Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2019 Suðurgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 40/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, um að krefjast lagfæringar á skólplögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2019, er barst nefndinni 5. s.m. kærir húsfélagið Suðurgötu 15 Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, að fara fram á að skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júní 2019.

Málavextir: Hinn 18. september 2018 hafði íbúi Tjarnargötu 10c samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og kvartaði yfir því að leki eða smit væri komið að pottröri sem virtist liggja frá húsum við Suðurgötu. Í kjölfar skoðunar sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur húsfélagi Suðurgötu 13 bréf 25. s.m. þar sem tekið var fram að lögn sú sem um ræddi lægi frá Suðurgötu 13 í gegnum sameiginlegan bakgarð og svo í gegnum Tjarnargötu 10c. Húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Farið var fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar og tekið fram að viðgerð skyldi lokið eigi síðar en 10. október s.á. Húsfélaginu var síðar veittur aukinn frestur. Í framhaldi af því var lögnin mynduð og samkvæmt skoðunarmanni, sem myndaði 20 m af 27 m af lögninni, var hún sigin. Staðfesti hann jafnframt að lögnin tilheyrði einnig Suðurgötu 15.

Í samhljóða bréfum heilbrigðiseftirlitsins, dags. 12. október 2018, til húsfélaganna Suðurgötu 13 annars vegar og Suðurgötu 15 hins vegar, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum þess væri Suðurgata 15 einnig tengd við lögnina og væri farið fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun eigi síðar en 26. október s.á.. Húsfélögunum var síðar veittur viðbótarfrestur til þeirra skila. Með bréfum heilbrigðiseftirlitsins til húsfélaganna, dags. 8. maí 2019, var áréttað að húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Heilbrigðiseftirlitið færi því fram á að umrædd skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eigi síðar en 1. júní s.á. Einnig var tekið fram í bréfinu að teldu húsfélögin að Tjarnargata 10c tengdist þessari lögn væri sjálfsagt að fulltrúar eftirlitsins kæmu ásamt Veitum og lituðu í salerni með ferilefni til að skera úr um það.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að einungis hafi verið vísað til orða íbúa Suðurgötu 13 um að frárennslislögnin tengdist Suðurgötu 15 án þess að slíkt hafi verið kannað frekar. Þá hafi ekki verið farið í sjálfstæða rannsókn á því hvort Tjarnargata 10c tengdist umræddri lögn heldur hafi það verið lagt í hendur húsfélaga að Suðurgötu 13 og 15 að óska eftir því, en slík vinnubrögð séu verulega ámælisverð út frá meginreglum stjórnsýsluréttar. Telja verði að rannsóknarskylda hvíli á stjórnvaldi að rannsaka slík atriði áður en ákvörðun sé tekin. Að auki virðist umrædd ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafa byggst á myndbandi þrátt fyrir að það hafi komið skýrt fram að einungis 20 af 27 m hafi verið skoðaðir og því hafi ekki verið myndað alla leið í heimaæð. Slíkt fari einnig í bága við rannsóknarskyldu stjórnvalda sem beri að rannsaka mál til hlítar áður en ákvörðun sé tekin.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að gengið hafi verið eins langt og kostur hafi verið í að leiðbeina húseigendum vegna málsins. Kærandi hafi hvorki nýtt sér þann andmælarétt sem gefinn hafi verið í bréfi því sem sent hafi verið til hans né óskað eftir frekari útskýringum. Samkvæmt skoðunarmyndbandi sem húsfélögin hafi sent til heilbrigðiseftirlitsins 16. október 2018 hafi komið fram hjá skoðunarmanni að bæði húsin tengdust þessari lögn. Það sé samkvæmt lögum og reglugerðum á ábyrgð eiganda lagna að halda þeim við og þar með einnig að kanna hvort þær hafi orðið fyrir skemmdum. Einungis hafi verið farið fram á að þær skemmdir sem hefðu sést í skoðunarmyndbandinu yrðu lagfærðar auk þess sem áréttað hafi verið að eigendur þyrftu að rannsaka frekar þann hluta lagnarinnar sem ekki hefði verið myndaður. Þar sem ekki hafi verið ljóst hvort Tjarnargata 10c væri tengd lögninni hafi heilbrigðiseftirlitið boðist til að koma og lita með ferilefnum í fráveitu.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr., líkt og hún var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar á hlutaðeigandi. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerðra settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 8. maí 2019, þar sem farið er fram á að skólplögn frá Suðurgötu 13 og 15 verði lagfærð eins fljótt og auðið sé og að skila þurfi inn úrbótaáætlun til eftirlitsins eigi síðar en 1. júní 2019. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins áskorun um að kærandi vinni ákveðið verk án þess að vísað sé til þess að gripið verði til frekari úrræði samkvæmt nefndum XVII. kafla laga nr. 7/1998. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

119/2019 Týsgata við Lokastíg

Með

Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 119/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 um að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Hótel Óðinsvé ehf., Þórsgötu 1, og Gamma ehf., eigandi Týsgötu 8, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreint sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að þau bílastæði sem um ræði verði almenn bílastæði á gjaldsvæði 2.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 30. október 2019 var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur lagt fram bréf skrifstofu og samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 24. október 2019, þar sem lagt var til að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Var tillagan samþykkt með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Kærendur vísa til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011 varðandi kæruheimild. Þeir séu hagsmunagæsluaðilar við Týsgötu, Þórsgötu og Lokastíg. Um langt árabil hafi vöruafgreiðsla fyrir hótelið og veitingastaði þess verið um bakhurð í bílastæðaporti við Lokastíg í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Séu húsnæði kærenda í raun einu húsnæðin við Óðinstorg og nálægar götur sem þurfi á reglulegum vöruafgreiðslum að halda. Hafi fyrirkomulagið við að afhenda varning gengið vel og ekki verið nokkrum til ama. Með fyrirhuguðum breytingum verði ekkert bílastæði fyrir framan hótelið sem sé algjörlega ótækt. Þau örfáu bílastæði sem séu eftir séu nú einvörðungu ætluð til vöruafgreiðslu í stað þess að gestir hótelsins og veitingastaðarins, sem og aðrir sem sæki þjónustu í hverfið, geti nýtt sér bílastæðin. Þau verði meira og minna ónotuð þrátt fyrir þann mikla hörgul sem sé á bílastæðum í hverfinu. Hagsmunir eiganda Týsgötu 8 fari saman við hagsmuni hótelsins að þessu leyti þar sem íbúðir félagsins við Týsgötu 8 séu nýttar til skammtímagistingar. Þá sé fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við skipulag. Í athugasemdum kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar árétta þeir að lögvarðir hagsmunir þeirra séu fyrir hendi og að nefndinni beri að taka málið til efnislegrar meðferðar. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð sé. Umrædd stæði séu almenn bílastæði á borgarlandi sem kærendur og viðskiptavinir þeirra hafi ekkert tilkall til eða forgang í. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 hafi sveitarstjórn fulla heimild til að gera tillögur að varanlegum sérákvæðum um notkun vega, þar á meðal um stöðvun eða lagningu ökutækja.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður þó ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun samkvæmt þeim lögum heldur var hin kærða ákvörðun tekin á grundvelli 2. mgr. 81. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 er mælir fyrir um að lögreglustjóri geti, að fengnum tillögum sveitarstjórna, kveðið á um önnur varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum umferðarlögum. Þá verða tillögur sveitarstjórna ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

41/2019 Jarðgerð lífræns úrgangs Reyðarfirði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2019, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 14. maí 2019 um að samþykkja útgáfu starfsleyfis til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir jarðgerð á allt að 600 tonnum á ári af lífrænum úrgangi á starfsstöð félagsins að Hjallanesi 10-14, Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2019, er barst nefndinni 6. s.m., kærir eigandi Árgötu 1, Reyðarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 14. maí 2019 að samþykkja útgáfu starfsleyfis til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir jarðgerð á allt að 600 tonnum á ári af lífrænum úrgangi, frá heimilum og fyrirtækjum á Austurlandi, á starfsstöð félagsins að Hjallanesi 10-14, Reyðarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að gerð sé krafa um bestu fáanlegu tækni í starfsleyfinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 2. júlí 2019 og í janúar 2020.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. mars 2019 í máli nr. 33/2018 var felld úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands um útgáfu starfsleyfis til handa Íslenska gámafélaginu fyrir jarðgerð á allt að 600 tonnum á ári af lífrænum úrgangi á starfsstöð félagsins að Hjallanesi 10-14, Reyðarfirði. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að lögboðinn frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi hefði ekki verið veittur og væri þegar af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi. Sótti félagið að nýju um starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands fyrir jarðgerð að Hjallanesi 10-14 og mun tillaga að starfsleyfi hafa verið auglýst á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins 3. apríl 2019. Veittur var frestur til og með 2. maí s.á. til að koma að athugasemdum og bárust nokkrar athugasemdir á kynningartíma. Jafnframt var leitað umsagna byggingarfulltrúa og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Er umsögn Fjarðabyggðar, dags. 1. maí 2019, undirrituð af bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa.

Starfsleyfi til fjögurra ára fyrir jarðgerð lífræns úrgangs frá heimilum og fyrirtækjum á Austurlandi að hámarki 600 tonn á ári var gefið út af heilbrigðiseftirlitinu að nýju 6. maí 2019. Með leyfinu fylgdi greinargerð þar sem m.a. málsmeðferðin var rakin, gerð var grein fyrir athugasemdum er borist höfðu við auglýsta tillögu að starfsleyfi og afstaða til þeirra. Þar kom og fram að útgáfa leyfisins væri með fyrirvara um fullnaðarafgreiðslu heilbrigðisnefndar Austurlands. Aðilum er komið höfðu á framfæri athugasemdum við starfsleyfistillöguna var jafnframt tilkynnt um þá afgreiðslu málsins. Heilbrigðisnefnd Austurlands tók málið fyrir á fundi 14. maí 2019 og staðfesti veitingu starfsleyfisins. Var eftirfarandi fært til bókar: „Nokkur umræða varð um málið og hlutverk Heilbrigðiseftirlits Austurlands sem eftirlitsaðila með starfseminni. Heilbrigðisnefnd leggur áherslu [á] að starfsleyfishafi hagi starfsemi sinni í samræmi við starfsleyfisskilyrði og minnir á að endurtekin brot á þeim geta haft í för með sér stöðvun eða takmörkun á starfseminni.“

Málsrök kæranda: Kærandi telur að meðferð málsins hafi hvorki verið vönduð né lýðræðisleg. Við undirbúning fyrra starfsleyfisins hafi verið vakin athygli á starfsleyfisdrögum, umsagnarfresti og fleiru í Dagskránni sem berist inn á öll heimili á Austurlandi. Einnig hafi verið haldinn íbúafundur til að kynna málið og kalla eftir athugasemdum. Við meðferð máls þessa hafi átt að viðhafa sömu málsmeðferð. Annað sé óásættanlegt sé litið til óánægju og kvartana íbúa vegna starfseminnar.

Ámælisvert sé að ekki sé gerð krafa um bestu fáanlegu tækni í starfsleyfinu, líkt og krafa sé gerð um í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Sérstaklega þar sem starfsemin sé mjög nærri íbúðarbyggð og tjald- og útivistarsvæði Reyðarfjarðar, sem og í ljósi framkominna athugasemda. Hægt sé að takmarka lyktarmengun með notkun á Biofilter en enga slíka kröfu sé að finna í starfsleyfinu.

Gerð sé athugasemd við þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að gera ekki kröfu um mat á umhverfisáhrifum í ljósi nálægðar starfseminnar við byggðina. Í ákvörðuninni sé hvergi getið nálægðar við tjald- og útivistarsvæði, sem sé einungis í um 300 m fjarlægð.

Þá geti það ekki talist eðlileg og vönduð stjórnsýsla að sami maður hafi komið að málinu bæði sem umsagnaraðili og ákvörðunaraðili. Þannig hafi nefndarmaður í eigna-, umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðabyggðar, fulltrúi í bæjarráði og forseti bæjarstjórnar komið að afgreiðslu umsagnar sveitarfélagsins á öllum stigum stjórnsýslunnar og samhliða því gegnt formennsku í stjórn Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Hafi hann á engum tímapunkti vikið sæti við afgreiðslu málsins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er því hafnað að málsmeðferð hins kærða starfsleyfis hafi verið óvönduð og ólýðræðisleg. Við útgáfu leyfisins hafi verið farið að ákvæðum reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit sem tekið hafi gildi í maí 2018. Við útgáfu þess starfsleyfis sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi hafi verið í gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Tillaga að starfsleyfi hafi verið auglýst á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins. Íbúafundur sá sem kærandi skírskoti líklega til, hafi verið haldinn á vegum sveitarfélagsins og hafi heilbrigðiseftirlitið ekki átt beina aðkomu að honum. Krafa um bestu aðgengilegu tækni komi fram í grein 1.4. í starfsleyfisskilyrðum. Hvað varði aðkomu Skipulagsstofnunar og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar að málinu taki heilbrigðiseftirlitið ekki efnislega afstöðu til athugasemda kæranda. Þó sé rétt að fram komi að umsögn Fjarðabyggðar hafi verið unnin af embættismönnum sveitarfélagsins, en ekki hafi verið um nefndarálit að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Engin haldbær rök séu fyrir því að fella beri hið kærða starfsleyfi úr gildi. Þá eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins. Ekki verði séð með hvaða hætti álitaefni kærunnar skipti kæranda máli að lögum og hafi hann með engu móti gert tilraun til að rökstyðja lögvarða hagsmuni sína.

