Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2020 Sjómannaskólareitur

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. mars 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Nóatúni 3l, Vatnsholti 2, Vatnsholti 4 og Vatnsholti 6 ásamt íbúa, Laugarnestanga 70, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. maí 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 18. febrúar 2020 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2. Deiliskipulagsvæðið markast af Háteigsvegi til suðurs, Vatnsholti til austurs, Skipholti til norðurs, Nóatúni og lóð Háteigskirkju til suðurs og vesturs. Fól tillagan í sér uppbyggingu á lóð Sjómannaskólans fyrir allt að 150 nýjar hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara, námsmenn og félagsbústaði. Auk þess yrði bætt við byggingarheimildum fyrir Biskupsstofu á lóð Háteigskirkju. Samhliða auglýsingu tillögunnar að deiliskipulagsbreytingu var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem gerir ráð fyrir breyttri landnotkun á Sjómannaskólareit, úr samfélagsþjónustu í opið svæði og íbúðarbyggð fyrir um 150 íbúðir. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar frá 30. ágúst 2019 til og með 11. október s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum.

Að lokinni kynningu breytingartillögunnar var hún tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2020 þar sem fyrir lá umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar 2020, með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum. Var skipulagstillagan ásamt svörunum samþykkt og málinu vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi sínum 13. febrúar 2020 ásamt áðurgreindri tillögu um breytingu á aðalskipulagi. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 19. mars s.á., að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Með bréfi, dags. 16. apríl s.á., tilkynnti stofnunin um staðfestingu hennar á aðalskipulagsbreytingunni. Tók aðalskipulags-breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. apríl 2020, en auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deildinni 27. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu ákvörðun fela í sér verulega skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarétti þeirra og að fyrirhuguð uppbygging muni skerða lífsgæði þeirra með þeim hætti að fari gegn lögvörðum hagsmunum þeirra.

Í kjölfar uppbyggingar á svæðinu megi vænta skuggavarps á eignir kærenda í allt að níu mánuði á ári, m.a. yfir sumartímann. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé ráðgert að reisa á reit Þ32 þriggja til fjögurra hæða hús suðaustan af Nóatúni 31 og þriggja hæða hús suður af Nóatúni. Í ljósi nálægðar húsanna við lóðir kærenda, hæðar þeirra, en ekki síður því að landið halli á þessum stað töluvert til vesturs og norðurs, sé skuggavarp óhjákvæmilegt og megi telja víst að það muni leiða til verulegrar verðrýrnunar þeirra fasteigna sem verði fyrir því.

Af svörum við athugasemdum þeim sem borist hafi við kynningu breytingartillögunnar megi ráða að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar telji sig hafa komið til móts við athugasemdir málsaðila og telji jafnframt að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting sé málefnaleg og lögmæt. Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geri þá kröfu til stjórnvalda að rannsaka mál með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun sé tekin. Viðbragðsleysi Reykjavíkurborgar gagnvart athugasemdum íbúa svæðisins sé til marks um að þeirri rannsóknarreglu hafi ekki verið fullnægt.

Litið hafi verið fram hjá athugasemdum kærenda um skuggavarp og því haldið fram að væntanlegt skuggavarp sé ekki meira en telja megi eðlilegt. Á kynningarfundi vegna deili-skipulagsins 14. maí 2019 hafi fundargestir lýst áhyggjum sínum af skuggavarpi vegna breytinganna. Skipulagsfulltrúi hafi þá fullyrt að skipulagsyfirvöld væru meðvituð um að skuggavarp væri eitt helsta áhyggjuefni íbúa og tekið hefði verið fullt tillit til þess við vinnuna að breytingu deiliskipulagsins. Eðli máls samkvæmt feli skuggavarp, í svo ríkum mæli sem raun beri vitni, í sér allverulega skerðingu á lífsgæðum íbúa og geri það að verkum að þeir geti ekki notið heimilis síns á eðlilegan hátt. Nokkrir félagsmenn kærenda bendi á að útsýni muni skerðast svo verulega að úr íbúðum þeirra muni ekki lengur reynast hægt að njóta útsýnis yfir m.a. Háteigsveg, Hallgrímskirkju og Sjómannaskólann. Fyrirsjáanlegt sé að skuggavarpið muni leiða til mikillar kólnunar fasteignar kærenda og þrengja að því mikilvæga leiksvæði sem börn hafi hingað til haft í garði fasteignarinnar.

