Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2018 Brúarvirkjun

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti. Tilkynnt var um veitingu framkvæmdaleyfisins með auglýsingu, m.a. í Lögbirtingablaði, 2. mars 2018. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 8. maí 2018, var synjað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 13. apríl 2018.

Málavextir: Í september 2015 barst Skipulagsstofnun til athugunar tillaga að matsáætlun frá HS Orku hf. um Brúarvirkjun til athugunar. Er um að ræða vatnsaflsvirkjun, rennslisvirkjun, í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, Bláskógabyggð, sem mun verða með uppsett afl allt að 9,9 MW. Stofnunin leitaði umsagna Bláskógabyggðar, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Orkustofnunar, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillöguna lá fyrir 30. s.m. Kom þar fram að stofnunin féllist á matsáætlun framkvæmdaraðila með þeim viðbótum sem kæmu fram í tölvupósti 29. september 2015 og þeim athugasemdum sem fram kæmu í ákvörðun stofnunarinnar.

Í febrúar 2016 barst Skipulagsstofnun til athugunar frummatsskýrsla um Brúarvirkjun í Tungufljóti til athugunar frá HS Orku. Framkvæmdin og frummatsskýrslan voru auglýst opinberlega 1. mars s.á. með athugasemdafresti til 12. apríl 2016. Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Bláskógabyggðar, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar. Hinn 16. júní 2016 lagði HS Orka fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdarinnar „Brúarvirkjun, allt að 9,9 MW rennslisvirkjunar í Biskupstungum Bláskógabyggð“ á umhverfið lá fyrir 20. september 2016. Helstu niðurstöður álitsins eru dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess miðað við núverandi aðstæður. Svæðið er að mestu leyti ósnortið og einkennist að Tungufljóti og vel grónum bökkum þess enda um lindá að ræða en slíkar ár eru ekki algengar á Íslandi og sjaldgæfar á heimsvísu. Að framkvæmdum loknum mun svæðið einkennast að misumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja km löngum kafla. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er þó í nokkurri fjarlægð frá fjölförnum vegum og ferðamannastöðum og neikvæð sjónræn áhrif verða mest frá frístundabyggð í nágrenninu auk þess sem sjónræn áhrif á þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með Tungufljóti frá núverandi þjóðvegi munu verða mjög neikvæð. Í ljósi þess sem er rakið hér að framan er það mat Skipulagsstofnunar að áhrif á ásýnd og landslag fyrirhugaðra framkvæmda verða talsvert neikvæð. Fyrirhugað framkvæmdasvæði einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nýtur séstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd og sem forðast skal að raska nema brýna nauðsyn beri til en nær allt framkvæmdasvæðið er mjög vel gróið. Áhrif á gróður verða því staðbundið talsvert neikvæð. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að ráðist verði í fyrirhugaða endurheimt votlendis og birkikjarrs og telur að setja verði eftirfarandi skilyrði:

1. Í framkvæmdaleyfi þarf að koma fram á hvaða svæðum eigi að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélag og landeigendur.

Fyrir liggur það álit í gögnum málsins að samkvæmt niðurstöðum fuglarannsókna muni fyrirhugaðar framkvæmdir ekki koma til með að hafa mikil neikvæð áhrif á fugla. Stofnunin setur fyrirvara við þessa niðurstöðu þar sem ljóst er að ekki fóru fram fuglarannsóknir í lónstæðinu en þar er líklegt að sé auðugt fuglalíf og meðal annars hugsanlegt að þar finnist straumandavarp samkvæmt framlögðum gögnum. Skipulagsstofnun bendir á að straumönd er tegund á válista auk þess að vera ábyrgðartegund þar sem Ísland er eina landið í Evrópu sem tegundin verpir. Stofnunin telur því ljóst að óvissa er um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hafa ekki farið fram á lónstæðinu. Í ljósi ofangreinds þarf að setja eftirfarandi skilyrði:

2. Í framkvæmdaleyfi þarf að koma fram að rannsakað verði hvort straumönd verpi í eða við lónstæði fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar og svæði sem fer undir stíflumannvirki. Rannsóknin þarf að fara fram áður en framkvæmdir hefjast við stíflu eða lónstæðið. Ef rannsóknin staðfestir varp á svæðinu þarf, með vísan til 74. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, að bera það undir Náttúrufræðistofnun Íslands hvort nauðsynlegt sé að vakta afdrif straumandar að loknum framkvæmdum. Áhrif á aðra umhverfisþætti s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf verða minni, eða nokkuð neikvæð til óveruleg. Ekki á að vera hætta á að fornleifum verði raskað að því gefnu að farið verði eftir tilmælum Minjastofnunar Íslands.“

Skipulagsvinna fór fram samhliða og í kjölfar mats á umhverfisáhrifum. Breyting á þágildandi Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 var samþykkt í sveitarstjórn 2. mars 2017, staðfest af Skipulagsstofnun 5. apríl s.á. og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Með því var landnotkun svæðisins, þar sem stöðvarhúsið, inntaksmannvirki og frárennsliskurður munu verða staðsett, breytt í iðnaðarsvæði og fengu inntakslón, stífla, þrýstipípa og vegur sér merkingu. Þá voru syðri mörk grannsvæðis vatnsverndar færð norður fyrir fyrirhugað inntakslón og efnistöku- og efnislosunarsvæði merkt inn á aðalskipulagið ásamt því að svæði undir frístundabyggð var skert. Deiliskipulag vegna Brúarvirkjunar tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2017 og breyting á deiliskipulaginu tók með sama hætti gildi 9. mars 2018.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. maí 2017 var tekin fyrir umsókn HS Orku, dags. 27. apríl 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir vegna Brúarvirkjunar. Sótt var um leyfi fyrir efnistöku á um 18.000 m³ efnis úr námu E, sunnan Biskupstungnabrautar, veglagningu frá stöðvarhúsi að inntaki, plani undir vinnubúðir verktaka, lagningu rafstrengs og ljósleiðara milli stöðvarhúss og inntaks, tengingu við dreifikerfi RARIK, lagningu vatnsveitu og uppsetningu girðinga. Samþykkti sveitarstjórn umsóknina og var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar. Sætti þessi ákvörðun sveitarstjórnar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn HS Orku, dags. 11. september 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun var lögð fram á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 28. s.m. Gerði nefndin ekki athugasemd við að sveitarstjórn samþykkti umsóknina, sem hún og gerði á fundi sínum 12. október s.á. Fól sveitarstjórn jafnframt skipulagsfulltrúa að auglýsa þá niðurstöðu sína. Úrskurðarnefndinni bárust kærur, m.a. frá kærendum, vegna framangreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar.

Með umsókn, dags. 17. janúar 2018, sótti HS Orka að nýju um framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar. Umsókninni fylgdi greinargerð með tilgreindum viðaukum nr. 1-12 ásamt áliti Skipulagsstofnunar, matsskýrslu vegna Brúarvirkjunar, yfirlitsmynd, umsögn Umhverfisstofnunar um tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð, vegna Brúarvirkjunar í Tungufljóti, sem og virkjunarleyfi og leyfi Fiskistofu. Var þess óskað að afgreiðsla sveitarstjórnar frá 12. október 2017 yrði endurupptekin með hliðsjón af nefndum gögnum, umsóknin afgreidd og samþykkt og fyrri afgreiðsla afturkölluð samtímis. Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn erindi HS Orku fyrir og féllst á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og bókaði jafnframt að fyrri samþykkt um málið frá 12. október 2017 væri felld úr gildi. Með úrskurði í kærumáli nr. 138/2017, uppkveðnum 19. febrúar 2018, var áðurnefndum kærum vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 12. október 2017 vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ákvörðunin hefði ekki lengur réttarverkan að lögum.

Umsókn HS Orku um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 25. janúar 2018 og var eftirfarandi m.a. bókað um afgreiðslu málsins: „Að mati skipulagsnefndar eru lagaskilyrði til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis. Fyrirhuguð umsókn er í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins ásamt skilyrðum sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn HS Orku hf. vegna Brúarvirkjunar verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við umsókn og framlögð gögn, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og auglýsa framkvæmdaleyfið.“ Þá var bókað um skilyrði leyfisveitingarinnar og tekið fram að samþykktin ætti ekki við um framkvæmdir sem háðar væru byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. febrúar 2018 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum. Bókað var að sveitarstjórn teldi ljóst að skipulagsnefnd hefði kynnt sér ítarlega umsótta framkvæmd og fylgigögn og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, líkt og áskilið væri í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn tæki að öllu leyti undir bókun og rökstuðning skipulagsnefndar og gerði að sínum. Jafnframt var lagt fyrir skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og gefa út nýtt framkvæmdaleyfi að undangengnum framangreindum skilyrðum. Var það og gert og birtist auglýsing þar um í Lögbirtingablaði 2. mars 2018, sem og í fjölmiðlum. Hefur ákvörðun sveitarstjórnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að ákvörðun Bláskógabyggðar og málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum í máli þessu hafi farið í bága við lög. Á ákvörðuninni séu bæði form- og efnisannmarkar sem leiða eigi til ógildingar hennar. Fimm hektarar af skógræktarlandi Skógræktarinnar í Haukadal muni fara undir framkvæmdir, en jörðin Haukadalur hafi verið færð Skógrækt ríkisins að gjöf til skógræktar. Nái framkvæmdin einnig til svæðis á náttúruminjaskrá.

Skilyrði vegna brýnna almannahagsmuna hafi ekki verið uppfyllt. Náttúruminjar sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þ.e. fimm ha birkiskógur og 2,5 ha votlendi, muni eyðast við fyrirhugaða framkvæmd. Ekki hafi verið sýnt fram á að aðrir kostir séu ekki færir eða að brýnir almannahagsmunir krefjist þess, líkt og ákvæðið mæli fyrir um, sbr. einnig lögskýringargögn með því. Sé í því sambandi bent á lagaskyldu skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til þess að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd. Ekki hafi verið sýnt fram á að samningar um að planta 25.000 birkiplöntum á 10 ha svæði norðvestan við framkvæmdasvæðið aflétti þeirri vernd sem náttúrulegir birkiskógar njóti að lögum. Sé þetta verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, sbr. einnig niðurstöðukafla í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 84/2017, að því er varði náttúruminjar sem njóti verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd. Verði ekki síst að líta til þess, í ljósi úrskurðarins, að alger skortur sé á mati valkosta í mati því á umhverfisáhrifum sem liggi fyrir í þessu máli.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í tengslum við vatnsvernd. Séu miklir hagsmunir bundnir við neysluvatn Bláskógabyggðar. Meginregla sé að ekki megi framkvæma á grannsvæði vatnsbóla, sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Hins vegar hafi verið þrengt að vatnsvernd vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar þegar gildandi mörkum vatnsverndarsvæðisins hafi verið breytt í skipulagi í því skyni að inntakslón Brúarvirkjunar lenti ekki innan þess. Sú málsmeðferð öll gefi tilefni til sérstakrar rannsóknar, sbr. forsendur skilgreiningar vatnsverndarsvæða í gr. 13.1 í reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem vísað sé til í 9. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Vísi kærendur til alvarlegra athugasemda sem fram hafi komið, m.a. í lögbundnum umsögnum stjórnvalda, sbr. einkum viðbótarumsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands til Skipulagsstofnunar, dags. 25. apríl 2016, í tengslum við tillögu til breytinga á aðalskipulagi. Engar jarðfræðirannsóknir liggi til grundvallar breytingunni, þrátt fyrir framangreind reglugerðarákvæði.

Verulegir annmarkar séu á undirbúningi máls þar sem við málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum hafi ekki verið tekið mið af því að fyrirhugað lón næði inn á svæði sem væri grannsvæði vatnsverndar í aðalskipulagi. Stofnanir hafi veitt umsagnir sínar án vitneskju um það og hafi almenningur ekki komið að athugasemdum þar um, sbr. álit Skipulagsstofnunar 20. september 2016. Málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi því ekki átt sér stað hvað varði vatnsvernd. Ekki hafi verið kannað á neinn hátt í umhverfismati hvernig þétting berggrunns undir stíflugarð fyrirhugaðrar virkjunar muni hafa áhrif á grunnvatnsrennsli svæðisins neðan við fyrirhugaða virkjun.

Ekki hafi verið könnuð hugsanleg áhrif virkjunarframkvæmda á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins, t.d. í tengslum við virkt brotakerfi Suðurlands. Geysir sé frægasti goshver heims og sé friðlýsing Geysissvæðisins á náttúruverndaráætlun sem Alþingi hafi samþykkt í maí árið 2004 og beri því að friðlýsa svæðið. Taka verði mið af varúðarreglum laga um náttúruvernd við þessar einstæðu aðstæður og ekki bera fyrir sig skort á vísindalegri þekkingu til þess að gæta ekki að vernd, sbr. 7. og 9. gr. náttúruverndarlaga. Þá verði vísindaleg þekking að vera grundvöllur allra ákvarðanatöku stjórnvalda, sbr. 8. gr. sömu laga og gildi þannig strangari regla um slíkar ákvarðanir en um ákvarðanir einkaaðila.

Jarðfræðirannsóknir séu afar takmarkaðar í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og könnunarboranir, sérstaklega undir fyrirhugaðan stífluvegg, séu algerlega ónógar. Vanti allar jarðfræðilegar upplýsingar um lekt, sprungur og misgengi innan framkvæmdasvæðisins. Varðandi rannsóknir á köldum lindum sé í matinu einkum stuðst við rannsóknir og rennslismælingar Orkustofnunar árin 1981 og 1988 og ekki komi fram hvort breytingar hafi orðið á vatnsrennsli eftir Suðurlandsskjálftana árin 2000 og 2008. Hafi leyfisveitanda borið skylda til að láta gera á því sérstaka könnun hverjar breytingar hafi orðið á vatnsrennsli síðustu 30 ár, einkum eftir Suðurlandsskjálftana, en vísindaleg þekking verði að vera grundvöllur allrar ákvarðanatöku stjórnvalds, sbr. 8. gr. laga um náttúruvernd. Við þá athugun hafi borið að gæta ákvæða laga nr. 106/2000 um aðkomu almennings og álits Skipulagsstofnunar, sbr. kærumál nr. 84/2017.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við meðferð málsins hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um, ásamt því að vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010 hafi sveitarfélagið gengið úr skugga um að framkvæmdin hafi verið í samræmi við aðalskipulag. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi legið fyrir, svo sem áskilið sé skv. 1. mgr. 14. gr. laganna. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. hafi sveitarfélagið tekið matsskýrslu HS Orku til skoðunar, kannað hvort framkvæmdin væri í samræmi við hana og loks tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Líkt og fram hafi komið í bókun frá fundi sveitarstjórnar sé það mat hennar að umsókn HS Orku, þ.m.t. fyrirhugað eftirlit og mótvægisaðgerðir, hafi verið í samræmi við þau skilyrði sem fram komi í álitinu. Reynt hafi verið eftir fremsta megni að ganga úr skugga um að öll helstu sjónarmið og umsagnir, sem þýðingu gætu haft við ákvarðanatöku um veitingu leyfisins, væru fyrirliggjandi.

Skilyrði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd um brýna nauðsyn hafi verið uppfyllt. Fyrir liggi að bein áhrif virkjunarinnar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón muni koma til með að raska gróðri á rúmlega 10 ha svæði. Af þeim séu um 3 ha gróður sem ekki njóti verndar náttúruverndarlaga. Á bls. 45 í matsskýrslu sé fjallað sérstaklega um nauðsyn þessarar skerðingar með svohljóðandi hætti: „Í lögum um náttúruvernd kemur fram í 3. mgr. 61. gr. [nvl] að forðast beri að raska vistkerfum sem taldar eru upp í 1. mgr., sbr. viðmið hér að framan um votlendi og birkiskóga sem njóta sérstakrar verndar, nema brýna nauðsyn beri til. Með frumvarpi laganna var brýn þörf skilgreind þannig að um ríka almannahagsmuni sé að ræða. Með hliðsjón af þessu skal tekið fram að fyrirhugaðri Brúarvirkjun er ætlað að styrkja stöðu HS Orku á raforkumarkaðnum eins og fram kemur í kafla 3.1 og stuðla þannig að virkri samkeppni almenningi til hagsbóta. Vatnsaflsvirkjanir eru í eðli sínu sjálfbær orkukostur sem afla raforku án nokkurrar loftmengunar þó svo að næsta umhverfi verði fyrir áhrifum vegna röskunar á landi og árfarvegum. Þó svo að vistkerfi er njóta verndar verði fyrir áhrifum, hefur HS Orka uppi áform um að draga úr þeim áhrifum með mótvægisaðgerðum, eins og fram kemur hér á eftir. Einnig má benda á að samhliða fyrirhugaðri Brúarvirkjun og tengingu hennar við flutningskerfið mun RARIK styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu, til að mynda á Geysissvæðinu. Almannahagsmunir eru því ríkir fyrir heimamenn.“ Um nauðsyn að baki framkvæmdinni sé jafnframt í bókun skipulagsnefndar frá 149. fundi nefndarinnar, dags. 25. janúar 2018, vísað til þessa kafla matsskýrslunnar og annarra almannahagsmuna. Það er að almennt sé virkjunin mikilvæg fyrir gæði raforku á dreifiveitusvæðinu, styrki afhendingaröryggi þar umtalsvert og gefi möguleika á „eyjakeyrslu“ í tilvikum rafmagnsleysis þannig að halda megi afmörkuðum hluta dreifikerfis raforku inni þrátt fyrir umlykjandi rafmagnsleysi. Stofnkerfi raforku styrkist á stóru svæði með lagningu háspennustrengs frá jörðinni Brú, virkjunarstað, til Reykholts, Biskupstungum. Við innkomu rafmagnsframleiðslu inn á kerfi RARIK aukist möguleikar til rafmagnsdreifingar lengra til norðurs, t.d. að Bláfelli (Neyðarlínan) og Kerlingafjöllum, verði stofnkerfi RARIK lagt þangað. Færi gefist til frekari uppbyggingar ljósleiðarakerfis þar sem ljósleiðaralögn verði lögð með háspennustrengjum frá inntaksmannvirkjum virkjunar til tengistöðvar í Reykholti.

Sveitarfélagið hafi yfirfarið tilvitnuð sjónarmið HS Orku ásamt sjónarmiðum skipulagsnefndar og talið sýnt fram á að brýna nauðsyn í skilningi 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga bæri til fyrirhugaðrar röskunar birkiskóga og votlendis. Í þessu samhengi beri jafnframt að leggja áherslu á að HS Orka hafi lagt mikla áherslu á að vinna að endurheimt birkiskógar og votlendis sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar. Í því skyni hafi verið lagður fram samningur um endurheimt birkiskógar og votlendis milli HS Orku og Skógræktarinnar, dags. 27. september 2017. Í honum sé samið um gróðursetningu 25 þúsund birkiplantna á alls 10 ha svæði og endurheimt votlendis með uppfyllingu skurða í landi Mosfells í Grímsnesi. Verktími sé ætlaður á árunum 2018 og 2019. Að mati sveitarfélagsins falli tilvitnaður samningur afar vel að því markmiði náttúruverndarlaga að stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa, sbr. 1. gr. laganna. Rétt sé að taka fram að í greinargerð með framkvæmdaleyfi, sem jafnframt teljist vera hluti leyfisins, sé gert að skilyrði að lýstum fyrirætlunum verði fylgt eftir, sbr. kafla 10.3.

Í þessu samhengi beri jafnframt að líta til þess að í ferlinu öllu hafi verið leitað umsagna fjölda aðila sem hafi með náttúruvernd að gera, s.s. Skógræktar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Bláskógabyggðar. Enginn umsagnaraðila hafi lagst gegn framkvæmdinni. Með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðrar skerðingar, fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og hagsmunum samfélagsins sé það álit skipulagsnefndar að brýn nauðsyn réttlæti þau neikvæðu áhrif sem framkvæmdin hafi óneitanlega í för með sér.

Varðandi meintan skort á mati á umhverfisáhrifum valkosta bendi sveitarfélagið á að í matsskýrslu komi fram að gerð hafi verið forathugun á sex kostum á tilhögun virkjunarinnar, með mismunandi uppsettu afli. Þeir kostir sem skoðaðir hafi verið séu í stórum dráttum ekki mikið frábrugðnir þeirri virkjunartilhögun sem hið kærða framkvæmdaleyfi lúti að. Sá kostur þyki einnig hagstæður kostnaðarlega séð og hafi því orðið fyrir valinu hjá HS Orku.

Fram komi að í umsögn Umhverfisstofnunar um tillögu að matsáætlun hafi stofnunin lagt til að skoða þann möguleika að staðsetja virkjunarmannvirkin á vesturbakka Tungufljóts. Í frummatsskýrslu hafi verið greint frá því að aðrennslispípa í gegnum skóginn vestan Tungufljóts hefði í för með sér mun meira rask en ráðgerð leið austan fljótsins og hafi sú útfærsla því ekki verið skoðuð nánar. Umhverfisstofnun hafi talið þetta ekki vera nægjanlegt og því ítrekað þá skoðun sína að skoða þyrfti betur þann möguleika að staðsetja virkjunina á vesturbakkanum. Í kjölfarið hafi verið gerður ítarlegri samanburður á staðsetningu virkjunarmannvirkja og hafi niðurstaðan orðið sú að staðsetning þeirra vestan Tungufljóts hefði meira rask í för með sér en ráðgerð staðsetning að austanverðu. Umhverfisstofnun hafi tekið undir þessa niðurstöðu í frekari umsögn sinni frá 8. apríl 2016.

Sveitarfélagið bendi á að í matsskýrslu komi fram að inntakslónið sé utan grannsvæðis vatnsverndar í drögum að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Eftir að breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. apríl 2017 hafi þessi nýju grannsvæðismörk verið staðfest. Rökin fyrir þessari breytingu, sem fjallað sé um í matsskýrslu, séu á þá leið að mörkin hafi verið ónákvæm þegar þau hafi verið ákvörðuð á sínum tíma og að rekstrarvatnsborð lónsins sé um 15 m lægra en núverandi vatnstökustaður. Því sé útilokað að vatn úr lóninu komi til með að menga vatnsbólið.

Þess megi geta að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi í upphafi gert athugasemd um skort á upplýsingum í tengslum við vatnsvernd. Í endanlegri umsögn eftirlitsins við tillögu að breytingu á aðalskipulagi, dags. 18. nóvember 2016, sé ekki gerð athugasemd við hvernig staðið hafi verið að breytingu á afmörkun vatnsverndarinnar. Þá sé því hafnað alfarið að láðst hafi að taka tillit til þess við málsmeðferð umhverfismats að fyrirhuguð framkvæmd sé í nágrenni við grannsvæði vatnsverndar. Nægi þar að vísa til umfjöllunar á bls. 10-11 í áliti Skipulagsstofnunar þar sem raktar séu umsagnir og athugasemdir við matsskýrslu og svör HS Orku við þeim. Skipulagsstofnun hafi talið þau svör sýna fram á að þar sem vatnstökustaður stæði rúmlega 15 m hærra en yfirborð fyrirhugaðs lóns væru engar líkur á að vatn úr lóninu mengaði vatnstökustaðinn.