Meðferð málsins hafi uppfyllt öll þau skilyrði sem mælt sé fyrir um í lögum hvað varði málsmeðferð og birtingu starfsleyfis. Skýrt komi fram í 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit að birting á vefsíðu útgefanda leyfis teljist opinber birting. Hafi hvorki verið skylt að auglýsa starfsleyfisdrögin í dagblaði né boða til íbúafundar.

Í skilyrðum með starfsleyfinu sé skýrlega tekið fram hvaða lög og reglugerðir gildi um hana og meðal þeirra sé reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Sé þannig gerð krafa um að leyfishafi fylgi settum lögum og reglugerðum, þ. á m. varðandi alla þá tækni sem mælt sé fyrir um að nota skuli. Hvergi komi fram í lögum að taka þurfi sérstaklega fram í starfsleyfi að beita skuli bestu fáanlegu tækni við meðhöndlun úrgangs. Þá heyri það undir eftirlitsaðila að leggja mat á það hvort starfsemi leyfishafa sé í samræmi við lög og reglugerðir, sbr. 6. gr. í skilyrðunum. Engin lagarök séu fyrir hendi til að krefjast þess að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þessarar málsástæðu kæranda.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 16. nóvember 2017 um að framkvæmdin skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum hafi m.a. verið á því reist að starfsemin væri í meira en 500 m fjarlægð frá íbúðarbyggð. Hafi lögbundinn kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi verið lögð fram og beri því að hafna kröfu kæranda þegar af þeirri ástæðu.

Þeirri fullyrðingu að sami aðili hafi bæði verið umsagnaraðili og ákvörðunaraðili um útgáfu starfsleyfisins sé mótmælt. Sé fullyrðingin röng og órökstudd og með öllu vanreifuð. Jafnframt sé því mótmælt að skilyrði séu að lögum til að fella starfsleyfið úr gildi sökum ætlaðs vanhæfis ótilgreinds aðila. Þá sé því andmælt að rök standi til þess að verða við kröfu kæranda, enda þótt fullyrðing hans um ætlaða aðkomu væri rétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar heilbrigðisnefndar Austurlands frá 14. maí 2019 að samþykkja starfsleyfi fyrir jarðgerð að Hjallanesi 10-14, Reyðarfirði. Hefur kærandi máls þessa áður beint kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna sömu starfsemi og var það mat nefndarinnar í máli nr. 33/2018 að kærandi ætti þá lögvörðu hagsmuni sem væru skilyrði kæruaðildar að lögum þar sem ekki væri hægt að útiloka að hann gæti vegna staðsetningar fasteignar hans orðið var við mengun vegna starfseminnar. Verður ekki séð að breyting hafi orðið þar á og verður málið því tekið til efnislegrar meðferðar með sömu rökum.

Kærandi gerir athugasemd við þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. nóvember 2017 að allt að 600 tonna jarðgerð á Reyðarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en sú ákvörðun er ekki til umfjöllunar í máli þessu. Gerir enda kærandi ekki kröfur í því sambandi auk þess sem kærufrestur vegna greindrar ákvörðunar er löngu liðinn, svo sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 33/2018 þar sem sama atriði var til skoðunar.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi. Starfsleyfi eru jafnframt háð skilyrðum reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Tók reglugerðin gildi í maí 2018 og féll þá m.a. úr gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en síðargreinda reglugerðin var enn í gildi þegar fyrra starfsleyfið var veitt. Gefa heilbrigðisnefndir út starfsleyfi vegna atvinnureksturs sem talinn er upp í viðauka IV og V í lögunum og í X. viðauka með reglugerð nr. 550/2018, þ. á m. vegna endurnýtingar úrgangs.

Umsókn um starfsleyfi það sem hér um ræðir fylgdi greinargerð þar sem t.a.m. staðháttum og framkvæmdinni er lýst. Þar segir m.a. að jarðgerðin fari fram með þeim hætti að safnað sé lífrænum eldhúsúrgangi frá þremur sveitarfélögum á Austurlandi og Höfn. Fari úrgangurinn úr söfnunarbíl í jarðgerðarvél ásamt stoðefnum, sem séu kurlað timbur og hrossatað. Í vélinni sé blöndunarbúnaður sem sjái um að blanda hráefnunum saman og tryggja aðkomu súrefnis. Niðurbrotið fari fram með loftháðu ferli til að koma í veg fyrir myndun metans. Þegar blöndun sé lokið sé hrámoltan tekin úr og látin þroskast fyrir utan vélina í um sex mánuði. Lífræni eldhúsúrgangurinn verði settur í vélina jöfnum höndum eftir því sem hann berist á svæðið, en sé það ekki mögulegt verði úrgangurinn settur í lokaða króksgáma þar til hægt verði að losa úr þeim í vélina.

Í greinargerðinni er einnig tekið fram að hugsanleg áhrif á umhverfið séu af völdum lyktar- og örverumengunar. Hverfandi hætta sé á því að skaðlegar bakteríur berist í umhverfið en þrátt fyrir það séu reglulega tekin sýni af moltunni. Til að lágmarka hættu á ónæði vegna hávaða verði hvorki unnið snemma morguns né seint á kvöldin. Ekki sé talið líklegt að íbúar verði fyrir ónæði af vinnslunni þar sem lítil íbúðarbyggð sé í nágrenninu, en að næsta íbúðarhúsi séu rúmlega 500 metrar. Þar sem jarðgerðin fari fram með loftháðu ferli sé ekki hætta á miklu lyktarónæði frá vinnslunni. Hins vegar sé hætt við að einhverja lykt geti lagt frá hrámoltu á meðan á þroskunarferli standi og þá sér í lagi þegar velta þurfi moltunni til að tryggja aðkomu súrefnis. Það þurfi að gera með reglulegu millibili, eða u.þ.b. einu sinni í mánuði. Ætti lykt frá jarðgerðinni ekki að trufla íbúa á svæðinu vegna mótvægisaðgerða rekstraraðila til að koma í veg fyrir lyktarónæði.

Því er lýst í greinargerð með hinu kærða starfsleyfi að tillaga að leyfinu hafi verið auglýst á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Austurlands 3. apríl 2019 með fresti til athugasemda til og með 2. maí s.á. Jafnframt auglýsingu var leitað umsagna sveitarfélagsins og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar. Bárust athugasemdir á auglýsingatíma tillögunnar, m.a. frá kæranda máls þessa, er lutu m.a. að lyktarmengun og umgengni á athafnasvæðinu. Tók kærandi fram að ítrekað hefði komið upp lyktarmengun á svæðinu frá því að moltugerð hefði hafist þar í lok árs 2017. Sveitarfélagið vék og að því í umsögn sinni að ítrekað hefði verið kvartað vegna lyktarmengunar frá svæðinu. Eins hefði umgengni og frágangur ekki verið í samræmi við starfsleyfi. Taldi sveitarfélagið m.a. að ljóst væri að ekki hefði verið farið eftir starfsleyfi því sem gefið hefði verið út á sínum tíma. Yrði starfsleyfi gefið út að nýju væri þess krafist að Heilbrigðiseftirlit Austurlands myndi sjá til þess að jarðgerðin yrði í samræmi við starfsleyfi og að úrræðum vegna endurskoðunar eða niðurfellingar á því yrði beitt ef starfsemin yrði ekki innan marka leyfisins. Þá kom fram í umsögninni að samkvæmt deiliskipulagi Nes 1 væri gert ráð fyrir grófum iðnaði að Hjallanesi 10-14.

Afrit auglýsingar um tillögu að hinu kærða starfsleyfi mun ekki hafa verið vistað með gögnum málsins og er hana ekki lengur að finna á nefndu vefsvæði. Verður að telja það í ósamræmi við þá skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að varðveita málsgögn, sbr. 2. gr. reglna nr. 85/2018 um skráningu mála og málsgagna afhendingarskyldra aðila, sbr. og 40. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að stjórnvald skuli varðveita rafræn gögn þannig að unnt sé að sannreyna efni og uppruna þeirra síðar með aðgengilegum hætti. Þykir það þó ekki eiga að leiða til ógildingar með hliðsjón af því að atvik málsins benda ekki til annars en að birting hafi farið fram með þeim hætti sem lýst er. Þá var birtingarmátinn í samræmi við 7. gr. laga nr. 7/1998 og 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Hinn 6. maí 2019 gaf Heilbrigðiseftirlit Austurlands út hið umdeilda starfsleyfi. Í því er tekið fram að það sé gefið út skv. ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 550/2018. Skuli leyfishafi einnig hlíta ákvæðum annarra laga og reglugerða sem um starfsemina kunni að gilda og starfsleyfisskilyrðum sem fylgi starfsleyfinu og séu óaðskiljanlegur hluti þess.

Markmið laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 550/2018 er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er það markmið að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Tekur mengun m.a. til ólyktar, sbr. t.d. lið 25 í 3. gr. reglugerðarinnar. Ber heilbrigðisnefnd við undirbúning ákvörðunar sinnar um starfsleyfi að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem tilgreindar eru í lögum nr. 7/1998, tilvitnaðri reglugerð og í stjórnsýslulögum og líta jafnframt til þess að áhrif mengunar á umhverfið verði sem minnst í samræmi við fyrrnefnd markmið laganna og reglugerðarinnar þar um.

Eins og áður greinir er starfsleyfið bundið ákveðnum skilyrðum. Í sértækum skilyrðum með leyfinu eru í 2. gr. gerðar almennar kröfur er varða m.a. umgengni á svæðinu. Jafnframt skal rekstraraðili halda þar uppi skipulegum meindýravörnum og sjá til þess að hvorki fugl né nagdýr hafist við á svæðinu. Einnig er vikið að umgengni á svæðinu í greinargerð með starfsleyfinu, en gerðar voru athugasemdir á kynningartíma tillögunnar varðandi meindýravarnir. Er tekið fram að skýrslur meindýraeyðis bendi ekki til þess að aukning hafi orðið á músum á svæðinu eftir að jarðgerð hófst. Auk þess hafi verið settur upp hljóðbúnaður eða fuglafæla á svæðinu. Í 5. gr. skilyrðanna er fjallað um innra eftirlit og er m.a. gerð krafa um að rekstraraðili viðhafi reglulegt eftirlit með umhverfis- og rekstrarþáttum sem haft geta áhrif á mengun og/eða losun efna út í umhverfið. Skrá skal nánar tilgreindar upplýsingar, svo sem um kvartanir sem berast vegna starfseminnar og skulu þær vera aðgengilegar eftirlitsaðila. Í 3. gr. nefndra skilyrða eru ákvæði um varnir gegn mengun. Meðal þess sem þar er tekið fram er að lágmarka skuli lyktarmengun, s.s. með því að tryggja fullnægjandi loftun og nægilega þekju timburkurls og gæta skuli að vindátt þegar múgum er velt við. Rekstraraðili skal leita allra leiða til að lágmarka magn plasts sem borist getur með hráefni og leitast skal við að draga úr hávaða frá starfseminni. Komi til þess að ónæði eða ami verði af lyktarmengun skal fyrirtækið tafarlaust bregðast við og grípa til lagfæringa. Þá eru í 4. gr. skilyrðanna einnig gerðar kröfur um ákveðna tilhögun við flutning og vinnslu úrgangs. Skal heimilisúrgangur til jarðgerðar t.a.m. fluttur í lokuðum ílátum beint í vinnslu. Aðeins er heimilt að taka við stöðnu taði, þannig að lyktarmengun sé í hófi. Efnishaugar hvers konar og múgar af moltu í vinnslu skulu vera takmarkaðir við 2,5 m hæð og geymdir á afmörkuðum svæðum á bundnu slitlagi. Séð skal til þess að ekki fjúki úr þeim.

