því skuli landnotkun vera í samræmi við gildandi aðalskipulag. Umrædd lóð sé í fasteignaskrá skráð sem viðskipta- og þjónustulóð. Fyrirhuguð starfsemi sé innan þeirrar skilgreiningar, en í rými undir starfsemina á annarri hæð húsnæðisins hafi áður verið starfrækt hárgreiðslustofu með aðkomu frá bakhlið hússins. Leyfið feli ekki í sér breytingu á landnotkun jarðhæðar hússins og sé það því í fullu samræmi við heimilaða notkun á lóðinni. Í ljósi framangreinds, sem og venjubundinnar framkvæmdar í sambærilegum málum, hafi ekki verið þörf á sérstakri kynningu til nágranna.

Niðurstaða: Í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.171.2 frá árinu 2002, sem tekur til lóðarinnar Skólavörðustígs 8, en þar er ekki að finna sérstaka skilmála er taka til lóðarinnar. Fer landnotkun hennar því eftir ákvæðum gildandi aðalskipulags.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 8 í skilgreindum miðborgarkjarna M1a. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) kemur fram að veitingastaðir í flokki I, II og III séu almennt heimilir í miðborg og miðsvæði (M) en að takmarkanir varðandi veitingastaði og gististaði séu tilgreindar í skilgreiningum fyrir einstök svæði. Þá er miðborgarsvæði M1a m.a. lýst á eftirfarandi hátt: „Sérstök áhersla er á smásölu­verslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu.“ Í sérstökum ákvæðum um spilasali er kveðið á um að ekki megi heimila rekstur spilasalar og vínveitingastarfsemi í sama rými, en spilasalur er skilgreindur sem rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram. Þá kemur fram í sérstökum ákvæðum um vínveitingahús að takmarkaðar mið­borgarheimildir gildi á umræddu svæði. Á svæðum með takmörkuðum miðborgarheimildum megi almennt heimila veitingastaði, kaffihús og krár í flokki I-II og að opnunartími sé almennt til kl. 23:00 um helgar eða frídaga, en lengst til kl. 01:00.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar rekstur biljarðstofu með vínveitingaleyfi á 2. hæð hússins að Skólavörðustíg 8. Fellur sú notkun undir veitingastað í flokki II, tegund F, skv. 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fer notkunin ekki bága við framangreinda bindandi stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 fyrir svæðið og var því ekki þörf á grenndarkynningu byggingarleyfisins. Þá felur leyfið einnig í sér heimild til að reka spilakassa en þar sem einungis er veitt heimild til reksturs fjögurra spilakassa geta sérstök ákvæði aðalskipulagsins um spilasali ekki átt þar við. Loks verður opnunartími biljarðstofunnar samkvæmt byggingarleyfinu til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 01:00 um helgar, sem er í samræmi við sérstök ákvæði aðalskipulagsins um opnunartíma vínveitingahúsa á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.

152/2018 Miðdalur

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 9. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2018, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 um að synja erindi Miðdals ehf. um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., Vínlandsleið 16, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. nóvember 2018 að synja erindi félagsins um efnistöku í Hrossadal í landi Miðdals. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins og athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 29. janúar og 9. ágúst 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi sótti  um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku, nánar tiltekið grjótnámi, í landi Miðdals sem er í eigu kæranda. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 23. nóvember 2018 var erindi kæranda synjað „þar sem framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi“. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 10. janúar 2019 var erindi kæranda endurupptekið og skipulagsnefnd falið að taka það fyrir að nýju. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar s.á. Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til þess að bæjarstjórn hefði á fundi sínum 3. október 2018 tekið ákvörðun um að ráðast í endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar. Frá þeim tíma hafi beiðnum um breytingu aðalskipulags almennt verið vísað til endurskoðunar aðalskipulagsins. Með hliðsjón af framangreindu samþykkti skipulagsnefnd að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags.

Kærandi byggir á því að rökstuðningur fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda hafi ekki verið fullnægjandi og hafi hvorki stuðst við lögmæt né málefnaleg sjónarmið. Þar sem umsókn og erindi kæranda hafi lotið að því að fá tilgreinda breytingu á aðalskipulagi dugi ekki að halda því fram að erindið hafi ekki samrýmst skipulagi. Beri að taka efnislega afstöðu til erindisins út frá viðurkenndum skipulagssjónarmiðum. Hvers kyns takmarkanir á hagnýtingu eignarréttar verði að styðjast við lagaheimild og þegar stjórnvöldum sé falið að taka matskenndar ákvarðanir verði þau að gera það á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.

Af hálfu bæjaryfirvalda  er vísað til þess að mistök hafi verið gerð og fallist hafi verið á að taka málið til meðferðar að nýju. Upphafleg krafa kæranda um að hin kærða ákvörðun sé felld úr gildi sé því ekki lengur tæk til meðferðar. Með ákvörðun skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 hafi verið brugðist við athugasemdum kæranda sem fram hafi komið í kæru og ný ákvörðun verið tekin sem fullnægi kröfum skipulagslaga nr. 123/2010, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um málsmeðferð og rökstuðning.

Niðurstaða: Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sótti kærandi um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi sínu í Miðdal. Erindi kæranda var synjað af skipulagsnefnd á þeim forsendum að það samrýmdist ekki gildandi aðalskipulagi.  Fallist var á að sú afgreiðsla hefði ekki verið fullnægjandi og var málið endurupptekið. Urðu lyktir þær að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 að vísa erindi kæranda til endurskoðunar aðalskipulags Mosfellsbæjar, en heildarendurskoðun þess stendur nú yfir. Mun erindið því enn vera til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur í ljósi atvika leitað eftir afstöðu kæranda til kæruefnisins, en þær umleitanir hafa ekki borið árangur. Með hliðsjón af því að kæruefnið er ekki lengur fyrir hendi verður kærandi ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

81/2018 Fitjar

Með

Árið 2019, föstudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2018, kæra á beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 þess efnis að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Fitja, Skorradalshreppi, beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 um að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er þess krafist að staðfest verði að máls­meðferð Skorradalshrepps hvað varðar skipulagskröfur vegna „aukahúss á bújörð“ sé óhófleg og að byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi, skipulagsnefnd og hreppsnefnd hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að á grundvelli Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 og skipulagslaga sé eðlilegast að landeigendur sæki um byggingarleyfi þegar um er að ræða „aukahús á bújörð“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. júlí 2018.

