Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2018 Gagnheiði

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 29. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 55/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi Gagnheiðar 19, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. mars 2018 að synja um afturköllun byggingarleyfis fyrir endurbyggingu húss að Gagnheiði 17, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 7. júní 2018.

Málavextir: Fasteignirnar Gagnheiði 17 og 19, Selfossi, voru á sínum tíma í eigu leyfishafa. Hann byggði tengigang á milli eignanna og samnýtti þær. Hinn 27. október 2005 afsalaði leyfishafi til kæranda iðnaðarhúsnæðinu við Gagnheiði 19 ásamt hluta af nefndri tengibyggingu. Í kjölfar sölunnar var tengibyggingunni lokað þar sem hún mætti húsinu að Gagnheiði 17 en það hús eyðilagðist í bruna árið 2015 ásamt hluta tengibyggingarinnar. Í kjölfar brunans sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir lokun tengibyggingarinnar og var umsóknin samþykkt 2. desember 2015 með fyrirvara um samþykki eiganda Gagnheiðar 17. Það samþykki lá ekki fyrir þegar ráðist var í framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu við endurbyggingu og lokun tengibyggingarinnar.

Byggingarleyfi fyrir nýju húsi á lóðinni Gagnheiði 17 var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins 5. apríl 2017. Í ljós kom þegar hafist var handa við byggingu hússins að tengibyggingin hafði verið endurbyggð og liggur að hluta innan sökkuls og þar með innan byggingarreits lóðarinnar Gagnheiði 17 samkvæmt mælingu skipulags- og byggingarfulltrúa og verkfræðings á vettvangi. Með bréfi, dags. 1. janúar 2018, gerði kærandi þá kröfu að fyrrgreint byggingarleyfi yrði afturkallað og frekari framkvæmdir stöðvaðar vegna ágalla á umdeildri ákvörðun. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 19. mars 2018, að ekki yrði séð að annmarki hafi verið á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa þegar byggingarleyfi vegna Gagnheiðar 17 hafi verið veitt. Kröfum kæranda um afturköllun byggingarleyfis, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða væri því hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína um afturköllun byggingarleyfisins með þeim rökum að tengibygging hans og húsið að Gagnheiði 17 sé fjöleignarhús í skilningi laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og því hafi borið að fá samþykki meðeiganda áður en hið kærða byggingarleyfi var gefið út. Þá byggi ákvörðun sveitarfélagsins á ófullnægjandi gögnum sem og að byggingarleyfishafi hafi vísvitandi haldið gögnum frá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sem vörðuðu umsókn hans. Hin kærða ákvörðun kunni að skapa leyfishafa aukinn rétt á kostnað annarra eigenda hússins að Gagnheiði 17.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að Gagnheiði 17 sé atvinnuhúsnæði og því heimilt að víkja frá almennum reglum sem fram komi í ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Afturköllun ákvörðunarinnar yrði til tjóns fyrir leyfishafa og þá verði ekki séð að annmarki hafi verið á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa þegar byggingarleyfi vegna Gagnheiðar 17 var veitt. Kröfum kæranda um afturköllun byggingarleyfis, stöðvun framkvæmda og eftir atvikum beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda að Gagnheiði 17 sé því hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur nefndarinnar einn mánuður frá því kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Byggingarleyfi fyrir byggingu að Gagnheiði 17 hafi verið samþykkt 5. apríl 2017 og hafi framkvæmdir hafist í beinu framhaldi. Krafa kæranda um afturköllun byggingarleyfisins sé dagsett 1. janúar 2018 og því hafi framkvæmdir verið vel á veg komnar og níu mánuðir liðnir frá samþykkt byggingarleyfisins. Þá sé byggingin að Gagnheiði 17 við hlið fasteignar kæranda að Gagnheiði 19. Það hafi ekki getað farið fram hjá honum að gefið hafi verið út byggingarleyfi fyrir byggingu að Gagnheiði 17. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæran var send skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar.

Fallist úrskurðarnefndin ekki á að vísa kærunni frá nefndinni sé þess krafist að henni verði hafnað. Framkvæmdir leyfishafa séu í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Byggingarleyfið veiti rétt til framkvæmda á eignum leyfishafa. Hvergi sé gengið á lögvarinn rétt eða eignarréttindi kæranda. Að kærandi hafi í heimildarleysi endurbyggt útbyggingu inn á sökkla leyfishafa veiti það honum engan rétt til að krefjast afturköllunar byggingarleyfis. Kærandi hafi með ólögmætum athöfnum sínum bakað leyfishafa umtalsvert fjártjón sem sé bótaskylt.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti að umræddri tengibyggingu milli fasteignar kæranda að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17. Í afsali, þinglýstu 29. mars 2019, lýsti kærandi Sveitarfélagið Árborg réttan og lögmætan eiganda tengibyggingarinnar sem stendur á lóðinni Gagnheiði 17.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem eiganda áðurnefndrar tengibyggingar, m.a. með tilliti til laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og hefur hann því ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

109/2018 Sundhöll Keflavíkur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 15. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Framnesvegar 11.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. ágúst 2018, er barst nefndinni 13. s.m., kærir A, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 15. maí 2018 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Framnesvegar 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 13. september 2018.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. maí 2018 var breyting á deiliskipulagi Framnesvegar 11 samþykkt að undangenginni auglýsingu tillögu þar um. Fól deiliskipulagið m.a. í sér heimild til niðurrifs Sundhallar Keflavíkur að Framnesvegi 9 og bárust á kynningartíma tillögunnar athugasemdir þar sem fyrirhuguðu niðurrifi var mótmælt. Var afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs staðfest af bæjarstjórn 15. s.m. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að Sundhöll Keflavíkur hafi verið byggð árið 1945 og teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og Bárði Ísleifssyni arkitekt. Minjastofnun hafi staðfest í bréfi sínu 23. febrúar 2018 að í húsinu felist mikil menningarsöguleg verðmæti. Kærandi sé uppalin í Keflavík og hafi stundað sundnám í sundhöllinni og búi nú innan við 900 m frá henni. Byggt sé á því að tilvist sundhallarinnar hafi almennt og ríkt gildi fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar. Kærandi sé formaður Hollvinasamtaka Sundhallarinnar í Keflavík, sem hefur barist fyrir því að húsið fái að standa áfram.

Það félag sem eigi Sundhöll Keflavíkur hafi óskað eftir hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Meðal þeirra sem greitt hafi deiliskipulagstillögunni atkvæði hafi verið bróðurdóttir annars af eigendum félagsins. Fyrir hendi séu alvarlegir efnis- og formannmarkar á hinni kærðu ákvörðun. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins ítrekað farið rangt með staðreyndir við framsetningu og kynningu á þeim hluta tillögunnar sem varði sundhöllina. Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda sem hafi borist frá íbúum í formlegu athugasemdaferli og þeim hvergi svarað.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærandi hafi ekki gert grein fyrir því hvaða einstaklegu og lögvörðu hagsmuni hann hafi í málinu, en það sé skilyrði aðildar að kæru fyrir úrskurðarnefndinni þegar einstaklingur eigi í hlut. Ljóst sé að heimili kæranda sé í það mikilli fjarlægð frá skipulagssvæðinu að hin umdeilda ákvörðun geti ekki haft sjónræn áhrif eða önnur grenndaráhrif sem snerti lögvarða hagsmuni kæranda. Verði því að vísa málinu frá á grundvelli aðildarskorts.

Sé það ætlun kæranda að koma einnig fram fyrir hönd Hollvinasamtaka Sundhallar Keflavíkur sé á það bent að félagið geti ekki átt aðild að kærumáli þessu án þess að eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að jafnaði séu skilyrði aðildar á þessu sviði, en ekki liggi fyrir að svo sé.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er búsettur í 900 m fjarlægð frá umræddri sundhöll sem fjarlægja á skv. hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Verður henni af þeim sökum því ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli að grenndarhagsmunir hennar skerðist. Kærandi byggir og lögvarða hagsmuni sína á því að tilvist sundhallarinnar hafi almennt og ríkt menningarsögulegt gildi fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2018 Brekkugata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar­kaupstaðar frá 4. janúar 2018 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt en ella að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja umsóknina. Að öðrum kosti er gerð sú krafa að auk ógildingar verði lagt fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 14. mars 2018.

Málavextir: Kærendur festu kaup á jarðhæð hússins að Brekkugötu 13 snemma árs 2015. Eignin var skráð sem vinnustofa en fyrri eigendur starfræktu þar húsgagnavinnustofu. Hinn 5. maí 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðarinnar. Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu á afgreiðslufundi 11. maí 2017 þar sem rýmið uppfyllti ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 122/2012 um lofthæð í íbúðarherbergjum.

Hinn 22. desember 2017 barst Akureyrarbæ umsókn að nýju frá kærendum, dags. 19. desember 2017, og fylgdi henni greinargerð byggingarverkfræðings, dags. 4. júlí s.á. Í greinargerðinni kom m.a. fram að umrædd fasteign hentaði vel til notkunar sem íbúð, enda væri öryggi og heilbrigði fólks þar fyllilega samanburðarhæft við aðrar íbúðir í sama húsi. Með greinargerðinni fylgdi og bréf kærenda til Mannvirkjastofnunar þar sem óskað var eftir leiðbeiningum til handa byggingarfulltrúa um túlkun á 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og þá einkum hvort heimilt væri að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta hennar, þ.m.t. ákvæðum 2. mgr. gr. 6.7.2. um lofthæð. Í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 7. september 2017, kom fram að stofnunin hefði litið svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru til algildrar hönnunar og aðgengis, en hún ætti ekki við um lágmarkskröfur um lofthæð í íbúðarhúsnæði almennt skv. gr. 6.7.2. Því hefði verið talið að greinin fæli ekki í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa til að veita undanþágur hvað varðaði lofthæð í íbúðarhúsnæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. janúar 2018 var umsókn kærenda um byggingarleyfi tekin fyrir. Í bókun byggingarfulltrúa var vísað til afgreiðslu fyrra erindis um sama mál, „með rökum sem nú er stutt í svarbréfi Mannvirkjastofnunar, dagsett 7. September 2017.“ Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu þar sem ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð væru ekki uppfyllt, sbr. gr. 6.7.2., og einnig með vísan til gr. 6.7.4. í reglugerðinni. Með tölvupósti 10. janúar 2018 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa. Rökstuðningurinn barst kærendum 19. s.m. Kemur þar m.a. fram að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, með áorðnum breytingum. Hafi erindi kærenda verið hafnað annars vegar vegna lofthæðar, sbr. ákvæði gr. 6.7.2., og hins vegar vegna þess að jarðhæðin sé niðurgrafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, sbr. ákvæði gr. 6.7.4. Þá hafi Mannvirkjastofnun gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í reglugerðinni um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki um aðra hluta hennar.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja fyrst og fremst á því að hin kærða ákvörðun sé byggð á rangri túlkun byggingarfulltrúa á undanþáguákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sé ákvörðun byggingarfulltrúa byggð á því að honum sé óheimilt að veita undanþágu frá ákvæðum gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. á grundvelli 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Þessi skilningur sé í engu rökstuddur en þrátt fyrir það virðist byggingarfulltrúi hafa lagt til grundvallar að ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5. veiti honum aðeins heimild til að veita undanþágu frá tilteknum en ekki öllum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar. Telji kærendur að byggingarfulltrúa sé ekki aðeins heimilt heldur beinlínis skylt að veita undanþágu frá framangreindum ákvæðum með vísan til ákvæðis 3. mgr. gr. 6.1.5. í reglugerðinni. Slík skýring fáist í fyrsta lagi með vísan til einfaldrar orðskýringar á ákvæðinu. Í öðru lagi sé sú túlkun reglugerðarinnar sem kærendur byggi á í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt þeirra til nýtingar á eign sinni. Þá beri í þriðja lagi við skýringu á gr. 6.1.5. að horfa til meginreglna laga, tilgangs ákvæðisins og markmiðs þess.