Í greinargerð með starfsleyfinu kemur fram að lyktarmengun hafi ekki verið viðvarandi að mati heilbrigðiseftirlitsins og sé bundin við þegar múgunum sé velt. Hafi starfsmenn rekstraraðila haft þá vinnureglu að snúa múgunum þegar vindátt sé hagstæð en í stillum hafi lykt borist í skamma stund yfir íbúðarbyggð. Jafnframt er vísað til þess að á því rúma ári sem liðið væri frá því að starfsemin hefði hafist hefðu borist fjórar kvartanir, allar á sex vikna tímabili. Öllum kvörtunum hefði verið sinnt og hægt hefði verið að staðfesta lykt frá svæðinu í einu tilfelli. Ekki hefði þó komið til þess að farið væri fram á sérstakar aðgerðir til að takmarka lykt. Því teldi heilbrigðiseftirlitið að ekki væri grundvöllur fyrir því að hafna útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemina af þeim sökum. Engu að síður yrði lögð áhersla á, m.a. vegna þeirra athugasemda sem borist hefðu á auglýsingartíma, að fylgjast vel með mögulegri lyktarmengun á svæðinu. Væri starfsleyfið einungis gefið út til fjögurra ára en ekki til tólf. Þá yrði reglubundið eftirlit með starfseminni að lágmarki þrisvar sinnum á ári og væri kveðið á um það í starfsleyfi að heilbrigðiseftirlitið áskildi sér rétt til að endurskoða starfsleyfið eða fella það niður yrði um viðvarandi lyktarmengun eða ónæði af starfseminni að ræða.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að mat hafi farið fram af hálfu útgefanda starfsleyfisins um hvort skilyrði væru til útgáfu þess og að fyrir starfseminni hafi verið sett viðeigandi skilyrði og ákvæði um mótvægisaðgerðir að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem borist höfðu, eðlis starfseminnar og þeirrar mengunar sem frá henni stafar. Þótt ekki hafi verið tekin sérstök afstaða til nálægðar starfseminnar við útivistarsvæði þá lá fyrir við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar umsögn Fjarðabyggðar um að starfsemin væri innan skilgreinds iðnaðarsvæðis, en skv. f. lið gr. 6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 eru það svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér.

Skal og á það bent að fram kemur í lið 1.4. í almennum starfsleyfisskilyrðum fyrir mengandi starfsemi, er einnig fylgdu starfsleyfinu, að leitast skuli við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu aðgengilegu tækni til að ná þeim markmiðum, en með breytingalögum nr. 66/2017 var skilgreiningu 3. gr. laga nr. 7/1998 á hugtakinu besta fáanlega tækni breytt í besta aðgengilega tækni. Viðmiðanir fyrir ákvörðun á bestu aðgengilegu tækni eru að finna í III. viðauka með reglugerð nr. 550/2018 og meðal þeirra er notkun tækni sem hefur í för með sér myndun lítils úrgangs. Er rekstraraðili bundinn af fyrrgreindum ákvæðum í starfsemi sinni en hann skal einnig tryggja að starfsemin sé m.a. í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim.

Kærandi hefur gert athugasemdir varðandi hæfi formanns heilbrigðisnefndar þar sem hann hafi komið að undirbúningi málsins áður en leyfi var veitt, en formaðurinn situr jafnframt í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd. Svo sem lýst er í málavöxtum óskaði Heilbrigðiseftirlit Austurlands eftir umsögn sveitarfélagsins og byggingarfulltrúa vegna framkominnar umsóknar um starfsleyfi. Beiðnin var til umfjöllunar á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 23. apríl 2019 og fól hún sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og bæjarstjóra að gefa umsögn „og horfa til þeirra varnagla sem slegnir voru í fyrri umsögn árið 2017 sem og reynslu sem fengist hefur frá þeim tíma.“ Umsögn, dags. 1. maí 2019, er undirrituð af bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa. Líkt og fyrr greinir gaf heilbrigðiseftirlitið síðan út starfsleyfi og staðfesti heilbrigðisnefnd útgáfu þess á fundi sínum 14. s.m. Sat formaður heilbrigðisnefndar þann fund, sem og fyrrnefndan fund eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar.

Samkvæmt 48. gr. laga nr. 7/1998 gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga um vanhæfi nefndarmanna í heilbrigðisnefnd til afgreiðslu mála. Veiting starfsleyfis er stjórnvaldsákvörðun og er í 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 tekið fram að um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga til þátttöku í meðferð eða afgreiðslu mála þar sem á, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gildi ákvæði þeirra sé ekki öðruvísi ákveðið. Í 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um vanhæfisástæður og telst nefndarmaður vanhæfur til meðferðar máls á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi, sbr. 4. tl., og gildir hið sama um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að. Þá er nefndarmaður vanhæfur ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu, sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga. Ekkert bendir til þess að slíkar aðstæður séu fyrir hendi í máli þessu. Þá segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum um 3. gr. laganna að ákvæði 4. tl. komi ekki alltaf í veg fyrir að sami maður geti fjallað um sömu mál í tveimur störfum. Séu störfin ekki í stjórnsýslusambandi og umfjöllun og meðferð í öðru starfinu verður ekki talin til eftirlits eða endurskoðunar í þágu réttaröryggis á þeim málum, sem falla undir hitt starfið, geti sami maður fjallað um málið í báðum störfunum þrátt fyrir ákvæði 4. og 6. tl. Þá er tekið fram að þegar starfsmaður hafi tekið þátt í því að veita umsögn teljist hann almennt ekki vanhæfur til að taka þátt í meðferð máls á sama stjórnsýslustigi þar sem litið sé á umsögnina sem einn lið í undirbúningi málsins. Þær nefndir sem um ræðir eru á sama stjórnsýslustigi og hlýtur framangreint að eiga við um nefndarmenn líkt og um starfsmenn. Bendir þannig ekkert til vanhæfis formanns heilbrigðisnefndar í skilningi þeirra réttarreglna sem áður eru raktar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að þeir form- eða efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt er að benda á að samkvæmt gögnum málsins hafa verið skráð frávik vegna starfseminnar, sbr. tvær eftirlitsskýrslur heilbrigðiseftirlitsins þar um. Er annars vegar um að ræða skýrslu, dags. 4. júlí 2019, og hins vegar skýrslu, dags. 12. nóvember s.á. Í kjölfarið var málið tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar og með bréfi heilbrigðiseftirlitsins til rekstraraðila, dags. 16. desember 2019, var m.a. tilkynnt að heilbrigðisnefnd hefði samþykkt á fundi sínum 12. s.m. að áminna rekstraraðila og krefjast nánar tilgreindra úrbóta. Þá er heilbrigðisnefnd heimilt samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 að beita nánar tilgreindum aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum. Álitaefni sem lúta að eftirliti með starfseminni og því hvort farið sé að ákvæðum starfsleyfisins eru hins vegar ekki til skoðunar í máli þessu, en ákvörðun um að beita eða synja beitingu þvingunarúrræða er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils umfangs og fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 14. maí 2019 að samþykkja útgáfu starfsleyfis til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir jarðgerð á allt að 600 tonnum á ári af lífrænum úrgangi á starfsstöð félagsins að Hjallanesi 10-14, Reyðarfirði.

1/2020 Gjaldskrá á fráveitu

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2020, kæra á gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir íbúi, Grindavík, gjaldskrá nr. 1117/2019  fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Er þess krafist að gjaldskráin verði felld úr gildi og að samin verði ný gjaldskrá sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 27. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Birtist gjaldskráin í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember s.á. og tók gildi 1. janúar 2020.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Gjaldtaka Grindavíkurbæjar vegna fráveitu innihaldi ólöglega eignayfirfærslu upp á 188.000.000 kr., þ.e. sölugjörning á þegar gjaldfærðum, greiddum og eldri fráveituframkvæmdum afskrifuðum að fullu. Séu gjaldendur fráveitugjalda látnir greiða þessar framkvæmdir aftur ásamt afskrifuðum vöxtum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að yfirflutningur fráveituframkvæmda árið 2002 hafi verið í samræmi við 8. gr. auglýsingar nr. 790/2001 um reikningsskil sveitarfélaga og í fullri samvinnu við endurskoðendur bæjarins. Hann hafi á engan hátt verið óheimill eins og kærandi haldi fram. Farið sé fram á frávísun málsins.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samin verði ný gjaldskrá.

Sem fyrr greinir tók hin kærða gjaldskrá gildi 1. janúar 2020 en samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur álagning gjalda á grundvelli hennar ekki átt sér stað. Gjaldskráin er sett með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú kæruheimild laganna tekur m.a. til álagningu gjalda sem innheimt eru á grundvelli gjaldskráa settra samkvæmt lögunum og í slíku kærumáli getur eftir atvikum komið til skoðunar hvort fjárhæð þjónustugjalds sem innheimt er á grundvelli gjaldskrár er innan þess ramma sem slíkum gjöldum er settur. Hins vegar eru gjaldskrár sem slíkar ekki stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Hefur kærandi því ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu hinnar kærðu gjaldskrár fyrr en álagning á grundvelli hennar fer fram, en slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem gjaldskráin verður ekki kærð á grundvelli 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna, t.d. í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, brestur úrskurðarnefndina vald til að taka gjaldskrána til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

60, 61 og 63/2019 Vesturlandsvegur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019, um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Akraneskaupstaður ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019 um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er bárust nefndinni 15. og 16. s.m., kæra annars vegar Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Dalabyggð, Helgafellssveit og Borgarbyggð og hins vegar Grundarfjarðarbær, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar og krefjast ógildingar hennar. Krefst Grundarfjarðarbær þess einnig að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið aftur til meðferðar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 61/2019 og 63/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 16. ágúst 2019.

Málavextir: Vegagerðin áformar að breikka um 9 km kafla Vesturlandsvegar um Kjalarnes milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Felur framkvæmdin í sér breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að lokinni málsmeðferð stofnunarinnar komst hún að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni, dags. 11. júní 2019, að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ranga þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Sé það mat kærenda að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé ekki framkvæmd sem kunni að hafa í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé unnt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Hafi stofnunin ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða séð til þess að umfang framkvæmdar væri upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin um matsskyldu.

Kærendur telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sveitarfélögin séu í næsta nágrenni við hina fyrirhuguðu framkvæmd, en Vesturlandsvegur sé afar mikilvæg tenging íbúa þeirra við höfuðborgarsvæðið og umferðaröryggi vegarins skipti miklu máli. Það sé lögbundið verkefni sveitarfélaga að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, sbr. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Umferðaröryggi íbúa sveitarfélaga sé eitt þeirra velferðarmála. Kærendur hafi því verulega og sérstaka hagsmuni af því að fá úrlausn kærumálsins í því skyni að sinna lögbundnu hlutverki sínu og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, en hin kærða ákvörðun muni fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við veginn.

Ljóst sé að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar muni auka umferðaröryggi íbúa kærenda svo um muni. Eðli máls samkvæmt stundi hluti íbúa sveitarfélaganna vinnu á höfuðborgarsvæðinu og aki því umræddan vegkafla daglega, auk þess sem íbúar sæki afþreyingu til höfuðborgarsvæðisins reglulega. Sveitarfélögin og íbúar þeirra hafi því lögvarinna hagsmuna að gæta þegar komi að því að framkvæmdinni sé hraðað, en sveitarfélögunum sé umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið. Þá sé rétt að nefna að breikkun Vesturlandsvegar sé forgangsmál samkvæmt sameiginlegri samgönguáætlun sveitarfélaga á Vesturlandi. Hin kærða ákvörðun, verði hún látin standa, muni seinka framkvæmdunum um umtalsverðan tíma.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að hún taki ekki afstöðu til þess hvort kærendur hafi aðild að málinu skv. lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Um efni málsins sé bent á að í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, séu vegaframkvæmdir tilgreindar í tl. 10.07 – 10.10. Í tl. 13.01-13.03 sé síðan að finna ákvæði sem eigi almennt við um breytingar á framkvæmdum eða viðbætur við framkvæmdir sem falli undir einhvern af töluliðunum í 1.-12. kafla viðaukans. Undir tl. 13.01 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A þar sem breytingin eða viðbótin sjálf fari yfir þau viðmið sem flokkur A setji. Undir tl. 13.02 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A og B, aðrar en þær sem falli undir tl. 13.01.

