Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104,105,106,108 og 110/2019 Skólavörðustígur

Árið 2019, fimmtudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Skólavörðustíg 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með fjórum bréfum, dags. 9., 13. og 25. október 2019, er bárust nefndinni 10., 13., 23. og 25. s.m., kæra fimm aðrir eigendur fasteigna að Skólavörðustíg 8 og 10, Reykjavík, sömu ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 105, 106, 108 og 110/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með bréfi, dags. 31. október 2019, fór kærandi í kærumáli nr. 105/2019 fram á að fram­kvæmdir við fyrirhugaða biljarðstofu yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærandans.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 23. júlí 2019 var sótt um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi á annarri hæð hússins að Skólavörðustíg 8 í rými þar sem starfrækt hefði verið hárgreiðslustofa. Í umsókninni kom fram að gert væri þar ráð fyrir fjórum biljarðborðum og spilakössum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. ágúst s.á. var málinu vísað til umsagnar skipulags­fulltrúa og skilaði han umsögn 30. s.m. Í umsögninni kom fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við veitingastað í flokki II í fasteigninni þar sem það samræmdist landnotkun samkvæmt aðalskipulagi og að enginn götuhliðakvóti væri fyrir efri hæðir húsa við Skólavörðustíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. september s.á. var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt. Var veitt leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi fyrir 30 manns, veitingastað í flokki II, tegund F, í rými 03-0201 að Skólavörðustíg 8.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að hið kærða byggingarleyfi, sem feli í sér verulega breytingu á hagnýtingu umrædds húsrýmis, fari gegn gildandi skipulagi. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við eigi, og aðrar skipulags­forsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Áætluð starfsemi samkvæmt fundargerð skipulagsfulltrúa sé veitingastaður í flokki II, þ.e. umfangslítill áfengisveitingastaður þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og kalli ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu. Það liggi hins vegar í augum uppi að staður með vínveitingaleyfi, sem m.a. bjóði upp á aðgang að spilakössum, sé til þess fallinn að valda miklu ónæði í næsta nágrenni og kalli jafnframt á mikið eftirlit og löggæslu. Inngangur að biljarðstofunni sé baka til, þ.e. ekki frá Skólavörðustíg, og sé beint fyrir neðan svalir íbúða í húsinu. Ljóst sé að starfseminni muni fylgja mikið ónæði og óþrifnaður, þ. á m. vegna reykinga, og neyðarútgangur úr billjarðstofunni sé inn á stigagang þar sem hluti kærenda eigi fasteignir. Eigendur næstu fasteigna hafi ekki fengið kynningu á umsókninni, en hvorki hafi farið fram grenndarkynning né annað skipulagsferli. Þó sé það víðtekin venja að hagsmunaaðilum sé kynnt breytt notkun á húsnæði, ekki síst þegar um veitinga- og kaffihús sé að ræða. Auk þess komi fram í aðalskipulagi Reykjavíkur að ekki sé heimilt að reka spilasal og vínveitingastarfsemi í sama rými. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar sé Skólavörðustígur á svæði þar sem í gildi séu takmarkaðar vínveitingaheimildir. Þar megi almennt hafa opið til kl. 23:00 um helgar en lengst til kl. 01:00. Einnig megi heimila þar veitingstaði, kaffihús og krár í flokki I-II. Í gildi sé deiliskipulag fyrir reitinn, en þar sé landnotkun lóðarinnar ekki skilgreind sérstaklega og fari hún því eftir ákvæðum aðalskipulags.