Hvað varði úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 84/2017 telji sveitarfélagið að ólíkum málavöxtum sé saman að jafna. Í tilvitnuðum úrskurði hafi verið óumdeilt að hin umdeilda framkvæmd, í því tilviki loftlína, myndi liggja um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Í áliti Skipulagsstofnunar hafi komið fram sú niðurstaða stofnunarinnar að þrátt fyrir boðaðar öryggisráðstafanir og mótvægisaðgerðir væri óhjákvæmileg hætta fyrir hendi á að fyrirhugaðar framkvæmdir hefðu neikvæð áhrif á vatnsverndarsvæði og um leið neysluvatn ef mengunslys myndi eiga sér stað. Með hliðsjón af því sé ljóst að sömu sjónarmið eigi ekki við í máli þessu.

Sveitarfélagið hafni því að ástæða hafi verið til að taka til nánari skoðunar hugsanleg áhrif virkjunarframkvæmda á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins, enda engin gögn eða umsagnir fyrirliggjandi í málinu sem bendi til þess að slík áhrif séu sennileg eða líkleg.

Fullyrðingum um að jarðfræðirannsóknir hafi verið takmarkaðar og ónógar sé mótmælt sem tilhæfulausum og órökstuddum. Bent sé á að þær jarðefna- og jarðgrunnsrannsóknir sem hafi verið gerðar á byggingarsvæði stífla og annarra mannvirkja á efra svæði virkjunarinnar séu jarðefnaathugun, Cobra-boranir, könnunargryfjur, jarðgrunnskönnun, sýnatökur, mat á lektarstuðlum, sigpróf og sjónskoðun á svæðinu. Því sé hafnað að skort hafi á könnun á áhrifum virkjunarinnar á votlendissvæði. Vísað sé til þess að rennsli Tungufljóts komi ekki til með að breytast neðan fyrirhugaðs stöðvarhúss og því muni virkjunin ekki koma til með að hafa áhrif á svæði sem séu vel sunnan við fyrirhugað framkvæmdasvæði.

Sveitarfélagið telji að málatilbúnaður kærenda hvað varði meintar forsendur gjafabréfs fyrir jörðunum Haukadal og Tortu, varði einkaréttarleg álitaefni sem komi útgáfu framkvæmdaleyfis til HS Orku ekkert við. Úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimildir til þess að fjalla um slík álitamál og komi þau því ekki til úrlausnar í máli þessu. Ágreining um meintar forsendur gjafaafsals verði þar til bærir aðilar að bera undir hina almennu dómstóla, standi vilji til að fá úr honum skorið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að frá upphafi þessa máls hafi hann leitast við að tryggja að rannsóknir á umhverfisáhrifum virkjunarinnar yrðu sem ítarlegastar og bestar. Hafi ekkert verið til sparað í þeirri málsmeðferð. Hafi félagið sjálft óskað eftir því að framkvæmdin færi beint í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þrátt fyrir að framkvæmdin sem slík, vegna stærðar hennar, félli ekki í þann flokk. Í ferlinu hafi verið leitað til færustu sérfræðinga á hverju sviði um rannsóknir, umsagnir og hönnun, eins og ítarleg og vönduð gögn málsins beri með sér. Þá viti leyfishafi ekki betur en að þær opinberu stofnanir sem hafi haft með málið að gera hafi leitað allra nauðsynlegra umsagna annarra opinberra aðila og krafist allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga af hálfu félagsins sem lög geri ráð fyrir. Hafi málsmeðferð því verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslög nr. 123/2010, lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og annarra laga og reglugerða.

Um nauðsyn framkvæmdarinnar sé fjallað á bls. 45-46 í matsskýrslu og árétti leyfishafi það sem þar komi fram. Ekki sé bannað að raska tilgreindum vistkerfum samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga. Eingöngu beri að forðast það. Leyfisveitandi hafi með afgreiðslu sinni metið það svo að um væri að ræða brýna hagsmuni og framkvæmdaraðili hafi gripið til mótvægisaðgerða í samræmi við umsagnir lögbundinna umsagnaraðila.

Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 8. apríl 2016 komi fram að stofnunin telji að stærð votlendis sem komi til með að raskast vegna framkvæmdarinnar sé minni en ráða megi af frummatsskýrslu. Ekki sé unnt að greina á vettvangi að votlendi stærra en 20.000 m2 verði raskað og því óljóst að umrætt svæði njóti sérstakrar verndar. Í umsögnum sínum leggist Umhverfisstofnun heldur ekki gegn raski á birkiskógi á svæðinu. Skógræktin geri það ekki heldur en leggi til að gengið verði til samninga um mótvægisaðgerðir og að skógareyðing fari fram í samráði við skógarvörð.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi orðið sú að þrátt fyrir að hún teldi rök HS Orku um ríka almannahagsmuni orka tvímælis væri hægt að fallast á framkvæmdina þar sem skerðing votlendis og skóglendis næði til lítils svæðis og að um væri að ræða sneið af jaðri svæðanna. Skilyrði yrði sett í framkvæmdaleyfi um endurheimt og að val á svæðum verði unnið í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, viðkomandi sveitarfélag og landeigendur. Skipulagsstofnun hafi talið að fyrirætlanir um að græða upp jafn stórt svæði með birkigróðri og endurheimt votlendis væru til þess fallin að draga úr áhrifum á gróður.

Með vísan til framangreinds hafi Skipulagsstofnun sett það skilyrði að í framkvæmdaleyfi þyrfti að koma fram á hvaða svæðum ætti að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélagið og landeigendur. HS Orka hafi samið við Skógræktina um endurheimt birkiskógar og votlendis, sbr. samning aðila dags. 27. september 2017.

Afstaða Umhverfisstofnunar til framkvæmdarinnar liggi fyrir í mörgum umsögnum stofnunarinnar, sbr. t.d. umsögn frá 8. apríl 2016 sem getið sé að framan. Að auki hafi stofnunin gefið umsögn um aðalskipulagsbreytinguna, sem gerð hafi verið sérstaklega vegna framkvæmdarinnar, sbr. umsögn frá 28. nóvember 2016. Hafi því ekki þurft að leita sérstakrar umsagnar stofnunarinnar vegna þessa. Með vísan til þess að enginn umsagnaraðila hafi lagst gegn framkvæmdinni hafi leyfisveitandi ekki þurft að rökstyðja framkvæmdina sérstaklega. Leyfisveitandi hafi því metið það svo að um væri að ræða brýna nauðsyn sem heimilaði þá röskun sem hér um ræði, en til að draga úr henni yrði gripið til ákveðinna mótvægisaðgerða, enda legðist enginn umsagnaraðili gegn framkvæmdinni. Það mat sé úrskurðarnefndin ekki bær til að endurskoða. Engir formgallar séu heldur á málinu að þessu leyti.

Hvað varði þá fullyrðingu að mótvægisaðgerðir séu ekki nægilegar þá sé bent á það sem þegar hafi komið fram. Samið hafi verið við Skógræktina, helstu sérfræðistofnun landsins í þessu efni, um endurheimt 10 ha af birkiskógi á svæði í landi Haukadals 1, eða tvöfalt það kjarrlendi sem fari undir vatn eða eyðist með öðrum hætti við framkvæmdina. Um það bil 10 ha af votlendi verði endurheimt úr landi jarðarinnar Mosfells í Grímsnesi, sem Skógræktin hafi til umráða. Í samningnum komi fram að gæðaúttekt muni verða gerð af skógræktarráðgjafa að lokinni gróðursetningu og um það verði gerð skýrsla. Hvað varði endurheimt votlendis verði leitað ráðgjafar hjá Landgræðslunni ef þörf krefji. Umhverfisstofnun hafi fyrir sitt leyti samþykkt að með þessum samningi, gerðum 27. september 2017, hafi framkvæmdaraðili uppfyllt skilyrði Skipulagsstofnunar um samráð við Umhverfisstofnun á fullnægjandi hátt.

Skoðaðir hafi verið sex kostir við tilhögun virkjunar austan Tungufljóts, auk einnar tilhögunar vestan fljótsins ásamt núllkosti. Umræddir kostir hafi verið bornir saman og sá samanburður „leiddi ekkert í ljós sem bendir til þess að aðrir kostir en fyrirhugaður virkjunarkostur séu betri frá umhverfissjónarmiðum“.

Í matsskýrslu sé vakin athygli á því að inntakslónið sé utan grannsvæðis vatnsverndar í drögum að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Í breyttu Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 hafi þessi nýju grannsvæðamörk verið staðfest með breytingu á aðalskipulagi 5. apríl 2017. Rökin fyrir breytingunni, sem fjallað sé um í matsskýrslu, séu á þá leið að mörkin hafi verið ónákvæm þegar þau hafi verið ákvörðuð á sínum tíma og að rekstrarvatnsborð lónsins sé um 15 m lægra en núverandi vatnstökustaður. Því sé útilokað að vatn úr lóninu mengi vatnsbólið. Í þessu efni megi benda á 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, sbr. breytingarreglugerð nr. 533/2001, en þar segi að við ákvörðun á afmörkun grannsvæða vatnsbóla skuli taka tillit til jarðvegsþekju svæðisins og grunnvatnsstrauma sem stefni að vatnsbólinu.

Rétt sé að gera grein fyrir sögulegum ástæðum þess hvernig grannsvæði vatnsbólsins hafi upphaflega verið afmarkað. Fram til ársins 2000 hafi aðalvatnsból Biskupstungna verið í landi Austurhlíðar. Við stóra Suðurlandsskjálftann 17. júní það ár hafi vatnið í vatnsbólinu minnkað mikið og því sem næst horfið. Við þetta hafi skapast neyðarástand í samfélaginu og hafi hreppsnefnd gripið til ýmissa bráðabirgðaaðgerða til þess að tryggja íbúum lágmarksneysluvatn. Samhliða því hafi verið farið í þá vinnu að leita að nýju vatnsbóli. Fljótsbotnar í landi Haukadals hafi orðið fyrir valinu. Leitin að vatnsbólinu og virkjun þess hafi þurft að ganga hratt fyrir sig þar sem neyðarástand hafi verið í neysluvatnsmálum. Þegar komið hafi að því að skilgreina grannsvæði vatnsbólsins hafi engar jarðfræðirannsóknir legið að baki heldur hafi verið gerður nógu stór hringur um svæðið svo að ekki yrði nein hætta á að gerð yrði athugasemd við skilgreininguna. Þrátt fyrir þetta hafi allir verið meðvitaður um að vatnið sem virkjað hefði verið kæmi úr norðri, þ.e. frá Langjökli, og að vatnsverndin ætti því fyrst og fremst að vera norðan við Fljótsbotnana, þar sem vatnið kæmi að, en ekki suður af þeim, þar sem vatnið renni frá þeim. Nú hafi endurskilgreining farið fram og í ljósi sögunnar hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar aðlagað þessa skilgreiningu grannsvæðis til samræmis við nýjar upplýsingar og til samræmis við það sem hreppsnefnd Biskupstungnahrepps hafi ætlast til að yrði gert.

Upphaflega hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gert athugasemd um vöntun á upplýsingum í tengslum við vatnsverndina, en í endanlegri umsögn heilbrigðiseftirlitsins við tillögu að breytingu á aðalskipulagi, dags. 18. nóvember 2016, sé ekki gerð athugasemd við hvernig staðið hafi verið að breytingu á afmörkun vatnsverndarinnar.

Þá hafi farið fram rannsóknir á vatnsrennsli til vatnsbóla, bæði á yfirborði og neðanjarðar. Talið sé að vatnið í Fljótsbotnum sé ættað frá Langjökli. Á þessu svæði renni vatn til suðurs, þ.e. landið hækki til norðurs. Vatnsbólin í Fljótsbotnum standi mun hærra en hæsta mögulega vatnsstaða verði í fyrirhuguðu inntakslóni. Þá hafi áhrif breyttrar afmörkunar grann- og fjarsvæða vatnsbólsins í Fljótsbotnum verið metin. Niðurstaða þessi hafi verið sett fram í skýrslunni „Bláskógabyggð. Breyting á grannsvæði vatnsverndar í Fljótsbotnum, Greinargerð ÍSOR-16046“. Niðurstaða skýrslunnar sé sú að óhætt sé að færa mörk vatnsverndarsvæðis til norðurs, þ.e. hærra í landið, án þess að það spilli vatni eða vatnstökumöguleikum á vatnsverndarsvæðinu í Fljótsbotnum. Því sé röng sú fullyrðing kærenda að ekki hafi farið fram jarðfræðirannsóknir vegna þessa þáttar. Að auki sé vakin athygli á að umrædd vatnsverndarmörk hafi þegar verið staðfest í skipulagi og hafi þær skipulagstillögur ekki sætt andmælum af hálfu kærenda á sínum tíma.

Staðkunnugir viti að vatnið á Geysissvæðinu sé býsna heitt, enda um jarðhitakerfi að ræða, og að vatnið í Tungufljóti sé að sama skapi býsna kalt, enda lindar- og yfirborðsvatn. Uppspretta þessa vatns sé úr mismunandi og vel aðskildum vatnskerfum, þar sem annað liggi mjög djúpt og hitt yfir eða nálægt yfirborði jarðar. Að minnsta kosti 4 km séu frá Geysi að fyrirhuguðu stíflusvæði í Tungufljóti og á milli þessara staða séu auk þess vatnsmiklir lækir, sem muni renna sína leið óháð virkjunarframkvæmdum. Því telji sérfræðingar útilokað að Brúarvirkjun muni hafa áhrif á Geysissvæðið. Þessi athugasemd kærenda eigi sér því ekki stoð.

Þær rannsóknir sem hafi verið gerðar á byggingarsvæði stífla og annarra mannvirkja á efra svæði virkjunarinnar séu eftirfarandi jarðefna- og jarðgrunnsrannsóknir: Jarðefnaathugun, Cobra-boranir, könnunargryfjur, jarðgrunnskönnun, sýnatökur, mat á lektarstuðlum, sigpróf og sjónpróf á svæðinu. Þessar rannsóknir hafi varðað þau svæði sem fari undir steypt mannvirki og jarðvegsstíflur. Rannsóknirnar gefi fullnægjandi upplýsingar svo að hönnun umræddra mannvirkja geti farið fram með faglega fullnægjandi og viðteknum hætti.

Þá sé á það bent að fyrirhuguð virkjun byggist á rennsli Tungufljótsins eins og það sé núna og að jarðskjálftar sem hafi orðið fyrir nærri tveimur áratugum breyti þar engu um. Engu að síður hátti svo til að rennslismælingar hafi verið gerðar í Tungufljóti a.m.k. allt frá sjötta áratug síðustu aldar og síritun á rennsli árinnar við fossinn Faxa, sem sé talsvert fyrir neðan fyrirhugað framkvæmdasvæði, hafi staðið frá árinu 1971. Í minnisblaði tilgreindrar verkfræðistofu komi fram að ekki hafi verið hægt að merkja nokkrar breytingar á rennsli árinnar sem rekja mætti beint til jarðskjálftanna árið 2000. Ef athugasemd kærenda vísi hins vegar til annars vatns en í Tungufljóti þá sé vísað til umfjöllunar hér að framan um áhrif Suðurlandsskjálfta árið 2000 á vatnsbólið við Austurhlíð.

Rennsli Tungufljóts komi ekki til með að breytast neðan fyrirhugaðs stöðvarhúss. Fyrirhuguð virkjun muni því hvorki hafa áhrif á svæði nr. 737, Almenning, á náttúruminjaskrá, né á votlendið milli Tungufljóts og Hvítár, norðan friðlýsta svæðisins Pollengis og Tungueyjar, sem sé nr. 738 á náttúruminjaskrá. Það hafi því ekki verið kannað sérstaklega. Þessi svæði séu langt sunnan og langt neðan við fyrirhugað framkvæmdasvæði, t.a.m. sé Tunguey u.þ.b. 25 km neðar, við ármót Tungufljóts og Hvítár. Mörg vatnsföll önnur en Tungufljót séu þarna í milli sem hafi miklu meiri áhrif en Tungufljót á vatnsbúskapinn þarna suðurfrá. Kærendur hafi ekki leitt neinum líkum að því að virkjunin geti haft áhrif á fyrrgreind svæði. Enginn sérfróðra umsagnaraðila virðist hafa haft áhyggjur af þessu atriði enda vatnsmagn á svæðinu óbreytt. Engar athugasemdir hafi heldur borist í skipulagsferlinu.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé valdsvið nefndarinnar skilgreint. Það nái ekki til þess að úrskurða um einkaréttarlegt atriði eins og athugun á forsendum fyrir gjafaafsali vegna Haukadalsjarðarinnar árið 1940. Í 3. mgr. 4. gr. laganna segi að þeir einir eigi kærurétt sem eigi lögvarða hagsmuni. Það eigi kærendur ekki sem slíkir. Frá þessu sé gerð undantekning varðandi m.a. umhverfisverndarsamtök sem geti kært ákvarðanir sem séu tæmandi taldar í a- til c-liðum í nefndri 3. mgr. Umkvörtunarefni kærenda í þessum lið falli ekki undir þær heimildir og það megi forsvarsmenn kærenda vita. Engar kvaðir séu í nefndum gjafagerningi sem komi í veg fyrir virkjun árinnar. Framkvæmdin muni að auki ekki raska skógrækt á svæðinu almennt enda hafi framkvæmdaraðili gert samning við Skógræktina um uppgræðslu þess í stað þess skógar sem eyðist við framkvæmdina, eins og áður hafi verið fjallað um.

Niðurstaða: Brúarvirkjun er fyrirhuguð 9,9 MW rennslisvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um veitingu framkvæmdaleyfis lá fyrir 1. febrúar 2018, en undirbúningur framkvæmda vegna virkjunarinnar hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Um er að ræða tilkynningarskylda framkvæmd skv. lið 3.22 í 1. viðauka, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við 6. mgr. nefndrar 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að hann teldi að framkvæmdin skyldi undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Féllst stofnunin á þá málsmeðferð og lá álit hennar á mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar fyrir 20. september 2016. Svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða stofnunarinnar sú að áhrif á ásýnd og landslag yrðu talsvert neikvæð. Þannig yrðu áhrif á gróður staðbundið talsvert neikvæð og lagði Skipulagsstofnun til að sett yrðu skilyrði um endurheimt votlendis og birkikjarrs vegna þess. Þá taldi stofnunin að óvissa ríkti um áhrif framkvæmdarinnar á fugla, og þá einkum straumendur, þar sem ekki hefðu farið fram fuglarannsóknir í lónstæðinu. Var því lagt til að við veitingu framkvæmdaleyfis yrði sett skilyrði um að slíkar rannsóknir færu fram áður en framkvæmdir hæfust við stíflu- eða lónstæðið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi, en að auki kemur 14. gr. til álita þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, sbr. og 13. gr. laga nr. 106/2000. Koma og til skoðunar lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og stjórnsýslulög nr. 37/1993, svo sem endranær við töku stjórnvaldsákvarðana. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Það álit Skipulagsstofnunar er lögbundið en ekki bindandi fyrir leyfisveitanda en þarf að fullnægja ákveðnum lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald til þess að leyfisveitandi geti tekið upplýsta ákvörðun um leyfisveitingu að vel athuguðu máli. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar vegna hinnar kærðu leyfisveitingar tekur því bæði til þess hvort tekin hafi verið rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar og þess hvort álitið sé fullnægjandi.

—–

Í bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar á fundi sínum 1. febrúar 2018, er hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt, kom fram að hún teldi framlögð gögn lýsa framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, að hönnunargögn væru fullnægjandi og að framkvæmdin væri í samræmi við mat á umhverfisáhrifum og gildandi skipulagsáætlanir. Leitað hefði verið allra lögbundinna umsagna, gætt að ákvæðum laga um náttúruvernd, laga um menningarminjar, skipulagslaga, reglugerðar um framkvæmdaleyfi og annarra laga og reglugerða sem við ættu. Var einnig bókað að sveitarstjórn teldi umsókn leyfishafa vera í samræmi við þá framkvæmd sem lýst væri í matsskýrslu og að hún væri í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins. Tók sveitarstjórn jafnframt undir bókun og rökstuðning skipulagsnefndar frá 25. janúar s.á. og gerði að sínum.

Í 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga segir m.a. að framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skal skv. 1. mgr. 13. gr. laganna afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000. Í 4. mgr. 13. gr. segir að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi Aðalskipulag Biskupstungnahrepps 2000-2012 með síðari breytingum. Á fundi bæjarstjórnar 2. mars 2017 var samþykkt breyting á því aðalskipulagi vegna umrædds svæðis, sem staðfest var af Skipulagsstofnun 5. apríl s.á. og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Tilefni breytingarinnar var fyrirhuguð Brúarvirkjun og fólst í henni að gert væri ráð fyrir nýju iðnaðarsvæði fyrir stöðvarhús, aðrennslisgöng og stíflu inntakslóns, þremur nýjum efnistöku- og efnislosunarsvæðum auk þess sem eitt svæði yrði stækkað. Þá myndi inntakslón ná að hluta til inn á svæði sem skilgreint hefði verið sem vatnsverndarsvæði og landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi, en með breytingunni væri staðsetning vatnsbóla leiðrétt samkvæmt nákvæmari kortagrunnum og afmörkun vatnsverndarsvæðis breytt því til samræmis.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga segir að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og í 3. mgr. kemur fram að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Brúarvirkjunar í Tungufljóti, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2017. Kemur þar fram að áformað sé að reisa aðalstíflu virkjunarinnar þvert yfir farveg Tungufljóts, rétt ofan við ármót Stóru-Grjótár, og þaðan verði áin leidd í um 1.700 m langri niðurgrafinni þrýstipípu að stöðvarhúsi. Virkjunin verði rennslisvirkjun og stærð hennar allt að 9,9 MW.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað séð en að hið kærða framkvæmdaleyfi í samræmi við skipulagsáætlanir, svo sem sveitarstjórn og skipulagsnefnd tóku réttilega fram við meðferð málsins, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

—–

Með bréfi, dags. 25. apríl 2016, gerði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands viðbótarathugasemd við frummatsskýrslu framkvæmdarinnar, en fyrri umsögn eftirlitsins var dagsett 16. mars s.á. Vakti eftirlitið athygli á því að hvergi hefði komið fram í framlögðum gögnum vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar, hvorki í tillögu að matsáætlun, dags. 5. september 2015, né í frummatsskýrslu, dags. febrúar 2016, að fyrirhuguð framkvæmd væri í nágrenni við og næði inn á grannsvæði vatnsverndar vatnstökusvæðis sveitarfélagsins í Haukadal.

Í kjölfar athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands var unnið sérstakt minnisblað af tilgreindri verkfræðistofu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að útilokað sé að vatn úr lóninu muni menga vatnsbólið þar sem að vatnsbólið sitji ofar í landinu og að vatn þaðan renni því til lónsins en ekki öfugt. Skipulags- og byggingarfulltrúi óskaði fyrir hönd sveitarfélagsins eftir áliti Íslenskra orkurannsókna(ÍSOR) á þessu atriði, þ.e. hvort að hætta væri á að fyrirhuguð virkjun myndi hafa áhrif á vatnstöku á svæðinu í nútíð og framtíð og hvort að vatnsverndarsvæðið væri rétt eða skynsamlega afmarkað. Í greinargerð ÍSOR frá 16. júní 2016 kemur fram í niðurstöðu að óhætt sé að færa suðausturmörk grannsvæðisins til norðurs í samræmi við fyrirliggjandi tillögu án þess að það spilli vatni eða vatnstökumöguleikum á vatnsverndarsvæðinu í Fljótsbotnum.