Vegagerðin hafi tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar með vísan til tl. 13.02, án þess að tilgreina undir hvaða tölulið í 10. kafla 1. viðauka hún félli, en allar framkvæmdir sem séu tilkynningarskyldur samkvæmt 13. kafla viðaukans, tilheyri einhverjum þeirra framkvæmdaflokka sem fram komi í 1.-12. kafla hans. Hafi Skipulagsstofnun talið að framkvæmdin væri tilkynningarskyld samkvæmt tl. 13.02 og því hafi verið tekið við erindi Vegargerðarinnar samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt nefndri lagagrein skuli stofnunin fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna, þegar tekin sé ákvörðum um hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Áhrif á hljóðvist og skortur á upplýsingum um mótvægisaðgerðir vegna hávaða hafi ekki eitt og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum heldur sé það meðal þeirra atriða sem leitt hafi til þess að Skipulagsstofnun hafi talið að framkvæmdin skyldi háð slíku mati, sbr. viðmiðin í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Ljóst sé að umferðarrýmd vegarins aukist, sem og umferðarhraði fram hjá þéttbýlasta svæðinu á Kjalarnesi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Vegagerðinni liggi fyrir að hávaðinn verði yfir viðmiðunarmörkum skv. reglugerð um hávaða nr. 724/2008 og hafi ekki verið lagðar fram upplýsingar um gerð og útfærslu hljóðvarna og virkni þeirra, sem sé meðal þess sem fjalla skuli um við mat á umhverfisáhrifum, sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Þá séu mengun og ónæði meðal þeirra atriða sem horfa skuli til við ákvörðun um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. tl. v. í 2. viðauka laganna. Samkvæmt 2. tl. 2. viðauka nefndra laga skuli við ákvörðun samkvæmt 6. gr. þeirra einnig horfa til staðsetningar framkvæmdar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér að teknu tilliti til niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal þeirra eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Eru kærendur í máli þessu sveitarfélög en ekki samtök í skilningi framangreinds ákvæðis. Þá njóta sveitarfélögin ekki lögfestrar kæruheimildar, en stjórnvöld hafa almennt ekki kærurétt í stjórnsýslunni.

Verður því að líta svo að sveitarfélög þau sem um ræðir verði að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins til að geta átt að því kæruaðild. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum verður og við það að miða að þau verði að eiga sérstaka einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa hafa kærendur vísað til 2. mgr. nefndrar lagagreinar, en þar segir að sveitarfélög skuli vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa eftir því sem fært þyki á hverjum tíma. Ekki verður borið á móti því að mikilvægir hagsmunir felast í því að tryggja umferðaröryggi borgaranna. Þar er þó um almannahagsmuni að ræða, en ekki einstaklingsbundna hagsmuni þeirra sveitarfélaga sem að kærumáli þessu standa. Verða þau því hvorki talin aðilar að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda henni sem gerðir eru að skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærendur eiga ekki aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 26. maí 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með úrskurði 9. nóvember 2016 í kærumáli nr. 89/2016 var kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, vísað frá en þær beindust að breyttri notkun á íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Loks var með úrskurði 21. september 2018 í kærumáli nr. 93/2017 felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6. Þá hefur kærandi jafnframt kært afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni hans um afhendingu gagna. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 158/2017, uppkveðnum 20. desember 2018, var lagt fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar tiltekinn hluta erindis kæranda um aðgang að gögnum, en að öðru leyti var kærunni vísað frá.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar 28. september 2018 var tekin fyrir endurnýjuð umsókn leyfishafa. Samþykkti nefndin að grenndarkynna umsóknina og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum, sem hagsmuna hefðu að gæta, fyrirhugaða framkvæmd. Með bréfi, dags. 23. október s.á., var umsókn leyfishafa kynnt fyrir kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og var athugasemdafresturinn til 23. nóvember s.á. Kærandi óskaði eftir frekari gögnum, upplýsingum og svörum við tilteknum spurningum í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. október s.á., en því bréfi var ekki svarað af byggingarfulltrúa. Hinn 20. nóvember s.á. kom kærandi að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar til sveitarstjórnar. Á fundi byggðaráðs 3. janúar 2019 voru lögð fram drög að bréfi vegna framkominna athugasemda kæranda og samþykkti ráðið að fela sveitarstjóra að senda bréfið með áorðnum breytingum. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu byggðaráðs á fundi sínum 10. s.m. Með bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 7. s.m., var athugasemdum kæranda við grenndar­kynninguna svarað. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. mars 2019 voru lagðar fram athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og svör byggingarfulltrúa við þeim. Taldi nefndin svörin fullnægjandi og lagði til við sveitarstjórn að byggingarleyfi yrði gefið út fyrir Egilsgötu 6. Samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 14. s.m. að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna fram­kvæmda við Egilsgötu 6. Byggingarfulltrúi gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé það m.a. verkefni skipulagsnefnda að annast grenndarkynningar vegna umsókna um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggi fyrir deili­skipulag. Í gr. 5.9.3. um hagsmunaaðila segi að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi ekki lagt neitt mat á það hverja hún hafi talið til hagsmunaaðila málsins. Í gögnum málsins komi hvergi fram hverjir hafi verið taldir aðilar máls eða hverjir hafi gert athugasemdir við umsóttar breytingar. Þá liggi fyrir að eigandi fjölbýlishússins að Egilsgötu 11, sem eigi bílastæðin sem sveitarstjóri hafi talið vera í eigu sveitarfélagsins í bréfi sínu til kæranda 7. janúar 2019 og sem notendur eigna Egilsgötu 6 hafi hagnýtt sér leyfislaust, hafi ekki verið á meðal þeirra sem fengið hefðu að taka þátt í grenndarkynningunni.

Á þeim tveimur fundum sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi haldið eftir að frestur til þess að gera athugasemdir við grenndarkynninguna hafi runnið út 23. nóvember 2018, og þar til byggðaráð Borgarbyggðar hafi tekið svör sveitarstjóra við athugasemdir kæranda til um­fjöllunar á fundi sínum 3. janúar 2019, hafi nefndin ekki fjallað um eða afgreitt athugasemdir kæranda við grenndarkynninguna. Í bókun nefndarinnar á fundi hennar 6. mars s.á. komi ekkert fram um hvaða athugasemdum hafi verið svarað af byggingarfulltrúa. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Í bréfi lögfræðings sveitarfélagsins til Sýslumannsins á Vesturlandi sé staðfest að þrjár athugasemdir hafi borist byggingar­fulltrúanum vegna grenndarkynningarinnar og að hann hafi svarað þeim, en athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið svarað af sveitarstjóra þar sem kærandi hafi stílað athugasemdir sínar á sveitarstjórn Borgarbyggðar. Því hafi málsmeðferð athugasemda kæranda verið önnur en hinna athugasemdanna. Slíkt staðfesti að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi hvorki tekið afstöðu til athugasemda kæranda né svara sveitarstjórans til hans. Einstakir þættir málsins hafi því aldrei verið teknir fyrir á fundum nefndarinnar líkt og henni hafi borið að gera skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segi að berist athugasemd á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Á fundi sveitarstjórnar 10. janúar 2019 hafi ákvörðun byggðaráðs frá 3. s.m., um að fela sveitarstjóra að senda svarbréf vegna athugasemda kæranda með áorðnum breytingum, verið staðfest, en sveitarstjóri hafi hins vegar sent nefnt svarbréf þremur dögum fyrr eða 7. s.m. Hvergi komi fram að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi fengið svarbréfið til umfjöllunar eða samþykktar. Með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð sé niðurstaða bréfsins því marklaus og ólögleg þar sem samþykki sveitarstjórnar fyrir því hafi ekki legið fyrir þegar það hafi verið sent.

Bréf skipulagsfulltrúa frá 23. október 2018 þar sem fyrirhuguð framkvæmd hafi verið grenndarkynnt uppfylli ekki skilyrði laga enda sé ekki getið um til hverra nota íbúðirnar eigi að vera. Í gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð segi að í bréfi til hagsmunaaðila skuli m.a. koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningar og eigi hönnunargögn, sbr. gr. 5.9.7., að fylgja þegar um leyfisumsókn sé að ræða. Verulega vanti upp á í þeim efnum. Í gr. 5.9.7. sé m.a. kveðið á um að upplýsingar um bílastæði og aðrar kröfur sem gerðar séu til framkvæmdarinnar þurfi að fylgja gögnum eftir því sem við eigi, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá komi fram í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar að í grenndarkynningu leyfisumsóknar skuli liggja fyrir rökstuðningur fyrir fjölda bílastæða og fyrirkomulag þeirra. Gögn meðfylgjandi grenndarkynningu uppfylli ekki framangreindar lagaskyldur. Í bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 sé vísað til bílastæða í eigu sveitarfélagsins sem standi gegnt Egilsgötu 6, en samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi Egilsgötu 11 séu umrædd bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi ákveðið að fjölga íbúðum um þrjár í húsinu og samhliða því ákveðið breytingar á bílastæðum inni á einkalóð annars án leyfis eiganda og án þess að gefa viðkomandi kost á að koma sjónarmiðum sínum að í grenndarkynningu vegna breytinganna.

Samkvæmt byggingarreglugerð verði lögmætt byggingarleyfi ekki gefið út á grundvelli umsóknar þar um nema að uppfylltum skilyrðum þeim sem ákveðin séu í reglu­gerðinni. Í athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið bent á fjölmörg atriði sem sýni að hönnunargögn, hönnun og skipulag íbúðanna fullnægi ekki skilyrðum nefndrar reglugerðar. Samkvæmt gr. 4.2.1. í reglugerðinni skuli mannvirki hönnuð á faglega full­nægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð. Í hönnunargögnum sé ekki gerð grein fyrir atriðum sem talin séu upp í gr. 4.3.1. og 4.3.2. og flestum þáttum sem krafa sé gerð um í gr. 4.3.3., 4.3.6., 4.3.9., 6.1.5. og 6.7.1. sömu reglugerðar. Umsókn um byggingarleyfi, og þar með grenndar­kynningargögnum, skuli meðal annarra gagna fylgja skráningartafla fyrir mannvirki og málsett teikning af þversniði húss. Hvort tveggja hafi vantað og hafi byggingarfulltrúi ekki svarað beiðni um þau gögn á kynningartíma, auk þess sem sveitarstjóri taki ekki á því efni í bréfi sínu 7. janúar 2019. Þá sé bent á að þinglýst hafi verið eignaskiptayfirlýsingu á lóðina að Egilsgötu 6 og sé hún því orðin að fjöleignarhúsi. Ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í grenndarkynningu. Hvergi sé í gögnunum fjallað um aðgengi að sorpílátum, staðsetningu eða um aðgengi að íbúð á annarri hæð, en íbúar hennar hafi tímabundið leyfi til að fara yfir lóð Egilsgötu 8. Grenndarkynning geti ekki farið fram með fullnægjandi hætti nema hönnunargögn séu full­nægjandi og í samræmi við lög.

Byggingarfulltrúi hafi aldrei svarað fyrirspurnum kæranda um til hverra nota íbúðirnar fjórar ættu að vera og það hafi sveitarstjóri ekki heldur gert í bréfi sínu til hans. Bent sé á að hinn 29. september 2018 hafi byggingarfulltrúi gefið Sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur til ótilgreinds tíma fyrir gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð að Egilsgötu 6. Þá hafi sveitarstjóri hinn 30. s.m. gefið sama aðila jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í sömu íbúðum. Hafi það verið gert þrátt fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fjögurra íbúða að Egilsgötu 6 hinn 21. s.m. Í ljósi þess að sveitarfélagið hafi frá sumri 2013 veitt heimild til rekstrar gistiþjónustu í umræddum íbúðum sé bent á að skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé íbúðargisting leiga á stakri íbúð til ferðamanna. Falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnuhúsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum samkvæmt reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun.

