Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2019 Fiskeldi Austfjarða, Fáskrúðsfirði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2019, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um veitingu starfsleyfis fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 að veita Fiskeldi Austfjarða hf. starfsleyfi fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 16. maí 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 7. maí 2019.

Málavextir: Með umsókn, dags. 5. janúar 2017, sótti Fiskeldi Austfjarða hf. um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar til framleiðslu á 24.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði og Berufirði, en félagið hafði á þeim tíma leyfi til að framleiða samtals 11.000 tonn af laxi og regnbogasilungi í fjörðunum. Hinn 19. september s.á. lagði félagið fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 21.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrslan var auglýst 6. október 2017 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu og 12. október 2017 í staðarblaðinu Dagskránni. Skýrslan lá frammi til kynningar frá 6. október til 17. nóvember 2017 á skrifstofum Djúpavogshrepps, skrifstofum Fjarðabyggðar, Bókasafni Djúpavogs, Bókasafni Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Auk þess var frummatsskýrslan aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Fiskeldi Austfjarða hélt kynningarfund á Djúpavogi um framkvæmdina og mat á umhverfisáhrifum hennar 19. október 2017 og lagði fram 19. mars 2018 matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 11.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af 6.000 tonn af frjóum laxi. Var leitað álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og lá það fyrir 14. júní s.á., að fengnum umsögnum Djúpavogshrepps, Ferðamálastofu, Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar kemur fram að í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og 26. gr. reglugerðar um sama efni hafi stofnunin farið yfir matsskýrslu Fiskeldis Austfjarða, sem lögð hafi verið fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Telji stofnunin að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Jafnframt er tekið fram að Skipulagsstofnun telji „að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs laxeldis Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði felist í áhrifum á ástand sjávar, botndýralíf, aukinni hættu á að fisksjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska og áhrifum á villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Þá telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi Fiskeldis Austfjarða komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með fyrirhuguðu eldi Laxa fiskeldis í Fáskrúðsfirði á þá þætti sem nefndir voru hér á undan. Þá telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru fyrirhuguðu eldi á Austfjörðum á villta laxastofna með tilliti til erfðablöndunar, villta laxfiska með tilliti til laxalúsar og á landslag og ásýnd.“ Lagði stofnunin til að í starfsleyfi yrðu sett nánar tilgreind tíu skilyrði sem vörðuðu vöktun, viðmið, mótvægisaðgerðir o.fl. vegna áhrifa framkvæmdarinnar á ástand sjávar og botndýralíf, sem og vegna aukinnar hættu á fisksjúkdómum og laxalús.

Hinn 23. október 2018 lá fyrir viðbótargreinargerð leyfishafa við fyrri matsskýrslu þar sem gerð var nánari grein fyrir samanburði valkosta. Var greinargerðin lögð fram vegna úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018, en í málunum voru rekstrarleyfi og starfsleyfi Arnarlax og Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði felld úr gildi þar sem ekki hafði farið fram nauðsynlegur samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta. Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um greinargerð félagsins um samanburð valkosta og spurt hvort hún yrði til þess að Skipulagsstofnun gæfi út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að nýju. Umsögn Skipulagsstofnunar lá fyrir 5. nóvember s.á. og í niðurstöðu hennar er tekið fram að í greinargerð sinni fjalli framkvæmdaraðili um þá valkosti við sjókvíaeldi sem helst hafi verið í umræðunni á undanförnum misserum. Segir svo eftirfarandi: „Að mati Skipulagsstofnunar eru þau sjónarmið, sem framkvæmdaraðili færir fram fyrir því að útiloka valkostina sem raunhæfa kosti til að ná markmiðum framkvæmdar, almennt hlutlæg og málefnaleg. Í greinargerð framkvæmdaraðila er jafnframt fjallað um þá valkosti sem bornir voru saman í matsskýrslu og settir fram vegna upplýsinga sem komu fram í umhverfismatsferlinu. Þá er fjallað um þær breytingar sem orðið hafa á fyrirhuguðu framleiðslumagni og ástæður þeirra breytinga. Skipulagsstofnun telur umfjöllun í greinargerðinni um valkosti fullnægjandi og telur ekki ástæðu til að gefa út nýtt álit um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs laxeldis Fiskeldis Austfjarða í Beru- og Fáskrúðsfirði.“

Tillaga að starfsleyfi var auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 14. desember 2018 með fresti til að skila inn athugasemdum til 18. janúar 2019. Bárust athugasemdir á auglýsingartíma, m.a. frá kærendum. Hinn 19. mars s.á. veitti Umhverfisstofnun Fiskeldi Austfjarða starfsleyfi fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi. Gildistími leyfisins er til 19. mars 2035 og er það bundið ýmsum skilyrðum. Auglýsing um útgáfu þess birtist á vefsíðu Umhverfisstofnunar 22. mars 2019. Með gildistökunni féll úr gildi eldra starfsleyfi leyfishafa í Fáskrúðsfirði.

Hinn 21. mars 2019 veitti Matvælastofnun Fiskeldi Austfjarða rekstrarleyfi fyrir eldi því sem hér um ræðir, en auk þess veittu Matvælastofnun og Umhverfisstofnun rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis sama aðila í Berufirði á 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 28/2019, 29/2019 og 30/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta að ekki sé stefnt í hættu lífríki Breiðdalsár, Hofsár, Sunnudalsár, Vesturdalsár og Selár, sem og hinum villtu lax- og silungsstofnum ánna, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi sem muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Fáskrúðsfirði. Eldisfiskur muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið eins og nýleg reynsla sýni, en þó mest í veiðiár á Austfjörðum. Krafa kærenda um ógildingu leyfisins sé byggð á því að ýmiskonar vanræksla framkvæmdaraðilans og leyfisveitandans hafi átt sér stað og verulegir annmarkar séu á starfsleyfinu og við útgáfu þess.

Við framkvæmd eins og laxeldi framkvæmdaraðila sé mat á umhverfisáhrifum lagaskylda samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafi aðeins fjallað um einn valkost í matsskýrslu sinni og hafi því ekki sinnt þeirri skyldu að fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina hafi komið varðandi framkvæmdina, s.s. notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða núllkost, sem myndu hafa í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna eða eignir annarra aðila, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Hvergi sé lagaheimild til að víkja frá ákvæðum 8. gr. laga nr. 106/2000 um að málsmeðferð skuli hefja með tillögu að matsáætlun sem framkvæmdaraðili skuli kynna umsagnaraðilum og almenningi. Eftir að framkvæmdaraðili hafi lagt fram matsskýrslu 19. mars 2018 án valkostasamanburðar hafi hann reynt, eftir að kynningartíma matsskýrslunnar hafi lokið, að koma henni í löglegt horf með því að leggja fram hinn 23. október 2018 viðbótargreinargerð upp á 31 blaðsíðu.

Viðbótargreinargerðin, sem hafi átt að vera grundvallarinnlegg í matsskýrsluna, hafi ekki verið auglýst til almennrar umsagnar heldur aðeins send frá Umhverfisstofnun til Skipulagsstofnunar til umsagnar. Þessi leynilega meðferð sé andstæð fyrirmælum um opinbera auglýsingu skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 660/2015, og lögmæltum andmælarétti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Sá verulegi annmarki á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sé á ábyrgð Umhverfisstofnunar og hljóti að varða ógildingu á hinu útgefna starfsleyfi. Ef afsláttur yrði veittur af fullu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000, með einhvers konar hlutamálsmeðferð í formi viðbótarbúts við eldra mat, sé ljóst að grafið yrði undan markmiði löggjafar um mat á umhverfisáhrifum. Að stytta sér þannig leið sé einnig óheimilt samkvæmt ákvæðum Árósasamningsins. Um afleiðingar vanrækslu á því að bera saman valkosti vísist til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 573/2016. Hér vísist einnig til tveggja dóma ESB-dómstólsins í máli nr. C-435/97, WWF o.fl., málsgr. 50-54, og í máli framkvæmdastjórnarinnar gegn Belgíu nr. C-435/09, málsgr. 62. Í dómum þessum komi fram að þrátt fyrir að tilskipun 2011/92/ESB (áður 85/337/EBE) veiti aðildarríkjum visst svigrúm hvað varði málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum þá verði matið að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar. Þannig verði að skýra lög nr. 106/2000 og framkvæmd þeirra til samræmis við EES-samninginn, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt mynd af sjókvíaeldissvæðum í Fáskrúðsfirði á bls. 23 í viðbótargreinargerð framkvæmdaraðila sé lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða óskyldra aðila langt undir löglegum mörkum, en þau séu 5 km skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Því hafi verið óheimilt að gefa út starfsleyfi fyrir tilgreindum staðsetningum og hljóti það að varða ógildingu leyfisins. Ummæli Umhverfisstofnunar á bls. 18 í greinargerð með starfsleyfinu um niðurfellingu á ákvæði um lágmarksfjarlægð séu á misskilningi byggð. Breytingarreglugerð nr. 55/2019 fjalli einkum um lágmarksfjarlægð eldiskvía frá veiðiám. Upplýsingar frá Matvælastofnun, um að fjarlægð á milli umræddra eldissvæða, sem Umhverfisstofnun vitni til á bls. 19 í sömu greinargerð, sé meiri en 5 km, séu beinlínis rangar, eins og sjá megi á myndinni á bls. 23 í viðbótargreinargerðinni og í 1. viðauka á bls. 10 í starfsleyfinu sjálfu.

Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum sem viðhaft hafi verið taki til tveggja aðskildra svæða, þ.e. annars vegar í Berufirði og hins vegar í Fáskrúðsfirði. Firðirnir séu að fullu aðskildir og þeir séu sitt hvoru megin við Stöðvarfjörð og Beiðdalsvík og um 33 km fjarlægð sé á milli miðju fjarðarmynna Berufjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Skilyrði sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 séu að framkvæmdir séu á sama svæði og háðar hvor annarri. Hvorugt þessara skilyrða sé til staðar. Vísist hér til staðfestingar framkvæmdaraðila sjálfs í svari til Skipulagsstofnunar, sem greint sé frá neðst á bls. 8 í áliti stofnunarinnar frá 16. júní 2018, um „að Berufjörður og Fáskrúðsfjörður séu sitt hvort svæðið með mismunandi burðarþolsmat. Þar af leiðandi hafi hvor fjörður sína eldisáætlun.“

Vísað sé til 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sem og til athugasemda við 2. mgr. 1. gr. í frumvarpi því sem orðið hafi að nefndum lögum. Þar segi: „Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar [fiskeldis] má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“ Hafi Umhverfisstofnun ekki sýnt fram á hvernig útgáfa starfsleyfisins samrýmist tilvitnuðu lagaákvæði og valdi það ógildingu þess.

Meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa sé hluti af umhverfismatsferli og skuli fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB, svo sem henni hafi verið breytt með breytingartilskipun 2014/52/ESB, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem sé hluti af EES-samningnum. Umhverfisstofnun hafi t.d. ekki tekið með beinum hætti afstöðu til stóru spurningarinnar í málinu, þ.e.a.s. hvort rök hafi verið til þess að hafna umsókninni, a.m.k. að sinni.

Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrárinnar geti stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið nema fyrir því sé sérstök lagaheimild. Hvergi sé í lögum heimild til handa stjórnsýsluhöfum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Eignarrétti ríkisins fylgi eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Leyfishafi hafi ekki lagt fram skilríki fyrir afnotum sínum af hafinu, eins og lagaskylda sé skv. 2. mgr. 8. gr. fiskeldislaga, sbr. 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrárinnar.

Ljóst sé að verði leyft laxeldi með norskum kynbættum og framandi eldisstofni í sjókvíum í Fáskrúðsfirði séu veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokufiski en þó mest á Austfjörðum. Fram komi í áliti Fiskistofu, dags. 18. janúar 2013, að gert sé ráð fyrir að einn lax sleppi út fyrir hvert framleitt tonn af eldislaxi og leiti inn á þessi nærliggjandi laxveiðisvæði. Við málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi lögvernduðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi af starfsemi sem hér um ræði. Þá láti stofnunin undir höfuð leggjast að rannsaka sérstaklega og leggja mat á hættuna á umhverfistjóni.

Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 sé Breiðdalsá í mestri áhættu allra laxveiðiáa á Íslandi vegna sjókvíalaxeldis með norskum, kynbættum laxastofni í nágrenni árinnar. Samkvæmt áhættumatslíkaninu sé áin rétt undir 4% þröskuldsgildi innblöndunar eldisfisks þegar reiknað sé með heildareldismagni samkvæmt útgefnum rekstrarleyfum fyrir sjókvíaeldi á þeim tíma sem áhættumatið hafi verið gert. Útgefin rekstrarleyfi hafi þá tekið til framleiðslu á 6.000 tonnum í Reyðarfirði og 6.000 tonnum í Berufirði, eða samtals 12.000 tonnum af frjóum laxi. Eftir útgáfu starfsleyfis þess sem þessi kæra fjalli um sé í skjóli útgefinna sjókvíaeldisleyfa samtals gert ráð fyrir 50% meira magni af frjóum laxi á Austfjörðum en áhættumatið frá 2017 hafi byggst á. Með 18.000 tonna sjókvíaeldi með frjóum laxi sé ljóst að gera verði ráð fyrir 18.000 strokulöxum á ári miðað við hina almennt viðurkenndu viðmiðunarreglu um einn strokulax fyrir hvert tonn í sjókvíaeldi. Hrognafjöldi hverrar eldishrygnu sem nái að hrygna í veiðiá sé um 6.000 hrogn (4 kg fiskur). Sé gert ráð fyrir að endurheimtur í viðkomandi veiðiá verði 2% af þessum hrognafjölda, sem gæti þó allt eins verið frá 0,5% til 10%, geri það 120 göngufiska (blendinga) í ána frá aðeins einni eldishrygnu. Megi nærri geta hvernig ástand eldislaxa í austfirskum laxveiðiám, og þá sérstaklega Breiðdalsá, verði fljótlega eftir að allt þetta risaeldi byrji. Starfsleyfi það sem hér sé kært, að meðtöldu nýju starfsleyfi í Berufirði, hækki þröskuldsgildi áhættumats Breiðdalsár upp í tæplega 6%, sem sé langt yfir þeim mörkum sem framkvæmdaraðili, Fiskistofa, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Skipulagsstofnun hafi staðfest að skuli virt við útgáfu starfsleyfis fyrir Fáskrúðsfjörð og Berufjörð.

Upplýsingar um staðsetningu eldiskvía fyrir ófrjóan lax í Fáskrúðsfirði séu hvorki í matsskýrslu né í starfsleyfi og sé lýsing á framkvæmdinni því alls ófullnægjandi skv. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Vísist hér einnig til niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar í 5. kafla á bls. 34 um „Tilhögun eldis“, þar sem stofnunin staðfesti þennan annmarka á eldisáætlunum framkvæmdaraðila.

Í 4. tölul. á bls. 19 í greinargerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfinu sé upplýst að stofnunin hafi gert breytingar og lagfæringar á auglýstri tillögu að starfsleyfi, sem snúi að lagfæringum á hnitum vegna staðsetninga kvía og hafi verið bætt inn ákvæði varðandi leyfi vegna notkunar á ófrjóum fiski. Einnig hafi verið sett inn ákvæði vegna vöktunar fugla sem hafi kallað á breytingu á vöktunaráætlun. Þessi verulegi annmarki á auglýstri tillögu að starfsleyfi sé í andstöðu við fyrirskipaða málsmeðferð við útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæði 10. og 11. gr. laga nr. 106/2000 og hljóti að varða ógildingu þess þar sem framkvæmdinni hafi ekki verið rétt og fyllilega lýst í matsskýrslu. Virðist Umhverfisstofnun hafa tekið upp hjá sjálfri sér að setja inn nefndar breytingar og viðbætur við mat framkvæmdaraðila. Hvergi í lögum sé heimild til slíkrar aðkomu stofnunarinnar.

Samkvæmt breytingartilskipun 2014/52/ESB skuli leyfisveitandi leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar við útgáfu leyfis. Einnig skuli leyfisveitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá því. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um nokkuð neikvæð og talsvert neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar varði t.d. súrefnisstyrk á takmörkuðu svæði við botn bæði Fáskrúðsfjarðar og Berufjarðar, sjúkdóma laxfiska næst eldissvæðinu ef sjúkdómur dreifist um svæði í nærliggjandi fjörðum, áhrif á laxfiska ef vandamál vegna laxalúsar verði viðvarandi eða ef laxalús dreifist á víðáttumeira svæði og smiti fiska í nærliggjandi fjörðum, áhrif strokulaxa á stofna villtra laxa vegna erfðablöndunar og samlegðaráhrifa vegna eldis fleiri eldisfyrirtækja. Einnig áhrif á fiskveiðar í Berufirði og Fáskrúðsfirði, ásýndarbreytingar og þar með áhrif á upplifun ferðamanna og útivistarfólks sem leið eigi um Austfirði. Umhverfisstofnun hafi látið hjá líða að fara eftir fyrrnefndum fyrirmælum.

Aðeins einn valkostur auk núllkosts sé nefndur vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila. Skortur á umfjöllun um hina ýmsu valkosti sé svo verulegur annmarki á frummatsskýrslunni að það varði höfnun hennar. Þá hafi viðbótargreinargerð framkvæmdaraðila um samanburð valkosta, dags. 23. október 2018, ekki verið auglýst til almennrar umsagnar. Mótmælt sé órökstuddri staðhæfingu í viðbótargreinargerðinni um að rúmmetri í stöð með lokuðum kvíum sé tíu sinnum dýrari en sjókvíastöð með netkvíum. Vakin sé athygli á yfirlýsingu framkvæmdaraðila þess efnis að dæmin sanni að fiskur sleppi úr hefðbundnum kvíum eins og lokuðum kvíum. Þá sé bent á andstæðar upplýsingar um landeldi í greinargerðinni. Á einum stað segi að landeldi fyrir 10.000 tonna eldi þurfi 6,4 til 9 ha lands, en síðar í sömu málsgrein segi að landeldi þurfi 2 til 3 ha lands fyrir hver 1.000 tonn sem framleidd séu, þ.e. 20 til 30 ha fyrir 10.000 tonna eldisstöð. Einnig sé mótmælt fullyrðingu um að landeldisstöð fyrir 20.000 tonn muni kosta 50 til 60 milljarða á meðan sjókvíaeldisstöð fyrir sama magn kosti um 4,6 milljarða. Þekkt sé að framleiðsla eldislax í landeldi í Noregi sé núna með svipuðum framleiðslukostnaði pr. kg og sjókvíaeldi.

Að mati framkvæmdaraðila, Fiskistofu, Umhverfistofnunar, Matvælastofnunar og Skipulagsstofnunar beri að leggja niðurstöður áhættumats Hafrannsóknastofnunar til grundvallar við ákvarðanir um leyfisveitingar til sjókvíaeldis á frjóum laxi. Að teknu tilliti til áhættumatsins telji Skipulagsstofnun að samlegðaráhrif fyrirhugaðs eldis leyfishafa með núverandi og fyrirhuguðu eldi Laxa fiskeldis ehf. á stofna villtra laxa séu líkleg til að verða verulega neikvæð og að miðað við fyrirliggjandi þekkingu séu ekki forsendur til að veita leyfi til alls eldisins. Svo virðist sem allar nefndar stofnanir hafi gengið út frá heildareldismagni á grundvelli þeirra framleiðsluleyfa sem útgefin hafi verið 14. júlí 2017, þegar áhættumatið hafi verið birt. Sú niðurstaða gefi alranga mynd af áhættumati, þegar við bætist eldismagn nýrra starfsleyfa og rekstrarleyfa, sem auki eldismagnið um 50%. Framkvæmdaraðili hafi ekki gert grein fyrir samlegðaráhrifum eldisins og hvernig kynslóðaskipt eldi og hvíld eldissvæða verði háttað með tilliti til annars fyrirhugaðs eldis í Fáskrúðsfirði, Berufirði og Reyðarfirði eða hvernig tryggja eigi samhæfða eldisferla óskyldra aðila til að lágmarka smithættu á milli eldissvæða og vegna náttúrlegra laxfiska til framtíðar. Framkvæmdaraðilinn hafi enga grein gert fyrir því hvort einhverjir samningar um samstarf hafi verið gerðir við önnur eldisfyrirtæki sem fyrirhugi sjókvíaeldi í nefndum fjörðum.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 75. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, fari Umhverfisstofnun með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum. Beri stofnuninni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdarinnar á náttúruna við gerð og útgáfu starfsleyfisins, en það hafi ekki verið gert. Sé í þessu sambandi vísað til 1. gr. og 2. gr. náttúruverndarlaga, til varúðarreglunnar í 9. gr. sömu laga og til 63. gr. laganna um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Jafnframt verði að líta til 1. gr. laga um fiskeldi.

Starfsemin brjóti gegn 1. gr., 2. gr. og 9. gr. náttúruverndarlaga og setji fjölbreytni íslenskrar náttúru til framtíðar í hættu og þróun hennar á eigin forsendum sé ekki lengur tryggð nái hún fram að ganga. Feli starfsemin í sér samskipti manns og náttúru, sem valdi því að líf spillist og fari enn fremur gegn þeirri stefnu að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Hvorki sé í starfsleyfinu getið um skyldu framkvæmdaraðila um að tryggt skuli að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó né getið um norska staðalinn NS 9415:2009.

Hvorki í starfsleyfinu né greinargerð Umhverfisstofnunar sé vegna vinnslu starfsleyfisins getið álits erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017, þar sem m.a. segi: „Að mati Erfðanefndar landbúnaðarins er frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skorti á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þ.m.t. þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“

Norskir strokulaxar úr sjókvíaeldi séu nú byrjaðir að veiðast í veiðiám landsins með óhjákvæmilegri skerðingu orðspors hreinnar náttúru. Strokulaxar sem hafi veiðst á síðasta ári, allt frá Staðarhólsá/Hvolsá í Dölum og austur til Vatnsdalsár og Eyjafjarðarár, hafi verið upprunagreindir og reynst flestir koma úr sjókvíum Arnarlax hf. í Arnarfirði og Tálknafirði. Á bak við hvern stangarveiddan eldislax séu tugir eða hundruð strokulaxa, enda teljist strokulaxar úr 10.000 tonna sjókvíaeldi Arnarlax hf. á síðasta ári í þúsundum.

Gerðar séu athugasemdir við nokkur atriði í athugasemdum Umhverfisstofnunar til úrskurðarnefndarinnar og ítreki kærendur málsrök sín. Heimatilbúin valkostaumfjöllun í viðbót við matsskýrslu komi ekki í stað mats á umhverfisáhrifum enda verði að fjalla um fjölmörg önnur atriði í nýju mati. Mat á umhverfisáhrifum hafi í meginatriðum farið fram á árunum 2014 til 2016 og geti það því hvorki talist í fullu gildi í skilningi breytingartilskipunar 2014/52/ESB né geti það sem slíkt verið grundvöllur nýrrar ákvörðunar skv. 13. gr. laga nr. 106/2000. Staðan sé gjörbreytt frá því að matsskýrslan hafi verið unnin sem álit Skipulagsstofnunar hafi byggt á. Margvíslegar skýrslur um áhættumat og erfðablöndunarhættu hafi komi fram síðan, s.s. álit erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017, áhættumat Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldisstofna og náttúrulegra laxastofna á Íslandi og skýrsla Hafrannsóknastofnunar 25. ágúst 2017 um erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna. Bent sé á dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 þar sem ekki hafi verið fallist á skemmri skírn sem framkvæmdaraðili hafi reynt að sleppa með. Þeirri staðhæfingu Skipulagsstofnunar að umfjöllun framkvæmdaraðila um valkosti hafi verið almennt hlutlæg og málefnaleg sé mótmælt. Laxeldi á landi sé fyllilega raunhæfur valkostur og sé í dag helsti vaxtarbroddur laxeldis í heiminum, enda útiloki það gífurleg náttúruspjöll eldis í opnum sjókvíum og sé framleiðslukostnaður landeldis orðinn fyllilega samkeppnisfær við sjókvíaeldi. Sama gildi um eldi geldfisks. Vísist þar til stórfelldrar framleiðslu á geldhrognafiski hjá Stofnfiski á Reykjanesi. Einnig sé nærtækt að líta til leyfisumsóknar framkvæmdaraðila og nýútgefinna starfsleyfa og rekstrarleyfa honum til handa í Fáskrúðsfirði og Berufirði fyrir samtals 8.800 tonna framleiðslu geldlax.

Rangt sé að meira en 5 km séu á milli eldissvæða óskyldra aðila í Fáskrúðsfirði. Komið hafi fram að leyfishafi hafi haft náin samskipti við Laxa fiskeldi ehf. um að eldissvæði fyrirtækjanna í Fáskrúðsfirði verði hlið við hlið. Laxar fiskeldi ehf. sé með sín eldissvæði í leyfisferli á þeim forsendum. Umhverfisstofnun hafi tilkynnt á vefsíðu sinni að komið sé að auglýsingu tillögu um starfsleyfi. Matvælastofnun geti ekki heimilað aðrar lágmarksfjarlægðir en 5 km nema að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun. Niðurstaða slíks samráðs liggi ekki fyrir og hafi því verið óheimilt að gefa út starfsleyfi á þeim forsendum. Loks hafi stofnunin ekki fjallað um þá strokulaxa úr sjókvíaeldi sem upprunagreindir hafi verið úr sjókvíum í Arnarfirði og Tálknafirði, en slíkt hljóti að teljast alvarlegur skortur á umfjöllun og rannsókn stofnunarinnar á þeim náttúruspjöllum sem nú séu byrjuð.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að viðbótargreinargerðin hafi verið auglýst með öðrum gögnum málsins opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar um leið og tillaga að starfsleyfi hafi verið auglýst og óskað eftir athugasemdum. Þannig hafi verið sérstaklega gerð grein fyrir viðbótargreinargerðinni. Sú málsmeðferð sé í samræmi við samráð Umhverfisstofnunar við Skipulagsstofnun og forsendur í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, einkum í málum nr. 46/2016, 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018, um að leyfisveitandi kanni samkvæmt rannsóknarreglu hvort álit Skipulagsstofnunar sé lögmætur grunnur ákvarðanatöku.

Leyfisveitandi hafi rannsakað málið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og gætt að því að auglýsa opinberlega þau gögn sem bæst hafi við í rannsókn hans um umhverfisáhrif og með því náð markmiðum mats á umhverfisáhrifum. Þau skilaboð, sem lesa megi í úrskurðunum megi einnig sjá í dómum Hæstaréttar, t.a.m. í máli nr. 796/2015, þar sem fjallað sé um hlutverk leyfisveitanda, sbr. rannsóknarreglu við ákvarðanatöku. Kalli leyfisveitandi eftir viðbótargögnum á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar sé mikilvægt að þau gögn séu auglýst og að almenningur geti komið með athugasemdir, en það hafi einmitt verið gert. Séu því ekki rök til að ógilda starfsleyfið á þessum grundvelli.

Málsástæða kærenda hvað varði fjarlægðarmörk virðist vera byggð á misskilningi. Kærendur vísi til myndar á bls. 23 í viðbótargreinargerð þar sem teiknuð séu inn eldissvæði rekstraraðila samkvæmt hinu kærða starfsleyfi, en einnig önnur hugsanleg eldissvæði sem annar umsækjandi hafi haft áform um. Hvorki sé lokið mati á umhverfisáhrifum né liggi fyrir útgefið starfsleyfi vegna þeirra svæða. Þau eldissvæði þar sem gefin hafi verið út starfsleyfi séu eldissvæði leyfishafa og því eigi ákvæði um óskylda aðila ekki við. Séu kærendur að vísa til starfsleyfis annars aðila til eldis á þorski, sem sé innst í firðinum og gildi til 27. maí 2020, þá sé ekki starfsemi þar eins og staðan sé nú. Þá hafi Matvælastofnun staðfest að meira en 5 km séu á milli svæðanna. Staðsetning eldisins sé því ekki í andstöðu við ákvæði reglugerðar um fiskeldi og viðkomandi fjarlægðarmörk. Þá falli fjarlægðarmörk undir reglugerð nr. 1170/2017 um fiskeldi og stjórnsýslu Matvælastofnunar. Sú stofnun geti heimilað aðrar fjarlægðir, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Umhverfisstofnun fái ekki séð að það bindi hendur leyfisveitanda við útgáfu leyfa að í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum sé fjallað um fyrirhugað eldi í Berufirði annars vegar og Fáskrúðsfirði hins vegar í einni skýrslu þar sem nægjanlegur greinarmunur sé gerður á mismunandi umhverfisáhrifum í hvorum firði fyrir sig. Leyfisveitendur hafi aftur á móti ákveðið að gefa út leyfi fyrir hvorn fjörð fyrir sig, enda séu umhverfisaðstæður mismunandi milli fjarða. Jafnframt verði eftirlit og eftirfylgni með starfsleyfunum mun skilvirkara. Á þessum grundvelli hafi það verið ákvörðun Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar að gefin yrðu út tvö leyfi.

Bent sé á að stofnunin gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið þeirra laga séu m.a. að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Við útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi verið gætt að markmiðsákvæðum laganna, sem ekki verði séð að farið hafi gegn markmiðsákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Umhverfisstofnun hafi farið ítarlega yfir matsskýrslu framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, m.t.t. þess hvort umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið lýst með fullnægjandi hætti og hvort gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Þá hafi stofnunin einnig óskað eftir viðbótarupplýsingum um matið varðandi umhverfisáhrif mismunandi valkosta og gætt að opinberri birtingu viðbótarupplýsinga. Telji stofnunin málsmeðferðina í heild vera traustan grundvöll ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis. Umhverfisstofnun hafi farið yfir tillögu að matsáætlun framkvæmdaraðila og matsskýrslu framkvæmdarinnar og m.a. veitt umsagnir til Skipulagsstofnunar í málsmeðferðinni. Brugðist hafi verið við athugasemdum með viðunandi hætti og tekið á þeim í ákvæðum starfsleyfis. Þá hafi stofnunin tekið á móti og farið yfir umsókn um starfsleyfi og þau gögn sem málið varði.

Í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 4/2018 og 6/2018 komi fram að skyldur leyfisveitanda vegna matsskyldra framkvæmda séu að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar, auk þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, eins og segi í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Umhverfisstofnun hafi því farið yfir álit Skipulagsstofnunar með þeim hætti og talið að í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fjalla með ítarlegri hætti um valkosti við framkvæmdina, einkum er varði núllkost, lokaðar kvíar, landeldi og geldfisk. Hafi stofnunin kallað eftir því að leyfishafi gerði betur grein fyrir valkostum heldur en þeim sem lýst hafi verið í matsskýrslu og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Leyfishafi hafi skilað viðbótargreinargerð til Umhverfisstofnunar um þá þætti sem stofnunin hafi talið að fjalla þyrfti um með ítarlegri hætti. Hafi stofnunin farið yfir viðbótargreinargerðina og talið hana lýsa með fullnægjandi hætti þeim atriðum sem frekara ljósi myndu varpa á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, þ.m.t. núllkost. Enn fremur hafi Umhverfisstofnun óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar um greinargerðina, sem hafi talið að umfjöllun um valkosti væri fullnægjandi og ekki talið ástæðu til að gefa út nýtt álit um mat á umhverfisáhrifum. Þá hafi Umhverfisstofnun auglýst öll gögn varðandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar opinberlega með starfsleyfistillögu og kallað eftir athugasemdum.

Samkvæmt stjórnarskránni megi ekki láta af hendi afnotarétt að fasteignum landsins nema samkvæmt lagaheimild. Ekki verði séð að afmörkuð hafsvæði utan netlaga geti flokkast undir hugtakið fasteign. Samkvæmt lögum nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn sé íslenska ríkið með óskoraðan fullveldisrétt innan landhelginnar og einnig í efnahagslögsögu að því er varði rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á hafsbotni og í honum, í hafinu yfir honum svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins. Lög nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafbotnsins fjalli um ólífrænar og lífrænar auðlindir á, í eða undir hafsbotninum, annarra en lifandi vera. Einnig sé mælt fyrir um leyfi Orkustofnunar ef um sé að ræða töku eða nýtingu efnis af hafsbotni eða úr honum. Því sé hafnað að ekki séu fyrir hendi heimildir til að veita rekstraraðilum starfsleyfi til að starfrækja eldi sjávarlífvera á haf- og strandsvæðum við Ísland utan netlaga. Löggjafinn hafi ákveðið að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir eldi sjávarlífvera, sbr. lög nr. 7/1998 og Matvælastofnun fari með útgáfu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi. Þá sé bent á auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska (fam. salmonidae) í sjókvíum sé óheimilt. Jafnframt sé bent á að í dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. E-386/2017 hafi dómurinn talið að íslenskum stjórnvöldum væri veitt heimild skv. lögum nr. 71/2008 að afhenda afnotarétt að því hafsvæði þar sem starfsemi laxeldis fari fram. Þá sé bent á umfjöllun í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 2/2018 um afnot hafsvæða og leyfisveitingar fyrir fiskeldi.

Svæði þar sem óheimilt sé að starfrækja fiskeldi í sjó vegna veiðiréttarhagsmuna séu afmörkuð sérstaklega, sbr. auglýsingu nr. 460/2004. Ekki sé um að ræða aðra svæðisbundna afmörkun sambærilega við afmörkun iðnaðarsvæða í skipulagi, sem starfsleyfisútgáfa á landi þurfi að byggjast á. Ekki hafi heldur verið skilgreindur bótaréttur vegna ráðstöfunar hafsvæðis á sama hátt og gert sé í skipulagslögum. Geri lög ekki ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geri við gerð starfsleyfis ráðstafanir varðandi slíka einkaréttarlega hagsmuni.

Kærendur virðist blanda saman áhættumati erfðablöndunar í Berufirði annars vegar og Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði hins vegar. Hafrannsóknastofnun hafi gefið út í júlí 2017 áhættumat erfðablöndunar fyrir frjóan eldislax sem sé 15.000 tonna framleiðsla sameiginlega fyrir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð. Það áhættumat hafi komið til á þeim tíma er laxeldisfyrirtækin hafi unnið að mati á umhverfisáhrifum og umsóknum um starfsleyfi og rekstrarleyfi. Umhverfisstofnun hafi kynnt sér áhættumatið ítarlega og tekið þá afstöðu að fylgja áhættumatinu þótt það hafi ekki verið lögfest. Það muni því hafa áhrif á fyrirætlanir fyrirtækjanna og ljóst að ekki verði hægt að gefa út allar þær heimildir sem þau hafa stefnt að. Áhættumatið sé því takmarkandi þáttur til viðbótar við burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, en útgefið burðarþolsmat fyrir Fáskrúðsfjörð sé 15.000 tonn af eldislaxi og 20.000 tonn í Reyðarfirði. Samkvæmt hinu kærða starfsleyfi sé leyfi til að ala 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði, þar af 6.000 tonn af frjóum laxi, og séu veittar heimildir því vel innan burðarþolsmats og áhættumats.

Í starfsleyfinu sé nákvæmlega gerð grein fyrir staðsetningu sjókvíaeldis rekstraraðila. Umhverfisstofnun bendi á að í lögum nr. 106/2000 sé ekki gerð krafa um að tiltekin sé sérstaklega staðsetning eldiskvía fyrir ófrjóan lax annars vegar og frjóan hins vegar. Rekstraraðili þurfi heimild frá Matvælastofnun til útsetningar seiða og því sé hægt að fylgjast með magni af frjóum og ófrjóum fiski í eldi rekstraraðila. Frjór og ófrjór fiskur verði aðskilinn í eldinu og eftirlit verði haft með að svo sé.

Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfsleyfi fyrir eldi sjávarlífvera, þ.m.t. fiskeldi. Í 6. og 7. gr. laganna sé fjallað um útgáfu starfsleyfa. Þar segi að útgefandi starfsleyfis skuli vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberalega hvers efnis þær séu og hvar megi nálgast þær. Innan fjögurra vikna frá auglýsingunni sé heimilt að gera athugasemdir við tillögur útgefandans skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Eftir að sá frestur sé liðinn skuli útgefandi starfsleyfis taka ákvörðun um útgáfu þess. Ef ákveðið sé að gefa út starfsleyfi skuli útgefandi auglýsa á vefsíðu sinni útgáfu og gildistöku leyfisins. Tilgangur auglýsingarinnar sé að veita öllum tækifæri til að koma með athugasemdir við starfsleyfistillögur. Þannig geti starfsleyfistillögur tekið einhverjum breytingum frá auglýsingu og þar til starfsleyfi sé gefið út. Í greinargerð með starfsleyfi sé breytingum frá auglýstri tillögu lýst og greint frá athugasemdum hafi þær borist og brugðist við þeim. Ekki sé gert ráð fyrir að auglýsa þurfi starfsleyfistillögur ítrekað þótt gerðar séu einhverjar breytingar. Ef um væri að ræða meiriháttar breytingar sem leiddu til breytinga á umhverfisáhrifum kæmi það þó til skoðunar í hverju tilviki fyrir sig, en svo sé ekki í þessu máli.

Að því er varði þá málsástæðu kærenda að samkvæmt breytingartilskipun 2014/52/ESB skuli leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar sé vísað til fyrri athugasemda um málsmeðferðina. Þá beri að geta þess að í 6. gr. laga nr. 7/1998 segi að starfsleyfi skuli veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt þeim lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði stofnunin að taka ákvörðun um þau atriði sem falli innan verksviðs og valdheimilda hennar.

Bent sé á að í mati á umhverfisáhrifum, sem og starfsleyfi, sé fjallað um kynslóðaskipt eldi og hvíld eldissvæða. Í gr. 1.2 í starfsleyfinu komi fram að eldið verði að jafnaði á tveimur eldissvæðum í senn, einn árgangur sem alinn verði í 18-24 mánuði og að því tímabili loknu verði sjókvíaeldissvæðið hvílt í 9-12 mánuði milli eldislota. Komi til þess að gefin verði út frekari starfsleyfi á svæðinu þurfi þau leyfi að byggja á mati á umhverfisáhrifum og verði heildarmagn framleiðslu að rúmast innan burðarþolsmats og áhættumats.

Umhverfissstofnun hafi gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Meginreglur í I.-II. kafla laganna hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Meginreglurnar séu vegnar inn í það ferli sem fylgi leyfisveitingum stofnunarinnar og byggi á lögum og reglugerðum, m.a. um mat á umhverfisáhrifum og málsmeðferð sem lúti að undirbúningi og útgáfu starfsleyfis fyrir mengandi atvinnurekstur. Stofnunin vinni samkvæmt vottuðu gæðakerfi sem ætlað sé að tryggja fagleg vinnubrögð og við gerð ferla séu meginreglur umhverfisréttar hafðar til hliðsjónar. Starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi séu gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 en séu ekki gefin út með stoð í lögum um náttúruvernd. Einnig sé litið til annarra réttarheimilda við útgáfu starfsleyfisins sem hafi efnislega þýðingu, þ. á m. laga um mat á umhverfisáhrifum og meginreglna í náttúruverndarlögum. Tekið hafi verið mið af meginreglum og sjónarmiðum laganna við undirbúning starfsleyfisins.

Varðandi þá málsástæðu að ekki hafi verið getið norska staðalsins NS 9415:2009 um fiskeldismannvirki í sjó vísist til rekstrarleyfis og Matvælastofnunar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því hafnað að brotið hafi verið gegn lögum við meðferð og veitingu leyfisins. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir sem hafi verið teknar að undangengnu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Auk matsins liggi til grundvallar leyfisveitingunum burðarþolsmat og áhættumat Hafrannsóknastofnunar. Þótt fyrir hafi legið valkostagreining við framkvæmdakost í mati á umhverfisáhrifum þá hafi verið bætt við þá umfjöllun með sérstökum samanburði valkosta í skýrslu, dags. 23. október 2018.

Hið kærða leyfi og útgefið rekstrarleyfi Matvælastofnunar myndi grunn að atvinnuréttindum leyfishafa sem séu stjórnarskrárvarin skv. 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Leyfin teljist því til eignarréttinda leyfishafa í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Fyrirætlun leyfishafa um framleiðsluaukningu hafi verið til meðferðar lögum samkvæmt frá vormánuðum 2014 en áður hafi Skipulagsstofnun verið tilkynnt um samsvarandi framkvæmdir. Málsmeðferðin hafi verið opin og hagsmunaaðilar á öllum stigum málsins haft tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum í samræmi við lög og reglur. Eftir sjálfstæða yfirferð allra gagna málsins hafi það verið mat leyfisveitenda að umsóknir leyfishafa uppfylltu öll lagaskilyrði sem þyrfti til útgáfu leyfanna. Engin andmæli eða gögn hafi borist við meðferð leyfanna sem gætu hafa leitt til annarrar niðurstöðu. Leyfisveitendum hafi því borið að veita leyfin og hefði hvorki verið lögmætt né málefnalegt að synja um samþykki þeirra.

Farið sé fram á frávísun málsins þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um það hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Tekjur af sölu veiðileyfa á Austfjörðum og hagsmunir þeim tengdum séu hverfandi miðað við þá hagsmuni sem leyfishafi hafi af sjókvíaeldi á Austfjörðum. Kærendur haldi því fram að sú starfsemi sem hið kærða leyfi sé veitt fyrir geti stefnt í hættu lífríki tiltekinna áa, þ. á m. villilaxi og silungsstofnum, en það sé mat stjórnvalda, sem hafi sérfræðiþekkingu á þessu sviði, að svo sé ekki. Fullyrt sé að kærendur hafi mikilla hagsmuna að gæta án þess að útskýrt sé í hverju þeir hagsmunir séu fólgnir. Eðlilegt hefði verið að gera greinarmun á hagsmunum náttúruverndarsamtaka annars vegar og veiðiréttarhafa hins vegar því augljóslega liggi hagsmunir þar ekki saman. Náttúruverndarsamtökin vilji eflaust vernda líf en veiðiréttarhafar, eins og nafnið gefið til kynna, vilji eyða lífi.

Dómstólar og opinberar stofnanir, sem hafi eftirlit með fiskeldi og viðkomu villtra laxastofna, hafi fjallað um möguleg áhrif fiskeldis á villta laxastofna og hvaða ár kunni að vera í hættu. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 12. desember 2018 í máli nr. E-386/2017 segi m.a.: „Samkvæmt þessari skýrslu fær sú fullyrðing stefnenda ekki staðist að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. fyrir 6.000 tonna laxeldi í Reyðarfirði muni valda „verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða á stuttum tíma og muni einnig setja í stórhættu alla villta laxastofna landsins á fáum árum.“ Málsástæður stefnenda er lúta að skaðsemi laxeldisins varða í raun ekki lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds heldur miða að því að dómstólar kveði á um að laxeldi í sjókvíum sé almennt ekki heimilt en það er ekki á valdi dómstóla að gera það.“ Dómurinn vísi til áhættumats Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 og árétti að þar komi fram að almennt sé gert ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega laxastofna í Vopnafirði en vakta þurfi Breiðdalsá sérstaklega. Áhættumatið segi því að önnur veiðifélög en Veiðifélag Breiðdæla eigi ekki aðkomu að þessu máli. Þá sé í áhættumati Hafrannsóknastofnunar viðurkennt að Breiðdalsá sé hafbeitará og þar af leiðandi ekki með villtan fiskistofn, sbr. skilgreiningu í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, lögum nr. 61/2008 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 58/2006 um fiskirækt. Með því að flokka Breiðdalsá sem hafbeitará þá sé stofnunin að segja að áin eigi ekki að njóta verndar og því séu engir lögvarðir hagsmunir tengdir henni. Því mati séu stjórnvöld bundin af við úrlausn ágreinings. Þá sé því mótmælt að fiskeldi fylgi einhver sérstök hætta fyrir óskilgreinda hagsmuni veiðiréttarhafa, hagsmuni tilgreindra umhverfissamtaka eða fyrir villta fiskistofna. Lax og silungur sé ekki eign veiðiréttarhafa þegar hann syndi í sjó eða sé í ám landsins. Afdrif hans varði því umrædda aðila ekki frekar en almenning almennt og eigi þeir því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Þær breytingar sem að kærendur hafi áhyggjur af að kunni að eiga sér stað yfir tímabil sem spanni mörg ár, jafnvel nokkra áratugi. Fræðimenn telji að blöndun milli eldis- og villifisks þurfi að hafa átt sér stað yfir 40 ára tímabil og þyrfti að vera 20% á hverju ári til þess að hún hafi áhrif á upprunalegan laxastofn í viðkomandi á. Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 sé almennt ekki talin hætta á erfðablöndun í laxveiðiám í Vopnafirði en gæta þurfi að Breiðdalsá sem þó sé ekki með náttúrulegan stofn. Þrátt fyrir að leyfishafi hafi stundað laxeldi í Berufirði í ein fimm ár og slátri um 6.000 tonnum í ár þá hafi aldrei veiðst kynblandaður eldislax og villilax í umræddum ám. Hafa verði í huga að erfðamengi fiska í ám sé aldrei eins frá ári til árs, bæði fyrir tilstilli náttúrulegrar blöndunar og svo fyrir tilverknað manna. Þekkt sé að á hverju ári verði náttúruleg blöndun milli stofna úr mismunandi ám, jafnvelt allt að 30%. Jafnframt sé þekkt að laxar frá öðrum löndum gangi upp í íslenskar ár. Veiðifélög á Austfjörðum hafi verið dugleg við að sleppa seiðum í árnar sem hafi ýmist komið úr ám utan Austfjarða eða úr klakfiski sem hafi verið handvalinn og náttúruval þar með útilokað. Þannig hafi verið og séu umfangsmiklar sleppingar í ár kærenda í Vopnafirði. Í Breiðdalsá sé sleppt árlega um 100.000 seiðum og standi til að auka það í 200.000 seiði á ári, sbr. skýrslu Veiðimálastofnunar frá árinu 1989 um Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði. Í öllum ánum sé að finna laxastiga og meira að segja tvo í Selá. Það sem hafi ekki síst haft áhrif á náttúruvalið sé sú ofveiði og stórfiskadráp sem viðgangist í íslenskum laxveiðiám, en stórfiskastofninn sé ekki svipur hjá sjón frá því sem verið hafi. Varðandi mögulega erfðablöndun þá hafi leyfishafi gripið til mótvægisaðgerða í formi þéttari möskva í kvíapokum, ljósastýringar til að minnka kynþroska og stærri smolta. Þá eigi menn inni aðgerðir vegna sleppinga, s.s. veiðar í net, myndvélaeftirlit og köfun í ár.

