Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2020 Langholtsvegur

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 29. maí 2020 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. maí 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að umdeild byggingaframkvæmd sé ekki í samræmi við deiliskipulag Vogahverfis frá árinu 2010. Áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi því að fara fram grenndarkynning. Deiliskipulag heimili ekki svalabyggingu að Langholtsveg 136. Slík bygging virðist jafnframt í andstöðu við deiliskipulagið frá 2010, en þar komi fram að við endurbætur skuli leitast við að viðhalda upprunalegu formi húsa. Í deiliskipulaginu segi: „Byggingarreitir bílskúra eru afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum eru eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildir þá sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra eru almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr.“

Deiliskipulagið frá 2010 sýni ekki byggingarreiti bílskúrs. Ekki séu heimildir til þess að byggja bílskúr á svo óljósum grundvelli sem felist í því að í deiliskipulagi sé vísað til „eldri byggingar­nefndarsamþykkta“. Það sé í andstöðu við tilgang skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að vísa til svo óljósra heimilda. Um það megi vísa til skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðarinnar. Hvað sem þessu líði sé ljóst að sá byggingarreitur sem komi fram á eldri lóðarblöðum sé mun minni en 5×7 m. Hann rúmi ekki um 31 m² bílskúrsbyggingu. Eigi eldri heimildir að hafa þýðingu, þá þýði það jafnframt að byggja þurfi á stærð byggingarreits samkvæmt þeim heimildum. Bygging bílskúrs virðist í ósamræmi við önnur deiliskipulagsákvæði, t.a.m. að ekki megi fjölga innkeyrslum að húsum, að ekki megi fjölga bílastæðum og það markmið að ekkert jarðrask verði utan byggingarreita.

Þá sé skilyrði fyrir byggingaráformum eftirfarandi: „Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt.“ Sá aðili sem standi að byggingaráformum eigi hvorki forgangs- eða eignarrétt að bílskúrs­byggingu á lóð Langholtsvegar nr. 136 samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Gera verði þá kröfu að fyrir liggi samþykki annarra eigenda og eignarréttarlegar forsendur fyrir framkvæmdum eins aðila á sameignarhluta húss og lóðar komi fram með skýrum hætti.

Bæði bílskúrsbygging og svalabygging raski grenndarhagsmunum eigenda Langholtsvegar 138 og sé beinlínis gert ráð fyrir að framkvæmdasvæðið fari 1,5 m inn á lóð þeirra. Frágangur lóðar og umsjón byggingarsvæðis sé hluti byggingarleyfis og byggingaryfirvöld þurfi að ganga úr skugga um að eigendur svæðis heimili framkvæmd og nauðsynleg afnot áður en byggingar­leyfi sé gefið út. Eigendur Langholtsvegar 138 séu því aðilar máls og beri að gæta að réttindum þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars með upplýsingagjöf, leiðbeiningum og að veita andmælarétt. Þá sé í ósamræmi við löggjöf á sviði skipulags- og byggingarmála að veita byggingarleyfi til framkvæmda á lóð annars aðila án samþykkis þess aðila. Gengið sé á eignarréttarlega hagsmuni eigenda Langholtsvegar 138, sbr. þá röskun sem verði af byggingum við og nærri lóðarmörkum og nýrra svala á hlið Langholtsvegar 136 sem snúi að Langholtsvegi 138.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykja­víkur 2010-2030 sé Langholtsvegur 136 í skilgreindri íbúðar­byggð, merkt ÍB27. Í gildi sé deiliskipulag fyrir Vogahverfi, samþykkt 1. september 2010. Í skilmálum deiliskipulags fyrir svæði A, sem Langholtsvegur 136 tilheyri, segi: „Lögð er áhersla á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. […] Nýtingarhlutfall einbýlis- og sambýlishúsa á svæði A verði allt að 0,6.“ Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í þriggja m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í sex m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé 7×5 m stór byggingarreitur í norðvestur horni umræddrar lóðar fyrir bílskúr. Þar segi að „nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni“ og verður bílskúrinn steinsteyptur líkt og aðalhúsið sé. Einnig komi fram í skilmálum deili­skipulagsins að byggingarreitir bílskúra séu afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildi þá sú samþykkt. Fjallað sé um viðbyggingar og kvisti í deiliskipulaginu og falli svalir undir þá skilgreiningu. Samþykki meðlóðarhafa fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir, bæði fyrir svölum og bílskúr. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag.

Áhyggjur kærenda vegna hugsanlegra framkvæmda séu skiljanlegar en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998 sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin ekki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi, en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Meðlóðarhafar að Langholtsvegi 136 séu að fullu meðvitaðir um þau byggingaráform sem séu fram undan á lóðinni enda liggi fyrir samþykki þeirra, dags. 24. apríl 2019, sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni. Kærendur séu ekki aðilar að eignaskipta­yfirlýsingu annarrar eignar. Úrskurðarnefndin taki ekki afstöðu til eignaskiptayfirlýsinga heldur dómstólar. Einnig liggi fyrir breytt eignaskipta­yfirlýsing, undirrituð af öllum eigendum að Langholtsvegi 136, samþykkt af byggingarfulltrúa 1. apríl 2020. Eignaskiptayfirlýsingin verði send sýslumanni til þinglýsingar þegar lokaúttekt fari fram.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að byggingarframkvæmdin sé í fullu samræmi við deiliskipulag Vogahverfis og því sé ekki gerð krafa um grenndarkynningu samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Eigendur Langholtsvegar 136 hafi þó gengið lengra og sent kynningarefni til eigenda aðliggjandi lóða.