Í matsskýrslu er fjallað um vatnsvernd í kafla 2.2. Kemur þar fram, sem og í viðbrögðum framkvæmdaraðila við umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, að hæðarmunur vatnstökusvæðis og inntakslóns sé það mikill, eða um 15 m, að útilokað sé að vatn úr lóninu mengi vatnstökustaðinn. Hönnuðir virkjunarinnar hafi haft vitneskju um vatnstökusvæðið og tekið tillit til þess við hönnunina. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 20. september 2016 að samkvæmt mati stofnunarinnar hafi framkvæmdaraðili sýnt fram á í svörum sínum að þar sem vatnstökustaður standi rúmlega 15 m hærra en yfirborð fyrirhugaðs lóns séu engar líkur á að vatn úr lóninu mengi vatnstökustaðinn.

Liggur ljóst fyrir af gögnum málsins og þeirri málsmeðferð sem rakin hefur verið að ekki var fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á vatnsverndarsvæði á fyrri stigum mats á umhverfisáhrifum. Hefði það með réttu átt að vera til umfjöllunar í matsáætlun og frummatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar, enda gera lög nr. 106/2000 ráð fyrir ákveðnu efnislegu samræmi milli matsáætlunar og matsskýrslu, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Á hinn bóginn er það eitt af markmiðum laganna að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta, sbr. c-lið 1. gr., auk þess sem mat á umhverfisáhrifum er þáttur í rannsókn máls. Að fenginni athugasemd um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á vatnsverndarsvæði var framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun rétt að bregðast við, svo sem gert var.

Svo sem áður hefur komið fram var þágildandi Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 breytt vegna umrædds svæðis og vatnsverndarsvæðið minnkað. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2016, veitti Heilbrigðiseftirlit Suðurlands umsögn að nýju um aðalskipulagsbreytinguna, þar sem fram kom að með vísan til greinargerðar ÍSOR gerði eftirlitið ekki lengur athugasemd við breytingu á afmörkun suðausturmarka umrædds vatnsverndarsvæðis.

Að teknu tilliti til þessa verður að telja að framangreindir hnökrar eða ágallar sem voru á matinu í öndverðu hafi verið lagfærðir með tilhlýðilegum hætti á meðan á frekari vinnslu þess stóð og áður en leyfi var veitt. Verður því ekki fallist á með kærendum að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi hvað varðar áhrif á vatnsvernd, enda lágu umsagnir og álit sérfróðra aðila fyrir við álit Skipulagsstofnunar, breytingu á aðalskipulagi og hina kærðu leyfisveitingu.

Í kafla 3.4 í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar kemur fram að við forathugun hafi verið metnir aðrir kostir við tilhögun virkjunarinnar miðað við þau hönnunargögn sem þá voru til staðar. Að teknu tilliti til þeirra gagna var gerður samanburður á sex valkostum, auk núllkosts, og áhrifum þeirra m.t.t. þess hversu mikið afl virkjunarinnar yrði og hversu stórt að flatarmáli lónið yrði, ásamt stíflu, inntaki og öðrum mannvirkjum. Í umsögn Umhverfisstofnunar lagði stofnunin til að skoðaður yrði sá möguleiki að staðsetja virkjunarmannvirkin á vesturbakka Tungufljóts. Í kjölfar þeirrar athugasemdar var gerður ítarlegri samanburður á því að staðsetja virkjunarmannvirki á austur- og vesturbakka fljótsins og er þá umfjöllun að finna í kafla 3.4.2 í matsskýrslu. Var niðurstaðan sú að staðsetning virkjunarmannvirkja vestan Tungufljóts hefði meira rask í för með sér en ráðgerð staðsetning að austanverðu og tók Umhverfisstofnun undir þá niðurstöðu í frekari umsögn sinni, dags. 8. apríl 2016. Verður ekki talið að nauðsyn hafi borið til könnunar og samanburðar á frekari valkostum og skal í því sambandi áréttað að inntakslón er að breyttu aðalskipulagi ekki innan vatnsverndarsvæðis. Var þannig fullnægt áskilnaði laga nr. 106/2000 um samanburð valkosta.

—–

Kærendur halda því fram að ekki hafi verið rannsakað nógu ítarlega eða fjallað um áhrif á grunnvatnsrennsli neðan við fyrirhugaða virkjun og áhrif á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins og rennsli í köldum lindum. Hafi jarðfræðirannsóknir vegna þessa verið takmarkaðar, einkum og sér í lagi í ljósi jarðskjálfta á Suðurlandi árin 2000 og 2008.

Í matsskýrslu eru teknar saman upplýsingar um staðhætti. Kemur þar m.a. fram að árið 1986 hafi rennsli úr Sandvatni verið stíflað og öllu jökulvatni verið veitt um Sandá í Hvítá. Hafi Tungufljót síðan verið að mestu hrein bergvatnsá með lindarvatnsuppruna. Þá kemur fram að í Tungufljót bætist mikið lindarvatn norðaustan Haukadals og frá Haukadalsheiði. Foss sé í fljótinu, 10,8 km frá ósum við Hvítá. Heiti hann Faxi, eða Vatnsleysufoss, og sé staðsettur nokkuð neðan fyrirhugaðrar virkjunar. Liggur fyrir í gögnum málsins að í nefndum fossi hafa verið rennslismælingar allt frá því snemma á 6. áratug síðustu aldar, þar af með sírita frá árinu 1971. Um rennslisbreytingar er fjallað í matsskýrslunni, með áherslu á áhrif þeirra á vatnalíf. Sömu áherslu er að finna í áliti Skipulagsstofnunar. Í mati á umhverfisáhrifum kom fram athugasemd um breytingar á rennsli neðan virkjunarinnar og vegna þessa lét framkvæmdaraðili fara fram frekari mælingar á rennsli beggja kvísla neðan virkjunar. Var hönnun frárennslis breytt í framhaldi af því til að tryggja sem minnsta breytingu á rennsli í kvíslunum. Kom og fram í greinargerð með umsókn um framkvæmdaleyfi að Veðurstofa Íslands hefði tekið þátt í úrvinnslu fyrir rennslislykil árinnar.

Í kafla 4.3.5 í matsskýrslu er fjallað um jarðfræði og jarðmyndanir á umræddu svæði og kemur þar fram að ekki hafi verið talin þörf á sérstakri jarðfræðiúttekt heldur hafi jarðfræði svæðisins verið greind út frá jarðvegsathugun og byggingarefnisleit, sem gerð hafi verið í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, ásamt upplýsingum úr tiltækum heimildum. Varðandi grunnástand er vísað til heimilda frá árinu 2015 um jarðfræði svæðisins og jarðhitakerfi Geysissvæðisins. Jarðfræði svæðisins er sýnd á mynd 4.12 í matsskýrslu. Í heimildaskrá skýrslunnar er einnig vísað til greinargerðar deiliskipulags fyrir Geysissvæðið, en þar er í 6. kafla m.a. fjallað um jarðfræði Geysis og nágrennis. Loks liggur fyrir að engar athugasemdir bárust frá Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi möguleg áhrif á Geysissvæðið, en báðar þessar stofnanir hafa sérstakra skyldna að gæta varðandi áhrif á náttúruminjar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hnigu ekki rök að því, miðað við það sem að framan er rakið, að kanna þyrfti frekar eða fjalla nánar um þá þætti sem kærendur hafa byggt málflutning sinn á að þessu leyti.

—–

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar fælust í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess. Kom fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkenndist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og sem forðast skuli að raska nema brýna nauðsyn bæri til, en nær allt framkvæmdasvæðið sé vel gróið. Stofnunin taldi óvissu vera um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hefðu ekki farið fram í lónstæðinu. Áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf, yrðu minni. Nánar er rakið í áliti stofnunarinnar að bein áhrif fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón virkjunarinnar komi til með að raska birkikjarr- og skóglendi auk votlendis á tæplega 7 ha svæði. Liggur þannig fyrir að áhrif verða á umhverfisþætti sem njóta sérstakrar verndar lögum samkvæmt. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin feli í sér byggingu ýmissa mannvirkja, s.s. um 600 m langrar og allt að 12 m hárrar stíflu, um 10 m hás stöðvarhúss og um 8 ha lóns, auk nýs vegar, á svæði sem sé að mestu ósnortið. Enn fremur muni verða rask á svæðinu vegna efnistöku, haugsetningar og skurða.

Svo sem áður er rakið hvíldi sú skylda m.a. á sveitarstjórn samkvæmt skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 að fjalla um og taka rökstudda afstöðu til framangreinds álits Skipulagsstofnunar. Þá liggur fyrir að við leyfisveitingu þurfti einnig að líta til ákvæða laga nr. 60/2013 og eftir atvikum til annarra laga.

Bókað var um rökstuðning sveitarstjórnar fyrir leyfisveitingunni á fundi hennar 1. febrúar 2018. Gerði sveitarstjórn jafnframt bókun og rökstuðning skipulagsnefndar frá 25. janúar s.á. að sínum. Tilvitnaðar bókanir voru ítarlegar, m.a. um hvaða framkvæmd væri að ræða og um álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum hennar. Fjallað var um samræmi við skipulagsáætlanir og við lög og reglugerðir, sem og um það hvaða umsagna hefði verið leitað og hvaða gögn hefðu legið fyrir við leyfisveitinguna. Var tekið undir álit Skipulagsstofnunar hvað varðaði neikvæð áhrif framkvæmdarinnar, rakið hvaða rannsóknir hefðu farið fram frá því að álit stofnarinnar lá fyrir, hvernig fullnægt hefði verið þeim skilyrðum sem þar koma fram og hvaða skilyrði væru sett fyrir leyfisveitingunni. Setti sveitarstjórn sem skilyrði fyrir framkvæmdinni sömu mótvægisaðgerðir og verklag sem tilgreind voru í matsskýrslu og umsókn um framkvæmdaleyfi, einnig voru skilmálar sem tilgreindir voru í greinargerð með deiliskipulagi Brúarvirkjunar gerðir að skilyrðum fyrir framkvæmd. Tiltekið var að í framkvæmdaleyfi skyldi koma fram á hvaða svæðum ætti að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs og skyldi leyfishafi ábyrgjast að í samræmi við skilyrði Skipulagsstofnunar og vöktunaráætlun Náttúrufræðistofnunar Íslands yrði fylgst með afdrifum straumandar, endurheimt birkiskógar í landi Haukadals, endurheimt votlendis í landi Mosfells í Grímsnesi, grunnvatnsstöðu í votlendi, sem og áfoki og rofi á bökkum inntökulóns. Vöktunin skyldi hefjast um leið og framkvæmdir hæfust samkvæmt leyfinu og standa yfir þar til fimm ár væru liðin frá framkvæmdalokum. Sveitarstjórn setti enn fremur sem skilyrði að framkvæmdir skyldu ekki eiga sér stað á hrygningartíma laxa, þ.e. á tímabilinu 1. október til 20. nóvember, og að hafa bæri samráð við landeigendur og eigendur frístundahúsa um leiðir til að draga úr ásýndaráhrifum framkvæmdarinnar. Loks að framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skyldi gefið út til 24 mánaða og skyldi þar gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt væri að nýta og vinnslutíma, til samræmis við þær upplýsingar sem fram kæmu í umsókn, fylgigögnum og gildandi skipulagsáætlunum. Bæri að hafa samráð við Umhverfisstofnun um frágang á efnistökusvæðum. Af framangreindum bókunum er ljóst að sveitarstjórn kynnti sér matsskýrslu framkvæmdaraðila, kannaði hvort framkvæmdin væri sú sem þar er lýst og tók rökstudda afstöðu til álits Skipulagstofnunar, svo sem áskilið er í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá gekk sveitarstjórn úr skugga um að skilyrði þau sem Skipulagsstofnun hafði lagt til væru virt og tók jafnframt á helstu neikvæðu umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með því að setja frekari og viðeigandi skilyrði í ljósi þeirra rannsókna sem fram höfðu farið í kjölfar álits Skipulagsstofnunar. Þær rannsóknir lutu m.a. að varpi straumanda, en Skipulagsstofnun hafði talið óvissu ríkja um áhrif framkvæmdarinnar á fugla, einkum straumendur. Straumendur teljast til villtra dýra og eru friðaðar skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Skal skv. 2. mgr. 6. gr. laganna gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Skal og tekið tillit til þessa við skipulag og landnotkun, sbr. lög um náttúruvernd og skipulagslög. Straumendur verpa hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Eru þær á válista en ekki taldar í hættu. Válistar eru m.a. gefnir út til að uppfylla aðildarskyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu, en Náttúrufræðistofnun Íslands fer með framkvæmd samningsins á Íslandi. Við leyfisveitingu hafði verið upplýst að um líklegt straumandarvarp væri að ræða á áhrifasvæði framkvæmdarinnar og voru gerðar tillögur að vöktun af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

—–

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er tiltekin sérstök vernd tiltekinna vistkerfa, jarðminja o.fl. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er tilgreindum vistkerfum veitt sérstök vernd í samræmi við markmið 2. gr. laganna, sbr. og c-lið 3. gr. þeirra. Þau vistkerfi eru m.a. votlendi 20.000 m² að flatarmáli eða stærri, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra þar sem eru m.a. gömul tré, sbr. b-lið ákvæðisins. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 61. gr. laganna ber að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skal og áður en leyfi er veitt leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Fyrir liggur að hvoru tveggja birkiskógur og votlendi munu skerðast við hina fyrirhuguðu framkvæmd og var gengið út frá því í mati á umhverfisáhrifum og við leyfisveitingu að 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti við. Þurfti því að gæta að þeim ákvæðum er áður greinir.

Við hina kærðu leyfisveitingu lágu fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar, dags. 28. nóvember 2016 vegna breytinga sem gerðar voru á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í þágu virkjunaráforma, og vegna deiliskipulags Brúarvirkjunar. Jafnframt lágu fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum Brúarvirkjunar, sem og umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að auki var við leyfisveitingu leitað umsagnar umhverfisnefndar Bláskógabyggðar, en samkvæmt 4. tl. A-liðar 48. gr. samþykktar nr. 592/2013 um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar fer nefndin með hlutverk náttúruverndarnefndar skv. 14. gr. laga nr. 60/2013. Er umsögnin frá 24. janúar 2018 og kom þar fram að nefndin legðist ekki gegn því að leyfi yrði veitt fyrir framkvæmdinni en legði áherslu á mótvægisaðgerðir. Með vísan til framangreinds verður að telja að skilyrði 3. mgr. 61. gr., sbr. og 1. og 2. mgr. 68. gr., náttúruverndarlaga hafi verið uppfyllt hvað varðaði umsagnir.

Kemur þá til skoðunar hvort færð hafi verið rök fyrir því að brýna nauðsyn hafi borið til framkvæmdarinnar í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun var það svo orðað að tilgangur með virkjun Tungufljóts ofan Brúar væri að auka orkuöflun frá vatnsaflsvirkjunum og bæta þannig stöðu HS Orku á raforkumarkaði. Í matsskýrslu var því bætt við að tilgangur með aukinni orkuöflun væri einnig að stuðla að auknu raforkuöryggi uppsveita Árnessýslu, auk þess sem styrkari staða framkvæmdaraðila á markaði stuðlaði að virkri samkeppni almenningi til hagsbóta. Í mati á umhverfisáhrifum kom fram að Umhverfisstofnun teldi styrkari stöðu framkvæmdaraðila á raforkumarkaði vart teljast til almannahagsmuna og í áliti sínu tók Skipulagsstofnun einnig fram að hún teldi orka tvímælis þann rökstuðning HS Orku að fyrirhugaða framkvæmd mætti færa undir ríka almannahagsmuni. Það teldist vart til ríkra almannahagsmuna að fyrirtækið styrkti stöðu sína á raforkumarkaði eða að RARIK myndi samtímis styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að það teljist ekki til brýnnar nauðsynjar í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 að styrkja stöðu fyrirtækis á markaði þótt það leiði mögulega til aukinnar samkeppni sem e.t.v. yrði almenningi til hagsbóta. Að stuðla að auknu raforkuöryggi er hins vegar málefnalegt markmið og í rökstuðningi skipulagsnefndar, samþykktum af sveitarstjórn, var m.a. vísað til aukins afhendingaröryggis og þess að möguleiki gæfist á „eyjakeyrslu“ þannig að halda mætti afmörkuðum hluta dreifikerfis raforku inni þrátt fyrir umlykjandi rafmagnsleysi. Að auki myndu möguleikar til rafmagnsdreifingar lengra til norðurs aukast, t.d. að Bláfelli vegna endurvarpsstöðvar Neyðarlínunnar. Játa verður sveitarstjórn nokkuð svigrúm til mats á því hvað teljist til brýnna hagsmuna almennings í sveitarfélaginu og kemur fram t.a.m. í opinberri ársskýrslu RARIK fyrir árið 2017 að verið sé að auka afhendingaröryggi til muna á þessu svæði. Að teknu tilliti til þessa verður fallist á að ásættanleg rök hafi verið færð fyrir því að áskilnaði títtnefndrar 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um brýna nauðsyn hafi verið fullnægt.

—–

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir neinir þeir form- eða efnisannmarkar við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða eigi til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

79/2017 Valhúsahæð

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 19. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði á Seltjarnarnesi. Verður kæran skilin á þann hátt að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 31. ágúst 2017.

Málavextir: Hinn 17. ágúst 2016 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði en það svæði hafði ekki áður verið deiliskipulagt. Svæðið nær yfir Valhúsahæð, Plútóbrekku, Bakkagarð, svæði norðan Norðurstrandar frá Austurströnd að Lindarbraut, svæða sunnan Suðurstrandar frá Steinavör að Lindarbraut auk Kirkjubrautar og Skólabrautar. Tillagan var auglýst frá 5. september 2016 með athugasemdafresti til og með 14. október s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda, og svaraði skipulags- og umferðarnefnd þeim athugasemdum ásamt því að koma til móts við hluta þeirra.

Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 14. desember 2016 og voru gögnin send Skipulagsstofnun til umfjöllunar. Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við framsetningu deiliskipulagsins og í kjölfar þess var uppfærð skipulagsgreinagerð samþykkt í bæjarstjórn 24. maí 2017. Deiliskipulagið tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. júní s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi gert athugasemdir við kynningu umrædds deiliskipulags fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði og hafi eftirfarandi athugasemdir ekki verið teknar til greina.

Í fyrsta lagi bendir kærandi á að samkvæmt gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi deiliskipulag að jafnaði að ná til reits eða svæðis sem myndi heildstæða einingu eins og svæði með sömu landnotkun, svæði afmarkað af götum, húsaþyrpingu, svo sem landbúnaðarsvæðum, eða annað sem gefi sameiginlegar forsendur fyrir viðkomandi deiliskipulag. Í deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útisvistarsvæði hafi þessu ákvæði ekki verið fylgt eftir þar sem blandað hafi verið saman húsabyggð og útivistarsvæði.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að byggingarreitir hafi margir verið furðulegir í greinagerð með deiliskipulaginu. Á Skólabraut 4, 8 og 10 séu ekki skráðir byggingarreitir fyrir þegar byggðum húsum, auk þess að gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir framan bílskúra á mörgum stöðum án þess að gert sé ráð fyrir viðbyggingu.

Í þriðja lagi hafi ekki verið gert ráð fyrir einni hæð til viðbótar ofan á húsið Skólabraut 6, sem leyfi sé fyrir samkvæmt uppdráttum frá 1949 og 1950. Uppdrættir sem Seltjarnarnesbær hafi vísað til frá árinu 1972 séu vegna bílskúrs en ekki íbúðarhússins. Því væri eðlilegt að í deiliskipulaginu væri gert ráð fyrir að húsið að Skólabraut 6 mætti vera þriggja hæða, eins og flest önnur hús í kring. Það sé óforsvaranlegt og standist ekki lög að hafna því á þeirri forsendu að uppdrættir séu fallnir úr gildi.

Óskað hafi verið eftir fjölgun bílastæða við Skólabraut 6. Húsið sé tvíbýlishús og einungis með aðkeyrslu að bílskúrum, en engin gestastæði séu á lóðinni. Algengt sé bæði á Skólabraut og Kirkjubraut að hafa gestastæði inni á lóð og séu t.d. allt að sex gestastæði á lóðinni nr. 12 við Skólabraut.

Loks sé það athugavert að umferðaröryggisáætlun kveði á um að kanna skuli skástæði við Skólabraut, en engar opinberar athuganir hafi verið gerðar og kynntar almenningi á þessu svæði varðandi það. Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir beinum bílastæðum samhliða gangstétt norðan við götuna. Slíkt valdi óþarfa hættu fyrir gangandi vegfarendur þar sem innkeyrslur úr bílastæðum húsa séu fyrir. Mun öruggara væri að hafa skástæði norðan við götuna sem myndi einnig fjölga bílastæðum töluvert, líkt og lengi hafi verið talin þörf á, ásamt því að auðveldara yrði að komast í og úr skástæðum. Þá sé hvergi gert ráð fyrir stæðum fyrir stærri bíla, rútur eða bílastæði ætluðu fötluðu fólki.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Umrædd kæra byggi á fimm málsástæðum sem að mati sveitarfélagsins geti ekki raskað gildi hins kærða skipulags, enda sé það hvorki haldið form- né efnisgöllum. Málsástæður kæranda séu efnislega þær sömu og athugasemdir hans sem komið hafi verið á framfæri á fyrri stigum deiliskipulagsgerðarinnar. Þær athugasemdir hafi verið teknar til skoðunar áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt og hafi sveitarfélagið svarað þeim.

Vald til að skipuleggja svæði innan marka sveitarfélags sé í höndum sveitarstjórna og annist þær og beri ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við beitingu valdsins beri sveitarfélögum að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð séu í 1. gr. laganna. Þá séu sveitarstjórnir að auki bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins ásamt því að krafa sé gerð um að ákvarðanir sveitarstjórna byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Telur Seltjarnarnesbær ljóst að framangreindum reglum hafi verið fylgt við gerð umrædds deiliskipulags.

Samkvæmt 1. málsl. gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé gert ráð fyrir að deiliskipulag skuli að jafnaði gera fyrir einstök svæði eða reiti sem myndi heildstæða einingu. Telji sveitarfélagið að umrætt skipulag sé í samræmi við framangreind ákvæði, enda búi fullkomlega lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki afmörkun skipulagssvæðisins, auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á með neinum efnislegum rökum að afmörkun skipulagssvæðisins hafi leitt til réttarspjalla fyrir kæranda eða sé óeðlilegt í skipulagslegu tilliti. Þá séu skilmálar fyrir lóðir á svæðinu skýrir og málefnalegir. Í greinagerð skipulagsins komi fram að við þegar byggð hús við Kirkjubraut og Skólabraut sé ekki gert ráð fyrir breytingum utan þeim sem fylgi almennu viðhaldi og endurnýjun, að undanskildum ákveðnum undanþágum sem upp séu taldar í deiliskipulaginu. Með deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir þeirri breytingu við Skólabraut að gangstétt verði milli götu og lóða við götuna norðanverða. Gangandi vegfarendum geti stafað nokkur hætta af útakstri frá lóðum. Til að stemma stigu við þeirri hættu sé gert ráð fyrir að útaksturssvæði verði auðkennd með minni hellum og takmörkun á breidd inn- og útaksturssvæða. Breytingin sé gerð vegna umferðar gangandi vegfarenda, einkum skólabarna, sem í dag noti götuna sem göngusvæði.