Flest þau umhverfisáhrif er kærendur beri fyrir sig séu tímabundin, afturkræf og gangi til baka og geti Matvælastofnun og Umhverfisstofnun að framkomnum skilyrðum afturkallað og takmarkað leyfin. Áhættan sé því mjög takmörkuð af því að leyfin standi. Talið sé af fræðimönnum, sbr. skrif lektors við Hólaskóla, að heppilegra sé fyrir íslenska náttúru að lax af Saga-stofni sé notaður hér við eldi heldur en íslenskur stofn, enda sé hann kynbættur svo að þróttur hans til tímgunar og viðkomu sé vægast sagt takmarkaður og hætta af honum fyrir íslenska náttúru því hverfandi. Við þetta sé að bæta að villti laxastofninn í Noregi sé einn sá sterkasti í heimi þrátt fyrir að þar séu framleidd 1.200.000 tonn af eldislaxi á ári. Laxastofnar séu ekki svipur hjá sjón í Suður-Evrópu og þeim hlutum Skotlands þar sem ekkert eldi á laxi sé. Allt bendi því til þess að lítil tengsl séu milli fiskeldis og stöðu villistofna, sbr. skýrslu ICES 4. maí 2018 um Atlantshafslaxinn, frétt á vefsíðu Norsku hagstofunnar og niðurstöður úr skoskri rannsókn frá árinu 2012.

Þrátt fyrir áratuga laxeldi á Austfjörðum hafi ekki enn greinst laxalús á eldisfiski og sé það að þakka sérstökum aðstæðum á Austfjörðum, sem rekja megi til lágs hitastigs og lágrar seltu sjávar. Dýralæknir fisksjúkdóma hafi staðfest í yfirlýsingu sinni, dags. 13. nóvember 2013, að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður á Austfjörðum að lús geti þar orðið vandamál.

Því sé harðlega mótmælt að enginn andmæli því að lax muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Eftir að NS 9415:2009 staðallinn hafi verið innleiddur hér hafi öryggi aukist mikið og hætta á sleppingum minnkað til muna. Stór hluti Íslands sé lokaður fyrir fiskeldi og því sé hætta af sleppingum ekki sú sama hér og annars staðar þar sem eldissvæði séu staðsett við ósa laxveiðiáa. Í Noregi hafi sleppingar minnkað gríðarlega með innleiðingu NS 9415:2009 staðalsins og bættu eftirliti og séu í dag hverfandi frá því sem verið hafi, sbr. skýrslu Fiskeridirektoratet frá 19. febrúar 2019.

Kærendur hafi áhyggjur af stórfelldri saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna. Af orðavali þeirra megi gagnálykta að ekki sé um að ræða slíka mengun fjarri kvíunum og nærri ám kærenda og því sé ekki um að ræða atriði sem varði þá umfram almenning. Hafrannsóknastofnun hafi metið burðarþol fjarðarins, en það sé mat á því hversu mikill lífmassi megi vera í firðinum við verstu umhverfisaðstæður. Lífmassi í eldi leyfishafa verði alltaf minni en sem nemi því magni. Leyfishafi hafi vöktunaráætlun sem sett sé samkvæmt gildandi starfsleyfi og séu botnsýni tekin reglubundið til að fylgjast með ástandi botnsins. Síðastliðin tvö ár hafi leyfishafi verið aðili að alþjóðlegu rannsóknarverkefni, ásamt RORUM, Háskóla Íslands og IRIS, þar sem fylgst sé með gæðum sjávarbotnsins undir eldiskvíum félagsins. Niðurstaða þessara rannsókna síðastliðin tvö ár hafi verið sú að ástand sjávarbotnsins sé mjög gott og hreinsun með því besta sem gerist, sbr. skýrsla RORUM frá 9. maí 2017. Rannsóknir í Berufirði, þar sem leyfishafi sé með laxeldi, sýni að fóður- og saurleifar eyðist örfáum vikum eftir að eldi sé hætt og jafnframt að áhrifin séu algerlega staðbundin og séu hverfandi þegar komið sé í 50 m fjarlægð frá kvíasvæði, sbr. kafla 6.2 í matsskýrslu.

Ekki hafi komið upp sjúkdómar hjá leyfishafa og framleiðslan sé lyfjalaus. Framleiðsla leyfishafa hafi AquaGap-vottun, sem geri kröfu til rekjanleika og lyfjaleysis.

Í flestum laxveiðiám á Austfjörðum hafi verið sleppt eldislaxi af öðrum stofni en þeim sem sé í ánum, sbr. skýrslu Veiðimálastofnunar frá 1989 um starfsemi Kollafjarðarstöðvarinnar. Sérstaklega eigi það við um Breiðdalsá sem sé fjarri því að vera náttúruleg laxveiðiá. Fátt sé upprunalegt í þessum ám og því litlir hagsmunir tengdir því að vernda lífríkið. Í engri á hafi verið gengið jafn freklega fram og í Breiðdalsá, en þar hafi verið sleppt tugum þúsunda seiða árlega frá árinu 1966, en um þetta hafi Hafrannsóknastofnun upplýsingar. Efast megi réttilega um að þar hafi nokkurn tíma verið villtur stofn og öruggt sé að svo sé ekki í dag, en þrátt fyrir það sé hún eina áin sem gæti hugsanlega orðið fyrir áhrifum af fiskeldi á Austfjörðum samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Hér sé verið að kasta steinum úr glerhúsi. Veiði í laxveiðiám á Austfjörðum hafi verið dræm síðastliðin ár og tekjur litlar. Árnar séu ekki lengur sjálfbærar og sé ljóst að takmarka þurfi mjög veiðar í þeim og banna sleppingar alfarið ef takast eigi að endurreisa laxastofna ánna. Þá séu stangveiðar undanþegnar lögum um dýravelferð, sbr. 2. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, en óumdeilt sé að ef svo væri ekki þá væri sú undarlega íþrótt sem tíðkist orðið í öllum laxveiðiám landsins að sleppa fiskinum eftir dauðastríð sitt óheimil með öllu. Engin rök standi til þess að stangveiðar eigi ekki að vera hluti af dýravelferð. Sé og litið til þess að blöndun milli einstakra áa kunni að vera allt að 30% árlega, og því ekki hægt að tala um hreinan stofn í neinni á, þá megi draga þá ályktun að ekki séu fyrir hendi hagsmunir er þurfi að vernda.

Til viðbótar við kröfu um frávísun á grundvelli aðildarskorts sé byggt á því að gera verði þær kröfur til kröfugerðar í málum sem þessum að hægt sé að leggja hana til grundvallar er úrskurðarorð sé samið. Í kröfu kærenda sé talað um opnar sjókvíar. Ekkert sé til er heiti opnar sjókvíar, en orðið sjókví komi víða við í orðasamböndum, bæði í reglugerð um fiskeldi sem og lögum um fiskeldi. Rekstrarleyfi Matvælastofnunar og starfsleyfi Umhverfisstofnunar kveði á um leyfi til að ala lax í sjókvíum. Í raun sé ekki með nokkru móti hægt að átta sig á við hvað sé átt. Óskýrleiki í kröfugerð eigi að leiða til frávísunar ex officio en gerð sé krafa um það hér engu að síður.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kærenda um ógildingu verði hafnað. Því sé mótmælt að vikið hafi verið frá þeim kröfum sem gerðar séu í 8. gr. laga nr. 106/2000 um málsmeðferð matsáætlunar og að ekki hafi verið kynntir og bornir saman ólíkir valkostir umræddrar framkvæmdar. Því sé jafnframt andmælt að leyfishafi hafi einungis fjallað um einn valkost í matsskýrslunni. Samkvæmt lögum nr. 106/2000 og gildandi tilskipunum Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmdaraðili ávallt gera grein fyrir þeim valkostum sem til greina komi við að ná markmiðum framkvæmdar í frummatsskýrslu og matsskýrslu og bera þá saman. Jafnframt þurfi hann að gera grein fyrir forsendum sem lagðar hafi verið til grundvallar við val á framkvæmdarkosti. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdaraðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdarkostir uppfylli markmið framkvæmdar, enda sé mat hans reist á hlutlægum og málefnalegum grunni.

Það sé oft á tíðum flókin spurning hvað nákvæmlega sé valkostur í þessu sambandi en einkum sé miðað við að gerð sé grein fyrir þeim valkostum sem séu raunhæfir. Gert sé því ráð fyrir að í matsskýrslu sé lýsing á öðrum raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hafi kannað og tengist umræddri framkvæmd og sérstökum eiginleikum hennar, ásamt því að tilgreindar séu helstu ástæður fyrir þeim kosti sem valinn hafi verið með tilliti til áhrifa framkvæmdarinnar á umhverfið. Valkostur þurfi þannig að fullnægja því skilyrði að með honum sé markmiðum framkvæmdar náð á fullnægjandi hátt og að hann sé jafnframt framkvæmanlegur með tilliti til tæknilegra, efnahagslegra, pólitískra og annarra viðeigandi sjónarmiða, sbr. bls. 52 í leiðbeiningarriti Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum. Valkostir geti falist í að bera saman staðarval, tímaramma um uppbyggingu og rekstur, hönnun framkvæmdar, tækni sem notuð sé við framkvæmd, stærð og umfang framkvæmdar og að lokum aðferðir við rekstur og framkvæmd. Almennt sé viðurkennt að það sé á forræði framkvæmdaraðila hverju sinni að meta hvað séu raunhæfir og óraunhæfir valkostir.

Ekki hafi verið fyrir að fara öðrum raunhæfum valkostum til að ná fram markmiðum framkvæmdarinnar en þeirri leið sem valin hafi verið. Sú skylda að bera þurfi saman valkosti í matsskýrslu hafi því aldrei myndast. Ekki sé um að ræða raflínu eða veg þar sem menn eigi marga valmöguleika um útfærslu framkvæmdar, heldur sjókvíaeldi á tilteknu svæði samkvæmt tiltekinni heimild. Nánar tiltekið á stað sem m.a. löggjafinn hafi ákveðið að sé, með tilliti til náttúruverndar, á heppilegu landfræðilegu svæði. Aðrir kostir sem lúti að framleiðslu á laxi séu eðlisólíkir og gildi um þá allt önnur lögmál. Svæðin hafi sérstaka eiginleika, s.s. varðandi ölduhæð og strauma, er takmarki enn frekar framkvæmdarkosti. Sú framkvæmd sem hér sé til skoðunar sé framleiðsla á 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Framkvæmdinni sé settur rammi með burðarþolsmati fyrir umrædda firði upp á 10.000 tonna ársframleiðslu í Berufirði og 15.000 tonna ársframleiðslu í Fáskrúðsfirði. Jafnframt hafi henni verið settar skorður með áhættumati Hafrannsóknastofnunar en þar hafi verið ákveðið að heimila annars vegar framleiðslu á 6.000 tonnum af frjóum fiski í Berufirði og hins vegar 15.000 tonnum af frjóum fiski í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði til samans. Framkvæmdaraðili hafi gert fyrirvara við lagalegt gildi áhættumats en engu að síður fallist á að fylgja því. Markmið framkvæmdarinnar sé að framleiða umrætt magn í tilgreindum fjörðum, skipt upp í frjóan og ófrjóan fisk eftir áhættumati, en jafnframt að nýta gríðarlegar fjárfestingar félagsins í vinnslunni við Búlandstind, tækjum og skipum tengdum eldinu og þekkingu starfsfólks. Félagið hafi nú þegar heimild til að framleiða 11.000 tonn af laxi í umræddum fjörðum og hafi miklu verið til kostað til að varðveita þekkingu og atvinnustig á sunnanverðum Austfjörðum, m.a. í samstarfi við Byggðastofnun og ríkisstjórn Íslands.

Framkvæmdinni séu því settar miklar skorður og valkostir þrengdir. Skorður lúti að staðsetningu framkvæmdar, umhverfisþáttum, markmiðum og fýsileika. Það hafi verið ljóst frá upphafi að kostir eins og landeldi og eldi í lokuðum kerfum kæmu ekki til greina. Landeldi sé eðlisólík framkvæmd sem myndi aldrei leiða til þess að félagið gæti nýtt framleiðsluheimildir sínar í sjó eða lykilfjárfestingar. Landeldi krefjist dýrra tæknilegra lausna, gríðarlegs landflæmis, aðgangs að heitu vatni, mikils grunnvatns og sjávar, auk gríðarlegrar raforku til að keyra dælur og tækjabúnað. Stofnfjárfesting í landeldi sé því gríðarleg og rekstrarkostnaður og áhætta mikil. Líffræðilega sé framkvæmdin gerólík enda þrífist lax verr í kerjum á landi en í kvíum í sjó. Landeldi fylgi miklar líffræðilega áskoranir, s.s. BKD-sýkingar og bakteríusýkingar út af uggaroti, auk þess sem fiskurinn sé undir mun meira álagi og streitu í kerjum, sem geri hann viðkvæmari fyrir sjúkdómum. Fjárfestingar leyfishafa hefðu ekki nýst nema að mjög takmörkuðu leyti hefði landeldi orðið fyrir valinu, því öll starfsemi hans í dag miðist við að framleiða fisk í sjókvíum. Fjármögnun rekstrarins miði að því að stundað sé sjókvíaeldi en yrði önnur framkvæmd fyrir valinu myndu lánardrottnar án efa gjaldfella öll lán. Fjármögnun sé forsenda alls rekstrar og ómögulegt sé að fá fjármagn til landeldis í dag. Loks séu ekki fyrir hendi landfræðilegar aðstæður á Austfjörðum til að reisa þar meiriháttar landeldisstöð. Ef svo væri hefði það verið gert fyrir löngu, enda áhættusamt og dýrt að flytja seiði um langan veg, eins og gert sé í dag. Á Austfjörðum sé þéttleiki bergs það mikill að nánast allt vatn renni ofanjarðar og grunnvatn sé af skornum skammti, svo og heitt vatn. Áratugum saman hafi verið gerðar tilraunaboranir á Austfjörðum án árangurs og því vanti lykilforsendur fyrir landeldi þar, þ.e. rennandi vatn.

Eldi í lokuðum kerfum sé mikið tískuorð í dag en öll slík kerfi séu á tilraunastigi og hafi árangur verið vægast sagt misjafn. Öll kerfin eigi það sameiginlegt að þrátt fyrir nafngiftina þá séu þau opin en inn í þau sé tekinn sjór og honum skilað út. Þannig hafi menn eðlilega verið að glíma við sömu vandamál í Noregi í hefðbundnum kvíum og svokölluðum lokuðum kerfum. Þau lokuðu kerfi sem hafi komið fram hafi öll þann annmarka að þau þoli litla ölduhæð, eða flest um tvo metra, og taki á sig mun meiri straum en hefðbundnar kvíar. Á eldissvæðum leyfishafa sé alda iðulega mikil og straumar sterkir svo hætt sé við að slík kerfi liðist í sundur með skelfilegum afleiðingum og áhættu fyrir náttúruna. Þá séu öll lokuð kerfi á tilraunastigi og háð einkaleyfi. Ekki sé möguleiki á að fá slík kerfi til reynslu, hvað þá til að nýta þau við eldi á matfiski. Lokuð kerfi séu gríðarlega dýr lausn sem ekki sé arðbær í dag. Þau kerfi, eins og þau séu í dag, leysi ekki einu sinni þau vandamál sem séu uppi í hefðbundnu sjókvíaeldi í dag og því enginn munur á framkvæmdinni sem slíkri. Sé gerð krafa til þess að framkvæmdaraðili geri grein fyrir þeim framkvæmdarkosti í mati á umhverfisáhrifum þá megi eins gera kröfu til þess að hann geri grein fyrir eldi á tunglinu sem valkosti við framkvæmd, svo eðlisólíkt sé þetta. Í matsskýrslu leyfishafa sé ofangreindum valkostum hafnað í athugasemdum við frummatsskýrslu, sjá dálk 201 á bls. 221 í matsskýrslunni. Í umsögn Skipulagsstofnunar um valkostagreiningu leyfishafa, dags. 23. október 2018, komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að mat leyfishafa á raunhæfni eldis í lokuðum kvíum og landeldi sem valkostum við þá framkvæmd sem fyrirtækið áformi sé almennt reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Því séu landeldi og eldi í lokuðum kvíum ekki raunhæfir valkostir með tilliti til markmiða framkvæmdarinnar.

Eina leiðin sem hugsanleg væri til að gera landeldi arðbært og þar með valkost væri að reisa slíkt eldi á því svæði þar sem fisksins sé neytt. Hérlendis sé þess eðlilega ekki kostur enda landið eyja úti í Atlantshafi. Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. E-386/2017 hafi dómurinn fallist á með stefnanda að sá annmarki væri á matsskýrslu að ekki hefði verið fjallað um aðra valkosti en valkost framkvæmdaraðila. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að virtu áliti sérfræðings Skipulagsstofnunar á sviði mats á umhverfisáhrifum, að notkun á geldlaxi og eldi í lokuðum sjókvíum í dag væru ekki raunhæfir valkostir og að sá annmarki gæti því ekki leitt til þess að rekstrarleyfi stefnda yrði ógilt.

Í umgjörð fiskeldis, eins og hún birtist í burðarþolsmati, áhættumati, auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt, sbr. kafla 3.10.1 í matsskýrslu, og öðrum takmörkunum á eldissvæðum, felist valkostagreining sem stjórnvald hafi framkvæmt og sé því ekki þörf á að fjalla frekar um þá þætti er þar komi fram, sbr. ummæli í áliti Skipulagsstofnunar í kafla um framleiðslumagn. Búið sé að velja þau svæði landsins sem opin séu fyrir fiskeldi og því ætti í raun ekki að þurfa að fjalla frekar um það. Að öðru leyti sé fjallað um ólíka valkosti framkvæmdarinnar í matsskýrslunni. Í fyrsta lagi þá sé fjallað um umræddan núllkost á bls. 39-40 og 142 í matsskýrslunni, en þar sé þess jafnframt getið að gangi vöxtur sjókvíaeldis ekki eftir samkvæmt fyrirliggjandi áformum þá sé sennilegt að rekstrarforsendur framkvæmdarinnar versni verulega og jákvæð áhrif skili sér ekki. Fram komi í umfjölluninni að núllkostur nái ekki markmiðum framkvæmdar og komi því ekki til greina. Hér sé því bæði fjallað um áhrif núllkosts en jafnframt litið til þess að eldið verði minna en áætlanir geri ráð fyrir. Fyrirhuguð framleiðsla hafi verið minnkuð úr 24.000 tonnum í 20.800 tonn og það samþykkt sem frávik í matsskýrslunni. Því megi segja að tekið hafi verið tillit til minnkaðrar framkvæmdar í málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum hennar, sbr. kafla 1.2.2. Fram komi í áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni að stofnunin geri ekki kröfur til umfjöllunar í matsskýrslu um minna magn framkvæmdar, enda hefði sú umfjöllun þegar átt sér stað í áhættumati og burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar.

Fjallað sé um notkun á ófrjóum fiski í kafla 6.5.3 og 6.5.4 í matsskýrslunni á bls. 105-106 og 108 og fjallað um kosti og ókosti þess að notast við ófrjóan fisk í eldi. Leyfishafi skuldbindi sig jafnframt í matsskýrslunni til að fylgja ætíð áhættumati Hafrannsóknastofnunar, enda bjóði lög svo. Skipulagsstofnun taki, í umsögn sinni, dags. 5. nóvember 2018, um viðbótargreinargerð leyfishafa um valkosti, undir það mat leyfishafa sem fram komi í matsskýrslunni sjálfri og umræddri valkostagreiningu að geldfiskur sé ekki raunhæfur valkostur.

Í matsskýrslunni sé gerð ítarleg grein fyrir valkostagreiningu á eldissvæðum. Þau kort sem komi fram í tillögu að matsáætlun og í matsskýrslunni, sbr. myndir 1, 2, 33 og 34, hafi verið unnin af Landhelgisgæslunni fyrir leyfishafa. Frá því að tillaga að matsáætlun hafi verið lögð fram hafi orðið nokkrar breytingar á eldissvæðunum. Svæðunum í Fáskrúðsfirði hafi fjölgað úr tveimur í þrjú og þannig hafi verið búið til eitt svæði milli svæða að Eyri og Fögrueyri. Erindi hafi verið beint til Matvælastofnunar 19. maí 2017 þar sem reifaðar hafi verið hugmyndir um að starfsstöðvar yrðu sameiginlegar með Löxum fiskeldi ehf. í Fáskrúðsfirði. Stofnunin hafi samþykkt 6. júní 2017 að félögin hefðu sameiginlegar starfsstöðvar og hafi svæði Laxa fiskeldis verið tengd svæðum leyfishafa. Í kjölfarið hafi Laxar fiskeldi afturkallað tillögu að matsáætlun hjá Skipulagsstofnun og lagt fram nýja miðað við sameiginlegar starfsstöðvar, sjá kafla 3.11 um aðrar framkvæmdir í matsskýrslu, kafla 10.1, lið 19, um umsagnir og athugasemdir vegna frummatsskýrslu og kafla 6.13.3 um umhverfisáhrif. Tilgangurinn með sameiginlegum starfsstöðvum sé að minnka sem frekast megi álag á umhverfið í Fáskrúðsfirði. Laxar fiskeldi hafi dregið til baka umsóknir um svæði í Berufirði og við það hafi ásýnd eldis í Berufirði breyst mikið, sjá myndir 1 og 43 í matsskýrslu til samanburðar. Einnig hafi leyfishafi óskað eftir því við Skipulagsstofnun, eftir að matsskýrslu hafi verið skilað inn, að tilhögun svæða í Fáskrúðsfirði yrði breytt og þau minnkuð til að koma til móts við framkomnar athugasemdir við frummatsskýrsluna. Hafi Skipulagsstofnun fallist á það, enda hafi breytingin falið í sér minnkun á eldissvæðum frá því sem áður hafi verið. Í umsögn Skipulagsstofnunar til Umhverfisstofnunar um viðbótargreinargerð leyfishafa segi að rétt hafi verið af hans hálfu að setja fram nýjan valkost til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2018 fallist nefndin á að mismunandi staðsetningar, umfang, tilhögun og tæknileg útfærsla geti falið í sér mismunandi valkosti. Í matsskýrslu hafi leyfishafi gert ítarlega grein fyrir breytingu á eldissvæðum, eldistegundum, eldismagni og tæknilegum útfærslum svo ekki þurfi að efast um að hann hafi gætt þess að nefna mismunandi valkosti. Í fyrrnefndu leiðbeiningarriti Evrópusambandsins segi að það geti átt við að setja fram valkosti eftir að mat á umhverfisáhrifum sé hafið til þess að draga úr verulega neikvæðum umhverfisáhrifum sem matið leiði í ljós að framkvæmdin muni hafa. Skipulagsstofnun hafi talið það vera viðeigandi í þessu tilfelli, sbr. bls. 2 í umsögn Skipulagsstofnunar um viðbótargreinargerð leyfishafa.

Eldismagni hafi verið breytt úr 24.000 tonnum í 20.800 tonn í samræmi við útgefið burðarþolsmat en auk þess hafi eldistegund verið breytt þannig að fallið hafi verið frá því að ala regnbogasilung að hluta í það að ala einvörðungu lax, sjá kafla 1.1 í matsskýrslu. Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 5. nóvember 2018 um viðbótarvalkostagreiningu komi fram að stofnunin hafi ekki gert kröfur til þess að framkvæmdaraðili bæri saman áhrif mismunandi framleiðslumagns, enda hefði það þegar verið gert í burðarþolsmati og áhættumati Hafrannsóknastofnunar.

Ítarlega umfjöllun um mótvægisaðgerðir í eldinu sé að finna í matsskýrslu. Lúti þær að tæknilegri valkostagreiningu framkvæmdar, s.s. útsetning stórseiða til að minnka hættu á erfðablöndun, vöktun veiðiáa vegna strokufisks, nota litla möskva í eldispokum á frumstigum eldis og eldi á geldisfiski, sbr. kafla 6.5.4 og 6.5.5 í matsskýrslu. Allt séu þetta valkostir sem metnir hafi verið og bornir saman við framkvæmdakostinn, eins og honum sé lýst í kafla 1.2 í matsskýrslu. Í skýrslunni sjálfri sé þannig fjallað um framkvæmdarkosti sem lúti að geldfiski, núllkosti, minna eldi, breytingum á staðsetningu eldissvæða og tilhögun eldis, tegundarbreytingu auk þess sem í andsvörum við frummatsskýrslu í kafla 10.1 og 10.2 hafi verið fjallað um lokuð kerfi og landeldi og tekin afstaða til þeirra. Í samanburði valkosta frá 23. október 2018 sé síðan fjallað með mjög ítarlegum hætti um alla þá valkosti sem hér hafi verið nefndir.

Fyrirsvarsmenn leyfishafa hafi verið í fiskeldi í eina þrjá áratugi, rekið stærstu landeldisstöðvar landsins og komið að kvíaeldi frá upphafi vega. Í dag reki leyfishafi tvær landeldisstöðvar og sé til staðar mikil þekking innanbúðar á því hvað sé hægt og hvað ekki í fiskeldi. Enginn haldi því fram að landeldi sé raunhæfur valkostur, enda sé engin slík stöð í byggingu hér á landi og sama gildi um svokölluð lokuð kerfi. Í fyrrnefndum leiðbeiningarreglum Evrópusambandsins á bls. 53 komi fram að valkostasamanburður geti átt sér stað áður en mat á umhverfisáhrifum hefjist og því ætti ekki að vera ástæða til að skoða slíka valkosti aftur í matinu.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 193/2017 komi m.a. fram varðandi gildi sönnunargagna og mats framkvæmdaraðila á valkostum að þótt einhverjar ambögur kunni að vera á gögnum sem liggi til grundvallar mati framkvæmdaraðila þá verði mótaðilar að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram önnur gögn sem leiði til gagnstæðrar niðurstöðu. Þar sem kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings þá sé gerð krafa um að mat framkvæmdaraðila á framkvæmdarvalkostum standi óhaggað. Þessi sjónarmið komi einnig fram í dómi Hæstaréttar nr. 22/2009, en þar sé sönnunarbyrðin lögð á mótaðila að hnika mati framkvæmdaraðila á valkostum.

Athugasemdir leyfishafa um málsmeðferð viðbótargreinargerðar sinnar eru á sömu lund og athugasemdir Umhverfisstofnunar þar um. Því til viðbótar bendi leyfishafi á að á honum hafi engin skylda hvílt til að fjalla um aðra framkvæmdarkosti, s.s. eldi á landi, eldi í lokuðum kvíum eða enga framkvæmd. Hins vegar hafi leyfishafi umfram skyldu gert grein fyrir öðrum framkvæmdarkostum í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með viðbótargreinargerð. Skipulagsstofnun hafi í umsögn sinni um samanburð valkosta tekið undir að umfjöllun um valkosti hafi verið fullnægjandi í matsskýrslu framkvæmdaraðila eins og álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi áður staðfest. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 193/2017 sé staðfest að framkvæmdaraðili geti, eftir að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir um mat á umhverfisáhrifum, bætt úr vanköntum á valkostagreiningu með frekari rannsóknum. Í dóminum komi fram að nægilega sé gætt að andmælarétti sé þeim er lögvarða hagsmuni hafi verið gefinn kostur á að andmæla. Því sé alfarið hafnað að meðferð viðbótargreinargerðar sé andstæð fyrirmælum um opinbera auglýsingu í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og ótilgreindum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafa beri í huga að í viðbótarvalkostagreiningu sé ekki fjallað um neina valkosti sem ekki hafi áður verið fjallað um í matsskýrslunni sjálfri og þætti sem kærendur hafi ekki áður gert athugasemdir við á því stigi. Kærendur hafi engar athugasemdir gert við valkostagreiningu sem sett hafi verið fram í tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðs eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði er hún hafi verið auglýst. Þeir hafi því sýnt af sér tómlæti og ekki lagt fram andmæli þrátt fyrir opinbera auglýsingu tillögunnar. Með því hafi þeir fyrirgert rétti sínum til að gera athugasemdir við valkostagreiningu eins og hún hafi komið fram í tillögu að matsáætlun á síðari stigum.

Bæta megi úr annmörkum á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar með viðbótarrannsóknum eftir að álit liggi fyrir, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015 varðandi Suðurnesjalínu 2. Af dómunum megi ráða að bæta megi úr mati allt fram til þess að ákvörðun sé tekin. Sama regla komi fram í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 193/2017 og 796/2015. Úrskurðarnefndin hafi byggt úrlausnir á sömu sjónarmiðum, t.d. í úrskurði í kærumáli nr. 148/2016. Leyfishafi byggi á því að valkostagreining hafi verið fullnægjandi í matsskýrslu, en að öðrum kosti þá sé full heimild til að bæta þar úr með síðari umfjöllun og rannsóknum.

Varðandi tilvísun kærenda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 hafni leyfishafi því alfarið að sá dómur hafi nokkuð fordæmisgildi í þessu máli. Í dóminum hafi þótt sýnt með framlagningu gagna að aðrir valkostir en sá sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram væru raunhæfir kostir, sem kanna þyrfti til þrautar, áður en ráðist yrði í stórvægilegar framkvæmdir. Svo sé ekki fyrir að fara í máli þessu enda hafi kærendur engin rök eða gögn lagt fram sem sýni fram á að aðrir valkostir séu tækir til að ná því markmiði sem að sé stefnt. Við slíkar aðstæður sé ekki forsvaranlegt að skylda framkvæmdaraðila til að leggja út í gríðarlegan kostnað við að meta umhverfisáhrif óraunhæfra valkosta. Fordæmisgildi dómsins varði skyldur sem hvíli á einkaaðilum, sem séu alls kostar ólíkar þeim skyldum sem geti hvílt á opinberum aðilum sem sinni lögbundnum verkefnum, líkt og átt hafi við um Landsnet á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 í því tilfelli sem nefndur dómur taki til.

Því sé harðlega mótmælt að dómar ESB-dómstólsins í málum nr. C-435/97 og C-435/09 eigi við hér, enda málsatvik allt önnur. Umræddir dómar lúti ekki að viðbótargögnum við matsgerð eða kynningu hennar gagnvart almenningi. Dómarnir fjalli um annmarka á löggjöf viðkomandi ríkis. Hafa beri í huga að viðbótarvalkostagreining hafi verið auglýst af Umhverfisstofnun með drögum að starfsleyfi og hafi almenningi gefist kostur á að gera athugasemdir og andmæla henni. Mikilvægt sé að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008 skuli afhenda umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og skuli umsóknir afgreiddar samhliða og leyfin afhent á sama tíma. Þetta þýði í raun að auglýsing valkostagreiningar með starfsleyfi sé ígildi þess að almenningur fái kost á að gera athugasemdir við forsendur rekstrarleyfisins. Almenningur hafi í raun aðstöðu til að gera athugasemdir við bæði leyfin, enda verði annað ekki gefið út án hins.

Leyfishafi sé eini rekstraraðilinn í Fáskrúðsfirði og því eigi ekki við ákvæði um fjarlægðarmörk eldisstöðva óskyldra aðila í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Matvælastofnun hafi samþykkt að leyfishafi og Laxar fiskeldi ehf. megi vera með sameiginlegar starfsstöðvar í Fáskrúðsfirði komi til þess að Laxar fiskeldi hefji þar starfsemi. Ákvæðið ætti því ekki heldur við í því tilviki, enda séu starfsstöðvar félaganna sameiginlegar og reknar sem ein heild. Ákveðið hafi verið að fara þessa leið til að minnka umhverfisálag og tryggja heilbrigði fisksins. Verði enda félögin með samræmdar útsetningar á seiðum, samræmda hvíld svæða og vinni saman að sjúkdómavörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar. Fjarlægðarákvæði 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 eigi því augljóslega ekki við.

Bent sé á að eldið í Berufirði sé óumdeilanlega háð eldinu í Fáskrúðsfirði enda sé um að ræða kynslóðaskipt eldi í þessum tveimur fjörðum. Skipulagsstofnun sé því augljóslega heimilt að leyfa sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000.

Útgáfa hins kærða starfsleyfis og rekstrarleyfis falli vel að markmiðum ákvæðis 1. gr. laga nr. 71/2008 enda séu þau innan tilgreindra marka samkvæmt burðarþolsmati og áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Vöktun starfseminnar, verklag og markvissar mótvægisaðgerðir muni draga verulega úr hættu á sleppingum og öðrum óæskilegum áhrifum starfseminnar. Í starfsleyfum séu gerðar kröfur um að fylgt sé ströngustu gildandi stöðlum fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Samkvæmt reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi skuli allur sjókvíaeldisbúnaður nú vera samkvæmt norska staðlinum NS 9415:2009 sem geri ströngustu kröfur til eldisbúnaðar. Varðandi vöktun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar skuli fylgt ISO 12878 og ISO 14001 vegna umhverfisstjórnunarkerfis. Þá séu rekstrarleyfi Matvælastofnunar háð skilyrðum og eftirliti til að koma í veg fyrir slysasleppingar. Loks sé mögulegt að afturkalla rekstrarleyfi ef eldifiskur sleppi ítrekað frá fiskeldisstöð, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 71/2008. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sé unnt að afturkalla starfsleyfi leyfishafa, sbr. gr. 1.7. í starfsleyfunum. Löggjafinn hafi þannig beinlínis gert ráð fyrir hættu á erfðablöndun og því sett fiskeldinu reglur til að ekki verði röskun á vistkerfi villtra fiskistofna.

Nefnd 1. gr. laga nr. 71/2008 sé markmiðsákvæði. Feli það í sér yfirlýst markmið laga sem ekki sé hægt að byggja á beinan efnislegan rétt. Áhrif markmiðsákvæða séu óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda en á þeim verði ekki byggt einum og sér til ógildingar stjórnvaldsákvarðana. Nefnt ákvæði sé bæði almennt og matskennt. Þeim mun almennara sem markmiðsákvæði sé orðað því minna vægi hafi það við túlkun einstakra lagaákvæða.

Leyfisveiting Umhverfisstofnunar sé ekki hluti af mati á umhverfisáhrifum. Breytingartilskipun 2014/52/ESB hafi aldrei verið innleidd í lög á Íslandi og hafi því ekki lagaverkan hér. Sé því um að ræða misskilning hjá kærendum.

Til viðbótar athugasemdum Umhverfisstofnunar um afnot hafsvæða bendi leyfishafi á að hafsvæði utan netlaga, ólíkt auðlindum hafsbotnsins, teljist til almenninga sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir, þ.e. svæði sjávar við strendur landsins sem taki við utan 115 m netlaga frá stórstraumsfjörumáli landeignar, sbr. t.d. 52. kapítula Landsleigubálks Jónsbókar, sem enn sé í gildi.

Útgefin leyfi samrýmist áhættumati Hafrannsóknastofnunar og burðarþolsmati fjarðanna, auk þess sem leyfin taki til staðsetninga utan friðunarsvæða skv. auglýsingu nr. 460/2004. Fram komi í áhættumati Hafrannsóknastofnunar að eldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði feli ekki í sér hættu fyrir aðra á en Breiðdalsá. Stysta fjarlægð í næstu laxveiðiár í Vopnafirði sé um 350 km og skarist á engan hátt við tilgreind fjarlægðarmörk milli veiðiáa og fiskeldis, sbr. 1. gr. breytingarreglugerðar nr. 54/2019 við reglugerð nr. 1170/2015. Fjarlægð milli eldissvæða og laxáa skipti miklu máli um hvort strokulax leiti upp í ár. Líkur á því að hann leiti í ár minnki því meiri sem fjarlægðin sé. Þetta sé ein lykilforsenda þess að til greina komi að heimila eldi á laxfiskum á þeim svæðum við landið sem tilgreind séu í auglýsingu nr. 460/2004. Vegna þessa sé óheimilt að stunda fiskeldi í námunda við þau svæði þar sem helst finnist villtir stofnar laxa og séu stór svæði á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi undanskilin af þeim sökum. Berufjörður og Fáskrúðsfjörður séu utan friðunarsvæða. Það liggi því fyrir mat stjórnvalda á því hvaða svæði þurfi að vernda sérstaklega vegna villtra stofna og sé ljóst að starfsemi leyfishafa fari fram utan slíks svæðis.

Miklar framfarir hafi orðið í búnaði og vinnsluaðferðum sem dregið hafi úr því að eldisfiskur sleppi úr sjókvíum. Unnið sé eftir ströngustu stöðlum frá Noregi varðandi búnað, NS 9415:2009, sem taki mið af aðstæðum á sjókvíaeldisstað, og varðandi verklag við viðhald og eftirlit. Á tímabilinu 2008 til 2015 hafi tilkynntar sleppingar verið að meðaltali 0,06% af fjölda laxa í norskum eldiskvíum, en strok úr kvíum hafi oft verið tvisvar til þrisvar sinnum meira áður en staðallinn hafi verið tekinn upp. Í bréfi RORUM, dags. 11. júní 2019, komi fram að strok úr eldiskvíum sé nú 0,001% á hvert tonn sem framleitt sé. Hér sé um að ræða hverfandi strok og lífslíkur seiða sé mjög takmörkuð. Þegar þetta sé haft í huga, og að fiskur sem sleppur sé fjarri laxveiðiám og þurfi að synda 350 km á móti straumi til að komast í þær, sem sé andstætt eðli hans þar sem lax kjósi að synda undan straumi, þá megi efast um lögvarða hagsmuni kærenda af þessu máli. Hvað sem framangreindu líði bendi leyfishafi á að lög geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um ráðstafanir varðandi einkaréttarlega hagsmuni, s.s. áhrif starfsemi á veiðiréttindi jarðeigenda eða nýtingu hlunninda við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Fullyrðingum kærenda um að farið sé yfir þröskuldsgildi áhættumats með leyfisveitingum í Berufirði og Fáskrúðsfirði sé hafnað en lögmaður leyfishafa hafi borið útreikninga kærenda undir Hafrannsóknastofnun. Í tölvupósti frá sviðsstjóra Hafrannsóknastofnunar, dags. 7. júní 2019, komi eftirfarandi fram: „Tillaga samkvæmt Áhættumati erfðablöndunar frá 14 júní 2017 um æskilegt hámarkseldi á Austfjörðum eru samkvæmt útreikningum áhættumatslíkans 6.000 tonn í Berufirði og 15.000 tonn í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði, það er, samanlagt magn í eldi í þeim fjörðum. Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa samanlagt allt að 21.000 tonna eldi á Austfjörðum. Sjá nánar Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrlegra laxatofna á Íslandi. HV 2017-02 Tafla 3 bls. 33. Sú túlkun að 18 þúsund tonna eldi sé yfir ráðlögðu hámarksmagni Áhættumats frá 2017 er því ekki rétt.“

Ekki þurfi að tilgreina sérstaklega í matsskýrslu staðsetningu eldiskvía fyrir ófrjóan lax. Slíkt geti ekki verið hluti af lýsingu framkvæmdar skv. lögum nr. 106/2000 sökum ómöguleika. Í matsskýrslu séu sýnd eldissvæði og tilgreind hnit eldissvæða, sbr. kafla 2.2. Frekari umfjöllun um eldissvæðin sé að finna í áliti Skipulagsstofnunar í kafla 2. Það skipti miklu að hægt sé að flytja kvíar til innan eldissvæðis til að minnka líffræðilegt álag og tryggja sem best súrefnisflæði og flutning efnis. Matvælastofnun hafi staðfest gildistöku rekstrarleyfa í Berufirði og Fáskrúðsfirði, dags. 6. júní 2019, eftir að stofnunin hafi framkvæmt úttekt á starfsstöðvum á eldissvæðum við Glímeyri og Eyri/Fögrueyri. Áður hafi verið gefin út stöðvarskírteini af faggildri skoðunarstofu. Staðsetning og fjöldi kvía sé eðli máls samkvæmt breytilegur og því ómögulegt að tilgreina staðsetningu kvía eða fjölda í matsskýrslu eða starfsleyfi. Lög nr. 71/2008 áskilji hvorki að fjöldi kvía sé tilgreindur í starfsleyfi né heldur að staðsetning sé tilgreind eða hvaða fiskur sé settur í hvaða kví, sbr. 10. gr. laganna. Í matsskýrslu séu settar fram eldisáætlanir fyrir bæði Berufjörð og Fáskrúðsfjörð í kafla 3, töflur 12 og 13. Þar sé sett fram eldisáætlun fyrir tvo árganga í Berufirði, enda sé verið að gera grein fyrir hámarks líffræðilegu álagi og því nauðsynlegt að taka báða árgangana saman. Matvælastofnun hafi verið send ítarlegri eldisáætlun hvar kynslóðum hafi verið skipt upp, gerð hafi verið grein fyrir eldi á frjóum og ófrjóum fiski sérstaklega og síðan eldisáætlun fyrir báða hópana saman. Þess skuli getið að Matvælastofnun hafi verið tilkynnt um að geldfiskur sem settur hafi verið út vorið 2019 verði settur í kví nr. 5 að Eyri/Fögrueyri. Hafa beri í huga að ekki sé lagaskylda að skilja að frjóan og ófrjóan fisk í eldi.

Minniháttar breytingar frá auglýstri tillögu að starfsleyfi geti ekki varðað ógildingu leyfisveitingar. Stjórnvöld hafi heimild til leiðréttinga skv. 23. gr. stjórnsýslulaga og rúmist umræddar breytingar innan þeirra heimildar.

Breytingartilskipun 2014/52/ESB hafi ekki verið innleidd í íslenska löggjöf og hafi því ekki gildi að íslenskum rétti. Matvælastofnun og Umhverfistofnun hafi lagt fram greinargerð með starfsleyfum og rekstrarleyfum þar sem tekin hafi verið afstaða til matsskýrslu og álits Skipulagsstofnunar. Meginatriðum reglugerðarinnar hafi því verið fylgt.

Ekki sé talið raunhæft að bera saman eldi á landi eða í lokuðum kvíum við sjókvíaeldi þar sem um það gildi allt aðrar forsendur. Þá sé umfjöllun um geldlax talin fullnægjandi í frummatsskýrslu. Í greinargerð með starfsleyfum hafi Umhverfisstofnun svarað athugasemdum kærenda við tillögu að starfsleyfum og viðbótargreinargerð leyfishafa um valkosti.

Samkvæmt opinberum gögnum rúmist umsótt magn í bæði Berufirði og Fáskrúðsfirði innan burðarþols fyrir báða firðina, sem og innan áhættumats Hafrannsóknastofnunar. Einnig sé bent á fyrrgreindan tölvupóst sviðsstjóra Hafrannsóknastofnunar þar sem fullyrt sé að túlkun kærenda á áhættumati sé ekki rétt. Því til viðbótar hafi leyfishafi skuldbundið sig með yfirlýsingu til Matvælastofnunar, dags. 14. febrúar 2019, til að viðhafa samræmda útsetningu seiða, samræma hvíld svæða, vinna saman að sjúkdómavörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar í Fáskrúðsfirði á fyrirhuguðum sameiginlegum starfsstöðvum með Löxum fiskeldi.

Bent sé á að í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. E-386/2017 sé því slegið föstu að lög nr. 71/2008 séu sérlög sem fari ekki í bága við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd eða eldri náttúruverndarlög. Í markmiðsákvæðum 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008, sem og í greinargerð með frumvarpi að lögunum, komi fram hvernig staðið skuli að fiskeldi svo frekast verði komist hjá því að gengið sé á aðra hagsmuni. Um nánari útfærslu þess sé kveðið á um í öðrum ákvæðum laga um fiskeldi.

Því sé mótmælt að starfsemin sé í andstöðu við markmið laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og sé vísað til fyrri umfjöllunar um markmiðsákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 og til fyrrnefnds dóms Héraðsdóms Reykjaness nr. E-386/2017. Varúðarregla 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd hafi ekki þýðingu í máli þessu. Líkt og fram komi í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að náttúruverndarlögum komi lagaákvæðið „fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa er til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunna að hafa á náttúruna.“ Segir svo að ef fyrir liggi „nægileg þekking eða vissa um afleiðingar ákvörðunar verður varúðarreglunni ekki beitt.“ Umrædd rekstrarleyfi og starfsleyfi hafi verið veitt að undangenginni ítarlegri og vandaðri rannsókn, víðtækri kynningu og mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í málinu liggi því fyrir ítarlegar upplýsingar um mögulega hættu og afleiðingar sem litið hafi verið til við leyfisveitingu. Ákvæði 1. og 2. gr. náttúruverndarlaga séu markmiðsákvæði sem séu einkum til lögskýringa, en feli ekki í sér efnisrétt. Þau hafi ekki verkan utan þess og geti ekki verið grundvöllur ógildingar leyfa.

Leyfishafi hafni því að á skorti að getið hafi verið um skyldu til að eldisbúnaður og framkvæmd standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í rekstrarleyfi sé kveðið á um það að gildistaka þess sé háð því að rekstrarleyfishafi skili inn stöðvarskírteini útgefnu af faggiltri skoðunarstofu fyrir hverja einstaka starfsstöð sem kveðið sé á um í rekstrarleyfi. Með framvísun stöðvarskírteinis staðfesti rekstraraðili að allur búnaður og uppsetning hans standist kröfur NS 9415:2009 staðalsins að fullu. Þá sé leyfið jafnframt háð skilyrðum sem fram komi í reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi, en þar megi finna ítrekaðar tilvísanir til norska staðalsins NS 9415:2009.

Ekki verði séð hverju það eigi að varða að Umhverfisstofnun geti ekki um álit erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017 í starfsleyfi eða meðfylgjandi greinargerð, þar sem nefndin m.a. ráðleggi stjórnvöldum að koma í veg fyrir útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi. Þetta sé einfaldlega álit nefndar og hafi ekki lagagildi eða verkan í þessu sambandi. Vísist um það til ráðgefandi hlutverks erfðanefndar skv. búnaðarlögum nr. 70/1998, en í 16. gr. laganna komi fram að nefndin sé eingöngu ráðgefandi. Áður hafi verið fjallað um lagalegan grundvöll leyfanna en jafnframt hafi verið fjallað um þau vísindagögn sem liggi til grundvallar útgáfu þeirra og tryggi sem best að ekki komi til þess að fiskeldi muni hafa neikvæð áhrif á vistkerfið. Margt í málflutningi kærenda varði ekki lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds og verði að skoðast í því ljósi, sbr. fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-386/2017.