Skilyrði til útgáfu umbeðins byggingarleyfis séu að fullu uppfyllt og því beri að breyta hinni kærðu ákvörðun á þá leið sem tiltekið sé í aðalkröfu kærenda eða til vara að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja fyrirliggjandi umsókn kærenda. Umrætt hús sem byggt sé árið 1904, sé staðsett í brattri brekku og þannig byggt að erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði gr. 6.7.2. og gr. 6.7.4. í byggingarreglugerðinni án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkisins, burðarvirki þess, útliti, innra skipulagi og öðrum sérkennum, sem vert sé að varðveita. Af þeim sökum hafi kærendur lagt fram sérstaka greinargerð hönnuðar skv. 3. mgr.  gr. 6.1.5. þar sem fram komi að verndarhagsmunir framangreindra ákvæða byggingarreglugerðar séu að fullu virtir og að eignin henti vel til notkunar sem íbúð með tilliti til öryggis og heilbrigðis fólks.

Kærendur bendi jafnframt á að stjórnsýslumeðferð málsins hafi í flestum atriðum verið veru­lega áfátt og beinlínis andstæð lögum. Fyrri umsókn kærenda hafi verið afgreidd án samráðs við kærendur, án vettvangsskoðunar og án þess að þeir fengju að koma að sjónarmiðum sínum. Þá hafi kærendur lagt inn nýja umsókn eftir að þeim hafi verið bent á að leggja í kostnaðarsama gagnaöflun. Byggingarfulltrúi hafi á því stigi haft uppi ummæli um kærendur, sem ótvírætt hafi borið merki þess að hann og embætti hans beri kaldan hug til þeirra. Því verði ekki hjá því komist að álykta sem svo að byggingarfulltrúi og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum telji kærendur óhjákvæmilegt að líta til þess að hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi. Fasteign kærenda sé skráð sem vinnustofa en hafi ekki verið nýtt sem atvinnuhúsnæði í þrjú ár. Óumdeilt sé að hvorki fasteignin sem slík né umhverfi hennar henti sem atvinnu­húsnæði en hins vegar henti hún vel sem íbúðarhúsnæði. Núverandi staða sé sú að fasteign kærenda verði hvorki með góðu móti nýtt sem atvinnuhúsnæði né íbúðarhúsnæði, sem jafngildi eðli málsins samkvæmt eignaupptöku.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að eignin að Brekkugötu 13  sé í kjallara eða jarðhæð í húsi frá árinu 1904. Eignin, sem sé tilgreint sem vinnustofa í fasteignamati, hafi verið nýtt sem vinnustofa eða verkstæði í tugi ára. Vinnustofan sé niður­grafin, ef frá sé talin austurhlið hennar, og lofthæð sé 2,35 m. Vísað sé í ákvæði gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð, sem mæli fyrir um að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu lofti. Heimilt sé að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis sé minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Undantekningin eigi því ekki við þar sem lofthæð á framlögðum teikningum íbúðarinnar sé tilgreind 2,35 m í allri eigninni. Mannvirkjastofnun hafi einnig gefið út túlkun sína á gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð um að ákvæðið gildi eingöngu um undanþágu frá algildri hönnun en ekki varðandi aðra hluta byggingarreglugerðarinnar.

Byggingarfulltrúi hafi hafnað umsókn kærenda á grundvelli gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð. Þar segi að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar séu niðurgrafnir nema að uppfylltum m.a. þeim skilyrðum að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin. Sú óniðurgrafna hlið skuli snúa móti suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skuli þar vera stofa íbúðarinnar. Þá skuli lengd óniðurgrafinnar hliðar vera minnst 25% af lengd þeirra veggflata sem afmarki íbúðina. Ákvæði 2. mgr. ákvæðisins skuli uppfyllt hvað varði öll niðurgrafin íbúðarherbergi. Þar sem óniðurgrafin hlið umrædds húss snúi á móti austri hafi byggingarfulltrúi hafnað erindi kærenda á grundvelli fyrrgreindrar gr. 6.7.4.

Að lokum sé á því byggt að ákvæði gr. 6.1.5. og 6.7.4. í byggingarreglugerð séu fortakslaus og því sé óheimilt að víkja frá þeim. Undanþága frá ákvæðunum gildi einungis um kröfur um algilda hönnun, sem ekki eigi við í þessu tilviki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar. Hins vegar tekur hún ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að úrskurðarnefndin samþykki byggingarleyfisumsókn þeirra eða leggi fyrir byggingarfulltrúa að gera slíkt. Það sama gildir um þá kröfu kærenda að lagt verði fyrir Akureyrarkaupstað að setja hæfan og óvilhallan byggingarfulltrúa til að afgreiða fyrirliggjandi byggingarumsókn þeirra.

Byggingarfulltrúi hafnaði umsókn kærenda um að breyta vinnustofu á jarðhæð að Brekkugötu 13 í íbúð þar sem ákvæði byggingarreglugerðar voru ekki talin uppfyllt. Vísaði byggingar­fulltrúi í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni til túlkunar Mannvirkjastofnunar á gr. 6.1.5. í bréfi stofnunarinnar, dags. 7. september 2017, þar sem litið var svo á að 3. mgr. gr. 6.1.5. ætti eingöngu við um þær kröfur sem gerðar væru um algilda hönnun og aðgengi. Á grundvelli þessa taldi stofnunin að byggingarfulltrúa væri ekki heimilt að veita undanþágur hvað varðar lofthæð í íbúðarhúsi. Ekki liggja fyrir neinar þær ástæður sem benda til hlutdrægni byggingarfulltrúa eða starfsmanna hans við málsmeðferð umsóknar kærenda, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, svo sem kærendur halda fram.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, kemur fram í gr. 6.7.2. að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lofthæð umræddrar jarðhæðar kærenda 2,35 m. Lofthæðin nær því ekki því lágmarki sem mælt er fyrir um í gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Þá kemur fram í gr. 6.7.4. að óheimilt sé að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar eru niðurgrafnir nema að uppfylltu m.a. því skilyrði að minnst ein hlið íbúðarrýmis sé ekki niðurgrafin og snúi mót suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og skal þar þá vera stofa íbúðarinnar. Eign kærenda er skráð sem vinnustofa og er niðurgrafin ef frá er talin austurhlið hennar. Liggur því fyrir að rýmið uppfyllir ekki ákvæði gr. 6.7.4. í reglugerðinni, en umsókn kæranda um breytta notkun umrædds húsnæðis fylgdi greinargerð byggingarverkfræðings með rökstuðningi fyrir undanþágu frá gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir, sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Er tekið fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli þeim ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Af hinni kærðu ákvörðun verður ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið efnislega afstöðu til greinargerðar þeirrar sem fylgdi byggingarleyfisumsókn kærenda og þar með til þess hvort skilyrði væru uppfyllt fyrir undanþágu frá kröfum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði og hvort tilefni væri til að víkja frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar í samræmi við ákvæði 3. mgr. gr. 6.1.5.

Með hliðsjón af framangreindu voru slíkir annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar frá 4. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun jarðhæðar hússins að Brekkugötu 13, Akureyri.

14/2018 Helluhraun

Með

Árið 2019, mánudaginn 20. maí 2019, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 14/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2018, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. febrúar 2018, kærir Slökkvitæki ehf., Helluhrauni 10, Hafnarfirði, álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. mars 2018.

Málavextir: Kærandi fékk sent bréf frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 20. desember 2017, þar sem tilkynnt var að samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef gámur ætti að standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Kærandi og sameigandi hans að lóðinni Helluhrauni 10 sóttu um stöðuleyfi 19. janúar 2018 fyrir tímabilið frá 18. janúar 2018 til 30. janúar 2019 vegna gáma á fyrrnefndri lóð og óskaði kærandi eftir því að stöðuleyfisgjaldinu yrði skipt til helminga milli þeirra tveggja.

Með greiðsluseðli frá Hafnarfjarðabæ, dags. 29. janúar 2018, var lagt stöðuleyfisgjald á fyrirtæki kæranda fyrir 2,5 gámum að upphæð kr. 80.690 og mun sameiganda hans að lóðinni hafa verið sendur greiðsluseðill með sambærilegri innheimtu. Gjald fyrir hvern gám var skráð kr. 32.276 krónur og var því innheimt samtals stöðuleyfisgjald fyrir fimm gámum að upphæð kr. 161.380.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að innheimta hefði átt eitt stöðuleyfisgjald fyrir lóðina Helluhraun 10 sem skipta hefði átt jafnt á milli kæranda og meðeiganda hans að lóðinni.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki eigi upphæð stöðuleyfisgjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og skuli gjaldskrá birt í B-deild Stjórnartíðinda. Upphæð stöðuleyfisgjalds fyrir einn gám hjá Hafnarfjarðarbæ hafi verið 32.276 krónur. Kærandi og meðeigandi hans hafi fengið greiðsluseðil upp á 161.380 krónur eða 80.690 krónur á hvort fyrirtæki sem sótt hafi um stöðuleyfi og hafi ekkert stöðuleyfi fylgt með. Með þessu hafi kærandi verið rukkaður fyrir stöðuleyfi nágrannans á hálfum gám þar sem ekki sé hægt að deila fimm gámum í tvennt, en kærandi eigi tvo gáma og meðeigandi hans þrjá.

Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar sé kostnaður við hvert stöðuleyfi 11.000 krónur og að auki sé rukkað um tveggja klukkustunda eftirlitsgjald. Þar sem hér sé fimmfalt gjald innheimt sé innheimt 10 klukkustunda eftirlitsgjald. Kærandi efist um að vinna á lóðinni vegna umræddra gjalda hafi tekið svo langan tíma og hafi m.a. enginn komið á staðinn. Mannvirkjastofnun hafi gefið út leiðbeiningabækling fyrir byggingafulltrúa um stöðuleyfi ásamt því að halda fund fyrir þá. Þar hafi skýrt komið fram að ef óskað væri eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð væri gert ráð fyrir því að gefið væri út eitt stöðuleyfi og skyldi gjaldtakan miðast við þann kostnað óháð fjölda lausafjármuna á lóðinni.

