Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2019 Silfursmári

Árið 2019, föstudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar Silfursmára frá Hæðasmára að Smárahvammsvegi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2019, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Norðurturninn hf., eigandi fasteignarinnar Hagasmára 3 Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar Silfursmára frá Hæðasmára að Smárahvammsvegi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðar-nefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 17. júlí 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 3. júní 2019 var á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar lagt fram erindi framkvæmdadeildar umhverfissviðs bæjarins þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð við nýja götu, Silfursmára, ásamt breytingum á skipulagi núverandi gatna á framkvæmdasvæðinu. Var erindið samþykkt af skipulagsráði og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs 6. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 11. s.m.

Kærandi vísar til þess að með dómi Landsréttar frá 7. júní 2019 í máli nr. 647/2018 hafi verið viðurkennt að samkvæmt stofnskjali fyrir lóðirnar Hagasmára 1, 3 og 5 hvíli kvaðir á lóðunum Hagasmára 1 og 3 um samnýtingu bílastæða o.fl. Kærandi sé eigandi Hagasmára 3 og því eigandi óbeinna eignarréttinda á lóðinni Hagasmára 1. Lóðum við Silfursmára hafi verið skipt út úr Hagasmára 1 og því taki framangreind kvöð samkvæmt dómi Landsréttar jafnframt til þeirra lóða. Framkvæmdaleyfishafi hafi ekki aflað samþykkis kæranda, en þess sé þörf vegna óbeinna eignarréttinda hans yfir framkvæmdasvæðinu.

Af hálfu Kópavogsbæjar er byggt á því að það sé meginregla stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Þá sé á það bent að Kópavogsbær sé eigandi hins umrædda lands og framkvæmdaleyfið sé í fullu samræmi við skipulag svæðisins. Um útboðsskylda framkvæmd sé að ræða og mikið tjón geti hlotist af því ef framkvæmdir verði stöðvaðar. Allur ágreiningur um eignarrétt verði að fara fyrir dómstóla og verði ekki úr honum leyst fyrir úrskurðarnefndinni. Sótt hafi verið um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna nefnds dóms Landsréttar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi vegna gatnaframkvæmda. Aðilar máls eru tveir og hafa andstæða hagsmuni. Líta verður til þess að fjárhagslegir hagsmunir framkvæmdaleyfishafa af því að framkvæmdir verði ekki stöðvaðar eru miklir og að framkvæmdirnar verða að teljast afturkræfar. Þá verður ekki séð að hagsmunir kæranda vegna umdeildrar kvaðar um sam-nýtingu bílastæða skapi knýjandi nauðsyn til að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni. Hins vegar eru framkvæmdirnar á áhættu framkvæmdaleyfishafa um lyktir málsins.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.