Uppi séu áhyggjur af mögulegu tjóni sem kunni að verða við sprengingar fyrir grunnum húsa þegar haft sé í huga að reitur Þ32 sé að miklu leyti klöpp og hart undirlag. Við þetta bætist almennt ónæði á meðan á framkvæmdum standi. Svör við þessum athugasemdum séu á engan hátt fullnægjandi og illmögulegt sé að gera sér grein fyrir því á hverju sú afstaða sé byggð að rask verði með minna móti þótt neðsta hæð kjallara við Háteigskirkju sé að hluta niðurgrafin vegna halla í landi. Fyrirsjáanleg áhrif á umferð verði meiri en af er látið í svörum við athuga-semdum og aukning allnokkur, en margir íbúar svæðisins telji núverandi umferð þegar of þunga.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sé andstæð skipulagslögum nr. 123/2010, stjórnsýslu-lögum og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins auk þess sem hún feli í sér brot gegn réttmætum væntingum kærenda. Af Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 megi glöggt ráða að umdeild deiliskipulagsákvörðun muni leiða til breytinga langt umfram það sem kærendur máttu hafa réttmætar væntingar um. Áréttað sé að undantekningarsjónarmið þau, sem skipulagslögin geri ráð fyrir um breytingu á aðalskipulagi fyrir 12 ára tímamark, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna, geti ekki átt við um hina kærðu ákvörðun. Ekki komi 35. gr. laganna til álita enda hafi lengri tími en 12 mánuðir liðið frá borgarstjórnarkosningum þegar ákvörðun borgarráðs hafi legið fyrir. Orðalagið „að jafnaði“, sbr. niðurlag ákvæðisins, beri í þessu samhengi að túlka á þann hátt að lengri tímafrestur komi aðeins til greina ef sérstakar ástæður eigi við. Ekki hafi verið sýnt fram á að slíkar ástæður séu fyrir hendi. Heimild 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga um breytingu á aðalskipulagi sé vissulega rúm en ákvæðið beri þó að túlka til samræmis við markmið laganna, sbr. 1. gr. og jafnframt til samræmis við önnur ákvæði þeirra. Sé þar fyrst og fremst átt við 28. gr., sbr. einkum 4. mgr. ákvæðisins, og 30. gr. laganna. Að öðrum kosti sé vandséð hvernig sá 12 ára lágmarkstími sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 28. gr. laganna hafi raunverulega þýðingu. Breytingin á bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi hafi verið í andstöðu við skipulagslög. Þótt breytingar á aðalskipulagi séu sem slíkar ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar beri að ljá framangreindum atriðum vægi í máli þessu vegna þess að málsmeðferð aðalskipulagsins og deiliskipulagsins hafi í raun verið samofin frá upphafi. Þessi sjónarmið séu því rakin til þess að varpa skýrara ljósi á þá annmarka sem málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar sé haldin.

Auglýsingin að tillögu að breyttu aðalskipulagi hafi farið fram á sama tíma og auglýsing að  tillögu að breyttu deiliskipulagi. Allt frá upphafi hafi málsmeðferð tillögu að breyttu deiliskipulags eingöngu verið formlegs eðlis og hafi málsaðilar aldrei átt möguleika á því að hafa raunveruleg áhrif. Slík vinnubrögð séu ekki aðeins ámælisverð heldur ólögmæt og í engu samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Málsmeðferðin hafi að þessu leyti verið svo alvarlegum og augljósum annmörkum háð að hin kærða ákvörðun geti ekki talist reist á fullnægjandi grunni.