Telur kærandi að með því að innheimta fimmfalt stöðuleyfisgjald sé sveitarfélagið að búa til auka tekjustofn. Í huga kæranda eigi stöðuleyfi ekki að vera tekjustofn fyrir sveitarfélög heldur snúist þau einungis um að hlutir valdi ekki hættu fyrir börn að leik og umferð. Í bæjarblaði Hafnarfjarðarbæjar hafi verið grein þar sem fram hafi komið að um 4000 gámar væru í landi bæjarins. Ef svo sé þá sé gjaldtakan fyrir þá gáma kr. 32.276 x 4000 = kr. 129.104.000. Kærandi stórefist um að sú upphæð sé eðlileg laun fyrir eitt embætti árlega sem sjái um veitingu stöðuleyfa á gámum. Hjá Kópavogsbæ kosti stöðuleyfi ekkert og væri best ef gjaldið myndi vera fellt niður að öllu leyti, sérstaklega ef litið sé til þess hvaða tilgangi það eigi að þjóna.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er farið fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem engin kæranleg ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gjald fyrir stöðuleyfi byggi á lögum um mannvirki og gildandi gjaldskrá Hafnarfjarðakaupstaðar. Ef ekki verði fallist á frávísun sé þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Í grein 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjalli um stöðuleyfi komi m.a. fram að sækja skuli um stöðuleyfi ef láta eigi gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu þeirra. Sömu sjónarmið komi einnig fram í reglum um stöðuleyfi sem samþykktar hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 24. maí 2017.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, þ.m.t. útgáfu stöðuleyfa. Eigi upphæð gjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni. Hafnarfjarðarbær hafi sett gjaldskrá fyrir stöðugjald fyrir gáma með stoð í þessu ákvæði laganna og samkvæmt henni sé gjaldið fyrir gjaldárið 2018 kr. 32.276 á hvern gám.

Hafnarfjarðarkaupstaður sé ósammála túlkun Mannvirkjastofnunar um að ef óskað sé eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð eigi að gefa út eitt stöðuleyfi sem taki til þeirra allra og að gjaldtakan eigi að miðast við þann kostnað sem hljótist af útgáfu þess stöðuleyfis sem um ræði, óháð fjölda lausafjármuna. Sveitarstjórnum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir útgáfu stöðuleyfa þar sem upphæð gjalds taki mið af kostnaði við þjónustuna. Augljóst sé að kostnaður við útgáfu leyfa sé hærri eftir því sem gámar sem sótt sé um leyfi fyrir séu fleiri. Yfirferð umsókna sé flóknari og tímafrekari enda kunni tilgangur og lengd stöðuleyfis ekki að vera sá sami á milli allra gáma. Að auki sé tímafrekara að yfirfara uppdrætti enda ljóst að fleiri atriði þurfi að hafa í huga ef fleiri gámar séu á lóð s.s. út frá skipulagi og öryggissjónarmiðum og jafnvel sé nauðsynlegt fyrir byggingarfulltrúa að fara á vettvang áður en leyfi sé gefið út. Að virtu framangreindu og ekki síst jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins geti sveitarfélög ekki veitt afslátt af gjaldi fyrir stöðuleyfi þegar aðili sæki um leyfi fyrir fleiri en einn gám á sömu lóð. Væru þá þeir aðilar sem hefðu sótt um og fengið leyfi fyrir einum gám á lóð þannig að niðurgreiða leyfið fyrir aðra. Í þessu sambandi megi benda á að umræddur texti í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar hafi ekki verið í þeim drögum sem stofnunin hafi kynnt fyrir Sambandi íslenskra sveitarfélaga og lögfræðingum hjá sveitarfélögum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að leggja á stöðuleyfisgjald vegna gáma á lóðinni Helluhraun 10. Úrskurðarnefndin óskaði frekari skýringa af hálfu sveitarfélagsins og var í kjölfarið upplýst um að kærandi hefði aldrei greitt umþrættan reikning og reikningurinn á endanum verið felldur niður. Hefur kærandi staðfest að svo hafi verið gert, en hann óski efnislegrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þar sem hann efist um lögmæti álagningarinnar í öndverðu og um fordæmisgefandi mál sé að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Eftir að álagning stöðuleyfisgjaldsins var afturkölluð hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum, enda ekki lengur til staðar. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og kæruaðild sína getur hann ekki byggt á gæslu almannahagsmuna með því að vísa til fordæmisgildis málsins. Verður því ekki komist hjá því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni vegna skorts á kæruaðild, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

30/2019 Laxeldi Berufirði rekstrarleyfi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2019, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 6. maí 2019.

Málavextir: Hinn 19. september 2017 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 21.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla, dags. 19. mars 2018, var lögð fram og var leitað álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 14. júní 2018.

Í kjölfarið voru gefin út rekstrarleyfi og starfsleyfi til handa Fiskeldi Austfjarða vegna framkvæmdarinnar.

Matvælastofnun gaf hinn 21. mars 2019 út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Berufirði. Tekur leyfið til 9.800 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Auglýsing um útgáfu rekstrarleyfisins birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2019 og var leyfið kært til úrskurðarnefndarinnar 22. apríl s.á., eins og áður greinir.

Sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fáskrúðsfirði. Tekur leyfið til 11.000 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 29/2019.

Hinn 19. mars 2019 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 28/2019.

Sama dag gaf Umhverfisstofnun einnig út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi, í Fáskrúðsfirði. Hefur það leyfi jafnframt verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 26/2019.

Hafa kærendur krafist frestunar réttaráhrifa kærðra leyfa í kærumálum nr. 26, 28, 29 og 30/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Vesturdalsár og Selár, þar á meðal hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, en þó mest í veiðiár á Austfjörðum, að ekki sé minnst á lúsafár, sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Byggi kærendur ógildingarkröfu sína á ýmiss konar vanrækslu framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og því að verulegir annmarkar séu á leyfinu og þeirri málmeðferð sem leitt hafi til útgáfu þess. Beri að fresta réttaráhrifum hins kærða leyfis eða stöðva framkvæmdir samkvæmt því.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé undantekning frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Almennt sé það talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta, sbr. skýringarsjónarmið að baki 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leggja verði heildstætt mat á þau sjónarmið sem fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmæta hagsmuni aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt, en í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því sem orðið hafi að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé vísað til síðastnefnda atriðisins, þ.e. að horfa verði til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Stofnunin telji að við útgáfu hins kærða leyfis hafi hún fylgt ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem um leyfisveitinguna gilda og ekkert hafi komið fram í kærunni sem bendi til þess að fallist verði á kröfu kærenda í málunum. Ekki verði því séð að nokkur rök mæli með því að fallast beri á kröfu um frestun réttaráhrifa. Þvert á móti telji stofnunin með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum einsýnt að taka skuli málið til efnislegrar meðferðar. Við matið beri jafnframt að hafa í huga réttmætar væntingar og hagsmuni fyrirtækisins, en það hafi unnið að framkvæmdinni um margra ára skeið. Ljóst sé að frestun réttaráhrifa myndi hafa gríðarlega mikil og slæm áhrif á fyrirtækið og ekki síður á atvinnulíf á Austfjörðum, sbr. umfjöllun í matsskýrslu um áhrif framkvæmdarinnar á samfélagslega þætti á svæðinu.

Sé miðað við að leyfi stofnunarinnar sé innan þeirra marka sem annars vegar burðarþolsmat og hins vegar áhættumat Hafrannsóknastofnunar geri ráð fyrir verði ekki séð að starfsemi í skjóli leyfisins valdi óafturkræfu tjóni á meðan meðferð kærumálsins standi yfir. Afstaða Matvælastofnunar til mats á umhverfisáhrifum liggi fyrir í greinargerð stofnunarinnar um útgáfu rekstrarleyfanna. Þar sé að finna rökstudda afstöðu stofnunarinnar til þeirra sjónarmiða sem Skipulagsstofnun hafi sett fram í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Þá liggi fyrir að eldi sé nú þegar stundað á landinu, þ.m.t. bæði í Reyðarfirði og í Berufirði. Hvorki sé því hægt að fallast á að hin kærða framkvæmd auki verulega á þau umhverfisáhrif sem þegar séu af fiskeldi á svæðinu né að framkvæmdin auki eða breyti sjónarmiðum varðandi eyðileggingu á ímynd hreinnar og ómengaðrar náttúru og orðspor landsins.

Þá bendi Matvælastofnun á fordæmi úrskurðarnefndarinnar í sambærilegum málum þar sem óskað hafi verið eftir frestun réttaráhrifa rekstrarleyfa vegna fiskeldis, sem gefin hafi verið út af stofnuninni. Slíkum kröfum hafi verið hafnað með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þegar sé til staðar, meiri hagsmunum leyfishafa andstætt minni hagsmunum kærenda og að ekki verði ráðið að framkvæmdunum fylgi svo stórfelld og óafturkræf áhrif á umhverfið að kæruheimild verði þýðingarlaus. Þrátt fyrir að nefndin hafi í tveimur þeirra tilvika síðar fellt úr gildi leyfi Matvælastofnunar þá telji stofnunin þau sjónarmið sem valdið hafi ógildingunni ekki eiga við um þau mál sem nú liggi fyrir nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá í heild sinni þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð kærenda til þess lögmanns er riti undir kæruna. Ekki liggi fyrir umboð frá öllum kærendum og þau umboð sem liggi fyrir séu óvottuð og því ógild. Ekki verði heldur séð að þeir sem undirriti umboðin hafi heimild til slíks. Þá uppfylli náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ekki skilyrði aðildar skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Of seint sé að bæta úr greindum annmörkum. Þá sé byggt á því að í umboðunum felist ekki heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa, umboðin séu öll efnislega samhljóða og nái einvörðungu til þess að kæra leyfið til ógildingar. Úrskurður um frestun yrði meira íþyngjandi og hefði alvarlegri réttaráhrif fyrir leyfishafa en úrskurður um ógildingu leyfis þar sem útgáfa bráðabirgðaleyfis sé heimil í kjölfar ógildingar, en ekki ef ákvörðun sé tekin um frestun réttaráhrifa.

Kröfugerð í kæru sé óljós og vanreifuð og uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Skortur sé á lögvörðum hagsmunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, en kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Þá skorti kærendur heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa en 5. gr. laga nr. 130/2011 heimili einungis, samkvæmt skýru orðalagi sínu, að kærendur geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Það skorti því lagaheimild til að krefjast „frestunar réttaráhrifa eða að framkvæmdir verði stöðvaðar“ og því beri að vísa þeim kröfulið frá.

Gerð sé sú krafa til vara að hafnað verði kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Meginregla stjórnsýsluréttar sé sú að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunir leyfishafa séu gríðarlegir í málinu og varði bæði fjárhagslega hagsmuni og hagsmuni allra þeirra starfsmanna sem starfi hjá leyfishafa, auk þess sem hagsmunir sveitarfélagsins komi líka til skoðunar. Frestun réttaráhrifa myndi valda leyfishafa slíku tjóni að það væri ekki vafa undirorpið að félagið hætti þar með starfsemi. Ekkert í málinu gefi til kynna að kæruheimild verði þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað. Engin rök séu færð fram fyrir þessum kröfum kærenda, enda engin málefnaleg sjónarmið sem leiði til þess að rétt sé að fresta réttaráhrifum gildandi leyfis.

Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa og telji hann að kærendur hafi engra slíkra hagsmuna að gæta sem réttlæti frestun réttaráhrifa. Til grundvallar liggi atvinnufrelsi leyfishafa, sem varið sé í stjórnarskrá Íslands. Sé á því byggt að hættan sem kærendur haldi fram að skapist við umrædda framkvæmd sé þegar komin fram og aukist ekkert eða lítið við framkvæmdina sjálfa.

Komi til frestunar réttaráhrifa fari öll fjárfesting í mannvirkjum fyrir bí og slátra þurfi öllum lífmassa leyfishafa. Það þurfi ekki að orðlengja um hvað yrði um félagið sjálft og starfsmenn þess, en félagið sé stærsti vinnuveitandinn á sunnanverðum Austfjörðum. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sé Breiðdalsá eina áin sem sé í hættu á Austfjörðum. Í Breiðdalsá hafi verið stundaðar seiðasleppingar í tugþúsundatali á hverju ári síðan 1966. Efast megi réttilega um að þar hafi nokkurn tíma verið villtur laxastofn, en öruggt sé að svo sé ekki í dag.