Málavextir: Á árinu 2017 áttu kærendur í samskiptum við Skorradalshrepp vegna stofnunar íbúðalóða í landi Fitja. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 12. desember s.á. var tekin fyrir ósk kærenda um gerð deiliskipulags fyrir tvær íbúðalóðir í landi Fitja. Hafnaði nefndin beiðninni þar sem að hún samræmdist ekki stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 en í aðalskipulaginu kom fram að innan annarrar íbúða­lóðarinnar væri skilgreint svæði fyrir verslun og þjónustu. Annar kærandi þessa máls sendi skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var leiðbeininga um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi fyrir aukahúsi í landi Fitja eða hvort óska ætti eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi sem fælist í því að svæði fyrir verslun og þjónustu á Fitjum yrði fellt út. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa 23. s.m. kemur m.a. fram að svo málið verið tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd verði kærandinn að leggja fram óverulega breytingu á aðalskipulagi og samhliða því mætti senda inn deiliskipulags­tillögu íbúðalóðanna.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi í kafla 5.2 um íbúðarsvæði að heimilt sé að reisa þrjú stök íbúðarhús á hverri jörð, óháð búrekstri, án þess að aðalskipulagi sé breytt. Með lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulags­lögum nr. 123/2010 hafi verið gerð breyting á 44. gr. skipulagslaga. Eftir breytinguna segi í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis komi fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar séu til í frumvarpinu sé að sveitarfélög geti veitt leyfi til einstakra framkvæmda, m.a. á svæðum utan þegar byggðra hverfa, án þess að deiliskipuleggja svæðið.

Ekki sé hægt að gera þá kröfu til almennra borgara að þeir þekki lög og reglur til hlítar og því verði stjórnvöld að sinna leiðbeiningarskyldu sinni. Annar kærandi þessa máls hafi í byrjun janúar 2018 haft samband við Skipulagsstofnun til að ræða muninn á breytingu aðalskipulags og óverulegri breytingu aðalskipulags og í kjölfarið talið að lag væri að leggja fram óverulega breytingu aðalskipulags. Þessi kærandi hafi farið með þær upplýsingar á fund skipulagsfulltrúa og formanns skipulagsnefndar 16. janúar s.á. og hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi skyldi senda inn slíka beiðni. Hvorki skipulagsfulltrúi né formaður skipulagsnefndar minntust á að komast mætti hjá skipulagsferli í málinu, þ.e. að sækja mætti um byggingarleyfi fyrir húsinu. Kærandi hafi síðar fengið þær upplýsingar frá öðrum fulltrúa í skipulagsnefnd sveitarfélagsins að ekki þyrfti að fara í neinar skipulags­breytingar þegar um væri að ræða „aukahús á bújörð“.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er frekari framgangur málsins rakinn og er m.a. vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi á fundi sínum 7. júní 2018 talið þörf á lýsingu deiliskipulags. Telja kærendur að falla hefði mátt frá lýsingu deiliskipulags á grundvelli 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga auk þess sem hægt hefði verið að auglýsa deiliskipulagstillögu samhliða óverulegri aðalskipulagsbreytingu.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem fjallað er um efni kæru til nefndarinnar, segi m.a. að í kæru skuli koma fram hvaða ákvörðun það sé sem verið sé að kæra. Efni kærunnar varði ekki tiltekna lokaákvörðun sveitarfélagsins eða skipulagsfulltrúa þess í afmörkuðu stjórnsýslumáli eins og áðurnefnt lagaákvæði kveði á um. Kröfur kærenda lúti allar að því að nefndin staðfesti skilning kærenda sjálfra á því hvað sé óhófleg og/eða eðlileg málsmeðferð og einnig að staðfest verði að nefndir og starfsmenn hreppsins hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu við meðferð umrædds skipulagsmáls. Í málinu sé þannig að mati hreppsins ekki gerð nein krafa um að tilteknar lokaákvarðanir séu felldar úr gildi. Jafnframt segi í 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Það vísi til þess áskilnaðar laganna að til þess að nefndin geti tekið mál til úrskurðar þurfi að kæra tiltekna ákvörðun eða ákvarðanir. Enn fremur sé kæran óskýr og ruglingsleg hvað varðar hin kærðu atriði og geri þannig mun erfiðara að svara þeim atriðum sem fram komi í kærunni. Þar sem engin lokákvörðun sé kærð sé þess krafist að kærunni verði vísað frá.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála efir því sem mælt er fyrir um í lögunum. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sóttu kærendur um gerð deiliskipulags vegna tveggja íbúðalóða í landi Fitja í Skorradalshreppi. Átti annar kærandi í sam­skiptum við starfsmenn sveitarfélagsins vegna málsins. Fór svo að sá kærandi sendi skipulags­fulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var eftir leiðbeiningum um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi eða óska eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi. Í svari skipulagsfulltrúa 23. s.m. er kærendum leiðbeint um að leggja verði fram óverulega breytingu á aðalskipulagi til þess að málið verði tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Með vísan til þessa verður hin kærða beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps ekki talin fela í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2018 Klapparstígur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. september 2019 kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur 2.-4. hæðar Klapparstígs 29 þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags Brynju­reits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 27. júní 2017 var óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi Brynjureits, staðgreinireits 1.172.0, sem afmarkast af Klapparstíg, Hverfisgötu, Laugavegi og Vatnsstíg. Í breytingunum fólst að heimilað yrði að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Óskað var eftir breytingunni fyrir hönd eiganda jarðhæðar hússins. Skipulagsfulltrúi grenndar­kynnti umsótta breytingu fyrir eigendum nærliggjandi húsa og gaf þeim kost á að tjá sig um hana. Breytingartillagan var síðan samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 30. ágúst 2017 en orðalagi um opnunartíma til kl. 23 virka daga og kl. 01 um helgar var fellt út þar sem fyrirhugað var að breyta aðalskipulagi borgarinnar á þann veg að þau skilyrði kæmu þar fram. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 7. september 2017 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. október s.á. Fól skipulagsbreytingin í sér heimild fyrir veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29 í stað rakarastofu. Kærendur máls þessa kærðu þá deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 19. mars 2018. Töldu þeir grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ólöglega þar sem hún hafi ekki náð til eigenda fasteigna í húsinu að Klapparstíg 29 og þannig hafi verið brotið á andmælarétti þeirra.

Skipulagsfulltrúi sendi tilkynningu til kærenda 20. mars 2018 þess efnis að boðað væri til annarrar grenndarkynningar vegna málsins með fresti til athugasemda frá 22. mars 2018 til og með 19. apríl s.á. og sendu kærendur inn athugasemdir innan þess frests. Lagði skipulagsfulltrúi til í umsögn sinni, dags. 27. apríl 2018, að hin grenndarkynnta tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar að Klapparstíg 29 yrði samþykkt án breytinga. Var tillagan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. maí 2018 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á.