Rétt sé að benda á að enginn eldislax hafi veiðst á Austfjörðum frá því að leyfishafi hafi hafið starfsemi og aldrei kynblandaður eldislax og villilax. Fullyrt sé að strokulaxar hafi veiðst en það sé ekki staðfest, enda veiðimenn einir til frásagnar og veiðisögur séu ýkjusögur.

Við úrlausn málsins verði einnig að horfa til þeirra miklu hagsmuna sem leyfishafi hafi af því að fá að viðhalda og þróa þá starfsemi sem gríðarlega hafi verið fjárfest í á liðnum árum. Hagsmunir leyfishafa séu því miklu meiri af því að kröfurnar verði ekki teknar til greina heldur en óskilgreindir og óljósir hagsmunir kærenda. Einnig skipti mál hinir gríðarlegu samfélagslegu hagsmunir sem sveitarfélagið og nærsamfélagið á Austfjörðum hafi af starfsemi leyfishafa.

 ——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 ——

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar vegna þeirra málsraka kærenda er lúta að því að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið ábótavant.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er bent á að í matsskýrslu Fiskeldis Austfjarða frá 19. mars 2018 hafi ekki verið að finna ítarlega umfjöllun um núllkost. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum sé ekki fortakslaus skylda til að fjalla um núllkost heldur „eftir því sem við á.“ Sams konar orðalag komi fram í 20. gr. reglugerðarinnar. Í því tilviki sem hér um ræði hafi Skipulagsstofnun ekki talið þörf á sérstakri umfjöllun um núllkost, enda framkvæmdin þess eðlis að lýsing á grunnástandi geri fullnægjandi grein fyrir áhrifum þess að ekki verði af framkvæmdinni. Framkvæmdaraðili hafi gert ráð fyrir að nota geldfisk að hluta í eldinu og því hafi verið fjallað um geldfisk í matsskýrslunni. Hins vegar hafi ekki verið fjallað um valkosti sem kærendur nefni og lúti að eldi í lokuðum kvíum og landeldi. Með það í huga hafi leyfishafi útbúið greinargerð sem hafi fjallað um valkosti og fylgt með greinargerð félagsins um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar og hafi hún óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar um greinargerðina. Einnig hafi verði óskað eftir svari við því hvort greinargerðin yrði til þess að Skipulagsstofnun gæfi út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að nýju.

Í greinargerð leyfishafa sé að finna umfjöllun um valkosti sem lúti að eldi í lokuðum kvíum á sjó, eldi á landi, notkun geldfisks, staðsetningum eldissvæða og framleiðslumagni. Í umsögn Skipulagsstofnunar til Umhverfisstofnunar, dags. 5. nóvember 2018, lýsi Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að þau sjónarmið, sem framkvæmdaraðili færi fram fyrir því að útiloka landeldi og eldi í lokuðum kvíum sem raunhæfa kosti til að ná markmiðum framkvæmdar, séu almennt hlutlæg og málefnaleg. Varðandi staðsetningarvalkostina hafi þeir valkostir sem nefndir séu í matsskýrslu verið tilkomnir vegna upplýsinga sem komið hafi fram í mati á umhverfisáhrifum, þ.e. komið hafi fram athugasemdir við frummatsskýrslu varðandi staðsetningu eldissvæða í Fáskrúðsfirði sem fallist hafi verið á og gerðar breytingar á legu svæðanna. Að því er varði minna framleiðslumagn sé bent á að í burðarþolsmati og áhættumati séu borin saman áhrif ólíks framleiðslumagns á ástand sjávar og villta laxastofna. Stofnunin hafi því ekki krafið framkvæmdaraðila um samanburð áhrifum mismunandi framleiðslumagns enda hafi sá samanburður í vissu tilliti þegar farið fram. Í kjölfar þessara gagna hafi leyfishafi tekið ákvörðun um ákveðið framleiðslumagn. Í umsögn sinni til Umhverfisstofnunar telji Skipulagsstofnun umfjöllun í greinargerðinni um valkostina fullnægjandi og að ekki sé ástæða til að gefa út nýtt álit um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs laxeldis leyfishafa í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Vísist að öðru leyti til efnis þeirrar umsagnar.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar um að hægt sé að bæta úr annmarka á mati á umhverfisáhrifum með viðbótargögnum eru á sömu lund og athugasemdir leyfishafa og verða því ekki raktar frekar hér.

Skipulagsstofnun veki athygli á því að á vefsíðu Umhverfisstofnunar 14. desember 2018 hafi tillaga að starfsleyfi leyfishafa verið auglýst ásamt fylgigögnum, þar á meðal umræddri greinargerð. Í auglýsingunni hafi komið fram að tækifæri gæfist til að koma með athugasemdir frá 14. desember 2018 til 18. janúar 2019. Almenningur hafi því haft kost á að koma með athugasemdir, bæði við tillögu að starfsleyfinu og viðbótargreinargerðina. Með þessum hætti hafi verið komið til móts við þátttökurétt almennings, sbr. 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Miðað við málsatvik sé ekki hægt að byggja á þeim tveim dómum ESB-dómstólsins sem kærendur vísi til.

Misskilnings gæti hjá kærendum varðandi sameiginlegt mat eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Stofnunin hafi ekki tekið ákvörðun um að umhverfisáhrif eldisins skuli metin sameiginlega á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fordæmi séu fyrir því að gefin sé út ein matsskýrsla vegna eldis í tveimur fjörðum. Í því sambandi sé nefnt til hliðsjónar eldi í Patreksfirði og Tálknafirði, en Skipulagsstofnun hafi gefið álit um umhverfisáhrif þess 23. september 2016. Þar hafi Fjarðarlax og Arctic Sea Farm lagt fram eina sameiginlega matsskýrslu. Í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. september 2018 í málum nr. 3/2018 og 5/2018 og frá 4. október s.á. í málum nr. 4/2018, 6/2018 og 12/2018 sé ekki gerð athugasemd við að unnið hafi verið mat á umhverfisáhrifum með þeim hætti. Oft sé það kostur að fjalla um framkvæmdir sameiginlega því þær hafi samlegðaráhrif.

Áhættumat Hafrannsóknastofnunar frá 2017 geri ráð fyrir 21.000 tonna eldi á Austfjörðum. Það sé því ekki rétt hjá kærendum að 18.000 tonna samtals magn sé 50% meira magn en áhættumatið frá 2017 byggi á.

Athugasemd Skipulagsstofnunar í áliti um mat á umhverfisáhrifum um annmarka á eldisáætlun leyfishafa hafi snúið að því að ekki væri gerður greinarmunur á eldi á frjóum fiski og ófrjóum í eldisáætlunum, sem birtar hafi verið með matsskýrslu. Að mati stofnunarinnar skipti ekki máli, hvað varði umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, nákvæmlega hvar innan skilgreindra eldissvæða ófrjór fiskur verði og hvar frjór fiskur. Almennt sé ekki gefin upp nákvæm staðsetning kvía í leyfum vegna fiskeldis enda sé litið svo á að almennt sé kostur, t.d. með tilliti til áhrifa á botndýralíf, að hægt sé að færa kvíar til innan svæða. Því sé krafa 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um staðsetningu framkvæmdar uppfyllt.

Ekki sé búið að innleiða breytingartilskipun 2014/52/ESB inn í lög um mat á umhverfisáhrifum. Á Alþingi hafi verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á þeim lögum vegna tilskipunarinnar, en á meðan ekki sé búið að samþykkja frumvarpið á Alþingi geti kærendur ekki byggt á einstökum ákvæðum tilskipunarinnar.

—–

Kærendur komu að athugasemdum við umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar. Af þeirra hálfu er m.a. mótmælt að landeldi og eldi í lokuðum kvíum séu útilokað sem raunhæfir valkostir til að ná markmiðum framkvæmdarinnar. Landeldi og eldi í lokuðum kvíum sé að ryðja sér mjög til rúms í heimi laxeldis, þar sem það útiloki marga alvarlegustu ókosti úreltra laxeldisaðferða í opnum sjókvíum. Þar sé framleiðslukostnaður orðinn svipaður og í úreltum opnum sjókvíum. Staðhæfing um geldfisk sem raunhæfan valkost séu fráleit með hliðsjón af fyrirliggjandi leyfisumsókn framkvæmdaraðila í þessu máli um framleiðslumagn þess konar fisks, þ.e. 5.000 tonn í Fáskrúðsfirði og 3.800 tonn í Berufirði.

Ítrekaðar séu fyrri málsástæður um að viðbótargreinargerð framkvæmdaraðila hafi átt að fá sérstaka málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000. Viðbótin hafi ekki verið auglýst sérstaklega á vefsíðu Umhverfisstofnunar heldur hafi hún verið hálffalin í upptalningu á ýmsum fylgigögnum í auglýsingu að tillögu að starfsleyfi. Þessi sérkennilega tilhögun geti ekki talist fullnægjandi. Ítrekaðar séu fyrri málsástæður um að óheimilt sé að tengja saman mat á umhverfisáhrifum fyrir tvö aðskilin svæði. Bent sé á að í öllum starfsleyfum og rekstrarleyfum séu gefin upp nákvæm hnit og staðsetningar allra eldissvæða. Varðandi ófrjóan lax sé sérlega mikilvægt að á hreinu sé hvar hann sé að finna. Ótækt sé að framkvæmdaraðili geti dembt ófrjóum laxi niður þar sem honum þóknist á hverjum tíma.

Því sé mótmælt að ekki þurfi að fara eftir fyrirmælum breytingartilskipunar 2014/52/ESB. Hún hafi verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 frá 30. apríl 2015 (2016/EES/42/44) og hafi í framhaldi af því orðið skuldbindandi fyrir íslenska ríkið, þ.m.t. allar stofnanir þess, þó svo að ríkið hafi vanrækt að leiða tilskipunina í lög. Einstaklingar hér á landi eigi rétt á því að bera fyrir sig ákvæði tilskipunarinnar gagnvart íslenska ríkinu og stofnunum þess, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem mæli fyrir um að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Beri því að skýra ákvæði um leyfisveitingar í 13. gr. laga nr. 106/2000 til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 að veita Fiskeldi Austfjarða hf. starfsleyfi fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 14. júní 2018, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast þó eiga lögvarinna hagsmuna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr.

Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði laga nr. 130/2011 um kæruaðild, og hins vegar veiðifélög tiltekinna áa. Þurfa veiðifélögin að uppfylla skilyrði 3. mgr. 4. gr. laganna um lögvarða hagsmuni. Við mat á því hvort félögin uppfylli þau skilyrði verður að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess að kærendur skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir þá hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Telja framangreindir kærendur sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa sem og hinum villtu lax- og silungsstofnum þeirra, m.a. með lúsafári og erfðamengun frá framandi og kynbættum eldislaxi, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg dæmi sýni.

Sjókvíaeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Fáskrúðsfirði. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi er laxveiðiáin Breiðdalsá í Breiðdalsvík í mestri hættu vegna áhrifa á náttúrulega laxastofna. Með hliðsjón af því og vegna nándar árinnar við fyrirhugað laxeldi verður að játa Veiðifélagi Breiðdæla kæruaðild. Laxveiðiárnar Hofsá, Sunnudalsá, Selá og Vesturdalsá eru allar í Vopnafirði og renna þær til sjávar í botni fjarðarins. Árnar eru í mikilli fjarlægð frá umræddu eldi og eru staðhættir þannig að ef til þess kæmi að lax slyppi úr eldiskvíum væru umtalsverðar hindranir því í vegi að hann leitaði í þær ár. Það sýnist þó ekki útilokað, sérsaklega þegar litið er til þess að laxar sem sluppu úr kvíum í Norðfirði árið 2003 veiddust í ám í Breiðdal og Vopnafirði.

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Hafrannsóknastofnunar við meðferð málsins og hefur hún í umsögn sinni bent á að það eldismagn sem veitt hafi verið leyfi fyrir í Berufirði og í Fáskrúðsfirði sé innan þeirra marka sem stofnunin hafi tiltekið í áhættumati erfðablöndunar. Samkvæmt matinu sé hægt að reikna með að hlutfall eldislaxa af heildarfjölda göngulaxa verði 2,0% í Breiðdalsá, minna en 0,1% í Vesturdalsá og 0,2% í öðrum þeim ám í Vopnafirði sem um sé að ræða. Erfiðara sé að leggja mat á göngumynstur ófrjórra laxa, þeir ættu þó að vera mun ólíklegri til að ganga upp í ár og muni ekki valda erfðablöndun. Tekur stofnunin fram að þar sem tímgunarhæfni eldislaxa sé mun takmarkaðri en villtra laxa verði minni áhrif en hlutfall strokulaxa segi til um og sé talið að áhrif erfðablöndunar á 50 árum við laxa af eldisuppruna séu veik á stofna ef fjöldi eldisfiska sé undir 4% þröskuldsgildi. Í athugasemdum kærenda við umsögn stofnunarinnar er m.a. bent á að hún hafi aðeins verið spurð um hættu á veiði eldislaxa frá tveimur eldisstöðvum, þ.e. í Fáskrúðsfirði og Berufirði. Ekki hafi verið talið með 6.000 tonna eldi í Reyðarfirði. Útreikningur á hlutfalli eldislaxa í umræddum ám sé því rangur og óhjákvæmilegt sé að hafna niðurstöðu stofnunarinnar þar um.

Þótt ekki sé hægt að útiloka að lax úr fyrirhuguðu eldi gangi í ár í Vopnafirði og hafi einhver áhrif á hagsmuni þeirra kærenda sem á því byggja verður ekki talið að þeir hagsmunir séu verulegir með hliðsjón af fjarlægð ánna frá fiskeldi leyfishafa, þeim takmarkaða fjölda laxa sem sennilegt verður að telja að í þær geti gengið og þeim veiku áhrifum sem ætla má að af því hljótist. Uppfylla þeir hagsmunir því ekki skilyrði þess að geta talist lögvarðir í skilningi stjórnsýsluréttar. Kröfum Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélags Selár og Veiðifélags Vesturdalsár er því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

——

Þegar mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar hefur farið fram eru skyldur leyfisveitenda ríkar við útgáfu leyfis til þeirrar framkvæmdar. Ná þær skyldur m.a. til þess að kanna hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar eða svo verulegir annmarkar á málsmeðferð að bæta verði úr eða að á álitinu verði ekki byggt. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar beinist því ekki eingöngu að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu leyfisveitanda heldur einnig eftir atvikum að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði var haldið ágöllum og þá hvort þeir ágallar séu svo verulegir að á því verði ekki byggt. Enn fremur hvernig málsmeðferð Umhverfisstofnunar var háttað við veitingu starfsleyfis að teknu tilliti til þess mats sem fram fór. Halda kærendur því aðallega fram að matinu hafi verið áfátt hvað varðaði umfjöllun um valkosti og að úr því hafi ekki verið bætt með viðbótargreinargerð framkvæmdaraðila.

Mat á umhverfisáhrifum fer fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, hvort tveggja með síðari breytingum. Síðustu breytingar á tilvitnuðum lögum áttu sér stað vegna innleiðingar á tilskipun 2014/52/ESB. Af því tilefni var lögum nr. 106/2000 breytt með lögum nr. 96/2019, sem tóku gildi 1. september 2019, og var framangreindri reglugerð einnig breytt í nóvember s.á. Nefndar breytingar höfðu því ekki tekið gildi þegar leyfi það sem hér um ræðir var gefið út 19. mars 2019, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.

Markmið laga nr. 106/2000 eru tíunduð í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Einnig er meðal markmiða að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna, sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.

Samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 leggur framkvæmdaraðili fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar þar sem m.a. skal lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma, sbr. 2. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna. Fallist Skipulagsstofnun á matsáætlun skal framkvæmdaraðili vinna frummatsskýrslu skv. 9. gr. í samræmi við áætlunina þar sem tilgreina skal umhverfisáhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem kunni að fylgja fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi. Skal og ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram að það hafi „[…] mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“ Að fengnum umsögnum og athugasemdum skal framkvæmdaraðili skv. 6. mgr. 10. gr. laganna vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun gefur svo rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settum samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Telji Skipulagsstofnun að matsskýrsla framkvæmdaraðila víki frá frummatsskýrslu hvað varði mikilvæga þætti málsins skal hún auglýst að nýju, sbr. 3. mgr. 11. gr. Er í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 74/2005 tekið fram að með þessu sé settur varnagli þar sem að öðrum kosti fengju verulegar breytingar á matsskýrslu ekki þá umfjöllun sem eðlilegt sé af sérfróðum aðilum og öðrum sem kynnu að vilja tjá sig um þær. Loks skal leyfisveitandi samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga nr. 106/2000 kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmd sem háð er mati á umhverfisáhrifum og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar

Ráða má af réttarframkvæmd, af lögum og reglum, forsögu þeirra og markmiðum, að samanburður umhverfisáhrifa þeirra valkosta sem til greina koma er jafnan lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Getur verið um ógildingarannmarka að ræða fari slíkur samanburður ekki fram. Er og ljóst að gert er ráð fyrir ákveðnu samræmi á milli matsáætlunar, frummatsskýrslu og matsskýrslu og að Skipulagsstofnun hafi með því eftirlit. Er tilgangurinn m.a. sá að sú framkvæmd sem er til umfjöllunar hljóti skoðun óháðra sérfræðinga og almennings sem lætur sig hana varða. Það liggur enn fremur fyrir að framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á framkvæmd sinni, sbr. t.d. skilgreiningu á matsáætlun í 3. gr. laga nr. 106/2000, en jafnframt að sjónarhorn hans má ekki koma í veg fyrir að hann geri samanburð á umhverfisáhrifum valkosta þótt þeir hugnist honum ekki af einhverjum ástæðum. Á enda í mati á umhverfisáhrifum fyrst og fremst að fara fram hlutlægur samanburður umhverfisáhrifa mismunandi valkosta, án tillits til t.d. kostnaðar. Tilgangur þessa er að fyrir liggi ákveðnar upplýsingar um umhverfisáhrifin svo viðkomandi leyfisveitandi geri sér grein fyrir því hver þau áhrif eru þegar hann tekur umsókn framkvæmdaraðila til löglegrar meðferðar. Í því forræði sem framkvæmdaraðila er játað um það hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar felst því ekki að hann hafi um það óskorað mat heldur verður það mat að vera hlutlægt og málefnalegt. Önnur sjónarmið, t.d. hagræn sjónarmið sem lúta að kostnaði við eða ávinningi af framkvæmd, geta hins vegar komið til skoðunar þegar kemur að veitingu leyfis viðkomandi stjórnvalds. Samkvæmt framangreindu er um tveggja þrepa nálgun að ræða.

Í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun, dags. 7. júní 2014, kemur fram að hann hafi leyfi til framleiðslu 6.000 tonna af laxi og 2.000 tonna af regnbogasilungi í Berufirði og til framleiðslu 3.000 tonna af regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði. Án þess að aðrir kostir séu tilgreindir segir að stefnt sé að því að auka framleiðslu á regnbogasilungi um 7.000 tonn, þ.e. 5.000 tonn í Berufirði og 2.000 tonn í Fáskrúðsfirði, og á laxi um 6.000 tonn, þ.e. 1.000 tonn í Berufirði og 5.000 tonn í Fáskrúðsfirði. Í frummatsskýrslu og matsskýrslu framkvæmdaraðila er því lýst í kafla 4 að félagið setji fram einn kost vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og sé henni lýst í kafla 3. Um núllkost segir í báðum skýrslum að hann feli í sér að ekki verði ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir og að framleiðsla verði ekki aukin. Ef ekki komi til uppbyggingar verði jákvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif minni eða engin. Valkosti framkvæmdaraðila er svo lýst í frummatsskýrslu að enn sé gert ráð fyrir 11.000 tonna framleiðsluaukningu en eingöngu verði alinn lax. Skipting framleiðslu milli fjarðanna taki mið af burðarþolsmati og útsetningaráætlun og muni, bjóði lög svo, taka mið af áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt því mati muni þau 10.000 tonn sem áætlað sé að ala í Berufirði verða 6.000 tonn frjór lax og 4.000 tonn geldlax. Í Fáskrúðsfirði muni 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Sömu lýsingu er að finna í matsskýrslu að því undanskildu að dregið er úr heildarmagni eldis í Berufirði og tekið fram að þar verði alin 9.800 tonn, þar af 6.000 tonn frjór lax og 3.800 tonn geldlax. Í frummatsskýrslu og matsskýrslu er að finna samhljóða kafla um valkosti þar sem áréttað er að framkvæmdaraðili setji fram einn kost vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Markmið hans sé að byggja upp sjálfbært og vistvænt sjókvíaeldi á Austfjörðum og sé lykillinn að því kynslóðskipt eldi með hvíld svæða. Eldissvæðin í Berufirði og Fáskrúðsfirði séu staðsett þannig að þau valdi sem minnstri röskun á annarri starfsemi eða athöfnum. Staðsetning þeirra hafi verið ákvörðuð út frá hafstraumum og öldufari til þess að tryggja rekstraröryggi og tíð sjóskipti. Fyrirhuguð framleiðsluaukning leiði af sér tilfærslu og stækkun á athafnasvæðum. Til að lágmarka staðbundin umhverfisáhrif sé mikilvægt að eldissvæði séu nægjanlega stór til að rúma tilfærslu á staðsetningu eldiskvía innan þeirra.

Framkvæmdaraðili gerði þannig grein fyrir sínum aðalvalkosti hverju sinni en sá kostur tók breytingum hvað varðaði tegund eldisfisks og framleiðslumagn á meðan á málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum stóð. Komu þær breytingar til vegna mats á burðarþoli fjarða þeirra sem eldið er fyrirhugað í og vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar. Áttu þær sér stað áður en frummatsskýrsla var kynnt. Þótt efni frummatsskýrslu hafi, vegna nefndra breytinga á framkvæmdinni, ekki verið í fullu samræmi við matsáætlun framkvæmdaraðila frá árinu 2014 var þar tekið tillit til vísindalegrar niðurstöðu stjórnvalda um hvaða takmörk þyrftu að vera á eldisstarfsemi til þess að takmarka óæskileg áhrif eldisins á lífríki. Auk þess áttu sérfræðistofnanir og almenningur á því stigi málsins kost á því að koma að umsögnum og athugasemdum sem hlutu síðan skoðun í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar. Enn önnur breyting varð á tilhögun framkvæmdarinnar en í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að eftir að matsskýrsla lá fyrir í mars 2018 hafi framkvæmdaraðili óskað eftir að afmörkun tveggja eldissvæða í Fáskrúðsfirði yrði breytt. Féllst stofnunin á það með þeim rökum að ekki væri verið að færa eldissvæði til í firðinum heldur minnka umfang áður kynntra eldissvæða. Aflaði stofnunin umsagnar Landhelgisgæslunnar og Fjarðabyggðar og var í álitinu fjallað um þau áhrif sem yrðu af mismunandi afmörkun svæðanna. Var tekið fram að nýrri kosturinn væri ekki líklegur til að trufla siglingar inn og út úr Fáskrúðsfirði en sá eldri myndi hafa nokkuð til talsvert neikvæð áhrif á þær. Að teknu tilliti til þess að við greindar breytingar var stefnt að þeim markmiðum laga nr. 106/2000 sem áður er lýst, þ.e. samvinnu aðila og samráði við almenning, auk þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, telur úrskurðarnefndin að nægileg samfella hafi verið í málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar.

Á kynningartíma frummatsskýrslu barst athugasemd, m.a. frá kærendum, þess efnis að aðeins einn valkostur væri nefndur í skýrslunni auk núllkosts og væri nánast ekkert fjallað um aðra valkosti eða þeir bornir saman, svo sem varðandi mögulega notkun geldfisks. Var og á það bent að ekki væri minnst á möguleika á landeldi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi og loks tekið fram að skortur á umfjöllun um hina ýmsu valkosti væri svo verulegur annmarki á frummatsskýrslunni að hlyti að varða höfnun hennar. Svaraði framkvæmdaraðili á þann veg að ekki væri talið raunhæft að bera saman kosti eins og eldi á landi eða í lokuðum kvíum í ljósi þess að um það giltu allt aðrar forsendur, sem ekki ættu við um sjókvíaeldi, en auk þess væri umfjöllun um geldlax í frummatsskýrslu fullnægjandi.

Þótt Skipulagsstofnun fjallaði um framkomnar athugasemdir við frummatsskýrslu og svör framkvæmdaraðila við þeim í áliti sínu, í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, vék stofnunin hvorki að athugasemd kærenda um skort á umfjöllun um valkosti né svari framkvæmdaraðila við henni. Verður að telja að sú athugasemd hafi gefið Skipulagsstofnun tilefni til að taka til skoðunar í áliti sínu valkostaumfjöllun framkvæmdaraðila. Sér í lagi þegar horft er til þess að degi eftir að álit stofnunarinnar lá fyrir samþykkti hún tillögur annarra framkvæmdaraðila að þremur aðskildum matsáætlunum vegna laxeldis með þeirri athugasemd að í frummatsskýrslum vegna þeirra framkvæmda þyrfti að gera ítarlega grein fyrir öðrum framkvæmdakostum, svo sem með geldfiski, í lokuðum kerfum eða á landi, til að ná markmiði framkvæmdanna og bera saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Vísaði stofnunin vegna þessa til þess að samkvæmt lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum skyldi í frummatsskýrslu lýsa öðrum möguleikum um framkvæmdakosti sem til greina kæmu, bera saman umhverfisáhrif þeirra kosta sem kynntir væru og rökstyðja valkost framkvæmdaraðila, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Einsýnt er að í máli þessu hefði markmiðum mats á umhverfisáhrifum verið betur náð með viðlíka lýsingu valkosta og samanburði á umhverfisáhrifum þeirra. Verður að telja það annmarka á matinu og áliti Skipulagsstofnunar að svo var ekki gert.

Umfjöllun í matsskýrslu um núllkost, þ.e. þann valkost að aðhafast ekki, er rýr að efni til. Tekið er fram að hann feli í sér að ekki verði ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir og framleiðsla þar af leiðandi ekki aukin. Vísað er til markmiða aðalskipulagsáætlana viðkomandi sveitarfélaga og tekið fram að ef ekki komi til uppbyggingar verði jákvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif minni eða engin. Hins vegar er að finna greinargóðar upplýsingar í matsskýrslu um grunnástand hinna ýmsu umhverfisþátta, enda hefur framkvæmdaraðili stundað eldi í þeim fjörðum sem um ræðir.

Svo sem áður er að vikið urðu breytingar á áformum framkvæmdaraðila. Í auglýstri frummatsskýrslu er tiltekið að til standi að ala lax eingöngu og verði að hluta til alinn geldlax að teknu tilliti til áhættumats unnu af Hafrannsóknastofnun vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Forsenda áhættumatsins sé að náttúrulegir stofnar skaðist ekki og að tekið sé tillit til varúðarsjónarmiða, en miðað sé við að hlutfall eldislaxa í ám verði ekki meira en 4%. Í skýrslu framkvæmdaraðila er frekar fjallað um tegundir geldfiska, þ.e. leiðir til að gera lax ófrjóan, sem og kosti þess og galla að notast við geldlax í eldi. Tekur framkvæmdaraðili fram að notkun á ófrjóum eldislaxi sé áhugaverður valkostur með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum en bendir jafnframt á að þörf sé á meiri rannsóknum á framleiðslu á ófrjóum eldislaxi, ekki síst við íslenskar aðstæður. Notkun á ófrjóum laxi komi ekki í veg fyrir að eldislax sem hugsanlega sleppi gangi upp í laxveiðiár en draga megi verulega úr þeirri hættu með því að gelda fiskinn. Rekur Skipulagsstofnun í áliti sínu þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að með því að nota geldfisk verði einnig dregið úr hættu á að eldisfiskur sem sleppi nái að hafa áhrif á villta laxastofna sökum þess að hann geti ekki fjölgað sér. Í álitinu er jafnframt tekið fram að Matvælastofnun hafi óskað eftir að ítarlegri grein yrði gerð fyrir því hvaða aðferð yrði notuð við geldingu á eldislaxi og hvaða áhrif notkun geldfisks hefði á framkvæmdina. Eru rakin þau svör framkvæmdaraðila að fyrirhugað sé að nota þrílitna geldfisk, þekking á þessu sviði sé ný af nálinni og erfitt sé að segja til um áhrif geldfiska á framkvæmdina en til lengri tíma séu þau talin jákvæð. Í frummatsskýrslu og matsskýrslu er gerð grein fyrir þeim næringarefnum, m.a. fosfór, sem ráð sé fyrir gert að berist út í umhverfið við eldið. Vakti Umhverfisstofnun í umsögn sinni athygli á að ekki væri skýrt tekið fram í frummatsskýrslu hvort í þeim mælingum væri tekið mið af auknu magni fosfórs í fóðri fyrir ófrjóa laxa sem til stæði að framleiða. Var svar framkvæmdaraðila á þá leið að einungis væri um að ræða mismun á magni fosfórs í fóðri á seiðastigi í landeldi og almennt væri magnmismunur svo lítill að engu varðaði.

Sá kostur að ala geldlax kom því fram í frummatsskýrslu og matsskýrslu, athugasemdum þar að lútandi var svarað og upplýst frekar um umhverfisáhrif þess konar eldis. Þrátt fyrir að ekki hafi farið fram kerfisbundinn samanburður þeirra valkosta að ala frjóan lax og ófrjóan þá lá fyrir í gögnum málsins, áður en til álits Skipulagsstofnunar kom, efnislegur samanburður nefndra valkosta. Voru og tiltekin mismunandi umhverfisáhrif þeirra, einkum hvað varðar áhrif á stofna villtra laxfiska.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að í mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar hafi valkostaumfjöllun, í skilningi þágildandi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, ekki verið svo óásættanleg að á matinu yrði ekki byggt hvað þann þátt varðar. Var enda fjallað um notkun geldfisks og umhverfisáhrif þeirrar notkunar í matsskýrslu framkvæmdaraðila, auk þess sem núllkostur var nefndur og áhrif hans komu fram í lýsingu á grunnástandi umhverfisþátta.

Eins og áður segir komu fram í matsskýrslu þau svör framkvæmdaraðila að ekki væri talið raunhæft að bera saman kosti eins og eldi á landi eða í lokuðum kvíum. Framkvæmdaraðili verður ekki þvingaður til að kanna aðra kosti en þá sem raunhæfir eru, eða til greina koma, sbr. orðalag þágildandi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Eigi að síður hefði Skipulagsstofnun, líkt og fram hefur komið, átt að fjalla um og upplýsa um réttmæti þessara staðhæfinga. Til að bæta úr því var áður en til leyfisveitinga kom unnin viðbótargreinargerð af hálfu framkvæmdaraðila þar sem fjallað var nánar um m.a. þessa tvo kosti, þ.e. landeldi og lokaðar kvíar, og áfram komist að þeirri niðurstöðu að þeir væru ekki raunhæfir fyrir eldi framkvæmdaraðila. Er rakið í greinargerðinni að níu frumgerðir lokaðra eldiskvía hafi verið byggðar, aðrar 14 séu í þróun og að einhver kerfi hafi hlotið vottun samkvæmt NS 9415:2009 staðlinum en ekki fengið stöðvarskírteini. Lokaðar kvíar séu hannaðar til að standast ölduhæð að hámarki 1,5-2,0 m en netkvíar framkvæmdaraðila þoli 5 m ölduhæð. Vegna eldis á landi tilgreinir framkvæmdaraðili umhverfisaðstæður sem hindrun. Þannig þurfi slíkt eldi mikið vatnsmagn og mikið landsvæði sem þurfi að vera nálægt samgönguleiðum, auk þess sem aðgengi þurfi að sjó og jarðvarma eða jarðsjó til að aðstæður séu sem bestar. Veitti Skipulagsstofnun umsögn um framkomna greinargerð og tiltók almennt þau sjónarmið sem legið gætu til grundvallar við mat á því hvort valkostur væri raunhæfur. Féllst stofnunin á að þrátt fyrir að ekki væru allar ástæður sem framkvæmdaraðili tilgreini málefnalegar og hlutlægar þá væri mat hans almennt málefnalegt um að þessir tveir kostir gætu ekki talist raunhæfir. Tæknileg og efnahagsleg sjónarmið vægju þar þyngst um lokaðar sjókvíar og efnahagsleg sjónarmið vægju þungt í landeldi, auk þess sem ekki væri gerð athugasemd við mat framkvæmdaraðila um umhverfis- og landfræðilegar aðstæður á Austfjörðum.

Þegar höfð er hliðsjón af því að ákveðinn samanburður valkosta hafði farið fram og að þegar hafði verið tekið fram að tilteknir valkostir væru óraunhæfir án nánari rökstuðnings var Umhverfisstofnun rétt að rannsaka málið frekar. Í samræmi við það lágu greinargerð framkvæmdaraðila og umsögn Skipulagsstofnunar um hana fyrir Umhverfisstofnun við ákvörðunartöku hinnar kærðu ákvörðunar. Nefnd greinargerð og umsögn fylgdi tillögu að starfsleyfi við auglýsingu hennar sem almenningi gafst kostur á að gera athugasemdir við. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni með hinu kærða starfsleyfi að sjókvíaeldi í lokuðum kvíum væri kostur sem ekki hefði reynt mikið á og væri í raun á tilraunastigi. Einnig að valkostur um landeldi væri eðlisólík framkvæmd og myndi krefjast mikils landsvæðis og umhverfisáhrifa, einkum vegna fráveitu, vatnstöku og orkuþarfar. Með hliðsjón af þeim atvikum sem rakin hafa verið þykir sýnt að Umhverfisstofnun kynnti sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og tók að þessu leyti rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, auk þess að sinna rannsóknarskyldu sinni í því skyni að fá fram frekari röksemdir fyrir vali framkvæmdaraðila. Áréttað skal að rök af efnahagslegum toga eiga almennt ekki við þegar umhverfisáhrif eru metin og verður að gjalda varhug við notkun slíkra sjónarmiða í því skyni að bera ekki saman umhverfisáhrif mismunandi valkosta. Eiga þau rök fyrst og fremst við þegar kemur að ákvörðun um hvort samþykkja skuli eða synja um leyfi. Sjónarmið af efnahagslegum toga réðu þó ekki ein mati framkvæmdaraðila og vísaði Umhverfisstofnun ekki til slíkra sjónarmiða.

Var því kannað af leyfisveitanda að svör framkvæmdaraðila, þess efnis að aðrir kostir væru ekki raunhæfir, ættu við rök að styðjast. Með þeim viðbótarupplýsingum og þeim óbeina samanburði valkosta sem átt hafði sér stað í mati á umhverfisáhrifum lágu nægar upplýsingar fyrir svo að leyfisveitandi gæti gert sér fullnægjandi grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og var markmiði mats á umhverfisáhrifum að því leyti náð, sbr. 1. gr. laga nr. 106/2000.

—–

Í máli þessu lagði framkvæmdaraðili fram eina matsskýrslu vegna fyrirhugaðs eldis í Fáskrúðsfirði annars vegar og Berufirði hins vegar. Því til grundvallar lá ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar um að meta skyldi umhverfisáhrif sameiginlega skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en greint ákvæði heimilar slíka ákvörðun þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri. Svo sem fram hefur komið hefur framkvæmdaraðili visst forræði á því hvernig fyrirhuguð framkvæmd er kynnt í mati á umhverfisáhrifum enda er matsáætlun skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, sbr. 3. gr. laga nr. 106/2000, og skal í tillögu að slíkri áætlun m.a. lýsa framkvæmdasvæði, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Ljóst er að um aðskilin eldissvæði er að ræða með sitt hvora eldisáætlunina. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að fram færi eitt mat á umhverfisáhrifum og í áliti stofnunarinnar er fjallað um samlegðaráhrif með framkvæmdinni með öðru eldi á Austfjörðum. Þau samlegðaráhrif eru eðli máls samkvæmt einnig til staðar þótt framkvæmdaraðili leggi stund á eldi í tveimur fjörðum. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 hafi staðið því í vegi að fjallað væri um eldið í einni og sömu matsskýrslunni enda verður ekki séð að efni hennar hafi orðið annað og síðra en ef um tvær skýrslur hefði verið að ræða.

—–

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar er fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á tilgreinda umhverfisþætti. Kemur næst til skoðunar varðandi mat á umhverfisáhrifum hvort umfjöllun um einstaka efnisþætti þess hafi verið haldin öðrum ágöllum er máli skipta við úrlausn kærumáls þessa, svo og hvernig háttað var rökstuðningi Umhverfisstofnunar með tilliti til álits Skipulagsstofnunar hvað þá þætti varðar, sbr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Í 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi er tekið fram að til starfrækslu fiskeldisstöðva þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Afhenda skuli Matvælastofnun umsóknir um slík leyfi og skuli þær afgreiddar samhliða. Loks skuli Matvælastofnun framsenda umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Löggjafinn hefur með framangreindum hætti kveðið á um málefnaleg valdmörk milli nefndra stofnana þegar kemur að veitingu leyfa fyrir fiskeldi og eiga þau einnig við þegar tekin er afstaða til álits Skipulagsstofnunar. Í greinargerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfinu kemur og fram að samráð hafi verið viðhaft milli þessara tveggja stofnana við leyfisveitingar þeirra vegna eldis þess sem um ræðir og sér þess stað í efnislegri umfjöllun greinargerðarinnar. Þannig vísar Umhverfisstofnun m.a. til upplýsinga frá Matvælastofnun í umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús, sem og til þess að rekstrarleyfi þeirrar stofnunar muni ná til þessara þátta. Einnig að leyfi beggja aðila séu gefin út á grundvelli áhættumats Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun og séu ákvæði með leyfum varðandi þennan þátt með þeim hætti að hægt verði að endurskoða þau verði breytingar á áhættumatinu. Var umfjöllun Umhverfisstofnunar fullnægjandi enda ber stofnunum að halda sig innan þeirra valdmarka sem þeim eru sett að lögum. Þá fjallaði Umhverfisstofnun um þá þætti sem henni bar með hliðsjón af lögum nr. 7/1998, s.s. um að áhrif vegna súrefnisinnihalds væru svæðisbundin og afturkræf. Auk þess benti stofnunin á, varðandi þau neikvæðu samlegðaráhrif sem Skipulagsstofnun teldi að framkvæmdin myndi hafa með fyrirhuguðu eldi Laxa fiskeldis ehf., að við útgáfu annarra leyfa til framtíðar yrðu burðarþolsmat og áhættumat takmarkandi þættir. Í greinargerð Umhverfisstofnunar var jafnframt svarað þeim athugasemdum kærenda sem bárust á kynningartíma starfsleyfisins vegna þessara þátta.

Ástæða þykir hins vegar til að víkja frekar að áhrifum framkvæmdarinnar á fuglalíf, landslag, útivist og ferðaþjónustu.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun gerðu athugasemd við það í umsögnum sínum að framkvæmdaraðili hefði ekki gert athugun á fuglalífi á svæðinu og lutu fleiri athugasemdir að fuglalífi. Taldi Skipulagsstofnun að líklegt væri að fyrirhugað fiskeldi kæmi til með að hafa áhrif á fuglalíf í nágrenni eldissvæða en óvíst væri hvort áhrifin yrðu neikvæð og þá hversu neikvæð. Lagði stofnunin til að í starfsleyfi yrðu sett skilyrði um vöktun á fuglalífi í nágrenni eldissvæða. Taldi Umhverfisstofnun við leyfisveitingu sína sömuleiðis óvissu ríkja um áhrif aukins eldis á fuglalíf og kallaði þessi óvissa á að fuglalíf á svæðinu yrði vaktað. Brást stofnunin við þessu með því að setja skilyrði um vöktun í gr. 5.1 í starfsleyfinu og tók fram að krafa yrði gerð um útfærslu á því í vöktunaráætlun rekstraraðila.

Í áliti Skipulagsstofnunar er rakið að Ferðamálastofa hafi gert athugasemd við að frummatsskýrsla sýni ekki nógu vel áhrif framkvæmdarinnar á ferðamennsku, að stuðst sé við gamlar kannanir frá öðrum svæðum og að ekki sé útskýrt hvernig þær ættu við um Austfirði. Fundu Ferðamálastofa og Fjarðabyggð að því að framkvæmdaraðili hefði ekki látið framkvæma könnun á Austfjörðum, en auk þess er tilgreint í álitinu að aðrar athugasemdir lúti að því að áhrif á ferðaþjónustu hafi verið vanmetin. Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif eldiskvíanna á ásýnd fjarðanna og upplifun ferðamanna væru líkleg til að verða nokkuð neikvæð, en að samlegðaráhrif framkvæmdanna með fyrirhuguðum framkvæmdum annars staðar á Austfjörðum yrðu talsvert neikvæð. Vegna þessa tók Umhverfisstofnun fram í greinargerð sinni með starfsleyfi að hún teldi mikilvægt að vanda frágang umbúða, vinnsluefna og annars sorps og úrgangsefna frá eldi í Berufirði vegna nálægðar við Teigarhorn og væru ákvæði þar um í gr. 2.3 í starfsleyfinu. Loks taldi stofnunin að áhrif framkvæmdarinnar væru afturkræf hvað varðaði ásýnd og upplifun ef eldinu yrði hætt.

Verður að líta svo á að með framangreindu hafi með fullnægjandi hætti birst rökstuðningur Umhverfisstofnunar, svo sem áskilið er í ákvæðum 13. gr. laga nr. 106/2000. Var og brugðist við ágöllum á umfjöllun um fuglalíf í skýrslu framkvæmdaraðila og leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á ferðamennsku. Varðandi rökstuðnings skal á það bent að lögum samkvæmt hvílir sú skylda ekki almennt á stjórnvaldi þegar það veitir leyfi að rökstyðja af hverju það synjaði ekki um umbeðið leyfi, enda hefur það þá komist að þeirri niðurstöðu að það skuli veita með ákveðnum rökum.

——

Kærendur hafa fundið að fleiri atriðum sem nú koma til skoðunar hvað varðar málsmeðferð Umhverfisstofnunar við útgáfu hins kærða starfsleyfis. Lúta athugasemdir þeirra að því að lágmarksfjarlægð sé ekki á milli eldissvæða í Fáskrúðsfirði, útgáfa starfsleyfisins samrýmist ekki 1. gr. laga nr. 71/2008, auk þess sem 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrárinnar hafi staðið henni í vegi. Jafnframt að engin skilríki séu fyrir hendi fyrir afnotum leyfishafa af hafinu, lögvernduðum eignarréttindum annarra hafi ekki verið sinnt, staðsetningar eldiskvía fyrir ófrjóan lax liggi ekki fyrir, álits erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017 hafi ekki verið getið og ónógt tillit verið tekið til niðurstöðu áhættumats Hafrannsóknastofnunar varðandi Breiðdalsá.

Kærendur tiltaka einnig að breytingar og lagfæringar hafi átt sér stað á auglýstri tillögu að starfsleyfi og sé í útgefnu starfsleyfi hvorki getið um skyldu framkvæmdaraðila um að tryggt skuli að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó né getið um norska staðalinn NS 9415:2009. Breyting Umhverfisstofnunar á auglýstri tillögu að starfsleyfi sneri að lagfæringu á hnitum vegna staðsetningar kvía auk þess sem bætt var við ákvæðum varðandi leyfi vegna notkunar á ófrjóum fiski og ákvæði vegna vöktunar fugla. Tilgangur auglýsingar starfsleyfistillögu er að gefa almenningi kost á að gera skriflegar athugasemdir, sem eðli máls samkvæmt geta leitt til lagfæringa og breytinga á auglýstri tillögu að starfsleyfi, enda er sú málsmeðferð liður í rannsókn máls. Verður ekki heldur séð að nefndar breytingar leiði til þess að framkvæmdinni hafi ekki verið rétt og fyllilega lýst í matsskýrslu, en um minni háttar breytingar er að ræða. Þá heyrir ekki undir valdsvið Umhverfisstofnunar að fjalla sérstaklega um slysasleppingar eða eldisbúnað og norska staðalinn NS 9415:2009.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi skal lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila samkvæmt meginviðmiði vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hefur verið úthlutað. Fellur það fyrst og fremst undir valdsvið Matvælastofnunar að fjalla um þetta atriði en Umhverfisstofnun svaraði þó athugasemdum kærenda vegna þessa, m.a. með þeim hætti að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun væru meira en 5 km milli eldissvæða. Fyrir liggur að Laxar fiskeldi ehf. hafa í hyggju að byggja upp fiskeldi í Fáskrúðsfirði. Hvorki starfsleyfi né rekstrarleyfi hafa hins vegar verið gefin út vegna þeirra áforma og stendur fyrrnefnt reglugerðarákvæði því ekki í vegi fyrir útgáfu leyfis þess sem hér um ræðir. Hins vegar hefur Þorskeldi ehf. gilt starfsleyfi til að reka 200 tonna þorskeldi í botni Fáskrúðsfjarðar og eru minna en 5 km á milli eldissvæða leyfishafa og Þorskeldis ehf. Við útgáfu hins kærða starfsleyfis í máli þessu var félagið jafnframt með gilt rekstrarleyfi en það féll úr gildi 30. mars 2019, stuttu eftir gildistöku starfsleyfis og rekstrarleyfis leyfishafa. Starfsemi Þorskeldis ehf. mun hafa legið niðri um nokkurra ára skeið og sótti félagið ekki um endurnýjun á rekstrarleyfi sínu sex mánuðum áður en það rann út, líkt og áskilið er í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Verður það því ekki talið varða ógildingu hins kærða starfsleyfis að við gildistöku þess hafi ótengdur aðili haft gilt starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í innan við 5 km fjarlægð miðað við útmörk eldissvæðis leyfishafa.