Niðurstaða: Í málinu er því haldið fram auk annars að fyrirliggjandi umboð umboðsmanns kærenda séu haldin ágöllum, meðal annars hvað varðar heimild umboðsmannsins til að gera kröfu fyrir þeirra hönd um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda. Sú meginregla er viðurkennd að sá sem fram kemur sem umboðsmaður annars manns ábyrgist að hann hafi nægilegt umboð til þess sem hann aðhefst í nafni umbjóðanda síns, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá liggur ekkert fyrir í málinu að svo stöddu sem gefur tilefni til að vefengja umboðin almennt. Verður því tekin efnisleg afstaða til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber að skýra slíkar undantekningar þröngt. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Áður en hið kærða leyfi var veitt hafði Fiskeldi Austfjarða rekstrarleyfi til framleiðslu á allt að 6.000 tonnum af laxi á ári í Berufirði, en nýtt rekstrarleyfi tekur til 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af séu að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi. Undir rekstri málsins aflaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá leyfishafa um fyrirhugaða útsetningu seiða. Mun útsetning ekki fyrirhuguð í Berufirði árið 2019, enda séu öll eldissvæði nú þegar í notkun. Með hliðsjón af því laxeldi sem nú þegar er fyrir hendi í Berufirði, sem og því að fyrirhuguð aukning þess samkvæmt hinu kærða leyfi er ekki yfirvofandi, verður ekki talin hætta á að slík umhverfisáhrif komi fram á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis. Þó skal á það bent að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafa alla áhættu af því að hefja nýtingu á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

29/2019 Laxeldi Fáskrúðsfirði rekstrarleyfi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2019, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 6. maí 2019.

Málavextir: Hinn 19. september 2017 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 21.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla, dags. 19. mars 2018, var lögð fram og var leitað álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 14. júní 2018.

Í kjölfarið voru gefin út rekstrarleyfi og starfsleyfi til handa Fiskeldi Austfjarða vegna framkvæmdarinnar.

Matvælastofnun gaf hinn 21. mars 2019 út rekstrarleyfi til kynslóðaskipts sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði. Tekur leyfið til 11.000 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Auglýsing um útgáfu rekstrarleyfisins birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2019 og var leyfið kært 22. apríl s.á., eins og áður greinir.

Sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til kynslóðaskipts sjókvíaeldis í Berufirði. Tekur leyfið til 9.800 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 30/2019.

Hinn 19. mars 2019 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi, í Fáskrúðsfirði. Hefur það leyfi verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 26/2019.

Sama dag gaf Umhverfisstofnun einnig út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi, í Berufirði. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 28/2019.

Hafa kærendur krafist frestunar réttaráhrifa kærðra leyfa í kærumálum nr. 26, 28, 29 og 30/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Vesturdalsár og Selár, þar á meðal hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, en þó mest í veiðiár á Austfjörðum, að ekki sé minnst á lúsafár, sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Byggi kærendur ógildingarkröfu sína á ýmiss konar vanrækslu framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og því að verulegir annmarkar séu á leyfinu og þeirri málmeðferð sem leitt hafi til útgáfu þess. Beri að fresta réttaráhrifum hins kærða leyfis eða stöðva framkvæmdir samkvæmt því.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé undantekning frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Almennt sé það talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta, sbr. skýringarsjónarmið að baki 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leggja verði heildstætt mat á þau sjónarmið sem fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmæta hagsmuni aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt, en í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því sem orðið hafi að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé vísað til síðastnefnda atriðisins, þ.e. að horfa verði til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Stofnunin telji að við útgáfu hins kærða leyfis hafi hún fylgt ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem um leyfisveitinguna gilda og ekkert hafi komið fram í kærunni sem bendi til þess að fallist verði á kröfu kærenda í málunum. Ekki verði því séð að nokkur rök mæli með því að fallast beri á kröfu um frestun réttaráhrifa. Þvert á móti telji stofnunin með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum einsýnt að taka skuli málið til efnislegrar meðferðar. Við matið beri jafnframt að hafa í huga réttmætar væntingar og hagsmuni fyrirtækisins, en það hafi unnið að framkvæmdinni um margra ára skeið. Ljóst sé að frestun réttaráhrifa myndi hafa gríðarlega mikil og slæm áhrif á fyrirtækið og ekki síður á atvinnulíf á Austfjörðum, sbr. umfjöllun í matsskýrslu um áhrif framkvæmdarinnar á samfélagslega þætti á svæðinu.

Sé miðað við að leyfi stofnunarinnar sé innan þeirra marka sem annars vegar burðarþolsmat og hins vegar áhættumat Hafrannsóknastofnunar geri ráð fyrir verði ekki séð að starfsemi í skjóli leyfisins valdi óafturkræfu tjóni á meðan meðferð kærumálsins standi yfir. Afstaða Matvælastofnunar til mats á umhverfisáhrifum liggi fyrir í greinargerð stofnunarinnar um útgáfu rekstrarleyfanna. Þar sé að finna rökstudda afstöðu stofnunarinnar til þeirra sjónarmiða sem Skipulagsstofnun hafi sett fram í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Þá liggi fyrir að eldi sé nú þegar stundað á landinu, þ.m.t. bæði í Reyðarfirði og í Berufirði. Hvorki sé því hægt að fallast á að hin kærða framkvæmd auki verulega á þau umhverfisáhrif sem þegar séu af fiskeldi á svæðinu né að framkvæmdin auki eða breyti sjónarmiðum varðandi eyðileggingu á ímynd hreinnar og ómengaðrar náttúru og orðspor landsins.

Þá bendi Matvælastofnun á fordæmi úrskurðarnefndarinnar í sambærilegum málum þar sem óskað hafi verið eftir frestun réttaráhrifa rekstrarleyfa vegna fiskeldis, sem gefin hafi verið út af stofnuninni. Slíkum kröfum hafi verið hafnað með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þegar sé til staðar, meiri hagsmunum leyfishafa andstætt minni hagsmunum kærenda og að ekki verði ráðið að framkvæmdunum fylgi svo stórfelld og óafturkræf áhrif á umhverfið að kæruheimild verði þýðingarlaus. Þrátt fyrir að nefndin hafi í tveimur þeirra tilvika síðar fellt úr gildi leyfi Matvælastofnunar þá telji stofnunin þau sjónarmið sem valdið hafi ógildingunni ekki eiga við um þau mál sem nú liggi fyrir nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá í heild sinni þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð kærenda til þess lögmanns er riti undir kæruna. Ekki liggi fyrir umboð frá öllum kærendum og þau umboð sem liggi fyrir séu óvottuð og því ógild. Ekki verði heldur séð að þeir sem undirriti umboðin hafi heimild til slíks. Þá uppfylli náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ekki skilyrði aðildar skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Of seint sé að bæta úr greindum annmörkum. Þá sé byggt á því að í umboðunum felist ekki heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa, umboðin séu öll efnislega samhljóða og nái einvörðungu til þess að kæra leyfið til ógildingar. Úrskurður um frestun yrði meira íþyngjandi og hefði alvarlegri réttaráhrif fyrir leyfishafa en úrskurður um ógildingu leyfis þar sem útgáfa bráðabirgðaleyfis sé heimil í kjölfar ógildingar, en ekki ef ákvörðun sé tekin um frestun réttaráhrifa.

Kröfugerð í kæru sé óljós og vanreifuð og uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Skortur sé á lögvörðum hagsmunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, en kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Þá skorti kærendur heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa en 5. gr. laga nr. 130/2011 heimili einungis, samkvæmt skýru orðalagi sínu, að kærendur geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Það skorti því lagaheimild til að krefjast „frestunar réttaráhrifa eða að framkvæmdir verði stöðvaðar“ og því beri að vísa þeim kröfulið frá.

Gerð sé sú krafa til vara að hafnað verði kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Meginregla stjórnsýsluréttar sé sú að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunir leyfishafa séu gríðarlegir í málinu og varði bæði fjárhagslega hagsmuni og hagsmuni allra þeirra starfsmanna sem starfi hjá leyfishafa, auk þess sem hagsmunir sveitarfélagsins komi líka til skoðunar. Frestun réttaráhrifa myndi valda leyfishafa slíku tjóni að það væri ekki vafa undirorpið að félagið hætti þar með starfsemi. Ekkert í málinu gefi til kynna að kæruheimild verði þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað. Engin rök séu færð fram fyrir þessum kröfum kærenda, enda engin málefnaleg sjónarmið sem leiði til þess að rétt sé að fresta réttaráhrifum gildandi leyfis.

Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa og telji hann að kærendur hafi engra slíkra hagsmuna að gæta sem réttlæti frestun réttaráhrifa. Til grundvallar liggi atvinnufrelsi leyfishafa, sem varið sé í stjórnarskrá Íslands. Sé á því byggt að hættan sem kærendur haldi fram að skapist við umrædda framkvæmd sé þegar komin fram og aukist ekkert eða lítið við framkvæmdina sjálfa.

Komi til frestunar réttaráhrifa fari öll fjárfesting í mannvirkjum fyrir bí og slátra þurfi öllum lífmassa leyfishafa. Það þurfi ekki að orðlengja um hvað yrði um félagið sjálft og starfsmenn þess, en félagið sé stærsti vinnuveitandinn á sunnanverðum Austfjörðum. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sé Breiðdalsá eina áin sem sé í hættu á Austfjörðum. Í Breiðdalsá hafi verið stundaðar seiðasleppingar í tugþúsundatali á hverju ári síðan 1966. Efast megi réttilega um að þar hafi nokkurn tíma verið villtur laxastofn, en öruggt sé að svo sé ekki í dag.

Niðurstaða: Í málinu er því haldið fram auk annars að fyrirliggjandi umboð umboðsmanns kærenda séu haldin ágöllum, meðal annars hvað varðar heimild umboðsmannsins til að gera kröfu fyrir þeirra hönd um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda. Sú meginregla er viðurkennd að sá sem fram kemur sem umboðsmaður annars manns ábyrgist að hann hafi nægilegt umboð til þess sem hann aðhefst í nafni umbjóðanda síns, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá liggur ekkert fyrir í málinu að svo stöddu sem gefur tilefni til að vefengja umboðin almennt. Verður því tekin efnisleg afstaða til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber að skýra slíkar undantekningar þröngt. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Áður en hið kærða leyfi var veitt hafði Fiskeldi Austfjarða leyfi til 3.000 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Sótt var um nýtt rekstrarleyfi 5. janúar 2017 til aukinnar framleiðslu auk þess sem sótt var um tegundarbreytingu. Tekur nýtt rekstrarleyfi til 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af séu að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi.

