Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2020 Garðavegur

Árið 2020, föstudaginn 10. júlí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. júní 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2020, er barst nefndinni 29. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. júní 2020 um álagningu dagsekta á kæranda. Í kæru er þess krafist að „krafa Hafnarfjarðarbæjar um niðurrif neyðarstiga við Garðaveg 18 verði felld úr gildi“. Með hliðsjón af framangreindu verður kæran skilin á þann hátt að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 2. júlí 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar og er forsögu þess lýst í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019. Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ þar sem farið var fram á að umdeildur stigi utan við vesturhlið húss kæranda yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda hafði áður verið synjað svo sem rakið er í áðurnefndum úrskurði. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við nefndu bréfi bæjarins, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Kærandi kærði ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með nefndum úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður , eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur eða til og með 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt, en dagsetning þeirra var tiltekinn 30. apríl s.á. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Send hafa verið bréf til eiganda þess efnis og ekki hefur verið brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56.gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir verða lagðar á frá og með 10. júli 2020.“  Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. júlí 2020. Er þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sú ákvörðun sem kærð er.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur meðal annars fram að komi til eldsvoða sé óforsvaranlegt að hafa ekki örugga og augljósa útgönguleið frá risi hússins sem sé klætt að innan með panel. Það sé vandséður annar tilgangur með ráðstjórn þessari en að valda íbúum og eiganda áhyggjum og tjóni.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að kærandi hafi reist ósamþykktan stiga á hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum liggi skýrt fyrir að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Niðurstaða: Byggingarfulltrúa er heimilt samkvæmt 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum, eða láta af ólögmætu atferli. Hin kærða ákvörðun felur í sér að lagðar eru á kæranda dagsektir til að knýja hann til athafna samkvæmt greindu ákvæði, en um íþyngjandi þvingunarúrræði er að ræða. Í málinu liggur fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi er getið til um fjárhæð þeirra. Úrskurðarnefndin hefur leitað til byggingarfulltrúa eftir skýringum og fengið þær upplýsingar það megi vera að farist hafi fyrir að bóka um fjárhæðina, en að dagsektir séu 20.000 kr. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti, að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr, svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Á þetta sér í lagi við um íþyngjandi ákvörðun, svo sem þá sem hér um ræðir. Án þess að fyrir liggi ákvörðun um tiltekna fjárhæð dagsekta sem kæranda er kynnt hefur hann ekki möguleika á að meta stöðu sína, enda geta sektirnar að lögum verið ýmist hverfandi eða allt að 500.000 kr. á dag. Er því ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér sem hér er kærð verða dagsektir ekki lagðar á kæranda. Þar sem svo verður ekki gert liggur ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.