Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

127/2020 Grýluhraun

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 um að synja umsókn um breytingu á deili­skipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5 þá ákvörðun sveitar­stjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 4. janúar 2021.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. ágúst 2020, til skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs., sem fer með lögbundið hlutverk skipulags- og byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafnings­hrepps, sóttu kærendur um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5. Í bréfinu kom fram að það væri ósk eigenda lóðanna að lóðinni nr. 3 yrði skipt upp og hvor helmingur fyrir sig sameinaður við lóðir nr. 1 og 5 og fylgdi bréfinu jafnframt tillaga að deiliskipulagsuppdrætti. Á fundi skipulagsnefndar 9. september 2020 mæltist nefndin til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að erindinu yrði hafnað á grundvelli skilmála Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 þar sem í skipulaginu væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða innan þegar byggðra sumarhúsasvæða. Taldi nefndin rök kærenda um erfiða legu lóðarinnar nr. 3 til byggingar ekki standast skoðun þar sem kærendur hafi mátt gera sér grein fyrir náttúrulegum aðstæðum á svæðinu við kaup á lóðunum. Sveitarstjórn synjaði erindinu á fundi sínum 16. s.m. með vísan til þess að í skilmálum aðalskipulags væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða.

Með bréfi, dags. 5. október 2020, gerðu kærendur athugasemdir við afgreiðslu málsins og mótmæltu því að fyrirhuguð breyting félli ekki að skilmálum aðalskipulags sveitar­félagsins. Óskuðu þeir eftir því að skipulagsnefndin tæki erindið aftur til umræðu og legði til við sveitarstjórn að samþykkja breytingartillöguna. Skipulagsnefndin tók umsóknina aftur fyrir á fundi sínum 28. s.m. þar sem fyrri bókun nefndarinnar var ítrekuð. Á fundi sveitar­stjórnar 4. nóvember s.á. var umsóknin að sama skapi tekin fyrir að nýju og fyrri bókun um synjun ítrekuð. Jafnframt kom fram í bókun að þótt helsta markmið fyrrnefnds ákvæðis aðalskipulags sé að heimila ekki fjölgun lóða innan þegar skipulagðra frístundasvæða þá eigi ákvæðið sannarlega einnig við vegna sameiningar á lóðum. Slíkt sé fordæmisgefandi gagnvart sambærilegum beiðnum og þurfi því að huga vel að því að slíkar heimildir séu rökstuddar. Séu veittar heimildir fyrir sameiningu lóða óháð rökstuðningi geri það sveitarstjórn erfitt fyrir gagnvart beiðnum þar sem eingöngu sé ætlunin að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða að auka byggingarheimildir innan lóða með tilliti til nýtingarhlutfalls.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að sveitarstjórn hafi ekki verið stætt á að synja umsókn kærenda með vísan til ákvæða Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli í deiliskipulagi taka ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall o.fl. Þá segi í 1. mgr. 48. gr. sömu laga að sveitarstjórn veiti samþykki fyrir skiptingu á jörðum, löndum eða breytingu landamerkja og lóðamarka. Þannig séu ákvarðanir um lóðir og lóðamörk annað hvort teknar með deiliskipulagsgerð skv. 37. gr. eða með samþykki sveitarstjórnar samkvæmt 48. gr. laganna. Því sé ótækt að ákvörðun um mörk lóða nr. 1, 3 og 5 við Grýluhraun sé tekin á grundvelli stefnu í aðalskipulagi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga skuli með aðalskipulagi sett fram stefna sveitar­stjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 segi í kafla um stefnumörkun: „Ekki er heimilt til [sic] að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sbr. einnig 30. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ Núgildandi reglu 48. gr. skipulagslaga hafi áður verið að finna í 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en sú regla feli í sér að sveitarstjórn geti veitt þeim sem þess óski samþykki fyrir skiptingu á lóð eða breytingu á landamerkjum og lóðamörkum. Ekki sé um fastmótaða reglu að ræða heldur ráðist veiting samþykkis sveitarstjórnar skv. 48. gr. af aðstæðum hverju sinni. Með hinni kærðu ákvörðun hafi sveitarstjórn tekið úr sambandi hina óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Sú regla feli það í sér að þegar stjórnvöldum séu veittar matskenndar valdheimildir, t.d. til að taka þá ákvörðun sem eigi best við í hverju einstöku máli, skuli stjórnvaldið ávallt framkvæma einstaklingsbundið mat. Það sé óumdeilt að meginreglan um skyldubundið mat eigi við á sviði skipulags- og byggingarmála. Í stað þess að framkvæma einstaklingsbundið mat, byggt á þeim sjónarmiðum sem kærendur hafi teflt fram, hafi sveitarstjórn einfaldlega vísað til stefnu aðalskipulags og að sú stefna geri ekki ráð fyrir því að heimilt sé að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Slík röksemdarfærsla geti ekki staðist þar sem hún feli í sér að enginn geti fengið samþykkta umsókn um skiptingu lóða á grundvelli 48. gr. skipulagslaga, hverjar svo sem ástæður séu, enda sé „ekki gert ráð fyrir því í aðalskipulagi.“

