Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2020 Kirkjubraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2020 Hagasel

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Heiðarseli 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. júlí 2020.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag miðsvæðis Seljahverfis, sem samþykkt var í borgarráði 9. ágúst 1988, en upphaflegir skipulagsskilmálar fyrir Seljahverfi eru frá marsmánuði 1973. Hinn 19. desember 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Hagasel. Í tillögunni fólst m.a. hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar úr 0,32 í 0,42 með heimilaðri byggingu á 600 m² íbúðakjarna á tveimur hæðum með átta íbúðum, ætluðum sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2019. Hinn 4. febrúar 2020 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn Félagsbústaða um byggingu tveggja hæða fjölbýlishúss með átta íbúðum á lóðinni Hagaseli 23 sem ætlað væri sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkur­borgar og Félagsbústaða. Á árituðum aðaluppdráttum sem fylgdu hinu kærða byggingarleyfi var brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar þar með 0,44.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 85/2019, uppkveðnum 27. febrúar 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni nr. 23. við Hagasel væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, væri óhjákvæmilegt að fella byggingarleyfið úr gildi. Hins vegar var hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi að því er varðaði lóðina að Hagaseli 23.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða, átta íbúða fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs og Félagsbústaða á lóð nr. 23 við Hagasel. Fyrirhugað hús yrði 580,2 m² (A-rými) og 48,9 m² rými undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða samtals 629,2 m². Það gæfi nýtingarhlutfallið 0,44. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars s.á., var vísað til þess að óskað væri eftir skipulagslegri afstöðu til aukningar á byggingarmagni B-rýma um 29,2 m². Heildaraukningin væri því 29,2 m². Breytingin væri talin óveruleg, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segi að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis gæti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðaði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var því ekki gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt deiliskipulagi megi húsið á lóðinni nr. 23 við Hagasel vera 600 m² og nýtingarhlutfall 0,42. Lóðin sé 1.435 m². Byggingarleyfisumsókn sýni 580,2 m² hús (A-rými) og 48,9 m² undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða skráða A+B fermetra 629,2 m². Það gefi nýtingarhlutfallið 0,438 (0,44). Munurinn sé 29,2 m² yfir leyfilegu nýtingarhlutfalli sem sé ekki í samræmi við heimildir deiliskipulags. Samkvæmt skilgreiningu á nýtingarhlutfalli, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé verið að samþykkja meira byggingarmagn en heimilt sé og sé því farið fram á ógildingu á ákvörðun byggingar­fulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars 2020, en þar komi fram að um óverulega breytingu (stækkun) sé að ræða samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé heimilt við útgáfu byggingarleyfis að víkja frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu. Ljóst sé að umræddir fermetrar hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem 600 m2 hús hefði mögulega haft, en form, staðsetning og hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verði grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti. Hafi kærendur ekki gert tilraun til að sýna fram á með hvaða hætti stækkunin hafi áhrif á hagsmuni þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að það verði að teljast undarleg vinnubrögð þegar skipulagsyfirvöld geri sérstaka deiliskipulagsbreytingu á reitnum með því að auka byggingarmagn í 600 m² en ákveða síðan að samþykkja 30 m² stærri byggingu en heimildir segi til um í deiliskipulagi. Fram komi í greinargerð borgaryfirvalda að um sé að ræða óverulega stækkun sem nemi tæpum 30 m² umfram heimildir í deiliskipulagi eða tæp 5%. Skilgreining á nýtingarhlutfalli eigi bæði við um A- og B rými og sé því ljóst að gera þurfi deiliskipulags­breytingu og grenndarkynna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 eða minnka húsið um áðurnefnda umframfermetra.

Stækkun hússins geti með engum hætti flokkast sem óverulegt frávik í ljósi þess að um 5% viðbótarstækkun sé að ræða sem laumað hafi verið í gegnum stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og hafi aldrei verið kynnt íbúum svæðisins. Viðbótarstækkanir af þessari stærðargráðu umfram heimildir í deiliskipulagi séu afar sjaldan samþykktar innan stjórnsýslu Reykjavíkur, enda sé hugsunin á bak við beitingu þessa ákvæðis sú að einungis skuli það gert í sérstökum tilfellum sem ekki eigi við í þessu tilviki þar sem hægt sé að fara aðrar leiðir. Því sé mótmælt að hagsmunir skerðist ekki við þessa umframfermetra, því aukningin hafi áhrif á útsýni vegna stærri byggingar og hafi auk þess bein áhrif á nýtingu reitsins.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árituðum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall um­ræddrar lóðar þar með 0,44. Heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt deiliskipulagi er 0,42, sem heimilar allt að 602,7 m² byggingu. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis er því samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Reykjavíkurborg telur hins vegar að frávik frá deiliskipulagi rúmist innan heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingar­leyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Ljóst er að um undanþáguákvæði er að ræða sem túlka ber þröngt. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni við Hagasel 23 er 26,4 m² umfram leyfilegt hámarksflatarmál húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins. Lóðin er staðsett í grónu hverfi og ekki unnt að útiloka að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi hafi grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem verið hefði samkvæmt heimildum deili­skipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið voru þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fyrir því að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félags­bústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

35/2020 Langholtsvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 29. maí 2020 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. maí 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að umdeild byggingaframkvæmd sé ekki í samræmi við deiliskipulag Vogahverfis frá árinu 2010. Áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi því að fara fram grenndarkynning. Deiliskipulag heimili ekki svalabyggingu að Langholtsveg 136. Slík bygging virðist jafnframt í andstöðu við deiliskipulagið frá 2010, en þar komi fram að við endurbætur skuli leitast við að viðhalda upprunalegu formi húsa. Í deiliskipulaginu segi: „Byggingarreitir bílskúra eru afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum eru eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildir þá sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra eru almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr.“

Deiliskipulagið frá 2010 sýni ekki byggingarreiti bílskúrs. Ekki séu heimildir til þess að byggja bílskúr á svo óljósum grundvelli sem felist í því að í deiliskipulagi sé vísað til „eldri byggingar­nefndarsamþykkta“. Það sé í andstöðu við tilgang skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að vísa til svo óljósra heimilda. Um það megi vísa til skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðarinnar. Hvað sem þessu líði sé ljóst að sá byggingarreitur sem komi fram á eldri lóðarblöðum sé mun minni en 5×7 m. Hann rúmi ekki um 31 m² bílskúrsbyggingu. Eigi eldri heimildir að hafa þýðingu, þá þýði það jafnframt að byggja þurfi á stærð byggingarreits samkvæmt þeim heimildum. Bygging bílskúrs virðist í ósamræmi við önnur deiliskipulagsákvæði, t.a.m. að ekki megi fjölga innkeyrslum að húsum, að ekki megi fjölga bílastæðum og það markmið að ekkert jarðrask verði utan byggingarreita.

Þá sé skilyrði fyrir byggingaráformum eftirfarandi: „Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt.“ Sá aðili sem standi að byggingaráformum eigi hvorki forgangs- eða eignarrétt að bílskúrs­byggingu á lóð Langholtsvegar nr. 136 samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Gera verði þá kröfu að fyrir liggi samþykki annarra eigenda og eignarréttarlegar forsendur fyrir framkvæmdum eins aðila á sameignarhluta húss og lóðar komi fram með skýrum hætti.

Bæði bílskúrsbygging og svalabygging raski grenndarhagsmunum eigenda Langholtsvegar 138 og sé beinlínis gert ráð fyrir að framkvæmdasvæðið fari 1,5 m inn á lóð þeirra. Frágangur lóðar og umsjón byggingarsvæðis sé hluti byggingarleyfis og byggingaryfirvöld þurfi að ganga úr skugga um að eigendur svæðis heimili framkvæmd og nauðsynleg afnot áður en byggingar­leyfi sé gefið út. Eigendur Langholtsvegar 138 séu því aðilar máls og beri að gæta að réttindum þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars með upplýsingagjöf, leiðbeiningum og að veita andmælarétt. Þá sé í ósamræmi við löggjöf á sviði skipulags- og byggingarmála að veita byggingarleyfi til framkvæmda á lóð annars aðila án samþykkis þess aðila. Gengið sé á eignarréttarlega hagsmuni eigenda Langholtsvegar 138, sbr. þá röskun sem verði af byggingum við og nærri lóðarmörkum og nýrra svala á hlið Langholtsvegar 136 sem snúi að Langholtsvegi 138.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykja­víkur 2010-2030 sé Langholtsvegur 136 í skilgreindri íbúðar­byggð, merkt ÍB27. Í gildi sé deiliskipulag fyrir Vogahverfi, samþykkt 1. september 2010. Í skilmálum deiliskipulags fyrir svæði A, sem Langholtsvegur 136 tilheyri, segi: „Lögð er áhersla á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. […] Nýtingarhlutfall einbýlis- og sambýlishúsa á svæði A verði allt að 0,6.“ Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í þriggja m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í sex m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé 7×5 m stór byggingarreitur í norðvestur horni umræddrar lóðar fyrir bílskúr. Þar segi að „nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni“ og verður bílskúrinn steinsteyptur líkt og aðalhúsið sé. Einnig komi fram í skilmálum deili­skipulagsins að byggingarreitir bílskúra séu afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildi þá sú samþykkt. Fjallað sé um viðbyggingar og kvisti í deiliskipulaginu og falli svalir undir þá skilgreiningu. Samþykki meðlóðarhafa fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir, bæði fyrir svölum og bílskúr. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag.

Áhyggjur kærenda vegna hugsanlegra framkvæmda séu skiljanlegar en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998 sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin ekki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi, en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Meðlóðarhafar að Langholtsvegi 136 séu að fullu meðvitaðir um þau byggingaráform sem séu fram undan á lóðinni enda liggi fyrir samþykki þeirra, dags. 24. apríl 2019, sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni. Kærendur séu ekki aðilar að eignaskipta­yfirlýsingu annarrar eignar. Úrskurðarnefndin taki ekki afstöðu til eignaskiptayfirlýsinga heldur dómstólar. Einnig liggi fyrir breytt eignaskipta­yfirlýsing, undirrituð af öllum eigendum að Langholtsvegi 136, samþykkt af byggingarfulltrúa 1. apríl 2020. Eignaskiptayfirlýsingin verði send sýslumanni til þinglýsingar þegar lokaúttekt fari fram.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að byggingarframkvæmdin sé í fullu samræmi við deiliskipulag Vogahverfis og því sé ekki gerð krafa um grenndarkynningu samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Eigendur Langholtsvegar 136 hafi þó gengið lengra og sent kynningarefni til eigenda aðliggjandi lóða.