Samkvæmt gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra og samkvæmt gr. 6.2.4. skuli lágmarksfjöldi bílastæða fyrir fatlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera eitt stæði þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 1-10. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun. Þá skuli skv. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð hanna gististaði á grundvelli algildrar hönnunar. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skuli ítarlega rökstutt í hönnunargögnum á hvaða grundvelli það sé gert. Hönnun íbúða að Egilsgötu 6 sé ekki unnin á grundvelli algildri hönnun og ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í greinargerð. Þá sé bent á að samkvæmt reglugerðinni skuli samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Samkvæmt mælingu af teikningu vanti verulega upp á að ljósop glugga þriggja íbúða á fyrstu hæð sé nægjanlegt. Hurðarop uppfylli heldur ekki kröfur um stærð samkvæmt reglugerð. Lofthæð rýma skuli vera að lágmarki 2,5 m samkvæmt reglugerðinni. Ekki sé hægt að sannreyna nákvæmlega af teikningu hvort lofthæð á fyrstu hæð sé fullnægjandi, því málsett þversnið mannvirkis hafi ekki fylgt gögnum málsins og ekki fengist þrátt fyrir beiðni þar um. Aftur á móti hafi mæling á staðnum leitt í ljós að lofthæð í íbúð 0103 uppfylli ekki kröfu reglugerðar um lofthæð og sé mun lægri að hluta samkvæmt því er fram komi í fasteignaauglýsingu fyrir íbúðirnar. Sá þáttur málsins þarfnist frekari rannsóknar, en til þess hafi ekki fengist gögn. Framangreindir ágallar hafi ekki gefið forsendur til loka­úttektar 26. mars 2018, jákvæðra umsagna byggingarfulltrúa og sveitarstjóra um rekstur gistiþjónustu eða útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Slíkt leyfi eigi ekki að gefa út fyrr en hönnun standist kröfur byggingarreglugerðar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekkert þeirra atriða sem hafi komið fram í bréfi kæranda 29. október 2018 til byggingarfulltrúa hafi varðað hina umræddu grenndarkynningu. Kærandi hafi spurt byggingarfulltrúa hver skilgreining hans væri á orðinu stúdíóíbúð. Orðið sé að finna í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar og sé vel þekkt orð með vel þekkta merkingu. Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið skylt að útskýra það skriflega fyrir kæranda. Hvað varði athugasemdir kæranda þess efnis að umræddar stúdíóíbúðir uppfylli ekki margar ótilgreindar greinar byggingar­reglugerðar þá telji sveitarfélagið ljóst að svo óljósum málatilbúnaði sé ekki hægt að svara. Kærandi hafi sent sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf, dags. 20. nóvember 2018, þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Kærandi hafi fengið svarbréf frá sveitarstjóra, dags. 7. janúar 2019, þar sem farið hafi verið í gegnum athugasemdir kæranda lið fyrir lið. Bent sé á að í svarbréfi Skipulagsstofnunar til kæranda, dags. 19. mars s.á., komi fram að það sé álit stofnunarinnar að svör sveitarstjóra vegna athugasemda kæranda við bílastæðamál séu fullnægjandi, að sveitarfélagið hafi fært málefna­leg rök fyrir þeirri afstöðu sinni að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið brotin við meðferð málsins og að öllum atriðum í bréfi kæranda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti. Sveitarfélagið telji því ljóst að ekki aðeins hafi kærandi fengið tilskilin svör við athugasemdum hans við grenndarkynninguna heldur hafi hann jafnframt fengið staðfestingu á því frá Skipulagsstofnun að svörin hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins sem skipulagsyfirvalds og sem stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Því sé mótmælt að athugasemdabréf kæranda verði lagt til grundvallar sem gagn í þessu máli.

Kærandi geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni um hvort lóðarhafi Egilsgötu 11 hafi fengið senda grenndarkynningu. Óumdeilt sé að grenndarkynnt hafi verið fyrir kæranda og hafi hann því fengið fullt tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Kæranda varði ekkert um það hvort lóðarhafa Egilsgötu 11 hafi verið grenndarkynnt umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6.

Þrátt fyrir að bæði gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, geri ráð fyrir því að skipulagsnefnd sveitarfélagsins kynni nágrönnum leyfisumsókn þá sé það sveitarstjórn sem eigi síðasta orðið, þ.e. sveitarstjórn sé sá hluti stjórnsýslunnar sem taki málið til endanlegrar afgreiðslu. Þegar afgreiðsla sveitarstjórnar liggi fyrir skuli tilkynna þeim sem gert hafi athugasemdir niðurstöðu hennar. Svarbréf sveitarstjóra hafi verið unnið í samvinnu við starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs auk þess sem byggðaráð hafi samþykkt á fundi 3. janúar 2019 að sveitarstjóri sendi umrætt bréf. Sveitarstjórn hafi síðan tekið endanlega afstöðu í málinu á fundi sínum 14. mars s.á. með því að staðfesta þá afgreiðslu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið kærða byggingarleyfi. Það liggi því fyrir að við endanlega afgreiðslu málsins hafi sveitar­stjórn bæði fengið umsagnir umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um athugasemdir annarra hagsmunaaðila en kæranda, sem og svör sveitarstjóra við athugasemdum hans, þegar ákveðið hafi verið að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfið. Þrátt fyrir að meðferð málsins hafi verið hagað með þessum hætti hafi hún ekki komið niður á möguleika kæranda til að verja hagsmuna sína og koma að sjónarmiðum í málinu. Markmið málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar sé að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við stjórnvöld, en ekki sé nokkur leið að sjá að málsmeðferð sveitarfélagsins í þessu máli hafi haft neikvæða áhrif á réttaröryggi kæranda.

Sveitarfélagið fallist á að það hafi verið annmarki á afgreiðslu málsins að svarbréf sveitarstjórans frá 7. janúar 2019 skyldi sent kæranda áður en sveitarstjórn hafi samþykkt afgreiðslu byggðaráðs um að senda kæranda umrætt bréf. Annmarkinn sé þó ekki þess eðlis að hann eigi að varða ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Vegna þessa atriðis sé á það bent að í byggðaráði sitji þrír fulltrúar og einn áheyrnarfulltrúi, allt sveitarstjórnarmenn. Þegar afgreiðsla byggða­ráðs hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til staðfestingar hafi kjörnir fulltrúar engar athugasemdir gert við hana. Því hefði það ekki haft áhrif á efnislega afstöðu sveitarfélagsins til athugasemda kæranda hefði verið beðið með að senda bréfið fram yfir fund sveitarstjórnar.

Kærandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd grenndarkynningarinnar. Við yfirferð þeirra hafi sveitarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra stæðist skoðun, m.a. að grenndarkynning hafi verið efnislega fullnægjandi, að afstöðumynd hafi ekki þurft að fylgja með þar sem um ræddi breytingu á innra skipulagi húss, að ekki hafi þurft að gera grein fyrir bílastæðamálum þar sem ákvæði núgildandi skipulagsreglugerðar geri ekki sömu kröfur og eldri skipulags­reglugerð, að sveitarfélaginu væri ekki skylt að útbúa kort yfir bílastæði og að þar sem ekki væri verið að sækja um breytta notkun væri sveitarfélaginu hvorki skylt né heimilt að senda út grenndarkynningu vegna slíks.

Einnig hafi kærandi gert athugasemd við að hönnunargögn stæðust ekki skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, en kærandi geti ekki með nokkru móti talist hafa lögvarða hagsmuni af því að grenndarkynnt hönnunargögn vegna innanhússbreytinga sýni að húsið sé hannað á grundvelli algildrar hönnunar, sýni fyrirhugað fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma, sýni hæðarkóta á lóðamörkum, sýni hvort baðaðstaða sé þrepa- og þröskuldalaus og sýni skráningu rýmisnúmera á uppdrætti, svo dæmi séu tekin. Tilgangur þeirra ákvæða reglugerðarinnar sem kærandi vísi til sé að veita byggingarfulltrúum tiltekin lágmarksviðmið við þá matskenndu ákvörðun að veita byggingarleyfi. Uppfylli gögn ekki umræddar kröfur geti byggingar­fulltrúi vísað til þeirra við ákvörðun um að neita að gefa út byggingarleyfi. Tilgangur þeirra geti hins vegar ekki verið sá að gera öðrum aðilum, sem eigi enga hagsmuna tengda því að hönnunargögn séu fullnægjandi, kleift að vísa til þeirra við kæru til æðra stjórnvalds til rökstuðnings kæruatriðum sem virðist aðallega varða nábýlisrétt.

Þá séu athugasemdir varðandi bílastæðamál við Egilsgötu afar óraunhæfir hagsmunir fyrir kæranda í þessu máli með hliðsjón af því að efni grenndarkynningarinnar hafi varðað breytingu á innra skipulagi hússins að Egilsgötu 6. Í svarbréfi sveitarstjóra hafi með rökstuddum hætti verið vísað til þess að ákvæði eldri skipulagsreglugerðar eigi ekki við í málinu, að málsatvik vegna afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar Brákarbrautar 2 hafi ekki verið sambærileg og að umfjöllun á fundi byggðaráðs um drög að reglugerð  nr. 1277/2016  um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hafi ekki neitt gildi við grenndarkynningu þá sem athugasemdir kæranda hafi varðað.

Að lokum hafi athugasemdir kæranda varðað atvinnurekstur í íbúðahverfum og þess verið krafist að rekstur gistiheimilis í húsinu yrði stöðvaður. Sveitarstjóri hafi svarað með þeim hætti að hin umþrætta grenndarkynning hafi ekki varðað starfsemi í húsinu. Áréttað sé að Skipulagsstofnun hafi vottað að svör sveitarstjóra við tilgreindum atriðum hafi ýmist verið fullnægjandi, að stofnunin hafi ekki lagalegar forsendur til að gera athugasemdir við svörin og að svörin hafi verið fullnægjandi með tilliti til þess rökstuðnings sem þar komi fram. Jafnframt vísist til þess að allir meintu hagsmunir kæranda hafi verið ólögvarðir, óverulegir og þess eðlis að þeir geti ekki talist grundvöllur fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Í svarbréfi sveitarstjóra til kæranda hafi athugasemdum hans varðandi efni grenndar­kynningar verið svarað. Um leið sé minnt á afstöðu Skipulagsstofnunar til svara sveitarstjóra varðandi bílastæðamál. Sveitarfélagið gangist við því að hafa ekki áttað sig á því að umrædd stæði væru innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Mistökin helgist af því að sveitarfélagið hafi ávallt séð um umrædd stæði og borið af þeim kostnað. Þróun bílastæðamála við Egilsgötu hafi verið sú að stæðum við götuna hafi fjölgað umtalsvert frá gerð lóðarleigusamnings. Þá sé ítrekað að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni varðandi umrædd bílastæðamál.

Að því er varði þá málsástæðu kæranda að hönnunargögn séu ekki fullnægjandi vísist til fyrri umfjöllunar. Aukinheldur sé vísað til þess sem komi fram í bréfi sveitarstjóra að í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð segi að við breytingu á mannvirki sem byggt hafi verið í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum um algilda hönnun. Í ljósi þess að húsið við Egilsgötu 6 sé frá 1936 sé ekki hægt að gera kröfu um að það uppfylli allar kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um algilda hönnun. Þá sé vísað til bréfs Skipulagsstofnunar og þá helst þess sem fram komi í 4. tölul. bréfsins um að hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin fyrir grenndarkynningu, sbr. lokamálslið gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna til hvaða nota umræddar íbúðir í húsinu að Egilsgötu 6 ættu að vera. Í umsókn leyfishafa hafi verið sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss en ekki hafi komið fram að um breytta notkun væri að ræða. Þá vísi kærandi til umsagna sveitarfélagsins um umsóknir eigenda Egilsgötu 6 til Sýslu­mannsins á Vesturlandi um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sé því m.a. haldið fram að með því að kynna ekki breytta notkun hússins sé sveitarfélagið með einhverjum hætti að neita því að um sé að ræða íbúðir sem reknar séu fyrir gistiþjónustu. Bent sé á að þetta atriði sé ekki hluti málsins þar sem grenndarkynningin hafi varðað umsókn um leyfi fyrir innanhússbreytingar og ekkert annað. Jafnframt sé bent á að málefni tengd rekstrarleyfum séu ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. úrskurð nefndarinnar í kærumáli nr. 89/2016. Þá vísi kærandi til 12. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og haldi því fram að í ákvæðinu komi fram að íbúð sem ekki falli undir heimagistingu skuli vera atvinnuhúsnæði. Rétt sé að benda á að með breytingarreglugerð nr. 686/2018 hafi umrætt ákvæði verið fellt úr gildi frá og með 3. júlí 2018. Allar athugasemdir kæranda um að hönnunargögn hafi átt að meta með það í huga að um atvinnuhúsnæði væri að ræða falli þar með um sig sjálfar.

Hvað varði athugasemdir í kæru um að hönnun standist ekki kröfur um stærð ljósopa glugga, stærð hurðaopa og lofthæð rýma vísi sveitarfélagið til fyrrnefnds tilgangs viðmiða byggingarreglugerðar og skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda. Jafnframt sé bent á að hið umrædda hús hafi verið byggt árið 1936, eða fyrir setningu fyrstu byggingarreglugerðar á Íslandi, og því sé endurskipulagningu þess sniðinn þröngur stakkur hvað varði algilda hönnun.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um að kæru verði vísað frá þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna „að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og um aðildarskort kæranda að ræða varðandi önnur atriði.“ Tínd séu til ýmis atriði sem séu útgáfu byggingarleyfis óviðkomandi en geti snúið m.a. að rekstrarleyfi leyfishafa, en það sé ekki til meðferðar í máli þessu. Þau atriði málsins sæti frávísun. Málsástæður kæranda um stærð ljósop sem hlutfall af gólffleti og lofthæð íbúða geti vart snert hagsmuni kæranda. Krafa hans um hnitsetta afstöðu­mynd og hæðarlínur geti vart talist nauðsynlegar til að hann geti gætt grenndarhagsmuna sinna þar sem ekki sé um að ræða breytingar á ytra byrði hússins eða umhverfi. Vísað sé til þess að tilgreind bílastæði séu innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Ekki verði séð að kærandi hafi sérstaka lögvarða hagsmuni af þessari málsástæðu. Þá hafi hann ekki sýnt fram á að hann gæti hagsmuna eiganda Egilsgötu 11. Kærandi geti því ekki haldið fram kröfu sem sé einka­réttarlegs eðlis.

Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út í kjölfar grenndarkynningar. Kærandi hafi haft alla möguleika til að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann og gerði. Stjórnvaldið hafi svarað athugasemdum hans ítarlega með bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 og þar með uppfyllt skyldu sína í samskiptum við kæranda. Því sé ekki hægt að halda fram að réttur hafi verið á honum brotinn. Einnig vísist til þess að lokaúttekt hafi farið fram á fasteignum að Egilsgötu 6.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Er ekki útilokað að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hins kærða byggingarleyfis og hefur honum áður verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni vegna sömu breytinga, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Getur kærandi teflt fram hverjum þeim málsástæðum sem hann telur rétt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á. Jafnframt hvílir á nefndinni sjálfstæð rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vegna hverra þeirra atvika sem tengst geta lögmæti hinnar kærðu leyfisveitingar. Þótt lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í þessu máli einskorðist við byggingarleyfið sem er til umfjöllunar getur kærandi jafnframt leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess telji hann málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða það ekki hafa sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags­gerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Að loknum kynningarfresti og þegar sveitar­stjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um grenndarkynningu tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er mælt fyrir um frekari málsmeðferð grenndarkynningar og kemur þar m.a. fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.

Fyrir liggur að á kynningartíma hinnar umþrættu leyfisumsóknar óskaði kærandi eftir svörum frá byggingarfulltrúa um tiltekin atriði grenndarkynningarinnar en því bréfi var ekki svarað. Þá sendi kærandi inn athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar á og var þeim athugasemdum svarað með bréfi sveitarstjóra 7. janúar 2019. Gaf umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd því ekki umsögn um athugasemdir kæranda líkt og henni bar að gera á grundvelli gr. 5.9.4. í skipulags­reglugerð, en til þess er að líta að skipulagsnefndir búa að jafnaði yfir sérfræðiþekkingu á skipulagsmálum. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og undirbúningur ákvörðunar um hið kærða byggingarleyfis annmörkum háð. Við mat á því hvort það varði ógildingu ber m.a. að horfa til þess að það er sveitarstjórn sem hefur vald til fullnaðarafgreiðslu grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kærandi kom á framfæri athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og var þeim athugasemdum svarað með fyrr­nefndu bréfi sveitarstjóra, en það svarbréf var staðfest af bæði byggðaráði og sveitarstjórn. Í bréfi sveitarstjóra er athugasemdum kæranda svarað vandlega í ítarlegu máli með vísan til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða. Þá var í svari byggingarfulltrúa vegna athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar, sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd staðfesti á fundi sínum 6. mars 2019, fjallað um ýmis þau atriði sem kærandi vísaði til í athugasemdum sínum. Verður því ekki séð að skort hafi á aðkomu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar vegna athugasemda kæranda með þeim hætti að leitt hefði til annarrar niðurstöðu en raun bar vitni. Þá verður ekki fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningarinnar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna fram­kvæmdanna.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., og skal hann skv. 11. gr. sömu laga fara yfir byggingarleyfisumsókn og ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Í áðurgildandi byggingar­reglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, en sá hluti fjallar um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að breyta íbúðarhúsi, sem reist var árið 1936, í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð, en fasteignin verður við þá breytingu fjöleignarhús og er hún nú skráð sem slíkt hús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Við nefnda breytingu gilda ákvæði byggingarreglugerðar. Af samþykktum uppdráttum verður ráðið að þónokkur skilyrði 6. hluta byggingarreglugerðar eru ekki uppfyllt. Má þar t.a.m. nefna að í gr. 6.7.1. er kveðið á um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign og skv. gr. 6.2.4. skal vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar íbúðir í fjölbýlishúsi eru á bilinu 1-10. Hvorki liggur fyrir að greinargerð í samræmi við gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með form­legum hætti í samræmi við nefnt ákvæði. Þá voru samþykktir uppdrættir ekki málsettir og er því óvíst hvort önnur tiltekin ákvæði reglugerðarinnar hafi verið uppfyllt, t.d. gr. 6.7.2. um lofthæð og ljósop glugga. Verður það að teljast annmarki á hinu umdeilda byggingarleyfi. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

35/2019 Bæjarhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra Fjóluvellir ehf., Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun „sem felur í sér stórbreytta notkun“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. júní 2019.

Málavextir: Kærandi er eigandi blómaverslunar að Bæjarhrauni 26, matshluta 0101. Með umsókn, dags. 11. mars 2019, sótti eigandi matshluta 102 í umræddri fasteign um að breyta innra fyrir­komulagi Bæjarhrauns 26 samkvæmt teikningum, dags. 5. mars s.á. Nánar tiltekið var sótt um að breyta innra fyrirkomulagi þannig að húsnæðið hentaði sem veitingastaður í flokki III. Teikningarnar voru áritaðar og með stimpli Slökkviliðs höfuðborgar­­­svæðisins og Heilbrigðis­eftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingar­fulltrúi samþykkti erindið á afgreiðslu­fundi 3. apríl 2019 í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Sótt var um starfsleyfi fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi, dags. 23. apríl 2019, óskaði Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort umræddur rekstur væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 3. maí s.á. þar sem fram kom að reksturinn væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar.

Í málinu liggur fyrir minnisblað skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. maí 2019. Er þar tekið fram að lóðin  Bæjarhraun 26 sé á landnotkunarsvæði, sem skilgreint sé sem athafnasvæði, merkt AT1, í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Er og m.a. vísað til þess að skipulagslega séu engar forsendur sem mæli gegn því að heimila rekstur veitingahúss að Bæjar­hrauni 26. Byggingarleyfisumsókn um breytingar á innra fyrirkomulagi í eign 0102 hafi verið samþykkt þar sem hún samræmdist viðkomandi skipulagsuppdráttum og uppfyllti skilyrði byggingar­reglugerðar er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rekstur blómaverslunar hafi verið í tæp 40 ár að Bæjarhrauni 26. Í upphafi hafi húsnæði það sem nú sé verið að breyta í vínveitinga-, skemmti- og hljómleikastað fyrir þungarokk verið hannað með rekstur verslunar í sér­hönnuðu blómahúsi í huga. Því hafi kærandi í raun alltaf mátt búast við að fyrirhugaður rekstur yrði aldrei leyfður án samþykkis kæranda. Vísist til 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þar sem fram komi í 4. mgr. ákvæðisins að ef breytt nýting valdi sumum eigendum, einum eða fleiri, sérstökum óþægindum þá geti einn krafist þess að ekki verði af breytingunum. Kærandi hafi bent skipulags­­yfirvöldum á að vilji þau tryggja Íslenska Rokkbarnum framtíðarhúsnæði sé þeim í lófa lagið að kaupa eignarhluta kæranda ásamt byggingarrétti, sem og að greiða blóma­versluninni skaðabætur í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sterk neikvæð afstaða kæranda vegna beiðni um samþykki um rekstrar­leyfi til handa Íslenska Rokkbarnum hafi strax komið fram. Samkvæmt lögum og leiðbeiningum frá byggingar­­­fulltrúa hefði samþykki kæranda þurft að liggja fyrir til að leyfa eða samþykkja rekstur vínveitinga- og hljómleikastaðar. Lífsviðurværi kæranda og grunnur að fjárhagslegri afkomu hans byggist á að viðkvæmur rekstur blómaverslunarinnar verði ekki fyrir tekjumissi, truflunum og öðrum þeim ótal vandamálum og óþægindum sem muni fylgja eða geti fylgt ákvörðun byggingarfulltrúa og bæjarráðs. Hver viti borinn maður geti ekki reiknað með eða fullyrt að þessi rekstur sé það aðlaðandi hann dragi aukin viðskipti til blómaverslunarinnar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um sé að ræða umsókn um breytingu á innréttingu verslunar- og þjónusturýmis á fyrstu hæð. Við töku ákvörðunarinnar hafi legið fyrir þær forsendur að umrætt húsnæði væri staðsett á landnotkunar­svæði sem skilgreint væri sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi Hafnar­fjarðar. Í skilmálum aðalskipulags segi einnig að „í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar er svæðið milli Reykjavíkurvegar, Flatahrauns og Fjarðarhrauns skilgreint sem athafnasvæði, annars vegar fyrir iðnað og hins vegar verslun og þjónustu.“ Sé umrædd stefna um landnotkun í gildandi aðalskipulagi í fullu samræmi við gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sé þar gert ráð fyrir að sá flokkur skuli tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skuli nánar tilgreint í skilmálum. Undir verslun og þjónustu falli skv. c-lið gr. 6.2. meðal annars hótel, gistiheimili, veitingahús og skemmtistaðir. Því sé ljóst að á lóðinni Bæjarhrauni 26 sé meðal annars gert ráð fyrir að þar sé rekin veitinga- og/eða skemmtistaður. Að því virtu hafi byggingarfulltrúi samþykkt umrædda umsókn um breytingu á innra fyrirkomulagi húsnæðisins, enda hafi umsóknin verið í samræmi við gildandi skipulag og hafi uppfyllt skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Hvað varði tilvísun kæranda í væntanlega ákvörðun bæjarráðs þá skuli upplýst að bæjarráð hafi enga ákvörðun tekið í tengslum við breytingar á innra rými eða rekstri að Bæjarhrauni 26. Slík erindi heyri ekki undir bæjarráð. Vegna fullyrðingar kæranda um að „leyfi til rekstrar skemmtistaðarins liggi fyrir“ skuli upplýst að hvorki byggingarfulltrúi né bæjarráð hafi veitt umsögn vegna umsóknar rekstraraðila um nýtt rekstrar­leyfi fyrir veitingastað í flokki III.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar sem hann nýtti sér ekki.

Niðurstaða: Lóðin Bæjarhraun 26 er á ódeiliskipulögðu svæði og er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að innra skipulagi húss á lóðinni verði breytt að hluta á þann veg að húsnæðið henti sem veitingastaður í flokki III.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag hvað landnotkun varðar. Sú undantekning er þó gerð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga að skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndar­kynning ekki farið fram. Þá hefur málið ekki komið til kasta skipulagsnefndar og hún því ekki nýtt sér greinda heimild 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að falla frá grenndarkynningu.

Þar sem hvorki hefur farið fram grenndarkynning né verið fallið frá henni í samræmi við 44. gr. skipulagslaga verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að heimila breytt innra fyrirkomulag hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

102 og 120/2019 Freyjubrunnur

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunns 23. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kærumálunum, auk þess sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 120/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019 og 11. desember s.á.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess. Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði í máli nr. 112/2018, kveðnum upp 29. ágúst 2019, þar sem leyfið væri ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23. Í breytingunni fólst m.a. að fjölga íbúðum úr fimm í átta og auka byggingarmagn, auk þess sem kveðið var á um að svalir á norðurhlið hússins mættu ná 150 cm út fyrir byggingarreit. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga er 9,5 metrar frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar, ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 metrar. Ef þök eru flöt má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 89,0 m.y.s. en ef þök eru hallandi má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 90,5 m.y.s. Hæðarkótar miðast við hæðarkerfi Reykjavíkur.“ Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu 27. mars 2019 með athugasemdafresti til 8. maí s.á. Þá voru hagsmunaaðilar og nágrannar, þ. á m. kærendur, hvattir til að kynna sér breytingartillöguna með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð óbreytt fram að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 3. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa 28. júní s.á. Með vísan til nefndrar umsagnar var tillagan samþykkt og vísað til borgarráðs. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 18. júlí s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa til þess að byggja steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23. Erindinu fylgdi m.a. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. september s.á. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og 30. október s.á. var byggingarleyfið gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafa hlotið ranga málsmeðferð. Fara hefði átt með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda verði með breytingunni vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í þessu samhengi sé vísað til þess að byggingarreitur standi mun framar en aðrir byggingarreitir í sömu götu, hæð sé önnur og meiri og eignin sjálf öll á skjön við götumynd, auk þess sem nýting aukist hlutfallslega mikið. Áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið metin út frá gildandi deiliskipulagi og grenndarhagsmunum, auk þess sem hagsmunaaðilum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif breytingarinnar. Því hafi Reykjavíkurborg brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið telji að um minni háttar breytingu sé að ræða frá áður samþykktu deiliskipulagi en að mati kæranda sé það ekki í samræmi við lög. Hafi það og verið staðfest með úrskurði úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Upplýsingar í kynningargögnum á tillögu að breyttu deiliskipulagi hafi ekki verið full­nægjandi. Ekki hafi verið dregin upp raunsönn mynd af áhrifum deiliskipulags­breytingunni. Notað hafi verið tæknimál til endurskilgreina hvernig vegghæð skuli reiknast án þess að nefna það berum orðum að um hækkun á húsinu væri að ræða. Upphaflegar takmarkanir á hæð húsa samkvæmt eldra skipulagi hafi tryggt betra jafnvægi á götumynd og stallaða byggð niður hlíðina, sem lágmarki skuggamyndun á húsin fyrir ofan. Í umsögn skipulagsfulltrúa, varðandi þá athugasemd að byggingarmagn sé of mikið og að húsið hafi verið hækkað, sé vísað til þess að húsið við Freyjubrunn 23 sé sambærilegt húsinu að Freyjubrunni 29, en það geti ekki verið rök í sjálfu sér.