Undir rekstri málsins aflaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá leyfishafa um fyrirhugaða útsetningu seiða. Mun útsetning fyrirhuguð í júní 2019 í Fáskrúðsfirði á alls 120.000 geldseiðum og 1.080.000 frjóum seiðum. Í Fáskrúðsfirði hefur ekki verið stundað laxeldi áður og verður því almennt að telja að hætta á að fram komi þau umhverfisáhrif sem kærendur halda fram muni aukast frá því sem áður var. Hins vegar eru til staðar leyfi til handa öðru fyrirtæki til framleiðslu á 6.000 tonnum af laxi í Reyðarfirði. Er í því sambandi rétt að benda á að í áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi er lögð fram tillaga um æskilegt hámarkseldi á hverju svæði fyrir sig samkvæmt útreikningum áhættumatslíkans. Er lagt til 15.000 tonna hámarkseldi á svæðinu Fáskrúðsfjörður og Reyðarfjörður og er tekið fram að ekki skipti höfuðmáli hvernig eldið skiptist milli fjarðanna hvað varði áhættu. Sú hætta sem kærendur vísa til varðandi erfðamengun hefur því vart aukist að því marki við útgáfu hins kærða leyfis að hætta sé á óafturkræfu tjóni. Þá benda gögn málsins ekki til þess að sjúkdómar og lúsasmit, sem óvíst er að komi upp í hinu kærða eldi, muni hafa í för með sér svo yfirvofandi neikvæð umhverfisáhrif á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa.

Samkvæmt því sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða rekstrarleyfis. Þó skal á það bent að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafa alla áhættu af því að hefja nýtingu á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2019 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi.

28/2019 Laxeldi Berufirði starfsleyfi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2019, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 7. maí 2019.

Málavextir: Hinn 19. september 2017 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 21.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla, dags. 19. mars 2018, var lögð fram og var leitað álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 14. júní 2018.

Í kjölfarið voru gefin út rekstrarleyfi og starfsleyfi til handa Fiskeldi Austfjarða vegna framkvæmdarinnar.

Hinn 19. mars 2019 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 9.8000 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi, í Berufirði. Skyldi leyfið öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar á því til rekstraraðila. Auglýsing um útgáfu starfsleyfisins birtist á vefsíðu Umhverfisstofnunar 22. mars 2019 og var leyfið kært til úrskurðarnefndarinnar 22. apríl s.á., eins og áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur einnig gefið út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Fáskrúðsfirði, þar af séu að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi. Hefur það leyfi jafnframt verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 26/2019.

Matvælastofnun gaf hinn 21. mars 2019 út rekstrarleyfi til kynslóðaskipts sjókvíaeldis í Berufirði. Tekur leyfið til 9.800 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 30/2019.

Sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til kynslóðaskipts sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði. Tekur leyfið til 11.000 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000a tonn af frjóum laxi. Hefur leyfið verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 29/2019.

Hafa kærendur krafist frestunar réttaráhrifa kærðra leyfa í kærumálum nr. 26, 28, 29 og 30/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Vesturdalsár og Selár, þar á meðal hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, en þó mest í veiðiár á Austfjörðum, að ekki sé minnst á lúsafár, sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Byggi kærendur ógildingarkröfu sína á ýmiss konar vanrækslu framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og því að verulegir annmarkar séu á starfsleyfinu og þeirri málmeðferð sem leitt hafi til útgáfu þess. Beri að fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis eða stöðva framkvæmdir samkvæmt því.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun kveðst hafa gefið út nýtt starfsleyfi til leyfishafa 19. mars 2019 fyrir framleiðslu á 9.800 tonnum af laxi í Berufirði, þar af verði að hámarki 6.000 tonn með frjóum fiski. Við gildistöku þess falli niður eldra starfsleyfi leyfishafa.

Varðandi Varðandi kröfu kærenda um frestun framkvæmda bendi stofnunin á að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram sú meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. og meginreglu 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Í undantekningartilfellum sem skýra beri þröngt sé úrskurðarnefndinni heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, þar sem ástæður mæli með því, á meðan kæra sé til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.

Við mat á því hvort ástæður mæli með frestun réttaráhrifa verði að líta til þess hvort án frestunar réttaráhrifa myndi gæta röskunar sem væri óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli. Í kæru sé engin umfjöllun um forsendur og hagsmuni sem leiða ættu til þeirrar niðurstöðu að fresta ætti réttaráhrifum þar til efnisúrskurður gengi í málinu. Það liggi þó í hlutarins eðli að frestun réttaráhrifa hefði gríðarlega mikil áhrif á leyfishafa og starfsemi hans.

Starfsleyfið sé gefið út samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og í samræmi við burðarþolsmat fjarðarins. Leyfið taki mið af áhættumati erfðablöndunar, sé í samræmi við útgefið rekstrarleyfi Matvælastofnunar og mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Þá séu kröfur í starfsleyfi um vöktun og hvíldartíma svæða. Í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar leggist stofnunin gegn því að réttaráhrifum verði frestað, enda hafi ekki verið sýnt fram á neinar þær ástæður sem leiða eigi til slíkrar niðurstöðu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá í heild sinni þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð kærenda til þess lögmanns er riti undir kæruna. Ekki liggi fyrir umboð frá öllum kærendum og þau umboð sem liggi fyrir séu óvottuð og því ógild. Ekki verði heldur séð að þeir sem undirriti umboðin hafi heimild til slíks. Þá uppfylli náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ekki skilyrði aðildar skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Of seint sé að bæta úr greindum annmörkum. Þá sé byggt á því að í umboðunum felist ekki heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa, umboðin séu öll efnislega samhljóða og nái einvörðungu til þess að kæra starfsleyfið til ógildingar. Úrskurður um frestun yrði meira íþyngjandi og hefði alvarlegri réttaráhrif fyrir leyfishafa en úrskurður um ógildingu leyfis þar sem útgáfa bráðabirgðaleyfis sé heimil í kjölfar ógildingar, en ekki ef ákvörðun sé tekin um frestun réttaráhrifa.

Kröfugerð í kæru sé óljós og vanreifuð og uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Skortur sé á lögvörðum hagsmunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, en kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Þá skorti kærendur heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa en 5. gr. laga nr. 130/2011 heimili einungis, samkvæmt skýru orðalagi sínu, að kærendur geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Það skorti því lagaheimild til að krefjast „frestunar réttaráhrifa eða að framkvæmdir verði stöðvaðar“ og því beri að vísa þeim kröfulið frá.

Gerð sé sú krafa til vara að hafnað verði kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Meginregla stjórnsýsluréttar sé sú að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunir leyfishafa séu gríðarlegir í málinu og varði bæði fjárhagslega hagsmuni og hagsmuni allra þeirra starfsmanna sem starfi hjá leyfishafa, auk þess sem hagsmunir sveitarfélagsins komi líka til skoðunar. Frestun réttaráhrifa myndi valda leyfishafa slíku tjóni að það væri ekki vafa undirorpið að félagið hætti þar með starfsemi. Ekkert í málinu gefi til kynna að kæruheimild verði þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað. Engin rök séu færð fram fyrir þessum kröfum kærenda, enda engin málefnaleg sjónarmið sem leiði til þess að rétt sé að fresta réttaráhrifum gildandi leyfis.

Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa og telji hann að kærendur hafi engra slíkra hagsmuna að gæta sem réttlæti frestun réttaráhrifa. Til grundvallar liggi atvinnufrelsi leyfishafa, sem varið sé í stjórnarskrá Íslands. Fiskeldi í Reyðarfirði hafi sömu áhrif samkvæmt áhættumati og eldi í Fáskrúðsfirði. Sé á því byggt að hættan sem kærendur haldi fram að skapist við umrædda framkvæmd sé þegar komin fram og aukist ekkert eða lítið við framkvæmdina sjálfa.

Komi til frestunar réttaráhrifa fari öll fjárfesting í mannvirkjum fyrir bí og slátra þurfi öllum lífmassa leyfishafa. Það þurfi ekki að orðlengja um hvað yrði um félagið sjálft og starfsmenn þess, en félagið sé stærsti vinnuveitandinn á sunnanverðum Austfjörðum. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sé Breiðdalsá eina áin sem sé í hættu á Austfjörðum. Í Breiðdalsá hafi verið stundaðar seiðasleppingar í tugþúsundatali á hverju ári síðan 1966. Efast megi réttilega um að þar hafi nokkurn tíma verið villtur laxastofn, en öruggt sé að svo sé ekki í dag.

Niðurstaða: Í málinu er því haldið fram auk annars að fyrirliggjandi umboð umboðsmanns kærenda séu haldin ágöllum, meðal annars hvað varðar heimild umboðsmannsins til að gera kröfu fyrir þeirra hönd um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda. Sú meginregla er viðurkennd að sá sem fram kemur sem umboðsmaður annars manns ábyrgist að hann hafi nægilegt umboð til þess sem hann aðhefst í nafni umbjóðanda síns, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá liggur ekkert fyrir í málinu að svo stöddu sem gefur tilefni til að vefengja umboðin almennt. Verður því tekin efnisleg afstaða til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber að skýra slíkar undantekningar þröngt. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Áður en hið kærða leyfi var veitt hafði Fiskeldi Austfjarða leyfi til framleiðslu á allt að 6.000 tonnum af laxi á ári í Berufirði, en nýtt starfsleyfi tekur til 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi. Undir rekstri málsins aflaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá leyfishafa um fyrirhugaða útsetningu seiða. Mun útsetning ekki fyrirhuguð í Berufirði árið 2019, enda séu öll eldissvæði nú þegar í notkun. Með hliðsjón af því laxeldi sem nú þegar er fyrir hendi í Berufirði, sem og því að fyrirhuguð aukning þess samkvæmt hinu kærða leyfi er ekki yfirvofandi, verður ekki talin hætta á að slík umhverfisáhrif komi fram á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða leyfis. Þó skal á það bent að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafi alla áhættu af því að hefja nýtingu á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 9.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

26/2019 Laxeldi Fáskrúðsfirði starfsleyfi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2019, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 7. maí 2019.

Málavextir: Hinn 19. september 2017 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 21.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla, dags. 19. mars 2018, var lögð fram og var leitað álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 14. júní 2018.

Í kjölfarið voru gefin út rekstrarleyfi og starfsleyfi til handa Fiskeldi Austfjarða vegna framkvæmdarinnar.

Hinn 19. mars 2019 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi. Skyldi leyfið öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar á því til rekstraraðila. Auglýsing um útgáfu starfsleyfisins birtist á vefsíðu Umhverfisstofnunar 22. mars 2019 og var leyfið kært til úrskurðarnefndarinnar 22. apríl s.á., eins og áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur einnig gefið út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í Berufirði, þar af séu að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi. Hefur það leyfi jafnframt verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 28/2019.

Matvælastofnun gaf hinn 21. mars 2019 út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fáskrúðsfirði. Tekur leyfið til 11.000 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Hefur leyfið einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 29/2019.

Sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Berufirði. Tekur leyfið til 9.800 tonna ársframleiðslu af laxi, þar af 6.000 tonna af frjóum laxi. Hefur það leyfi jafnframt verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 30/2019.

Hafa kærendur krafist frestunar réttaráhrifa kærðra leyfa í kærumálum nr. 26, 28, 29 og 30/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Vesturdalsár og Selár, þar á meðal hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, en þó mest í veiðiár á Austfjörðum, að ekki sé minnst á lúsafár, sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna.

Byggi kærendur ógildingarkröfu sína á ýmiss konar vanrækslu framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og því að verulegir annmarkar séu á starfsleyfinu og þeirri málmeðferð sem leitt hafi til útgáfu þess. Beri að fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis eða stöðva framkvæmdir samkvæmt því.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun kveðst hafa gefið út nýtt starfsleyfi til leyfishafa 19. mars 2019 fyrir framleiðslu á 11.000 tonnum af laxi í Fáskrúðsfirði, þar af verði að hámarki 6.000 tonn með frjóum fiski. Við gildistöku þess falli niður eldra starfsleyfi leyfishafa fyrir framleiðslu á regnbogasilungi.

