Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29/2021 Skólavörðustígur

Árið 2021, miðvikudaginn 31. mars, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 29/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 130/2011.

 Fyrir var tekið mál nr. 29/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við byggingu hússins á grundvelli hins kærða byggingarleyfis verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. mars 2021.

Málsástæður og rök: Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deiliskipulag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2, 1.181.3. og 1.181.4. Lóðin Skólavörðu-stígur 36 er staðsett á reit 1.181.4., Lokastígsreit 4. Um reit fjögur segir nánar í greinargerð deiliskipulagsins að þar sé yfirbragð byggðarinnar fremur lágt og þétt. Flest húsanna séu tví- eða þrílyft með risi. Við Lokastíg og Baldursgötu sé röð stakstæðra húsa en við Skólavörðustíg séu þau ýmist stakstæð eða sambyggð. Sameiginlegir sérskilmálar gilda fyrir reiti tvö, þrjú og fjögur. Þar er m.a. tiltekið að heimilt sé að byggja litlar geymslur á baklóð, allt að 6 m2, þar sem aðstæður leyfi og litlar viðbyggingar allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hinn 4. júlí 2018 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Skólavörðustígs 36. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að auka byggingarmagn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Heimilað byggingarmagn á lóðinni eftir breytingu er 281,5 m2. Lóðin er 216 m2 að flatarmáli og er nýtingarhlutfall hennar þar með 1,3.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. október 2020 var samþykkt leyfi fyrir áður framkvæmdu niðurrifi húss að Skólavörðustíg 36. Þá var jafnframt samþykkt byggingarleyfisumsókn um byggingu þriggja hæða staðsteypts húss á lóðinni með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð. Fyrirhugað hús yrði samtals 314,8 m2 og nýtingarhlutfall þess 1,45. Kærandi í máli þessu kærði framangreint leyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kæru dags. 18. nóvember 2020. Máli því lauk með úrskurði í máli nr. 121/2020 frá 22. desember s.á. en í málinu var ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóðinni nr. 36 við Skólavörðustíg felld úr gildi þar sem nýtingarhlutfall hússins var yfir því hámarki sem deiliskipulag svæðisins heimilaði. Lóðarhafi Skólavörðustígs 36 sótti í kjölfarið um byggingarleyfi sem var veitt 2. mars 2021. Er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Krafa kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er studd þeim rökum að umrædd nýbygging sé steinsteypt og nærri því að teljast óafturkræf. Því beri brýna nauðsyn til að stöðva framkvæmdir til að koma í veg fyrir að hagsmunir hans verði fyrir borð bornir. Einnig verði að líta til þess að líklegt verði að telja að krafa kæranda um ógildingu muni ná fram að ganga enda blasi við að með leyfinu hafi verið gengið gegn skilmálum gildandi deiliskipulags á svæðinu.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samþykkt byggingaráforma sé í fullu samræmi við ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sem og skilmála deiliskipulags. Ekkert hafi komið fram sem að mati borgaryfirvalda sem ætti að leiða til ógildingar á hinu kærða byggingarleyfi. Meginregla íslensks stjórnsýsluréttar sé að kæra stjórnvaldsákvörðunar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema lagaheimild sé til staðar. Í 5. gr. laga nr. 130/2011 komi fram heimild til stöðvunar framkvæmda en beiting hennar komi eingöngu til í undantekningartilvikum enda íþyngjandi úrræði gagnvart leyfishafa að ræða sem túlka beri þröngt. Þótt að framkvæmdir kunni að hefjast, geti það ekki eitt leitt til stöðvunar framkvæmda að byggingarefni sé steinsteypa og megi vænta þess að málsmeðferð taki stuttan tíma og niðurstaða liggi fyrir í málinu áður en framkvæmdir verði komnar langt á veg.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna stöðvunarkröfunnar en hann hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvaldsfresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórn­valdi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildar­ákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu þriggja hæða staðsteypts húss. Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að umdeild byggingaráform hafa verið samþykkt en  byggingarleyfi, sem veitir heimildir til að hefja framkvæmdi, ekki verið gefið út og munu framkvæmdir ekki hafnar.

Í ljósi framangreinds og fyrirséðs málsmeðferðartíma hjá úrskurðarnefndinni verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni enda munu fyrstu framkvæmdir lúta að grunni umrædds húss en ekki uppsteypu þess. Verður kröfu um stöðvun framkvæmda því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða máls þessa liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.