Deiliskipulag banni ekki svalir. Fordæmi séu fyrir samþykki svala á sambærilegum byggingum á deiliskipulagssvæðinu. Að banna svalir gangi í berhögg við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um flóttaleiðir vegna bruna. Svalir séu einnig fyrir innan byggingarreit eins og sjáist á skipulagsuppdrætti. Byggingarreitur fyrir bílskúr komi skýrt fram á skipulagsuppdrætti og sé um 5×7 m.

Bygging bílskúrs og bílastæðis sé í fullu samræmi við deiliskipulagsákvæði. Innkeyrsla að húsi sé óbreytt frá fyrri uppdráttum enda vandséð hvernig bílskúrsreitur geti verið án innkeyrslu. Vandséð sé hvernig eignarréttur eiganda Langholtsvegar 138 sé skertur með upprunalegum byggingarrétti á lóð Langholtsvegar 136 sem hafi verið til staðar við nýbyggingu, meðal annars á samþykktum teikningum Langholtsvegar 138 frá árinu 1946 og 1947 ásamt því að vera skilmerkilega lýst á skipulagsuppdráttum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að borið hafi að grenndarkynna byggingar­fyrirætlanir m.a. í ljósi ónákvæmni deiliskipulags, óskýrleika um nýtingu bygginga og stöðu eldri bygginga og byggingarreita. Húsbyggingin á lóðamörkum sé verulegt grenndarrask, bæði hvað varði ásýnd og birtu og eins skerðist lóðagæði vegna skuggavarps. Hefði því þurft skýra heimild lóðamarkaeigenda svo slík grenndargæðaskerðing gæti fengið framgöngu og hlotið samþykki.

Byggingarleyfi svala staðsettra á gafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi. Svalirnar séu, samkvæmt athugasemdum Reykjavíkurborgar, reistar á grundvelli leyfis í deiliskipulagi fyrir kvisti og viðbyggingar en leyfið sé samt veitt fyrir þeim á gafli húss. Þá séu svalir eðlisólíkar viðbyggingum sem tilheyri innra rými húsnæðis. Svalabygging á húsgafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi Vogahverfis frá 2010 og raski grenndar­hagsmunum vegna óþægilegrar innsýnar í svefnherbergi, stofu og eldhús næsta húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og svölum og svaladyrum sem á að bæta við aðra hæð hússins. Er einkum deilt um hvort byggingarleyfið sé í samræmi við skipulagsáætlanir og þau grenndaráhrif sem verði af byggingu bílskúrs og svala.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi jafnframt vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í gildi er deiliskipulag Vogahverfis, samþykkt 1. september 2010. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er svæðinu skipt upp í sjö svæði, þ.e. svæði A-E og svæði V og S. Lóðin Langholtsvegur 136 er staðsett á svæði A en þar eru aðallega sænsk timburhús og sambýlishús og nýtingarhlutfall lóða á svæðinu geti verið allt að 0,6. Kemur og fram að eitt markmiða deiliskipulagsins sé að varðveita hið fíngerða yfirbragð hverfisins með því að takmarka stærð húsa. Í greinargerð skipulagsins er fjallað um almenna skilmála sem varða allt svæðið. Þar kemur meðal annars fram að byggingarreitir séu afmarkaðir á öllum lóðum í hverfinu. Byggingarreitir taki mið af byggðamynstri hverfisins og allar breytingar skuli vera innan byggingarreita en innan þeirra megi byggja m.a. ný hús og viðbyggingar við núverandi hús. Auk þess sem gerð sé grein fyrir byggingarreitum bílskúra. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra, en þá gildi sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra séu almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr. Bílskúrar skuli vera lágreistir með lítt hallandi þaki eða mænisþaki sem taki mið af þaki aðalhúss. Hæsta leyfilega hæð við útvegg verði 2,7 m og hæsta leyfilega mænishæð verði 3,4 m mælt frá gólfi undir efstu klæðningu. Nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni. Heimilt sé að gera kvisti á íbúðarhús, en breidd þeirra verði aldrei meiri en 3 m eða 1/3 af lengd húss og skuli allir kvistir vera dregnir minnst 1 m inn frá vegglínu. Þá er í skipulaginu heimilt að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfa eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húsa. Heildarbreidd húsa og viðbyggingar megi verða allt að 12 m.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs bílskúrs að Langholtsvegi 136 er hann staðsettur á byggingarreit sem er afmarkaður á skipulags­uppdrætti. Stærð bílskúrs verður 4,5×7,0 m með 3,40 m mænishæð. Þá mun hann hafa sömu yfirborðsáferð og íbúðarhús lóðarinnar, en bílskúrinn verður steinsteyptur, steinaður að utan í sama litatón og þakkantur verði í sama formi og á íbúðarhúsinu. Eftir breytingarnar verður nýtingarhlutfall lóðarinnar um 0,46. Samkvæmt því fer umdeildur bílskúr ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Með hinu kærða byggingarleyfi er jafnframt heimiluð bygging 7,2 m² svala og svaladyra við aðra hæð vesturgafls íbúðarhússins á umræddri lóð sem snýr að austurgafli húss kæranda sem stendur í u.þ.b. 10 m fjarlægð frá húsinu að Langholtsvegi 136. Ekki er sérstaklega tekið fram í skilmálum skipulagsins hvort heimilt sé að byggja svalir við hús á svæðinu en telja verður að slíkt mannvirki rúmist innan heimildar deiliskipulagsins um viðbyggingar innan byggingarreits, enda er um viðurhlutaminna mannvirki að ræða en hefðbundna stækkun húss. Á göflum beggja húsanna sem snúa hvort að öðru eru gluggar og munu því heimilaðar svalir sem eru hóflegar að stærð ekki auka innsýn að marki umfram það sem þegar er fyrir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.