Varðandi kröfu kærenda um frestun framkvæmda bendi stofnunin á að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram sú meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. og meginreglu 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Í undantekningartilfellum sem skýra beri þröngt sé úrskurðarnefndinni heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, þar sem ástæður mæli með því, á meðan kæra sé til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.

Við mat á því hvort ástæður mæli með frestun réttaráhrifa verði að líta til þess hvort án frestunar réttaráhrifa myndi gæta röskunar sem væri óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli. Í kæru sé engin umfjöllun um forsendur og hagsmuni sem leiða ættu til þeirrar niðurstöðu að fresta ætti réttaráhrifum þar til efnisúrskurður gengi í málinu. Það liggi þó í hlutarins eðli að frestun réttaráhrifa hefði gríðarlega mikil áhrif á leyfishafa og starfsemi hans.

Starfsleyfið sé gefið út samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og í samræmi við burðarþolsmat fjarðarins. Leyfið taki mið af áhættumati erfðablöndunar, sé í samræmi við útgefið rekstrarleyfi Matvælastofnunar og mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Þá séu kröfur í starfsleyfi um vöktun og hvíldartíma svæða. Í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar leggist stofnunin gegn því að réttaráhrifum verði frestað, enda hafi ekki verið sýnt fram á neinar þær ástæður sem leiða eigi til slíkrar niðurstöðu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá í heild sinni þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð kærenda til þess lögmanns er riti undir kæruna. Ekki liggi fyrir umboð frá öllum kærendum og þau umboð sem liggi fyrir séu óvottuð og því ógild. Ekki verði heldur séð að þeir sem undirriti umboðin hafi heimild til slíks. Þá uppfylli náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ekki skilyrði aðildar skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Of seint sé að bæta úr greindum annmörkum. Þá sé byggt á því að í umboðunum felist ekki heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa, umboðin séu öll efnislega samhljóða og nái einvörðungu til þess að kæra starfsleyfið til ógildingar. Úrskurður um frestun yrði meira íþyngjandi og hefði alvarlegri réttaráhrif fyrir leyfishafa en úrskurður um ógildingu leyfis þar sem útgáfa bráðabirgðaleyfis sé heimil í kjölfar ógildingar, en ekki ef ákvörðun sé tekin um frestun réttaráhrifa.

Kröfugerð í kæru sé óljós og vanreifuð og uppfylli ekki kröfur 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Skortur sé á lögvörðum hagsmunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, en kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Þá skorti kærendur heimild til að krefjast frestunar réttaráhrifa en 5. gr. laga nr. 130/2011 heimili einungis, samkvæmt skýru orðalagi sínu, að kærendur geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Það skorti því lagaheimild til að krefjast „frestunar réttaráhrifa eða að framkvæmdir verði stöðvaðar“ og því beri að vísa þeim kröfulið frá.

Gerð sé sú krafa til vara að hafnað verði kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Meginregla stjórnsýsluréttar sé sú að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunir leyfishafa séu gríðarlegir í málinu og varði bæði fjárhagslega hagsmuni og hagsmuni allra þeirra starfsmanna sem starfi hjá leyfishafa, auk þess sem hagsmunir sveitarfélagsins komi líka til skoðunar. Frestun réttaráhrifa myndi valda leyfishafa slíku tjóni að það væri ekki vafa undirorpið að félagið hætti þar með starfsemi. Ekkert í málinu gefi til kynna að kæruheimild verði þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað. Engin rök séu færð fram fyrir þessum kröfum kærenda, enda engin málefnaleg sjónarmið sem leiði til þess að rétt sé að fresta réttaráhrifum gildandi leyfis.

Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa og telji hann að kærendur hafi engra slíkra hagsmuna að gæta sem réttlæti frestun réttaráhrifa. Til grundvallar liggi atvinnufrelsi leyfishafa, sem varið sé í stjórnarskrá Íslands. Fiskeldi í Reyðarfirði hafi sömu áhrif samkvæmt áhættumati og eldi í Fáskrúðsfirði. Sé á því byggt að hættan sem kærendur haldi fram að skapist við umrædda framkvæmd sé þegar komin fram og aukist ekkert eða lítið við framkvæmdina sjálfa.

Komi til frestunar réttaráhrifa fari öll fjárfesting í mannvirkjum fyrir bí og slátra þurfi öllum lífmassa leyfishafa. Það þurfi ekki að orðlengja um hvað yrði um félagið sjálft og starfsmenn þess, en félagið sé stærsti vinnuveitandinn á sunnanverðum Austfjörðum. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sé Breiðdalsá eina áin sem sé í hættu á Austfjörðum. Í Breiðdalsá hafi verið stundaðar seiðasleppingar í tugþúsundatali á hverju ári síðan 1966. Efast megi réttilega um að þar hafi nokkurn tíma verið villtur laxastofn, en öruggt sé að svo sé ekki í dag.

Niðurstaða: Í málinu er því haldið fram auk annars að fyrirliggjandi umboð umboðsmanns kærenda séu haldin ágöllum, meðal annars hvað varðar heimild umboðsmannsins til að gera kröfu fyrir þeirra hönd um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda. Sú meginregla er viðurkennd að sá sem fram kemur sem umboðsmaður annars manns ábyrgist að hann hafi nægilegt umboð til þess sem hann aðhefst í nafni umbjóðanda síns, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá liggur ekkert fyrir í málinu að svo stöddu sem gefur tilefni til að vefengja umboðin almennt. Verður því tekin efnisleg afstaða til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber að skýra slíkar undantekningar þröngt. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærendur byggja í kæru sinni á því að gífurlegt magn úrgangs stafi frá eldinu og að því fylgi hætta á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Áður en hið kærða leyfi var veitt hafði Fiskeldi Austfjarða starfsleyfi til 3.000 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Sótt var um nýtt starfsleyfi 5. janúar 2017 til aukinnar framleiðslu auk þess sem sótt var um tegundarbreytingu. Tekur nýtt starfsleyfi til 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af séu að hámarki 6.000 tonn af frjóum laxi.

Undir rekstri málsins aflaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá leyfishafa um fyrirhugaða útsetningu seiða. Mun útsetning fyrirhuguð í júní 2019 í Fáskrúðsfirði á alls 120.000 geldseiðum og 1.080.000 frjóum seiðum. Í Fáskrúðsfirði hefur ekki verið stundað laxeldi áður og verður því almennt að telja að hætta á að fram komi þau umhverfisáhrif sem kærendur halda fram muni aukast frá því sem áður var. Hins vegar eru til staðar leyfi til handa öðru fyrirtæki til framleiðslu á 6.000 tonnum af laxi í Reyðarfirði. Er í því sambandi rétt að benda á að í áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi er lögð fram tillaga um æskilegt hámarkseldi á hverju svæði fyrir sig samkvæmt útreikningum áhættumatslíkans. Er lagt til 15.000 tonna hámarkseldi á svæðinu Fáskrúðsfjörður og Reyðarfjörður og er tekið fram að ekki skipti höfuðmáli hvernig eldið skiptist milli fjarðanna hvað varði áhættu. Sú hætta sem kærendur vísa til varðandi erfðamengun hefur því vart aukist að því marki við útgáfu hins kærða leyfis að hætta sé á óafturkræfu tjóni. Þá benda gögn málsins ekki til þess að sjúkdómar og lúsasmit, sem óvíst er að komi upp í hinu kærða eldi, muni hafa í för með sér svo yfirvofandi neikvæð umhverfisáhrif á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa.

Samkvæmt því sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða leyfis. Þó skal á það bent að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafi alla áhættu af því að hefja nýtingu á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um að gefa út starfsleyfi fyrir eldi á 11.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf., þar af að hámarki 6.000 tonnum af frjóum laxi.

87/2018 Þrastargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. júlí 2018.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits frá árinu 2008 sem tekur m.a. til lóðarinnar Fálkagötu 7b. Meðal markmiða skipulagsins samkvæmt greinargerð þess er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Þá segir í skilmálum um byggðamynstur að hafa beri í huga mælikvarða þeirrar byggðar sem fyrir sé á svæðinu. Samkvæmt grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins er heimilt að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Gæta skuli þess að kvistar fari húsum vel og falli vel að byggingarstíl þeirra.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. ágúst 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu kvists á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Kærandi í máli þessu kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, en eftir að kæra barst voru breytingar á leyfinu samþykktar í tvígang. Með úrskurði uppkveðnum 22. desember s.á., í kærumáli nr. 100/2017, var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það var ekki talið vera í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureits.

Á fundi skipulagsfulltrúa 23. febrúar 2018 var lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagsráðs um breytingu á skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits vegna lóðarinnar Þrastargötu 7b. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að byggja kvist á norðurhlið hússins og mætti hann ekki vera stærri en sem næmi 70% af þakfleti þess Auk þess yrði heimilt að byggja á lóðinni 6 m2 viðbyggingu/sólskála við suðurhlið hússins. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum. Að lokinni grenndarkynningu vísaði skipulagsfulltrúi tillögunni til umsagnar verkefnisstjóra á fundi sínum 6. apríl s.á. Tillagan var svo samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 16. maí 2018 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá sama degi. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 100/2017 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að kvistur á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b samræmdist ekki almennum skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits. Kvistur hafi verið á húsinu sunnanverðu í samræmi við skilmála deili­skipulags, sbr. samþykktar teikningar frá 12. maí 2015. Framkvæmdir hafi hafist við gerð kvistsins á norðurhlið hússins um leið og byggingaráform hafi verið samþykkt. Á sama tíma hafi kvistur á suðurhlið þess verið hækkaður og breikkaður til samræmis við samþykktan kvist á norðurhliðinni án tilskilins leyfis. Því liggi fyrir að bæði kvistur á norðurhlið og suðurhlið hússins séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag Fálkagötureits.

Kærandi sé eigandi Þrastargötu 7 sem standi gegnt norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Hann hafi því verulegra grenndarhagsmuna að gæta í málinu. Stækkun á suðurkvisti hafi verið í ósamræmi við skilmála deiliskipulags Fálkagötureits þar sem hann nái yfir meira en helming þakflatar á húsinu að Þrastargötu 7b, líkt og kvistur á norðurhlið þess.

Hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Í fyrsta lagi sé deiliskipulagsbreytingin í andstöðu við eðli og markmið deiliskipulagsins. Í greinargerð með deiliskipulagi Fálkagötureits sé byggðamynstur við Þrastargötu verndað. Með deiliskipulagi sé mörkuð heildarstefna fyrir tiltekinn reit eða svæði. Borgarar verði að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi sem móti byggð á skipulagssvæðinu nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Uppbyggingarmöguleikar hafi verið færðir inni í deiliskipulag Fálkagötureits árið 2008 í kjölfar rannsóknar skipulagsyfirvalda til að varðveita sem best byggðamynstur. Við þá rannsókn hafi m.a. verið leitað til Borgarsögusafns við mat á heimiluðum breytingum á húsum á deiliskipulagssvæðinu. Ekki sé því tækt að breyta deiliskipulagi svæðisins svo oft sem raun beri vitni. Skipulagsbreytingar sem þessar hafi fordæmisgildi um nýtingu annarra lóða á svæðinu á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Þar af leiðandi hafi þær víðtæk áhrif og breyti byggðamynstri og núverandi nýtingarhlutfalli skipulagssvæðisins ásamt ásýnd og hlutföllum húsa.