Deiliskipulag banni ekki svalir. Fordæmi séu fyrir samþykki svala á sambærilegum byggingum á deiliskipulagssvæðinu. Að banna svalir gangi í berhögg við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um flóttaleiðir vegna bruna. Svalir séu einnig fyrir innan byggingarreit eins og sjáist á skipulagsuppdrætti. Byggingarreitur fyrir bílskúr komi skýrt fram á skipulagsuppdrætti og sé um 5×7 m.

Bygging bílskúrs og bílastæðis sé í fullu samræmi við deiliskipulagsákvæði. Innkeyrsla að húsi sé óbreytt frá fyrri uppdráttum enda vandséð hvernig bílskúrsreitur geti verið án innkeyrslu. Vandséð sé hvernig eignarréttur eiganda Langholtsvegar 138 sé skertur með upprunalegum byggingarrétti á lóð Langholtsvegar 136 sem hafi verið til staðar við nýbyggingu, meðal annars á samþykktum teikningum Langholtsvegar 138 frá árinu 1946 og 1947 ásamt því að vera skilmerkilega lýst á skipulagsuppdráttum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að borið hafi að grenndarkynna byggingar­fyrirætlanir m.a. í ljósi ónákvæmni deiliskipulags, óskýrleika um nýtingu bygginga og stöðu eldri bygginga og byggingarreita. Húsbyggingin á lóðamörkum sé verulegt grenndarrask, bæði hvað varði ásýnd og birtu og eins skerðist lóðagæði vegna skuggavarps. Hefði því þurft skýra heimild lóðamarkaeigenda svo slík grenndargæðaskerðing gæti fengið framgöngu og hlotið samþykki.

Byggingarleyfi svala staðsettra á gafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi. Svalirnar séu, samkvæmt athugasemdum Reykjavíkurborgar, reistar á grundvelli leyfis í deiliskipulagi fyrir kvisti og viðbyggingar en leyfið sé samt veitt fyrir þeim á gafli húss. Þá séu svalir eðlisólíkar viðbyggingum sem tilheyri innra rými húsnæðis. Svalabygging á húsgafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi Vogahverfis frá 2010 og raski grenndar­hagsmunum vegna óþægilegrar innsýnar í svefnherbergi, stofu og eldhús næsta húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og svölum og svaladyrum sem á að bæta við aðra hæð hússins. Er einkum deilt um hvort byggingarleyfið sé í samræmi við skipulagsáætlanir og þau grenndaráhrif sem verði af byggingu bílskúrs og svala.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi jafnframt vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í gildi er deiliskipulag Vogahverfis, samþykkt 1. september 2010. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er svæðinu skipt upp í sjö svæði, þ.e. svæði A-E og svæði V og S. Lóðin Langholtsvegur 136 er staðsett á svæði A en þar eru aðallega sænsk timburhús og sambýlishús og nýtingarhlutfall lóða á svæðinu geti verið allt að 0,6. Kemur og fram að eitt markmiða deiliskipulagsins sé að varðveita hið fíngerða yfirbragð hverfisins með því að takmarka stærð húsa. Í greinargerð skipulagsins er fjallað um almenna skilmála sem varða allt svæðið. Þar kemur meðal annars fram að byggingarreitir séu afmarkaðir á öllum lóðum í hverfinu. Byggingarreitir taki mið af byggðamynstri hverfisins og allar breytingar skuli vera innan byggingarreita en innan þeirra megi byggja m.a. ný hús og viðbyggingar við núverandi hús. Auk þess sem gerð sé grein fyrir byggingarreitum bílskúra. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra, en þá gildi sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra séu almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr. Bílskúrar skuli vera lágreistir með lítt hallandi þaki eða mænisþaki sem taki mið af þaki aðalhúss. Hæsta leyfilega hæð við útvegg verði 2,7 m og hæsta leyfilega mænishæð verði 3,4 m mælt frá gólfi undir efstu klæðningu. Nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni. Heimilt sé að gera kvisti á íbúðarhús, en breidd þeirra verði aldrei meiri en 3 m eða 1/3 af lengd húss og skuli allir kvistir vera dregnir minnst 1 m inn frá vegglínu. Þá er í skipulaginu heimilt að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfa eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húsa. Heildarbreidd húsa og viðbyggingar megi verða allt að 12 m.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs bílskúrs að Langholtsvegi 136 er hann staðsettur á byggingarreit sem er afmarkaður á skipulags­uppdrætti. Stærð bílskúrs verður 4,5×7,0 m með 3,40 m mænishæð. Þá mun hann hafa sömu yfirborðsáferð og íbúðarhús lóðarinnar, en bílskúrinn verður steinsteyptur, steinaður að utan í sama litatón og þakkantur verði í sama formi og á íbúðarhúsinu. Eftir breytingarnar verður nýtingarhlutfall lóðarinnar um 0,46. Samkvæmt því fer umdeildur bílskúr ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Með hinu kærða byggingarleyfi er jafnframt heimiluð bygging 7,2 m² svala og svaladyra við aðra hæð vesturgafls íbúðarhússins á umræddri lóð sem snýr að austurgafli húss kæranda sem stendur í u.þ.b. 10 m fjarlægð frá húsinu að Langholtsvegi 136. Ekki er sérstaklega tekið fram í skilmálum skipulagsins hvort heimilt sé að byggja svalir við hús á svæðinu en telja verður að slíkt mannvirki rúmist innan heimildar deiliskipulagsins um viðbyggingar innan byggingarreits, enda er um viðurhlutaminna mannvirki að ræða en hefðbundna stækkun húss. Á göflum beggja húsanna sem snúa hvort að öðru eru gluggar og munu því heimilaðar svalir sem eru hóflegar að stærð ekki auka innsýn að marki umfram það sem þegar er fyrir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

33/2020 Kerhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2020, er barst nefndinni 6. s.m., kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C103/104 þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu nefnds sumarhúss í íbúðarhús. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ný ákvörðun verði tekin þar sem kæranda verði heimilað að breyta sumarhúsinu í íbúðarhús. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi sveitarfélagsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. júní 2020.

Málavextir: Kærandi sendi Grímsnes- og Grafningshreppi erindi, dags. 3. desember 2018, þar sem óskað var eftir því að breytt yrði skráningu á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhrauni C103/104 í íbúðarhús. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi 19. s.m. og hafnaði því með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð. Kæranda var tilkynnt um synjunina með bréfi, dags. 20. s.m. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. janúar 2019, sem með úrskurði uppkveðnum 7. febrúar 2020 vísaði málinu frá þar sem umsókn kæranda hefði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps tók umrædda umsókn kæranda fyrir á fundi 22. apríl 2020 þar sem umsókninni var synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið 17. nóvember 1999.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. október 2013 hafi sambærilegt erindi og hér um ræði verið samþykkt, þar sem samþykkt hafi verið breytt notkun Snæfoks­staða 99 og 100 úr sumarbústað í einbýlishús. Hið sama eigi við um Vaðstíg 1, 3 og 5, en samþykkt hafi verið að breyta landnotkun lóðanna úr frístundabyggð í íbúðarbyggð á fundi sveitarstjórnar 22. apríl 2020. Ráða megi af fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps við afgreiðslu þess erindis er sneri að Snæfoksstöðum að sveitarstjórn telji það óverulega breytingu á aðalskipulagi að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Framangreindar umsóknir hafi verið algjörlega sambærilegar umsókn kæranda en hafi ekki verið afgreiddar með sama hætti. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, enda skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Hinar tilvitnuðu lóðir sem kærandi hafi samþykkt sambærilegar breytingar á og kærandi hafi óskað eftir, hafi allar verið skráðar frístundalóðir fyrir breytingar. Það sé því ómálefnalegt að fara ekki eins með umsókn kæranda. Rangt sé farið með þegar sveitarstjórn segist ekki hafa heimilað breytta notkun einstakra lóða. Það hafi verið gert bæði í máli Vaðstígslóðanna sem og Snæfoksstaðalóða. Þá sé það eftir á skýring að benda á að breyting Snæfoksstaðalóðanna hafi verið samþykktar þar sem þær séu nálægt landbúnaðarbyggð. Ekkert komi fram um þetta í aðalskipulags­­­breytingunni frá 8. febrúar 2018. Þá sé rétt að benda á að lóð kæranda sé einnig  í grennd við landbúnaðarsvæði Seyðishóla.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess aðallega krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. gr. og 38. gr. sömu laga sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. og 40.- 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. gr., sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012.

Beiðni kæranda feli í sér að breyta þarf aðalskipulagi. Samkvæmt framangreindum ákvæðum eigi sá sem óski eftir slíkri breytingu ekki heimtingu á henni, heldur sé sveitarfélögum falið að taka slíkar ákvarðanir, allt eftir skipulagi sveitarfélagsins hverju sinni. Endanleg ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingu sé ávallt í höndum sveitarstjórnar sem taki endanlega skipu­lagsákvörðun. Í framangreindu felist að sveitarfélagið líti enn þannig á að beiðni kæranda feli ekki einungis í sér breytingu á skráningu hússins, heldur einnig óverulega breytingu á aðalskipulagi, þar sem lóð kæranda sé í skipulagðri frístundabyggð.

Líkt og áður segi sé lóð kæranda í skipulagðri frístundabyggð og feli erindi hans í sér óverulega breytingu á aðalskipulagi, svo hægt sé að fallast á breytta skráningu hússins. Málefni varðandi aðalskipulag eigi ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og beri því að vísa kæru þessari frá nefndinni. Vísist í þeim efnum til 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga, þar sem fram komi að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Hin kærða ákvörðun hafi falið í sér synjun um breytingu aðalskipulags, en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulags­laga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Sé litið svo á að erindið hafi átt undir byggingarfulltrúa sé bent á að erindi kæranda hafi nú verið tekið fyrir bæði hjá sveitarstjórn sem og hjá byggingarfulltrúa. Hafi erindið því hlotið fullnægjandi meðferð samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/2019. Í báðum tilfellum hafi erindi kæranda verið hafnað. Fyrir liggi að lóð kæranda sé staðsett í skipulagðri frístundabyggð Kerhrauns í landi Klausturhóla. Að baki synjun á erindi kæranda séu því bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið. Lóð kæranda sé staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipu­lagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið sé í heild um 107 hektarar og telji 130 frí­stundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn hafi ekki heimilað breytta landnotkun stakrar lóðar við slíkar aðstæður. Til þess þyrfti bæði aðal- og deiliskipulagsbreytingu.

Vegna tilvísunar kæranda til lóða 99 og 100 að Snæfoksstöðum (Rauðhólahverfi) þá séu aðstæður þar allt aðrar en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun. Samþykkt hafi verið að breyta landnotkun þessara tveggja lóða úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði til samræmis við aðliggjandi svæði. Fyrir liggi að lóðirnar séu staðsettar við landbúnaðarsvæði og sé um að ræða tvær austustu lóðirnar í enda skipulagðrar frístundabyggðar sem hafi eingöngu talið sjö lóðir. Lóðir 99 og 100, sem séu stærstu lóðirnar, verði þá hluti af aðliggjandi landbúnaðarsvæði. Þá sé þar mjög stutt í aðalveg og gott að þjónusta með tilliti til fastrar búsetu.