Í 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er fjallað um markmið laganna. Svo sem rakið er í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 8/2018, sem kveðinn var upp 13. júní 2019, er ljóst af efni lagagreinarinnar, nefndum lögum að öðru leyti og lögskýringargögnum með þeim að löggjafinn hefur beinlínis gert ráð fyrir því að fiskeldi geti haft áhrif á umhverfi sitt, en allt að einu heimilað að það sé leyft að teknu tilliti til þeirra takmarkana og skilyrða sem lög og reglugerðir áskilja. Úrskurðarnefndin hefur í tilvitnuðum úrskurði og með úrskurði í kærumáli kveðnu upp sama dag í máli nr. 2/2018 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar standi leyfisveitingum vegna sjókvíaeldis utan netlaga ekki í vegi án frekari skilríkja um afnot sjávar. Með sömu rökum verður að telja leyfisveitingu Umhverfisstofnunar samrýmast nefndum ákvæðum.

Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/1998 og er þar tryggður réttur til að koma að athugasemdum áður en starfsleyfi er gefið út. Þeir sem slíkar athugasemdir gera hafa þó ekki stöðu málsaðila eingöngu á þeim forsendum. Er hlutverk stofnunarinnar fyrst og fremst að gefa út leyfi að teknu tilliti til krafna laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, þótt ekki sé útilokað að við starfsleyfisútgáfu beri henni einnig að fjalla um eignarréttarlega hagsmuni séu þeir hagsmunir þess eðlis að viðkomandi teljist hafa stöðu aðila. Hafa þeir þá rétt sem slíkir til að koma að andmælum á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá stöðu höfðu kærendur hins vegar ekki í krafti athugasemda sinna til Umhverfisstofnunar og bar henni því engin nauðsyn til að fjalla um möguleg áhrif fyrirhugaðs eldis á eignarrétt þeirra.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 kemur fram að í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skuli meðal annars lýsa framkvæmdasvæði. Þá er mælt fyrir um það í þágildandi 2. mgr. 9. gr. laganna að í frummatsskýrslu skuli lýsa þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið, þar á meðal umfangi, hönnun og staðsetningu. Fyrir liggur að bæði í matsskýrslu framkvæmdaraðila og hinu kærða starfsleyfi er að finna upplýsingar um staðsetningu eldissvæða án nánari tilgreiningar á staðsetningu eldiskvía, enda eru þær reglulega færðar til innan eldissvæðis til að takmarka óæskileg áhrif á sjávarbotn undir þeim. Gera hvorki fyrrgreind lagaákvæði né önnur kröfu um að tilgreind séu sérstaklega staðsetning eldiskvía fyrir ófrjóan lax og verður ekki séð hvaða tilgangi það myndi þjóna í ljósi þess að Matvælastofnun tekur ákvörðun um útsetningu seiða skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi og að kveðið er á um merkingar laxfiska í 49. gr. sömu reglugerðar.

Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar getur hámarksumfang laxeldis á Austfjörðum verið 21.000 tonn, þar af 15.000 tonn í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði og 6.000 tonn í Berufirði. Útgefin starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir eldi á frjóum laxi í nefndum fjörðum eru innan þeirra marka. Kemur og fram í áhættumatinu að verði niðurstöðum áhættulíkansins fylgt verði hlutfall eldisfisks í Breiðdalsá undir 4% þröskuldsmörkum innblöndunar. Verður því hvorki fallist á það með kærendum að við útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi áhættumat Hafrannsóknastofnunar ekki verið lagt til grundvallar né að útgefin leyfi til eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði leiði til þess að hlutfall eldisfisks í Breiðdalsá fari yfir þröskuldsmörk innblöndunar.

Þá verður ekki séð að álit erfðanefndar landbúnaðarins hafi þá lagalegu eða efnislegu þýðingu að nauðsyn hafi borið til að vísa til þess við útgáfu starfsleyfisins, en ljóst er að við leyfisveitinguna var tekið mið af burðarþolsmati og áhættumati sjálfstæðrar rannsókna- og ráðgjafarstofnunar sem hefur yfir að ráða vísindalegri þekkingu á lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 112/2015 um Hafrannsóknastofnun.

 ——

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd fer Umhverfisstofnun m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna og veitir einnig leyfi og umsagnir samkvæmt þeim. Í máli þessu er deilt um starfsleyfi sem veitt er á grundvelli laga nr. 7/1998, að undangenginni málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000, en sérstök málsmeðferð fór ekki fram á grundvelli laga nr. 60/2013. Kærendur hafa einkum bent á 1. gr. laga nr. 60/2013, sem geymir markmið laganna, 2. gr., sem setur verndarmarkmið fyrir m.a. tegundir, svo og varúðarreglu 9. gr. Eins og fram hefur komið hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum laxeldis þess sem um er deilt. Úrskurðarnefndin hefur að framan komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að á því hafi verið ákveðnir ágallar valdi þeir ekki ógildingu starfsleyfisins, auk þess sem Umhverfisstofnun hafi haft fullnægjandi upplýsingar undir höndum við leyfisveitinguna. Verður ekki séð að frekari rannsókn eða mat Umhverfisstofnunar á grundvelli laga nr. 60/2013 hefði bætt neinu við það mat á umhverfisáhrifum sem þegar hafði farið fram. Þá er óumdeilt að Umhverfisstofnun skal hafa eftirlit með eldinu hvort sem er á grundvelli starfsleyfisins eða 75. gr. laga nr. 60/2013. Að sama skapi telur úrskurðarnefndin að sérstakt mat eða rannsókn Umhverfisstofnunar á umhverfistjóni hefði engu bætt við það mat á umhverfisáhrifum sem þegar hafði farið fram, en ef slíkt tjón verður eftir að fiskeldi það sem hér um ræðir hefst getur eftir atvikum komið til kasta laga nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð.

—–

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi eða meðferð hinnar kærðu starfsleyfisákvörðunar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélags Selár og Veiðifélags Vesturdalsár.

 

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 19. mars 2019 um að veita Fiskeldi Austfjarða hf. starfsleyfi fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi.

111/2018 Skálafell

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. júlí 2018 um að bygging kláfs í Skálafelli skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. ágúst 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Skálafell Panorama ehf. þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. júlí 2018 að bygging kláfs í Skálafelli skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 18. september 2018.

Málavextir: Skálafell er 774 m hátt fjall upp af Mosfellsdal. Samkvæmt gögnum málsins er fjallið í landi lögbýlisins Stardals, en Reykjavíkurborg leigir hluta af því landi undir skíðasvæði og annast Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins rekstur þess. Munu eigendur Stardals ásamt fleiri aðilum hafa stofnað félagið Skálafell Panorama ehf. um það verkefni að reisa kláf upp á topp Skálafells. Í mars 2018 tilkynnti félagið þau áform sín til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom m.a. fram að starfrækt hefði verið skíðasvæði í Skálafelli frá árinu 1959 og svæðið því þegar raskað vegna umsvifa í tengslum við það. Einnig væru tvö hús og fjarskiptamastur á toppi Skálafells. Fælist fyrirhuguð framkvæmd m.a. í lagningu kláfs frá núverandi bílastæði við rætur Skálafells og upp á topp fjallsins. Gerðu áætlanir ráð fyrir alls um 14 stálmöstrum og yrði hæð þeirra á bilinu 7-15 m. Leggja þyrfti vegslóða upp fjallið og rafmagnsheimtaug. Einnig væru áform um að reisa þjónustustöð við upphafsstöð lyftunnar, sem gæti orðið allt að 2.000 m² að stærð. Hún gæti þó orðið mun minni, eða 300-500 m² að stærð. Jafnframt væri gert ráð fyrir þjónustustöð á toppi fjallsins auk útsýnispalla. Yrði sú stöð líklega á bilinu 500-800 m², á þremur hæðum, en áform væru um veitingastað á efstu hæð hennar. Við báðar þjónustustöðvar yrðu settar niður rotþrær. Vatnsöflun yrði líklega með svipuðum hætti og nú tíðkist, þ.e. með safntanki og miðlunartönkum. Ef til vill yrði bætt við tönkum ef aðsókn að svæðinu krefðist þess.

Bent var á að svæðið væri hluti af útivistarsvæði Græna trefilsins svokallaða. Taldi framkvæmdaraðili að uppsetning kláfsins og bygging þjónustustöðva kæmi fyrst og fremst til með að hafa áhrif á landnotkun, gróður, vatnafar og ásýnd. Ekki væru fyrirsjáanleg áhrif á dýralíf, verðmætar jarðmyndanir eða aðra umhverfisþætti umfram það sem nú væri á svæðinu. Engin verndarsvæði væru á framkvæmdarsvæðinu sem orðið gætu fyrir áhrifum.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Reykjavíkurborgar, Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Minjastofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vinnueftirlitsins um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Töldu Minjastofnun, Reykjavíkur­borg, Umhverfisstofnun og Veðurstofan að framkvæmdin skyldi ekki sæta mati á umhverfis­áhrifum en komu á framfæri athugasemdum og ábendingum. Vinnueftirlitið og Ferðamálastofa tóku ekki beina afstöðu til fyrirspurnar Skipulagsstofnunar en komu einnig að athugasemdum. Heilbrigðiseftirlitið taldi að umrædd framkvæmd myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif miðað við aðstæður í dag, en tók fram að yrði vatnsverndarsvæðið í Mosfellsdal stækkað og skilgreint að framkvæmdarsvæðinu skyldi framkvæmdin háð mati á umhverfis­áhrifum.

Umsagnir voru sendar framkvæmdaraðila, sem brást við þeim með bréfi, dags. 12. apríl 2018. Með tölvubréfum Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila 3. maí og 11. júní s.á. var óskað frekari skýringa og upplýsinga og bárust stofnuninni svarbréf 25. maí og 12. júní s.á. Í þeim svörum kom m.a. fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að um 150.000 manns myndu nýta sér kláfinn árlega.

Hinn 20. júlí 2018 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Var niðurstaða hennar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna gæti bygging kláfs í Skálafelli haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Skyldi framkvæmdin því háð mati á umhverfisáhrifum. Taldi Skipulagsstofnun m.a. að við fyrirhugaðar framkvæmdir yrði eðlisbreyting á þjónustu svæðisins og að ákveðin óvissa væri um umfang framkvæmda, slysahættu og áhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Kallaði umfang áhrifa á nánari greiningu og mat, en m.a. ríkti óvissa um aukningu umferðar og áhrif hennar sem og áhrif á viðkvæm gróðursvæði. Einnig væri óvissa um áhrif framkvæmda á landslag þar sem ljóst væri að ásýndarbreytingar kynnu að hafa áhrif á upplifun margra. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var birt á heimasíðu hennar 20. júlí 2018 og kærufrestur veittur til 26. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ákvörðun Skipulagsstofnunar byggi m.a. á þeirri forsendu að gera þurfi 3,5-4 m breiðan og 1.400 m langan vegslóða meðfram fyrirhuguðum kláfi, ásamt því að setja upp 12 möstur þar sem svæði fyrir hvert mastur sé áætlað 200 m². Af þessum forsendum dragi stofnunin þá ályktun að jarðrask verði á landi sem nemi 11 ha, en það sé í raun áætlað á um 1,1 ha svæði. Verði ekki betur séð en að mismuninn megi rekja til rangra útreikninga stofnunarinnar með þeim afleiðingum að fyrirhugað framkvæmdarsvæði sé talið vera u.þ.b. tíu sinnum stærra en gert sé ráð fyrir. Þessu til viðbótar byggi niðurstaða Skipulagsstofnunar á því að steyptar undirstöður fyrir hvert mastur séu 200 m², en þær verði mun minni. Áætlað sé að stærð aðstöðusvæða fyrir hvert mastur verði 200 m² á framkvæmda­tímanum. Að framkvæmdum loknum verði þau grædd upp með svarðlagi og staðargróðri í samræmi við ráðleggingar Umhverfisstofnunar. Þar sem fyrir liggi að grundvallarforsendur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi reynst rangar beri þegar á þeirri forsendu að ógilda ákvörðunina.

Því sé mótmælt að í hinni fyrirhuguðu framkvæmd felist eðlisbreyting á þeirri þjónustu sem nú sé veitt í Skálafelli. Með uppsetningu á kláfi sé verið að leitast við að bæta þá þjónustu sem fyrir sé á svæðinu. Yfir vetrarmánuðina sé þar rekin umfangsmikil starfsemi skíðadeilda íþróttafélaga auk skíðasvæðis fyrir almenning og yfir sumarmánuðina sé starfræktur fjallahjóla­garður á svæðinu. Með ráðgerðri uppbyggingu sé verið að skjóta frekari stoðum undir Skálafell sem íþrótta- og útivistarsvæði. Muni áformuð uppbygging ekki breyta ásýnd svæðisins að neinu marki, en þar séu þegar ýmis mannvirki. Tekið sé undir athugasemd Reykjavíkurborgar þar sem fram komi að „Staðsetning og gerð kláfsins ætti að falla vel inn í það umhverfi sem er til staðar og ekki valda stórfelldum breytingum á ásýnd eða eiginleikum svæðis.“ Þrátt fyrir að jákvæðar athugasemdir liggi fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd virðist athugasemd Ferðamála­stofu gefið meira vægi en annarra umsagnaraðila, en hún telji að hætta á neikvæðum áhrifum liggi fyrst og fremst í ásýnd svæðisins. Samt sem áður telji Ferðamálastofa í umsögn sinni „öll líkindi á að áhrif kláfs upp á Skálafell á ferðamennsku verði fyrst og fremst jákvæð“.

Ekki sé óvissa um stærð þeirra þjónustubygginga sem fyrirhugað sé að reisa. Um ítrustu áform sé að ræða og séu þau í samræmi við það sem ráðgert sé í gildandi deiliskipulagi. Þjónustustöð vegna kláfsins verði mun minni en 2.000 m² fari svo að rekstraraðilar á svæðinu samnýti ekki þjónustubyggingar.

Aðkoma að Skálafelli liggi um Þingvallaveg sem sé fjölfarinn vegur. Stefnt sé að því að ná hluta þeirrar umferðar sem um veginn fari, enda sé Skálafell ákjósanlega staðsett með tilliti til ferðamanna. Vegna þessa muni aukning umferðar ekki verða umtalsverð vegna uppbyggingar í Skálafelli. Þá sé tillaga að deiliskipulagi í Mosfellsdal vegna upp­byggingar á Þingvallavegi í skipulagsferli en þar liggi fyrir greining Vegagerðarinnar á umferðaraukningu um veginn til ársins 2040. Liggi því fyrir fullnægjandi gögn um mögulega umferðaraukningu á Þingvallavegi.

Skipulagsstofnun hafi með ákvörðun sinni frá 30. janúar 2018 komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdir á skíðasvæði Tindastóls í Skagafirði skyldu ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Þar standi til að reisa þrjár skíðalyftur, útbúa nýjar skíðabrautir, byggja skíðaskála og dæluhús, stækka áhaldahús og útbúa söfnunarlón á 300 ha svæði. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi verið sú sama í ákvörðun hennar frá 27. júní 2018 vegna uppsetningar á stólalyftu í Hlíðarfjalli. Umfang framkvæmda í Hlíðarfjalli nái hins vegar yfir mun stærra svæði, en 2,7-8,1 ha lands raskist vegna mótunar og sléttunar á nýjum skíðaleiðum. Hluti framkvæmdanna sé á óröskuðu svæði, öfugt við fyrirhugaða uppbyggingu í Skálafelli. Gæta beri samræmis og jafnræðis við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ekki séu fyrir hendi gögn eða upplýsingar sem réttlætt geti að sambærilegar framkvæmdir hljóti mismunandi afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er því hafnað að hún hafi dregið þá ályktun að jarðrask verði á landi sem nemi 11 ha, en í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar komi fram að rask verði á einum ha lands. Skipulagsstofnun hefði hins vegar fyrir mistök sett inn í ákvörðun sína að í svörum framkvæmdaraðila við framkomnum umsögnum kæmi fram að áætlað rask væri á um 11 ha svæði. Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar segi einnig að steyptar undirstöður mastra verði 200 m². Þetta sé ekki rétt, en eins og fram komi í kafla 3 í ákvörðuninni sé stærð aðstöðusvæða fyrir hvert mastur 200 m². Þrátt fyrir að rangt sé farið með stærð undirstaða mastra í niðurstöðu­kaflanum verði ekki séð að það feli í sér verulegan annmarka sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Lögð sé áhersla á að áætlanir geri ráð fyrir að um 150.000 gestir muni nýta sér kláfinn árlega og muni þeim fjölga mest á sumrin eða um 100.000. Þá leiði það af eðli máls að starfsemi kláfs sé ekki sú sama og starfsemi skíðalyftu. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé með ítarlegum hætti rökstutt að hvaða leyti eðlisbreyting verði á þjónustu svæðisins og sé jafnframt vísað til þeirrar umfjöllunar.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær „geta“ haft í för með umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Ekki sé því hægt fyrir fram að útiloka að hin fyrirhugaða fram­kvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í umsögn Reykjavíkurborgar, sem og í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sé bent á að huga þurfi betur að ýmsum atriðum sem varði aukna umferð. Þá lúti tillaga sú að deiliskipulagi sem kærandi vísi til ekki að þeirri framkvæmd sem hin kærða ákvörðun snúist um.

Skipulagsstofnun taki með sjálfstæðum hætti ákvörðun um hvort framkvæmd sé matsskyld eður ei. Falli það í hennar verkahring að meta gögn málsins, þ. á m. umsagnir, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Í því felist að stofnunin leggi jafnframt mat á innbyrðis vægi þeirra umsagna sem leitað sé eftir, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 15. október 2015 í máli nr. 46/2014. Sé öflun umsagna liður í rannsókn máls en umsagnirnar séu ekki bindandi að lögum fyrir Skipulagsstofnun. Vegna tilvísunar kæranda til umsagnar Reykjavíkurborgar sé vakin athygli á því að í umsögninni komi fram að ljóst sé að sjónræn áhrif verði „allnokkur enda kláfur umtalsvert meira áberandi mannvirki en þær skíðalyftur sem nú eru til staðar.“ Þá sé, með hliðsjón af því er fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila um stærð þjónustubygginga, ljóst að óvissa sé um stærð þeirra og að halda öðru fram eigi sér ekki stoð í gögnum.

Jafnræðisreglan áskilji að atvik máls séu öldungis sambærileg, en sé svo ekki sé ekki um brot á jafnræði að ræða þegar mál séu leyst á ólíkan hátt. Þegar virtar séu framkvæmdalýsingar í þeim ákvörðunum sem kærandi vísi til verði ekki séð að atvik í þeim málum séu algerlega sambærileg atvikum í máli því sem hin kærða ákvörðun lúti að, þ.e. ekki sé um öldungis sambærilegar framkvæmdir að ræða. Auk þessa verði að hafa í huga að landfræðilegar aðstæður í þessum málum séu eðli málsins samkvæmt ekki þær sömu. Jafnframt sé ekki hægt að horfa fram hjá þeim fjölda gesta sem áætlað sé að nýta muni kláfinn árlega, en sami fjölda gesta sæki hvorki Hlíðarfjall né Tindastól. Kláfurinn muni veita fólki aðgang að skíðabrekkum með mun meiri og alvarlegri snjóflóðahættu en sé á núverandi skíðasvæði. Leysa verði það vandamál áður en opnað verði fyrir slíka starfsemi, svo sem fram komi í umsögn Veðurstofu Íslands. Slík varnaðarorð hafi ekki verið að finna í umsögn Veðurstofunnar vegna fyrirspurnar um mats­skyldu framkvæmdar á skíðasvæði Tindastóls. Þá liggi fyrir að framkvæmdir í Skálafelli hafi í för með sér röskun vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi, en ekki sé um það að ræða í öðrum þeim tilvikum sem kærandi hafi vísað til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. júlí 2018 að bygging kláfs í Skálafelli geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila er tilgangur framkvæmdarinnar fyrst og fremst sá að fjölga afþreyingarmöguleikum ferðamanna og veita fólki færi á að njóta útsýnisins frá toppi fjallsins, nýrra gönguleiða og lengri skíðabrekka en nú eru til staðar.

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um hvenær framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Skíðasvæði, skíðalyftur og kláfar á skíðasvæðum og tengdar framkvæmdir utan verndarsvæða og jökla falla í flokk C í tilvitnuðum 1. viðauka, sbr. tölul. 12.02. Fram kemur í gögnum málsins að áður en tilkynning framkvæmdaraðila um fyrirhugaðar framkvæmdir í Skálafelli barst Skipulagsstofnun hafi verið óskað eftir afstöðu stofnunarinnar um það hvort framkvæmdin félli undir fyrrgreindan tölulið eða tölul. 10.20 í viðaukanum sem fellur í flokk B. Taldi Skipulagsstofnun að út frá „umfangi og eðli fyrirhugaðs mannvirkis“ félli það undir tölul. 10.20, en hann er svohljóðandi: „Járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðan­jarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga.“ Tölul. 12.02 tekur beinlínis til kláfa og fellur að auki undir flokkinn „Ferðalög og tómstundir“, en eins og fyrr greinir er tilgangur framkvæmdarinnar fyrst og fremst sagður sá að auka afþreyingarmöguleika fólks. Tölul. 10.20 heyrir hins vegar undir flokk framkvæmda sem ber yfirskriftina „Grunnvirki“ og tekur töluliðurinn samkvæmt orðalagi sínu eingöngu eða aðallega til fólksflutninga. Hefur heimfærsla Skipulagsstofnunar þó ekki þýðingu við úrlausn máls þessa enda tekur stofnunin ákvörðun um matsskyldu hvort sem um er að ræða framkvæmd í flokki B eða í flokki C í 1. viðauka sé hún háð öðrum leyfum en samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki, sbr. 2. mgr. 6. gr. nefndra laga, en svo háttar til í máli því sem hér er til úrlausnar.

Svo sem áður er fram komið hefur verið starfrækt skíðasvæði í Skálafelli til fjölda ára og er svæðið nokkuð raskað. Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að fimm skíðalyftur séu á svæðinu, þar af fjórar gangfærar og sé flutningsgeta þeirra um 3.000 manns á klukkustund. Á svæðinu séu einnig nokkur önnur mannvirki, svo sem starfsmannaskáli, skáli skíðadeildar KR, veitingaskáli, skíðaleiga og verkfæraskúrar. Á toppi Skálafells séu tvö hús og fjarskiptamastur. Geri fyrirætlanir framkvæmdaraðila m.a. ráð fyrir því að lagður verði kláfur frá núverandi bílastæði við rætur Skálafells og upp á topp fjallsins og að þjónustustöðvar verði við báðar endastöðvar. Í þjónustustöðvunum verði t.a.m. stjórnstöð fyrir kláfinn, miðasala, salerni, ferðamannaverslun og veitingasala. Lengd milli upphafsstöðvar og endastöðvar verði um tveir km og nemi hækkunin tæpum 400 m. Farþegaklefar kláfsins rúmi hver um sig sex til átta manns og verði afkastageta lyftunnar um 1.200 manns á klukkustund. Jafnframt kemur fram að gert sé ráð fyrir alls 14 möstrum. Hæð þeirra verði á bilinu 7-15 m, þau verði úr galvaníseruðu stáli og standi á steyptum undirstöðum. Þá þurfi að leggja um 3,5-4 m breiðan vegslóða upp fjallið, sem og rafmagnsheimtaug. Vegslóðinn frá upphafstöð að klettum í hlíðum Skálafells verði um 1 km að lengd og frá endastöð kláfsins yrði lögð um 400 m langur vegslóði niður að klettunum. Ekki sé ljóst hversu mörg bílastæði þurfi. Þau rúmi í dag 350 bíla, en í deiliskipulagi sé gert ráð fyrir bílastæðum fyrir 750 ökutæki. Þá er staðsetning kláfsins sýnd á uppdrætti.

Líkt og fyrr greinir þá skulu framkvæmdir sem falla í flokka B og C skv. 1. viðauka laga nr. 106/2000 háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna um­fangs, eðlis eða staðsetningar. Umtalsverð umhverfisáhrif eru skilgreind í p-lið 3. gr. nefndra laga sem „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal við ákvörðun um matsskyldu vegna framkvæmdar í flokki B fara eftir viðmiðum í 2. viðauka sömu laga, en áður skal leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Með sömu formerkjum er Skipulagsstofnun, við ákvörðun um matsskyldu vegna framkvæmdar í flokki C, heimilt að leita álits leyfisveitanda og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Eru viðmið 2. viðauka talin upp í þremur töluliðum en undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða sem líta ber til við ákvörðun um matsskyldu. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin voru fyrrnefndar viðmiðanir í 1.-3. tölul. tilgreindar eðli framkvæmdar, staðsetning hennar og eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, en 2. viðauka hefur verið breytt síðan, sbr. lög nr. 96/2019. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hvaða liðir vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð. Það að framkvæmd falli undir einhvern liðanna leiðir þó ekki sjálfkrafa til mats­skyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka.

Hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er skipt í nokkra kafla og í henni eru m.a. reifuð framkomin sjónarmið umsagnaraðila og framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif framkvæmdar­innar á landnotkun, gróður, vatnsvernd, ásýnd og landslag, sem og öryggi. Niðurstaða stofnunarinnar er í 6. kafla og vísar hún í rökstuðningi sínum sérstaklega til fyrrgreindra viðmiða 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Kemst Skipulagsstofnun sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að bygging kláfs í Skálafelli geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið.

Hvað 1. tölul. 2. viðauka varðar tekur Skipulagsstofnun það fram að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, meðal annars stærð og umfangi framkvæmdar og slysahættu. Er niðurstaða stofnunarinnar sú að við fyrirhugaðar framkvæmdir verði eðlisbreyting á þjónustu svæðisins og að ákveðin óvissa sé um umfang framkvæmda og slysahættu. Kalli þeir þættir sem falli undir eðli framkvæmdar­innar á að mat á umhverfisáhrifum hennar fari fram.

Lítur stofnunin til þess fjölda fólks sem áætlanir geri ráð fyrir að nýta muni kláfinn árlega og telur að um umtalsverða fjölgun sé að ræða miðað við núverandi fjölda skíðagesta. Bendir Skipulagsstofnun og á að gestum muni fjölga mest á sumrin en svæðið hafi hingað til lítið verið nýtt utan þess tíma sem skíðasvæðið hafi verið opið. Áætlanir framkvæmdaraðila gera ráð fyrir að 150.000 gestir fari með kláfnum árlega, þar af 100.000 manns á sumrin. Gangi þær áætlanir eftir er ljóst að um verulega fjölgun gesta verður að ræða frá því sem nú er, en undanfarna vetur mun fjöldi gesta hafa verið á bilinu 3.000-16.000. Það að gert sé ráð fyrir mikilli fjölgun gesta leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu framkvæmdar heldur verður allt að einu að meta hvort umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu með þeim hætti að þau teljist umtalsverð, sbr. fyrrnefnda skilgreiningu p-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000.

Verði fyrirhuguð framkvæmd að veruleika verður boðin þjónusta sem ekki er nú til staðar í Skálafelli og felur framkvæmdin að mati Skipulagsstofnunar í sér eðlisbreytingu á þjónustu svæðisins. Bæði í umsögnum Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar er vikið að því hvernig fyrirhuguð uppbygging samræmist forsendum og markmiðum skipulags. Tekur Reykjavíkurborg fram að bæði núverandi og áætluð aðstaða fyrir útivist og ferðamennsku á Skálafelli samræmist markmiðum um hlutverk Græna trefilsins og að umhverfisáhrif séu talin óveruleg. Þá er það mat Umhverfisstofnunar að kláfur sem tengist útivist eða annarri afþreyingu fyrir ferðamenn og skíðafólk falli ágætlega að skipulagi svæðisins. Fyrir liggur að breyting verður á þeirri þjónustu svæðisins sem boðið er upp á frá því sem nú er. Með tilkomu kláfsins er þeim sem sækja Skálafell heim veitt færi á því að komast upp á topp fjallsins með auðveldari hætti en nú er. Fleiri gönguleiðir verða aðgengilegar og skíðabrekkur lengri og brattari. Auk þess eru áform um að starfræktur verði veitingastaður í þjónustustöð við endastöð kláfsins, en svo er ekki nú. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þó vart hægt að líta svo á að slík breyting verði á þjónustunni að það eitt og sér leiði til þess að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.

Jafnframt telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð uppbygging feli í sér umfangsmikil mannvirki miðað við þau sem fyrir séu á svæðinu. Kalli umfang fyrirhugaðra framkvæmda á nánari greiningu og mat og er í þessu sambandi vísað til umsagna Reykjavíkurborgar og Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur, sem telji að meta þurfi umferðaraukningu og áhrif hennar á vegakerfið. Hvorugur nefndra umsagnaraðila taldi að mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fara fram og kemur fram í gögnum málsins að það sé mat framkvæmdaraðila að umferðaraukning um Þingvallaveg ætti ekki að verða umtalsverð frá því sem nú sé. Hafi umferð um veginn aukist talsvert undanfarin misseri vegna aukins ferðamannastraums, en leiða megi líkur að því að einungis hluti þeirrar aukningar verði vegna kláfsins. Auk þess megi búast við að einhverjir ferðamenn, sem þegar séu á leið austur, t.d. á Þingvelli, bæti Skálafelli við sem áfangastað. Tekur framkvæmdaraðili undir umsögn Reykjavíkurborgar um að hugað verði betur að ýmsum atriðum er varði aukna umferð við endurgerð deiliskipulags. Svo sem fram kemur í málsrökum kæranda vísar hann og til þess að fyrir liggi greining Vegagerðarinnar á umferðar­aukningu um Þingvallaveg til ársins 2040 í tillögu að deiliskipulagi í Mosfellsdal vegna upp­byggingar á Þingvallavegi. Sú tillaga var auglýst 28. júlí 2018 til kynningar, eða nokkrum dögum eftir hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar. Verður ekki séð að sú greining sem framkvæmdar­aðili vísar til hafi legið fyrir hjá stofnuninni en hygðist hún byggja á atriðum varðandi umferðar­aukningu var henni rétt að leita umsagnar Vegagerðarinnar í þeim tilgangi að upplýsa málið áður en ákvörðun var tekin, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hvorugur þeirra umsagnar­aðila sem Skipulagsstofnun vísar til vegna áhrifa af umferðaraukningu taldi að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Einnig skírskotar Skipulagsstofnun til þess að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila komi fram að á þessu stigi sé óljóst hver stærð fyrirhugaðra þjónustubygginga verði. Telur stofnunin að fjalla þurfi nánar um mismunandi valkosti bygginga, m.a. stærð þeirra og starfsemi sem þær hýsi, og vísar þar einnig til umsagnar Reykjavíkurborgar um áform um veitingaþjónustu í þjónustu­stöðinni. Er tekið fram að um umfangsmikla framkvæmd sé að ræða sem ekki sé reynsla af hérlendis. Kærandi bendir hins vegar á að um ítrustu áform sé að ræða og séu þau í samræmi við það sem ráðgert sé í gildandi deiliskipulagi. Umhverfisstofnun tekur m.a. fram í umsögn sinni að hún muni veita umsögn við breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að þá sé eðlilegt að fyrirhuguð áform séu skýr auk þess sem æskilegt sé að stærð bílastæða sé þá ljós. Tekur framkvæmdaraðili fram í svörum sínum að hann muni sjá til þess að framangreind atriði verði skýr þegar komi að deiliskipulagsferli.

Sú skylda hvílir á framkvæmdaraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd sem kann að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur hann forræði á því hvernig hann lýsir fyrirhugaðri framkvæmd í tilkynningu sinni. Hún verður þó að vera svo skýr að efni til að ekki leiki vafi á því í hverju hin fyrirhugaða framkvæmd felst svo unnt sé að taka afstöðu til þess hvort hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hefur bent á að áform um stærð þjónustubygginga geti breyst komi til þess að samræmd verði áform hans og rekstraraðila skíðasvæðisins. Óljóst er því á þessu stigi málsins hver stærð bygginga verður og var framkvæmdaraðila því rétt að setja fram ítrustu áform sín í því skyni að upplýsa hver áhrif yrðu af uppbyggingu samkvæmt þeim. Verður að líta svo á að kjósi framkvæmdaraðili að leggja fram ítrustu áform eingöngu, en ekki önnur og minni, geti hann borið af því halla ef umfangið leiðir til ákvörðunar um að mat á umhverfisáhrifum skuli fari fram. Hins vegar er ekki skylt að lögum að leggja fram mismunandi valkosti á þessu stigi málsins. Lýtur enda ákvörðunin að mögulegri matsskyldu miðað við þau áform framkvæmdaraðila sem hann tilkynnir um. Óvissa um hvort verði af ítrustu áformum verður þannig vart til þess að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdar heldur ber Skipulagsstofnun að miða við þau áform sem henni er tilkynnt um.

Hvað varðar eðli framkvæmdar fjallar Skipulagsstofnun loks um atriði er lúta að veðurfari og öryggismálum og kemst að þeirri niðurstöðu að óvissa sé um slysahættu. Tekur stofnunin undir það með Veðurstofu Íslands að betur þurfi að skýra og skilgreina upplýsingar um veðurfar, mikilvægi langtímaveðurmælinga og öryggi fólks í tengslum við þessa framkvæmd. Er vísað til þess að Veðurstofan hafi bent á að kláfurinn myndi veita fólki aðgang að skíðabrekkum með mun meiri og alvarlegri snjóflóðahættu og að leysa þyrfti það vandamál áður en opnað yrði fyrir starfsemina. Jafnframt því eru reifuð svör framkvæmdaraðila um að mælingar verði gerðar á toppi Skálafells og að fyrri reynsla ætti að nægja, ásamt verklagsreglum á síðari stigum. Þá yrði hugsanlega fleiri vindmælum komið fyrir og unnin áætlun um aðgerðir til að tryggja ásættanlegt öryggi fólks áður en rekstur hæfist.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er umsögn Veðurstofu Íslands á þann veg að fyrirhuguð framkvæmd þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Tiltekur Veðurstofan m.a. að staðsetning og fyrirkomulag kláfsins hafi verið skoðað með tilliti til snjóflóðahættu. Ekki hafi verið útbúið snjóflóðahættumat fyrir skíðasvæðið en lengi hafi verið skíðað í fjallinu og því komin nokkur reynsla á snjóflóð og snjóflóðahættu, sem stofnunin svo rekur nánar. Tekur framkvæmdaraðili undir í svörum sínum að skoða þurfi hvort styrkja þurfi lyftumöstur á tilteknum kafla og að kannaðar verði takmarkanir á notkun kláfsins áður en ákvörðun verði tekin um kaup og uppsetningu. Nákvæmari verklagsreglur er varði öryggismál verði útbúnar á síðari stigum verkefnisins. Jafnframt verði séð til þess að unnin verði áætlun um viðbúnað eða aðgerðir til að tryggja ásættanlegt öryggi fólks vegna ofanflóða áður en rekstur hefjist. Voru nefnd svör framkvæmdaraðila á sömu lund og hann hafði áður tiltekið í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar, en þar segir að nákvæmari verklagsreglur sem varði öryggismál verði útbúnar á síðari stigum verkefnisins, bæði í samráði við lyftuframleiðanda sem og Vinnu­eftirlitið. Kerfið verði sett upp og rekið samkvæmt Evrópustöðlum og reglugerð nr. 668/2002 um togbrautarbúnað til fólksflutninga.

Verði af fyrirhugaðri framkvæmd verður aðgengi fólks aukið að þeim hluta framkvæmdasvæðisins þar sem snjóflóðahætta getur myndast við ákveðnar aðstæður. Svo sem fram er komið hefur ekki verið unnið snjóflóðahættumat fyrir Skálafell, en skv. 3. gr. reglugerðar nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum annast Veðurstofan gerð slíks mats á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum ofanflóða samkvæmt beiðni hlutaðeigandi sveitarfélags. Mat á umhverfisáhrifum kemur ekki í stað snjóflóðahættumats og taldi Veðurstofan sem það annast ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum til að upplýsa um atriði vegna slysahættu út frá þeirri sérfræðiþekkingu sem hún býr yfir. Hefur Skipulagsstofnun ekki fært haldbær rök fyrir því að með mati á umhverfisáhrifum verði dregið úr eða eytt þeirri óvissu varðandi slysahættu sem stofnunin telur vera fyrir hendi.

Við ákvörðun sína byggir Skipulagsstofnun einnig á því að taka skuli mið af staðsetningu fram­kvæmdar með tilliti til þess hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda og álagsþols náttúrunnar einkum með tilliti til upprunalegs gróðurlendis, sbr. 2. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000.

Tekið er fram að ef horft sé til álagsþols náttúrunnar þá liggi fyrir að framkvæmdirnar hafi í för með sér röskun vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi. Vísað er til umsagnar Umhverfisstofnunar um að þær nái til alls um eins hektara af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og mikilvægt sé að uppgræðsla verði með staðargróðri. Einnig er skírskotað til umsagnar Reykjavíkurborgar um að ekki hafi farið fram úttekt á verndargildi Skálafells m.t.t. gróðurs og jarðminja. Telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin kunni að leiða til verulegs álags á svæðið og að leggja þurfi mat á verndargildi gróðurs og áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á það.

Samkvæmt umsögn Umhverfisstofnunar nýtur Skálafell ekki verndar samkvæmt lögum og er ekki á náttúruminjaskrá. Svæðið sé þó nokkuð raskað og sé verndargildi þess gagnvart frekari uppbyggingu í samræmi við það. Í fjallshlíðinni sé að finna vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi, m.a. starungsmýravist og tjarnastararflóavist. Vistgerðir í þeim flokkum séu þó ekki hlutfallslega stór hluti af svæðinu, eða 9.675 m². Þá er bent á að við greiningu vistgerða hefði mátt taka fram verndargildi hverrar vistgerðar. Telur Umhverfisstofnun mikilvægt að uppgræðsla svæðis sé með staðargróðri til að lágmarka áhrif uppbyggingar á vistgerðir svæðisins eftir að framkvæmdum ljúki. Mælir stofnunin með því að svarðlagi verði haldið til haga svo hægt sé að nýta það við frágang svæðis. Er áréttað að slík vönduð vinnubrögð séu sérstaklega mikilvæg á þeim svæðum þar sem þéttleiki vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi sé mikill að mati stofnunnarinnar, bæði til að lágmarka áhrif á ásýnd svæðis en einnig til að vernda gróðurvistir með umtalsvert verndargildi. Er niðurstaða stofnunarinnar sú að neikvæð áhrif framkvæmda á svæðið verði mest á gróður og ásýnd, en að með mótvægis­aðgerðum og vönduðum vinnubrögðum megi takmarka þau áhrif að talsverðu leyti. Taldi stofnunin ekki ástæðu til þess að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum.

Reykjavíkurborg tekur fram í umsögn sinni að ekki hafi farið fram úttekt á verndargildi Skálafells með tilliti til jarðminja og gróðurfars. Þá telur Reykjavíkurborg að ekki sé ítarlega gerð grein fyrir því hversu mikið umfang rasks á gróðri gæti orðið en minnst á mótvægisaðgerðir. Tekur borgin fram að ekki sé ástæða til að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum en að nokkur óvissuatriði séu fyrir hendi, einkum varðandi umfang rasks á gróðri og almenn óvissa um verndargildi Skálafells. Framkvæmdaraðili bendir á í svörum sínum að Umhverfisstofnun hafi við mat sitt á því hversu mikið land muni raskast vísað til myndar sem sýni belti sem nái 30 m út frá legu lyftunnar, alls um 60 m breitt. Telur framkvæmdaraðili að umrætt belti muni ekki raskast nema að hluta til. Farið verði að ráðleggingum Umhverfisstofnunar um að nýta svarðlag við frágang og notaður staðargróður við uppgræðslu.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið forræði á því til hverra hún leitar eftir umsögnum, en leita skal umsagna í því skyni að upplýsa mál, eftir því sem þörf krefur. Í því sambandi er rétt að benda á að ekki var leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands¸ en sú stofnun stundar undirstöðu­rannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1992 um stofnunina. Þó lá fyrir að fyrirhuguð framkvæmd gæti raskað vistgerðum með hátt og mjög hátt verndargildi, eins og áður er komið fram. Upplýsingar framkvæmdaraðila um vistgerðir komu raunar úr vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar, en þær upplýsingar koma ekki í stað umsagnar stofnunarinnar hvað möguleg áhrif framkvæmdar­innar á gróður varðar. Á Skipulagsstofnun hvílir sú skylda við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar að leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni, sbr. ákvæði þar um í 6. gr. laga nr. 106/2000. Verður að telja að eðli máls þessa hafi gefið stofnuninni tilefni til að leita umsagnar Náttúrufræði­stofnunar áður en hún komst að þeirri niðurstöðu að óljóst væri hver áhrif framkvæmdarinnar yrðu á vistgerðir, en umsagnir annarra aðila bentu ekki til þess að sú óvissa leiddi til þess að mat á umhverfisáhrifum skyldi fara fram.

Enn fremur tekur Skipulagsstofnun fram að um sé að ræða skíðasvæði sem beri merki mannvirkjagerðar og röskunar, en að uppsetning kláfsins og bygging þjónustuhúsa, sem séu mun stærri en núverandi byggingar, muni breyta ásýnd svæðisins. Ljóst sé að neikvæð áhrif fyrir­hugaðra framkvæmda á landslag muni ekki einungis ná til notenda skíðasvæðisins og sé tekið undir umsögn Ferðamálastofu þess efnis að kanna eigi hvaða sjónrænu áhrif verði. Er niðurstaða Skipulagsstofnunar varðandi 2. tölul. 2. viðauka sú að óljóst sé hver áhrif framkvæmda verði á vistgerðir og landslag og kalli það á nánari greiningu og mat á umhverfisáhrifum. Í þeirri umsögn Ferðamálastofa sem vísað er til er tiltekið að allar líkur séu á að áhrif kláfsins á ferðamennsku verði fyrst og fremst jákvæð. Hættan á neikvæðum áhrifum á ferðamennsku liggi fyrst og fremst í ásýnd, en í því samhengi skipti verulegu máli að svæðið sé þegar raskað sem skíðasvæði og með sendimastri og húsi á toppi fjallsins. Þótt líkindi séu á því að neikvæð áhrif verði óveruleg þurfi að kanna hvaða sjónrænu áhrif verði á ferðamenn sem ferðist eftir Þingvallavegi og á fólk sem stundi fjallgöngur í nágrenni Skálafells, sérstaklega á Móskarðs­hnjúkum.

Framkvæmdaraðili telur að ásýndaráhrif verði í lágmarki enda séu mörg mannvirki á svæðinu. Jafnframt segir í svörum hans að lögð verði rík áhersla á að mannvirki falli vel að landslagi. Umhverfisstofnun telur að uppbygging kláfs muni ekki hafa umtalsverð neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins umfram þau áhrif sem núverandi mannvirki hafi. Í umsögn Reykjavíkurborgar er m.a. tekið fram að líklegt sé að sjónræn áhrif kláfsins skipti mestu máli og að ljóst sé að þau verði allnokkur. Þannig sé kláfur umtalsvert meira áberandi mannvirki en þær skíðalyftur sem nú séu til staðar, auk þess sem fjölgun verði á byggingum á svæðinu og að þær verði m.a. á toppi Skálafells. Sá hluti fjallsins sem fyrir mestum áhrifum verði sé þó þegar mikið raskaður og þar séu allmörg mannvirki tengd skíðaiðkun, allmörg möstur, byggingar, bílastæði og vegir. Muni bygging kláfsins því fyrst og fremst auka við sjónræn áhrif sem þegar séu til staðar en ekki gjörbreyta ásýnd svæðisins. Ásýndaráhrifin séu í heild frekar lítil. Ætti staðsetning og gerð kláfsins að falla vel inn í það umhverfi sem sé til staðar og ekki valda stórfelldum breytingum á ásýnd eða eiginleikum svæðisins. Við meðferð málsins sendi kærandi inn nánari skýringar á áhrifum framkvæmdarinnar og tók Skipulagsstofnun þær upp í umfjöllun sína um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Þar segir eftirfarandi: „Í svörum fram­kvæmdaraðila kemur fram að fjarlægð frá Þingvallavegi að hábungu Skálafells sé um 3,5 km og tæpir 3 km í Móskarðshnjúka. Möstur kláfsins verði hærri en möstur núverandi skíðalyfta en til samanburðar sé oft miðað við að sjónræn áhrif 23 m hárra háspennulína séu metin nokkuð neikvæð þegar fjarlægð þeirra sé 2-5 km frá áhorfanda og óveruleg ef fjarlægð sé meiri en 5 km. Mannvirki á Skálafellssvæðinu sjáist einna best frá vegamótum Þingvallavegar og Kjósarskarðsvegar, en myndir þaðan teknar úr tæplega 5 km fjarlægð sýni hvernig svæðið gæti litið út með kláfnum og 10 m háu þjónustuhúsi á toppi fjallsins. […] Til samanburðar þá sé núverandi háspennumastur 18 m hátt. Sýnileikagreining segi til um hvaðan sjáist til svæðisins að toppi fjallsins með um 10 m háu þjónustuhúsi. […] Á myndina séu teiknaðir fjarlægðarhringir með 1,2 og 5 km fjarlægð frá toppi Skálafells. Út frá ljósmyndunum megi ljóst vera að ásýndaráhrif úr 5 km fjarlægð séu óveruleg. Væntanlega verði áhrif ekki neikvæð fyrr en í 1-2 km fjarlægð.“

Fallast má á með Skipulagsstofnun að neikvæð áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á landslag muni ekki einungis ná til notenda skíðasvæðisins. Hins vegar verður ekki séð að mat á umhverfis­áhrifum myndi upplýsa að marki um þau áhrif umfram þau svör framkvæmdaraðila sem áður greinir.