Framsetning skipulagsgagna hafi ekki verið skýr og því ekki í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ákvæðið geri þá kröfu að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir því í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Hin umdeilda breyting snúi aðeins að einni tiltekinni lóð og varði framkvæmd sem sé byrjuð. Þrátt fyrir það sé ákvæði um hámarksvegghæð, sem sé mismunandi eftir þakgerð, mjög óljós. Því sé ómögulegt að sjá hvað sé í reynd verið að heimila með deiliskipulagsbreytingunni.

Ekki hafi komið fram í kynningargögnum að gefin yrði eftir krafa skilmála um að hús skuli fylgja bindandi byggingarlínu neðri hæðar. Þær upplýsingar hafi komið fram í gögnum sem liggi á vef Reykjavíkurborgar, en hafi ekki verið hluti af gögnum sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni sem nágrönnum hafi verið kynnt. Þetta styðji að um meiri háttar breytingar á skipulagi sé að ræða því staða húss við götu hafi afgerandi áhrif á götumyndina og öryggi vegfarenda. Enn sé óljóst hversu umfangsmikil þessi breyting sé. Framsetningin hafi verið svo ruglingsleg að kærendum hafi í reynd ekki verið unnt að gæta andmælaréttar síns við málsmeðferðina.

Í svari kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar hafi þeir bent á að stjórnsýsla borgarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur, enda hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi byggingarleyfi í kærumáli nr. 112/2018. Breytingar á deiliskipulagi séu samráðsmál en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda íbúa um skuggamyndun vegna hækkunar á húsi. Í tillögunni sé gengið út frá því að útgefið byggingarleyfi og samþykkt teikning séu lögleg, en svo sé ekki þar sem byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi með fyrrnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar. Ekki sé hægt að meta áhrif breytinganna út frá ólöglegri teikningu og byggingarleyfi. Upphaflegt mat umhverfis- og skipulagssviðs á umfangi og áhrifum sé rangt og byggt á röngum forsendum m.t.t. skuggamyndunar, umferðaröryggis, fjölda bílastæða, heildargötumyndar og nýtingarhlutfalls lóðar. Einnig sé ljóst varðandi fjölgun íbúða að ekki hefðu rúmast fimm íbúðir í húsi sem hefði verið löglega afgreitt frá upphafi. Því sé um mikla aukningu á fjölda íbúða að ræða. Fjölgun íbúða í húsinu hafi áður verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Hvað varði athugasemdir leyfishafa bendi kærendur á að deiliskipulagsbreytingar hafi verið gerðar til að laga deiliskipulag að þegar útgefnu byggingarleyfi og túlkun lóðarhafa. Ekki hafi verið gefin ástæða fyrir breytingu á deiliskipulagi en lögum samkvæmt beri að rökstyðja ákvarðanir sem þessar. Hér sé verið að sníða deiliskipulag að einni lóð en jafnframt draga með því verulega úr gæðum annarra íbúða og öryggi. Önnur hús í götunni takmarkist við þrjár hæðir eins og upphaflegt skipulag geri ráð fyrir. Það samræmist ekki heildarmynd hverfisins að hafa húsið við Freyjubrunn 23 á fjórum hæðum, en þar sé enginn kjallari. Ekkert hús sem séu fyrir neðan annað hús í hallandi landi sé hærra en húsið fyrir ofan nema þarna. Málið snúist ekki einungis um breytingu á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Mistök hafi verið gerð við útgáfu eldra byggingarleyfisins og allt ferlið eftir það hafi verið yfirklór og útúrsnúningur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin umþrætta deiliskipulagstillaga hafi fengið málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 31. gr.. skipulagslaga nr. 123/2010, en sú málsmeðferð hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga. Talið hafi verið að ekki væru skilyrði til að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. laganna. Það sem hugsanlega rugli kærendur sé að hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 27. mars 2019, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 27. mars 2019 og hafi þeir sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta verið hvattir til að kynna sér tillögurnar. Séu þessar bréfasendingar umfram lagalega tilkynningar­skyldu eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Málsmeðferðin hafi uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi kynningargögn verið fullnægjandi. Bæði uppdráttur og greinargerð uppfylli skilyrði skipulagsreglugerðar um framsetningu á deiliskipulagi, sbr. gr. 5.5. í reglugerðinni. Um minni háttar breytingu sé að ræða á byggingarmagni en A-rýmin aukist um rúma 10 m2. Aukning á nýtingarhlutfalli sé vegna B-rýma, sem ekki hafi verið reiknuð inn í deiliskipulagið árið 2017. Að lokum sé hið umþrætta byggingarleyfi í fullu samræmi við breytt deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar séu mjög óverulegar, en hvorki hafi verið aukið við hæð hússins né byggingarmagn svo nokkru nemi frá því sem áður hafi verið fyrirhugað. Deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir að á lóðinni megi reisa fjölbýlishús með þremur íbúðarhæðum auk bílageymslu á jarðhæð, sbr. bls. 30 og nánari skýringar á bls. 35 í greinargerð deiliskipulagsins. Því heimili það að á lóðinni verði reistar þrjár íbúðarhæðir, með þeirri efstu inndreginni, ofan á bílageymslu sem sé að hluta til niðurgrafin. Sé fyrirhuguð hæð hússins í fullu samræmi við hæð nærliggjandi fjöleignarhúsa, sem reist séu á grundvelli sömu deiliskipulagsskilmála, að Friggjarbrunni 18, Freyjubrunni 25-27, 29, 31 og 33.

Byggingaráform rúmist áfram innan skilgreinds byggingarreits. Fjölgun íbúða í húsinu sam­ræmist yfirlýstu markmiði aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar, aukna fjölbreytni í valkostum húsnæðis til búsetu og kröfu um aukið framboð á minni íbúðum. Á fjölmörgum lóðum innan hverfisins hafi íbúðir verið minnkaðar og þeim fjölgað.

Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að hámarksvegghæð bygginga yrði mæld frá fyrstu hæð íbúðarhúsnæðis, sem jafnframt sé aðkomuhæð hússins, en ekki frá bílageymslu í kjallara. Húshæðir fjölbýlishúsa séu skilgreindar sem „2-5 hæðir íbúðarhúsnæðis auk bílageymslu­hæðar“ á bls. 26 í greinargerð deiliskipulagsins, en í fjölbýlishúsum séu „bílageymslur á neðstu hæðum, niðurgrafnar þar sem landhalli gefur tilefni til.“ Í deiliskipulagsbreytingunni felist því ekki raunveruleg breyting á hæð hússins á lóðinni, heldur aðeins breyting á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Jafnvel þótt talið yrði að í breytingunni fælist breyting á leyfðum hæðum þá rúmist breytingin vel innan ramma aðalskipulags Reykjavíkur um hæðir húsa.

Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við kynningu og ákvörðun um samþykkt á breytingu deiliskipulagsins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar. Í deiliskipulagstillögunni sé ítarlega gerð grein fyrir í hverju breytingin felist og ekkert í framsetningu tillögunnar geti gefið tilefni til misskilnings eða rangtúlkunar. Sérstaklega sé bent á að umfjöllun kærenda um þá beiðni leyfishafa að gefin yrði eftir svokölluð bindandi byggingarlína virðist byggja á þeim misskilningi að Reykjavíkurborg hafi orðið við þeirri beiðni með samþykki á breytingu deiliskipulagsins.

Byggingarleyfi sé gefið út á grundvelli aðaluppdrátta hönnuðar, sem hafi verið áritaðir um samþykki byggingarfulltrúa 24. september 2019. Með samþykktinni hafi verið staðfest að mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Með því hafi verið fullnægt tveimur af lagaskilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrirhugað mannvirki samræmist fyllilega skilmálum núgildandi deiliskipulags lóðarinnar. Leyfishafi leggi áherslu á að öll málsmeðferð við útgáfu byggingarleyfi samræmist ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 og því beri að hafna kröfum kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23, sem felur m.a. í sér heimild til að fjölga íbúðum úr fimm í átta, auka byggingarmagn og að ákvarða hámarksvegghæð húsa með flötu þaki frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar í stað aðkomuhæðar. Einnig er deilt um lögmæti samþykkts byggingar­leyfis fyrir átta íbúða steinsteyptu fjölbýlishúsi með flötu þaki á umræddri lóð.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á því deiliskipulagi sem fyrir er. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Deiliskipulagstillagan var ekki grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga heldur auglýst til kynningar í samræmi við reglur laganna um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Var því ekki farið með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða, líkt og kærendur halda fram. Hins vegar var með bréfi skipulagsfulltrúa vakin athygli hagsmunaaðila og nágranna á því að auglýst hefði verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23, bent á hvar kynningar­gögn væri að finna og hvernig hægt væri að koma að ábendingum og athugasemdum, en því verður ekki jafnað saman við grenndarkynningu. Að loknum kynningartíma var deili­skipulagstillagan afgreidd í skipulags- og samgönguráði, þar sem framkomnum athuga­semdum kærenda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sama texta má finna í breytingartillögunni, sem sett er fram með þeim hætti að á samhliða uppdrætti er sýndur hluti gildandi deiliskipulagsuppdráttar og hluti breytts uppdráttar. Er tekið fram neðan við hann að uppdráttur breytist ekki. Einnig er gerð grein fyrir gildandi skipulagsskilmálum annars vegar og tillögu að breyttum skilmálum hins vegar hlið við hlið. Ekki er tekið skýrt fram í tillögu að texta breyttra skilmála að um sé að ræða breytingu á þeim skipulagsskilmálum gildandi deiliskipulags Úlfarsárdals að miða hámarksvegghæð eða hámarkshæð við kóta aðkomuhæðar. Sá skilningur fæst hins vegar af lestri gildandi skilmála sem eru til hliðar við texta breyttra skilmála. Þá kemur einnig skýrt fram í breytingartillögunni hvaða aðrar breytingar sé verið að gera á gildandi deiliskipulagi. Verður því ekki fallist á það með kærendum að framsetning breytingartillögunnar hafi ekki verið í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð.

Svo sem áður hefur komið fram komu kærendur að athugasemdum vegna deiliskipulags­tillögunnar. Bentu þeir m.a. á að fyrirhuguð hækkun myndi valda mikilli útsýnisskerðingu hjá íbúum ofar í hverfinu. Í umsögn skipulagsfulltrúa er þeirri athugasemd svarað á þann hátt að með deiliskipulagsbreytingunni væri „ekki verið að hækka vegghæð hússins frá því sem ákveðið var í fyrra deiliskipulagi heldur er verið að endurskilgreina hvaðan vegghæð skuli reiknast.“ Í því felst hins vegar að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er leyfilegt að byggja hærra hús en að óbreyttu deiliskipulagi, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 112/2018. Er því ljóst að framangreind breyting getur haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni. Um þau áhrif er ekki fjallað í umsögn skipulagsfulltrúa og umsögninni að því leytinu til ábótavant. Að teknu tillit til skipulagsvalds sveitarstjórna þykir sá ágalli þó ekki eiga að leiða til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar, en öðrum athugasemdum var svarað efnislega. Þá raskar sú breyting auk annarra heimilaðra breytinga, þ.e. lítilleg aukning á byggingarmagni eða nýtingarhlutfalli, fjölgun íbúða og heimild til að láta svalir á norðurhlið ná 150 cm út fyrir byggingarreit hússins, ekki grenndar­hagsmunum kærenda að því marki að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er byggingin í samræmi við gildandi deiliskipulag Úlfarsárdals, eins og því var breytt með fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki heldur raskað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23.