Með úrskurði uppkveðnum 29. júní 2018 var fyrra máli kærenda vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða ákvörðun hafði ekki réttarverkan að lögum eftir að hin nýja breyting á deiliskipulagi vegna Klapparstígs 29 tók gildi. Kærendur skutu síðan ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu deiliskipulagsbreytingu vera í andstöðu við sérstök ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um miðbæ Reykjavíkur og atvinnu­starfsemi við Klapparstíg. Finna megi sérstök ákvæði um starfsemi, takmarkanir og frávik frá almennri skilgreiningu landnotkunar varðandi götuhliðar í miðborginni. Ljóst sé að Klappar­stígur, á milli Hverfisgötu og Laugavegs, sé ætlaður smávöruverslun og skuli hlutfall hennar nema að lágmarki 50%. Því sé hin umrædda deiliskipulagsbreyting, sem heimili rekstur veitingastaðar í flokki II, í andstöðu við aðalskipulag. Þegar af þeirri ástæðu sé breytingin ólögmæt, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.1.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í þessu samhengi vísa kærendur einnig til afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 7. janúar 2016, vegna starfsemi Hard Rock Café við Lækjargötu og sambærilegs máls vegna veitingastaðarins NAM á Laugavegi 18b.

Skipulagsbreytingin sé einnig í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ágreiningur málsins snúist m.a. um hvort breyting á rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar eða veitingarekstur með vínveitingaleyfi, feli í sér breytta hagnýtingu séreignar í skilningi 27. gr. fjöleignarhúsalaga en sjónarmiði eigenda jarðhæðar Klapparstígs 29 um að ekki þurfi samþykki meðeigenda fyrir breytingunni séu röng.

Í 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé hvergi gerður áskilnaður um að hin meinta breytta hagnýting verði að snúa að sameign hússins, þvert á móti fjallar ákvæðið um þau tilfelli þegar breyting á hagnýtingu séreignar „frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi“ hefur í för með sér „verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum […]“. Í slíkum tilvikum sé breytingin háð samþykki allra eigenda hússins, jafnvel þótt breytingin varði einungis séreignarhluta eins eiganda hússins. Í almennum athugasemdum um 27. gr. fjöleignarhúsalaga, sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögunum, segi m.a. að „við það [sé] miðað að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra ef breyting er veruleg, sbr. 1. mgr., eða einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta ef hún telst ekki veruleg, sbr. 3. mgr. [Sé] það ótvírætt eðlilegri og réttlátari tilhögun en nú [sé]“.

Fyrir liggi að kærendur hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir veitingahúsa-, skemmtistaða- eða kráarrekstri á jarðhæð húsnæðisins að Klapparstíg 29. Þá sé mjög skýrt með tilliti til laganna og lögskýringargagna að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra eða einfalds meirihluta. Hvorugt sé fyrir hendi í máli þessu þar sem einungis sjálfur eigandi jarðhæðarinnar sé samþykkur breytingum á eigin eignarhluta.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er varð að fjöleignarhúsalögum komi skýrlega fram í almennum athugasemdum um 27. gr. laganna að áhersla sé lögð á að eigendur fái notið eigna sinna í friði og án truflunar. Kærendum þyki ljóst að rekstur kráar muni hafa veruleg áhrif á þá og valda þeim alls kyns ónæði, röskun og óþægindum. Þessi eðlisbreyting á sambýli kærenda ætti ekki að ná fram að ganga án þeirra samþykkis. Í umsögn skrifstofu sviðsstjóra frá 26. júní 2018 komi fram að hin breytta hagnýting séreignar jarðhæðarinnar, þ.e. úr rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar, sé svo veruleg að breyta þyrfti sameign hússins, m.a. lögnum og ytra byrði þess sem jafnframt sé háð samþykki allra kærenda.

Af öllu framangreindu sé ljóst að hin umrædda deiliskipulagsbreyting sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús þar sem hún feli í sér breytingu á annars vegar hagnýtingu séreignar jarð­hæðarinnar og hins vegar sameign hússins án samþykkis kærenda, sbr. m.a. 6.og 8. gr. og 1. og 3. mgr. 27. gr. laganna.

Kærendur telji jafnframt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í andstöðu við skipulagslög, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Reykjavíkurborg hafi metið breytinguna óverulega og því ekki talið ástæðu til málsmeðferðar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur skyldi breytingin grenndarkynnt. Í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga segi að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Kærendum, sem hafi sannarlega mesta hagsmuni af deiliskipulagsbreytingunni, hafi upphaflega ekki fengið tillöguna senda til kynningar í samræmi við lög. Þess í stað hafi Reykjavíkurborg kynnt eigenda nærliggjandi íbúða umrædda breytingu. Í stað þess að viðurkenna að um mistök hafi verið að ræða hafi Reykjavíkurborg haldið því fram að kærendur hefðu ekki lögvarða hagsmuni af breytingunni en boðuðu þá síðar til annarrar grenndarkynningar.

Breytingin á deiliskipulaginu hafi verið veruleg og ljóst að rekstur kráar með a.m.k. opnunar­tíma lengur en til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar muni hafa veruleg áhrif á eigendur og íbúa efri hæða Klapparstígs 29. Í því sambandi sé vísað til þess að verslun hafi verið starfrækt á jarðhæð hússins í áratugi. Véla- og járnvöruverslun hafi starfað í húsinu fram yfir 1970 en undanfarna áratugi hafi verið rekin þar rakarastofa. Rekstur kráar með mjög rúman opnunartíma fæli í sér algjöra eðlisbreytingu frá þeim rekstri til verulegs óhagræðis fyrir kærendur.

Af málsmeðferðinni og samskiptum kærenda við Reykjavíkurborg megi sjá að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu, upplýsingaskyldu og skyldu til að rökstyðja ákvörðun, sbr. 7., 15. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi verið brotið gegn andmælarétti þeirra skv. meginreglum stjórnsýsluréttar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þeim hafi verið haldið utan við afgreiðslu málsins og hafi ekki fengið þau gögn, upplýsingar, rökstuðning eða leiðbeiningar sem þeir leituðu eftir til að gæta hagsmuna sinna.

Einnig er vísað til þess að breytingin á deiliskipulaginu sé ekki í samræmi við tillöguna sem hafi verið grenndarkynnt þar sem í hinni samþykktu breytingu hafi verið felldar út takmarkanir á opnunartíma og virðist sem Reykjavíkurborg undirbúi breytingar á reglum sínum sem miði að því að hann verði enn lengri en kynntur hafi verið í grenndarkynningunni.