Loks vísar stofnunin til 3. tölul. 2. viðauka um að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, svo sem umfangi umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærð og fjölbreytileika áhrifa og líkum á áhrifum. Niðurstaða Skipulags­stofnunar er síðan sú hvað þennan þátt varðar að óvissa sé um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda og kalli umfang áhrifa á nánari greiningu og mat. Meðal annars ríki óvissa um aukningu umferðar og áhrif hennar, áhrif á viðkvæm gróðursvæði, áhrif fram­kvæmda á landslag þar sem ljóst sé að ásýndarbreytingar kunni að hafa áhrif á marga, og loks sé óvissa um áhrif á öryggi þeirra sem kunni að nýta svæðið með tilliti til snjóflóðahættu.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skulu framkvæmdir í flokki B og C í 1. viðauka háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Verður í því sambandi að horfa til áðurnefndrar skilgreiningar p-liðar 3. gr. laganna á umtalsverðum umhverfisáhrifum, sem og til þeirra viðmiða sem greind eru í 2. viðauka um eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna ýmissa aðila og taldi enginn þeirra, eins og sakir stóðu, að framkvæmdin þyrfti að sæta mati á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að sú lögbundna skylda hvíli á Skipulagsstofnun að leita umsagna þá er hún ekki bundin af þeim umsögnum sem henni berast heldur tekur hún sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Er því ekki útilokað að stofnunin geti komist að öndverðri niðurstöðu en þeirri er umsagnaraðilar telja rétta, eftir atvikum vegna þess að um sé að ræða marga sam­verkandi þætti. Sé niðurstaða stofnunarinnar að verulegu leyti frábrugðin umsögnum sérfræði­stjórnvalda verður þó að gera ríkari kröfur til rannsóknar og rökstuðnings hennar fyrir því að framkvæmd geti haft í för með sér svo umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar að þörf sé á mati á umhverfisáhrifum.

Að framan hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi umsagna annarra aðila hefði Skipulagsstofnun verið rétt að leita eftir umsögn Vegagerðarinnar um aukningu umferðar vegna framkvæmdarinnar og möguleg áhrif hennar. Einnig að tilefni hafi verið til að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands áður en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að óljóst væri hver áhrif yrðu á vistgerðir, enda byggi Náttúrufræðistofnun yfir sérfræðiþekkingu á því sviði og aðrir umsagnaraðilar ekki talið að mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fara fram. Skipulagsstofnun leit sérstaklega til m.a. þessara tveggja þátta í niðurstöðu sinni, en að áliti úrskurðarnefndarinnar sá stofnunin ekki til þess að málið væri nægjanlega upplýst hvað þá varðaði, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefndin hefur einnig bent á að hvorki breyting á þjónustu á svæðinu né mikil fjölgun gesta leiði eitt og sér til matsskyldu. Enn fremur að miða skuli við þau framkvæmdaráform sem Skipulagsstofnun er tilkynnt um. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að í mati á umhverfisáhrifum þurfi að upplýsa um áhrif vegna breytingar á ásýnd, auk þess sem slíkt mat myndi vart takmarka eða eyða óvissu varðandi slysahættu. Verður ekki heldur ráðið af rökstuðningi Skipulagsstofnunar að samspil þessara þátta sé með þeim hætti að samlegðaráhrif þeirra geti valdið umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi 1. mgr. 6. gr., sbr. og p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar um matsskyldu sé svo áfátt að af honum verði ekki ráðið að framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, enda aflaði Skipulagsstofnun ekki fullnægjandi gagna til að hún gæti komist að þeirri niðurstöðu. Leiða annmarkar þessir til ógildingar ákvörðunarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. júlí 2018 um að bygging kláfs í Skálafelli skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

68/2019 Fiskmark

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2019, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 18. júní 2019 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða og pökkun til sex mánaða í stað 12 ára.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2019, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Fiskmark ehf., Hafnarskeiði 21, Þorlákshöfn, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 18. júní 2019 að veita kæranda starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða og pökkun til einungis sex mánaða, til framleiðslu úr allt að 10 tonnum hráefnis á sólahring, í stað starfsleyfis til 12 ára, sem hann hafði sótt um. Er þess krafist að úrskurðarnefndin endurskoði hina kærðu ákvörðun og feli heilbrigðisnefndinni að gefa út starfsleyfi til kæranda til 12 ára.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 21. ágúst og 15. nóvember 2019.

Málavextir: Heitloftsþurrkun fiskafurða hefur um langa hríð farið fram í Þorlákshöfn, m.a. á vegum kæranda, á grundvelli starfsleyfa útgefnum af heilbrigðisnefnd Suðurlands. Ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands hinn 30. september 2016 um að veita kæranda þá starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra, sem hann hafði óskað eftir, var af honum kærð til úrskurðarnefndarinnar og kvað nefndin upp úrskurð vegna þeirrar kæru hinn 15. maí 2018, í kærumáli nr. 149/2016. Hafnaði úrskurðarnefndin kröfum kæranda og var í rökstuðningi fyrir niðurstöðunni m.a. vísað til markmiða þágildandi reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem og til þess að stefna sveitarfélagsins samkvæmt Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 væri að færa lyktarsterka starfsemi fjær byggð í Þorlákshöfn. Stóð starfsleyfið því óraskað. Þegar leið að því að nefnt starfsleyfi rynni út óskaði kærandi eftir endurnýjun þess. Því var hafnað með vísan til þess að færa skyldi lyktarmengandi starfsemi út fyrir þéttbýlið í Þorlákshöfn. Í kjölfar athugasemda kæranda, sem voru meðal annars þess efnis að til staðar væri nýútgefið starfsleyfi til annars aðila, Lýsis hf., með gildistíma til 30. júní 2019 vegna samskonar starfsemi, var synjunin endurupptekin. Ákvað heilbrigðisnefnd að veita kæranda starfsleyfi til sama tíma, þ.e. 30. júní 2019, með vísan til sjónarmiða um jafnræði og meðalhóf.

Með umsókn, dags. 7. maí 2019, óskaði kærandi enn eftir því að starfsleyfi hans yrði endurnýjað. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 9. s.m. var umsókn kæranda um starfsleyfi til umfjöllunar og var tillaga að starfsleyfi auglýst þann sama dag til 6. júní s.á., sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Að loknum auglýsingartíma var á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 11. júní s.á. eftirfarandi bókað: „Starfsleyfisumsókn kæranda vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða hefur verið í lögbundnu auglýsingaferli sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Athugasemdir bárust frá 67 aðilum á auglýsingatímanum þar sem lagst er gegn útgáfu starfsleyfis til 12 ára, vegna óþæginda sem íbúar verða fyrir vegna lyktarmengunar. Efnislegar athugasemdir við starfsleyfisskilyrðin bárust frá einum einstaklingi. Heilbrigðisnefnd hefur farið yfir allar innsendar athugasemdir og tekið afstöðu til þeirra.“ Var það niðurstaða heilbrigðisnefndar að veita bæri kæranda starfsleyfi tímabundið til sex mánaða, frá 1. júlí til 31. desember 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannrétti3ndasáttmála Evrópu, sem leiddur hafi verið í lög á Íslandi með lögum nr. 62/1994, sbr. og 26. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem leiddur hafi verið í íslenskan rétt með lögum nr. 10/1979. Þá vísar kærandi til óskráðrar grundvallarreglu íslensks stjórnsýsluréttar um jafnræði borgaranna.

Í lok febrúar 2019 hafi heilbrigðisnefnd Suðurlands veitt Lýsi hf. starfsleyfi til 12 ára til þess að bræða allt að 100 tonnum af hráefni á sólarhring. Samkvæmt starfsleyfinu sé starfsstöð fyrirtækisins við Hafnarskeið 28-30, Þorlákshöfn, en starfsstöð kæranda samkvæmt starfsleyfi hans sé við Hafnarskeið 21. Starfsemi beggja fyrirtækja sé því við sömu götu í Þorlákshöfn, innan skilgreinds hafnarsvæðis. Í starfsleyfi Lýsis, útgefnu 28. febrúar 2019, fái fyrirtækið heimild til að auka starfsemi sína frá því sem verið hafi samkvæmt fyrra starfsleyfi þess. Í greinargerð heilbrigðisnefndar vegna starfsleyfis kæranda komi fram að áður en starfsleyfið hafi verið endurnýjað 10. október 2018 hefðu borist þrjár kvartanir til heilbrigðisnefndar, en ekki væri vitað hvort þessar kvartanir mætti rekja til fiskþurrkunar kæranda eða Lýsis. Starfsemi kæranda hafi verið í sama húsnæði frá árinu 1995.

Í greinargerð heilbrigðisnefndar vegna starfsleyfis Lýsis komi hins vegar fram að frá útgáfu 12 ára starfsleyfis því til handa, sem gefið hafi verið út 23. janúar 2007,  hefðu borist átta kvartanir vegna lyktar „sem rakin var beint til starfseminnar.“ Hafi bæjarstjóri Ölfuss ekki fjallað um starfsleyfisumsókn Lýsis, sem auglýst hafi verið frá 25. janúar til 22. febrúar 2019. Bæjarstjórinn hefði hins vegar í viðtali í Hafnarfréttum 14. maí 2019 bent íbúum Þorlákshafnar á að þeir gætu skilað inn athugasemdum vegna umsóknar kæranda um starfsleyfi, enda hefðu íbúar Þorlákshafnar í a.m.k. 50 skipti kvartað formlega undan lyktarmengun frá starfsstöð kæranda. Þessi fullyrðing bæjarstjórans um kvartanir íbúanna sé ósönn, líkt og sjá megi af greinargerð heilbrigðisnefndar. Komi bæjarstjórinn fram í viðtalinu sem opinber starfsmaður sem ætli sér að hafa áhrif á ákvörðun sem varði réttindi kæranda og geri það með rangfærslum.

Í greinargerð heilbrigðisnefndar vegna starfsleyfis kæranda sé í engu vikið að því að starfsmaður hennar hafi komið í óundirbúna vettvangsheimsókn í starfsstöð kæranda á auglýsingartíma tillögu að starfsleyfi. Í lok vettvangsskoðunar hafi starfsmaður heilbrigðisnefndar tekið það fram við verkstjóra kæranda að allt væri með réttum og eðlilegum hætti í starfsemi félagsins og að aðeins óveruleg fiskilykt  fyndist í starfstöðinni sjálfri en engin utan starfstöðvarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit skuli eftirlitsaðili taka saman skýrslu með lýsingu á því sem fram komi við vettvangsheimsókn og skipti máli varðandi það hvort starfsemin sé í samræmi við starfsleyfisskilyrðin og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir séu nauðsynlegar. Ekki fáist séð af greinargerð heilbrigðisnefndar hvort þetta hafi verið gert.

Með umsókn kæranda hafi verið óskað eftir starfsleyfi til 12 ára til framleiðslu á um sjö tonnum af hráefni á sólarhring. Í umsókn Lýsis hafi verið óskað eftir starfsleyfi til 12 ára til vinnslu á um 100 tonnum af hráefni á sólarhring. Heilbrigðisnefndin hafi þá skyldu að lögum sem stjórnvald að gæta jafnræðis og samræmis í sambærilegum málum sem komi til úrlausnar hjá henni. Ef bornar séu saman greinargerðir heilbrigðisnefndar, annars vegar í tilefni af veitingu starfsleyfis til lifrarbræðslu og lýsisvinnslu Lýsis, dags. 28. febrúar 2019, og hins vegar vegna veitingar starfsleyfis kæranda, dags. 18. júní 2019, megi ráða að samræmis hafi ekki verið gætt og að verulega halli þar á kæranda. Það sé óumdeilanlegt að starfsemi beggja fyrirtækjanna falli undir ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og þá taki 5. liður X. viðauka reglugerðar nr. 550/2018 til starfsemi þeirra. Þá liggi fyrir að heilbrigðisnefnd hafi ekki gert formlegar athuganir á mismun á lyktamengun þessara tveggja fyrirtækja. Ekki komi fram í greinargerðum hennar vegna starfsleyfa fyrirtækjanna að hún hafi metið loftgæði á samræmdan hátt vegna lyktarmengunar áður en ákvarðanir hafi verið teknar, sbr. 1. gr., sbr. og lið 13.7. í 13. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.

Í greinargerð heilbrigðisnefndar vegna umsóknar Lýsis um 12 ára starfsleyfi komi fram að „Heilbrigðisnefnd Suðurlands er fylgjandi þeirri stefnu Sveitarfélagsins Ölfuss um að flytja lyktarmengandi starfsemi út fyrir þéttbýli. Það er hins vegar ekki á færi nefndarinnar að útfæra þá stefnu nánar, heldur bæjarstjórnar og viðkomandi fyrirtækis. Eins og er, er skipulag svæðisins og samþykkt notkun húsnæðisins þar sem starfsemi lifrarbræðslu Lýsis hf. fer fram, óbreytt frá því þegar fyrri starfsleyfi voru gefin út.“ Þá komi einnig fram í greinargerðinni að „með gildistöku reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit var ofangreindu heimildarákvæði um endurskoðun breytt þannig að útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn.“ Í greinargerð heilbrigðisnefndar vegna umsóknar kæranda um 12 ára starfsleyfi komi fram að „Breyting var gerð á Aðalskipulagi Þorlákshafnar 2010-2022 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda þann 25. maí 2016, en samkvæmt breytingunni er gert ráð fyrir um 150 ha iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar sem að hluta til er ætlað undir lyktarmengandi starfsemi.“ Sé í greinargerðinni í engu vikið að breytingu á endurskoðunarheimildum útgefanda starfsleyfis samkvæmt reglugerð nr. 550/2018.

Þegar kærandi hafi áður óskað eftir endurnýjun starfsleyfis hafi ekki annað legið fyrir en að heilbrigðisnefndin ætlaði sér að gæta lögbundins jafnræðis og samræmis þannig að fyrirtækjum sem féllu undir það að teljast „lyktarmengandi starfsemi“ á hafnarsvæði Þorlákshafnar yrði gert að flytja starfsemina. Annað hafi komið í ljós í febrúar 2019 þegar heilbrigðisnefnd hafi veitt Lýsi starfsleyfi til 12 ára vegna margfalt umfangsmeiri lyktarmengandi starfsemi heldur en starfsemi kæranda væri, auk þess sem hún hafi aukið framleiðsluheimild þess fyrirtækis.

Hafnarsjóður Þorlákshafnar sé eigandi lóðarinnar sem húsnæðið að Hafnarskeið 21 standi á. Í lóðarleigusamningi komi fram að það sé skylda lóðarleiguhafa að stunda fiskverkun í húsnæði sem standi á lóðinni. Þá sé fiskvinnsla í samræmi við deiliskipulag hafnarsvæðis Þorlákshafnar, sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn Ölfuss. Öllum megi vera það ljóst að einhver lyktarmengun fylgi fiskverkun. Ekki séu til staðar nein málefnaleg rök sem réttlætt geti þá ákvörðun heilbrigðisnefndar að hafna því að veita kæranda starfsleyfi til 12 ára til þess að vinna úr um 7 tonnum af hráefni á sólarhring. Einkum eigi þetta við í ljósi þess að Lýsi, sem sé með lifrarbræðslu við sömu götu og kærandi, hafi verið veitt starfsleyfi til 12 ára til þess að vinna úr 100 tonnum af hráefni á sólarhring. Milli ákvarðana heilbrigðisnefndar vegna þeirrar umsóknar annars vegar og umsóknar kæranda hins vegar hafi liðið rúmir þrír mánuðir. Heilbrigðisnefndin hafi synjað kæranda um starfsleyfi til 12 ára um miðjan júní 2019 en veitt hinu fyrirtækinu starfsleyfi til 12 ára í lok febrúar s.á.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefnd Suðurlands byggir á því að málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, og formreglur stjórnsýsluréttarins. Ákvörðun um að veita ekki starfsleyfi til lengri tíma hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og verið í samræmi við sjónarmið um meðalhóf og réttmætar væntingar.

Nefndin telur sér ekki tækt að taka aðra ákvörðun um starfsleyfisumsókn kæranda, s.s. með því að setja strangari starfsleyfisskilyrði eða minnka heimilað framleiðslumagn. Í kæru sé því haldið fram að þær athugasemdir sem borist hefðu á auglýsingartíma tillögunnar séu rangar. Þessu sé alfarið hafnað. Þá vísar nefndin til athugasemda sem bárust á auglýsingartíma starfsleyfis kæranda, sem runnið hafi út 30. júní 2019, og til stefnu gildandi aðalskipulags og þess að kæranda hafi verið veitt nægt svigrúm til þess að finna starfsemi sinni nýjan stað. Ekkert hafi breyst í starfsemi kæranda sem geti réttlætt endurskoðun á þeirri ákvörðun að veita honum ekki áframhaldandi starfsleyfi. Ákvörðun um að veita starfsleyfi til sex mánaða hafi verið í samræmi við kröfur um meðalhóf þannig að kæranda gæfist færi á að loka starfsemi sinni.

Í kæru sé fjallað um starfsemi Lýsis á svæðinu. Í lok febrúar 2019 hafi heilbrigðisnefnd Suðurlands veitt því fyrirtæki tvö starfsleyfi. Annars vegar fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða og pökkun að Víkursandi 1, Þorlákshöfn, en hins vegar fyrir lifrarbræðslu, lýsisvinnslu, móttöku og geymslu lýsis að Hafnarskeiði 28 í Þorlákshöfn. Sé því hafnað að í umræddri starfsleyfisveitingu hafi falist brot á jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi sótt um starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða. Slík starfsemi fari nú fram hjá hinu fyrirtækinu á iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar, en ekki að Hafnarskeiði. Önnur starfsemi fyrirtækisins, lifrarbræðsla o.fl., fari fram að Hafnarskeiði. Sé því ekki um að ræða sambærilega starfsemi og þá sem kærandi óski eftir starfsleyfi fyrir. Séu aðilar því ekki í sambærilegri aðstöðu í skilningi jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Heitloftsþurrkun fiskafurða sé sú starfsemi sem kvartanir hafi borist vegna. Fullyrðingar um lyktarmengun vegna lifrarbræðslu eigi hins vegar ekki við rök að styðjast. Fyrir margt löngu hafi verið hætt að bræða mjöl úr úrganginum. Hvers konar fullyrðingum um mismunun heilbrigðisnefndarinnar gagnvart kæranda sé hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Til frekari áréttingar bendir kærandi á að í greinargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands, sem fylgt hafi starfsleyfi til Lýsis vegna lifrarbræðslu gefnu út til 12 ára, komi fram eftirfarandi: „Í auglýstum starfsleyfisskilyrðum [eru] fjölmörg ákvæði sem miða að því að draga eins og kostur er úr lyktarmengun frá fyrirtækinu.“ Af lestri starfsleyfisskilyrða og greinargerðar nefndarinnar liggi því ljóst fyrir að lifrarbræðsla sé lyktarmengandi starfsemi. Þá liggi fyrir samkvæmt greinargerðinni að íbúar í Þorlákshöfn hafi kvartað yfir lykt frá starfseminni og það verði að koma í ljós hvort framhald verði á kvörtunum íbúa vegna lyktarmengunar frá bræðslunni. Skýrsla í tilefni vettvangsheimsóknar heilbrigðisnefndar við undirbúning starfsleyfisins hafi ekki verið lögð fram til upplýsingar fyrir úrskurðarnefndina. Skorað sé á úrskurðarnefndina að óska eftir skýrslum heilbrigðisnefndar eftir vettvangsheimsóknir á auglýstum athugasemdartíma starfsleyfistillögunnar, bæði í tilviki starfsleyfisumsóknar kæranda og Lýsis.

Í umsögn heilbrigðisnefndar til úrskurðarnefndarinnar komi fram að starfsemi fyrir lifrarbræðslu o.fl. fari fram að Hafnarskeiði og sé því ekki um að ræða sambærilega starfsemi og þá sem kærandi óski eftir starfsleyfi fyrir. Þá sé fullyrt að heitloftsþurrkun fiskafurða sé sú starfsemi sem kvartanir hafi borist vegna. Af fyrirliggjandi gögnum liggi fyrir að rökstuddar kvartanir um lykt hafi heilbrigðisnefnd rakið beint til starfsemi lifrarbræðslu. Starfsemi lifrarbræðslu og starfsemi kæranda sé efnislega sambærileg starfsemi í skilningi jafnræðisreglna. Í ljósi þessa beri heilbrigðisnefnd samkvæmt jafnræðisreglum að sýna fram á það, með framsetningu á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum, að réttmæt ástæða búi að baki mismunandi afgreiðslu á umsóknum um starfsleyfi. Starfsemi beggja fyrirtækjanna sé vinnsla á fiski og sé starfsemin skilgreind í lögum og reglugerðum sem lyktarmengandi starfsemi. Hlutlægu sjónarmiðin sem heilbrigðisnefnd hefði getað vísað til væru sjónarmið er vörðuðu breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfus, sem geri ráð fyrir því að lyktarmengandi starfsemi flytji úr bænum. Þá liggi fyrir að kvartanir íbúa séu órökstuddar, enda ljóst af vettvangsheimsókn starfsmanna heilbrigðisnefndar til kæranda á auglýsingartíma starfsleyfisins að kvartanir um lyktarmengun séu án nokkurs tilefnis.

Þá komi fram í umsögn heilbrigðisnefndar að það sé álit hennar að ekki sé tækt að taka aðra ákvörðun um starfsleyfi sem setji strangari starfsleyfisskilyrði eða minnki heimilað framleiðslumagn. Í ljósi þessarar afstöðu heilbrigðisnefndar eigi líklegast það sama við um lengd starfsleyfis. Sé þetta í engu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sem geri ráð fyrir því að stjórnvald, líkt og heilbrigðisnefndin, fari ekki strangar í sakirnar við töku íþyngjandi ákvörðunar en nauðsyn beri til. Starfsmönnum heilbrigðisnefndar sé það ljóst að starfsemi kæranda sé mjög umfangslítil og hafi forsvarsmaður kæranda upplýst um að starfsemin hefði verið dregin saman frá því að síðasta starfsleyfi hefði verið veitt. Þannig hefði einum af þremur þurrkklefum félagsins verið breytt í kæliklefa fyrir afurðir félagsins. Við það hafi framleiðslugetan minnkað úr 10 tonnum á sólarhring í 7 tonn. Sé starfsmönnum heilbrigðisnefndar ljóst að fyrirtækið þurrki fisk á fiskihjöllum, sem séu utan Þorlákshafnar, og mögulegt sé fyrir heilbrigðisnefnd að semja um frekari notkun hjallanna á kostnað þurrkunar í þurrkklefum í starfsstöð félagsins. Forsvarmaður kæranda hafi verið og sé tilbúinn til að ræða við forsvarsmenn heilbrigðisnefndar hafi þeir vilja til að veita starfsleyfi sem geri ráð fyrir minni framleiðslu, setji strangari starfsleyfisskilyrði eða skemmri gildistíma starfsleyfis en 12 ár.

Auk Lýsis, sem hafi starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Suðurlands og starfi við sömu götu og kærandi, starfa einnig í þeirri sömu götu fyrirtæki sem þurrki fiskafurðir og selji sem gæludýrafóður. Þá sé einnig við sömu götu fiskvinnsla sem þurrki sæbjúgu. Ekki sé annað vitað en að sú starfsemi sé einnig með starfsleyfi frá heilbrigðisnefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 18. júní 2019 að veita kæranda starfsleyfi vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða til sex mánaða í stað 12 ára, svo sem hann hafði farið fram á.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Starfsleyfi eru háð skilyrðum reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Markmið hennar er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. Jafnframt er það meðal markmiða reglugerðarinnar að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg. Í lið 25 í 3. gr. reglugerðarinnar segir að mengun sé þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts. Þá segir einnig að mengun taki m.a. til ólyktar. Ber heilbrigðisnefnd að líta til þess við ákvörðun um starfsleyfi að áhrif framangreindra þátta á umhverfið verði sem minnst.

Í X. viðauka með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, þ. á m. heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. lið 5.7. Er heilbrigðisnefnd ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem tilgreindar eru í reglugerðinni, lögum nr. 7/1998 og í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Hinn 7. maí 2019 sótti kærandi um endurnýjun á gildandi starfsleyfi sínu. Tillaga að starfsleyfi þar sem gildistími leyfisins var tiltekinn 12 ár var auglýst í fjórar vikur í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018, eða frá 9. maí til og með 6. júní 2019. Á auglýsingartímanum bárust athugasemdir frá 67 aðilum þar sem lagst var gegn útgáfu starfsleyfis til 12 ára vegna óþæginda sem íbúar yrðu fyrir vegna lyktarmengunar. Ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands á fundi sínum 18. júní s.á. að starfsleyfið skyldi gefið út til sex mánaða eingöngu. Starfsleyfið var gefið út 1. júlí og gildir til 31. desember 2019. Byggði nefndin ákvörðun sína um stuttan gildistíma starfsleyfis kæranda á þeim forsendum annars vegar að heitloftsþurrkun fiskafurða í þéttbýli Þorlákshafnar fylgi lyktarmengun sem geti haft í för með sér óþægindi og ónæði fyrir íbúa í næsta nágrenni starfseminnar. Hins vegar á því að breyting hafi verið gerð á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfus 2010-2022, sem tekið hafi gildi hinn 25. maí 2016,  þar sem gert sé ráð fyrir um 150 ha iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar sem að hluta til sé ætlað fyrir lyktarmengandi starfsemi.

Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að við úrlausn mála skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verði þó að hafa í huga að ekki sé um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. Vísar kærandi í athugasemdum sínum m.a. til þess að sambærilega og eðlislíka starfsemi sé að finna hjá öðrum fyrirtækjum í sömu götu og starfsstöð kæranda sé, s.s. starfsemi lifrarbræðslu Lýsis hf.

Í umsókn kæranda um endurnýjun á starfsleyfi er m.a. sótt um leyfi vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða, sem er lyktarmengandi starfsemi sem ráð er fyrir gert að víki samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Sams konar starfsemi fór áður fram í starfsstöð Lýsis við sömu götu, en hefur nú verið flutt á fyrrgreint iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar. Sú starfsemi Lýsis sem nú fer fram að Hafnarskeiði er lifrarbræðsla o.fl., en ekki heitloftsþurrkun fiskiafurða. Í umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss í tengslum við endurnýjun á þágildandi starfsleyfi kæranda í október 2018, og varðaði samræmi starfsemi kæranda við gildandi skipulag, kom fram að endurnýjun á starfsleyfi kæranda á sama stað væri ekki í samræmi við stefnu framangreinds aðalskipulag sveitarfélagsins. Var þágildandi starfsleyfi því gefið út til sex mánaða og var í starfsleyfisskilyrðum sérstaklega kveðið á um að kærandi undirbyggi flutning fyrirtækisins á nýtt skipulagssvæði sem sveitarfélagið hefði útbúið fyrir fyrirtæki með lyktarmengandi starfsemi. Frá árinu 2012 hefur kæranda ekki verið veitt starfsleyfi til 12 ára fyrir starfsemi sinni, heldur hefur starfsleyfi hans verið endurnýjað ýmist til eins eða tveggja ára í senn. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna að sjö kvartanir um lyktarmengun hafa borist frá íbúum og atvinnurekendum í Þorlákshöfn frá því að þágildandi starfsleyfi kæranda var endurnýjað 10. október 2018 og til 30. júní 2019. Þar af voru fjórar kvartanir þar sem starfsemi lifrarbræðslu Lýsis var tiltekin sem mengunarvaldurinn, en þrjár kvartanir þar sem óvíst var til hvors fyrirtækisins mætti rekja uppruna mengunarinnar. Verður ekki séð að staðreynt hafi verið af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands frá hvorri fiskvinnslunni mengunin hafi stafað í þessum tilvikum. Þá sýna niðurstöður átján vettvangsferða heilbrigðiseftirlitsins á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn, á tímabilinu frá 20. febrúar til 25. júlí 2019, að ólykt hefur fylgt starfsemi beggja fyrirtækjanna. Frá því að Lýsi hætti heitloftsþurrkun fiskafurða við Hafnarskeið og þar til hið kærða starfsleyfi var gefið út var þrívegis greind lykt frá starfsemi beggja fyrirtækjanna, þ.e. bræðslu Lýsis og heitloftsþurrkun kæranda. Samkvæmt skilgreiningum heilbrigðiseftirlitsins fannst einu sinni mikil lykt, þ.e. lykt sem finnst í íbúðarhverfum í innan við 500 m fjarlægð frá viðkomandi starfsemi, og í tvígang mjög mikil lykt, þ.e. lykt sem finnst víða um bæinn í yfir 500 m fjarlægð frá starfseminni.

Í núgildandi starfsleyfi Lýsis fyrir lifrarbræðslu o.fl. kemur fram að leyfilegt sé að framleiða úr allt að 100 tonnum af hráefni á sólahring. Í starfsleyfi kæranda kemur fram að leyfilegt sé að framleiða úr allt að 10 tonnum af hráefni á sólahring, eða 50 tonnum á viku. Á auglýsingartíma í tengslum við endurnýjun á núgildandi starfsleyfi fyrir lifrarbræðslu Lýsis í febrúar 2018 barst ein athugasemd frá skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss. Kom þar m.a. fram að samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum væri lyktarmengandi starfsemi víkjandi á svæðinu og að mælt væri með því að umsótt starfsleyfi yrði gefið út til eins árs, en ekki 12 ára eins og auglýst hefði verið, á meðan starfsemin væri skoðuð og athugað hvort athugasemdir um lyktarmengun bærust. Í greinargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands vegna útgáfu 12 ára starfsleyfis til handa Lýsi kemur eftirfarandi m.a. fram: „Í ljósi þess að fáar kvartanir yfir lyktarmengun frá fyrirtækinu hafa borist heilbrigðiseftirliti Suðurlands á gildistíma nú útrunnins starfsleyfis fyrirtækisins, með vísun í meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og þeirrar kröfu hennar að íþyngjandi ákvörðun megi ekki teljast ósanngjörn og með tilliti til þess að frá byrjun árs 2007 hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar almennt verið gefið út til 12 ára í senn, telur heilbrigðisnefnd Suðurlands að ekki séu fyrir hendi gild rök til þess að takmarka gildistíma starfsleyfis lifrarbræðslu Lýsis í Þorlákshöfn við eitt ár í stað 12 ára á meðan athugað er hvort kvartanir um lyktarmengun berist vegna starfseminnar.“ Þá bendir nefndin á það í greinargerðinni að í starfsleyfisskilyrðum Lýsis vegna lifrarbræðslunnar séu fullnægjandi ákvæði hvað varði mengunarvarnir vegna mögulegrar lyktarmengunar frá starfseminni. Í greinargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands vegna útgáfu núgildandi starfsleyfis kæranda er m.a. vísað til þess að starfsstöð hans hafi verið endurnýjuð að miklu leyti frá árinu 2012 og tækni við þurrkun bætt, auk þess sem kröfur í starfsleyfi hafi verið auknar umstalsvert. Taldi nefndin að þrátt fyrir framangreindar ráðstafanir væri engu að síður ólíklegt að hægt væri að koma í veg fyrir alla lyktarmengun frá starfseminni vegna eðlis hennar. Var kæranda ekki veitt sama svigrúm til þess að kanna hvort kvartanir um lyktarmengun frá starfseminni myndu berast á gildistíma starfsleyfisins, eins og gert var við veitingu starfsleyfis Lýsis til 12 ára.

Umsækjandi um starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun á hvorki lögvarða kröfu til þess að leyfi sé gefið út honum til handa né að það sé gefið út til ákveðins tíma. Í ákvörðun sinni vísaði heilbrigðisnefnd til þeirra sjónarmiða sinna sem áður hefðu komið fram að „heitloftsþurrkun fiskafurða fylgir sannanlega lyktarmengun sem getur haft í för með sér óþægindi og ónæði fyrir íbúa og fyrirtæki í næsta nágrenni starfseminnar.“ Þrátt fyrir að kvartanir um lyktarmengun, sem borist hefðu frá því að síðasta starfsleyfi kæranda hefði verið gefið út, lytu ekki síður að starfsemi Lýsis hefðu borist 67 athugasemdir við nýja starfsleyfistillögu þar sem lagst væri gegn endurnýjun starfsleyfis kæranda vegna lyktarmengunar. Að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 550/2018 sem áður er lýst og þess að mengun tekur einnig til ólyktar verður að telja þau sjónarmið lögmæt sem heilbrigðisnefnd lagði ákvörðun sinni til grundvallar.

Kemur þá til skoðunar hvort málefnalegt hafi verið af heilbrigðisnefnd að afgreiða starfsleyfisumsókn kæranda annars vegar og Lýsis hins vegar með mismunandi hætti, en starfsleyfi til handa Lýsi var gefið var út til 12 ára tæpum fjórum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin um að veita kæranda leyfi til sex mánaða. Á starfsstöð Lýsis fer fram lifrarbræðsla o.fl. sem er meiri að umfangi en starfsemi kæranda við sömu götu. Frá starfsemi beggja aðila stafar lyktarmengun í skilningi reglugerðar nr. 550/2018, en starfsemin er þó ekki hin sama. Kærandi stundar þar heitloftsþurrkun fiskafurða en Lýsi lifrarbræðslu o.fl. Í greinargerð með starfsleyfi Lýsis til lifrarbræðslunnar er tiltekið um gildistíma að allt frá árinu 2007 hafi starfsleyfi heilbrigðisnefndar Suðurlands verið gefin út til 12 ára í senn og er bent á að eftir gildistöku reglugerðar nr. 550/2018 sé útgefanda starfsleyfis heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess sé liðinn. Kemur og fram í greinargerðinni að vinnslu lifrarmjöls hafi verið hætt en sú vinnsla hafi verið aðaluppspretta þeirrar lyktar sem kvartað hafi verið undan.

Heilbrigðisnefnd hefur um árabil veitt kæranda og Lýsi starfsleyfi vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða til skemmri tíma en þeirra 12 ára sem nefndin almennt miðar við og þannig gætt jafnræðis. Hafði og verið skorað á starfsleyfishafana báða að fylgja þeirri stefnu breytts aðalskipulags að lyktarmengandi starfsemi skyldi komið fyrir fjær byggðinni í Þorlákshöfn. Lýsi hefur nú flutt þennan hluta starfsemi sinnar fjær byggð í samræmi við stefnu aðalskipulags, en eftir stendur lifrarbræðsla fyrirtækisins. Er um lyktarmengandi og eðlislíka starfsemi að ræða, en þó ekki samskonar og starfsemi kæranda. Af gögnum málsins og rökstuðningi heilbrigðisnefndar verður ráðið að hún líti svo á að heitloftsþurrkun valdi meiri lyktarmengun en lifrarbræðsla. Gögn málsins benda þó til að lyktarmengun megi einnig rekja til síðarnefndu starfseminnar þótt vinnslu lifrarmjöls hafi verið hætt. Vegna þessa er rétt að benda á að sú ákvörðun nefndarinnar að veita Lýsi leyfi til lifrarbræðslu til 12 ára sætir ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, en nefnd ákvörðun bendir til þess að fyllsta jafnræðis hafi e.t.v. ekki verið gætt milli aðila. Í jafnræðisreglunni felst hins vegar einnig að ósambærileg mál skuli ekki hljóta sambærilega afgreiðslu. Í því sambandi verður ekki fram hjá því litið að heilbrigðisnefnd barst mjög mikill fjöldi athugasemda frá íbúum og fyrirtækjaeigendum í nágrenni við starfsemi kæranda, hvernig svo sem þær komu til. Engar athugasemdir nágranna bárust hins vegar á auglýsingartíma tillögu að starfsleyfi vegna lifrarbræðslu Lýsis. Að teknu tilliti til þessa verður mismunur á gildistíma starfsleyfis kæranda vegna heitloftsþurrkunar og Lýsis vegna lifrarbræðslu o.fl. talinn hafa hvílt á sjónarmiðum sem telja verður frambærileg að mati úrskurðarnefndarinnar. Þá getur kærandi ekki unnið betri rétt en honum ber að lögum og reglum með vísan til afgreiðslu annars máls leiki vafi á því hvort viðkomandi stjórnvald mat atvik þar með réttum hætti að teknu tillit til sömu laga og reglna.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki háð þeim annmörkum að raskað geti gildi hennar. Verður kröfum kæranda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 18. júní 2019 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða og pökkun til sex mánaða í stað 12 ára.

20/2019 Norðurbrún

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 um breytingu á deiliskipulagi Norðurbrúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kæra eigendur parhúsanna að Norðurbrún nr. 4-22, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður­brúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. maí 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi skipulag fyrir Norðurbrún, sem tekur til svæðis sem afmarkast af Austurbrún og Norðurbrún í Laugardal í Reykjavík, og samþykkt var í nóvember árið 1963. Hinn 24. maí 2017 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 2 við Norðurbrún. Að lokinni kynningu hafnaði ráðið tillögunni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. október 2017 og framkominna athugasemda. Borgarráð samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. s.m.

Hinn 5. september 2018 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa nýja tillögu að breytingu á umræddu skipulagi fyrir lóðina nr. 2 við Norðurbrún. Í henni fólst heimild til að rífa núverandi verslunarhús og byggja þar nýtt íbúðarhús á tveimur hæðum, auk kjallara, með verslun að hluta til á fyrstu hæð, en allt að átta 30-90 m² íbúðum á fyrstu og annarri hæð. Önnur hæðin yrði inndregin frá suðaustri og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,61 í 1,10. Lóðin yrði stækkuð úr 775 í 875 m² svo bílastæði kæmust fyrir innan lóðarmarka. Fram kom að við gerð nýrrar tillögu hafi m.a. verið horft til þess að gatan hefði nægjanlega breidd og að stefnu bílastæða yrði breytt þannig að ekki yrði bakkað mót akstursstefnu. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 13. september 2018 og var hún kynnt á tímabilinu frá 1. október til 12. desember s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma frá kærendum. Skipulags­fulltrúi tók afstöðu til athugasemdanna í umsögn, dags. 17. janúar 2019. Umhverfis- og skipulagssvið vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 23. janúar s.á., sem samþykkti hana á fundi sínum 7. febrúar 2019.

Með erindi, dags. 11. febrúar 2019, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulags­tillöguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 26. s.m., tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulags­breytingarinnar og tók hún gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 22. mars 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að stækka eigi lóðina að Norðurbrún 2 með því að þrengja aðkomuleiðina inn í hverfið. Fyrirhugað fjölbýlishús verði verulega hærra en nær­liggjandi parhús. Sérkennilegt sé að teiknuð bílastæði snúi öfugt við akstursstefnu og lítið pláss sé fyrir reiknuð bílastæði þótt búið sé að þrengja aðkomuleiðina. Íbúðarhúsin við Norðurbrún séu einbýlishús eða tveggja íbúða parhús, öll í svipaðri hæð og innan marka skilmála sem samþykktir hafi verið í borgarráði. Borgaryfirvöld hafi ekki fyrir því að svara sjónar­miðum kærenda og virðist ekki hafa haft áhuga á því að kynna sér eða gæta réttar og hagsmuna íbúanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að á umræddu svæði séu blandaðar húsagerðir, m.a. allt frá tveggja hæða parhúsum yfir í 2-13 hæða fjölbýlishús, norðan og sunnar Austurbrúnar. Húsið handan götunnar, Norðurbrún 1, sé tveggja hæða með 7,4 m vegghæð að götu og hæð hússins nr. 12 sé 6,75 m. Um sé að ræða „endurþróun uppbyggingar“ á lóðinni Norðurbrún 2 og þótti fara vel á því að bæta nýtingu lands samfara því að laga bygginguna að byggðamynstri, m.a. með tilliti til hæðar og nýtingar hússins handan götunnar. Vel þyki því fara á því að á lóðinni verði tveggja hæða fjölbýlishús. Bent sé á að í þéttbýli megi ávallt búast við breytingum í umhverfinu sem geti leitt til einhverra umhverfisáhrifa. Slíkar breytingar séu gerðar m.t.t. fjölmargra þátta, svo sem byggðamynsturs og aðlögunar að nærliggjandi byggð. Vegna athugasemda sem hafi borist vegna fjölbýlishússins um að það samræmdist ekki byggðamynstri hverfisins hafi verið samþykkt að fara yfir sneiðingar með hliðsjón af hæðarheimildum, þannig að skýrt væri að útveggur sem snýr að Norðurbrún mætti mest vera 7,5 m á hæð og mest 8,0 m til suðausturs. Auk þess sem sett yrði í skilmála að gólfkóti fyrstu hæðar yrði ákvarðaður þannig að byggingin félli vel að landi.

Tillagan að skipulagsbreytingunni hafi verið endurskoðuð, m.a. þar sem fyrirkomulag götu, aðkomu, gangstéttar og bílastæða hafi ekki þótt eins og best væri á kosið. Við gerð nýrrar tillögu hafi verið horft til þess að bæta úr þessum þáttum og skilgreina göturýmið og flæði umferðar betur. Húsið hafi m.a. verið fært til suðausturs þannig að betra pláss væri til að móta götu­rýmið. Hvað varði aukið byggingarmagn skuli á það bent að upphaflegt heildar­deili­skipulag svæðisins sé frá árinu 1963 og sé því barn síns tíma. Á þeim tíma hafi verslunarhús innan hverfa gjarnan verið einnar hæða byggingar, þar sem blönduð notkun hafi ekki tíðkast í íbúðarhverfum. Umrædd lóð standi á svæði blandaðra húsagerða með mismunandi fjölda hæða.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum var send Skipulags­stofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykki skipulags­breytingarinnar. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 2 við Norðurbrún hluti af fastmótaðri íbúðarbyggð, merkt ÍB24. Um fastmótaða byggð er tekið fram að þar megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum svo og ný­byggingum eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Um íbúðarbyggð, ÍB24, er m.a. tekið fram að svæðið sé fullbyggt og fastmótað. Yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjöl­breytt, bæði að húsagerð og byggingarstíl. Jafnframt er tekið fram í skilmálum aðalskipulags að á íbúðarsvæðum megi almennt gera ráð fyrir tilheyrandi nærþjónustu, s.s. dagvöruverslun, almennri þjónustu­­starfsemi, þrifalegum smáiðnaði o.fl. Með hinni kærðu deiliskipulags­breytingu er gert ráð fyrir að núverandi verslunarhús verði rifið og að byggt verði nýtt tveggja hæða íbúðarhús, ásamt kjallara, með verslun í hluta fyrstu hæðar og allt að átta 30-90 m² íbúðum á fyrstu og annarri hæð en sú síðarnefnda verður inndregin frá suðaustri. Fer hin kærða skipulagsbreyting með þessu ekki í bága við stefnu og ákvæði aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því uppfyllt.

Á umræddu svæði eru margvíslegar húsagerðir. Hæð og umfang heimilaðrar byggingar samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu verður ekki talin fara á svig við byggðamynstur svæðisins þegar litið er til hæðar og legu bygginga við Norðurbrún og Austurbrún. Húsið að Norðurbrún 1 er tveggja hæða með 7,4 m vegghæð og vegghæð parhúsanna nr. 12-14 við Norður­brún er 6,75 m. Húsið að Norðurbrún 2 verður tveggja hæða í stað einnar hæðar fyrir breytinguna. Nýtingarhlutfall hækkar töluvert, en líta ber til þess að um hornlóð er að ræða með tvær götuhliðar, sem gefur kost á aukinni nýtingu, og að breytingin lýtur að tæplega 56 ára gömlu skipulagi. Við skipulagsbreytinguna var fyrri tillaga endurskoðuð og gætt að nægilegri götubreidd. Þá er stefnu bílastæða breytt svo að ekki verði bakkað út úr stæði á móti akstursstefnu aðkomugötu. Fyrir á lóðinni eru bílastæði við Norðurbrún, en með breytingunni er lóðin stækkuð svo stæðin komist fyrir innan lóðarmarka. Er því ekki um það að ræða að innkeyrsla inn í Norðurbrún sé þrengd frá því sem hefur verið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisgallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 um breytingu á deiliskipulagi Norðurbrúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún.

125/2018 Lækjargata Suðurgata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Lækjargötu 4, 6 og 8, Hafnarfirði, og eigendur Brekkugötu 5, 7, 8 og 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 12. júlí 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 28. nóvember 2018.

Málavextir: Í desember árið 2013 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar skipulagsforsögn fyrir lóðina Lækjargötu 2 og var sú forsögn samþykkt í bæjarstjórn Hafnar­fjarðar 17. febrúar 2016. Á grundvelli hennar samþykkti skipulags- og byggingarráð 9. febrúar 2018 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi. Var hún auglýst til kynningar frá 9. maí til 20. júní s.á. og bárust athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum. Skipulags- og byggingarráð fól skipulagsfulltrúa að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir og var hún samþykkt ásamt deiliskipulagstillögunni á fundi ráðsins 10. júlí 2018. Bæjarráð samþykkti tillöguna 12. s.m. Hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun til lögmæltrar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 10. ágúst s.á., að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagstillögunnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þó var farið fram á að nokkur atriði yrðu leiðrétt áður en til birtingar kæmi og sendu bæjaryfirvöld leiðrétt gögn til Skipulagsstofnunar 28. ágúst 2018. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærendur benda á að auglýsing hins umdeilda deiliskipulags hafi ekki verið samþykkt í bæjarstjórn. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. febrúar 2018 hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið samþykkt í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin bókun sé sjáanleg í fundargerðum bæjarins eftir þetta fyrr en í skipulags- og byggingarráði 26. júní s.á. þegar auglýsingarferli hafi verið lokið og byrjað hafi verið að fjalla um athugasemdir. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga skuli deiliskipulags­tillaga lögð fyrir sveitarstjórn að lokinni undirbúningsvinnu og skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga skuli sveitarstjórn samþykkja deiliskipulagstillögu áður en hún sé auglýst. Skipulags- og byggingarráði hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um að auglýsa hina kærðu deiliskipulags­tillögu skv. samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016 og erindisbréfi skipulags- og byggingarráðs, dags. 7. desember 2011. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar sé skipulags- og byggingarráði einungis heimilt að afgreiða mál án staðfestingar bæjarstjórnar á grundvelli erindisbréfs. Í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins komi fram að afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Lögbundinn grundvöllur málsmeðferðarinnar sé því ekki til staðar í máli þessu og hið kærða deiliskipulag því ógilt.

Skipulagsuppdráttur með greinargerð, sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018, sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Þá liggi ekki fyrir hvernig skipulagsuppdráttur sá sem auglýstur hafi verið líti út en hann sé ekki aðgengilegur á vefsíðu bæjarins og hafi ekki verið í þeim gagnapakka sem kærendur hafi fengið frá bænum þegar óskað hafi verið eftir öllum gögnum málsins. Ósamræmi sem þetta geri samþykkt deiliskipulagsins marklausa.