Varðandi lóðir við Vaðstíg þá sé á það bent að þær lóðir séu á bæjarhlaðinu á Kringlu. Um sé að ræða þrjár lóðir sem stofnaðar hafi verið af landeiganda og síðar gerðar að íbúðarhúsalóðum. Líkt og í tilfelli Snæfoksstaða séu landbúnaðarlönd allt í kring um lóðirnar og liggi sami vegur um þær og heim að bænum Kringlu.

Ljóst sé samkvæmt framangreindu að aðstæður séu allt aðrar að Snæfoksstöðum og Kringlu en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun og lóðarinnar að Kerhrauni C103/104. Sé því ekki fallist á að ómálefnaleg rök hafi ráðið ákvörðun sveitarfélagsins eða að ekki hafi verið gætt að jafnræðis­reglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í fyrra málinu sem rekið var fyrir úrskurðarnefndinni vegna afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta skráningu sumarhúss hans var lagt til grundvallar að um væri að ræða byggingarleyfis­­umsókn enda óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Var málinu vísað frá nefndinni með úrskurði, uppkveðnum 7. febrúar 2020, í máli nr. 10/2019, þar sem umsóknin hafði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa. Í máli þessu er deilt um lögmæti afgreiðslu byggingarfulltrúa á sömu umsókn kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Því er það ekki innan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda. Þá er ekki fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaður til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga skal byggingarleyfisskyld mannvirkjagerð vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði og skv. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulags­áætlunum á svæðinu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar Kerhrauns í landi Klausturhóla, sem samþykkt var 17. nóvember 1999. Samkvæmt grein 2.2.1. í deiliskipulagi þessu eru aðalforsendur þess að mynda sumarbústaðahverfi sem falli sem best að umhverfinu. Samkvæmt grein 2.2.2. er gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaða­svæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Í grein 2.2.2.1. um sumarbústaðasvæði segir: „Kerhraun, svæði C, skipulagt undir sumarbústaðalóðir liggur á norðausturhluta jarðarinnar, meðfram Hæðarendalæk að norðan og landamerkjum að austan. Að suðaustan og sunnan afmarkast svæðið af Seyðishólum.“ Í grein 2.2.5.1. kemur og fram að á hverri lóð sé heimilt að reisa einn sumarbústað. Aðrar byggingar, svo sem geymsluskúrar, verði ekki leyfðar. Þó sé heimilt að hafa útigeymslu sambyggða bústað. Að lokum er tekið fram í grein 2.3.4. skipulagsins um húsagerðir að hús skuli einungis ætluð til samfelldrar dvalar að sumri til en á öðrum árstímum til styttri dvalar, t.d. yfir helgi.

Deiliskipulagi þessu hefur verið breytt fjórum sinnum. Þrjár breytinganna snúa einvörðungu að sameiningu lóða eða breytingu á lóðamörkum. Með fjórðu breytingunni, dags. 5. maí 2010, var framangreindri grein 2.2.5.1. breytt. Eftir breytingu segir þar að heimilt sé að reisa eitt hús á hverri lóð og að auki sé heimilt að reisa geymslu- eða gestahús, allt að 40 m2. Þá var framangreind grein 2.3.4. felld úr skipulaginu. Eftir stendur þó að samkvæmt grein 2.2.2. er enn gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaðasvæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Engin heimild er í deiliskipulaginu til að leyfa þar íbúðarbyggð. Var byggingarfulltrúa því rétt að synja erindi kæranda.

Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglna 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu sveitarfélagsins varðandi lóðir við Snæfoksstaði og Vaðstíg. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki um sambærileg tilvik að ræða enda hafði bæði aðal- og deiliskipulagi verið breytt áður en umræddar landnotkunarbreytingar voru samþykktar af sveitarfélaginu. Verður því ekki fallist á að ekki hafi verið gætt að jafnræðis­sjónarmiðum. Kærandi getur eftir sem áður sótt um aðal- og deiliskipulagsbreytingu, kjósi hann að gera það.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi hans um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.

56/2020 Esjumelar

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 11. desember 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í breytingunni fólst að heimilt væri að starfrækja malbikunarstöð á lóðinni. Borgar-ráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 9. janúar 2020 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 20. s.m. til 2. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var afstaða tekin til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2020. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 1. apríl s.á. sem sam-þykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 2. s.m. Með erindi, dags. 24. apríl 2020, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 22. maí s.á, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu aug-lýsingar um samþykkt deiliskipulagsins og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulagsbreytingin vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu feli í sér að verið sé að breyta stórum hluta „athafnasvæðisins“ á Esjumelum í „iðnaðarsvæði“ í skilningi skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Slík breyting samræmist ekki gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Óheimilt sé að breyta landnotkun sem ákveðið hafi verið í aðalskipulagi með deiliskipulagsbreytingu. Óumdeilt sé að umrætt svæði á Esju-melum sé skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér að verið sé að heimila starfsemi sem geti haft mengun í för með sér. Í breytingunni felist þ.a.l. rýmkun á landnotkun sem samræmist ekki aðalskipulagi. Hafi breytingin vegna framan-greindra lóða ekki verið kynnt kæranda. Slíkt brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annars vegar sé skýrt kveðið á um að athafnasvæðið á Esjumelum sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi en hins vegar sé að finna vissar heimildir fyrir slíkri starfsemi. Í ljósi framangreinds verði því að túlka aðalskipulagið á þann veg að iðnaðarstarfsemi verði eingöngu heimiluð í algjörum undantekningartilvikum.

Umrætt svæði á Esjumelum sé nálægt sveitarfélagamörkum kæranda og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins. Aðeins sé um einn km milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Starfsemin hafi einnig í för með sé neikvæð sjónræn áhrif auk neikvæðra umhverfis-áhrifa sem gætu skert gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Kærandi telur sig eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kæranda varði hún hagsmuni hans og réttindi umfram aðra. Lagaleg skylda hvíli á borgaryfirvöldum að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir kæranda. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir því að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum.

Esjumelar séu m.a. í nágrenni við íbúðarbyggð og svæði á náttúruminjaskrá sem séu innan sveitarfélagamarka kæranda. Kærandi hafi því augljósra hagsmuna af því að gæta að uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum enda sé fyrirséð að slík landnotkun í næsta nágrenni muni hafa veruleg takmarkandi áhrif á athafnir kæranda og skipulagsáætlanir til frambúðar. Mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði kunni að takmarka möguleika á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt utan við bæjardyr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur að ljóst sé að eftir breytingu á Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júní 2019 og staðfest af Skipulagsstofnun 2. september s.á. og hafi m.a. tekið til atvinnusvæðisins á Esju-melum, sé heimilt að vera með iðnaðarstarfsemi á lóðinni nr. 6-8 við Koparsléttu enda sé starfsemin tilgreind sérstaklega í deiliskipulagi og háð sérstöku mati á umhverfisáhrifum viðkomandi starfsemi. Í þeirri ákvörðun hafi m.a. verið lagt mat á það hvort forsvaranlegt væri að viðkomandi svæði, sem áður hafi verið ætlað að taka við þrifalegri iðnaðarstarfsemi, taki við grófari starfsemi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hvaða marki hann telji að aðalskipulagið samræmist ekki skipulagsáætlunum sveitarfélags kæranda. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sérstakrar lýsingar ekki verið þörf enda hafi allar meginforsendur legið fyrir í aðalskipulaginu. Ekki sé heldur fallist á að verið sé að skilgreina landnotkun rýmra í deiliskipulaginu en aðalskipulagið geri ráð fyrir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deili-skipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmuna-mál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðisskipulags.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kæru-máls þessa hefur kærandi vísað í kæru sinni m.a. til þess að umþrætt svæði sé nálægt sveitarfélagamörkum og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins en aðeins sé um einn km á milli fyrirhugaðrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Þá hafi starfsemin í för með sér neikvæð sjónræn áhrif ásamt neikvæðum umhverfisáhrifum, sem geti m.a. skert gæði útivistar á nærliggjandi svæðum sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Verður að telja að framangreind málsrök lúti fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem ekki teljist til einstaklingsbundinna hagsmuna kæranda. Getur kærandi því hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með hljóðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

21/2020 Sjómannaskólareitur

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. mars 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Nóatúni 3l, Vatnsholti 2, Vatnsholti 4 og Vatnsholti 6 ásamt íbúa, Laugarnestanga 70, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. maí 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 18. febrúar 2020 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, staðgreinireits 1.254.2. Deiliskipulagsvæðið markast af Háteigsvegi til suðurs, Vatnsholti til austurs, Skipholti til norðurs, Nóatúni og lóð Háteigskirkju til suðurs og vesturs. Fól tillagan í sér uppbyggingu á lóð Sjómannaskólans fyrir allt að 150 nýjar hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara, námsmenn og félagsbústaði. Auk þess yrði bætt við byggingarheimildum fyrir Biskupsstofu á lóð Háteigskirkju. Samhliða auglýsingu tillögunnar að deiliskipulagsbreytingu var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem gerir ráð fyrir breyttri landnotkun á Sjómannaskólareit, úr samfélagsþjónustu í opið svæði og íbúðarbyggð fyrir um 150 íbúðir. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar frá 30. ágúst 2019 til og með 11. október s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum.

Að lokinni kynningu breytingartillögunnar var hún tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2020 þar sem fyrir lá umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar 2020, með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum. Var skipulagstillagan ásamt svörunum samþykkt og málinu vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi sínum 13. febrúar 2020 ásamt áðurgreindri tillögu um breytingu á aðalskipulagi. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 19. mars s.á., að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Með bréfi, dags. 16. apríl s.á., tilkynnti stofnunin um staðfestingu hennar á aðalskipulagsbreytingunni. Tók aðalskipulags-breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. apríl 2020, en auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deildinni 27. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu ákvörðun fela í sér verulega skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarétti þeirra og að fyrirhuguð uppbygging muni skerða lífsgæði þeirra með þeim hætti að fari gegn lögvörðum hagsmunum þeirra.

Í kjölfar uppbyggingar á svæðinu megi vænta skuggavarps á eignir kærenda í allt að níu mánuði á ári, m.a. yfir sumartímann. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé ráðgert að reisa á reit Þ32 þriggja til fjögurra hæða hús suðaustan af Nóatúni 31 og þriggja hæða hús suður af Nóatúni. Í ljósi nálægðar húsanna við lóðir kærenda, hæðar þeirra, en ekki síður því að landið halli á þessum stað töluvert til vesturs og norðurs, sé skuggavarp óhjákvæmilegt og megi telja víst að það muni leiða til verulegrar verðrýrnunar þeirra fasteigna sem verði fyrir því.