Að lokum byggja kærendur á því að undirbúningur og rannsókn málsins hafi verið í andstöðu við skipulagslög og meginreglur stjórnsýslulaga. Í því sambandi sé vísað til þess að ekki hafi verið rannsakað hvort breytingin teldist óveruleg breyting á deiliskipulagi. Í grenndar­kynningunni hafi ekki verið að finna rökstuðning fyrir málsmeðferðinni líkt og gr. 5.9.2.  skipulagsreglugerðar kveði á um. Ekki hafi verið rannsakað hvaða áhrif breytingin hefði á nærliggjandi umhverfi, hljóðvist, íbúðarbyggð og þá atvinnustarfsemi sem fram fari við götuna. Þá hafi ekki verið rannsakað hvort breytingin hafi verið í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulags Reykjavíkurborgar sé umrætt húsnæði á skilgreindu hliðar­verslunarsvæði 16 þar sem gert sé ráð fyrir 50% smásöluverslun að lágmarki á jarðhæðum húsa innan götusvæðisins. Í dag sé hlutfall smásöluverslunar 20% og hafi verið það síðan að starfsemiskvóti hafi verið settur á svæðinu með gildistöku aðalskipulagsins í febrúar 2014.

Áður hafi verið rekin rakarastofa á jarðhæð við Klapparstíg 29, sem flokkist undir „skrifstofur og fagleg þjónusta“, en ekki „smásöluverslun“. Það myndi því ekki hafa áhrif á starfsemiskvóta fyrir smávöruverslun á götuhliðum jarðhæða á svæðinu ef húsnæðinu yrði breytt úr rakarastofu í veitingastað, þ.e. hlutfall smásöluverslunar myndi haldast í 20% en ekki fara minnkandi. Frá því að starfsemiskvótar á götusvæðum í miðborg Reykjavíkurborgar tóku gildi um og upp úr aldamótum hafi vinnureglan við afgreiðslu á umsóknum um breytingu á starfsemi verið sú að ef starfsemi falli ekki undir smásöluverslun eða matvöruverslun þá hafi ekki verið gerð athugasemd við breytingu á starfseminni þrátt fyrir að smásöluverslun sé undir starfsemiskvóta á tilteknu götusvæði ef smásöluverslun minnki ekki.

Sú breyting á hagnýtingu, þ.e. að reka veitingastað í stað rakarastofu, sé ekki þess háttar breyting á hagnýtingu sem ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga taki til. Ljóst sé að samkvæmt gildandi skipulagi fyrir það svæði þar sem umrædd húseign standi sé heimilt að reka veitingahús. Þegar hagnýtingu séreignar sé hliðrað með þessum hætti úr þjónustu í veitingarekstur telji borgaryfirvöld að einkum hljóti að reyna á hvort aðili sem um slíkt sæki uppfylli fagleg skilyrði laga til að mega reka veitingahús á viðkomandi stað og hvort slíkt sé heimilt vegna gildandi skipulags. Því sé vísað á bug að breytingin sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ekki hafi verið farið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins enda hafi málsmeðferð við deiliskipulagið alfarið verið í samræmi við skipulagslög, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulög. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deili­skipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki sé skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning sé gerð í 2. mgr. 43. gr. að telji sveitar­stjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning. Grenndar­kynning sé því undantekning frá meginreglunni. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærileg ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. skipulags­reglugerðar, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið talin minni háttar breyting á notkun og hafi því verið grenndarkynnt öðrum lóðarhöfum og nágrönnum, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Við afgreiðslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið ákveðið að fella opnunartíma út þar sem opnunartími veitingastaða sé ekki lengur ákvarðaður í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Á þeim forsendum hafi verið gerð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þar sem opnunartími veitingastaða sé ákvarðaður. Í aðalskipulagsbreytingu sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. mars 2018 hafi verið sett almennt viðmið um opnunartíma veitingastaða í flokki II, sem miðist við til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar. Hafi þótt rétt að hafa heimildina í aðalskipulagi fremur en deiliskipulagi.

Lóðin klapparstígur 29 sé skráð sem viðskipta- og þjónustulóð hjá Þjóðskrá Íslands og heimilt sé að stunda þar viðskipti og þjónustu. Óeðlilegt sé að takmarka í deiliskipulagi starfsemi við eina iðngrein líkt og gert hafi verið í eldra skipulagi. Því hafi verið gerð breyting til að opna á þær heimildir sem gildi á svæðinu skv. aðalskipulagi.

Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga.

———-

Eigendum jarðhæðar að Klapparstíg 29 var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri vegna kærumálsins en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að í stað orðalags í skilmálum deili­skipulagsins um að Rakarastofan á Klapparstíg 29 verði á jarðhæð komi heimild til að opna veitingastað í flokki II á jarðhæð hússins á sama stað. Að auki er tekið fram að ekki megi byrgja fyrir glugga í umræddu húsnæði og að ytri byrði hússins haldist óbreytt. Skilmálar skipulagsins haldast að öðru leyti óbreyttir.

Í 19. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er skipulagsáætlun skilgreind sem áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Þar sé gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum sé stefnt og hvernig þær falli að landnotkun á tilteknu svæði. Í 2. mgr. 12. gr. sömu laga er jafnframt kveðið á um að í skipulagsáætlunum sé mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Þar séu sett fram stefnumið um einstaka þætti er varða t.d. íbúðarbyggð og atvinnusvæði. Skv. 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skilgreint sem skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. einnig 6. tl. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér ákvörðun um heimilaða notkun húsnæðis á fyrstu hæð hússins að Klapparstíg 29, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að breyta notkun húss nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Skipulagsáætlanir breyta því ekki hagnýtingu séreignar einar og sér heldur þarf að liggja fyrir byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húsnæðis sem rúmast innan heimilda gildandi skipulags. Í ljósi þess var ekki þörf á að afla samþykkis annarra eigenda fjöleignar­hússins að Klapparstíg 29 skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga við greinda deiliskipulagsbreytingu. Við samþykki byggingarleyfis fyrir breyttri notkun séreignar getur hins vegar eftir atvikum þurft slíkt samþykki, sbr. 10. gr. laga um mannvirki og 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umræddur reitur á miðborgarsvæði M1a. Samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulagsins er Klapparstígur 29 á hliðarverslunargötusvæði 16. Á því svæði er gert ráð fyrir að hlutfall smásöluverslunar sé að lágmarki 50%. Heimildir til annarrar starfsemi en smásöluverslunar geti því ekki verið umfram 50% og forsenda fyrir því að samþykkt sé breytt notkun á jarðhæð sé sú að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við þá götuhlið sem um ræðir. Jafnframt segir í miðborgarkafla aðalskipulagsins að við breytta starfsemi í götu með „götuhliðarstýringu“ skuli stuðlað að því að auka hlutfall virkra götuhliða. Ekki sé heimilt að breyta núverandi atvinnu- og þjónustuhúsnæði á jarðhæðum í íbúðir. Umrædd deiliskipulagsbreyting er innan landnotkunarheimilda aðalskipulags enda er ekki verið að minnka hlut smásöluverslunar á skipulagssvæðinu.