Mikill flýtir hafi einkennt afgreiðslu deiliskipulagsins í nefndum bæjarins. Athugasemdir hafi verið teknar fyrir í skipulagsráði á nokkrum mínútum án þess að nokkuð tillit væri til þeirra tekið og málið keyrt í gegn í bæjarráði tveimur dögum síðar. Telja verði að svo mikilvægt mál, sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni bæjarins ásamt því að hafa varanleg áhrif til hins verra á ásýnd bæjarins, hefði átt að vera tekið fyrir í bæjarstjórn í stað bæjarráðs. Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé bæjarráði ekki heimilt að fullnaðarafgreiða mál sem varði verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélags. Í þessu máli sé vissulega um það að ræða enda sé verðmæti byggingarréttar á þessum stað umtalsvert í ljósi stöðu bæjarsjóðs.

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka deiliskipulagstillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Umfjöllun skipulagsnefndar og bæjarráðs um framkomnar athugasemdir hafi verið nær engin að undanskilinni bókun bæjarfulltrúa í minnihluta í bæjarráði. Umsögn skipulags­fulltrúa hafi verið samþykkt án nokkurrar umræðu. Umsögnin sjálf hafi ekki að geyma viðhlítandi greiningu á athugasemdum. Þeim sé öllum svarað í örfáum línum án nokkurrar tilvísunar til þess að málið hafi verið rannsakað sérstaklega. Ekki verði talið að skipulagsnefnd og bæjarráð hafi fjallað með viðhlítandi hætti um athugasemdir heldur hafi meirihluti í þessum nefndum hunsað þær og samþykkt deiliskipulagstillöguna án þess að vera sérstaklega meðvitaður um efni athugasemda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Stjórnsýslulög gildi um skipulagsákvarðanir enda séu skipulagsmál ekki sérstaklega undanskilin í 1. mgr. 2. gr. laganna. Við vinnslu deiliskipulags fyrir Lækjargötu 2 hafi komið upp fjölmörg álitaefni sem þörf hafi verið að rannsaka áður en ákvörðun yrði tekin. Rannsókn á þessum atriðum hafi aldrei farið fram. Þar beri fyrst að nefna að engin raunveruleg rannsókn hafi farið fram á bílastæðamálum á deiliskipulagssvæðinu og nágrenni þess. Engin rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi þrátt fyrir að alvarlegar athugasemdir þar að lútandi hafi komið fram. Þá hafi engin rannsókn verið framkvæmd á áhrifum deiliskipulagsins á umferðarmagn og umferðaröryggi á svæðinu. Loks hafi húsakönnun ekki verið framkvæmd eins og áskilið sé í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Alvarlegur ágalli sé á málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við athugasemdir Skipulags­stofnunar frá 10. ágúst 2018. Stofnunin hafi ekki bannað auglýsingu skipulagsins heldur krafist úrbóta á því. Gallarnir séu hins vegar svo alvarlegir að stofnunin hefði átt að stöðva gildistöku deiliskipulagsins og leggja fyrir bæinn að vinna það og auglýsa upp á nýtt. Athugasemdir stofnunarinnar hafi verið þær að nýtingarhlutfall lóðar hafi verið rangt svo um munaði, að skilmála um að fella hús að aðliggjandi byggð hafi vantað, að leyfilegur fjöldi íbúða hafi ekki verið tilgreindur, að byggingarreitur og aðkoma að bílakjallara væri óskýr, að kvöð um aðgengi til viðhalds o.fl. hafi vantað og að merkingar bygginga sem ættu að víkja hafi vantað. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu. Þetta sé ófrávíkjanleg regla. Samt sem áður sé ekki hægt að sjá að bréf Skipulagsstofnunar hafi komið til umræðu í nefndum bæjarins. Bærinn hafi farið þá leið að breyta deiliskipulagsuppdrættinum í kyrrþey án aðkomu þar til bærra nefnda. Breyttur uppdráttur hafi síðan verið sendur Skipulagsstofnun og deiliskipulagið að því búnu verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Þetta sé augljóst og alvarlegt brot á ófrávíkjanlegri reglu skipulagslaga. Það miklir gallar hafi verið á deiliskipulaginu að vinna hefði átt það upp á nýtt og auglýsa að nýju eftir að búið væri að gera breytingar á því í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða og þar með talið sé að auglýsa það að nýju. Í deiliskipulagið, sem upphaflega hafi verið auglýst, hafi vantað grundvallarupplýsingar. Þetta kippi grundvellinum undan kynningarferli skipulagsins. Óskýrleiki þess hafi verið slíkur að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta upplýsta afstöðu til allra þátta skipulagsins. Þar sé íbúðafjöldi t.d. mjög mikilvægur með tilliti til umferðarmagns og bílastæðamála. Það blasi því við að auglýsingarferli skipulagsins hafi verið svo meingallað að það hefði þurft að endurtaka málsmeðferðina þegar endurgerð skipulagsgögn hafi legið fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn að taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur,  fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Í aðdraganda hins kærða deiliskipulags hafi verið gerðar nokkrar skipulagsforsagnir þar sem markmiðum og tilhögun verkefnisins hafi verið lýst. Í öllum þessum forsögnum hafi verið atriði sem hafi verið algjörlega sniðgengin í deiliskipulaginu sem samþykkt hafi verið. Í skipulagsforsögn 26. maí 2008 komi m.a. fram að markmið sé að endurskapa það yfirbragð byggðar sem verið hafði á reitnum áður en Dvergshúsið hafi verið byggt. Enn fremur að reynt skuli af fremsta megni að endurskapa byggingarstíl fyrri tíma með hliðsjón af nærliggjandi byggð. Leggja skuli áherslu á að opna sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Í skipulagsforsögn 10. desember 2013 komi fram svipuð sjónarmið. Í skipulagsforsögn sem fylgdi útboðsgögnum í apríl 2017 komi fram að við mótun húsa skuli tekið mið af því að lóðin sé á viðkvæmu svæði í nágrenni við fastmótaða miðbæjarbyggð. Leitast skuli við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu, hvað varði form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð. Almennt skuli ekki byggja hærra en tvær hæðir og lágt ris ofan á þak jarðhæðarinnar. Mikilvægt sé að opna innsýn/útsýn milli húsanna. Í forsögninni sé gert ráð fyrir nýtingarhlutfalli allt að 1,3 skv. lið 5.2 í forsögninni. Ekkert að þessum markmiðum skipulagsforsagnarinnar hafi verið virt þegar gengið hafi verið frá deiliskipulaginu. Stærð og form húsa sé í hróplegu ósamræmi við aðliggjandi byggð, útsýnislínur milli miðbæjar og Hamars séu ekki lengur til staðar og nýtingarhlutfall sé mun hærra en það hafi átt að vera samkvæmt forsögninni eða 1,89. Það sé ljóst að þar sem skipulagsforsagnir eða lýsingar séu lögbundnar skv. 40. gr. skipulagslaga þá eigi að fara eftir þeim við gerð skipulags. Skipulagsforsagnir séu gerðar marklausar ef þær séu sniðgengnar í skipulagsvinnunni og þar með sé brotið gegn 40. gr. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar um lýsingar. Engin merki sjáist um að Hafnarfjarðarbær hafi sinnt þeirri skyldu.

Deiliskipulag skuli byggt á stefnu aðalskipulags skv. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. sömu laga skuli gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Samkvæmt þessum ófrávíkjanlegu lagaákvæðum verði að vera algert samræmi milli aðalskipulags og deiliskipulags. Í tilfelli hins kærða deiliskipulags skorti verulega á þetta lögboðna samræmi. Slíkt ósamræmi eigi að leiða til ógildingar deiliskipulagsins.

Ljóst sé að landnotkun samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi fyrir Lækjargötu 2 sé ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Deiliskipulagið geri ráð fyrir íbúðarhúsnæði að meginstefnu til. Aðeins á jarðhæð meðfram Lækjargötu sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu. Að öðru leyti sé um hreina íbúðarbyggð að ræða. Þannig séu húsin nr. 2a og 2e án nokkurs verslunar- og þjónusturýmis og sama eigi við suðurhluta húsanna nr. 2c og 2d. Meirihluti húsa og byggingarmagns á reitnum sé því í beinni andstöðu við aðalskipulag, sem kveði á um að fyrst og fremst skuli gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu og að allt rými á jarðhæð skuli nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu.

Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar komi fram að gæta skuli að samræmi við eldri byggð í bænum, sérstaklega með hliðsjón af því að mikil menningarleg verðmæti liggi í gömlum húsum í eldri hverfum bæjarins. Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 tryggi ekki nægilega að útlit húsa verði í samræmi við útlit aðliggjandi byggðar, t.d. séu engin ákvæði um ytra byrði húsa, s.s. klæðningar. Þá séu hæstu húsin sem heimiluð séu á reitnum umtalsvert hærri en aðliggjandi byggð, eða allt að 14,8 m há. Aðliggjandi deiliskipulagssvæðinu að Lækjargötu 2 séu tvö svæði þar sem hverfisvernd gildi samkvæmt aðalskipulagi.

Í greinargerð með aðalskipulaginu segi um almenn ákvæði hverfisverndar: Þrátt fyrir að hverfisverndarsvæðin nái ekki inn á lóðina Lækjargötu 2 sé nálægð þeirra við lóðina svo mikil að byggingar á lóðinni geti haft afgerandi áhrif á það yfirbragð sem vernda eigi samkvæmt ákvæðum um hverfisvernd. Því sé nauðsynlegt að byggingar á lóðinni taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Hæð húsa samkvæmt hinu kærða skipulagi sé meiri en hæð nærliggjandi húsa og ekki sé tryggt að ytra byrði sé í samræmi við það sem einkenni aðliggjandi byggð, þ.e. bárujárns- eða panelklæðningar. Þar að auki sé stærð byggingarreita og staðsetning innan lóðar í ósamræmi við umhverfið. Telja verði skylt að taka tillit til hverfisverndar þegar deiliskipulag sé gert fyrir svæði sem liggi á milli tveggja hverfisverndaðra reita. Að öðrum kosti sé verið að sniðganga markmið hverfisverndarákvæða og draga úr gildi verndarinnar.

Samkvæmt aðalskipulaginu skal viðhalda tengslum við sögu og menningararf með verndaráætlunum fyrir mannvirki og fornminjar. Í þessu sambandi veki sérstaka athygli að í stað þess að laga hina nýju byggð að menningarsögulegum verðmætum í nágrenninu sé í hinu kærða deiliskipulagi kveðið á um að breyta skuli friðuðu húsi til þess að samræmast nýju húsunum. Þarna sé um að ræða Góðtemplarahúsið eða Gúttó, sem byggt hafi verið árið 1886 og sé þar að leiðandi friðað skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Deiliskipulagið geri ráð fyrir að gerður verði nýr inngangur í húsið til aðlögunar að nýja skipulaginu. Þetta virðist hafa verið samþykkt án þess að álits Minjastofnunar hafi verið aflað og án tilkynningar til Minjastofnunar skv. 3. mgr. 16. gr. menningarminjalaga. Í stað þess að gæta að lögum og skilmálum aðalskipulags og vernda ásýnd gömlu húsanna í nágrenninu sé friðuðu húsi breytt til að þóknast hugmyndum verktaka sem standi að baki skipulaginu.

Eitt af helstu kennileitum Hafnarfjarðar, Hamarinn, sé beint fyrir ofan deiliskipulagssvæðið, en hann sé friðlýstur. Þess verði að gæta í tengslum við verndun náttúruminja að þær séu sjáanlegar og ekki kaffærðar af nærliggjandi mannvirkjum. Þetta sjónarmið komi fram í gögnum á fyrri stigum undirbúnings, s.s. í greinargerð sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar 1. júní 2008, en þar komi fram að leggja skuli sérstaka áherslu á að skapa opnari sýn frá miðbænum að byggðinni fyrir ofan og að Hamrinum. Sama komi fram í skipulagsforsögn, dags. 26. maí 2008. Með hinu nýja deiliskipulagi sé algjörlega horfið frá þessum markmiðum aðalskipulags og fyrri skipulagsforsagna. Mikið byggingarmagn á lóðinni og háar byggingar meðfram Brekkugötu byrgi sýn að Hamrinum enn meira en gamla Dvergshúsið gerði. Með þessu sé verið að ganga gegn markmiðum aðalskipulagsins.

Við gerð deiliskipulags á svæðum sem umkringd séu eldri byggð verði að gæta að því að spilla ekki heildaryfirbragði byggðar. Þetta sé almenn grundvallarregla í skipulagsmálum og sé sérstaklega tekið fram í aðalskipulagi Hafnarfjarðar hvað varði ásýnd gamalla bæjarhluta. Í hinu kærða deiliskipulagi sé verulega vikið frá því yfirbragði sem almennt sé til staðar í nágrenninu. Í fyrsta lagi sé húsagerð meðfram Brekkugötu ekki í neinu samræmi við þau hús sem fyrir séu. Nýju húsin eigi að vera allt að fjórar hæðir að meðtöldum kjallara og risi. Ekkert nærliggjandi hús sé af þeirri stærð. Í stað þess að hafa samsvarandi hæð á nýju húsunum og öðrum húsum þeim megin við Brekkugötu sé nýja húsalengjan mun hærri. Hæð byggðarinnar sé ekki látin fylgja landslaginu, sem felist í nokkuð brattri brekku í norðurenda Brekkugötu, heldur séu húsin teygð upp í sama hæðarkóta og húsin sem standi á brekkubrúninni, nokkru innar í götunni. Þetta eyðileggi ásýnd og samræmi í götunni algjörlega. Þá verði nýtingarhlutfall lóðarinnar Lækjargötu 2 mun hærra en á lóðunum í kring. Samkvæmt lagfærðum deiliskipulagsuppdrætti, sem gerður hafi verið eftir samþykkt bæjarráðs vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, komi fram að nýtingarhlutfall á lóðinni sé 1,89. Nýtingarhlutfall í nágrenninu sé hins vegar á bilinu 0,18 til 0,89.

Þarna sé augljóslega ekki verið að taka mið af skilyrðum aðalskipulags við samræmi eldri og yngri byggðar og verið sé að raska byggðamynstri, ásýnd hverfisins og götumyndum Brekkugötu, Lækjargötu og Suðurgötu. Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé skylt að leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Ekki verði séð af gögnum málsins að sérstök húsakönnun hafi farið fram í tilefni af deiliskipulagsvinnunni. Meta hefði þurft sérstaklega hús í næsta nágrenni við skipulagsreitinn með það fyrir augum að tryggja samræmt svipmót hverfisins.

Hið nýja deiliskipulag fyrir Lækjargötu 2 sé stórgallað að því leyti að augljóslega skorti á að fjöldi bílastæða dugi fyrir þá íbúðarbyggð og þjónustu sem verði á skipulagssvæðinu og næsta nágrenni. Ekki hafi verið nægilega rannsakað hvort bílastæði á svæðinu dugi og ef það hafi verið metið á einhvern hátt þá sé það mat rangt. Íbúar á svæðinu hafi notað almenningsbílastæði á baklóð Lækjargötu 2 um áratugaskeið og megi því segja að venjubundinn réttur eða hefð hafi skapað íbúum rétt til bílastæða á lóðinni. Þessi réttur sé nú hrifsaður á brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Gífurleg þörf sé fyrir almenningsbílastæði á svæðinu og fyrir því séu nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi séu húsagöturnar báðum megin við lóðina mjög þröngar og takmarkað hversu mörgum bílum sé hægt að leggja þar. Til dæmis sé ekki hægt að leggja bílum í neðri hluta Brekkugötu vegna þrengsla. Í öðru lagi sé stórt samkomuhús á næstu lóð, þ.e. Suðurgötu 7. Þar séu haldnar allt að þrjár samkomur á dag þar sem saman komi tugir meðlima í AA-samtökunum. Oft sé mjög þröngt á þingi fyrir utan húsið og það geti verið erfitt að aka Suðurgötuna vegna fjölda bifreiða sem lagt sé við húsið. Hluti fundargesta hafi notað stæðið á lóðinni Lækjargötu 2, en þegar það hverfi verði bílastæðavandræði og umferðarteppur óumflýjanlegar. Í þriðja lagi hagi svo til í stórum hluta lóða við Suðurgötu og Brekkugötu að ekki séu bílastæði innan lóðar. Í mörgum tilfellum sé ómögulegt að koma þar fyrir stæðum vegna þrengsla og landhalla og þar að auki hafi skipulagsyfirvöld bannað eigendum að útbúa stæði innan lóða þar sem það sé þó hægt. Í því sambandi megi nefna nýlegt erindi eiganda Brekkugötu 5 um gerð bílastæðis sem tafarlaust hafi verið hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.

Ljóst sé að fyrirkomulag bílastæða samkvæmt  hinu nýja deiliskipulagi brjóti gegn ákvæðum aðalskipulags. Í deiliskipulaginu sé aðeins gert ráð fyrir einu stæði á íbúð. Þó sé ljóst að margar íbúðanna verði yfir 100 m2 og ættu því að fá tvö stæði samkvæmt ákvæðum aðalskipulagsins, en meðalstærð íbúðanna sé a.m.k. 108 m2. Í þessu tilviki sé alls ekki sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni en gangi og gerist heldur þvert á móti og ekki sé hægt að leysa þörfina með öðrum hætti en að bæta við stæðum á deiliskipulagssvæðinu og við útmörk þess. Af þeim sökum sé óheimilt að víkja frá viðmiðum aðalskipulags um fjölda bílastæða. Að auki sé ekki gert ráð fyrir neinum bílastæðum fyrir gesti við húsin eða í húsagötunum, eins og áskilið sé í aðalskipulagi. Það beri einnig að hafa í huga að skv. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. breytingarreglugerð nr. 360/2016, ættu að vera a.m.k. þrjú stæði fyrir hreyfihamlaða miðað við leyfðan íbúðafjölda samkvæmt deiliskipulaginu og skuli slík stæði vera verulega stærri en venjuleg bílastæði. Auk þess verði að gera ráð fyrir 1-2 stæðum fyrir hreyfihamlaða vegna þess verslunarhúsnæðis sem áformað sé. Þegar þessi stæði séu dregin frá því rými sem muni verða í bílageymslunni sé alveg ljóst að það pláss sem afgangs sé dugi ekki til að fullnægja þörfum íbúa Lækjargötu 2. Stæðafjöldi dugi ekki fyrir íbúa húsa á skipulags–reitnum og tekin séu stæði af nágrönnum og gestum þeirra. Nágrannar geti ekki nýtt bílageymsluna á Lækjargötu enda sé hún of lítil til að anna allri eftirspurn á svæðinu og verði þar að auki í einkaeigu og ósennilegt að nágrannar hafi nokkra möguleika á að nýta hana.

Með því að þrengja að innkomu í Brekkugötu, þar sem byggingarreitur sé færður alveg upp að gangstétt og heimiluð sé há bygging á horni Lækjargötu og Brekkugötu, sé Brekkugötu breytt í þröngt skuggasund. Mikill umferðarhraði sé í Lækjargötu og megi gera ráð fyrir að hætta skapist á horninu við Brekkugötu þegar ökumenn beygi af Lækjargötu upp Brekkugötu án þess að hafa útsýni yfir það sem sé handan hornsins. Einnig sé viðbúið að innkeyrsla í bílageymslu við Suðurgötu geti skapað hættu þar sem hún sé mjög nálægt gatnamótum á umferðarþungu svæði. Ekki verði séð að nokkuð mat hafi verið lagt á þessar aðstæður sem verið sé að skapa eða annað sem snúi að umferðaröryggi. Þetta sé í andstöðu við markmið skipulagslaga í a-lið 1. gr., þar sem segi að öryggi skuli hafa að leiðarljósi.

Með hinu nýja deiliskipulagi sé freklega gengið á rétt kærenda hvað varði skuggavarp og útsýni í átt að miðbæ og sjó. Einnig sé gengið á rétt bæjarbúa allra hvað varði útsýni í hina áttina, þ.e.a.s. að Hamrinum og gömlu húsunum í Brekkugötu. Kærendur hafi notið útsýnis að miðbæ og sjó bæði um sjónlínu sem verið hafi yfir baklóð Lækjargötu 2 og að einhverju leyti einnig yfir bygginguna sem áður hafi verið á lóðinni. Sumir kærenda hafi haft stórkostlegt útsýni yfir sjóinn sem sé sérstaklega tilkomumikið við sólsetur. Með því að hækka byggingar á Lækjargötu 2, færa þær nær Brekkugötu og byggja stórt hús þar sem áður hafi verið bílastæði á baklóð sé þetta útsýni tekið frá þeim. Hinar nýju, háu byggingar muni einnig varpa miklum skugga á Brekkugötuna og á eignir kærenda. Með þessu sé verið að rýra verðgildi eigna kærenda og ganga þannig á stjórnarskrárbundinn eignarrétt þeirra. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Í þessu tilviki sé augljóslega engin almenningsþörf sem réttlæti að brotið sé á sjálfsögðum mannréttindum kærenda. Þessi eignaskerðing þjóni aðeins hagsmunum verktaka sem vilji hámarka gróða sinn af verkefninu. Ekki verði séð að rannsókn hafi farið fram á útsýnisskerðingu og skuggavarpi eða mat á hagsmunum húseigenda í nágrenninu. Af þeim sökum sé ekkert meðalhóf í þeim tillögum sem samþykktar hafi verið. Framganga sem þessi fari gegn markmiðum skipulagslaga, sem fram komi í 1. gr. laganna, og skortur á rannsókn brjóti gegn 10. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að skipulags- og byggingarráð hafi talið sig hafa umboð til endanlegrar afgreiðslu auglýsingu umræddrar skipulagstillögu, sbr. ákv. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sem útfært sé í 2. mgr. 71. gr. samþykkta sveitarfélagsins og 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins, þar sem fram komi að önnur mál en þau sem sérstaklega séu talin upp í greininni „hljóta að jafnaði fullnaðarafgreiðslu á vettvangi ráðsins nema bæjarstjórn ákveði annað eða lög mæla á annan veg“. Undir „önnur mál“ samkvæmt greininni falli til að mynda ákvörðun um að auglýsa deiliskipulag. Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að slík heimild hafi ekki verið til staðar sé fjarri lagi að umrætt deiliskipulag skuli ógilt af þeirri ástæðu. Fyrir liggi að tillagan hafi verið auglýst og fjölmargar athugasemdir borist sem teknar hafi verið til skoðunar og svarað. Nýtt deiliskipulag hafi að lokum verið samþykkt í skipulags- og byggingarráði sem og í bæjarstjórn. Málsmeðferðin hafi því að öllu leyti verið í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags. Sé ljóst að sú staðreynd að tillagan hafi ekki farið fyrir bæjarstjórn áður en hún hafi verið auglýst til kynningar hafi ekki haft áhrif á síðari meðferð málsins.

Á bæjarstjórnarfundi 20. júní 2018 hafi verið samþykkt tillaga um að bæjarráð annist fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar 2018 standi, frá og með 20. júní til og með 11. ágúst. Í 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga sé fjallað um heimildir bæjarráðs til fullnaðarákvarðana í sumarleyfi bæjarstjórnar. Samkvæmt 8. mgr. 50. gr. samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar segi að á meðan bæjarstjórn sé í sumarleyfi fari bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Á fundi bæjarráðs 12. júlí 2018 hafi bæjarráð því farið með sömu heimildir og bæjarstjórn hefði ella. Það liggi fyrir að ákvörðun um framangreint rammasamkomulag hafi verið afgreidd úr bæjarráði án mótatkvæða. Í framangreindu felist að bæjarráð geti í sumarleyfi sveitarstjórnar tekið ákvarðanir sem varði verulega fjárhag sveitarfélags. Engu að síður sé ljóst að umrædd ákvörðun hafi ekki varðað verulega fjárhag sveitarfélagsins enda hafi verið um að ræða ákvörðun um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar í Hafnarfirði og hafði hún engin áhrif á gildandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Í málinu liggi fyrir að við meðferð þess hafi sveitarfélaginu borist athugasemdir frá aðilum sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta vegna umræddrar breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar. Athugasemdirnar hafi verið teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 26. júní 2018 og hafi skipulagsfulltrúa þá verið falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Umsögnin hafi verið lögð fyrir á fundi ráðsins 9. júlí s.á. þar sem tekið hafi verið undir hana og deiliskipulagið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs. Formleg málsmeðferð hafi því verið lögum samkvæmt í máli þessu.

Í athugasemdum kærenda við umrædda tillögu hafi verið vísað sé til þess að rannsókn hafi ekki farið fram á bílastæðamálum, útsýnisskerðingu, skuggavarpi, umferðarmagni. Öllum þessum atriðum hafi verið svarað í umsögn skipulagsfulltrúa. Af umsögninni megi ráða að farið hafi verið vel yfir framkomnar athugasemdir og þeim svarað á málefnalegan hátt. Einnig verði að geta þess að erindi íbúa vegna bílastæðamála, sem tekið hafi verið fyrir 24. ágúst 2017 í skipulags- og byggingarráði, hafi sérstaklega verið tekið til umfjöllunar í ráðinu og haft til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar. Varðandi fullyrðingar kærenda um að gera hefði átt húsakönnun við meðferð tillögunnar sé áréttað að bæði skipulagslög og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 geri ráð fyrir að ekki sé skylt að framkvæma hana vegna breytinga á deiliskipulagi. Einnig þurfi að huga að því að umrædd deiliskipulagsbreyting varði eina lóð en ekki tiltekið svæði eða hverfi. Á lóðinni hafi að auki verið búið að rífa eina húsið sem þar hafi staðið og því engin byggð á þeirri lóð sem deiliskipulagstillagan hafi tekið til. Hafi því engar forsendur verið til að framkvæma húsakönnun á umræddri lóð.

Fyrir liggi að deiliskipulagið hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 10. ágúst 2018, komi fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Stofnunin hafi hins vegar óskað eftir því að áður en til þess kæmi yrði henni send lagfærð gögn í samræmi við nánari ábendingar sem fram hafi komið í bréfinu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi því ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir lagfæringu tiltekinna gagna. Sveitarfélaginu hafi því ekki borið skylda til að fara með þegar samþykkt deiliskipulag aftur fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Sé því mótmælt sem haldið sé fram í kæru að kynningarferli skipulagsins hafi verið það óskýrt að hagsmunaaðilar hafi ekki haft nægar upplýsingar til að móta sér upplýsta afstöðu til málsins. Augljóst sé að ábendingar Skipulagsstofnunar séu þess eðlis að þær hafi engin áhrif haft á kynningarferli deiliskipulagstillögunnar enda hafði það verið niðurstaða stofnunarinnar að hún gerði engar athugasemdir við að tillagan yrði auglýst.

Lækjargata 2 hafi verið byggð 1965. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 22. mars 2017 hafi erindi Hafnarfjarðarkaupstaðar um að rífa húsið verið samþykkt í samræmi við samþykkt bæjarráðs. Í gildandi skilmálum deiliskipulags svæðisins frá árinu 2001 segi að heildarbyggingarmagn megi vera allt að 2.505 m2 og að nýtingarhlutfall geti orðið allt að 1,44. Sú leið hafi verið farin að rífa núverandi mannvirki og vinna nýtt deiliskipulag. Nýtingarhlutfall í hinu kærða deiliskipulagi sé sambærilegt við heimildir eldra deiliskipulags, eða 1,43 án bílakjallara. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 sé síðan lagt til að bílageymslur verði byggðar neðanjarðar.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir  allt að 2.500 m2 byggingarmagni sem eigi að hýsa íbúðir eða verslunarrými. Byggja megi bílakjallara sem geti orðið allt að 800 m2. Ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóð. Gera skuli ráð fyrir að eitt bílastæði hið minnsta fylgi hverri íbúð og að gert sé ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- eða þjónusturýmis. Þetta séu þær forsendur sem skilmálar deiliskipulagsins setji og hönnuðir hafi sem grunn til lausnar á fyrirkomulagi bílastæða við endanlega hönnun mannvirkja á lóðinni. Í tilvísun kærenda til kafla aðalskipulags sé litið fram hjá eftirfarandi setningu: „Sérstakar reglur gildi fyrir miðbæjarsvæði. Þar sem sýnt er að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, er heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Aðrar lausnir séu því heimilar en stæði á lóð og sé slíku fyrir að fara í þessu deiliskipulagi. Í byggingarreglugerð segi m.a. í gr. 4.3.1 að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirki. Sérstaklega skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra, þegar við eigi. Deiliskipulagið nái til Lækjargötu 2, Suðurgötu 7 og opins svæðis sem liggi austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2001 sé gert ráð fyrir 11 bílastæðum á lóð Lækjargötu 2 og 21 bílastæði á baklóð Suðurgötu 7. Í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum á baklóð Suðurgötu 7, heldur muni sú lóð nýtt sem opinn garður fyrir almenning eða torg. Horfið hafi verið frá byggingaráformum og stækkun bílakjallara á þeirri lóð, m.a. að teknu tilliti til skriflegra athugasemda frá íbúum í næsta nágrenni og sterkra sjónarmiða um þörf á grænum svæðum til útivistar, sem m.a. hafi komið fram á kynningarfundum þar sem deiliskipulagið hafi verið til umfjöllunar. Almennt skuli bílastæðaþörf viðkomandi mannvirkja leyst innan lóðarmarka. Fjöldi fari eftir skilmálum. Í deiliskipulagi Lækjargötu 2 sé gert ráð fyrir bílakjallara allt að 800 m2. Almennt megi reikna með að rýmisþörf hvers bílastæðis í kjallara sé um 25 m2. Heildarfjöldi stæða á lóð sé því um 32 bílastæði. Skipting þeirra á milli annars vegar verslunar- og þjónusturýmis og hins vegar íbúða verði því að rúmast innan þeirrar heimildar sem felist í 2.500 m2 heildarbyggingarmagni umfram bílastæðakjallara. Deiliskipulagið nái til ákveðins reits og séu mörk deiliskipulagsins skilgreind. Bílastæðaþörf og skilyrði viðkomandi mannvirkja séu leyst innan lóðar. Ekki sé gert ráð fyrir neinni heimild til stækkunar að Suðurgötu 7. Húsið sé samþykkt á sínum tíma án bílastæða. Bílastæði til almennra nota sé að finna í næsta nágrenni og rétt sé að vekja athygli á því að rúmlega 250 bílastæði séu opin almenningi án greiðslu í minna en 400 m fjarlægð frá aðliggjandi íbúabyggð við Suðurgötu og Brekkugötu. Í greinargerð deiliskipulags frá 2001 segi: „Á verslunar- og þjónustusvæði miðbæjarins, reitum 1, 2, 3 og 4 og á reit 5 þar sem hús hafa aðkomu frá Strandgötu eru öll opinber bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild. Það þýðir að einstakt hús eða húsasamstæða getur ekki gert tilkall til sérstakra bílastæða við húshlið, en hefur hins vegar rétt til að nota hvaða stæði sem er á svæðinu.“ Af þessu megi vera ljóst að tilkall íbúa í næsta nágrenni til bílastæða á lóð Lækjargötu 2 eða baklóð Suðurgötu 7 eigi sér hvorki stoð í deiliskipulagi frá 2001 né því sem nú sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Samanburður á útlínum nýrra húsa á lóðinni Lækjargötu 2 leiði í ljós að nýbyggingar séu almennt færðar fjær gatnamótum. Hús við gatnamót Brekkugötu og Lækjargötu sé með svo kölluðum hornskurði, sem sé til þess gerður að auka sjónarhorn við gatnamót og eigi sér jafnframt sögulega skírskotun til upphafs þéttbýlismyndunar á Íslandi. Þessu til viðbótar hafi verið unnið minnisblað fyrir Hafnarfjarðarbæ er varði umferð vegna breytinga á skipulagi við Suðurgötu. Ein af forsendum þessa minnisblaðs hafi verið fyrirhuguð uppbygging lóðarinnar við Lækjargötu 2. Niðurstaða umferðarskoðunar hafi verið að þjónustugráða gatnamóta verði í A-flokki. Því megi segja að markmið a-liðar 1. gr. skipulagslaga um öryggi sé haft að leiðarljósi.

Við þéttbýlismyndun á Íslandi hafi orðið til skipulagsleg viðmið sem oftar en ekki hafi verið af dönskum uppruna, sem í upphafi hafi stýrt byggðarþróun. Megi þar nefna þætti eins og efnisval, eldvarnir, hreinlætis- og heilbrigðismál, birtu o.fl. Útsýni sé kostur en ekki skilyrði í byggðaþróun. Þau sjónarmið og fullyrðingar sem fram komi í kæru um „stórkostlegt útsýni yfir sjóinn o.s.frv.“ verði að skoða í ljósi eftirfarandi staðreynda: Ný mannvirki séu lægri en það hús sem fyrir hafi verið. Bil séu á milli einstakra byggingarhluta sem opni sjónlínur í átt að miðbæ og hafi. Fyrir niðurrif hafi verið samfelldur, beinn veggur sem hafi teygt sig lóðrétt upp fyrir mænishæð á nýbyggingum. Nýbyggingar beri allar portbyggt söðulþak, sem þýði að hæð á lóðréttum veggjum þeirra í götulínu sé talsvert lægri en sá þverhnípti 2-3 hæða steypti veggur sem þar hafi verið og hafi mátt standa áfram samkvæmt deiliskipulaginu frá 2001. Í kynningargögnum með hinu auglýsta deiliskipulagi og gögnum, sem lögð hafi verið fram á tveimur kynningarfundum, hafi verið athuganir á skuggavarpi. Ljóst sé af þeim athugunum að skuggavarp af byggð samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé minna á svo til allt nánasta umhverfi en skuggavarp af Dvergnum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur andmæla fullyrðingu bæjarins um að skipulags- og byggingaráð hafi haft umboð til fullnaðarafgreiðslu deiliskipulagstillögunnar áður en hún fór í kynningu á grundvelli 6. mgr. 7. gr. erindisbréfs ráðsins. Það sé augljóst að þetta ákvæði gangi ekki framar skýru og afdráttarlausu ákvæði í 2. mgr. 7. gr. erindisbréfsins, þar sem segi að afgreiðslum samkvæmt skipulagslögum skuli vísað til bæjarstjórnar. Það hljóti að leiða til ógildingar þegar brotið sé gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga án þess að til staðar sé nokkur heimild til afbrigða. Þá verði einnig að hafa í huga að lokaafgreiðsla máls hafi farið fram í flýti í bæjarráði og hafi deiliskipulagstillagan því aldrei fengið umfjöllun í bæjarstjórn.

Ekki sé eðlilegt að miða mat á byggðamynstri við þann óskapnað sem hafi verið á lóðinni áður, enda hafi það hús verið byggt löngu eftir að ríkjandi byggðamynstur myndaðist á svæðinu. Flest hús á svæðinu séu lágreist timburhús og mörg þeirra séu um og yfir 100 ára. Það byggðamynstur sem vernda beri samkvæmt almennum sjónarmiðum og aðalskipulagi Hafnarfjarðar sé þessi lágreista, gamla byggð og af þeim sökum þurfi að gæta samræmis við hana þegar Lækjargata 2 sé skipulögð að nýju.

Samkomuhúsið að Suðurgötu 7 hafi verið byggt árið 1886 en þá hafi menn komið á hestum á samkomur og eðli máls samkvæmt hafi þá ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum. Samkomuhúsið hafi hins vegar verið rekið alla tíð frá því að bíllinn kom til sögunnar með stóru aðliggjandi bílastæði á baklóð Lækjargötu 2. Þau stæði eigi nú að þurrka út án frekari umhugsunar og velta bílastæðavanda samkomuhússins yfir á almenn stæði í aðliggjandi húsagötum, sem séu nú þegar af mjög skornum skammti. Ef byggt verði á baklóðinni muni verða ómögulegt að fullnægja bílastæðaþörf samkomuhússins.

Óljóst sé að hvaða leyti minnisblað það sem bærinn vísi til um umferðarmál varði það deiliskipulag sem hér sé til umfjöllunar. Í öllu falli sé þetta minnisblað hvergi sjáanlegt í bókunum varðandi afgreiðslu skipulagsins og það hafi ekki verið í þeim gögnum sem bærinn sendi kærendum. Varðandi hugtakið „þjónustustig“ sem vísað sé til í umræddu minnisblaði þá varði það afkastagetu gatnamóta en ekki öryggi. Umrætt minnisblað segi því ekkert um umferðaröryggi.

Þá rangfærslu sé að finna í athugasemdum bæjarins að nýju byggingarnar séu lægri en sú sem fyrir var á lóðinni. Þó að einhverjir punktar séu e.t.v. lægri þá séu hæstu punktar upp við Brekkugötu töluvert hærri en húsið sem fyrir hafi verið og sé það auðséð á uppdrætti. Það séu þessir punktar sem mestu skipti, bæði hvað útsýnisskerðingu og götumynd varði.

Bærinn dragi nú fram mynd af skuggavarpi sem ekki hafi verið sjáanleg í gögnum málsins áður. Sé því þess vegna mótmælt að þetta skjal feli í sér rannsókn sem gerð hafi verið í tengslum við hið kærða skipulag. Ekki verði séð að sú fullyrðing bæjarins sé rétt að skuggavarp sé minna eftir skipulagsbreytinguna, enda sé t.d. augljóst að meira skuggavarp sé af nýju húsi við Brekkugötu heldur en hafi verið af auðri baklóð Lækjargötu 2.

Ekki hafi verið lagt neitt mat á útsýnisskerðingu, en það sé eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt hefði verið að kanna sérstaklega. Ljóst sé að útsýnisskerðing verði mjög veruleg. Þó að einhver bil séu á milli húsa við Lækjargötu sé lítið um opnar sjónlínur í gegnum deiliskipulagssvæðið. Þannig sé sjónlína frá Brekkugötu í átt til sjávar nær alveg blokkeruð af fyrirhuguðum byggingum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd, sem kjörin er af sveitarstjórn, starfa í hverju sveitarfélagi og eru störf skipulagsnefnda lögákveðin. Verður því að telja skipulags- og byggingarráð fastanefnd í skilningi 1. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins  fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt skipulagslögum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Í 40. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016  kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir ráð, nefndir og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem talin eru upp í 1.-5. tölul. A-liðar 39. gr. heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs skv. 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og þau varða ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun og þau víkja ekki frá stefnu bæjarstjórnar.

Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins send ráðuneytinu til staðfestingar. Þá skulu samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf, sem ekki hefur hlotið framangreinda málsmeðferð, getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs var undirritað af bæjarstjóra 7. desember 2011 en það hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fjallað er um verkefni skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar í 71. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ráðið fari með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki nr. 160/2010, lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og umferðarlög nr. 50/1987. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að ráðið geri tillögu til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, sbr. einnig 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, eru afgreiðslur skipulags- og byggingarráðs því tillögur til sveitarstjórnar, mæli lög ekki á annan veg.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skal hún auglýst á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags. Tillagan þarf þó ekki að liggja frammi hjá Skipulagsstofnun á auglýsingatíma hennar. Í 2. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að skipulagsnefnd annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Það er því skipulagsnefnd sem sér um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi en samkvæmt 1. mgr. 41. gr. verður sveitarstjórn þó að samþykkja að auglýsa tillöguna. Fyrir liggur að bæjarstjórn samþykkti ekki að auglýsa tillöguna til kynningar en samþykkti hins vegar deiliskipulagsbreytinguna að lokinni málsmeðferð hennar. Þá komu kærendur og aðrir athugasemdum að á auglýsingartíma tillögunnar. Þrátt fyrir að um annmarka á málsmeðferð hafi verið að ræða bendir ekkert til þess að sá annmarki hafi haft áhrif á andmælarétt eða endanlega afgreiðslu málsins. Annmarkinn þessi er því ekki þess eðlis að hann leiði til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.

Ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. vegna breytingar á deiliskipulagi og getur málsmeðferð bæjaryfirvalda við samantekt upplýsinga um umfang og stefnu skipulagsbreytingarinnar, sem svipar nokkuð til lýsingar skv. 1. mgr. 40. gr., ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga er bæjarráði heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, en á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer bæjarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella. Getur bæjarráð því á sumarleyfistíma bæjarstjórnar tekið ákvarðanir sem varða verulega fjárhag sveitarfélags. Var ákvörðun bæjarstjórnar á fundi 20. júní 2018, um að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu allra mála á meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stæði frá og með 20. júní til og með 11. ágúst 2018, lögum samkvæmt.

Sveitarstjórn skal taka skipulagstillögu til umræðu þegar frestur til athugasemda er liðinn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Skipulagsfulltrúa var falið að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni var athugasemdum svarað og ekki var talið tilefni til að endurskoða einstök atriði tillögunnar. Skipulags- og byggingarráð samþykkti umsögnina 9. júlí 2018 og bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti afgreiðslu ráðsins á fundi 12. s.m. Afgreiðsla bæjaryfirvalda var því í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun hinn 13. júlí 2018 til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Samkvæmt nefndri grein skal Skipulagsstofnun tilkynna sveitarstjórn innan þriggja vikna frá móttöku deiliskipulagsins telji hún að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi. Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form skipulagsins. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. ágúst s.á., var ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfinu var þó tekið fram að áður en til birtingar kæmi þyrfti að senda stofnuninni lagfærð gögn vegna sjö atriða sem lutu að formi skipulagsuppdráttar. Í athugasemdum við 42. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Skipulagsstofnun var svarað með bréfi, dags. 28. ágúst 2018, þar sem fram kom að deiliskipulagsuppdrátturinn hefði verið lagfærður í samræmi við ábendingar og athugasemdir stofnunarinnar. Ekki verður séð að athugasemdirnar hafi verið ræddar í bæjarstjórn, líkt og áskilið er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir þann annmarka og þá staðreynd að bréf Skipulagsstofnunar til bæjaryfirvalda barst fáeinum dögum að liðnum þeim þriggja vikna fresti sem tiltekinn er í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þykir það ekki eiga að leiða til ógildingar umdeildrar ákvörðunar þar sem lagfæringar voru allt að einu gerðar á framsetningu skipulagsuppdráttar í samræmi við tilmæli stofnunarinnar.

Kærendur benda á að sá skipulagsuppdráttur sem samþykktur hafi verið í skipulags- og byggingarráði 9. febrúar 2018 sé ekki eins og sá sem samþykktur hafi verið í bæjarráði 12. júlí s.á. Líkt og að framan greinir eru ályktanir skipulags- og byggingarráðs tillögur til sveitarstjórnar sem eðli máls samkvæmt er ekki bundin af afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs. Í fjölmörgum ákvæðum skipulagslaga er gert ráð fyrir að skipulagstillaga taki breytingum í skipulagsferlinu, en skv. 4. mgr. 41. gr. laganna segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. Þær breytingar sem hér um ræðir voru smávægilegar og því þurftu bæjaryfirvöld ekki að auglýsa tillöguna að nýju.

Við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ekki þörf á að gera húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Samkvæmt ákvæðinu ber að gera húsakönnun þegar deiliskipulag er unnið í þegar byggðu hverfi. Ákvæði þetta á ekki við um breytingu á deiliskipulagi. Í gögnum málsins er að finna nokkuð ítarleg gögn um önnur atriði sem kærendur telja að hafi ekki verið rannsökuð, þ.e. bílastæðamál, skuggavarp, útsýnisskerðing og umferðarmál. Þessum athugasemdum var að auki svarað í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir. Liggur því ekki fyrir að rannsókn máls hafi verið ábótavant í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024 er hið umdeilda svæði á miðsvæði M1. Í almennum ákvæðum aðalskipulagsins um miðsvæði kemur fram að á „miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóna heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.“ Í kafla um miðbæ Hafnarfjarðar M1 kemur fram að „[a]llt rými á jarðhæð í miðbænum verði nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en stefnt skuli að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna.“ Lóðin nr. 2 við Lækjargötu var fyrir deiliskipulagsbreytinguna skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð en eftir breytingu sem íbúðar- og atvinnulóð með verslun/þjónustu á jarðhæðum sem snúa að Lækjargötu. Í deiliskipulagsbreytingunni er ekki fjallað um hvernig nýtingu jarðhæða sem snúa að Suðurgötu og Brekkugötu skuli háttað en tekið er fram að skilmálar deiliskipulagsins Hafnarfjörður miðbær, sem öðlaðist gildi 19. október 2001, gildi að öðru leyti. Í deiliskipulaginu er ekki minnst á hvaða starfsemi skuli vera á jarðhæð þeirra húsa sem snúa að Suðurgötu eða Brekkugötu. Þrátt fyrir að í deiliskipulagsbreytingunni sé ekki tekin afstaða til notkunar jarðhæða er ekki hægt að fallast á að slíkt fari í bága við aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, en ákvæði aðalskipulagsins eru bindandi við veitingu byggingarleyfis, ef til þess kemur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. skipulagslaga er hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. Nánar er fjallað um hverfisvernd í 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd. Húsaröðin Suðurgata 7-25, austan götunnar, nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar og er á hverfisverndarsvæði Hve7. Samkvæmt hverfisverndarákvæðum má ekki „breyta útliti eða formi húsa frá upprunalegu útliti og formi þeirra. Þar sem viðbyggingar eru leyfðar samkvæmt deiliskipulagi skulu þær vera í samræmi við húsið og götumyndina í heild sinni.“ Á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin tekur til eru þrjár lóðir. Tvær þeirra eru utan hverfisverndarsvæðisins, þ.e. Lækjargata 2 og bæjarlóð austan við Suðurgötu 7. Lóðin Suðurgata 7 er hins vegar innan hverfisverndarsvæðisins. Samkvæmt breyttum skilmálum sem í skipulagsbreytingunni fólst verður heimilt „að setja glugga og dyr á austurhlið hússins, að fengnu leyfi Minjastofnunar, til að auka möguleika á samnýtingu bæjarlóðar austan við húsið.“ Þrátt fyrir að einungis sé um heimild að ræða, að fengnu leyfi Minjastofnunar, verður ekki litið fram hjá því að hverfisverndarákvæði aðalskipulagsins er afdráttarlaust um að ekki megi breyta útliti húsa frá upprunalegu útliti þeirra. Í ljósi þess verður að telja að ofangreind heimild deiliskipulagsbreytingarinnar gangi gegn aðalskipulagi, sem er rétthærra deiliskipulagi skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því ekki hjá því komist að fella þann hluta deiliskipulagsbreytingarinnar úr gildi sem snýr að heimild til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins Suðurgötu 7.

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024segir að það sé stefna bæjarstjórnar að stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Vernda beri það sem sérstakt sé eða hafi sérstakt verndargildi í náttúru Hafnarfjarðar, svo sem sérstaka náttúru, landslagsheildir, víðerni, náttúrulegar fjörur í bæjarlandinu, og gera þau aðgengileg bæjarbúum. Hamarinn, sem er austan við Brekkugötu, var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Um hann segir í aðalskipulagi að Hamarinn setji mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og njóti vinsælda sem útivistarsvæði. Á honum séu jökulrispaðar klappir og honum tengist sögur um álfa og huldufólk. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hróflar ekki að neinu leyti við þeim atriðum sem njóta verndar og tengjast Hamrinum.

Með deiliskipulagsbreytingunni hækkar nýtingarhlutfall á lóðinni Lækjargötu 2 úr 1,44 í 1,89. Kærendur hafa bent á að nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða sé á bilinu 0,18 til 0,48. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fer sveitarstjórn með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti.  Engin ákvæði eru í gildandi aðalskipulagi sem takmarka nýtingarhlutfall á hinu umdeilda svæði. Þá kemur sérstaklega fram í deiliskipulagsbreytingunni að efnisval nýbygginga skuli falla sem best að aðliggjandi húsum. Ekki verður því fallist á að verulega sé vikið frá því yfirbragði byggðar sem fyrir var.

Um bifreiðastæði segir í aðalskipulaginu: „Bifreiðastæðaþörf bygginga skal almennt vera leyst innan lóða. Sett eru lágmarksákvæði varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Sérstakar reglur gilda fyrir miðbæjarsvæði og er þar gert ráð fyrir að ef sýnt sé að ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar, sé heimilt að uppfylla þær á almennum bílastæðum í miðbænum gegn greiðslu sérstaks gjalds.“ Samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi hverfur 31 bílastæði af lóðum Lækjargötu 2 og bæjarlóðinni austan við Suðurgötu 7. Samkvæmt nýjum skilmálum fyrir Lækjargötu 2 er heimilt byggingarmagn á lóðinni 3.300 m2 með bílageymslu, en 2.500 m2 án hennar. Einnig kemur fram að í bílageymslu skuli vera að lágmarki eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Í máli þessu er ekki um að ræða skipulag nýs hverfis heldur breytingu á deiliskipulagi í þegar grónu hverfi. Ákvæði aðalskipulagsins um að í skipulagi nýrra hverfa þurfi að vera eitt eða tvö stæði við hverja íbúð eiga því ekki við í máli þessu. Þær sérstöku reglur sem fram koma í aðalskipulaginu um bifreiðastæði fyrir miðbæjarsvæði eiga hins vegar við. Ljóst er að leitast er við að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar með bílakjallara á lóð Lækjargötu 2. Deiliskipulagsbreytingin er því ekki andstæð aðalskipulagi hvað þetta varðar og getur meintur afnotaréttur nágranna á bílastæðum sem þar voru samkvæmt eldra skipulagi engu um það breytt.

Með vísan til þess sem að framan greinir liggja ekki fyrir neinir þeir form- eða  efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar aðrir en þeir sem áður hefur verið lýst vegna heimildar  til að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felldir eru úr gildi breyttir skilmálar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7 um að heimilt sé að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7, að fengnu leyfi Minjastofnunar. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

73/2018 Arctic Sea Farm, Fjarðalax, Patreksfirði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 um að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadalsá, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadalsá, Fluga og net ehf., sem  rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, Varpland ehf., sem eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og Veiðifélag Laxár á Ásum þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 15. júní 2018.

Málavextir: Hinn 9. maí 2016 lögðu Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar þar um er frá 23. september 2016. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum en vegna neikvæðra áhrifa fyrirhugaðs fiskeldis gerði stofnunin tillögu að skilyrðum sem sett yrðu vegna leyfisveitingar fiskeldisins. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 13. desember 2017 til handa Arctic Sea Farm fyrir eldi á 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Sama dag gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Fjarðalaxi fyrir eldi á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Hinn 22. s.m. gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Fjarðalaxi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Með bréfi, dags. 22. mars 2018, óskuðu framkvæmdaraðilar eftir því við Skipulagsstofnun að hún tæki ákvörðun um matsskyldu vegna áforma þeirra um að breyta staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði. Var annars vegar um að ræða staðsetningu eldissvæðis Fjarðalax við Eyri og hins vegar staðsetningu eldissvæðis Arctic Sea Farm við Kvígindisdal. Kom fram í bréfinu að með nýrri staðsetningu yrði eldisfiskum tryggt betra aðgengi að ferskum sjó auk þess sem meiri halli í botni tryggði minni uppsöfnun lífræns úrgangs og hreinsun á svæðinu. Meðfylgjandi bréfinu var að finna skýrslu ráðgjafa um æskilega staðsetningu og legu eldiskvía í Patreksfirði. Vegna hugsanlegrar matsskyldu aflaði Skipulagsstofnun umsagna Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Hinn 11. apríl 2018 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða í Patreksfirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Hin útgefnu starfsleyfi og rekstrarleyfi frá 13. og 22. desember 2017 voru kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í janúar 2018. Með úrskurðum í málum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018, kveðnum upp 27. september og 4. október s.á., voru nefnd leyfi felld úr gildi þar sem ekki hafði farið fram nauðsynlegur samanburður umhverfisáhrifa fleiri valkosta. Í kjölfarið var með lögum nr. 108/2018 gerð breyting á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi og ráðherra fengin heimild til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða í þeim tilvikum þegar rekstrarleyfi er fellt úr gildi, sbr. 21. gr. c. í lögunum. Á grundvelli þeirrar lagaheimildar veitti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hinn 5. nóvember 2018 rekstrarleyfi til bráðabirgða til handa Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi til framleiðslu á 600 tonnum og 3.400 tonnum árlega af laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Var gildistími leyfisins til 5. september 2019. Hinn 20. nóvember 2018 veitti svo umhverfis- og auðlindaráðherra, á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi til hins sama og gilti sú undanþága einnig til 5. september 2019.

Í janúar 2019 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram „Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“. Í skýrslunni kemur fram að markmið hennar sé að bæta úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefndin hafi talið vera á matsskýrslu fyrirtækjanna frá árinu 2016. Var frummatsskýrslan auglýst á vefsíðu Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar til 19. mars 2019. Hinn 16. apríl s.á. lögðu félögin fram „Viðbót við matsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar, sbr. 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 16. maí 2019 lá álit stofnunarinnar fyrir. Í niðurstöðu álitsins kemur fram að það snúi eingöngu að umfjöllun og mati framkvæmdaraðila á valkostum en að matsskýrsla framkvæmdaraðila frá 2016 og álit Skipulagsstofnunar frá 2016 standi að öðru leyti áfram. Í niðurstöðukafla álitsins er m.a. rakið að valkostur í Patreksfirði sé í samræmi við breytingu á fyrirkomulagi eldissvæða sem framkvæmdaraðilar hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar árið 2018.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi Fjarðalax á heimasíðu stofnunarinnar frá 14. júní til 15. júlí 2019 og tillögu að starfsleyfi Arctic Sea Farm frá 7. júní til 8. júlí s.á., en tillögurnar voru byggðar á umsóknargögnum ásamt nýjum gögnum sem komið höfðu fram í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndarinnar. Hinn 26. ágúst s.á. veitti Umhverfisstofnun Arctic Sea Farm starfsleyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði og 27. s.m. veitti Matvælastofnun Arctic Sea Farm rekstrarleyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá veitti Umhverfisstofnun hinn 28. ágúst s.á. Fjarðalaxi starfsleyfi til framleiðslu á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og sama dag veitti Matvælastofnun Fjarðalaxi rekstrarleyfi til framleiðslu á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Hafa þau leyfi ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til athugasemda sinna um þegar ákveðnar eldisstaðsetningar í kærumálum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018 og telja að þær eigi jafnt við um hinar nýju fyrirhuguðu staðsetningar. Fjarlægð milli eldissvæðanna við Eyri og Kvígindisdal sé fölsuð á yfirlitskorti framkvæmdaraðilanna og sé hún ekki mæld á réttan hátt skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Framkvæmdaraðilar mæli frá mælipunktum innan eldissvæðamarkanna og fái út 2,07 km fjarlægð. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skuli lágmarksfjarlægð milli eldissvæða ótengdra aðila vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis. Sú mæling sýni 1,4 km fjarlægð á milli eldissvæða við Kvígindisdal og Eyri. Þegar af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt að mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna breyttar staðsetningar greindra eldissvæða. Mæld fjarlægð sé langt undir leyfilegri lágmarksfjarlægð og Hafrannsóknastofnun hafi ekki heimilað svo mikla nánd. Þá sé ný staðsetning við Kvígindisdal nánast að öllu leyti á nýju svæði og þar með utan fyrra eldissvæðis.

Að mati Hafrannsóknastofnunar sé illgerlegt að segja til um hvort nýjar staðsetningar „drag[i] úr smitálagi og hvort sem væri vegna laxalúsar, baktería eða veirusmits á milli eldiseininga.“ Hin 5 km tilskilda lágmarksfjarlægð milli eldissvæða sé fyrst og fremst til að draga úr hættu á smitálagi og lúsafári. Þá bendi stofnunin á að færsla eldissvæða á meira dýpi geti haft þau áhrif að meira af úrgangi falli hraðar í botnlag fjarðarins og lækki þannig súrefni í því, sem aftur dragi úr burðarþoli hans. Þá segi stofnunin að ekki fyrirfinnist úttekt á því hvort veiðisvæði verði fyrir áhrifum vegna færslu svæðis við Kvígindisdal. Reyndar segi framkvæmdaraðilar að samkvæmt yfirlýsingu félags smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu komi fyrirhugaðar staðsetningar inn á virk veiðisvæði nytjafiska í firðinum.

Umsögn dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun sé í svipuðum dúr og fyrri umsagnir þess aðila, þ.e. að „fyrirhugaðar breytingar séu jákvæðar út frá aðstæðum til fiskeldis.“ Eins og fyrri umsagnir viðkomandi dýralæknis hljóti umsögn hans að teljast ómarktæk eftir að upplýst hafi verið um sölu hans á bóluefni til eldisfyrirtækja.

Skipulagsstofnun segi að gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem nú sé og taki hún einnig undir með Hafrannsóknastofnun um að færsla eldiskvíanna geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Að auki verði meiri dreifing á úrgangi frá því sem nú sé. Eins og tíundað hafi verið bendi eðli og staðsetning framkvæmdar, sem og eiginleikar hugsanlegra umhverfisáhrifa hennar, til þess að rannsaka verði og fjalla ítarlega um þau atriði en ekki skauta fram hjá þeim með léttvægu orðalagi.

Þá hafi Vesturbyggð óskað eftir rannsókn á hávaðamengun vegna nálægðar eldiskvía við íbúðabyggð. Í því sambandi sé bent á aukna sjónmengun og ljósamengun frá sterkum ljóskösturum á fóðurprömmum við eldiskvíar, sem valdi því meira ónæði eftir því sem eldið sé fært nær íbúðabyggð.

Varðandi skyldu til að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna breytinga eða viðbóta við framkvæmdir sem þegar hafi verið leyfðar vísist til tölul. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sem og viðmiðana í 2. viðauka sömu laga. Enn fremur vísist til 13. tölul. a) í II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB, þar sem mælt sé fyrir um að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. sama viðauka, sem þegar hafi verið leyfðar og kunni að hafa veruleg skaðleg áhrif á umhverfið, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tilvísuðum ákvæðum sé skylt að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna hinna kærðu breytinga á framkvæmdinni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er tekið undir með kærendum að framsetning framkvæmdaraðila á fjarlægðum milli eldiskvía sé nokkuð villandi, en stofnunin geti ekki tekið undir það að um fölsun upplýsinga sé að ræða. Sjá megi í tilkynningu framkvæmdaraðila að mælingin taki til fjarlægðar milli rammafestinga sjókvía en ekki eldissvæða. Sé fjarlægð ekki næg eða ekki mæld á réttan hátt geti það ekki leitt til þess að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, eins og gefið sé til kynna í kærunni. Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé að finna skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum. Skilyrði þau sem fram komi í skilgreiningunni þurfi að vera uppfyllt þannig að framkvæmd sé matsskyld. Stofnunin bendi á að í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að Matvælastofnun geti, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar, heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Þegar Skipulagsstofnun hafi tekið sína ákvörðun hafi Matvælastofnun átt eftir að taka afstöðu til þess hvort undanþága yrði veitt frá fjarlægðarmörkum eður ei. Almennt sé sótt um undanþágu eftir að Skipulagsstofnun hafi tekið matsskylduákvörðun eða þegar álit um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Fái framkvæmdaraðilar ekki undanþágu frá Matvælastofnun sé ljóst að félögin geti ekki fengið leyfi fyrir eldinu. Í því tilliti sé ekki aðeins hægt að byggja á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar heldur þurfi skilyrði laga og reglugerða á öðrum sviðum en því sem taki til mats á umhverfisáhrifum að vera uppfyllt, eins og t.d. reglugerðar um fiskeldi.

Undir umsögn Matvælastofnunar skrifi ekki aðeins dýralæknir fiskisjúkdóma heldur einnig fagsviðsstjóri fiskeldis. Ekki sé því rétt að segja að dýralæknirinn gefi umsögn í málinu.

Skipulagsstofnun vísi því á bug að hún hafi með léttvægu orðalagi skautað fram hjá eðli framkvæmdarinnar og hugsanlegum umhverfisáhrifum hennar. Lestur á hinni kærðu ákvörðun með hlutlægum hætti leiði í ljós að ákvörðunin sé rökstudd með hliðsjón af viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að virtum fyrirliggjandi umsögnum.

Í umsögn Vesturbyggðar komi fram ósk um að hugað verði að hávaðamengun frá vinnusvæðinu utan dagvinnustunda, en ekki sé í umsögninni vikið sérstaklega að sjón- og ljósmengun. Í tölvupósti framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar 10. apríl 2018 komi fram að fóðrun sé almennt mest í dagsbirtu. Fóðurprammar, fóðrarar og tækjabúnaður séu knúnir áfram með rafmagni og því geti fylgt einhver hávaði frá ljósavélum séu þær olíuknúnar, líkt og oftast sé. Við Eyri hafi um nokkurt skeið verið unnið að undirbúningi á því að rafmagnskapall verði leiddur frá landi enda stutt fjarlægð. Það muni þá hafa í för með sér að hávaðamengun verði í algjöru lágmarki þegar fóðrað verði á tímabilum utan dagvinnutíma, enda þurfi þá ekki að knýja ljósavélar. Með þetta í huga og að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins hafi Skipulagsstofnun talið að sjónarmið um mengun og ónæði í v-lið 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 kölluðu ekki á að hin kærða framkvæmd sætti mati á umhverfisáhrifum.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að aðild og lögvarðir hagsmunir kærenda séu verulega vanreifaðir. Þá séu meintir hagsmunir kærenda svo almenns eðlis að þeir uppfylli ekki almenn skilyrði þess að teljast vera lögvarðir. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Því sé hafnað að málatilbúnaður kærenda í kærumálum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018 og 6/2018 komi til álita í máli þessu, enda lúti málin að óskyldum ákvörðunum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar um útgáfu starfs- og rekstrarleyfis. Í máli þessu sé einvörðungu til skoðunar ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna nýrra eldisstaðsetninga og verði að einskorða athugun málsins við það álitaefni.

Hafnað sé öllum fullyrðum kærenda um falsanir sem röngum. Umrædd mæling taki til fjarlægða milli kvíastæða en ekki útmarka eldissvæða, líkt og ranglega sé staðhæft í kæru. Í því samhengi leggi framkvæmdaraðili áherslu á að í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km, miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Þar komi hins vegar einnig fram að Matvælastofnun geti, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar, heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Ljóst sé því að það falli í skaut Matvælastofnunar að taka afstöðu til fjarlægðarmarka milli eldissvæða við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Sú ákvörðun sem sé hér til skoðunar varði aftur á móti það álitaefni hvort tilfærsla eldissvæðanna skuli háð mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um það álitamál hafi verið vel rökstudd út frá viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og séu því engir þeir ágallar á henni sem valdið geti ógildingu.

Skýrt megi ráða af ákvörðun Skipulagsstofnunar að fullt tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem fram kom í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 4. apríl 2018. Líkt og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé tekið undir með Hafrannsóknastofnun að færsla eldiskvía geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Aftur á móti sé tiltekið að botnstraumar í nágrenni fyrirhugaðra eldissvæða séu sterkir og súrefnisstyrkur almennt hár. Þá verði fyrirhuguð eldissvæði ekki fyrir dýpsta hluta fjarðarins þar sem styrkur súrefnis mælist lægstur á haustmánuðum. Með því að staðsetja kvíar þvert á straumstefnu verði meiri dreifing á úrgangi sem sé líklegt til að hafa jákvæð áhrif á uppsöfnun næringarefna frá því sem nú sé.

Vakin sé athygli á því að athugasemd Hafrannsóknastofnunar í umsögn hafi lotið að því að illgerlegt væri að segja til um það hvort nýjar staðsetningar myndu draga úr smitálagi vegna þess að vindar hefðu mikil áhrif á það hvernig yfirborðssjór berist á milli eldissvæða. Leggi framkvæmdaraðilar áherslu á að þrátt fyrir að ljóst sé að vindafar hafi nokkur áhrif á strauma í efstu lögum sjávar sé stóra myndin sú að streymi sjávar um strendur landsins sé almennt þannig að jarðsnúningur ráði miklu. Líkt og fram komi í greinargerð ráðgjafa vegna tillagna um breytingu á staðsetningu eldissvæða sé staðan sú að með ströndum umhverfis Íslands liggi svonefndur strandsjór réttsælis um landið. Meginstefna strandsjávarins við Ísland sé þannig að innstreymi virðist hægra megin fjarðar þegar horft sé inn fjörðinn en útstreymi vinstra megin. Framkvæmdaraðilar hafi látið framkvæma straummælingar á svæðum sínum og styðji niðurstöður þeirra þessa mynd af meginstraumstefnu í Patreksfirði, inn fjörðinn að sunnan og út fjörðinn að norðan.

Kærendur kjósi að líta fram hjá jákvæðum umsögnum annarra sérfróðra umsagnaraðila í málinu, s.s. Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Samgöngustofu og Strandveiðifélagsins Króks. Enginn framangreindra sérfróðra aðila hafi talið ástæðu til að mæla með því að breytt staðsetning eldissvæða skyldi leiða til mats á umhverfisáhrifum og það hafi Hafrannsóknastofnun í raun ekki heldur gert. Það sé samdóma álit nánast allra umsagnaraðila og Skipulagsstofnunar að hin umdeilda tilfærsla sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Framkvæmdaraðilar hafni því að umsögn Matvælastofnunar, sem dýralæknir fiskisjúkdóma stofnunarinnar skrifi m.a. undir, geti haft nokkur áhrif á gildi ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Engin tengsl séu á milli viðkomandi dýralæknis og framkvæmdaraðila og  hagsmunir séu ekki með þeim hætti að draga megi hæfi hans í efa með hliðsjón af hæfisreglum stjórnsýsluréttar. Sé um að ræða umsögn Matvælastofnunar en ekki viðkomandi dýralæknis og sé umsögnin, auk viðkomandi dýralæknis, undirrituð af fagsviðsstjóra fiskeldis hjá stofnuninni. Skipulagsstofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem fyrir liggi við meðferð máls heldur leggi hún sjálfstætt mat á þá umhverfisþætti sem henni sé falið samkvæmt fyrirmælum í lögum og reglugerðum. Umsögnin hafi því ekkert sjálfstætt lögformlegt vægi sem valdið geti ógildingu ákvörðunar um matsskyldu. Af rökstuðningi Skipulagsstofnunar megi ráða að ákvörðunin sé vel ígrunduð og rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða laga. Meint vanhæfi viðkomandi dýralæknis geti því engin áhrif haft á meðferð málsins og gildi hinnar umþrættu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Lúti athugasemdir kærenda varðandi umsögn Matvælastofnunar einvörðungu að meintu vanhæfi viðkomandi dýralæknis en ekki að því að þar sé um að ræða rangfærslur.

Kærendur bendi á að fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar að gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem nú sé og að færsla eldiskvíanna geti orðið til þess að úrgangsefni muni í auknum mæli safnast fyrir í botnlagi fjarðarins. Auk þess verði meiri dreifing á úrgangi. Bent sé á að í sömu efnisgrein og kærendur vitni til segi orðrétt: „Aftur á móti eru botnstraumar í nágrenni fyrirhugaðra eldissvæða sterkir og súrefnisstyrkur við botn Patreksfjarðar almennt hár. Þá verða fyrirhuguð eldissvæði ekki yfir dýpsta hluta Patreksfjarðar þar sem styrkur súrefnis mælist lægstur á haustmánuðum. Með því að staðsetja kvíar þvert á straumstefnu verði meiri dreifing á úrgangi sem sé líklegt að hafa jákvæð áhrif á uppsöfnun næringarefna frá því sem nú er. Skipulagsstofnun tekur undir með Umhverfisstofnun um að fyrirhuguð færsla eldissvæða sé ekki líkleg til að auka lífrænt álag í firðinum.“ Ljóst sé samkvæmt framansögðu að Skipulagsstofnun rökstyðji vel hvers vegna tilvitnuð áhrif séu ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Fallist Skipulagsstofnun á að meiri dreifing á úrgangi sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif frá því sem nú sé, öfugt við það sem kærendur gefi í skyn.

Ekki sé rétt að Vesturbyggð hafi óskað eftir rannsókn á hávaðamengun. Hið rétta sé að í umsögn Vesturbyggðar, sem fram hafi komið á 831. fundi bæjarráðs hinn 6. apríl 2018, segi að vegna nálægðar við íbúðabyggð óski bæjarráð eftir „að hugað verði að hávaðamengun frá vinnusvæðinu utan dagvinnustunda.“ Í þessu samhengi sé áréttað að áhyggjum Vesturbyggðar vegna hávaðamengunar hafi verið svarað við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Þar hafi verið upplýst að starfsemi fiskeldi fylgi að mestu starfsemi á venjulegum vinnutíma. Einhver hávaði geti fylgt fóðrun utan dagvinnutíma vegna ljósavéla sem hafi hingað til verið olíuknúnar. Unnið hafi verið að því að leiða rafmagnskapal að eldissvæði við Eyri sem sé næst Patreksfjarðarbæ. Þegar að þeirri vinnu ljúki verði dregið verulega úr hávaðamengun.

Samkvæmt tölul. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 skuli allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt flokki A, aðrar en tilgreindar séu í tölul. 13.01, og flokki B sem hafi þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, metnar í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, sbr. einnig 2. viðauka laganna. Með öðrum orðum sé ekki um fortakslausa matsskyldu að ræða, líkt og kærendur haldi fram, heldur eigi að fara fram atviksbundið mat. Slíkt mat hafi nú farið fram og sé rökstudd niðurstaða Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi.

Málið hafi hlotið ítarlega og vandaða málsmeðferð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og séu engir efnis- eða formannmarkar á afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar sem leitt geti til ógildingar. Jafnvel þótt fallist yrði á málatilbúnað kærenda að einhverju leyti sé ljóst að meintir annmarkar, sem kærendur reisi mál sitt á, geti ekki talist verulegir eða til þess fallnir að leiða til rangrar efnislegrar niðurstöðu. Í samræmi við framangreint, stjórnarskrárvarin réttindi framkvæmdaraðila og meginreglur stjórnsýsluréttar, þurfi sérstaklega mikið til að koma svo að komið geti til álita að fella ívilnandi ákvörðun úr gildi. Fari því fjarri að þær röksemdir sem hafi verið teflt fram geti stutt slíka niðurstöðu í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 að breyting á staðsetningu eldissvæða Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. í Patreksfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hafa margvíslegar breytingar átt sér stað í tengslum við fiskeldisstarfsemi framkvæmdaraðila eftir að hin kærða ákvörðun í máli þessu var tekin. Vegna þessa beindi úrskurðarnefndin þeirri fyrirspurn til kærenda hvort grundvöllur væri fyrir afturköllun málsins vegna nýrrar stöðu mála. Í svari þeirra er bent á að mat á umhverfisáhrifum hafi í meginatriðum farið fram á árunum 2013 til 2015 og leyfi verið veitt vegna framkvæmdar sem hafi verið lýst í frummatsskýrslu frá 6. maí 2016. Við ógildingu leyfa í lok september og byrjun október 2018 hafi eingöngu verið byggt á því að í mati á umhverfisáhrifum hafi ekki verið með fullnægjandi hætti fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, en hvergi hafi verið fjallað um breytta framkvæmd frá þeirri sem fjallað hafi verið um í frummatsskýrslunni 6. maí 2016. Því verði ekki séð að niður sé fallinn grundvöllur kærunnar og óskist hún tekin til úrskurðar nefndarinnar.

Svo sem áður er komið fram felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi og rekstrarleyfi félaganna Arctic Sea Farm og Fjarðalax frá desember 2017 með úrskurðum kveðnum upp í lok september og byrjun október 2018. Til að bæta úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefndin hefði talið vera á matsskýrslu félaganna frá árinu 2016 lögðu þau fram „Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ í janúar 2019. Í kjölfarið var lögð fram „Viðbót við matsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ og óskuðu félögin eftir áliti Skipulagsstofnunar á þeirri viðbót. Í áliti stofnunarinnar frá 16. maí 2019 kemur fram að í viðbótarmatsskýrslu sé fjallað um þrjá valkosti með tilliti til staðsetningar eldissvæða, þ.e. upphaflegar staðsetningar sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar árið 2016, nýja staðsetningu í Patreksfirði og nýja staðsetningu í Tálknafirði. Í álitinu er svo að finna mat stofnunarinnar á áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti bæði hvað varðar upphaflegar og nýjar staðsetningar.

Á grundvelli viðbótarmatsskýrslu félaganna og álits Skipulagsstofnunar voru í lok ágúst 2019 gefin út ný starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir félögin. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. laganna fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Þau leyfi sem nú hafa verið gefin út styðjast hins vegar ekki við hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. apríl 2018 um að breyting á staðsetningu eldissvæða skuli ekki háð mat á umhverfisáhrifum heldur við álit sömu stofnunar frá 16. maí 2019. Að svo komnu máli er ljóst að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur þá þýðingu sem ráð er fyrir gert í nefndri 1. mgr. 13. gr, en ný leyfi hafa ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar. Með vísan til þessa, og eins og atvikum háttar hér sérstaklega, hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af úrlausn máls þessa. Verður enda ekki séð að úrlausn þess myndi breyta því réttarástandi sem nú er til staðar, jafnvel þótt krafa kærenda um ógildingu næði fram að ganga. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega og sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

27/2019 Kambahraun

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 um að samþykkja umsókn um stækkun lóðarinnar að Kambahrauni 51 og viðbyggingar við íbúðarhús og bílskúr á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. apríl 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra eigendur, Kambahrauni 60, Hveragerði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 að samþykkja umsókn um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 og viðbyggingar við íbúðar­hús og bílskúr á lóðinni. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 24. maí 2019.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 8. janúar 2019 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr á lóð nr. 51 við Kambahraun og stækka lóðina. Í umsókninni fólst að samþykktar yrðu viðbyggingar við íbúðarhús og bílskúr og stækkun lóðarinnar til norðurs um 4,5 m. Eftir breytinguna yrði stærð íbúðar 172,5 m², stærð bílskúrs 91 m² og flatarmál lóðar 906,1 m² með nýtingarhlutfallið 0,29. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að umsóknin yrði grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðsla á fundi sínum 10. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 5. mars s.á. þar sem lagt var til við bæjarstjórn að erindið yrði samþykkt en komið yrði til móts við athugasemdir varðandi framkvæmdir á svæði vestan lóðarinnar með því að mön yrði lækkuð um einn metra og opnuð með tveggja metra breiðu skarði til vesturs. Afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt í bæjarstjórn 14. mars 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og fari gegn lögmætisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nauðsynlegt hafi verið að gera deiliskipulag vegna framkvæmdanna en í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að meginreglan sé sú að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Í 1. mgr. 44. gr. laganna sé að finna undanþágu frá þeirri skyldu í þeim tilvikum þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi á ódeiliskipulögðu svæði, sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, en þá að undangenginni grenndarkynningu. Sú framkvæmd sem hér um ræði sé ekki í samræmi við byggðamynstur í hverfinu enda sé ljóst að ef af verði raskist götumynd. Verði viðbyggingin við íbúðarhús lóðarhafa að veruleika sé ljóst að hún muni byrgja sýn annarra úr bakgörðum sínum að útivistarsvæði sem sé við enda botnlanga götunnar. Viðbyggingin muni gera það að verkum að stofur lóðarhafa og kærenda verði mjög nálægt hvor annarri og greiðlega sjáist úr annarri stofunni inn í hina.

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar hafi verið vanhæfur við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar, en hann sé tengdafaðir lóðarhafa. Þótt hann hafi vikið af fundi þegar málið hafi verið tekið fyrir sé það hann sem undirbúi grenndarkynninguna og undirriti hana. Rannsóknar­regla stjórnsýsluréttarins hafi verið virt að vettugi enda verði ekki séð að fram­komnar athugasemdir kærenda á grenndarkynningartíma hafi verið teknar til skoðunar.

Málsrök Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld byggja á því að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af stækkun bílskúrs til norðurs á umræddri lóð og stækkun lóðarinnar til norðurs í ljósi staðsetningar lóðar kærenda enda taki efni kærunnar alfarið mið af stækkun íbúðarhúss til vesturs. Lóðin Kambahraun 51 og lóð kærenda liggi ekki saman og um 17 m verði á milli viðbyggingar á lóðinni til vesturs og mannvirkis á lóð kærenda. Grenndaráhrif gagnvart kærendum séu því óveruleg ef nokkur.

Umrætt svæði sé á skilgreindu íbúðarsvæði innan þéttbýlis. Geti því meintar réttmætar væntingar kærenda ekki staðið framkvæmdunum í vegi. Skilyrðum 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fullnægt til þess að fara með málið í farveg grenndarkynningar. Framkvæmdirnar séu í samræmi við Aðal­skipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029 en lóðin sé innan skilgreindrar íbúðarbyggðar. Með heimiluðum framkvæmd­um sé byggðamynstri ekki raskað þar sem í þeim felist hvorki hækkun mannvirkja né breyting á nýtingu og nýtingarhlutfall sé innan marka skipulagsskilmála aðalskipulags. Bent sé á til samanburðar að nýtingar­hlutfall lóðar kærenda sé rúmlega 0,28 og nýtingarhlutfall lóða við götuhlutann sem Kambahraun 51 standi við sé á bilinu 0,23-0,31. Fari auknar byggingarheimildir því ekki í bága við þéttleika byggðar á svæðinu.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslu­­­­­­laga nr. 37/1993. Starfsmenn bæjarins hafi farið á vettvang bæði fyrir og eftir grenndar­kynningu og hafi kannað staðhætti. Þótt láðst hafi að taka fram í tilkynningu til kærenda um ákvörðunina að unnt væri að fá hana rökstudda, geti það ekki haft áhrif á gildi hennar. Um sé að ræða óverulegan formannmarka á tilkynningu um ákvörðun sem þegar hafi verið tekin.

Samkvæmt gr. 2.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 annist skipulagsfulltrúi kynningu og auglýsingu á grenndarkynningu. Í samræmi við þau fyrirmæli hafi hann undirritað bréf um grenndarkynningu í máli þessu en ekki komið að ákvörðunum varðandi hana. Hann hafi vikið sæti á meðan málið hafi verið rætt hjá skipulags- og mannvirkjanefnd og hafi því ekki verið í neinni aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu nefndarmanna til málsins. Eigi vanhæfissjónarmið því ekki við í málinu.

Athugasemdir lóðarhafa: Af hálfu lóðarhafa er vísað til þess að skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fyrir hendi og að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar á svæðinu. Fyrirhuguð viðbygging muni ekki hafa nein áhrif á götumynd enda muni hún rísa til vesturs miðað við aðal­byggingu og muni á engan hátt hafa áhrif á ásýnd húss við götu. Framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér skuggavarp á lóð eða fasteign kærenda og útsýnisskerðing muni verða engin eða í öllu falli svo minniháttar að hún muni ekki hafa í för með sér neina röskun á hagsmunum þeirra. Ekki verði séð að stofur lóðarhafa og kærenda verði mjög nálægt hvor annarri eftir breytingarnar. Fjarlægð milli húshorna umræddra húsa verði u.þ.b. 1,5 m þar sem fasteignirnar liggi skáhallt hvor á móti annarri en ekki hlið við hlið.

Meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við málsmeðferðar­­­­reglur skipulagslaga. Málið hafi verið grenndarkynnt fyrir kærendum í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Kærendur hafi gert athugasemdir og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd tekið afstöðu til þeirra í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. gr. 5.9.4. reglugerðarinnar. Þá hafi skipulags­fulltrúi ekki tekið þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn málsins í skilningi 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga.

—–

Frekari rök og sjónarmið aðila máls liggja fyrir en ekki þykir ekki ástæða til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í hinni grenndarkynntu umsókn, sem sveitarstjórn samþykkti, fólst annars vegar fyrirhuguð stækkun íbúðarhúss og bílskúrs á lóðinni Kambahrauni 51 og hins vegar beiðni um stækkun lóðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 veitir byggingarfulltrúi byggingar­leyfi, samþykkir byggingaráform samkvæmt 11. gr. og gefur út byggingarleyfi, sbr. 13. gr. laganna. Sveitarstjórn tekur hins vegar ákvörðun um skiptingu landa og lóða og breytingu á lóðamörkum skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með tölvupósti 6. nóvember 2019 fór úrskurðarnefndin þess á leit við byggingarfulltrúa að hann afhenti nefndinni áritaða uppdrætti um samþykki byggingaráforma fyrir umdeildum við­byggingum að Kambahrauni 51. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 14. s.m. þar sem fram kom að umrædd byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt af hans hálfu, aðaluppdrættir yfirfarnir til stað­festingar á samþykki byggingarleyfis eða byggingarleyfi gefið út. Hefur byggingarfulltrúi staðfest að sú staða sé enn óbreytt.

Samkvæmt því sem að framan greinir var hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. mars 2019 ekki lokaákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingum á lóðinni Kambahrauni 51 í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður ekki hjá því komist að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins um umrædda stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 um 4,5 metra til norðurs. Samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis­­bæjar 2017-2029 er lóðin Kambahraun 51 á svæði merktu ÍB2, Kambahraun, Borgarhraun og Dynskógar 1-17. Um svæðið segir að það sé fullbyggt og einkennist aðallega af lágreistum einbýlishúsum. Sveitarfélagið byggir á því að fyrir ákvörðun um lóðarstækkunina hafi legið samþykki lóðarhafa og að ákvörðunin hafi verið málefnaleg m.t.t. staðsetningar lóðarinnar sem sé endalóð. Ekki hafi verið svigrúm vegna staðhátta til þess að skipuleggja aðra lóð norðan við Kambahraun 51. Efnisleg rök bjuggu því að baki ákvörðun sveitar­stjórnar um stækkunina. Umrædd stækkun var tekin úr landi sveitarfélagsins og var þar með ekki gengið á lóðarréttindi kærenda.

Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með skipulagsgerð, svo sem við undirbúning hennar, annast kynningu og auglýsingu á lýsingu, grenndarkynningu og skipulags­tillögum, skv. 7. gr. skipulagslaga, sbr. gr. 2.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Liggur fyrir að skipulags­fulltrúi kom að undirbúningi málsins með undirritun bréfs um grenndar­kynningu en hann er tengdafaðir lóðarhafa. Hann vék hins vegar sæti við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og mannvirkjanefnd. Þá er lokaafgreiðsla um lóðarstækkunina í höndum sveitarstjórnar sem skipulagsfulltrúi hefur enga aðkomu að. Af þeim sökum verður hin kærða ákvörðun ekki ógilt vegna fjölskyldutengsla skipulagsfulltrúa og lóðarhafa.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hveragerðisbæjar um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51, Hveragerði.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

114/2018 Skógarhlíð

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 1. ágúst 2018 um að kæranda beri að sækja um starfsleyfi til reksturs samgöngumiðstöðvar að Skógarhlíð 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Bus Hostel ehf., Skógarhlíð 10, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur frá 1. ágúst 2018 um að kæranda beri að sækja um starfsleyfi til reksturs samgöngumiðstöðvar í greindu húsnæði kæranda Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júní 2019, er barst nefndinni 20. s.m., fór kærandi fram á frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. október 2018.

Málavextir: Kærandi rekur gistiheimili að Skógarhlíð 10 og hefur leyfi til reksturs gististaðar, ferðaskipuleggjendaleyfi, veitingaleyfi og vínveitingaleyfi auk þess sem reksturinn er skráður sem upplýsingamiðstöð og bókunarþjónusta. Í tengslum við rekstur sinn hefur kærandi gert samninga við þrjú tiltekin félög, sem öll reka hópferðabíla og sinna áætlanaferðum, þar sem félögunum er tryggður réttur til að nýta hluta lóðar og húsnæðis að Skógarhlíð 10. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafa u.þ.b. 30 hópferðabifreiðar viðkomu við Skógarhlíð 10 dag hvern.

Í kjölfar kvartana vegna hávaða og mengunar fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur í eftirlitsferðir á umræddan stað dagana 25. maí 2018, 30. s.m. og 26. júlí s.á. Hinn 11. júní 2018 sendi heilbrigðiseftirlitið kæranda bréf þar sem fram kom að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sé samgöngumiðstöð rekin að Skógarhlíð 10. Farið var fram á að rekstur samgöngu­miðstöðvar­innar yrði tafarlaust stöðvaður. Kærandi svaraði framangreindu bréfi 10. júlí 2018 þar sem fram kom að hann teldi að ekki væri rekin samgöngumiðstöð að Skógarhlíð 10. Sama afstaða kæranda kom fram á fundum hans með Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 18. júní 2018 og 27. júlí s.á.

Í bréfi, dags. 1. ágúst 2018, kemur fram að ekki sé fallist á sjónarmið kæranda. Niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé að kærandi reki samgöngumiðstöð í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, fylgiskjals nr. 1 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og samræmdra starfsleyfisskilyrða samgöngumiðstöðva. Kæranda beri því að sækja um starfsleyfi án frekari dráttar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að rekstur hópferðabifreiða hafi verið stundaður um áratugaskeið á lóðinni að Skógarhlíð 10. Húsið hafi verið byggt árið 1965 undir rekstur Landleiða og Norðurleiðar. Þingvallaleið hafi byrjað rekstur í húsinu árið 1995. Nú hafi Þingvallaleið, Landleiðir og BusTravel Iceland bækistöðvar á lóðinni. Í húsnæðinu hafi því verið rekin hópferðastarfsemi í yfir 50 ár án þess að þar hafi verið talin rekin samgöngumiðstöð. Ekkert í skipulagi svæðisins komi í veg fyrir reksturinn eins og hann sé í dag ásamt því að fjölbreyttur atvinnurekstur er tengist þjónustu og léttum iðnaði sé við götuna.

Óumdeilt sé að rekstur samgöngumiðstöðva sé starfsleyfisskyld starfsemi skv. viðauka V í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og fylgiskjali 1 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Hvorki sé að finna skilgreiningu á hugtakinu samgöngumiðstöð í lögum né í reglugerðum og því sé ekki ljóst hvaða rekstur teljist starfsleyfisskyldur í þessu sambandi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendi á samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga þar sem segi að skilyrðin gildi fyrir samgöngumiðstöðvar þar sem almenningur njóti þjónustu í tengslum við fólksflutninga. Kærandi hafi mótmælt þessari nálgun enda gætu starfsleyfisskilyrðin aðeins átt við um samgöngumiðstöðvar. Í starfsleyfis­skilyrðunum verði hins vegar ekki ákveðið hvaða starfsemi falli þar undir. Einnig virðist ljóst að samgöngumiðstöðvar taki til starfsemi þar sem almenningssamgöngur séu hluti rekstursins en engar almenningssamgöngur tengist starfseminni að Skógarhlíð 10. Við meðferð málsins hafi heilbrigðiseftirlitið upplýst að einungis tveir aðilar hafi starfsleyfi til að reka samgöngumiðstöð, þ.e. Flugfélag Íslands og Umferðarmiðstöðin. Gera verði ráð fyrir að starfsleyfi þessi tengist starfsemi Reykjavíkurflugvallar og BSÍ. Starfsemin þar sé eðlisólík þeirri sem fram fari í Skógarhlíð, m.a. vegna þess að þessir staðir gegni hlutverki í almennings­samgöngum.

Kærandi hafi ítrekað bent á að ekki megi leggja skilgreiningu laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017 til grundvallar við mat á því hvort um samgöngumiðstöð sé að ræða. Miðstöð þar sé skilgreind sem „[m]iðstöð, mönnuð starfsfólki, með t.d. innritunar­borði, biðsal eða miðasölu, þar sem höfð er viðkoma á tiltekinni akstursleið samkvæmt tímaáætlun og farþegum hleypt inn eða út.“ Lögin hafi síðan að geyma skilyrði varðandi starfsemi miðstöðvar, t.d. varðandi aðgengi fatlaðra og bótaábyrgð án þess þó að starfsemi þeirra sé starfsleyfisskyld.

Hin kærða ákvörðun virðist fela í sér stefnubreytingu af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og ljóst að fjölmargir aðilar yrðu taldir reka samgöngumiðstöðvar verði ákvörðunin staðfest. Miðað við ákvörðunina sé um samgöngumiðstöð að ræða á öllum þeim fjölmörgu stöðum þar sem upphafsstaður ferða hópferðabifreiða sé. Ljóst sé að slík túlkun fái ekki staðist.

Af öllu framangreindu telur kærandi ljóst að hann reki ekki samgöngumiðstöð sem sé starfsleyfisskyld. Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er bent á að samgöngumiðstöð sé starfsleyfisskyldur rekstur sbr. viðauka V í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og fylgiskjal nr. 1 við reglugerð nr. 941/2002 um hollustu­hætti. Samgöngumiðstöð sé hvorki skilgreind í lögunum né reglugerðinni, en finna megi skilgreiningu á samgöngumiðstöð í samræmdum starfsleyfisskilyrðum Umhverfis­stofnunar og heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, sem síðast voru uppfærð árið 2017. Í gr. 1.1. í starfsleyfis­skilyrðunum segi að samgöngumiðstöð sé staður „þar sem almenningur nýtir þjónustu í tengslum við fólksflutninga“ og þær kröfur séu m.a. gerðar til samgöngumiðstöðva í starfsleyfis­skilyrðum að farþegar hafi aðstöðu til að fara á salerni. Bus Hostel sjái farþegum rútufyrirtækjanna fyrir bið- og salernisaðstöðu.

Óumdeilt sé að kærandi hafi gert samning við tiltekin nafngreind félög, sem öll sinni fólks­flutningum og stefni viðskiptavinum sínum að Skógarhlíð 10 til að þjónusta viðskiptavini þeirra og bjóða upp á aðstöðu í húsnæðinu. Sem dæmi megi benda á Airport Direct, en á heimasíðu félagsins segi m.a. „Included in our standard price is pick up and drop off at Reykjavík main bus stop at Skógarhlíð 10, 105 Reykjavík.“ Ljóst sé að einn þeirra aðila sem nýti þjónustuna að Skógarhlíð 10 líti á húsnæðið sem „main bus stop“, sem vart verði skýrt öðruvísi en sem samgöngumiðstöð. Jafnframt sé það afstaða heilbrigðiseftirlitsins að kærandi reki almennings­samgöngur. Vísist til þess að í máli umboðsmanns kæranda komi fram að hver sem er geti átt viðskipti við þau félög sem stundi akstur til og frá Skógarhlíð 10. Engar takmarkanir væru settar fyrir því hver gæti keypt farmiða með aðilum sem þaðan aki. Líta verði til almennrar málvenju þegar hugtakið „almenningssamgöngur“ sé túlkað, en með því sé þá átt við samgönguþjónustu sem allir aðilar eigi jafnan kost á að nýta sér en sé ekki sérstaklega ætluð tilteknum hópi einstaklinga. Með vísan til framangreinds sé því hafnað að misskilningur á starfsemi kæranda hafi leitt til hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru sé bent á að kærandi hafi leyfi til reksturs gististaðar, ferðaskipuleggjandaleyfi, veitinga­leyfi og vínveitingaleyfi og með skráningu sem upplýsingamiðstöð og bókunarþjónusta. Hvað sem þessum leyfum líði þá beri kæranda að sækja um starfsleyfi skv. 1. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Engin ofantalin leyfi innihaldi eða komi í stað starfsleyfis heilbrigðiseftirlits til reksturs samgöngumiðstöðvar.

Í kæru komi jafnframt fram að kærandi telji ástæðu til að benda á að ekki skuli horfa til skýringar á hugtakinu miðstöð í lögum nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Hvergi við vinnslu málsins hafi verið litið til framangreindra laga, enda eigi þau ekki við um málefnið. Þá sé því hafnað sem röngu að hin kærða ákvörðun feli í sér stefnubreytingu hvað varði starfsleyfiskröfur til þeirra aðila sem reki samgöngumiðstöðvar. Nú þegar séu þeir aðilar sem reki samgöngumiðstöðvar í Reykjavík með útgefin starfsleyfi. Sá staður þar sem aðili hefji ferð sína, t.d. við hótel þar sem hann sé sóttur og fluttur til samgöngumiðstöðvar, teljist ekki samgöngumiðstöð enda verði ekki litið á þann stað sem aðstöðu þar sem almenningi sé veitt þjónusta í tengslum við fólksflutninga.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. nóvember 2019.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort starfsemi kæranda að Skógarhlíð 10 feli í sér starfsleyfisskyldan rekstur samgöngumiðstöðvar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sem talinn er upp í viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi. Í viðauka V eru samgöngumiðstöðvar og almennings­samgöngutæki talin upp. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti kemur einnig fram að starfsemi sem upp er talin í fylgiskjali 1 með reglugerðinni skuli hafa gilt starfsleyfi og eru þar á meðal samgöngumiðstöðvar og almenningssamgöngutæki. Ráðast úrslit máls þessa af því hvaða starfsemi falli undir hugtakið „samgöngumiðstöð“ samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Hugtakið er hvorki skilgreint í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir né í reglugerð um hollustu­hætti.