Samkvæmt samþykktum teikningum frá 1968 og 1972 sé ekki gert ráð fyrir hæð ofan á núverandi hús á lóðinni nr. 6 við Skólabraut. Á upphaflegum teikningum að húsinu, samþykktum 19. september 1949, skyldi húsið vera tvær hæðir og ris. Sótt hafi verið um að hafa húsið þriggja hæða árið 1950, en inn á teikningu frá þeim tíma hafi núverandi þak verið handteiknað ofan á aðra hæðina. Hins vegar sé húsið tveggja hæða samkvæmt gildandi uppdráttum fyrir húsið frá 1968 og 1972. Að auki liggi fyrir uppdráttur frá 1996 sem sýni húsið eins og það sé nú. Við gerð deiliskipulagsins hafi verið ákveðið að halda í núverandi yfirbragð byggðarinnar og hafa húsin við Skólabraut almennt tveggja hæða.

Varðandi beiðni kæranda um aukinn fjölda bílastæða á lóðinni Skólabraut 6 vísi Seltjarnarnesbær til þess að nauðsynlegt sé að halda breidd hverrar innkeyrslu í lágmarki til að tryggja umferðaröryggi á götunni. Fjölmennur grunnskóli sé í sömu götu og því séu á svæðinu margir gangandi vegfarendur, einkum skólabörn. Hægt sé að sækja um undanþágu vegna framkvæmda samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skuli bílastæði inni á lóðum gerð í samráði við skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Deiliskipulag það sem um er deilt í máli þessu er að mestu útivistarsvæði en innan þess er núverandi íbúðabyggð, við Kirkjubraut og Skólabraut, sem mótast hefur á liðnum áratugum. Kærandi er búsettur á deiliskipulagssvæðinu og lúta athugasemdir hans varðandi skipulagið að efni þess hvað íbúðabyggðina snertir, auk þess sem fundið er að afmörkun skipulagssvæðisins.

Hið kærða deiliskipulag var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, afgreitt í skipulags- og umferðarnefnd 15. nóvember 2016 og staðfest í bæjarstjórn Seltjarnarness 14. desember s.á. Framkomnum athugasemdum var svarað og þeim sem athugasemdir gerðu voru send þau svör. Ekki verður þó séð að athugasemd kæranda varðandi aukningu bílastæða á lóðinni Skólabraut 6 hafi verið svarað beint. Telst það þó ekki slíkur ágalli að leitt geti til ógildingar deiliskipulagsins. Skipulagið tók síðan gildi að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. Fyrir liggur að skipulagssvæðið liggur að mörkum nærliggjandi deiliskipulagssvæða, myndar eina heild og tekur til fyrrgreindrar íbúðabyggðar, sem lá utan deiliskipulagssvæða. Lágu því skipulagsrök að baki afmörkun skipulagssvæðisins og verður að telja þá afmörkun í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, sbr. og gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda er þar ekki gert að skilyrði að aðeins einn landnotkunarflokkur rúmist innan deiliskipulagssvæðis. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu við Skólabraut umfram heimilaða sólskála og veggsvalir og er mörkum byggingarreita á lóðum við götuna ætlað að mynda bindandi byggingarlínu í tiltekinni fjarlægð frá götu. Er því ljóst að þeir byggingarreitir verða einungis nýttir þegar og ef til endurbyggingar kemur á viðkomandi lóðum. Með hliðsjón af framangreindu var málsmeðferð hins kærða deiliskipulags lögum samkvæmt og eru ekki þeir ágallar á framsetningu skipulagsins sem raskað geta gildi þess

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skjóli þess valds er ákvörðunum skipulagsyfirvalda sveitarfélaga um mótun og þróun byggðar hrint í framkvæmd. Við beitingu skipulagsvalds ber að gæta þess að ákvörðun um deiliskipulag sé í samræmi við heimildir aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með ákvörðuninni.

Ákvörðun um tilhögun bílastæða við Skólabraut samkvæmt umræddu deiliskipulagi lýtur fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna og fyrir þeirri tilhögun hafa verið færð fram rök er snúa að umferðaröryggi. Verður ekki séð að sú tilhögun snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda umfram aðra íbúa skipulagssvæðisins.

Fyrir liggur uppdráttur vegna Skólabrautar 6, sem staðfestur var af byggingarfulltrúa á árinu 1968. Þar er íbúðarhúsið teiknað sem tveggja hæða, eins og það er nú. Af uppdrættinum verður ráðið að hann hafi einungis verið gerður vegna byggingar bílskúrs, en teikning hússins á uppdrættinum hafi eingöngu verið gerð til að sýna innbyrðis afstöðu bygginganna á lóðinni. Það sama á við um staðfestan uppdrátt frá árinu 1972 er sýnir breytingar á bílskúrnum. Á upphaflegum uppdrætti, sem staðfestur var af oddvita Seltjarnarneshrepps 19. september 1949, er húsið teiknað sem tvær hæðir og ris, en á öðrum uppdrætti, sem mun vera frá 13. desember 1950, er það teiknað sem þriggja hæða. Er þar dregin lína milli annarrar og þriðju hæðar á teikningu af suðurhlið hússins, sem óljóst er hvað á að merkja. Hvað sem öðru líður verður að líta til þess að húsið var á sínum tíma byggt sem tveggja hæða og hefur verið það alla tíð síðan. Verður ekki talið að hæð umrædds hús sé í ósamræmi við götumynd svæðisins en hús þar eru ýmist tveggja til þriggja hæða.

Í greinagerð með umræddu deiliskipulagi kemur fram að nauðsynlegt sé að tryggja umferðaröryggi á Skólabraut, enda sé fjölmennur grunnskóli í sömu götu og því mikið um gangandi vegfarendur á svæðinu, einkum skólabörn. Gangandi vegfarendum geti stafað nokkur hætta af útakstri frá lóðum og því sé breidd inn- og útaksturssvæða takmörkuð. Samkvæmt þessu verður að telja að ef bæta ætti við bílastæðum á lóðinni nr. 6 við Skólabraut yrði að breikka aðkomu að lóðinni, sem dregið gæti úr umferðaröryggi og aukið hættu á slysum. Lágu því málefnaleg sjónarmið að baki synjun Seltjarnarnesbæjar á beiðni um fjölgun bílastæða á lóð kæranda, auk þess sem bílastæðafjöldi á lóðinni telst ekki óeðlilegur þegar litið er til annarra lóða sem deiliskipulagið tekur til.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. maí 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði.

132/2017 Garðahraunsvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kæra A og B, Heiðvangi 8, Hafnafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varðar lokun á vegtengingu á milli Herjólfsbrautar og Garðahraunsvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. mars 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi, þ. á m. að loka Garðahraunsvegi til vesturs þannig að ekki verði vegtenging við Herjólfsbraut. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar varðandi umrædda lokun á vegtengingu, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við athugasemdum. Samþykkti nefndin tillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir. Í breytingunum fólst m.a. að neyðarakstur og akstur strætisvagna yrði heimilaður frá Garðahraunsvegi að Herjólfsbraut í báðar áttir. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarráði 14. mars s.á. og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að deiliskipulagsbreytingin sé verulega íþyngjandi fyrir þau og aðra íbúa í nágrenninu. Ástæða þess að loka þurfi umræddri vegtengingu sé óljós og ekki hafi verið færð fram nein rök fyrir lokuninni. Breytingin feli í sér að vegur, sem hafi verið notaður áratugum saman og lagður fyrir opinbert fé, sé ekki lengur í boði fyrir verulegan hluta þeirra sem noti hann daglega. Umferð um hverfi kærenda verði þyngri og erfiðari þar sem lokað sé á mikilvæga tengingu á milli sveitarfélaga. Einnig feli breytingin í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa hverfisins þar sem kærendur búa með tilheyrandi afleiðingum, svo sem lækkuðu verði fasteignar kærenda og annarra fasteigna í nágrenninu. Að mati kærenda sé verið að opna á þróun sem ekki geti talist heppileg þar sem eitt sveitarfélag fari þá leið að loka vegtengingu við annað bæjarfélag án þess að þurfa að taka á nokkurn hátt tillit til hagsmuna íbúa þess sveitarfélags. Þá sé ekki að sjá að samráð hafi verið haft við Vegagerðina í samræmi við áskilnað 4. mgr. 2. gr. vegalaga nr. 80/2007. Verulegar líkur séu á því að umferð um Reykjavíkurveg, sem sé þjóðvegur í skilningi fyrrgreindra laga, muni stóraukast vegna þessara breytinga.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu Garðabæjar er bent á að kærendur séu íbúar í öðru sveitarfélagi. Kærendur vísi til almennra hagsmuna íbúa sem tengist því að umferð geti farið um götur tiltekins svæðis eins og vegfarendum þyki best henta hverju sinni. Slíkir hagsmunir séu almenns eðlis en vandséð sé að kærendur eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem séu skilyrði aðildar að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni. Af þessum ástæðum sé krafist frávísunar málsins.

Um efnishlið máls sé á það bent að fyrirkomulag gatna og umferðarmannvirkja í þéttbýli sé á forræði sveitarfélaganna og falli undir skipulagsvald þeirra. Í skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé gert ráð fyrir því að gerð sé grein fyrir samgöngum og samgöngumannvirkjum í skipulagsáætlunum og að ákvarðanir séu þar teknar um þessi mannvirki. Þá séu í vegalögum ákvæði um forræði á vegum og í umferðarlögum séu heimildir til takmörkunar á notkun slíkra mannvirkja, t.d. með ákvörðunum um einstefnuakstur, bann við tiltekinni umferð og um aðrar takmarkanir á umferð sem lögreglustjóri ákveði að fengnum tillögum sveitarstjórnar hverju sinni. Verði borgararnir að sæta slíkum takmörkunum jafnvel þótt þær kunni að hafa í för með sér óþægindi fyrir þá, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ákvörðun um lokun tengingar Garðahraunsvegar við Herjólfsbraut styðjist við umferðaröryggissjónarmið. Bent sé á að í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sé gert ráð fyrir lengingu Herjólfsbrautar til vesturs og nýrri tengingu þaðan við gatnakerfi Garðabæjar, sem að miklu leyti muni þjóna sama tilgangi og núverandi tenging við Garðahraunsveg. Þá eigi lokunin sér stoð í aðalskipulagi þar sem umrædd tenging sé ekki sýnd á uppdrætti aðalskipulagsins. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi hafi verið við staðfestingu aðalskipulagsins, hafi verið kveðið á um að í aðalskipulagi skyldi gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær, sbr. gr. 4.16.2. Herjólfsbraut verði að teljast meðal helstu umferðaræða og hefði því átt að sýna umrædda tengingu á uppdrætti aðalskipulags ef hún hefði átt að vera til frambúðar. Samkvæmt skipulagslögum skuli gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem stefna þess sé nánar útfærð. Verði deiliskipulag ávallt að vera í samræmi við aðalskipulag og leiði af því að ekki hafi í raun verið heimilt að gera ráð fyrir umræddri tengingu í endurskoðuðu deiliskipulagi svæðisins.

———-

Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Þar er henni andmælt vegna áhrifa á umferð innan Hafnarfjarðar. Vakin er og athygli á að Garðahraunsvegur og Herjólfsbraut séu megin umferðaræðar að Hrafnistu við Hraunvang og að ljóst sé að innbyrðis ósamræmi milli nýsamþykkts aðalskipulags Garðabæjar, deiliskipulags Garðahrauns og deiliskipulags Hleina að Langeyrarmölum hins vegar. Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar hafa að öðru leyti ekki látið mál þetta til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns þar sem gert er ráð fyrir lokun vegtengingar Garðahraunsvegar til vesturs fyrir almennri umferð við Herjólfsbraut.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Hin kærða ákvörðun felur í sér breytingu á vegakerfi í nágrenni húss kærenda, en með breytingunni eru umferðarhömlur settar á umferðarleið að fjölförnum stofnvegi. Verða kærendur því taldir eiga einstaklegra og lögvarinna hagsmuni að gæta í kærumáli þessu og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu Garðabæjar sökum aðildarskorts.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 og Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er Garðahraunsvegur skilgreindur sem „annar vegur“. Ekki er kveðið með beinum hætti á um vegtengingu í nefndum skipulagsáætlunum en á skipulagsuppdráttum sést aftur á móti hvar vegirnir mætast. Hafa verður í huga að ekki er gerð krafa um að á aðalskipulagsuppdrætti eða í greinargerð þess sé gerð grein fyrir öllum atriðum gatnakerfis. Verður og að gera ráð fyrir nokkru svigrúmi við gerð deiliskipulags til nánari útfærslu gatnakerfis, sbr. a-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem kveðið er á um að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir frekari stefnumörkun varðandi útfærslu gatnakerfis. Að því virtu verður litið svo á að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að taka ákvörðun í deiliskipulagi um lokun Garðahraunsvegar til vesturs fyrir almennri umferð, en til þess ber að líta að vegurinn er hvorki stofn- né tengibraut. Hin kærða deiliskipulagsbreyting fer samkvæmt því ekki gegn aðalskipulagi og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því fullnægt.

Í greinargerð umrædds deiliskipulags kemur fram að með nýjum Álftanesvegi hafi Garðahraunsvegur breyst úr stofnbraut í safngötu. Þá hafi gefist tækifæri til að þétta byggðina og skipuleggja íbúðahverfi með opnum svæðum, leiksvæðum og stígum. Í svari bæjarstjórnar við innsendum athugasemdum vegna deiliskipulagsins kemur fram að Garðahraunsvegur hafi lengi borið meiri umferð en hann hafi burði til. Hin þunga umferð um veginn hafi dregið verulega úr búsetugæðum nærliggjandi svæðis. Þá er vísað til þess að gerð hafi verið breyting á tillögunni sem falist hafi í því að heimila gegnumakstur strætisvagna og neyðarbíla. Í greinargerð deiliskipulagsins og svari bæjarstjórnar við athugasemdum hafa því komið fram þau efnisrök sem bjuggu að baki hinni kærðu ákvörðun. Verður að telja að þau sjónarmið hafi bæði verið lögmæt og málefnaleg.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

131/2017 Hrauntunga

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Dalsnes ehf., Fossaleyni 1, Reykjavík, eigandi fasteignarinnar Hrauntungu í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt heimild til að deiliskipuleggja lóðina Hrauntungu fyrir íbúðabyggð. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að málið verði sent aftur til efnislegrar meðferðar hjá bæjaryfirvöldum. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varði lóðina Hrauntungu og að málið verði sent aftur til efnismeðferðar bæjaryfirvaldar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. mars 2018.

Málavextir: Kærandi er eigandi húss og lóðaréttinda á lóðinni Hrauntungu í Garðabæ, en lóðin er um 3,2 ha að flatarmáli. Hinn 29. september 2015 komu fulltrúar kæranda á fund skipulagsnefndar Garðabæjar og greindu frá hugmyndum hans um uppbyggingu á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi en ekki var gert ráð fyrir frekari byggð á lóðinni Hrauntungu. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Gerði hann athugasemd við að ekki væri gert ráð fyrir nýjum byggingum á lóðinni og vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi væri lóðin staðsett á svæði fyrir íbúðabyggð.

Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við framkomnum athugasemdum. Í svari við athugasemdum kæranda segir að fyrrverandi lóðarhafi umræddrar lóðar hafi lagt áherslu á „að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafi lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir sem borist höfðu. Var sú afgreiðsla samþykkt í bæjarráði 14. mars s.á. og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsstjóri Garðabæjar sendi kæranda bréf, dags. 29. september s.á., með svörum við athugasemdum sem borist höfðu. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2017.

Málsrök kæranda: Kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar byggir kærandi á því að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki staðist ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Í 1. mgr. 42. gr. laganna segi m.a: „Senda skal Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal sveitarstjórn senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær.“ Frestur til að gera athugasemdir hafi runnið út 19. október 2016 og því hafi sex mánaða frestur runnið út 19. apríl 2017. Svör við athugasemdum hafi ekki borist fyrr en 9. október 2017, eða tæpum sex mánuðum eftir að fresturinn hafi runnið út. Ekki sé hægt að líta svo á að sveitarfélagið hafi lokið við yfirferð og athugun framkominna athugasemda fyrr en búið hafi verið að senda þeim sem gert hafi athugasemdirnar svör við þeim. Málsmeðferð sé enn fremur í ósamræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Synjun Garðabæjar á beiðni kæranda sé ekki byggð á lögmætum sjónarmiðum. Fyrir það fyrsta standist ekki skoðun það svar sveitarfélagsins vegna athugasemda kæranda að horft sé til áherslna fyrri lóðarhafa um að hafa lóðina óbyggða. Sá vilji hafi hvergi komið fram með formlegum hætti. Fyrri eigandi hafi þó gert ítarlega erfðaskrá og hafi haft mörg tækifæri í gegnum árin til þess að setja slíkar kvaðir á lóðina en það hafi hann ekki gert. Svo virðist því sem verið sé að vitna í meintan vilja aðila sem sé löngu látinn. Það geti ekki talist lögmætt sjónarmið. Það litla sem til sé um samskipti fyrri eiganda við bæjaryfirvöld bendi í raun til þess að vilji hans hafi ekki verið jafn einbeittur og bærinn vilji meina. Það megi sjá af tölvupósti sem bæjarstjóri Garðabæjar hafi sent forsvarsmanni kæranda 26. febrúar 2015. Þar segi bæjarstjórinn að hann hafi rætt við fyrri eiganda um „möguleika á því að þarna yrði leikskóli“ og að á „þessum tíma hugnaðist honum sú hugmynd vel.“ Í öðru lagi leggi kærandi á það mikla áherslu að uppbygging á lóðinni myndi, ef af yrði, fara fram á þann hátt að náttúrunni og umhverfi yrði leyft að njóta sín. Þetta tvennt geti vel farið saman andstætt því sem sveitarfélagið virðist telja. Í þriðja lagi verði að hafa í huga að ástand eignarinnar og lóðarinnar sé nú afar bágborið. Ekki sé því hægt að segja að Garðbæingar fái að njóta náttúrunnar í Hrauntungu. Það sé vandséð hvernig núverandi ástand lóðarinnar komi heim og saman við áherslur sveitarfélagsins.

Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar sé lóðin á svæði sem skilgreint sé sem íbúðasvæði. Í deiliskipulagi svæðisins frá 2003 megi sjá að gert sé ráð fyrir vegtengingu inn á lóðina bæði úr austri og vestri. Lóðirnar í kring hafi allar verið skipulagðar sem íbúðahverfi og búið sé að skipta þeim lóðum upp og skipuleggja þar byggð. Engu að síður megi ráða af svörum sveitarfélagsins vilja til að lóð kæranda verði notuð sem einhverskonar útivistarsvæði eða grænt svæði. Það verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé kæranda að taka á sig að veita slík gæði. Fari það gegn ákvæðum 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga þar sem fram komi að í deiliskipulagi eigi að taka ákvarðanir um lóðir og notkun þeirra.

Rétthafar lóða vestan, austan og norðan við lóð kæranda hafi fengið að skipta upp lóðum sínum og skipuleggja íbúðabyggð, en slíkt sé ekki leyft á lóð hans. Þar sé um að ræða sambærilegar lóðir með sambærilegum kvöðum samkvæmt lóðaleigusamningi. Þar sem lóð hans hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrar lóðir í kring sé um brot á jafnræði gagnvart kæranda að ræða. Um það megi vísa til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og eftir atvikum 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gera verði þá kröfu að slík mismunun byggi á skýrum lagalegum grunni og að viðkomandi stjórnvald geti rökstutt þá ákvörðun ítarlega, en svo sé ekki í þessu tilfelli. Engum formlegum heimildum hafi verið til að dreifa og engar kvaðir hafi verið settar á lóðina í þá veru að hún yrði óbyggð um ókomna tíð.

Í ákvörðun Garðabæjar felist einnig brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið geti vel heimilað kæranda að skipuleggja byggð á lóðinni en jafnframt tekið ákvörðun í skipulagi um verndun náttúru, svo sem kostur væri, frekar en að hafna alfarið eðlilegum tillögum kæranda um að fá að deiliskipuleggja íbúðabyggð á lóðinni.

Málsrök Garðabæjar: Sveitarfélagið telur að ekki liggi fyrir nein kæranleg ákvörðun um að hafna beiðni kæranda um að fá að deiliskipuleggja lóð sína að Hrauntungu í Garðabæ, enda sé sú ákvörðun aðeins liður í meðferð máls. Væri slík ákvörðun aftur á móti til staðar þá hlyti hún að hafa verið tekin fyrir 7. september 2016 og væri þá kærufrestur löngu liðinn. Sama sé að segja um þá ákvörðun að synja athugasemdum kæranda við deiliskipulag fyrir Garðahraun, en þar sé um að ræða ákvörðun sem sé liður í meðferð máls og því ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Verði þetta talið leiða af 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá væri kærufrestur jafnframt löngu liðinn væri á annað borð um kæranlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt framansögðu sæti hin kærða ákvörðun, svo sem henni er lýst í kæru, ekki kæru til æðra stjórnvalds og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Af kröfugerð kæranda verði aftur á móti ráðið að fyrir honum hafi vakað að kæra breytingu á deiliskipulagi fyrir Garðahraun, en auglýsing um þá breytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. október 2017. Verði kæran tekin til meðferðar á grundvelli kröfugerðar kæranda beri allt að einu að vísa frá einstökum liðum í henni sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Í aðalkröfu sé þess krafist að umrædd deiliskipulagsbreyting „verði felld úr gildi og þeim gert að veita kæranda heimild til að deiliskipuleggja lóð sína að Hrauntungu í Garðabæ, fnr. 2072677, fyrir íbúabyggð.“ Úrskurðarnefndin hafi ekki á valdi sínu að mæla fyrir um að veita beri kæranda heimild til að deiliskipuleggja lóð sína heldur sé vald nefndarinnar takmarkað við það eitt að endurskoða lögmæti kærðrar ákvörðunar, sem eftir atvikum geti leitt til þeirrar niðurstöðu að úrskurðarnefndin felli hana úr gildi. Taki þá við réttarástand sem ríkt hafi fyrir gildistöku umræddrar ákvörðunar. Varakrafa kæranda sé sama marki brennd, enda ekki á færi nefndarinnar að leggja fyrir bæjaryfirvöld að taka mál að nýju til efnislegrar meðferðar. Þá sé þrautavarakrafa kæranda þarflaus þar sem hið meira feli í sér hið minna og geti stundum komið til álita að fella kærða ákvörðun úr gildi að hluta til með tilliti til meðalhófs, þyki að öðru leyti vera uppfyllt skilyrði fyrir slíkri niðurstöðu.

Skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórna og verði eigendur landa og lóða almennt að lúta málefnalegum ákvörðunum þeirra í því efni. Hafi kærandi ekki getað haft væntingar til þess að fá auknar heimildir til bygginga á svæði á þeirri forsendu að skipulagi hafi verið frestað vegna sérstakrar óskar fyrrum lóðarhafa um að svæðið yrði áfram nýtt til skógræktar sem hann hafi stundað þar. Breyti þar engu þótt svæðið sé skilgreint sem íbúðasvæði í aðalskipulagi, enda megi á slíkum svæðum gera ráð fyrir opnum svæðum, leiksvæðum, görðum og þjónustulóðum fyrir nærþjónustu án þess að það sé sérstaklega tilgreint á uppdrætti. Þá megi einnig benda á að í lóðarleigusamningi um lóðina Hrauntungu komi skýrt fram að aðeins sé leyfi til að byggja eitt íbúðarhús á lóðinni og að óheimilt sé að reisa aðrar byggingar á landinu.

Með hinu kærða deiliskipulagi sé gerð sú breyting varðandi lóð kæranda að hún sé tekin inn í deiliskipulag svæðisins í stað þess að skipulagi hennar sé frestað. Sé það til samræmis við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, sem ekki geri ráð fyrir að deiliskipulagi sé frestað varðandi tiltekinn hluta skipulagssvæðis, gagnstætt því sem geti komið til álita þegar um aðalskipulag sé að tefla. Þá sé í skipulaginu settur rúmur byggingarreitur á lóðina og heimild til byggingar íbúðarhúss í samræmi við skilgreinda landnotkun svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endurskoðunar lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Hins vegar fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um að leggja fyrir sveitarfélagið að heimila kæranda að deiliskipuleggja umrædda lóð fyrir íbúðabyggð eða að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar að nýju.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er lóðin Hrauntunga á skilgreindu íbúðasvæði. Í skipulagsforsendum aðalskipulagsins kemur fram að í gildandi deiliskipulagi Garðahrauns sé gert ráð fyrir stækkun íbúðahverfis og þéttingu byggðar. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi um árabil reynt að fá umrædda lóð skipulagða fyrir íbúðabyggð, en lóðin er um 3,2 ha að stærð. Ekki verður talið að það gangi gegn aðalskipulagi Garðabæjar að heimila ekki frekari uppbyggingu á umræddri lóð, enda ber sveitarfélagi ekki skylda til þess að skipuleggja frekari uppbyggingu íbúða á öllum lóðum innan skipulagssvæðisins þrátt fyrir að það sé skilgreint sem íbúðasvæði í aðalskipulaginu.

Landeigandi getur á grundvelli 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað en hann á ekki lögvarða kröfu til þess að knýja á um að af breytingunni verði. Líkt og fyrr var rakið hafa sveitarstjórnir víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins.

Á kynningartíma umræddrar skipulagstillögutillögu sendi kærandi inn athugasemdir þar sem hann ítrekaði ósk sína um uppbyggingu íbúðabyggðar á lóð sinni. Í svari sveitarfélagsins við athugasemdum hans segir: „Fyrrverandi lóðarhafi lagði áherslu á að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafði lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Telja verður að við ákvörðun um skipulag tiltekins svæðis geti sveitarfélag ekki látið niðurstöðu sína ráðast af vilja fyrrum lóðarleiguhafa um uppbyggingu á lóðinni. Aftur á móti verður sú afstaða sveitarfélagsins að vilja varðveita þau gæði sem felast í lítt byggðri lóð innan svæðisins í sjálfu sér ekki talin ómálefnaleg.

Deiliskipulag Garðahrauns er frá árinu 2003 og var í því gert ráð fyrir töluverðri uppbyggingu í íbúðahverfi sunnan Álftanesvegar. Deiliskipulaginu hefur frá þeim tíma verið breytt nokkrum sinnum, m.a. var gerð á því veruleg breyting á árinu 2008 vegna nýs Álftanesvegar. Lóðin Hrauntunga var ekki innan deiliskipulagssvæðisins fyrr en við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Í greinargerð breytingarinnar er því lýst að töluverðar breytingar, s.s. á gatnamótum og legu stofnstíga, hafi orðið við endanlega útfærslu á nýjum Álftanesvegi. Sunnan gamla Álftanesvegar, nú Garðahraunsvegar, hafi nýframkvæmdir verið óverulegar og ekki verið byggt á nýjum lóðum, þar sem húsagötur hafi ekki verið fullgerðar, enda hafi sumar tengingar breyst vegna tilgreindra gatnaframkvæmda. Er tiltekið að nefnd atriði hafi m.a. leitt til þess að ákveðið hafi verið að uppfæra gögn skipulagsins í heild, bæði uppdrátt, skipulagslýsingu og skipulagsskilmála. Í deiliskipulagsbreytingunni felst fyrst og fremst breyting á legu gatna. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á deiliskipulagssvæðinu, en þó er gert ráð fyrir einni nýrri lóð við götuna Steinprýði á svæði þar sem uppbygging var fyrirhuguð allt frá gildistöku upprunalegs deiliskipulags árið 2003. Að framangreindu virtu verður ekki á það fallist að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er tekið fram í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar að gert sé ráð fyrir þeim möguleika að lóðinni Hrauntungu, sem og annarri stórri lóð, verði skipt í smærri lóðir með sambærilegu skipulagi og þar sé lýst. Verður að telja að með því móti hafi verið komið í nokkru til móts við óskir kæranda og meðalhófs verið gætt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin þeim form- eða efnisgöllum sem valdið geta ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns.

Mál nr. 14/2011 Akureyri endurupptaka

Með

Ár 2014, fimmtudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 eins og ákvæðið var fyrir breytingu með lögum nr. 131/2011 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7, Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2011 Einar Guðmann,  Hlíðargötu 5, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.  Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. júní 2011, kærði Einar Guðmann, hér eftir nefndur kærandi,  ákvörðun Akureyrarkaupstaðar ,  hér eftir nefndur kærði, sem fólst í setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sem m.a. hefur að geyma ákvæði sem bannar hundahald í Grímsey.  Kærandi krafðist þess að ákvæði það sem bannar hundahald í Grímsey yrði úrskurðað ógilt og hélt því fram að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga og góðrar stjórnsýslu við setningu samþykktarinnar.  Kærði krafðist þess aðallega að kæru málsins yrði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna óskýrleika krafna kæranda og/eða skorts á lögvörðum hagsmunum hans. Til vara krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað vegna aðildarskorts og/eða sökum þess að ákvæði í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað, sem banni hundahald í Grímsey, væri lögmætt og málefnalegt og hefði auk þess hlotið löglega meðferð.

Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011. Úrskurðarorðið var svohljóðandi:

„Staðfest er sú ákvörðun Akureyrarbæjar um að banna hundahald í Grímsey með þeim hætti að hvort tveggja sé bannað að þar dvelji hundur og að þangað komi hundur í heimsókn. Staðfest er að gætt hafi verið þeirra formskilyrða fyrir setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 sem heyra undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vísað er frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey“.

Um kröfur sem nú eru til meðferðar vísast til kafla II.

II.  Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 29. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 4. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Í kæru gerir kærandi grein fyrir að hann hafi einnig sent bréf til Umhverfisráðuneytisins.  Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 14. júlí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu.  Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 11. ágúst 2011.  Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti athugasemdir kæranda fyrir kærða með bréfi, dags. 9. september 2011.  Þann 16. september 2011 barst tölvupóstur frá kærða þar sem áréttuð voru þau sjónarmið sem kærði hafði gert grein fyrir í greinargerð sinni og tekið fram að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir af hans hálfu. Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011 eins og að framan greinir.

Kærandi beindi kvörtun til  Umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt áliti Umboðsmanns frá 19. ágúst 2013 í máli nr. 7024/2012 er frávísun úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir á þeim þætti stjórnsýslukæru kæranda er laut að því hvort 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 um hundahald í Akureyrarkaupstað hefði verið sett með réttum hætti ekki í samæmi við lög.

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. október 2013 var óskað svara við eftirfarandi fyrirspurn:  „Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar var vísað frá nefndinni ágreiningi um hvort  1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar. Segir í forsendum úrskurðarins að nefndin telji sig ekki vera bært stjórnvald til að úrskurða um hvort ráðherra, sem æðsta stjórnvald á viðkomandi sviði, hafi verið skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti umrædda samþykkt um hundahald vegna mögulegra nýmæla í samþykktinni.  Í tilefni af þessari niðurstöðu var óskað að nefndin veitti nánari upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli sú afstaða nefndarinnar væri reist að það falli utan hennar valdsviðs að taka afstöðu til hvort ráðherra hafi við staðfestingu samþykktar sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, gætt ákvæða 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna“.

Svar úrskurðarnefndarinnar við bréfi Umboðsmanns Alþingis er dags. 11. janúar 2013. Í svarinu kemur fram að ákvörðun nefndarinnar hafi byggt á því að Umhverfisráðherra væri æðsti handhafi á því sviði sem málið varðaði og þar með væri úrskurðarnefndin ekki bært stjórnvald til að endurskoða ákvarðanir hans. Niðurstaðan grundvallaðist á þeirri meginreglu sem fram kæmi í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæruheimildir séu til æðri stjórnvalda. Á grundvelli þeirrar meginreglu taldi úrskurðarnefndin sér ekki fært að endurskoða ákvörðun Umhverfisráðherra um hvort leita hefði átt umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti samþykkt þá er málið varðaði.

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar s.l. kemur fram að Umboðsmaður hafi mælst til þess að nefndin tæki mál kæranda fyrir að nýju kæmi fram beiðni um það frá honum.  Slík beiðni hafi komið fram frá kæranda  og er því óskað eftir að nefndin upplýsi hvort beiðnin hafi orðið tilefni frekari viðbragða af hálfu nefndarinnar.

Beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju var áframsend úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með bréfi þeirrar nefndar dags. 19. febrúar 2014 var erindi kæranda endursent úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir með vísan til ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 130/2011 og kynnt að kærandi yrði upplýstur um það.  Byggðist það á því áliti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að ekki væri um nýtt mál að ræða heldur endurupptöku og að ljúka skyldi efnismeðferð málsins hjá því stjórnvaldi sem tók umrædda ákvörðun.

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis sem barst ráðuneytinu 9. apríl 2014 var óskað eftir umsögn um það hvort ráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014.

Með vísan til alls framangreinds er endurupptekin sú niðurstaða nefndarinnar að vísa frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey“.

III.  Málsatvik

Frá málsatvikum er greint í fyrirliggjandi úrskurði nefndarinnar frá 10. nóvember 2011 en þau eru í stuttu máli eftirfarandi:

Akureyrarkaupstaður og Grímseyjarhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag 1. júní 2009.  Við sameiningu sveitarfélaganna var í gildi samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.  Formleg ákvörðun um hundahald í Grímsey liggur ekki fyrir meðal gagna málsins en af gögnum má draga þá ályktun að það hafi verð útbreidd vissa manna að hundahald væri bannað í eynni.  Þann 28. mars 2011 birtist í B-deild Stjórnartíðinda samþykkt nr. 321/2011 um hundahald í hinu sameinaða sveitarfélagi, sem samþykkt hafði verið í Umhverfisráðuneytinu, nú Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, 14. mars 2011.  Í samþykktinni segir í 2. gr. að hundahald sé bannað í Grímsey og þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir en hundahald sé heimilað annars staðar í Akureyrarkaupstað að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum samþykktarinnar.

IV.  Málsástæður og rök kæranda

Ekki verða greindar aðrar málsástæður og rök en mál þetta varðar, þ.e. frávísun nefndarinnar á þeim ágreiningi hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að kynna málið með viðunandi hætti auk þess sem kærði hafi ranglega haldið því fram að bann við hundahaldi hafi verið í gildi í Grímsey í 50 ár. Heldur kærandi því fram að ákvörðun um eldra bann hafi hvorki verið auglýst né samþykkt með lögformlegum hætti og því sé rangt að halda því fram að ekki sé um nýtt bann við hundahaldi í Grímsey að ræða.

Kærandi vísar til ákvæðis 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og kveðst telja að sveitarfélögum og ráðherra sé óheimilt að takmarka eða banna gæludýrahald hafi umsagnar Umhverfisstofnunar ekki verið leitað.

Kærandi telur ákvæðið sem bannar hundahald í Grímsey vera nýmæli og því hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir setningu þess.

Þá gerir kærandi í athugasemdum sínum athugasemd við kosningar um hundahald sem fram fóru í Grímsey vorið 2010 og heldur því fram að þá hafi ekki verið kosið um bann við gestkomandi hundum í eynni og hafi íbúum Grímseyjar ekki verið bent á að einnig stæði til að banna gestkomandi hunda.

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

V.  Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2006 hafi farið fram atkvæðagreiðsla í Grímsey um tillögu um að afnema bann við hundahaldi sem gilt hefði í eynni í 50 ár.  Atkvæði hafi fallið þannig að hlynntir því að leyfa hundahald hafi verið 18 en 41 á móti og því hafi bann við hundahaldi verið áfram í gildi í Grímsey. Þegar Akureyrarkaupstaður og Grímsey hafi sameinast í eitt sveitarfélag á árinu 2009 hafi samþykktir og reglur Akureyrarkaupstaðar tekið gildi í hinu sameinaða sveitarfélagi samkvæmt ákvörðun ráðuneytis sveitarstjórnarmála og hafi engir sérstakir fyrirvarar verið gerðir á hundasamþykkt Akureyrarkaupstaðar við sameininguna. Á fundi samráðsnefndar Grímseyjar í sameiningarferli við Akureyrarkaupstað þann 26. janúar 2010 hafi verið bent á að rétt væri að íbúar í Grímsey kysu aftur um hunda- og kattahald í eynni.  Undir það hafi verið tekið af hálfu framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar á fundi þann 19. febrúar 2010 og á fundi bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar þann 12. maí 2010 hafi spurningar á atkvæðaseðil verið samþykktar. Jafnhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010 hafi farið fram atkvæðagreiðsla samkvæmt 5. mgr. 104 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 meðal íbúa Grímseyjar þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey. Hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið sú að 33 voru andvígir hundahaldi en 20 samþykkir hundahaldi.  Í kjölfar niðurstöðu kosninganna hafi verið gerð drög að nýrri hundasamþykkt fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Hafi ný samþykkt verið rædd á fundum framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar, sem fari með málefni hundahalds í umboði heilbrigðiseftirlitsins, þann 3. og 17. september 2010 og drög að nýrri samþykkt verið send heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til samþykktar.  Samþykkt um hundahald hafi síðan verið afgreidd frá framkvæmdaráði þann 17. nóvember 2010 og aftur þann 10. desember 2010 eftir breytingar í bæjarstjórn.  Tvær umræður hafi farið fram um samþykktina í bæjarstjórn, sú fyrri 7. desember 2010 en hin síðari 21. desember 2010 og hafi samþykktin þá verið samþykkt.  Umrædd samþykkt hafi síðan verið send Umhverfisráðuneytinu til samþykktar og ráðherra samþykkt hana þann 14. mars 2011.  Þann 28. mars 2011 hafi samþykktin verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og þar með tekið gildi.

Í greinargerð kærða segir síðan að samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað hafi farið löglegan feril innan stjórnsýslu bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og hafi hún verið samþykkt af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samþykktin hafi hlotið þá löglegu meðferð sem krafist sé samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Þá kemur m.a. fram í greinargerðinni að samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir geti sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Heimilt sé að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Með vísan til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hafi bann við hundahaldi í Grímsey verið sett í nýja samþykkt um hundahald, sem staðfest hafi verið af Umhverfisráðuneytinu 14. mars 2011 og tekið gildi við birtingu í Stjórnartíðindum 28. mars 2011.  Þá er tekið fram að bann við hundahaldi í Grímsey styðjist við langa hefð og hafi hundahald verið bannað þar í 50 ár.

Varðandi athugasemdir kæranda við atkvæðagreiðsluna í Grímsey frá því í maí 2010 segir í greinargerð kærða að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi öllum þeim sem höfðu lögheimili í Grímsey verið send gögn til kynningar um atkvæðagreiðsluna ásamt þeirri spurningu sem lögð yrði fyrir þá jafnhliða sveitarstjórnarkosningunum og þeir beðnir um að kynna sér málið vel.

Þá segir í greinargerðinni að rétt sé að bann við hundahaldi, sem verið hafi í Grímsey í 50 ár, hafi ekki verið sett í sérstaka samþykkt sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum.  Þess vegna hafi verið nauðsynlegt að verða við vilja íbúanna um að láta fara fram nýja atkvæðagreiðslu árið 2010, þrátt fyrir að atkvæðagreiðsla sama efnis hafi farið fram árið 2006, og setja sérstakt ákvæði í nýja samþykkt um hundahald þar sem vilji meirihluta íbúanna hafi verið hafður að leiðarljósi.

Varðandi hvort leita hafi átt umsagnar Umhverfisstofnunar vísar kærði til þess að Umhverfisráðuneytið hafi ekki stöðu kærða í málinu.

Með tölvupósti bæjarlögmanns Akureyrar,  dags. 11. febrúar s.l. var því komið á framfæri að kærði myndi ekki koma að frekari gögnum í málinu og sæi ekki ástæðu til.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Þegar hefur verið tekin afstaða til krafna kærða í málinu á þá leið að staðfesta þá ákvörðun kærða að banna alfarið hundahald í Grímsey í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011.

Eftir stendur að taka afstöðu til hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og til ágreinings er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

Sveitarstjórnum er heimilt að setja sér eigin samþykktir m.a. sem varða bann eða takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra.  Sé um nýmæli að ræða í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfestir samþykktina.  Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Í málinu er um það deilt af hálfu málsaðila hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011, sem bannar hundahald í Grímsey, sé nýmæli eða ekki og þar með hvort ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfesti samþykktina, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Úrskurðarnefndin hefur engar athugasemdir við framkvæmd setningar samþykktar nr. 321/2011 og telur að gætt hafi verið þeirra formskilyrða sem sett eru fyrir setningu slíkra samþykkta í 1. málslið 2. mgr. og 4. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Vegna málsins óskaði úrskurðarnefndin eftir eftir umsögn um það hvort Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði vegna staðfestingar á samþykktinni og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014. Í svarbréfi ráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar vegna staðfestingar ráðherra á samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað. Einnig segir að „ákvæði 1. tl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kveði á um að sveitarfélögum sé heimilt að banna gæludýrahald í samþykktum sínum. Í reglugerð nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir, sem gildi sem fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaga, sem komi í stað lögreglusamþykktar þar sem lögreglusamþykkt er ekki sett, sé auk þess hundahald í þéttbýli bannað í 30. gr. en sveitarstjórnum heimilað að kveða á um annað fyrirkomulag í sérstökum samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í ljósi framangreindra laga- og reglugerðarákvæða hafi það verið mat ráðuneytisins að 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 ætti ekki við í málinu enda ekki um nýmæli í samþykktum sveitarfélags að ræða“.

Með vísan til alls framangreinds og allra málsatvika telur nefndin ekki unnt að líta svo á að ákvæði í umræddri samþykkt um bann við hundahaldi hafi falið í sér nýmæli og því hafi umhverfisráðherra ekki borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar.  Í málinu liggur fyrir að bann við hundahaldi í  Grímsey hafi verið almennt viðurkennt í u.þ.b. 50 ár hundahaldi í við setningu umræddrar samþykktar. Bannið í eynni byggist þannig á áratuga hefð. Þá liggur fyrir að árið 2006 fór óvefengjanlega fram atkvæðagreiðsla í eynni um tillögu um að afnema bann við hundahaldi.  Atkvæði féllu þannig að meirihluti íbúa var á móti því að afnema bannið. Eftir sameiningu við  Akureyrarkaupstað þótti rétt að íbúar í Grímsey fengju aftur tækifæri til að kjósa um hunda- og kattahald í eynni.  Þann 29. maí 2010 fór fram atkvæðagreiðsla þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey og var sem fyrr meirihluti íbúa því andvígur. Í kjölfar þessa var svo sett samþykkt um hundahald sem deilt er um í málinu. Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið kærða að umrædd samþykkt feli ekki í sér nýtt bann við hundahaldi enda var ekki verið að breyta fyrirkomulaginu heldur staðfesta framkvæmd sem gilt hafði um langt árabil og sem íbúar höfðu kosið um. Þannig hafi ekki verið um nýmæli að ræða.

Með vísan til framanritaðs telur nefndin þannig að umhverisráðherra hafi ekki borið að bera ákvæði samþykktarinnar undir Umhverfisstofnun. Ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir um staðfestingu ráðherra á samþykktinni, felur í sér skyldu fyrir ráðherra til að endurskoða og hafa eftirlit með því að viðkomandi gerningur, í þessu tilfelli samþykkt sveitarfélags, sé lögmætur.  Við staðfestingu á samþykktinni bar ráðherra þannig að gæta þess að hún væri tekin af þar til bærum aðila að undangenginni lögmæltri málsmeðferð. Þá bar ráðherra að gæta þess að samþykktin hefði næga lagastoð og væri í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Þá liggur ekki annað fyrir en að eðlilega hafi verið staðið að kosningum meðal íbúa Grímseyjar um hundahald og kærandi hefur ekki ýnt fram á að framkvæmdin hafi leitt til óeðlilegrar niðurstöðu sem áhrif kunni að hafa haft í málinu. Tekið er undir röksemdir kærða hvað það varðar.  Fyrir liggur að kosningin snérist um bann við hundahald í eynni og felur það í sér að um algjört bann er að ræða.

Í beiðni kæranda um að málið yrði tekið fyrir að nýju var óskað eftir að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Endurupptaka málsins er ekki nýtt mál heldur felur í sér að sama mál er tekið til meðferðar á ný.  Eingöngu er um að ræða endurupptöku á þeim þáttum sem vísað var frá nefndinni í úrskurði hennar þann 10. nóvember 2011. Ekki er unnt að koma að nýjum kröfum og röksemdum í málinu enda hefur nefndin þegar tekið efnislega afstöðu til ágreiningsins.  Nefndin telur sig ekki bæra til að taka afstöðu til þessara krafna.

Úrskurðarorð:

Talið er að ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 feli ekki í sér nýmæli sem leiða hefði átt til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar um samþykktina. Talið er að eðlilega hafi verið staðið að kosningum um hundahald í Grímsey.

Hafnað er að taka afstöðu til hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,j eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                                                        Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 9/25/14

22/2011 Úrskurður um ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu fráveitugjalds á fasteignirnar Vesturgötu 1 og Vesturgötu 121A á Akranesi.