Af svörum við athugasemdum þeim sem borist hafi við kynningu breytingartillögunnar megi ráða að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar telji sig hafa komið til móts við athugasemdir málsaðila og telji jafnframt að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting sé málefnaleg og lögmæt. Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geri þá kröfu til stjórnvalda að rannsaka mál með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun sé tekin. Viðbragðsleysi Reykjavíkurborgar gagnvart athugasemdum íbúa svæðisins sé til marks um að þeirri rannsóknarreglu hafi ekki verið fullnægt.

Litið hafi verið fram hjá athugasemdum kærenda um skuggavarp og því haldið fram að væntanlegt skuggavarp sé ekki meira en telja megi eðlilegt. Á kynningarfundi vegna deili-skipulagsins 14. maí 2019 hafi fundargestir lýst áhyggjum sínum af skuggavarpi vegna breytinganna. Skipulagsfulltrúi hafi þá fullyrt að skipulagsyfirvöld væru meðvituð um að skuggavarp væri eitt helsta áhyggjuefni íbúa og tekið hefði verið fullt tillit til þess við vinnuna að breytingu deiliskipulagsins. Eðli máls samkvæmt feli skuggavarp, í svo ríkum mæli sem raun beri vitni, í sér allverulega skerðingu á lífsgæðum íbúa og geri það að verkum að þeir geti ekki notið heimilis síns á eðlilegan hátt. Nokkrir félagsmenn kærenda bendi á að útsýni muni skerðast svo verulega að úr íbúðum þeirra muni ekki lengur reynast hægt að njóta útsýnis yfir m.a. Háteigsveg, Hallgrímskirkju og Sjómannaskólann. Fyrirsjáanlegt sé að skuggavarpið muni leiða til mikillar kólnunar fasteignar kærenda og þrengja að því mikilvæga leiksvæði sem börn hafi hingað til haft í garði fasteignarinnar.

Uppi séu áhyggjur af mögulegu tjóni sem kunni að verða við sprengingar fyrir grunnum húsa þegar haft sé í huga að reitur Þ32 sé að miklu leyti klöpp og hart undirlag. Við þetta bætist almennt ónæði á meðan á framkvæmdum standi. Svör við þessum athugasemdum séu á engan hátt fullnægjandi og illmögulegt sé að gera sér grein fyrir því á hverju sú afstaða sé byggð að rask verði með minna móti þótt neðsta hæð kjallara við Háteigskirkju sé að hluta niðurgrafin vegna halla í landi. Fyrirsjáanleg áhrif á umferð verði meiri en af er látið í svörum við athuga-semdum og aukning allnokkur, en margir íbúar svæðisins telji núverandi umferð þegar of þunga.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sé andstæð skipulagslögum nr. 123/2010, stjórnsýslu-lögum og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins auk þess sem hún feli í sér brot gegn réttmætum væntingum kærenda. Af Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 megi glöggt ráða að umdeild deiliskipulagsákvörðun muni leiða til breytinga langt umfram það sem kærendur máttu hafa réttmætar væntingar um. Áréttað sé að undantekningarsjónarmið þau, sem skipulagslögin geri ráð fyrir um breytingu á aðalskipulagi fyrir 12 ára tímamark, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna, geti ekki átt við um hina kærðu ákvörðun. Ekki komi 35. gr. laganna til álita enda hafi lengri tími en 12 mánuðir liðið frá borgarstjórnarkosningum þegar ákvörðun borgarráðs hafi legið fyrir. Orðalagið „að jafnaði“, sbr. niðurlag ákvæðisins, beri í þessu samhengi að túlka á þann hátt að lengri tímafrestur komi aðeins til greina ef sérstakar ástæður eigi við. Ekki hafi verið sýnt fram á að slíkar ástæður séu fyrir hendi. Heimild 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga um breytingu á aðalskipulagi sé vissulega rúm en ákvæðið beri þó að túlka til samræmis við markmið laganna, sbr. 1. gr. og jafnframt til samræmis við önnur ákvæði þeirra. Sé þar fyrst og fremst átt við 28. gr., sbr. einkum 4. mgr. ákvæðisins, og 30. gr. laganna. Að öðrum kosti sé vandséð hvernig sá 12 ára lágmarkstími sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 28. gr. laganna hafi raunverulega þýðingu. Breytingin á bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi hafi verið í andstöðu við skipulagslög. Þótt breytingar á aðalskipulagi séu sem slíkar ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar beri að ljá framangreindum atriðum vægi í máli þessu vegna þess að málsmeðferð aðalskipulagsins og deiliskipulagsins hafi í raun verið samofin frá upphafi. Þessi sjónarmið séu því rakin til þess að varpa skýrara ljósi á þá annmarka sem málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar sé haldin.

Auglýsingin að tillögu að breyttu aðalskipulagi hafi farið fram á sama tíma og auglýsing að  tillögu að breyttu deiliskipulagi. Allt frá upphafi hafi málsmeðferð tillögu að breyttu deiliskipulags eingöngu verið formlegs eðlis og hafi málsaðilar aldrei átt möguleika á því að hafa raunveruleg áhrif. Slík vinnubrögð séu ekki aðeins ámælisverð heldur ólögmæt og í engu samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Málsmeðferðin hafi að þessu leyti verið svo alvarlegum og augljósum annmörkum háð að hin kærða ákvörðun geti ekki talist reist á fullnægjandi grunni.

Verulegur skortur sé á fullnægjandi rannsókn og rökstuðningi Reykjavíkurborgar í mati hennar á rástöfunum til varnar listaverkinu „Saltfiskstöflun“ sem steypt sé upp við Sjómannaskólann. Sé hér einkum vísað til sjónarmiða um rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að brotið hafi verið á stjórnarskrárvörðum eignarétti kærenda, m.a. vegna skuggavarps sem muni hljótast af fyrirhugaðri uppbyggingu. Skuggavarp sé sýnt á uppdráttum kl. 9, 13 og 17 við sumarsólstöður og jafndægur. Skuggavarp við sumarsólstöður sýni að engir skuggar falli á aðliggjandi hús eða lóðir. Þeir skuggar sem falli við jafndægur séu sambærilegir við þá sem nú þegar falla á milli húsa á reitnum. Eitt af þeim atriðum sem hafi verið lagt til grundvallar skipulagstillögunni sé að skuggar myndu ekki hafa neikvæð áhrif á hagnýtingu aðliggjandi lóða, veranda og svala yfir sumartímann. Erfitt sé að þétta byggð án þess að skuggavarp aukist eitthvað en hér séu áhrifin ekki meiri en eðlilegt geti talist og ekki meiri en vegna annarra húsa á reitnum. Eins og sjá megi á skuggavarpsuppdráttum kasti Nóatún 31 löngum skugga yfir á Nóatún 29, sem lengist þegar sól lækki á lofti.

Í tilefni af málsástæðu kærenda um verðrýrnun fasteigna þeirra sé bent á ákvæði 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem fram komi að ef gildistaka skipulags valdi því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á þá sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr borgarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín. Þótt ekki hafi verið komið til móts við allar athugasemdir sem hafi borist við kynningu skipulagstillögunnar, feli það ekki í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Komið hafi verið til móts við ýmsar athugasemdir við meðferð málsins s.s. að fella niður byggingarreit H1 (námsmannaíbúðir) á austursvæði og draga úr byggingarmagni (fótspori bygginga) á hluta vestursvæðis og stækka græn svæði fyrir almenning. Íbúðum fækkaði þannig um 24 frá auglýstri tillögu. Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögum og bent skuli á að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs né í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið tekin á faglegum og málefnalegum sjónarmiðum og byggt hafi verið á fyrirliggjandi gögnum. Íbúar í þéttri borgarbyggð geti ekki haft væntingar til þess að nánasta umhverfi þeirra haldist óbreytt um aldur og ævi. Geti þeir alltaf átt von á því að breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti mögulega snert hagsmuni þeirra með einhverjum hætti, s.s. vegna skugga-varps, útsýnisskerðingar eða umferðaraukningar.

Umferð sem fari eftir Háteigsvegi sé sambærileg mörgum safngötum innan Reykjavíkur. Miðað við nýjustu mælingar sé umferð eftir Háteigsvegi  3.500-4.300 ökutæki á sólarhring. Miðað við áætlaða umferðaraukningu- og dreifingu, verði umferð eftir Háteigsvegi frá 4.100-4.700 ökutæki á sólarhring. Til viðmiðunar þá séu aðrar safngötur sem hafi mælst með sólarhrings umferð á bilinu 4.000-5.000 og því sé ekki fallist á að umferðaraukning verði meiri en eðlilegt geti talist.

Ljóst sé að umrædd breyting á deiliskipulagi sé í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að meðferð tillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og annara laga og reglna, s.s. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði í lóðar-vilyrðum varðandi kaup og sölu eigna geti ekki valdið ógildi deiliskipulagsins og sé því alfarið vísað á bug að um eitthvað sýndarspil borgarinnar hafi verið að ræða eins og haldið sé fram í kæru. Í 36. gr. skipulagslaga sé skýr heimild til breytinga á aðalskipulagi. Þrátt fyrir að kveðið sé á um að aðalskipulag skuli gilda að lágmarki í 12 ár þá sé ekki hægt að sjá fyrir allar þær breytingar sem geti orðið í þjóðfélaginu á þeim tíma. Það sé því ekki annað en raunhæft að gefa sveitarstjórnum heimildir í skipulagslögum til að geta brugðist við breyttum forsendum og ófyrirséðri þróun. Taka megi þó undir að mikilvægt sé að sveitarstjórnir sýni einnig stefnufestu og ráðist ekki í stakar breytingar sem stríði gegn lykilatriðum aðalskipulagsins. Tillagan snúi ekki að breytingu á megin markmiðum skipulagsins heldur sé tilgangur hennar að styðja betur við nokkur lykil markmið í húsnæðismálum um þéttingu byggðar, breyttar ferðavenjur og í loftslagsmálum. Áformuð uppbygging samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni sé í samræmi við meginmarkmið og leiðarljós aðalskipulagsins. Stefna aðalskipulagsins sé óvenju nákvæm þegar komi að ákvæðum um íbúðarbyggð og fjölda íbúðareininga á einstökum reitum. Það skýri að nokkru leyti tíðar breytingar á aðalskipulaginu en undirstriki einnig mikilvægi þess að geta auglýst samhliða deili- og aðalskipulagsbreytingar þegar verið sé að skilgreina og endurmeta byggingarmagn á einstökum reitum.