Hina kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn skuli láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er að auki tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almanna­hagsmuni. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að skipulagslögum eru nefnd dæmi um óverulegar deiliskipulagsbreytingar. Í dæmaskyni er nefnt að til óverulegra framkvæmda teljist þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Dæmi þessi eiga það sameiginlegt að hafa óveruleg grenndaráhrif. Við túlkun á heimild sveitarfélaga til að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu ber einnig að hafa í huga að um undantekningarákvæði er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ber því að túlka heimildina þröngt.

Fyrir liggur að umdeild skipulagsbreyting heimilar rekstur veitingastaðar í flokki II með opnunartíma til kl. 23 á virkum dögum og til kl. 01 um helgar í stað rakarastofu sem rekin hafði verið að Klapparstíg 29 um árabil. Rekstur veitingastaða var heimill á skipulagssvæðinu fyrir breytinguna en ástæða hennar mun hafa verið sú að í deiliskipulagi hafi verið kveðið á um að í húsnæðinu væri áfram rekin rakarastofa. Víkur deiliskipulagsbreytingin ekki frá almennt heimilaðri landnotkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi skipulagssvæðisins. Ekki er um fordæmis­gefandi ákvörðun að ræða þar sem á skipulagssvæðinu eru þegar reknir veitingastaðir.

Kærendum var send tilkynning um grenndarkynningu 20. mars 2018. Frestur til að senda inn athugasemdir var frá og með 22. mars til 19. apríl s.á. Sá frestur er fjórar vikur og því í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og var athugasemdum kærenda svarað 27. apríl s.á. í samræmi við 2. málsl. sömu málsgreinar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 2. maí 2018 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á. Framangreind málsmeðferð var því í samræmi við kröfur skipulags­laga. Þó verður ekki séð að rökstuðningur fyrir málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga komi fram í bréfi sem sent var til kærenda, dags. 20. mars 2018, líkt og kveðið er á um í gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar. Slíkur annmarki á málsmeðferð varðar þó ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem kærendur fengu notið andmælaréttar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Rétt þykir að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.

46/2018 Hafravatn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 11. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2018, kæra á ákvörðun Mosfellsbæjar frá 20. febrúar 2018 um að synja umsókn um skiptingu lóðar í tvo hluta og að heimila uppbyggingu á lóðunum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur frístundalóðar í Úlfarsfellslandi, fasteignanúmer 2084959, þá ákvörðun Mosfellsbæjar frá 20. febrúar 2018 að synja umsókn um skiptingu lóðarinnar í tvo hluta og að heimila uppbyggingu á lóðunum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að viðurkenndur verði réttur kærenda til að skipta landi sínu í tvær lóðir og að stærð byggingar á hvorri lóð verði allt að 130 m2 eða að stærð bygginga á lóð þeirra verði allt að 200 m2 á óskiptri lóð. Þess er að auki krafist að ýmis ákvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar verði ógilt. Að lokum er málskostnaðar krafist.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 25. mars 2019.

Málavextir: Kærendur eru eigendur 9.247 m2 frístundarlóðar í Úlfarsfellslandi við norðanvert Hafravatn. Á lóðinni stendur nú 60 m2 sumarbústaður auk bátaskýlis. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, dags. 13. apríl 2016, óskuðu þeir eftir leyfi sveitarfélagsins til að skipta lóð sinni í tvo hluta, sem yrðu u.þ.b. jafn stórir, og að byggja frístundahús á nýrri lóð. Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar hafnaði erindi kærenda 3. maí 2016 með vísan til þess að það væri í ósamræmi við stefnumörkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 11. s.m. Kærendur sendu Mosfellsbæ erindi 10. janúar 2018 þar sem aftur var farið fram á heimild til að skipta umræddri lóð í tvær lóðir og byggja á þeim. Lögmaður Mosfellsbæjar svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. febrúar s.á., þar sem erindinu var synjað.

Málsrök kæranda: Kærendur telja ýmis ákvæði aðalskipulags Mosfellsbæjar ekki standast skipulagslög nr. 123/2010, nánar tiltekið c.- og d.-lið 1. gr. laganna. Þá benda kærendur á að aðalskipulagið brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nýtingarréttur þeirra skerðist vegna brota Mosfellsbæjar á skipulagslögum, eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga. Í ljósi þessara lögbrota sé eðlileg krafa að kærendur fái fullan rétt til jafns við eigendur frístundalanda í öðrum frístundabyggðum sveitarfélagsins til að skipta landi sínu í tvær lóðir og byggja allt að 130 m2 bústað óháð lóðarstærð á hvorri lóð. Það sé einnig eðlileg krafa að viðurkenndur verði réttur kærenda til að byggja allt að 200 m2 hús á óskiptri lóð.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að í kæru sé m.a. krafist ógildingar á ákveðnum þáttum aðalskipulags. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 hafi verið staðfest af Skipulagsstofnun 19. september 2013 og tekið gildi með birtingu auglýsingar í Stjórnartíðindum 3. október s.á. Undirbúningur, gerð og samþykkt núgildandi aðalskipulags hafi verið fullkomlega í samræmi við ákvæði laga nr. 73/1997, líkt og staðfesting þess og auglýsing beri merki um. Bent sé á að samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæti ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri samkvæmt skipulagslögum að staðfesta, ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá sé kærufrestur samkvæmt 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 löngu liðinn, enda hafi hann byrjað að líða á árinu 2013 þegar aðalskipulagið hafi verið staðfest.

Kærendur hafi sent Mosfellsbæ erindi 10. janúar 2018 þar sem farið hafi verið fram á heimild til að skipta landi undir frístundahús við Hafravatn í tvær sjálfstæðar lóðir og byggja á þeim. Sama erindi hafi áður verið synjað á 412. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 3. maí 2016, sem staðfest hafi verið á 671. fundi bæjarstjórnar 11. s.m.