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé öll jarðhæðin að Skólavörðustíg 8 skráð sem verslunarhúsnæði en hárgreiðslustofa sé skráð á hluta 2. hæðar, í rými 03-0201. Aðkoma að rýminu sé á bakhlið hússins en gengið sé upp hálfa hæð innan rýmisins og snúi sá hluti á 2. hæð hússins að götu. Umsóknin feli því ekki í sér breytingu á landnotkun á jarðhæð hússins. Samþykkt byggingarfulltrúa feli heldur ekki í sér heimild til að vera með fleiri spilakassa en fjóra í rýminu, en samkvæmt aðalskipulagi sé spilasalur rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir raski eða óþægindum umfram það sem gangi og gerist í þéttri miðborgarbyggð, en það sé að öðru leyti í verkahring Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og eftir atvikum lögregluyfirvalda að sinna eftirliti með veitingastöðum, m.a. vegna hljóðvistar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að Skólavörðustígur 8 sé á svæði M1a í aðalskipulagi þar sem heimiluð sé veitingastarfsemi sem hið kærða leyfi feli í sér. Aðeins sé veitt heimild fyrir fjórum spilakössum og sé starfsemi spilakassa því ekki aðalstarfsemi í húsnæðinu. Gangi starfsemin því ekki gegn aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá sé bent á að í gildandi deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn sé starfsemi á lóðinni ekki skilgreind sérstaklega og því skuli landnotkun vera í samræmi við gildandi aðalskipulag. Umrædd lóð sé í fasteignaskrá skráð sem viðskipta- og þjónustulóð. Fyrirhuguð starfsemi sé innan þeirrar skilgreiningar, en í rými undir starfsemina á annarri hæð húsnæðisins hafi áður verið starfrækt hárgreiðslustofu með aðkomu frá bakhlið hússins. Leyfið feli ekki í sér breytingu á landnotkun jarðhæðar hússins og sé það því í fullu samræmi við heimilaða notkun á lóðinni. Í ljósi framangreinds, sem og venjubundinnar framkvæmdar í sambærilegum málum, hafi ekki verið þörf á sérstakri kynningu til nágranna.

Niðurstaða: Í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.171.2 frá árinu 2002, sem tekur til lóðarinnar Skólavörðustígs 8, en þar er ekki að finna sérstaka skilmála er taka til lóðarinnar. Fer landnotkun hennar því eftir ákvæðum gildandi aðalskipulags.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 8 í skilgreindum miðborgarkjarna M1a. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) kemur fram að veitingastaðir í flokki I, II og III séu almennt heimilir í miðborg og miðsvæði (M) en að takmarkanir varðandi veitingastaði og gististaði séu tilgreindar í skilgreiningum fyrir einstök svæði. Þá er miðborgarsvæði M1a m.a. lýst á eftirfarandi hátt: „Sérstök áhersla er á smásölu­verslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu.“ Í sérstökum ákvæðum um spilasali er kveðið á um að ekki megi heimila rekstur spilasalar og vínveitingastarfsemi í sama rými, en spilasalur er skilgreindur sem rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram. Þá kemur fram í sérstökum ákvæðum um vínveitingahús að takmarkaðar mið­borgarheimildir gildi á umræddu svæði. Á svæðum með takmörkuðum miðborgarheimildum megi almennt heimila veitingastaði, kaffihús og krár í flokki I-II og að opnunartími sé almennt til kl. 23:00 um helgar eða frídaga, en lengst til kl. 01:00.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar rekstur biljarðstofu með vínveitingaleyfi á 2. hæð hússins að Skólavörðustíg 8. Fellur sú notkun undir veitingastað í flokki II, tegund F, skv. 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fer notkunin ekki bága við framangreinda bindandi stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 fyrir svæðið og var því ekki þörf á grenndarkynningu byggingarleyfisins. Þá felur leyfið einnig í sér heimild til að reka spilakassa en þar sem einungis er veitt heimild til reksturs fjögurra spilakassa geta sérstök ákvæði aðalskipulagsins um spilasali ekki átt þar við. Loks verður opnunartími biljarðstofunnar samkvæmt byggingarleyfinu til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 01:00 um helgar, sem er í samræmi við sérstök ákvæði aðalskipulagsins um opnunartíma vínveitingahúsa á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.