Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2019 Þórsmörk, Selfossi

Árið 2020, fimmtudaginn 5. mars kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 29. maí 2019 um að aðhafast ekki vegna erindis kæranda um skuggavarp á fasteign hans Þórsmörk 8, Selfossi, og synjun hans á að afhenda tiltekin gögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar Þórsmerkur 8, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 29. maí 2019 að aðhafast ekki vegna erindis kæranda um skuggavarp á fasteign hans og synjun hans um afhendingu tiltekinna gagna. Gera kærendur þá kröfu að skipulags- og byggingarfulltrúi taki til efnislegrar skoðunar hvort skuggavarp á fasteignina Þórsmörk 8 sé meira en sýnt hafi verið fram á að yrði þegar deiliskipulag var kynnt. Jafnframt er þess krafist að umbeðin gögn verði afhent.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. júlí 2019.

Málavextir: Kærandi hafði samband við Sveitarfélagið Árborg í upphafi árs 2019 vegna skuggavarps af húsum þeim sem nýverið höfðu verið byggð á lóðinni Austurvegi 51-59, Selfossi. Kærandi fundaði með fulltrúum sveitarfélagsins 25. janúar s.á. þar sem farið var yfir málið og honum bent á að senda sjónarmið sín skriflega til sveitarfélagsins. Kærandi sendi sveitarfélaginu tölvupóst 22. febrúar og 4. mars s.á. með athugasemdum um framangreindar byggingarfram­kvæmdir ásamt ljósmyndum af skuggavarpi. Kærandi ítrekaði erindi sitt með tölvupósti 14. mars 2019 og var hann upplýstur með tölvupósti 15. s.m. um að erindi hans hefði verið tekið til skoðunar. Með bréfi, dags. 10. maí 2019, óskaði kærandi eftir eftirfarandi gögnum:

„1. Öll lóðarblöð fasteignanna Austurvegur 51-59 frá stofnun þeirra, þar sem fram kemur hæðarkóti bygginga á lóðunum.

2. Allar teikningar sem lagðar hafa verið fram, fram til 8. júní 2018, þar sem fram kemur gólfkóti hverrar hæðar. Fyrsta skóflustunga vegna bygginganna var tekin 10. febrúar 2017, en einu teikningarnar sem aðgengilegar eru vegna bygginganna eru stimplaðar 8. júní 2018. Þar sem ekki er heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en teikningar liggja fyrir er því óskað eftir þeim teikningum sem lágu fyrir við skóflustungu.

3. Teikningar vegna rýmis sem hýsir loftræstikerfi ofan á tengibyggingu við eldra húsnæði og hvenær þær teikningar voru fyrst lagðar fram.

4. Teikningar sem sýna sorpskýli sem staðsett er í dag norðan við fasteignina Austurvegur 51-59.“

Skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar sendi kæranda tölvupóst 29. maí 2019, þar sem fram kom að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar vegna erindis kæranda um skuggavarp. Vísað var til þess að byggingar á lóðinni væru í samræmi við deiliskipulag og að á athugasemda­fresti deiliskipulagstillögunnar hefðu ekki komið fram athugasemdir varðandi skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8.

Erindi kæranda um aðgang að gögnum var svarað 10. júlí 2019. Í bréfinu var tekið fram að þegar kæranda hefði verið sent framangreint bréf 29. maí s.á. hefði úrvinnsluaðilum málsins ekki verið kunnugt um að hann hefði óskað eftir aðgangi að gögnum vegna þess.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að þegar vinna hafi hafist við byggingu Austurvegs 51-59 hafi kærandi heyrt að vegna hárrar grunnvatnsstöðu hafi botn bygginganna verið hækkaður og því standi þær hærra en gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi. Kærandi hafi orðið var við mun meiri skuggamyndun á fasteign sína en sýnt hafi verið á kynningarfundum um deiliskipulagið og því óskað eftir því með bréfi, dags. 10. maí 2019, að byggingarfulltrúi léti sér í té tiltekin gögn svo hann gæti áttað sig á því hvort mögulega hafi verið gengið á rétt hans. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi svarað erindi kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2019. Hafi þar komið fram að hann teldi ekki tilefni til að aðhafast neitt vegna erindis um skuggavarp, þar sem ekki hefðu komið fram athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á athugasemdafresti hennar. Ekki hafi verið minnst á þau gögn sem óskað hafi verið eftir.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umbeðin gögn hafi verið send kæranda 10. júlí 2019, en mistök hafi valdið því að erindið hafi ekki skilað sér fyrr til úrvinnsluaðila málsins. Beri því að vísa kröfu kæranda um afhendingu gagna frá nefndinni.