Fyrri ákvörðun varðandi erindi kæranda hafi ekki verið breytt, endurupptekin eða afturkölluð heldur hafi nýju erindi verið svarað með vísan til þess að þegar hefði verið tekin ákvörðun í málinu. Ákvörðun sú sem deilt sé um hafi því verið tekin 3. maí 2016 en ekki 10. janúar 2018, eins og haldið sé fram í kæru. Kærufrestur samkvæmt 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé því liðinn.

Allur rökstuðningur kærenda lúti að efni og forsendum núgildandi aðalskipulags. Engan rökstuðning sé þar að finna í þá átt að ákvörðun í málinu sé röng eða ógildanleg teljist núgildandi aðalskipulag gilt. Mosfellsbær telji aðalskipulagið hafa fullt gildi og að því gættu verði að hafna kröfum kærenda.

Að lokum sé bent á að hvorki sé heimild í skipulagslögum, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála né stjórnsýslulögum til að ákvarða málskostnað í kærumálum sem þessu. Séu því ekki lagaskilyrði til að taka málskostnaðarkröfuna til greina.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur fara fram á að úrskurðarnefndin víki sæti í málinu þar sem nefndin hafi sýnt Mosfellsbæ ólögmætt langlundargeð og velvild með því að láta sveitarfélagið komast upp með að svara ekki kæru innan svarfrests. Þá hafi nefndin ekki orðið við ítrekuðum kröfum kærenda að úrskurða í málinu á grundvelli kærunnar og framkominna gagna þegar frestir Mosfellsbæjar til andmæla hafi verið löngu liðnir. Kærendur geti því ekki treyst því að úrskurðarnefndin líti hlutlaust á málið.

Kærendur fari jafnframt fram á að málið verði úrskurðað á grundvelli kæru og kærugagna, þar sem greinargerð Mosfellsbæjar hafi borist of seint. Það sé grundvallarregla stjórnsýslu og réttarfars að úrskurða eigi eða dæma á grundvelli kæru og kærugagna nema þær séu augljóslega rangar, berist andsvör ekki innan tilskilins frests. Réttur kærenda um hraða, skilvirka og gegnsæja málsmeðferð sé freklega brotinn og sveitarfélagið verði að bera hallann af því, frekar en kærendur. Þá sé því mótmælt að umsókn kærenda 10. janúar 2018 sé hluti af sama máli, þ.e. fyrri umsókn kærenda. Kærendur hafi aflað sér nýrra upplýsinga og gagna og byggi nýju umsóknina á öðrum lagarökum en áður.

Niðurstaða: Kærendur fara fram á að úrskurðarnefndin víki sæti í málinu með þeim rökum að nefndin hafi sýnt Mosfellsbæ ólögmætt langlundargeð og velvild með því að hafa tekið við gögnum frá sveitarfélaginu að liðnum lögmæltum fresti.

Í tilkynningu til kærenda, dags. 16. mars 2018, var upplýst að sökum mikils fjölda óafgreiddra mála hjá nefndinni væri fyrirsjáanlegt að úrskurður í máli þeirra yrði að öllum líkindum ekki kveðinn upp innan árs. Þeim var svo sendur tölvupóstur 13. febrúar 2019 þar sem fram kom að vænta mætti að málið yrði tekið fyrir á öðrum ársfjórðungi ársins 2019. Þá töf sem orðin er á afgreiðslu máls þessa má rekja til nefndra ástæðna.

Mosfellsbæ var tilkynnt um kæru þessa 16. mars 2018 og var veittur 30 daga frestur til að skila til úrskurðarnefndarinnar gögnum og umsögn um málið í samræmi við 5. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2010. Þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir bárust nefndinni ekki gögn málsins fyrr en 25. mars 2019. Þrátt fyrir þann mikla drátt sem varð á afhendingu gagna frá Mosfellsbæ verður að telja, með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að úrskurðarnefndinni beri að hafa við úrlausn málsins hliðsjón af greinargerð og þeim gögnum sem bárust frá sveitarfélaginu. Þess má og geta að kærendur fengu umbeðinn framlengdan frest til að skila viðbótarathugasemdum af sömu ástæðu þar sem framlenging frestsins tafði ekki afgreiðslu málsins, eins og atvikum var háttað.

Af framangreindu verður ekki séð að úrskurðarnefndin eða starfsmenn hennar hafi verið hlutdræg við meðferð kærumáls þessa í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og ekki liggja fyrir þar vanhæfisástæður sem tíundaðar eru í 1.-5. tl. ákvæðisins. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar víki sæti í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta, ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 26. júní 2013, staðfest af Skipulagsstofnun 19. september s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. október s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka nefnt aðalskipulag til endurskoðunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 11. maí 2016 batt enda á stjórnsýslumál það sem hófst með umsókn kærenda 13. apríl s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 18. mars 2018 og var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar þá löngu liðinn. Kærendur sendu erindi til Mosfellsbæjar 10. janúar 2018 þar sem farið var fram á heimild til að skipta landi undir frístundahús við Hafravatn í tvær sjálfstæðar lóðir og byggja á þeim. Lögmaður Mosfellsbæjar svaraði erindinu með bréfi 20. febrúar s.á. og benti á að sama erindi kærenda hefði áður verið synjað af skipulagsnefnd bæjarins og að sú synjun hefði verið staðfest á fundi bæjarstjórnar 11. maí 2016. Ekki væru efni til að breyta, endurupptaka eða afturkalla fyrri ákvörðun. Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Óljóst er af bréfi lögmanns Mosfellsbæjar til kærenda, dags. 20. febrúar 2018, og öðrum gögnum málsins hvort sveitarfélagið leit á erindi kærenda sem nýja beiðni um skiptingu lóðar eða beiðni um endurupptöku á máli því sem lauk með ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 11. maí 2016. Hafi sveitarfélagið talið vafa leika á því hefði verið rétt að fá úr honum skorið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, enda eiga ólík lagaskilyrði við um endurupptöku mála og ný erindi.

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Sveitarstjórn er heimilt að framselja vald til fastanefndar eða einstakra starfsmanna að uppfylltum skilyrðum 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Slíkt framsal skal koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Í 51. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar nr. 238/2014 kemur fram að um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála vísist til 35. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 2. og 3. mgr. þeirrar greinar getur bæjarstjórn heimilað aðilum innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar fullnaðarafgreiðslu erinda í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð. Ekki liggur fyrir að slíkt framsal hafi farið fram vegna afgreiðslu umsókna um skiptingu lóðar samkvæmt 48. gr. skipulagslaga eða að sveitarstjórn hafi tekið umrætt erindi kærenda til afgreiðslu.

Í samræmi við kröfur 4. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga fjallar 6. mgr. 35. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar um endurupptöku mála. Þar er kveðið á um að aðili máls eigi rétt á endurupptöku máls að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni um endurupptöku skuli beint til bæjarráðs. Sé litið á erindi kærenda sem beiðni um endurupptöku er það í höndum bæjarráðs, en ekki lögmanns bæjarins, að taka beiðnina til afgreiðslu samkvæmt skýrum orðum samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar.

Samkvæmt framangreindu liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður slík ákvörðun ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Í ljósi þess að umsókn kærenda um skiptingu lóðar og uppbyggingu á lóðunum hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum þykir rétt að vekja athygli á réttarúrræði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Ekki er fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaðar til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikil fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2018 Dugguvogur

Með

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra fasteignaeigendur 2. hæðar að Dugguvogi 8-10, „úrskurð skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018 um að húsnæðið samræmist ekki skipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé til ógildingar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 á leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2018.

Málavextir: Kærendur sóttu um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. apríl 2018 og var henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem tók umsóknina fyrir 27. s.m. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa var m.a. tekið fram að ekki væri hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi sínum 2. maí 2018 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að teikningar af húsnæðinu við Dugguvog hafi áður verið samþykktar sem íbúðir 11. nóvember 2008. Vísað sé til teikninga af húsnæðinu sem samþykktar hafi verið 14. febrúar 2017, þar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert athugasemdir. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að nota umrætt húsnæði sem íbúðir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Forsaga málsins sé sú að í nóvember 2008 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Umsóknin hafi verið samþykkt með þeim skilyrðum að skráningartafla yrði lagfærð fyrir útgáfu á byggingarleyfi. Fleiri skilyrði hafi legið fyrir, s.s. að gerð skyldi grein fyrir brunahólfum rýmisins bæði lóðrétt og lárétt og að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýst. Framangreind skilyrði hefðu aldrei verið uppfyllt og hefði byggingarleyfið fallið úr gildi ári síðar. Árið 2011 hafi síðan verið sótt um endursamþykkt á íbúðum á annarri hæð, matshluta 02, með vísan til samþykktarinnar frá 2008, ásamt umsókn um leyfi til að innrétta hluta efri hæðar matshluta 02 sem skrifstofur í húsinu. Afgreiðslu þeirrar umsóknar hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í október 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið bætt úr athugasemdum varðandi lagfæringar á skráningartöflu. Einnig hefðu legið fyrir athugasemdir frá forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er lutu að eldvörnum.

Synjun byggingarleyfisumsóknarinnar hafi byggt á umsögn skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018. Í umsögninni segi m.a. að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ37) fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar í borgarhluta 04, Laugardal. Það sé breyting frá eldra aðalskipulagi þar sem lóðin hafi verið á svæði þar sem landnotkun hafi verið takmörkuð við iðnaðar- og athafnasvæði. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóðina, en unnið hafi verið rammaskipulag fyrir Vogabyggð árið 2013, svæði 1-4, en umrætt svæði hafi fengið númerið 3. Fyrir liggi að ganga frá deiliskipulagi fyrir Vogabyggð 3, en þegar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 1 og 2. Rammaskipulag og gildar deiliskipulagsáætlanir fyrir Vogabyggð 1 og 2 geri ráð fyrir að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu. Endanlegur fjöldi íbúða og heildarbyggingarmagn ráðist við vinnslu á deiliskipulagi.

Ekki sé hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð sé á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hafi verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þar af leiðandi skuli skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður hafi verið gert á svæðinu. Til að mynda séu ríkari kröfur gerðar til hljóðvistar innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmála, aðgengis fyrir alla, bílastæða og frágangs.

Niðurstaða: Lóðin Dugguvogur 10 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ52). Þar kemur fram að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi telst Vogabyggð til þróunarsvæðis 52. Þar er gert ráð fyrir íbúðum og skrifstofum, auk verslunar og þjónustu. Áhersla skuli lögð á 3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.

Hin kærða synjun um byggingarleyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog var rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Í þeirri umsögn var niðurstaðan svohljóðandi: „Ekki er hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð er á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hefur verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þ.a.l. skal skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður var gert á svæðinu. T.a.m. eru  ríkari kröfur um hljóðvist innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði, frágang á lóð o.fl.“

Ekki er fallist á að gildandi aðalskipulag hafi girt fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum, enda er beinlínis gert ráð fyrir íbúðum á umræddu svæði eins og áður greinir. Þá liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um að umrætt húsnæði uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis skv. ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s um hljóðvist, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði og til frágangs á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

86/2018 Suðurgerði

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 26. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 86/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 15. maí 2018 um að samþykkja aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A afgreiðslumáta, samskiptameðferð og brot á eignarétti umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar við afgreiðslu aðalskipulags Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, sem samþykkt var í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018. Vísar kærandi nánar til bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem tilkynnt var „afgreiðsla og niðurstaða sveitarfélagsins v/innsend bréf. Athugasemdir og úrvinnsla við auglýst aðalskipulagt Vestmannaeyja 2015-2035.“ Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hið kærða aðalskipulag verði fellt úr gildi að svo miklu leyti sem það brjóti í bága við hagsmuni kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 25. júní 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með afsali, dags. 28. apríl 1971, afsalaði nánar tilgreint dánarbú „afnotarétti sínum að fyrirhugaðri lóð eftir væntanlegu skipulagi Vestmannaeyjakaupstaðar, er verður nr. 9 við Suðurgerði, í Vestmannaeyjum, allrar lóðarinnar eins og skipulag bæjarins segir til um“ til kæranda. Í afsali þessu kemur einnig fram að kærandi eignist með afsalinu túnréttindi úr Gerðistúni og að kæranda sé, afsalsgjafa vegna, heimilt að fá útgefinn lóðarleigusamning til sín frá Vestmannaeyjakaupstað fyrir húslóð. Á fundi byggingarnefndar Vestmannaeyjakaupstaðar 23. maí 1972 dró nefndin í efa að dánarbúið hefði rétt til að selja lóðarréttindi vegna Suðurgerðis 9. Nefndin samþykkti þó að mæla með að bæjarstjóra yrði heimilað að gefa út lóðarleigusamning til kæranda, enda hæfust framkvæmdir innan eins árs. Uppbygging á svæðinu frestaðist hins vegar vegna eldgossins í Vestmannaeyjum sem hófst 23. janúar 1973.