Með

Mál nr. 22/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2012, mánudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2011 Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. gegn Orkuveitu Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. september 2011, kærði Benjamín Jósefsson, f.h. Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds á fasteignirnar Vesturgötu 1 (fastanúmer 210-2451) og Vesturgötu 121A (fastanúmer 210-1116), Akranesi. Varðandi fasteignina Vesturgötu 1, má af gögnum málsins ráða að kæran taki til hluta þeirrar fasteignar, sem auðkenndur er númer 030101. Kærandi gerir þá kröfu að álagning fráveitugjalda á umræddar fasteignir verði felld niður og að úrskurðarnefndin skilgreini mörk milli þjónustugjalds og skatts. Kærði telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds vegna Vesturgötu 1, en féllst á hinn bóginn á að fella niður álagningu fráveitugjalds vegna fasteignar kæranda að Vesturgötu 121.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til innanríkisráðuneytisins, sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 29. september 2011. Barst kæran úrskurðarnefndinni þann 3. október 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðlar vegna vatns- og fráveitugjalda 2011 og afrit úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 6. júlí 1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 4. október 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Sú beiðni var ítrekuð með bréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. og 24. nóvember 2011. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 9. desember 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. desember 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 28. desember 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 30. desember 2011. Þann 30. desember 2011 barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti frá kæranda afstöðumynd vegna Vesturgötu 1, sem kærandi kvað starfsmann kærða hafa komið með til sín þann sama dag. Engin frekari gögn hafa borist vegna málsins.

III. Málsavik

Kærandi er eigandi fasteigna nr. 1 og 121A við Vesturgötu á Akranesi (fastanúmer 210-2451 og 210-1116). Er þar um að ræða 952,0 fermetra eign að Vestugötu 1 og 464,8 fermetra eign að Vesetugötu 121A. Í apríl 2011 sendi kærði kæranda tilkynningu um breytingu á álagningu fráveitugjalda vegna þessara fasteigna og nam álagningin 428.641 kr. vegna Vesturgötu 1 en 182.264 kr. vegna Vesturgötu 121A.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að hluti fasteignar kæranda að Vesturgötu 1 (eignarhluti 030101) sé geymsluskemma frá árinu 1958, sem standi sér sem sjálfstætt hús og að fasteign kæranda að Vesturgötu 121A sé gamall braggi frá árinu 1963. Heldur kærandi því fram að í bæði þessi hús hafi einungis verið lagt rafmagn. Vísar kærandi til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 6. júlí 1998, sem byggði m.a. á ákvæði 3. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Þá segir í kærunni að eðlilegt sé að kærandi krefjist þess að vera undanþeginn fráveitugjöldum vegna fasteignanna tveggja sem málið varðar þar sem ekkert skolp sé til að losa sig við frá þeim.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða vísar kærandi til ákvæða 1. og 2. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 og tekur fram að húseignin að Vesturgötu 1, sem auðkennd sé nr. 030101, sé frá árinu 1958 og að engin áform séu uppi og hafi aldrei verið, af hálfu kæranda, um að tengja hana við fráveitu eða vatnsveitu.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum kærða sé lóðin Vestugata 1 tengd fráveitu. Á lóðinni muni standa tvær eignir, Vesturgata 1 og 1R. Með því að tengja lóðina telji kærði sig hafa uppfyllt ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, þar sem segir að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, eigi rétt á að fá tenginu við fráveitukerfi. Jafnframt að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Þá segir að samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Kærði líti svo á, að með því að lóðin Vesturgata 1 hafi verið tengd við fráveitu hafi kærði uppfyllt lagaskyldur samkvæmt lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna gagnvart kæranda. Hvernig tengingum innan lóðar sé háttað sé alfarið á ábyrgð lóðarhafa og því skuli álagning fráveitugjalda vegna Vesturgötu 1 staðfest.

Kærði gerir jafnframt grein fyrir því í greinargerðinni að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virðist lóðin Vesturgata 121 ekki vera tengd fráveitu og því muni álagning fráveitugjalds vegna þeirrar eignar verða felld niður.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Á grundvelli þess sem að framan er rakið kemur aðeins til úrlausnar í máli þessu ágreiningur um álagningu fráveitugjalds á hluta fasteignar kærða sem stendur við Vesturgötu 1, Akranesi. Samkvæmt gögnum málsins snýr ágreiningurinn að álagningu fráveitugjalds á húseign sem stendur sjálfstæð á umræddri lóð og er skráð sem vöruskemma, 347,2 fermetrar að stærð. Kærandi heldur því fram að umrædd húseign sé ekki tengd vatni og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu kærða.

Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags.

Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við þetta ákvæði sagði jafnframt í frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni.

Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi.

Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.

Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar.

Í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er frárennsli skilgreint sem rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt sé í fráveitur.

Kærandi heldur því fram að önnur tveggja húseigna á lóðinni Vesturgötu 1, Akranesi, sé ekki tengd fráveitu kærða og séu engin áform um að tengja hana fráveitu kærða. Kærði hefur hvoki mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda né sýnt fram á að umrædd húseign sé tengd fráveitu hans og að rennsli frá henni t.d. vegna ofanvatns sé veitt í fráveitu á hans vegum.

Með vísan til orðalags 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og þeirra breytinga sem gerðar voru á orðalagi þess frá því sem lagt var til í upphaflegu frumvarpi að lögunum, sbr. það sem að framan er rakið, telur úrskurðarnefndin að til þess að heimild til álagningar fráveitugjalds eigi við verði að vera verulegar líkur á að viðkomandi fasteign tengist eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Ekki hefur verið sýnt fram á það í máli þessu að umrædd húseign sé tengd eða muni tengjast fráveitu kærða, heldur má þvert á móti ætla að um sé að ræða húseign, sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá. Því telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda og gera kærða að fella niður álagningu fráveitugjalds á þá húseign á lóðinni Vestugötu 1, Akranesi, sem auðkennd hefur verið með númerinu 030101.

Vegna kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin skilgreini mörk milli þjónustugjalds og skatts skal bent á að samkvæmt framansögðu verða fráveitugjöld aðeins innheimt af fasteignum sem tengd eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags og að ákvæðum laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem varða gjaldtöku, er ætlað að tryggja að gjaldheimtan sé í samræmi við veitta þjónustu. Ákvæði um gjaldskrá fráveitu eru í 15. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þar er í 1. mgr. tekið fram að stjórn fráveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið sé á um greiðslu og innheimtu gjalda. Í 2. mgr. er kveðið á um að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar. Einnig er þar kveðið á um að heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna og að heimilt sé að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Þá er í 5. mgr. kveðið á um að gjaldskráin skuli birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á gundvelli framangreinds lagaákvæðis hafa gjaldskrár verið settar fyrir fráveitu á veitusvæðum kærða og þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda nr. 392/2011 um gjaldskrá fyrir fráveitu á veitusvæðum Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstað, samanstóðu fráveitugjöld vegna fasteigna á Akranesi, á tímabilinu 1. maí 2011 til ársloka það ár, annars vegar af fastagjaldi og hins vegar af fermetragjaldi. Fastagjaldið nam á framangreindu tímabili 7.465,37 kr. en fermetragjaldið 288,16 kr. Hefur úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við að fráveitugjöld séu á þennan hátt reiknuð út frá fastagjaldi og fermetragjaldi, en telur jafnframt að mál þetta sé ekki þannig vaxið að tilefni sé fyrir nefndina til að fara ofan í útreikninga kærða á álögðu fráveitugjaldi.

Úrskurðarorð:

Felld er niður álagning Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi á 347,2 fermetra geymsluskemmu í eigu Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., sem stendur á lóðinni Vestugötu 1, Akranesi og auðkennd hefur verið 030101.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                          Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 3/22/12

21/2011 Úrskurður vegna kæru Rakelar Jónsdóttur vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um leyfi til hundahalds.

Með

Mál nr. 21/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2012, mánudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2011 Rakel Jónsdóttir, Fannafold 176, Reykjavík gegn heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 31. október 2011, kærði Rakel Jónsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) frá 1. september 2011, þess efnis að staðfesta ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2011, sem varðar leyfi kæranda til hundahalds. Krefst kærandi ógildingar ákvörðunarinnar en kærði krefst staðfestingar hennar.

II. Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 31. október 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 18. nóvember 2011, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. nóvember 2011. Kærandi gerði athugasemdir, dags. 16. desember 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. dags. 27. desember 2011. Barst úrskurðarnefndinni viðbótargreinargerð frá kærða, dags. 13. janúar 2012.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt leyfi til hundahalds í Reykjavík á árinu 2003 vegna hundsins Blíðu, skráningarnúmer 4504. Í kjölfar kvartana um lausagöngu hundsins í mars 2009 og eftirlitsferðar hundaeftirlitsmanns, þar sem staðreynt var að hundur kæranda var laus fyrir utan heimili hennar, ritaði hundaeftirlitsmaðurinn bréf til kæranda, dags. 19. mars 2009. Í því bréfi var kæranda gerð grein fyrir að borist hefði kvörtun um að hundur hennar ylli nágrönnum ónæði og óþægindum og að við eftirlit hefði kvörtun verið staðfest af hundaeftirlitsmönnum. Í bréfinu var kæranda jafnframt leiðbeint um ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 og að ítrekuð brot á samþykktinni gætu leitt til afturköllunar á leyfi til hundahalds. Fleiri kvartanir bárust yfirvöldum vegna hunds kæranda og ritaði hundaeftirlitsmaður á ný bréf til hennar, dags. 21. júní 2010, þar sem gerð var grein fyrir kvörtunum vegna hundsins. Í bréfinu var athygli kæranda vakin á ákvæðum 13. gr. og 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Í báðum bréfunum var óskað eftir því, að hafði kærandi athugasemdir fram að færa við erindi bréfanna, yrðu þær sendar skriflega til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar innan tveggja vikna frá dagsetningum þeirra. Kvartað var á ný til yfirvalda vegna lausagöngu hunds kæranda í ágúst 2010, svo og í júní og júlí 2011. Fóru hundaeftirlitsmenn í eftirlitsferð þann 16. júní 2011 og ræddu þá við eiginmann kæranda.

Þann 3. ágúst 2011 ritaði hundaeftirlitsmaður, f.h. heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, á ný bréf til kæranda vegna ítrekaðra brota á samþykkt um hundahald og fyrirhugaðrar sviptingar leyfis til hundahalds. Í bréfinu var kæranda gerð grein fyrir kvörtunum sem borist höfðu vegna hundahalds hennar og vísað var til fyrri bréfa hundaeftirlitsmanns til hennar og eftirlitsferðar 16. júní 2011, auk þess sem athygli kæranda var vakin á ákvæðum 13. og 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Í bréfinu sagði að í ljósi endurtekinna brota og engra viðbragða við erindum heilbrigðiseftirlitsins, með bættu hundahaldi, væri fyrirhugað að svipta kæranda leyfi til hundahalds í Reykjavík. Þá var í bréfinu óskað eftir, að hefði kærandi athugasemdir fram að færa við ákvarðanir þær sem bréfið varðaði, yrðu þær sendar skriflega til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins. Engin viðbrögð bárust heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá kæranda vegna þessa bréfs eftirlitsins til hennar. Hundahald kæranda var í framahaldi þessa rætt á fundi kærða þann 1. september 2011. Í fundargerð þess fundar var bókað að lagt hefði verið fram bréf heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. ágúst 2011, og að kærði staðfesti ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins einróma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi kæranda bréfi, dags. 2. september 2011, þar sem henni var gerð grein fyrir samþykkt kærða frá 1. september 2011. Í bréfinu var tekið fram að hefði kærandi athugasemdir eða andmæli fram að færa skyldi þeim komið á framfæri við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins.

Kærandi brást við bréfi heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 2. september 2011, með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2011. Í því bréfi kvaðst kærandi telja að við málsmeðferðina hefði verið brotið gegn ákvæðum 10., 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Jafnframt kvaðst kærandi telja að í bréfinu frá 2. september 2011 hefði henni verið veittur andmælaréttur til málamynda, þar sem þá hefði verið búið að taka ákvörðun í málinu. Af hálfu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var erindi kæranda frá 16. september 2011 svarað með bréfi, dags. 7. október 2011. Í því bréfi var gerð grein fyrir rökum kærða fyrir því að svipta kæranda leyfi til að halda umræddan hund og fram að málið teldist upplýst af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og að kærandi hefði haft nokkur ár til að bæta hundahald sitt án árangurs. Þá var tekið fram að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur í bréfum og hún fengið útskýringar bæði í bréfum og samtölum að hverju kvartanir hafi beinst, auk þess sem vísað hafi verið til þeirra ákvæða í hundasamþykkt sem brotið hafi verið gegn og kæranda verið leiðbeint um kæruheimildir.

IV. Málstæður og rök kæranda

Í kæru kveðst kærandi telja að bæði heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi þverbrotið ákvæði stjórnsýslulaga gagnvart henni og því beri úrskurðarnefndinni að ógilda hina kærðu ákvörðun. Vísar kærandi í því sambandi til bréfs hennar til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur, dags. 16. september 2011, þar sem m.a. kom fram að hún teldi kærða hafa brotið ákvæði 10., 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, svo og 2. mgr. 20. gr. sömu laga, við meðferð málsins. Þá gerir kærandi grein fyrir því að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi svarað bréfi hennar frá 16. september 2011, með bréfi, dags. 7. október 2011, og að í því bréfi hafi verið vísað til bréfa heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 19. mars 2009, 21. júní 2010, 3. ágúst 2011 og 2. september 2011.

Kærandi heldur því fram að henni hafi ekki borist bréf heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. ágúst 2011 og að bréf heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 21. júní 2010, hafi ekki átt við nokkur rök að styðjast. Kveðst kærandi ekki með nokkru móti geta séð að hún hafi notið þess réttar sem stjórnsýslulögin veiti og heldur því fram að þann rétt hefði hún nýtt sér hefði hún vitað að til stæði að svipta hana leyfi til hundahalds. Heldur kærandi því fram að henni hafi hvorki verið veittur andmælaréttur né málið verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því og að þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Kærandi kveðst viðurkenna að hundur hennar hafi sloppið úr gæslu og gengið laus en það hafi aðeins verið algjör undantekning og slys. Þá kveðst kærandi hafi orðið vör við fjölda annarra hunda í hverfinu sem hafi sloppið úr gæslu, komið inn á lóð hennar og gert stykki sín þar. Telur kærandi að sama hljóti að eiga við á lóðum nágranna hennar, sem kvartað hafi undan hennar hundi. Jafnframt viðurkennir kærandi að hundur hennar sé geltinn en bendir á að það séu ekki síður margir aðrir hundar í nágrenninu. Þá heldur kærandi því fram að hundahald hennar hafi verið bætt verulega í árslok 2009, eftir að slaknað hefði aðeins á því fyrr á því ári.

Kærandi kveður að samkvæmt þeim gögnum sem hún hafi fengið send með bréfi frá kærða, dags. 7. október 2011, hafi 15 kvartanir borist til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og lögreglu frá þremur mönnum á þeim tæpu 9 árum sem hún hafi haft hundinn. Gerir kærandi ýmsar athugasemdir við framkomnar kvartanir, en ekki þykir tilefni til að rekja þær athugasemdir sérstaklega í úrskurði þessum.

Í kærunni mótmælir kærandi sérstaklega minnisblaði framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. ágúst 2011 og kveður það vera rangt í veigamiklum atriðum. Heldur kærandi því fram að minnisblaðið sé vítavert þar sem henni hafi ekki verið veittur andmælaréttur í málinu og vegna „þeirra mjög svo einhliða frásagnar og neikvæðu röngu fullyrðinga“ sem þar komi fram. Þá heldur kærandi því ítrekað fram að hún hafi ekki fengið bréf kærða, dags. 3. ágúst 2011, í hendur fyrr en með bréfi kærða til hennar, dags. 7. október 2011. Því hafi hún ekki getað nýtt sér andmælarétt sinn samkvæmt bréfinu fyrir fund kærða þann 1. september 2011 og hafi málið þá ekki verið nægilega upplýst.

Í athugasemdum kæranda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu heldur hún því fram að villandi umfjöllun og útúrsnúninga sé að finna í greinargerð kærða. Nefnir kærandi í því sambandi að kærði haldi því fram að hún hafi ekki nýtt sér andmælarétt vegna bréfa heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 19. mars 2009 og 21. júní 2010 og tekur fram að hún hafi rætt við hundaeftirlitsmann vegna bréfanna og í hvorugu tilvikinu haft minnstu ástæðu til að ætla að hún yrði svipt leyfi til hundahalds í framhaldinu.

Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum að hún hafi enga möguleika haft á því að nýta sér andmælarétt á grundvelli bréfs heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni hafi fyrst borist það bréf með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 7. október 2011, sem var sent eftir að hin kærða ákvörðun var tekin. Kærandi gerir athugasemdir við að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki sent henni í ábyrgðarpósti jafn alvarlegt erindi og það sem bréf heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 3. ágúst 2011, varðaði. Þá heldur kærandi því fram að heilbrigðiseftirlitið verði að bera hallann af því að engin sönnun liggi fyrir um það að hún hafi fengið umrætt bréf á umræddum tíma.

Jafnframt heldur kærandi því fram að ekki liggi fyrir hvenær heilbrigðiseftirlitið hafi tekið ákvörðunina, sem staðfest hafi verið af hálfu kærða með hinni kærðu ákvörðun. Kveður hún að allt bendi til að sú ákvörðun hafi verið tekin 3. ágúst 2011 og heldur því fram að það bendi til þess að enginn andmælaréttur hafi verið veittur áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Kærandi gerir og athugasemd við fundargerð kærða frá 1. september 2011 og kveður hana vera mjög stutta, illa upplýsandi og ófullnægjandi um málið. Bendir kærandi á að svo virðist sem svipting tveggja óskyldra aðila á hundahaldi hafi verið tekin fyrir saman og þar hafi verið um eina ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að ræða sem kærði hafi með einni atkvæðagreiðslu samþykkt einróma. Kveður kærandi það vera ótrúleg vinnubrögð og óréttlát og algjörlega óhæf málsmeðferð að afgreiða tvö óskyld mál sem eitt. Einnig heldur kærandi því fram að andmælaréttur sem kærði haldi fram að henni hafi verið veittur í bréfi, dags. 2. september 2011, eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin sé „auðvitað ekkert annað en skrípaleikur og ekki í neinu samræmi við stjórnsýslulög“. Greinir kærandi frá því að í því bréfi komi skýrt fram að ekki verði tekið neitt tillit til andmæla, heldur veittur kærufrestur til úrskurðarnefndar sem hafi verið óþarft ef ekki hafi verið búið að taka endanlega ákvörðun í málinu.

Enn fremur mótmælir kærandi því sem röngu og villandi að hún hafi ekki bætt hundahald sitt frá árinu 2009, ekki nýtt andmælarétt og viðurkennt ítrekuð brot á samþykkt um hundahald.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að kærandi hafi haft leyfi til hundahalds í Reykjavík fyrir hundinn Blíðu síðan árið 2003 og hafi hún fengið leyfið að því tilskyldu að fara að gildandi reglum um hundahald í Reykjavík. Þá segir að kærandi hafi frá árinu 2009 haft tækifæri til að bæta hundahald sitt og fengið tækifæri til að andmæla kvörtunum en sá andmælaréttur hafi ekki verið nýttur.

Kærði kveður að ítrekað hafi borist kvartanir vegna hundahalds kæranda og heldur því fram að kærandi hafi viðurkennt í kæru sinni brot á hundasamþykkt Reykjavíkur nr. 52/2002 hvað varði bann við lausagöngu og ónæði s.s. vegna gelts. Kærandi hafi hins vegar hafnað tveimur kvörtunum, annars vegar frá 18. júní 2010 og hins vegar 21. apríl 2009. Í þessu sambandi kveður kærði að engin kvörtun hafi borist 18. júní 2010, hið rétta sé að farið hafi verið í eftirlitsferð til kæranda þann 18. júní 2010 vegna kvörtunar sem borist hafi 2. júní 2010 og hafi þá enginn verið heima. Vegna kvörtunar frá 21. apríl 2009 kveður kærði að kærandi hafi sagt í samtali við hundaeftirlitsmann, daginn eftir að kvörtunin barst, að hundurinn væri geltinn og að brýnt yrði fyrir börnum að vera ekki með hann lausan. Jafnframt kveður kærði að kærandi viðurkenni víða í kærunni að hundahaldi hennar hafi verið ábótavant, en tali um að þar hafi verið um undantekningar og slys að ræða, auk þess tali kærandi um að hún hafi bætt hundahald sitt verulega í árslok 2009. Kærða kveðst vera kunnugt um að kvörtunum vegna hundahalds kæranda hafi fækkað eftir 2009 en brot á hundasamþykkt eigi sér hins vegar enn þá stað hvað varði lausagöngu hunds hennar og ónæði af hans völdum.

Vegna fullyrðinga kæranda um að hún hafi ekki fengið í hendur bréf kærða, dags. 3. ágúst 2011, þar sem gerð var grein fyrir að fyrirhugað væri að svipta hana leyfi til hundahalds, segir í greinargerðinni að bréfið sé skráð út úr húsi og vistað í skjalaveri Borgartúns 12-14 og hafi ekki verið endursent kærða frá Íslandspósti. Hafi kærði því engar sannanir á því að umrætt bréf hafi ekki borist kæranda.

Vegna athugasemda kæranda við minnisblað framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. ágúst 2011 hafnar kærði því alfarið að eitthvað komi fram í minnisblaðinu sem ekki eigi við rök að styðjast og gerir grein fyrir því að minnisblaðið sé vinnuplagg þar sem málið sé rakið stuttlega en sé ekki bréf til kæranda.

Gerð er grein fyrir því að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin að undangengnum ítrekuðum staðfestum kvörtunum og samskiptum, bæði formlegum og óformlegum, og hafi kærandi fengið bréf, dags. 2. september 2011, þar sem henni hafi bæði verið veittur andmæla- og málskotsréttur. Í því bréfi hafi kæranda verið gerð grein fyrir hinni kærðu niðurstöðu sem kærði hafi tekið á fundi 1. september 2011 og hafi falið í sér að staðfesta ákvörðun heilbrigðiseftirlits Rekjavíkur um að svipta kæranda leyfi til hundahalds. Kærandi hafi nýtt andmælarétt sinn með bréfi til kærða, dags. 16. september 2011, sem svarað hafi verið með bréfi kærða, dags. 7. október 2011, þar sem bent hafi verið á kæruleið. Kveðst kærði standa við ákvörðun sína og krefst þess að úrskurðarnefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð kærða er m.a. mótmælt fullyrðingum kæranda þess efnis að hún hafi ekki getað gert sér grein fyrir því að brot á hundasamþykkt gæti leitt til afturköllunar leyfis til hundahalds og bent á að í bréfi kærða til kæranda, dags. 21. júní 2010, komi skýrt fram að ítrekuð brot geti leitt til afturköllunar leyfis. Þá er einnig gerð grein fyrir því að í bréfum til kæranda hafi komið fram að andmæli skuli berast heilbrigðiseftirlitinu með skriflegum hætti en það hafi andmæli kæranda ekki gert.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002, með síðari breytingum. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að hundahald sé heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett séu í samþykktinni. Í 20. gr. samþykktarinnar er kveðið á um að ef hundeigandi brjóti gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykktinni sjálfri eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda, geti umhverfissvið afturkallað leyfi hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt gögnum málsins sendi hundaeftirlitsmaður Reykjavíkur kæranda bréf í kjölfar kvartana um hundahald hennar 19. mars 2009 og aftur þann 21. júní 2010. Í þeim bréfum var kærandi upplýst um framkomnar kvartanir og henni kynnt að brot á samþykkt um hundahald í Reykjavík geti leitt til afturköllunar leyfis til hundahalds. Þá var kæranda í báðum bréfunum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum athugasemdum við efni bréfanna.