Rökin að baki fyrrnefndri stefnu aðalskipulags, um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sé samkvæmt aðalskipulaginu sjálfu að „hindra uppskipti á lóðum (fjölgun sumarhúsa) í þegar byggðum sumarhúsahverfum.“ Með því sé komið í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif í byggðum hverfum. Að mati kærenda sé nokkuð ljóst að ákvæðið hafi einn tilgang, þ.e. að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa og þar með þéttingu byggðar með tilheyrandi álagi á innviði og umhverfisraski. Sé enda sérstaklega vikið að því að með „uppskipti á lóðum“ sé átt við fjölgun sumarhúsa. Sú röksemdafærsla sveitarstjórnar að umrætt ákvæði eigi „sannarlega einnig við vegna sameiningar á lóðum“ standist engan veginn. Raunar sé rökstuðningur sveitarstjórnar með þessu orðinn verulega þverstæður. Túlkun hennar breyti ekki augljósum tilgangi stefnunnar, þ.e. að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa, en umsókn kærenda miði ekki að því að fjölga sumarhúsum. Þvert á móti sé ætlunin að fækka sumarhúsum á lóðunum þremur. Á lóðum nr. 1 og 3 við Grýluhraun sé verulega breytilegt landslag, þ.e. hæðir og lægðir með djúpum gjótum sem liggi í ýmsar áttir. Það svæði sem heppilegast sé til byggingar og valdi minnstu umhverfisraski sé þannig á milli lóða nr. 1 og 3, en þar sé engin byggingarreitur skil­greindur. Sé þannig ætlun kærenda að lóð nr. 1 öðlist hentugri byggingarreit fyrir sumarhús. Þar sem ákvörðun sveitarstjórnar byggist á stefnumarkandi ákvæði aðalskipulags sem eigi ekki við um umsókn kæranda byggi ákvörðunin á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Sveitarstjórn hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að rannsaka ekki hvort umsókn kærenda geti leitt til fjölgunar sumarhúsa, hagsmunaárekstra eða neikvæðra umhverfisáhrifa. Enn fremur sé vikið að því í ákvörðuninni að samþykki sveitar­stjórnar verði fordæmisgefandi „gagnvart sambærilegum beiðnum og þarf því að huga vel að því að slíkar heimildir séu vel rökstuddar.“ Það sé ótækt að sveitarstjórn geti hafnað umsókn með verulega einfaldri tilvísun í stefnumarkandi ákvæði aðalskipulags og tilvísun til þess að önnur niðurstaða þurfi að vera vel rökstudd. Það komi ekki í hlut neins annars heldur en sveitarstjórnar að útbúa þann rökstuðning, enda veiti engin annar heimild á grundvelli 48. gr. skipulagslaga en einmitt sveitarstjórn. Þá sé einnig í ákvörðuninni vísað til þess að samþykki umsóknar kærenda myndi leiða til þess að sveitarstjórn ætti erfitt um vik vegna beiðna sem væru til þess ætlaðar að losna undan sameiginlegum kostnaði eða auka byggingarheimildir. Ekki verði séð hvernig það eigi við um umsókn kærenda. Sveitarfélagið hafi sjálft vísað til þess að það hafi áður samþykkt umsóknir um sameiningu sumarhúsalóða, sbr. málsrök þess í máli nr. 57/2012 hjá úrskurðarnefndinni: „Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sé ákvæði sem kveði á um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Ekki sé tekið sérstaklega á því hvort heimilt sé að sameina sumarhúsa­lóðir, en undanfarin ár hafi verið nokkuð um að óskað hafi verið eftir sameiningu sumarhúsalóða. Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en í öðrum ekki og hafi þær ákvarðanir verið byggðar á mismunandi ástæðum og stundum á niðurstöðu grenndar­kynningar.“ Það liggi því fyrir að sveitarstjórn hafi áður veitt samþykki fyrir sameiningu sumarhúsalóða. Væntanlega hafi það verið byggt á einstaklingsbundnu mati hverju sinni, í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins. Ákvörðun sveitarstjórnar um að synja umsókn kærenda hafi verið tekin 16. september 2020 en sú ákvörðun hafi ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Beri því að vísa kærunni frá enda sé ekki hægt að búa til nýjan kærufrest eingöngu með því að gera athugasemd við hina kæranlegu ákvörðun svo sem kærendur hafi gert með bréfi sínu frá 5. október 2020. Erindi kærenda hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 4. nóvember 2020 þar sem vísað hafi verið til fyrri bókunar. Því hafi ekki verið um nýja kæranlega ákvörðun að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. gr. og 38. gr. laganna sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. gr., 40. gr., 41. gr. og 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. gr. og 43. gr. þeirra laga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2012.