Verulegur skortur sé á fullnægjandi rannsókn og rökstuðningi Reykjavíkurborgar í mati hennar á rástöfunum til varnar listaverkinu „Saltfiskstöflun“ sem steypt sé upp við Sjómannaskólann. Sé hér einkum vísað til sjónarmiða um rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að brotið hafi verið á stjórnarskrárvörðum eignarétti kærenda, m.a. vegna skuggavarps sem muni hljótast af fyrirhugaðri uppbyggingu. Skuggavarp sé sýnt á uppdráttum kl. 9, 13 og 17 við sumarsólstöður og jafndægur. Skuggavarp við sumarsólstöður sýni að engir skuggar falli á aðliggjandi hús eða lóðir. Þeir skuggar sem falli við jafndægur séu sambærilegir við þá sem nú þegar falla á milli húsa á reitnum. Eitt af þeim atriðum sem hafi verið lagt til grundvallar skipulagstillögunni sé að skuggar myndu ekki hafa neikvæð áhrif á hagnýtingu aðliggjandi lóða, veranda og svala yfir sumartímann. Erfitt sé að þétta byggð án þess að skuggavarp aukist eitthvað en hér séu áhrifin ekki meiri en eðlilegt geti talist og ekki meiri en vegna annarra húsa á reitnum. Eins og sjá megi á skuggavarpsuppdráttum kasti Nóatún 31 löngum skugga yfir á Nóatún 29, sem lengist þegar sól lækki á lofti.

Í tilefni af málsástæðu kærenda um verðrýrnun fasteigna þeirra sé bent á ákvæði 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem fram komi að ef gildistaka skipulags valdi því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á þá sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr borgarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín. Þótt ekki hafi verið komið til móts við allar athugasemdir sem hafi borist við kynningu skipulagstillögunnar, feli það ekki í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Komið hafi verið til móts við ýmsar athugasemdir við meðferð málsins s.s. að fella niður byggingarreit H1 (námsmannaíbúðir) á austursvæði og draga úr byggingarmagni (fótspori bygginga) á hluta vestursvæðis og stækka græn svæði fyrir almenning. Íbúðum fækkaði þannig um 24 frá auglýstri tillögu. Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögum og bent skuli á að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs né í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið tekin á faglegum og málefnalegum sjónarmiðum og byggt hafi verið á fyrirliggjandi gögnum. Íbúar í þéttri borgarbyggð geti ekki haft væntingar til þess að nánasta umhverfi þeirra haldist óbreytt um aldur og ævi. Geti þeir alltaf átt von á því að breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti mögulega snert hagsmuni þeirra með einhverjum hætti, s.s. vegna skugga-varps, útsýnisskerðingar eða umferðaraukningar.

Umferð sem fari eftir Háteigsvegi sé sambærileg mörgum safngötum innan Reykjavíkur. Miðað við nýjustu mælingar sé umferð eftir Háteigsvegi  3.500-4.300 ökutæki á sólarhring. Miðað við áætlaða umferðaraukningu- og dreifingu, verði umferð eftir Háteigsvegi frá 4.100-4.700 ökutæki á sólarhring. Til viðmiðunar þá séu aðrar safngötur sem hafi mælst með sólarhrings umferð á bilinu 4.000-5.000 og því sé ekki fallist á að umferðaraukning verði meiri en eðlilegt geti talist.

Ljóst sé að umrædd breyting á deiliskipulagi sé í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að meðferð tillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og annara laga og reglna, s.s. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði í lóðar-vilyrðum varðandi kaup og sölu eigna geti ekki valdið ógildi deiliskipulagsins og sé því alfarið vísað á bug að um eitthvað sýndarspil borgarinnar hafi verið að ræða eins og haldið sé fram í kæru. Í 36. gr. skipulagslaga sé skýr heimild til breytinga á aðalskipulagi. Þrátt fyrir að kveðið sé á um að aðalskipulag skuli gilda að lágmarki í 12 ár þá sé ekki hægt að sjá fyrir allar þær breytingar sem geti orðið í þjóðfélaginu á þeim tíma. Það sé því ekki annað en raunhæft að gefa sveitarstjórnum heimildir í skipulagslögum til að geta brugðist við breyttum forsendum og ófyrirséðri þróun. Taka megi þó undir að mikilvægt sé að sveitarstjórnir sýni einnig stefnufestu og ráðist ekki í stakar breytingar sem stríði gegn lykilatriðum aðalskipulagsins. Tillagan snúi ekki að breytingu á megin markmiðum skipulagsins heldur sé tilgangur hennar að styðja betur við nokkur lykil markmið í húsnæðismálum um þéttingu byggðar, breyttar ferðavenjur og í loftslagsmálum. Áformuð uppbygging samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni sé í samræmi við meginmarkmið og leiðarljós aðalskipulagsins. Stefna aðalskipulagsins sé óvenju nákvæm þegar komi að ákvæðum um íbúðarbyggð og fjölda íbúðareininga á einstökum reitum. Það skýri að nokkru leyti tíðar breytingar á aðalskipulaginu en undirstriki einnig mikilvægi þess að geta auglýst samhliða deili- og aðalskipulagsbreytingar þegar verið sé að skilgreina og endurmeta byggingarmagn á einstökum reitum.