Rétt hafi verið staðið að afgreiðslu erindis kæranda um athugun á skuggavarpi. Farið hafi verið að öllum form- og efnisreglum sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við meðferð erindisins. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin í kjölfar heildstæðs mats á athugasemdum kæranda, þeim upplýsingum um skuggavarp sem sé að finna í deiliskipulagi fyrir lóðina Austurveg 51-59 og raunverulegu skuggavarpi á lóðina Þórsmörk 8 af byggingum þeim sem reistar hafi verið á framangreindri lóð.

Könnun skipulags- og byggingarfulltrúa hafi leitt í ljós að byggingar á lóðinni Austurvegi 51-59 séu í samræmi við deiliskipulag það sem í gildi sé fyrir lóðina og samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 11. maí 2016 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2016. Á skýringar­uppdrætti með deiliskipulaginu megi sjá að skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8 nái inn á þá lóð, en ekki einungis að lóðarmörkum, líkt og kærandi haldi fram. Skipulags- og byggingarfulltrúi telji skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8 ekki vera umfram það sem vænta hafi mátt miðað við þær upplýsingar sem fram komi í deiliskipulagi um lóðina að Austurvegi 51-59. Á athuga­semdafresti deiliskipu­lags­­tillögunnar hafi ekki komið fram athugasemdir varðandi skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8. Í ljósi framanritaðs telji skipulags- og byggingarfulltrúi ekki tilefni til að bregðast frekar við erindi kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að þau gögn sem sveitarfélagið hafi sent honum séu ekki umbeðin gögn. Þar vanti enn teikningar sem hafi átt að liggja fyrir þegar fyrsta skóflustunga vegna byggingar á umræddri lóð hafi verið tekin.

Niðurstaða: Kærandi gerir kröfu um að tiltekin gögn verði afhent. Skilja verður kröfuna svo að kærð sé synjun stjórnvalds um aðgang að gögnum máls skv. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá sveitarfélaginu við rekstur máls þessa fékk kærandi afhent hinn 10. júlí 2019 öll þau gögn sem þar lágu fyrir vegna málsins. Þau gögn sem kærandi telur að enn vanti séu ekki til. Eðli máls samkvæmt getur kærandi ekki fengið afhent gögn sem ekki eru fyrir hendi. Ber því að vísa kröfu kæranda um afhendingu gagna frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki liggur annað fyrir en að tiltæk gögn málsins hafi þegar verið afhent kæranda. Kæranda virðist hins vegar ekki hafa verið tilkynnt um að frekari umbeðin gögn væru ekki til hjá sveitarfélaginu.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa í mannvirkjalögum nr. 160/2010. Í 59. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grund­velli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Valdsvið úrskurðar­nefndar­innar nær því aðeins til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana nema sérstök lagaheimild sé til staðar til að úrskurða í málum vegna annarra ágreiningsmála, sbr. t.d. 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Stjórnvaldsákvarðanir hafa verið skilgreindar sem ákvarðanir sem teknar séu í skjóli stjórnsýsluvalds og sé beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með þeim sé kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þá er það yfirleitt einkennandi fyrir stjórnvaldsákvarðanir að þær eru teknar einhliða af stjórnvöldum og oftast skriflega. Í máli því sem hér er til meðferðar liggur ekki fyrir bindandi ákvörðun sem kveður á um rétt eða skyldur í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Athugun byggingarfulltrúa á skuggavarpi byggingar í tilefni af beiðni  kæranda þess efnis er liður í almennu eftirliti stjórnvalda og telst ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 59. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.