Samkvæmt gr. 1.1. í samræmdum starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og heilbrigðis­eftirlita sveitarfélaganna kemur fram að skilyrðin gildi fyrir samgöngumiðstöðvar þar sem almenningur njóti þjónustu í tengslum við fólksflutninga. Dæmi um samgöngumiðstöðvar séu flugstöðvar, umferðarmiðstöðvar og miðstöðvar ferjusiglinga, en nánari skilgreiningu hug­taksins er ekki að finna í skilyrðunum. Fallast verður á með kæranda að starfsleyfisskilyrðin hafi ekki úrslitaþýðingu þegar ákvarðað er hvenær um samgöngumiðstöð er að ræða. Eðli máls samkvæmt þarf því fyrst að ákvarða hvort um samgöngumiðstöð sé að ræða áður en starfsleyfisskilyrðum fyrir samgöngu­miðstöðvar sé beitt. Af dæmum þeim sem tilgreind eru í nefndum starfsleyfisskilyrðum þarf starfsemin samkvæmt þeim að vera nokkur að umfangi.

Við mat á því hvort skilgreina eigi samgöngumiðstöð sem stöð í skilningi 17. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir verður að hafa í huga að hugtakinu „stöð“ var bætt við lögin með 3. gr. breytingarlaga nr. 66/2017. Samkvæmt 46. gr. þeirra laga voru þau sett til innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði. Í enska texta tilskipunarinnar er orðið „installation“ að finna, en íslensk þýðing þess er „stöð“ samkvæmt lagatextanum. Orðið „installation“ þýðir samkvæmt ensk-íslenskri orðabók uppsetning, lagning eða uppsetning búnaðar. Ljóst er að slík orðnotkun á lítið skylt við viðskeytið -miðstöð, líkt og það er notað í orðinu samgöngumiðstöð. Þau orð sem bera viðskeytið -miðstöð í íslensku útgáfu laganna voru í lögunum áður en hugtakinu „stöð“ var bætt við lögin. Með hliðsjón af framangreindu kemur skilgreining á hugtakinu „stöð“ skv. 17. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir ekki til skoðunar við túlkun á hugtakinu „samgöngumiðstöð.“

Það er því þörf á að leita út fyrir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir við túlkun á hugtakinu „samgöngumiðstöð.“ Fjallað er um samgöngumiðstöðvar í þremur öðrum lagabálkum. Í fyrsta lagi í 148. gr. b. siglingalaga nr. 34/1985. Í þeirri grein er kveðið á um að farþegar geti beint kvörtun til Samgöngustofu telji þeir að flutningsaðili, ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi eða rekstraraðili samgöngumiðstöðvar hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010, eða reglugerðum settum á grundvelli 3. mgr. 148. gr. a. siglingalaga. Samkvæmt 2. gr. framangreindrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) gildir hún aðeins um farþegaflutninga á sjó. Í ljósi framangreinds koma siglingalög nr. 34/1985 ekki til frekari skoðunar.

Í öðru lagi er hugtakið „samgöngumiðstöð“ að finna í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt viðaukanum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum. Í gr. 10.04 er fjallað um byggingu samgöngumiðstöðva fyrir marg­þátta samgöngustarfsemi. Enga skilgreiningu á hugtakinu er að finna í lögunum. Þó liggur fyrir að ágreiningur sá sem hér er til umfjöllunar varðar hvorki mat á umhverfisáhrifum né byggingu samgöngumiðstöðvar fyrir margþátta samgöngustarfsemi. Þá er engar frekari leiðbeiningar að finna í lögunum eða lögskýringargögnum sem gætu nýst við túlkun á hugtakinu samgöngu­miðstöð.

Í þriðja lagi kemur orðið samgöngumiðstöð fyrir í V. kafla laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nánar tiltekið í 1. mgr. 20. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um upplýsingar sem flytjendur sem selji eða annist farþegaflutninga á vegum skuli láta farþegum í té skriflega eða rafrænt á öllum samgöngumiðstöðvum og sölustöðum.  Hugtakið „samgöngu­miðstöð“ kemur aðeins fyrir á þessum eina stað í lögunum en orðið „miðstöð“ kemur fyrir fjórum sinnum í V. kafla. Hugtakið „samgöngumiðstöð“ er hvergi skilgreint í lögunum eða lögskýringargögnum en í 11. tölul. 3. gr. laganna er hugtakið „miðstöð“ skilgreint. Skilgreiningin er svohljóðandi: „Miðstöð, mönnuð starfsfólki, með t.d. innritunarborði, biðsal eða miðasölu, þar sem höfð er viðkoma á tiltekinni akstursleið samkvæmt tímaáætlun og farþegum er hleypt inn eða út.“ Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að nefndum lögum segir um 3. gr. að bætt sé við skilgreiningu á hugtakinu „miðstöð.“ Hugtakið sé skilgreint í reglugerð (ESB) nr. 181/2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og komi fyrir í ákvæðum V. kafla um réttindi farþega. Því þótti rétt að taka upp skilgreiningu hugtaksins eins og hún er í reglugerðinni. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur einnig fram að um hreint innleiðingarfrumvarp sé að ræða, að 2. gr. undanskilinni. Því þykir rétt að skoða skilgreininguna í reglugerð (ESB) nr. 181/2011 til að athuga hvort að hugtökin „miðstöð“ og „samgöngumiðstöð“ séu notuð í sama skilningi í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Í m-lið 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreining á hugtakinu „terminal.“ Í skilgreiningunni segir: „‘terminal’ means a staffed terminal where according to the specified route a regular service is scheduled to stop for passengers to board or alight, equipped with facilities such as a check-in counter, waiting room or ticket office.“ Skilgreining 11. tölul. 3. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga er orðrétt þýðing þessarar skilgreiningar. Í o-lið 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreining á „terminal managing body.“ Í þeirri skilgreiningu segir: „‘terminal managing body’ means an organisational entity in a Member State responsible for the management of a designated terminal.“ Með „terminal managing body“ er því átt við þann aðila sem sér um rekstur miðstöðvar. Enginn slíkur greinarmunur er gerður á miðstöð eða rekstraraðila miðstöðvar í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Í íslensku lögunum er „miðstöð“ notað jöfnum höndum yfir þau tilvik sem reglugerðin notar annars vegar „terminal“ og hins vegar „terminal managing body.“ Þá verður ekki séð að munur sé gerður á notkun hugtakanna „miðstöð“ og „samgöngumiðstöð“ innan laganna. Loks verður að horfa til þess að lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi gilda um farþegaflutninga í atvinnuskyni með bifreiðum sem eru skráðar fyrir níu farþega eða fleiri, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Lögin gilda þannig á sama sviði og sú starfsemi kæranda sem deilt er um í þessu máli. Samkvæmt framansögðu verður að telja skilgreiningu 11. tölul. 3. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi vera nærtækustu skilgreiningu íslensks réttar á hugtakinu „samgöngu­miðstöð“.

Við mat á því hvort um samgöngumiðstöð er að ræða þarf því að athuga hvort að skilyrði 11. tölul. 3. gr. laganna séu uppfyllt, þ.e. hvort starfsfólk sé á svæðinu, ásamt innritunar­borði, biðsal eða miðasölu, þar sem höfð er viðkoma á tiltekinni akstursleið samkvæmt tíma­áætlun og farþegum hleypt inn eða út. Vettvangsskoðun úrskurðarnefndarinnar leiddi í ljós að á svæðinu er starfsfólk, innritunarborð, biðsalur og miðasala. Þá eru m.a. 23 skipulagðar rútuferðir frá Skógarhlíð 10 að Keflavíkurflugvelli á hverjum degi ásamt 13 ferðum í Bláa lónið að vetri en 17 ferðum á dag yfir sumartímann samkvæmt kynningarbæklingi fyrirtækisins sem lá frammi á staðnum. Samkvæmt framansögðu er ljóst að höfð er viðkoma á tilteknum akstursleiðum samkvæmt tímaáætlun og farþegum er hleypt inn og út á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að starfsemi kæranda að Skógarhlíð 10 feli í sér starfsleyfisskyldan rekstur samgöngumiðstöðvar og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 1. ágúst 2018 um að kæranda beri að sækja um starfsleyfi til reksturs samgöngumiðstöðvar að Skógarhlíð 10 í Reykjavík.

107/2019 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2019, föstudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 um að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum á kostnað eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2019, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum, Hornafirði, á kostnað eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 30. október 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Það varðar frístundahús kæranda á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum, sem hefur staðið þar frá 2006 samkvæmt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. júlí 2018, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á umræddri lóð væri synjað þar sem framkvæmdin samræmdist ekki skipulagsáætlunum, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Húsið væri nær lóðarmörkum en 10 m og uppfyllti það því ekki skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem mælir fyrir um að ekki skuli byggja nær lóðarmörkum í frístundabyggð en 10 m. Með ákvörðun byggingarfulltrúa Horna­fjarðar frá 30. júlí 2018 var kæranda gert að fjarlægja sumarhúsið á lóðinni á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki þar sem húsið væri án byggingarleyfis, væri staðsett utan byggingarreits lóðar og u.þ.b. tveimur metrum frá mörkum aðliggjandi lóðar, þ.e. lóðarinnar nr. 10 í Stafafellsfjöllum. Var kæranda gefinn tveggja mánaða frestur, til 1. október 2018, til að verða við kröfu byggingarfulltrúa að viðlögðum dagsektum. Tekið var fram að yrði kröfu byggingar­fulltrúa ekki sinnt innan tilgreinds frests væri heimilt að fjarlægja hið ólöglega mannvirki á kostnað eiganda. Með tölvupósti 22. október 2018 óskaði kærandi eftir fresti til 1. ágúst 2019 til að fjarlægja mannvirkið. Kvaðst hann ætla  að kaupa fullbúið hús hjá erlendum framleiðanda og flytja það til Íslands. Með póstinum fylgdu teikningar að nýju frístundahúsi á tveimur hæðum sem staðsett yrði innan byggingarreits. Í kjölfarið áttu sér stað bréfleg samskipti milli kæranda og byggingarfulltrúa fram á mitt ár 2019.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. ágúst 2019, var kæranda gefinn lokafrestur til að skila inn hönnunargögnum, staðfestum upplýsingum um hönnunarstjóra og umsókn um byggingar­leyfi fyrir nýju frístundahúsi á umræddri lóð. Í bréfinu var jafnframt skorað á kæranda að fjarlæga óleyfisbyggingu sem fyrir væri á lóðinni eða flytja hana inn á byggingarreit. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að verða við kröfunni. Að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir, 50.000 kr. á dag. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. október 2019, var upplýst að hvorki hefði borist svar, umbeðin gögn né hefði hið ólöglega mannvirki verið fjarlægt. Í bréfinu kom fram að dagsektir hefðu verið lagðar á vegna mannvirkisins frá 3. september og vakin athygli á því að þær féllu ekki niður fyrr en hið ólöglega mannvirki hefði verið fjarlægt. Jafnframt var tilkynnt  að mannvirkið yrði fjarlægt á næstunni og skorað á kæranda að flytja innbú og annað tilheyrandi úr húsinu. Að endingu var veittur lokafrestur til að fjarlægja mannvirkið eða flytja það á byggingarreit. Þá var að lokum leiðbeint um að heimilt væri að kæra ákvörðun byggingar­fulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með ákvörðun sveitarfélagsins frá 2. mars 2011 hefði verið ákveðið að bygging á umræddri lóð hans mætti standa. M.ö.o. hefði verið hafnað kröfum nágranna um að hún skyldi fjarlægð. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar lagt á dagsektir og skrifað bréf þar sem því hafi verið hótað að mannvirkið yrði fjarlægt. Kærandi telji sig vera í fullum rétti með að láta bygginguna standa.

Í fyrsta lagi verði að telja að bréf byggingarfulltrúa sé ekki formleg ákvörðun um fjarlægingu mannvirkis. Í bréfinu sé hvergi notað orðið „ákvörðun“. Algerlega sé óljóst hvert efni bréfsins sé, þar sé talað í belg og biðu og í lok bréfsins sé hvatning byggingarfulltrúa um að virða ákvörðun frá því í fyrra sem ekki komi fram hver sé. Þetta sé ekki tæk afgreiðsla og ekki sé ljóst hvert efni bréfsins sé. Í öðru lagi sé byggt á því að þar sem sveitarfélagið hafi þegar með ákvörðun sinni frá árinu 2011 tekið bindandi og óafturkræfa ákvörðun um að mannvirkið megi standa, séu ákvarðanir nú um dagsektir og niðurrif húss á kostnað eiganda ólögmætar. Í þriðja lagi sé byggt á því að vegna jafnræðisreglu séu dagsektir og niðurrif ólögmæt. Á lóðum í Stafafellsfjöllum hafi mannvirki risið og verið frjálslega með farið gagnvart lóðamörkum. Eigi það við um fjölda lóða, ekki bara mannvirki og lóð kæranda.

Málsrök Hornafjarðar: Bæjar­yfirvöld vísa m.a. til þess að þau hafi kynnt sér málefni lóða nr. 10 og 11 í Stafafellsfjöllum með ítarlegum hætti áður en tekin hafi verið hin umþrætta ákvörðun frá 30. júlí 2018. Mikill fjöldi gagna liggi fyrir í málinu en byggingarfulltrúi hafi haft þau öll til hliðsjónar við ákvarðanatöku og telji sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu. Byggingarfulltrúi hafi kynnt sér aðstæður á umræddum lóðum,  m.a. í vettvangsferð 6. mars 2018 þegar hann hafi mælt upp lóðirnar og staðsetningu húsa. Fyrir liggi að umsóknum kæranda, annars vegar um byggingarleyfi og hins vegar um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum, hafi verið synjað og afstaða eiganda lóðar nr. 10 liggi fyrir hvað varði lóðamörk og beiðni um breytingu á lóðamörkum. Hafi byggingarfulltrúi því talið að málsatvik væru nægjanlega upplýst og að sannar og réttar upplýsingar lægju fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Með hliðsjón af þeim gögnum hafi það verið endanlegt mat byggingarfulltrúa að hagsmunir eigenda lóðar 10 gengju framar hagsmunum kærenda.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavöxtum var kæranda, með ákvörðun byggingarfulltrúa frá 30. júlí 2018, gert að fjarlægja sumarhús sitt á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum eða flytja það á byggingarreit í samræmi við deiliskipulag svæðisins og var til þess gefinn tveggja mánaða frestur. Sú ákvörðun var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Að sama skapi var ákvörðun byggingarfulltrúa, frá 23. ágúst 2019 um álagningu dagsekta til að knýja á um að húsið yrði fjarlægt, ekki borin undir úrskurðarnefndina innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verða þær ákvarðanir því ekki teknar til efnismeðferðar í máli þessu.

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. október 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun bæjar­yfirvalda að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt á kostnað eiganda og í bréfinu var skorað á hann að fjarlægja innbú og verðmæti áður en til þess kæmi. Er efni ákvörðunarinnar ótvírætt, þ.e. að bæjaryfirvöld hafi tekið þá ákvörðun að fjarlægja umrætt hús á kostnað eiganda, og verður í máli þessu tekin afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar.

Byggingarfulltrúa er í 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, heimilað að krefjast þess að mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt brjóti byggingar­framkvæmd í bága við skipulag eða ekki hafi verið fengið leyfi fyrir henni. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Kærandi sótti um byggingarleyfi í maí 2018 fyrir sumarhúsi á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum. Með ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 24. júlí s.á., var umsókn kæranda synjað þar sem framkvæmdin samræmdist ekki deiliskipulagi og færi í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 vegna þess að sumarhúsið væri nær lóðarmörkum en 10 m. Liggur því fyrir að kærandi hefur ekki fengið leyfi fyrir sumarhúsi sínu á umræddri lóð, en samkvæmt gögnum málsins mun það hafa verið reist án byggingarleyfis árið 2006. Liggur ekki annað fyrir en að meðalhófs hafi verið gætt og að byggingarfulltrúi hafi fylgt málsmeðferðar­reglum stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 við meðferð málsins, þ. á m. veitt kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og fært fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda, sbr. 21. og 22. gr. laganna. Voru því uppfyllt skilyrði 55. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð fyrir því að taka hina kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 um að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum á kostnað eiganda.

5 og 6/2019 Hallarmúli

Með

Árið 2019, föstudaginn 29. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Flugleiðahótel ehf., rekstraraðili hótels í fasteigninni Suðurlands­braut 2, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Reitir-hótel ehf., þinglýstur eigandi fasteignarinnar Suðurlands­brautar 2, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með sömu rökum og fram koma í fyrrgreindri kæru ásamt fylgigögnum. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 6/2019, sameinað máli þessu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2019.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. september 2018 var að lokinni auglýsingu tekin fyrir umsókn sem unnin var fyrir hönd eiganda hússins Hallarmúla 2 varðandi breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2. Breytingin fólst í því að auka leyfilegt byggingarmagn og fjölda hæða húss á lóðinni Hallarmúla 2 með tilliti til aðliggjandi byggðar. Einnig var heimilað að í byggingunni yrði hótel og að þar yrðu fimm hæðir með efstu hæð inndregna frá Hallarmúla, en til vesturs stallist byggingin niður í eina hæð, bílastæði yrðu fjarlægð af yfirborði lóðarinnar og gerður yrði bílakjallari. Tillagan var auglýst frá 28. mars til og með 9. maí 2018. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá öðrum kærenda. Tillagan var samþykkt í ráðinu með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. ágúst 2018, og henni vísað til borgarráðs, sem staðfesti tillöguna 13. september s.á. Var skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar, sem með bréfi, dags. 10. október s.á., tilkynnti að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til erindisins þar sem hún teldi að athugasemd varðandi samræmi við aðalskipulag hefði ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. Þá þyrfti að skýra betur hvernig aðkoma hópferðabifreiða yrði leyst. Athugasemdum stofnunar­innar var svarað með bréfi skipulagsfulltrúa 22. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 28. s.m., tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar, sem öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2018.

Annar kærenda og eigandi hússins að Hallarmúla 2 hafa deilt um þinglýsingu kvaðar um heimilaða starfsemi í fasteigninni að Hallarmúla 2 eins og henni hafði verið lýst í þinglýstu skjali frá 1975. Þeim deilum lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 9. október 2019 í máli 32/2019.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að á fasteigninni Hallarmúla 2 hvíli sú kvöð að húsnæði á lóðinni verði ekki tekið til annarra nota en almennrar verslunar og verslunar með nýjar eða notaðar bifreiðar samkvæmt þinglýstum afsölum frá 1975 og 1994. Þinglýstir eigendur lóðarinnar að Hallarmúla 2, sem lóðarhafi leiði rétt sinn frá, hafi gengist undir framangreinda kvöð um notkun fasteignarinnar með undirritun afsals, en af efni þess megi ráða að forsenda fyrrum eiganda fasteignarinnar hafi verið að mannvirkið yrði ekki notað til starfsemi sem færi í bága við rekstur hótelsins að Suðurlandsbraut 2. Kvöðin sé þinglýst, óskilyrt, ótímabundin og óuppsegjanleg. Núverandi lóðarhafi og eigandi fasteignarinnar að Hallarmúla 2 geti ekki átt rýmri eða frekari rétt til hagnýtingar fasteignarinnar en fyrrum þinglýstir eigendur hennar sem hann leiði rétt sinn frá, enda sé það meginregla að við framsal beinna eignarréttinda fylgi óbein eignarréttindi og kvaðir sem stofnað hafi verið til yfir fasteignum. Lóðarhafi verði því að haga hagnýtingu fasteignar­innar til samræmis við þær kvaðir sem á henni hvíli og hverfa frá fyrirætlunum um breytingar á henni sem geri ráð fyrir að hún verði nýtt til hótelrekstrar eða annarra nota í andstöðu við hina þinglýstu kvöð.

Sérstaklega sé hafnað fullyrðingu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um að kvöðin, sem sé einkaréttarlegs eðlis, geti ekki hindrað skipulagsrétt sveitarfélagsins. Með deiliskipulagi taki sveitarfélag m.a. ákvarðanir um landnotkun, byggðamynstur, hagnýtingu lóðar, þ.m.t. fyrirkomulag bílastæða, sem og aðrar forsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig hafi deiliskipulags­áætlun bein áhrif á hagsmuni lóðarhafa, s.s. vegna útgáfu byggingarleyfis, en jafnframt á hags­muni kærenda, sem séu sérstaklega verndaðir með hinni þinglýstu kvöð. Þannig muni lóðarhafi geta reist mannvirki á lóðinni til rekstrar sem sé í andstöðu við þær kvaðir sem á henni hvíli. Þrátt fyrir að ætla megi sveitarstjórnum rúmar heimildir til þess að ráða efnislegu innihaldi skipulagsáætlana þá sé ákvörðunin bersýnilega afar íþyngjandi fyrir kærendur og því verði að gæta þess sérstaklega að ákvörðunin sé tekin í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslu­réttarins. Kærandi telji verulega skorta á að svo hafi verið gert í þessu tilviki enda megi ná markmiði lóðarhafa um frekari uppbyggingu á lóðinni með öðru og vægara móti þannig að gætt sé að hinni þinglýstu kvöð og grenndarhagsmunum kærenda. Þá geti lóðarhafi og höfundar deiliskipulagstillögunnar með engu móti haft lögmæta hagsmuni af því að fá samþykkta breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins sem miði að því einu að gera honum kleift að ráðast í uppbyggingu sem sé í andstöðu við kvöð um heimila nýtingu mannvirkisins á lóðinni og hagsmuni kærenda.

Núgildandi deiliskipulag taki til svæðis sem samanstandi af þremur lóðum. Á þeim hvíli ýmsar sameiginlegar kvaðir, s.s. um bílastæði og gegnumakstur. Áfram verði að líta á svæðið í heild sinni en breyting á deiliskipulagi lóðarinnar að Hallarmúla 2 einvörðungu, þar sem gert sé ráð fyrir breyttri notkun lóðarinnar, verulega auknu byggingarmagni og engum bílastæðum á lóð, feli í sér mjög veigamikla breytingu á svæðinu sem fallin sé til þess að raska því jafnvægi sem ríki innan þess á kostnað kærenda. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulegar breytingar frá gildandi deiliskipulagi svæðisins og núverandi byggðamynstri. Deiliskipulagi svæðisins hafi síðast verið breytt árið 2014 og hafi sú breyting tekið til svæðisins í heild sinni. Það brjóti í bága við skipulagslög að breyta skipulagi lóðarinnar að Hallarmúla 2 með svo umfangsmiklum hætti án þess að virða og meta skipulagssvæðið í heild. Breyting sem þessi líkist fremur byggingarleyfisumsókn en skipulagsáætlun. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli deiliskipulag jafnan taka til svæðis sem myndi heildstæða einingu. Af því leiði að svo umfangsmiklar breytingar kalli á heildarendurskoðun á deiliskipulagi svæðisins með nærliggjandi skipulagssvæði og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 í huga. Því til stuðnings bendi kærendur á úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 25/2000, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að deiliskipulag fyrir eina lóð teljist ekki vera skipulagsáætlun. Sama gildi í máli þessu þar sem um verulega breytingu á einni lóð sé að ræða. Ljóst sé af orðalagi 37. gr. skipulagslaga að umrætt ákvæði taki ekki einungis til nýrra deiliskipulagsáætlana heldur fjalli ákvæðið um deiliskipulagsáætlanir almennt. Þá leiði af 1. mgr. 43. gr. laganna að sömu efnis- og formreglur eigi við um breytingu á deiliskipulagi og um nýtt skipulag, að undanskildum þeim undantekningum sem sérstaklega séu tilgreindar í ákvæðinu. Þær undantekningar beri að túlka þröngt.

Meginatriði deiliskipulagsbreytingarinnar felist í verulegri stækkun á byggingarreit og aukningu á nýtingarhlutfalli ofanjarðar úr 0,99 í 2,11, þ.e. allt að 6.800 m2 byggingu ofanjarðar og fjölgun hæða hússins. Grenndaráhrif mannvirkisins séu því umtalsverð og fyrirséð að þröngt verði á milli húsa að Suðurlandsbraut 2 og Hallarmúla 2 ef byggt verði í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulaginu séu sérstaklega gagnrýnisverðar þar sem bílastæðum fækki verulega. Samkvæmt eldra deiliskipulagi hafi verið gerð krafa um 72 bílastæði á lóðinni eða eitt stæði á hverja 50 m2 af 1.534 m2 af núverandi húsnæði og eitt stæði á hverja 35 m2 af 1.400 m2. Samkvæmt reglum eldri byggingarreglugerðar hefði krafa um bílastæði átt að nema að lágmarki 136 stæðum eða 1 stæði á hverja 50 m2 húsnæðis. Deiliskipulagsbreytingin geri hins vegar ráð fyrir einungis 55 bílastæðum, sem séu mun færri stæði en gerð hafi verið krafa um í eldra deiliskipulagi. Þá geri deiliskipulagið jafnframt ráð fyrir að aðgengi að bílastæðum verði erfitt og takmarkað, en gert sé ráð fyrir að þau verði staðsett í þriggja hæða bílageymslukjallara með bílalyftu á milli hæða. Þrátt fyrir að ekki séu lengur ákvæði í byggingarreglugerð um lágmarksfjölda bílastæða á lóð felist í eldri reglugerð viðmið um ætlaða þörf á bílastæðum, sér í lagi þegar ekki liggi fyrir frekari gögn. Kærandi telji af og frá að bílastæðaþörf fyrirhugaðs hótels sé vel innan við helming af fjölda stæða sem áður hafi verið gerð krafa um. Þörfin sé því umtalsvert vanáætluð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Ekki sé gert ráð fyrir aðkomu hópferðabíla að hótelinu og ekki séu bílastæði ofanjarðar fyrir hópferðabíla. Við afgreiðslu byggingarfulltrúa sé því haldið fram að hópferðarbifreiðum sé mögulegt að stöðva við gegnumakstursgötu sunnan hússins eða í almennum bílastæðum við Hallarmúla. Ekki sé gert ráð fyrir almennum bílastæðum á yfirborði lóðar að Hallarmúla 2 og virðist sem byggingarfulltrúi geri ráð fyrir að hópferðarbílar stöðvi á aðliggjandi lóðum. Þessu fylgi umtalsvert ónæði og rask fyrir almenna umferð, sem og fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóða og þau sem þangað sæki sér þjónustu.

Í athugasemdum við skipulagstillöguna hafi verið bent á að lóðarhafa virtist í sjálfsvald sett hvort hann réðist í gerð bílakjallara eða greiddi bílastæðagjald til Reykjavíkurborgar. Af þessu tilefni hafi byggingarfulltrúi lagt fram breytingartillögu um að heimilt yrði að greiða bílastæða­gjald fyrir þann fjölda bílastæða sem gerð væri krafa um, umfram 55 bílastæði. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með hliðsjón af breytingartillögu byggingarfulltrúa. Kærandi bendi aftur á móti á að deiliskipulagið heimili nýtingu mannvirkja á lóðinni til skrifstofu- og atvinnuhúsnæðis auk hótelstarfsemi samkvæmt skilmálum í kafla 5.1., en skilmálar skv. kafla 5.9., um 55 bílastæði að lágmarki, séu ekki skilyrtir við að starfrækt verði hótel í byggingunni. Því sé mögulegt að byggt verði skrifstofu- eða atvinnuhúsnæði sem krefjist umtalsvert fleiri bílastæða. Raunar standi líkur til þess að aldrei verði rekið hótel á lóðinni vegna fyrrnefndrar kvaðar um heimila notkun húsnæðisins og því megi gera ráð fyrir að nýta verði það til verslunarreksturs, sem krefjist bersýnilega fleiri bílastæða. Hafi sveitarfélaginu því borið að meta bílastæðaþörf mannvirkisins miðað við að í húsinu færi fram önnur starfsemi en hótelrekstur og gæta sérstaklega að því að á lóðinni mætti koma fyrir þeim lágmarksfjölda aðgengilegra bílastæða sem nauðsynlegur væri fyrir verslunarhúsnæði eða hótelrekstur. Hvorugt hafi verið gert heldur hafi of fáum og óaðgengilegum bílastæðum verið komið fyrir í bílakjallara. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. skipulagslaga skuli bílastæðagjöldum varið í upp­byggingu almenningsstæða í nágrenni þeirrar lóðar sem lóðarhafa sé gert að greiða fyrir slík gjöld. Kærendur telji að ekki sé hægt að raungera markmið bílastæðagjalda með hliðsjón af aðstæðum í næsta nágrenni lóðarinnar enda sé ekkert svigrúm til uppbyggingar fullnægjandi almenningsbílastæða í næsta nágrenni lóðarinnar. Því séu skilyrði skipulagslaga fyrir álagningu bílastæðagjalda ekki uppfyllt.

Kærendur bendi einnig á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð málsins. Þrátt fyrir ábendingar hafi Reykjavíkurborg ekki aflað nokkurra gagna um raunverulega bílastæðaþörf fyrirhugaðrar byggingar að Hallarmúla 2 heldur samþykkt breytinguna án fullnægjandi upplýsinga um þetta atriði. Borgaryfirvöldum hafi verið í lófa lagið að krefja höfunda deiliskipulagstillögunnar um skýringar á því hvernig eigandi mannvirkisins að Hallarmúla 2 muni tryggja að hagsmunum kærenda verði ekki raskað í þessu tilliti en í stað þess virðist hafa verið lagt til grundvallar að hvorki gestir né starfsfólk hins fyrirhugaða hótels muni koma á bílum að hótelinu eða að þeim verði lagt á einu bílastæðin í nágrenninu, sem séu við hótel annars kærenda. Enn síður hafi farið fram skoðun á bílastæðaþörf mannvirkisins miðað við að það yrði tekið til notkunar sem verslunar- eða skrifstofuhúsnæði þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til slíkrar skoðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin Hallarmúli 2 á miðsvæði M2c. Á því svæði sé gert ráð fyrir skrifstofum, rýmisfrekri smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, fjármálastarfsemi, veitingastöðum og hótelum. Léttur iðnaður sé heimill á svæðinu, s.s. prentiðnaður og verkstæði, þar sem aðstæður leyfi. Fjölþætt starfsemi sé því heimil innan reitsins og geti samkvæmt heimildum aðalskipulags geti þar m.a. verið hótel. Tillagan sé því í samræmi við landnotkunarheimildir aðalskipulags.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki um neinar breytingar á kvöðum að ræða fyrir lóðina Hallarmúla 2. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi haldist kvöð um gegnumakstur og bílastæðaskilmála. Búið sé að gera lóðarleigusamning fyrir Hallarmúla 2 samkvæmt breyttu deiliskipulagi. Allar kvaðir sem komi fram á lóðaruppdrætti eða í lóðarleigusamningi falli út með nýjum samningi. Kvöð um gerð akbrautar og bílastæða sé felld út með nýjum lóðar­uppdrætti fyrir Suðurlandsbraut 2. Kvöðina um notkun í afsalinu frá 1975 komi ekki í veg fyrir að deiliskipulagi verði breytt í þá veru sem gert hafi verið. Almennt sé ekki hægt að þrengja heimildir sveitarstjórnar til deiliskipulagsgerðar með einkaréttarlegum samningum. Í afsalinu sé enn fremur vísað til yfirlýsingar Kr. Kristjánssonar hf., dags. 9. apríl 1974, en sú yfirlýsing liggi ekki fyrir í máli þessu. Um sé að ræða samkomulag þáverandi eigenda og ekki verði skorið úr um gildi þess af hálfu borgaryfirvalda. Efni kvaðarinnar sé auk þess óljóst. Hvergi komi skýrt fram að óheimilt sé að reka hótel. Í kaupsamningi og afsali frá 2017 sé kvaðarinnar auk þess hvergi getið.

Því sé mótmælt að breyting deiliskipulagsins stríði gegn sjónarmiðum um heildstætt skipulag svæðisins. Tillagan hafi tekið mið af hæðum og umfangi húsa á svæðinu þannig að hún félli sem best að götumynd og byggðamynstri og hefði sem minnst neikvæð umhverfisáhrif, en byggðin í kring einkennist af 4-7 hæða húsum að götu og lægri húsum í inngörðum. Eitt af markmiðum deiliskipulagsvinnunnar hafi verið að heildarrammi til uppbyggingar á lóðinni félli vel að svæðinu hvað starfsemi, uppbrot og fjölbreytileika varði. Í þróunarferli tillögunnar hafi verið unnið í því að aðlaga hana að byggðamynstri svæðisins og aðliggjandi svæða. Byggingin hafi m.a. verið lækkuð og brotin upp þannig að hún hefði sem minnst neikvæð umhverfisáhrif og félli vel að byggðamynstri.

Frá því að fram hafi farið endurskoðun á deiliskipulagi götureitanna milli Suðurlandsbrautar og Ármúla upp úr árinu 2000 hafi verið samþykktar nokkrar breytingar á deiliskipulagi einstakra lóða innan þeirra. Þar hafi m.a. verið samþykkt hækkun á nýtingarhlutfalli og breyttir skilmálar vegna bílastæða. Það komi til af ýmsu, m.a. því að svæðið sé virkt verslunar- og þjónustusvæði og einstaklega vel staðsett miðsvæðis í borginni. Það nýtingarhlutfall sem tillagan reikni með sé áþekkt því sem leyft hafi verið á þeim lóðum svæðisins þar sem skipulagi hafi verið breytt. Enn fremur megi benda á að mismunur á nýtingarhlutfalli einstakra lóða helgist einnig af stærð þeirra, en lóð Hallarmúla 2 sé lítil lóð og lóðir í nágrenninu, s.s. lóðir Suðurlandsbrautar 2 og Ármúla 3, séu mun stærri. Hæð hússins og umfang þess komi til með að verða í samræmi við byggðamynstrið á svæðinu. Það eigi þó ekki við um Ármúla 3, þar sem heimilt séað byggja sjö hæða húshluta inn í reitinn. Einnig sé tillagan þannig að byggingin inn í reitinn til vesturs lækki en hækki að götu, sem sé í takt við byggðamynstur og stuðli að betri nýtingu innreitanna og minni neikvæðum umhverfisáhrifum.

Því sé jafnframt hafnað að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Eins og venja sé í deiliskipulagi margra svæða, m.a. þeirra sem hér um ræði, þá beri hverri lóð að sjá fyrir sinni bílastæðaþörf út frá notkun húsa, húshluta og þeim bílastæðaskilmálum sem séu hluti deili-skipulags. Skilmálar vegna bílastæða og þörf fyrir þau hafi þróast og breyst í tímans rás miðað við breyttar þarfir, innviði og hegðunarmynstur. Á umliðnum árum hafi skilmálar vegna bílastæða breyst, m.a. þannig að þörfin sé flokkuð niður eftir notkun húshluta. Þannig sé minni þörf áætluð vegna hótelstarfsemi, lager- og tæknirýma heldur en fyrir verslun og þjónustu. Í anda þess hafi skilmálum vegna bílastæða verið breytt fyrir allmargar lóðir á svæðinu og jákvætt hafi þótt að gera það, þ.e.a.s. samræma og nútímavæða bílastæðaskilmála á svæðum. Nokkrir möguleikar séu fyrir langferðabíla til að stoppa nálægt húsinu, t.d. við gegnumakstursgötu sunnan hússins og í almennum bílastæðum við Hallarmúla, séu þau laus, en ekki standi til að gera sérstakt rútubílastæði í Hallarmúla.

Bent sé á að í 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og skuli jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Það sé því heimilt að breyta deiliskipulagi fyrir eina lóð innan reits. Það sé í samræmi við skipulagslög að gera breytingar á deiliskipulagi án þess að skipulag sé tekið til endurskoðunar í heild.

Athugasemdir eiganda lóðarinnar Hallarmúla 2: Hin meinta kvöð um starfsemi í Hallarmúla 2 geti aldrei gengið framar heimildum Reykjavíkurborgar til að setja deiliskipulag um notkun og nýtingu lóðarinnar. Ef eigendur fasteigna gætu bundið hendur sveitarfélaga með kvöðum þá væri deiliskipulagsvaldið til lítils, enda gætu fasteignaeigendur þá komið í veg fyrir breytingar í almannaþágu með þinglýsingu kvaða. Í dómi Hæstaréttar nr. 134/1958 frá 26. júní 1959 taldi Hæstiréttur að yfirvöldum væri heimilt að kveða á um hvers konar byggingar væru reistar á lóðum, jafnvel þótt skipulag bryti í bága við þinglýstar kvaðir væru þær til staðar. Um deiliskipulagsbreytingu sé að ræða og málið því ekki sambærilegt við málið sem úrskurður nr. 25/2000 fjalli um. Í því máli hafi verið um grunndeiliskipulagsferli að ræða en ekki deili­skipulagsbreytingu.

Í almennum skilmálum deiliskipulagsins sé sérstakur kafli um bílakjallara, gestabílastæði og hjólastæði. Þar komi fram að gert sé ráð fyrir bílakjallara undir nýbyggingu og gera skuli ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, einu bílastæði á hverja 130 m2 hótelhúsnæðis fyrir gistihótel og einu bílastæði á hverja 300 m2 lager- og tæknirýmis. Þá segi að ef ekki takist að koma tilskyldu magni almennra bílastæða fyrir innan lóðar þá sé heimilt að greiða bílastæðagjald með vísan til samþykktar Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald hverju sinni. Reykjavíkurborg hafi sett sér reglur um bílastæðagjöld með heimild í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í reglunum segi að fjöldi bílastæða skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og bílastæðareglur. Ef ekki sé unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur séu gerðar um í deiliskipulagi geti sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald vegna hlutaðeigandi lóðar. Gjaldið megi nema allt að áætluðum kostnaði við gerð þeirra bílastæða sem á vanti. Með reglum þessum sé fylgiskjal um skiptingu borgar­innar í svæði og sé Hallarmúli 2 á svæði 2. Samkvæmt almennum viðmiðunum um stæði innan svæða skv. fylgiskjali 2 sé ljóst að skipulagsskilmálar Hallarmúla 2 séu í samræmi við viðmiðin varðandi bílastæði fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þ.e. eitt bílastæði á hverja 50 m2. Í viðmiðunum séu engin ákvæði um fjölda bílastæða fyrir hótelhúsnæði. Í fylgiskjalinu komi fram að um almenn viðmið sé að ræða fyrir viðkomandi svæði og mögulegt sé að víkja frá þeim til hækkunar eða lækkunar við  gerð hverfis- og/eða deiliskipulags. Þetta geti átt við um sérhæft húsnæði, svo sem skóla og hótel og annað húsnæði sem erfitt sé að sjá bílastæðaþörf fyrir. Við afgreiðslu byggingarleyfis muni koma í ljós hvort tilskyldum fjölda bílastæða verði komið fyrir á lóðinni eða hvort byggingarleyfishafi verði að greiða bílastæðagjöld til Reykjavíkurborgar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Lóðarréttindi leigusala kærenda og eiganda mannvirkisins að Hallarmúla 2 hafi verið byggð á einum og sama löggerningnum fram til 12. október 2018, þ.e. lóðarleigusamningi, dags. 15. febrúar 2008, og sé hann undirritaður af hálfu  eigenda beggja mannvirkja. Sérstökum lóðarleigusamningi fyrir Hallarmúla 2 hafi verið þinglýst 12. október 2018, en þá fyrst hafi lóðin orðið til sem sjálfstæð og sérstaklega afmörkuð eign. Fram að þeim tíma hafi annar lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar ekki haft heimild til að leggja til breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar án þess að afla afdráttarlauss samþykkis leigusala kærenda. Kærendur hafi þannig mátt treysta því að deiliskipulagi heildarlóðarinnar yrði ekki breytt í trássi við hagsmuni hans á grundvelli tillögu eiganda mannvirkis að Hallarmúla 2, sem hafi aðeins átt tilkall til hluta lóðarleiguréttindanna. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin áður en lóðarleigu­samningi um Hallarmúla 2 hafi verið þinglýst, en eiganda Hallarmúla 2 hafi skort umboð og heimild til þess að hafa frumkvæði að breytingu á deiliskipulagi hluta heildarlóðarinnar Suðurlandsbrautar 2.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. einnig 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 38. gr. laganna kemur fram að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Það er því sveitarstjórn sem ber ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða að frumkvæði landeiganda eða framkvæmdaraðila.

Kærendur deila m.a. um þýðingu kvaða sem fram koma í lóðarleigusamningi og afsölum um Suðurlandsbraut 2 og Hallarmúla 2. Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulags­kvaðir skilgreindar sem kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Hinar umdeildu kvaðir eru ekki lagðar á með deili­skipu­lagi og teljast því ekki skipulagskvaðir. Kvaðir þessar eru því einkaréttarlegs eðlis og geta sem slíkar haft áhrif á innbyrðis réttarstöðu lóðarhafa, en geta ekki bundið hendur skipulags­yfirvalda Reykjavíkur­borgar við skipulagsgerð, sem að lögum bera ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags. Skipulagskvaðir á lóðinni Hallarmúla 2 breytast ekki með hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í athugasemdum við 2. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum kemur fram að ætlunin með ákvæðinu sé að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti stundum átt við. Þá er tekið fram í 1. mgr. sama ákvæðis að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í athugasemdum með 1. mgr. 37. gr. er tekið fram að dæmi um þætti sem varði útlit og form mannvirkja í deiliskipulagi sé þegar tekin sé afstaða til byggingar átta hæða húss í lágri, þéttri byggð sem geti verið veruleg breyting á svipmóti þeirrar byggðar. Í götu þar sem hús séu almennt stakstæð geti bygging þriggja hæða fjölbýlishúss með tveimur stigagögnum breytt þeirri götumynd verulega. Ákvarðanir um útlit og form varði stefnu­mótun um skipulag og geti sveitarstjórn þannig lagt fram stefnu sína í þessum málum í deiliskipulagi, t.d. hvort hún vilji slíkar breytingar á byggð og götumyndum sem að framan séu nefndar. Telji sveitarstjórn þörf á að breyta samþykktu deiliskipulagi fer um málsmeðferð hennar eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en sé um óverulega breytingu að ræða að mati sveitarstjórnar skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Framangreind lagaákvæði og athugasemdir með þeim bera með sér að sveitarstjórn er falið í lögum víðtækt skipulagsvald við gerð deiliskipulags og breytingar á því, sem geta eftir atvikum verið verulegar og tekið til afmarkaðs svæðis innan skipulagssvæðisins eða einnar lóðar. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu eykst leyfilegt nýtingarhlutfall ofanjarðar á lóðinni Hallarmúla 2 úr 0,95 í 2,11, sem er umtalsvert enda var farið með breytinguna skv. 1. mgr. 43. gr. laganna.

Í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að innheimta bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi og skv. 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Samkvæmt framangreindum ákvæðum eru það skilmálar deiliskipulags hverju sinni sem ákvarða fjölda bílastæða á hinu skipulagða svæði. Samkvæmt skilmálum umrædds skipulags er hámarksfjöldi bílastæða innan lóðar 55 stæði en var fyrir breytinguna 72 stæði. Gera skal ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, einu bílastæði á hverja 130 m2 hótelhúsnæðis fyrir gistihótel, einu bílastæði á hverja 300 m2 lager- og tæknirýmis og að fjöldi stæða fyrir hreyfihamlaða skuli vera í samræmi við byggingar­reglugerð. Takist ekki að koma fyrir tilskyldum fjölda almennra bílastæða innan lóðar sé heimilt að greiða bílastæðagjald samkvæmt samþykkt Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald hverju sinni. Skilmálar skipulagsins eru þannig skýrir um fjölda bílastæða og um bílastæðaþörf á svæðinu eftir því hvaða starfsemi komi til með að verða þar. Ákvæði eldri byggingar­reglugerðar um fjölda bílastæða hafa ekki þýðingu í máli þessu enda féll hún úr gildi við gildistöku núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá er hvergi í lögum eða reglugerðum skylda til að tryggja að unnt sé að leggja hópferðabílum til lengri tíma við byggingar, hvort sem heimilt er að byggja hótel á lóðinni eða ekki.

Fjallað er um bílastæðagjald í 19. gr. skipulagslaga. Þar kemur fram að ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi getur sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald vegna hlutaðeigandi lóðar. Gjaldið má nema allt að áætluðum kostnaði við gerð þeirra bílastæða sem á vantar. Sveitarstjórn getur sett sérstaka gjaldskrá um bílastæðagjöld í sveitarfélaginu, sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Í 3. tölul. 1. mgr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð kemur fram að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að bílastæðagjald hafi verið greitt eða samið um greiðslu þess. Reykjavíkurborg hefur sett reglur um bílastæðagjald í Reykjavík og birtust þær í B-deild Stjórnartíðinda 27. maí 2016. Samkvæmt 1. gr. reglnanna skal umsækjandi um byggingarleyfi greiða bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Bílastæðagjald er samkvæmt framansögðu greitt við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar enda verður ekki fyrr ljóst hver notkun viðkomandi húsnæðis verður og hversu mörg bílastæði þurfi að vera samkvæmt skilmálum deiliskipu­lagsins. Því verður ekki tekin afstaða til málsástæðna kærenda um bílastæðagjöld í máli þessu.

Lóðinni Hallarmúla 2 var skipt út úr lóðinni Suðurlandsbraut 2 á grundvelli stofnskjals, dags. 28. mars 2007. Lóðarleigusamningur var á hinn bóginn ekki gerður um þá lóð fyrr en 22. desember 2017. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga getur landeigandi eða framkvæmdar­aðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Umsókn vegna hinnar umdeildu deiliskipulags­breytingar var lögð fram fyrir hönd eigenda hússins að Hallarmúla 2. Umsóknin var móttekin 20. nóvember 2017, en á þeim tíma var ekki í gildi sérstakur lóðarleigusamningur fyrir lóðina Hallarmúla 2. Orðalag 1. og 2. mgr. 38. gr. ber hins vegar með sér að endanlegt ákvörðunarvald um deiliskipulags­breytingar liggi hjá viðkomandi sveitarfélagi án tillits til þess hver aðdragandinn er að slíkri ákvörðun.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að umrædd deiliskipulagsbreyting hafi hlotið lögbundna málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar Hallarmúla 2.