Allt rask vegna nýrra bygginga verði með minna móti en fallið hafi verið frá gerð kjallara í byggingum E1 og E2. Engir kjallarar verði á svæðinu nema við I3 (Háteigskirkja) en þar sé neðsta hæð að hluta niðurgrafin vegna halla í landi. Ekki verði því mikið um sprengingar. Bætt hafi verið inn á deiliskipulag að ekki sé heimilt að aka yfir og raska grænum svæðum vegna framkvæmda. Framkvæmdaraðilar beri ábyrgð á því tjóni sem þeir kunni að valda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

Tekið sé undir það að mikið rask í nánasta umhverfi geti haft neikvæð áhrif á listaverkið „Saltfiskstöflun“ sé það óvarið og að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja slíkt. Sérfræðingar Listasafns Reykjavíkur séu til ráðgjafar og hafi séð um að verja og eða fjarlægja tímabundið listaverk á framkvæmdasvæðum innan borgarinnar. Þegar til framkvæmda komi verði verkið varið og styrkt eða fjarlægt tímabundið af svæðinu ef framkvæmdir ógni öryggi þess. Breytt aðal- og deiliskipulag geri ráð fyrir því að verkið verði staðsett á sama stað og nú sé og verði áfram glæsilegt kennileiti fyrir hverfið og áminning um þá starfsemi og það fólk sem áður starfaði á svæðinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja 119 nýjar íbúðir. Kærendur eru annars vegar félagsmenn húsfélaga nærliggjandi húsa og hins vegar handhafi höfundar- og sæmdarréttar að verkinu „Saltfiskstöflun“ sem stendur við innkeyrslu að Sjómannaskólanum.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr., en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber ennfremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt deiliskipulagssvæði á  þróunar-svæði merktu Þ32 þar sem gert er ráð fyrir blöndu stofnana, þjónustu og íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara, námsmenn og félagsbústaði með mögulegri aukningu byggingarmagns, einkum á lóð Sjómannaskólans. Með breytingu á aðalskipulaginu sem tók gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 17. apríl 2020, er gert ráð fyrir breyttri landnotkun á lóð Sjómannaskólans og verður hluti hennar íbúðarbyggð og opið svæði. Svæði fyrir íbúðarbyggð er um 1,4 ha en opnu svæðin um 0,7 ha. Svæði samfélagsþjónustu rýrnar að sama skapi og verður um 1 ha. Gert er ráð fyrir byggingu um 150 íbúða í 3-5 hæða húsum. Nefnd aðalskipulagsbreyting var gerð samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu svo sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 41. gr. skipulaglaga en ágreiningur um form og efni aðalskipulagsbreytingarinnar verður ekki borinn undir úrskurðarnefndina, sbr. 52. gr. laganna.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir heimild til byggingar íbúða á þremur nýjum lóðum innan deiliskipulagsvæðisins sem verða til vegna skiptingar lóðar  Sjómannaskólans. Á lóð Háteigskirkju er fyrirhugað að byggja skrifstofubyggingu. Eftir auglýsingu tillögunnar voru breytingar gerðar á uppdrættinum vegna athugasemda íbúa og annarra hagsmunaaðila. Áætluðum fjölda íbúða var breytt og verða þær samtals 119. Samhliða fækkun íbúða fækkar bílastæðum. Í skipulagsbreytingunni er lögð áhersla á lágreista byggð, rýra ekki ásýnd og sjónása frá Háteigsvegi að Sjómannaskólanum og menningarminjar verði verndaðar og betur afmarkaðar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulagsins og ákvæði þess um landnotkun, þéttleika byggðar og hæðir húsa svo sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 37. gr. Skipulagslaga. Þar að leiðir er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Af fyrirliggjandi gögnum um skuggavarp þeirra bygginga sem fyrirhugaðar eru verður ráðið að það verði ekki umfram það sem gerist og gengur á svæðinu enda er hæð bygginganna sambærileg þeirri byggð sem fyrir er á svæðinu og aukin umferð bifreiða á Háteigsvegi vegna uppbyggingarinnar verður ekki talin veruleg. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits.