Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2018 Stafafellsfjöll í Lóni

Árið 2019, föstudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafells­fjöllum í Lóni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarfélagið Hornafjörð að samþykkja umsókn kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 10. september 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 13. júní 2018, óskaði kærandi eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni. Fól umsóknin í sér færslu á byggingarreit gestahúss innan frístundalóðar kæranda nr. 11 innan skipulagssvæðisins þannig að hann verði í 2 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Skipulagsfulltrúi lagði umsóknina fyrir fund skipulagsnefndar 19. júní og taldi nefndin ekki ástæðu til að heimila umsóttar breytingar. Á fundi bæjarráðs 3. júlí var umsókn kæranda hafnað. Í bókun bæjarráðs var tekið fram að „samkvæmt 5.3.2.12. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90 [/2013] er ekki heimilt að byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Bæjarráð hafnar erindinu út frá ofangreindri reglugerð.“

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að gestahúsið standi á byggingarreit þar sem áður hafi staðið gestahús, grillhús sem hafi verið reist áður en skipulagsreglugerð hefði mælt fyrir um þá skyldu að bygging skyldi ekki standa nær en 10 m frá lóðarmörkum.

Málsrök Hornafjarðar: Sveitarfélagið vísar til þess að málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Hafi kærandi sótt um stækkun á byggingarreit lóðar nr. 11 þannig að byggingarreiturinn væri 2 m frá lóðarmörkum lóðar nr. 10. Samþykkt umsóknarinnar þýddi að frístundahús kæranda væri þar með innan byggingarreits en húsið standi utan byggingarreits og án byggingarleyfis. Frístundahúsið sé án samþykkis eigenda aðliggjandi lóðar og brjóti í bága við gildandi deiliskipulag.

Sveitarfélagið geti fallist á að umsótt breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg og falli þar með undir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í ljósi andstöðu umráðamanna lóðar nr. 10 við breytingu á lóðarmörkum og sjónarmiða landeigenda telji sveitarfélagið óþarft að grenndarkynna breytingartillöguna. Sjónarmið og afstaða allra hagsmunaaðila liggi fyrir og hafi legið fyrir til fjölda ára. Ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um að ekki skuli byggja nær lóðarmörkum en 10 m sé skýrt. Eigendur frístundahúsa geti ekki ætlast til þess að sveitarfélagið fari gegn lögum, reglum og skipulagsskilmálum á svæðinu. Kærandi eigi ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingu á deiliskipulagi gegn vilja skipulagsyfirvalda og eigenda lands í Stafafellsfjöllum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir skipulagsyfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Eins og að framan er rakið sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum í Lóni sem fól í sér að byggingarreitur innan lóðar hans yrði í um 2 m fjarlægð frá mörkum lóðar hans og lóðar nr. 10 á skipulagssvæðinu. Í greinargerð gildandi deiliskipulags umræddrar frístundabyggðar kemur m.a. fram að staðsetning húsa sé frjáls innan byggingar­reits, að fengnu samþykki byggingarfulltrúa, og að ný hús verði hvergi nær lóðarmörkun en 10 m og í minnst 50 m fjarlægð frá ám. Þá kemur fram í gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að frístundahús ásamt tilheyrandi mannvirkjum skulu að jafnaði vera á sér lóð nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Ekki skuli byggja nær lóðarmörkum en 10 m.

Samkvæmt framangreindu er fjarlægðarregla gr. 5.3.2.12. reglugerðarinnar, sem jafnframt kemur fram í greinargerð fyrrgreinds deiliskipulags, skýr um að ekki megi byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Tilgangur umrædds ákvæðis skipulagsreglugerðar er að tryggja lágmarksfjarlægð milli frístundahúsa og dreifingu frístundabyggðar og skapa með því þá friðsæld sem sóst sé eftir í slíkri byggð. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær umrætt hús á lóð kæranda var reist og mun ekki hafa verið sótt byggingarleyfi fyrir húsinu á sínum tíma. Bæjarráði Hornafjarðar var því rétt að hafna umsókn kæranda um breytingu á umræddu deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum í Lóni.