Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2020 Skeifan – Fenin

Árið 2020, mánudaginn 10. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 60/2020 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. júlí 2020.

Málsatvik og rök: Á svæði því sem lóðin Grensásvegur 1 tilheyrir er í gildi deiliskipulag „Skeifan-Fenin“ sem samþykkt var 6. nóvember 2001. Hinn 12. mars 2020 samþykkti borgarráð breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Grensásvegar 1. Í breytingunni fólst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Kærandi í máli þessu hefur kært þá deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 16. júní 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóðinni Grensásvegi 1. Var um að ræða fyrstu af fjórum fyrirhuguðum nýbyggingum á lóðinni. Var umsóknin samþykkt og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi bendir á að hann eigi og reki fasteignir í Skeifunni og eigi hann ríka hagsmuni tengda þeim breytingum sem gerðar séu á heimildum til uppbyggingar á lóðinni Grensásvegi 1 með hinum kærðu ákvörðunum. Sé með þeim horfið frá áformum um byggingu hótels á lóðinni og þess í stað heimilað að reisa þar 204 íbúðir. Slík breyting muni hafa veruleg áhrif á næsta nágrenni, m. a. vegna aukinnar bílaumferðar og bílastæðanotkunar á svæðinu. Þá sé með breytingunum horfið frá þeirri stefnu sem mörkuð hafi verið í rammaskipulagi svæðisins frá 2017 þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir íbúðum á umræddri lóð. Með því sé raskað grundvelli þeirrar skiptingar á möguleikum til uppbyggingar sem settur hafi verið í rammaskipulag og varði hagsmuni kæranda og annarra lóðarhafa á svæðinu. Krafa um stöðvun framkvæmda sé á því byggð að verulegur líkur séu á því að skipulagsákvörðun sú sem hið kærða byggingarleyfi hvíli á verði felld úr gildi. Beri því nauðsyn til að afstýra því að reist verði mannvirki í skjóli hins kærða leyfis sem kostnaðarsamt yrði að fjarlægja enda sé hætta á því að tilvist slíkra mannvirkja geti haft áhrif á það hvernig á málum verði haldið í framhaldinu og geti það haft í för með sér verulega röskun á hagsmunum kæranda.

Af hálfu leyfishafa er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi samþykkt að veita leyfi fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á lóðinni sem um ræði og hafi kærandi í engu leitast við að sýna fram á að ekki hafi verið gætt lögmætra og málefnalegra sjónarmiða við þá ákvörðun. Bent sé á að í óbreyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð séu heimildir fyrir þeirri uppbyggingu sem þar sé fyrirhuguð.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis sem heimilar byggingu fimm hæða fjölbýlishúss á lóð nr. 1 við Grensásveg. Kærandi er lóðarhafi lóðanna Skeifunnar 15 og Faxafens 8 sem tilheyra sama deiliskipulagssvæði og lóðin Grensásvegur 1 en lóðir kæranda eru í talsverðri fjarlægð frá lóð leyfishafa. Verður því ekki séð að mögulegir grenndarhagsmunir kæranda knýi á um stöðvun umdeildra framkvæmda. Hvað sem líður gildi umdeildrar deiliskipulagsbreytingar ætti heimilað byggingarmagn samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi stoð í eldra deiliskipulagi.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.