Hvorki séu til staðar veigamiklar ástæður eða skipulagsrök fyrir deiliskipulagsbreytingunni. Heimild til að stækka kvist sé réttlætt með vísan til þess að kvistur á suðurhlið hússins sé af sömu stærð. Ekki liggi fyrir leyfi fyrir stækkun kvists á suðurhlið hússins þannig að þau rök standist ekki. Ekki sé hægt að réttlæta framkvæmd með óleyfisframkvæmd. Þá komi fram að risið sé illnýtanlegt. Það sé tilvikið með mörg hús á skipulagssvæðinu. Til að breytingin standist skoðun þurfi að gera breytingu á almennum deiliskipulagsskilmálum svo öllum standi það jafnt til boða, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 19/2002.

Í öðru lagi hafi ekki verið heimilt að fara með deiliskipulagsbreytinguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda sé verið að víkja frá almennum skilmálum deiliskipulags, sem hafi fordæmisgildi fyrir aðra lóðarhluta sem tilheyri sameiginlegri lóð Þrastargötu 3-11 og Smyrilsvegar 29-31. Í þriðja lagi hafi verið óheimilt að breyta skilmálatöflu þannig að farið væri gegn almennum byggingarskilmálum deiliskipulags Fálkagötureits, sbr. grein 1.A í skilmálum skipulagsins. Með tilliti til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefði þurft að breyta hinum almennu skilmálum til þess að stækkunin á kvistum hússins gæti staðist.

Samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni sé heimilað að byggja viðbyggingu/sólskála á lóðar­hlutanum að Þrastargötu 7b. Í almennum skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits sé heimilt að byggja annars vegar litlar viðbyggingar og hins vegar litlar geymslur/sólstofur á baklóðum allt að 6 m2 þar sem aðstæður leyfi. Á lóðarhlutanum að Þrastargötu 7b hafi þegar verið byggð geymsla. Kærandi byggi því í fjórða lagi á því að ekki séu skilyrði fyrir hendi til þess að heimila viðbyggingu/sólskála við suðurhlið hússins.

Í fimmta lagi liggi ekki fyrir að Minjastofnun hafi fjallað um fyrirspurn eigenda Þrastargötu 7b um heimild til að byggja kvisti á húsið í þeirri stærð sem þeir hafi verið byggðir. Því skorti á að rannsóknarskyldu hafi verið framfylgt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að Minjastofnun hafi borist til umsagnar erindi um að reisa kvist á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Þær teikningar sem lagðar voru fyrir stofnunina hafi tekið mið af kvisti í samræmi við stærðarhlutföll almennra skilmála deiliskipulags Fálkagötureits. Því séu framangreindar upplýsingar í umsögn skipulagsfulltrúa rangar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að með deili­skipulagsbreytingunni hafi verið gerðir sérskilmálar fyrir Þrastargötu 7b um að heimilt væri að byggja kvist á norðurhlið, sem yrði í samræmi við eldri kvist á suðurhlið hússins, en sá kvistur nái aðeins yfir helming þakflatar. Um sé að ræða minni háttar framkvæmd við kvist á litlu gömlu einbýlishúsi. Verið sé að viðhalda gömlu húsi með möguleika á smávægilegri stækkun, sem sé í samræmi við markmið deiliskipulagsins, þ.e. að vernda þá byggð sem sé þarna til staðar.

Samkvæmt 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé eigendum húsa og mannvirkja sem byggð hafi verið 1925 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggðust breyta þeim, flytja þau eða rífa. Þrastargata 7b sé hluti af bráðabirgðaskúrbyggingum einstaklinga sem reistar hafi verið á árunum 1926-1929. Eigendur Þrastargötu 7b hafi sótt um leyfi hjá byggingarfulltrúa til að byggja kvist árið 2015 og hafi sömu teikningar verið lagðar til Minjastofnunar. Í áliti stofnunarinnar frá 24. mars 2015 segi: „Þar sem húsið Þrastargata 7b stendur á baklóð, þétt inn á milli annarra húsa, er breytingin vart sýnileg frá Þrastargötu og hefur lítil sem engin áhrif á heildaryfirbragð svæðisins. Hönnun viðbygginga tekur mið af stærð og formi hússins. Minjastofnun gerir ekki athugasemd við erindið.“

Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri heillavænlegt að opna á útvíkkun almennra skilmála varðandi stækkun kvista á rishæðum. Byggðin við Þrastargötu sé „sprottin af smáum auðmjúkum skala og því ákaflega viðkvæm fyrir hverskyns breytingum.“ Embættið telji rétt að hver fyrirspurn sem lúti að stækkun kvista eða annarra viðbygginga umfram heimildir skuli skoðast sem undantekning frá almennum skilmálum. Húsið við Þrastargötu 7b sé mun minna en mörg hús á reitnum, eða 85,3 m2. Það segi sig sjálft að þegar rýmkuð sé heimild um nokkur prósent þá hafi það mun meiri áhrif á stærri hús en þau sem séu minni. Kvistur á norðurhluta hússins sé dreginn rúmlega 1,0 m frá þakenda og stækki í raun einungis um 36 cm frá núverandi heimild, þ.e. 18 cm til hvorrar hliðar, en það sé minni háttar breyting. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ákvæðið heimili breytingu á deiliskipulagi með grenndarkynningu að vissum skilyrðum uppfylltum. Breytingin verði að teljast óveruleg, en við það mat skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Leitað hafi verið eftir umsögn Minjastofnunar þegar byggingarleyfisumsókn hafi verið send inn árið 2015 vegna kvista og sólskála, þ.e. sömu framkvæmd sem deiliskipulagsbreytingin lúti að. Sérstaklega sé tekið fram í umsögninni að umsóknin lúti að kvisti norðan megin hússins „sem sé sambærilegur að stærð og gerð og kvistur sem fyrir er á suðurhlið hússins“, enda sá kvistur löngu byggður. Bæði á skipulagsstigi og byggingarstigi hafi verið leitað álits Minjastofnunar og hafi verið tekið vel í þessar breytingar af hálfu stofnunarinnar.

Niðurstaða: Hin kærða breyting á deiliskipulagi Fálkagötureits felur í sér heimild til að byggja kvist á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b og má kvisturinn ekki vera stærri en sem nemur 70% af þakfleti hússins. Auk þess er heimilað að byggja 6 m2 viðbyggingu/sólskála við suðurhlið. Kærandi er eigandi húss að Þrastargötu 7 og byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar m.a. á því að breytingin sé í andstöðu við eðli, markmið og almenna skilmála deiliskipulags Fálkagötureits, að ekki hafi verið heimilt að fara með breytinguna eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að málsmeðferðin hafi verið andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld þar af leiðandi ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Heimilaðar breytingar eru ekki til þess fallnar að breyta útliti og formi byggðar á viðkomandi svæði umfram það sem heimilað var samkvæmt skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits fyrir umrædda breytingu. Deiliskipulagsbreytingin hefur ekki í för með sér breytingu á notkun hinnar sameiginlegu lóðar og nýtingarhlutfall hennar eykst lítillega. Samkvæmt framangreindu var heimilt að breyta deiliskipulaginu með grenndarkynningu í stað auglýsingar. Átti kærandi þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna breytingarinnar, sem hann og gerði, og að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda hans og þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. maí 2018. Umhverfis- og skipulagsráð fjallaði um tillöguna á fundi sínum sama dag og samþykkti hana með vísan til a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Skipulagsyfirvöldum bar ekki skylda til að afla álits Minjastofnunar þrátt fyrir að fyrri umsögn stofnunarinnar hafi tekið mið af öðrum teikningum. Auglýsing um gildistöku tillögunnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. maí 2018. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við skipulagslög.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til að stækka húsið að Þrastargötu 7b úr 85,3 m2 í 121,4 m2 og verður stærð hússins sambærileg því sem gengur og gerist á sameiginlegu lóð Þrastargötu 3-11 og Smyrilsvegar 29-31. Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif kvistsins með tilliti til skuggavarps og útsýnis verði óveruleg en að einhver innsýn verði frá kvistinum á fasteign kæranda, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b.

23/2018 Lindargata Skúlagötusvæði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðunum Smiðjustíg 10, Smiðjustíg 11 og 11b, Smiðjustíg 12, Klapparstíg 16 og Lindargötu 11 í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. maí 2018.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986, en 17. nóvember 2005 var gerð breyting á deiliskipulaginu vegna staðgreinireits 1.151.5, sem afmarkast af Lindargötu, Klapparstíg, Hverfisgötu og Smiðjustíg.

Hinn 5. apríl 2017 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Í breytingunni fólst að fasteignin að Lindargötu 10 yrði gerð upp og færð sem næst í upprunalegt horf. Ný viðbygging yrði byggð milli Lindargötu 10 og Lindargötu 12 og nýtt hús yrði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Var tillagan auglýst til kynningar í fjölmiðlum 9. maí 2017 með athugasemdarfresti til 20. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Beytingartillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 23. ágúst 2017 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 12. október s.á. Skipulagsstofnun var send deiliskipulagsbreytingin í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í bréfi stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 1. nóvember 2017, voru gerðar athugasemdir við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. Var á það bent að fjalla þyrfti um og bregðast við athugasemdum Minjastofnunar Íslands frá 18. september 2017, þar sem athygli væri vakin á óútskýrðu misræmi í hæðarkótum, ósamræmi í grunnmynd og sniðmyndum að nýju húsi við Smiðjustíg 14, auk þess sem fyrirhugaður kjallari væri of nálægt brunagafli Smiðjustígs 12. Þá gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við að fara þyrfti almennt yfir gögn m.t.t. skýrleika skilmála og gæta þyrfti að innbyrðis samræmi. Kótar hámarkshæðar þyrftu að koma fram auk mænis- og brunagaflshæðar húsanna að Lindargötu 12 og Smiðjustíg 12.

Í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar voru gögn yfirfarin m.t.t. skýrleika, kjallari tekin út af sniðmynd nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12 og tilteknar aðrar breytingar gerðar í tilefni af athugasemdum Minjastofnunar og Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í borgarráði 21. desember 2017 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda í fyrsta lagi á að við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu virðist borgaryfirvöld hafa talið sér heimilt að taka lóðarskika af lóðinni við Smiðjustíg 12 án þess að eiga um það nokkuð samtal við eiganda lóðarinnar. Slík eignatilfærsla sé óheimild enda séu lóðarréttindi lóðarhafa Smiðjustígs 12 friðhelg eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Engar lagaheimildir séu til staðar fyrir færslu greindra eignaréttinda til lóðarhafa Lindargötu 10 með breyttu deiliskipulagi.

Í öðru lagi sé bent á að bygging einbýlishúss/parhúss við Smiðjustíg 14 hafi veruleg fjár­hag­s­­­­­­leg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Megi jafna slíkri ákvörðun við eignaupptöku og sé hún því að fullu bótaskyld, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við mat á þessu sé óhjákvæmilegt að vísa til þess að þær deiliskipulagsbreytingar sem ákveðnar hafi verið byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Einu hagsmunirnir sem séu til staðar séu fjárhagslegir hagsmunir eiganda fasteignarinnar að Lindargötu 10.

Í þriðja lagi sé fundið að því að á skorti að skýrleiki þeirra gagna sem umþrætt deiliskipulagsbreyting byggi á sé nægjanlegur. Kærendur vísi í þessu sambandi til bréfs Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2017 þar sem fram komi að hæðarkótar á svæðinu séu óskýrir, einkum þegar komi að því að bera saman hæðarkóta fyrir og eftir væntanlegar breytingar á húsunum samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í umsögnum hagsmunaaðila til skipulagsyfirvalda hafi ítrekað verið vísað til þess að hæðarkótar séu ekki réttir. Ekkert hafi verið gert með þær ábendingar.