Kærandi sendi bréf til sveitarfélagsins, dags. 28. maí 1979, til að mótmæla fyrirhuguðu deiliskipulagi austurbæjar, þar sem skipulagið færi gegn eignarétti kæranda sem lóðareiganda að Suðurgerði 9. Hinn 8. maí 1985 ítrekaði kærandi með bréfi til bæjarins að hann teldi gengið á rétt sinn. Í fundargerð byggingarnefndar bæjarins frá 23. maí 1985 er tekið fram að hægt sé að fallast á ofangreind sjónarmið kæranda frá 8. maí 1985 þegar svæðið verði tilbúið til úthlutunar. Hinn 14. febrúar 1988 ritaði kærandi bæjarstjórn bréf þar sem sömu sjónarmið komu fram og áður. Kærandi taldi auglýsta deiliskipulagstillögu austurbæjar minnka þá lóð sem hann teldi sig eiga réttindi yfir og óskaði eftir því að hafa forgang á vali lóðar í stað lóðarinnar við Suðurgerði 9. Einnig fór kærandi fram á að mismunur á stærð lóðanna yrði annaðhvort greiddur kæranda eða dreginn frá gatnagerðargjöldum. Sömu athugasemdir komu fram í bréfi kæranda 16. janúar 1990 vegna tillögu að aðalskipulagi Vestmannaeyja 1988-2008.

Þegar aðalskipulag fyrir Vestmannaeyjar 2015-2035 var auglýst gerði kærandi athugasemdir, dags. 5. apríl 2018. Athugasemdir þessar voru sambærilegar athugasemdum við fyrri skipulagsáætlanir á svæðinu. Kærandi gerði þannig „athugasemd við auglýsingu um skipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, þar sem það brýtur í bága við rétt [kæranda] sem eiganda húslóðarinnar Suðurgerði 9 Vestmannaeyjum.“ Við úrvinnslu athugasemda við auglýst aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035, dags. 9. maí 2018, var athugasemd kæranda flokkuð sem „almenn ábending“. Óskaði kærandi eftir skriflegum rökstuðningi við afgreiðslu athugasemdarinnar með tölvupósti 27. maí s.á. Honum var svarað 7. júní s.á. og bent á að lóðin Suðurgerði 9 væri ekki til og hefði ekki verið stofnuð af Vestmannaeyjabæ. Þá vísaði bærinn til þess að í afsali kæranda væri vísað til afnotaréttinda að fyrirhugaðri húslóð en ekki væri um að ræða afsal fyrir lóðaréttindum útgefnum af Vestmannaeyjabæ og að ekki lægju fyrir heimildir afsalsgjafa til þeirra réttinda sem afsöluð voru til kæranda. Að lokum hvatti Vestmannaeyjabær kæranda til að gera nánari grein fyrir réttindum sínum yfir lóðinni. Kærandi svaraði 12. júní s.á. þar sem fram kom saga samskipta kæranda við bæjaryfirvöld á á árunum 1971-1972, sem áður er fjallað um.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035 brjóti í bága við eignarrétt hans þar sem „nýtt skipulag fer inn á lóðarmörk“ hans við Suðurgerði 9. Bendi kærandi á að í stað þess að taka athugasemd sína við aðalskipulagið til afgreiðslu hafi Vestmannaeyjabær flokkað athugasemdina sem almenna ábendingu. Kærandi hafi óskað eftir skriflegu svari við athugasemd sinni en teldi afgreiðslu bæjarins ekki uppfylla þau skilyrði. Hann hafi óskað skriflegs rökstuðnings en einungis fengið þau svör að lóðin sé ekki til og hafi ekki verið stofnuð. Bendi kærandi á að ætlun sín sé einungis að standa vörð um lögmætan eignarrétt sinn, en sveitarfélagið hafi ekki boðið fram neina lausnir í málinu. Hafi kærandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar af þess hálfu.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalli aðalskipulag ekki um eignarréttindi að fasteignum heldur landnotkun, byggðaþróun o.s.frv. Athugasemd kæranda beinist að því að aðalskipulagið hafi með einhverjum hætti áhrif á eignaréttindi hans að umræddri fasteign. Ekki verði þó ráðið af athugasemdum kæranda á hverju sé byggt í því sambandi.

Aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035 geri ráð fyrir að svæði það er kærandi vísar til sem Suðurgerði 9 sé skipulagt sem íbúðabyggð. Hvað framangreint svæði varði sé engin breyting gerð á þeirri landnotkun eða byggðamynstri er ákveðin hefði verið í því aðalskipulagi sem áður hafi gilt. Ekki verði því séð með hvaða hætti núverandi aðalskipulag hafi brotið gegn réttindum kæranda og sé það ekki útskýrt frekar af hans hálfu. Kröfugerð kæranda sé mjög óljós og ekki verði ráðið, hvorki af kærunni né athugasemdum kæranda, að hvaða ákvörðun kæran beinist eða hvaða réttindum kærandi telji að brotið sé gegn og með hvaða hætti. Af þessum sökum sé farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ella beri að hafna kröfum kæranda.

Suðurgerði 9 sé ekki til í núgildandi þinglýsingabókum, enda sé fasteignin ekki með fastanúmer og séu engar heimildir til staðar um stofnun eignarinnar. Sveitarfélagið hafi aldrei gefið út lóðaleigusamning vegna eignarinnar. Lóðin sé þó skipulögð sem íbúðalóð og sé laus til úthlutunar. Umsækjandi gæti þannig fengið úthlutuðum lóðarleigusamningi að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Sveitarfélagið telji samskiptum sínum við kæranda ekki áfátt. Með tölvupósti 7. júní 2018 hafi bærinn leitað eftir frekari upplýsingum frá kæranda um hvað málið snerist og hver réttindi hans væru. Almennt haggi aðalskipulag ekki við eða hafi áhrif á eignarréttindi aðila almennt. Því til viðbótar hafi engin breyting verið gerð á landnotkun eða byggðaskipulagi á því svæði sem athugasemdir kæranda hafi beinst að. Þá verði vart talið að skipulag umrædds svæðis til íbúðabyggðar sé í andstöðu við staðhæfingu kæranda um eignarréttindi að húslóð til íbúðabyggingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. laganna tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Hið kærða aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018, staðfest af Skipulagsstofnun 10. september s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. september s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar. Hið sama á við um hvern þann ágreining sem kann að vera til staðar vegna undirbúnings og málsmeðferð þeirrar ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. Þá skal á það bent að eignarréttarlegur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann undir lögsögu dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.