18/2019 Hraunbær

Með

Árið 2020, föstudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja við sérafnotafleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Hraunbæ 102B-E, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjól­veggja við sérafnotafleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. apríl 2019.

Málavextir: Hinn 3. janúar 2019 sendi kærandi byggingarfulltrúanum í Reykjavík erindi varð­andi skjólveggi sem hefðu verið reistir við íbúðir á fyrstu hæð hússins að Hraunbæ 102B-E. Í erindinu kom fram að tveir þeirra skjólveggja sem reistir hefðu verið næðu rúmlega fjóra metra frá útvegg. Fyrir slíkum framkvæmdum hefðu eigendur íbúðanna ekki nokkra heimild. Þess var óskað að byggingarfulltrúi tæki málið til skoðunar og eftir atvikum tæki afstöðu til þess hvort tilefni væri til að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. ákvæði gr. 2.9.1. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að hann hefði tekið málið til skoðunar og taldi að ekki væri um brot á byggingarreglugerð eða lögum um mannvirki að ræða og því væri ekki ástæða til að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. ákvæði gr. 2.9.1. og 2.9.2. reglugerðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ljóst sé af eignaskiptayfirlýsingum og öðrum þinglýstum heimildum um greinda fasteign að enginn séreignarhluti/sérnotaréttur tilheyri íbúðum á 1. hæð fjöleignarhússins á lóðinni við Hraunbæ 102B-E. Óháð álitaefnum er varði skort á samþykki sameigenda fyrir framkvæmdinni sé hins vegar ljóst að umrædd framkvæmd sé í ósamræmi við samþykkta uppdrætti fyrir lóðina. Umræddir skjólveggir standi rúma fjóra metra frá húsvegg, langt umfram þá tvo metra sem afmarkaðir séu sem svokallaðir sérnotareitir á uppdráttum samþykktum af byggingarfulltrúa. Húsfélagið hafi ekki fengið upplýsingar um að leitað hafi verið byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum í samræmi við 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. einnig kafla 2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og að umræddar framkvæmdir feli í sér brot á ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar, sbr. einnig ákvæði stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, einkum 10., 13. og 22. gr. laganna.

Umrædd eignaskipta­yfirlýsing hafi aldrei verið samþykkt af neinum í húsfélaginu, hvorki í stjórn þess né á aðalfundi. Krafa kæranda sé einföld. Hann vilji að úrskurðað verði að enginn íbúi í húsinu að Hraunbæ 102B-E hafi sérafnotarétt af neinu svæði sem tilheyri sameign hússins og hafi frá upphafi gert. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir og góðan vilja langflestra íbúa fyrstu hæðar hafi þeir ekki getað komið sér saman um útlit og stærð palla vegna þess að ákveðnir aðilar standi fast á meintum sérafnotarétti í boði byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld ítreka það sem fram komi í bréfi byggingar­fulltrúa frá 11. febrúar 2019. Ekki sé um brot á byggingarreglugerð nr. 112/2012 eða á mannvirkjalögum nr. 160/2010 að ræða og að málið sé einkaréttarlegs eðlis. Ekki verði séð að um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sé að ræða. Framkvæmdin sé minniháttar sem sé undanþegin byggingarleyfi, sbr. f. lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið sé fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem tengist skipulagi, öryggi og heilbrigði. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingar­yfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki fyrrgreindum lagaheimildum. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að engir slíkir hagsmunir væru fyrir hendi sem kalli á afskipti embættisins með þeim hætti sem kærandi hafi óskað eftir.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Í samræmi við það tekur úrskurðar­nefndin lögmæti ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir yfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til skoðunar ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja á lóðinni Hraunbæ 102B-E, en sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðar­nefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga er að finna heimild fyrir byggingar­fulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum eða lögaðilum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einkaréttarlegs ágreinings enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni svo sem með því að bera ágreining milli aðila undir dómstóla.

Borgaryfirvöld rökstuddu hina kærðu synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að um hafi verið að ræða einkaréttarlegan ágreining sem lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús tæki til, m.a. III. kafli laganna um réttindi og skyldur eigenda séreignarhluta í fjölbýlis­húsi þegar um væri að ræða notkun og umgengni um sameiginleg rými. Húsfélag hefði þar að auki almennar heimildir til þess að bregðast við vegna brota félagsmanns gagnvart húsfélaginu eða öðrum eigendum. Jafnframt var vísað til þess að um minniháttar framkvæmdir væri að ræða sem undanþegnar væru byggingarleyfi, sbr. f. lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í málinu liggur fyrir skoðunarskýrsla byggingarfulltrúa þar sem fram kemur fram að hæð umþrættra skjólveggja hafi verið mæld og reynst mest vera 1,8 m. Samkvæmt því eru skjól­veggirnir undanþegnir byggingarleyfi, sbr. greint ákvæði reglugerðarinnar. Það mat byggingar­fulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum var því stutt efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja við sérafnota­fleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E.

94/2019 Ásholt

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 um að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. september 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra lóðarhafar lóðar þeirrar er Ásholt í Hjaltadal stendur á, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í íbúðarhús. Skilja verður kröfur kærenda sem svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Skagafirði 23. október 2019.

Málavextir: Kærendur sendu skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar bréf, dags. 1. maí 2019, þar sem óskað var eftir því að notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal yrði breytt og yrði það eftirleiðis skráð sem íbúðarhús. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. maí 2019 var erindið samþykkt og húsið talið uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar til að notkun þess yrði breytt. Í kjölfar framangreinds fundar barst skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóstur þar sem honum var tjáð að samkvæmt kaupsamningi um lóð þá er húsið Ásholt stendur á væri ekki heimilt að breyta notkun þess án samráðs við lóðareiganda. Skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar tók málið aftur fyrir 24. maí 2019 og bókaði að „[í] ljósi nýrra upplýsinga sem nú liggja fyrir afturkallar skipulags- og byggingarnefnd fyrri ákvörðun og hafnar erindinu frá ofangreindum fundi 17. maí sl.“ Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 29. s.m. voru fundargerðir framangreindra funda teknar fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí en bókaði „[v]akin er athygli á því að á 349. fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 24. maí sl. var samþykki um breytta notkun á frístundahúsi Ásholts afturkallað og erindinu hafnað í ljósi nýrra upplýsinga sem komu fram í lóðarleigusamningi.“ Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar frá 24. maí. Kærendum var tilkynnt um framangreinda afgreiðslu með bréfi, dags. 4. júní 2019, þar sem fram kom að ástæða þess að skipulags- og byggingarnefnd hefði endurskoðað afgreiðslu sína frá 17. maí s.á. og hafnað erindinu væri athugasemd þinglýsts landeiganda. Með bréfi, dags. 25. júlí s.á., óskuðu kærendur eftir rökstuðningi á breyttri ákvörðun. Einnig bentu kærendur á að þeir teldu sig eiga rétt á að koma andmælum að í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti. Skipulags- og byggingarnefnd fól skipulags- og byggingarfulltrúa að svara erindinu á fundi sínum 1. ágúst 2019 og var sú afgreiðsla staðfest á sveitarstjórnarfundi 21. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði erindinu með bréfi, dags. 27. s.m. Í svarbréfinu kom fram að þegar umsókn kærenda hefði upphaflega verið tekin fyrir hefði einungis legið fyrir lóðarleigusamningur vegna leigu á lóðinni sem sumarhúsið stæði á og hefði umsóknin verið samþykkt á þeim grundvelli. Eftir að athugasemdir bárust frá leigusala lóðarinnar hafi komið í ljós að kaupsamningur um lóðina hafi aðeins heimilað byggingu smáhýsis eða sumarbústaðar. Í niðurlagi bréfsins kom fram að heimilt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðunina.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í eignayfirlýsingu, dags. 10. október 2010, komi fram að frístundahúsið Ásholt standi á tiltekinni lóð. Ekkert í eignayfirlýsingu þessari feli í sér skilyrði um að einungis sé heimilt að byggja smáhýsi og/eða sumarbústað. Í lóðarleigusamningi, dags. 10. október 2010, segi „[l]eigusali selur leigutaka á leigu byggingarlóð, og til annarra afnota.“ Kærendur hafi ætlað að nýta sér þennan möguleika, þ.e. að skrá byggingu á lóðinni sem húsnæði til varanlegrar búsetu. Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að fella niður samþykkt umsóknarinnar sé mjög fjárhagslega íþyngjandi bæði vegna útgjalda og skerðingu verðmætis bústaðarins.

Málsrök Sveitarfélagsins Skagafjarðar: Af hálfu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 140/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 7. gr. sömu laga sé mælt fyrir um heimild til þess að í sveitarfélagi starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013 sé kveðið á um hlutverk skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins. Í 1. málsl. gr. 4.1. segi að nefndin annist störf þau sem nefndinni séu falin samkvæmt 7. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. málsl. sömu greinar samþykktarinnar segi að auk þessara verkefna og verkefna er lúti að hafnarmálum þá geti sveitarstjórn falið nefndinni ýmis verkefni með erindisbréfum. Eftir breytingu sem gerð hafi verið á samþykkt nr. 961/2013 með samþykkt nr. 906/2015 sé mælt fyrir um útgáfu byggingarleyfis í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þar sé kveðið á um að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Sé þar jafnframt kveðið á um að í ákveðnum tilvikum skuli hann vísa máli til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjalli þá um byggingaráform í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Meðal þess sem fram komi í framangreindri 9. gr. mannvirkjalaga sé að óheimilt sé að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa. Telja verði að afgreiðsla nefndarinnar sé ekki fullnaðarafgreiðsla byggingarleyfis enda komi ekki fram í framangreindum ákvæðum samþykktanna að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar í slíkum tilvikum sé fullnaðarafgreiðsla. Verði því að telja að ályktanir nefndarinnar á umræddum fundum hafi verið tillaga til sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Verði ekki á það fallist breyti það engu um það að í málinu liggi ekki fyrir formlega útgefið skriflegt byggingarleyfi undirritað af byggingarfulltrúa. Slíkt sé skilyrði fyrir því að fyrir liggi endanleg stjórnvaldsákvörðun, enda sé slík útgáfa falin byggingarfulltrúa skv. lögum, þ.e. skv. 5. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga. Gera megi ráð fyrir að fyrir slíka útgáfu hefði farið frekari vinna, eftir atvikum grenndarkynning, að undangenginni könnun á því hvort hennar væri þörf, ákvörðun um gjaldtöku vegna útgáfu byggingarleyfis o.s.frv.

Þegar fundur hafi verið haldinn í sveitarstjórn 29. maí 2019 hafði ekki verið haldinn sveitarstjórnarfundur frá 24. apríl s.á. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí hafði því ekki hlotið staðfestingu sveitarstjórnar þegar nefndin afturkallaði þá afgreiðslu sem ella hefði legið fyrir sveitarstjórn að staðfesta á fundinum 29. maí 2019. Liggi því ekki fyrir í málinu stjórnvaldsákvörðun önnur en endanleg ákvörðun sveitarstjórnar frá 29. maí. Sú ákvörðun sé ekki kærð í máli þessu. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi veiti byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá skal umsókn um byggingarleyfi beint til byggingarfulltrúa skv. 10. gr. laganna og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. Samkvæmt framansögðu er það byggingarfulltrúi sem afgreiðir byggingarleyfisumsóknir nema kveðið sé á um að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn samþykki afgreiðsluna samkvæmt sérstakri samþykkt.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013, sem nú er fallin úr gildi. Þar var fjallað um skipulags- og byggingarnefnd í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þeirri grein var breytt með samþykkt nr. 906/2015. Eftir breytingu greinarinnar var þar kveðið á um að byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Telji byggingarfulltrúi að erindi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, skipulagsskilmála og/eða byggingarreglugerð eða óvissu ríkja um hvort uppfyllt séu ákvæði laga, reglugerða og samþykkta, skal hann vísa málinu til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjallar þá um byggingaráformin í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Afgreiðsla byggingarleyfismála heyrir því undir  byggingarfulltrúa, svo sem að samþykkja umsókn, hafna henni eða vísa máli til skipulags- og byggingarnefndar.

Fyrir liggur að einu afskipti skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar í máli þessu voru að svara bréfi kærenda með rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá er samþykkt Sveitarfélagsins Skagafjarðar ekki á lista Mannvirkjastofnunar yfir samþykktir sveitarfélaga sem gerðar hafa verið á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þrátt fyrir að mál þetta hafi verið tekið fyrir á þremur fundum skipulags- og byggingarnefndar og tveimur fundum sveitarstjórnar hefur byggingarfulltrúi, sem lögum samkvæmt er bær til að taka ákvörðun um breytta notkun mannvirkis skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga, ekki tekið ákvörðun í því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kærenda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.