Allt rask vegna nýrra bygginga verði með minna móti en fallið hafi verið frá gerð kjallara í byggingum E1 og E2. Engir kjallarar verði á svæðinu nema við I3 (Háteigskirkja) en þar sé neðsta hæð að hluta niðurgrafin vegna halla í landi. Ekki verði því mikið um sprengingar. Bætt hafi verið inn á deiliskipulag að ekki sé heimilt að aka yfir og raska grænum svæðum vegna framkvæmda. Framkvæmdaraðilar beri ábyrgð á því tjóni sem þeir kunni að valda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

Tekið sé undir það að mikið rask í nánasta umhverfi geti haft neikvæð áhrif á listaverkið „Saltfiskstöflun“ sé það óvarið og að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja slíkt. Sérfræðingar Listasafns Reykjavíkur séu til ráðgjafar og hafi séð um að verja og eða fjarlægja tímabundið listaverk á framkvæmdasvæðum innan borgarinnar. Þegar til framkvæmda komi verði verkið varið og styrkt eða fjarlægt tímabundið af svæðinu ef framkvæmdir ógni öryggi þess. Breytt aðal- og deiliskipulag geri ráð fyrir því að verkið verði staðsett á sama stað og nú sé og verði áfram glæsilegt kennileiti fyrir hverfið og áminning um þá starfsemi og það fólk sem áður starfaði á svæðinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Sjómannaskólareits, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja 119 nýjar íbúðir. Kærendur eru annars vegar félagsmenn húsfélaga nærliggjandi húsa og hins vegar handhafi höfundar- og sæmdarréttar að verkinu „Saltfiskstöflun“ sem stendur við innkeyrslu að Sjómannaskólanum.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr., en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber ennfremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt deiliskipulagssvæði á  þróunar-svæði merktu Þ32 þar sem gert er ráð fyrir blöndu stofnana, þjónustu og íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara, námsmenn og félagsbústaði með mögulegri aukningu byggingarmagns, einkum á lóð Sjómannaskólans. Með breytingu á aðalskipulaginu sem tók gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 17. apríl 2020, er gert ráð fyrir breyttri landnotkun á lóð Sjómannaskólans og verður hluti hennar íbúðarbyggð og opið svæði. Svæði fyrir íbúðarbyggð er um 1,4 ha en opnu svæðin um 0,7 ha. Svæði samfélagsþjónustu rýrnar að sama skapi og verður um 1 ha. Gert er ráð fyrir byggingu um 150 íbúða í 3-5 hæða húsum. Nefnd aðalskipulagsbreyting var gerð samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu svo sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 41. gr. skipulaglaga en ágreiningur um form og efni aðalskipulagsbreytingarinnar verður ekki borinn undir úrskurðarnefndina, sbr. 52. gr. laganna.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir heimild til byggingar íbúða á þremur nýjum lóðum innan deiliskipulagsvæðisins sem verða til vegna skiptingar lóðar  Sjómannaskólans. Á lóð Háteigskirkju er fyrirhugað að byggja skrifstofubyggingu. Eftir auglýsingu tillögunnar voru breytingar gerðar á uppdrættinum vegna athugasemda íbúa og annarra hagsmunaaðila. Áætluðum fjölda íbúða var breytt og verða þær samtals 119. Samhliða fækkun íbúða fækkar bílastæðum. Í skipulagsbreytingunni er lögð áhersla á lágreista byggð, rýra ekki ásýnd og sjónása frá Háteigsvegi að Sjómannaskólanum og menningarminjar verði verndaðar og betur afmarkaðar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulagsins og ákvæði þess um landnotkun, þéttleika byggðar og hæðir húsa svo sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 37. gr. Skipulagslaga. Þar að leiðir er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Af fyrirliggjandi gögnum um skuggavarp þeirra bygginga sem fyrirhugaðar eru verður ráðið að það verði ekki umfram það sem gerist og gengur á svæðinu enda er hæð bygginganna sambærileg þeirri byggð sem fyrir er á svæðinu og aukin umferð bifreiða á Háteigsvegi vegna uppbyggingarinnar verður ekki talin veruleg. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. febrúar 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareits.

60/2020 Skeifan – Fenin

Með

Árið 2020, mánudaginn 10. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 60/2020 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. júlí 2020.

Málsatvik og rök: Á svæði því sem lóðin Grensásvegur 1 tilheyrir er í gildi deiliskipulag „Skeifan-Fenin“ sem samþykkt var 6. nóvember 2001. Hinn 12. mars 2020 samþykkti borgarráð breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Grensásvegar 1. Í breytingunni fólst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Kærandi í máli þessu hefur kært þá deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 16. júní 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóðinni Grensásvegi 1. Var um að ræða fyrstu af fjórum fyrirhuguðum nýbyggingum á lóðinni. Var umsóknin samþykkt og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi bendir á að hann eigi og reki fasteignir í Skeifunni og eigi hann ríka hagsmuni tengda þeim breytingum sem gerðar séu á heimildum til uppbyggingar á lóðinni Grensásvegi 1 með hinum kærðu ákvörðunum. Sé með þeim horfið frá áformum um byggingu hótels á lóðinni og þess í stað heimilað að reisa þar 204 íbúðir. Slík breyting muni hafa veruleg áhrif á næsta nágrenni, m. a. vegna aukinnar bílaumferðar og bílastæðanotkunar á svæðinu. Þá sé með breytingunum horfið frá þeirri stefnu sem mörkuð hafi verið í rammaskipulagi svæðisins frá 2017 þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir íbúðum á umræddri lóð. Með því sé raskað grundvelli þeirrar skiptingar á möguleikum til uppbyggingar sem settur hafi verið í rammaskipulag og varði hagsmuni kæranda og annarra lóðarhafa á svæðinu. Krafa um stöðvun framkvæmda sé á því byggð að verulegur líkur séu á því að skipulagsákvörðun sú sem hið kærða byggingarleyfi hvíli á verði felld úr gildi. Beri því nauðsyn til að afstýra því að reist verði mannvirki í skjóli hins kærða leyfis sem kostnaðarsamt yrði að fjarlægja enda sé hætta á því að tilvist slíkra mannvirkja geti haft áhrif á það hvernig á málum verði haldið í framhaldinu og geti það haft í för með sér verulega röskun á hagsmunum kæranda.

Af hálfu leyfishafa er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi samþykkt að veita leyfi fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á lóðinni sem um ræði og hafi kærandi í engu leitast við að sýna fram á að ekki hafi verið gætt lögmætra og málefnalegra sjónarmiða við þá ákvörðun. Bent sé á að í óbreyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð séu heimildir fyrir þeirri uppbyggingu sem þar sé fyrirhuguð.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis sem heimilar byggingu fimm hæða fjölbýlishúss á lóð nr. 1 við Grensásveg. Kærandi er lóðarhafi lóðanna Skeifunnar 15 og Faxafens 8 sem tilheyra sama deiliskipulagssvæði og lóðin Grensásvegur 1 en lóðir kæranda eru í talsverðri fjarlægð frá lóð leyfishafa. Verður því ekki séð að mögulegir grenndarhagsmunir kæranda knýi á um stöðvun umdeildra framkvæmda. Hvað sem líður gildi umdeildrar deiliskipulagsbreytingar ætti heimilað byggingarmagn samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi stoð í eldra deiliskipulagi.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

43/2020 Garðavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 10. júlí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. júní 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2020, er barst nefndinni 29. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. júní 2020 um álagningu dagsekta á kæranda. Í kæru er þess krafist að „krafa Hafnarfjarðarbæjar um niðurrif neyðarstiga við Garðaveg 18 verði felld úr gildi“. Með hliðsjón af framangreindu verður kæran skilin á þann hátt að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 2. júlí 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar og er forsögu þess lýst í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019. Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ þar sem farið var fram á að umdeildur stigi utan við vesturhlið húss kæranda yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda hafði áður verið synjað svo sem rakið er í áðurnefndum úrskurði. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við nefndu bréfi bæjarins, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Kærandi kærði ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með nefndum úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður , eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur eða til og með 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt, en dagsetning þeirra var tiltekinn 30. apríl s.á. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Send hafa verið bréf til eiganda þess efnis og ekki hefur verið brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56.gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir verða lagðar á frá og með 10. júli 2020.“  Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. júlí 2020. Er þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sú ákvörðun sem kærð er.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur meðal annars fram að komi til eldsvoða sé óforsvaranlegt að hafa ekki örugga og augljósa útgönguleið frá risi hússins sem sé klætt að innan með panel. Það sé vandséður annar tilgangur með ráðstjórn þessari en að valda íbúum og eiganda áhyggjum og tjóni.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að kærandi hafi reist ósamþykktan stiga á hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum liggi skýrt fyrir að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Niðurstaða: Byggingarfulltrúa er heimilt samkvæmt 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum, eða láta af ólögmætu atferli. Hin kærða ákvörðun felur í sér að lagðar eru á kæranda dagsektir til að knýja hann til athafna samkvæmt greindu ákvæði, en um íþyngjandi þvingunarúrræði er að ræða. Í málinu liggur fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi er getið til um fjárhæð þeirra. Úrskurðarnefndin hefur leitað til byggingarfulltrúa eftir skýringum og fengið þær upplýsingar það megi vera að farist hafi fyrir að bóka um fjárhæðina, en að dagsektir séu 20.000 kr. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti, að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr, svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Á þetta sér í lagi við um íþyngjandi ákvörðun, svo sem þá sem hér um ræðir. Án þess að fyrir liggi ákvörðun um tiltekna fjárhæð dagsekta sem kæranda er kynnt hefur hann ekki möguleika á að meta stöðu sína, enda geta sektirnar að lögum verið ýmist hverfandi eða allt að 500.000 kr. á dag. Er því ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér sem hér er kærð verða dagsektir ekki lagðar á kæranda. Þar sem svo verður ekki gert liggur ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

13/2020 Bústaðavegur

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 7. febrúar 2020  um að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hússins við Birkihlíð 36, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 29. janúar 2020 að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar. Gera kærendur aðallega þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, hljóðmön verði færð til fyrra horfs, en hækkuð umtalsvert, auk þess að bættur verði með gróðursetningu sá gróður sem hafi verið skemmdur eða fjarlægður. Til vara gera kærendur þá kröfu að rými fyrir afrein verði skapað með því að hliðra stofnæðinni til norðurs og hljóðvarnir endurbættar í heild sinni frá Suðurhlíð að Kringlumýrarbraut. Til þrautavara fara kærendur fram á að ráðist verði í nánar tilgreindar mótvægisaðgerðir auk annarra þeirra aðgerða sem eðlilegar kunni að þykja miðað við umferðarálag á þessum stað og nálægð við byggð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 16. ágúst 2019 var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi samþykkt. Í leyfinu var heimiluð gerð afreinar, u.þ.b. 200 m á lengd og 3,5 m breið, á Bústaðavegi í akstursstefnu til austurs og breikkun fráreinar til suðurs á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á hana frá norðurakbraut Bústaðavegar og uppsetning nýrra umferðarljósa. Samkvæmt uppdráttum verða hljóðmanir, sem fyrir eru á svæðinu á u.þ.b. 60 m kafla, færðar til og hækkaðar lítillega. Framkvæmdaleyfið var gefið út 22. s.m.. Framangreint framkvæmdaleyfi var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi leyfið úr gildi með úrskurði 22. október 2019 í máli nr. 101/2019, þar sem láðst hafði að grenndarkynna hinar umdeildu framkvæmdir.

Í kjölfar úrskurðarins var gerð hljóðvistarskýrsla fyrir svæðið, dags. 24. október 2019, og hljóðkort eftir breytingar, dags. 25. s.m. Samkvæmt ákvörðun skipulagsfulltrúa var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi grenndarkynnt frá 4. nóvember 2019 til og með 2. desember s.á. og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Kynningarfundur um framkvæmdina var haldinn með íbúum 27. nóvember 2019 og gerð var skýrsla um umferðarhermun og greiningu, dags. 30. s.m. Skipulagsfulltrúi veitti umsögn um málið 10. janúar 2020. Skipulags- og samgönguráð samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa 29. s.m., en í henni var farið yfir athuga­semdir sem borist höfðu við grenndarkynningu og þeim svarað. Skipulagsfulltrúi samþykkti að gefa út framkvæmdaleyfi 7. febrúar 2020 og var leyfið gefið út 10. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 101/2019 um lögvarða hagsmuni. Verði framkvæmdin leyfð verði einn umferðarþyngsti stofnvegur höfuðborgarsvæðisins breikkaður verulega og færður fjórum metrum nær húsi kærenda, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umhverfisþætti og líklegum verulegum neikvæðum áhrifum á verðmæti fasteignarinnar.

Aðrir möguleikar, sem ekki væru jafn íþyngjandi fyrir hagsmuni íbúa, hafi ekki verið skoðaðir. Umhverfisþættir málsins hafi heldur ekki verið metnir eða skoðaðir á fullnægjandi hátt eða að öðru leyti hlustað eða tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafi komið í tengslum við grenndarkynningu málsins. Markmið framkvæmdarinnar hafi verið að finna sem ódýrastan kost við að auka umferðar­rýmd og -flæði án þess að líta til lögvarinna hagsmuna fasteignaeigenda. Ekki hafi verið athugað með aðra möguleika á legu stofnvegarins sem væru minna íþyngjandi gagnvart hagsmunum íbúa. Gagnaöflun, greiningar og rökstuðningur á umhverfisþáttum sem varði nálægð við stofnæðina og áhættuna af færslu hennar nær íbúðabyggð virðist ófull­nægjandi í veigamiklum atriðum. Ekki hafi verið hugað að mögulegum mótvægisaðgerðum og skilyrðum fyrir framkvæmdinni í ljósi þess hversu íþyngjandi og umfangsmikla breytingu sé um að ræða. Þá sé málsmeðferðin gölluð vegna vanhæfis, þar sem sömu aðilar og áður hafi verið uppvísir af því að fara ekki að skipulagslögum, hafi síðar stýrt grenndarkynningu, úrvinnslu framkominna athugasemda og hafi að lokum aftur veitt framkvæmdaleyfi fyrir óbreyttri framkvæmd þar sem ekkert marktækt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða íbúa. Í bókunum kjörinna fulltrúa, þ.m.t. meirihluta, virðist ekki vafi í þeirra huga að framkvæmdin hafi íþyngjandi áhrif á hagsmuni íbúa og vísað sé til þess að nóg sé komið, en framkvæmdaleyfi hafi samt sem áður verið veitt.

Kantsteinum hafi ekki verið viðhaldið þannig að jarðvegur af umferðareyju og meðfram stofnveginum fari inn á götuna og bætist við malbik og ryk sem þar verði til. Engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að hreinsa og rykbinda Bústaðaveg á þessu svæði eða á annan hátt reynt að draga úr neikvæðum áhrifum aukinnar umferðar.

Í rökstuðningi fulltrúa Reykjavíkurborgar sé ítrekað vísað til þess að hljóðvist batni jafnvel lítillega við framkvæmdina. Af málatilbúnaðinum megi glögglega sjá að ef að hljóðvistin breytist þá hafi það ekkert með framkvæmdina að gera heldur því að viðhaldi, sem ætti að vera eðlilegur þáttur í rekstri vegarins, væri þá loks sinnt og hljóðmönin hækkuð í upphaflega hæð. Í greinargerð tilgreindrar verkfræðistofu, dags. 17. janúar 2020, komi fram að Evrópureglur geri ráð fyrir að hljóðvist sé mæld í fjögurra metra hæð við húsvegg. Kærendur hafi bent á í umsögn við grenndarkynningu að hljóðútreikningar í tveggja metra hæð séu marklausir sé það raunverulegur vilji að meta áhrif hljóðmengunar á íbúðabyggð á svæðinu. Öll hús sunnan Bústaðavegs séu á tveimur til þremur hæðum. Því sé mótmælt að miðað sé við lægsta mögulega samnefnara. Þá sé því mótmælt að miðað sé við reiknaða hljóðvist en ekki mælda og að grunnforsenda útreikninganna miðist einungis við jarðhæðir eignanna. Það sé viðurkennt og komi fram í gögnum málsins að hljóðmönin verndi aðeins neðri hæðir húsanna en fulltrúar Reykjavíkurborgar skýli sér að baki ákvæðum í reglugerð um hljóðvist í tveggja metra hæð í stað þess að setja eðlilegri og nútímalegri viðmið sem raunverulega taki til þeirra hagsmuna sem um ræði. Mikilvægt sé að úr því verði skorið hvort vegi þyngra, efni máls að þessu leyti og Evrópuréttur eða skjólið sem sótt sé í augljóslega úrelta reglugerð.

Ámælisvert sé að heimila framkvæmdina en vísa á sama tíma til þess að íbúar geti óskað eftir aðstoð heilbrigðiseftirlitsins til hljóðmælinga eftir að framkvæmdinni ljúki. Kærendur velti fyrir sér hvort það sé eðlilegt að framkvæma fyrst og mæla svo. Þá sé óeðlilegt að leggja ábyrgð á íbúa fremur en á þá sem hafa skipulags- og framkvæmdavald á hendi sér.

Það sé ekki boðlegt að engin tilraun hafi verið gerð til að meta rykmengun frá Bústaðavegi á þessu svæði, án tillits til þess hvort stofnæðin sé breikkuð eða ekki. Það sé síðan vítavert að leggja til breikkun án þess að reyna að meta þennan umhverfisþátt. Í andsvörum við ábendingum um þetta efni sé einungis vísað til þess að erfitt sé að meta þennan þátt. Í þessu sambandi vilji kærendur benda á bókun í skipulags- og samgönguráði, dags. 15. janúar 2020. Svarið við fyrirspurninni gefi til kynna að stjórnendur Reykjavíkurborgar hafi vanrækt að kynna sér og hafa stefnu í mótvægisaðgerðum við rykmengun á umferðarþungum vegum í borginni. Ef stefnan væri skýr og mótvægisaðgerðir og viðmið um þrif og rykbindingu til staðar hefði ekki þurft að vísa málinu til frekari skoðunar. Svifryksmengun hafi ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk á mælistöðum í borginni undanfarin ár og ógni heilsu fólks. Þetta sé sérstaklega dregið fram þar sem hús kærenda sé nú í 28 metra fjarlægð frá stofnæð sem vanrækt sé að hreinsa og rykbinda og einungis í 24 metra fjarlægð verði stofnæðin breikkuð. Auk þess hafi gróður sem áður hafi tekið við hluta af rykinu nú verið felldur.

Í umsögn skipulags- og umhverfissviðs frá 10. janúar 2020 komi fram: „Ef ofangreind framkvæmd veldur því að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón farið fram á að fá bætur skv. 51. gr. skipulagslaga með þeim skilyrðum sem taldar eru upp í þeirri grein.“ Þegar öll fylgigögn málsins séu skoðuð virðist sem fulltrúar borgarinnar átti sig á að hagsmunir íbúa séu fyrir borð bornir. Samt sem áður sé haldið áfram og framkomnum athugasemdum svarað með leið­beiningum um hvernig íbúar geti mögulega sótt rétt sinn með ósk til heilbrigðiseftirlitsins um hávaðamælingar, með ósk til borgarinnar um gróðursetningu og með atbeina dómstóla. Eðlilegra sé að þeim sem veiti framkvæmdaleyfi beri að sýna fram á að farið sé fram af varfærni og nærgætni, fremur en að það sé íbúa að sanna vankanta á framkvæmdinni og tjón. Allt málið sé keyrt áfram á forsendum umferðarflæðis og hvergi í greiningu á breikkunarkostum sé horft til umhverfisþátta og íbúðabyggðar.

—–

Kærendur vísa jafnframt til umsagnar sinnar sem gerð var í tilefni grenndarkynningar hins kærða framkvæmdaleyfis. Ekki er tilefni til að rekja þær athugasemdir sem fram koma þar nánar en þær hafa verið hafðar í huga við gerð úrskurðarins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að endurbætur séu gerðar á götum og vegum til að bæta umferð og öryggi almennings. Með umræddri framkvæmd sé verið að auka umferðarrýmd og flæði fyrir almenning. Í því felist minni umferðartafir sem varði hagsmuni íbúa á svæðinu, sem og allra vegfarenda þar sem hægagangur og hraðabreytingar bifreiða auki útblástur og lengi ferðatíma.

Framkvæmdasvæði takmarkist af brú við Kringlumýrarbraut, undirgöngum undir rampa og undirgöngum við Veðurstofu vestan svæðisins. Ef hliðra ætti Bústaðavegi væri það umtalsvert stærri framkvæmd sem þó myndi ekki skila mikið betri niðurstöðum varðandi mengun eða hávaða. Slík framkvæmd sé að auki ekki í samgönguáætlun.

Ekki sé reiknað með aukningu umferðar á svæðinu. Flæði umferðar hafi verið greint og það ætti að verða jafnara með minni umferðartöfum og þar af leiðandi ætti mengun jafnvel að minnka. Niðurstöður úr umferðarhermun varðandi svifryk og loftmengun bendi til þessa og framkvæmdin og tengdar framkvæmdir á Bústaðavegi muni minnka heildartafir umferðar á Bústaðavegi um 47%, flæði umferðar muni verða betra og því megi reikna með að útblástur frá ökutækjum muni minnka. Loftmengun sé erfitt að mæla þar sem margt spili inn í samanburð mælinga, t.d. veðurfar, nagladekk o.fl., þannig að útreikningar á umferðartöfum og umferðar­flæði gefa bestu vísbendingu um breytt áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði.

Varðandi mótvægisaðgerðir þá verði mön hækkuð þar sem þurfi til að ná 2 m hæð. Þannig haldist hljóðstig óbreytt eða betra í þeim húsum, bæði á 1. og 2. hæð, sem útsett séu fyrir hávaða frá Bústaðavegi. Framkvæmdaleyfisumsókninni hafi fylgt teikningar frá verkfræðistofu, dags. 10. júlí 2019, unnar fyrir Vegagerðina, sem sýnt hafi þversnið götunnar eins og það breyttist með framkvæmd. Í þeim gögnum hafi landhæð hljóðmana alls staðar hækkað lítillega, eða a.m.k. ekki lækkað, og með það í huga að umferðarmagn götunnar myndi ekki aukast þá hafi ekki verið talin ástæða til að óttast aukið hljóðstig götunnar umfram núverandi hljóðstig. Í minnisblaði verkfræðistofunnar, dags. 19. desember 2019, komi fram í útreikningum á hljóð­stigi að hæsta hljóðstig m.v. gefnar forsendur séu tæplega 52 dB, sem sé um 3 dB lægra en gerð sé krafa um í reglugerð um hávaða. Því þurfi ekki að auka hljóðvarnir á svæðinu. Samkvæmt uppdráttum verði manir hækkaðar lítillega og séu hvergi lægri en þær hafi verið. Þessi aðgerð ein og sér eigi að skila því að hljóðvist verði ekki verri, heldur betri ef eitthvað sé þrátt fyrir að umferð færist einni akrein nær. Mönin verði brattari fyrir vikið og því nær sem umferðin sé möninni því meira taki hún af hljóðinu sem ella myndi berast yfir hana. Ekki sé heldur verið að auka umferð við götuna þótt fráreinin breikki.

Því sé enn fremur hafnað að þeir aðilar sem hafi komið að ákvarðanatöku hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins, enda sú krafa kærenda bæði óskýr og órökstudd með öllu og ekki ljóst við hvaða aðila málsins nákvæmlega sé átt við. Hafi kærendur ekki sýnt fram á með hvaða hætti vanhæfisreglur stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga hafi verið brotnar í málinu. Verði ekki heldur séð að þeir kjörnu fulltrúar sem komið hafi að ákvörðunartöku í málinu hafi átt neinna hagsmuna að gæta af ákvarðanatökunni.

Kröfur kærenda verði ekki skildar öðruvísi en svo að kærendur fari fram á að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu kærða eða leyfishafa til tiltekinna aðgerða í úrskurði. Úrskurðarnefndin sé ekki bær til að kveða á um slíkar aðgerðir og beri því að vísa þeim kröfum frá nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu Vegagerðarinnar er vísað til og tekið undir greinargerð Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða: Í samræmi við heimild 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hefur borgarstjórn framselt vald sitt til að veita framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. laganna og falið skipulagsfulltrúa að afgreiða mál sem varða meðferð og útgáfu framkvæmdaleyfa, sbr. b-lið 2. gr. viðauka 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 59. gr. samþykktarinnar. Verður því að líta svo á sem hin kærða ákvörðun sé ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 7. febrúar 2020 um að samþykkja framkvæmdaleyfi. Í máli þessu er gerð krafa um að leyfið verði felld úr gildi. Auk þeirrar kröfu krefjast kærendur þess að hljóðmön verði hækkuð, ráðist verði í gróðursetningu, Bústaðavegiverði hliðrað til norðurs, hljóðvarnir verði endurbættar í heild sinni frá Suðurhlíð að Kringlumýrarbraut og að ráðist verði í tilteknar mótvægisaðgerðir. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun eða að skylda sveitar­félög til tiltekinna aðgerða, líkt og kærendur hafa krafist. Verður samkvæmt framansögðu aðeins tekin afstaða til þess hvort að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga nema öðruvísi sé ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Ljóst er að hvorki sérreglur 20. gr. sveitarstjórnarlaga né 1.-5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga eiga við í máli þessu. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er starfsmaður eða nefndarmaður vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í stjórnsýslurétti er meginreglan sú að starfsmaður verður ekki vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að hann hafi áður tekið stjórnvaldsákvörðun í málinu, sem síðar hefur verið felld úr gildi af æðra stjórnvaldi. Eitthvað annað og meira þarf að koma til, svo sem sérstök óvild í garð málsaðila. Ekkert hefur komið fram í máli þessu um að slík staða sé uppi. Verður því ekki fallist á að skipulagsfulltrúi eða aðrir sem komu að undirbúningi fyrra framkvæmdaleyfis sem fellt var úr gildi í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 101/2019 hafi verið vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu þess leyfis sem nú er kært.

Kærendur hafa bent á að í bókunum kjörinna fulltrúa sé vísað til þess að nóg sé komið af framkvæmdum sem þessum en framkvæmdaleyfi hafi engu að síður verið veitt. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga eiga þeir sem hafa rétt til að taka þátt í umræðum í sveitarstjórn rétt til að fá bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru. Sama regla á við um fundi nefnda sveitarfélags skv. lokamálslið 46. gr. laganna. Ljóst er að þótt um ýmis málefni sveitarfélaga geti verið skiptar skoðanir meðal þeirra sem að þeim koma þá ræður afl atkvæða úrslitum mála skv. 2. mgr. 17. gr., sbr. 46. gr. sveitarstjórnarlaga, og var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi samþykkt á þeim fundi sem kærendur vísa til. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu hvað bókað var í aðdraganda þeirrar samþykktar. Þá var afgreiðsla skipulags- og samgönguráðs þáttur í undirbúningi endanlegrar ákvörðunar skipulags­fulltrúa um veitingu leyfisins.

Við veitingu framkvæmdaleyfis er leyfisveitandi bundinn af meðalhófsreglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmæltu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þá er leyfisveitandi bundinn af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum reglum, sem og málsmeðferðarreglum skipulags­laga og reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, hefur leyfisveitandi svigrúm til að meta hvað heimilað verður með framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga skal í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er fjallað um samgöngumannvirki á fjölmörgum stöðum, oft og tíðum með mótsagnakenndum hætti. Þannig segir t.a.m. í kaflanum Umhverfis- og auðlindastefna að ein af helstu áherslum málaflokksins Skipulag sé að „[d]regið verði úr umfangi samgöngu­mannvirkja og helgunarsvæða þeirra.“ Þá segir í kaflanum Vistvænni samgöngur að „[h]orfið [sé] frá hefðbundnum viðhorfum um að skilvirkni bílsamgangna verði fyrst og fremst bætt með aukinni umferðarrýmd í gatnakerfinu.“ Í sama kafla segir hins vegar einnig að „[m]arkmiðið [sé] að stuðla að eins skilvirkum og öruggum samgöngum og kostur [sé] án umfangsmikilla gatnaframkvæmda.“ Sambærileg ummæli og þau sem vísað er til í kaflanum Vistvænni samgöngur er að finna í kaflanum Aðalgatnakerfi. Segir enn fremur í kaflanum Vistvænni samgöngur að „[v]ið almenna ákvarðanatöku, hönnun samgöngumannvirkja, gerð fram­kvæmda­áætlana og hverfis- og deiliskipulags verði þessi stefnumið höfð að leiðarljósi: […] Beitt verði fjölbreyttum lausnum við stýringu samgöngukerfa og umferðarálags til að greiða úr umferðartöfum og nýta til fullnustu afkastagetu núverandi mannvirkja.“ Þá kemur fram í kaflanum Aðalgatnakerfi: „Fjölbreyttum lausnum verði beitt til bæta [sic] umferðarflæði í aðalgatnakerfinu (miðlun rauntímaupplýsinga um umferðarástand og bílastæði, ljósastýring, beygjubönn, nýjar beygjureinar, markviss bílastæðastefna o.s.frv. – e. transportation system management.“

Athugun á þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar hins kærða framkvæmdaleyfis sýnir að framkvæmdirnar stefna fremur að því markmiði að bæta umferðarflæði, m.a. með ljósastýringu og nýjum beygjureinum, en að draga úr umfangi samgöngumannvirkja. Er sérstaklega vikið að því í aðalskipulagi að ljósastýringu og nýjum beygjureinum verði beitt til að bæta umferðarflæði í aðalgatnakerfinu. Þegar litið er til framangreinds og þess að nefnd markmið aðalskipulags eru almennt orðuð verður að veita leyfisveitanda nokkuð svigrúm til að ákveða hvaða markmiðum skuli stefnt að hverju sinni. Verður því að telja að leyfisveitandi hafi stefnt að lögmætu mark­miði við útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Við undirbúning framkvæmdaleyfisins var unnin ítarleg umferðarhermun og greining. Niður­staða greiningarinnar var að sú leið sem hentugast væri að fara til að ná markmiðinu um bætt umferðarflæði, með hliðsjón af kostnaði, væri að gera miðlungslanga aukaakrein frá Bústaða­vegi með frárein niður á Kringlumýrarbraut með ljósastýringu. Er það í samræmi við þá fram­kvæmd sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 getur leyfisveitandi bundið framkvæmdaleyfi skilyrðum, m.a. um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir. Í 5. mgr. sömu greinar kemur fram að í skilyrðum er varði vöktun fram­kvæmda þurfi að gera grein fyrir framfylgd vöktunarinnar sem og öðrum mótvægis­aðgerðum eins og umgengni á framkvæmdatíma. Hið kærða framkvæmdaleyfi er m.a. háð þeim skilyrðum að gæta skuli varúðar við framkvæmdina og virða allar reglur og leiðbeiningar um vinnu­tíma, merkingar, hávaða og rask við svæðið þannig að framkvæmdin valdi sem minnstu raski. Ekki sé heimilt að safna upp stórum haugum af efni til losunar, þannig að það geti valdið jarðvegsfoki eða annarri truflun fyrir lóðarhafa og notendur á svæðinu. Jafnframt sé farið fram á að gengið verði snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum, sem og ef framkvæmdir stöðvist í langan tíma. Þá skuli Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, hafa  samráð við íbúa og skrifstofu samgöngu­deildar á umhverfis- og skipulagssviði varðandi hljóðmælingar sem lagt sé til að verði gerðar á staðnum eftir lok framkvæmdar, auk þess að aðstoða íbúa við að gróðursetja í hljóðmanirnar, hjá þeim aðilum sem þess óski og þá í samvinnu við skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði. Samkvæmt framansögðu hefur leyfisveitandi reynt eins og kostur er að takmarka íþyngjandi áhrif hins kærða framkvæmdaleyfis, með hliðsjón af því markmiði sem stefnt var að með veitingu þess. Skilyrði leyfisins bera einnig með sér að tekið var mið af athugasemdum sem fram komu við grenndarkynningu þess. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða kemur fram að í viðauka, töflum I-III, séu tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir,  LAeq, 55 dB. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um að við hönnun samgöngumannvirkja skuli miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í töflum I og II í viðauka reglugerðarinnar. Við breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir sé, sem leitt geti til aukins hávaða, skuli grípa til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að hljóðstig hækki. Í 3. mgr. viðauka nefndrar reglugerðar kemur fram að mörk utan við húsvegg gildi fyrir utan opnanlegan glugga. Viðmiðunarhæð þar sem annað sé ekki tekið fram sé 2 m. Í töflu I segir að mörk vegna umferðar ökutækja við íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum, LAeq24, séu 55 dB(A). Samkvæmt samanburði á reiknuðum umferðarhávaða fyrir og eftir framkvæmdir var hljóðstig við 32 mismunandi íbúðarhús við framkvæmdasvæðið á bilinu 42,8–52,4 dB(A) fyrir framkvæmdir en 42,6–52,4 dB(A) eftir framkvæmdir. Útreikningar þessir voru gerðir í sam­ræmi við kröfur reglugerðar um hávaða. Samkvæmt útreikningunum munu fram­kvæmdirnar ásamt mótvægisaðgerðum fremur leiða til þess að hljóðvist verði óbreytt eða batni. Þá er eðli máls samkvæmt ekki mögulegt að mæla mun á umferðarhávaða fyrir og eftir framkvæmdir fyrr en að þeim afstöðnum. Verður því að telja að með útreikningum á umferðarhávaða hafi málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Loks er hvorki í reglugerð um framkvæmdaleyfi né öðrum lögum og reglum gerð krafa um að svifryk sé mælt fyrir og eftir framkvæmdir. Þó skal bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 920/2016 um brennisteins­díoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í and­rúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings skal Umhverfis­stofnun sjá um að mælistöðvar sem veiti nauðsynlegar upplýsingar séu settar upp svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar og skal stofnunin jafnframt sjá um framkvæmd vöktunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hið kærða framkvæmdarleyfi ekki háð form- eða efnisannmörkum og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til aukins hávaða eða loftmengunar geta kærendur snúið sér til heilbrigðiseftirlits til að það verði mælt og krafist úrbóta, t.a.m. í samræmi við reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði eða reglugerð nr. 724/2008. Auk framangreinds geta kærendur eftir atvikum farið fram á bætur í samræmi við 51. gr. skipulagslaga.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 7. febrúar 2020 um að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar.

24/2020 Brekkustígur

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. mars 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kæra tilgreindir íbúar að Brekkustíg 6A og Brekkustíg 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess. Eftir breytingarnar verða þrjár íbúðir í húsinu. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að aðalinngangi hússins verði breytt þannig að hann verði ekki á bakhlið þess í sameiginlegum bakgarði íbúa við Brekkustíg, Framnesveg og Öldugötu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. apríl 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 9. apríl 2019 var tekin fyrir umsókn, dags. 29. mars s.á., um leyfi til að byggja hæð og ris auk svala og útistiga á bakhlið einbýlishúss á lóð nr. 6B við Brekkustíg. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað á fundi sínum 12. apríl 2019 að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Var svo gert og bárust athugasemdir á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 3. júlí 2019 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 25. júní s.á., þar sem athugasemdum var svarað. Á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 12. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í efnislegum athugasemdum íbúa vorið 2019 hafi verið lögð rík áhersla á að með því að gera ráð fyrir aðalinngangi hússins á bakhlið þess félli það ekki að anda hverfisins og bakgarðaskipulagi. Einnig hafi verið bent á að umfangsmikill stigi utan á bakhlið hússins gæti valdið miklu ónæði fyrir nágranna og byrgt útsýni úr gluggum á neðri hæðum hússins að Brekkustíg 8. Í þeirri tillögu að nýbyggingu sem hafi verið samþykkt hafi ekkert tillit verið tekið til athugasemda kærenda við grenndarkynningu umsóknarinnar.

Í samþykktri teikningu að nýbyggingu hafi alls ekki tekist að leysa á ásættanlegan hátt þau vandamál sem umræddur stigi í bakgarðinum hafi í för með sér vegna nálægðar við aðliggjandi hús. Bakgarðar liggi saman frá húsum sem standi við Öldugötu, Brekkustíg og Framnesveg. Aðalinngangur hússins sé því alls ekki í takti við rótgróið umhverfi. Ástæða sé til að vekja athygli á því að í engu húsanna í nágrenni við Brekkustíg 6B sé aðalinngangur frá garðinum. Það sé mikilvægt að hafa í huga þar sem svefnherbergi í íbúðunum í næsta nágrenni við Brekkustíg 6B snúi að garðinum. Megi fastlega gera ráð fyrir margvíslegu ónæði vegna eðlilegs umgangs um aðalinngang hússins á öllum tímum sólarhringsins. Sé ljóst að þessi aðalinngangur hússins muni hafa í för með sér margvísleg vandræði fyrir nágranna og líklega fela í sér rýrnun á markaðsverði íbúðanna. Þetta eigi sérstaklega við um Brekkustíg 8 bæði vegna þess ónæðis sem nálægðin skapi auk þess sem stigagangurinn skyggi á glugga og takmarki þannig útsýni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að breidd stigans á uppdráttum sem sendir hefðu verið í grenndarkynningu hafi verið 2,8 m, þ.e. 1,2 m + 1,2 m með 0,4 m milli trappa. Breidd trappanna, þ.e. 1,2 m, sé mæld milli handriða/handlista. Í endanlegri útfærslu hafi stiginn mjókkað í heild úr 2,8 m í 2,7 m. Þyki ljóst að vart sé hægt að komast af með minni stiga. Enn fremur sé útfærslan bæði létt og gagnsæ til að létta ásýndina, en handrið séu úr gleri. Þrepin séu steinsteypt þannig að hávaði sé sem minnstur og þ.a.l. tiltölulega lítið ónæði af notkun stigans. Samþykktir uppdrættir taki ágætlega mið af nærliggjandi byggð, en samskonar hús standi við Brekkustíg 4A. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að ónæði af notkun stigans verði meira en gangi og gerist í þéttri miðborgarbyggð, en bent sé á að fasteignaeigendur geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í næsta nágrenni sem kunni að hafa einhver áhrif á hagsmuni þeirra.

Hvað varði varakröfu kærenda, þá verði hún ekki skilin öðruvísi en svo að kærendur séu að fara fram á að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu til tiltekinna aðgerða með úrskurði. Slíkt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að kveða á um og beri því að vísa varakröfunni frá nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir meðal annars á að umgangur um bakinnganga sé almenn við Brekkustíg og fylgi því skipulagi sem hafi verið frá upphafi. Staðreyndin sé sú að nærliggjandi hús sem liggi að Brekkustíg hafi innganga frá lóðum baka til og því sé reynt að villa um með röngum fullyrðingum. Samkvæmt samþykktri teikningu snúi meirihluti svefn­herbergja Brekkustígs nr. 8 út að Öldugötu og Brekkustíg, en ekki inn í bakgarðinn. Mála­tilbúningur kærenda um ónæði, byggi að mestu á tilfinningum og fullyrðingum sem slegið sé fram svo sem um að væntanlegur svefntími þess fólks sem muni búa að Brekkustíg 6B verði óeðlilegur og með öðrum hætti en almennt gerist meðal annarra íbúa í Reykjavík.

Byggingaráformin við Brekkustíg 6B séu hófleg og í samræmi við stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar. Áformin falli vel að götumynd Brekkustígs.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 9. júlí 2020.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir hæð og risi ásamt nýjum svölum og útistiga á bakhlið hússins á lóð nr. 6B við Brekkustíg. Eftir breytingarnar verða þrjár íbúðir í húsinu. Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til lóðarinnar Brekkustígs 6B.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að aðalinngangi hússins að Brekkustíg 6B verði breytt þannig að hann verði ekki á bakhlið þess frá sameiginlegum bakgarði íbúa við Brekkustíg, Framnesveg og Öldugötu.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfis­umsóknina í kjölfar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 12. mars 2020.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 tilheyrir lóðin að Brekkustíg 6B fastmótaðri byggð, á svæði merktu ÍB-1, Gamli Vesturbærinn. Um svæðið segir að þar sé gróið íbúðahverfi sem hafi verið fullbyggt að mestu fyrir 1950. Byggðin sé heilsteypt sem njóti verndar að hluta vegna byggðamynsturs. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Er fyrirhuguð uppbygging á lóðinni í samræmi við þau almennu markmið aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgar­byggð. Í ljósi þessa verður ekki annað séð en að umrætt leyfi sé í samræmi við aðalskipulag, markmið þess og landnotkun.

Birt stærð hússins á lóðinni Brekkustíg 6B er 49,7 m² og brúttóflatarmál þess er 109,2 m²   samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Á samþykktum aðaluppdráttum er gert ráð fyrir að brúttóflatarmál byggingarinnar verði 245,2 m². Um töluverða stækkun er að ræða og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir stækkun 1,66. Á svæðinu ríkir nokkuð ósamræmi hvað varðar nýtingarhlutfall einstakra lóða. Þannig má nefna til samanburðar að nýtingarhlutfall lóðarinnar Brekkustígs 8 er 3,32 og Brekkustígs 6 er 1,26. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar Brekkustígs 4A um 1,5 og Brekkustígs 6A er 1,19. Er því ekki hægt að líta svo á að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki samræmi við þéttleika byggðar, sé litið til nýtingarhlutfalls nágrannalóða. Til þess er að líta að á upphaflegum teikningum fyrir húsnæðið að Brekkustíg 6B frá 1926 var þá þegar gert ráð fyrir aðalinngangi í húsið baka til. Þá er innganga að finna á bakhlið nærliggjandi húsa við Brekkustíg. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum breytingum á húsnæði Brekkustígs 6B.

Samkvæmt framangreindu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð byggingarleyfis-umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt, enda er hin leyfða byggingarframkvæmd í sam­ræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu um­sókn. Þá var málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og viðauka 1.1. og 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Kærendur halda því fram að með hinu kærða byggingarleyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, meðal annars með því að útistigi verði reistur á bakhlið hússins að Brekkustíg 6B. Umgangur um hann muni valda miklu ónæði fyrir nágranna og muni stiginn byrgja útsýni frá gluggum á neðri hæðum hússins að Brekkustíg 8. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum mun umræddur stigi ná upp að gólfi annarrar hæðar hússins, en á milli annarrar og þriðju hæðar verður stigi innanhúss. Á nærliggjandi húsum má finna svipað fyrirkomulag. Útistiginn verður úr steinsteypu en vísað hefur verið til þess að reynt verði að milda ásýnd hans, útfærslan verði létt og gagnsæ, enda verði handrið úr gleri. Þá var komið til móts við kærendur og umfang stigans minnkað eins og hægt var að teknu tilliti til krafna byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þótt ljóst sé að umferð gangandi fólks og innsýn í einhver rými í húsi kærenda muni aukast með fyrirhuguðum breytingum, verður með hliðsjón af framangreindu ekki séð að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kærenda að því marki að ógildingu varði eða knýja hefði þurft á um deiliskipulagsgerð. Eru enda hinar leyfðu framkvæmdir ekki umfram það sem almennt má búast við í þéttbýli.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess.