Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2021 Minna Hof

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 26/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra um að samþykkja deiliskipulag Minna-Hofs fyrir íbúðarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 5. mars 2021 kæra eigendur jarðanna Árgilsstaðir 2, Vallarhjáleiga og Bakkavöllur þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra að samþykkja deiliskipulag Minna-Hofs fyrir íbúðarbyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að sá hluti deiliskipulagsins sem lýtur að öllum lóðum við Lækjarstíg, sem sé á dúasvæði Eystri-Rangár og Stokkjalækjar, verði felldur úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir að Minna-Hofi verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda og telja verður að í henni felist krafa um að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 17. mars 2021.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr 123/2010 samþykkti sveitarstjórn Rangárþings ytra á fundi sínum 10. desember 2020 breytingartillögu á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 sem fólst í því að breyta landnotkun jarðarinnar Minna-Hof úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir íbúðarbyggð, merkt ÍB-30. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. janúar 2021. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga, en í deiliskipulagstillögunni fólst m.a. að skipuleggja 41 lóð fyrir íbúðir. Var tillagan auglýst 2. september 2020 með fresti til að skila inn athugasemdum til 15. október s.á. Tillagan var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefnd 7. desember s.á. og á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2021.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi lögvarinna hagsmuni að gæta sem eigendur aðliggjandi jarða við Eystri-Rangá. Það sé bæði óvarlegt og gróft brot á grenndarrétti að skipuleggja íbúðahúsalóðir á bökkum Eystri-Rangár og út í miðja á að sveitarfélagamörkum og landi kærenda. Ekki verði séð að skipulagið samræmist stefnumörkun Aðalskipulags Rangárþings ytra 2016-2028. Þá gangi skipulagið í berhögg við áherslur aðalskipulags, m.a. um að fyrirhuguð uppbygging miði að því að halda í dreifbýlisyfirbragð í sveitarfélaginu. Umrætt íbúðarhverfi sé algjörlega á skjön við nýtingu aðliggjandi svæða í dag. Vakin sé athygli á að framkvæmdir við vega- og lóðagerð hafi verið hafnar áður en skipulagið hafi fyrst verið lagt fram. Af gögnum málsins sé ljóst að deiliskipulagið hafi ekki verið sett í samræmi við lög. Þar með séu lagaskilyrði stöðvunar skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála uppfyllt.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 17/2020. Sú meginregla gildi að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og samræmist reglan samræmist einnig 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heimildir nefndarinnar til að stöðva framkvæmdir feli í sér undantekningu frá meginreglunni sem skýra beri þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda, eins og úrskurðarnefndin hafi margoft staðfest í úrlausnum sínum.

Af hálfu leyfishafa er kröfum kærenda og sjónarmiðum þeirra alfarið hafnað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Slík ákvörðun hefur ekki verið kærð í máli þessu, enda mun hún ekki liggja fyrir samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir nefndinni. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem gert er ráð fyrir með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu eða frestun réttaráhrifa. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar geta kærendur komið að greindum kröfum að nýju, svo sem áður er rakið.

Úskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.