Þann 3. ágúst 2011 sendi hundaeftirlitsmaður Reykjavíkur bréf til kæranda og var efni bréfsins tilgreint „Ítrekuð brot á hundasamþykkt – fyrirhuguð svifting leyfis“. Í bréfinu var gerð grein fyrir framkomnum kvörtunum og að kvartanir hefðu verið staðfestar. Þá sagði í bréfinu:

„Í ljósi endurtekinna brota og engra viðbragða við erindum Heilbrigðiseftirlits með bættu hundahaldi er fyrirhugað að svifta yður leyfi til hundahalds í Reykjavík“.

Þá var tekið fram í bréfinu að hefði kærandi athugasemdir fram að færa óskuðust þær sendar skriflega til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins, auk þess sem athygli var vakin á heimild 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar.

Kærði kveðst hafa sent kæranda framangreint bréf, dags. 3. ágúst 2011, en kærandi kveðst á hinn bóginn ekki hafa borist bréfið fyrr en afrit þess var sent henni í október 2011. Engin staðfesting hefur verið lögð fram um að bréfið hafi borist kæranda fyrir þann tíma. Engar athugasemdir höfðu borist frá kæranda til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þegar hundahald hennar var tekið til umfjöllunar á fundi kærða þann 1. september 2011. Á þeim fundi var bókað um málið í fundargerð með svohljóðandi hætti:

„6. Svipting leyfis til hundahalds – Fannafold 68 og Fannafold 176. Lögð fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 3. ágúst 2011 og 4. ágúst 2011. Nefndin staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma“.

Þann 2. september 2011 ritaði framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur bréf til kæranda og var efni bréfsins tilgreint „Svifting leyfis til hundahalds“. Í bréfi sagði:

„Á fundi Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 1. september 2011 var tekið fyrir eftirfarandi: Svipting leyfis til hundahalds – Fannafold 176. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. ágúst 2011. Nefndin staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma. Ef þér hafið einhverjar athugasemdir eða andmæli fram að færa við þessar ákvarðanir óskast þær sendar skriflega til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík innan tveggja vikna frá dagsetningu þessa bréfs“.

Þá var kæranda, í bréfinu, einnig leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærandi kom á framfæri athugasemdum við bréf heilbrigðiseftirlitsins frá 2. september 2011 með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2011. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur svaraði athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 7. október 2011. Í upphafi þess bréfs segir:

„Vísað er til bréfs yðar dags. 16. september sl. Þar koma fram fyrirspurnir er varða ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að svifta yður leyfi til að halda hundinn Blíðu skráninganúmer 4504“.

Í niðurlagði bréfsins segir síðan:

„Varðandi framhald málsins þá hafið þér ekki lengur leyfi frá Reykjavíkurborg til að halda hundinn og á hann því að víkja“.

Í kjölfar bréfsins frá 7. október 2011 beindi kærandi kæru máls þessa til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Eins og að framan er rakið ritaði hundaeftirlitsmaður, f.h. heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, bréf til kæranda, dags. 3. ágúst 2011, sem kærandi hafnar að hafa fengið í hendur og sem af hálfu kærða hefur ekki verið sýnt fram á að hafi borist kæranda. Efni bréfsins er að gera kæranda kunnugt um að fyrirhugað sé að svipta hana leyfi til að halda hundinn Blíðu. Hundahald kæranda var tekið til umfjöllunar á fundi kærða þann 1. september 2011 samhliða umfjöllum um hundahald í öðru húsi við götuna sem kærandi býr við. Þar var bókað að lögð væru fram bréf heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. og 4. ágúst 2011. Ekki verður annað ráðið af gögnum kærumáls þess, sem hér er til úrlausnar, en að framlagt bréf, dags. 3. ágúst 2011, sé framangreint bréf hundaeftirlitsmanns til kæranda sem varðaði fyrirhugaða sviptingu leyfis til hundahalds. Þá er ekki að finna neinar upplýsingar, í gögnum kærumálsins, um bréf, dags. 4. ágúst 2011, og telur úrskurðarnefndin að ætla megi að það varði ekki hundahald kæranda.

Á framangreindum fundi kærða þann 1. september 2011 var, auk bókunar um framlagningu bréfa, bókað að kærði staðfesti einróma ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Í bókuninni er hins vegar ekki tilgreint í hverju hin staðfesta ákvörðun felist.

Af gögnum málsins verður því ekki ráðið að þegar hundahald kæranda var tekið fyrir á fundi kærða þann 1. september 2011 hafi legið fyrir bein ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að svipta kæranda leyfi til að halda hundinn Blíðu, heldur aðeins að fyrirhugað væri að svipta hana leyfi til að halda umræddan hund. Þar með telur úrskurðarnefndin að við afgreiðslu kærða á máli kæranda hafi ekki legið fyrir ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sem unnt hafi verið að staðfesta, sem stjórnsýsluákvörðun sem fæli í sér niðurstöðu í máli, og að ekki sé unnt að túlka afgreiðslu kærða á fundinum 1. september 2011 sem ákvörðun um að svipta kæranda leyfi til að halda hundinn Blíðu. Ákvörðun þess efnis að kærandi hefði ekki lengur leyfi frá Reykjavíkurborg til að halda hundinn og vísað var til í bréfi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 7. október 2011, lá því ekki fyrir þegar bréfið var ritað.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að í máli því sem hér er til úrlausnar liggi ekki fyrir ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda um að afturkalla leyfi kæranda málsins til hundahalds á grundvelli ákvæðis 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Þá telur úrskurðarnefndin að tilkynning heilbrigðisyfirvalda í Reykjavík um að fyrirhugað sé að afturkalla leyfið sé ekki kæranleg ákvörðun þar sem hún feli ekki í sér niðurstöðu sem bindi enda á málið, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að kæranleg ákvörðun liggi ekki fyrir í málinu og er kæru málsins þegar af þeirri ástæðu vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kæru Rakelar Jónsdóttur, þar sem kæranleg ákvörðun liggur ekki fyrir.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                                          Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 3/22/12

16/2011 Úrskurður vegna kæru Önnu Margrétar Kristinsdóttur vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að aflífa skuli hundinn Golíat nr. 5126.

Með

Mál nr. 16/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, þriðjudaginn 27. desember, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2011 Anna Margrét Kristinsdóttir, Haukanesi 14, Garðabæ gegn heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 5. september 2011, kærði Anna Margrét Kristinsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnd kærði) frá 29. ágúst 2011, sem kynnt var með bréfi dags. 30. ágúst 2011, þar sem þess er krafist að hundurinn Golíat nr. 5126 verði aflífaður. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en kærði gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 5. september 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í kæru var jafnframt sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. september 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með bréfi, dags. 16. september 2011. Þann 26. september 2011 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um að fresta skyldi réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Greinargerð kærða, dags. 27. september 2011, barst úrskurðarnefndinni og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. október 2011. Kærandi gerði athugasemdir, dags. 31. október 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 2. nóvember 2011. Kærði sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 8. nóvember 2011, þar sem fram kom að kærði teldi ekki tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda, þann 14. júlí 2010, veitt leyfi til hundahalds í Garðabæ nr. 5126 vegna hundsins Golíats. Var leyfið veitt í kjölfar þess að hundurinn hafði verið fangaður óskráður og fluttur í hundagæslu. Þegar gengið var frá skráningu hundsins og hann leystur úr hundagæslunni mun hafa verið brýnt fyrir kæranda að tryggja gæslu hans, svo og annars hunds í hennar eigu, sem einnig hafði verið fangaður. Engu að síður hafa heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis borist kvartanir vegna hundsins. Þann 19. ágúst 2010 var kvartað undan því að hundurinn Golíat og annar hundur í eigu kæranda gengju of mikið lausir í götunni við heimili þeirra og að Golíat hefði náð að glefsa til manns veturinn á undan. Þann 26. maí 2011 var kvartað undan lausagöngu hunda kæranda og því að Golíat hefði náð að glefsa í gangandi vegfarendur. Þann 31. maí 2011 ritaði heilbrigðiseftirlitið kæranda bréf og gerði kröfu um að umræddur hundur færi í skapgerðarmat og að kærandi kæmi í kjölfarið til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu. Engin viðbrögð höfðu átt sér stað vegna bréfs þessa þegar kvartað var undan lausagöngu hundsins þann 9. júní 2011. Í þeirri kvörtun kom fram að sá sem kvartaði hefði fjórum sinnum áður komið óformlegum kvörtunum á framfæri. Aðfaranótt 15. júní 2011 kom tilkynning frá eiganda/umráðmanni hundsins um að hundurinn væri laus, en hann mun hafa skilað sér heim án afskipta dýraeftirlits. Þann 24. júlí 2011 var leitað til lögreglu sökum þess að Golíat, sem þá var laus, hafði bitið í kálfa á konu, sem var á göngu. Heilbrigðiseftirlitið sendi kæranda bréf, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni var gert kunnugt um að hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða sem fyrirhugaður væri 29. ágúst 2011. Þann 3. ágúst 2011 barst einnig kvörtun um lausagöngu hundsins, svo og þann 9. ágúst 2011. Þá var Golíat fangaður af dýraeftirlitsmanni og honum komið fyrir í gæslu. Þann 15. ágúst 2011 var jafnframt tilkynnt til heilbrigðiseftirlitsins að viku fyrr hefði Golíat glefsað í aftanverðan kálfa á manni, sem var á göngu. Sonur kæranda hafði samband við heilbrigðiseftirlitið þann 10. ágúst 2011 sökum þess að hann saknaði hundsins og var hann þá upplýstur um stöðu mála. Upplýsti sonur kæranda þá að kærandi væri erlendis en væntanleg til landsins um miðjan ágústmánuð. Þann 16. ágúst 2011 mætti kærandi til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu vegna Golíats og var þá ákveðið að kæranda léti fara fram skapgerðarmat á hundinum. Þann 24. ágúst 2011 barst heilbrigðiseftirlitinu skapgerðarmat Katrínar Harðardóttur dýralæknis vegna umrædds hunds og þann 25. ágúst 2011 sendi kærandi bréf til kærða þar sem hún gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hundahald kæranda var síðan rætt á fundi kærða þann 29. ágúst 2011 og var þá tekin ákvörðun um að krefjast þess að hundurinn Golíat yrði aflífaður. Var það gert með svohljóðandi bókun:

„Heilbrigðisnefnd telur að hundurinn Golíat nr. 5126 hafi sýnt af sér verulega hættulegt atferli. Ólíðandi sé að hundur sé haldinn sem glefsi til og bíti vegfarendur þegar hann er laus úr gæslu. Með vísun til ákvæða 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000 krefst nefndin þess að dýrið verði aflífað.“

IV. Málstæður og rök kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru sinni að maki hennar hafi gefið fjölskyldunni hundinn Golíat í jólagjöf 2008 og hafi því fylgt mikil hamingja þar sem hundurinn sé einstaklega skemmtilegur og uppátækjasamur. Áföll hafi hins vegar dunið yfir fjölskylduna árið á eftir þegar maki kæranda lést, svo og móðir hennar, besti vinur hennar og tveir nákomnir ættingar. Kveður kærandi að tíminn síðan þessar atburðir gerðust hafi verið hrikalegur fyrir fjölskyldu hennar og að ekki hafi gefist mikill tími fyrir strangt og gott uppeldi á umræddum hundi. Þá kveðst kærandi hafi þurft að fara erlendis í maí sl. og hafi hún ekki komið aftur heim fyrr en 15. ágúst sl. Hafi hún ætlað sér að koma hundinum Golíat og öðrum hundi sem hún eigi, fyrir á hundahóteli, en þá hafi hins vegar legið fyrir sonur hennar yrði atvinnulaus yfir sumarið og hafi hann langað til að hafa hundana hjá sér, auk þess sem fyrirséð hafi verið að elsti sonur hennar yrði mikið á heimilinu með sína fjölskyldu. Kveðst kærandi hafa gert þau mistök að láta reyna á ábyrgð og þroska sona sinna og hafi hún staðið í þeirri trú að allt gengi ljómandi vel í fjarveru hennar, þar sem enginn hafi látið hana vita af vandræðunum sem urðu með hundinn fyrr en lögregla hafði samband við hana í lok júlí.

Í kærunni kveðst kærandi gera sér fulla grein fyrir þeim skaða og vandræðum sem hundurinn hafi valdið. Á hinn bóginn geti hún ekki, eftir allt sem á undan sé gengið, látið svæfa hundinn, „síðustu jólagjöfina frá pabba“. Þess í stað kveðst kærandi geta tekið ábyrgð á þeim málum sem gerst hafi og gert allt sem í hennar valdi standi til að gera góðan og sómasamlegan hund úr Golíati og tryggt umhverfið sem hann búi í. Kærandi kveðst hafa talað við eiganda hundaskólans Gallerí voff, sem sé tilbúinn til að aðstoða kæranda við mjög stranga þjálfun á Golíati, sem muni standa eins lengi og það taki að gera góðan hund úr honum. Þá gerir kærandi grein fyrir því að hún hafi fengið dýralækni til að skoða hundinn, þar sem hann dvelji nú í gæslu, til að gera á honum skapgerðarmat. Kveður kærandi það vera mat dýralæknisins að Golíat sé góður hundur og sjái dýralæknirinn engin merki um geðveiki hjá honum. Þá telji dýralæknirinn að hundurinn eiga við hegðunarvandamál að stríða og að hann sé meðal annars að vernda yfirráðasvæði sitt með hegðun sinni. Hafi dýralæknirinn ráðlagt kæranda að láta gelda hundinn og myndi hann þá róast.

Kærandi lýsir því jafnframt í kæru sinni að Golíat sé góður og skemmtilegur hundur, sem sé fljótur að læra og kveðst hún ekki efast um að hægt sé að gera úr honum enn þá betri hund, sem ógni ekki umhverfi sínu. Hann sé virkilega snjall og kunni því miður að opna allar dyr. Það hafi verið eitt helsta vandamálið tengt honum, en verði leyst með því að snúa öllum snerlum á útihurðum lóðrétt, halda öllum útidyrum læstum og setja á þær öryggiskeðjur. Þá kveðst kærandi vera með stóra og góða hundagirðingu þar sem hundar hennar fái að valsa inn og út og leika sér, en því miður hafi verið allt of mikið um að börn úr nágrenninu hafi verið að opna girðinguna og hleypa hundunum út. Kveðst kærandi geta leyst það vandamál með góðum hengilás og keðju. Enn fremur kveðst kærandi hafa sest niður með börnum sínum og gert þeim grein fyrir alvöru málsins. Kveður hún þau vera tilbúin til að vinna hörðum höndum við hlið hennar að uppeldi og gæslu hundsins. Sjálf kveðst kærandi sjá fram á rólegri tíma og meira jafnvægi í lífi fjölskyldunnar og að hún geti gefið sig alla að uppeldi hundsins.

Í athugasemdum kæranda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu ítrekar hún þau sjónarmið sem komu fram í kæru hennar, auk þess sem hún gerir beinar athugasemdir við greinargerð kærða í sex tölusettum liðum. Í fyrsta lagi kveður kærandi lýsingu á afskiptum dýraeftirlitsmanns þann 30. júní 2010 ekki vera rétta hjá kærða. Það rétta sé að dýraeftirlitsmaðurinn hafi hringt í hana og hún þá verið sannfærð um að hundar hennar væru heima þar sem hún hafi verið nýbúin að gefa þeim að borða og setja þá út í girðingu. Hafi hún því miður ekki áttað sig á því í símtalinu við dýraeftirlitsmanninn að barn úr nágrenninu hafi verið búið að hleypa hundum hennar úr girðingunni. Í öðru lagi vekur kærandi athygli á því að á einum stað hafi kærði í greinargerð sinni talað um að hundurinn hafi glefsað „til“ en ekki glefsað „í“ viðkomandi. Í þriðja lagi tekur kærandi fram að skýringin á því, að hundur hennar hafi ekki verið látinn í skapgerðarmat í lok maí sl. og að engin viðbrögð hafi fengist við bréfi heilbrigðiseftirlitisins til hennar þess efnis, sé sú að hún hafi verið erlendis á þeim tíma og ekki fengið bréfið í hendur. Í fjórða lagi vekur kærandi athygli á að kærði kveðist hafa fengið upplýsingar um að alvarlegt hundsbit hafi átt sér stað þann 24. júlí 2011 en í lögregluskýrslu um þann atburð segi að sárið hafi verið lítið en talsvert mar í kring. Þá gerir kærandi í fimmta lagi athugasemd við birtingu bréfs heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 3. ágúst 2011, sem birt var af stefnuvotti. Í sjötta lagi gerir kærandi athugasemd við að í greinargerð kærða segi: „Dýrið virðist ekki árásargjarnt undir stöngu eftirliti. Í báðum tilfellum var dýrið undir strangri gæslu. Ekki er hægt að yfirfæra þær aðstæður á venjulegar aðstæður á heimili“. Athugasemdir kæranda eru að í fyrra tilfellinu hafi hundurinn verið heima hjá sér með syni kæranda og dýraeftirlitsmanni. Í hinu tilfellinu hafi hundurinn verið með dýralækni sem ekki hafi annast hann áður. Kemur kærandi því á framfæri að hún vilji gjarnan fá tækifæri til að vera með hundinum ásamt dýralækni og hundaþjálfara á heimili sínu og láta meta hann bæði í hans umhverfi og annars staðar.

Þá tekur kærandi fram í athugasemdum sínum að hundurinn Golíat sé búinn að vera þrjá mánuði vistaður á hundahóteli á Leirum. Þar sé mikið af ókunnugu fólki bæði að koma og fara á hverjum degi og hafi hundurinn ekki sýnt því nokkra grimmd. Einnig hafi hundurinn á þeim tíma haft hátt í fjörutíu mismunandi hunda sitt hvoru megin við sig og fylgi því mikið áreiti. Greinir kærandi jafnframt frá því að umsjónarmaður á hundahótelinu hafi sagt henni að hann teldi næsta líklegt að Golíat kæmi ekki til með að bíta eða glefsa í nokkurn mann framar og að hann hafi hvorki sýnt grimmd né árásargirni.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt gögnum kærða hafi kærandi haldið tvo hunda á heimili sínu í Garðabæ. Fyrri hundurinn hafi verið skráður þann 28. janúar 2003, en sá seinni, þ.e. hundur sá sem mál þetta varðar, hafi verið skráður þann 14. júlí 2010. Kvartanir um lausagöngu og ónæði vegna hunds kæranda hafi borist árin 2005 og 2007, hafi dýraeftirlitsmaður þá farið á vettvang og svo virst sem málin hefðu skánað. Á árinu 2010 hafi kvartanir borist á ný og hafi hundarnir þá verið orðnir tveir og af þeim stafað ógn að sögn íbúa. Eftirlitsmaður hafi ítrekað haft samband við húsráðanda vegna kvartana og kröfur verið gerðar um úrbætur. Þann 30. júní 2010 hafi dýraeftirlitsmaður fengið ábendingu um lausagöngu hunda kæranda og farið á vettvang. Kærandi hafi þá ekki saknað hunda sinna og vísað kvörtununum á bug. Eftirlitsmaðurinn hafi hins vegar í beinu framhaldi fundið hunda á flækingi, náð að handsama þá og flytja í hundageymslu. Hafi komið í ljós að hundarnir tilheyrðu kæranda, hafi þeir verið sóttir, auk þess sem Golíat, sem þá var tveggja ár gamall, hafi verið skráður. Brýnt hafi verið fyrir kæranda að tryggja gæslu hundanna. Þann 19. ágúst 2010 hafi borist ábending símleiðis um að lausaganga umræddra hunda væri enn til staðar og greindi kvartandi frá því að yngri hundurinn hefði glefsað til hans en nokkur tími væri liðinn frá þeim atburði. Hafi eftirlitsmaður á ný haft samband við kæranda og óskað eftir úrbótum. Síðan segir í greinargerðinni að í maí 2011 hafi farið að berast ítrekaðar kvartanir um lausagöngu Golíats og ógnanir af hans hálfu. Hafi heilbirgðiseftirlitið krafist þess í bréfi til kæranda, dags. 31. maí 2011, að Golíat yrði látinn í skapgerðarmat og að kærandi kæmi til fundar um aðgerðir til úrbóta. Engin viðbrögð hafi orðið við bréfinu. Þann 24. júlí 2011 hafi lögreglu borist tilkynning um að kona hafi verið bitin af hundi, þar sem hún hafi verið á göngu í götu þeirri sem kærandi býr við. Samkvæmt þeim upplýsingum sem heilbrigðiseftirlitið fékk frá lögreglu hafi verið um alvarlegt bit að ræða og enginn vafi á hvaða hundur hafi verið að verki.

Í greinargerðinni segir síðan að þann 28. júlí 2011 hafi framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins og dýraeftirlitsmaður farið á heimili kæranda vegna málsins. Kærandi hafi ekki verið heima en sonur hennar hafi tekið á móti þeim sem þar mættu. Við skoðun hafi Golíat ekki virst vera óöruggur eða árásargjarn inni í húsinu í návist þriggja fullorðinna. Sonur kæranda hafi greint frá því að í fjarveru kæranda væri hundurinn í umsjón bróður hans. Samkvæmt greinargerðinni var alvarleiki málsins brýndur fyrir syni kæranda og honum falin skilaboð um að bróðir hans hefði samband. Auk þess hafi dýraeftirlitsmaðurinn lesið skilaboð inn á síma bróðurins þann 2. ágúst 2011 um að hafa samband. Við skilaboðunum hafi hins vegar ekki verið brugðist. Með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, sem heilbrigðiseftirlitið hafi sent bæði kæranda og syni hennar, umsjónarmanni hundsins, með stefnuvotti, hafi þeim verið tilkynnt að heilbrigðiseftirlitið teldi hundinn vera hættulegan vegfarendum og að um alvarleg og ítrekuð brot hafi verið að ræða á samþykkt nr. 154/2000 um hundahald. Jafnframt hafi í bréfinu verið upplýst um ákvæði 14. gr. samþykktarinnar og að kærði myndi taka mál hundsins Golíats fyrir á ráðgerðum fundi sínum þann 29. ágúst 2011 ef mál tengd honum yrðu ekki leyst fyrir þann tíma. Þá kveður kærði að kvartanir um lausagöngu hafi haldið áfram að berast. Þann 9. ágúst 2011 hafi dýraeftirlitsmaður náð að handsama Golíat í lausagöngu og hafi heilbrigðiseftirlitið þá ekki talið fært að afhenda hundinn í ljósi þess sem á undan hafi gengið. Hafi hundinum því verið komið fyrir í gæslu, þar sem hann sé enn og greinir kærði frá því að hundurinn hafi einu sinni á vörslutímabilinu bitið í kálfa dýrahirðis.

Þá gerir kærði grein fyrir því í greinargerðinni að kærandi hafi með erindi til heilbrigðiseftirlitsins lýst aðstæðum sínum og farið fram á að fá Golíat til baka í trausti þess að hægt yrði að gera góðan hund úr honum með þjálfun frá heimili hans. Kærði kveðst hafa tekið mál Golíats fyrir á fundi þann 29. ágúst 2011. Samkvæmt 11. gr. samþykktar um hundahald hafi kærði heimild til að krefjast aflífunar hafi hundur bitið mann og/eða sé hættulegur. Þá kveður kærði að það sé mat kærða að bæði skilyrðin eigi við í tilviki Golíats og því sé krafist aflífunar hans. Það sé mat kærða að hegðunarvandamál dýrsins séu mjög alvarleg og vísar kærði í því sambandi til kvartana um glefs, bit sem gerð sé grein fyrir í lögregluskýrslu og atviks varðandi dýragæslumann.

Um ályktanir dýralæknis samkvæmt vottorði frá 23. ágúst 2011 segir í greinargerðinni að ályktunum dýralæknisins beri saman við heimsókn starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili kæranda þann 28. júlí 2011. Hundurinn virðist ekki árásargjarn undir ströngu eftirliti, en bæði þegar starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi farið á heimili kæranda og þegar dýralæknirinn hafi gert skapgerðarmat á hundinum hafi hundurinn verið undir strangri gæslu sem ekki sé hægt að yfirfæra á venjulegar aðstæður á heimili. Kærði hafi metið hegðunarvandamál hundsins þannig að hann væri hættulegur ókunnugu fólki og fólki sem hann kæmi að óvörum. Að mati kærða skipti þá ekki máli hvort að um hegðunarvandamál sé að ræða eða grimmd.

Í greinargerð kærða segir einnig að kærði geti á grundvelli 14. gr. samþykktar um hundahald, sé um alvarleg eða ítrekuð brot á samþykktinni að ræða, afturkallað skráningu, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað viðurkenndum af eftirlitsaðila og látið fjarlægja hundinn. Í tilviki Golíats hafi kærði talið að um alvarlegt og ítrekað brot hafi verið að ræða og því verði að fjarlægja hundinn til að tryggja öryggi almennings. Hundur sem hlaupi ógnandi að fólki, losni hann úr gæslu, sé hættulegur og óverjandi að almenningur búi við þær aðstæður. Þá er tekið fram að við það að hundur ógni vegfaranda skapist hræðslu sem geti leitt til alvarlegra slysa t.d vegna falls. Jafnframt segir að þegar hundur hafi komist upp með að glefsa til fólks og bíta sé ekki nægjanlegt að breyta aðeins um umhverfi hundsins og í tilviki Golítas nægi að vísa til hegðunar hans í dýrageymslu. Þá segir að með vísan til meðalhófsreglu hafi kærði talið rétt að banna ekki kæranda að halda hund á eftirlitssvæðinu og sé það gert í trausti þess að tekið verði að festu við að hindra lausagöngu hins hundsins í eigu kæranda.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Í 1. gr. samþykktarinnar segir að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæmi Bessastaðahrepps, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs með skilyrðum samkvæmt samþykktinni.

Í 10. gr. samþykktar nr. 154/2000 er kveðið á um að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri og geti eftirlitsaðili krafist þess að eigandi hunds sæki hlýðninámskeið með hund sinn ef ástæða þyki til.

Þá segir í 11. gr. samþykktar nr. 154/2000 að hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skuli hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Enn fremur segir í þeirri grein að hafi hundur bitið mann og/eða sé hættulegur geti eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður. Óski hundeigandi þess skuli leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkenni, áður en ákvörðun um aflífun sé tekin.

Í 14. gr. samþykktar nr. 154/2000 segir síðan að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðun hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráningu, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.

Í máli því sem hér er til úrlausnar hefur ítrekað verið kvartað til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis yfir því að hundurinn Golíat sé laus, hann ógni fólki og gelfsi eða bíti í fólk. Á tímabilinu maí til ágúst 2011 bárust a.m.k. sex slíkar tilkynningar til yfirvalda. Á því tímabili dvaldi kærandi erlendis en hafði falið 18 ára gömlum syni sínum að annast hundinn og hafa eftirlit með honum. Kærandi hefur sjálf viðurkennt að það hafi verið mistök af hennar hálfu að fela syninum að bera ábyrgð á hundinum þennan tíma.

Heilbrigðiseftirlitið skrifaði tvö bréf til kæranda, dags. 31. maí og 3. ágúst 2011, og fór auk þess á heimili hennar þann 28. júlí 2011. Í fyrra bréfinu er vísað til þess að heilbrigðiseftirlitið hafi fengið kvartanir vegna lausagöngu Golíats, ógnana sem gangandi vegfarendum stafi af honum og þess að hann hafi glefsað til vegfaranda. Segir í bréfinu að nauðsynlegt sé að Golíat fari í skapgerðarmat hjá þar til bærum aðila og í framhaldi þess mæti eigandi hans til heilbrigðiseftirlitsins til að kynna og fara yfir þær ráðstafanir sem gera þurfi til að koma í veg fyrir að atburðir þeir sem kvartað hafi verið yfir endurtaki sig. Í síðara bréfinu segir að heilbrigðiseftirlitið telji ljóst að hundurinn Golíat sé hættulegur vegfarendum og sé um að ræða alvarleg og ítrekuð brot á samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ. Þá segir að kærði muni taka mál hundsins fyrir á ráðgerðum fundi sínum þann 29. ágúst 2011 hafi mál tengd hundahaldinu ekki verið leyst fyrir þann tíma og er kæranda og umráðamanni hundsins veitt tækifæri til að grípa til viðeigandi ráðstafana svo ekki verði þörf á frekari ákvörðun af hálfu kærða.

Eins og að framan greinir var kærandi stödd erlendis þegar framangreind bréf voru send henni. Bárust bréfin af þeim sökum ekki til hennar og hún brást ekki við efni þeirra fyrr en hún kom til landsins nokkrum dögum eftir að Golíat hafði verið handsamaður af dýraeftirlitsmanni og fluttur í dýragæslu í ágúst 2011. Umráðamaður hundsins sinnti ekki heldur efni framangreindra bréfa né heldur skilaboðum sem lögð voru fyrir hann um að hafa samband við eftirlitsaðila.

Strax og kærandi kom til landsins, um miðjan ágúst 2011, setti hún sig í samband við heilbrigðiseftirlitið, sem veitti henni samskonar tækifæri og fólust í framangreindum bréfum eftirlitsins til hennar. Var henni gefinn kostur á að koma til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu og láta gera skapgerðarmat á hundinum, auk þess sem henni var veitt tækifæri til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri áður en mál hundsins og hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða.

Kærandi nýtti þau tækifæri sem henni voru veitt og leitaði hún til Katrínar Harðardóttur, dýralæknis, sem framkvæmdi skapgerðarmat á Golíat þann 23. ágúst 2011. Í vottorði sem dýralæknirinn gaf út af því tilefni segir:            „Það vottast hér með að ofangreindur hundur hafi farið í skapgerðarmat í dag á Hundahótelinu Leirum. Samkvæmt eiganda hefur hundurinn sloppið af heimilinu og glefsað í hælana á tveimur manneskjum. Við skoðun virðist hundurinn vera sjálfsöruggur og vakandi fyrir umhverfinu. Hann sýnir engin merki um grimmd við veruleg áreiti frá minni hálfu. Hann var ekki óöruggur eða árásargjarn þegar var hlaupið að honum eða burt frá honum. Ég tel að glefsið sé frekar hegðunarvandamál en grimmd. Það er mitt álit að hundurinn hefur ekki fengið nægilegt uppeldi og þjálfun. Til þess að minnka áhuga hundsins á að strjúka af heimilinu ætti að gelda hann. Einnig tel ég að hann hefði gott af því að fara á hlíðni námskeið hjá hundaþjálfara.“

Í máli þessu verður ekki framhjá því litið að samkvæmt gögnum málsins hefur ítrekað verið kvartað til yfirvalda vegna hundsins Golíats og ítrekaðra brota á framangreindu ákvæði 10. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000, þar sem m.a. er kveðið á um að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu og óþægindum. Þá hafa einnig komið upp ítrekuð tilvik þar sem hundurinn hefur glefsað í fólk og jafnvel bitið og verður hann því að teljast hættulegur í skilningi framangreindrar 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000. Hafa yfirvöld ítrekað þurft að hafa afskipti af hundahaldi kæranda og hefur af þeirra hálfu verið brýnt fyrir kæranda að tryggja gæslu hundsins.

Fyrir liggja upplýsingar um að uppeldi hundsins Golíats hafi lítið sem ekkert verið sinnt og verður það að teljast ámælisvert þegar um þriggja ára gamlan hund er að ræða. Þá er ljóst, samkvæmt því sem að framan er rakið, að kæranda hefur ekki tekist að tryggja gæslu hundsins. Einnig má ljóst vera þegar litið er til hinna ítrekuðu brota á samþykkt um hundahald nr. 154/2000, þess að hundurinn hafi ítrekað glefsað í fólk og einnig bitið, að hundurinn hafi ógnað fólki. Telur úrskurðarnefndin það ekki geta haft áhrif á úrlausn málsins hvort þá ógn megi rekja til hegðunarvandamála hundsins, sem orðinn er þriggja ára gamall, eða grimmdar af hans hálfu. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta skuli hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þess efnis að aflífa skuli hund Önnu Margrétar Kristinsdóttur, Golíat, sem skráður er nr. 5126.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                 Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 1/11/12

18/2011 Úrskurður vegna kæru Sigurbjörns Hjaltasonar á ólöglegri förgun úrgangs í flæðigryfju á Grundartanga.

Með

Mál nr. 18/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2011 Sigurbjörn Hjaltason,  Kiðafelli 2, Kjósarhreppi gegn heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júlí 2011, kærði Sigurbjörn Hjaltason (hér eftir nefndur kærandi) ólöglega förgun úrgangs í flæðigryfju á Grundartanga. Kæru sinni beindi kærandi til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 1. september 2011, þar sem fram kom að nánar tiltekið væri um að ræða kröfu um að meðhöndlun úrgangs og spilliefna á Grundartanga yrði í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Á þeim grundvelli og samkvæmt ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs leit úrskurðarnefndin svo á að kæran beindist að heilbrigðiseftirliti Vesturlands (hér eftir nefnt kærði). Af hálfu kærða er því haldið fram að málinu sé lokið af hans hálfu þar sem engin gögn sé að finna á viðkomandi svæði og engin merki um að urðun hafi þar átt sér stað.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni, eins og fyrr segir til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 1. september 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. september 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 14. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. september 2011. Auk framangreindra gagna er meðal gagna málsins bréf Umhverfisstofnunar, dags. 19. júlí 2011, sem stofnunin sendi umhverfisráðuneytinu að ósk ráðuneytisins áður en ráðuneytið framsendi kæru málsins til úrskurðarnefndarinnar.

III. Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum munu málsatvik hafa verið með þeim hætti að kærandi varð var við urðun bíldekkja á Grundartanga á svæði sem hann taldi vera flæðigryfju. Var upplýsingum þess efnis komið á framfæri við Umhverfisstofnun þann 24. júní 2011. Umhverfisstofnun setti sig í samband við Norðurál á Grundartanga og fékk þaðan upplýsingar um að umrædd urðun hefði átt sér stað á svæði utan við athafnasvæði Norðuráls, nánar tiltekið á svæði Faxaflóahafna sem ekki væri afgrit. Umhverfisstofnun mun þá hafa framsent erindið til hafnarstjórnar Faxaflóahafna og heilbrigðisnefndar Vesturlands. Af hálfu heilbrigðiseftirlitins var farið á vettvang þann 28. júní 2011 og hafði hreinsun þá farið fram.

IV. Málsátæður og rök kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann, ásamt tveimur öðrum einstaklingum, hafi orðið vitni að urðun bíldekkja í flæðigryfju Faxaflóahafna á Grundartanga. Kveður kærandi að álver Norðuráls hafi samkvæmt starfsleyfi heimild til að urða úrgang í flæðigryju, en sú heimild taki ekki til endurvinnanlegs úrgangs. Þá kveður hann að óljóst sé hverjir aðrir kunni að hafa slíkt leyfi og að ekki sé vitað að flæðigryfjan hafi sérstakt starfsleyfi sem feli í sér heimild til urðurnar á sorpi, heldur sé rekstur hennar inni í starfsleyfi Norðuráls.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur fram að kærandi geri sér ekki fulla grein fyrir af hverju mál hans sé til úrskurðar hjá úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og tekur fram að ekki verði séð að um ágreining sé að ræða. Síðan segir kærandi að, að því gefnu að Norðurál hafi ekki notað umrædda flæðigryfju og að umrætt svæði tilheyri Faxaflóahöfnum, þá sé ágreiningslaust að Faxaflóahafnir hafi enga heimild til urðunar úrgangs á viðkomandi hafnarsvæði. Kveður kærandi það vera eðlilega niðurstöðu málsins að kærði grípi til viðurlaga gagnvart Faxaflóahöfnum vegna ólöglegrar förgunar og stöðvi þá þegar alla losnun í umrædda flæðigryfju/fyllingarsvæði, auk þess sem fyrirtækinu verði gert að sækja um starfsleyfi fyrir áframhaldandi losun á svæðinu. Þá kveður kærandi að upplýst hafi verið að ýmsum „burðarhæfum“ úrgangi sé fargað í flæðigryfjuna/fyllingarsvæðið og að ótækt sé að fyrirtækið hafi frjálsar hendur í þeim efnum án gildra leyfa og eftirlits.

Í athugasemdunum segir kærandi jafnframt að samkvæmt myndum sem teknar hafi verið með þriggja vikna millibili sumarið 2011 sé ljóst að urðun í flæðigryfjuna/fyllingarsvæðið hafi verið eftirlitslaust um langt skeið og með öllu óljóst sé hvaða efni og hvaða úrgangi hafi verið fargað á umræddum stað síðustu misseri. Heldur kærandi því fram að eftirlit kærða hafi verið ábótavant og athafnir Faxaflóahafna ólögmætar.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að kærða hafi þann 24. júní 2011 borist tölvupóstur frá Umhverfisstofnun þess efnis að kvörtun hefði borist vegna rusls í fjörunni við Grundartanga, starfsmenn kærða hafi farið á Grundartanga þann 28. júní 2011 og fundið út hvar meintur úrgangur hefði legið, en greinileg merki hafi verið um að hreinsun hefði farið fram í fjöruborðinu. Töldu starfsmenn kærða þá að ekkert væri frekar hægt að gera í málinu þar sem engin gögn væru til staðar til að fylgja eftir. Kærða hefði nokkru síðar borist upplýsingar frá Faxaflóahöfnum um að verktakar á svæðinu hefðu í heimildarleysi kastað úrgangi í fjöruna, þeim hafi verið skipað að hreinsa til eftir sig og það hefði verið gert.

Þá segir í greinargerð kærða að umrætt svæði á Grundartanga sé ætlað sem flæðigryfja, en hafi ekki verið tekið í notkun sem slíkt og jafnframt að framkvæmdum við þá flæðigryfju sé ekki að fullu lokið.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er kveðið á um að rísi ágreiningur, um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda, sé heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á grundvelli þessa ákvæðis var mál þetta framsent úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til úrlausnar. Af málatilbúnaði verður ráðið að málið varði losun úrgangs á svæði við Grundartanga sumarið 2011, þar sem slík losun var óheimil, svo og ágreining um hvort eftirlit kærða á umræddu svæði hafi verið ábótavant eða ekki.

Fyrir liggja upplýsingar um að úrgangur hafi verið losaður í fjörunni við Grundartanga sumarið 2011, á svæði sem ekki var til þess ætlað og jafnframt að sá úrgangur hafi verið hreinsaður úr fjörunni. Losun úrgangs á svæði þar sem slík losun er ekki heimil brýtur gegn ákvæðum 10. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þar sem segir í 1. og 2. mgr. að allur úrgangur skuli færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir nánari ákvæðum og að óheimilt sé að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Brot á þessum ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs geta varðað viðurlögum samkvæmt ákvæði 40. gr. laganna. Valdsvið úrskurðarnefndarinnar tekur hins vegar ekki til álagningar slíkra viðurlaga. Þar sem hreinsun hefur farið fram og ekki liggur fyrir hver stóð að hinn meintu ólögmætu förgun telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að leysa úr því álitaefni.

Varðandi eftirlit kærða með umræddu svæði er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að slá því föstu á grundvelli gagna málsins að eftirlitinu hafi verið ábótavant, enda verður sú skylda ekki lögð á kærða að hann hafi af sjálfsdáðum stöðugt eftirlit með því hvort úrgangur sé losaður á svæðum sem ekki eru ætluð til losunar úrgangs. Þá telur úrskurðarnefndin að kærði hafi brugðist við innan hæfilegs frests er hann fór á vettvang þann 28. júní 2011, fjórum dögum eftir að honum barst tilkynning um hina meintu ólögmætu úrgangslosun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að eftirlit kærða hafi ekki verið ábótavant.

 Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á að eftirlit heilbrigðiseftirlits Vesturlands með svæði við Grundartanga, sem sumarið 2011 var ekki ætlað til losunar úrgangs, hafi verið ábótavant.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                           Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11

17/2011 Úrskurður vegna kæru Jóns Inga Cæsarssonar gegn Akureyrarkaupstað vegna framkvæmdar sorphirðu.

Með

Mál nr. 17/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2011 Jón Ingi Cæsarsson,  Ránargötu 30, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júlí 2011, kærði Jón Ingi Cæsarsson (hér eftir nefndur kærandi) framkvæmd sorphirðu af hálfu Akureyrarkaupstaðar (hér eftir nefndur kærði), sem feli í sér ?að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar.? Kærði krefst þess aðallega að kæru málsins verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað, hvort tveggja vegna þess að kærandi byggi mál sitt á reglum sem gildi ekki fyrir Akureyrarkaupstað.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 17. ágúst 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 22. ágúst 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 29. ágúst 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Auk þess fór úrskurðarnefndin þess á leit að kærandi gerði nefndinni grein fyrir hvort samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 breytti á einhvern hátt umkvörtunarefni hans. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. september 2011 og voru þær kynntar fyrir kærða með bréfi, dags. 15. september 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málstæður og rök kæranda

Í kæru kveðst kærandi hafa verið gagnrýninn á þann hluta úrgangsmála á Akureyri sem gangi út á að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar og það í sumum tilvikum langa leið. Heldur kærandi því fram að þar með sé brotið ákvæði í samþykktum sveitarfélaga um fyrirkomulag sorphirðu. Kveður kærandi það vera sitt mat að ekkert undanþáguatriði sé í reglugerð sem heimili Akureyrarkaupstað að víkjast undan að sækja allan heimilisúrgang að heimilum og þar með telji hann að notkun og uppsetning gámastöðva í hverfum bæjarins sé brot á reglum bæjarins og annarra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Vísar kærandi í kæru sinni til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000.

Í athugasemdum við greinargerð kærða kveður kærandi að þær reglur sem hann hafi vísað til hafi verið á heimasíðu Akureyrarkaupstaðar sem fullgilt gagn í ágúst 2011. Hann kveður að það fyrirkomulag að íbúar bæjarins hafi verið skikkaðir til að fara með hluta af úrgangi á gámastöðvar hafi ríkt frá því seinni hluta árs 2010 og því hafi íbúar mánuðum saman verið að framkvæma gjörning sem hafi verið óheimill. Einnig kveður kærandi að íbúum á Akureyri hafi verið gróflega mismunað því öll sveitarfélög sem tekið hafi upp flokkunarfyrirkomulag á Íslandi bjóði upp á tunnu við heimahús þar sem flokkaður úrgangur sé sóttur að heimilum fólks. Það að skikka fólk til að fara verulegar vegalengdir með úrgang sinn í flokkunarstöðvar dragi úr árangri flokkunar, auki mengun og slysahættu og sé því veruleg skerðing á þeim möguleikum sem umhverfi og náttúra njóti með flokkun úrgangs. Þá kveður kærandi að íbúar sem vilji flokka við heimahús eigi þann kost að leigja sér tunnu til að hafa við heimili sitt en því fylgi verulegur viðbótarkostnaður sem bætist við úrgangsgjald sem bærinn leggi á íbúana.

IV. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að árið 2000 hafi verið sett samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, nr. 541/2000 og hafi samþykktin gilt um Byggðasamlög um sorpeyðingu og sveitarsjórnir þeirra sveitarfélaga sem ekki voru aðilar að slíkum byggðasamlögum. Akureyrarkaupstaðar hafi á þeim tíma verið í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs., en hafi sagt sig úr byggðasamlaginu árið 2007 og það sama ár hafi verið ákveðið að slíta því. Þá segir í greinargerðinni að þann 26. apríl 2011 hafi umhverfisráðuneytið samþykkt breytingu á samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000 þess efnis að heiti samþykktarinnar varð ?Samþykkt um sorphirðu eftirtalinna sveitarfélaga á Norðurlandi eystra: Dalvíkurbyggðar, Hörgárbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Norðurþings, Tjörneshrepps og Svalbarðshrepps?. Akureyrarbær sé því ekki lengur aðili að þeirri samþykkt sem kærandi vísi til og sem kærandi telji kærða vera að brjóta með sorpfyrirkomulagi sínu.

Þá segir í greinargerðinni að samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað, nr. 670/2011, hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar þann 19. október 2011 [innskot: á að vera 2010], staðfest af ráðherra 22. júní 2011 og birt í Stjórnartíðindum þann 6. júlí 2011. Með hinni nýju samþykkt hafi verið gerð sú breyting að Akureyrarkaupstaður sjái um söfnun og meðhöndlun heimilisúrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu og sjái til þess að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir almennan neysluúrgang, annan en hefðbundinn heimilisúrgang.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er kveðið á um að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Enn fremur er þar kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Jafnframt að sveitarstjórn geti sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind séu atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá er tekið fram að í slíkri samþykkt sé m.a. heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang.

Um gerð og staðfestingu samþykkta um meðhöndlun úrgangs fer samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunavarnir nr. 7/1998. Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að setja sér eigin samþykkt sem varði meðferð úrgangs og skolps. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og heldur því fram að kærði hafi brotið gegn þeirri samþykkt. Kærði var um tíma eitt þeirra sveitarfélaga sem var aðili að samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Í dag er málum hins vegar háttað á annan veg og hefur verið sett sérstök samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að sú samþykkt hafi ekki verið sett með lögformlegum hætti samkvæmt framangreindum ákvæðum 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, en hún var samþykkt af hálfu umhverfisráðuneytisins þann 22. júní 2011 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 tók gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011 og var hún því í gildi þegar kæra barst frá kæranda máls þessa. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. þeirrar samþykktar skal setja úrgang sem fellur til daglega við venjulegt heimilishald í sorpílát sem nánar er fjallað um í 8. gr. samþykktarinnar. Gera verður ráð fyrir að því ákvæði hafi verið fylgt enda hefur öðru ekki verið haldið fram og af málatilbúnaði kæranda verður ekki ráðið að hann telji kærða hafa brotið gegn gildandi samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Af þeim sökum sér úrskurðarnefndin sér ekki annað fært en að vísa kæru máls þessa frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Jóns Inga Cæsarssonar varðandi sorphirðu í Akureyrarkaupstað er vísað frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal Arndís                        Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11