Með gildandi deiliskipulagi svæðisins hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um legu lóða. Ákvörðun um að breyta því skipulagi sé háð samþykki sveitarfélagsins og skuli vera í takt við skilmála Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Umsókn kærenda hafi ekki verið í takt við stefnumörkum aðalskipulags varðandi uppskiptingu lóða, en við upp­skiptingu lóða og samþykki deiliskipulagsbreytinga þurfi sveitarfélagið að gæta að fordæmi og samræmi. Við kaup kærenda á lóðinni hafi þeim mátt vera ljóst hver lóðarskipan væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Hagræðing lóðarhafa vegna eignarhalds á lóðum séu ekki rök sem leiði til þess að sveitarstjórn beri skylda til að verða við beiðni um deiliskipulags­breytingu. Yrði orðið við þeirri beiðni myndi skapast fordæmi fyrir viðlíka mál og fyrir­spurnir. Í slíkum tilvikum felist iðulega markmið um að losna undan sameiginlegum kostnaði innan frístundahúsasvæða með sameiningu lóða og/eða markmið um að auka byggingarmagn innan lóða, þar sem almennt nýtingarhlutfall frístundalóða miðist við nýtingarhlutfall 0,03 nema annað hámark sé tiltekið í deiliskipulagi. Sameiningar á lóðum hafi hlotið afgreiðslu innan embættis umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. en þær byggi að öllu jöfnu á því að hið sameinaða svæði sé óbyggilegt með einhverjum hætti og að ekki hafi verið tekið tillit til þess við deiliskipulagsgerð svæðisins. Það eigi ekki við í tilfelli Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda er frávísunarkröfu sveitarfélagsins mót­mælt. Það hafi sjálft upplýst um kæruheimild í bréfi sínu 17. nóvember 2020 vegna ákvörðunar sinnar frá 4. s.m. Af því verði ráðið að sveitarfélagið hafi litið svo á að um nýja stjórnvaldsákvörðun væri að ræða. Kærendur hafi haft réttmætar væntingar til þess að það sem fram kæmi í erindi stjórnvaldsins um kæruheimild væri rétt. Verulega ómálefnalegt sé af hálfu sveitarfélagsins að gefa í skyn að kærendur hafi búið til nýjan kærufrest með því að gera athugasemdir við fyrri ákvörðun. Ákvörðun sveitarfélagsins frá 4. nóvember 2020 hafi falið í sér ákvörðun um rétt eða skyldu kærenda, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú ákvörðun sé kæranleg, sbr. 1. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í öllu falli verði að líta svo á að athugasemdir kærenda frá 5. október 2020 hafi falið í sér beiðni um endurupptöku málsins. Jafnvel þó svo fallist verði á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti sé vísað til þess að það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Ítrekað sé að í máli nr. 57/2012 hjá úrskurðarnefndinni hafi komið fram sú afstaða sveitar­félagsins að í sumum tilvikum hafi verið heimilað að skipta upp sumarhúsalóðum. Því sé gerð athugasemd við þá afstöðu sveitarfélagsins að gildandi Aðalskipulag Grímsnes- og Grafnings­hrepps 2008-2020 og deiliskipulag svæðisins sé bindandi í þessu máli. Felist í þessu augljóst brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé því mótmælt að sameining lóða samræmist illa lóðamynstri svæðisins. Fyrir liggi að lóðin Dvergahraun nr. 3, næsta lóð við Grýluhraun nr. 1-5, sé 12.000 m2 að stærð. Verði orðið við beiðni kærenda verði lóðirnar Grýluhraun 1 og 5 alls 12.750 m2 að stærð, eða því sem næst sömu stærðar og lóðin Dvergahraun 3. Því til viðbótar sé bent á að önnur lóð innan sama svæðis sé 12.300 m2 að stærð. Þá sé röksemda­færsla sveitarfélagsin um hugsanlegt fordæmi með öllu ótæk. Fyrir liggi að sveitarstjórn hafi áður veitt sambærilega heimild og því sé þegar til staðar fordæmi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 er hin kærða ákvörðun í máli þessu, en í henni fólst að synja umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5. Var ákvörðunin að efni til sú sama og tekin var á fundi sveitarstjórnar 16. september s.á. Í ljósi þess að erindi kæranda frá 5. október s.á. var ekki sett fram sem beiðni um endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sveitarstjórn afgreiddi erindið ekki sem beiðni um endurupptöku og þar sem sveitarstjórn upplýsti um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, verður að líta svo á að um nýja stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga hafi verið að ræða. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni innan kærufrests, eða hinn 2 desember s.á., og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga er í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og annast þær og bera ábyrgð á gerð og breytingu deili­skipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna er hægt að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Breyting á deiliskipulagi skal vera í samræmi við gildandi aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við meðferð slíkrar umsóknar ber einnig að fylgja mark­­miðum laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið ákvæðisins. Við töku ákvarðana um skipulags­mál verður einnig að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 eru lóðirnar Grýluhraun 1, 3 og 5 á svæði frístundabyggðar. Í kafla aðalskipulags um stefnumörkun svæða frístundabyggðar segir m.a. að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Í undirkafla um umhverfisáhrif frístundabyggðar segir að sett sé „nýtt ákvæði sem miðar að því að hindra uppskipti á lóðum (fjölgun sumarhúsa) í þegar byggðum sumarhúsahverfum.“ Þá segir að með því sé komið í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif í byggðum hverfum.