Í fjórða lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að nýtingarhlutfall á skipulagsreitnum aukist frá því sem samþykkt hafi verið árið 2005, úr 0,9 í 2,2, en núverandi nýtingarhlutfall reitsins sé 0,4. Byggingarmagn frá núverandi fyrirkomulagi sé því rúmlega fimmfaldað. Eðli málsins samkvæmt hafi slík breyting mikil áhrif á skipulag lóðarinnar Lindargötu 10 og á næstu lóðir. Breytingin feli enn fremur í sér inngrip í götumyndir beggja gatnanna sem lóðin standi við, þ.e. Lindargötu og Smiðjustíg. Það sé ekki í anda þess sem unnið hafi verið að undanfarin ár með friðun götumyndar Smiðjustígs. Þá falli timburhúsin sem þar standi undir lög um menningarminjar.

Að lokum geri kærendur athugasemdir við stjórnsýslu Reykjavíkurborgar við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar. Ekki hafi verið rætt við hagsmunaaðila eða þeim gefinn kostur á að koma að undirbúningi málsins á fyrri stigum. Þá hafi vakið athygli kærenda að eigandi hússins að Lindargötu 10 sé hlutafélagið Minjavernd ehf., sem sé m.a. í eigu ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Af þessum sökum sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún kanni sérstaklega hvort og þá hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að deiliskipulag sé ekki alltaf hárnákvæmt varðandi lóðastærðir en lóðarblað hafi verið nákvæmara þegar það hafi verið gert, en við gerð slíks blaðs sé litið til fyrirliggjandi gagna um viðkomandi lóð. Lóðum sé ekki breytt í hinni umþrættu deiliskipulagstillögu heldur sé byggt á deiliskipulagi frá árinu 2005. Lóðarblað gert af landupplýsingadeild Reykjavíkurborgar frá 28. september 2015 standi óbreytt eftir deiliskipulagsbreytinguna.

Í 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þeim sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði. Verðmæti fasteignarinnar verði að skerðast meira en almennt gerist á skipulagssvæðinu. Telji kærendur að sveitarfélagið hafi með samþykkt skipulagsáætlunar valdið þeim tjóni sé vakin athygli á því að kröfu um bætur skuli beint að sveitarfélaginu sem taki afstöðu til kröfunnar þegar og ef hún berist.

Kærendur telji að óskýrleiki gagna sem deiliskipulagsbreytingin grundvallist á eigi að leiða til ógildingar umræddrar skipulagsbreytingar og vísi þeir í því sambandi til athugasemda Skipulagsstofnunar við hina samþykktu deiliskipulagsbreytingu. Skipulagsyfirvöld hafi brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar og hafi uppdráttur skipulagsins og greinargerð verið uppfærð eftir ábendingum stofnunarinnar. Þá hafi Minjastofnun gefið út tvær umsagnir í málinu á vinnslutíma skipulagsbreytingarinnar, hina fyrri, dags. 1. júlí 2015. Í umsögninni hafi áformum um að endurbyggja Ebenezershús í nær upprunalegu horfi verið fagnað, en gerð hafi verið athugasemd við útfærslu nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12. Brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Í seinni umsögn Minjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við tillöguna að öðru leyti en að mælt hafi verið með því að veggbrún framhliðar og mænir þaks yrðu í sömu hæð og á Smiðjustíg 12. Þriðja umsögn Minjastofnunar hafi borist eftir að búið hafi verið að samþykkja umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda í umhverfis- og skipulagsráði og málið komið á dagskrá borgarráðs. Ekki hafi þótt ástæða til að bregðast við ábendingum stofnunarinnar í þriðju umsögninni vegna stjórnsýslulegrar stöðu málsins. Sömuleiðis hafi Skipulagsstofnun átt eftir að fjalla um málið og gera athugasemdir, sem og stofnunin hafi gert. Búið hafi verið að yfirfara gögn m.t.t. skýrleika, uppsetningar á töflu um byggingarmagn og skýringar varðandi fjölda hæða á grunnmyndum og sniðum. Það misræmi sem fram komi á hæð hússins að Lindargötu 12 skv. deiliskipulagsuppdrætti og byggingarnefndarteikningum, skýrist af því að „gerð var mæling á staðnum og raunhæð hússins skráð á deiliskipulaginu, ásamt skýringum um að um raunhæð húss sé að ræða.“

Þá hafi Minjastofnun mælt með því að vegghæð og mænishæð nýbyggingar við Smiðjustíg 12 yrði sú sama og byggingarinnar við hliðina. Tillöguhöfundar hafi lagt mikinn metnað í útfærslu nýbyggingarinnar. Brugðist hafi verið við óskum Minjastofnunar um að vegghæð yrði sú sama, en ekki hafi verið brugðist við ósk stofnunarinnar um að færa mænishæð nýbyggingarinnar í sömu hæð og húss nágrannans. Tillöguhöfundar hafi, máli sínu til stuðnings, einnig bent á að örlítið mismunandi mænishæð skapi uppbrot í götumynd og mörg dæmi þess séu í lifandi götumyndum eldri borgarhluta. Að öðru leyti hafi verið búið að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Kærandi telji að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð við lóðarhafa þeirra lóða sem liggi að þeim lóðum sem breytt hafi verið með deiliskipulagsbreytingunni. Reykjavíkurborg bendi í þessu sambandi á að deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst samkvæmt 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulagslaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 9. maí 2017, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu s.d. Þessar bréfasendingar séu umfram lagalega tilkynningarskyldu sveitarfélaga, eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Hafi málsmeðferðin  uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Vegna athugasemdar kærenda um að úrskurðarnefndin eigi að skoða hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar sé á það bent að sveitarstjórn borgarinnar sé fjölskipað stjórnvald sem beri ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags samkvæmt 38. gr. skipulagslaga. Sé ákvörðunarvaldið hjá sveitarstjórninni en ekki hjá einstaka embættis–mönnum. Sé því  vísað á bug að afstaða borgarinnar hafi við deiliskipulagsbreytinguna byggt á því hvaða hlutafélag sé skráð fyrir lóðinni eða að um hagsmunaárekstra hafi verið að ræða.

 Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kærenda verði hafnað. Lóðarhafi tekur undir rök Reykjavíkurborgar í málinu og gerir að sínum.

Mótmælt sé villandi framsetningu  í kæru,  en þar sé látið sem niðurrif á bíslagi við Lindargötu 10 og stækkun hússins með byggingu tengibyggingar upp að brunavegg við Lindargötu 12 sé grundvallarbreyting sem gerð hafi verið með hinu nýja deiliskipulagi.

Þá telji lóðarhafi að kærendur uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur hafi kosið að bera fram eina kæru án nánari útlistunar á lögvörðum hagsmunum hvers kærenda um sig. Eins og kæran sé úr garði gerð og framsett verði ekki komist hjá því að vísa henni í heild sinni frá úrskurðarnefndinni.

Lóðarhafi telji jafnframt nauðsynlegt að leiðrétta misskilning í kæru varðandi stöðu götu–myndar Smiðjustígs. Götumyndin sé ekki friðuð heldur hafi hún fengið umfjöllun sem „vernduð“ götumynd. Sú afgreiðsla hafi hins vegar ekkert lögformlegt gildi heldur sé hún frekar hugsuð sem vinnugagn þegar til breytinga eða óska þar um komi. Meðal annars af þeim ástæðum hafi ítrekað verið leitað umsagnar Minjastofnunar við vinnslu skipulagstillögunnar og ekki hafi verið gerðar efnislegar athugasemdir við nýbyggingu upp að brunagafli Smiðjustígs 12.

Lóðarhafi mótmæli umfjöllun kærenda um stærð lóðarinnar að Smiðjustíg 12. Kærendur hafi reynt að færa rök fyrir því að lóðin hafi af einhverjum ástæðum minnkað frá árinu 1905 úr 165,5 m², fyrst í 160,2 m² árið 1921 og síðan í 158,05 m² í dag. Enginn vafi sé uppi um að húsið standi á lóðarmörkum við Lindargötu 10. Hafi eigandi Smiðjustígs 12 á hverjum tíma haft þessi viðhorf um ótalda áratugi felist í hans aðgerðaleysi ígildi afsals eða samþykki og hafi hann vitað af þessu frá 2014 þá hefði að sama skapi verið eðlilegt að koma athugasemdum á framfæri þá þegar við rétta aðila.

Lóðarhafi bendi enn fremur á að nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 hafi verið langt fyrir neðan öll viðmið og að eðlilegt sé að bæta þar verulega við samræmi við umhverfi og aðliggjandi lóðir. Þótt nýtingarhlutfallið fari upp í 2,2. sé það langt fyrir neðan nýtingarhlutfall aðliggjandi lóða og meðaltal nýtingarhlutfall reitsins í heild. Hafi það verið 2,37 áður en samþykktar hafi verið breytingar á deiliskipulagi vegna Smiðjustígs 10 og Klapparstígs 16, sem fari fram úr þessu marki. Þétting byggðar hafi átt sér stað í öllu Skuggahverfi og það sé markviss stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð.

Að lokum telji lóðarhafi að í kæru sé vegið  að embættismönnum og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með ósmekklegum hætti. Sé það vart svaravert af hálfu lóðarhafa. Öllum vangaveltum í kæru um óeðlilega afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu og hefur m.a. verið gerð krafa um frávísun málsins sökum skorts á kæruaðild.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það ákvæði skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærumál lýtur að.

Að kærumáli þessu standa lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðum í næsta nágrenni við Lindargötu 10, ýmist innan umrædds skipulagsreits eða við nærliggjandi götur. Í ljósi staðsetningar fasteigna kærenda geta framkvæmdir þær sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu snert grenndarhagsmuni þeirra. Þykja kærendur því eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og verður kæru þeirra því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem m.a. öryggi landsmanna sé haft að leiðarljósi, sbr. a-lið ákvæðisins. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem tók gildi 26. febrúar 2014, er lóðin nr. 10 við Lindargötu á skilgreindu miðborgarsvæði. Þar er lóðin sett í flokk þróunarsvæða þar sem gert er ráð fyrir mögulegri þéttingu íbúðarbyggðar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir að húsið að Lindargötu 10 verði gert upp, ný viðbygging verði reist á milli Lindargötu 10 og 12 og að nýtt hús verði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting gangi gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem og þeir gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem Reykjavíkurborg tók til afgreiðslu og brást við eins og rakið er í málavöxtum. Ekki liggur fyrir að aðkoma starfsmanna Reykjavíkurborgar hafi verið með óeðlilegum eða ómálefnalegum hætti við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar, svo sem kærendur byggja á. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 úr 0,9 í 2,2, en meðalnýtingarhlutfall nærliggjandi lóða er 2,37, sem er svipað og á öðrum lóðum á Skúlagötusvæðinu.

Í skipulagslögum er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi fasteignaeiganda tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. laganna, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki tekið til skoðunar hvort bygging húss við Smiðjustíg 14 hafi fjárhagsleg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Þá verður eignarréttarlegur ágreiningur um lóðamörk við Smiðjustíg 12 ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann sömuleiðis undir lögsögu dómstóla. Hins vegar er rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geta til ógildingar hennar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.