Hin kærða ákvörðun var rökstudd m.a. með vísan til þess að í gildandi aðalskipulagi væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða innan þegar byggðra sumarhúsasvæða. Verður að túlka þá stefnu gildandi aðalskipulags með hliðsjón af markmiði þess. Í aðalskipulaginu kemur skýrt fram að markmið nefndrar stefnu er að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa og að með því sé verið að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif. Ljóst er að umsókn kærenda fól ekki í sér fjölgun sumarhúsa heldur fækkun lóða úr þremur í tvær. Þá liggur ekki fyrir að umsóknin hafi falið í sér hugsanlega hagsmunaárekstra eða neikvæð umhverfisáhrif.

Umdeild ákvörðun sveitarstjórnar var jafnframt studd þeim rökum að með því að fallast á umsókn kærenda væri það fordæmisgefandi gagnvart sambærilegum beiðnum og þyrfi því að huga vel að því að slíkar heimildir væru rökstuddar. Einnig var bent á að væru veittar heimildir fyrir sameiningum lóða óháð rökstuðningi gerði það sveitarstjórn erfitt fyrir gagnvart beiðnum sem eingöngu væri ætlað að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða til að auka byggingarheimildir innan lóða byggðu þær á nýtingarhlutfalli. Af rökstuðningnum að dæma verður ráðið að sveitarfélagið telji umsókn kærenda, og mögulegt fordæmisgildi með samþykki hennar, hafi að meginstefnu til snúist um að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða auka byggingarheimildir innan lóðanna. Hins vegar verður ráðið af upphaflegu erindi kærenda að ástæða umsóknar þeirra hafi fyrst og fremst snúið að því að nýta heppilegt byggingarsvæði á milli lóða nr. 1 og 3 og að það hefði í för með sér minna umhverfisrask. Yrði fallist á umsókn kærenda er því vandséð hvernig það væri fordæmis­gefandi fyrir beiðnir sem lytu einvörðungu að því að losna undan sameiginlegum kostnaði eða auka byggingarheimildir lóða. Þá er hvorki að sjá í hinni kærðu ákvörðun né ákvörðun sveitarstjórnar sama efnis frá 16. september 2020 að tekin hafi verið afstaða til fyrrgreindrar meginástæðu kærenda fyrir umsókn þeirra.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo  áfátt að fallast verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar. Er enda ekki hægt að útiloka að efnisleg niðurstaða sveitarstjórnar hefði orðið önnur ef lagt hefði verið tilhlýðilegt mat á  umsókn kærenda og ástæður hennar, þ.m.t. hvort þeir sæktust eftir frekari heimildum til uppbyggingar eða hvort annað réði þar för, en rökstuðningur sveitarstjórnar bendir til þess að sú rannsókn hafi ekki farið fram.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.